KVIÐUR HÓMERS
SVEINBJÖRN EGILSSON
ÞÝDDI
II. BINDI
ODYSSEIFSKVIÐA
BÓKAÚTGÁFA MENNINGARSJÓÐS
REYKJAVÍK
ODYSSEIFSKVIÐA
KRISTINN ÁRMANNSSON
og
JÓN GÍSLASON
BJUGGU TIL PRENTUNAR
BÓKAÚTGÁFA MENNINGARSJÓÐS
REYKJAVÍK
ALÞÝÐUPRENTSMIÐJAN H.F. 1948
ÆVI SVEINBJARNAR EGILSSONAR.[* Æviágrip þetta (bls. IX-XI að greinarsk.), sem prentað er aftan við
ævisögu Sveinbjarnar eftir Jón Árnason, er orðrétt eftir eiginhandriti Sveinbjarnar
sjálfs. Réttritun Sveinbjarnar á æviágripi þessu hefur verið haldið
óbreyttri að mestu.]
Hann fæddist 6. marz 1791 (annan fimmtudag í Góu) í Innri-Njarðvík,
var hjá foreldrum sínum, Egli Sveinbjarnarsyni og Guðrúnu
Oddsdóttur, þar til hann var 10 vetra; var hann þá búinn
að læra stóra stílinn í Balles lærdómsbók og farinn dálítið að skrifa.
Fór 1801 til lögmanns M. Stephensens að Leirá. Grímur Pálsson,
síðar prestur á Helgafelli, var látinn kenna honum Dónat, en Hákon
Jónsson, síðar prestur og prófastur á Eyri við Skutulsfjörð, kenndi
honum úr því, nema 1 vetur, sem hann var á Reynivöllum hjá séra
Þorvaldi Böðvarssyni, og 2 síðustu veturna var hann í kennslu
séra Árna Helgasonar, þá prests til Vatnsfjarðar, síðar prests á
Reynivöllum, Reykjavík, Görðum á Álftanesi; var dimitteraður af
honum 1810. Skólabræður hans í heimaskóla voru þeir secr. Ó. M.
Stephensen í Viðey og Ó. S. Stephensen, bæjar- og héraðsfógeti í
Eplatóttum á Jótlandi. Sigldi til Khafnar 1814 (frá 10. sept. - 12.
október til Gautaborgar í Svíaríki, hvar hann var til 20. okt., fór
landveg til Helsingjaborgar, og kom til Hafnar 23. okt.). Depóneraði
um nýár „með Character „meget godt", tók philologicum um vorið
1815, og philosophicum um haustið sama ár með Character Laudabilis
prae ceteris og innkalli. Stúderaði Theologi frá 1815 um haustið
til nýárs 1819, þá hann tók attestats með Character Laudabilis. Þann
27. marz 1819 var honum veitt Adjunctsembætti í Bessastaðaskóla
með 400 rdl. launum og frí húsi. Meðan hann var í Kaupmannahöfn
starfaði hann með fleirum að útgáfu Sturlungu og afskrifaði
fyrir sjálfan sig veturinn 1819 Ólafs sögu Tryggvasonar, sem síðar
var prentuð af enu konunglega norræna fornfræðafélagi.
Hann sigldi aftur til Íslands vorið 1819, giftist 1822 jómfrú Helgu
Benediktsdóttur Gröndal. Á Bessastöðum fæddust honum þessi börn:
1. Þuríður, fædd 2. nóv. 1823; gift 1844 Studiosus Eiríki Kuld í
Flatey.
2. Benedikt, fæddur 2. sept. 1825, dó 24. s. mán.
3. Benedikt Gröndal, fæddur 6. okt. 1826.
4. Egill, fæddur 8. júlí 1829.
5. Guðrún, fædd 19. júní 1831.
6. Kristín, fædd 29. maí 1833.
18. nóv. 1834 fékk hann í viðbót 100 rdl. Keypti Eyvindarstaði
á Álftanesi, byggði þá upp og flutti þangað 1835, og fékk frá
sept. það ár 50 rdl. í húsaleigu. Á Eyvindarstöðum fæddust honum
þessi börn:
7. Sigríður, fædd 1. des. 1835.
8. Valborg Elísabet, fædd 28. okt. 1838.
9. Þorsteinn, fæddur 7. jan. 1842.
10. Guðlaug Ragnhildur, fædd 22. okt. 1844.
Á þessum árum starfaði hann, auk kennslunnar, að útleggingu
á Fornmannasögum 1.-11. bindis, útlagði Snorraeddu, og safnaði
orðum úr fornvísum í eitt Glossarium. Hann var alltaf stöðugur
meðlimur íslenzku deildar Bókmenntafélagsins, en gerður að heiðursfélaga
1844. 17. nóv. 1843 hafði hann verið gerður að Doctor
Theol. af því evangeliska Faculteti í Breslá, og fékk Diplóm um
vorið 1844. Hann var félagi hins íslenzka Biblíufélags og féhirðir
þess frá 1826, útlagði á íslenzku 2. Mósisbók, Esajas, Ezekiel, Daniel
og alla minni Spámennina. Um vorið 1845 bauð stiftamtmaður
Hoppe honum að sigla til Khafnar að kynna sér skólastjórn. Hann
tók sér far með Spec. Johansen, Skonnert Helena, og sigldi frá
Reykjavík þ. 10. ág. 1845, kom til Khafnar 22. ág., fór til Jótlands
það haust og fann yfirauditör, héraðs- og bæjarfógeta Ó. Stephensen
í Ebeltoft, var frá 23. sept. í litla heil. anda st. 157,3. Konungur gerði
hann að rektor (skólameistara) við Reykjavíkurskóla þ. 27. apríl
1846 með 1200 rdl. og 150 rdl. húsaleigu; hann lá í mislingum
frá 19. apríl - 14. maí s. á. Sté á skip 29. maí (affangadag hvítasunnu),
[** Gylti Jóhannes], skipari Kristensen; kom til Íslands 23. júní
(daginn f. Jónsmessu), kom heim um nóttina, lá þá kona hans og
allt fólk í mislingum. Hann flutti til Reykjavíkur í sept. 1846, en
kona hans kom 31. maí 1847 til Reykjavíkur. Þann 17. jan. 1850
gerðu skólapiltar uppreisn móti rektor og kennurum og allri skólastjórn.
Sigldi hann þá með póstskipi (form. Aanensen) 13. marzm.,
kom til Færeyja þ. 21., til Randarsunds þ. 30., var í Kristjánssandi
þ. 31. marz; lá veðurfastur 14 daga í Randarsundi, kom þ. 18. apríl
til Helsingjaeyrar, og þ. 19. með gufuskipi Opheliu til Khafnar.
Af skólastjórnaráðherranum var hann settur í öll sín réttindi óskert;
kom þ. 31. maí til Vestmannaeyja, var þar í 5 daga og kom 6. júní
til Reykjavíkur. Stýrði skólanum árið 1850-51, sókti um lausn 1.
sept. 1850, fékk lausn í náð með 900 rdl. eftirlaunum frá 1. júlí
1851; sókti þ. 12. ág. það ár að mega halda fullum rektorslaunum
einnig fyrir júlí og ágúst s. á. auk eftirlauna frá 1. júlí s. á.
Sveinbjörn Egilsson andaðist 17. ágúst 1852 eftir hálfs mánaðar
legu. Þó að hann yrði ekki nema 61 árs gamall, hefur hann afkastað
svo mörgu og miklu, að furðu sætir. Afrek hans eru einkum
á sviði norrænna og grískra málvísinda; eru þau svo stórfelld,
að hann hefði getið sér ævarandi frægðar, þó að hann hefði ekki
starfað nema á öðru því sviði. En auk þess liggja eftir hann fjölmargar
þýðingar á latínu úr íslenzkum bókmenntum, biblíuþýðingar
úr herbresku og grísku, sagnfræðirit (óprentuð) og síðast en ekki
sízt frumorkt ljóð. Þá má ekki gleyma þeim veigamikla þætti, sem
Sveinbjörn hefur óefað átt í því að fegra og endurvekja íslenzka
tungu, bæði með ritum sínum og ómetanlegum áhrifum á málsmekk
nemenda sinna. Hér verður ekki hægt að rekja ritstörf
hans; skal vísað til ævisögu hans eftir Jón Árnason framan við
ljóðmæli hans (Reykjavík 1856). Af þýðingum hans úr grísku eru
þýðingar hans á Ilíonskviðu og Odysseifskviðu langfrægastar, enda
þær einar prentaðar; verður þýðing hans á kviðunum rædd nánar
síðar, í innganginum. Aðrar þýðingar hans úr grísku, sem eru
fjölmargar, liggja óprentaðar í Landsbókasafni. Þrátt fyrir mikil afköst er allur frágangur á handritum Sveinbjarnar, þeim, er honum
entist aldur til að ganga frá að fullu, hinn prýðilegasti og lýsir
smekkvísi hans og vandvirkni; rithöndin er skýr, falleg og læsileg.
Jón Árnason lýsir Sveinbirni þannig í áðurnefndri ævisögu:
„Dr. Sveinbjörn Egilsson var með minni meðalmönnum á hæð,
grannvaxinn og holdskarpur alla ævi. Hann var hærður vel og
jarpur á hár, kringluleitur í andliti, ennibrattur og eygður vel, bláeygur,
snareygur, og hýrt augnaráðið. Í andliti skipti hann vel
litum, og var rjóður í kinnum. Nefið var í meira lagi og beygðist
lítið niður framan. Munnfríður var hann, en þó nokkuð tannber,
og hakan lítil. Beinvaxinn var hann og allur samsvarandi, hvatur í
spori, og vaskur á göngu, og snyrtimaður í öllu látbragði og limaburði.
Ekki var hann hraustbyggður, en þó var honum ekki kvillasamt,
og eltist svo vel, að maður, sem ekki vissi aldur hans, mundi
jafnvel síðustu ár ævi hans vart hafa ætlað hann eldri en fimmtugan.
Gáfna- og lundarlagi Drs. Sveinbjarnar var svo varið, eftir því,
sem kunnugur og sannorður maður hefur sagt mér, sem þekkti
hann á yngri árum, og þá er nú mest mark að, að næmi og minni
voru í góðu meðallagi, en skarpleiki og greind í betra lagi, og
það, sem heitir smekkur, í bezta lagi; því að hann fann svo vel
og fljótt það tilhlýðilega. Með öðrum orðum: hann hafði ekki neinar
rífandi, heldur drjúgar gáfur. Frá barndómi hafði hann innilega
löngun til bóknáms, og þegar fóstri hans, M. Stephensen, kallaði
hann til einhverra starfa í sínum stóra búskap, svo hljóp hann
upp frá bókinni, og gerði það, sem honum var fyrir lagt. En þegar
það var gert, svo var hann óðar kominn að bókinni aftur. Maðurinn
hafði þær farsælu gáfur, sem iðni hans og alúð gerðu þær
beztu. Sama lyst til lærdóms fylgdi Sveinbirni til grafarinnar, og
svo var hann óþreytandi í störfum sínum til dauðadags, að fádæmi
eru. Eins og gáfnalagið var, svo var líka lundernið; í því var engin
frekja eða ákafi, allar geðshræringar voru hægar og rólegar, engin,
sem drottnaði yfir hinum öðrum; því var hann ætíð jafnlyndur,
ætíð hinn sami. Menn vita þess varla dæmi, að hann hafi nokkurn
tíma reiðzt á ævi sinni; en angurvær gat hann orðið, og var
það þá af þakklætistilfinningu eða ræktarsemi. Við kunningja sína
var hann elskulegur og alúðlegur, blíður og fyndinn og nettur í
orðum, og með þessum nettleika í orðum gat hann gert margan
orðlausan fyrirhafnarlaust. Hann var sá reglusamasti maður í öllu;
hann var mikið kirkjurækinn, eins og hann var hinn ræktarsamasti
við foreldra, tengdaforeldra og fóstra sinn, M. Stephensen; enda
elskaði fóstrinn fósturson sinn eins og sitt eigið barn. Í stuttu
máli var bæði gáfum hans og lund svo varið, að hann var betur
lagaður til að læra og ígrunda, rita og fræða en að taka framkvæmdarsama
hlutdeild í heimsins vastri; enda þekkti hann svo
sjálfan sig, að hann vildi ekkert hafa með þá svo kölluðu politik að
gera, þegar hann vildi ekki verða þingmaður fyrir Reykjavík, er hann
var þó kosinn til 1844. Lengi mun verða leitun á slíkum manni á
Íslandi“.
INNTAK[* Inntak þetta samdi Sveinbjörn Egilsson, og er það framan við handrit
hans af Odysseifskviðu, Lbs. 429, 4to.]
FYRSTI ÞÁTTUR.
GUÐASTEFNA. SAMTAL AÞENU OG TELEMAKKS.
Bls. ... 1-17
Það er ákveðið á goðastefnu, að Odysseifur skuli komast heim. Aþena
fer til Íþöku, tekur á sig líki Mentesar Taffeyjar kóngs, hvetur Telemakk
og ræður honum að fara til Nestors og Menelásar til að spyrjast fyrir um
föður sinn, og að vísa biðlunum burt. Hann talar í fyrsta sinn einarðlega
til biðlanna.
ANNAR ÞÁTTUR.
ÞING Í ÍÞÖKU. TELEMAKKUS FER UTAN.
Bls. ... 19-32
Telemakkus stefnir þing í Íþöku, kvartar yfir yfirgangi biðlanna, og
vísar þeim burt. Eftir þingið kemur Aþena til Telemakkusar í líki Mentors,
lofar honum skipi og mönnum og býðst til fylgdar við hann. Evrýklea
býr fararnest þeirra. Telemakkus leggur af stað um kvöldið og siglir til
Pýlusborgar.
ÞRIÐJI ÞÁTTUR.
TELEMAKKUS HJÁ NESTORI Í PÝLUSBORG.
Bls. ... 33-48
Telemakkus lendir við Pýlusborg, fær góðar viðtökur hjá Nestor og
spyr hann um föður sinn. Nestor segir frá heimför Grikkja frá Trójuborg,
eggjar hug Telemakks í gegn biðlunum, og ræður honum að fara til
Menelásar. Telemakkus ekur um morguninn til Spörtu með Písistratus
Nestorssyni, og kemur þangað næsta kvöld.
FJÓRÐI ÞÁTTUR.
TELEMAKKUS Í SPÖRTU HJÁ MENELÁSI.
Bls. ... 49-73
Þeir Telemakkus fá góðar viðtökur hjá Menelási. Menelás og Helena
kannast við Telemakk, og segja honum frá nokkurum snilldarbrögðum
Odysseifs í Trójuborg. Næsta dag spyr Telemakkus Menelás um föður sinn;
segir Menelás honum, hvað hann hafði frétt á Farey hjá sæguðinum Próteifi
um heimför Grikkja og dvöl Odysseifs hjá Landgyðjunni Kalypsó. Á meðan
fá biðlarnir njósn af burtför Telemakks; gerir Antínóus honum þá fyrirsátur
í sundinu milli Íþöku og Sámseyjar. Medon segir Penelópu þessa ráðagjörð,
en Aþena hughreystir hana í draumi.
FIMMTI ÞÁTTUR.
FLOTI ODYSSEIFS.
Bls. ... 75-89
Seifur sendir Hermes til Kalypsóar, og býður henni að láta Odysseif
frá sér; og gerir hún það, þó henni sé nauðugt. Odysseifur smíðar sér flota
og leggur í haf. Á átjánda degi lætur Posídon á koma það ofviðri, að flotann
leysir í sundur. Levkoþea ljær Odysseifi sundblæju, svo hann kemst á þriðja
degi upp í vatnsós nokkurn í Skerju, eylandi Feaka. Örmagna af þreytu
fellur hann í fastasvefn.
SJÖTTI ÞÁTTUR.
ODYSSEIFUR KEMUR TIL FEAKA.
Bls. ... 91-100
Násíka, dóttir Alkínóuss, Feaka kóngs, ekur til strandar með nokkurum
þjónustumeyjum, til að þvo klæði í ánni. Meðan þvotturinn er að þorna,
leika þær knattleik; og eitt sinn stökkur knötturinn út á ána, æpa þá
þernurnar upp, og við það óp vaknar Odysseifur, gengur til kóngsdóttur og
biður hana ásjá. Násíka gefur honum klæði og mat, og ræður honum að
ganga til konungshallar, ekur síðan heim, en Odysseifur fylgist með þernunum
til borgarinnar.
SJÖUNDI ÞÁTTUR.
ODYSSEIFUR KEMUR TIL ALKÍNÓUSS KÓNGS.
Bls. ... 101—110
Odysseifur kemur í höll Alkínóuss kóngs, biður Aretu drottningu ásjá.
Alkínóus tekur honum vel og heitir honum flutningi. Odysseifur segir frá
hrakningi sínum frá ógýgju til Skerju.
ÁTTUNDI ÞÁTTUR.
VIÐTAKA ODYSSEIFS HJÁ FEÖKUM.
Bls. ... 111—128
Odysseifi er búið skip eftir fyrirmælum Alkínóuss. Haldnir kappleikir;
Odysseifur vinnur í töflukasti. Demódókus kveður um ástir Aresar og Afrodítu.
Færðar gjafir Odysseifi; gengið til borða; Demódókus kveður um tréhestinn
í Trójuborg; fær Odysseifi það svo mikils, að hann grætur; biður Alkínóus
hann þá að segja frá ferðum sínum.
NÍUNDI ÞÁTTUR.
ALKÍNÓUSSÖGUR: KÝKLÓPAÞÁTTUR.
Bls. ... 129—146
Odysseifur segir, hverr hann sé; um ferð sína frá Trójuborg, og bardaga
við Kíkóna. Hann kemur til Lótófaga og þaðan til Kýklópa. Um Polýfemus,
sem etur sex förunauta hans. Odysseifur blindar risann, og kemst með brögðum
úr helli hans.
TÍUNDI ÞÁTTUR.
FRÁ EÓLUS, LESTRÝGÓNUM OG KIRKU.
Bls. ... 147—163
Odysseifur kemur til Eóluseyjar; gefur Eólus honum hagstæðan vestanvind,
en fær honum alla aðra vinda innibyrgða í einum belg; kemst hann
svo í landsýn við Íþöku, en þá leysa menn hans frá vindabelgnum, svo hann
drífur aftur til Eóluseyjar; rekur Eólus hann þá burt, og hrekst hann til
Lestrýgóna; þeir eyða 11 skip hans, en hann kemst sjálfur einskipa til Eyjar.
Þar brá Kirka hálfri skipsögn hans í svínalíki; sjálfur fær hann töfragras
hjá Hermesi, yfirstígur fjölkynngi Kirku, nær hylli hennar, og kemur
mönnum sínum aftur úr ánauðum. Eftir eins árs dvöl beiðist hann burtfarar,
en Kirka sendir hann til Myrkheima, að leita fréttar hjá Tíresías.
Dauði Elpenors.
ELLEFTI ÞÁTTUR.
DRAUGABLÓTSÞÁTTUR.
Bls. ... 165-183
Odysseifur kemur til Kimmería. Hjá niðurgöngunni til Myrkheima
eflir hann draugablót, koma þá til hans vofur dauðra manna: fyrst Elpenor,
þá Tíresías, er segir honum fyrir forlög sín; þá móðir hans, Antíklea; af
fornmanna konum, Týró, Antíópa, Alkmena, Epíkasta, Klórís, Leda,
Ifímedea, Prókrís, Fedra, Aríadna, Mæra, Klýmena, Erífýla; af köppum
Grikkja, Agamemnon, Akkilles, Patróklus, Antílokkus, Ajant; og enn sá
hann álengdar Mínós, Óríon, Titýus, Tantalus, Sisýfus og Herakles.
TÓLFTI ÞÁTTUR.
FRÁ SÍRENUM, SKYLLU, KARYBDÍS OG
NAUTUM HELÍUSAR.
Bls. ... 185-198
Odysseifur kemur aftur til Kirku. Greftrun Elpenors. Kirka segir Odysseifi
þær hættur, er varast þurfi á leiðinni. Odysseifur fer frá Kirku, siglir fram
hjá Sírenum, og fram hjá Skyllu og Karybdís, lendir við Þrínaksey, þar
sem menn hans slátra nautum Helíusar. Seifur brýtur skip hans í þrumuveðri
úti á hafi, farast þar menn allir, nema Odysseifur, hann kemst á
skips flaki að Ógýgju, bar sem Kalýpsó bjó.
ÞRETTÁNDI ÞÁTTUR.
ODYSSEIFUR SIGLIR FRÁ FEÖKUM OG KEMUR
TIL ÍÞÖKU.
Bls. ... 199-212
Feakar flytja Odysseif sofanda á land í Íþöku; en á heimleiðinni gerir
Posídon skip þeirra að steini. Odysseifur vaknar og þekkir ekki landið, fyrr
en Aþena birtist honum og segir honum deili á því. Hún felur fjárhluti
hans í einum helli, ráðgast við hann um biðladrápið, og bregður á hann
förumannslíki.
FJÓRTÁNDI ÞÁTTUR.
ODYSSEIFUR TALAR VIÐ EVMEUS.
Bls. ... 215-230
Odysseifur kemur til Evmeuss svínahirðis. Evmeus tekur honum vel.
Þeir ræðast við um Odysseif, og trúir Evmeus ei öðru, en að hann sé dauður,
en hlýðir með athygli á frásögu þá, er Odysseifur skrökvar um sjálfan sig.
Um nóttina gerir á hvassviðri, verður förumanni kalt, og segir þá gamansögu
um Odysseif í Trójumannastríði, og fær með því hjá Evmeus kufl til
að hafa yfir sér.
FIMMTÁNDI ÞÁTTUR.
TELEMAKKUS HEIMSÆKIR EVMEUS.
Bls. ... 231-247
Telemakkus kveður Menelás, og þiggur af honum og Helenu góðar
gjafir, fer svo til Pýlushafnar, tekur þar móti spámanninum Þeóklýmenus,
siglir svo heimleiðis í svig við fyrisát biðlanna. Evmeus segir Odysseifi ævisögu
sína. Telemakkus lendir við Íþöku, sendir skipið til borgarinnar, en fer
sjálfur á land upp til Evmeusar.
SEXTÁNDI ÞÁTTUR.
TELEMAKKUS KANNAST VIÐ FÖÐUR SINN.
Bls. ... 249-262
Telemakkus kemur til Evmeus og sendir hann til Penelópu að segja
henni komu sína. Meðan hann er burtu, gerir Odysseifur uppskátt fyrir
Telemakkus, hverr hann sé, og ræðir við hann um dráp biðlanna. Skipverjar
Telemakkuss og Evmeus segja Penelópu heimkomu sonar hennar.
Brátt þar á eftir kemur skip biðlanna úr fyrisátrinu svobúið; taka þeir þá af
nýju ráð sín saman að fyrikoma Telemakkusi. Penelópa fréttir það, og deilir
á Antínóus. Evmeus kemur aftur til Odysseifs.
SEYTJÁNDI ÞÁTTUR.
TELEMAKKUS KEMUR TIL ÍÞÖKUBORGAR.
Bls. ... 263-281
Telemakkus fer til borgarinnar. Skömmu síðar fer Evmeus og þangað
með Odysseifi; þeir mæta á leiðinni geitahirðinum Melanþíus, er misbýður
Odysseifi. Þeir koma að höllinni. Argus deyr. Odysseifur biður sér beininga;
Antínóus kastar í hann fótskemli. Penelópa gerir boð eftir förumanninum.
Evmeus fer heim.
ÁTJÁNDI ÞÁTTUR.
HNEFALEIKUR ODYSSEIFS OG ÍRUSS.
Bls. ... 283-295
Odysseifur berst við Írus. Penelópa kemur á fund biðlanna, og þiggur
gjafir af þeim. Þernurnar dára Odysseif, Evrýmakkus spottar hann og vill
slá hann. Biðlarnir ganga til hvílu.
NÍTJÁNDI ÞÁTTUR.
FUNDIR ÞEIRRA ODYSSEIFS OG PENELÓPU.
EVRÝKLEA ÞEKKIR ODYSSEIF.
Bls. ... 297-315
Odysseifur og Telemakkus koma vopnunum undan. Samtal við Penelópu.
Evrýklea þekkir Odysseif af öri á fæti hans. Penelópa ræður það af að giftast
þeim, er fái uppdregið boga Odysseifs.
TUTTUGASTI ÞÁTTUR.
AÐDRAGANDI AÐ BIÐLAVÍGUNUM.
Bls. ... 317-329
Odysseifur liggur vakandi um nóttina, þar til er Aþena svæfir hann.
Hann vaknar við harmatölur konu sinnar, og fær heillavænlega fyrirburði.
Næsta dag er tunglkomuhátíð og er þá búizt um í höllinni. Odysseifur reynir
hug Fíletíusar nautahirðis. Biðlarnir ráða Telemakkusi bana, en það ferst
fyrir. Að veizlunni er Odysseifur lostinn með hnútu, og Þeóklýmenus burt
rekinn; feigðaræði kemur yfir biðlana.
TUTTUGASTI OG FYRSTI ÞÁTTUR.
BOGATAK.
Bls. ... 331-344
Penelópa sækir boga Odysseifs, og lætur leggja hann fram fyrir biðlana.
Telemakkus reynir sig við bogann, en Odysseifur bendir honum, svo
hann dregur ei bogann upp. Ýmsir af biðlunum leita við að spenna bogann,
en fá ekki að gjört; lætur Antínóus þá baka bogann við eld, til að mýkja
hann. Á meðan gengur Odysseifur út, og segir þeim Evmeus og Fíletíus að
læsa dyrunum. Fyrir tillögur Penelópu og Telemakks er boginn fenginn
Odysseifi í hendur, dregur hann upp bogann viðstöðulaust, og skýtur örinni
í gegnum öll axaraugun.
TUTTUGASTI OG ANNAR ÞÁTTUR.
BIÐLAVÍG.
Bls. ... 345-360
Odysseifur kastar dularbúningnum, og skýtur Antínóus til dauðs, segir
svo biðlunum, hverr hann sé og hvað hann ætlist fyrir. Bardagi. Allir biðlarnir
falla. Femíus og Medon fá grið. Hinar ótrúu ambáttir eru hengdar.
Odysseifur hreinsar höllina með brennusteini.
TUTTUGASTl OG ÞRIÐJI ÞÁTTUR.
PENELÓPA KENNIR ODYSSEIF.
Bls. ... 361-372
Evrýklea segir drottningu tíðindin. Penelópa fer til fundar við Odysseif,
og er mjög tortryggin. Odysseifur lætur heimafólkið slá dansleik í höllinni,
svo ekki beri á því, sem gerzt hafði; tekur síðan laug og gengur til tals
við Penelópu, og þegar hann lýsir fyrir henni hjónarúmi þeirra, þá kannast
hún við hann, og verða þar fagnafundir. Þau segja hvort öðru raunir sínar,
og þá þau eru gengin í sæng, segir Odysseifur frá öllum sínum hrakningum.
Um morguninn segir Odysseifur Penelópu að læsa sig inni, en fer sjálfur
með Telemakkusi og hjarðmönnunum út á landsbyggð til Laertesar föður síns.
TUTTUGASTI OG FJÓRÐI ÞÁTTUR.
FRIÐUR.
Bls. ... 375-391
Samtal Akkilless og Agamemnons í Myrkheimi; Amfímedon segir Agamemnoni
frá falli biðlanna. Odysseifur finnur Laertes, föður sinn. Evpíþes,
faðir Antínóusar, reisir flokk til að hefna sonar síns, og fer móti Odysseifi,
en fellur fyrir Laertesi. Aþena stöðvar upphlaupið, og kemur á friði.
ODYSSEIFSKVIÐA
[1001.png]
FYRSTI ÞÁTTUR
GUÐASTEFNA.
SAMTAL AÞENU OG TELEMAKKS.
SEG mér, Sönggyðja, frá hinum víðförla manni, er
hraktist mjög víða, eftir það hann hafði lagt í eyði
hina helgu Trójuborg, þeim er sá borgir og þekkti
skaplyndi margra manna. Sá maður þoldi á hafinu margar
hugraunir, þá hann leitaði sjálfum sér lífs, og heimkomu förunautum
sínum; og fékk hann þó ekki að heldur frelsað félaga
sína, hvað feginn sem hann vildi: því þeir tortýndust sökum
illverka sinna, er þeir fávísir átu naut Helíus Hýperíonssonar,
sem þessvegna lét þá missa heimkomudagsins. Seg mér einnig
nokkuð af þessu, gyðja dóttir Seifs.
11 Nú voru allir aðrir, þeir er umflúið höfðu vísan bana,
heimkomnir, sloppnir úr stríðinu og sjávarvolkinu: en honum
einum, sem langaði að komast heim til konu sinnar, hélt hin
hátignarlega landvættur, sú hin ágæta gyðja Kalypsó, í víðum
helli, því hún vildi hafa hann sér til eiginmanns. En sem
tímar liðu fram, og það ár var loksins komið, er guðirnir höfðu
ætlað honum að komast heim aftur til Íþöku, þá var hann
en ekki undan þrautunum genginn, þótt hann kæmist þangað
til vina sinna.
[1002.png: Víg Egistuss.]
19 Allir guðir aumkuðu hann, nema Posídon: hann var
ævareiður hinum goðumlíka Odysseifi, allt þar til er hann komst
til síns föðurlands. En nú var Posídon farinn til hinna fjarlægu
Eþíópa, þeirra er deilast í tvo flokka, og búa yztir manna, sumir
þar sem Hýperíonssonur gengur undir, en aðrir þar sem hann
kemur upp: gekk hann þar að hundraðsblóti griðunga og hrúta,
sat þar nú að veizlu og gladdi sig. Á meðan söfnuðust hinir
aðrir guðir saman í húsum hins Ólympska Seifs; tók faðir
manna og guða fyrstur þeirra til máls, því hann mundi í huga
sínum til hins göfuga Egistusar, er hinn víðfrægi Órestes
Agamemnonsson hafði vegið; og sem hann minntist hans,
talaði hann þau orð til hinna ódauðlegu guða: „Mikil firn eru
það, hversu dauðlegir menn þó ásaka guðina: þeir segja, að
hið illa komi frá oss, en rata þó sjálfir í raunir, fyrir forlög
fram, sökum ódáða sjálfra þeirra. Svo var og nú, að Egistus
kvongaðist, fyrir forlög fram, eiginkonu Atreifssonar, en vo
sjálfan hann, er hann var heim kominn; og vissi hann þó
vísan bana sinn, því vér höfðum sent Hermes til hans, hinn
glöggskyggna Argusbana, og sagt honum fyrir, að hann hvorki
skyldi drepa hann, né eiga konu hans: „því Órestes mun hefna
Atreifssonar, þá hann er orðinn roskinn, og hann tekur til að
lengja eftir föðurleifð sinni“, sagði Hermes, en gat þó ei talið
honum hughvarf, þótt hann vildi honum vel; hefir hann nú
tekið gjöld fyrir það allt í einu“.
[1003.png: Gyðjan Aþena.]
44 Hin glóeyga gyðja Aþena svaraði honum þá: „Þú vor
faðir, Kronusson, æðstur konunga! Víst hefir hann hreppt
maklegan dauða, og svo fari hverr sá, er slíkt gerir. En eg er
annars hugar vegna hins fróðhugaða Odysseifs, þess hins ógæfusama
manns, er nú hefir lengi mátt angur bíða fjarri vinum
sínum, í miðju hafi á umflotinni ey; sú ey er viði vaxin; þar á
gyðja bústaði, dóttir hins fárhugaða Atlants, þess er þekkir
djúp alls sjávarins, og heldur sjálfur uppi þeim hávu máttsúlum,
er sundur halda himni og jörðu. Dóttir hans heldur hinum
auma grátanda manni hjá sér, og heillar hann með mjúkum
og blíðum orðum, svo hann skuli gleyma Íþöku. En Odysseifur,
sem langar til að sjá, þó ekki væri nema reyk upp stíga
af föðurlandi sínu, óskar sér, að hann væri dauður. Og þó
viknar ekki hjarta þitt, þú Ólympski guð! Var þá Odysseifur
þér ekki þakknæmilegur, er hann blótaði hjá skipum Argverja
í enu víða Trójulandi? Hví ertú þá svo reiður honum, Seifur?“
63 Seifur skýbólstraguð svaraði henni og sagði: „Hvílíkt orð
leið af vörum þér, dóttir! Hvernig mætta eg þó gleyma hinum
ágæta Odysseifi, sem bæði er fyrir öðrum mönnum að vitsmunum,
og hefir fremur öðrum fært fórnir hinum ódauðlegu guðum,
er byggja víðan himin? En hinn jarðkringjandi Posídon
er honum síreiður fyrir sakir Kýklópsins, er hann blindaði hinn
goðumlíka Pólýfemus, sem kraftamestur er allra Kýklópa, þann
er landgyðjan Þósa, dóttir Forkunns, ráðanda hins ófrjóva hafs,
átti við Posídoni í víðum helli. Þess vegna lætur Posídon Landaskelfir
Odysseif hrekjast langt frá föðurlandi sínu, án þess þó
að týna lífi hans. Látum oss nú allir, sem hér erum, ráðslaga
um það, hvernig hann fái aftur heim komizt. En Posídon mun
gefa ró reiði sinni, því ekki mun honum einum saman tjá að
þreyta kapp við alla, í þrá við hina ódauðlegu guði“.
80 Hin glóeyga gyðja Aþena svaraði honum því næst: „Þú
vor faðir, Kronusson, æðstur konunga! Með því það er vilji
hinna sælu guða, að hinn fróðhugaði Odysseifur komist aftur
til húss síns, þá skulum vér senda Sendiguðinn Hermes Argusbana
til eyjarinnar Ógýgju, að hann sem fyrst segi hinni fagurlokkuðu
Landgyðju þá óbrigðulu ráðstöfun, að hinum þrautgóða
Odysseifi sé heimförin ætluð. En eg mun fara til Íþöku,
og eggja enn betur son hans, og láta djörfung koma í brjóst
honum, að hann stefni hinum hárprúðu Akkeum til þings, og
vísi burt biðlunum, sem ávallt drepa niður sauðahjarðir hans
og hin vagandi, bjúghyrndu naut. Eg skal og senda hann til
Spörtu og hinnar sendnu Pýlusborgar, að hann spyrjist fyrir
um föður sinn, ef hann kynni einhverstaðar til hans að frétta,
og svo hann fái gott orð hjá mönnum“.
96 Að því mæltu batt hún undir fætur sér fagra, himneska
gullsóla, er báru hana, sem vindur blési, yfir láð og lög. Hún
tók sterkt spjót með hvössum eiroddi, þungt, stórt og sterkt, er
dóttir hins máttuga föður sigrar með herflokkana, ef hún reiðist
þeim. Hún fór brunandi ofan af Ólymps tindum, og nam
staðar í Íþökulandi, við forgarðsþröskuldinn, fyrir framan fordyri
Odysseifs, og hafði í hendi sér eirspjótið: líktist hún þá
gestfélaganum Mentesi, höfðingja Taffeyjarmanna. Hún hitti
þar hina vasklegu biðla, voru þeir að skemmta sér með tafli fyrir
framan dyrnar, og sátu á húðunum af þeim nautum, er þeir
höfðu sjálfir drepið. Þar voru hjá þeim kallarar og röskir þjónustumenn:
blönduðu sumir vín og vatn í skaftkerum, en aðrir
þvoðu borðin með gljúpum njarðarvöttum, settu þau fram og
skömmtuðu mikið af kjöti. — Hinn goðumlíki Telemakkus
sá hana fyrstur allra, því hann sat meðal biðlanna, sorgmæddur
í hjarta, og renndi huganum til síns góða föður, hvort hann
mundi þó koma og stökkva biðlunum af heimili sínu, en halda
sjálfur sæmd sinni og ráða eignum sínum. En sem hann var
um þetta að hugsa, þar sem hann sat meðal biðlanna, leit hann
Aþenu, og gekk þegar fram um fordyrið, því honum þótti
ósæmilegt, að gesturinn stæði lengi við dyrnar. Hann gekk til
hans, greip um hægri hönd hans og tók við eirspjótinu, ávarpaði
hann skjótum orðum og sagði: „Sæll vertú, gestur, þú skalt
vera með oss velkominn; en síðar, þá þú hefir matazt, skaltú
segja erindi þitt“.
[1006.png: Íþaka.]
125 Að því mæltu fór hann á undan, en Pallas Aþena fylgdi
honum eftir. En er þau voru komin inn í hinn háva sal, bar
hann eirspjótið að hinni löngu súlu, og lét það inn í hina velsköfnu
spjótahirzlu, hvar eð stóðu mörg spjót önnur, er hinn
þolgóði Odysseifur átti; en hana leiddi hann til hásætis, breiddi
undir hana fagran dúk, mikla gersemi, og lét hana setjast, en
fótaskör var undir til að standa á. Síðan setti hann fjölfágaðan
legubekk þar hjá handa sér, út frá biðlunum, bæði til þess að
gesturinn fengi ekki matleiða af hávaðanum, ef hann væri
saman við ofstopamennina, og líka til þess að hann gæti spurt
hann um sinn fjarveranda föður. Þá kom herbergismær með
handlaug í fallegri vatnskönnu úr gulli, og hellti á hendur honum
yfir silfurfati, að hann gæti þvegið sér; þá setti hún fram
skafið borð, en hin heiðvirða matselja kom með brauð og
lagði fyrir hann, hún lét og til nógan mat og veitti fúslega
það sem til var; brytinn tók diska með alls konar kjöti og
lagði fyrir, og setti hjá þeim gullskálar, en kallarinn gekk oft
um og skenkti vín fyrir þá.
144 Nú komu hinir vasklegu biðlar inn, og settist hver að
öðrum legubekkina og hástólana. Kallararnir helltu vatni á
hendur þeim, ambáttirnar hlóðu karfirnar af brauði, og sveinarnir
fylltu skaftkerin á barma með drykk. Tóku þeir nú til
þess tilreidda matar, er fram var settur. En er biðlarnir höfðu
satt löngun sína á mat og drykk, þá var þeim um hitt hugað,
sönginn og dansleikinn, því það er veizlunnar prýði. Þá rétti
kallarinn glæsilega hörpu að Femíusi, er söng hjá biðlunum,
þó honum væri það nauðugt; hann sló nú hörpuna, og hóf upp
fagran söng. En Telemakkus laut höfði til hinnar glóeygu
Aþenu, svo hinir skyldu ekki heyra, og mælti til hennar: „Kæri
gestur, muntu nokkuð taka illa upp, það eg segi? Þessir menn
láta sér mest um það hugað, hörpusláttinn og sönginn, og er
það hægðarleikur, þar sem þeir eyða bótalaust annarra eigum,
eigum þess manns, hvers bleiku bein munu nú víst í regni
rotna einhverstaðar á landi, þar sem þau liggja, eða aldan velta
þeim í sjónum. Ef þeir sæi þann mann aftur kominn til Íþöku,
mundu þeir allir óska sér, að vera heldur léttari á fæti, en
auðgari af klæðum og gulli. En nú er hann týndur svo óhamingjusamlega;
og er oss það engin hugfró, þótt einhverr jarðneskra
manna segi, að hann muni koma: því, útséð er um hans
heimkomudag. En þú gjör nú svo vel að segja mér og inna með
sannindum: hverr ertu og hvaðan? hvar áttu heima og foreldrar
þínir? á hvaða skipi ertu kominn? hví varstu fluttur til Íþöku?
hverjir fluttu þig? því eigi hygg eg þig hingað vera kominn
yfir land. Seg mér það og með sanni, að eg verða vísari: er það
í fyrsta sinni, að þú vitjar hingað nú, eða ertu gestfélagi föður
míns? Spyr eg þess af því, að margir menn aðrir hafa heimsótt
oss, því hann var mannblendinn maður“.
[1008.png: Söngmaður með hörpu.]
178 Hin glóeyga gyðja Aþena svaraði honum aftur: „Þá skal
eg segja þér frá þessu með sannindum. Eg em Mentes, sonur
hins vitra Ankíaluss, en eg ræð yfir hinum róðrargjörnu Taffeyjarmönnum.
Er eg hér nú kominn með skip og menn, og
ætla yfir hið dökkva haf í útlönd til Temesu eftir eiri, en eg
flyt fagurt járn. Skip mitt liggur úti við landsbyggðina, eigi
allskammt frá borginni, í Hríðru höfn, undir hinu skógvaxna
Nejfjalli. Voru feður okkar aldavinir, þóttú farir og spyrjir
hinn aldraða öðling Laertes, er menn segja, að hættur sé að
koma til borgarinnar, heldur beri böl sitt langt úti á landsbyggðinni
með aldraðri þjónustumey, er færir honum mat og drykk,
þá limir hans eru lúnir orðnir af erfiðinu og af því að bogra á
hinum frjóvsama vínakri. En eg kom nú af því að menn sögðu
hann vera í land kominn, föður þinn, og mun þó hitt heldur
vera, að guðirnir munu hamla heimför hans. Því ekki er hinn
ágæti Odysseifur á landi dáinn, heldur mun hann enn vera
lífs, kyrrsettur á enu víða hafi, á einhverri umflotinni ey: munu
harðir og grimmir menn hafa hann á valdi sínu og halda honum
nauðugum. En nú skal eg spá, eins og guðirnir skjóta mér
í hug, og eins og eg hygg að eftir muni ganga, og em eg þó
engi spámaður eða glöggþekkinn á fuglateikn: hann mun víst
ekki verða hér eftir lengi í burtu frá sínu kæra föðurlandi, og
ekki þó járnfjötrar haldi honum; mun hann leita sér ráðs, að
hann fái heim komizt, því hann er maður úrræðagóður. En gjör
nú svo vel, og seg mér og inn með sannindum frá því, hvort
þú, svo vöxtulegur maður, ert sonur sjálfs Odysseifs, því mjög
ertu líkur honum til höfuðsins og hinna fögru augna. Svo oft
vorum við saman, áður en hann fór upp til Trójulands með
öðrum höfðingjum Argverja, er þangað fóru á enum rúmbyggðu
skipum; en upp frá því hef eg hvorki séð Odysseif,
né hann mig“.
213 Hinn vitri Telemakkus svaraði henni aftur: „Eg skal
þá segja þér frá þessu, gestur, með sannindum. Móðir mín segir
mig vera son hans, en sjálfur veit eg það ekki; því aldrei hefir
neinn af sjálfum sér til vitað með vissu uppruna sinn. Eg vildi
óska, að eg væri sonur einhvers þess gæfumanns, er setið hefði
á sjálfs síns eignum til ellidaga; en nú er eg sagður son þess
manns, sem orðinn er hinn ógæfusamasti dauðlegra manna. Segi
eg þetta, fyrst þú spurðir mig á þessa leið“.
221 Hin glóeyga gyðja Aþena sagði til hans: „Ekki hafa
guðirnir viljað, að ætt þín skyldi verða frægðarlaus eftirleiðis,
er Penelópa hefir átt slíkan son, sem þú ert. En gjör nú svo
vel og seg mér frá með sannindum: hvaða veizla er þetta, og
hvaða fjölmenni er það, sem hér er saman komið? Hver nauðsyn
dregur þig til slíks? Er það mannboð nokkurt eða brúðkaupsveizla?
því ekki er þetta vinagildi:[* Samanb. XI, 415.] mér sýnast gestirnir
sitja hér að mat í stofunni með svo frekjufullum ofstopa; og
mundi hverjum hyggnum manni, sem við væri staddur, ofbjóða
að horfa upp á slíkan ósóma“.
230 Hinn vitri Telemakkus svaraði henni: „Segja mun eg
þér, gestur, það er þú spyr mig um og þig forvitnar að vita.
Eitt sinn mun þetta hús verið hafa auðugt og rausnarlegt,
meðan sá maður var innanlands. En nú hafa hinir illráðu
guðir látið annað uppkoma, er þeir hafa enga afspurn látið
af honum ganga, fremur en öllum mönnum öðrum. Því síður
mundi mig angrað hafa dauði hans, ef hann hefði látizt í
landi Trójumanna með sveitungum sínum, eða í vina höndum,
að afloknu stríðinu; þá mundi alþjóð Akkea hafa orpið haug
eftir hann, og þá mundi hann einnig hafa aflað syni sínum
mikillar frægðar eftir sinn dag. En nú hafa Sviptinornirnar
hrifið hann í burtu voveiflega, svo orðstír hans er enginn uppi:
hann er horfinn, án þess nokkur viti af honum, eða til hans
spyrjist, en hefir eftirskilið mér harma og sorgir. Er hann nú
ekki heldur það eina, er eg andvarpa af grátandi, því guðirnir
hafa nú búið mér aðrar illar skapraunir. Því allir þeir
höfðingjar, sem nokkurs eru ráðandi á eyjunum, Dúliksey,
Sámsey og hinni skógvöxnu Sakyntsey, og allir þeir, sem ríki
hafa á hinni grýttu Íþöku, biðla til móður minnar og eyða
búinu; en hún gerir hvorki, að neita þessum ráðahag, sem
henni er þó mjög móti skapi, né heldur getur af sér fengið að
ganga að honum; eyða þeir svo búi mínu í óhófi, og munu
bráðum tortýna sjálfum mér“.
[1011.png: Kort af eyjunum nálægt Íþöku.]
252 Pallas Aþena varð gröm við, og sagði til hans: „Ósköp
er slíkt! Sannlega hefir þú mikla þörf á hinum fjarveranda
Odysseifi, að hann leggi hendur á þá hina ósvífnu biðla. Því
ef hann væri nú kominn, og stæði fremst í stofudyrunum með
hjálm, skjöld og tvö spjót, og væri líkur því sem hann var, þegar
eg sá hann fyrst, er hann drakk og skemmti sér í húsi voru
á heimför sinni frá Ílus Mermerussyni í Effýru (því Odysseifur
hafði farið þangað á gangfljótu skipi til að fá sér mannskætt
eitur, er hann gæti haft til að ríða á hinar eirslegnu örvar:
fékk Ílus honum ekki eitrið, því hann óttaðist hina eilífu guði:
en faðir minn fékk honum það, því hann var mikill vinur hans)
— væri Odysseifur eins og hann var þá, og fyndi biðlana, þá
mundu þeir allir hreppa bráðan bana og beiskan ráðahag. Þó
er þetta á guðanna valdi, hvort hann náir heim að komast,
eða ekki, og hefna sín í húsi sínu. En eg ræð þér að hugsa
um það, hvernig þú megir reka biðlana af heimilinu. Tak nú
eftir, kæri, og hygg að orðum mínum: stefn öðlingum Akkea
til þings á morgun, seg öllum vandkvæði þitt og kalla guðina
til vitnis: bið biðlana fara heim til búa sinna; en leiki móður
þinni hugur á að giftast, þá fari hún heim aftur til síns volduga
föður; munu þeir (frændur hennar) þá sjá fyrir ráði hennar, og
leggja fram svo mikinn heimanmund, sem sæmilegt er að fylgi
kærri dóttur. En sjálfum þér mun eg leggja ráð, það er duga
mun, ef þú bregður eigi af. Skipa þú skip, það er þú átt bezt
til, tuttugu ræðurum, og far að spyrjast fyrir um föður þinn,
er lengi hefir á burtu verið, ef svo kann verða, að einhverr dauðlegra
manna kunni þér frá að segja, eða þú heyrir einhverja
frétt frá Seifi, sú er helzt veitir mönnum vitneskju. Far þú
fyrst til Pýlusborgar, og spyr hinn ágæta Nestor; en þaðan til
Spörtu, til hins bleikhára Menelásar, því hann hefir síðast heim
komið hinna eirbrynjuðu Akkea. Verði nú svo, að þú fregnir
föður þinn lífs og hans heim von, þá skaltu enn þreyja við
árlangt, þóttú sért að þreyttur. En ef þú fréttir hann látinn og
liðinn úr heimi, þá skaltu hverfa heim aftur til föðurjarðar
þinnar, og verpa haug eftir hann, og lát fylgja honum svo
mikið fé, að sómi sé að, og gift manni móður þína. En sem
þú hefir þessu lokið og af hendi leyst, leita þá ráðs af hug og
hjarta, hversu þú megir drepa biðlana í híbýlum þínum, annað
hvort með vél eða opinberlega; og sæmir þér ekki að sýna af
þér bernskubrögð, er þú ert af barnsaldrinum kominn. Eða
heyrir þú ekki, hversu hinn ágæti Órestes er frægur orðinn hjá
öllum mönnum, síðan hann tók af lífi föðurbana sinn, hinn
vélráða Egistus, er drap hans fræga föður? Einnig þú, vinur,
sem ert svo vænlegur og vöxtulegur, ver hraustur, svo eftirkomandi
menn beri þér líka gott orð. En nú mun eg fara ofan til
míns fljóta skips og förunauta minna, sem munu vera leiðir
orðnir að bíða mín. En lát þér hugföst orð mín, og geym þeirra“.
306 Hinn vitri Telemakkus svaraði henni: „Sannlega talar
þú þetta, gestur, af velvilja til mín, sem faðir mundi syni sínum;
og skal eg þessu aldrei gleyma. En gjör nú svo vel og bíð
við lengur, þó þér sé mjög annt um ferðina, þar til er þú hefir
tekið laugar og endurnært hjarta þitt; skaltu svo ganga glaður
í huga til skips, og þiggja áður af mér dýrmæta og mjög
fagra gjöf, sem skal vera þér menjagripur frá mér; eru kærir
gestfélagar vanir að gefa slíka gripi gestavinum sínum“.
314 Hin glóeyga gyðja Aþena svaraði honum: „Haltu mér
nú ekki lengur, því mér er mjög annt um ferðina. En gjöf þá,
er hjarta þitt býður þér að gefa mér, hana skaltu gefa mér síðar,
þá eg kem aftur, að eg hafi hana þá heim með mér; og máttu
fyrir því velja mér fagra gjöf, að eg mun launa hana með
jafngóðri gjöf aftur“.
319 Að því mæltu fór hin glóeyga Aþena burt, og flaug í
loft upp sem fugl. Hún hafði látið koma hug og djörfung í
brjóst hans, og látið hann enn betur muna til föður síns, en
áður. En er hann varð þess varr, varð honum hverft við, því
hann grunaði, að þetta mundi vera einhverr guðanna; brá þá
hinn goðumlíki maður skjótt við, og gekk til biðlanna. Hinn
víðfrægi söngmaður var þá að kveða fyrir þeim, en þeir sátu
þegjandi og hlýddu á: hann kvað um hina ógæfusömu heimför
Akkea frá Trójulandi, er Pallas Aþena hafði ákveðið þeim. Hin
vitra Penelópa Íkaríusdóttir heyrði ofan úr loftsalnum hans
ununarfulla söng. Hún gekk ofan hinn háva stiga á herbergi
sínu; eigi var hún ein, henni fylgdu tvær herbergismeyjar. En
sem hin ágæta kona kom til biðlanna, nam hún staðar við
dyrustaf hins traustsmíðaða sals, og hélt fyrir andliti sér skínandi
höfuðblæju, en hinar trúu þjónustumeyjar stóðu sín til
hvorrar handar henni. Síðan mælti hún grátandi til hins ágæta
söngmanns: „Femíus, þú kannt þó margt annað, sem mönnum
sé skemmtan að, afreksverk bæði manna og guða, þau er
söngmenn eru vanir að víðfrægja. Kveð þú um eitthvert af
þeim, meðan þú situr hjá biðlunum, en þeir drekki vínið og
hafi hljótt um sig. En þú hætt þessum sorglega söng, er ávallt
angrar hjartað í brjósti mér: því ógleymanleg sorg hefir mest
snortið mig, er eg þrái slíkan ástvin og man ávallt til þess
manns, hvers orðstír gengur víða um Helluland[* Þessalía (Þettalaland).] og inn í mitt
Argverjaland“.[** Pelóponnes (Pelópsey).]
345 Hinn vitri Telemakkus svaraði henni: „Móðir mín, hví
anntu ekki hinum ástsæla söngmanni að skemmta, á þann hátt
sem hugur hans hrærist. Ekki er söngmönnunum um að kenna,
heldur Seifi, sem veitir hugvitssömum mönnum, sérhverjum
eftir því sem hann vill. En þessum manni er ekki að lá, þó hann
kveði um óför Danáa, því menn lofa það kvæði mest, sem
mönnum er mest nýlunda að heyra. Veri því hugur þinn og
hjarta þolinmótt á að hlýða, því ekki er Odysseifur sá eini, er
misst hefir heimkomudagsins í Trójulandi; margir aðrir menn
hafa og látizt þar. En far þú nú til herbergis þíns, og annast
um hannyrðir þínar, vefinn og snælduna, og bið þjónustumeyjarnar
að fara til vinnu sinnar; en allir karlmenn eiga að láta
sér hugað um orðræður, einkum eg, sem er hér húsráðandi“.
Henni brá mjög við þessi orð, og gekk aftur til herbergis síns,
því hún lagði á hjarta hyggilegt andsvar sonar síns. En er hún
var komin upp í loftsalinn með þjónustumeyjunum, þá grét hún
Odysseif, sinn kæra mann, þar til er hin glóeyga Aþena brá
sætum svefni yfir hvarma hennar.
365 Biðlarnir gerðu hávaða mikinn í hinum dimmu herbergjum,
því öllum lék hugur á að samrekkja drottningu. Þá
tók hinn vitri Telemakkus svo til máls við þá: „Þér ofstopafullu
biðlar móður minnar, látum oss nú snæða og vera kátir,
og hafi enginn hávaða; það er unun að hlýða á slíkan söngmann,
sem þessi er, því rómur hans er líkur guðanna. En á
morgun snemma skulum vér allir ganga á þing og halda samkomu:
skal eg þá einarðlega kveða upp vilja minn, að þér
skuluð burt fara úr húsum mínum; þér skuluð taka aðrar
veizlur og eyða fé yðru sjálfra, og fari hverir til annarra að heimboðum.
En ef yður þykir hitt fýsilegra og sæmra að eyða fé
eins manns bótalaust, þá eyðið því; en eg mun heita á hina
eilífu guði, ef svo mætti verða, að Seifur léti yðvarra illgjörða
hefnt verða; kynni þá svo fara, að þér féllið óbættir í húsum
mínum“.
381 Svo mælti hann, en þeir bitu allir á varirnar, og undruðust,
er Telemakkus talaði svo djarflega.
384 Þá svaraði honum Antínóus Evpíþesson: „Telemakkus,
sannlega kenna sjálfir guðirnir þér að vera stórorðum og djarfmæltum.
Það væri betur, að Kronusson gerði þig ekki að konungi
á hinni umflotnu Íþöku, sem þú átt þó burði til eftir
föður þinn“.
388 Hinn vitri Telemakkus svaraði honum: „Muntu nokkuð
taka illa upp, það eg segi? Að vísu munda eg vilja öðlast þetta,
ef það væri vilji Seifs. Eða kallar þú þetta hið versta, er mönnum
geti hlotnazt? Sannlega er það ekki illt að vera konungur,
því brátt verður hús hans auðugt, og hann sjálfur meir virður.
En margir eru og aðrir til, höfðingjar Akkea, á hinni umflotnu
Íþöku, ungir og gamlir, og má vera, að einhverr þeirra hljóti
þetta, þar eð hinn ágæti Odysseifur er dáinn; en eg mun ráða
húsi voru og þrælum þeim, er hinn ágæti Odysseifur hertók
handa mér“.
399 Evrýmakkus Pólýbusson svaraði honum: „Sannlega er
það á guðanna valdi, hverr Akkea verður konungur á hinni umflotnu
Íþöku. En betur væri að þú heldir eignum þínum sjálfur
og réðir húsi þínu; því óskandi væri að ekki kæmi sá maður,
meðan Íþaka er byggð, er rænti þig með valdi eigum þínum
nauðugan. En eg vil spyrja þig, kæri, um gestinn: hvaðan er
þessi maður, og frá hvaða landi segist hann vera? Hvar er ætt
hans og föðurland? Færir hann nokkura fregn um komu föður
þíns? eða kemur hann hingað í sjálfs síns erindum? Hversu
skjótt spratt hann upp og gekk burt, án þess að bíða þess að
hann yrði kenndur! Og var þó maðurinn ekki ódrengilegur
ásýndum“.
412 Hinn vitri Telemakkus svaraði honum: Evrýmakkus,
víst er útséð um heimkomu föður míns, og er eg því bæði hættur
að spyrja frétta, þó þær berist, og hirði ekki heldur um spásögur
þess spámanns, er móðir mín hefir kallað í hús sitt og
leitar fréttar af. En þessi maður er gestfélagi föður míns, og er
frá Taffey, kveðst hann heita Mentes og vera sonur hins fróðhugaða
Ankíaluss, en hann ræður yfir hinum róðrargjörnu
Taffeyjarmönnum“. Svo mælti Telemakkus, en þekkti þó í huga
sínum hina ódauðlegu gyðju.
421 Biðlarnir fóru nú til dansleiksins og hins ununarfulla
söngs, og skemmtu sér, og biðu þess að kvöldaði; og sem þeir
skemmtu þeir, kom hið dimma kvöld yfir þá. Gekk þá hverr heim
til sín, og vildu leggja sig til svefns. En Telemakkus gekk til hvílu
í hinum fagra forgarði, þar sem hár svefnskáli var byggður
handa honum á víðsýnum stað; hafði hann þá miklar áhyggjur.
Hin trygga Evrýklea, dóttir Óps Písenorssonar, fylgdi honum
og bar logandi blys; hafði Laertes fyrrum keypt hana með fé
sínu, var hún þá frumvaxta, og gefið fyrir hana eins mikið fé
og tuttugu uxar voru verðir; hann virði hana í húsinu jafnt
sinni kæru konu, en til þess að styggja ekki konu sína hafði
hann aldrei samrekkt henni. Hún gekk með Telemakkusi og
bar logandi blys; unni hún honum mest af ambáttunum, og
fóstraði hann, þegar hann var barn. Hann lauk nú upp hurð
hins traustsmíðaða svefnskála, settist á legubekkinn, fór úr hinum
mjúka kyrtli og fékk hann í hendur hinni gætnu, gömlu
konu; en hún braut saman kyrtilinn, strauk hann vandlega,
og hengdi upp á nagla hjá hinum útskorna legubekk. Síðan
gekk hún út úr skálanum, dró að sér hurðina með hurðarhringnum,
sem var úr silfri, og skaut lokunni fyrir með lokubandinu.
Hér lá Telemakkus undir sauðargæru, og var alla nóttina
að hugsa um þá ferð, er Aþena hafði boðið honum að fara.
[1017.png]
[1019.png]
ANNAR ÞÁTTUR.
ÞING Í ÍÞÖKU. TELEMAKKUS FER UTAN.
EN sem hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í
ljós, reis Odysseifs kæri son úr rekkju, og fór í klæði
sín: hann gyrðti sig bitru sverði, og batt fagra ilskó undir
sína hraustlegu fætur, og gekk út úr svefnskálanum, líkur í sjón
einhverjum guðanna. Hann bað þegar hina snjallrómuðu kallara
að kveðja hina hárprúðu Akkea til þings; en þeir kvöddu
þings, og söfnuðust menn brátt. En er menn höfðu safnazt
saman og voru komnir á einn stað, þá gekk hann á þingið, og
hafði eirspjót í hendi; eigi var hann einn, honum fylgdu fóthvatir
hundar. Aþena brá yfir hann himneskri fegurð, og
undraðist hann allur lýður, er hann gekk á þingið. Hann settist
í sæti föður síns, en öldungarnir viku fyrir honum.
15 Öðlingurinn Egyptíus tók fyrstur til máls á þinginu;
hann var bjúgur af elli og margfróður; hafði hans kæri sonur,
hinn spjótfimi Antífus, farið á hinum rúmgóðu skipum til
ennar hestauðgu Ilíonsborgar með hinum goðumlíka Odysseifi,
en hinn grimmi Kýklópur drap hann í hinum víða helli, og
bjó hann síðastan sér til snæðings. Enn átti hann þrjá sonu
aðra: var Evrýnómus í sveit með biðlunum, en tveir höfðu alla
stund búið á óðalseignum sínum. En þó mátti hann aldrei
gleyma þeim eina, grátinn og harmandi maður. Hann hélt nú
ræðu á þinginu, felldi tár og mælti: „Heyrið nú orð mín, Íþökumenn.
Hvorki höfum vér þing átt, né samkomu, nokkuru sinni,
síðan hinn ágæti Odysseifur fór úr landi á hinum rúmgóðu
skipum. Hverr hefir þá kvatt þessa þings nú? Hverr hinna
yngri eða eldri manna er svo vant við kominn? Eða hefir hann
nokkra fregn af, að herr sé í nánd, að hann kunni oss vísa hersögu
að segja, er hann hafi fyrr frétt en aðrir? Eða hefir hann
eitthvert annað alþjóðlegt málefni að flytja eða kæra? Svo
lízt mér, sem þessi muni vera góður maður; kveðji hann manna
heppnastur þings! Gefi Seifur honum gæfu til að koma því
gagnsmáli til vegar, er hann hefir í hyggju“.
35 Svo mælti hann, en Odysseifs kæri sonur gladdist við
þessa orðheill; hafði hann nú ekki langa setudvöl, því honum
lék í mun að halda ræðu, og gekk hann fram á mitt þingið
en kallarinn Písenor, sem var mikill ráðsnillingur, fékk honum
sprota í hönd; varpaði hann fyrst orðum á öldunginn og
sagði til hans: „Gamli maður, ekki er sá maður fjarstaddur,
og muntu brátt kenna hann: eg em sá, er lýðinn hefi saman
kallað, því eg á um sárt að binda. Hvorki hef eg neina fregn
af, að herr sé í nánd, að eg kunni vísa hersögu segja, þá er
eg hafi frétt fyrr en aðrir: ekki hefi eg heldur neitt alþjóðlegt
mál að flytja eða kæra: heldur kæri eg nauðsyn mína sjálfs;
hefir tvenn ógæfa steðjað á hús mitt: ein sú, að eg hefi misst
góðan föður, er fyrr meir var konungur yðar allra, sem nú
eruð hér, og var yður ástúðlegur sem faðir. En hin er þó
ógæfan miklu meiri, er nú mun bráðum gjöreyða öllu búinu
og glata með öllu eigum mínum. Biðlar nokkurir hafa veitt
yfirhlaup móður minni nauðugri, eru það synir þeirra manna,
er göfgastir eru hér í landi; kveinka þeir sér við að ganga til
húss Íkaríuss, föður hennar, að hann geri sjálfur dóttur sína úr
garði, og gefi hana þeim, er hann vill, og honum er næst skapi;
heldur venja þeir komur sínar í hús vort dags daglega, slátra
nautum, sauðum og feitum geitum, halda mannboð og drekka
hið skæra vín ósvífið, og gengur mikið upp: því nú er ekki
maður til staðar, slíkur sem Odysseifur var, að bægja þessari
óheill frá heimilinu; en vér erum þess með engu móti um
komnir að létta henni af: munum og síðar til þess vanfærir og
þreklausir, og mundi eg þó hafa vilja til að hrinda þessu af
mér, ef eg hefða þrótt til; því nú er þessi ágangur orðinn óþolandi,
engi hæfa á, hversu hús mitt er í eyði lagt. Látið yður og
sjálfum um finnast, og fyrirverðið yður fyrir öðrum nábúum
yðrum, er í grennd búa við yður, og óttizt reiði guðanna, að
þeir láti ekki hefnd niður á yður koma fyrir þau hin illu verk.
Eg bið fyrir sakir hins Ólympska Seifs og fyrir sakir Þemísar,[* Þemis, réttlætis og lagagyðja.]
er setur og bregður samkomum manna: hættið, vinir, og látið
mig einan þjást af sárri sorg; nema svo sé, að faðir minn, hinn
góði Odysseifur, hafi í illum hug gert hinum fagurbrynhosuðu
Akkeum eitthvert mein: sé svo, þá hefnið þess með heiftarhug
og gerið mér mein, með því að æsa upp þessa menn. En þó
munda eg heldur kjósa, að þér eydduð gripum mínum og
fénaði; ef þér hefðuð gert það, mundi eg einhvern tíma bíða
þess bætur: því þá mundum vér fara um borgina í fjárbón, og
biðja bóta, þar til allt væri aftur goldið. Nú þar á móti bakið
þér mér óbætanlegar skapraunir“.
[1022.png: Penelópa við vefinn.]
80 Þannig mælti hann reiður, og varp sprotanum á jörðina;
honum hrundu tár, en allur lýður kenndi í brjósti um hann;
urðu nú allir biðlarnir orðlausir, og þorði enginn að svara
Telemakkusi illu, nema Antínóus einn, hann svaraði honum
og sagði: „Þú stórorði, ofurhugaði Telemakkus, hvílík smánaryrði
talar þú í gegn oss! Auðséð er, að þú vilt gera oss þá
skömm, er við oss loði. En ekki þarftú að gefa biðlunum neina
sök á þessu, heldur móður þinni, sem er heldur til slægvitur.
Því þetta er nú á þriðja ár, og senn komið hið fjórða, að hún
tælir hug í brjóstum Akkea: hún lætur vænlega við alla, lofar
hverjum manni góðu, og gerir þeim bið, en hugur hennar er
allur annar. Hún hugsaði meðal annars upp þessa vél: hún
setti upp mikinn vef, og óf smágjörva og ummálsmikla voð í
herbergi sínu, sagði síðan til vor: „Þér ungu menn, sem nú
biðjið mín, þar eð Odysseifur er dáinn, bíðið, þó yður sé annt
um að ná ráðahag við mig, unz eg hefi lokið við dúkinn, því
mér er ekki um, að vefturinn verði mér ónýtur; það á að verða
náklæði handa öðlingnum Laertes, þegar hin skaðvæna Banagyðja,
sem ræður fyrir dauðanum, er manninn leggur flatan,
hefir yfirbugað hann: því vera kann, að konur Akkea hér í
landi lái mér, ef hann liggur umbúðalaus, svo auðugur maður“.
Svo mælti hún, en vér féllumst á þetta; óf hún svo hinn mikla
vef á daginn, en rakti upp aftur á næturnar við blys. Með þessu
móti bar ekki á vélum hennar í þrjú ár, svo Akkea grunaði ekki.
En er hið fjórða ár gekk í garð, og ný misseri komu að hendi,
þá sagði ein af þernum hennar frá, sú er vissi, hvernig á öllu
stóð: komum vér þá að henni, þar sem hún var að rekja upp
aftur hinn glæsilega vef. Þannig neyddist hún til að ljúka við
vefnaðinn, þá henni væri það móti skapi. En biðlarnir svara
þér þessu, svo þú sjálfur vitir gjörla, og svo allir Akkear: Lát
móður þína burtu, og bið hana giftast þeim, sem faðir hennar
vill, og henni er vel að skapi sjálfri. En ef hún heldur lengur
áfram að móðga sonu Akkea, og beita þeim gáfum, er Aþena
hefir veitt henni fremur öðrum, sem er kunnátta í fögrum
hannyrðum, góðir vitsmunir, og sú slægvizka, að vér höfum
enn eigi heyrt, að nokkur ein af hinum fagurlokkuðu konum
í Akkealandi, þær er í fornöld lifðu, hafi kunnað slíkar vélar,
hvorki Týró,[* Sjá XI, 235.] né Alkmena,[** Sjá XI, 266.] né hin fagurbeltaða Mýkena,[*** Ínakkusdóttir.]
hafði engin þessara önnur eins ráðabrot og Penelópa; en þó hefir
hún þar tekið upp óheillavænlegt ráð: því meðan hún heldur
á þessu skaplyndi, er guðirnir nú leggja í brjóst henni, munu
biðlarnir halda áfram að eyða búi þínu og eigum; aflar hún
sér að vísu sjálfri mikillar frægðar með þessu, en þér þar á
móti mikils fjártjóns. Munum vér ekki heim fara til búa vorra,
eða nokkuð annað, fyrr en hún gengur að eiga einhvern af
Akkeum, þann er henni geðjast að“.
129 Hinn vitri Telemakkus svaraði honum aftur: „Ekki má
eg, Antínóus, reka hana sem ól mig og uppfæddi, af heimilinu
nauðuga, þó faðir minn sé í útlöndum, hvort sem hann er lífs
eða liðinn. Mundi mér verða það þungbært, ef eg léti móður
mína frá mér af sjálfsdáðum, að gjalda Íkaríusi stórfé; því af
föður hennar mun eg sæta afarkostum, en Óhamingjuguðinn
mun bæta þar öðru ofaná: því ef móðir mín fer heiman, mun
hún heita á hinar ógurlegu Refsinornir, en af mönnum mun
eg hafa hið mesta ámæli; mun eg því aldrei hafa þetta á
orði við hana. Nú ef þér skammizt yðar nokkuð með sjálfum
yður, þá verðið burt úr húsum mínum, og takið aðrar veizlur,
eyðið fé yðru sjálfra og farið hvorir til annarra að heimboðum.
En þyki yður fýsilegra og sæmra að eyða eigum eins manns
bótalaust, þá eyðið þeim; en eg mun heita á hina eilífu guði,
ef svo mætti verða, að Seifur léti yðvarra tilgjörða hefnt verða:
kynni þá svo að fara, að þér féllið óbættir í húsum mínum“.
146 Svo mælti Telemakkus, en hinn vítt þrumandi Seifur
sendi honum tvo örnu fljúgandi úr lofti ofan af fjallstindinum,
þeir flugu fyrst eins og vindur blési, og þöndu sig út með vængjunum,
hvor hjá öðrum. En er þeir komu mitt yfir ena kliðmiklu
samkomu, þá flugu þeir í hring, skóku ótt vængina og
horfðu í höfuð mönnum, og boðuðu tjón með augnaráði sínu;
þeir klóuðu vangana hvorir á öðrum og hálsana beggja vegna,
og þutu síðan til hægri handar gegnum húsin og borgina. En
sem menn litu augum fuglana, brá þeim í brún, og hreifðu
því í huga sér, sem fram átti að koma. Þá tók til máls hinn
aldraði öðlingur Halíþerses Mastorsson, er fremri var öllum
þeim, er uppi voru um hans daga, í því að þekkja spáfugla
og segja spár; hann var þeim velviljaður, talaði á þinginu og
mælti: „Heyrið nú, Íþökumenn, hvað eg segi; mæli eg þetta
helzt til biðlanna, því yfir þeim vofir mikil hætta: mun Odysseifur
eigi lengi burtu verða frá vinum sínum, heldur er hann nú
einhverstaðar í nánd, og ætlar þessum dauða og feigð öllum;
og mörgum öðrum af oss, er búum á hinni víðsýnu Íþöku,
mun það að tjóni verða. Tökum því sem fyrst ráð vor saman, að
vér fáum haldið biðlunum í taumi, eða láti þeir sjálfir af, því
þar af hafa þeir betra síðar meir. Segi eg þessa spá, ekki sem
óreyndur, heldur veit eg hana með vissu; því eg hygg, að
allt muni fram við hann koma, sem eg spáði honum, þá Argverjar
fóru upp til Ilíonsborgar, og hinn margráðugi Odysseifur
með þeim: sagða eg þá, að hann mundi rata í margar raunir,
missa alla förunauta sína, og koma heim öllum ókenndur á
tuttugasta ári; mun nú allt þetta rætast“.
177 Evrýmakkus Pólýbusson svaraði honum: „Far þú heldur
heim, gamli maður, og spá fyrir börnum þínum, að þau rati
ei í neina ógæfu síðar meir; en um þetta kann eg miklu betur
að spá, en þú. Margir fuglar eru á flugi undir sólargeislunum,
og eru þó ekki allir spáfuglar. Hitt er heldur, að Odysseifur
hefir týnzt langt úti í löndum, og væri betur, að þú hefðir
týnzt líka ásamt honum; mundir þú þá ekki fara með svo
marga spádóma, og ekki æsa hinn reiða Telemakkus upp, í
von um gjafir af honum handa hyski þínu. En eg segi þér það
fyri satt, og mun það rætast: ef þú, sem ert fróður í mörgum
fornum fræðum, ginnir með orðum þér yngra mann og egnir
hann til reiði, þá mun fyrst sjálfur hann hafa verra þar af,
síðan munum vér, gamli maður, skapa þér það víti, að þú
munt illa við una og sáran harm af bíða. En eitt höfuðráð vil
eg gefa Telemakkusi: láti hann móður sína fara heim til
föður hennar, munu þeir frændur hennar þá sjá fyrir ráði
hennar, og leggja fram svo mikinn heimanmund, sem sæmilegt
er að fylgi kærri dóttur; því eg hygg, að synir Akkea muni
eigi fyrr af láta því hinu torsótta bónorði, því vér hræðumst
alls öngvan; hvorki hræðumst vér Telemakkus, þótt hann sé
ærið margmáll, né heldur skeytum þeim spádómi, er þú fer
með, karl; mun hann ekki rætast, muntu verða fyrir hann að
óvinsælli; munu eigurnar, sem fyrr, uppetnar verða gegndarlaust,
og aldrei jöfnuður fyrir koma, meðan hún dregur Akkea
á ráðahagnum við sig; en vér munum enn bíða alla daga, og
þreyta kapp með oss sökum ágætis hennar, og ekki fara til annarra
kvenna, þeirra er hverjum væri sómi í að eiga“.
208 Hinn vitri Telemakkus svaraði honum: „Evrýmakkus
og þér hinir aðrir göfugu biðlar! Ekki mun eg yður lengur
þessa biðja, eða hér um ræða; því nú vita það guðirnir og allir
Akkear. En gjörið nú svo vel og fáið mér gangfljótt skip og
tuttugu menn, er fari með mér alla leið fram og aftur, því
eg ætla til Spörtu og hinnar sendnu Pýlusborkar að spyrjast
fyrir um heimför föður míns, þess er lengi hefir á burtu verið,
ef svo kann verða, að einhverr dauðlegra manna kunni mér af
að segja, eða eg heyri einhverja frétt frá Seifi, sú er helzt veitir
mönnum vitneskju. Ef eg nú fregna föður minn lífs og hans
heim von, þá mun eg enn þreyja við árlangt, þó eg sé aðþreyttur.
En ef eg spyr hann látinn og liðinn úr heimi, þá mun eg halda
heim aftur til föðurlands míns, og verpa haug eftir hann og
gera útför hans sæmilega, og gifta manni móður mína“.
224 Að því mæltu settist hann niður. Þá stóð Mentor upp,
hann var vinur hins göfuga Odysseifs, og hafði Odysseifur, áður
hann fór í leiðangurinn, falið honum á hendur öll heimilis forráð,
skyldi hann hlýða Öldungnum[* Laertesi.] og hafa stöðuga umsjón á
öllu; hann var þeim velviljaður, talaði á þinginu og mælti:
„Heyrið nú, Íþökumenn, þau orð, er eg tala. Veri nú engi
konungur, sá er veldisprota heldur, raungóður og blíður framar
eða sanngjarn í sér, heldur ávallt vondur og ofstopafullur,
fyrst enginn man til hins ágæta Odysseifs þeirra manna, er
hann réð yfir og var blíður sem faðir! Að sönnu ann eg þess
hinum vasklegu biðlum, að hafa í frammi ofríkisfull verk af
sjálfsheimsku, því þeir stofna sér í háska sjálfir, er þeir eyða
með ofríki búi Odysseifs og ætla hans eigi heim von framar.
En hinum öðrum lýðnum lái eg, að þér sitjið allir svo þegjandi,
og leggið ekki orð til, að halda í taumi fáeinum biðlum,
svo margir menn“.
242 Leókrítus Evenorsson svaraði honum: „Þú meinyrti
Mentor, skjátla þér nú vitsmunir, er þú talar slíkt, og eggjar
aðra að halda oss í taumi! Erfitt mun veita, að deila við svo
marga menn um veizluhöldin; því þó sjálfur Odysseifur frá
Íþöku kæmi til og hefði hug á að reka á dyr hina göfugu
biðla, er sitja að veizlum í húsi hans, mundi kona hans, þó
hún þreyi hann mjög, lítt verða fegin komu hans; því hann
mundi þar bana bíða með skömm, ef hann berðist við ofurefli
sitt; og hefir þú talað mjög óviðurkvæmilega. Nú skulu menn
fara héðan, hverr heim til sín; en þeir Mentor og Halíþerses,
sem eru aldavinir föður hans, skulu vera í tilbeina með Telemakkusi
um ferðina; vonar mig þó, að hann muni lengi mega
sitja og spyrja frétta í Íþöku, því aldrei mun hann fá þessari
ferð til leiðar komið“.
257 Að því mæltu brá hann þinginu skjótlega; fór þá hverr
til sinna heimkynna, en biðlarnir gengu til híbýla hins ágæta
Odysseifs. Telemakkus gekk burt og ofan til strandar; hann
þvoði hendur sínar í hinum gráa sæ, og bað til Aþenu: „Heyr
mig, þú guð, er komst í gær í hús vort, og bauðst mér að fara
á skipi yfir hið dökkva haf, til að spyrjast fyrir um heimför
föður míns, er lengi hefir á burtu verið; en Akkear draga það
allt fyrir mér, og einkum hinir ofstopafullu biðlar“. - Þannig
baðst hann fyrir; gekk Aþena þá til hans, var hún þá lík
Mentori í vexti og málfæri, og talaði til hans skjótum orðum:
„Telemakkus, ekki muntu heldur hér eftir verða duglaus eða
vanhygginn. Ef þér er í brjósti lagið hugrekki föður þíns, slíkur
sem hann var í framkvæmdum bæði til orða og verða, þá mun
ferðin ekki verða þér til ónýtis eða afrekslaus. En sértu eigi
sonur hans og Penelópu, þá býst eg ekki við að þú fáir því
til vegar komið, sem þú hefir í hyggju; því fáir synir verða
jafnir föður sínum, flestir verða síður, en fáir eru föðurbetringar.
En með því þú munt eigi verða framkvæmdarlaus eða vanhygginn
á síðan, og með því þú hefir ekki með öllu farið á
mis við vitsmuni Odysseifs, þá er vonanda, að þessi fyrirætlan
muni takast. Þess vegna skaltu nú eigi skeyta ráðlagi eða fyrirætlan
biðlanna, því þeir eru menn heimskir, skortir þá bæði
hyggindi og réttsýni, og ekki vita þeir, að dauði og dimm feigð
vofir yfir höfði þeim, er þeir munu allir týnast á einu dægri.
En þess skal nú ekki lengi bíða, að þú farir þá för, sem þú hefir
í hyggju, því eg er sá vinur föður þíns, að eg mun búa þér
gangfljótt skip, og fylgjast með þér sjálfur. Far þú nú heim, og
ver með biðlunum; útvega farnest, og geym allt í ílátum, vínið
í leirkerum, en byggmjölið, sem er mergur manna, í þéttum
leðurbelgjum. En eg skal skjótt ráða til fylgdar við þig sjálfviljuga
menn meðal fólksins; en til eru á hinni umflotnu Íþöku
mörg skip, ný og gömul, skal eg velja þér af þeim það er
bezt er, og þegar er við höfum búið það, skulum við leggja
á haf“.
296 Svo kvað Aþena, dóttir Seifs; hafði Telemakkus nú ei
langar viðtafir, er hann heyrði mál gyðjunnar. Hann gekk heim
til hallarinnar, sorgmæddur í hjarta, og fann hina vösku biðla
í herbergjunum, voru þeir að flá geitur og svíða alisvín í forgarðinum.
Antínóus gekk móti honum hlæjandi, þreif um hönd
hans, tók til orða og mælti: „Stórorði, ofurhugaði Telemakkus,
lát ekkert illt á þér festa, hvorki orð né verk, heldur et og
drekk, sem áður; en Akkear munu vera í útvegum fyrir þig
um þetta allt saman, bæði skip og útvalda ræðara, svo þú komist
fljótt til hinnar helgu Pýlusborgar, til að spyrjast fyrir um
þinn ágæta föður“.
309 Hinn vitri Telemakkus svaraði honum: „Ekki fæ eg,
Antínóus, setið þegjandi að veizlu eða skemmt mér í næði
með yður ofstopamönnunum. Eða nægir yður það ekki, biðlunum,
að þér hafið fyrr meir, meðan eg enn var barn, eytt
eigum mínum, sem bæði voru margar og góðar? En með því
eg nú er orðinn roskinn, og heyri orðræður manna, og mér
vex hugur innanbrjósts, þá mun eg reyna til að senda á hendur
yður hinar illu Banagyðjur, hvort sem eg fer til Pýlusborgar,
eða eg verð kyrr hér í landi. Fara mun eg, og skal ekki eyðast
sú för, er eg hefi á orði haft, og verða farþegi, því eg fæ hvorki
skip né menn; mun yður hafa þótt betra, að svo væri“.
321 Að því mæltu kippti hann snöggt hendi sinni af Antínóusi.
En biðlarnir efnuðu til veizlu í stofunni; drógu þeir nú dár
að honum, og móðguðu hann í orðum; þá sagði svo einhverr af
hinum ofstopafullu ungmennum: „Víst býr Telemakkus yfir
banaráðum við oss; mun hann annaðhvort ætla að sækja liðsmenn
nokkura til hinnar sendnu Pýlusborgar, eða jafnvel til
Spörtu, því nú er mikill áhugi á honum, eða hann ætlar að fara
til Effýru, hins frjóvsama lands, til að sækja þangað banvænt
eitur; mun hann ætla að koma því í skaftkerið, og bana oss
öllum“. Þá kvað annar af hinum ofstopafullu ungmennum:
„En hverr veit, ef hann fer sjálfur á einhverju rúmgóðu skipi,
nema hann komist í hafvillur, og týnist fjarri vinum sínum,
sem Odysseifur? Mun hann þá heldur en ekki auka oss ómak:
því þá munum vér skipta með oss eigum hans, en húsunum
munum vér láta móður hans halda, eða þann sem hennar fær“.
337 Þannig mæltu þeir, en hann gekk ofan í hinn háræfraða,
víða geymslusal föður síns. Þar lá gull og eir í hrúgum, klæði
í kistum og gnótt ilmanda viðsmjörs; þar flóðu tunnur með
gamalt ljúffengt vín, var það ágætur drykkur og sterkur, þeim
var raðað við vegginn hverri hjá annarri, ef Odysseifur kynni
loksins, og að afstöðnum mörgum þrautum, heim að koma.
Fyrir salnum var þéttfelld tvíhurð með læsingu. Ráðakonan
Evrýklea, dóttir Óps Písenorssonar, hafði þar umgöngu nætur
og daga, og gætti alls með mikilli forsjá. Telemakkus kallaði
hana nú til geymslusalsins, og sagði til hennar: „Gjör svo vel,
fóstra, og aus handa mér í leirker sætt vín, sem ljúffengast er
næst því, er þú geymir handa þeim ógæfusama manni, er þú
vonar eftir, ef svo kann verða, að hinn seifborni Odysseifur komi
einhverstaðar að, sloppinn undan dauðanum og Banagyðjunum.
Þú skalt fylla tólf leirker, og láta vera lok yfir hverju.
Síðan skaltu steypa byggmjöli í þéttsaumaða leðurbelgi, það
skulu vera tuttugu mælar af möluðu byggkorni. Engi má vita
þetta, nema þú ein; skal allt þetta vera til reiðu, því eg kem
í kvöld og tek það, um það leytið móðir mín gengur upp í
loftsalinn og ætlar til hvílu; ætla eg mér að fara til Spörtu
og hinnar sendnu Pýlusborgar, til að spyrjast fyrir um heimför
míns kæra föður, ef eg kann einhverstaðar til hans að frétta“.
361 Svo mælti hann, en hin kæra fóstra Evrýklea hljóðaði,
og talaði kveinandi til hans skjótum orðum: „Hví hefir þér
slíkt í hug komið, sonur kær? Hvert ætlar þú að fara út í
víða veröldu, þú hinn eini ástkæri? Dáinn er, hann, hinn seifborni
Odysseifur, fjærri fósturjörðu sinni, í ókunnu landi. En
þeir munu, nú þegar er þú fer, hyggja þér illt fram á leið, að
þú verðir af lífi tekinn með svikum, og skipta svo með sér
öllu, sem hér er. Sit þú hér heldur kyrr á sjálfs þíns eignum;
því engi nauðsyn ber til, að þú sætir hrakningum og hafvillum
á enu ófrjóva hafi“.
371 Hinn vitri Telemakkus svaraði henni: „Vertu óhrædd,
fóstra; ekki er þessi fyrirætlun stofnuð án vilja guðs. En sver
þú mér, að segja ekki móður minni frá þessu, fyrr en á ellefta
eða tólfta degi, eða hún saknar mín sjálf, og fréttir burtför
mína, að hún eigi slái höndum sitt fríða hörund grátandi“. -
Svo mælti hann, en hin aldraða kona sór dýran eið við guðina.
En er hún hafði svarið og unnið fullan eið, jós hún þegar víninu
á leirkerin, og steypti byggmjölinu í hina þéttsaumuðu leðurbelgi.
Gekk Telemakkus þá til stofu, og var með biðlunum.
382 Á meðan hafði hin glóeyga gyðja, Aþena, annað fyrir
stafni: hún fór um alla borgina í líki Telemakkusar, gekk til
hvers manns og átti tal við hann, bað þá safnast saman um
kvöldið niðri hjá enu örskreiða skipi; síðan bað hún Nóemon,
hinn fræga son Froníusar, um gangfljótt skip, og lofaði hann
henni því fúslega.
388 Nú rann sól í ægi, og skugga brá yfir alla vegu. Þá
setti hún hið örskreiða skip fram til sjóvar, og lagði upp í
það allan skipreiða, þann er hin þóftusterku skip eiga að hafa;
síðan flutti hún skipið út í hafnarmynnið, og söfnuðust þangað
hinir hraustu förunautar, og upphvatti gyðjan sérhvern
þeirra.
[1031.png: Skip á siglingu.]
393 Enn hafði hin glóeyga gyðja Aþena annað ráð með
höndum: hún gekk til húsa hins ágæta Odysseifs, og brá sætum
svefni yfir biðlana, gerði þá reikandi við drykkinn, og sló
drykkjukerin úr höndum þeim. Þeir flýttu sér þá út í borgina
til svefns, og sátu nú eigi lengi, eftir það að svefn tók að síga
á augu þeim. Þá mælti hin glóeyga Aþena til Telemakkuss, og
kallaði hann út úr hinum fagursettu herbergjum, lík Mentori
í vexti og málfæri: „Telemakkus“, sagði hún, „nú sitja hinir
fagurbrynhosuðu förunautar þínir og bíða þess að þú farir af
stað. Förum þá og dveljum eigi lengi förina“.
405 Að því mæltu gekk Pallas Aþena á undan, en hann
fetaði í fótspor gyðjunnar. En sem þau komu niður til skipsins
og sjávarins, fundu þau hina hárprúðu förunauta á ströndinni.
Hinn kraftagóði Telemakkus mælti þá þeirra: „Komið, vinir,
og sækjum farnestið, því nú er allt til reiðu heima; hefir móðir
mín ekkert frétt, og af þernunum veit engin þessa ráðagjörð,
nema ein“. - Að því mæltu gekk hann á undan, en þeir fylgdu
honum; báru þeir nú allt með sér, og settu niður á hið þóftusterka
skip, eins og Odysseifs kæri sonur hafði sagt fyrir. Steig
Telemakkus þá á skip, en Aþena fór fyrir og settist niður í
afturstafn skipsins, og Telemakkus þar hjá henni. En þeir leystu
skutfestarnar, fóru uppí og settust á þófturnar. Hin glóeyga
Aþena sendi þeim hagstæðan byr, hvassan útnyrðing á hinu
gnýjanda, dimmbláa hafi. Þá bað Telemakkus förunauta sína
taka til seglreiðans, en þeir gerðu, sem hann bauð: þeir reistu
upp siglutréð, það var af furu, og settu það niður í hinn hola
siglubita, og bundu það með framstögum, drógu svo upp hin
hvítu segl með velfléttuðum ólum; vindurinn þandi seglið
milli jaðra, en mórauð bylgjan glumdi hátt kringum stefnið,
þá skipið gekk, en það hljóp eftir öldunni og fór leiðar sinnar.
En er þeir höfðu fest öll reip á hinu dökkva, gangfljóta skipi,
settu þeir fram skaftker, barmafull af víni, og dreyptu dreypifórn
hinum ódauðlegu, eilífu guðum, en fremur öllum hinni
glóeygu dóttur Seifs. En skipið fór leiðar sinnar alla nóttina
og morguninn.
[1032.png]
[1033.png]
ÞRIÐJI ÞÁTTUR.
TELEMAKKUS HJÁ NESTOR Í PÝLUSBORG.
HELÍUS kom upp af hinu fagra vatni og rann fram á
hinn eirsterka himin, til að sýna sig hinum ódauðlegu
guðum, sem og dauðlegum mönnum á hinni kornfrjóvu
jörð. Þeir Telemakkus komu nú til Pýluss, Neleifs fagursettu
borgar; voru menn þar að blóta hinum bláhærða Landaskelfi
alsvörtum griðungum á sjávarströndinni: þar voru níu sæti og
sátu fimmhundruð manns á hverju, og höfðu hver níu griðunga
fyrir framan sig. Þegar þeir höfðu bergt á iðrunum [* iðrar, kv. mt., í blótdýrum, hjarta, lifur, lungu.] og
brennt lærbitana guðinum til fórnar, þá héldu þeir Telemakkus
beint að landi, tóku saman segl hins jafnbyrða skips, lentu því
og fóru út. Telemakkus steig af skipi, og gekk Aþena á undan.
- Hin glóeyga gyðja Aþena talaði þá til hans að fyrra bragði:
„Ekki þarftu nú, Telemakkus, að vera feiminn framar; því til
þess hefir þú siglt yfir hafið, að þú spyrðist fyrir um föður
þinn, hvar jörðin hylji hann, og hvern dauða hann hafi hlotið.
Heill svo, gakk nú rakleiðis til móts við hinn reiðkæna Nestor.
Vitum, hverja hyggju hann hefir að geyma í brjósti sínu. Bið
þú hann, að segja þér satt: og mun hann ekki fara með ósannindi,
því hann er stórvitur“. Hinn vitri Telemakkus svaraði
henni: „Mentor, hvernig skal eg þá ganga til hans, hvernig
skal eg ávarpa hann? Eg em enn með öllu óvanur viturlegum
orðræðum, og þar hjá er það ótilhlýðilegt, að yngri maður
spyrji eldra mann“. Hin glóeyga gyðja Aþena svaraði honum:
„Sumt mun þér hugfast af sjálfum þér, en sumt mun guð þér
í brjóst leggja; því ekki hygg eg þig borinn né uppfæddan að
óvilja guðanna“.
29 Að því mæltu gekk Pallas Aþena á undan í skyndi, en
hann gekk í fótspor gyðjunnar. Þau komu nú til samkomu og
sæta Pýlusmanna; þar sat Nestor með sonum sínum, en kringum
hann voru félagar hans að efna til veizlu, steiktu kjöt, en
stungu sumu upp á teina. Nú sem þeir sáu gestina, gengu þeir
til móts við þá, kvöddu þá með handabandi, og báðu þá
setjast. Fyrstur gekk Písistratus Nestorsson til þeirra, tók í
hönd báðum þeim, og lét þá setjast að veizlu á sjávarströndinni;
lét hann þá sitja á mjúkum gærum við hlið bróður síns
Þrasýmedesar og föður síns. Síðan lagði hann fyrir þá bita af
iðrum, skenkti vín í gullker, drakk þeim til og ávarpaði Pallas
Aþenu, dóttur Seifs Ægisskjalda: „Gjör nú bæn þína, gestur,
til hins volduga Posídons, því þið hittuð í hans veizlu, þá þið
komuð hér. En er þú hefir dreypt dreypifórn og gert bæn þína,
sem siður er til, þá fá þú þessum manni ker hins hunangsæta
víns, að hann og dreypi dreypifórn; vænti eg, að hann vilji og
gera bæn sína til enna ódauðlegu guða: því allir menn þurfa
guðanna við. En af því hann er yngri, og jafnaldri minn, þá
fæ eg þér gullkerið fyrr en honum“.
51 Að því mæltu fékk hann henni ker hins sæta víns; en
Aþena gladdist, af því að hinn vitri, réttsýni maður fékk henni
gullkerið fyrr; því næst hét hún af alvöru á hinn volduga
Posídon: „Heyr, þú jarðkringjandi Posídon! unn oss, sem heitum
á þig, að koma þessum málum til lykta! Veit fyrst Nestori
frama og sonum hans; gef því næst öllum öðrum Pýlusmönnum
þæga umbun fyrir hina frægu hundraðsfórn; veit loksins
Telemakkusi og mér að komast heim, þá við höfum til leiðar
komið erindi því, er við fórum hingað á hinu gangfljóta, dökkva
skipi“. Þannig bað hún, og lét sjálf allt þetta rætast; — síðan
fékk hún Telemakkusi hið fagra, tvíhvolfaða drykkjuker, en
Odysseifs kæri son baðst fyrir á sama hátt. En er hinir höfðu
steikt kjötstykkin, sem yfir eldinum voru, og tekið þau af
teinunum, skömmtuðu þeir kjötið, og settust að dýrlegri veizlu.
[1035.png: Posídon sjávarguð.]
67 En er þeir höfðu satt löngun sína á mat og drykk, tók
hinn Gerenski[* frá Gerenuborg í Messenalandi á Pelopsey.] riddari Nestor fyrstur þeirra svo til máls:
„Nú er tilhlýðilegt, fyrst gestirnir hafa neytt matar, að forvitnast
um og spyrja þá, hverjir þeir séu: þér aðkomumenn, hverjir
eruð þér? hvaðan siglið þér vota vega? farið þér að erindum
nokkurum, eða hvarflið þér ráðlauslega um hafið, sem víkingar,
þeir eð flakka um kring og hætta lífi sínu og gera illt
útlendum mönnum?“
75 Hinn vitri Telemakkus svaraði honum; var hann nú
óhræddur, því sjálf Aþena hafði komið djörfung í brjóst honum,
svo hann gæti spurt hann um sinn fjarveranda föður:
„Nestor Neleifsson, þú mikli sómi Akkea! Þú spyr, hvaðan
vér séum; það mun eg gjarna segja þér. Vér komum frá Íþökuborg
undir Nejfjalli; en það mál, sem eg hef að flytja, er
eigið erindi, en ekki alþjóðlegt málefni. Eg fer að vita, hvort
eg heyri nokkurstaðar fregn fara af föður mínum, hinum
ágæta, þrautgóða Odysseifi, er menn segja verið hafa í hernaði
með þér fyrrum og lagt í eyði borg Trójumanna. Höfum vér
frétt af öllum öðrum, þeim er við Trójumenn börðust, hvar
hverr þeirra hefir dáið döprum dauða; en af hans dauða hefir
Kronusson enga fregn látið fara: því enginn kann með vissu
að segja, hvar hann er dáinn, hvort heldur hann hefir á landi
látizt fyrir óvinum sínum, eða þá á hafinu í bylgjum Amfítrítu.[** konu Posídons.]
Því kem eg nú fyrir kné þín, og bið þig segja mér frá hans
döprum dauða, ef þú hefir sjálfur verið sjónarvottur að, eða
heyrt einhvern ferðamann frá segja; hefir móðir hans fætt
hann til meiri ógæfu en aðra menn. Seg eigi vilhallt af virðingu
fyrir mér eða af vorkunsemi við mig, seg mér heldur
rétt eins og fyrir augu þín hefir borið. Eg bið þig: hafi faðir
minn, hinn góði Odysseifur, nokkuru sinni í orði eða verki gert
bón þína í landi Trójumanna, hvar þér Akkear urðuð mannraunum
að sæta, þá lát mig nú njóta þess, og seg mér satt frá“.
102 Hinn Gerenski riddari Nestor svaraði honum: „Vinur,
þar minnir þú mig á þá nauð, er vér þoldum í því landi, enir
ofurhuguðu synir Akkea, bæði á þær raunir, er vér biðum, þá
vér svifum til rána á skipum yfir hið dimmleita haf, hvert
sem Akkilles stefndi, og á þá bardaga, er vér áttum hjá hinni
miklu borg Príamus kóngs; þar féllu hverr að öðrum þeir er
hraustastir voru: þar liggur hermaðurinn Ajant: þar liggur
Akkilles: þar liggur Patróklus, hinn goðumjafni ráðsnillingur:
þar liggur minn kæri son, Antílokkus, er var jafnhraustur sem
ágætur, manna hvatastur á hlaupi og hverjum manni betur
vígur; og margt annað andstreymi þoldum vér hér á ofan.
Hverr dauðlegra manna mundi sagt geta frá því öllu? Nei,
þó þú dveldir hér í fimm ár og í sex ár, og spyrðir að því,
hversu margar raunir hinir ágætu Akkear hafa þolað í því
landi, þá mundir þú fyrr verða leiður og snúa heim aftur til
þíns föðurlands. Því í níu ár leituðum vér við á allar lundir
að vinna þeim mein með alls konar vélum, og varla lét Kronusson
það framgengt verða. Þar dugði engum nokkuru sinni að
fara í mannjöfnuð um ráðkænsku, því hinn ágæti Odysseifur
bar langt af öllum í hvers kyns vélræðum, faðir þinn; sértu
raunar sonur hans: mikið finnst mér um, þá eg horfi á þig:
því sannlega er orðalagið líkt, og engum skyldi til hugar koma,
að nokkurr ungur maður talaði svo líkt honum. Alla þá stund
urðum við aldrei sundurorða, eg og hinn ágæti Odysseifur,
hvorki á þingi né á ráðstefnu, heldur vorum báðir samhuga,
og gerðum ráð vor með skynsemd og viturlegu ráðlagi, að sem
heilladrjúgust yrði fyrir Argverja. En er vér höfðum lagt í
eyði hina hávu borg Príamusar, þá stofnaði Seifur Argverjum
hryggilega heimför; því ekki voru þeir allir hyggnir eða réttsýnir,
og því hrepptu margir þeirra ill afdrif, sökum skaðvænnar
reiði Glóeygar, dóttur hins sterka föður, sú er deilu
lét upp koma meðal beggja Atreifssona. Þeir bræður stefndu
öllum Akkeum til þings, ófyrisynju og eigi eftir réttum sið,
um niðurgöngu sólar, svo synir Akkea komu þangað víndrukknir;
lýstu þeir bræður yfir því, hvers vegna þeir hefði
samankallað herinn. Þá bað Menelás alla Akkea hyggja á heimför
yfir hinn víða sjávarflöt. En Agamemnoni líkaði það með
engu móti, því hann vildi halda hernum eftir, og stofna heilög
hundraðsblót, að hann mætti mýkja hina ógurlegu reiði Aþenu,
en hann vissi það ekki fávís maður, að hún mundi ekki láta
eftir vilja hans: því hugur hinna eilífu guða skipast ekki þegar.
Þannig stóðu þeir báðir, og skiptust illyrðum við; en hinir
fagurbrynhosuðu Akkear spruttu upp með geysilegum gný, því
sitt leizt hvorum.
151 Sváfum vér nú af um nóttina og höfðum illan huga
hvorir til annarra, því Seifur bjó oss illa ógæfu. En árla morguns
drógu sumir af oss skip til sjóvar, fluttum fjárhluti
vora á skip og hinar hábeltuðu konur; en helmingur liðsins
var þar kyrr eftir hjá herforingjanum Agamemnoni Atreifssyni.
Vér hinir stigum á skip og rérum burt; gengu skipin mjög
fljótt, því einhverr guð gerði láslétt á hinu geysivíða hafi. En
er vér komum til Teneduseyjar, stofnuðum vér guðunum blót,
því oss langaði heim. En Seifur lét oss enn ekki heimkomu
auðið verða, því sá hinn grimmi guð vakti illa deilu á ný. Þeir
sveitungar hins fróðhugaða, fjölráða Odysseifs gerðu það í vil
Agamemnoni Atreifssyni, að þeir snéru aftur og stigu á hin
borðrónu skip. En er eg sá að einhverr óhamingjuguð ætlaði að
steypa oss í ógæfu, þá flýði eg burt með öll þau skip, er mér
fylgdu. Þá flýði og kempan Týdeifsson, og eggjaði menn sína.
Loksins kom og hinn bleikhári Menelás á eftir okkur, og náði
oss í Lesbey; vorum vér þar að ráðslaga um hina löngu siglingu,
hvort vér skyldum halda fyrir ofan hina bröttu Kíey, og stefna
á eyna Psyríu, en hafa Kíey á vinstri hönd oss, eða skyldum
vér halda fyrir neðan Kíey, fram hjá hinum stormsama Mímanti.
Þá báðum vér guð að birta oss eitthvert teikn; og hann lét
oss sjá teikn, og bauð oss að sneiða þvert yfir hafið til Evbeu,
að vér sem skjótast kæmumst undan ógæfunni. Tók þá hvass
vindur að blása, en skipin hlupu skjótt yfir fiskabrautirnar, og
lentu um nótt við Gerestus; lögðum vér á altari Posídons marga
griðunga lærleggi, þá vér vorum komnir yfir hið mikla haf. Á
fjórða degi lentu félagar riddarans Díomedess Týdeifssonar hinum
jafnbyrðu skipum við Argverjaborg. En eg hélt til Pýlusborgar;
og féll aldrei byrinn úr því guð í fyrstu hafði látið hann
á koma. Þannig kom eg heim fréttalaus, sonur sæll, og veit alls
ekki, hverjir af hinum Akkeum hafa heilir heim komizt eða
hverjir týnzt hafa. En það sem eg hefi spurt, síðan eg settist
um kyrrt heima, er skylt að þú fáir að vita, og skal ekki leyna
þig því. Það segja menn, að hinir spjótfimu Myrmídónar, er
fylgdu hinum fræga syni hins hugstóra Akkilless,[* Þ. e. Neoptolemus, sjá XI 506—537.] hafi heilu
og höldnu heim komizt, og eins Fílóktetes, Peants frægi son.
Ídomeneifur hefir og komið öllum félögum sínum heim til
Krítar, þeim er af komust úr stríðinu, og engan mann misst í
hafi. En frá Atreifssyni munuð þér heyrt hafa, þó þér búið hér
fjarri, bæði um heimkomu hans, og hversu Egistus bjó honum
dapran dauða; hefir hann og goldið þess grimmlega. Hversu
gott var það, að hinn vegni maður hafði látið son eftir sig!
Því hann hefndi sín á föðurbana sínum, hinum vélráða Egistus,
er drap hans fræga föður. Einnig þú, vinur, sem ert svo vænlegur
og vöxtulegur, ver hraustur, svo að eftirkomandi menn
beri þér líka gott orð“.
201 Hinn vitri Telemakkus svaraði honum: „Nestor Neleifsson,
þú mikli sómi Akkea! Drengilega hefir hann hefnt sín,
enda munu Akkear víða bera frægð hans, svo að spyrjast mun
fram í ættir. Þess vildi eg óska, að goðin léntu mér annað eins
þrek, til að hefna þess hins raunalega yfirgangs á biðlum þeim,
er hafa í frammi við mig frekjufullan ofstopa! En goðin hafa
ei látið mér slíkrar gæfu auðið verða, né föður mínum; verð
eg því nú að þreyja við svo búið“.
210 Hinn Gerenski riddari Nestor svaraði honum: „Með
því þú, vinur, hefir komið orði á þetta við mig, þá er þér að
segja, að það orð leikur á, að margir biðlar heimsæki móður
þína að óvilja þínum, og geri óspektir í höllinni. Seg mér: lætur
þú kúgast viljandi, eða hatast landsfólkið við þig, laðað af raust
einhvers guðs? En hverr veit, nema hann kunni einhvern tíma
að koma og hefna á þeim ofríkis þeirra, annaðhvort einn saman,
eður og allir Akkear með honum? Því ef hin glóeyga Aþena
vildi eins unna þér, og henni fyrrum var annt um hinn fræga
Odysseif í landi Trójumanna, hvar vér Akkear áttum mannraunum
að sæta, - því aldrei hef eg séð guði svo berlega unna
nokkurum manni, eins og Pallas Aþena stóð honum til annarrar
handar bersýnilega, - ef hún vildi unna þér eins, og annast
af hjarta, þá mætti svo fara, að einhverr þeirra yrði afhuga
ráðahagnum“.
225 Hinn vitri Telemakkus svaraði honum: „Gamli maður,
aldrei held eg þetta orð rætist; því þú hefir mælt helzt til mikið,
svo mig undrar stórum. Ekki gæti eg vænt þess, og ekki þó sjálf
goðin vildu það“.
229 Hin glóeyga gyðja Aþena svaraði honum: „Ekki skaltu
láta þér slík orð um munn fara, Telemakkus. Auðveldlega
getur guð, þá hann vill, frelsað manninn, þó hann sé fjarri sínum.
Heldur mundi eg vilja, þó eg ætti áður margar þrautir
að reyna, komast til húss míns og sjá minn heimkomudag,
heldur en að vera drepinn á heimili mínu, þá eg væri heim
kominn, eins og Agamemnon var drepinn með svikum af Egistus
og konu sinni. Ekki eru samt goðin svo máttug, að þau fái
varið manninn, enn þótt þeim væri kær, fyrir dauðanum, sem
öllum er vís, þegar hin skaðvæna Banagyðja, sem ræður dauðanum,
er manninn leggur flatan, hefir einu sinni yfirbugað
hann“.
239 Hinn vitri Telemakkus svaraði henni: „Mentor, ræðum
ei lengur hér um, þó oss falli nær; því ekki verður honum
framar heimkomu auðið, heldur hafa hin ódauðlegu goð fyrir
löngu ætlað honum dauða og dimma feigð. En nú vil eg
spyrjast fyrir og frétta Nestor að öðru, því hann er öðrum
mönnum réttsýnni og vitrari: segja menn hann hafi nú konungur
verið þrenna mannsaldra, svo mér virðist, þá eg horfi á
hann, sem væri hann einhver ódauðlegur. Nestor Neleifsson,
seg mér satt frá: hvernig dó hinn víðlendi konungur Agamemnon
Atreifsson? hvar var Menelás? hvern dauða bjó hinn vélráði
Egistus honum, er hann drap sér miklu hraustara mann? eða var
Menelás ekki í hinu Akkeska Argverjalandi[* Þ. e. í Peloponnesi.] heldur einhvers
staðar annars staðar á hrakningi meðal manna, að hann skyldi
áræða að drepa hann?“
253 Hinn Gerenski riddari Nestor svaraði honum: „Eg skal
þá segja þér satt frá öllu, sonur. Þú mátt sjálfur nærri geta,
hvernig farið hefði, ef hinn bleikhári Menelás, þá hann kom
frá Trójulandi, hefði hitt Egistus lífs heima í höllinni. Þá hefði
ekki haugur verið orpinn eftir hann dauðan, heldur hefðu
hundar og hræfuglar sundurrifið hann, liggjanda á víðavangi,
langt frá Argverjalandi; engin af konum Akkea hefði þá heldur
grátið hann, því hann hafði framið mikið vonzkuverk. Meðan
vér dvöldum í Trójulandi og unnum margar þrautir, sat hann
makráður innst inni í hinu hestauðuga Argverjalandi, og tældi
á marga vega með orðum konu Agamemnons. Hin ágæta
Klýtemnestra varðist að vísu í fyrstu því hinu ósæmilega verki,
því hún var vel viti borin; þar var og hjá henni söngmaður
einn, er Atreifsson hafði, áður en hann fór til Trójulands, með
mörgum orðum beðið fyrir að gæta konu sinnar. En þegar
álög goðanna höfðu svo fjötrað hana, að hún varð unnin, þá
flutti hann söngmanninn út á eina eyðiey, og skildi hann þar
eftir, til þess hann yrði hræfuglum að bráð og herfangi, en
leiddi hana viljugur viljuga heim til húss síns, brenndi marga
lærleggi á goðanna helgu ölturum, og fórnfærði mörgum blótgjöfum
í dúkum og gulli, eftir það hann hafði framið þetta
stórræði, er hann aldrei hafði búizt við að fá afrekað. Við
höfðum nú samflot frá Trójulandi, Atreifsson og eg; því milli
okkar var góð vinátta. En er við komum til hins helga Súníuness,
fremst á Aþenalandi, þá réðst Febus Apollon að skipstjórnarmanni
Menelásar, Frontis Onetorssyni, meðan hann
hafði hendur á stýrinu og skipið var á rás, og banaði honum
með sínum þýðu skeytum; sá kunni hverjum manni betur að
stýra skipi, þegar vindbyljir æddu. Þannig dvaldist hann þar,
þó honum væri mjög annt um ferðina, til að jarða félaga sinn
og gera útför hans. Síðan hélt hann yfir hið dökkva haf á
hinum rúmgóðu skipum. En er hann kom siglandi til hins háva
Maleafjalls, þá gerði hinn víttþrumandi Seifur hraklega för
hans, og jós yfir hann blæstri þjótandi vinda og digrum öldum,
geysistórum, sem fjöllum: þá sundraði hann flotanum, og rak
sum skipin til Krítar að Jardanar straumum, hvar Kýdónar
bjuggu. Við yztu landamerki Gortúnsborgar, út við hið dimmleita
haf, gengur fram í sjóinn hamar nokkur, sléttur og hár;
þar rekur sunnanvindurinn hina stóru bylgju að vinstra höfðanum
og inn til Festusborgar, en þar bægir lítill steinn hinni miklu
öldu. Hingað bar skipin, og komust menn naumast lífs af, en
öldurnar brutu skipin við klettana; en fimm hin en stafnbláu
skip hröktust fyrir sjó og vindi að Egyptafljóti. Meðan hann
þannig flakkaði á skipum meðal útlendra manna, og safnaði
miklu fé og gulli, vann Egistus þann ófögnuð heima, að hann
drap Atreifsson og braut undir sig landsfólkið. Hann réð sjö
ár hinni gullauðugu Mýkenu, en á áttunda ári kom hinn ágæti
Orestes, honum til meins, heim aftur frá Aþenuborg, og drap
föðurbana sinn, hinn vélráða Egistus, er vegið hafði hans fræga
föður; og sem hann hafði vegið hann, gerði hann Argverjum
erfisdrykkju eftir sína viðurstyggilegu móður og hinn dáðlausa
Egistus. En hinn sama dag kom hinn rómsterki Menelás heim,
og hafði með sér mikla fjárhluti, svo mikinn þunga, sem skip
hans máttu með komast. Ekki ættir þú heldur, vinur, að hrekjast
lengi langt í burt frá heimili þínu, og skiljast við eigur þínar
og slíka ofstopamenn, sem eru í húsi þínu, að þeir ekki eyði
fyrir þér öllu fénu og skipti því í milli sín, og farir þú svo
ferðina til ónýtis. Nú ræð eg þér, og bið þig að fara til Menelásar,
því hann er nýkominn úr útlöndum, frá þeim mönnum, hvaðan
engum mundi þykja afturkæmilegt, þeim er stormbyljirnir
hefðu eitt sinn hrakið út á slíkt reginhaf, og hvaðan jafnvel
fuglinn fljúgandi ekki kemst á einu ári: svo stórt og óttalegt
er það. Nú skaltu fara þangað með skip þitt og menn þína;
en viljir þú heldur fara landveg, þá er þér til reiðu vagn og
hestar, og synir mínir, sem skulu fylgja þér til ennar helgu
Lakedemonar, hvar hinn bleikhári Menelás býr. Bið þú hann
sjálfan að segja þér satt, og mun hann eigi ósatt segja, því hann
er maður stórvitur“.
329 Þannig mælti hann; en sólin rann og rökkrið kom yfir.
Hin glóeyga gyðja Aþena mælti þá til þeirra: „Víst hefir þú,
aldraði maður, sköruglega mælti. En brytjið nú tungurnar og
blandið vínið, að vér færum Posídoni og öðrum goðum dreypifórn,
áður vér göngum til hvílu: því mál er að hátta, þar
ljósið er horfið ofan í næturheim; og sæmir eigi að sitja lengi
að veizlu goðanna, heldur fara heim“. Svo mælti dóttir Seifs,
en þeir hlýddu orðum hennar. Kallararnir helltu vatni á hendur
þeim; sveinarnir fylltu skaftkerin á barma með drykk, skenktu
á drykkjarkerin til dreypifórnar handa hverjum og skömmtuðu
öllum. Síðan létu menn tungurnar á eldinn, stóðu upp og dreyptu
þar yfir dreypifórn. En er þeir höfðu dreypt, og drukkið, sem
þá lysti, þá vildu þau bæði, Aþena og hinn goðumlíki Telemakkus,
fara aftur til hins rúmgóða skips; en Nestor vildi ekki
sleppa þeim og tók svo til orða við þau: „Láti Seifur og hin
önnur ódauðleg goð það aldrei verða, að þið farið frá mér
ofan til hins fljóta skips, eins og eg væri með öllu klæðalaus
eða sem sá fátæklingur, er hvorki hefur til yfirhafnir eða nógar
ábreiður í húsi sínu, að hann sjálfur og gestir hans geti átt
mjúka sæng. Bæði á eg til yfirhafnir og fallegar ábreiður. Aldrei
skal sonur slíks manns, sem Odysseifur er, leggja sig niður á
skipsþiljur, meðan eg lifi; en eftir minn dag munu synir mínir
verða hér í húsum, til að taka á móti þeim gestum, sem koma
kunna að garði mínum“.
356 Hin glóeyga gyðja Aþena svaraði honum: „Vel er slíkt
mælt, kæri öldungur, og á Telemakkus að hlýða þér, því svo
er miklu sæmra. Hann skal nú fylgjast með þér, að hann megi
hvíla í húsum þinum; en eg mun fara ofan til hins dökkva
skips, til að hughreysta förunauta vora og skipa fyrir, því eg
þykist einn vera elztur þeirra: hinir eru yngri, og allir jafnaldra
hinum hugmikla Telemakkusi, og fylgjast með fyrir vináttu
sakir. Þar mun eg hvíla í þetta sinn á hinu rúmgóða, dökkva
skipi; en á morgun mun eg fara til hinna hugstóru Kákóna, á
eg þar gamla skuld hjá manni, ekki svo litla. En með því
Telemakkus verður hjá þér til gistingar, þá greið þú för hans,
og ljá honum vagn og son þinn, og fá honum hesta, þá er þú
átt léttasta til skeiðs og styrkasta“.
371 Að því mæltu fór hin glóeyga Aþena burt, í arnar líki.
Allir, sem það sáu, urðu forviða; og öldungurinn undraðist,
þá hann leit það augum; hann þreif um hönd Telemakkusar,
tók til orða og mælti: „Það vonar mig, vinur, að þú munir
eigi verða huglaus og duglaus, fyrst goðin veita þér slíka fylgd,
ungum manni; því þetta var enginn annar af þeim guðum,
sem búa í Ólymps sölum, en dóttir Seifs, hin loflegasta Trítogenía,
sú er unni þínum góða föður meir en öllum öðrum Argverjum.
Miskunna mér, þú hin máttuga gyðja, og veit mér gott orðlof
og börnum mínum og minni heiðvirðu konu. Eg skal blóta
þér í staðinn ársgamalli kvígu, óþjáðri, er aldrei hefir verið
undir ok leidd; skal eg gullbúa horn hennar, áður eg blóta þér
henni“. — Þessum orðum baðst hann fyrir, en Pallas Aþena
heyrði bæn hans.
386 Síðan gekk hinn Gerenski riddari Nestor á undan þeim
sonum sínum og tengdasonum til hinna fögru herbergja sinna.
En er þeir komu til hinna ágætu herbergja konungsins, settust
þeir, hver að öðrum, á legubekkina og hástólana. Og er þeir
voru komnir, blandaði öldungurinn í skaftkeri ljúffengt vín;
hafði ráðskonan tekið það af ílátinu og losað um lokið á ellefta
árinu. Þetta vín blandaði öldungurinn í skaftkerinu, dreypti
dreypifórn og hét ákaflega á Aþenu, dóttur Seifs Ægisskjalda.
En er þeir höfðu dreypt, og drukkið, sem þá lysti, gekk hverr til
síns herbergis að leggja sig til svefns. En Telemakkus, hinn
ástkæra son hins ágæta Odysseifs, lét hinn Gerenski riddari
Nestor sofa þar á útskornum legubekk í hinum ómanda svölugangi,
og hjá honum hinn spjótfima, fyrimannlega Písistratus,
sem einn var enn ókvæntur heima sona hans. En sjálfur svaf
hann innst inni í hinni hávu höll, og þar hvíldi húsfreyja hans
hjá honum.
404 En sem hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í
ljós, reis hinn Gerenski riddari Nestor úr rekkju, gekk út og
settist á hin fáguðu steinsæti, er voru fyrir framan hinar hávu
hallardyr: þau voru hvít og gljáandi af smyrslum; á þeim var
Neleifur, hinn goðumjafni ráðsnillingur, fyrrum vanur að
sitja, en síðan hann var sigraður af Banagyðjunni og genginn
til Hadesarheims, sat þar hinn Gerenski Nestor, vörður Akkea,
haldandi á veldissprota. — Kringum hann söfnuðust allir synir
hans, komnir frá herbergjum sínum, Ekefrón og Stratíus,
Perseifur og Aretus, og hinn goðumlíki Þrasýmedes; öðlingurinn
Písistratus var hinn sjötti, sem kom. Þeir höfðu með sér
hinn goðumlíka Telemakkus, og leiddu hann til sætis.
418 Hinn Gerenski riddari Nestor tók svo til máls: „Kæru
synir, gerið nú skjótt, það er eg mælist til; því eg vil hylla að
mér fyrst allra goða Aþenu, sem kom til mín bersýnilega; þá
eg hélt guðinum hina dýrlegu blótveizlu. Fari einn út í haga
eftir kvígunni, að hún komi sem fyrst, en yfirhirðir nautanna
reki hana heim; einn fari til hins dökkva skips hins hugstóra
Telemakkuss, og sæki alla skipverja hans, og láti eina tvo vera
eftir; einn kalli hingað gullsmiðinn Laerkes, að hann gullbúi
horn kvígunnar; en þér hinir bíðið hér allir saman, og gerið
boð inn til ambáttanna að búa til veizlu í hinum ágætu herbergjum,
bera að bekki og eldivið og tært vatn“.
430 Þannig mælti hann, en þeir flýttu sér allir. Kvígan kom
úr haganum; félagar hins hugstóra Telemakkuss komu frá hinu
gangfljóta, jafnbyrða skipi; smiðurinn kom, og hélt á smíðatólunum,
verkfærum íþróttarinnar, steðja, hamri og velgerðri
töng, er hann smíðaði gullið með; þar kom og Aþena til að
njóta blótsins. Hinn aldraði riddari Nestor lagði til gullið,
og því næst gullbjó smiðurinn horn kvígunnar með miklum
hagleik, svo gyðjan gleddist, þegar hún sæi blótgáfuna. Þeir
leiddu kvíguna á hornunum, Stratíus og hinn ágæti Ekefrón.
Aretus kom út úr herberginu með handlaugarvatn í skrautlegum
katli, en í annarri hendi hélt hann á körfu með blótbyggi.
Hinn vígdjarfi Þrasýmedes stóð þar hjá með bitra öxi í hendi,
til að höggva með kvíguna; Perseifur hélt á trogi. Hinn aldraði
riddari Nestor vígði blótið með handaþvotti og byggdreifingu,
skar svo hárlokk úr höfði kvígunnar og kastaði á eldinn, og
hét ákaflega á Aþenu. En jafnskjótt og þeir höfðu beðizt fyrir
og dreift blótbygginu, hjó hinn ofurhugaði Þrasýmedes, er þar
stóð hjá, Nestorsson, kvíguna; sneið öxin sundur hnakkasinarnar,
og tók allt magn úr kvígunni. Þá hétu þær hástöfum á
guðina dætur og sonakonur Nestors, sem og hans heiðvirða
kona Evrýdíka, elzta dóttir Klýmenuss. Síðan lyftu þeir kvígunni
upp frá hinni víðlendu jörð, og héldu henni, en hinn
fyrimannlegi Písistratus skar hana. En er hið dökkva blóð var
út runnið úr henni, og fjörið liðið úr beinunum, limuðu þeir
þegar sundur kvíguna; því næst skáru þeir úr lærbitana, allt
eftir réttum blótsið, huldu þá í mör og létu tvö vera mörlögin,
lögðu svo hráa kjötbita þar ofan á. Þetta brenndi hinn aldraði
maður yfir skíðum, og dreypti þar yfir skæru víni; en sveinar
stóðu hjá honum, og héldu á fimmyddum eldskörum. En er
lærbitarnir voru brunnir, og menn höfðu etið iðrarnar, brytjuðu
þeir hitt kjötið, stungu á teina og steiktu, og héldu hinum
oddhvössu teinum með höndunum.
[1047.png: Mynd af blóti.]
464 Hin fríða Pólýkasta, yngsta dóttir Nestors Neleifssonar,
laugaði Telemakkus á meðan. En er hún hafði laugað hann, og
smurt með viðsmjörsviðar feiti, og lagt yfir hann hina fögru
yfirhöfn og kyrtil, þá sté hann upp úr laugarkerinu, líkur
vexti hinum ódauðlegu; fór hann þá og settist hjá þjóðhöfðingjanum
Nestori. En er menn höfðu steikt kjötstykkin, sem yfir
eldinum voru, og tekið þau af teinunum, settust þeir að veizlu;
en röskir menn voru á gangi, og skenktu vín á gullker. En er
þeir höfðu satt löngun sína á mat og drykk, tók hinn Gerenski
riddari Nestor til máls: „Synir mínir, leiðið hingað hina faxprúðu
hesta, og beitið þeim fyrir vagn, svo Telemakkus komist——————————————
leiðar sinnar“. Svo mælti hann; en þeir heyrðu orð hans og
hlýddu honum, og beittu skjótlega hinum fráu hestum fyrir
vagninn. En ráðskonan lét í vagninn brauð og vín, og þess
kyns sufl, er seifbornir konungar eta. Þá sté Telemakkus upp
í hið fagra vagnsæti; og hinn fyrimannlegi Písistratus Nestorsson
sté upp í vagninn hjá honum, og tók taumana með höndunum.
Hann keyrði hestana af stað, en þeir runnu viljugir
fram á völluna, og yfirgáfu hina hávu Pýlusborg, og skóku okið
allan daginn á hálsum sér. — Nú rann sól, og skugga brá yfir
alla vegu. En þeir komu til Feruborgar að húsi Díokless Orsílokkssonar
Alfeussonar; þar voru þeir um nóttina, og gaf hann
þeim gestgjafir.
491 En er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í
ljós, beittu þeir hestunum fyrir, og stigu upp í hinn fjölskreytta
vagn. Þá keyrði hann hestana af stað, en þeir tóku viljugir á
rás. Þeir komu nú á hið hveitifrjóva akurland, og sóttist brátt
leiðin, því hina fráu hesta bar skjótt yfir. Rann nú sól, og brá
skugga yfir alla vegu.
[1048.png]
[1049.png]
FJÓRÐI ÞÁTTUR.
TELEMAKKUS Í SPÖRTU HJÁ MENELÁSI.
ÞEIR komu til Lakedemonar, sem lá í djúpum og víðum
dal, og óku til hallar hins frægar Menelásar. Þeir
hittu svo á, að hann hélt veizlu mörgum vinum sínum
í höll sinni, að brúðkaupi sonar síns og hinnar ágætu dóttur
sinnar. Dóttur sína[* Hermíónu.] sendi hann syni Akkillesar fylkingabrjóts:[** Neoptólemus, sjá III, 188.]
því hann hafði þegar í Trójulandi lofað og bundið fastmælum
að gefa honum hana, og létu nú guðirnir ráðahag þeirra til
vegar komast; sendi hann hana þá með hestum og vagni til
hinnar víðfrægu borgar Myrmídóna,[*** Fiðju (Phthia), XI, 495-6.] er hann var konungur
yfir. En dóttur Alektors frá Spörtu gifti hann syni sínum, hinum
sterka Megapentes, er hann hafði átt einan sona við ambátt
nokkurri; því guðirnir létu Helenu ekki verða barna auðið,
síðan hún ól hina ástkæru Hermíónu, sem bar fríðleik hinnar
gullfögru Afrodítu.
[1050.png: Landslag við Spörtu.]
20 Nú námu þeir báðir staðar með vagninn við fordyr
hallarinnar, öðlingurinn Telemakkus og Nestors frægi son. Hinn
fyrimannlegi Eteóneifur, röskur þjónustumaður hins fræga
Menelásar, sá þá, í því hann gekk fram. Hann gekk í gegnum
herbergin til að segja þjóðhöfðingjanum tíðindin, nam staðar
hjá honum og talaði til hans skjótum orðum: „Seifborni Menelás,
hér eru komnir einhverjir tveir ókunnir menn, því líkir
sem vera muni af ætt hins mikla Seifs. Seg nú, hvort vér
skulum leysa hina fráu hesta frá vagni þeirra, eða vísa þeim til
einhvers annars manns, er veiti þeim góðar viðtökur“.
30 Hinn bleikhári Menelás varð fár við, og sagði til hans:
„Fyrrum varstu óheimskur maður, Eteóneifur Bóetusson, en nú
talar þú heimskulega sem barn. Það er þó satt bezt að segja, að
við höfum báðir lifað lengi á gestbeina annarra manna, áður
við komumst heim hingað; og væri vel, ef Seifur létti á oss
raununum, það eftir er. Leystu fljótt frá hesta komumanna, og
leið þá sjálfa innar til snæðings“.
37 Þannig mælti hann, en hinn hljóp út úr stofunni, og
kallaði á aðra ötula þjónustumenn að fylgja sér; þeir leystu
hina sveittu hesta undan okinu, bundu þá við hestajöturnar,
köstuðu fyrir þá einkorni[* hveitistegund í Suðurlöndum, betri til fóðurs en hafrar.] og blönduðu þar saman við hvítu
byggi, en hölluðu vagninum upp við hina skínandi hallarveggi,
leiddu síðan gestina inn í hið veglega hús. En er þeir lituðust
um í húsi hins seifborna konungs, undruðust þeir: því ljóminn
í hinu háþakta húsi hins fræga Menelásar var sem bjarmi af
sólu eða tungli. En er þeir höfðu litazt um, sem þá lysti, stigu
þeir ofan í velskafin laugarker, og létu lauga sig, og er ambáttirnar
höfðu laugað þá, og smurt með viðsmjöri, og lagt yfir
þá loðkápur og kyrtla, þá settust þeir á hástóla við hlið Menelásar
Atreifssonar. Þá kom herbergismær með handlaug í fagri
vatnskönnu úr gulli á silfurfati, og hellti á hendur þeim, að
þeir gæti þvegið sér; þá setti hún hjá þeim skafið borð, en hin
heiðvirða matselja kom með brauð og lagði hjá þeim, hún
bar og fram marga rétti, og lét til fúslega það sem til var. Hinn
bleikhári Menelás heilsaði þeim, og sagði til þeirra: „Takið til
matar, og verið velkomnir! En síðan, þá þið hafið matazt,
munum vér spyrja, hvaða manna þið séuð. Sjá má á ykkur,
að kyn feðra ykkar er ekki undir lok liðið, heldur að þið eigið
kyn að rekja til seifborinna manna, veldissprota berandi konunga:
því ekki mundu ótignir menn slík mannsefni alið hafa“.
65 Að því mæltu tók hann í hönd sér og lagði fyrir þá
steiktan nautshrygg feitan, eins og vant var að leggja fyrir
sjálfan hann í virðingar skyni. Tóku þeir nú til þess tilreidda
matar, er fram var settur. En er þeir höfðu satt lyst sína á
mat og drykk, talaði Telemakkus til Nestorssonar, og laut höfði
til hans, svo aðrir skyldi ekki heyra: „Hjartkæri Nestorsson,
líttu á ljómann, í hinum ómandi herbergjum af eirinu, rauðagullinu,
lýsigullinu, silfrinu og fílsbeininu. Þessu lík mun höll
hins Ólympska Seifs vera innan. Hversu ósegjanlega mikið og
margt er hér inni! Eg undrast stórum, þá eg horfi á það“.
76 Hinn bleikhári Menelás varð þess áskynja, sem hann talaði;
tók hann þá til máls, og talaði skjótum orðum til þeirra:
„Kærir synir, enginn dauðlegra manna skyldi jafna sér við Seif,
því hans höll er eilíf, og húsbúnaður hið sama. En fáir munu
gefa um að metast við mig um auðlegðina, því margt varð eg
að reyna og víða hrekjast, þá eg flutti fé þetta með mér á
skipum; og á áttunda ári komst eg loks heim. Eg hraktist til
Kýpurs og Feníkalands og til Egyptalandsmanna; síðan kom
eg til Eþíópa, Sídonsmanna og Eremba, og til Libýu, hvar
lömbin verða skjótt hyrnd, því ærnar bera þrisvar árið um
kring: bæði hússbændur og hjarðmenn hafa þar nógan ost,
kjöt og sæta mjólk, því ærnar mjólka allt árið í gegnum. Meðan
eg flakkaði um kring í þessum löndum, drap annar maður
bróður minn á laun, óvörum, með svikum hinnar fársfullu
konu hans: þannig em eg eigandi orðinn að fjármunum þeim,
sem hér eru, og ekki með sældinni. Enda munuð þið heyrt
hafa hjá feðrum ykkar, að eg hefi í margar raunir ratað, og
misst það hús, er að öllu var vel búið og hafði marga góða
hluti að geyma. Eg hefði viljað til vinna, að eg ætti ei nema
þriðjung þess fjár innanstokks, en þeir menn væri á lífi, er
þá létust í hinu víða Trójulandi, fjarri enu hestauðga Argverjalandi.
Alla þessa menn harma eg og trega: og oft, þá eg sit í
herbergjum mínum, geri eg ýmist, að eg svala huga mínum
með harminum, ýmist hætti honum, því skjótt verður maður
saddur á hinum kalda harmi. En þó eg tregi þá alla, þá harma
eg þó engan þeirra eins og einn, er lofar mér hvorki að njóta
svefns né matar, þá eg minnist hans. Því enginn Akkea hefir
afborið jafnmiklar þrautir og Odysseifur hefir afborið og í
komizt; hafa raunirnar átt fyrir honum að liggja, en fyrir mér
æ ógleymanleg sorg út af hans löngu fjarvistum, þar sem vér
vitum ei, hvort hann er lífs eða liðinn; mun nú víst gamli Laertes
harma hann, og hin vitra Penelópa, og Telemakkus, er hann
eftirskildi nýfæddan í húsi sínu“.
113 Þannig mælti hann, og vakti upp hjá honum lyst til
að gráta föður sinn; hann felldi tár af brám til jarðar, þá hann
heyrði nefndan föður sinn, og hélt purpuraskikkjunni báðum
höndum fyrir augu sér. Menelás tók eftir því, og leiddi nú
huga sinn um, hvort hann skyldi lofa honum að minnast
föður síns, eða skyldi hann spyrja hann fyrst tíðinda af létta.
120 Meðan hann hreifði þessu í huga sér, kom Helena frá
hinum ilmanda loftsal, lík Artemísi Gullinörvu. Með henni
kom Adrasta, hún setti fram fallegan legubekk: Alkippa hélt
á mjúkum ullardúki: en Fýló bar silfurkörfu, er Alkandra
hafði gefið drottningu, kona Polýbuss, er bjó í Þebu hinni
egypzku, hvar eð gripir finnast í húsum flestir; hann gaf
Menelási tvö laugarker úr silfri, tvo katla og tíu vættir gulls;
en kona hans gaf Helenu sér í lagi fagrar gjafir: hún gaf
henni gullsnældu og silfurkörfu með hjólum undir, og voru
barmarnir af gulli gjörvir. Þessa körfu bar þjónustumærin Fýló
troðfulla af vönduðu bandi, og setti hjá drottningu, en ofan á
körfunni lá snældan með blárauðri ull á. Drottning settist á
bekkinn, og var skör undir til að standa á; fór hún þegar að
spyrja mann sinn tíðinda: „Vitum við með vissu, seifborni
Menelás, hverjir þessir menn eru, sem okkur hafa heimsótt?
Mun eg fara með ginningar, eða ætla eg segi satt? Mig langar
til að segja nokkuð. Aldrei ætla eg mig séð hafa nokkurn mann
svo áþekkan öðrum, hvorki karl né konu (eg undrast stórum,
þá eg horfi á hann), eins og þessi maður líkist syni hins stórhugaða
Odysseifs, Telemakkusi, er hann eftirskildi nýfæddan
í húsi sínu, þá þér Akkear fóruð sökum mín, blygðunarlausrar
konu, upp til Trójulands með grimmum ófriðarhug“.
147 Hinn bleikhári Menelás svaraði henni, og sagði: „Eg
held nú og, að svo sé, sem þú til getur, kona; því þessu líkir
voru fætur Odysseifs og hendur, svo og augnaráð hans, höfuð
og höfuðhár; og þegar eg rétt nýlega minntist á Odysseif, og
gat um, hve margar raunir hann hafði þolað mín vegna, þá
hélt hann purpuraskikkjunni fyrir augu sér, og lét drjúpa beiskt
tár undan brúnum“.
155 Písistratus Nestorsson svaraði honum: „Seifborni Menelás
Atreifsson, þjóðhöfðingi! Svo er víst, sem þú segir, að þetta er
sonur hans; er hann siðlátur maður, og fyrirverður sig, fyrsta
sinn er hann kemur hér, að hafa í frammi orðahvatvísi við þig,
er við höfum þá skemmtan af máli þínu, sem værir þú einhverr
goðanna. En hinn Gerenski riddari Nestor sendi mig hingað
til fylgdar við hann: lék honum hugur á að koma á fund þinn,
til þess að fá hjá þér tillögu nokkura í orði eða verki: því marga
raun hefir sonur fjarveranda föður á heimili sínu, þegar hann
hefir enga aðstoðarmenn, eins og nú er ástatt fyrir Telemakkus,
er faðir hans er á burtu, og á sjálfur engan að í landinu, er
bægja megi böli hans“.
168 Hinn bleikhári Menelás svaraði honum, og sagði: „Mikil
undur! Sannlega hefir heimsótt mig sonur þess manns, sem
mér er kær, og mín vegna hefir þolað margar þrautir. Það
hafði eg ætlað, að eg mundi betur hafa fagnað honum, en
öðrum Argverjum, ef hinn Ólympski, víttþrumandi Seifur hefði
unnt okkur báðum að komast yfir hafið á hinum gangfljótu
skipum. Þá skyldi eg hafa rýmt handa honum eina af þeim
borgum í Argverjalandi, sem hér eru í grennd og eg á sjálfur
yfir að ráða, byggt honum hana og látið smíða honum höll,
og flutt hann frá Íþöku með fjárhlutum sínum, syni sínum og
öllu fólki sínu. Þar skyldum við oft hafa fundizt, og enginn
hlutur skyldi skilið hafa skemmtan okkar og vinahót, fyrr en
dauðans dimma mokk hefði yfir dregið. En sjálfur guð mun
ekki hafa átt að unna okkur þess, þar sem hann hafði látið
þenna ógæfusama mann vera þann eina, sem ekki varð heimkomu
auðið“.
183 Þannig mælti hann, og vakti grátfýsi hjá þeim öllum:
þá grét hin Argverska Helena, afspringur Seifs, þá grét Telemakkus
og Menelás Atreifsson, og þá gat ekki heldur Nestorsson
tára bundizt: því hann minntist í huga sínum hins ágæta
Antílokkuss, er vegið hafði hinn frægi sonur hinnar björtu
Morgungyðju; og sem hann minntist hans, talaði hann skjótum
orðum: „Atreifsson, oft gat gamli Nestor þess, þegar oss var
til rætt um þig, að þú værir allra manna vitrastur. Veit mér og
nú eina bón mína, ef þú mátt: mér er það engin gleði að vera
harmandi að náttverði; hin árrisula Morgungyðja mun víst
koma enn sem fyrr. Að vísu lái eg það ekki, þó maður gráti,
þegar einhverr dauðlegra manna hefir dáið og beðið sinn bana;
það er sá eini heiður, er vesælir menn fá, að maður skeri hár
sitt og felli tár af kinnum. Því dáinn er og minn bróðir, sem
víst var ekki minnstur fyrir sér af Argverjum; þú munt víst
hafa þekkt hann, því okkar fundum bar aldrei saman, að eg
sæi hann; en mál manna er, að Antílokkus hafi verið afbragð
annarra manna að fráleik og vígfimi“.
203 Hinn bleikhári Menelás svaraði honum, og sagði: „Svo
hefir þú talað, vinur, sem vitur maður mundi tala og gjöra, og
þó eldri væri, en þú. Það er og von, að þú talir viturlega, er
þú átt til slíks föður að telja; því mjög er auðkennt afkvæmi
þess manns, hverjum Kronusson hefir skapað hamingju, bæði
þá hann fæðist, og eins þegar hann kvongast: eins og hann nú
hefir veitt Nestori það lán gjörvalla daga sína, að hann lifir
heima við góða kosti í elli sinni, og á bæði vitra sonu og hina
spjótfimustu. Hættum nú þeim gráti, sem fyrr hefir verið, tökum
því næst til náttverðar, og helli menn vatni á hendurnar;
en á morgun skulum vér Telemakkus talast við og mæla málum
okkar“.
216 Svo mælti hann; en Asfalíon, ötull þjónustumaður hins
fræga Menelásar, hellt vatni á hendur þeim; tóku þeir síðan
til þess tilreidda matar, sem fram var settur. En nú fann
Helena, dóttir Seifs, upp eitt ráð: hún lét fljótlega í vínið, sem
þeir drukku af, töfragras nokkurt, það var harmabót, reiðibót
og óminnislyf allra meina. Drykki nokkur þar af, eftir það að
blandað hafði verið með því í skaftkerinu, þá mátti sá maður
ekki tár af kinnum fella daglangt, þó hann missti bæði móður
og föður, og þó bróðir hans eða kær sonur væri með eirvopni
veginn að honum sjálfum viðstöddum og ásjáanda. Slík töfur,
af viti uppfundin og mögnuð, átti dóttir Seifs: hafði Polýdamna
hin Egypzka, kona Þóns, gefið henni þau; því þar í landi ber
hin kornfrjóva jörð flest töfragrös, mörg heilnæm til drykkjar,
og mörg banvæn; þar er og hverr maður öllum mönnum fróðari
í lækningum, sem von er til, er þeir eru Peons ættar. En
er hún hafði komið þessu í drykkinn og boðið að skenkja
vínið, tók hún af nýju til máls, og sagði: „Seifborni Menelás
Atreifsson, og þér ágætra manna synir, sem hér eruð! Guð
Seifur gefur ýmsum ýmist, bæði gott og illt; því hann getur
allt. Sitjið nú í höllinni og snæðið, og skemmtið yður með samræðum;
því nú skal eg segja fallega sögu. Að sönnu fæ eg
ei frá sagt eða upp talið allt það, er hinn þolgóði Odysseifur
vann í hreystibrögðum; en frá einu get eg sagt, sem hinn
hrausti maður vann og þoldi í landi Trójumanna, þar sem þér
Akkear áttuð mannraunum að sæta. Hann misþyrmdi sjálfum
sér með smánarlegum höggum, kastaði yfir sig vondum
flíkum, og leyndist svo, líkur þræli, inn í hina strætabreiðu
borg óvinanna; gerði hann sig nú ókennilegan, og líktist öðrum
manni en hann var, förukarli einum, og var þá með öllu
ólíkur því, er hann var hjá skipum Akkea. Leyndist hann nú,
líkur stafkarli, inn í borg Trójumanna. Þeir voru allir grunlausir,
og þekkti hann enginn í þessum búningi, nema eg; fór eg þá
að spyrja hann, en hann færðist kænlega undan. En er eg hafði
laugað hann og smurt með viðsmjöri og fært hann í fötin, og
svarið styrkan eið, að gera ei Trójumenn fyrr vara við, að hann
væri Odysseifur, en hann væri kominn til hinna gangfljótu
skipa og búðanna: þá tjáði hann mér alla fyrirætlan Akkea;
komst hann við það aftur til Argverja, að hann drap marga
af Trójumönnum með langeggjuðu eirvopni, og hafði fengið,
njósnir um margt. Hinar aðrar Trójukonur kveinuðu þá hástöfum,
en mitt hjarta gladdist: því mér var þá farið að leika
hugur á að komast heim aftur; tók mér að sárna sú ógæfa, er
Afrodíta hafði verið völd að, þá hún teygði mig þangað frá
mínu kæra föðurlandi, viðskila vorðna við dóttur mína, við
kvennasalinn, og við eiginmann minn, er ekki var eftirbátur
nokkurs, hvorki að vitsmunum, né vænleik“.
[1057.png: Trójuhesturinn.]
265 Hinn bleikhári Menelás svaraði henni og sagði: „Sannlega
hefir þú, kona, sagt rétt frá öllu þessu. Marga hefi eg
þekkt ágætismenn að ráðkænsku og vitsmunum, og um margt
land farið, og hefi eg þó aldrei augum litið slíkan ágætismann,
sem hinn þolgóði Odysseifur var að hjartaprýði. Til merkis um
þetta er þreklyndi það, er hann sýndi í enum skafna hesti. Vér
sátum í hestinum allir höfðingjar Argverja, og ætluðum Trójumönnum
dauða og feigð. Þá komstú þangað; mun sá hamingjuguð,
er unna vildi Trójumönnum sóma, hafa stefnt þér þangað:
og fylgdi þér hinn goðumlíki Deífobus. Þú gekkst þrisvar í
kring um hina holu launvél, og fórst höndum um hana alla.
Þá gerir þú þig líka í máli konum allra Argverja, og kallaðir
á höfðingja Danáa með nafni. Við Týdeifsson og hinn ágæti
Odysseifur sátum meðal þeirra, og heyrðum þig kalla; urðum
við þá báðir óðir, brugðum við, og vildum annaðhvort fara út,
eða gegna þegar inni, en Odysseifur aftraði okkur og hefti þann
hinn mikla ákafa okkar“.
290 Hinn vitri Telemakkus svaraði honum: „Seifborni
Menelás Atreifsson, þjóðhöfðingi! Því sárara er, að þetta hefir
þó ei frelsað hann frá döprum dauða, og mundi ei, þó hann
hefði haft járnhjarta í brjósti sér. En gerið nú svo vel, látið
okkur ganga til hvílu, svo við, sofnaðir, endurnærumst nú sem
fyrr af hinum sæta svefni“.
296 Svo mælti hann; en hin Argverska Helena bauð ambáttunum
að setja rúm í svöluganginn, láta þar í fagrar ábreiður
af purpura og breiða þar yfir dúka, og leggja þar ofan á loðkápur
til að fara í. Þær gengu út úr stofunni með blys í höndum,
og bjuggu um rúmið; en kallarinn leiddi gestina út. Öðlingurinn
Telemakkus og Nestors frægi sonur lögðu sig þar
til svefns í framhúsinu í höllinni, en Atreifsson svaf í innsta
herbergi hallarinnar, og hin ágæta kona, hin síðmöttlaða Helena,
hvíldi þar hjá honum.
306 En er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í ljós,
reis hinn rómsterki Menelás úr rekkju, og fór í klæði sín; hann
gyrðti sig bitru sverði, og batt fagra ilskó undir sína hraustlegu
fætur, og gekk út úr svefnherberginu, líkur sýnum einhverju
goðanna. Hann settist hjá Telemakkusi, tók til orða og mælti:
„Telemakkus öðlingur, hver nauðsyn beiddi þig til að fara
hingað til hinnar helgu Lakedemonar yfir hafsins breiða flöt?
Er það alþjóðlegt málefni, eða erindi sjálfs þíns? Seg mér satt
þar frá“.
315 Hinn vitri Telemakkus svaraði honum: „Seifborni Menelás
Atreifsson, þjóðhöfðingi! Eg er kominn til að vita, hvort þú
getir sagt mér nokkura fregn af föður mínum. Eigurnar uppetast
fyrir mér, hin frjóvsömu akurlönd eru í eyði, hús mitt er
fullt af illgjörnum mönnum, er ávallt drepa niður fyrir mér
sauðahjarðirnar og hin vagandi, bjúghyrndu naut: það eru
biðlar móður minnar, og hafa þeir í frammi frekjufullan ofstopa.
Því kem eg nú fyrir kné þín, og bið þig segja mér frá
hans döprum dauða, ef þú hefir sjálfur verið sjónarvottur að,
eða heyrt einhvern ferðamann frá segja; hefir móðir hans fætt
hann til meiri ógæfu en aðra menn. Seg eigi vilhallt af virðingu
fyrir mér eða af vorkunnsemi við mig: seg mér heldur rétt,
eins og fyrir augu þín hefir borið. Eg bið þig: hafi faðir minn,
hinn góði Odysseifur, nokkuru sinni í orði eða verki gert bón
þína í landi Trójumanna, þar sem þér Akkear urðuð mannraunum
að sæta, þá lát mig nú njóta þess, og seg mér satt frá“.
332 Hinn bleikhári Menelás varð mjög gramur við, og sagði
til hans: „Mikið er til þess að vita, að menn þessir, er sjálfir
eru þreklausir, skuli hafa bragðað að leggjast í rekkju þess
manns, sem reyndur er að því, að hann hefir harðan karlmanns
hug. Það mun fara fyrir þeim, eins og fyrir hind þeirri, er
leggur nýgotna kálfa sína, sem enn þá eru á spenanum, í bæli
hins sterka ljóns, rásar síðan á beit um heiðar og grösuga afdali,
en eftir á kemur ljónið í bæli sitt, tekur báða kálfana, og
veitir þeim grimman dauðdaga. Eins mun fara fyrir biðlunum,
að Odysseifur mun veita þeim grimman dauðdaga. Faðir Seifur
og Aþena og Appollon! Eg vildi óska, að Odysseifur væri nú
kominn á fund biðlanna, og væri eins og hann var forðum,
þegar hann gekk til leiks í hinni fögru Lesbey, og glímdi kappglímuna
við Fílomelídes, og felldi hann af kröftum, svo allir
Akkear urðu allshugar fegnir; þá mundu allir biðlarnir hreppa
bráðan bana og beiskan ráðahag. En hvað því viðvíkur, sem
þú spyr um og biður mig að segja þér, þá skal eg ekki segja
þér annað en það sem er, og ekki halla sögu minni eða leiða
þig í villu, heldur segja þér það, sem hinn sannfróði Sjávaröldungur
sagði mér, og engu orði þar af leyna.
351 Mig var mjög farið að langa til að komast heim hingað,
en guðirnir héldu mér enn í Egyptalandi, sökum þess eg hafði
ekki fært þeim fullkomnar hundraðsfórnir. Nú er þar ey
nokkur í hinu stórbrimótta hafi, fram undan Egyptalandi. Þá
ey kalla menn Farey; hún er svo langt undan landi, sem rúmgott
skip má komast daglangt, ef hvass byr blæs á eftir; þar
er höfn, góð til lendingar: leggja menn þaðan hinum jafnbyrðu
skipum til hafs, þá menn hafa ausið sér hið dökkva vatn.
Hér héldu guðirnir mér tuttugu daga, og gaf aldrei blásandi
hafbyri, sem eru leiðtogar skipanna yfir hinn breiða sjávarflöt.
Mundu nú brátt eyðzt hafa allar vistir, og þróttur manna þverrað,
ef ein gyðja hefði ei aumkazt yfir mig og bjargað mér,
Ídóþea, dóttir Próteifs, hins sterka Sjávaröldungs; því eg hafði
helzt hrært hjarta hennar. Hún mætti mér, þá eg eitt sinn ráfaði
einmana frá félögum mínum; því þeir reikuðu ávallt um
kring á eynni, og veiddu fiska með bognum önglum, af því
sulturinn svarf að. Hún gekk til mín, tók til orða og mælti:
„Ókunni maður, ertu svo frábærlega heimskur eða hugsunarlaus?
eða tefur þú hér viljandi, og unir við eymdir þínar, með
því þú dvelst hér svo lengi á eynni og getur engan útveg fundið,
en kjarkur allur dreginn úr félögum þínum?“
375 Svo mælti hún; en eg svaraði henni, og sagði: „Það
segi eg þér fyrir satt, hver sem þú ert af gyðjunum, að eg dvelst
hér ekki viljandi, heldur mun eg eitthvað hafa afbrotið við
hina ódauðlegu guði, er byggja víðan himin. En seg þú mér,
því guðir vita allt, hverr enna ódauðlegu guða fjötri mig og
hamli för minni, og hversu eg fái heim komizt yfir hið fiskauðuga
haf“.
382 Svo mælti eg, en hin ágæta gyðja svaraði þegar: „Þar
skal eg að vísu segja þér satt frá, ókunni maður. Hingað kemur
oft sannspár Sjávaröldungur, hinn ódauðlegi Egypzki Próteifur,
sá er þekkir djúp alls sjávarins, og er undirgefinn Posídoni;
segja menn hann sé faðir minn og hafi átt mig. Getir þú með
nokkuru móti gert honum fyrirsátur og handtekið hann, þá
mun hann segja þér leið þína og alla vegarlengd, og hversu
þú megir aftur heim komast yfir hið fiskauðuga haf; og óskir
þú þess, seifborni maður, mun hann þá og segja þér bæði ill
og góð tíðindi, þau er orðið hafa á heimili þínu, meðan þú
hefir burtu verið á hinni löngu og ströngu leið“.
394 Svo mælti hún, en eg svaraði henni og sagði: „Seg mér
nú sjálf, hversu haga skal fyrisátrinu fyrir hinum guðlega öldungi,
að hann ekki sjái mig eða viti af mér áður, og forði sér
svo; því erfitt er fyrir dauðlegan mann að fá vald á guði“.
398 Svo mælti eg, en hin ágæta gyðja svaraði þegar: „Þar
skal eg segja þér frá með sannindum, ókunni maður. Þegar sól
gengur yfir miðjan himin, kemur hinn sannspái Sjávaröldungur
utan af sjó með útrænunni, hulinn dimmu gráði. Hann gengur
á land, og leggst til svefns undir víðum hellisskúta; umhverfis
hann sefur fjöldi sela, niðjar hinnar fögru Halosýdnu, komnir
upp af hinum gráa sæ, og leggur af þeim ramman sævardaun.
Hingað skal eg leiða þig, þegar er lýsir af degi, og leggja
yður í sátur, hvern hjá öðrum; því þú skalt velja með þér þrjá
lagsmenn þína, þá er þú átt hraustasta á hinum þóftusterku
skipum. Nú skal eg segja þér allar meinvélar öldungsins. Fyrst
mun hann ganga til og telja selina; en er hann hefir varpað
tölu á þá alla og skoðað þá, mun hann leggjast niður í miðjum
hringnum, eins og smali í sauðahjörð. En jafnskjótt sem þér
sjáið hann lagztan, þá neytið allrar orku og krafta, og haldið
honum þar, þó hann brjótist um og vilji sleppa; því þess mun
hann við freista, og bregða sér í allra skriðkvikinda líki, þeirra
er á jörðu eru, og í vatnslíki, og í eldslíki brennanda, en þér
skuluð halda fast tökum, og herða heldur að honum. En er
hann leitar að fyrra bragði orða við þig, og er kominn í það
líki, sem hann var, er þér sáuð hann lagztan, þá skaltu, öðlingur,
sleppa tökunum og láta öldunginn lausan, og spyrja,
hverr guðanna þrengi kosti þínum, og hversu þú megir aftur
heim komast yfir hið fiskauðuga haf“. —
425 Að því mæltu stakk hún sér á kaf í hinn bylgjótta sæ;
en eg gekk þangað, er skipin stóðu á söndunum, og iðaði mjög
hjarta mitt meðan eg var á leiðinni. En er eg kom til skipsins
og sjávarins, tókum vér náttverð; kom þá yfir heilög nóttin,
og lögðumst vér þá til svefns á sjávarströndinni.
431 En er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í ljós,
þá gekk eg með strönd hins víðfarna sjávar og hét ákaflega á
guðina, knéfallandi; en eg hafði með mér þrjá af lagsmönnum
mínum, er eg treysti bezt til alls áræðis. Á meðan hafði hún
stungið sér á kaf í sjávarins víða skaut, og haft upp með sér
fjórar selshúðir allar nýflegnar: því hún hafði vélræði í hyggju
gegn föður sínum. Hún hafði grafið oss ból í fjörusandinum, sat
svo og beið vor. En er vér vorum komnir til hennar, lagði hún
oss í látur, hvern hjá öðrum, og kastaði sinni húð yfir hvern
af oss. Hér var einhver hin versta seta: því oss angraði ákaft
hinn banvænasti óþefur enna sæbornu sela; því hverr mundi
sofið geta hjá sækvikindi? En hún bjargaði oss, og veitti oss
mikla svölun: hún kom með angandi ódáinsfeiti og lagði fyrir
vitin á oss, og eyddi með því selþefnum. Nú biðum vér allan
morguninn þolinmóðir; kom nú fjöldi sela utan af sjó, og
lögðust hverr hjá öðrum í fjörunni. En að miðjum degi kom
öldungurinn utan, og fann hina feitu sela, kannaði hann þá
alla og varp tölu á þá: taldi hann oss fyrsta með selunum, og
grunaði ekki, að hér mundu svik undir búa; því næst lagðist
hann sjálfur niður. Þá hlupum vér á hann æpandi, og lögðum
hendur á hann. En öldungurinn hafði ekki týnt niður vélabrögðum
sínum: brá hann sér fyrst í líki kamploðins ljóns,
þá varð hann að dreka og lepardi og stórum gelti, og því næst
að rennanda vatni og hálaufguðu tré; en vér héldum fastatökum
og vorum einbeittir. En er hinn meinvísi öldungur sá sitt
óvænna, þá orti hann orði á mig, og spurði: „Hverr guðanna
hefir nú lagt á ráð með þér, Atreifsson, að gera mér fyrirsátur,
og taka mig nauðugan. Hvers er þér annt?“
464 Þannig mælti hann, en eg svaraði honum, og sagði: „Hví
spyr þú mig svo ólíkindalega, öldungur? Þú veizt, að eg hefi
nú dvalizt lengi hér á eynni, og ekkert undanfæri getað fundið;
tekur mér að verða hugfátt. En seg mér nú, því guðir vita allt,
hverr hinna ódauðlegu guða fjötri mig og hefti för mína, og
hversu eg megi aftur heim komast yfir hið fiskauðuga haf“.
471 Svo mælti eg, en hann svaraði og sagði: „Þú áttir að
efna Seifi og hinum öðrum guðum sæmileg blót, áður þú stést
á skip, að þú kæmist sem fyrst heim til þíns föðurlands yfir hið
dimma haf; því ekki auðnast þér fyrr að sjá vini þína, og
komast til þíns velbyggða húss, og til fósturjarðar þinnar, en
þú fer til Egyptafljóts, hins himinrunna vatnsfalls, og eflir
heilög hundraðsblót hinum ódauðlegu goðum, er byggja víðan
himin; þá munu goðin greiða þér för þá, er þú hefir í hyggju“.
481 Svo mælti hann; en þá sundurknosaðist mitt hjarta í
mér, er hann bauð mér að fara aftur til Egyptalands yfir hið
dimmbláa haf, langa leið og stranga. En ei að síður svaraði eg
honum aftur, og sagði: „Svo skal eg víst gjöra, sem þú býður,
öldungur. En gjör svo vel, seg mér frá og inn með sannindum,
hvort allir Akkear hafa heilir heim komizt með skip sín, þeir
er við Nestor skildumst við, þá við fórum frá Trójulandi, eða
hvort nokkurr þeirra hefir dáið ósætum dauða á skipi sínu,
eða í vina höndum, að afloknu stríðinu?“
491 Svo mælti eg; en hann svaraði mér þegar, og sagði:
„Hví spyr þú mig þessa, Atreifsson ? Engi þörf er þér að vita
eða kanna hug minn; hygg eg, að þú munir eigi lengi verða
grátlaus, ef þú verður sannfróður um allt: því margir þeirra
hafa látizt, þó margir hafi af komizt. Af höfðingjum hinna
eirbrynjuðu Akkea hafa tveir einir látizt á heimleiðinni; en í
stríðinu hefir þú sjálfur verið. En einn dvelst enn þá lífs einhvers
staðar á hinu víða hafi. Ajant týndist ásamt hinum árlöngu
skipum. Posídon rak hann fyrst upp að Gýrum, stórum hömrum
nokkurum, og bjargaði honum þar undan sjó; og nú hefði hann
komizt lífs af, enn þótt Aþena hataði hann, ef hann hefði
ekki syndgað stórlega og látið sér þau ofurmæli um munn
fara, að hann kvaðst hafa lífs komizt yfir hið mikla sjávardjúp
að nauðugum guðunum. En er Posídon heyrði stóryrði hans,
þreif hann þegar þríforkinn með sínum sterku höndum, laust
honum á Gýraklett, og klauf hann sundur; stóð annar hluti
bjargsins þar eftir, en sá hlutinn, er Ajant sat á, þá hann framdi
þessa stórsynd, brotnaði frá og féll í sjóinn og dró hann með
sér ofan í hið botnlausa, bylgjótta haf. Lengi vel komst bróðir
þinn af og umflúði Banagyðjurnar, á hinum rúmgóðu skipum:
því hin tignarlega Hera bjargaði honum. En er hann var nálega
kominn til hins háva Maleafjalls, þá hreif stormbylur hann
og rak út á hið fiskauðuga haf, og andvarpaði hann þá mjög.
En er þeim gaf hægt heimleiði úr hafi, og goðin höfðu snúið
vindinum á aðra átt, þá komust þeir heim, að útskaga nokkurum
á landsbyggðinni, þar er Þýestes bjó fyrrum, en þá bjó þar
Egistus Þýestesson. Steig hann þá fagnandi á feðrajörð sína,
faðmaði og kyssti föðurland sitt; og mörg heit feginstár hrundu
honum, er hann leit landið. En nú sá hann njósnarmaður nokkur
af einum sjónarhól; þann mann hafði hinn vélráði Egistus
sett þar á njósn, og heitið honum kaupi fyrir, tveim vættum
gulls; sá hélt vörð árlangt, að hann skyldi ekki lenda þar að
óvörum Egistusi, og neyta ofurkrafta sinna. Hann gekk nú
heim til hallarinnar að segja þjóðhöfðingjanum tíðindin. Egistus
fann þegar upp svikafulla vél, valdi tuttugu menn, þá er hraustastir
voru í landinu, og setti launsátur, en lét búa veizlu á öðrum
stað. Fór hann nú með vagn og hesta, að bjóða þjóðhöfðingjanum
Agamemnon, en hafði ódæði í huga: hann fylgdi
honum heim, og drap hann í veizlunni, eins og menn drepa
uxa við stall, og bjóst hann þá ekki við dauða sínum. Þar
komst enginn lífs af, hvorki af förunautum Atreifssonar, né
mönnum Egistusar; voru þeir allir drepnir í höllinni“.
538 Svo mælti hann; en þá sundurknosaðist mitt hjarta í mér:
eg settist niður á sandinn og grét, og hjarta mitt vildi nú ekki
lengur lifa og sjá ljós sólarinnar. En er eg hafði grátið og
velzt um nægju mína, þá talaði hinn sannspái sjávaröldungur
svo til mín: „Grát eigi lengur svo ákaflega, Atreifsson, því með
því fáum vér engu til leiðar komið; freista heldur sem fyrst,
að þú megir heim komast til þíns föðurlands. Því annaðhvort
mun verða, að þú munt hitta hann á lífi, eða Órestes mun áður
verða búinn að drepa hann; mætti þá svo fara, að þú hittir í
útför hans“.
548 Svo mælti hann; en hjarta mitt og mín hrausta sál
lifnaði við aftur í brjósti mínu, þó eg væri mjög sorgbitinn;
talaði eg þá til hans hraðfleygum orðum: „Nú er mér kunnugt
orðið um þessa; en nefn mér hinn þriðja mann, er enn þá
dvelst lífs á hinu víða hafi“.
554 Svo mælti eg; en hann svaraði mér þegar, og sagði:
„Það er sonur Laertesar, er heima á í Íþöku; sá eg hann gráta
fögrum tárum í húsum Landgyðjunnar Kalypsóar, sem heldur
honum nauðugum; en hann kemst ekki til síns föðurlands, því
hann hefir engin árbúin skip eða förunauta, er geti flutt hann
yfir hinn breiða sjávarflöt. En þér, seifborni Menelás, er það
ekki ákveðið, að deyja og bana bíða í hinu hestauðuga Argverjalandi;
heldur munu hinir ódauðlegu guðir flytja þig til
hins Elysiska vallar og endimarka jarðarinnar, þar er hinn
bleikhári Hradamant býr: þar lifa menn mesta hóglífi; þar
er ekki snjór og ekki vetrarríki, og aldrei steypiregn, heldur
sendir útsjárinn sífellt frá sér þjótandi vestangusti til að svala
mönnum: fyrir því að þú átt Helenu, og ert dótturmaður
Seifs“.
570 Að því mæltu stakk hann sér á kaf ofan í hinn bylgjótta
sæ, en eg fór til skipanna með hinum goðumlíku félögum mínum,
og iðaði mjög hjarta mitt í mér, meðan eg var á leiðinni.
En er vér komum til skipsins og sjávarins, tókum vér náttverð;
kom þá yfir heilög nóttin, og lögðumst vér þá til svefns á sjávarströndinni.
576 En er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í ljós,
settum vér skipin sem bráðast fram á hinn djúpa sæ, og lögðum
siglutrén og seglin upp í hin jafnbyrðu skip; síðan stigu
menn upp í og settust á þófturnar, sátu þar í röðum og lustu
árum hinn gráa sæ. Hélt eg nú skipunum aftur til Egyptafljóts,
hins himinrunna vatnsfalls, og efldi fullkomin hundraðsblót.
En er eg hafði mýkt reiði hinna eilífu guða, varp eg haug
eftir Agamemnon, svo orðstír hans skyldi æ uppi vera. Þá eg
hafði þessu lokið, fór eg af stað; gáfu hinir ódauðlegu guðir
mér byr, og greiddu skjótt för mína til míns kæra föðurlands.
En gjör nú svo vel, bíð hér enn þá í höll minni, unz hinn
ellefti eða tólfti dagur kemur; skal eg þá veita þér gott orlof,
og gefa þér fagrar gjafir, þrjá hesta og velsmíðaðan vagn, og
þar á ofan fallegt borðker, að þú dreypir hinum ódauðlegu
guðum dreypifórn, og minnist mín alla daga“.
593 Hinn vitri Telemakkus svaraði honum: „Atreifsson,
haltu mér hér ekki lengi; og mundi eg þó una mér, þó eg sæti
hjá þér árlangt, og mundi mig hvorki lengja til húss míns eða
foreldra: því eg hefi hið mesta gaman af því, að hlýða orðræðum
þínum og frásögum. En förunautum mínum í hinni
helgu Pýlusborg er nú farið að leiðast eftir mér, og þú heldur
mér þó hér langan tíma. Sérhver gjöf, er þú vilt gefa mér, skal
vera mér menjagripur; en hestana mun eg ekki flytja til Íþöku,
heldur skilja þá hér eftir hjá sjálfum þér, sem gersemar: því þú
ræður yfir víðu flatlendi, vex þar mikið af steinsmára og ilmstör,
hveiti, einkorni og breiðvöxnu hvítu byggi; en á Íþöku eru
hvorki víðir skeiðvellir, né beitilönd: hún er fyrir geitfé, en
heldur hálend fyrir hestagöngu; því engar af eyjum þeim, er
til hafs liggja, eru vel fallnar til yfirreiðar eða hagbeitar, og er
þó Íþaka fyrir þeim öllum“.
609 Þannig mælti hann; en hinn rómsterki Menelás brosti
og klappaði honum með hendinni, tók til orða og sagði: „Af
góðu kyni ertu kominn, sonur sæll, er þú talar svo; skal eg
að vísu skipta um þetta, því það get eg. Eg skal gefa þér hinn
fríðasta og dýrmætasta menjagrip, sem til er í húsi mínu: eg
skal gefa þér vandað skaftker, allt úr silfri, en barmarnir úr
gulli gjörvir; það er smíði Hefestusar: öðlingurinn Fedímus,
konungur Sídonsmanna gaf mér það, þá eg gisti í húsi hans á
ferð minni þangað; þenna grip vil eg gefa þér“.
620 Þannig töluðust þeir við. Nú gengu gildisbræðurnir til
hallar ens ágæta konungs, höfðu þeir með sér sauði og ágætt
vín, en hinar fagurblæjuðu konur þeirra sendu þeim brauð.
Þannig efnuðu þeir til veizlu í höllinni.
625 Biðlarnir voru nú að skemmta sér með töfluleik og
spjótkasti fyrir framan stofu Odysseifs, á hinu fasta gólfi, þar
sem þeir fyrr voru vanir að hafa í frammi allan ósóma; en
þeir sátu, fyrirmenn biðlanna, Antínóus og hinn goðumlíki
Evrýmakkus, sem voru fremstir allra þeirra að atgjörvi. Þá
kom Nóemon Froníusson til þeirra, og spurði Antínóus svo
felldum orðum: „Antínóus, vitum vér nokkuð með vissu, eða
ekki, nær Telemakkus kemur frá hinni sendnu Pýlusborg? Hann
fór á skipi, sem eg á; en eg þarf nú á því að halda; vil eg fara
yfir til hins rúmlenda Elíalands: þar á eg tólf hryssur, og ganga
undir þeim þolnir múlfolar ótamdir; vildi eg sækja einhvern
þeirra til tamningar“.
638 Svo mælti hann; en þá furðaði stórlega, því þeir hugsuðu
ekki, að hann væri farinn til Pýluss, Neleifsborgar, heldur
væri hann þar einhverstaðar úti á landsbyggðinni, annaðhvort
hjá fénu, eða hjá svínahirðinum. Antínóus Evpíþesson sagði þá
til hans: „Seg mér satt frá: hvenær fór hann af stað, og hvað
sveina fylgdi honum? Var það einvalalið frá Íþöku, eða leigumenn
og þrælar sjálfs hans? Og hann skyldi geta annað þessu!
Seg mér það og sannlega, að eg viti gjörla: tók hann af þér hið
dökkva skip með valdi nauðugum, eða léðir þú honum viljugur
fyrir bænastað hans?“
648 Nóemon Froníusson svaraði honum, og sagði: „Eg léði
honum það viljugur; hvað á maður að gera, þegar annar eins
maður biður bónar í raunum sínum? Það hefði verið hart að
synja honum skipsins. Þeir sveinar, er hraustastir eru hér í landi,
fylgdust með honum. Eg sá formanninn stíga á skip; það
var Mentor, eða einhverr guðanna í hans líki. En á einu furðar
mig: eg sá hinn ágæta Mentor hér í gærmorgun, en þá gekk
hann á skip og ætlaði til Pýlusborgar“.
657 Þá hann hafði þetta mælt, gekk hann burt, og heim til
húsa föður síns; en hinir báðir urðu forviða. Biðlarnir settust
nú á samkomu, og hættu leikunum. Tók Antínóus Evpíþesson
til orða við þá; honum var þungt í skapi, hans koldimmu
hjartafylgsni fylltust megnri reiði, og augu hans voru lík eldi
brennanda: „Mikil undur! Sannlega hefir Telemakkus með
ofurhuga sínum komið fram því stórræði, að fara þessa ferð, er
vér hugðum hann aldrei mundu fá til leiðar komið. Hann,
ungur sveinn, hefir sett fram skip, ráðið til hina vöskustu menn
í landinu, og farið utan sem hægast, að óvilja svo margra manna;
mun þetta upphaf til þeirrar ógæfu, sem af honum mun standa,
þegar fram í sækir. Týni Seifur afli hans, áður hann fái veitt
oss skaða. En látið nú sjá, fáið mér gangfljótt skip og tuttugu
menn, vil eg gjöra honum fyrirsátur og halda vörð á um ferð
hans í sundinu milli Íþöku og hinnar sæbröttu Sámseyar. Má
vera hann fari þá hrakför á leit föður síns“.
673 Svo mælti hann; en allir rómuðu vel mál hans, og fýstu
fararinnar; stóðu síðan upp, og gengu þegar inn í höll Odysseifs.
675 Ekki leið á löngu, áður Penelópa varð vísari þeirrar ráðagjörðar,
er biðlarnir höfðu með höndum; því kallarinn Medon
gerði hana vara við: hafði hann verið fyrir utan forgarðinn,
og heyrt ráðin, meðan þeir stofnuðu ráðið fyrir innan. Hann
gekk í gegnum herbergin til að segja Penelópu tíðindin; en er
hann var stiginn yfir þröskuldinn, talaði Penelópa til hans: „Kallari,
hví hafa hinir göfugu biðlar sent þig hingað? Áttu að
segja ambáttum hins ágæta Odysseifs að hætta verkum og búa
þeim veizlu? Þess vildi eg óska, að þeir sæti hér nú að náttverði
í síðasta og hinsta sinni, léti af kvonbænum sínum, og héldi
hér aldrei framar samkomur sínar! Þér venjið hingað komur
yðar, og gjöreyðið miklum fjármunum, sem eru eign hins fróðhugaða
Telemakkusar. Hafið þér þá ekki heyrt af feðrum yðar
fyrr meir, þá þér voruð ungir, hvílíkur maður Odysseifur var
með foreldrum yðar, hann sem engum manni í landinu gerði
órétt, hvorki til orða, né verka? Gengst það þó við hjá goðbornum
konungum, að þeir hatast við suma menn, en hafa aðra í
miklum kærleikum. En hann gerði aldrei á hluta nokkurs
manns í nokkuru. Er nú orðið augsýnilegt hugarfar og ódáðir
yðar, og engrar þakkar framar von fyrir það, sem vel er gert“.
696 Hinn vitri Medon svaraði henni: „Óskanda væri, drottning, að þetta væri mesta ógæfan. En nú hafa biðlarnir annað í
hyggju, sem er miklu meira og hættulegra, sem betur væri
að Kronusson léti aldrei framgengt verða: þeir ætla sér að
drepa Telemakkus með bitru eirvopni, þá hann fer heim: því
hann er farinn til hinnar helgu Pýlusborgar og hinnar ágætu
Lakedemonar, til að spyrjast fyrir um föður sinn“.
703 Þannig mælti hann; en kné hennar og hjarta varð máttvana
þegar í stað: hún gat lengi engu orði upp komið, augu
hennar fylltust tárum, og þá tók fyrir hennar fögru rödd.
Loksins orti hún orði á hann, og mælti: „Hví gerði sonur
minn mér það, að fara burt? Engi þörf beiddi hann að stíga
á hin örskreiðu skip, sem fyrir karlmenn eru sjávarhestar, er
renna yfir hinn vota geim. Mun hann hafa viljað, að ekki
yrði svo mikið sem nafn sitt uppi manna meðal?“
711 Hinn vitri Medon svaraði henni: „Ekki veit eg, hvort
heldur er, að einhverr guð hefir vakið hann, eða hugur sjálfs
hans hefir hvatt hann til að fara til Pýlusborgar, til að frétta
um heimför föður síns eða hvern dauða hann hefir hlotið“.
715 Að því mæltu gekk hann burt, og inn í stofu Odysseifs.
En yfir hana sveif sárlegur harmur, hún hafði ekki mátt til
að setjast á stól, þó margir væri í húsinu, heldur settist hún
niður á þröskuld hins velsmíðaða herbergis, veinaði og grét
aumkvunarlega: en kringum hana voluðu allar ambáttirnar,
sem í húsunum voru, ungar og gamlar. Þá kveinaði Penelópa
hástöfum, og talaði til þeirra: „Heyrið, kæru vinir, hinn
Ólympski guð hefir fengið mér meiri harma, en nokkurri konu
annarri, þeirra er með mér hafa verið og upp fæðzt. Fyrst missta
eg minn ágæta, ljónhugaða mann, sem um fram aðra Danáa
var alls kyns kostum búinn. Nú hafa hér á ofan vindbyljirnir
voveiflega hrifið minn ástfólgna son burt úr húsum mínum
frægðarlausan, án þess eg vissi burtför hans. Og engin yðar,
þér harðbrjóstuðu, lét sér hugsast að vekja mig á fætur, enn
þótt þér vissuð gjörla, nær hann sté á hið hola, dökkva skip.
Því ef eg hefði fengið að vita, að hann hafði þessa för í huga,
þá skyldi hann annaðhvort hafa setið kyrr heima, hvað ákaft
sem hann hefði viljað fara, eða skilið mig eftir dauða í húsunum.
Kalli nú einhver fljótt á hinn aldraða Dólíus, þræl minn,
sem faðir minn gaf mér forðum, þá eg fór hingað; hann hefir
nú gát á hinum trjávaxna eikagarði. Hann skal fara sem bráðast
til Laertesar, setjast hjá honum, og segja honum öll þessi
tíðindi. Má vera, að Laertes finni upp eitthvert ráð af hugviti
sinu, gangi út í borgina og beri upp kveinstafi sína við þá
menn, er vilja fyrirkoma afkvæmi hans og hins goðumlíka
Odysseifs“.
742 Hin kæra fóstra Evrýklea svaraði henni: „Kæra frú,
drep þú mig nú með miskunnarlausu eirvopni, eða lofa mér
að lifa í húsi þínu; eg skal engu leyna þig. Eg vissi af öllu
þessu, og fékk honum allt hvað hann bað um, brauð og sætt
vín; en hann tók af mér dýran eið, að eg skyldi ekki segja
þér frá þessu, fyrr en kominn væri tólfti dagur, eða þú saknaðir
hans sjálf og fréttir burtför hans, að þú ekki slægir höndum
þitt fríða hörund grátandi. Far nú heldur í bað, tak svo á þig
hrein klæði og gakk upp á loft með þjónustumeyjunum, og
gjör bæn þína til Aþenu, dóttur Seifs Ægisskjalda, því hún
getur frelsað hann, og það jafnvel úr dauðanum. Angra þú ei
heldur hinn aldraða mann, sem nóg böl hefir að bera; því það
hygg eg víst, að hinir sælu guðir hafi ekki lagt hatur á afkvæmi
Arkesíussonar; og mun víst enn einhverr uppi verða, til að ráða
fyrir hinum háræfruðu húsum og hinum frjóvsömu akurlöndum
útífrá“.
758 Með þessum orðum svæfði hún harm hennar, og hefti
augun af grátinum. Hún fór í bað, tók á sig hrein klæði, gekk
svo upp á loft með þjónustumeyjunum, lét blótbygg í körfu
og bað til Aþenu: „Heyr mig, Atrýtóna, dóttir Seifs Ægisskjalda!
Hafi hinn ráðagóði Odysseifur nokkuru sinni þér til dýrðar
brennt mörvaða lærleggi af uxa eða sauð í húsum sínum, þá
lát mig þess nú njóta, og frelsa minn kæra son, en rek á burt
hina ofstopafullu biðla“. Að því mæltu æpti hún upp hástöfum,
en gyðjan heyrði bæn hennar.
768 Biðlarnir gerðu nú hávaða mikinn í hinum dimmu herbergjum,
og þá sagði svo einhverr af hinum ofstopafullu ungmennum:
„Hin biðilsæla drottning er nú víst að búa til brúðkaupsveizlu
vorrar, og veit víst ekki, að syni hennar er bani
ráðinn“.
772 Svo mælti einhverr þeirra, en þeir vissu ekki, hvað gerzt
hafði. Antínóus tók þá til orða og mælti til þeirra: „Góðir
hálsar, varizt jafnt öll afaryrði, svo engin fregn berist inn til
drottningar. Stöndum heldur upp sem hljóðlegast, og framkvæmum
þá ráðagerð, er vér nýlega féllumst á allir“.
778 Að því mæltu valdi hann tuttugu menn af þeim vöskustu,
og gengu þeir ofan til hins gangfljóta skips og strandarinnar.
Þeir settu fyrst skipið fram að sjávardjúpinu, létu siglutréð
og seglin upp í hið dökkva skip, og lögðu árar í ólarhömlur;
en hinir ofurhuguðu sveinar þeirra komu með vopnin.
Síðan lögðu þeir skipinu á floti, þar er aðdjúpt var, og stigu
upp í; þar tóku þeir náttverð, og biðu þess að kvöldaði.
787 En hin vitra Penelópa lá uppi í loftsalnum næringarlaus,
og hafði hvorki neytt matar, né drykkjar, hugsandi um
það, hvort sinn efnilegi sonur mundi fá dauðann umflúið, eða
mundu hinir ofstopafullu biðlar fyrirkoma honum. Eins og
ljónið hefir miklar áhyggjur í mannþrönginni, þá menn slá um
það vélafullum hring, og það sér sitt óvænna: eins hugsandi
var hún, í því svefnhöfgi seig á hana; hún hallaðist aftur á bak
og sofnaði, en allir limir hennar urðu lémagna. Nú fann hin
glóeyga gyðja Aþena upp nýtt ráð: hún bjó til svip í konulíki,
líkan Ifþímu, dóttur ens hugstóra Íkaríuss, hana átti
Evmelus, er bjó í Feruborg. Hún sendi svipinn til húsa hins
goðumlíka Odysseifs, til þess að frelsa hina kveinandi og harmandi
Penelópu frá grátnum og hinum tárafulla harmi. Hann
smaug inn í svefnherbergið hjá lokubandinu, nam staðar yfir
höfði hennar, og talaði til hennar þessum orðum: „Sefurðu,
Penelópa, sorgmædd í hjarta? Ekki vilja hinir hóglífu guðir,
að þú grátir og sért sorgafull. Sonur þinn á enn afturkvæmt,
því hann hefir í engu afbrotið við guðina“.
808 Hin vitra Penelópa svaraði henni, þar sem hún blundaði
mjög sætt við draumahliðin: „Hví ertu komin hér, systir?
Þú hefir ekki fyrr meir verið vön að koma hér oft, því þú átt
heima mjög langt héðan. Og þú býður mér að hyggja af
þeirri mæðu og mörgu sorgum, sem angra hug minn og hjarta:
eg, sem áður hefi misst minn ágæta, ljónhugaða mann, er fremur
öðrum Danáum var alls kyns kostum búinn; og nú er hér á
ofan minn ástfólgni sonur burt farinn á rúmgóðu skipi, barn
að aldri, óreyndur í mannraunum og óvanur að tala á samkomum;
tekur mig nú enn sárara til hans, en hins: em eg hugsjúk
hans vegna, og óttast, að honum verið eitthvað að meini, annaðhvort
í landi því, er hann fer til, eða á hafinu: því margir illgjarnir
menn búa honum vélræði, og vilja drepa hann, áður
hann komist heim til föðurjarðar sinnar“.
824 Hinn dauflegi svipur svaraði henni, og sagði: „Vertu
hughraust, og ber ei svo mikinn kvíða í hjarta þínu: því sú er
til fylgdar með honum, sem aðrir menn mundu og óska að
hafa sér til annarrar handar, því hún er máttug: það er Pallas
Aþena; hún kennir í brjósti um þig, hversu þú ert harmandi,
og sendi mig nú til að segja þér þetta“.
830 Hin vitra Penelópa svaraði henni: „Fyrst þú ert gyðja,
og hefir heyrt raust gyðjunnar, þá gjör svo vel og seg mér frá
hinum raunamanninum, hvort hann muni enn vera á lífi og
sjá ljós sólarinnar, eða hann muni þegar dáinn og kominn til
Hadesar heimkynna“.
835 Hinn dauflegi svipur svaraði henni, og sagði: „Ekki get
eg með vissu sagt, hvort hann lifir, eða er dáinn; og sæmir ekki
að fara með hégómamál“.
838 Þá hann hafði sagt þetta, hvarf hann hjá hurðarlokunni
út í vindgoluna; en dóttir Íkaríusar hrökk upp af svefninum,
og létti henni fyrir hjarta, er svo berr draumur hafði fyrir hana
borið um lágnættið.
842 En er biðlarnir voru á skip komnir, sigldu þeir yfir vota
vegu, og ætluðu Telemakkusi vísan bana. Ey nokkur klettótt
er á miðju sundinu milli Íþöku og hinnar sæbröttu Sámseyjar;
hún heitir Asteris, það er lítil ey; þar eru leguhafnir góðar,
og má þar inn komast tveim megin. Þar lágu Akkear fyrir
Telemakkusi.
[1073.png]
[1075.png]
FIMMTI ÞÁTTUR
FLOTI ODYSSEIFS
MORGUNGYÐJAN reis úr rekkju frá hinum ágæta
Tíþónus til að bera birtu ódauðlegum guðum og dauðlegum
mönnum. En guðirnir settust á samkomu, og
með þeim hinn háþrumandi Seifur, sem máttugastur er allra.
Aþena mundi til Odysseifs, og tók nú að tjá þeim og telja hinar
miklu raunir hans, því hún var hugsjúk af dvöl hans í húsum
Landgyðjunnar: „Faðir Seifur“, kvað hún, „og þér aðrir sælu,
eilífu guðir! Veri nú engi konungur, sá er á veldissprota heldur,
raungóður og blíður framar, eða sanngjarn í sér, heldur ávallt
vondur og ofstopafullur, fyrst enginn man til hins ágæta
Odysseifs þeirra manna, er hann réð yfir og var blíður sem
faðir! Því nú situr hann við miklar hugraunir á einni ey, í
húsum Landgyðjunnar Kalypsóar; hún heldur honum þar að
óvilja hans, en hann getur ekki heim komizt til föðurjarðar
sinnar, því hann hefir engin árbúin skip, og enga menn, er
flytji hann yfir ena breiðu sjávarhryggi. Og nú vilja menn
hér á ofan drepa hans ástkæra son á heimleið sinni; hefir hann
farið til ennar helgu Pýlusborgar og hinnar ágætu Lakedemonar
til að spyrjast fyrir um föður sinn“.
21 Skýsafnarinn Seifur svaraði henni og sagði: „Mikið er,
að þú skulir láta þér slíkt um munn fara, dóttir! Hafðir þú
ekki sjálf gert svo ráð fyrir, að Odysseifur skyldi heim komast
og hefna sín á þeim? En þú skalt greiða för Telemakks ráðkænlega,
því það getur þú, svo hann fái heill heim komizt til
föðurlands síns, en biðlarnir á skútunni hverfi aftur svo búið“. —
28 Að því mæltu talaði hann til Hermesar, sonar síns: „Þig
kveð eg að þessu, Hermes, því þú ert tíðum vanur að vera
erindsreki minn: seg hinni fagurlokkuðu Landgyðju þá óbrigðulu
ráðstöfun, að hinn þreklyndi Odysseifur skuli heim fara;
skulu honum hvorki fylgja guðir, né dauðlegir menn, heldur
skal hann þola miklar mannraunir, og komast á margnegldum
flota á tuttugasta degi til Skerju, lands Feaka, sem goðunum eru
nánir; munu þeir virða hann af öllum hug, sem væri hann
einhverr goðanna, og flytja hann á skipi til síns kæra föðurlands,
og gefa honum gnótt eirs og gulls og klæða, svo mikið
fé, að Odysseifur mundi aldrei jafnmikið fé haft hafa frá Trójuborg,
þó hann hefði þaðan heill komizt með sinn hluta herfangsins:
því með slíkum atburðum er honum ákveðið að sjá
vini sína, og komast til síns háræftaða húss og til ættjarðar
sinnar“.
43 Svo mælti hann, en sendiguðinn Argusbani gerði, sem
hann bauð. Hann batt þegar undir fætur sér fagra, himneska
gullsóla, er báru hann, sem vindur blési, yfir láð og lög. Hann
tók sprota þann, er hann stingur með svefnþorn þeim mönnum,
er hann vill, og vekur þá, er sofa. Þann sprota hafði hinn
sterki Argusbani í hendi sér, og rann af stað. En er hann kom
til Píeríu, steypti hann sér úr hálofti niður á sjóinn; þaut síðan
yfir bylgjuna, líkur mávi þeim, er veiðir fiska á ofurfjörðum
hins ófrjóva hafs, og gerir sína þéttu vængi sævota. Slíkum mávi
líkur lét Argusbani flytjast yfir margar bárur. En er hann kom
til hinnar fjarlægu eyjar, gekk hann á land af hinu dimmbláa
hafi, og fór þar til er hann kom að stórum helli, þar er hin
fagurlokkaða Landgyðja bjó, hitti hann svo á, að hún var heima;
eldur mikill brann á arni, og lagði ilminn víðs vegar um eyna
af hinum auðkleyfa sedrusviði og angviði því, er þar var brennt;
en hún var inni, var hún að hræla með gullhræl, og söng með
fagri rödd, meðan hún gekk fyrir vefnum. Kringum hellinn
vóx blómlegur skógur, elrir og ösp og ilmandi sýpresviður;
þar hreiðruðu sig langvængjaðir fuglar, uglur og haukar og
tungulangar sækrákur, er lifa af sjófangi. Hjá hinum víða helli
stóð hávaxið víntré, það var í fullum vexti og alsett vínberjum;
fjórar tærar vatnslindir spruttu þar upp í röð hver hjá annarri,
og rann í sína átt hver, en þar umhverfis voru mjúk engi blómleg
af fjólu og steinselju; mundi jafnvel ódauðlegum guði, sem
þar hefði komið, orðið hafa starsýnt og þótt skemmtilegt á að
líta. Sendiguðinn Argusbani nam hér staðar, og undraðist. En
er hann hafði virt allt fyrir sér, gekk hann inn í hinn víða
helli, og þekkti hin ágæta gyðja Kalypsó hann, þegar er hún
sá í andlit honum: því ódauðlegir guðir þekkja hvorir aðra,
enn þótt sumir þeirra búi í fjarska. Ekki hitti hann hinn hugstóra
Odysseif inni; því hann sat á sjávarströndinni, sem hann
áður var vanur, og grét og sundursleit hjarta sitt með gráti,
andvörpum og harmi, mændi út á hið ófrjóva haf og jós út
tárum. Hin ágæta gyðja Kalypsó lét hann setjast á fagran,
glæsilegan hástól, og spurði: „Hví ertu hér kominn, Hermes
Gullinsproti, veglegur gestur og velkominn? Þú hefir þó ekki
að undanförnu komið hér með jafnaði. Seg, hvað þér er í huga,
og skal eg gjarna gjöra það, ef eg má, og verði því til leiðar
komið“.
92 Að því mæltu setti gyðjan borð fyrir hann, fyllti það með
ódáinsfæðu og skenkti rautt ódáinsvín. Sendiguðinn Argusbani
drakk nú og át; en er hann hafði matazt og glatt hjarta sitt
með fæðunni, þá svaraði hann henni og mælti: „Þú spyr mig,
gyðja, aðkominn guð; eg skal segja þér satt frá erindi mínu,
fyrst þú mælist til þess. Seifur bað mig fara hingað, og var
eg þess þó ófús; því hverjum mundi ljúft að renna yfir svo
afarvíðan sjóargeim? þar sem engi borg er í nánd þeirra manna,
er færa guðum fórnir og valin hundraðsblót. En engi guð má
víkjast undan vilja Seifs Ægisskjalda, eða hafa hann að hégóma.
Hann segir að hjá þér sé maður nokkurr, mesti raunamaður
þeirra manna, er börðust í níu ár um Príamusborg, og fóru heim
á tíunda árinu, er þeir höfðu lagt borgina í eyði; en á heimleiðinni
syndguðu þeir móti Aþenu, og því æsti hún illviðri gegn
þeim og stórsjó. Nú bað hann þig láta þenna mann burtu sem
skjótast, því ekki liggur fyrir honum að látast hér fjarri vinum
sínum, heldur er honum ákveðið að sjá aftur vini sína og
komast til síns háræfraða húss og til ættjarðar sinnar“.
116 Svo mælti hann, en hin ágæta gyðja Kalypsó skelfdist;
hún talaði til hans hraðfleygum orðum og mælti: „Þér guðir
eru næsta harðbrjóstaðir og öðrum fremur öfundgjarnir, er þér
unnið ei gyðjum að samrekkja mönnum opinberlega, ef svo
kann við að bera, að einhver þeirra fái sér kæran unnusta. Svo
var, þegar hin rósfingraða Morgungyðja tók sér Óríon, þá
unnuð þér henni þess eigi, hóglífu guðir, og loks kom hin hreinlífa
Artemis Gullinstóla að honum í Ortýgju, og drap hann
með sínum þýðu skeytum. Svo var og, þegar hin fagurlokkaða
Demetra lét leiðast af fýsn sinni til að deila við Jasíon beð og
blíðu á þríplægðri ekru; leið þá ei á löngu, áður Seifur varð
þess var, og laust hann í hel með glóanda reiðarslagi. Svo er
og nú, að þér guðir unnið mér þess ei að búa við dauðlegan
mann. Eg bjargaði þessum manni, þar sem hann reið einmana
á kjölnum, þá Seifur hafði lostið hans fljóta skip með glóanda
reiðarslagi og klofið það í sundur mitt á enu dimmbláa
hafi; veitti eg honum þá góðar viðtökur og nærði hann, og
hét að gera hann ódauðlegan og ellivana alla daga. En með
því engi guð má undan víkjast eða ónýta vilja Seifs Ægisskjalda,
þá rekist hann út á hið ófrjóva haf, fyrst Seifur er þess fýsandi
og bjóðandi. Hvergi mun eg flytja hann, því eg hefi engin
árbúin skip eða ferjumenn, er geti flutt hann yfir hina breiðu
sjávarhryggi; en fús skal eg leggja honum heilræði og engu af
leyna, að hann fái heill heim komizt til föðurlands síns“.
[1079.png: Odysseifur hjá Kalypsó (málverk).]
145 Sendiguðinn Argusbani svaraði henni: „Lát þú hann þá
fara í burtu, og óttastu heiftarreiði Seifs, svo hann ekki síðar
meir láti þig á hörðu kenna í bræði sinni“. — Að því mæltu
gekk hinn sterki Argusbani burt.
149 En er hin tignarlega Landgyðja hafði heyrt boðskap
Seifs, fór hún til fundar við hinn hugstóra Odysseif. Hún fann
hann sitjanda á ströndinni, og þornuðu aldrei tár af augum
hans: leið svo fram hans ljúfa líf, að hann var sígrátandi af
heimfýsi, því Landgyðjan geðjaðist honum ekki lengur; þó
varð hann að samrekkja henni á næturnar nauðugur viljugri í
hinum víða helli, en um daga sat hann á klettunum við sjávarströndina,
mændi út á hið ófrjóva haf, og jós út tárum. Hin
ágæta gyðja gekk til hans og mælti: „Grát hér eigi lengur, vesæll
maður, mér til hugraunar, og lát eigi ævi þína eyðast svo! Því
nú mun eg viljug gefa þér fararleyfi. Heyr nú, þú skalt höggva
stór tré, og fella saman með eirtóli breiðan flota handa þér,
og negla upp af honum háva stokka, að hann megi bera þig
yfir hið dimmleita haf. Eg skal færa þér á flotann mat og vatn
og rautt vín, til endurnæringar og til að verja þig hungri; eg
skal og fá þér klæði, og senda byr á eftir þér, að þú megir
alheill komast til föðurlands þíns, ef það er vilji guðanna, sem
byggja hinn víða himin og mér eru ráðvitrari og máttugari“.
171 Svo mælti hún, en hinn margreyndi Odysseifur skelfdist,
og talaði til hennar hraðfleygum orðum: „Víst býr eitthvað
undir þessu, gyðja, annað en burtfararleyfið, er þú býður mér
að fara á flota yfir hið mikla hafsdjúp, sem svo er ógurlegt og
torsótt, að jafnvel hin jafnbyrðu, örskreiðu skip mega ei yfir
það komast, þótt þau eigi Seifs byrvindi að hrósa. Aldrei skal
eg móti vilja þínum stíga fæti á flota, nema þú, gyðja, viljir
þess dýran eið vinna, að þú ætlir ekki að stofna mér í nýja
ógæfu“.
180 Svo mælti hann, en hin ágæta gyðja Kalypsó brosti; hún
klappaði honum með hendinni, tók til orða og mælti: „Séður
maður ertu og óheimskur, er þér datt í hug að mæla slíkum
orðum! Viti það jörð og víður upphiminn og hið niðurrennanda
Stýgsvatn, sem mestur er eiður og óttalegastur með sælum
guðum, að eg ætla ekki að stofna þér í nokkura nýja ógæfu,
heldur hugsa eg það og ætla eg það, sem eg mundi ráða vilja
sjálfri mér, ef slíkan vanda bæri mér að hendi; því hugur minn
er sanngjarn, og hjartað í brjósti mér er ekki af járni, heldur
meðaumkvunarsamt“.
192 Að því mæltu gekk hin ágæta gyðja á undan í skyndi,
en hann fetaði eftir gyðjunni; komu þau til hins víða hellis,
gyðjan og kappinn, settist hann þá á þann hástól, er Hermes
hafi áður á setið, en Landgyðjan setti fyrir hann alls konar
fæðu, slíka er mennskir menn eta, bæði mat og drykk. Sjálf
settist hún gagnvart hinum ágæta Odysseifi, og lögðu ambáttirnar
fyrir hana ódáinsfæðu og ódáinsvín. Tóku þau til þess
tilreidda matar, er fram var settur; en er þau höfðu satt sig á
mat og drykk, tók hin ágæta gyðja Kalypsó fyrri til orða: „Seifborni
Laertesson, margráðugi Odysseifur, viltu þá að svo vöxnu
máli fara nú þegar til þíns kæra föðurlands? Far þú samt heill
og sæll! En ef þú vissir, hve margar raunir liggja fyrir þér,
áður þú kemst heim í föðurland þitt, þá mundir þú heldur
kjósa að vera hér kyrr hjá mér í þessu húsi, og verða ódauðlegur,
enn þótt þig langi mjög til að sjá konu þína, er þú
þreyr æ alla daga; þykist eg þó víst ekki vera síður en hún,
hvorki að vexti né vænleik, því alls ekki mega mennskar konur
jafna sér við ódauðlegar gyðjur að vexti og fríðleik“.
214 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði henni og sagði: „Reiðst
mér ei, tignarlega gyðja, fyrir þá skuld; eg veit fullvel, hvað
tilkemur, að hin vitra Penelópa er þér óálitlegri bæði að vexti
og vænleik upp á að sjá: hún er dauðleg, en þú ódauðleg og
eldist eigi. En engu að síður vil eg og þrey eg eftir því alla
daga, að komast til húss míns og sjá minn heimfarardag. En
ef einhverr guðanna brýtur far mitt á hinu dimmbláa hafi, skal
eg bera það og hafa þolinmóðan hug í brjósti; því mjög margt
illt hefi eg áður þolað og í margar raunir ratað á sjó og í
hernaði, og má þá þetta bætast þar á ofan“.
225 Svo mælti hann; en sólin rann og rökkrið kom yfir;
gengu þau þá inn í afkyma hins víða hellis, voru þar hvort hjá
öðru, og unnust með blíðu.
228 En þegar er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom
í ljós, fór Odysseifur í kyrtil sinn og yfirhöfn, en Landgyðjan
lét yfir sig stóran, silfurbjartan möttul, smáofinn og fagran,
varp um sig miðja fögru, gullegu belti, og faldaði sér með höfuðblæju;
tók hún þá að sýsla um burtför hins hugstóra Odysseifs.
Hún fékk honum bolöxi mikla, sem honum var handhæf, hún
var úr eiri, tvíeggjuð, á fögru olíuviðarskafti, og skaftið rekið
fast upp á; þvínæst fékk hún honum fallega handöxi, gekk
á undan honum út á eyna, þar sem stórtrén uxu, elrir, ösp og
himinvaxin fura, voru þau tré fyrir löngu skrælnuð og gagnþurr
og máttu létt fljóta á vatni. En er hin ágæta gyðja Kalypsó
hafði vísað honum á, hvar stórtrén uxu, gekk hún heim aftur.
243 Hann tók nú til að höggva trén og gekk verkið skjótt
fram; hann felldi alls tuttugu tré, og hjó til með eiröxinni,
síðan slétti hann þau kunnáttulega og gerði þráðbein. Þá færði
hin ágæta gyðja Kalypsó honum nafra, boraði hann þá allan
viðinn, og felldi hvað við annað, festi síðan flotann saman með
nöglum og greypingum. Eins botnvíðan og hagur skipasmiður
gerir stóran byrðing, eins víðan gerði Odysseifur hinn breiða
flota. Þá reisti hann stokkana, felldi þá við þéttar rengur, og
stokkbyrði svo flotann, súðaði seinast utan með löngum borðum.
Hann gerði og siglutré á flotanum, og rá, sem því hæfði;
þá bjó hann til stýri til að stýra með. Síðan víggyrðlaði hann
flotann alla vega með víðirflekum til að verja ágjöf, og bar svo
í hann góða seglfestu. Þá færði hin ágæta gyðja Kalypsó honum
dúka, að gera segl af, bjó hann þau og til með mikilli list.
Héraðauki festi hann á flotanum aktauma, dragreip og klær.
ýtti honum síðan með ásum út á sjávardjúpið.
[1083.png: Floti Odysseifs.]
262 Þetta var hinn fjórði dagur, og hafði hann þá lokið
öllu; en á fimmta degi lét hin ágæta Kalypsó hann leggja frá
eynni, hafði hún áður fært hann í ilmandi klæði og laugað
hann. Gyðjan færði honum á flotann einn belg með dökkleitu
víni, og annan stóran með vatni; hún færði honum og fararnesti
í leðurmal og nóg af lystugu sufli. Hún sendi honum hægan
byr og mjúkan; varð hinn ágæti Odysseifur feginn byrnum, og
sló út seglunum, en hann sat og stýrði kunnáttulega með stýrinu;
ekki féll svefn á augu hans: hann horfði á Sjöstirnið og
Boótes, er seint gengur undir, og á Björninn, er Vagn kallast
öðru nafni, og gengur þar í hring og hefir augun á Óríoni, og
er einn svo, að hann laugast ekki í útsjánum; hafði hin ágæta
gyðja Kalypsó sagt honum að hafa hann á vinstri hönd sér, er
hann sigldi yfir hafið. Nú sigldi hann yfir hafið í seytján daga,
en á átjánda degi sáust hin dimmu fjöll á Feakalandi, þar sem
skemmst var til lands; var landið til að sjá, sem skjöldur flyti
á enu dimmleita hafi.
282 En er hinn voldugi Landaskelfir kom aftur frá Eþíópum,
gat hann að líta Odysseif álengdar ofan af Sólýmafjöllum, og
sá, að hann var að sigla yfir hafið. Hann varð þá enn reiðari í
skapi, hristi höfuðið og mælti í huga sér: „Mikil firn! Sannlega
hafa hinir guðirnir eftir á brugðið á aðra ætlan með Odysseif,
meðan eg var með Eþíópum; og nú er hann þegar kominn
í nánd við Feakaland, þar sem ákveðið er að hann skuli
komast úr þeim stórkostlegu þrautum, er á hann sækja; en eg
vona, að eg geti látið hann fá nóg af hrakningi, áður lýkur“.
291 Þá hann hafði þetta sagt, greip hann þríforkinn, rak
saman skýin og rótaði upp hafinu; hann æsti upp alla bylji
alls konar vinda, og huldi skýjum jafnt jörð sem haf; sveif
þá náttmyrkur af himni ofan. Þá laust saman austanvindi og
sunnanvindi, hvössum vestanvindi og heiðríkum norðanvindi,
er veltir stórri báru. Þá varð hné og hjarta Odysseifs magnþrota,
og þá sagði hann raunamæddur, við sína hugstóru sál: „Eg
vesæll maður! hvað mun þá loks um mig verða? Hræddur er
eg um, að allt rætist, sem gyðjan sagði, er hún kvað mig rata
mundu í miklar raunir í hafi, áður en eg kæmist heim í föðurland
mitt; mun þetta nú allt fram koma. Hvílíkum skýbólstrum
hefir Seifur hlaðið umhverfis á hinum víða himni, rótað
upp hafinu, og byljir æða að úr öllum áttum. Nú er mér vís
bani búinn. Þrísælir eru Danáar, og fjórsælir, þeir er fyrrum
létust í hinu víða Trójulandi af góðvilja við Atreifssonu. Eg
vildi eg hefði dáið og bana beðið, þann dag er flestir Trójumenn
skutu að mér eirslegnum spjótum kringum hinn fallna
Peleifsson: þá mundi eg hlotið hafa sæmilega útför, og Akkear
haldið á loft heiðri mínum; nú þar á móti liggur fyrir mér að
deyja aumum dauðdaga“.
313 Þá hann hafði þetta sagt, skall stór bára ofan yfir hann,
og fór svo geyst, að hringsneri flotanum; hrökk hann þá sjálfur
langt út af flotanum, og sleppti tökum á stýrinu. Þá kom á ógurlegur
bylur hinna samanlostnu vinda, og braut siglutréð um
þvert, og hraut seglið og seglráin langt á sjó út. Honum hélt
langan tíma í kafi, og gat hann ekki skjótt kafað upp sökum
brimóranna, því klæði þau, er hin ágæta Kalypsó hafði gefið
honum, þyngdu hann niður. Um síðir skaut honum upp, hrækti
hann þá úr munni sér því beiska sjóarvatni, er streymdi óðum
niður af höfði hans. Ekki gleymdi hann flotanum að heldur,
þó hann væri hart leikinn, heldur lagðist hann eftir honum í
briminu, og fékk náð í hann; settist hann nú upp á flotann, og
vildi firra sig fjörtjóni, en hin mikla bára rak flotann með
fallinu til og frá. Eins og norðanvindur á frumhausti[* Misseri Grikkja voru sjö: vor, sumar, frumhaust, síðhaust, sáðtíð,
vetur (regntíð), frjátími. Frumhaust kölluðu þeir frá uppgöngu Siríusar til
uppgöngu Arktúruss (júlímánuður til miðs septembers), síðhaust frá uppgöngu
Arktúruss til uppgöngu Sjöstirnis.] feykir
þéttsamloðandi þyrnum um flatan völl, eins hröktu vindarnir
flotann til og frá um hafið; ýmist rak sunnanvindurinn
hann í fang norðanvindinum til hraknings, ýmist sleppti
austanvindurinn honum við vestanvindinn til eltingar.
333 Nú sá hann hin öklafríða Ínó Levkoþea (Hvítagyðja),
dóttir Kadmusar, er fyrrum var dauðleg mær máli gædd, en
hafði nú hlotið guða heiður í sjávardjúpinu. Hún kenndi í brjósti
um Odysseif í hrakning hans og þrautum, settist á hinn margneglda
flota, og tók til orða: „Þú vesæll maður, hví er Posídon
Landaskelfir orðinn þér svo ákafa reiður, að hann skuli láta þig
rata í slíkar raunir? Ekki skal hann ná að tortýna þér, þótt
hann sé þess fúsastur. Gerðu nú, eins og eg segi, því mér lízt
ekki ógreindarlega á þig: far þú af klæðum þessum, gakk
af flotanum, og lát hann rekast fyrir vindum, en þú gríp til
sunds, og leita við að komast til Feakalands, þar sem þér er
undankoma ætluð. Tak við þessari ódauðlegu höfuðblæju, og
bitt um brjóst þér; þarftu þá ei að óttast, að þér muni við
nokkuru hætt, eða að þú munir farast. En þegar er þú fær
hauður höndum tekið, þá skaltu leysa af þér blæjuna aftur, og
varpa henni langt frá landi út á hið dimmbláa haf, og snúa
þér undan á meðan“.
351 Þegar gyðjan hafði þetta mælt, fékk hún honum höfuðblæjuna,
og stakk sér aftur ofan í hinn bylgjótta sæ, eins og
blesönd, og fal hana hin dökkva bára. En hinn þolgóði, ágæti
Odysseifur hugsaði sig um, og sagði raunamæddur við sína
hugstóru sál: „Nú er eg, vesæll maður, hræddur um, að einhverr
hinna ódauðlegu búi mér aftur nokkura vél, þar sem
hún ræður mér að ganga af flotanum. Eg skal þó ekki fara að
ráðum hennar ennþá, því eg sá, að langt er enn til lands þess,
er hún kvað mér mundu undankomu auðið verða. Eg skal heldur
gera eitt, sem mér þykir ráðlegast: meðan trén haldast í greypingum,
skal eg bíða hér kyrr og vera þolinmóður, þó í raunir
reki; en er sundur leysir flotann af ölduganginum, skal eg
fara á sund; sé eg nú ekki annað tiltækilegra“.
365 Meðan hann var að hreifa þessu í huga sér, skaut Posídon
Landaskelfir upp stórri báru, ógurlegri og voðalegri holskeflu,
og lét hana skella á honum. Eins og hvass vindur feykir þurrum
sáðhrúgum, og tvístrar þeim ýmsar áttir, eins tvístraði
Posídon hinum löngu trjám flotans; en Odysseifur settist tvívega
upp á einn stokkinn, og reið honum eins og veðhlaupshesti,
fór hann þá af þeim klæðum, er hin ágæta Kalypsó hafði
gefið honum, og batt þegar höfuðblæjunni um brjóst sér, steypti
sér síðan í sjóinn á grúfu, breiddi út hendurnar og greip sund.
En er hinn voldugi Landaskelfir sá það, skók hann höfuðið, og
sagði í huga sér: „Hrekstu nú svo um haf innan, við margs
kyns raunir, unz þú nær fundi seifborinna manna, og vonar
mig þó, að þú munir ei þurfa hrakninganna að frýja“.
380 Að því mæltu keyrði hann hina faxprúðu hesta, og kom
til Ægisvalla, þar sem hans frægu hallir eru.
382 En Aþena, dóttir Seifs, hugsaði upp annað ráð: hún
hefti för annarra vinda, og bað þá alla hætta og vera kyrra,
en lét á koma hvassan norðanvind, og bældi niður öldurnar
fyrir framan, svo hinn seifborni Odysseifur næði að komast á
fund hinna róðrargjörnu Feaka, og firrast dauðann og Banagyðjurnar.
388 Þar velktist hann í digrum öldum tvær nætur og tvo
daga, og óaði hjarta hans oftsinnis fyrir dauða. En er hin
fagurlokkaða Morgungyðja greiddi fram þriðja daginn, þá tók
af vindinn, og gerði blæjalogn; sá hann þá landið nálægt sér,
þá hann hvessti augun fram fyrir sig ofan af hinni hávu öldu.
Eins og börn verða fegin, ef faðir þeirra lifnar við, þá hann
hefir legið í sótt sárþjáður og lengi dregizt upp, af því einhver
óalegur óhamingjuguð hefir hremmt hann: eins og þau verða
fegin, þá guðirnir leysa hann frá því meini, eins varð Odysseifur
feginn, er hann leit landið og skóginn. Hann gæddi nú
sundið, því hann langaði til að stíga fótum á land. En er hann
var kominn svo nærri, að hljóð mátti nema, þá heyrði hann
niðinn við sjávarklettana; því hin mikla alda drundi, þá hún
gaus hræðilega upp á þurrlendið; allt varð í brimlöðri, því þar
voru engar leguhafnir fyrir skip, og ekkert afdrep, heldur útskagar,
klettar og klakkar. Þá varð hné og hjarta Odysseifs
máttvana, og þá sagði hann raunamæddur við sína hugstóru
sál: „Eg vesæll maður! Nú þegar Seifur hefir fremur allri von
unnt mér að sjá land, og eg hefi brotizt í gegnum þvílíkt sjávardjúp,
sést hvergi lending, að ganga megi upp af enum gráa sæ:
því hér liggja út frá landi hvassir klakkar, er brimið gnýr á,
og sléttur hamar gnæfir hér í loft upp. Hér er og aðdýpi mikið,
og hvergi stætt, að maður fái sér bjargað úr háskanum. Hætt
er og við, ef eg leita hér uppgöngu, að stórsjórinn taki mig og
reki upp í hamrabjörgin, og verði svo tilræðið til ónýtis. En
ef eg syndi enn utar með landi fram, til að vita hvort eg finn
nokkurstaðar aflendar strendur og víkur, er eg hræddur um
að einhverr stormbylur taki mig, og keyri mig aftur út á hið
fiskauðga haf, og er það kvíðvænlegt; eður og, að einhverr
óhamingjuguð stefni að mér einhverjum stórfiski utan af hafi,
hvar af hin fræga Amfitríta uppelur mikla mergð, því eg veit,
að hinn frægi Landaskelfir leggur reiði á mig“.
424 Meðan hann var að hreifa þessu í huga sér, bar stórsjórinn
hann upp að hinni klettóttu strönd. Þar hefði hann
nú hruflazt og beinbrotnað, ef hin glóeyga gyðja Aþena hefði
ekki látið honum eitt ráð til hugar koma: hann greip í snarræði
báðum höndum um klettinn, og hélt sér fast við hann stynjandi,
meðan ólagið reið framhjá, og komst með því móti undan því;
en með útsoginu skall það hart á honum aftur, og rak hann
langt út á sjó. Eins og mikil smámöl loðir við sogvörtur kolkrabbans,
þá hann er dreginn út úr fylgsni sínu: eins hrufluðust
hans áræðnu hendur á klettunum, en hin stóra bára
færði hann í kaf. Þar mundi nú hinn vesæli Odysseifur látizt
hafa yfir forlög fram, ef hin glóeyga Aþena hefði ekki léð
honum varhugavits. Þá honum skaut upp úr öldunni, sem vön
er að gjósa á land upp, þá svam hann fram með fyrir utan
lána, og horfði inn að landi, ef hann kynni einhverstaðar að
finna aflendar strendur og víkur. Hann svam nú, þar til er
hann kom að einum fögrum vatnsósi, leizt honum þar líklegast
til landtöku, því þar var klettalaust og hlé fyrir vindi. En
er hann heyrði til straumsins, baðst hann fyrir í huga sér: „Heyr,
lávarður, hverr sem þú ert! Eg kem til þín, sem margur maður
leitar líknar hjá, og kem utan af hafi og flý undan ógnum
Posídons. Jafnvel hinir ódauðlegu guðir sjá aumur á hverjum
þeim hröktum manni, sem til þeirra kemur, eins og eg kem nú
að þínum straumi og að knjám þínum eftir afstaðnar margar
þrautir. Miskunna mér, lávarður, því nú em eg þinnar líknar
þurfi!“
451 Svo mælti hann, en Straumguðinn stöðvaði þegar rás
sína, kyrrði ölduganginn, og gerði lásléttu fyrir framan hann,
og kom honum heilum upp á vaðlana. Þá beygði hann bæði
kné sín og sína þreknu handleggi (og hvíldist), var hann
mjög þrekaður af sjóvolkinu, og allur hans líkami þrútinn,
rann mikill sjór af munni hans og nösum. Þá leið hann í ómegin,
og lá andalaus og mállaus, því hann var af sér kominn af
þreytu. En er hann raknaði við, og líf færðist í brjóstið, þá
leysti hann af sér höfuðblæjuna, og lét hana falla niður í hið
særunna vatnsfall, bar aldan hana forstreymis aftur til sjóar,
og tók Ínó þegar við henni með höndum sínum. Gekk Odysseifur
þá upp úr ánni, og lagðist niður í sefið, og kyssti hina
kornfrjóvu jörð. Þá mælti hann raunamæddur við sína hugstóru
sál: „Hvað mun þá fyrir mér liggja, vesælum manni? Hvað
mun þá loks um mig verða? Ef eg á hér raunalega vökunótt
við fljótið, er hætt við, að bæði hin skaðvæna héla og hin
svala dögg yfirþyrmi mig, þar eg er líflítill eftir öngvitið, en
köld nepja andar frá fljótinu, þegar birta tekur. En fari eg
upp á holtið og í hinn skuggamikla skóg, og sofni eg í hinum
þéttu runnum, ef kuldinn og þreytan kynni að líða úr mér, og
sætur svefn renna í brjóst mér, þá er eg hræddur um, að eg
verði dýrunum að herfangi og bráð“.
474 Þegar hann hugsaði um þetta, leizt honum eitt ráðlegast:
hann gekk á stað til skógarins, og fann hann nálægt vatninu,
þar sem við blasti. Þar kraup hann inn undir tvær samgrónar
viðsmjörsviðarhríslur, var annað villiviður, en annað
frjóviður. Hvorki gátu hvassir þeyvindar blásið í gegnum þær,
né sólin skínandi skotið þar inn geislum sínum, eða regn
þrengt sér þar í gegnum, svo voru þær þétt samgrónar hvor
við aðra á víxl. Odysseifur kraup inn undir hríslurnar, og sópaði
saman með höndunum víðu bóli handa sér, því þar var
lauffall svo mikið, að tveir eða þrír menn hefði vel mátt bjargast
við á vetrardegi, hvað mikil harka sem væri. En er hinn
þolgóði, ágæti Odysseifur leit laufbinginn, varð hann glaður,
og lagðist niður í miðjan binginn, og rótaði ofan á sig laufinu.
Eins og maður, sem býr fjarri öðrum mönnum, felur
eldibrand í svartri ösku yzt á akri sínum, og geymir sér þar
eldkveykju, svo hann þurfi ekki að sækja eld á annan bæ: eins
huldi Odysseifur sig með laufinu. Aþena steypti svefni yfir
augu hans, til þess hann breiddi sig yfir brár hans, og tæki
sem fyrst úr honum hið sárlega máttleysi.
[1089.png]
[1091.png]
SJÖTTI ÞÁTTUR.
ODYSSEIFUR KEMUR TIL FEAKA.
HINN þolgóði, ágæti Odysseifur svaf hér þannig, lémagna
af svefni og þreytu; en Aþena gekk til lands og borgar
Feaka: þeir bjuggu áður fyrr meir í hinni víðlendu
Hýperíu, í grennd við Kýklópa. Kýklópar voru ofstopamenn
miklir, og ræntu oft mönnum Feaka, því þeir voru þeim yfirsterkari.
Þá flutti hinn goðumlíki Násíþóus byggð þeirra þaðan,
og setti þá niður í Skerju, fjarri öðrum fengsömum mönnum;
hann hlóð vegg umhverfis borg þeirra, byggði hús, reisti goðahof
og skipti akurlöndum. Násíþóus var þá sigraður af Banagyðjunni
og genginn til Hadesar heims, en Alkínóus réð nú
löndum; honum höfðu guðirnir veitt stóra vitsmuni. Hin glóeyga
gyðja Aþena gekk til hallar Alkínóuss, og ætlaði að koma
til vegar heimför hins hugstóra Odysseifs. Hún gekk inn í
svefnherbergið, það var gert með miklum hagleik; þar hvíldi
Násíka, dóttir ens hugstóra Alkínóuss, sú mær var lík hinum
ódauðlegu gyðjum að vexti og vænleik. Hjá henni voru
þjónustumeyjar, og hvíldi sínumegin dyrustafs hvor; þær höfðu
fegurð sína frá Þokkagyðjunum. Hinar ljómandi hurðir voru
læstar. Aþena leið eins og vindblær að sæng meyjarinnar, nam
staðar yfir höfði hennar, og mælti til hennar, var hún þá í líki
dóttur hins skipkæna Dýmants, hún var jafnaldra henni og unni
henni hugástum; í hennar líki talaði hin glóeyga Aþena til
hennar: „Násíka, hví hefir móðir þín átt svo hirðulausa dóttur,
sem þú ert? Hin fögru klæði, sem þú átt, liggja í reiðileysi, þar
sem þó brúðkaup þitt er fyrir hendi, þá þú bæði átt að búast
fögru skarti sjálf, og svo fá þeim falleg klæði, er leiða þig til
húss; því af þessu berst út góður orðstír af þér manna meðal,
og faðir þinn og þín heiðvirða móðir gleðjast þar af. Látum
okkur nú fara til þvottar, þegar er lýsir af degi. Eg skal fylgjast
með þér og hjálpa þér til, svo þú verðir fljótt búin; því ekki
muntu lengi hér eftir verða heimasæta, því nú biðja þín hinir
göfgustu menn í öllu Feaka landi, hvar og ætt þín er sjálfrar.
Heyr nú, bið þinn fræga föður, þegar birtir, að hann láti búa
múlösnur og vagn til að flytja á lindana og möttlana og hina
glæsilegu dúka; er þér sjálfri þetta miklu sæmra, en fara á fæti,
því laugardælirnar eru langt frá borginni“.
41 Þegar hin glóeyga Aþena hafði sagt þetta, fór hún til
Ólymps, þar sem menn segja guðanna bústaði vera, þeir er
ævinlega stöðugir standa, skekjast aldrei af vindum, eða vökna
af regni, og aldrei kemur þar snjór, heldur breiðir sig þar út
skýlaust uppheimsloft, og leikur yfir bjartur ljómi; þar gleðja
sig hinir sælu guðir alla daga. Þangað fór Glóeyg, þá hún hafði
átt tal við meyna.
48 Bráðum kom hin stólprúða Morgungyðja, og vakti hina
fagurmöttluðu Násíku. Henni þótti draumurinn næsta undarlegur;
fór hún og gekk gegnum herbergin, að segja foreldrum
sínum frá, föður sínum og móður sinni. Hún fann þau inni:
sat móðir hennar við eldstóna með þjónustumeyjum sínum, og
spann band úr sjávarpurpura; en föður sínum mætti hún, í því
hann gekk út á ráðstefnu til enna frægu höfðingja, þar sem
hinir ágætu Feakar höfðu mælt honum mót. Hún gekk að
föður sínum og mælti: „Faðir góður! Viltu ekki láta búa mér
hávan hjólvagn, og flytja á til árinnar hin vönduðu klæði til
þvottar, er hjá mér liggja óhrein? Bæði sæmir þér sjálfum, þá
þú ert á ráðstefnu með höfðingjum, að bera hrein klæði, svo áttú
og fimm sonu heima, tvo kvongaða, og þrjá ókvænta í blóma
aldurs síns; er jafnan vilja vera í nýþvegnum klæðum, þá þeir
fara í dansleik; er það mitt að hugsa fyrir öllu þessu“.
66 Hún tók svo til orða, af því hún fyrirvarð sig að nefna
við föður sinn hina blómlegu giftingu; en hann skildi allt, og
svaraði henni: „Hvorki skal eg synja þér um múlasna, dóttir,
né um nokkurn hlut annan. Far þú, þrælarnir skulu búa þér
hávan vagn með sterkum hjólum og kerrulaup“.
71 Þá hann hafði þetta sagt, kallaði hann til þrælanna, og
gegndu þeir honum; þeir bjuggu hjólsterkan múlasnavagn utan
hallar, leiddu múlasnana undir okið, og tengdu þá við vagninn.
Mærin bar hin fögru klæði út úr herberginu, og lagði
þau upp í hinn sléttskafna vagn. Móðir hennar lét í vagninn
skrínu með alls konar ljúffengum mat og sufli, og víni á geitbelg;
og þá er mærin var komin upp í vagninn, fékk hún henni
tæra olíu á gullflösku, svo hún gæti smurt sig ásamt með
þjónustumeyjunum. Síðan tók konungsdóttir svipuna og hina
glæsilegu tauma, og keyrði af stað; gerðist þá dynur af múlösnunum,
er þöndu sig án afláts, og drógu klæðin og hana; eigi
var hún ein í för, því þjónustumeyjarnar gengu með henni.
85 En er þær komu að hinum fagra árstraumi, þá voru þar
laugardælir er aldrei þraut í, því fagurt vatn og gnógt rann
þangað úr ánni, svo þvo mátti, hversu óhreinn þvottur sem
var. Þar beittu þær múlösnunum frá vagninum, og ráku þá
fram með hinu straumharða fljóti til að bíta hið sæta vallendisgras;
tóku síðan klæðin úr vagninum, og létu niður í hið bláa
vatn, tróðu þau í gryfjunum og kepptust við. En er þær höfðu
þvegið og tekið burt öll óhreinindi, breiddu þær þvottinn í röð
á sjóarbakkann, þar sem sjór var oftast vanur að skola mölina
við landið, síðan lauguðu þær sig og smurðu með viðsmjörsviðarfeiti,
tóku því næst dagverð þar á fljótsbakkanum, og biðu þess
að þvotturinn þornaði í sólskininu. En er hún og þernurnar
höfðu satt sig á matnum, lögðu þær af sér höfuðblæjurnar, og
léku knattleik, og var hin hvítarmaða Násíka forgangsmaður
fyrir þeim í leiknum. Eins og hin örvumglaða Artemis gengur
eftir einhverju fjalli, annaðhvort hinum háva Taygetus eða
Erýmantus, til að gamna sér að göltum og fráum hjörtum, en
skógargyðjurnar, dætur Seifs Ægisskjalda, skemmta sér með
henni, verður Letó þá alls hugar fegin, því Artemis ber höfuð
og enni yfir þær allar, og er auðþekkt frá þeim, þó allar séu
þær fríðar: svo bar hin ógifta mær langt af öllum þjónustumeyjunum.
110 En er hún hafði beitt múlösnunum fyrir vagninn og
brotið saman hin fögru klæði, og ætlaði að halda heim aftur,
þá hugsaði hin glóeyga gyðja Aþena upp eitt ráð, svo Odysseifur
skyldi vakna og sjá hina fagureygu mey, að hún vísaði honum
til borgar Feaka. Konungsdóttir kastaði knettinum að einni
þjónustumeynni, og missti hennar, stökk knötturinn út á djúpan
hyl, en þær hljóðuðu upp hástöfum við þetta. Þá vaknaði hinn
ágæti Odysseifur. Hann settist upp, og hugsaði með sjálfum
sér: „Hvaða menn munu búa í því landi, sem eg vesæll maður
em nú aftur í kominn? Hvort munu þeir vera ofstopamenn og
grimmir og fullir ójafnaðar, eða góðir við ókunna menn og
guðhræddir? Svo þótti mér, sem bæri mér að eyrum kvenlegt
meyjahljóð, Landgyðja þeirra, er búa á hávum fjallatindum, við
uppsprettur vatna og á grösugum engjum. Eða mun eg nokkuð
vera í nánd við menn máli gædda? Það er bezt eg fari sjálfur,
og viti hvers eg verð vís“.
127 Að því mæltu gekk hinn ágæti Odysseifur fram úr
runninum; hann braut með sinni þreknu hendi laufgaða grein
úr hinum þétta skógi, og vafði henni um sig til að hylja
skapnað sinn. Hann gekk nú af stað sem fjallaljón, er treystandi
afli sínu gengur regnvott og veðurbarið, og brennur
eldur af augum þess; það fer eftir nautum eða sauðum eða villihjörtum,
og sulturinn þrýstir því til að ráðast að smáfénaði
jafnvel inn í harðlæst hús: eins varð Odysseifur að ganga á
fund hinna fagurlokkuðu meyja, þótt hann væri klæðlaus, því
neyðin þrýsti að honum. Hann var ekki vel til reika af sjávarseltunni,
og varð hann þeim því ógurlegur augum, svo þær
hræddust og hlupu í sína átt hver fram á sjávarbakkana. Dóttir
Alkínóuss beið ein eftir, því Aþena hafði komið hug í brjóst
henni og tekið frá henni allan ótta; hún snéri sér því gegnt
honum og stóð kyr. Þá hugsaði Odysseifur sig um, hvort hann
skyldi taka um kné hinni sjónfögru mey og biðja hana ásjár,
eða skyldi hann aðeins standa álengdar og biðja hana með
blíðum orðum að vísa sér til borgarinnar og gefa sér klæði.
En er hann hugsaði um þetta, þótti honum ráðlegra að
biðja hana með blíðum orðum álengdar, svo mærin skyldi ei
reiðast honum, ef hann tæki um kné henni. Hann talaði þá
þessi blíðu og kænlegu orð: „Eg knéfell þér, drottning, hvort
heldur þú ert gyðja eða dauðlegur maður. Sértu einhver af
þeim guðum, er byggja víðan himin, sýnist mér þú einna líkust
Artemisi, dóttur ens mikla Seifs, bæði að fríðleik, hæð og vaxtarlagi.
En sértu ein af dauðlegum mönnum, er á jörðu búa, þá
er þrísæll faðir þinn og þín heiðvirða móðir, og þrísælir bræður
þínir; mun víst hugur þeirra jafnan við lifna af fögnuði yfir
þér, þá þau sjá slíkan blómkvist ganga í dansleik. En sá er þó
í rauninni langsælstur allra, sem fær unnið þig með brúðgjöfum
og leiðir þig svo heim til sín. Því ekki hef eg enn
augum litið nokkurn dauðlegan slíkan, hvorki mann, né konu;
eg undrast stórum, þá eg horfi á þig. Einusinni sá eg líkan
ungan pálmakvist upprenna hjá stalla Appollons í Deley; því
eg kom og þangað, og margir menn með mér, og átti mér
þungra mannrauna auðið verða í þeirri ferð. En þá eg sá þann
kvist, varð mér hið sama, sem nú, að eg starði lengi á hann
með undrun, því aldrei hefir slíkt tré úr jörðu sprottið. Eins
dáist eg að þér, mær, og undrast þig, og þori með engu móti
að taka um kné þér. En harðan harm hefir mér að hendi
borið: eg kom í gær af hinu dimmbláa hafi eftir tuttugu daga
útivist, hröktu mig bárur og snarir byljir allan þann tíma frá
eynni Ógýgju; en nú kastaði einhverr guð mér hér á land, má
vera til þess að eg rati hér og enn í nokkura raun, því ekki
hygg eg að hér muni staðar nema, munu guðirnir áður láta
mér enn margt að hendi bera. En þú, drottning, miskunna
mér, því eg kem fyrst á þinn fund, eftir afstaðnar margar
þrautir; þekki eg hér öngvan mann annan af þeim, er í þessu
ríki og þessu landi búa. Vísa mér á borgina, og gef mér fat
nokkurt til að klæðast í, af þeim umbúðum, er þú munt haft
hafa hingað með þér utan um þvottinn. En guðirnir veiti þér
allt, er þú æskir í hjarta þínu, og gefi þér mann og hús og
gott samlyndi; því ekkert er betra og ágætara, en þegar maður
og kona búa í húsi saman samlynd í hugum: er það stór skapraun
óvinum þeirra, en gleði vinum þeirra, en bezt hafa þau
af því sjálf“.
186 Hin hvítarmaða Násíka svaraði honum: „Svo lízt mér
á þig, gestur, sem þú munir ekki vera ógöfugur maður, og
ekki heimskur. Hinn Ólympski Seifur úthlutar sjálfur sérhverjum
manni sitt hamingjulán, göfugum sem ógöfugum, eftir
því sem hann vill; hefir hann og látið þetta verða þitt hlutfall,
og ber þér þó að vera þolinmóðum. En með því þú ert nú
kominn í byggð vora og í land vort, þá skal þig hvorki klæði
skorta, né nokkuð annað, það er mótlættur miskunnarmaður
á að hafa, þá hann kemur á fund manns. Eg skal vísa þér á
borgina, og segja þér, hvað landslýðurinn heitir. Feakar búa
í þessu ríki og í landi þessu, en eg em dóttir hins hugstóra
Alkínóuss, er Feakar eiga undir mátt sinn og megin“.
198 Að því mæltu kallaði hún til hinna fagurlokkuðu þjónustumeyja:
„Staldrið við, þjónustumeyjar! Hvað flýið þér, þó
þér sjáið karlmann? Þér ætlið þó víst ekki, að hann sé einhverr
óvinur ? Nei, engi lifandi maður er sá, og verður aldrei,
er komi með ófrið inn í land Feaka; því þeir eru mjög kærir
hinum ódauðlegu guðum. Vér búum langt frá öðrum mönnum
úti í hinu brimótta hafi, og hafa aðrir menn engi mök við
oss. Nei, þessi maður, sem hér er kominn, er einhverr vesalingur,
kominn af hrakningi, og er skylt að hjúkra honum: því
allir gestir og þurfamenn eru undir vernd Seifs; verður oft
langþurfi litlu feginn. Þjónustumeyjar, gefið nú gestinum mat
og drykk, og laugið hann í ánni, þar sem skjól er“.
211 Svo mælti hún, en þær stóðu við, og kölluðu hver á
aðra. Þær létu Odysseif setjast, þar sem skjól var, eins og
Násíka hafði boðið, dóttir ens hugstóra Alkínóuss, og lögðu
hjá honum yfirhöfn og kyrtil til að fara í, fengu honum tært
viðsmjör á gullflösku, og sögðu honum að baða sig í árstrauminum.
Þá mælti hinn ágæti Odysseifur til þjónustumeyjanna:
„Gangið nokkuð afsíðis, þjónustumeyjar, meðan eg þvæ sjávarseltuna
af herðum mér, og smyr mig með viðsmjörinu; því
langt er síðan smyrsl hafa komið á hörund mitt. En ekki mun
eg baða mig fyrir augum yðar, því eg fyrirverð mig að vera
ber í nærveru fagurlokkaðra meyja“.
223 Svo mælti hann, en þær gengu burtu, og sögðu konungsdóttur
frá. En hinn ágæti Odysseifur þvoði af sér í ánni
sjávarseltuna, er á var baki hans og breiðum herðum, og strauk
af höfði sér froðu hins ófrjóva hafs. En er hann hafði alþvegið
sig og smurt með feitinni, fór hann í þau klæði, er hin ógifta
mær hafði gefið honum. Aþena, dóttir Seifs, gerði hann þá
hærra á velli að sjá og þreknara, og lét hrynja þykkva lokka
niður af höfði hans, líka sverðliljublómi. Eins og hugvitsmaður
nokkurr, þeim er Hefestus og Pallas Aþena hefir kennt
alls konar hagleik, gullbýr silfur og smíðar fagra gripi: eins
brá Aþena fegurð yfir höfuð og herðar Odysseifs. Því næst
gekk hann ofan til strandar á afvikinn stað, og settist þar
niður, skínandi af fegurð og yndisljóma. Konungsdóttir horfði
á hann með undrun, og mælti til enna fagurlokkuðu þjónustumeyja:
„Þér hvítörmuðu þjónustumeyjar, takið eftir því sem
eg segi: ekki kemur þessi maður á fund enna goðumlíku Feaka
að óvilja allra guða, þeirra er á Ólympi búa; því í fyrstu þótti
mér hann heldur óálitlegur, en nú líkist hann goðum þeim, er
byggja víðan himin. Eg vildi óska, að annar eins maður fengi
mín, settist hér að, og festi hér yndi. En gefið nú, þjónustumeyjar,
gestinum mat og drykk“.
247 Svo mælti hún, en þær gáfu gaum orðum hennar, og
hlýddu henni, og lögðu mat og drykk fyrir Odysseif. Nú át
og drakk hinn margþjáði, ágæti Odysseifur, og tók freklega
til matarins, því hann hafði lengi einskis matar neytt.
251 Hin hvítarmaða Násíka sýslaði annað á meðan: hún
braut saman klæðin, og lagði þau upp í hinn fagra vagn, beitti
hinum hófsterku múlösnum fyrir, og sté sjálf upp í. Hún
kallaði til Odysseifs, tók til orða og mælti: „Upp nú, gestur,
og halt til borgarinnar; mun eg nú láta vísa þér til hallar míns
fróðhugaða föður, muntu þar finna þá menn, er ágætastir eru
af öllum Feökum. Nú skaltu, með því mér lízt óheimsklega á
þig, hátta svo ferð þinni: meðan vér förum um akrana og sáðlöndin,
þá skaltú ásamt með þernunum fylgja fljótt á eftir
múlösnunum og vagninum, en eg mun ráða ferðinni. En þegar
vér komum að borginni, þá er umhverfis hana hár borgarveggur,
en báðumegin borgarinnar er fögur höfn, en mjór vegur
inn í borgina, og eru hin borðrónu skip uppsett báðumegin
vegarins, því hverr maður hefir sitt nausthús. Þar er og torg
þeirra, umhverfis hið fagra Posídonshof, og settir í kringum
torgið steinar, er að hafa verið dregnir og hleypt þar niður;
þar búa þeir til allan skipreiða, landfestar og segl, og höggva
til árar: því Feakar hirða ei um boga, né örvamæli, heldur um
siglutré, árar og jafnbyrð skip, á hverjum þeir fara hróðugir
yfir hinn gráa sæ. Vil eg gjarna komast hjá sáryrðum þeirra,
að engi þeirra spotti mig síðar; því í þessu landi eru menn
mjög áleitnir, og kann vera, að einhverr vondur maður mæti
mér, og segi: „Hverr er gestur sá hinn fríði og mikli, er þar
fylgir Násíku? Hvar hefir hún fundið hann? Nú mun hún
víst verða manni gift! Annaðhvort mun hún veitt hafa viðtöku
einhverjum hröktum manni úr fjarlægu landi og flutt hann
heim til sín frá skipi hans, þar öngvir menn búa hér í nánd:
eða einhverr margþráður guð hefir komið fyrir bænastað hennar,
stiginn af himni ofan, og ætlar að búa saman við hana
alla hennar ævi. Það væri nær, að hún færi sjálf og fengi sér
einhvern mann úr öðru landi, fyrst hún fyrirlítur hérlenda
Feaka, er hennar biðja, margir menn og göfugir“. Svo munu
menn segja, og mun þetta verða mér til ámælis. Mundi eg og
lá hverri mey annarri, er slíkt gerði, ef hún móti vilja föður
og móður, meðan þau væri á lífi, slægist í fylgd með karlmönnum,
áður en brúðkaup hennar væri haldið opinberlega.
289 Tak nú, gestur, eftir því, sem eg segi, svo þú sem fyrst fáir
flutning og farargreiða hjá föður mínum. Þú munt finna nærri
veginum fagran espilund, helgan Aþenu; þar rennur lækur,
og er engi umhverfis: þar er eignarjörð föður míns, er það
blómlegt akurland, svo langt frá borginni, sem mál má nema.
Hér skaltu setjast niður og bíða um hríð, unz vér erum komnar
inn í borgina, og heim til húsa föður míns. En er þú hyggur
oss vera heim komnar til hallarinnar, þá skaltu ganga til Feakaborgar,
og spyrja að höll föður míns, ens hugstóra Alkínóuss:
er hún auðkennd, svo að jafnvel ungbarn mætti vísa þér á
hana, því engin hús Feaka eru því lík, sem höll öðlingsins
Alkínóuss. En þegar þú ert inn kominn í herbergin og höllina,
þá skaltu ganga sem skjótast gegnum stofuna, þar til þú kemur
til móður minnar; hún situr við eldstóna í eldsbirtunni, hallar
sér upp við súluna, og spinnur band úr forkunnarfögrum
sjávarpurpura, en bak við hana sitja þernurnar. Þar stendur
og hásæti föður míns og blasir við birtunni; hann situr í hásætinu,
og drekkur vín, sem væri hann einn af goðunum. Þá
þú ert genginn fram hjá stóli föður míns, skaltu rétta hendur
að knjám móður okkar, svo þú fáir brátt þann fögnuð, að
sjá þinn heimkomudag, þó þú sért næsta langt að kominn“.
316 Að því mæltu keyrði hún múlasnana með hinni fögru
svipu; hlupu þeir skjótt frá hinum rennanda árstraumi, runnu
fljótt og lögðu mikið undir sig. En hún hélt strítt í taumana,
svo þjónustumeyjarnar og Odysseifur, sem voru gangandi, gætu
orðið henni samferða, og lagði því svipuna á með gætni. Um
sólarlag komu þau til hins fagra lundar, er helgur var Aþenu.
Þar settist hinn ágæti Odysseifur, og gerði þegar bæn sína til
dóttur ens mikla Seifs: „Heyr bæn mína, Atrýtóna, dóttir Seifs
Ægisskjalda! Bænheyr mig þó nú loksins, fyrst þú ekki heyrðir
bæn mína fyrrum í skipreikanum, þá hinn frægi Landaskelfir
laust mig. Lát mig finna góðvilja og miskunn hjá Feökum,
þá eg kem til þeirra“.
328 Þannig baðst hann fyrir, en Pallas Aþena heyrði bæn
hans; þó kom hún enn ekki í augsýn hans berlega, því hún
óttaðist föðurbróður sinn, sem hafði þunga reiði á hinum goðumlíka
Odysseifi, allt þar til er hann komst heim í föðurland
sitt.
[1100.png]
[1101.png]
SJÖUNDI ÞÁTTUR.
ODYSSEIFUR KEMUR TIL ALKÍNÓUSS KÓNGS.
ÞANNIG baðst hinn þolgóði, ágæti Odysseifur fyrir (í
lundinum); en hinir þolnu málasnar hlupu með meyna
til borgarinnar. En er hún kom til ennar veglegu hallar
föður síns, lét hún þá staðar nema fyrir fordyrinu. Bræður
hennar gengu út til hennar, líkir ódauðlegum guðum; þeir
beittu múlösnunum frá, og báru klæðin inn. Hún gekk sjálf
inn í herbergi sitt, en hin aldraða herbergismær Evrýmedúsa
frá Apíru kveykti upp eld fyrir hana; sú hafði fyrr meir verið
flutt á borðrónum skipum frá Apíru, höfðu menn valið hana
sem heiðursgjöf handa Alkínóus, sökum þess að hann réð yfir
öllum Feökum og að landslýðurinn hlýddi honum, sem vær
hann einhverr guðanna. Hún fóstraði hina hvítörmuðu Násíku
í höllinni; kveykti hún upp eld fyrir hana, og bjó til kvöldverðar
inni.
14 Þá tókst Odysseifur göngu á hendur til borgarinnar, gerði
Aþena það til góðs við hann, að hún brá yfir hann miklum
myrkva, svo enginn, sem mætti honum af hinum mikillátu
Feökum, skyldi spotta hann í orðum, og spyrja, hverr hann
væri. En rétt í því hann ætlaði að ganga inn í hina lystilegu
borg, mætti honum hin glóeyga gyðja Aþena, var hún þá lík
ungri mey, og hélt á vatnskrukku; hún nam staðar frammi fyrir
honum, en hinn ágæti Odysseifur spurði hana: „Viltu ekki,
barnið gott, vísa mér á höll hins hrausta Alkínóuss, er ræður
fyrir þessu landi? því eg er ókunnugur maður, sem ratað hefi
í margar raunir, og kominn hingað langt að úr fjarlægu landi,
þekki því öngvan þeirra manna, er búa í þessari borg og í þessum
sveitum“.
27 Hin glóeyga gyðja Aþena svaraði honum: „Eg skal,
gestur sæll, sýna þér hús það, er þú biður mig að vísa þér á;
það er nálægt húsi míns góða föður. Gakk sem hljóðlegast, en
eg skal vísa þér veginn; lítt' ekki upp á nokkurn mann, og
yrk ekki orða á neinn: því landsmenn hér láta illa við ókunnum
mönnum, og fagna ekki gestbeinlega þeim, er frá öðrum
löndum koma; þeir fara yfir hið mikla sjávardjúp, treystandi
hinum skjótu, örskreiðu skipum: því þá list hefir Landaskelfir
veitt þeim, eru skip þeirra skjót, sem fugl fljúgandi eða hugur
manns“.
37 Að því mæltu fór Pallas Aþena fyrir í skyndi, en hann
fetaði eftir gyðjunni. Hinir frægu farmenn, Feakar, urðu ei
varir við, er hann gekk meðal þeirra um borgina: því hin
fagurlokkaða Aþena, sú hin máttuga gyðja, varnaði þess, hafði
hún af góðvilja til hans brugðið yfir hann helgu myrkri.
Odysseifur undraðist hafnirnar og hin jafnbyrðu skip, og þingstaði
þessara ágætismanna og hina löngu og hávu borgarveggi,
voru þeir settir vígstaurum, og hið mesta mannvirki. En er þau
komu til hinna veglegu konungshúsa, tók hin glóeyga gyðja
Aþena svo til máls: „Þetta er það hús, er þú baðst mig vísa
þér á, gestur sæll. Þú munt hitta ena seifbornu höfðingja, þar
sem þeir sitja að veizlu. Þú skalt ganga inn, og láta þér ekki
bilt við verða; því einbeittur maður verður í öllum hlutum
happadrjúgari, enn þótt hann væri kominn frá einhverju ókunnu
landi. Þú skalt fyrst ganga á fund húsfreyju í höllinni; hún
á það kenningarnafn, að hún heitir Areta, og er komin af
þeim sömu foreldrum, sem áttu Alkínóus kóng. Þau áttu
fyrst Násíþóus saman Posídon Landaskelfir og Períbea, hin
vænsta kona, yngsta dóttir hins hugstóra Evrýmedons, er fyrrum
var konungur yfir hinum ofurhuguðu Gígöntum; hann
tortýndi þessum óþjálga lýð, og fórst sjálfur. En Posídon gat
son við dóttur hans, hinn hugstóra Násíþóus, er ríkti yfir Feökum.
Synir Násíþóuss voru þeir Rexenor og Alkínóus; var
Rexenor sonlaus, og skaut Appollon Silfrinbogi hann nýkvæntan
í húsi sínu; hann lét eftir sig Aretu, eina barna. Hennar
fékk Alkínóus, og virði hana meir en nokkur kona á jörðu
er virð nú á dögum, þeirra kvenna er búráð hafa undir valdi
bænda sinna. Slíka virðingu og yfirlæti hefir hún ávallt haft,
og hefir enn, bæði af börnum sínum, og sjálfum Alkínóus, svo
og af landslýðnum, er horfir á hana sem gyðju, og fagnar
henni með kveðju sinni, hvert sinn er hún gengur um borgina;
því hvorki skortir hana góða vitsmuni, enda setur hún
niður deilur manna, þeirra er hún er vel unnandi. Verði hún
þér velviljuð í huga, þá er meiri von, að þér auðnist að sjá
aftur vini þína, og komast til þíns háreista húss og til föðurjarðar
þinnar“.
78 Að því mæltu fór hin glóeyga Aþena yfir hið ófrjóva haf
frá hinni yndislegu Skerju; hún kom til Maraþons og hinnar
strætabreiðu Aþenuborgar, og gekk inn í hið ramgjörva hús
Erekteifs.
81 Odysseifur gekk til ennar veglegu hallar Alkínóuss. Hann
nam staðar, áður en hann kom að eirþröskuldinum, og flaug
þá margt í huga hans: því ljóminn af hinu háreista húsi ens
hugstóra Alkínóuss var sem bjarmi af sólu eða tungli. Eirveggir
gengu til beggja handa frá þröskuldinum allt inn í húsið;
veggjabrúnin í kring var af blástáli. Fyrir hinu ramgjörva húsi
voru hurðir af gulli, en dyrustafirnir voru af silfri, og stóðu
á eirþröskuldi: yfir uppi var dyratré af silfri, en hurðarhringurinn
af gulli. Hundar úr gulli og silfri voru báðumegin
dyranna, hafði Hefestus búið þá til af hugviti sínu, að gæta
húss ens hugstóra Alkínóuss, voru þeir ódauðlegir og eldust
aldrei. Hástólar voru settir með endilöngum húsveggnum báðumegin
frá þröskuldinum og allt inn í húsið, voru þar á lagðir
smágjörvir, velofnir dúkar, er konurnar höfðu unnið: þar
sátu á höfðingjar Feaka, þá þeir snæddu og drukku, því þeir
höfðu ávallt alls nægtir. Þar stóðu sveinar úr gulli á velsmíðuðum
pöllum, þeir héldu á logandi blysum, og lýstu borðgestunum
á næturnar í herbergjunum. Alkínóus hafði fimmtíu
þernur í höllinni, mala sumar hinn heiðgula gróða á kvörn,
en sumar vefa dúka og spinna band; þær sitja sem laufblöð á
hávaxinni ösp, og hið tæra viðsmjör rennur af hinum fastofnu
dúkum. Eins og Feakar sjálfir kunna hverjum manni betur að
róa skipi á sjó, eins eru konur þeirra hagar á vefnað, því Aþena
hefir veitt þeim frábæra kunnáttu í hannyrðum og gott hugvit.
Fyrir utan forgarðinn, nálægt innganginum, var stór garður,
fjögur plóglönd á vídd, og gerði hlaðið umhverfis; þar uxu
stór, blómleg tré, perutré, kjarneplatré og apaldrar með fögru
aldini, sæt fíkjutré og blómlegur viðsmjörsviður; þverr aldrei
ávöxtur þeirra né bregðst ár í gegn, hvorki vetur né sumar;
því útrænan, sem þar andar ávallt, klekur einum ávexti út,
meðan annar verður fullþroska; þar sprettur ein pera, þegar
önnur fyrnist, epli á epli, vínber á vínber, fíkja á fíkju ofan.
Þar hafði Alkínóus gróðursett frjóvsaman vínakur; á einum
stað í honum var þerriflötur á sléttum velli og þornaði í sólinni,
voru menn að lesa sum vínberin, en troða sum; þar voru
og vínmuðlingar, var blómið nýsprungið á sumum, en sumir
voru nýfarnir að blána. Í enda garðsins voru afmældir reitir,
vaxnir ýmislegum gróða, héldu þeir blóma sínum allt árið í
gegn. Þar voru tvær vatnslindir, kvíslast önnur út um allan
garðinn, en hin rennur undir garðsþröskuldinn allt að hinni
hávu höll, og er þar vatnsból borgarmanna. Svo auðugur var
bústaður Alkínóuss af guðanna veglegu gáfum.
133 Hinn þolgóði, ágæti Odysseifur stóð hér við, og litaðist
um. En er hann hafði horft á allt með undrun, gekk hann
hratt yfir þröskuldinn, og inn í höllina; fann hann þar forstjóra
og höfðingja Feaka, þeir voru að dreypa hinum glöggskyggna
Argusbana, voru þeir vanir að dreypa honum dreypifórn
síðast, áður en þeir gengi til hvílu. Hinn þolgóði, ágæti
Odysseifur gekk yfir hallargólfið, hulinn miklum myrkva, er
Aþena hafði yfir hann brugðið; hann fór þar til er hann kom
til Aretu og Alkínóuss kóngs. Odysseifur tók þá höndum um
kné Aretu, og í því leið af honum sá inn heilagi myrkvi. Menn
urðu hljóðir við í höllinni, er þeim varð litið á manninn, og
horfðu á hann með undrun. Þá bað Odysseifur: „Areta, dóttir
hins goðumlíka Rexenors, eftir margar þrautir afstaðnar kem
eg til manni þíns og að knjám þínum og til þessara boðsmanna.
Þess óska eg, að guðirnir veiti yður hamingjusamt líf,
og að hverjum yðar auðnist að leifa börnum sínum eigur sínar
eftir sig í húsi sínu, og þá heiðursgjöf, er alþýða hefir veitt
honum. En eg bið, að þér greiðið för mína, svo eg komist sem
fyrst heim í föðurland mitt, því eg hef lengi raunir þolað
fjarri vinum mínum“.
153 Að því mæltu settist hann niður í öskuna hjá eldstónni
við eldinn; en þeir urðu allir orðlausir og þögðu. Loks tók
til máls hinn aldraði öðlingur Ekeneus, hann var elztur Feaka,
orðspakasti maður, og fróður í mörgum fornum fræðum; hann
var vinsæll maður, hann tók til orða og mælti: „Alkínóus,
hvorki er það sæmilegt, né viðurkvæmilegt, að gesturinn sitji
á gólfi í öskunni við eldstóna; en þeir, sem hér eru, láta viðberast
og bíða þinna atkvæða. Heyr nú, reis gestinn á fætur,
og lát hann setjast á silfurnegldan hástól; bjóð svo köllurunum
að byrla vín af nýju, að vér færum og dreypifórn hinum
þrumuglaða Seifi, sem er leiðtogi hinna heiðvirðu miskunnarmanna.
Því næst skal matseljan gefa gestinum kvöldverð af því,
sem fyrir hendi er“.
167 En er hið ágæta hraustmenni Alkínóus heyrði þetta,
tók hann í hönd hins fróðhugaða, ráðagóða Odysseifs, reisti
hann upp frá eldstónni, og lét hann setjast á fagran hástól,
en lét son sinn víkja úr sæti, hinn vaska Laódamant, er næst
honum sat og var honum kærstur. Herbergismærin kom með
handlaug í fallegri vatnskönnu úr gulli, og hellti á hendur
honum yfir silfurfati, svo hann gæti þvegið sér; þá setti hún
fyrir hann skafið borð. Hin heiðvirða matselja kom með brauð,
og lagði fyrir hann: hún bar og fram marga rétti, og lét til
fúslega það, sem til var; en hinn þolgóði, ágæti Odysseifur át
og drakk. Þá mælti hinn hrausti Alkínóus til kallarans: „Pontónóus,
blanda þú vín í skaftkerinu, og skenk öllum í höllinni,
að vér færum og dreypifórn hinum þrumuglaða Seifi sem
er leiðtogi hinna heiðvirðu miskunnarmanna“.
182 Svo mælti hann, en Pontónóus blandaði hið sæta vín,
skenkti á drykkjarkerin hjá hverjum og miðlaði öllum nokkuru.
En er þeir höfðu dreypt, og drukkið, sem þá lysti, hóf
Alkínóus svo mál sitt, og sagði: „Gefið hljóð, þér fyrirliðar og
höfðingjar Feaka, meðan eg mæli það, er mér býr í brjósti.
Með því nú er lokið veizlu, þá farið heim, og gangið til hvílu.
En að morgni skulum vér bjóða til enn fleiri höfðingjum, og
halda gestinum veizlu í höllinni og færa guðunum fagrar
fórnir; þá skulum vér og ráðgast um flutning gestsins, að hann
fyrir vorn tilbeina komist með fögnuði, þrautarlaust og angurlaust,
sem fyrst heim í föðurland sitt, hvað langt sem héðan
er þangað, og svo, að honum verði ekkert að ama eða meini á
leiðinni, unz hann stígur fæti á föðurjörð sína: þar mun á
daga hans drífa það, sem Skapanornin og hinar römmu Örlagagyðjur
ætluðu honum, þá þær spunnu lífsþráð hans við
fæðinguna, þá móðir hans ól hann. En ef einhverr hinna ódauðlegu
guða er hér kominn af himni ofan, þá er það víst, að
guðirnir hafa hér eitthvert nýtt ráð með höndum, hvað sem
það svo er; því fyrr meir hefir það jafnan verið vandi guðanna,
að birtast oss augsýnilega, þá vér stofnum fræg hundraðsblót,
og sitja í samsæti með oss að veizlum; og þó einhverr
maður mæti þeim einn á ferð, þá dyljast aldrei fyrir honum;
því vér erum þeim nákomnir, eins og Kýklóparnir og villiþjóðir
Gígantanna“.
207 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði:
„Aðra ætlun máttu hér á hafa, Alkínóus; ekki em eg líkur
hinum ódauðlegu guðum, er byggja hinn víða himin, hvorki
að vexti né vænleik, heldur er eg sem aðrir dauðlegir menn. En
það ætla eg, að eg muni mega í mannraunum jafna mér við
þá menn, er þér vitið í mesta gæfuraun ratað hafa, og fleiri
raunasögur mundi eg sagt geta, en aðrir menn, ef eg segða frá
því öllu, er eg hefi fram úr ratað eftir ráðstöfun guðanna. En
leyfið nú, að eg taki náttverð, þar eg er svo mjög af mér
kominn; því ekkert er áfjáðara, en hinn armi magi, er neyðir
manninn til að minnast sín, hversu raunamæddur sem hann
er, og eigi yfir sorg að búa innanbrjósts. Svo er og um mig,
að þó eg beri harm í huga, þá biður hann þó ávallt um að
eta og drekka, lætur mig öllu gleyma, sem yfir mig hefir liðið,
og býður mér að fylla sig. Bregðið nú skjótt við, þegar er lýsir
af degi, að þér megið koma mér vesælum manni, sem beðið hefi
svo margar raunir, í land á föðurjörðu minni. Einu gilti mig,
þó ævin þryti, ef eg aðeins fengi að sjá eigur mínar og þræla
og hið háreista mikla hús mitt“.
226 Þannig mælti hann, en allir tóku vel undir, og báðu
greiða för gestsins, kváðu honum vel orð farizt hafa. En er
þeir höfðu dreypt, og drukkið, sem þá lysti, gekk hverr heim
til sín, að taka á sig náðir.
230 Hinn ágæti Odysseifur var eftir í stofunni, og sátu þau
hjá honum, Areta og hinn goðumlíki Alkínóus, en þjónustumeyjarnar
báru burt veizlubúnaðinn. Hin hvítarmaða Areta
tók þá til máls, því, hún kenndi yfirhöfnina og kyrtilinn, þá
hún leit hin fögru klæði, er hún sjálf hafði unnið með þjónustumeyjum
sínum; hún talaði til gestsins skjótum orðum, og
sagði: „Fyrst vil eg spyrja þig að því, gestur: hverr ertu, og
frá hvaða landi? hverr hefir gefið þér þessi klæði? eða sagðistu
ekki hafa hrakizt hingað yfir haf?“
240 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði henni: „Erfitt verður
mér, drottning, að segja frá upphafi til enda allar raunir mínar,
því margt hafa Himnabúarnir látið mér að hendi bera.
Þó mun eg segja þér það, sem þú spyr mig að og þig forvitnar
að vita. Ey nokkur liggur langt héðan úti í hafi, og heitir
Ógýgja; þar býr hin hárfagra Kalýpsó, dóttir Atlants, það er
slæg gyðja og óttaleg; hefir enginn afskipti af henni, hvorki
guðir né dauðlegir menn. En einhverr óhamingjuguð stefndi
mér, vesælum manni, einum saman að húsum hennar, eftir það
að Seifur hafði lostið mitt fljóta skip með glóbjörtu reiðarslagi,
og brotið það úti á hinu dimmbláa hafi; létust þar allir mínir
hraustu félagar, nema eg hélt mér utan um kjöltré hins borðróna
skips, og hraktist svo í níu daga. Á hinni tíundu dimmu
nótt létu guðirnir mig berast upp að eynni Ógýgju, þar sem
hin fagurlokkaða Kalýpsó býr, sú hin óttalega gyðja. Hún tók
við mér, og hélt mig ástúðlega, og nærði mig, og lézt mundu
gera mig ódauðlegan og ellivana alla daga, en gat þó aldrei
hneigt hug minn til sín. Þar var eg í sjö ár samfleytt, og vætti
jafnan í tárum þau hin himnesku klæði, er Kalýpsó hafði gefið
mér. En er hið áttunda ár kom mér að hendi, þá rak hún
eftir mér að fara burt; hefir annaðhvort verið, að Seifur hefir
gert henni orð til þess, eða henni hefir snúizt hugur sjálfri.
Hún lét mig fara á margnegldum flota, og gaf mér margt,
brauð og sætt vín, klæddi mig í himnesk klæði, og sendi mér
hægan byr og mjúkan. Á seytján dögum sigldi eg yfir hafið,
en á átjánda degi sáust hin dimmu fjöll á landi yðar; gladdist
þá hjarta mitt, vesæls manns. Þó lá enn fyrir mér að rata í
mikla raun, er Posídon Landaskelfir lét yfir mig koma. Hann
hleypti á mig stormum, og hamlaði með því för minni; hann
æsti upp óumræðilegan ósjó, svo að eg, andvarpandi hástöfum,
mátti ei viðhaldast á flotanum fyrir stórsjónum. Síðan kom vindbylur,
og sundraði flotanum; svam eg þá yfir þetta sjávardjúp,
unz vindur og alda rak mig upp að yðar landi. En er eg ætlaði
hér á land að stíga, lá við sjálft, að aldan riði mér að fullu
í landtökunni, því hún rak mig upp að stórum klettum, þar
sem hættulegt var að lenda; svam eg því þaðan aftur, unz eg
kom að fljóti nokkuru, leizt mér þar líklegast til landtöku,
er þar var klettalaust og hlé fyrir vindi. Þá herti eg upp hugann,
og komst á land; þá kom himnesk nóttin yfir, gekk eg
upp frá því himinrunna vatnsfalli, og sofnaði í runnum
nokkurum, rótaði eg ofan á mig laufi, en guð lét síga á mig
fastasvefn. Svaf eg þar í laufhrúgunni, langþjáður maður, alla
nóttina til birtingar, og fram á miðjan dag. En er leið að sólarlagi,
hvarf af mér hinn sæti svefn; sá eg þá þjónustumeyjar
dóttur þinnar, hvar þær léku sér á vatnsströndinni, var hún
þar sjálf meðal þeirra, lík einhverri gyðju. Eg bað hana líknar,
en hún lét uppi sitt góða hjartaþel, og fórst henni betur,
en von var af unglingi við ókunnan mann; því ráð ungra er
jafnan óviturlegt. Hún gaf mér nóg af brauði og skæru víni,
laugaði mig í ánni, og gaf mér þessi klæði. Hefi eg nú sagt
þér satt frá þessum raunum mínum“.
298 Alkínóus svaraði honum og sagði: „Gestur, þó fórst
dóttur minni ekki allsómalega, að hún skyldi ekki láta þig
fylgja sér heim til mín með þjónustumeyjunum, þar sem þú
hafðir þó heitið á hana fyrsta til líknar þér“.
302 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði:
„Ekki skaltu, öðlingur, álasa hinni ágætu mey fyrir það; því
hún bað mig fylgjast með þjónustumeyjunum, en eg vildi ekki,
því bæði fyrirvarð eg mig, og var líka hræddur um, að þú
mundir reiðast við, ef þú sæir; því vér jarðneskir menn erum
mjög reiðigjarnir“.
308 Alkínóus svaraði honum og sagði: „Ekki er eg, gestur,
svo lyndur, að eg reiðist af engu tilefni, og er sanngirni sæmst
í öllu. Gefi það faðir Seifur og Aþena og Appollon, að slíkur
maður, sem þú ert, og eins lyndur sem eg, fengi dóttur minnar
og gerðist tengdasonur minn, og staðfestist hér. Hús og eignir
skyldi eg gefa þér, ef þú vildir staðfestast hér sjálfviljugur; en
sé það móti vilja þínum, skal enginn af Feökum halda þér; láti
faðir Seifur það aldrei verða! Nú læt eg þig vita, í hvert mund
eg ákveð flutninginn: það skal vera á morgun; skalt þú liggja
þangað til, svefni sigraður; en þeir munu róa í logninu, unz
þú kemur heim í föðurland þitt, og til húss þíns, og hvert
sem þig lystir, og þótt þangað væri miklum mun lengra en til
Evbeu, sem héðan er lengst burtu, að sögn þeirra manna vorra,
er sáu hana, þá þeir fluttu hinn bleikhára Hradamant, er hann
vildi heimsækja Titýus Jarðarson; komust þeir þrautarlaust alla
leið þangað samdægris, og náðu heim aftur. Þá muntu og
sjálfur að raun um komast, hversu skip mín eru öllum skipum
betri, og hve knálega sveinar mínir þeyta sjónum á árarblaðinu“.
329 Svo mælti hann, en hinn ágæti Odysseifur varð glaður.
Hann baðst þá fyrir, tók til orða og mælti: „Faðir Seifur, eg
vildi óska, að Alkínóus enti það allt, sem hann hefir lofað!
Þá mundi frægð hans aldrei burt líða af hinni kornfrjóvu jörð,
og eg mundi þá heim komast til míns föðurlands“.
334 Þannig töluðust þeir við; en hin hvítarmaða Areta bauð
þjónustumeyjunum að setja rúm í svöluganginn, láta þar í fagrar
ábreiður af purpura, og breiða yfir dúka, og leggja þar ofan
á loðkápur til að fara í. Þær gengu út úr stofunni, og héldu
á blysi. Þær bjuggu um hið mjúka rúm í skyndi, gengu svo
til Odysseifs, og kölluðu til hans þessum orðum: „Gakk til
hvílu, gestur, nú er þér sæng búin“. Svo mæltu þær, en honum
þótti fýsilegt að ganga til hvílu. Þannig svaf hinn þolgóði,
ágæti Odysseifur þar á útskornum legubekk í hinum ómanda
svölugangi. En Alkínóus hvíldi innst í hinni hávu höll, og
hjá honum húsfreyja hans.
[1110.png]
[1111.png]
ÁTTUNDI ÞÁTTUR.
VIÐTAKA ODYSSEIFS HJÁ FEÖKUM.
EN er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í ljós,
spratt hið ágæta hraustmenni Alkínóus úr rekkju, og
þá reis og upp hinn seifborni Odysseifur borgabrjótur.
Alkínóus, hið ágæta hraustmenni, gekk á undan honum til
þingstöðvar þeirrar, er Feakar áttu hjá naustunum; og er þeir
komu þar, settust þeir hvorr hjá öðrum á hin sléttu steinsæti.
Pallas Aþena gekk um borgina, í líki kallara hins fróðhugaða
Alkínóuss, til að fá til leiðar komið heimför ins hugstóra Odysseifs;
hún gekk til hvers manns, og tók til orða: „Komið nú,
fyrirliðar og höfðingjar Feaka, og gangið á þing, til að fá
fréttir af gesti þeim, er nýkominn er til hallar hins fróðhugaða
Alkínóuss; hann hefir hrakizt yfir haf, og er líkur sýnum hinum
ódauðlegu guðum“.
15 Með þessum orðum vakti hún lyst og löngun hvers
manns, fylltust brátt torgin og sætin af mönnum, er saman
söfnuðust; varð mörgum starsýnt, er þeir litu hinn fróðhugaða
Laertesson, því Aþena hafði brugðið forkunnar fegurð yfir
höfuð hans og herðar, og gert hann hærra og þreknara sýnum,
að öllum Feökum skyldi þykja hann ástkær, tígulegur og
virðulegur, og að Odysseifur fengi framið margs konar íþróttir,
er Feakar legðu fyrir hann. En er menn höfðu saman safnazt
og voru komnir á einn stað, tók Alkínóus til orða og mælti:
„Gefið hljóð, þér fyrirliðar og höfðingjar Feaka, að eg megi
mæla það, er mér býr í brjósti. Hér er kominn ókunnur
maður, er eg veit eigi hverr er, hefir hann hrakizt til hallar
minnar, annaðhvort frá austmönnum eða vestmönnum; skorar
hann á oss til flutnings, og biður, að því máli verði til staðar
ráðið. Nú skulum vér, eins og fyrr, gera góðan greiða á um
flutninginn: því ekki er vant, að nokkurr, sem til minna húsa
kemur, þreyi hér lengi eftir flutningi grátandi. Látum oss
því setja fram á hið mikla sjávardjúp eitthvert svart skip, það
er ekki hafi fyrr á vatn komið; skal velja meðal lýðsins fimmtíu
og tvo sveina, þá er áður hafa að vaskleik reyndir verið. En
er þér hafið bundið árar fast við þóftur, þá stígið allir á
land, gangið síðan heim til hallar, og setjist að bráðgjörri veizlu:
skal eg veita öllum vel; kveð eg þá að þessu, sveinana. En
þér hinir, þér höfðingjar, er með ræðissprota farið, gangið
til minnar fögru hallar, að vér tökum sæmilega móti gestinum
í herbergjum mínum; má engi skorast hér undan. Kallið og
á hinn helga söngmann Demodókus, því honum hefir guð
veitt fremur öðrum kveðskapargáfu til að skemmta með, hvað
sem hugur býður honum um að kveða“.
46 Þá hann hafði þetta sagt, gekk hann fyrstur af þinginu,
og höfðingjarnir eftir honum, en kallarinn fór eftir hinum
helga söngmanni. Fimmtíu og tveir valdir sveinar fóru,
sem hann bauð, ofan til strandar hins ófrjóva hafs; en er þeir
komu til skipsins og sjávarins, settu þeir hið dökkva skip
fram að sjávardjúpinu, létu siglutrén og seglin upp í hið
dökkva skip, og lögðu árar í ólarhömlur, allt eftir réttum sið,
og breiddu út hin hvítu segl; lögðu síðan skipinu á floti, þar
sem aðdjúpt var, gengu síðan til ennar miklu hallar ens fróðhugaða
Alkínóuss; fylltust þá svalirnar, forgarðarnir og herbergin
af mönnum. Alkínóus lét slátra til boðsins tólf sauðum,
átta hvíttenntum svínum og tveimur vagandi nautum; flógu
menn kroppana, gerðu þá til, og efnuðu til góðrar veizlu.
[1113.png: Kvæðamaður.]
62 Nú kom kallarinn inn, og leiddi hinn ástsæla söngmann.
Þeim söngmanni unni Sönggyðjan um aðra menn fram, og
veitti honum bót með böli, hafði svipt hann sjón, en gaf honum
fagran kveðskap. Pontónóus setti silfurnegldan hástól handa
honum í miðjum boðsmannahringnum, og setti stólinn upp
við hina hávu súlu, hengdi hljómfagra hörpu á nagla rétt uppi
yfir höfði honum, og vísaði kallarinn honum á, svo hann gæti
tekið hana með höndunum; hann setti og hjá honum körfu
og fallegt borð, og borðker með víni, að drekka, þá hann lysti.
Síðan tóku menn til þess tilreidda matar, er fram var settur.
En er þeir höfðu satt lyst sína á mat og drykk, þá hvatti Sönggyðjan
söngmanninn til að kveða um ágætisverk kappanna,
tók (hann) einn þátt úr kvæði því, er um þær mundir var mest
á loft haldið, um deilu þeirra Odysseifs og Akkils Peleifssonar,
er þeir deildu eitt sinn illdeilum í einni dýrlegri blótveizlu;
var þá þjóðhöfðingjanum Agamemnon glatt í hug, er hinir
göfgustu höfðingjar Akkea deildu: hafði Febus Appollon spáð
Agamemnoni þessu í hinni stórheilögu Pýþó, þá hann sté yfir
steinþröskuldinn til að leita fréttar; því þetta voru upphöfin
til þeirrar ógæfu, er vofði yfir Trójumönnum og Danáum að
ráðstöfun hins mikla Seifs. Um þetta kvað hinn frægi söngmaður;
en Odysseifur tók hina stóru purpuraskikkju með
sínum þreknu höndum, dró yfir höfuð sér og huldi sitt fríða
andlit: því hann fyrirvarð sig, að láta tár hrynja af augum
sér, svo Feakar sæju. Fyrir þá sök, í hvert sinn er hinn helgi
söngmaður hætti að kveða, þá þerraði Odysseifur af sér tárin
og brá skikkjunni af höfði sér, tók síðan tvíhvolfað drykkjuker
og færði guðunum dreypifórn. En í hvert sinn er söngmaðurinn
tók til aftur, og höfðingjar Feaka báðu hann kveða, því þeir
höfðu skemmtun af kveðskapnum: þá breiddi Odysseifur aftur
yfir höfuð sér og grét. Engi varð þess varr, að honum hrundu
tár, nema Alkínóus; hann einn tók eftir því og sá það, því hann
sat hjá honum, og heyrði, að hann andvarpaði þungan. Hann
talaði þá þegar til hinna árvönu Feaka: „Heyrið, fyrirliðar og
höfðingjar Feaka! Vér höfum nú glatt oss við hina jafndeildu
veizlu, og við hörpuna, sem er lagskona hinnar dýrlegu veizlu.
Nú skulum vér ganga út, og reyna ýmsar íþróttir, svo gesturinn
geti sagt vinum sínum, þá hann kemur heim, hversu mjög
vér berum af öðrum mönnum í hnefaleik og glímu, á hlaupi
og á skeiði“.
104 Að því mæltu fór hann fyrir, en hinir fylgdu honum.
Kallarinn hengdi hina hljómfögru hörpu upp á naglann, tók í
hönd Demódókus, og leiddi hann út úr stofunni, og fór með
hann sömu leið og höfðingjar Feaka, þeir er horfa vildu á leikina.
Þeir gengu út á torgið, og fylgdi þeim mikill fjöldi fólks,
ótal manna. Þá risu upp margir vaskir sveinar: þá stóð upp
Akronás og Ókýalus og Elatreifur, Ponteifur og Próreifur,
Þón og Anabesínás og Amfíalus Polýnásson Tektonssonar; þá
stóð og upp Evrýalus, líkur enum mannskæða Aresi, og
Nábolídes, sem var fríðastur og vöxtulegastur allra Feaka, næst
hinum ágæta Laódamanti. Þá stóðu og upp þrír synir ens ágæta
Alkínóuss, þeir Laódamant og Halíus og hinn goðumlíki
Klýtonás. Þessir reyndu sig fyrst á skeiði: þeir tóku á rás frá
hlaupstíunni, og runnu allir senn í einum rykmokk yfir skeiðvöllinn,
svo skjótt sem fugl flygi, og varð hinn ágæti Klýtonás
þeirra miklu skjótastur á skeiðinu, hljóp hann eins langt fram
úr hinum, sem tveir múlar komast áfram í lotu á nýplægingi,
komst svo til lýðsins, en hinir urðu seinni. Aðrir reyndu sig í
örðugum glímuleik, og sigraði þar Evrýalus alla hina vöskustu;
Amfíalus var knástur allra á hlaupi; í töfluleik var Elatreifur
langfrægstur allra, en Laódamant í hnefaleik, hinn vaski
sonur Alkínóuss. En er allir höfðu skemmt sér í leikunum,
tók til orða Laódamant Alkínóusson: „Komið, vinir, spyrjið
gestinn, hvað hann kunni og hafi numið íþrótta; hann er ekki
óþreklegur vexti, hefir mikil læri og fótleggi og handleggi og
sterklegan háls, og næsta er hann kraftalegur, og að öllu hinn
vasklegasti; en þó er hann nú mjög þjakaður af ýmsum mannraunum,
og veit eg ekki annað allverra en sjóarvolkið, til að
beygja mann, enn þótt allvel sé að styrk búinn“.
140 Evrýalus svaraði honum og sagði: „Satt segir þú þetta,
Laódamant; far nú sjálfur og haf orð við hann, og bjóð honum
til leiks“.
143 En er Alkínóuss hrausti son heyrði það, gekk hann fram
og mælti við Odysseif: „Kom hingað, gestur sæll, og reyn þig
í íþróttum, ef þú hefir nokkura numið; er líklegt, að þú kunnir
einhverja leiki: því af engum hlut hefir maður meiri frægð,
meðan hann er uppi, en af þeim íþróttum, er hann má fremja
með höndum sínum eða fótum. Lát nú sjá íþróttir þínar, og
hritt burt harminum úr huga þér; för þín mun ekki lengi
dveljast hér eftir, því skipið er þegar fram sett, og fylgdarmenn
þínir til ferðar búnir“.
152 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði:
„Laódamant, hví beiðist þér þessa af mér með spotti? Meir
liggja mér á hjarta raunir mínar, en leikirnir, og er það von,
því eg hefi margt þolað, og í mörgum þrautum verið. En nú
sit eg hér á samkomu yðvarri, er mér annt um að komast heim,
og beiði konunginn og allan landslýðinn fararbeina“.
158 Evrýalus svaraði honum aftur, og spottaði hann í allra
áheyrn: „Mér þykir þú ekki heldur vera þesslegur, gestur, að
þú munir kunna margt af þeim íþróttum, er tíðkast með mönnum;
sýnist mér þú vera líkari kaupmannaformanni, er jafnan
hefst við í kaupferðum, og hugsar ei um annað en skipsfarm,
vörur og tælandi ábata; en ekki ertu líkur því, að þú sért íþróttamaður“.
165 Hinn ráðagóði Odysseifur leit til hans með reiðisvip, og
mælti: „Ekki er slíkt vel mælt, gestgjafi, og muntu vera fullur
ofsa og ójafnaðar. Ekki veita guðirnir öllum allt jafnveglegt,
hvorki líkams atgjörvi, né vitsmuni, eða mælsku. Einn maður
er öðrum óálitlegri sýnum, en guð prýðir orð hans með fegurð,
svo mönnum hlær hugur við, er þeir horfa á hann: en hann
talar óskjálega með blíðskaparfullri blygðunarsemi, og ber af
öðrum á mannamótum: og þegar hann gengur um borgina,
horfa menn á hann, sem væri hann einhverr goðanna. Annar
er líkur hinum ódauðlegu guðum í sjón, en orð hans eru ei
prýdd með fegurð. Eins ertu afbragðs fríður sýnum, svo að
varla gæti guð gert fríðara mann, en mikilla muna er þér ávant
um vitsmuni. Þú hefir egnt skapið í brjósti mér með óviðurkvæmilegum
orðum; því ekki em eg óvanur íþróttum, eins og
þú segir, heldur vonar mig, að eg hafi verið með vaskari mönnum,
þá eg var á æskuskeiði og hafði fulla krafta mína; en nú
em eg þjakaður af vesöld og hörmum, því margt hefi eg
bæði orustur við menn, og hættulegan öldugang. En engu að
síður, þótt eg hafi margt illt þolað, mun eg hætta á leikina:
því mér er skapraun að orðum þínum, og hefir þú eggjað mig
mjög fram“.
186 Í því hann sagði þetta, spratt hann upp í skikkjunni, og
þreif töflu, stærri og þykkvari og miklum mun þyngri, en
Feakar voru vanir að leika með. Hann veifði henni í hring, og
kastaði úr sinni þreknu hendi, svo að söng í steininum; en
hinir ágætu farmenn, hinir langræðu Feakar, beygðu sig til
jarðar fyrir steinkastinu, en steinninn stökk snöggt út frá
hendinni, og flaug fram yfir öll mörkin. Aþena reisti upp
mörkin, og var þá í manns líki; hún tók til orða og mælti:
„Hverr sjónlaus maður gæti, með því að þreifa fyrir sér, greint
þitt mark frá, gestur; því það er ekki saman við annarra manna,
heldur miklu fremst. Ekki þarftu að kvíða þessum leik: engi
Feaka kemst að þessari töflu, eða kastar fram yfir hana“.
199 Svo mælti hún, en hinn þolgóði, ágæti Odysseifur gladdist,
er hann sá mann sér vinveittan á mótinu; varð honum þá
hughægra, og sagði við Feaka: „Kastið nú þangað að töflunni,
sveinar; vera má, að eg síðar kasti annarri jafnlangt, eða lengra.
En komi nú hverr, sem hug hefir til, því þér hafið gert mig
mjög reiðan, og reyni sig annaðhvort í hnefaleik eða glímu,
eða á skeiði; skal eg ei undan skorast, hverr sem kemur af
öllum Feökum, nema Laódamant einn, því hann er gestvinur
minn. Hverr mundi þreyta vilja kappleik við vin sinn? Að
vísu er sá maður heimskur og einskis virðandi, sem beita vill
kappi við gestgjafa sinn í ókunnu landi; því þar með spillir
hann fyrir sjálfum sér. En engan annan vil eg undan skilja,
eða frá vísa; fýsir mig heldur að reyna mig við þá og kanna
fimleik þeirra; því víst em eg fær í hverjum þeim íþróttum, er
tíðkast með mönnum. Vel kann eg að fara með sléttfágaðan
boga, og fyrstur mundi eg mann hæfa, ef eg skyti ör til í flokk
óvina minna, enn þótt allmargir félaga minna stæði hjá mér
og skyti til hæfis að mönnum. Fílóktetes var einn svo, að mig
sigraði í bogaskoti, þá vér Akkear reyndum bogfimi í Trójulandi;
en að honum fráskildum tel eg mig fremur öllum mönnum,
þeim er nú eru uppi á jörðu og á korni lifa. Við fornmenn
vil eg ekki jafna mér, hvorki við Herakles, né við Evrýtus frá
Ekkalíu, er þreyttu bogfimi jafnvel við hina ódauðlegu guði.
Því fékk og hinn mikli Evrýtus fljótan bana, og kembdi ekki
hærur í húsi sínu; því Appollon drap hann í bræði sinni, af
því hann bauð honum út í bogaskoti. Spjóti skýt eg lengra, en
nokkurr maður annar skýtur með öru. Það er einungis á
skeiði, að eg óttast að einhverr Feaka fari fram hjá mér, því
eg er mjög svo af mér kominn af enu mikla sjóvolki, og orðinn
þróttlítill, því eg hafði ekki nægilegan aðbúnað innanborðs“.
234 Þannig mælti hann, en allir þögnuðu og urðu hljóðir,
og svaraði honum engi, nema Alkínóus, hann mælti: „Með því
oss gezt ekki illa að orðum þínum, gestur, og með því þú vilt
sýna þá atgjörvi, sem þér er lagin, og reiðist því, að þessi maður
spottaði þig hér á mótinu, þar sem þú hefir ekki viljað, að
nokkurr maður, sem hæfilega kynni orðum sínum að haga,
skyldi lasta atgjörvi þína: þá heyr nú, athuga orð mín, að þú
megir segja öðrum köppum frá, þegar þú situr að veizlu í
húsi þínu hjá konu þinni og börnum, og minnist á atgjörvi
vora, hverjar íþróttir Seifur hafi lagt fyrir oss að fremja allt
í frá tíð feðra vorra. Öngvir frágerðamenn erum vér í hnefaleik
eða glímu, en vér rennum frálega á fæti, og erum hinir mestu
sjóferðamenn; jafnan höfum vér gaman af heimboðum, hörpuslætti
og dansleik, þykir oss gott að hafa klæði til skipta, varmar
laugar og góð rúm. Takið nú til leiks, þér Feakar, sem bezt
kunnið að stíga dans, að gestur þessi geti sagt vinum sínum,
þá hann kemur heim, hve langt vér berum af öðrum mönnum
í sjóferðum, fráleik, dansfimi og sönglist. Fari einhverr fljótt,
og sæki hina snjöllu hörpu handa Demódókus, mun hún vera
einhverstaðar heima í höll minn“.
256 Þannig mælti hinn goðumlíki Alkínóus; gekk þá kallarinn
af stað til hallar konungs, að sækja hina hvelfdu hörpu.
Síðan stóðu upp níu valdir leiksjáendur meðal lýðsins, er vanir
voru að skipa öllu til í leikunum, jöfnuðu þeir danssviðið, og
rýmdu til á hinum fagra leikvelli. Þá kom kallarinn þangað
að, og hafði með sér hina hljómfögru hörpu handa Demódókus;
gekk söngmaðurinn þá inn í mannhringinn, en frumvaxta
sveinar, er vel kunnu að dansa, stóðu í kring um hann, og stigu
dans á hinu helga sviði; en Odysseifi varð starsýnt á hinn fimlega
fótaburð, og undraðist stórum.
266 Þá hrærði söngmaðurinn hörpuna, og hóf upp fagran
söng um ástir Aresar og hinnar fagurkrýndu Afrodítu, hversu
þau áttu einu sinni launfundi saman í herbergjum Hefestusar;
hafði Ares gefið henni stórgjafir, og svívirði svo legurúm og
hvílu hins volduga Hefestuss. En honum kom brátt njósn um
þetta með Helíusi, er orðið hafði var við, er ástarfundum
þeirra bar saman. En er Hefestus heyrði þessi ófagnaðartíðindi,
gekk hann til smiðju sinnar, og bjó yfir illu í huga sér. Hann
setti hinn stóra steðja í steðjaþróna, og smíðaði óbrjótandi og
óslítandi bönd, til að halda þeim Ares föstum. En er hann
hafði búið til þessa vél í hefnd við Ares, gekk hann til svefnhússins,
þar er rúmstæði hans var, og lagði böndin í hring
kringum rúmfæturna; mörg bönd lágu og ofan frá rjáfrinu,
smágjör sem kóngulóarvefir, svo að engi gat séð þau, og
jafnvel ei hinir sælu guðir; svo voru þau gjörð með mikilli
vélfimni. En er hann hafði lagt alla þessa vél um rúmið, brá
hann því á, að hann mundi fara til Lemneyjar, hins fagra byggðarlags,
er honum er langkærst allra landa.
285 Ares Gullintaumur hélt ekki vörðinn blint; þá er hann
sá, að hinn hagsmíði Hefestus var heiman farinn, gekk hann
þegar til herbergja hins fræga Hefestuss, og hugði nú gott til
fundar við hina fagurkrýndu Kýþereu; hún var þá nýkomin
frá sínum sterka föður, Kronussyni, og hafði sett sig niður,
en hann gekk inn í herbergi hennar, tók í hönd henni, kvað
svo að orði og mælti: „Göngum til rekkju, kæra, og gömnum
okkur að hvílubrögðum, því nú er Hefestus ekki heima, mun
hann nú vera farinn til hinna harðmæltu Sintía í Lemney“.
295 Þannig mælti hann, en henni þótti óskaráð að ganga
til hvílu. Síðan stigu þau á beð, og sofnuðu. Þá lögðust hin
vélafullu bönd ens hugvitssama Hefestuss utan um þau; máttu
þau þá hvorki hræra né hefja legg né lið, sáu þá, að ekkert var
undanfæri framar. Þá kom hinn frægi Bægifótur þar að þeim;
hafði hann snúið aftur, áður en hann komst til Lemneyjar:
því Helíus hafði haldið vörð fyrir hann, og sagt honum, hvar
komið var. Hann nam staðar í fordyrinu, var hann þá grimmilega
reiður; hann kallaði ógurlega, svo allir guðirnir heyrðu
til hans: „Faðir Seifur, og þér aðrir sælu, eilífu guðir, komið
hingað, að sjá nokkuð, sem er hlægilegt og þó óþolandi, hversu
Afrodíta, dóttir Seifs, vanvirðir mig æ, af því eg er haltur, en
elskar hinn skæða Ares, af því hann er fríður og heilfættur, en
eg er fæddur visinn, og er þó engum þar um að kenna öðrum
en foreldrum mínum; hefði betur verið að þeir hefðu aldrei
átt mig. Nú skuluð þér fá að sjá, hvar þau hafa stigið á beð
minn og hvíla nú í faðmlögum; er mér skapraun að horfa þar
á; vonar mig, þótt þau elskist allákaft, að þau langi ei oftar
til svo skammvinnra faðmlaga, mun þeim bráðum leiðast samvistin.
En vélarnar og böndin skulu halda þeim, unz faðir
hennar geldur mér aftur að fullu allan mundinn, er eg greiddi
honum fyrir hina blygðunarlausu mey; því dóttir hans er
engin stillingarkona, þó hún sé fríð“.
321 Þannig mælti hann, en guðirnir komu saman í hinni
eirföstu höll; þar kom hinn jarðkringjandi Posídon: þar kom
Hermes, hagsældaguð, þar kom hinn langskeyti lávarður
Appollon; en gyðjurnar voru kyrrar heima, og fyrirurðu sig
að koma. Guðirnir, gjafarar góðra hluta, stóðu í fordyrinu, og
kom þá upp óstöðvandi hlátur með hinum sælu guðum, er þeir
litu vélar hins hugvitsama Hefestuss. Leit þá hvorr til annars,
og mælti: „Illa gefast ill ráð, og hendir seinn hvatan; því nú
hefir Hefestus, sem er seinn á sér og haltur, náð Ares með
brögðum, sem þó er skjótastur þeirra guða, sem á Ólympi búa;
og á Ares því að gjalda hórbætur“.
333 Svo talaði hvorr til annars; en Appollon lávarður, sonur
Seifs, sagði við Hermes: „Hermes sendiguð, sonur Seifs, gjafara
góðra hluta! Hvort mundir þú vilja hvíla í rekkju hjá hinni
gullfögru Afrodítu, ef þú værir hnepptur í svo harða fjötra ?“
338 Sendiguðinn Argusbani svaraði honum: „Gjarna vildi
eg það til vinna, langskeyti lávarður Appollon, að eg lægi bundinn
ótal böndum, þrefalt sterkari en þessi eru, og þér horfðuð
á, guðirnir og allar gyðjurnar, ef eg mætti hvíla hjá hinni
gullfögru Afrodítu“.
343 Þannig mælti hann; þá hlógu allir hinir ódauðlegu
guðir, nema Posídon, honum bjó ekki hlátur í hug, heldur
bað alltaf hinn hagsmíða Hefestus að leysa Ares, talaði til hans
skjótum orðum og sagði: „Leys hann, en eg lofa þér því, að
hann skal gjalda þér fullar bætur, sem þú beiðist, eins og hinir
ódauðlegu guðir meta“.
349 Hinn frægi Bægifótur svaraði honum: „Jarðkringjandi
Posídon, bið mig ei þessa! Veslar eru vesælla vörðslur. Hvernig
gæti eg bundið þig meðal hinna ódauðlegu guða, ef svo færi,
að Ares stryki frá bótum og böndum?“
354 Posídon Landaskelfir svaraði honum: „Ef Ares strýkur
burt, Hefestus, án þess að greiða sektina, þá skal eg sjálfur
gjalda þér þetta“.
357 Hinn frægi Bægifótur svaraði honum: „Ekki má eg, og
ekki hæfir mér, að neita þessu boði þínu“.
359 Að því mæltu leysti hinn sterki Hefestus þau úr böndunum.
En er þau voru laus af hinum sterku böndum, þá stukku
þau burt í skyndi, fór Ares til Þrakalands, en hin brosmilda
Afrodíta kom til Pafusborgar í Kýpur: þar átti hún lund og
ilmandi blótstalla; þar lauguðu Þokkagyðjurnar hana, og
smurðu með himnesku viðsmjöri, slíku sem hinir eilífu guðir
á sig bera, og færðu hana síðan í forkunnar fögur klæði.
367 Um þetta kvað hinn frægi söngmaður, en Odysseifi
þótti mikil skemmtun á að hlýða, svo og þeim frægu farmönnum,
hinum langræðu Feökum.
370 Nú bað Alkínóus þá Halíus og Laódamant að dansa
eina sér, fyrir því að engi var þeirra jafningi. Þeir tóku í hönd
sér knött einn fagran, purpurarauðan; þann knött hafði hinn
fróðhugaði Polýbus búið til handa þeim. Þá reiddi annar sig á
bak aftur, og varpaði knettinum upp að enum dimmu skýjum,
en hinn tók sig í loft upp frá jörðunni, og handsamaði knöttinn
fimlega, áður en hann kom fótum á jörð. En er þeir höfðu
reynt sig í knattleik á lofti, þá léku þeir dans á hinni margfrjóvu
jörð, og skiptust við margvíslega; en sveinar þeir, er í
kring stóðu í mannhringnum, klöppuðu lófum við, svo mikill
hvellur var af. Þá mælti hinn ágæti Odysseifur við Alkínóus:
„Voldugi Alkínóus, ágætasti allra manna! Það er hvort tveggja,
að þú hrósaðir því, að Feakar væru mestu dansmenn, enda er
nú sú raun á orðin; og finnst mér mikið um, er eg horfi á þá“.
385 Svo mælti hann, en hið ágæta hraustmenni Alkínóus
gladdist, og talaði þegar til hinna árvönu Feaka: „Heyrið, þér
formenn og höfðingjar Feaka! Svo virðist mér, sem gestur
þessi muni vera harla vitur maður. Látum oss gefa honum
einhverja gestgjöf, er sæmileg sé. Hér ráða fyrir landi tólf
göfugir höfðingjar, og eg hinn þrettándi. Nú skal hverr yðar
leggja til velþvegna yfirhöfn og kyrtil og vætt af dýru gulli;
skulum vér allir greiða þegar fram gjafirnar, svo gesturinn taki
nú við þeim, og gangi svo fegins hugar að kvöldverði. En
Evrýalus skal friðmæla sig við hann og gefa honum gjöf
nokkura, því hann talaði til hans ekki sæmilega“.
398 Þannig mælti hann, en allir rómuðu vel mál hans, og
kváðu svo vera skyldu, og sendi sinn kallara hverr að sækja
gjafirnar. Þá tók Evrýalus til orða, og mælti: „Voldugi Alkínóus,
ágætasti allra manna! Eg skal sættast við gestinn, sem þú býður.
Eg vil gefa honum þetta sverð, sem allt er af eiri, eru þar á
meðalkafli af silfri, og umgjörð utan um af nýskornu fílsbeini;
mun honum þykja betur gefið, en ekki“.
406 Þá hann hafði þetta sagt, fékk hann honum hið silfurneglda
sverð, talaði til hans skjótum orðum, og mælti: „Heill,
gestur sæll! Hafi mér hrotið eitthvert óviðurkvæmilegt orð, þá
feyki því sem skjótast byljir í burt. En guðirnir gefi, að þú
megir sjá aftur konu þína, og komast heim í föðurland þitt,
með því þú hefir lengi raunir þolað fjarri vinum þínum“.
412 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum, og sagði:
„Heill sértú og, vinur! Veiti guðirnir þér heill og hamingju!
Vil eg óska þess, að þér verði aldrei eftirsjá að þessu sverði, er
þú hefir gefið mér með fögrum friðmælum“.
416 Svo mælti hann, og lagði hið silfurneglda sverð um herðar
sér. — Nú rann sól, og komu þá fram hinar veglegu gjafir;
báru enir göfugu kallarar þær í höll Alkínóuss, en synir hins
ágæta Alkínóuss tóku við hinum fögru gjöfum, og létu þær
hjá sinni heiðvirðu móður. Hinn ágæti kraftamaður Alkínóuss
gekk nú á undan höfðingjunum; en er þeir komu heim, settust
þeir á hástólana. Þá mælti hinn sterki Alkínóus til Aretu: „Kom
hingað, kona, með fallega kistu, sem þú átt bezta til, og legg
sjálf niður í hana velþvegna yfirhöfn og kyrtil; síðan skuluð
þér láta ketil yfir eld og heita vatn, svo að gesturinn, þá hann
hefir laugazt, og séð, hversu öllum þeim gjöfum er fallega fyrir
komið, er hinir ágætu Feakar hafa fært honum hingað, hafi
skemmtun af veizlunni og af því að hlýða á kvæðasönginn. Eg
vil og gefa honum þetta fagra gullker, sem eg á, að hann ávallt
minnist mín, í hvert sinn sem hann dreypir Seifi dreypifórn, eða
öðrum guðum, í húsi sínu“.
433 Svo mælti hann, en Areta sagði þernunum að setja sem
skjótast stóran ketil yfir eld. Þær settu þá laugarvatnsketil yfir
loganda eld, helltu þar í vatni, tóku skíð og kyntu undir; lék
loginn um ketilbotninn, og vatnið hitnaði. Á meðan bar Areta
fallega kistu út úr herberginu, og lagði þar í hinar fögru gjafir,
gull og klæði, er Feakar hafðu gefið gestinum; hún lagði þar
og niðrí yfirhöfn og fallegan kyrtil, talaði svo til gestsins skjótum
orðum, og sagði: „Líttu nú sjálfur á lokið, og rek skjótt
á hnút nokkurn, svo engi taki neitt frá þér á leiðinni, meðan
þú sefur væran svefn á hinu dökkva skipi“.
446 En er hinn þolgóði, ágæti Odysseifur heyrði þetta, lét
hann þegar lokið yfir, og rak skjótt á margbrugðinn hnút, er
hin tignarlega Kirka hafði forðum kennt honum. Í sama vetfangi
bað ráðskonan hann að stíga niður í laugarkerið, og baða
sig. Hann varð næsta feginn, er hann leit hina vörmu laug, því
hann hafði sjaldan notið slíkra hæginda, síðan hann fór úr húsi
ennar hárprúðu Kalypsóar; en meðan hann var þar, hafði
hann ávallt slíkan beinleika, sem hefði hann verið einhverr af
goðunum. En er ambáttirnar höfðu laugað hann, og smurt
með viðsmjöri, og lagt yfir hann kyrtilinn og hina fallegu
yfirhöfn, þá sté hann upp úr laugarkerinu, og gekk inn þangað,
er menn sátu að víndrykkjunni.
457 En Násíka, sem að fríðleik jafnaðist við gyðjurnar, stóð
við dyrustaf hins traustsmíðaða húss, og undraðist Odysseif, er
hún leit hann augum; hún talaði til hans skjótum orðum, og
sagði: „Heill svo, gestur, að þú minnist mín á síðan, er þú
kemur heim í föðurland þitt, fyrir það að þú átt mér fyrstri
lífgjöf að þakka“.
463 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði henni, og sagði:
„Násíka, dóttir ens hugstóra Alkínóuss, svo veiti mér nú Seifur,
hinn háþrumandi verr Heru, að komast til húss míns og sjá
minn heimkomudag, sem eg skal og þar jafnan tigna þig alla
daga, sem værir þú ein af gyðjunum, fyrir því að þú, mær, ert
lífgjafi minn“.
469 Svo mælti hann, og settist á hástól hjá Alkínóus konungi.
Var nú verður deildur og vín blandað. Þá kom kallarinn
inn og leiddi hinn ástsæla söngmann Demodókus, er öll
þjóð virði mikils; fékk hann honum sæti mitt á meðal boðsmannanna,
og lét hann sitja upp við hina hávu súlu. Þá skar
hinn ráðagóði Odysseifur framan af hrygg hvíttennts svíns, svo
að eftir var meiri hlutinn, var það stykki spikfeitt; síðan mælti
hann til kallarans: „Tak við, kallari, og fá Demodókus þetta
kjötstykki, og bið hann eta, sendi eg honum þar með kveðju
mína, þótt eg sé raunamæddur; því söngmenn eiga heiður og
virðingu skilið af öllum jarðneskum mönnum, sökum þess að
Sönggyðjan ann söngmönnum, og kennir þeim fræði sín“.
482 Þannig mælti hann, en kallarinn fór með stykkið, og
fékk það í hendur öðlingnum Demodókus, en hann tók við
og varð feginn. Tóku menn nú til hins tilreidda matar, er
fram var settur. En er þeir höfðu satt löngun sína á mat og
drykk, mælti hinn ráðagóði Odysseifur til Demodókuss: „Þér
skal eg við bregða, Demodókus, um fram alla menn aðra. Annaðhvort
hefir Sönggyðjan frætt þig, dóttir Seifs, eða Apollon;
því þú kveður mjög eftir tilefnum um forlög Akkea, bæði um
afrek og raunir þeirra, og allar þær þrautir, er þeir unnu, eins
og þú annaðhvort hafir verið þar viðstaddur sjálfur, eða heyrt
þá sögu af öðrum. Nú vil eg biðja þig að taka á öðrum þætti,
og kveða um tilbúning tréhestsins, þess er Epeus smíðaði með
aðstoð Aþenu, þeirrar vélar, er hinn ágæti Odysseifur fékk inn
komið í háborgina, fullri af þeim mönnum, er eyðilögðu Trójuborg.
Ef þú segir mér frá þessu, svo sem til hefir gengið, þá
skal eg að orði gera við alla menn, hversu ágætan kveðskap
guð hefir af gæzku sinni veitt þér“.
499 Svo mælti hann, en söngmaðurinn hrærðist af guðlegri
andagift, hóf upp kvæðið og tók þar til er Argverjar höfðu lagt
eld í búðir sínar, og voru komnir á hin þóftusterku skip, og
sigldu burt. En hinn víðfrægi Odysseifur, og þeir, er með honum
voru, sátu mitt í þyrpingu Trójumanna, innibyrgðir í hestinum;
því Trójumenn höfðu sjálfir dregið hann upp í háborgina.
Stóð nú hesturinn þar, en Trójumenn sátu í kringum hann
á samkomu, bar þeim margt á góma, og urðu ekki á eitt sáttir:
þótti þeim þrennt til liggja, annaðhvort að höggva í sundur
hinn hola við með hörðu eirvopni, eða draga hann fram á
vígið og steypa honum ofan fyrir hamrana, eða láta þetta mikla
mannvirki standa þar til friðarmarks við guðina; og það átti
loks af að verða: því það lá fyrir borginni, að verða lögð í
eyði, þegar hún hefði innibyrgt hinn mikla tréhest, er allir
enir hraustustu Argverjar sátu í, þeir er ætluðu Trójumönnum
bana og feigð. Hann kvað og um það, er synir Akkea
steyptu sér út úr hestinum, og komu fram úr enu hola launsátri,
og ræntu borgina. Hann kvað um það, að í sína átt fór
hverr þeirra til að eyða hina hávu borg, en kvað Odysseif
gengið hafa með hinum goðumlíka Menelási, líkan Aresi, til
herbergja Deífobuss, og hætt sér þar út í hinn grimmasta bardaga,
og haft sigur að lokum með fulltingi hinnar stórráðu
Aþenu.
521 Um þetta kvað hinn frægi söngmaður. Þá viknaði
Odysseifur, og tárin undan hvörmunum vættu kinnar hans.
Hann var sem kona sú, er fleygir sér grátandi ofan yfir sinn
kæra mann, er fallið hefir fyrir föðurland sitt og landsmenn,
til að frelsa borg og börn frá enum dapra degi: þá hún lítur
hann í fjörbrotunum aðkominn dauða, kastar hún sér ofan yfir
hann og hljóðar hástöfum, en óvinirnir standa að baki henni,
og ljósta bak hennar og herðar með spjótsköftum, og leiða hana
í þrældóm til að þola erfiði og víl, daprast þá kinnar hennar af
aumkunarlegasta harmi: eins hrundi harmatár undan hvörmum
Odysseifs. Engi varð samt var, að honum hrundu tár, nema
Alkinóus einn, hann tók eftir því og sá það, því hann sat hjá
honum, og heyrði þung andvörp til hans. Þá talaði hann til
enna róðrargjörnu Feaka: „Heyrið, fyrirliðar og höfðingjar
Feaka! Nú skal Demodókus hætta hinum snjalla hörpuslætti,
því ekki er öllum jafnmikil skemmtun að því, sem hann kveður
nú. Síðan vér settumst að kvöldverði og hinn andríki söngmaður
tók til að kveða, síðan hefir gesturinn aldrei látið af
aumlegum gráti; mun hann víst búa yfir einhverjum miklum
harmi. Nú fer miklu betur, að söngmaðurinn hætti, svo vér
höfum allir jafna skemmtun, vér, gestgjafarnir, og hann, gesturinn;
því vegna hins heiðvirða gests er þessi viðbúnaður hafður,
bæði um flutninginn, og um vingjafir þær, er vér gefum honum.
Hverr sá maður, sem nokkura tilfinning hefir í brjósti sér,
metur útlendan mann og miskunnarþurfa jafnt sem bróður
sinn. Fyrir þá sök áttu nú heldur ekki að dylja þess af prettvísi,
er eg vil spyrja þig; því betur sæmir, að þú segir allt af
létta. Seg mér hverju heiti faðir og móðir hétu þig, svo og aðrir,
bæði þeir, sem bjuggu í borg þeirri, er þú átt heima, og svo
nábúar þínir; því engi er sá maður, hvorki meira háttar, né
minna, að ekki fái eitthvert nafn, þá hann eitt sinn er til kominn,
því allir foreldrar gefa heiti börnum sínum, þá þau eru
fædd. Seg mér og land þitt, og þjóðina og borgina, svo að skip
mín, er þig eiga að flytja, megi stefna þangað hyggju sinni:
því skip Feaka hafa enga skipstjórnarmenn, ekki hafa þau
heldur stýri, eins og önnur skip hafa, heldur vita skipin sjálf
hugsanir og ætlanir manna, og þekkja borgir og frjóvsama akra
allra manna: þau fara skjótt yfir sjávardjúpið, hulin þoku og
myrkva, og aldrei kemur að þeim kvíði fyrir því, að þeim
berist á eða að þau farist. Þó heyrða eg Násíþóus, föður minn,
eitt sinn segja eina sögu: hann kvað Posídon vera oss reiðan,
fyrir það að vér veitum öllum mönnum flutning, svo engan
sakar til; hann sagði, að Posídon mundi eitt sinn brjóta eitt
velbyggt skip fyrir Feökum á hinu dimmleita hafi, þá það væri
á heimleið úr flutningi, og hlaða stóru fjalli umhverfis um borg
vora. Svo mælti hinn aldraði maður; mun guðinn annaðhvort
láta þetta fram koma eða láta þar ekki af verða, ef honum
svo lízt. En seg mér nú, og inn með sannindum, hvert þú hefir
hrakizt, og í hver byggðarlög þú hefir komið; seg mér frá
innbúum þessara landa og hinum fjölbyggðu borgum; seg
mér, hverjir þeirra eru illir viðureignar, grimmir og ójafnaðarfullir,
og hverjir góðir eru við ókunna menn og guðhræddir.
Seg mér og, hvers vegna þú grætur og býr yfir harmi innanbrjósts,
þá þú heyrir sagt frá óförum Argverja, Danáa og Ilíonsborgar;
en þeim óförum hafa guðirnir valdið, og látið mönnum
það tjón að hendi bera, svo slíkt gæti orðið að yrkisefni
fyrir ókomna menn. Hefir þú misst nokkurn tengdamann við
Ilíonsborg, annaðhvort ástkæran dótturmann, eða föður konu
þinnar? Því slíkir menn verða jafnan kærastir manni, næst
venzlamönnum og ættmönnum sjálfs manns. Eða hefir þú misst
einhvern góðan vin, og þér velviljaðan? því sá, sem er vinur
manns og vel viti borinn, er engu minna verður en bróðir
manns“.
[1128.png]
[1129.png]
NÍUNDI ÞÁTTUR.
ALKÍNÓUSSÖGUR: KÝKLÓPAÞÁTTUR.
HINN ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði: „Voldugi
Alkínóus, ágætasti allra manna! Sannarlega er
það unun, að hlýða á slíkan söngmann, sem þenna, er
svo hefir fögur hljóð, að þvílíkast er, sem goðarómur sé. Því
engan hlut ætla eg skemmtilegra, en þegar allur lýður er glaður,
og boðsmenn sitja hverr við annars hlið, hlýða á söngmanninn
í höllinni, og hafa borð hjá sér, hlaðin brauði og kjöti,
en byrlarinn eys vín af skaftkerinu, ber um kring og skenkir
á borðkerin. Þetta virðist mér vera einhver hin mesta unun.
En þér leikur hugur á að fregna að mínum hörmulegu mannraunum,
til þess eg skuli enn meir andvarpa og gráta. Frá hverju
skal eg þá segja þér fyrst, og frá hverju síðast, þar sem Uppheimsguðirnir
hafa látið mér svo margar hörmungar að hendi
bera? Nú mun eg fyrst segja til nafns míns, svo þér vitið, eins
og aðrir, hverr eg em; get eg þá síðar meir, ef eg fæ umflúið
hinn dapra dag, verið gestfélagi yðvarr, enn þótt eg eigi heima
langt héðan. Eg em Odysseifur Laertesson, og er eg mönnum
alkunnur sökum minna margvíslegu vélabragða, og fer frægð
mín allt til himins. — Eg á byggð á hinni víðsýnu Íþöku; á
henni er fjall eitt, er heitir Neríton, það er kvikt af laufi, og
mjög einkennilegt. Margar liggja þar eyjar umhverfis, Dúliksey,
Sámsey og Sakyntsey, hún er skógi vaxin. Sjálf er eyin ósæbrött,
og liggur langefst í hafinu gegnt næturheimi (vestri), en hinar
eyjarnar liggja annars vegar gegnt dagsheimi og sólarheimi
(austri). Íþaka er grýtt land, en fæðir þó upp marga vaska
drengi, og sé eg ekkert land, sem mér þyki indælla, en þessi
fósturjörð mín. Halda vildi hún mér hjá sér, hin ágæta gyðja
Kalypsó, og eins vildi hin vélráða Kirka í Ey, að eg staðfestist
þar og fengi sín, þó gátu þær aldrei talið svo um fyrir mér.
Þannig verður engi hlutur indælli manni, en föðurland hans
og foreldrar, og það jafnvel þó hann eigi gott bú í útlöndum
fjarri foreldrum sínum. En heyr nú, eg skal segja þér frá hinum
mörgu mannraunum, er Seifur lét mér að hendi bera á heimför
minni frá Trójuborg.
39 Hraður byr bar mig frá Ilíonsborg til Ísmarusborgar í
Kíkónalandi; þar rændi eg borgina, og drap borgarmennina;
tókum vér í borginni konur og mikinn fjárhlut, og lögðum til
hlutskiptis, svo allir bæri jafnan hlut úr býtum. Lagði eg þá
það ráð til, að vér skyldum flýja þaðan hröðum fæti, en menn
mínir voru svo óforsjálir, að þeir fóru ei að orðum mínum;
höfðu þeir miklar víndrykkjur, og slátruðu á sjávarströndinni
mörgum sauðum og vagandi, bjúghyrndum nautum. Á meðan
fóru Kíkónar, og kölluðu á aðra Kíkóna, sem voru nábúar
þeirra og bjuggu uppi í landinu; þeir voru bæði fjölmennari
og harðfengari, var þeim jafntamt að berjast í fólkorustu á hervögnum,
sem á fæti, ef því var að skipta. Síðan komu þeir
með morgunsárinu, og voru ei færri en lauf það og blóm, er
þýtur upp á vortíma; áttum vér vesælir menn þá fyrir hendi
þann harðan skapadóm Seifs, að vér skyldum komast í mikla
raun. Þá þeir höfðu tekið sér stöðu, vöktu þeir bardaga hjá
hinum örskreiðu skipum, og skutust menn á eirslegnum spjótum.
Meðan morgun var og inn himneski dagur fór vaxandi,
stóðum vér fast fyrir, og vörðumst, þó liðsmunur væri. En er
sól sveif að aklausnum, þá báru Kíkónar efra hlut, og komu
Akkeum á flótta. Þar létust sex brynhosaðir menn af hverju
skipi, en vér, sem eftir vorum, komumst með fjörvi undan.
62 Vér héldum nú þaðan áleiðis, hryggvir í huga af missi
félaga vorra, og þó fjörvi fegnir; en ekki lét eg fyrr leggja
hinum borðrónu skipum frá landi, en vér höfðum kallað þrisvar
á sérhvern hinna vesælu félaga vorra, er fallið höfðu fyrir
Kíkónum á vígvellinum. Skýsafnarinn Seifur sendi nú norðanvind
á eftir skipunum með geysimiklu hreggi, og huldi skýjum
jafnt jörð sem haf; sveif þá náttmyrkur af himni ofan. Varð
nú svo mikill skriður á skipunum, að þau stungust á stafna, en
ofviðrið svipti sundur seglunum í þrennt og fernt; bjuggumst
vér þá ei við öðru en bana vorum, og hleyptum því seglunum
niður í skipin, og rerum þeim ákaflega til lands. Þar lágum
vér tvær nætur og tvo daga samfleytt, dasaðir af erfiði og hugsjúkir
af raunum vorum. En er hin fagurlokkaða Morgungyðja
hafði greitt fram þriðja daginn, reistum vér siglutrén, og drógum
upp hin hvítu segl, sátum svo kyrrir, en vindurinn og
skipstjórnarmennirnir réðu stefnunni. Og mundi eg hafa komizt
heilu og höldnu heim í föðurland mitt, ef aldan og fallið
og norðanvindurinn hefði ei bægt mér frá landi, þá eg var
að beita fyrir Malíuhöfða, og hrakið mig afleiðis frá Kýþeru.
82 Þaðan hraktist eg í fárviðri níu daga yfir hið fiskisæla
haf, en á tíunda degi stigum vér á land Lótófaga, er lifa á
blómfæðu. Þar gengum vér á land upp og jusum vatn; síðan
tóku skipverjar dagverð hjá hinum örskreiðu skipum. En er
þeir höfðu neytt matar og drykkjar, þá valdi eg tvo menn af
förunautum mínum, og lét þeim fylgja kallara hinn þriðja
mann, og sendi þá á land upp, til að njósna, hvað þar byggi
mennskra manna. Þeir fóru þegar, og komu á fund Lótófaga.
Ekki bjuggu Lótófagar banaráð mönnum vorum, heldur gáfu
þeir þeim að eta af lótusviði. En hverr þeirra sem át lótusviðarins
hunangsæta ávöxt, vildi ekki aftur snúa eftir það, til að
segja frá tíðindum, og ekki heim fara; heldur vildu þeir verða
þar eftir hjá Lótófögum og tína lótusviðarber, en ekki hugsa
til heimfarar. Hafði eg þá með mér til skipa, var þeim það
svo nauðugt, að þeir grétu; síðan dró eg þá upp í hin rúmgóðu
skip, og batt þá undir þófturnar. En hinum öðrum tryggvum
förunautum mínum bauð eg að stíga í skyndi á hin örskreiðu
skip, svo engi þeirra skyldi eta af lótusviðnum, og verða svo
afhuga ferðinni. Þeir gengu þegar á skip og settust á þófturnar,
og þegar hverr var kominn í rúm sitt, lustu þeir árum hinn
gráa sæ.
105 Síðan héldum vér áfram ferðinni, hryggvir í huga, og
komum að landi hinna ofstopafullu og lagalausu Kýklópa, sem
í trausti til hinna ódauðlegu guða hvorki gróðursetja nokkura
plantan með höndum sínum, né plægja jörðina; því hjá þeim
vex þetta allt ósáið og óplægt, hveiti, bygg og víntré, er bera
vín í stórum berjum, og regnskúrir Seifs veita því vöxt og
viðgang. Hvorki hafa þeir ráðstefnur, né lög, heldur búa þeir
í víðum hellum á tindum hárra fjalla, og ræður hverr þeirra
yfir börnum sínum og konum, en skipta sér ei mjög hvorir
um aðra.
116 Þar fyrir framan höfnina í Kýklópalandi liggur lítil ey,
ekki allnærri, og ekki heldur mjög langt undan landi, hún er
skógi vaxin; þar er ógrynni af villigeitum, því þær styggjast
þar ekki af mannaferðum; þar koma heldur ekki veiðimenn,
þeir eð vanir eru að fá hrakninga í skógum, þá þeir fara yfir
fjallatindana. Hvorki er ey þessi urin af hjörðum, né plægingum,
heldur er hún ávallt óbyggð af mönnum, ósáin og óplægð,
og er þar aðeins hagbeit fyrir enar kumrandi geitur. Því Kýklópar
hafa engi hlýrroðin skip, og öngvir eru þar skipasmiðir; því
væru þar þeir, mundu þeir smíðað geta þóftusterk skip, er farið
gætu til mannabyggða og aflað alls konar nauðsynja, er menn
eru vanir að sækja yfir haf á skipum hvorir til annarra; mundu
og þeir hinir sömu yrkt geta þessa hina byggilegu ey: því ekki
er eyin kostalaus, og mundi hún geta af sér gefið alls konar
ársgróða: liggja þar engjar fram með sjóarbökkunum, votlendar
og mjúklendar, og mættu þar víntré verða sífrjó: þar mætti og
verða slétt akurlendi, og mundi æ mega uppskera næsta hávaxinn
akur á hverju misseri, því jarðvegurinn niðri fyrir er
mjög svo feitur. Þar er höfn með góðri lendingu, og þarf þar
ekki skipi að festa, hvorki stjóra að kasta, né skutfestar á land
bera; þarf þar ekki annað en renna skipum að, og bíða svo
um hríð, þar til er skipverjar vilja á burt halda, og á kemur
blásandi byr. En í hafnarmynninu rennur fram skær vatnslind
undan helli nokkrum, og vaxa þar aspir umhverfis. Hér lögðum
vér að landi, og vísaði einhverr guð oss leið í náttmyrkrinu;
því svo var dimmt, að ekki varð séð frá sér: var þykk þoka
umhverfis skipin, en máni skýjum hulinn og náði ekki að lýsa
á lofti. Gat því enginn eygt eyna, og ekki sáum vér hinar
stóru bárur veltast að ströndinni, fyrr en hin þóftusterku skip
voru lent. En er skipin voru lent, tókum vér niður öll seglin,
og stigum sjálfir á land í fjörunni, og þegar vér höfðum sofið
út, biðum vér lýsingar.
152 En er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í ljós,
tókum vér að reika um eyna, og fannst oss mikið um. Landvættirnar,
dætur Seifs Ægisskjalda, höfðu rekið fjallgeiturnar
á fætur, svo skipverjar gæti fengið sér dagverð; tókum vér þá
bjúga boga og langskeft spjót, er á skipunum voru, skiptum
liði voru í þrjár sveitir, og skutum dýrin; gaf guð, að oss varð
vel til veiða. Tólf skip voru í för minni, og hlotnaðist hverju
þeirra níu geitur, en tíu völdu þeir úr af óskiptu handa mér
einum saman. Þannig sátum vér þá allan daginn til sólseturs
að veizlu, og höfðum nóg kjöt og ljúffengt vín; var enn ekki
uppgengið það hið rauðleita vín, er var á skipunum: því þá vér
tókum hina helgu borg Kíkóna, hafði hverr af oss ausið
gnótt víns á leirker. Vér litum land Kýklópa, er þar var í
grennd, sáum reykinn, og heyrðum málróm þeirra og sauðajarminn
og geitakumrið. En er sól var runnin og rökkur á
komið, lögðum vér oss til svefns á sjávarströndinni.
170 En er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í ljós,
setta eg þing, og mælti í áheyrn allra: „Mínir kæru félagar,
þér skuluð nú vera hér eftir, en eg ætla að fara með mitt skip
og lagsmenn mína, og vita, hverjir menn þetta eru, hvort þeir
eru ofstopamenn, villimenn og ójafnaðarmenn, eða gestrisnir
menn og guðhræddir“.
177 Að því mæltu sté eg á skip, og bað förunauta mína fara
upp í og slá skutfestum. Þeir gengu þegar á skip, og settust á
þófturnar; og þegar hverr var kominn í rúm sitt, lustu þeir
árum hinn gráa sæ. En er vér vorum komnir í þenna stað, er
skammt var í burtu, þá sáum vér á útskaga nokkurum, fram
við sjóinn, hávan helli, þakinn lárviði; þar lá margt fé, bæði
sauðfé og geitfé; þar var byggður hár garður umhverfis af
jarðföstum klettum, stórum grenitrjám og hálaufguðum eikum.
Sá var heldur stórvaxinn, er í þessum helli bjó; hann var
einn sér úti í haga með fé sitt langan veg þar frá, og kom ekki
til annarra, heldur var út af fyrir sig, óbilgjarn í huga; hann
var furðulega stórvaxinn, og ekki líkur mennskum manni,
heldur skógvöxnum tindi hárra fjalla, sem mænir einstakur
yfir aðra hnúka.
193 Nú bað eg hina aðra dyggu förunauta mína að vera þar
eftir hjá skipinu, og gæta skipsins, en valdi tólf hraustustu
lagsmenn mína, og gekk af stað. Eg hafði með mér geitbelg
með dökkleitu, sætu víni. Það vín hafði mér gefið Maron
Evanþesson, hofgoði Appollons verndargoðs Ísmarusborgar, fyrir
það að vér gáfum honum grið og syni hans og konu, og létum
hann njóta þess, að hann bjó í skógarlundi Febuss Appollons.
Gaf hann mér þá fagrar gjafir: hann gaf mér sjö vættir af
velskírðu gulli, hann gaf mér skaftker úr alsilfri, og þar á
ofan gaf hann mér sætt vín, er hann hafði látið á ekki færri
en tólf leirker, það var óblandað vín og hinn ágætasti drykkur.
Enginn á heimili hans, hvorki þrælar né ambáttir, vissi af þessu
víni, utan hann sjálfur og kona hans og ráðskonan. Bæri svo
við, að þau drykki þetta hunangsæta, rauðleita vín, þá var
hann því vanur að koma tuttugu mælum vatns í eitt fullt drykkjarker
víns, og lagði þó sætan, himneskan ilminn upp af skaftkerinu,
og mundi þá víst ekki auðgert, að halda sér frá að
bergja á því. Af þessu víni hafði eg með mér stóran belg fullan,
og svo nesti í leðurmal, því eg átti allajafna von á því, að
þangað mundi að bera rammefldan mann og trylltan, er hvorki
mundi vita af sanngirni né lögum að segja.
216 Vér gengum í skyndi til hellisins, og hittum ekki hellisbúann
heima; var hann úti í haga með sitt feita fé, og hélt
því þar á beit. Þá vér komum í hellinn, sáum vér margt nýstárlegt:
ostgrindurnar svignuðu af ostunum; krærnar voru troðfullar
af lömbum og kiðum: því sérhvað var byrgt út af fyrir
sig, hið snemmborna sér, miðaldra lömbin sér, og enn nýbæringarnir
í öðru lagi; allar kirnur, sem hann mjólkaði í, flutu í
mysu, bæði byttur og dallar, var það allt haglega tilbúið. Nú
báðu förunautar mínir mig fyrst, að vér skyldum taka nokkura
osta og fara svo þaðan: þar næst, að vér skyldum hleypa kiðunum
og lömbunum út úr krónum og reka þau í skyndi ofan
til hins örskreiða skips, og sigla yfir hið salta vatn. En því var
verr og miður, að eg fór ekki að ráðum þeirra; mig langaði
til að sjá hellisbúann, og vita, hvort hann mundi vilja veita
mér nokkrar gestgjafir: og átti þó svo að fara, að félögum
mínum yrði lítil tilhlökkun að sjá hann.
231 Vér kveyktum nú eld, og blótuðum; tókum svo sjálfir
nokkura osta, og átum; sátum vér nú þar inni, og biðum hans,
unz hann kom með féð úr haganum. Hann bar stóra byrði
af þurrum viði, til þess að kveykja þar við eld að náttverði.
Hann kastaði byrðinni niður fyrir utan hellinn, og varð af
dynkur mikill; varð oss þá felmt við, og hrukkum undan inn
í hellinn. Hann rak nú allt mylka féð inn í hinn víða helli,
en skildi eftir geldféð úti, hrútana og hafrana, í hinum háva
hellisgarði. Síðan hóf hann upp mikinn og þungan hellustein,
og lagði fyrir hellismunnann; ekki mundu tveir og tuttugu
sterkir vagnar með fjórum hjólum hafa fært þann stein úr
stað: slíkt feiknarlegt hellubjarg lagði hann fyrir dyrnar.
Síðan settist hann, og mjólkaði ærnar og hinar kumrandi geitur,
fór hann rétt að öllu, og kom hverju lambi á spenann. Hann
hleypti helming hinnar hvítu mjólkur, lét ólekjuna í riðna
vandlaupa, og geymdi handa sér; en helminginn setti hann upp
í kirnur, til þess að taka þar af handa sér að drekka, og til
kvöldverðar sér. En er hann hafði aflokið búverkum sínum,
þá kveykti hann upp eld, kom hann þá auga á oss og spurði:
„Þér aðkomumenn, hverjir eruð þér, og hvaðan siglið þér vota
vega? Farið þér að erindum nokkurum, eða hvarflið þér ráðlauslega
um hafið, sem víkingar, þeir eð flakka um kring, hætta
lífi sínu, og gera illt útlendum mönnum?“
256 Þannig mælti hann, en oss varð felmt við, því oss brá
við að heyra þessa ógurlegu rödd, og að sjá slíka ófreskju. Ei
að síður svaraði eg honum og sagði: „Vér erum Akkear, og
höfum hrakizt hingað frá Trójuborg fyrir ýmsum veðrum yfir
hið mikla sjávardjúp, vér ætluðum heim til okkar, en komumst
aðra leið, aðra farvegu; mun Seifur hafa viljað haga þessu
svo. Vér erum menn Agamemnons Atreifssonar, er nú gengur
mestur orðrómur af í veröldu, fyrir þá sök að hann hefir lagt
í eyði slíka höfuðborg, og lagt að velli marga menn. En nú
erum vér komnir að knjám þínum, og leitum líknar, og biðjum,
að þú gefir oss einhverja gestgjöf, eða veitir oss einhvern
greiða, eins og gestgjafa er siður til. Óttast guðina, góður maður!
Því vér erum komnir á þínar náðir; en Seifur er verndari
gesta, hann leiðbeinir hinum heiðvirðu gestum, og er hefnigoð
allra nauðleitarmanna og gesta“.
272 Svo mælti eg, en hann svaraði mér aftur í grimmum
hug: „Heimskur ertu, gestur, eða þú ert langt að kominn, er
þú ræður mér að óttast eða forðast guðina. Kýklópar skeyta
ekki um Seif Ægisskjalda, né um hina sælu guði; vér erum
þeim langt yfirsterkari. Ekki mun eg vægja þér né félögum
þínum, til að forðast reiði Seifs, nema mér bjóði svo hugur
um. Seg mér nú, hvar lentir þú hinu traustsmíðaða skipi þínu,
þá þú komst? Lentir þú við útstrandir, eða hér nálægt? Það
vil eg vita“.
281 Þetta sagði hann til að freista mín, en hann fékk ekki
dulizt fyrir mér, því eg vissi margt, talaði eg þá til hans aftur
vélafullum orðum: „Posídon Landaskelfir rak skip mitt upp að
klettum, og braut það fyrir mér, og hrakti það upp að nesi
nokkuru við takmörk lands yðvars, hafði veður borið það
utan af hafi, en eg komst lífs af með þessum, sem hér eru“.
289 Svo mælti eg, en hann var í svo grimmu skapi, að hann
svaraði mér engu, heldur stökk upp, og lagði hendur á lagsmenn
mína, greip tvo af þeim, eins og hvolpa, og sló þeim
niður við, svo að heilinn lá úti og hraut á jörðina; síðan limaði
hann þá í sundur, bjó þá sér til matar, og át þá, eins og
fjallaljón, og leifði hvorki innýfli, né kjöt, eða hin mergjuðu
bein. Þá vér litum þessar grimmu aðfarir, höfðum vér engin
önnur sköpuð ráð, en vér fórnuðum grátandi höndum til Seifs.
En er risinn hafði etið magafylli sína á mannaholdi, og drukkið
óblandna mjólk þar á ofan, lagðist hann endilangur um þveran
hellinn í milli kindanna. Þá kom mér það stórræði í hug, að
bregða hinu bitra sverði, er hékk við hlið mér, ganga að honum,
og leggja því fyrir brjóst honum, þar sem lifrin liggur
við þindina. En mér datt annað í hug, sem aftraði mér: það
var það, að vér hefðum þá sjálfir beðið þar vísan bana, þareð
vér ekki mundum hafa orkað að færa burt með handafli þann
þunga stein, er hann hafði lagt fyrir hellisdyrnar. Biðum vér
því svo búnir, til þess er lýsa tók, og undum illa hag vorum.
307 En er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í
ljós, kveykti hann upp eld, og mjólkaði hið fríða fé; fór hann
rétt að öllu, og kom hverju lambi á spena. En er hann hafði
lokið búverkum sínum, þá þreif hann enn tvo menn, og bjó
sér þá til matar; og er hann var mettur, rak hann hið feita fé
út úr hellinum, en tók áður frá hinn mikla hellustein, og varð
honum ekki mikið fyrir því; lagði hann síðan fyrir aftur, líkt
og þá maður leggur lok yfir örvamæli. Risinn blístraði þá hátt,
og stökkti hinu feita fé upp til fjalls. Eg var eftir, og bjó það
skapi mér, að gera honum eitthvað illt, og leita við að hefna
mín, ef Aþena vildi mér sæmdar unna. Kom mér þá eitt ráð
til hugar, sem mér þótti vænlegast. Hjá einni krónni lá stór
kylfa, sem risinn átti, hún var úr viðsmjörsviði og grasgræn;
hafði hann höggvið hana upp, og ætlaði að þurrka, til að hafa
í hendi sér. Oss virtist, þá vér litum á kylfuna, sem hún mundi
vera eins stór og siglutré úr stórum tvítugærum byrðingi, haffærum;
svo var hún löng og gild, að því er oss leizt til. Eg
fór til, og hjó svo sem svaraði faðmslöngum bút af kylfunni,
fékk hann félögum mínum, og bað þá telgja. Þeir sléttu hann,
en eg fór til, og gerði hann oddhvassan, tók síðan og sveið broddinn
í loganda eldi, fól hann svo í mykju, er þar lá mikil og
þykk um allan hellinn, og bjó vel um. Síðan bað eg þá að
hlutast um, hverr til þess vildi verða með mér, að færa staurinn
á loft og snúa honum í auga risans, þegar sætur svefn
rynni á hann. Nú hlutu fjórir menn, þeir er eg mundi sjálfur
til hafa kosið, en eg var sjálfur kjörinn fimmti maður með þeim.
336 Um kvöldið kom hellisbúinn úr haganum með hið lagðfagra
fé. Hann rak nú þegar hinn feita fénað allan saman
inn í hinn víða helli, og skildi ekkert eftir úti fyrir í hinum
háva hellisgarði, annaðhvort af því hann hefur grunað eitthvað,
eða einhverr guð hefir boðið honum það. Síðan tók
hann hinn mikla hellustein, og lagði fyrir dyrnar, settist svo og
mjólkaði ærnar og hinar kumrandi geitur; hafði hann rétt lag
á öllu, og kom hverju lambi á spena. En er hann hafði aflokið
búverkum sínum, þreif hann enn tvo menn, og bjó til matar
sér. Eg gekk þá til risans með viðvindilsskál í hendi, fulla af
dökkleitu víni, og sagði til hans: „Tak við, risi, og drekk vín
á eftir mannakjötið, er þú hefir etið! Skaltu nú fá að smakka,
hvað góður þessi drykkur er, sem skip vort hefir haft að geyma.
Annars kom eg með þetta vín þér til dreypifórnar, í þeirri von
að þú mundir miskunna þig yfir mig, og veita mér fararbeina
heim. En þú lætur sem óður maður, svo að ekki er lengur
við vært. Hví mundi nokkurr maður úr víðri veröld vilja hér
eftir koma á þinn fund, þú hinn grimmi seggur, þar er þú
fremur slík vonzkuverk“.
353 Svo mælti eg, en hann tók við skálinni og drakk í botn;
þótti honum hinn sæti drykkur ákaflega góður, bað mig um
aftur í henni, og sagði: „Gef mér enn í skálinni, vinur, og
seg mér nú, hvað þú heitir, skal eg þá gefa þér þá gestgjöf, sem
þér skal þykja vænt um. Hin kornfrjóva jörð hjá Kýklópum
ber vín í stórum berjum, og regnskúrir Seifs láta þau dafna;
en þessi drykkur er sem afrás ódáinsfeitar og ódáinsvíns“.
360 Svo mælti hann, en eg gaf honum aftur hið skæra vín.
Þrisvar færði eg honum að drekka, og þrisvar drakk hann
í botn af heimsku sinni. En er vínið tók að svífa á risann, þá
talaði eg til hans blíðum orðum, og sagði: „Spyrðu mig, risi,
að mínu alkunna nafni? Eg skal segja þér satt frá því, en þú
gef mér gestgjöf nokkura, eins og þú hézt mér. Nafn mitt er
Enginn, og Engi kallar mig móðir mín og faðir minn og allir
vinir mínir“.
368 Svo mælti eg, en hann svaraði mér aftur af grimmum
hug: „Eg skal eta hann Engi síðastan, þegar eg er búinn áður
að ljúka við alla förunauta hans; þetta skal vera gestgjöfin
þín“.
371 Í því hann sagði þetta, valt hann á bak aftur, og datt
upp í loft, lá svo, og beygði út á hlið sinn digra svíra; greip
hann þá svefninn, er sigrar allt; gaus þá vínið upp úr kverkunum,
og mannakjötsbitarnir; en hann var að æla, ofdrukkinn
af víninu. Þá tók eg staurinn, rak hann í eymyrju, og hélt
honum þar, unz hann varð brennheitur; hughreysti eg með
orðum alla lagsmenn mína, svo enginn skyldi verða ragur og
renna. En er viðsmjörsviðarstaurinn, enn þótt hann væri glænýr,
var orðinn næsta hvítglóandi, og við sjálft lá, að í honum
mundi kvikna, þá tók eg hann úr glóðinni, og bar hann þar
að, sem risinn lá; en lagsmenn mínir stóðu umhverfis, og blés
guð nú miklu áræði í brjóst oss: þeir tóku viðsmjörsviðarstaurinn,
og hleyptu oddmjóa endanum inn í augað, en eg vó mig
upp á efra endann og hringsneri staurnum. Eins og þegar einhverr
smiður borar skipatimbur með stórviðarbor, en sveinar
hans, sem standa undir niðri, halda í streng beggja vegna og
hringsnúa rennibornum, svo hann hleypur viðstöðulaust; eins
tókum vér hinn oddbrennda staur, og hringsnerum honum í
auga risans; var staurinn glóðheitur, og flaut blóðið upp með
honum öllumegin. Hvarmarnir og brýrnar alstiknuðu af svælunni,
meðan sjáaldrið brann; sauð þá í augnatóftinni af eldinum.
Það var viðlíka og þegar járnsmiður herðir stóra bolöxi
eða handöxi, og bregður henni í kalt vatn, svo hún suðar hátt
við, því það er það, sem gefur járninu hörkuna aftur: eins sauð
í auganu, þegar viðsmjörsviðarstaurinn stóð í gegnum það.
395 Risinn öskraði þá ógurlega hátt, svo að glumdi í öllum
hellinum, en vér urðum hræddir, og stukkum burtu. Síðan
kippti hann staurnum allöðrandi í blóði út úr auganu, og þeytti
honum frá sér af hendi, því hann þoldi ekki við. Hann kallaði
hástöfum á þá Kýklópa, er bjuggu í grennd við hann í
hellum, hér og hvar um fjallahæðirnar. En er þeir heyrðu ópið,
komu þeir úr sinni átt hverr, numu staðar hjá hellinum og
spurðu, hvað að honum gengi: „Hvað er þér svo mjög að
angri, Pólýfemus, er þú æpir svo hátt á náttarþeli, og heldur
vöku fyrir oss? Hvort vill nokkurr ræna þig fé þínu að óvilja
þínum? Eða vill nokkurr drepa þig með vélum eða ofríki“.
407 Hinn sterki Pólýfemus svaraði þeim inni í hellinum:
„Enginn drepur mig, góðir vinir, með vélum, og ekki með
ofríki“.
409 Þeir svöruðu honum með skjótum orðum, og sögðu:
„Fyrst svo er, að þú ert einn þér, og enginn veitir þér ofríki,
þá sækir þig víst einhverr sjúkleikur frá hinum mikla Seifi,
og hjá honum verður ekki komizt. Er þér því bezt, að heita á
hinn volduga Posídon, föður þinn, þér til hjálpar“.
413 Þannig mæltu þeir, í því þeir gengu burt, en hjarta mitt
hló í mér, að nafn mitt og ráðsnilli mín skyldi hafa gabbað
þá svo.
[1141.png: Augað borað úr Pólýfemusi.]
415 Risinn stundi nú af sárum kvölum, þreifaði fyrir sér
með höndunum, og tók steininn frá dyrunum, settist svo í
dyrnar, breiddi út báðar hendurnar, og ætlaði að handsama
hvern, sem út gengi með fénu; hefir hann líklega hugsað, að
eg mundi vera svo heimskur. En eg hugsaði mig um, hvað
tiltækilegast mundi, ef eg mætti eitthvert ráð hitta til að frelsa
félaga mína frá dauða og sjálfan mig; beitta eg þá öllum vélum
og allri minni ráðkænsku, með því um lífið var að tefla, því
nú var oss mikill háski búinn. Það ráð, sem eg hugsaði að
bezt mundi duga, var þetta. Þar voru þriflegir sauðir, ullarmiklir,
fríðir og föngulegir, þeir voru mórauðir; eg tók þrjá
og þrjá af þeim, og batt þá saman í kyrrþey með harðsnúnum
víðirtágum, sem risinn lá á, tröll það, er af engri sanngirni
vissi. Miðsauðurinn bar einn mann, en hinir tveir gengu sínu
megin hvorr, og geymdu félaga minna; báru svo þrír sauðir
hvern mann. Nú var þar einn hrútur, sem var langfélegastur
af öllum sauðunum; eg greip ofan í bakið á þessum hrút, vatt
mig undir kvið hans, hélt mér fast með báðum höndum í
ullarreyfið, og hékk þar svo í bugðu þolinmóður. Þannig biðum
vér, þó oss væri óhægt, þar til er lýsa tók.
437 En er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í ljós,
ruddust sauðirnir út í hagann, en ærnar, sem voru ómjólkaðar,
jörmuðu í kvíunum, því júgrin voru farin að stálma. Þegar sauðirnir
voru staðnir upp, tók eigandinn, þjakaður af sárum kvölum,
á bökum þeirra allra; en á því varaði hann sig ekki,
heimskinginn, að mennirnir voru bundnir undir kviði hinna
loðnu sauða. Síðast sauðanna kjagaði hrúturinn út, var hann
þungur á sér af reyfinu og svo af mér með öllu ráðabrugginu,
sem í mér var. Hinn sterki Pólýfemus tók á honum, og mælti
til hans: „Hvað kemur til, hrússi minn, að þú ferð núna síðastur
af fénu út úr hellinum? Þú ert þó ekki vanur því endranær,
að ganga aftastur af sauðunum; fyrstur ertu vanur að
fara út í hagann að bíta hið blómfagra gras, og skálmar þá
stórum: fyrstur ertu vanur að koma til hinna rennandi árstrauma,
og fyrstur viltu koma aftur heim á kvíabólið á kvöldin.
Nú þar á móti ertu síðastur allra. Víst muntu sakna auga
hússbónda þíns, er hinn vondi maður Enginn blindaði með
aðstoð sinna örmu félaga, eftir það hann hafði gert mig ölvaðan;
grunar mig þó, að hann muni enn ei undan ógæfunni sloppinn.
Ef þú hefðir hyggju eins og eg, og gætir mælt við mig,
og sagt mér til, hvert hann hefir hlaupið í felur úr krummum
mér, þá skyldi eg slá honum svo niður við, að heilinn úr honum
skyldi hrjóta víðsvegar um hellinn; og þá mundi létta á
hjarta mínu þeim kvölum, sem vesalmennið, hann Enginn,
hefir bakað mér“.
[1143.png: Odysseifur undir hrútnum.]
461 Að því mæltu sleppti hann hrútnum út. En þegar við
vorum komnir skammt frá hellinum og garðinum, losaði eg
mig fyrst undan hrútnum, og leysti svo félaga mína. Síðan rákum
vér hina hábeinóttu, mörvuðu sauði af stað í skyndi, og
urðum vér oft að fara fyrir þá, áður vér komumst til skipsins;
urðu félagar vorir fegnir að sjá oss, er undan höfðum sloppið
bananum, en hörmuðu hina með kveinstöfum. En eg bandaði
hverjum þeirra með augnabrúnunum, og bannaði þeim að
hljóða upp yfir sig; bað eg þá varpa hinum lagðfögru sauðum
skyndilega upp í skipið, og sigla yfir hið salta vatn. Gengu
þeir þá þegar á skip, og settust á þófturnar, og þegar hverr var
kominn í rúm sitt, lustu þeir árum hinn gráa sæ.
473 En er eg var kominn svo langt frá landi, sem mál mátti
nema, þá talaði eg þessum sáryrðum til risans: „Þér varð þó
ekki að því, risi minn, að sá maður væri nein bleyða, er þú
ázt mennina fyrir með ofbeldi í hinum víða helli. Og heldur
en ekki hafa þér í koll komið illverk þín, grimmdarseggurinn,
er þú sveifst ekki að eta þá menn, er voru til gistingar í híbýlum
þínum; og því hefir Seifur og aðrir guðir hefnzt á þér“.
480 Þannig mælti eg, en hann varð við þetta enn ævareiðari;
hann reif upp stóran fjallshnúk og kastaði, og kom niður fyrir
framan hið stafnbláa skip; ygglðist sjórinn við, er bjargið kom
niður, en afturkast straumöldunnar utan af hafinu bar skipið
skjótt til lands, og rak það upp að fjörunni. Eg greip þá
langan fork, og stjakaði út, en bandaði skipverjum með höfðinu,
og bað þá taka til ára og herða sig, svo vér kæmumst
úr þessum háska. Létu þeir nú fallast á árar, og sóttu róðurinn.
En er vér vorum komnir tvöfalt lengra en áður fram á sundið,
þá ætlaði eg að tala til risans, en skipverjar löttu mig þess,
hverr úr sínu rúmi, og sögðu við mig með blíðum orðum: „Hví
viltú, ofurhugaði maður, egna þenna tryllta mann? Hann sendi
oss nú sendingu lengst út á sjó, og rak skipið aftur til lands,
svo vér héldum víst, að vér mundum hafa þar bana; en ef
hann hefði heyrt einhvern af oss kalla eða tala, þá hefði hann
hausbrotið oss og mölvað skipið með hinu tindótta bjargi; svo
langt kastar hann!“
500 Þannig mæltu þeir, og gátu þó ei aftrað stórhuga mínum;
talaði eg þá aftur til risans í reiðum hug: „Ef einhverr
dauðlegra manna spyr þig, risi, hví svo hafi illa orðið, að þú
hafir misst sjónar á auga þínu, þá seg, að Odysseifur hafi blindað
þig borgabrjótur Laertesson, er heima á í Íþöku“.
506 Svo mælti eg, en hann hljóðaði upp yfir sig, og svaraði:
„Mikil ósköp! Sannarlega koma fram á mér fornar spár. Hér
var ágætur og mikill spámaður, að nafni Telemus Evrýmusson,
hann var allra manna forspáastur, og sagði Kýklópum spár
allt fram á ellidaga. Hann kvað allt þetta mundu síðar fram
við mig koma, að eg mundi sjónar missa af völdum Odysseifs
nokkurs; og bjóst eg ávallt við, að hingað mundi koma einhverr
mikill maður og fríður og vel að þreki búinn; en nú
hefir lítilmenni, vesælmenni og þrekleysingur blindað mig, og
þó gert mig ölvaðan áður. En heyr nú, Odysseifur, kom
hingað til mín, eg skal veita þér gestgjafir, og heita á hinn
fræga Landaskelfi; að hann greiði för þína; því eg em son hans,
og hann er faðir minn. Hann mun fá læknað mig, ef hann
svo vill, eða enginn ella, hvorki hinna sælu guða, né dauðlegra
manna“.
522 Svo mælti hann, en eg svaraði honum, og sagði: „Eg
vildi eg væri eins viss um að geta svipt þig önd og lífi, og
sent þig til Hadesar heimkynnis, eins og eg er viss um það,
að jafnvel Landaskelfir læknar ekki auga þitt“.
[1145.png: Skip Odysseifs við eyju Pólýfemusar (málverk eftir Turner).]
526 Svo mælti eg, en hann fórnaði höndum til ens stirnda
himins, og hét á hinn volduga Posídon: „Heyr, jarðkringjandi
Posídon, bláhærði guð! Sé það satt, að eg sé þinn son, og þú
faðir minn, þá veit mér það, að Odysseifur borgabrjótur nái
eigi heim að komast; en ef honum á auðið að verða að sjá
vini sína og komast til síns velbyggða húss og föðurjarðar sinnar,
þá gef, að hann missi áður allra förunauta sinna, komist
seint heim með illan leik á annarra manna fari, og sæki illa
að heima“.
536 Þannig baðst hann fyrir, og heyrði hinn bláhærði guð
bæn hans. Síðan tók hann upp aftur miklu stærri stein, sveiflaði
honum í hring og henti, og tók á heljarafli sínu; kom steinninn
skammt fyrir aftan hið stafnbláa skip, og lá við sjálft, að
hann lenti í stýrishælnum; hljóp brim í sjóinn, þegar bjargið
kom niður, en aldan hratt skipinu áfram, og rak það upp
að landi.
543 En er vér komum til eyjarinnar, þar sem hin önnur
þóftusterku skip lágu öll saman, sátu félagar vorir grátandi í
kringum skipin og þráðu eftir oss. Og er vér komum þar,
lentum vér skipinu við sandinn, og stigum á land í fjörunni,
tókum sauði risans upp úr enu rúmgóða skipi, og lögðum til
hlutskiptis, svo allir bæru jafnan hlut frá borði. En þegar
fénu var skipt, gerðu mínir fagurbrynhosuðu félagar mér það
virðingarmark, að þeir gáfu mér hrútinn einum; fórnfærði eg
hann í fjörunni Seifi Kronussyni, Svartskýjaguði, er yfir öllu
ræður, og brenndi eg lærleggina. En Seifur hirti ekki um
blótið, heldur lagði hug á hitt, að öll mín þöftusterku skip og
mínir dyggu förunautar skyldu tortýnast. Þannig sátum vér
þá allan daginn til sólseturs að veizlu, og höfðum gnógt kjöt
og ljúffengt vín; en er sól var runnin og rökkur á komið, lögðum
vér oss til svefns á sjávarströndinni.
560 En er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í ljós,
þá eggjaði eg förunauta mína, og bað þá stíga á skip og slá
skutfestum. Þeir stigu þegar á skip, og settust á þófturnar,
og þegar hverr var kominn í rúm sitt, lustu þeir árum hinn
gráa sæ. Héldum vér nú áfram ferðinni, harmþrungnir af missi
félaga vorra, og þó fegnir því, að vér sluppum úr lífsháskanum.
[1147.png]
TÍUNDI ÞÁTTUR.
FRÁ EÓLUS, LESTRÝGÓNUM OG KIRKU.
VÉR komum til Eólseyjar; þar bjó Eólus Hippótesson,
ástvinur hinna ódauðlegu guða; var hægt skipi að leggja
að þeirri ey, því allt umhverfis hana lá óbrjótandi eirveggur,
og gnæfði sléttur hamarinn í loft upp. Eólus átti tólf
börn, þau voru heima hjá honum, sex dætur og sex synir
frumvaxta; hafði hann gift dæturnar sonum sínum, og sitja
þeir ávallt að veizlum hjá sínum kæra föður og sinni góðu
móður, og eru settar fram fyrir þá ótal krásir, og er á daginn
glaumur mikill í forgarði hinnar ilmandi hallar, en á næturnar
hvíla þeir á blæjum og útskornum legubekkjum hjá sínum
virðuglegu konum.
13 Vér komum nú til borgar þeirra og hinna fögru herbergja.
Eólus tók vel á móti mér, og hélt mig í heilan mánuð;
spurði hann mig um alla skapaða hluti; um Ilíonsborg, um
skip Argverja og um heimför Akkea, og sagða eg honum vandlega
frá öllu. En er eg beiddist orlofs og skoraði á hann um
fararbeina, þá synjaði hann mér þess ekki, heldur greiddi för
mína. Hann fló belg af níu ára gömlum uxa, og gaf mér; hafði
hann þar í innibyrgt rásir hinna þjótandi vinda; því Kronusson
hafði gert hann að ráðsmanni yfir vindunum, svo að hann
bældi niður og æsti upp hvern, er hann vildi. Hann batt belginn
á hinu rúmgóða skipi með ljómandi silfurfesti, og bjó svo
um, að ekki komst út minnsti gustur, en lét blásanda vestanvind
anda á eftir mér, til að fleyta áleiðis skipum og mönnum.
En honum varð þess ei auðið, að koma því til vegar; því eigin
heimska vor varð oss að tjóni.
29 Vér sigldum nú níu daga, jafnt nótt sem nýtan dag, og
þegar á tíunda degi skaut upp föðurlandi voru, og sáum vér
vitavörð þann, er í nánd var. Þá seig á mig sætur svefn af
þreytu, því eg hafði allajafna haft vald á seglklónni, og látið
engan annan gera það af skipverjum; gerða eg það til þess, að
vér kæmumst því fyrr heim til föðurlandsins. Nú tóku förunautar
mínir tal með sér, héldu mig hafa gull og silfur meðferðis
heim, og ætluðu, að vera mundi gjafir frá enum hugstóra
Eólus Hippótessyni. Þeir litu þá hverr upp á annan og sögðu:
„Undur er það, í hve miklum kærleikum og metum þessi
maður er hjá öllum, í hvaða borg eða land sem hann kemur.
Hann hefir með sér margar fagrar gersemar frá Trójuborg,
sem hann hefir fengið í hlutskipti; en vér, sem höfum farið jafnlanga
leið, förum heim aftur með honum tómhendir. Og nú
hefir Eólus gefið honum þessar gjafir í vináttuskyni. Látum
oss nú skoða rétt snöggvast, hvað þetta er, hve mikið gull og
silfur er í belgnum“.
46 Svo mæltu þeir, og réð hér meira óráð fylgjara minna.
Þeir leystu frá belgnum, og þustu þá út allir vindarnir; hreif
bylurinn þá skipverja skyndilega á haf út, burt frá föðurlandinu,
og bárust þeir þá lítt af. En er eg vaknaði, lék hugur
minn á tveim áttum, hvort eg skyldi heldur steypa mér fyrir
borð, svo eg týndist í hafinu, eða skyldi eg þreyja með þögn
og þolinmæði og vera enn í sambúð við lifandi menn. Eg réð
heldur af að þreyja með þolinmæði og bíða, lagðist niður í
skipið og breiddi yfir mig; en skipin drifu í fárviðrinu til
Eólseyjar aftur, og bárust förunautar mínir illa af.
56 Vér stigum þar á land og jusum vatn, og tóku skipverjar
brátt snæðing hjá hinum örskreiðu skipum. En er vér höfðum
neytt matar og drykkjar, þá tók eg með mér kallarann og annan
mann til, og gekk til enna ágætu herbergja Eóluss, fann eg
hann sitjanda að veizlu með konu sinni og sonum. Þá vér komum
í höllina, settumst vér á þröskuldinn við dyrustafina; en
þeim hnykkti við, og spurðu: „Hvernig stendur á því, að þú
ert kominn, Odysseifur? hvaða Óhamingja hefir hremmt þig?
Vér gerðum þig þó heiman frá oss með öllum virktum, svo
þú mættir heim komast til föðurlands þíns og til húss þíns, og
hvert annað sem þér er hugleikið að fara“.
67 Svo mæltu þeir, en eg sagði til þeirra harmþrunginn:
„Mínir illu förunautar og auk þess hinn meinlegi svefn hafa
blekkt mig. Gjörið nú svo vel, góðir menn, og leggið einhverja
líkn, því þér eruð þess umkomnir“.
70 Þannig mælti eg, og fór vel að þeim; þeir urðu hljóðir
við, en faðir þeirra svaraði og sagði: „Vertú skjótt burt úr eyjunni,
þú hinn svívirðilegasti allra lifandi manna, því óhæfa
er fyrir mig að hýsa eða greiða för þess manns, sem orðið
hefir fyrir reiði hinna sælu guða. Vertú á burt, því goðagremi
veldur því, að þú ert hingað kominn“.
76 Þá hann hafði þetta sagt, vísaði hann mér burt úr höllinni,
og féll mér það ærið þungt. Héldum vér svo þaðan áleiðis
ferð vorri, harmþrungnir í hjarta; urðu skipverjar örmæddir
af erfiðum róðri, og hlauzt það af heimsku vorri; sáust nú engi
líkindi til framar, að heimför vor mundi greiðast.
80 Vér héldum nú áfram í sex dægur, jafnt nætur sem daga,
og komum á sjöunda degi til Lamusar háreistu borgar, Telepýlsborgar
í Lestrýgónalandi. Þá er einn hirðir fer þar inn, kallar
hann á annan hjarðmann, sem út fer, og gegnir sá honum. Þar
mætti svefnlaus maður vinna sér inn tvöfalt kaup, eitt með því
að gæta nauta, og annað með því að halda mjallhvítum sauðum
á beit, því nánir eru vegir nætur og dags. Hér komum vér
að góðri höfn, lá brattur hamar allt umhverfis hana á báðar
hendur, en í hafnarmynninu ganga fram tvö annnes, hvort
gegnt öðru, og er þar mjótt sund inn að fara. Þeir héldu nú
allir hinum borðrónu skipum þar inn, og var skipunum fest
í innanverðum hafnarpollinum hverju hjá öðru, því þar var
hvítalogn yfir allt, og kom aldrei hin minnsta ylgja þar inni
á höfninni. Eg einn lagði skipi mínu fyrir utan höfnina, þar
við útskagann, og batt landfestarnar við hamarinn.
97 Eg gekk upp á hátt leiti og nam þar staðar, varð þar
hvorki vart við plægð sáðlönd eða nokkur mannaverk, sáum
vér ekkert nema reyk, er lagði upp af landinu. Þá senda eg
förunauta mína á njósn að forvitnast, hvað mennskra manna
byggi í landinu; valdi eg til þess tvo menn, og lét þeim fylgja
kallara hinn þriðja mann. Fóru þeir á land upp og gengu
sléttan veg, þar sem vagnar voru vanir að flytja timbur til
borgarinnar ofan af enum hávu fjöllum. Fyrir framan borgina
mættu þeir stúlku, sem var að sækja vatn, það var hin sköruglega
dóttir Antífatess Lestrýgónakóngs, hafði hún gengið ofan
til fagurrennandi lindar nokkurrar, er hét Artakía; þangað var
vant að sækja vatn úr borginni. Þeir gengu til hennar, urpu
orðum á hana, og spurðu, hverr konungur væri þar í landinu
og hverjir væru þegnar hans. Hún vísaði þeim þegar á hið
háreista hús föður síns. En er þeir komu inn í hin ágætu herbergi,
hittu þeir húsfreyjuna, hún var mikil vexti, sem fjallshnúkur
væri, og stóð þeim mikill geigur af henni. Hún kallaði
þegar út á torg til hins fræga Antífatess, manns síns; hann
ætlaði þeim dapran dauða, og greip þegar einn af sendimönnum,
og bjó hann til matar sér, en hinir tveir stukku burt og
komust á flótta til skipanna. Hann rak þá upp org, svo að
heyrðist um alla borgina; og er þeir sterku Lestrýgónar heyrðu
til hans, komu þeir úr sinni átt hverr, var það mikill sægur, og
ekki mönnum líkir, heldur Gígöntum. Þeir köstuðu svo stórum
steinum ofan af björgunum, að hverr þeirra var fullkomið
mannstak; gerðist þá brátt illur gnýr á skipunum, er mennirnir
drápust og skipin mölvuðust; stungu þeir skipverja í gegn,
eins og fiska, og höfðu á burt með sér, var það ófagur veizlukostur.
Meðan þeir voru að drepa þá inni á hinni djúpu höfn,
brá eg hvössu sverði, er eg hafði við síðu mér, og hjó sundur
festar hins stafnbláa skips, skoraði á menn mína, og bað þá
taka til ára, svo vér kæmumst úr háskanum. Réru þeir þá allir
drífanda, því þeir óttuðust bana sinn. Varð eg þá feginn, er
skip mitt skrapp fram undan flugabjörgunum og út á rúmsjó,
en hin skipin fórust þar öll saman.
134 Síðan héldum vér fram ferðinni, hryggvir í huga af
missi félaga vorra, og þó fegnir því, að vér komumst úr þessum
lífsháska. Vér komum til Eyjar, þar bjó hin hárfagra
Kirka, hún var máttug gyðja og máli gædd; hún var alsystir
hins fárhugaða Eetess: var faðir beggja þeirra Helíus, er lýsir
dauðlegum mönnum, en móðir þeirra var Persa, dóttir Ókeans.
Vér fórum hljóðlega, og lögðum að landi í einni leguhöfn, og
leiðbeindi oss einhverr guð þangað. Þar stigum vér af skipi,
og lágum á landi tvo daga og tvær nætur, örmæddir af erfiði
og sorgum.
144 En er hin hárfagra Morgungyðja lét þriðja daginn upp
renna, tók eg spjót mitt og hið bitra sverð, og gekk hvatlega
upp frá skipinu á einn víðsýnan stað, að vita, hvort eg sæi
nokkur mannaverk eða heyrði mannamál. Eg gekk upp á hátt
leiti og nam þar staðar; gat eg þá að líta, í gegnum hina þéttu
eikirunna og skóginn, hvar reykinn úr híbýlum Kirku lagði
upp af enni víðlendu jörð. Réðst eg þá um við sjálfan mig, er
eg sá dökkvan reykinn, hvort eg skyldi ganga á njósn. En er eg
hugsaði um þetta, leizt mér ráðlegra að fara fyrst ofan til
strandar til hins fljóta skips, gefa förunautum mínum dagverð
og senda þá svo á njósn. En þegar eg var kominn í nánd við
hið borðróna skip, þá aumkvaðist einhverr guðanna yfir mig,
þar sem eg var einmana, og stefndi háhyrndum hirti miklum
rétt í veg fyrir mig. Hjörturinn hafði orðið móður af sólarhita,
og hafði því gengið ofan úr skóglandinu til að drekka. En í því
hann gekk ofan, skaut eg til hans, kom skotið ofan í hrygginn
á miðju baki, og gekk eirspjótið í gegn hins vegar; féll hann
þá öskrandi til jarðar, og leið öndin upp af honum. Eg sté
þá fæti á hann, og kippti eirspjótinu úr undinni, lagði það á
jörðina og lét það þar eftir, en fór og sleit upp kvisti og víðirtágar,
fléttaði mér tvíbrugðna taug, hér um faðms langa, og
batt um fætur þessarar miklu skepnu, bar hana svo á bakinu
ofan til hins svarta skips, og studdist við spjótið, því ótækt
var að halda á svo afarstóru dýri á öxlinni með annarri hendi.
Eg varpaði því niður fyrir framan skipið, vakti félaga mína
með blíðum orðum, gekk til hvers manns og sagði: „Þó oss
angri margt, kærir vinir, þá munum vér þó ekki fyrr ofan fara
til Hadesar heimkynna, en skapadægur vort aðkemur. Látum
oss því neyta fæðslu og ekki vanmegnast af hungri, meðan
matur og drykkur er til á hinu fljóta skipi“.
178 Svo mælti eg, og gegndu þeir mér skjótt til þessa, vörpuðu
klæðum af sér og skoðuðu hjörtinn á sjávarströndinni, og
fannst mikið til koma, því dýrið var afarstórt. En er þeir höfðu
horft á það, sem þá lysti, þógu þeir hendur sínar og efnuðu til
dýrlegrar veizlu. Þannig sátum vér þá að veizlu allan daginn
til sólarlags, og höfðum gnógt kjöt og ljúffengt vín. En er sól
var runnin og rökkur á komið, lögðumst vér til svefns á sjávarströndinni.
187 En er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í ljós,
setta eg þing, og tók til orða í áheyrn allra: „Heyrið orð mín,
góðir félagar, er ratað hafið í margar raunir. Með því vér, kærir
vinir, vitum ekki hvar næturheimur eða dagsheimur[* Sjá IX, 26.] er, né
heldur, hvar hin lýsandi sól gengur undir eða hvar hún rennur
upp, þá látum oss skjótt hug um leiða; hvort enn sé nokkuð
til ráða, og hygg eg fátt muni til vera; því þá eg gekk upp á
eitt hátt leiti, sá eg ómælilegt haf liggja í hring umhverfis eyna,
og að hún er sjálf láglend; en í gegnum eikirunnana og skóginn
sá eg reyk, sem lagði upp af henni miðri“.
198 Svo mælti eg, en þeir urðu hnuggnir, því þeir mundu
til stórvirkja Antífatess, Lestrýgónakóngs, og ofureflis hins
hugstóra Kýklóps, mannætunnar. Þeir hljóðuðu hástöfum, og
grétu fögrum tárum, en voru þó öngvu nær að heldur fyrir
kveinstafi sína,
203 Eg skipti þá öllum mínum fagurbrynhosuðu förunautum
í tvær sveitir, og lét sinn höfuðsmann vera fyrir hvorri,
var eg höfðingi fyrir annarri, en fyrir annarri hinn goðumlíki
Evrýlokkus. Lögðum vér nú hluti í eirhjálm og hristum ótt,
og kom út hlutur hins hugstóra Evrýlokkuss. Fór hann nú af
stað, og með honum tveir og tuttugu skipverjar, og þótti oss
sárt að skilja hvorum tveggjum.
210 Þeir hittu híbýli Kirku í skógardal nokkurum, þau
voru byggð af höggnum steini og lágu á víðsýnum hól. Hjá
húsinu voru fjallvargar og ljón, sem Kirka hafði töfrað með
lyfum, er hún hafði gefið þeim. Þessi dýr réðust ekki á aðkomumenn,
heldur stóðu upp og dingluðu hinum löngu rófum,
eins og hundar, sem flaðra upp á eiganda sinn, þá hann
kemur úr veizlu, af því hann er þá allajafna vanur að færa
þeim eitthvert hnossgæti. Þannig flöðruðu hinir klósterku vargar
og ljónin upp á þá, en þeir urðu hræddir, er þeir litu þessar
óttalegu skepnur. Þeir staðnæmdust í fordyri hinnar hárprúðu
gyðju, og heyrðu til Kirku, hvar hún söng inni með fagri rödd,
hafði hún þá uppi mikinn vef, himneskan; var hann, eins og
handbragð gyðjanna er vant að vera, smágjörr, fagur og glæsilegur.
224 Þá tók höfðinginn Polítes til orða, hann var mér kærstur
og hann virði eg mest allra félaga minna: „Kærir vinir, hér
er einhver inni að vefa mikinn vef, annaðhvort einhver gyðja
eða kona, og syngur svo fagurt, að við kveður öllum grundvellinum.
Vér skulum því þegar gera vart við oss“.
229 Svo mælti hann, en þeir gerðu vart við sig, og kvöddu
dyra. Hún gekk þegar fram, og lauk upp hinum ljómandi
hurðum, og bauð þeim inn; voru þeir svo óforsjálir, að þeir
fylgdu henni inn allir, nema Evrýlokkus var eftir, því hann
grunaði, að hér mundu einhver svik undir búa. Þá hún hafði
leitt þá inn, lét hún þá setjast á legubekki og hástóla. — Hún
hrærði ost, byggmjöl og bleikt hunang saman við pramniskt
vín, og blandaði þenna hræring með töfrum, að þeir skyldu
með öllu gleyma föðurlandi sínu. Og þá hún hafði gefið
þeim hræringinn og þeir höfðu drukkið, þá drap hún á þá
sprota sínum, og læsti þá inni í svínastíum; höfðu þeir þá
höfuð og rödd, hár og vöxt, sem á svínum, en héldu þó óskertu
viti sínu, jafnt sem áður hafði verið. Voru þeir nú þannig inni
byrgðir, og undu illa hlut sínum, en Kirka kastaði fyrir þá
akörnum, steineikarmýlum og hagþornseitlum, því þess konar
fæðu eta jafnan hin jarðlægu svín.
244 Evrýlokkus skundaði til hins örskreiða, dökkva skips,
og ætlaði að bera fregn af fylgjurum sínum og hinum hryggilegu
óförum þeirra; en hann fékk engu orði upp komið, þó
hann leitaði við: svo mjög var hjarta hans harmþrungið; augu
hans fylltust tára, og grátstafur bjó í huga hans. En er vér
undruðumst yfir þessu og fórum að grafast eftir því, þá sagði
hann oss innilega frá óförum fylgjara sinna: „Frægi Odysseifur,
vér gengum gegnum eikirunnana, eins og þú bauðst, og hittum
hin fögru, vönduðu húsakynni í skógdal nokkurum. Þar
söng inni einhver gyðja eða kona snjallri röddu, og hafði uppi
vef mikinn. Þá gerðu þeir vart við sig og kvöddu dyra, en hún
gekk fram og lauk upp hinum ljómandi hurðum, og bauð
þeim inn, og voru þeir svo óforsjálir, að þeir gengu inn allir
á eftir henni, nema eg var eftir, því mig grunaði, að hér
mundi einhverr prettur í vera. Síðan hvurfu þeir allir saman,
og sást engi þeirra framar; sat eg þó lengi og skyggndist eftir
þeim“.
261 Svo mælti hann, en eg varpaði mínu stóra, silfurneglda
eirsverði og boga mínum um öxl mér, og bað hann þegar í stað
fylgja mér sömu leið. En hann tók báðum höndum um kné
mér, og bað: „Lát mig hér eftir verða, seifborni konungur, og
far ei með mig þangað; em eg ófús að fara, því eg veit, að þú
munt hvorki fá sjálfur aftur komizt, né nokkurn aftur heimtan
af félögum þínum. Flýjum heldur sem skjótast með þá
sem nú eru hér; má vera, að vér enn fáum undan stýrt ógæfunni“.
270 Svo mælti hann, en eg svaraði honum og sagði: „Evrýlokkus,
það er og vel, að þú sért hér eftir, þar sem þú ert nú
kominn, hjá hinu dökkva, rúmgóða skipi, og etir þar og
drekkir. Eg skal fara sjálfur, því nú ber brýn nauðsyn til“.
274 Að því mæltu gekk eg upp frá skipinu, og frá sjó á
land upp, og fór upp eftir hinum helgu skógardölum. En er
eg átti skammt til hallar Kirku hinnar fjölkunnugu, þá mætti
mér Hermes Gullinsproti, í því eg gekk að höllinni. Hann
var líkur ungum manni, sem nýsprottin er grön og er á sínu
fegursta æskuskeiði. Hann tók í hönd mér, tók til orða og
mælti: „Hví ráfar þú enn einmana, vesæll maður, yfir fjallahæðir,
þar sem þú ert þó ókunnugur á þessum stað? Förunautar
þínir eru hér inni byrgðir í híbýlum Kirku, og gista í ramgjörvum
fylgsnum í svínalíkjum. Eða ætlarðu hingað til að leysa
þá úr ánauðum? Eg spái því, að þú komist ei aftur sjálfur,
og megir gista í sama stað og þeir. Heyr nú, eg skal leysa þig
af þessu vandræði, og frelsa þig. Tak við þessu góða náttúrugrasi,
og haf það með þér til híbýla Kirku, og mun það fá varið
þig fyrir allri ógæfu. Eg skal segja þér allar meinvélar Kirku:
hún mun byrla þér milskudrykk og koma töfrum í drykkinn,
og mun hún ekki álögum á þig koma, og veldur því grasið
hið góða, er eg mun gefa þér. Nú skal eg segja þér hvað eina.
Þegar Kirka lýstur þig með hinum langa sprota, þá skaltu
bregða því bitra sverði, er þú hefir við síðu þér, og vaða að
Kirku, og lát sem þú munir vega að henni. Hún mun þá verða
skelkuð, og bjóða þér á beð sinn; en þegar svo er komið,
þá skaltu ekki undan skorast samlagi við gyðjuna, ef svo
mætti verða, að hún tæki félaga þína úr álögum og veitti þér
viðtöku. En láta skaltu hana sverja þér styrkan eið við hina
sælu guði, að hún vilji þér ekkert mein gera framar; hætt er
við ella, að hún geri þig duglausan og þreklausan, þá þú hefir
lagt af þér vopn þín“.
302 Að því mæltu dró Argusbani kraftagrasið upp úr jörðunni,
og fékk mér, og sagði mér frá náttúru þess. Rót þess
var svört, en blómið hvítt sem mjólk, kalla guðirnir það Mólý;
dauðlegum mönnum veitir erfitt að grafa það upp, en guðum
er allt máttugt.
307 Nú fór Hermes burt til hins háva Ólympus yfir hina
skógóttu ey, en eg gekk til híbýla Kirku, og iðaði mjög hjartað
í mér á leiðinni. Eg nam staðar við dyr hinnar hárprúðu gyðju,
stóð þar og kallaði, en gyðjan heyrði til mín, gekk þegar fram,
og lauk upp hinum ljómandi hurðum, og bauð mér inn; gekk
eg inn eftir henni, og lá þá illa á mér. Hún leiddi mig innar,
og lét mig setjast í silfurneglt hásæti; það var fagurt og haglega
tilbúið, og fótaskör undir til að standa á. Hún byrlaði mér
milskudrykk í gullskál til að drekka, og lét þar í töfra, hafði
hún illt í hyggju. En er hún hafði fært mér þetta, og eg hafði
drukkið, og töfrarnir bitu ekki á mig, þá drap hún á mig
sprota sínum, tók til orða og mælti: „Far þú nú til svínastíunnar,
og leggst þar hjá sveitungum þínum!“
321 Svo mælti hún, en eg brá mínu bitra sverði, er eg hafði
við síðu mér, óð að Kirku, og lét sem eg mundi vega að
henni. — Hún hljóðaði hástöfum, hljóp undir höggið, tók
um kné mér, og talaði grátandi til mín skjótum orðum: „Hverr
ertu og frá hvaða landi? hvar áttu heima og foreldrar þínir?
Mig furðar, að þú skyldir ei skipta líkjum, þá þú drakkst töfradrykkinn;
því engi maður hefir fyrr þolað þessa ólyfjan, sá
er hana hefir drukkið og eitt sinn látið hana koma inn fyrir
varir sér. Þú munt vera Odysseifur hinn víðförli, er Argusbani
Gullinsproti ávallt kvað mundu til mín koma á örskreiðu,
dökkvu skipi á heimleið sinni frá Trójuborg. Nú vil eg biðja
að þú slíðrir sverð þitt, og stígum svo bæði á beð minn,
að við njótum þar samlags og yndis, og bindum trúnað hvort
við annað“.
[1157.png: Odysseifur ógnar Kirku.]
336 Svo mælti hún, en eg svaraði henni og sagði: „Hví
skaltu, Kirka, biðja mig að eiga vingott við þig, þar sem
þú hefir brugðið förunautum mínum í svínalíki í híbýlum
þínum, en vilt halda mér hér sjálfum, og biður mig slæglega
að ganga inn í svefnstofu þína og stíga á beð þinn, til þess að
gera mig duglausan og þreklausan, þá eg hefi lagt af mér vopn
mín. Ekki mun eg stíga á beð þinn, nema þú treystir þér til,
gyðja, að sverja mér þess dýran eið, að þú viljir mér ekkert
mein framar gera“.
345 Svo mælti eg, en hún sór þegar, eins og eg mæltist til.
En er hún hafði svarið og unnið fullan eið, þá steig eg á hinn
fagra beð Kirku.
348 Fjórar þjónustumeyjar, sem þjónuðu henni í höllinni,
höfðu á meðan fyrirgang í herbergjunum; þær eru fæddar af
vatnslindum, skógarlundum og helgum fljótum, þeim er fram
renna til sjávar. Ein þeirra lagði fagrar, purpurarauðar glitábreiður
ofan á hásætin, en breiddi líndúka undir. Önnur setti fram
silfurborð fyrir framan hástólana, og lét þar á gullkarfir handa
þeim (boðsmönnum). Hin þriðja blandaði sætt, ljúffengt vín
í silfurskaftkeri, og skenkti á gullskálir. Hin fjórða sótti vatn,
og kveikti mikinn eld undir stórum katli, og hitnaði brátt
vatnið. En er vatnið sauð í hinum skínanda eirkatli, lét hún
mig setjast í laugarker, hellti þar í vatni úr stóra katlinum svo
mátulega var volgt, þóg síðan höfuð mitt og herðar, þar til
hún hafði komið hinum sára lúa úr limum mínum. En er
hún hafði laugað mig og smurt með viðsmjörsviðarfeiti, lét
hún yfir mig fallega yfirhöfn og kyrtil, leiddi mig inn, og lét
mig setjast á silfurnegldan hástól, fallegan og haglega tilbúinn,
og var skör niðri fyrir til að standa á. Hún bað mig taka
til matar, en eg hafði ekki lyst á því, heldur sat eg annars
hugar, og var sem eitthvað illt biti á mig.
375 En er Kirka fann, að eg sat og tók ekki til matarins,
og að megn harmur bjó mér í skapi, þá gekk hún til mín, og
talaði til mín skjótum orðum: „Hví situr þú svo, Odysseifur,
eins og mállaus maður, gremur geð þitt, og neytir hvorki matar
né drykkjar? Þú munt enn vera hræddur um einhver svik, og
þarftu þó ekkert að óttast, er eg hefi dýrt svarið að gera þér
ekkert“.
382 Svo mælti hún, en eg svaraði henni og sagði: „Hverr
réttsýnn maður getur fengið af sér að neyta matar eða drykkjar,
fyrr en hann hefir lausa fengið félaga sína, og séð þá með
eigin augum? Þess vegna, ef þér er alvara að mælast til þess,
að eg eti og drekki, þá taktu mína kæru félaga úr álögunum,
svo eg fái að líta þá augum“.
388 Svo mælti eg, en Kirka gekk út úr höllinni, og hélt
á sprotanum í hendi sér. Hún lauk upp dyrum svínastíunnar
og rak þá út, voru þeir þá líkir níu ára gömlum alisvínum.
Síðan stóðu þeir frammi fyrir henni, gekk hún þá meðal þeirra,
og reið á sérhvern þeirra einhverjum öðrum töfrasmyrslum;
féllu þá utan af þeim svínshárin, er vaxið höfðu við hina fyrri
ólyfjan, er hin volduga Kirka hafði gefið þeim. Urðu þeir nú
brátt að mönnum aftur, og unglegri, en áður, og miklu fríðari
og stærri á velli. Þeir könnuðust við mig og tóku í hönd mér
hverr um sig; kom þá upp hjá þeim saknaðartreginn, svo hátt
tók undir í allri höllinni, og jafnvel sjálf gyðjan kenndi í brjósti
um þá.
400 Hin ágæta gyðja gekk þá til mín og sagði: „Seifborni
Laertesson, ráðagóði Odysseifur, far nú ofan til strandar til
þíns fljóta skips; skuluð þér fyrst setja upp skipið og bera fé
yðvart og allan skipreiða inn í hella, síðan skaltu sjálfur fara
hingað og hafa með þér þína kæru félaga“.
406 Svo mælti hún, en minn hrausti hugur lét að eggjast,
og gekk eg ofan til strandar til hins fljóta skips, og fann mína
kæru förunauta niðri við hið örskreiða skip, báru þeir sig hörmulega
og grétu þrungnum tárum. Þeim fór líkt og sveitakálfum:
þegar kýrnar, sem ganga úti í haga á daginn, koma heim að
fjósinu, saddar af grasi, þá stökkva þeir allir í einu upp móti
kúnum; stíurnar fá þá ekki lengur haldið kálfunum, heldur
hlaupa þeir kringum mæður sínar, og baula hátt. Eins flykktust
félagar mínir kringum mig grátandi, undir eins og þeir litu mig
augum; sýndust þeir vera eins í skapi, eins og væru þeir
heim komnir í föðurland sitt og í átthaga sína á hinni ósléttu
Íþöku, þar sem þeir voru fæddir og uppaldir. Þeir báru sig
sárgrætilega, og töluðu til mín hraðfleygum orðum: „Seifborni
konungur, vér erum svo fegnir orðnir komu þinni, sem værum
vér komnir til Íþöku, fósturjarðar vorrar; en þú gjör nú svo
vel, og seg oss frá óförum lagsmanna vorra“.
422 Svo mæltu þeir, en eg talaði til þeirra blíðum orðum:
„Vér skulum nú fyrst setja upp skipið, og koma fé voru og
öllum farvið inn í hellana; þér skuluð flýta yður, og fylgja
mér svo allir saman, svo þér sjáið lagsmenn yðra í enum helgu
berbergjum Kirku; þeir eta þar og drekka, því þeir hafa alls
nægtir“.
428 Þannig mælti eg, en þeir hlýddu þegar orðum mínum,
nema Evrýlokkus einn, hann vildi aftra öllum félögum mínum:
„Hvert ætlið þér, vesælir menn?“ (kvað hann) „Hví fýsir
yður til þess ófagnaðar, að fara í höll Kirku? Hún mun gera
oss alla að svínum, úlfum eða ljónum, munum vér þá nauðugir
viljugir verða að gista í garði henni. Svo fór, þegar lagsmenn
vorir komu í helli Kýklópsins, og þessi hinn ofdirfskufulli
Odysseifur með þeim; því offrekja hans olli því, að þeir
höfðu þar bana“.
438 Svo mælti hann, en mér flaug þá í hug að bregða því
langeggjaða sverði, er eg hafði við síðu mér, höggva höfuð af
honum og láta það fjúka til jarðar, jafnvel þó hann væri mér
mjög nátengdur; en förunautar mínir öftruðu mér með blíðum
orðum, og lagði sitt til hverr: „Seifborni konungur, látum þenna
mann vera hér eftir við skipið, ef það er þinn vilji, og gæti
hann skips; en þú leiðbein oss til enna helgu híbýla Kirku“.
446 Svo mæltu þeir, og gengu upp frá skipinu og sjónum.
Evrýlokkus fylgdist og með, og vildi ei eftir verða niðri við
hið rúmgóða skip, því hann óttaðist hræðilegar ávítur af mér.
449 Á meðan hafði Kirka með miklum virktum laugað
hina aðra förunauta mína í höllinni, smurt þá með viðsmjörsviðarfeiti,
og lagt yfir þá loðkápur og kyrtla; hittum vér þá
alla sitjandi að dýrri veizlu í höllinni. En er þeir fundust og
urðu alls áskynja, grétu þeir með svo miklum kveinstöfum,
að undir tók í allri höllinni. Hin ágæta gyðja gekk þá til mín
og sagði: „Hreyfið nú ekki lengur þrungnum kveinstöfum. Eg
veit sjálf, bæði hve margar raunir þér hafið í ratað á enu fiskisæla
hafi, og svo hve mikið tjón fjandmenn hafa veitt yður á
landi. Heyrið nú, neytið fæðslu og drekkið vín, þar til þér
hafið aftur fengið slíkan hug í brjóst, sem þér höfðuð, þá er
þér fóruð fyrsta sinn frá hinni ósléttu Íþöku, ættjörð yðvarri.
Nú þar á móti eruð þér örmæddir og hugdaprir, og minnist
ávallt á hinn erfiðlega hrakning yðvarn, og aldrei er yður glatt
í hug, af því þér hafið orðið svo margt að þola“.
466 Svo mælti hún, en vor hrausti hugur lét tilleiðast af
fortölum hennar; sátum vér þar svo alla daga að veizlum í heilt
ár, og höfðum gnógt kjöt og ljúffengt vín.
469 En er árið var liðið og misserum skipti, kölluðu mínir
kæru (förunautar mig á tal, og sögðu: „Minnstu þó loksins, mikli
raunamaður, á föðurland þitt, ef það á fyrir þér að liggja að
komast lífs af heim til þíns háræfraða húss og til ættjarðar
þinnar.
480 En er eg var stiginn á hinn fagra beð Kirku, tók eg
um kné henni og bað hana, og veitti gyðjan áheyrn máli mínu;
hét eg þá á hana, og talaði til hennar skjótum orðum: „Efn
við mig, Kirka, loforð þitt, er þú hézt mér að greiða heimför
mína. Er mér nú þar á hugleikið, og svo förunautum mínum;
gengur mér það nær hjarta, að sjá þá harmandi í kringum
mig, í hvert sinn er þú ert ekki viðstödd“.
487 Svo mælti eg, en hin ágæta gyðja svaraði þegar: „Seifborni
Laertesson, ráðagóði Odysseifur, ekki skuluð þér nú
lengur dvelja nauðugir í húsi mínu. En þó verðið þér fyrst að
fara aðra ferð, og fara til heimkynna Hadesar og hinnar ógurlegu
Persefónu, til að leita fréttar hjá vofu hins blinda spámanns
Tíresíasar hins Þebverska, sem heldur óskertu lífsfjöri sínu,
og þó hann sé dauður, hefir Persefóna veitt honum vitsmuni,
svo að hann er sá eini, sem vit hefir, en allir aðrir ráfa sem
skuggar“.
496 Þannig mælti hún, en hjarta mitt skelfdist; eg settist
upp í sænginni og tók til að gráta, langaði mig þá ekki lengur
til að lifa og sjá ljós sólarinnar. En er eg hafði grátið og velzt um
nægju mína, þá talaði eg til hennar og sagði: „Hverr mun,
Kirka, vísa mér þennan veg? því enginn hefir enn farið á dökkvu
skipi til Hadesarheims“.
503 Svo mælti eg, en hin ágæta gyðja svaraði mér þegar:
„Seifborni Laertesson, ráðagóði Odysseifur, ekki skaltu vera
hugsjúkur um leiðsögumann, þá þú ert til skips kominn; þú
skalt reisa siglutréð, slá út hinum hvítu seglum, og setjast svo
niður; mun þá norðanblástur fleyta skipinu áleiðis. En er þú
ert kominn með skipið yfir Jarðstrauminn, og þangað sem
er lág strönd og lundar Persefónu, hávar aspir og frjólausir
pílar, þá skaltu lenda þar skipinu hjá hinum hyljótta Jarð-*
straumi, og fara sjálfur til Hadesar dimma heimkynnis. Þú
skalt fara þangað sem Pýríflegeton og Kókytus, sem er kvísl
af Stýxvatni, fellur í Akkeron, og á hamarinn, þar sem þessi
tvö niðmiklu fljót renna saman. Þegar þú ert nú kominn,
öðlingur, þangað sem eg nú gat um, þá skaltu grafa gröf,
álnar langa á alla vega; hjá gröfinni skaltu dreypa dreypifórn
öllum draugunum, fyrst hunangsblöndu, þar næst sætu víni,
og í þriðja sinn vatni, og kasta þar út á hvítum bygggrjónum.
Síðan skaltu biðjast fyrir rækilega, og heita á hina máttlausu
drauga, að þú skulir blóta í höll þinni, þá þú komir heim til
Íþöku, geldri kvígu, sem þú átt bezta til, og bera á bálið marga
góða gripi. Þú skalt og heita, að færa Tíresíasi sér í lagi í fórn
alsvartan sauð, sem beztur er í fé yðru. En er þú hefir beðizt
fyrir og heitið á hinn mikla draugasæg, þá skaltu slátra hrút
og svartri á, og snúa þeim mót Myrkheimi, en sjálfur skaltu
snúa þér undan og horfa andspænis móti fljótsstraumnum. Þá
munu þar að koma margar vofur hinna dauðu drauga. En er
það verður, þá skaltu bjóða förunautum þínum, og segja þeim
að flá kindurnar, er liggja þar skornar hörðu eirvopni, brenna
þær til fórnar og heita á guðina, hinn sterka Hades og hina ógurlegu
Persefónu; en sjálfur skaltu bregða hinu bitra sverði, er
þú hefir við síðu þér, og setjast niður, og varna hinum máttlausu
draugum að komast að blóðinu, fyrr en þú hefir leitað
fréttar hjá Tíresías. Þá mun spámaðurinn brátt koma til þín,
þjóðhöfðingi; sá mun geta sagt þér frá ferðalagi þínu og leiðarlengd
og heimför þinni, hversu þú munt aftur komast yfir
hið fiskisæla haf“.
541 Svo mælti hún, og leið ekki á löngu, áður Morgungyðjan
kom, Gullinstóla; færði Kirka mig þá í klæði, yfirhöfn og
kyrtil, en sjálf fór gyðjan í mikla, silfurbjarta skikkju, smágjörva
og fallega, og lagði um sig miðja fagurt gullbelti, og faldaði
sér með höfuðblæju. En eg gekk í gegnum herbergin, hét á
förunauta mína með hógværum orðum, gekk til hvers manns
og sagði: „Nú megið þér ekki lengur liggja og sofa væran
svefn; vér verðum að halda af stað, því hin tignarlega Kirka
hefir nú sagt mér að fara“.
550 Svo mælti eg, og skipuðust þeir vel við orð mín. En
ekki komst eg heldur héðan með félaga mína grandalaust.
Elpenor hét maður, hann var yngstur af fylgjurum mínum,
hann var engi hreystimaður í bardaga og ekki heldur vitsmunamaður
í skapi. Hann hafði lagzt niður drukkinn í hinum
helgu herbergjum Kirku, á öðrum stað en hinir félagar mínir,
af því hann vildi vera þar sem svalt var. En er hann heyrði ysinn
og harkið af skipverjum, þá þeir bjuggust til ferðar, spratt
hann á fætur voveiflega, en gleymdi að ganga ofan aftur hinn
háva stiga, og féll því beint út af þekjunni, og snaraðist úr
hálsliðunum, en önd hans leið niður til Hadesar heims.
561 Á leiðinni tók eg til orða við förunauta mína, og sagði:
„Þér munuð víst ætla, að þér eigið nú að fara heim til yðar
kæra föðurlands; en Kirka hefir ráðið oss aðra för, sem er,
að fara til heimkynna Hadesar og hinnar ógurlegu Persefónu,
til að leita fréttar hjá vofu Tíresíasar hins Þebverska“.
566 Svo mælti eg, en hjarta þeirra varð sundurknosað af
harmi; þeir settust þar niður og reyttu hár sitt, og voru þó
engu nær að heldur fyrir kveinstafi sína.
569 En meðan vér gengum harmandi ofan að sjónum til hins
örskreiða skips, og felldum þrungin tár, þá hafði Kirka gengið
til hins dökkva skips, og bundið þar hrút og svarta á, hafði
hún með hægu móti farið leynilega á svig við oss. Vilji guð
ekki láta sjá sig, hverr mun þá geta séð hann með augunum,
hvort sem hann fer heldur til eða frá?
[1163.png]
[1165.png]
ELLEFTI ÞÁTTUR.
DRAUGABLÓTSÞÁTTUR.
EN er vér komum ofan til skipsins og sjávarins, þá
settum vér fyrst skipið fram á hinn helga sæ, og lögðum
siglutréð og seglin upp í hið svarta skip, tókum
svo féð og létum upp í, stigum því næst sjálfir á skip harmsfullir,
og jusum út þrungnum tárum. Sú fagurlokkaða Kirka,
hin máttuga, mælta gyðja, sendi á eftir voru stafnbláa skipi
góðan förunaut, mjúkan byr seglfylling. En er vér höfðum
hagrætt öllum áhöldum innanborðs, settumst vér fyrir, en vindur
og skipstjórnari réðu stefnunni; stóðu seglin þanin, meðan
skipið fór eftir hafinu allan daginn. Nú rann sól, og skugga
brá yfir alla vegu.
13 Skipið kom þar, sem við tók hinn djúpi Jarðstraumur;
þar er þjóð og byggð Kimmería, þeir eru huldir dimmu og
þoku, og aldrei lítur hinn lýsandi Helíus niður á þá geislum
sínum, hvorki þá hann stígur upp á hinn stirnda himin, né
þá hann hverfir sér af himni aftur ofan til jarðar, heldur
breiðist döpur nótt yfir þessa vesælu menn. Þá vér komum
hingað, lentum vér skipinu, tókum féð upp úr því, og gengum
svo fram með Ókeansstraumi, þar til vér komum í þann stað,
sem Kirka hafði vísað oss á.
23 Þeir Perímedes og Evrýlokkus héldu hér blótfénu, en
eg brá beittu sverði, er eg var gyrður með, og gróf gröf, álnar
langa á hvorn veg. Við gröfina dreypti eg dreypifórn öllum
draugunum, fyrst hunangsblandi, þar næst sætu víni, og í þriðja
sinn vatni, og kastaði þar út á hvítum bygggrjónum. Síðan baðst
eg fyrir rækilega og hét á hina máttlausu drauga, að þá eg
kæmi til Íþöku, skylda eg blóta í höll minni geldri kvígu,
þeirri er eg ætti bezta til, og leggja á bálið marga góða gripi;
og Tíresíasi hét eg að blóta sér í lagi alsvörtum sauð, er beztur
væri í fé voru. En er eg hafði beðizt fyrir og heitið á draugasæginn,
tók eg kindurnar og skar þær á háls ofan í gröfina
svo dökkur dreyrinn rann; flykktust þá að vofur hinna dauðu
drauga neðan úr Myrkheimi: ógefnar meyjar og frumvaxta
sveinar, raunamædd gamalmenni, og ungar stúlkur, hugsárar
af nýfengnum harmi: margir vopnbitnir menn, vegnir með
eirslegnum spjótum, og báru blóðstorkin vopn; þeir komu
flokkum saman úr sinni átt hverr, og flykktust að gröfinni
með geysimiklum gný; greip mig þá bleikur ótti. En er svo
var komið, kvaddi eg til förunauta mína, og bað þá flá kindurnar,
sem lágu þar skornar hörðu eirvopni, brenna þær síðan
til fórnar, og heita á guðina, hinn sterka Hades og hina ógurlegu
Persefónu; en sjálfur brá eg bitru sverði, er eg hafði við
síðu mér, og varnaði hinum máttlausu draugum að komast að
blóðinu, fyrr en eg hefði leitað frétta hjá Tíresíasi.
51 Fyrst kom vofa Elpenors, förunauts míns; hann hafði
enn ekki grafinn verið í hinni víðlendu jörð, því vér skildum
eftir lík hans í húsi Kirku, ógrátið og ójarðað, af því vér
áttum þá annað að starfa. Þegar eg leit hann, grét eg og viknaði,
og mælti eg til hans skjótum orðum: „Hversu komstu niður
í hinn dimma Myrkheim? hvernig stendur á því, að þú varðst
fyrri fótgangandi, en eg á hinu dökkva skipi?“
59 Svo mælti eg, en hann svaraði mér kveinandi: „Seifborni
Laertesson, ráðagóði Odysseifur, ill hamingju forlög og afskapleg
víndrykkja varð mér að meini. Þegar eg var lagztur fyrir
í húsi Kirku, gáði eg ekki að fara aftur ofan hinn langa stiga;
datt eg því beint niður af þakinu og snaraðist úr hálsliðunum,
en öndin leið niður í Hadesarheim. Nú bið eg þig sakir
þeirra, sem þú átt nú á bak að sjá og hér eru ei staddir, sakir
konu þinnar og föður þíns, er ól þig upp á barnsaldri, og
sakir Telemakkuss, er þú eftir skildir einan barna í húsi þínu.
Eg veit, að þegar þú fer héðan frá Undirheimum, þá muntu
halda þínu ramgjörva skipi til Eyjar. Nú bið eg þig, herra, að
þú minnist mín, þá er þú kemur þar; lát mig ei eftir ógrátinn
og ójarðaðan, þá þú fer þaðan, að eg verði þér ekki að goðagremi;
heldur brenn mig við vopnum þeim, er eg á, og verp
haug eftir mig, vesælan mann, á sjávarströndinni, svo verða
megi einnig eftirkomandi mönnum til afspurnar. Veit mér
þetta, og reis upp á haugi mínum ár þá, er eg rera með í lifanda
lífi, þá eg var með sveitungum mínum“.
79 Svo kvað hann, en eg svaraði honum, og sagði: „Þetta
skal eg veita þér, vesæll maður, og efna það“.
81 Meðan við ræddumst þannig við með hryggilegum orðum,
sátum við báðir, eg mín megin með sverðið á lofti yfir
blóðinu, en vofa förunauts míns talaði margt annars vegar.
84 Þá kom að vofa móður minnar, sem dáin var; hún hét
Antíklea, dóttir hins hugstóra Átolýkuss; hún var þá á lífi, er
eg skildi við hana, áður eg fór til ennar helgu Ilíonsborgar.
Þegar eg leit hana, táraðist eg, og varð klökkur í huga. Ei að
síður, þó eg bæri þungan harm, varnaði eg henni að komast
að blóðinu, fyrr en eg hafði leitað frétta hjá Tíresías.
90 Þá kom að vofa Tíresíasar hins Þebverska; hann hélt á
gullnum sprota; hann þekkti mig, og sagði til mín: „Hví ertu,
vesæll maður, einnig hingað kominn, og hefir yfirgefið ljós
sólarinnar, til þess að sjá dauða menn og þenna fagnaðarlausa
stað? Vík frá gröfinni og halt frá hinu bitra sverði, að eg
megi bergja á blóðinu og segja þér sannar spár“.
97 Svo mælti hann, en eg hörfaði frá, og stakk enu silfurneglda
sverði í slíðrir. En er hinn ágæti spámaður hafði drukkið
hinn dökkva dreyra, þá talaði hann til mín þessum orðum:
„Frægi Odysseifur, þú leitar hægrar heimfarar, en guð mun
gera þér hana erfiða; því gáta mín er, að Jarðarskelfir muni
verða þín var, er hann hefir heiftarhug á þér, og er þér reiður,
af því þú blindaðir hans kæra son. En ei að síður munuð þér
enn fá heim komizt, þó þér verðið margar raunir að þola, ef
þú kappkostar að hefta geð þitt og förunauta þinna, undir eins
og þú ert sloppinn frá því dimma hafi, og þú hefir lagt þínu
ramgjörva skipi við Þrínaksey; munuð þér þar hitta á beit
naut og hina feitu sauði Helíusar, þess er allt sér og allt
heyrir. Ef þú lætur fé þetta í friði, og hyggur á heimför þína,
þá munuð þér enn fá heim komizt til Íþöku, þó þér verðið
ýmsum raunum að sæta. En látir þú það ekki í friði, þá spái
eg tjóni skipi þínu og svo förunautum; og þó þú sjálfur kunnir
af að komast, þá muntu þó komast seint heim með illan leik,
og á annarra manna fari, og missa áður af þér alla förunauta
þína. Þú munt fyrir hitta mikinn ófögnuð heima, ofríkisfulla
menn, þá er eyða búi þínu, biðla til þinnar goðumlíku konu,
og færa henni brúðgjafir, og muntu þó hefna yfirgangs þeirra,
þá þú kemur. En er þú hefir banað biðlum þessum í húsi þínu,
annaðhvort með vél, eða opinberlega með bitru eirvopni, þá
skaltu taka handhæfa ár, og gera heiman ferð þína, þar til er
þú kemur til þeirra manna, er ekki þekkja sjó og ekki eta fæðu
salti blandna, kenna hvorki hlýrroðin skip, né handhæfar árar,
sem eru vængir skipanna. Eg skal segja þér eitt merki, sem er
mjög auðkennilegt, og skaltu ekki fara þess duldur. Þegar
annar ferðamaður mætir þér, og segir, að þú reiðir axbroddaspilli
(kornreku) um öxl þér, þá skaltu stinga hinni handhæfu
ár í jörð niður, færa fríðar fórnir hinum volduga Posídon, hrút,
tarf og graðsvín, og halda heim á leið aftur, og efna heilög
hundraðsblót hinum ódauðlegu goðum, er byggja víðan himin,
hverjum eftir tign sinni. Ekki muntu sjódauður verða; mun
þér að hendi koma einhverr hinn hægasti dauði, og muntu
andast í góðri elli, saddur lífdaga, en landsfólkið í kringum þig
mun lifa góðu lífi. Þetta segi eg þér með sannindum“.
138 Svo mælti hann, en eg svaraði honum og sagði: „Tíresías,
sjálfir guðirnir hafa þá víst ákveðið þetta. En seg mér hitt og
inn með sannindum: eg sé hér vofu minnar dánu móður, hún
situr þegjandi hjá blóðinu, og þorir ekki að líta upp á son sinn
eða verpa orði á hann. Seg mér, öðlingur, hversu það megi
verða, að hún kannist við, að eg em son hennar“.
145 Svo mælti eg, en hann svaraði mér þegar: „Auðvelt
mun mér, að segja þér það, og skal eg gera þar grein á. Hverjum
hinna dauðu drauga sem þú leyfir að komast að blóðinu,
þá mun sá segja þér satt; en sá, er þú varnar þess, mun hörfa
á bak aftur fyrir þér“.
150 Þegar vofa öðlingsins Tíresíasar hafði þetta mælt, og
sagt þessa spá, gekk hún inn í Hadesar heimkynni. Eg beið kyrr,
þar sem eg var, þar til móðir mín kom að, og bergði á enum
dökkva dreyra: þekkti hún mig þá undir eins, og talaði grátandi
til mín skjótum orðum: „Hvernig komstu, sonur, niður í
hinn dimma Myrkheim, þar sem þú ert lifandi maður? en hér
er ógurlegt um að litast fyrir lifandi menn. Kemur þú nú fyrst
hingað með skip og menn frá Trójuborg eftir langan hrakning?
Hefir þú ekki enn komið til Íþöku og ekki séð konu,
þína heima hjá þér?“
163 Svo mælti hún, en eg svaraði henni og sagði: „Móðir
mín, mig rak nauður til að fara í Undirheima til að leita frétta
hjá vofu Tíresíasar hins Þebverska; því eg hef enn ekki
komið við Akkealand, og enn ekki fæti stigið á ættjörð vora,
heldur verið ávallt á hrakningi og átt bágt, frá því eg fyrst
fylgdist með hinum ágæta Agamemnoni til ennar hestauðgu
Ilíonsborgar til að berjast við Trójumenn. En seg mér nú, og
inn með sannindum: hver feigðarnorn varð þér að fjörlesti?
var það langvinn sótt? eða banaði þér hin örvumglaða Artemis
voveiflega með sínum þýðu skeytum? Seg mér og frá föður
mínum og syni mínum, sem eg eftir skildi heima, hvort þeir
halda enn tign minni, eða hefir einhverr annar maður tekið
hana, og ætli menn mín ekki framar heim von. Seg mér og
frá fyrirætlun og hyggju eiginkonu minnar, hvort hún er kyr
hjá sveininum, og gætir alls, svo ekkert fari forgörðum, eða
hvort nokkurr af höfðingjum Akkea hefir nú þegar fengið
hennar“.
180 Svo mælti eg, en mín heiðvirða móðir svaraði mér þegar:
„Kona þín er kyr á heimili þínu með næsta miklu þolgæði;
margar raunalegar nætur og dagar líða svo fyrir henni, að hún
er ekki ógrátandi. Engi hefir enn náð þinni veglegu tign, því
Telemakkus situr að konungsjörðunum í friði, og að skammtveizlum
þeim, er hverr höfðingi á uppi að halda; því honum
bjóða allir. Faðir þinn hefst þar við úti á landsbyggðinni, og
kemur ekki til borgarinnar; ekki hefir hann legurúm til að
hvílast í, eða hvíluskikkjur og glæsilegar glitábreiður, heldur
sefur hann á veturna í húsi hjá þrælunum á gólfinu við eldinn,
og er í vondum fötum. En er sumar kemur og hið blómlega
frumhaust, þá er honum búin flatsæng af laufblöðum þeim,
er alla vega liggja dreifð á hinum frjóvsama vínakri; þar liggur
hann harmandi, og eykur stórum á hugarangur sitt með því að
harma yfir forlögum þínum, og svo færist hin þungbæra elli á
hendur honum. Sama varð mér og að fjörlesti; hvorki banaði
mér hin beinskeyta Örvumglöð voveiflega í höllinni með sínum
þýðu skeytum, né heldur tók mig nokkurr sá sjúkleikur,
sem vanur er að firra mann lífi með leiðri kröm, heldur hefir
söknuður eftir þig, frægi Odysseifur, áhyggja þín vegna og
ástúð þín mér til handa svipt mig hinu ljúfa lífi“.
204 Svo mælti hún, en þá datt mér í hug að bera mig að
ná vofu minnar dánu móður; réðst eg þrisvar til, og ætlaði
að handsama hana, en þrisvar skrapp hún úr höndum mér,
lík skugga eða draumi, og gerðist við það harmurinn enn miklu
sárari í hjarta mínu. Talaði eg þá til hennar skjótum orðum,
og sagði: „Hvað kemur til, móðir mín, að þú bíður mín ekki,
þegar eg vil ná þér, svo við getum einnig í Undirheimum umfaðmazt
kærlega og svalað okkur báðum á hinum kalda harmi?
Hvort mun hin göfuga Persefóna hafa sent mér þenna svip,
til þess eg skuli gráta og andvarpa enn meir?“
215 Svo mælti eg, en mín heiðvirða móðir svaraði mér þegar:
„Æ, sonur minn, þú vesælasti allra manna, ekki gabbar Persefóna
þig, dóttir Seifs, heldur er þetta hlutfall dauðlegra manna,
þegar þeir eru dánir; því þá halda sinarnar ekki lengur saman
holdi og beinum; jafnskjótt og lífið er horfið úr hinum bleiku
beinum, eyðir þeim hið sterka afl brennanda elds, en öndin
flýgur á burt og hverfur sem draumur. En keppstu nú sem
skjótast aftur til ljóssins, og settu allt þetta á þig, svo þú getir
sagt konu þinni frá því seinna meir“.
225 Þegar við höfðum þannig ræðzt við, komu konur, sendar
af hinni göfugu Persefónu, það voru eiginkonur og dætur
hinna ágætustu merkismanna. Þær flykktust í einum hnapp
í kringum hinn dökkva dreyra. Eg hugsaði mig þá um, hversu
eg mætti aðspyrja sérhverja, en það sem mér þótti ráðlegast,
var þetta: eg brá hinu langeggjaða sverði, er eg var gyrður
með, og varnaði þeim að bergja öllum í einu á hinum dökkva
dreyra; gengu þær þá hvor eftir annarri, og sagði hver til ættar
sinnar, en eg aðspurði þær allar.
235 Þar sá eg fyrst Týró, hún var af göfugu faðerni, kvaðst
vera dóttir hins göfuga Salmoneifs, og kona Kreteifs Eólussonar.
Hún fékk ást á hinu goðkynjaða fljóti Enípeif, sem er það fegursta
vatnsfall, er um jörðu rennur; varð henni oft gengið með
hinum fögru straumum Enípeifs. En hinn jarðkringjandi Landaskelfir
brá sér í líki fljótsguðsins, og lagðist hjá henni í ósum
hins sveipótta fljóts, og stóð mórauð holgeyfla umhverfis þau,
eins og fjall, og byrgði guðinn og hina dauðlegu konu. En er
guðinn hafði lokið ástaratlotum sínum, tók hann í hönd henni,
tók til orða og sagði: „Gleð þig, kona, af samvistum okkar;
þegar á árið tekur að líða, muntu fæða fríða sonu, því samfarir
við ódauðlega guði verða ei árangurslausar; þú skalt
annast þá og uppfæða. Far nú heim, og lát ei á neinu bera,
en þér að segja, þá er eg Posídon Landaskelfir“. — Þá hann
hafði þetta mælt, stakk hann sér niður í hinn bylgjótta sjó;
en hún, sem orðin var barnshafandi, ól þá Pelías og Neleif,
sem báðir urðu voldugir þjónar hins mikla Seifs, bjó Pelías í
hinni víðlendu Jólkusborg, og var auðugur að sauðfé, en Neleifur
í hinni sendnu Pýlusborg. Við Kreteifi átti drottningin aðra
sonu, Eson og Feres og riddarann Amýþaon“.
260 Þar næst sá eg Antíópu Asópsdóttur, hún kvaðst og
hvílt hafa í faðmlögum Seifs; hún ól tvo sonu, Amfíon og
Setus; þeir lögðu fyrstir grundvöll til hinnar sjöhliðuðu Þebu,
og byggðu þar vígturna, því þó þeir væru kraftamenn miklir, þá
gátu þeir þó ekki búið í hinni víðlendu Þebu turnalausri.
266 Þar næst sá eg Alkmenu, konu Amfítrýons; hún hvíldi
og í faðmi ens mikla Seifs, og átti við honum hinn hugdjarfa,
ljónhugaða Herakles. Þá sá eg Megöru, dóttur hins ofurhugaða
Kreons; hana átti sonur Amfítrýons, sá er aldrei bilaði
hugur.
271 Eg sá og móður Edípusar, hina fríðu Epíköstu; hún
framdi óvitandi þann stórglæp, að hún giftist syni sínum, en
hann vo föður sinn og átti móður sína, og létu guðirnir það
brátt verða heyrumkunnugt. Hann réð yfir Kadmeum í hinni
unaðarsamlegu Þebu við miklar mannraunir sökum hinna
meinsamlegu álaga goðanna; en hún varð yfirbuguð af hugarsorg
þeirri, er á hana stríddi, festi hún langa snöru niður frá
enu háva þvertré, og fór til heimkynnis hins sterka Hadesar,
sem heldur harðlæstum dyrum sínum; eftirskildi hún honum
svo allar þær margvíslegu raunir, er Refsinornir koma til leiðar
í móðurhefndir.
281 Eg sá og hina afbragðsfríðu Klórísi; hennar fékk
Neleifur forðum fyrir fegurðar sakir, og gaf henni áður ótal
brúðgjafa; hún var yngsta dóttir Amfíons Jasussonar, er fyrrum
var ríkur konungur í Orkómenus, Minýjaborg; hún var
drottning í Pýlusborg, og átti við Neleifi fræga sonu, Nestor,
Kromíus og Períklýmenus hinn prúða. Auk þeirra ól hún
kvenskörunginn Peró, er allir menn dáðust að; urðu menn úr
öllum nálægum ríkjum til að biðja hennar, en Neleifur vildi
engum gefa hana, nema þeim, er rændi burt úr Fýlöku hinum
bjúghyrndu, krúnubreiðu nautum Ífikless hins sterka; var
þetta þraut mikil, og hafði engi þor til að ræna burt nautunum,
nema hinn ágæti spámaður,[* Melampus, sjá XV, 225—238.] og hömluðu honum þó guðs
grimmu álög, harðir fjötrar, og nautahirðar á landsbyggðinni.
En er mánuðir og dagar voru liðnir, árið komið í kring og
ný misseri gengu að garði, þá lét Ífikles hinn sterki hann loksins
lausan, af því hann hafði sagt honum margs konar spádóma;
varð fyrirætlan Seifs þá framgeng.
298 Eg sá og Ledu, konu Tyndareifs; hún átti við Tyndareifi
tvo hugsterka sonu, riddarann Kastor og hnefaleikarann Polydevkes.
Hin lífgandi jörð geymir þá lifandi hvorntveggja, hafa
þeir og neðan jarðar þá virðing af Seifi, að þeir eru lifandi
sinn daginn hvorr, en annan daginn dauðir, og njóta þeir jafnrar
virðingar og aðrir guðir.
305 Þar næst sá eg Ifímedíu, konu Alóeifs; hún kvaðst átt
hafa samlag við Posídon. Hún átti tvo sonu, og urðu báðir
skammlífir, hinn goðumlíka Ótus og hinn víðfræga Efíaltes.
Þeir hafa verið manna mestir, þeirra, er hin kornfrjóva jörð
hefur alið, og allra manna vænstir, næst hinum fræga Óríoni;
því þegar þeir voru níu vetra, voru þeir níu álna breiðir, en
á hæð níu faðma. Þeir höfðu drjúg orð um það á Ólympus,
að þeir mundu reisa róstusaman orustugný gegn hinum ódauðlegu
guðum, ætluðu þeir að leggja Ossafjall upp á Ólympus,
en hið laufkvika Pelíonsfjall upp á Ossafjall, svo stíga mætti
þaðan upp á himininn. Og þessu mundu þeir hafa til leiðar
komið, ef þeir hefðu náð þroskaaldri; en sonur Seifs,[** Þ. e. Appollon.] er hin
hárfagra Letó fæddi, drap þá báða, áður en þeim spratt
hýjungur fyri neðan gagnaugu, og þéttvaxin loðna huldi kjálka
þeirra.
321 Eg sá Fedru og Prókrísi, og hina fögru Aríöðnu, dóttur
hins fárhugaða Mínós; hana flutti Þeseifur forðum frá Krítarey
til frjólendis hinnar helgu Aþenuborgar, en varð hennar
þó ekki njótandi, því Artemis banaði henni áður í hinni umflotnu
Díu,[* s. s. Naxey.] sökum vitnisburðar Díonýsuss.
326 Eg sá Meru og Klýmenu, og hina andstyggilegu Erífýlu,
er sveik mann sinn fyrir hið dýra gull. En ekki fæ eg tilgreint
eða nefnt allar þær merkismanna konur eða dætur, er eg sá
þar, því fyrr mundi hin helga nótt verða á enda; enda er
nú mál komið að sofa, og annaðhvort ganga ofan til hins
fljóta skips til förunauta minna, eða vera hér; en guðirnir og
þér munuð annast flutninginn“.
333 Svo mælti hann, en þeir þögðu og höfðu hljótt um
sig, og voru frá sér numdir af unun í hinum dimmu herbergjum.
Hin hvítarmaða Areta tók þá svo til máls: „Feakar,
hversu lízt yður á þenna mann, á vænleik hans og vöxt og
vitsmuni? Hann er gestfélagi minn, og hefir sérhverr yðar
haft sóma af honum. Þess vegna skuluð þér ekki láta hann
fara burtu svo bráðlega, og ekki minnka með því móti gjafir
við hann, er hann er þurfandi; því svo er guðunum fyrir
þakkanda, að þér eigið fyrirliggjandi marga eigulega hluti í herbergjum
yðar“.
342 Þá tók til orða hinn aldraði öðlingur Ekeneus: „Kærir
vinir, sannarlega er það ekki fráleitt, er hin vitra drottning
talar til vor, og ekki öðruvísi en von var af henni, og er yður
bezt að fara að ráðum hennar; en þó er allt undir Alkínóusi
þarna komið, hvað gjört og rætt er“.
347 Alkínóus svaraði honum og sagði: „Þetta, sem nú er
talað, skal svo vera, ef eg lifi og ríki yfir hinum róðrargjörnu
Feökum. En hversu heimfús sem gesturinn er, þá verður hann
þó að láta sér lynda að hafa hér viðdvöl til morguns, þar til
eg hefi komið saman öllum gjöfunum; en allir skulu sameiginlega
annast flutninginn, og einkanlega eg, því eg hefi æðstu
ráð hér í landi“.
354 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði: „Voldugi
Alkínóus, ágætastur allra manna! Þó þér segðuð mér að
dvelja hér árlangt, skylda eg það gjarna gjöra, ef þér legðuð
stund á að búa ferð mína, og gæfuð mér fagrar gjafir, því
bæði yrði það miklu févænlegra, að koma heim til föðurlandsins
með fullar hendur fjár, og líka mundu þá allir menn, er sæju
mig heim kominn til Íþöku, hafa mig í meiri virðingum og
kærleikum eftir en áður“.
362 Alkínóus svaraði honum og sagði: „Ekki lízt oss svo
á þig Odysseifur, að þú munir vera svikari og undirförull maður,
eins og margir menn eru, sem víða finnast dæmi til í
heimi, að menn setja þar saman lygar, sem menn sízt skyldu
eiga von á. Nei, þú ert maður vel máli farinn og hefir góða
vitsmuni. Þér hefir farizt sögulega, eins og öðrum söngmanni,
að segja frá raunum allra Argverja, og svo sjálfs þíns. En seg
mér hitt, og inn með sannindum: sástu nokkura af hinum
goðumlíku sveitungum þínum, er urðu þér samferða til Ilíonsborgar
og hrepptu þar bana? Nú er langnætti mikið, og enn
ei kominn háttatími í höllinni; seg mér því frá einhverjum
ævintýrum. Eg skyldi þreyja við til birtingar, ef þú hefðir
þreyju hér í höllinni, meðan þú segir frá raunum þínum“.
377 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði:
„Voldugi Alkínóus, ágætastur allra manna! Bæði er enn nógur
tími til að segja frá mörgu, og líka nógur svefntími. Langi þig
enn til að hlýða sögu minni, þá mun eg ei undanskorast að
segja þér aðrar sögur, sem enn eru raunalegri, en þessar, um
mannraunir förunauta minna, þeirra er síðar létust; þeir komust
að sönnu lífs úr hinni hryggilegu styrjöld Trójumanna, en
fórust á heimleiðinni, og hlauzt það af hinni illu konu.[* Helenu, sjá 438, bls. 177 (sbr. þó aths. útg. í skýringum).]
385 En er hin hreinlífaða Persefóna hafði tvístrað kvenvofunum
víðsvegar, þá kom að vofa Agamemnons Atreifssonar;
hún var dapurleg, og höfðu safnazt í kring um hann allar
vofur þeirra manna, sem höfðu dáið og bana beðið ásamt með
honum í húsi Egistuss. Hann þekkti mig þegar, er hann hafði
bergt á hinum dökkva dreyra, hljóðaði hann þá hástöfum og
felldi þrungið tár, fórnaði til mín höndunum og vildi seilast
til mín; en það kom fyrir ekki, því nú var ekki lengur hið
sama óbiluga afl og fjör í armleggjum hans, sem áður hafði
verið. Þegar eg leit hann, táraðist eg og kenndi í brjósti um
hann, og talaði til hans skjótum orðum: „Frægasti Atreifsson,
Agamemnon þjóðhöfðingi! Hver feigðarnorn varð þér að fjörlesti?
Hefir Posídon tekið þig af lífi á skipum, með því að æsa
upp fársfullan blástur stríðra vinda? Eða drápu óvinir þig á
landi, þar sem þú varst að ræna nautum og fríðum sauðahjörðum,
eða berjast til að verja borg og konur?“
404 Svo mælti eg, en hann svaraði mér þegar, og sagði:
„Seifborni Laertesson, ráðagóði Odysseifur! Ekki tók Posídon
mig af lífi á skipum, með því að æsa upp fársfullan blástur
stríðra vinda, og ekki drápu mig heldur óvinir á landi; heldur
bjó Egistus og mín fársfulla kona mér bana og feigð, buðu
mér heim og héldu mér veizlu, og drápu mig þar, eins og þá
maður drepur naut á stalli. Þannig dó eg hinum aumlegasta
dauðdaga, en aðrir förunautar mínir voru drepnir í kringum
mig, hverr á fætur öðrum, líkt og hvíttenntum svínum er slátrað
í brúðkaupsveizlu, vinagildi eða ríkmannlegu mannboði
einhvers auðugs stórhöfðingja. Þú hefir verið viðstaddur margs
manns víg, bæði þeirra er drepnir hafa verið í einvígi, og
snarpri fólkorustu, og mundi þér þó einna mest blöskrað
hafa, ef þú hefðir séð oss, þar sem vér lágum í höllinni kringum
skaftkerið og alsett borðin, en allt gólfið flaut í blóði. En
það óp hefi eg heyrt aumkunarlegast, er Kassandra Príamusdóttir
hljóðaði, þegar hin vélráða Klýtemnestra vó hana við
hlið mér; hóf eg þá upp hendur mínar, þar sem eg lá á gólfinu
dauðvona, og ætlaði að grípa utan um sveðjuna. En konuskömmin
gekk í burt, og fékk sér ekki einu sinni geð til að
veita mér nábjargir, og var eg þó að bana kominn. — Þannig
er ekkert grimmara og ósvífnara til, en sú kona, sem fær af
sér að vinna slíkar ódáðir, sem hún vann, þar sem hún réð bana
bónda sínum; hafði eg ætlað, að börn mín og heimilisfólk
mundi verða allshugarfegið heimkomu minni, en hin fagnaðarlausa
kona hlóð svívirðingu bæði á sjálfa sig, og svo á þær
konur, er eftir hana munu koma, enn þótt sumar þeirra kunni
að vera góðar konur“.
435 Svo mælti hann, en eg svaraði honum og sagði: „Mikil
skelfing er að vita til þess, hve ákaflega mikla óhamingju hinn
víttþrumandi Seifur hefir látið ættmönnum Atreifs standa af
kvennaráðum frá upphafi vega þeirra. Af Helenu hlauzt það,
að margir af oss týndust; en Klýtemnestra bjó þér vélræði,
löngu áður en þú varst heim kominn“.
440 Svo mælti eg, en hann svaraði mér þegar og sagði: „Þess
vegna skaltu heldur aldrei vera mjög eftirlátur konu þinni, og
ekki segja henni frá öllu sem þú veizt; sumt máttu segja henni,
en sumt verður að fara leynt. En ekki munu þér banaráð
standa af konu þinni, Odysseifur; hin vitra Penelópa Íkaríusdóttir
er skynsamari og góðráðari en svo. Hún var þá rétt
nýgift, er vér skildum við hana, þá vér fórum í leiðangurinn;
hafði hún þá ungan svein á brjósti, sem nú mun samsæti eiga
með öðrum fulltíða mönnum. Sæll er hann, því faðir hans
mun víst sjá hann, þegar hann kemur, og hann mun fagna
föður sínum, sem siður er til; en mín kona unni mér ekki
einusinni þeirrar ánægju, að líta son minn augum, því hún
drap mig áður. En eitt ætla eg að segja þér, sem þú skalt festa
þér í huga: haltu skipi þínu leynilega til föðurlands þíns, en
ekki á allra manna viti, því nú er ekki konum að trúa framar.
En seg mér satt frá því, hvort þér hafið nokkura spurn haft
af syni mínum, að hann sé á lífi, annaðhvort í Orkómenus eða
hinni sendnu Pýlusborg, eða þá í hinni víðlendu Spörtu hjá
Menelási; því ekki er hinn ágæti Órestes enn á jörðu dáinn“.
462 Svo mælti hann, en eg svaraði honum og sagði: „Hví
spyr þú mig þessa, Atreifsson? Eg veit ekki, hvort hann er
lífs eða liðinn, og sæmir ekki að fara með hégómamál“.
465 Þannig skiptumst við báðir hryggum orðum við, stóðum
harmandi og felldum þrungið tár.
467 Þá kom að vofa Akkilless Peleifssonar, Patrókluss og
hins ágæta Antílokkuss, og Ajants, sem var hinn fríðasti maður
sýnum og gjörvilegastur allra Danáa, næst hinum ágæta Peleifssyni.
Vofa hins fóthvata Eaksniðja þekkti mig, og talaði grátvolandi
til mín skjótum orðum: „Seifborni Laertesson, ráðagóði
Odysseifur! Hví hefir þér í hug komið, ófyrilátsami maður,
að vinna enn meira stórvirki? Hví hefir þú árætt að fara niður
í Hadesar heim, þar er búa ómegnir draugar, svipir fjörlausra
manna?“
477 Svo mælti hann, en eg svaraði honum og sagði: „Akkilles
Peleifsson, mesti hreystimaður allra Akkea! Eg kom hingað,
af því eg þurfti að finna Tíresías, til að vita hvort hann
gæti lagt mér nokkurt ráð til að komast til ennar grýttu
Íþöku; því ekki hefi eg enn komið við Akkealand, og enn ekki
fæti stigið á ættjörð vora, heldur ávallt átt bágt. Þar á móti er
engi maður, hvorki fyrr, né síðar, jafn fullsæll og þú, Akkilles;
því í lifanda lífi virtum vér þig Argverjar jafnt einhverjum
guðanna, en nú hefir þú hér mikið vald yfir draugunum; er
því óþarfi fyrir þig, Akkilles, að una því illa, þó þú hefir dáið“.
487 Svo mælti eg, en hann svaraði mér þegar og sagði:
„Gerðu það fyrir mig, frægi Odysseifur, nefndu ekki dauðann
við mig. Heldur mundi eg kjósa að lifa í sveit, og vera kaupamaður
hjá einhverjum fátæklingi, sem ekki hefði stórt fyrir
sig að leggja, en að ráða yfir öllum dauðu draugunum. En gjör
svo vel og seg mér nokkuð af mínum göfuga syni, hvort hann
fór í leiðangurinn, til að vera þar liðsoddur, eða ekki. Seg mér
og, hvað þú hefir spurt um hinn ágæta Peleif, hvort hann heldur
enn virðingu sinni meðal alþýðu Myrmidóna, eða menn
óvirða hann á Hellu og í Fiðju, sökum þess að hann sé orðinn
ellihrumur. Því nú er eg ekki í sólarljóssheimi til að vera
aðstoðarmaður hans, og ekki líkur því, sem eg var forðum, þá
eg hélt vörn uppi fyrir Argverja, og drap niður hið hraustasta
lið í enu víða Trójulandi. En væri eg eins nú, og kæmi, þó ekki
væri nema um stundar sakir, í hús föður míns, þá skyldi eg
láta einhverjum þeim, sem nú veitir honum yfirgang og hnekkir
virðingu hans, standa ógn af afli mínu og mínum óárennilegu
höndum“.
504 Svo mælti hann, en eg svaraði honum og sagði: „Af
hinum ágæta Peleifi hefi eg enga spurn haft, en um þinn kæra
son Neoptólemus skal eg segja þér allt hið sanna, eins og þú
mælist til, því eg flutti hann sjálfur á stóru, jafnbyrðu skipi
frá Skýrey til hinna fagurbrynhosuðu Akkea. Í hvert sinn sem
vér áttum ráðstefnu hjá Trójuborg, talaði hann allajafna fyrstur,
og skeikaði ekki frá umtalsefni sínu; vorum við hinn goðumlíki
Nestor og eg, þeir einu, sem bárum af honum. En
þegar vér börðumst með vopnum á Trójuvelli, þá var hann
aldrei kyrr, þar sem mannþyrping eða flokkur var, heldur
hljóp hann langt fram fyrir aðra, og var þá engi ákafari en
hann; drap hann margan mann í hinum grimma bardaga, og
fæ eg eigi allra getið, eða nafngreint alla þá, er hann drap, þá
hann hélt uppi vörn fyrir Argverja. En þó vil eg geta þess,
er hann vo með eirvopni kappann Evrýpýlus Telefusson, og
féllu þar með honum margir af Keteum, félögum hans, hlauzt
það af gjöfum, þeim, er konu[* eða móður. Evrýpýlus var systurson Príamuss; (sjá aths. í skýringum).] hans höfðu gefnar verið; þann
sá eg fríðastan mann, næst hinum ágæta Memnoni. En er vér
höfðingjar Argverja stigum niður í hest þann, er Epeus[** sjá VIII, 493.] hafði
smíðað, og mér hafði verið falin á hendur umsjón yfir öllu,
þá þerruðu aðrir fyrirliðar og höfðingjar Danáa tár af sér og
skulfu á beinum; en aldrei gat eg séð, að hans fríði hörundslitur
bliknaði, eða að hann stryki tár af kinnum sér. Oftar en einusinni
bað hann mig að lofa sér út úr hestinum, þreif meðalkafla
sverðsins og hið eirslegna spjót, og hafði þungan hug
til Trójumanna. En er vér höfðum lagt í eyði hina hávu Príamusborg,
fór hann með gott hlutskipti og sæmilega heiðursgjöf til
skips síns, hafði hann ekkert sár fengið, hvorki skot af bitru
eirvopni, né lag í höggorustu; og er slíkt þó alltítt í bardögum,
því þar ólmast Ares án þess að gera sér mannamun“.
538 Svo mælti eg, en vofa hins fóthvata Eaksniðja gekk
burt og skálmaði stórum á Gullrótarenginu; lá vel á henni, af
því eg hafði sagt, að sonur hennar væri afbragð annarra manna.
541 Aðrar vofur hinna dauðu drauga stóðu harmsfullar, og
tjáði hver raunir sínar; en vofa Ajants Telamonssonar stóð ein
sér langt frá öðrum; hún var reið af sigri þeim, er eg hafði
unnið, þá við deildum báðir hjá skipunum um vopn Akkilless,
er hin heiðvirða móðir hans[* Þetis, móðir Akkillesar.] hafði lagt fram. Eg vildi óska,
að eg hefði ekki haft sigur í slíkum leik! Því af vopnunum
hlauzt það, að jörðin tók við slíkum manni, sem Ajant var,
fríðastur maður sýnum og mestur afreksmaður allra Danáa,
næst hinum ágæta Peleifssyni. Eg talaði nú til hans blíðlega
og sagði: „Ajant, sonur hins ágæta Telamóns! Það átti þá svo
að fara, að þú jafnvel ekki eftir dauðann skyldir gleyma reiði
þinni við mig út af hinum óhamingjusamlegu vopnum! Guðirnir
hafa látið þau verða Argverjum til tjóns, þar sem þú
lézt, slíkur vígturn sem þú varst þeim; og hörmum vér Akkear
alltaf dauða þinn, jafnt og lát Akkilless Peleifssonar. En þar
er engum um að kenna öðrum en Seifi, sem hatað hefir ákaflega
herlið enna herkænu Danáa, og látið því skapadægrið
þér að hendi bera. Gakk nú hingað, konungur, að hlýða á orð
mín og viðræðu, og heft ákafa þinn og þitt ríka geð“.
563 Svo mælti eg, en hann svaraði mér engu, og gekk inn
í Myrkheim, þar sem voru hinar aðrar vofur enna dauðu drauga.
Hann hefði samt talað til mín, enn þótt hann væri reiður, eða
þá eg til hans, ef mig hefði ekki langað svo mjög til að sjá
hinar aðrar dauðra manna vofur.
568 Þá sá eg Mínós, Seifs veglega son; hann sat, og hélt
á gullnum sprota, og dæmdi mál drauganna, en draugarnir voru
í kring um konunginn og sögðu fram sakir sínar, sátu sumir,
en sumir stóðu í hinni víðhliðuðu höll Hadesar.
572 Þar næst gat eg að líta hinn afarstóra Óríon; hann rak
saman á Gullrótarenginu dýr þau, er hann hafði sjálfur
drepið uppi á eyðifjöllum; hann hafði eirkylfu í hendi, sem
aldrei brotnaði.
576 Eg sá og Titýus, son ennar víðfrægu Jarðar; hann lá á
jörðinni, og náði yfir níu stakksvelli, þar sem hann lá. Tveir
gammar sátu til hvorrar handar honum, þeir grófu sig inn í
netjuna og hjuggu lifur hans, gat hann ei varizt þeim með
höndunum. Hann hafði viljað nauðga Letó, hinni veglegu
hjákonu Seifs, þá hún gekk til Pýþóar og fór um hina landfögru
Panópu.
582 Eg sá og Tantalus, hann þoldi harðar raunir; hann stóð
í tjörn nokkurri, og tók vatnið honum í höku. Þesslega lét
hann, sem hann mundi þyrstur vera, en gat þó engu náð handa
sér að drekka; því í hvert sinn sem hinn gamli maður laut
niður og vildi drekka, sogaðist vatnið niður aftur og hvarf, en
fyrir fótum hans sást í svarta moldina, því einhver óhamingja
þurrkaði jafnótt vatnið upp. Uppi yfir höfði hans héngu ávextir
niður af hálaufguðum trjám, voru það perutré, kjarneplatré
og apaldrar með fögru aldini, sæt fíkjutré og blómlegur viðsmjörsviður;
en er hinn aldraði maður seildist eftir ávöxtunum,
svipaði vindurinn þeim upp að hinum dimmu skýjum.
593 Eg sá og Sisýfus, hann átti við rammar raunir að stríða:
hann var að roga við geysistóran stein með báðum höndum;
hann streittist við með knúum og knjám, og velti steininum
upp eftir einum hól; en í hvert sinn sem hann ætlaði að koma
honum upp á brúnina, spennti þunginn hann niður á við aftur,
og valt þá hinn ofsalegi steinn ofan á jafnsléttu. Þá tók hann
aftur til að velta honum, og herti sig af öllu afli, svitinn bogaði
af honum öllum, og rykmokkinn lagði upp yfir höfuð hans.
601 Þar næst gat eg að líta hinn sterka Herakles; það var
svipur hans, því sjálfur gamnar hann sér að veizlum hjá enum
ódauðlegu goðum, og á hina öklafríðu Hebu. Kliður mikill
var í draugunum í kring um hann, eins og í fuglum, og þutu
þeir skelkaðir í allar áttir; en hann var líkur dimmri nótt,
hélt á berum boga, og hafði ör á streng; hann skyggndist um
voðalega, og var sem hann þá og þá mundi hleypa af boganum.
Um brjóst hans lá óttalegur fetill, það band var úr gulli, var
þar á markað með listilegum hagleik birnir, villigeltir og glaseyg
ljón, orustur, bardagar, víg og manndráp. Sá sem þann fetil
hafði tilbúið, og varið þar til íþrótt sinni, mundi ekki hafa
getað tilbúið aðra jafnágæta gersemi. Herakles kenndi mig
þegar, er hann leit mig augum, og talaði grátandi til mín skjótum
orðum: „Seifborni Laertesson, ráðagóði Odysseifur! Víst
munt þú, vesæll maður, einnig eiga við andstreymi að etja,
eins og eg átti í sólarljóss heimi. Eg var sonur Seifs Kronussonar,
og þó varð mér aldrei milli angurs og ama, því eg varð
háður mér miklu minna manni, er lagði fyrir mig þungar
þrautir; og eitt sinn sendi hann mig hingað til að sækja hundinn,
því hann hélt, að engi þraut mundi verða mér erfiðari,
en sú. En eg fór upp með hundinn og hafði hann með mér
frá Undirheimum, og fylgdi Hermes mér og hin glóeyga
Aþena“.
627 Að því mæltu gekk hann aftur inn í Hadesar höll. En
eg beið kyrr, þar sem eg var, og vildi vita, hvort ekki kæmu
einhverjir fleiri kappar, þeir er látizt höfðu í forneskju. Og
nú mundi eg séð hafa enn fleiri af þeim fornmönnum, sem mig
langaði til að sjá, ef ótölulegur grúi af draugum hefði ei áður
saman þyrpzt með geysimiklum gný. Tók mig þá bleikur
ótti, því eg var hræddur um, að hin göfuga Persefóna mundi
senda mér frá Undirheimi höfuð Gorgóar, hinnar hræðilegu
óvættar. Gekk eg þá þegar til skips, og bað förunauta mína
fara upp í og slá skutfestum; fóru þeir þá þegar upp í, og
settust á þófturnar, bar þá straumaldan skipið fram eftir Jarðarstraumnum,
var fyrst róðrarleiði, en síðan fagur byr.
[1183.png]
[1185.png]
TÓLFTI ÞÁTTUR.
FRÁ SÍRENUM, SKYLLU, KARYBDÍS
OG NAUTUM HELÍUSAR.
EN er skipið bar úr hinum rennanda Jarðarstraumi,
kom það inn á bylgjur hins víða hafs, og til Eyjar,
þangað sem eru híbýli og leikvellir hinnar árrisulu
Morgungyðju og uppgöngur Helíusar. Þegar vér komum þar,
lentum vér skipinu við sandinn og stigum á land í fjörunni;
og þá vér höfðum sofið hér út, biðum vér lýsingar.
8 En er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í ljós,
þá sendi eg menn til híbýla Kirku, að sækja lík hins dána
Elpenors. Hjuggum vér þá í skyndi eikarstofna fremst á útskaga
nokkurum, brenndum líkið harmandi og felldum þrungið tár.
En er nárinn var brunninn og vopn hins dauða, urpum vér
haug og reistum bautastein á uppi, og rákum niður handhæfa
ár efst á haugnum; unnum vér að því verki, þar til lokið var.
16 Kirka varð þess brátt vísari, að vér vorum komnir frá
Undirheimum; bjó hún sig skjótt, og fór til fundar við oss.
Þernur hennar komu með henni, og báru brauð og gnógt kjöt
og skært, rauðleitt vín. Hin veglega gyðja gekk fram meðal
þeirra, og tók til orða: „Þér eruð ofurhugar miklir, er þér hafið
kvikir farið niður í Hadesarheim, og eruð tvisvar dánir, þar
sem aðrir menn deyja ei nema um sinn. Heilir svo, takið nú
fæðslu og drekkið hér vín daglangt, en þegar á morgun, er
lýsir af degi, skuluð þér sigla, mun eg þá segja yður til leiðar
og gera yður hvað eina kunnugt, að þér bíðið eigi tjón af
skaðsamlegri heimsku yður til hugraunar, hvorki á sjó, né
landi“.
28 Svo mælti hún, en vér létum tilleiðast af fortölum hennar,
sátum þar að veizlu, allan þann dag til sólseturs, og höfðum
gnógt kjöt og ljúffengt vín. En er sól var runnin og rökkur
á komið, lögðust skipverjar til svefns við skutfestar skipsins;
en gyðjan tók í hönd mér, og leiddi mig afsíðis frá félögum
mínum, og bað mig setjast niður, settist hún þá hjá mér og
spurði mig tíðinda, en eg innti henni allt, sem farið hafði.
Hin tignarlega Kirka talaði þá til mín þessum orðum: „Þannig
eru þá allar þessar þrautir unnar. Hygg nú að því, sem eg segi
þér; mun og guð sjálfur minna þig þar á. Fyrst muntu koma
til Sírena, er seiða alla menn, ef nokkurr kemur nærri þeim. Ef
nokkurr nálgast Sírenur óvörum og heyrir rödd þeirra, þá
mun ekki kona hans koma á fund hans, né ungbörn hans verða
fegin heimkomu hans; því Sírenur sitja á engi nokkuru, og
seiða menn með snjöllum söng; þar er hjá þeim stór hrúga
af beinum þeirra manna, er fúna þar og þorna upp í skinni.
Þú skalt róa langt út frá þeim; þú skalt taka hunangsætt vax,
og hnoða, og drepa því í eyru förunauta þinna, svo engi þeirra
heyri. En langi þig sjálfan til að heyra, þá skulu þeir binda
þig á því fljóta skipi á höndum og fótum uppréttan við siglufótinn,
og festa reipsendana við siglutréð; getur þú svo með
því móti haft þá skemmtun, að heyra rödd beggja Sírena. En
ef þú biður félaga þína, og mælist til, að þeir leysi þig, þá skulu
þeir binda þig með enn fleiri böndum.
55 En er menn þínir eru rónir framhjá þeim, þá eru til tvær
leiðir, og mun eg ekki úr því glöggt ákveða, hvora leiðina þú
skalt halda, skaltu ráða það með sjálfum þér; en lýsa mun
eg fyrir þér hvorri tveggju leiðinni. Annars vegar eru framslútandi
björg, og drynja þar við ólög hinnar dimmleitu Amfitrítu.
Það kalla hinir sælu guðir Villihamra. Þar kemst ekki framhjá
fuglinn fljúgandi, og ekki einu sinni þær styggu dúfur, er færa
föður Seifi ódáinsfæðuna, því hinn eggslétti hamar þrífur ávallt
einhverja af þeim burt, en faðir Seifur sendir aðra í skarðið,
til að fylla töluna. Þar hefir enn ekkert skip klaklaust afkomizt,
sem þar fer um, því haföldur og hættulegar eldstrokur sópa með
sér jafnt skipsflökum og mannabúkum. Eitt hafskip er það,
sem þar hefir um siglt; það var hin þjóðkunna Argó, er kom
siglandi frá Eetes, og mundi þó brimið skjótt hafa rekið hana
þar upp að hinum stóru hömrum, ef Hera, sem var vinveitt
Jasoni, hefði ekki greitt för hennar þar fram hjá.
73 Hins vegar eru tveir drangar, gnæfir annar þeirra upp
í víðan himin með hvössum tindi, sem hulinn er dimmu skýi;
líður það aldrei burt, svo að aldrei er heiðríkt loft á drangstindinum,
hvorki sumar né frumhaust. Engi mennskur maður
mundi komast þar upp eða ofan, þótt hann hefði tuttugu
hendur og fætur, því hamarinn er sléttur, og líkur því sem væri
hann meitlaður. Í miðjum dranginum, gegnt næturheimi
(vestri), er dimmur hellir, sem horfir til Myrkheims.[* Þ.e. liggur í jörð niður.] Þar
skuluð þér, frægi Odysseifur, stýra framhjá yðar rúmgóða skipi.
Ekki mun röskur maður fá skotið ör af boga af hinu rúmgóða
skipi og upp í hinn víða helli. Hér býr Skylla inni og ýlir hræðilega,
er rödd hennar lík ýlfri í nýgotnum hvolpi, en sjálf er
hún hryllileg ófreskja, svo að engum mundi þykja skemmtilegt
að sjá hana, og jafnvel ekki einhverjum guðanna, ef hann
kæmi í augsýn henni. Hún hefir ekki færri en tólf ólögulegar
lappir og sex afarlanga hálsa, en á hverjum hálsi er ógurlegur
haus, og í margar og þéttar tennur þrísettar, fullar dimmum
dauða. Hún hefir sökkt sér til miðs niður í hinn víða helli,
en teygir út hausana fram úr hinni voðalegu gjá. Hún skyggnist
áfergjulega í kring um dranginn, og veiðir höfrunga og
hákarla og stundum stærri fiska, af hverjum hin háttymjandi
Amfitríta elur ótölulega mergð. Aldrei eiga sjófarendur því
að hrósa, að þeir hafi heilu og höldnu komizt þar um með skip
sitt, því hún þrífur sinn mann með hverjum haus, og sviptir
þeim út úr hinu stafnbláa skipi.
101 Hinn drangurinn, Odysseifur, er lægri, eins og þú munt
sjá, og svo nærri, að skjóta má öru frá öðrum drang til annars.
Á þessum drang er stórt villufíkjutré allaufgað, en undir trénu
er hin ógurlega Karybdís, og sogar í sig hið dökkva vatn;
þrisvar á dægri sendir hún vatnið í loft upp, og þrisvar sogar
hún það í sig aftur með mikilli ógn; væri betur, að þig bæri
þar ekki að þann tíma, er hún sogar í sig sæinn, því jafnvel
Jarðarskelfir mundi þá ekki fá forðað þér við fjörtjóni. Kosta
heldur kapps um, þá þú ert kominn nálægt Skylludrang, að
róa skipinu sem skjótast út um; því miklu er betra, að missa
einna sex manna af skipi sínu, en allra saman“.
111 Svo mælti hún, en eg svaraði henni og sagði: „Gjör
nú svo vel, gyðja, og seg mér með sanni, hvort eg muni með
nokkuru móti fá undan komizt hinni skaðvænlegu Karybdísi,
en varizt hinni, ef hún vill ræna mig mönnum mínum?“
115 Svo mælti eg, en hin veglega gyðja svaraði þegar: „Ofurhugi
ertu, og enn stendur hugur þinn til hervirkja og stórvirkja;
ætlarðu þér ekki einu sinni að láta undan hinum ódauðlegu?
Því það skaltu vita, að hún er ekki dauðleg, heldur
ódauðlegur óvættur, voðalegur, illur viðfangs og grimmur, og
verður ekki í vígi unnin, og engri vörn má við hana koma.
Bezt er að flýja frá henni; því ef þú dvelst hjá drangnum og
býst til varnar, er eg hrædd um, að hún ráðist að þér aftur
með öllum hausunum, nái til þín, og hremmi sinn mann með
hverjum haus. Ró þú heldur ákaflega mjög, og ákalla Krateísi,
móður Skyllu, er ól þenna mannskæða meinvætt; mun hún þá
letja hana að seilast eftir þér oftar.
127 Þú munt koma til Þrínakseyjar; þar ganga mörg naut
og vænir sauðir, sem Helíus á, það eru sjö hjarðir uxa og jafnmargar
hjarðir fríðra sauða, og eru fimmtíu í hverri hjörð:
þessar hjarðir æxlast ekki, og eyðast þó aldrei. Þeirra gæta
tvær hárfagrar skógargyðjur, Faetúsa og Lampetía, er hin ágæta
Neera átti við Helíus Hýperíonssyni; og sem hin heiðvirða
móðir hafði alið þær og uppfætt, fékk hún þeim byggð fjærri
sér, og lét þær fara til Þrínakseyjar til að gæta sauða og bjúghyrndra
nauta, er faðir þeirra átti. Ef þú lætur fé þetta í friði,
og hyggur á heimför þína, þá munuð þér enn fá komizt til
Íþöku, þó þér verðið ýmsum raunum að sæta. En látir þú það
ekki í friði, þá spái eg tjóni skipi þínu og svo förunautum; og
þó þú sjálfur kunnir af að komast, þá muntu þó komast seint
heim með illan leik, og missa áður af þér alla förunauta þína“.
142 Þannig mælti hún, en brátt kom Morgungyðjan Gullinstóla;
gekk þá hin veglega gyðja upp á eyna, en eg fór til skips,
og kvaddi til menn mína að stíga á skip og slá skutfestum;
gengu þeir þegar á skip og settust á þófturnar. En hin fagurlokkaða
Kirka, sú hin máttuga, mælta gyðja, sendi á eftir voru
stafnbláa skipi góðan förunaut, mjúkan byr seglfylling. En er
vér höfðum hagrætt öllum áhöldum innanborðs, settumst vér
fyrir, en vindur og skipstjórnari réðu stefnunni. Þá mælti eg
harmþrunginn til förunauta minna: „Kærir vinir, ekki hæfir,
að einn eða tveir einir menn viti það, sem Kirka, hin ágæta
gyðja, sagði mér, að fyrir oss lægi. Eg skal láta yður vita af
því, svo það komi ekki óvart á oss, hvort sem vér bíðum bana,
eða oss verður auðið af að komast og umflýja dauða og feigð.
Hún bað mig fyrst forðast söng Sírena og hið blómvaxna engi.
Hún kvað mig einan heyra mega rödd þeirra; en þér skuluð
binda mig með sterku bandi uppréttan við siglufótinn, svo eg
sé þar grafkyrr, og festa reipsendana við siglutréð; og ef eg
bið yður, og mælist til, að þér leysið mig, þá skuluð þér binda
mig með enn fleiri böndum“.
165 Meðan eg var að tjá og telja hvað eina fyrir förunautum
mínum, þá bar hið traustsmíðaða skip skjótlega að ey beggja
Sírena, því hægur byr var á eftir. Þá tók snögglega af allan
byr, og gerði blæjalogn, því einhverr guð hafði svæft bárurnar;
stóðu menn þá upp, tóku saman seglin og lögðu niður í skipið,
settust síðan við árar, og létu sjóinn hvítna fyrir enum tegldu
furuárum. Þá tók eg stóra vaxköku og skar í smátt með beittu
eirsaxi, og hnoðaði milli minna sterku handa, blotnaði vaxið
skjótt, því mitt mikla afl og skin hins máttuga Helíuss Hýperíonssonar
knúði það. Síðan drap eg því í eyru á öllum skipverjum,
en þeir bundu mig innanborðs á höndum og fótum
uppréttan við siglufótinn, og festu reipsendana við siglutréð,
settust síðan niður og lustu árum hinn gráa sæ. Nú vorum
vér komnir svo nærri, að mál mátti nema, því vér rérum
hart; þá urðu þær varar við, að hið örskreiða skip renndi
þar hjá, og hófu upp snjallan söng: „Kom hingað, lofsæli
Odysseifur, prýðimaður Akkea! Legg hér að skipi þínu, svo
þú megir heyra sönghljóð okkar beggja; því enn hefir engi
farið hér svo framhjá á skipi, að hann hafi ekki fyrst hlýtt á
hina sætthljómandi rödd af munnum vorum, enda fer sá svo á
burt, að hann hefir skemmt sér og er margs fróðari. Því vér
vitum allar þær þrautir, er Argverjar og Trójumenn áttu í
hinu víða Trójulandi eftir ráðstöfun guðanna; vér vitum og
allt hvað viðber á hinni margfrjóvu jörð“.
192 Svo mæltu þær, og létu til sín heyra fagra rödd; langaði
hjarta mitt þá til að hlýða á, og bandaði eg förunautum mínum
með augnabrúnunum, og bað þá leysa mig, en þeir lutu áfram
og reru; en Perímedes og Evrýlokkus stóðu þegar upp, og bundu
mig enn fleiri böndum og reyrðu mig fastara.
[1191.png: Odysseifur og Sírenurnar.]
197 En er þeir voru komnir fram hjá Sírenum, og vér ekki
heyrðum lengur róm þeirra eða söng, þá tóku mínir kæru
félagar burt vaxið, er eg hafði drepið í eyru þeim, og leystu
mig aftur úr böndunum. En þegar vér vorum komnir frá eynni,
sá eg bráðlega reykinn og stórsjóinn, og heyrði brimhljóðið;[* nl. við Villihamra, sjá v. 59—61.]
urðu menn þá svo hræddir, að árarnar féllu úr höndum þeim,
og skullu allar niður í strauminn, en skipið stóð kyrrt í stað,
þegar það missti róðursins. Eg gekk þá eftir skipinu, fór til
hvers manns, og upphvatti menn mína með blíðum orðum:
„Kærir vinir, enn þá höfum vér ekki varhluta farið af ýmsum
mannraunum. Þessi þraut, sem nú er fyrir hendi, er ekki stærri,
en sú, er risinn byrgði oss með sterku afli inni í hinum víða
helli, og komumst vér þó þaðan fyrir hreysti mína, ráðkænsku
og hugvit; vonar mig, að yður muni það ekki úr minni líða.
Nú skulum vér allir fara að, eins og eg segi fyrir. Þér skuluð
sitja á þóftunum, halda um árarhlummana, og lemja hina hávu
brimöldu, ef svo mælti verða, að Seifur léti oss auðnast að
komast úr þessum lífsháska. En það segi eg þér, stýrimaður,
og það skaltu hugfesta, með því þú hefur vald á stjórnveli hins
rúmgóða skips: þú skalt halda skipinu fyrir utan þenna reyk
og þessa boða, en stefna alltaf á dranginn, svo skipið beri ekki
undan á hinn bóginn, fyrr en þig varir, og þú stýrir oss svo í
voða“.
222 Svo mælti eg, en þeir hlýddu þegar orðum mínum. En
eg gat ekki framar um Skyllu, þenna hinn óviðráðanlega
meinvætt, svo félagar mínir skyldu ei æðrast, hætta róðri og
hneppa sig niður í skip. Þá var það, að eg gleymdi hinum ógeðfellda
boðskap Kirku, er hún bannaði mér að herklæðast. Eg
fór í mín ágætu vopn, tók í hönd mér tvö löng spjót, og gekk
upp á framþiljur skipsins, því eg bjóst við, að þaðan mundi
fyrst sjást til Skyllu, bjargbúunnar, sem gerði mein förunautum
mínum. En eg gat hvergi komið augum á hana, og horfði eg
þó svo lengi alls staðar um hinn dimma drang, að augu mín
voru orðin þreytt.
234 Vér lögðum nú fram í sundið, og vorum kvíðafullir:
því annars vegar var Skylla, en til annarrar handar sogaði hin
ógurlega Karybdís í sig hið salta sjóarvatn með mikilli ógn. Í
hvert sinn sem hún gaus, vall hún öll og hveraði, eins og ketill
yfir sterkum eldi, en löðrið fauk í loft upp, og lenti hæst uppi
á hvorumtveggja dranginum. En er hún svalg í sig aftur hið
salta sjóarvatn, þá sást, hversu hún hveraði öll innan, drundi
hún hræðilega niðri í gjánni, en undir niðri sást í jörðina og
svartan sandinn; urðu menn nú bleikir af ótta. En á meðan
vér höfðum augun á henni og óttuðumst bana vorn, þá þreif
Skylla sex þá handsterkustu og kraftamestu af förunautum
mínum út úr hinu rúmgóða skipi; og þegar eg leit aftur í
skipið til félaga minna, hafði eg veður af fótum þeirra og höndum,
í því þeir hófust á loft. Þeir hljóðuðu angistarfullir, og
kölluðu á mig með nafni; það var þá í síðasta sinni. Eins og
fiskimaður, sem stendur á klapparnefi, kastar út beitu á langri
dorgstöng til agns fyrir smáfiska, hleypir forsendu niður í sjóinn,
og varpar fiski þeim, er hann nær, spriklandi á land upp:
eins hófust menn mínir spriklandi upp að hömrunum, en hún
át þá þar í hellisdyrunum; þeir hljóðuðu á meðan og fórnuðu
til mín höndunum í þeim grimmu aðförum. Þetta var hin
aumkunarlegasta sjón af öllu því, sem fyrir augu mín bar í þeim
margvíslegu raunum, er eg rataði í, þá eg kannaði hafleiðirnar.
260 En er vér vorum sloppnir hjá hömrunum og hinni voðalegu
Karybdís og Skyllu, þá komum vér til hinnar ágætu eyjar
Sólarguðsins; þar voru falleg, krúnubreið naut og margir feitir
sauðir, er Helíus átti Hýperíonsson. Meðan eg enn var úti á
sjó á hinu svarta skipi, heyrða eg nautabaulið og sauðajarminn
í fjárhúsunum; kom mér þá til hugar, hvað þau höfðu sagt
mér, hinn blindi spámaður, Tíresías hinn Þebverski, og Eyjar-Kirka:
hafði hún lagt ríkt á við mig, að eg skyldi varast að
koma til eyjar Helíusar mannakætis. Þá tók eg til orða við
förunauta mína harmþrunginn í hjarta: „Góðir félagar, sem
ratað hafið í margar raunir! Hlustið á mál mitt, meðan eg segi
yður spásagnir Tíresíasar og Eyjar-Kirku. Hún lagði ríkt á við
mig, að eg skyldi varast að koma til eyjar Helíusar mannakætis;
kvað hún það verða mundu oss til hinnar verstu óhamingju; er
því bezt, að þér róið hinu dökkva skipi út um eyna“.
277 Svo mælti eg, en þeim varð óskapgott við, og svaraði
Evrýlokkus mér þá þessum óþægðarorðum: „Þú ert óvæginn,
Odysseifur, og ofurhugaður, og þreytist aldrei, og er sem þú
sért allur af járni gerður, er þú lofar ei förunautum þínum,
sem mæddir eru bæði af erfiði og vökum, að koma á land, þar
sem vér þó enn mundum geta búið oss lystugan kvöldverð þar
á hinni umflotnu ey; en þú býður oss svo búnum að láta
hrekjast frá eyjunni, og flækjast um á enu dimma hafi um
napra nótt, en á nóttum koma harðir vindar, sem oft verða
skipum að tjóni; hvert getur maður flúið undan bráðum bana,
ef snögglega kemur á vindbylur, annaðhvort útsynnings-él
eða hvass útnyrðingur, sem tíðast valda skipreikum, án þess
hinir máttugu guðir vilji því hamla? Nú skulum vér heldur
láta þar nótt, sem nemur, vera hér við skip í nótt og efna til
kvöldverðar, en stíga á skip með morgninum, og leggja þá
út á hið víða haf“.
294 Svo mælti Evrýlokkus, og gerðu hinir aðrir skipverjar
góðan róm að máli hans. Sá eg þá, að einhver óhamingja bjó
oss ógæfu, og talaði eg þá til Evrýlokkus skjótum orðum, og
sagði: „Evrýlokkus, heldur gerist þér nú ráðríkir við mig, er
þér veitist allir að mér einum. Nú skuluð þér sverja mér þess
dýran eið, að engi yðar skal af illri offrekju drepa nokkurn
uxa, né heldur sauð, þó vér kunnum að finna hér einhvern
nautaflokk eða stóra sauðahjörð; heldur skuluð þér neyta með
spekt þeirrar fæðu, sem hin ódauðlega Kirka veitti yður“.
303 Svo mælti eg, en þeir sóru þegar, eins og eg mæltist til.
En er þeir höfðu svarið og unnið fullan eið, lögðum vér hinu
ramgjörva skipi inn í víkurhvarf nokkurt, nálægt einum læk;
þar gengu förunautar mínir af skipi, og bjuggu sér kvöldverð
með miklum virktum. En er þeir höfðu satt lyst sína á
mat og drykk, minntust þeir sveitunga sinna, er Skylla hafði
hremmt úr skipinu og etið, og hörmuðu lát þeirra; og, meðan
þeir þannig hörmuðu, kom yfir þá fastur svefn. En er lifði
þriðjungur nætur, og stjörnurnar voru komnar úr miðdegisstað,
þá lét Seifur skýsafnari á koma hvassan vind með geysimiklu
hreggi, og huldi skýjum jafnt jörð og haf; sveif þá náttmyrkur
af himni ofan.
316 En er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í ljós,
drógum vér skipið inn í einn víðan helli, og lögðum því þar;
þar voru fagrir leikvellir og sæti Vatnagyðjanna. Þá setta eg
þing, og talaði í áheyrn allra: „Kærir vinir, með því matur og
drykkur er til á hinu örskreiða skipi, þá leggjum ekki til þeirra
nauta, sem hér eru, að vér ekki komumst í neinn vanda; því
máttugur er sá guð, er á uxa þessa og hina feitu sauði, það er
Helíus, er allt sér og allt heyrir“.
324 Svo mælti eg, og létu þeir sér þetta segjast.
325 Í fullan mánuð blés sífelldur landsynningur, og úr því
komu ekki aðrir vindar en austanvindar og landsynningar.
Meðan þeir höfðu brauð og hið rauðleita vín, lögðu þeir ekki
til nautanna, því þá langaði til að lifa. En er allar vistir voru
upp gengnar á skipinu, þá neyddust þeir til að fara á veiðar,
ráfuðu þeir þá um kring, og veiddu bæði fiska og fugla, sem
þeir gátu við komizt, með bognum önglum; því sulturinn tók
að sverfa að þeim. Eg gekk þá upp á eyna til að heita á guðina,
að einhverr þeirra vísaði mér leið heim. En þegar eg var
kominn frá förunautum mínum í hvarf upp á eyna, þvoði
eg hendur mínar, þar sem skjól var fyrir vindi, og gerði bæn
mína til allra þeirra guða, er á Ólympi búa; en þeir létu þá
sætan svefn síga á brár mér. Þá kom Evrýlokkus upp með illt
ráð við lagsmenn sína, og sagði: „Heyrið orð mín, góðir félagar,
sem ratað hafið í margar raunir! Að sönnu er sérhverr dauðdagi
vesælum mönnum kvíðvænlegur, en þó er sá dauðdaginn
aumlegastur, að deyja af hungri. Förum því til, og rekum burt
hina beztu uxa, er Helíus á, og færum fórn hinum ódauðlegu
guðum, er byggja víðan himin. En auðnist oss að komast til
Íþöku, ættjarðar vorrar, munum vér brátt byggja Helíusi
Hýperíonssyni ríkulegt hof og fórna þar mörgum ágætum blótgjöfum;
en ef hann reiðist nokkuð vegna hinna rétthyrndu
nauta og vill týna skipinu, og verði hinir aðrir guðir honum
meðmæltir, þá vil eg heldur drukkna í sjó og láta lífð allt í
einu, en vanmegnast til lengdar á þessari eyðiey“.
352 Svo mælti Evrýlokkus, og rómuðu hinir aðrir skipverjar
vel mál hans. Þeir tóku hin beztu naut Helíusar, er þar voru
í nánd; því hin bjúghyrndu, fríðu, krúnubreiðu naut voru á
beit skammt frá hinu stafnbláa skipi. Þeir stóðu í kring um
nautin, gerðu bæn sína til guðanna, og plokkuðu grönn blöð
af hálaufgaðri eik, því þeir höfðu ekki hvítt bygg á því þóftusterka
skipi. En er þeir höfðu gert bæn sína, skáru þeir og
flógu nautin, skáru bita úr lærunum, tvívöfðu þá í mör, og lögðu
hráa kjötbita þar ofan á; en þar eð þeir höfðu ekkert vín til
að stökkva yfir brennifórnina, þá dreyptu þeir vatni og steiktu
svo innýflin. En er lærbitarnir voru brunnir, og þeir höfðu bergt
á iðrunum, brytjuðu þeir hitt kjötið, og stungu því upp á
teina.
366 Þá hvarf hinn fasti svefn af brám mér, og gekk eg
þá ofan til strandar, þar sem hið örskreiða skip var. En er eg
átti skammt til ens borðróna skips, þá lagði sætan fórnarilminn
allt í kring um mig, kallaði eg þá grátandi upp til hinna
ódauðlegu guða: „Faðir Seifur, og þér aðrir sælu, eilífu guðir!
Sannlega hafið þér svæft mig miskunnarlausum svefni, mér til
ógæfu, því förunautar mínir, sem við skipið eru, hafa haft
mikið stórræði með höndum“.
374 Hin síðmöttlaða Lampetía fór nú hvatlega til Helíus
Hyperíonssonar með þá fregn, að vér hefðum drepið naut hans.
Hann brást reiður við, og tók til máls í viðurvist hinna ódauðlegu
guða: „Faðir Seifur, og þér aðrir sælu, eilífu guðir! Hefn
þú á förunautum Odysseifs Laertessonar, það er þeir hafa drepið
naut mín með ofríki. Hafði eg oft gaman af þessum nautum,
bæði þá eg sté upp á hinn stirnda himin, og þá eg hverfði mér
ofan aftur af himni til jarðar. En gjaldi þeir mér ekki sæmilegar
bætur fyrir nautatökuna, mun eg fara í Undirheima og lýsa þar
fyrir draugunum“.
384 Seifur skýsafnari svaraði honum og sagði: „Þú skalt,
Helíus, lýsa ódauðlegum guðum og dauðlegum mönnum á hinni
kornfrjóvu jörð; en skip þeirra félaga skal eg slá með björtu
reiðarslagi, og kljúfa það í smátt á enu dimma hafi“.
389 Frá þessu heyrða eg segja hina hárfögru Kalypsó, en
hún kvað Sendiguðinn Hermes hafa sagt sér.
391 En er eg kom niður til skipsins og sjávarins, gekk eg,
mann frá manni, og deildi á þá; en vér gátum engi úrræði haft,
því nautin voru nú einu sinni dauð. En brátt þar eftir létu guðirnir
mikil undur fyrir þá bera: nautshúðirnar tóku til að
skríða, og kjötið, bæði steikt og hrátt, umdi á teinunum, og var
hljóðið í því líkt nautabauli.
397 Mínir kæru félagar tóku síðan hin beztu naut Helíusar,
og sátu að veizlum í sex daga. En er Seifur Kronusson lét sjöunda
daginn yfir koma, þá linnti stórviðrinu; stigum vér þá
þegar á skip, reistum siglutréð, drógum upp hin hvítu segl,
og lögðum út á hið víða haf. En er vér vorum komnir svo
langt frá eyjunni, að hvergi sást til landa, og ekki nema himin
og haf, þá lét Kronusson svartan mökk upp stíga uppi yfir
hinu rúmgóða skipi, og varð dimmt á sjónum, þar sem mokkurinn
var yfir. Skipið hljóp þá ekki lengi, því allt í einu kom
hvínandi útnyrðingur æðandi með miklu hreggi. Vindbylurinn
sleit sundur báða siglustagina, féll siglutréð þá aftur í skipið,
og allur reiðinn kastaðist ofan í austrúmið, en tréð kom í höfuð
stýrimannsins, sem var í skutnum, og mölvaði sundur hvert
bein í höfðinu, steyptist hann þá ofan af þiljunum, eins og
kafhlaupari, og hvarf lífið úr beinum hans. Í sama vetfangi
þrumaði Seifur og kastaði reiðarslagi á skipið, en það hringsnerist
allt og fylltist brennusteini, þá það varð lostið af reiðarslagi
Seifs; féllu skipverjar þá útbyrðis og velktust í bylgjunum
umhverfis hið svarta skip, eins og krákur, og lét guð þeim ekki
heimkomu auðið verða.
420 Eg lét fyrirberast á skipinu, allt þar til er brimið hafði
leyst byrðinguna frá kjölnum; skolaði aldan þá lausum kilinum.
Nú braut báran siglutréð frá skipinu og bar það að kjölnum,
en á trénu lá ráband úr nautsleðri; með því batt eg hvorttveggja
saman, kjaltréð og siglutréð, settist svo upp á, og hraktist í
ofviðrinu.
426 Þá létti útnyrðingnum, sem geysað hafði með miklu
hreggi, og kom skjótt á útsynningur, mér til hugraunar, til
þess mig enn skyldi bera aftur að hinni voðalegu Karybdísi. Eg
hraktist alla nóttina, en um sólaruppkomu kom eg til Skylludrangs,
og hinnar ógurlegu Karybdísar. Hún sogaði nú í sig
hið salta sjóarvatn, en eg seildist upp í hið háva villifíkjutré,
hélt mér föstum við það, og hékk, eins og leðurblaka; hafði
eg þar enga fótfestu eða viðspyrnu, því viðarræturnar náðu
langt niður, en greinarnar, sem bæði voru langar og miklar,
blöktu hátt uppi, og skyggðu á Karybdísi. Eg hélt mér alltaf
fast, og beið þess, að hún spýi upp aftur siglutrénu og kilinum.
Um síðir komu trén upp, og var mig þá farið að lengja eftir þeim.
Í það mund sem gjörðarmaður, sá er sker úr mörgum þrætumálum,
þeim er bændur eigast við, rís upp og gengur af torgi
til kvöldverðar: rétt í það mund skaut upp trjánum úr Karybdísi;
sleppti eg þá lausum höndum og fótum, og skall ofan í
miðjan svelginn utan við hin löngu tré, settist svo upp á þau,
og réri með höndunum.
447 Síðan hraktist eg í níu daga, en tíundu nóttina létu guðirnir
mig að landi bera á eyjunni Ógýgju; þar bjó hin máttuga,
mælta gyðja, hin hárfagra Kalypsó; hún tók við mér báðum
höndum, og hélt mig vel. En hvað er eg að segja þér frá þessu
orð fyrir orð? Eg sagði þér og þinni skörulegu konu frá því
í gær í höllinni; en eg er frá því bitinn, að tína það fram
aftur orð fyrir orð, sem eg hefi fullglögglega frá sagt“.
[1198.png]
[1199.png]
ÞRETTÁNDI ÞÁTTUR.
ODYSSEIFUR SIGLIR FRÁ FEÖKUM OG
KEMUR TIL ÍÞÖKU.
SVO mælti hann, en þeir þögðu og voru hljóðir og frá
sér numdir af unun í enum dimmu herbergjum. Þá
svaraði Alkínóus honum og sagði: „Að vísu hefir þú
þolað allmargar raunir, en með því þú komst til minnar eirföstu,
háreistu hallar, þá vonar mig, að þú komist nú heim
án nýrra hrakninga. En það segi eg yður og býð hverjum
yðar, þér sem jafnan drekkið hið skæra höfðingjavín í herbergjum
mínum og hlýðið á söngmanninn: klæði þau, er gestinum
eru ætluð, hið gersemlega gull og allar aðrar gjafir, þær
er höfðingjar Feaka hafa fært hingað, eru nú lagðar niður í
velskafna kistu. Heyrið nú til, nú skal hverr af oss gefa honum
stóran þrífót og eirfat; munum vér láta bæta oss þetta
aftur á þjóðfundi, því þungt er fyrir einn, að gefa slíkt án endurgjalds“.
16 Svo mælti Alkínóus, og líkaði þeim þetta vel; gengu
menn nú til hvílu, hverr heim til sín.
18 En er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í ljós,
skunduðu þeir til skipsins og höfðu með sér hið mannsæma
eir; gekk hinn ágæti höfðingi Alkínóus sjálfur eftir skipinu,
og lét gjafirnar undir þófturnar og kom þeim þar vel fyrir,
svo þær skyldu ekki verða til baga nokkrum skipverja, þeim
er reri, ef þeir tæki snarpan róður.
24 Síðan gengu þeir til hallar Alkínóuss, og sóktu þangað
heimboð; tók hinn ágæti höfðingi Alkínóus svo við þeim, að
hann lét slátra uxa til fórnar Seifi Kronussyni, svartskýjaguði,
þeim er öllu ræður. Og sem þeir höfðu brennt lærbitana, settust
þeir að dýrlegri veizlu og voru kátir. Hinn ágæti söngmaður
Demodókus kvað þeim til skemmtunar; hann var
mikils virður af landsmönnum. En Odysseifur vék höfði sínu
til hinnar glattskínandi sólar, og þráði eftir, að hún rynni, því
hann langaði nú til að komast af stað. Svo sem mann þann, er
lætur tvo dumbrauða uxa draga ramgjörvan plóg allan dag um
nýplægingsekru, langar í kvöldmat, og verður feginn, þegar
sólarlag er komið, svo hann megi ganga heim til kvöldverðar,
og verða þó kné hans magnþrota, er hann gengur heim: svo
varð Odysseifur því feginn, er sólarljósið gekk undir; talaði
hann þá þegar til enna róðrargjörnu Feaka, en vék þó orðum
sínum einkanlega til Alkínóuss: „Voldugi Alkínóus, ágætasti
allra manna! Þá er þér hafið dreypt dreypifórn, þá veitið
mér flutning, svo eg komist heill heim, og lifið nú heilir! Er
nú því til leiðar komið, er hugur minn hefir til staðið, sem er
flutningurinn og hinar kæru gjafir, er himnaguðirnir láti mér
að láni verða. Óska eg, að eg finni mína góðu konu heima,
þá eg kem, og vini mína heila. En þess bið eg, að þér, sem
hér búið eftir, verðið eiginkonum yðar og börnum til yndis,
og að guðirnir veiti yður alls konar hamingjulán, og að yður
verði ekkert til ama innanlands“.
47 Svo mælti hann, en þeir rómuðu vel mál hans, báðu
greiða för gestsins, og kváðu honum orð vel farizt hafa. Þá
mælti hinn voldugi Alkínóus til kallarans: „Blanda þú vín í
skaftkerinu, Pontónóus, og skenktu öllum innan hallar; vér
skulum heita á föður Seif, og veita svo gestinum flutning til
ættjarðar sinnar“.
53 Svo mælti hann, en Pontónóus blandaði hið ljúffenga vín,
gekk til hvers manns og skenkti öllum. Dreyptu þeir nú dreypifórn,
hverr í sínu sæti, hinum sælu guðum, þeim er byggja
víðan himin. Þá stóð upp hinn ágæti Odysseifur, seldi í hönd
Aretu tvíker, og talaði til hennar skjótum orðum: „Þess óska
eg, drottning, að þér vegni ávallt vel, unz elli og dauði, sem
vön eru að vitja mannanna, koma þér að hendi. Eg fer nú af
stað, en þú njót yndis í þessu húsi af börnum þínum og af
landsfólkinu og Alkínóus konungi“.
63 Að því mæltu steig hinn ágæti Odysseifur yfir steinþröskuldinn.
Hinn voldugi Alkínóus lét kallarann fara með
honum og vísa honum leið til hins fljóta skips og ofan til
strandar. Areta lét ambáttir sínar fylgjast með: hélt ein á velþveginni
yfirhöfn og kyrtli; aðra ambátt lét hún fara með
til að bera hina vellæstu kistu; hin þriðja bar brauð og rauðleitt
vín.
70 En er þau komu til skipsins og sjávarins, þá tóku hinir
ágætu flutningsmenn við drykknum og öllum vistunum, og
komu því fyrir niðri í skipinu. Þeir breiddu glitábreiðu og línklæði
undir Odysseif uppi á afturþiljum skipsins, til þess hann
gæti sofið vært; síðan steig hann upp í og lagðist niður þegjandi,
en þeir settust á þófturnar, hverr í sínu rúmi, losuðu festina
úr steinsauganu, tóku síðan bakföll og þeyttu sjónum á
árarblaðinu. Nú féll fastasvefn á augu Odysseifs, einhverr sætasti
værðarblundur, einna líkastur dauða. En skipinu fór, sem
hestum á sléttum velli, þeim er beitt er fjórum saman fyrir
kerru: jafnskjótt og drepið er á þá keyrinu, bregða þeir við
allir senn, reisa sig hátt og renna skeiðið hvatlega: svo reis
afturstafn skipsins, en mórauð alda hins brimótta hafs geisaði
fyrir aftan skutinn; en skipið hljóp einlægt á stöðugri rás, og
ekki mundi smyrillinn, sem er fugla léttfleygastur, hafa getað
fylgt því, svo hvatlega hljóp það og renndi sér gegnum sjóarbylgjurnar;
hafði það innanborðs þann mann, er að ráðsnilli
var goðunum líkur: fyrr meir hafði hann þolað mjög margar
mannraunir, átt í bardögum við menn og farið gegnum hættlegar
bylgjur, en nú lá hann grafkyrr, og svaf, og mundi ekki
til þess, er á dagana hafði drifið.
93 Þegar sú bjartasta stjarna, er með komu sinni oftast
boðar ljós hinnar árrisulu Morgungyðju, rann upp, þá sókti
hafskipið að eyjunni.
96 Í Íþökulandi er vík nokkur, kennd við Forkunn, gamlan
sjávarguð. Þar ganga tveir sæbrattir eyraroddar fram fyrir
víkina, og taka úr stórsjóinn, sem í hvössum veðrum kemur að
utan, en þar fyrir innan geta hin þóftusterku skip legið festarlaus,
þegar þau eru komin inn á leguna. Við víkurmynnið er
viðsmjörsviðartré með löngu laufi, og nálægt trénu er yndislegur
hellir, dimmur, helgaður Landvættum þeim, er Vatnadísir
nefnast. Í hellinum eru skaftker og brúsar af steini, og
hafa hunangsflugur þar í bú sín; þar eru afarstórir vefstaðir
af steini, og vefa Landvættirnar þar forkunnar fagran sjávarpurpura;
þar eru og sírennandi vatnslindir. Tveir eru munnar
á hellinum, annar móti norðri, og ganga menn niður um þann
munnann: annar munninn veit móti suðri, sá er helgari en
hinn munninn, þar er inngangur hinna ódauðlegu guða, og
ganga þar aldrei menn um.
113 Feakar reru inn á þenna vog, og vissu þeir af honum
áður. Skriður mikill var á skipinu, og renndi það á land upp
mjög svo til hálfs, svo var því róið knálega. En er þeir voru
stignir á land af enu þóftusterka skipi, hófu þeir fyrst Odysseif
upp úr skipinu í línklæðinu og hinni glæsilegu glitábreiðu, og
lögðu hann sofanda niður á sandinn. Síðan tóku þeir upp úr
skipinu fjármuni þá, er hinir ágætu Feakar höfðu gefið honum
að skilnaði fyrir tilstilli hinnar hugstóru Aþenu, og lögðu féð
í eina hrúgu við rót viðsmjörsviðartrésins, langt frá alfaravegi,
svo ferðamenn, er að kynni bera, rændu ei fénu, meðan Odysseifur
svæfi. Að því búnu héldu þeir aftur heim á leið.
125 Landaskelfir hafði ekki gleymt því, er hann hafði í
fyrstu hótað enum goðumlíka Odysseifi; tók hann nú til að
grafast eftir fyrirætlun Seifs: „Faðir Seifur“, kvað hann, „ekki
mun eg hér eftir verða nokkurs metinn af hinum ódauðlegu
guðum, fyrst Feakar, sem eru dauðlegir menn, virða mig einskis,
og eiga þeir þó kyn sitt til mín að rekja. Ætlaði eg, að Odysseifur
skyldi nú heim komast við miklar mannraunir; því aldrei vilda
eg varna honum heimkomu algjörlega, fyrst þú eitt sinn hafðir
heitið henni og staðfest með höfuðbending þinni. En nú hafa
þeir flutt hann sofanda yfir hafið á fljótu skipi, og lagt hann á
land í Íþöku; hafa þeir gefið honum ótal gjafir, gnótt eirs og
gulls og ofin klæði: er það svo mikið fé, að Odysseifur mundi
aldrei öðlazt hafa jafnmikið í Trójuborg, þótt hann hefði heill
heim komizt með hlutskipti sitt“.
139 Skýsafnarinn Seifur svaraði honum og sagði: „Mikið
er, að þú, voldugi Landaskelfir, skulir tala slíkt! Víst ekki
óvirða guðirnir þig; enda væri það þungt, að kasta óvirðing
á hinn virðulegasta og ágætasta guð. En treysti nokkurr af
mönnum svo á mátt sinn og megin, að hann virði þig einskis,
þá er þér jafnan kostur að reka þess réttar, þó síðar sé. Far
þú fram, því sem þú ætlar þér og þér leikur hugur á“.
146 Posídon Landaskelfir svaraði honum: „Eg mundi þegar
í stað gert hafa, svo sem þú segir, ef eg óttaðist ekki jafnan
reiði þína og vildi forðast hana. En nú vil eg brjóta hið fríða
skip Feaka á hinu dimma hafi, þegar það kemur aftur úr flutningnum,
svo þeir fyrirbindist og af láti að veita mönnum flutning;
og svo vil eg hlaða stóru fjalli umhverfis um borg
þeirra“.
153 Skýsafnarinn Seifur svaraði honum og sagði: „Mér sýnist
bezt fara, kæri, þegar allir menn sjá frá borginni álengdar, hvar
skipið kemur undir árum, að gera það þá að steini, líkum fljótu
skipi, nálægt landi, svo allir menn undrist, og hlaða svo stóru
fjalli umhverfis borg þeirra“.
159 En er Posídon Landaskelfir heyrði þetta, fór hann af
stað, og til Skerju, þar er Feakar bjuggu, og beið þar. Þá kom
hafskipið á harðri rás, og átti skammt til lands; gekk Landaskelfir
þá að því, sló það með lófa sínum, og gerði það að
steini, og festi rætur hans á mararbotni; gekk síðan burt.
165 Þeir enir frægu sjóferðamenn, hinir langræðu Feakar,
voru þá á tali saman; leit þá einhverr þeirra til þess, er hjá
honum stóð, og sagði: „Æ, hverr hefir fjötrað hið fljóta skip
úti á sjó, á heimför þess hingað? Það sást glöggt í heilu líki
rétt nýlega“.
170 Svo mælti einhverr þeirra, en það vissu þeir ekki, hvernig
þessu var háttað. Þá hélt Alkínóus ræðu til þeirra og kvað svo
að orði: „Sannlega koma nú fram við mig fornar spár föður
míns; hann kvað Posídon vera oss reiðan, fyrir það að vér veitum
öllum flutning svo engum hlekkist á: hann kvað hann
einhvern tíma brjóta mundu frítt skip fyrir Feökum á hinu
dimma hafi, þá það væri á heimleið úr flutningi, og hlaða
stóru fjalli umhverfis um borg vora. Svo mælti hinn gamli
maður, og kemur nú allt þetta fram. Nú skulum vér allir mínum
ráðum fram fara: þér skuluð hætta að veita mönnum flutning,
þó einhverr komi til borgar vorrar; en Posídoni skulum
vér blóta tólf útvöldum griðungum, ef svo mætti verða, að
hann kenni í brjósti um oss, og hlaði ekki hávu fjalli umhverfis
um borg vora.
184 Svo mælti hann, en þeir urðu hræddir og létu til griðungana.
Þannig stóðu þá fyrirliðar og forstjórar Feaka kringum
blótstallann, og hétu á hinn volduga Posídon.
[1205.png: Korfu (Skerja) og „Skipið“]
187 Nú vaknaði hinn ágæti Odysseifur, þar sem hann svaf á
föðurjörðu sinni. Hann þekkti nú ekki landið, er hann hafði
svo langa tíma á burtu verið, því gyðjan Pallas Aþena, dóttir
Seifs, hafði brugðið um hann hulu til þess að gera hann sjálfan
ókennilegan, og til þess að geta ráðgazt við hann um sérhvað
eina, og svo hvorki kona hans, borgarmenn né vinir þekktu
hann, fyrr en biðlarnir hefðu fengið makleg málagjöld, fyrir
allan sinn yfirgang. Þess vegna sýndist konunginum nú allt
vera öðruvísi, en áður hafði verið, bæði hinar löngu brautir,
og víkurnar, þar er svo víða var gott til lendinga, hinir bröttu
hamrar og hin blómlegu tré. Hann spratt þá upp, stóð kyrr
og leit á föðurland sitt, síðan hljóðaði hann upp, sló báðum
lófum á lær sér, og tók til orða harmandi: „Eg vesæll maður,
hvaða menn munu vera í þessu landi, sem eg er enn í kominn?
Hvort munu það vera ofstopamenn, trylltir menn og ójafnaðarmenn,
eða gestrisnir menn og guðhræddir? Hvert er eg að
flytja þessa hina miklu fjármuni? Hvert er eg að hrekjast sjálfur?
Eg vildi að fé þetta hefði verið kyrrt hjá Feökum, þar sem
það var, því þá hefði eg getað komizt til einhvers voldugs
konungs, sem tæki vel á móti mér og greiddi för mína heim.
En nú er hvorttveggja, að eg get ekkert gert af fénu, enda mun
eg ekki skilja það eftir, þar sem það er nú, svo það verði ekki
öðrum að herfangi. Sér er hvað. Þeir hafa þá ekki verið svo
allskostar hyggnir eða orðheldnir, þeir fyrirliðar og forstjórar
Feaka, þar sem þeir hafa flutt mig í annað land. Þeir hétu þó
að flytja mig til hinnar víðsýnu Íþöku, en hafa ekki efnt það.
Seifur, verndargoð miskunnarmanna, sem gefur gætur að öllum
mönnum og hegnir þeim, er rangt gera, hann hefni þessa
á þeim. En það mun vera bezt að eg kasti tölu á gripina, og gæti
að, hvort þeir skipverjar hafi ekki haft eitthvað í burt með sér
af því sem eg á“.
217 Að því mæltu taldi hann hina fögru þrífætur og föt, og
gullið og hin fögru ofnu klæði og saknaði hann einskis þar
af. Þó tregaði hann föðurland sitt, og reikaði mjög harmþrunginn
fram með strönd hins brimótta hafs.
221 Þá kom Aþena til hans, hún var lík í vexti ungum sauðahirði,
næsta grannvöxnum, sem konungasynir eru vanir að
vera, hún hafði yfir sér vandaðan feld tvíbrotinn, ilskó á fótum,
spjót í hendi. Odysseifur varð glaður við, er hann leit
hana, gekk móti henni, talaði til hennar skjótum orðum og
sagði: „Heill og sæll, góður maður, þig hefi eg hitt fyrstan
manna á þessum stöðvum, og vildi eg óska, að þú mættir mér
ekki í illum hug. Varðveit fé þetta, og varðveit mig! Eg heiti
á þig, svo sem á guð, og em hér nú kominn til knjá þinna.
Seg mér satt frá, að eg verði vísari: hvaða land og hver þjóð er
þetta? Hverjir menn búa hér? Er þetta einhver víðsýn ey,
eða er það strönd nokkur á hinu frjóvsama meginlandi, sem liggi
hér til hafs út?“
236 Hin glóeyga gyðja Aþena svaraði honum: „Fávís ertu,
gestur, eða þú ert langt að kominn, að þú skulir spyrja, hvað
land þetta sé. Það fer þó ekki alllítið orð af því: mjög margir
menn þekkja það, bæði þeir er búa móti dagsheimi og sólarheimi,
og svo þeir er hins vegar búa gegnt hinum dimma næturheimi.
Land þetta er að vísu óslétt, og ekki yfirreiðarland, en
ekki er það gæðalaust, þó eigi sé það víðlent: því hér vex
ógrynni korns og víns, eru hér löngum skúrir og frjóvsamar
daggir; hér er gott geitland og nautland; alls konar viður vex
hér, og nóg eru hér vatnsból, sem aldrei tekur fyrir. Er því,
gestur, nafn Íþöku komið jafnvel til Trójulands, sem kv'a
vera langt í burtu frá Akkealandi“.
250 Svo mælti hún en hinn þrautgóði, ágæti Odysseifur
varð glaður við, og þókti vænt um, er Pallas Aþena, dóttir Seifs
Ægisskjalda, sagði honum að þetta væri föðurland hans. Talaði
hann þá til hennar skjótum orðum, og fór hann nú með ósannindi
og mælti um hug sér, því jafnan brá honum til slægðarinnar:
„Eg heyrða og Íþöku getið í hinni víðlendu Krítarey,
langt fyrir handan haf, og sjálfur er eg nú þaðan kominn með
fjárhluti þessa, sem hér eru, og lét eg þó eftir börnum mínum
að auki annað fé jafnmikið. Fer eg því landflótta, að eg drap
son Ídomeneifs, hinn fóthvata Orsílokkus, er fráleik hafði
fram yfir aðra vaska menn á hinni víðlendu Krítarey. Vo eg
hann fyrir þá sök, að hann vildi ræna mig öllu því hlutskipti,
er eg hafði aflað í Trójuborg og ærið fyrir haft, þolað miklar
mannraunir, verið í mannhættum orustum, og farið yfir háskasamleg
höf. En þetta gerði hann, af því eg vildi ekki gera það
föður hans til þægðar, að þjóna undir hans skjöld í Trójulandi,
heldur gerðist höfðingi fyrir annarri sveit. Þegar hann nú eitt
sinn kom heim af akri, tók eg lagsmann minn með mér, gerði
honum fyrirsátur skammt frá alfaravegi, og skaut hann með
eirslegnu spjóti. Niðamyrkur var á, og varð engi maður okkar
var, og vissi enginn, að eg hafði tekið hann af lífi. En er eg
hafði vegið hann með hinu bitra eirvopni, gekk eg þegar til
skips nokkurs, er hinir frægu Feníkar áttu; bað eg þá ásjár,
og gaf þeim til góðan skerf af hlutskipti mínu, bað eg þá að
flytja mig til Pýlusborgar og setja mig þar á land, eða þá til
hins helga Elealands, þar er Egear hafa yfirráð. En sterkviðri
bægði þeim þaðan, og var þeim það þó sárnauðugt, því þeir
vildu ekki pretta mig. Hröktumst vér svo þaðan, og komum
hingað um nótt, og drógum með þraut upp í víkina; höfðum
vér ekki rænu á að eta, þó vér værum mjög matlystugir, heldur
stigum vér allir af skipi, og lögðumst fyrir, eins og vér vorum.
Eg var orðinn þreyttur, og féll á mig sætur svefn; en þeir tóku
góss mitt upp úr skipinu, lögðu það hjá mér, þar sem eg lá í
fjörunni, stigu svo á skip og fóru leiðar sinnar til ens fjölbyggða
Sídónalands; en eg varð eftir, og undi illa hlut mínum“.
287 Svo mælti hann, en hin glóeyga gyðja Aþena brosti, og
klappaði honum með hendinni; var hún þá lík í vexti stórum
og fríðum kvenmanni, sem kann fallegar hannyrðir. Hún talaði
til hans skjótum orðum og mælti: „Sá mætti vera slægur og
undirsettur, sem gæti orðið þér drjúgari í alls konar vélum, og
það jafnvel þótt einhverr goðanna ætti við þig að skipta. Seinþreyttur
maður ertu og fjölráðugur og bragðauðugur! ætlar þú
þá ekki heldur, enn þótt þú sért kominn heim í föðurland þitt,
að láta af prettunum og orðslægðinni, sem þér eru svo hjartakær?
Heyr nú, tölum ekki lengur hér um; okkur eru báðum
kunnug vélabrögðin: því þú ert allra manna ráðvitrastur og
orðspakastur, en eg hefi orð á mér að vera hin ráðvísasta og
kænsta af öllum goðum; og ekki þekktir þú, að eg var Pallas
Aþena, dóttir Seifs, sem ávallt stend þér til annarrar handar og
gæti þín í öllum þrautum, og kom þér í kærleika við alla Feaka.
En nú em eg hingað komin til þess að setja ráð með þér, og
koma undan fjármunum þeim, er hinir ágætu Feakar gáfu
þér að skilnaði eftir ráðstöfun minni og forsjá, svo og til að
segja þér allar þær raunir, sem enn liggur fyrir þér að þola,
þá þú kemur til hallarinnar. Þú hlýtur að hafa þol við, og alls
engan, hvorki karl né konu, máttu láta af vita, að þú ert heim
kominn af hrakninginum; þú skalt bera með þögn margs konar
móðganir, og þola ofstopa af mönnum“.
311 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði henni og sagði. „Torvelt
er fyrir dauðlegan mann, enn þótt vitur sé, að þekkja þig,
gyðja, þó þú verðir á vegi hans, þar sem þú bregður á þig öllum
líkjum. En það vissa eg til sanns, að þú varst mér velviljuð
fyrrum, þann tíma er vér synir Akkea börðumst í Trójulandi.
En er vér höfðum lagt í eyði hina hávu borg Príamuss, og vorum
á skip komnir, og guð hafði sundrað Akkeum: þá sá eg
þig ekki úr því, dóttir Seifs, og ekki hefi eg orðið þess var, að
þú hafir stigið á skip mitt, til þess að firra mig vandræðum.
Nú bið eg þig fyrir sakir föður þíns: seg mér, hvort það er
víst, að eg sé heim kominn í föðurland mitt; því grunur minn
er, að eg muni ekki vera kominn til hinnar víðsýnu Íþöku,
heldur muni eg láta fyrir berast á einhverju öðru landi, og
ætla eg, að þú segir þetta af spotti til að gabba mig“.
329 Hin glóeyga gyðja Aþena svaraði honum og sagði:
„Ávallt býr þér slík hugsun innan brjósts, og því get eg heldur
ekki yfirgefið þig á bágindum þínum, að þú ert mannúðlegur,
hugkvæmur og vitur. Annar maður, sem heim kæmi af hrakningi,
mundi gjarna óska sér að sjá börn og konu sína heima;
en þér leikur enn ekki hugur á að forvitnast eða spyrja um
neitt: þú vilt fyrst enn betur freista konu þinnar, sem situr
heima, eins og hún er vön, og bíður þín; líða svo daprar nætur
og dagar, að hún er aldrei ógrátandi. Vissa eg það áður, og
aldrei kom mér það óvart, að þú mundir missa allra förunauta
þinna, áður þú kæmist heim; en eg vildi ekki þín vegna deila
kappi við Posídon, föðurbróður minn, er hafði heiftarhug á
þér, sökum þess þú hafðir blindað son hans. En líttu nú á, eg
skal sýna þér Íþökuland, svo þú trúir mér: hérna er Forkunnsvík,
hins gamla sjávarguðs; hér við víkurmynnið er hið langlaufgaða
viðsmjörsviðartré, og hér er hellisskútinn, þar sem
þú varst oft vanur að færa Landvættunum fullkomnar hundraðsfórnir,
en hérna er hið skógivaxna Nerítonsfjall“.
352 Að því mæltu brá gyðjan burt hulunni, og sást þá
landið. Þá gladdist hinn raunamæddi, ágæti Odysseifur, og
þókti vænt um að sjá föðurland sitt. Hann kyssti hina kornfrjóvu
jörð; síðan fórnaði hann upp höndum og bað til Landvættanna:
„Þér Vatnagyðjur, dætur Seifs, aldrei hugsaði eg, að
eg mundi sjá yður framar. Þiggið nú mín hjartans áheit; en
fórnir skal eg færa yður enn sem fyrr, ef hin fengsæla dóttir
Seifs ann mér sjálfum lífs, og lætur syni mínum hamingju
auðið verða“.
361 Hin glóeyga gyðja Aþena svaraði honum; „Vertu ókvíðinn,
lát þér þetta ei að áhyggju verða. Við skulum nú þegar í
stað láta gripina innst inn í hinn helga helli, svo ekkert fargist
af því fyrir þér. Síðan skulum við taka ráð okkar saman,
hvernig við megum bezt fram koma ætlan okkar“.
366 Að því mæltu gekk gyðjan inn í hinn dimma helli,
og leitaði að fylgsnum í hellinum; en Odysseifur bar allt að
henni, gullið, hið sterka eir og hin vönduðu klæði, er Feakar
höfðu gefið honum; kom hann því vel fyrir, en Pallas Aþena,
dóttir Seifs Ægisskjalda, lagði stein fyrir hellismunnann. Síðan
settust þau bæði niður hjá rót hins helga viðsmjörsviðartrés, og
ráðguðust um dráp hinna yfirgangsömu biðla; tók hin glóeyga
gyðja Aþena svo fyrri til máls: „Seifborni Laertesson, ráðagóði
Odysseifur! Hugsa nú upp eitthvert ráð, hversu þú fáir lagt
hendur á hina ósvífnu biðla. Þeir hafa nú í þrjú ár haft öll ráð
í húsi þínu, biðlað til þinnar ágætu konu og gefið henni brúðgjafir;
en hún, sem alltaf þráir harmandi eftir heimkomu
þinni, lætur vænlega við þá alla, gerir þeim boð og lofar hverjum
góðu, en hugur hennar er allur annar“.
382 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði henni og sagði: „Mikil
skelfing! Sannlega mundi eg dáið hafa illum dauða í húsum
mínum, eins og Agamemnon Atreifsson, ef þú, gyðja, hefðir
ei sagt mér satt frá öllu. En láttu nú sjá, hugsa nú upp eitthvert
ráð, að eg megi hefna mín á þeim. Statt mér til annarrar handar,
og blás mér í brjóst djörfungarfullum hug, eins og þú gerðir,
þegar vér leystum hin glæsilegu skarbönd Trójuborgar. Ef þú,
Glóeyg, stæðir mér nú eins öflugt til annarrar handar og veittir
mér lið af alvöru, þá skyldi eg með þinni aðstoð, tignarlega
gyðja, berjast, þó eg ætti þrjú hundruð mönnum að mæta“.
392 Hin glóeyga gyðja Aþena svaraði honum: „Vera skal
eg hjá þér, svo muna skal um, og ekki skaltu missa mín
þegar við förum að koma þessu til vegar; og vonar mig, að
einhverr biðlanna, þeirra er nú eta upp eigur þínar, muni þá ata
jörðina með blóði sínu og heilaslettum. En heyr nú, nú mun
eg gera þig ókennilegan öllum mönnum, korpa hið fagra hörund
á þínum liðugu limum, fella af hina rauðbirknu lokka af
höfði þínu, og færa þig í tötra, svo hvern mann skal bjóða
við að sjá þig svo búinn; augu þín, sem áður voru svo fögur,
mun eg gera döpur, svo þú verðir óásjálegur í augum allra biðlanna,
í augum konu þinnar og sonar þíns, er þú skildir eftir
heima. Sjálfur skaltu fyrst fara til svínahirðisins, sem gætir
svína þinna; hann er bæði velviljaður þér, og ann syni þínum
og hinni hyggnu Penelópu. Þú munt hitta hann, þar sem
hann situr yfir svínunum, en þau eru á beit nálægt Korakshamri
og hjá lindinni Areþúsu, eta þar nægju sína af akarni og drekka
hið bláa vatn, er hleypir vexti í svínin og gerir þau sælleg af
spiki. Þar skaltu sitja um kyrrt og spyrja tíðinda, en eg ætla
á meðan að fara til hinnar kvenfögru Spörtu, til að kalla á
Telemakkus, þinn kæra son, Odysseifur! Hann hefir farið til
hinnar víðlendu Lakedemonar til Meneláss, til að spyrjast fyrir
um þig, hvort þú munir enn á lífi vera“.
416 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði henni og sagði: „Hví
hefir þú ekki sagt honum frá mér, þar sem þú veizt alla hluti?
Eða vildir þú, að hann rataði einnig í það mótlæti, að hrekjast
yfir hið ófrjóva haf, meðan hinir eta upp eigur hans?“
420 Hin glóeyga gyðja Aþena svaraði honum: „Ekki þarftu
að vera mjög hugsjúkur um hann; eg fylgdi honum sjálf, til
þess hann öðlaðist gott orð af för sinni þangað. Hann hefir
enga þraut komið, heldur situr hann makráður í höll Atreifssonar,
og eru settar fyrir hann alls nægtir. Satt er það, að sveinar
nokkurir sitja fyrir honum á svörtu skipi, og vilja drepa hann,
áður en hann fái heim komizt til föðurjarðar sinnar; en eg
kvíði því ekki: einhverr þeirra mun til jarðar hníga áður“.
429 Að því mæltu snart Aþena hann með sprota sínum: hún
korpaði hið fríða hörund á hans liðugu limum, felldi af hina
rauðbirknu hárlokka af höfði hans, og færði alla hans limu í
gamals manns ham; hún gerði döpur augu hans, sem áður
voru afbragðs fögur, skipti um búning hans og færði hann í
vonda flík og kyrtil, var hvort tveggja rifið, óhreint og atað
óþekktar sóti; yzt lagði hún yfir hann stóran hjartarfeld rotaðan,
fékk honum stafprik og ljótan malpoka, víða götóttan,
og var á honum fléttuband til að halda í. En er þau höfðu ráðið
þetta með sér, skildust þau, og fór hún til hinnar helgu Lakedemonar
til sonar Odysseifs.
[1212.png]
[1214.png: Odysseif ber að garði svínahirðisins.]
[1215.png]
FJÓRTÁNDI ÞÁTTUR.
ODYSSEIFUR TALAR VIÐ EVMEUS.
ODYSSEIFUR gekk upp frá víkinni ósléttan stíg um
skógótt land eftir fjallhryggjum, þangað er Aþena
hafði vísað honum á hinn ágæta svínahirði, sem var
hinn dyggasti búsýslumaður af þrælum þeim, er hinn ágæti
Odysseifur átti. Odysseifur hitti svo á, að svínahirðirinn sat í
framhúsinu. Hann hafði byggt þar hávan forgarð á víðsýnum
stað, var sá garður fallegur og mikill, og bersvæði umhverfis,
hafði svínahirðirinn byggt þenna forgarð handa svínunum
á eiginn kostnað, meðan hússbóndi hans var utanlands,
án nokkurs styrks frá drottningu eða gamla Laertes; hafði hann
hlaðið garðinn af aðfluttu grjóti og sett þyrnigerði um kring
á veggjabrúnunum, en að utanverðu allt umhverfis hafði hann
gert einlæga girðingu af gildum og þéttum staurum, og haft
þar til álinn úr eikitré, sem hann hafði rutt utan af. Inni í forgarðinum
gerði hann tólf svínastíur, hverja hjá annarri, handa
svínunum til að liggja í; í hverri stíu voru byrgðar fimmtíu
jarðlægar gyltur, þær vóru með grísum, en geltirnir lágu útifyrir,
vóru þeir miklu færri, því hinir göfugu biðlar, sem höfðu þá
til borðs sér, fækkuðu þeim jafnótt, þar svínahirðirinn sendi þeim
ávallt þann göltinn, sem beztur var af öllum alisvínunum; þeir
voru þrjú hundruð og sextíu. Þar hjá garðinum lágu jafnan
fjórir hundar, þeir voru líkir villidýrum, og hafði hinn fyrirmannlegi
svínahirðir alið þá upp. Sjálfur var hann að rista
vellita nautshúð og sneið sér ilskæði á fæturna. Sveinar hans
vóru farnir í sína áttina hverr: Þrír fylgdu svínahjörðinni, en
þann fjórða hafði hann orðið að senda til borgarinnar til að
færa hinum ofstopafullu biðlum alisvín, er þeir ætluðu að slátra
og eta sig sadda af kjötinu.
29 Hinir sígeltandi hundar sáu skjótt til Odysseifs, og hlupu
að honum með ólátum; en Odysseifur sá við því og settist
niður, en prikið féll úr hendi hans. Þar hefði hann orðið fyrir
ljótu slysi hjá sínum eigin bæ, ef svínahirðirinn hefði ekki
brugðið skjótt við; hann hljóp fimlega fram eftir fordyrinu
á eftir hundunum og hraut leðrið úr hendi honum; hastaði á
hundana og tvístraði þeim í sína átt hverjum með mörgum smásteinum.
Síðan talaði hann til konungsins: „Nú lá við sjálft,
gamli maður, að hundarnir rifi þig í sundur voveiflega, og hefði
það orðið mér til ámælis. Og hafa þó guðirnir látið mér aðrar
raunir og harma að höndum bera, þar sem eg sit hér kveinandi
og harmsfullur vegna míns ágæta hússbónda, og el upp
alisvín hans til borðhalds fyrir aðra menn, en vera má, að hann
sjálfur sé nú matþurfi, og hrekist um byggðarlög útlendra
manna, ef hann annars er enn á lífi og sér ljós sólarinnar. En
kom þú með mér gamli maður, við skulum ganga til bæjar,
skaltu þar neyta matar og víns, sem þig lystir til, og segja svo,
hvaðan þú sért og í hverjar raunir þú hafir ratað“.
48 Að því mæltu gekk hinn ágæti svínahirðir á undan þeim
til bæjarins, leiddi Odysseif inn, og bauð honum að sitja, stráði
undir hann laufguðum kvistum, og breiddi þar ofan á stóra og
hármikla gæru af loðinni villigeit handa honum til að liggja
á. Odysseifi þótti vænt um, að hann tók sér svo vel, tók til
orða og sagði: „Seifur og aðrir ódauðlegir guðir veiti þér,
gestgjafi, allt hvað þú helzt vilt æskja þér, fyrir það að þú hefir
veitt mér viðtöku svo góðfúslega“.
55 Evmeus svínahirðir svaraði honum og sagði: „Ekki hæfir
mér, gestur, að taka illa á móti nokkrum gestkomanda, þótt enn
aumlegri væri, en þú ert; því allir gestir og þurfamenn eru undir
vernd Seifs. En það má segja um greiðann minn, að ljúf er
lítil gjöf; því er þrælum svo farið, að þeir hafa jafnan einhvern
beig, þegar ungir lánardrottnar taka við yfirráðum. Því guðirnir
munu vissulega hafa hamlað heimför hússbónda míns;
mundi honum hafa farizt við mig ástsamlega, og veitt mér
góðan stofn, hús og bújörð og góðan kvenkost, eins og margur
góðviljaður lánardrottinn hefir veitt þræli sínum, þegar hann
hefir þjónað honum dyggilega, og guð hefir þar á ofan blessað
störf hans, eins og mér lánast þessi mín iðja, sem eg alltaf hefi
stundað; mundi því hússbóndi minn hafa veitt mér margt hagræði,
ef hann hefði hér til elli aldur alið. En hans nýtur nú ekki
lengur við. Eg vildi, að ætt Helenu væri með öllu til grunna
gengin, því sú kona hefir mörgum á kné komið. Því til þess að
halda uppi sæmd Agamemnons,[* Sbr. Il. I, 159; V, 552.] fór hússbóndi minn til hinnar
hestauðugu Ilíonsborgar að berjast við Trójumenn“.
72 Þá hann hafði þetta sagt, batt hann fljótlega að sér kyrtilinn
með lindanum, og gekk út í svínastíurnar, þar sem grísirnir
voru innibyrgðir, tók þaðan tvo grísi, og slátraði báðum, síðan
sveið hann þá og brytjaði, og stakk stykkjunum upp á teina.
En er hann hafði steikt stykkin, bar hann þau brennheit á
teinunum fyrir Odysseif, og sáði yfir þau hvítum bygggrjónum;
hann blandaði hunangsætt vín í viðvindilskeri, settist gagnvart
honum, hélt að honum og sagði: „Et nú, gestur, grísakjötið,
sem við þrælarnir höfum að bjóða; en alisvínin eta biðlarnir,
sem ekkert skeyta um reiði guðanna og öngva meðaumkvun
hafa. Þeim sælu guðum líka ekki ofríkisfull verk, en réttvísi og
sanngirni virða þeir mikils. Óvinir og ofbeldismenn veita uppgöngur
í landi annarra manna, og halda heim aftur með hlaðin
skip, þegar Seifur hefur látið þeim herfangs auðið verða, og
þó kemur í brjóst þess háttar mönnum rammur ótti fyrir hefndina.
En biðlar þessir vita víst eitthvað, og hafa heyrt einhverja
raust guðs um ógæfusaman dauða hússbónda míns, fyrst þeir
vilja ekki bera upp bónorð, eins og siður er til, og ekki fara
aftur til heimila sinna, heldur sitja makráðir og eyða eigunum
í óhófi, svo engin gegnd er á; því nótt og nýtan dag, sem Seifur
gefur yfir, slátra þeir fénu, og nægir þeim aldrei ein kind eða
tvær til niðurlags; svo eyða þeir og víninu ógegndarlega, og
tæma hvert ílátið eftir annað. Því eigur hans vóru stórmiklar;
enginn höfðingi, hvorki á hinu dökkva meginlandi, né á sjálfri
Íþöku, er eins ríkur og hann, og ekki eiga tuttugu menn til
samans aðra eins auðlegð. Eg skal nú telja þér upp féð hans:
hann á tólf hjarðir nauta á landi, eins margar sauðahjarðir, eins
margar svínahjarðir, og jafnmargar stórar geithjarðir; fylgja
þessu fé bæði leigusmalar og hjarðmenn sjálfs hans. En hérna
ganga ekki færri en ellefu stórar geithjarðir á úteyjunni, og
sitja röskir menn yfir þeim; hverr þeirra færir biðlunum dags
daglega einn sauð af hinu feita geitfé, hafurinn, sem bezt lítur
út. Eg gæti svína þeirra, sem hér eru, og hirði um þau, og vel
eg úr þeim bezta göltinn og sendi þeim“.
109 Þannig mælti hann, en Odysseifur át kjötið með góðri
lyst, og drakk vínið í gríð; en ekki fór honum orð af munni,
því hann var að upphugsa eitthvað biðlunum til meins. En er
hann hafði snætt, og etið sem hann lysti, skenkti svínahirðirinn
á tréskál, sem hann var sjálfur vanur að drekka af, og rétti
honum hana fulla af víni. Hann tók við, og þókti vænt um,
talaði til hans skjótum orðum og sagði: „Hverr er sá, kæri, sem
hefir keypt þig með fé sínu svo vellauðugur og voldugur, eins
og þú gazt um, og sem þú heldur að týnzt hafi, þó hann fór
til að halda uppi sæmd Agamemnons? Seg mér það, ef verða
mætti, að eg þekkti þenna mann, sem þú lýsir þanninn. Það
veit Seifur og aðrir ódauðlegir guðir, hvort eg hefi séð hann
svo, að eg geti sagt nokkuð í fréttum af honum; því víða hefi
eg farið“.
121 Hinn fyrirmannlegi svínahirðir svaraði honum: „Gamli
maður, ekki mun kona hans eða sonur leggja trúnað á sögur
neins flökkumanns, þó hann komi og segi eitthvað í fréttum
af honum; því flökkumenn, sem þurfa aðhjúkrunar, skrökva
skeytingarlaust, og gefa ekki um að segja satt. Og beri svo við,
að einhverr flökkumaðurinn komi til Íþökulands, þá fer hann
til hússmóður minnar, og skrafar þar einhvern hégómann. Hún
tekur honum að sönnu vel, og gerir honum gott, og spyr hann
tíðinda, en þó er hún grátandi, svo tárin hrynja af augum hennar,
eins og konu er vandi til, þegar hún hefir misst mann sinn
í útlöndum. Eins gæti það verið, að þú, gamli maður, skrökvaðir
upp einhverri lygasögunni. Hitt mun þó sannara, að lífi
hans mun lokið, og hundar og hræfuglar munu vera búnir að
slíta hræ hans, eða fiskarnir í sjónum að éta það, en bein hans
liggja þar sandi vorpin við sjávarströndu. Slíkan dauðdaga hefir
hann hreppt þar, og er þetta sorgvænlegt fyrir alla vini hans,
en allra helzt fyrir mig; því þó eg fari um víða veröldu, mun
eg ekki hér eftir fyrir hitta eins góðan hússbónda, og ekki þó
eg kæmi aftur í hús föður míns og móður minnar, þar sem eg
var borinn og uppfæddur; og ekki sakna eg nú foreldra minna
eins, þó mig langi til að sjá þá heima í föðurlandi mínu, eins
og mér er eftirsjá að Odysseifi, síðan hann fór úr landi. Eg
fyrirverð mig, gestur, að nefna hann nafni sínu, þó hann sé
ekki viðstaddur: hann fór svo vel með mig, og lét sér svo
hjartanlega annt um mig, að eg kalla hann heldur „hugljúfa
minn“, þó hann sé fjærverandi“.
148 Hinn þrautgóði, ágæti Odysseifur svaraði honum: „Fyrst
þú, vinur, ert svo tortrygginn, að þú neitar með öllu því, sem
eg segi, og fullyrðir, að hann muni ei framar heim koma, þá
vil eg tala nokkuð meir hér um; og skulu það ekki vera orðin
einber, heldur skal eg leggja eið á ofan, að Odysseifur mun
koma. Launin fyrir þessi fagnaðartíðindi áskil eg mér að fá
undir eins og hann er kominn á heimili sitt; en fyrr skal eg
aldrei taka nokkur sögulaun, hvað mikið sem mér liggur á:
því þann mann hata eg jafnt og Hadesar grindur (helgrindur),
sem lætur fátæktina koma sér til að fara með hégómaskraf.
Viti það Seifur, fyrstur guða, og þetta gestaborð, viti það eldstalli
hins ágæta Odysseifs, sem eg nú er til kominn, að allt skal það
rætast, sem eg nú segi: Odysseifur mun koma hér til lands á
þessu ári, þegar þessu tungli er lokið og annað byrjar, mun
hann koma heim og hefna á hverjum þeim, sem vansa gerir
konu hans og hans fræga syni“.
165 Evmeus svínahirðir svaraði honum: „Það er hvorttveggja,
gamli maður, að eg mun ekki gjalda þér þessi sögulaun, enda
mun Odysseifur ekki framar heim koma. Sittu heldur í makindum
við drykkinn, og tölum um annað en þetta. Vertu ekki
að rifja þetta upp fyrir mér, því hugur minn angrast, í hvert
sinn, sem einhverr minnist á minn góða hússbónda. Við skulum
sleppa eiðnum; eg vildi bara, að Odysseifur kæmi, eins og
eg óska þess og Penelópa og gamli Laertes og hinn goðumlíki
Telemakkus. En nú tekur mig sárast til Telemakkusar, sonar
Odysseifs. Fyrst létu guðirnir hann renna upp, eins og hríslu,
svo eg hélt hann mundi verða öngvu síður en faðir hans,
þá hann kæmist í manna tölu, því hann var afbragð að vexti
og vænleik. En einhverr hinna ódauðlegu guða hefir glapið
vitsmuni hans eða þá einhverr maður, því hann fór til hinnar
helgu Pýlusborgar, til að spyrjast fyrir um föður sinn, en hinir
göfugu biðlar sitja fyrir honum á heimleiðinni aftur, til þess
að afkvæmi hins goðumlíka Arkesíuss verði aldauða frægðarlaust
á Íþöku. Við skulum nú ekki tala um hann lengur, hvort
hann svo hefir bana beðið eða Kronussonur hefir haldið yfir
honum hendi sinni og látið hann af komast. En seg mér nú,
gamli maður, frá raunum sjálfs þíns, og inn með sannindum,
svo eg verði vísari: hverr ertu, og hverra manna? hvar áttu
heima, og foreldrar þínir? á hvaða skipi komstu? því varstu
fluttur til Íþöku? hverjir fluttu þig? því ekki hygg eg þig
vera kominn hingað yfir land“.
191 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði: „Eg
skal þá segja þér þetta með fullum sannindum. En þó við hefðum
nú báðir mat og sætt vín álengdar, og sætum hér kyrrir að
máltíð inni í bæ en aðrir gengi til verka, þá mundi eg þó
trauðlega fá lokið við árlangt, að telja upp þær þrautir allar
saman, sem eg hefi í ratað að ráðstöfun guðanna.
199 Eg er ættaður frá hinni víðlendu Krítarey, og var faðir
minn auðmaður mikill. Hann átti marga aðra sonu, sem ólust
og uppfæddust á heimili hans; þeir vóru skilgetnir, og hafði
hann átt þá við konu sinni. En þó móðir mín væri frilla og
keypt ambátt, þá hafði eg þó jafnt yfirlæti af Kastor Hýlakussyni,
sem hinir eðalbornu synir hans. Hann var faðir minn, og var
hann um þær mundir í svo miklum metum hjá alþýðu manna
á Krítarey, fyrir sakir fullsælu, auðlegðar og sonastyrks, eins
og væri hann einhverr af goðunum. En er Banagyðjurnar höfðu
flutt hann niður til Hadesar heims, þá skiptu hans hugstóru
synir milli sín eigum hans og vörpuðu hlutkesti um. Næsta litlu
miðluðu þeir mér af arfinum, og létu mig hafa bæjarhúsin í
minn hlut. Eg kvongaðist, og fékk vellríkrar konu sökum atgervi
minnar; því ekki var eg lítilmenni eða flóttagjarn í
orustum. Þó ekkert sé orðið eftir af mér núna, þar eð margföld
eymd hefir mætt mig, þá vonar mig samt að þú getir gizkað
þér til grassins, þegar þú sérð kólfinn. Satt er bezt að segja, að
þau Ares og Aþena gáfu mér áræði, og gerðu mig að berserk
til framgöngu. Þegar eg vildi vinna skaða óvinum mínum, og
eg hafði valið einhverja afburðamenn til að gera þeim launsátur,
þá horfði eg aldrei í lífsháskann, heldur stökk fram
fyrstur allra með spjót í hendi, og drap niður allt af óvinunum,
sem ekki gat forðað sér á hlaupi. Slíkur bardagamaður var eg.
Ekki var eg fyrir landvinnu eða búsýslu, sem gerir þau efnilegu
börn svo þroskaleg. Eg hafði jafnan gaman af árbúnum
skipum og orustum, velsköfnum spótum og örvum; þetta, sem
er hræðilegt í sér, og öðrum stendur ógn og ofboð af, var mín
skemmtan; og hefir guð víst gert mig svo lyndan, því ýmsum
láta ýmsar iðnir. Áður en synir Akkea fóru leiðangurinn til
Trójulands, hafði eg níu sinnum farið í víking, og ráðið fyrir
mönnum og örskreiðum skipum; fórst mér allt vel úr hendi,
valdi eg af óskiptu herfangi slíkt er mig lysti, og fékk mikið
fé síðar í hlutskipti mitt; varð eg brátt velmegandi, og gjörðumst
eg þaðan af höfðingi mikill og virðingamaður meðal Kríteyinga.
En er hinn háþrumandi Seifur hafði ráðið þessa ófagnaðarför,
er svo mörgum manni varð að tjóni, þá báðu menn mig
og hinn fræga Idomeneif að gerast fyrirliðar á herskipum og
fara til Ilíonsborgar; skoraði alþýða svo fast á okkur, að enginn
vegur var undan að akast. Vér synir Akkea héldum þar
ófrið í níu ár, en á tíunda árinu lögðum vér borg Príamuss í
eyði, og sigldum heim síðan; dreifði guð þá Akkeum víðs vegar.
En hinn ráðvísi Seifur bjó mér, vesælum manni, nýja mæðu,
því eg undi ekki nema einn mánuð heima að búi mínu hjá
börnum mínum og eiginkonu; en þegar hann var liðinn, fýsti mig
að sigla til Egyptalands með vel útbúin skip og einvala lið;
bjó eg nú níu skip, og söfnuðust menn brátt að mér.
249 Þar eftir sátu mínir kæru félagar í sex daga að veizlum,
en eg lagði til margt sláturfé, bæði til blóta handa goðunum og
til borðhalds handa förunautum mínum. Á sjöunda degi stigum
vér á skip, og sigldum frá hinni víðlendu Krítarey í hvössum
landnyrðingi fagran byr svo greiðlega, sem forstreymis væri;
lestist ekkert skip fyrir mér, og öngvum af oss varð meint eða
krankt, sátum vér kyrrir, en vindur og skipstjórnarmennirnir
réðu stefnunni. Á fimmta degi komum vér til hins fagurrennanda
Egyptafljóts, og lagði eg hinum borðrónu skipum upp í
fljótið. Nú bað eg mína kæru förunauta að vera kyrra við
skipin, þar sem vér höfðum tekið land, og gæta skipanna, en
sendi menn upp á leiti á njósn. En með því þeir létu ofstopann
við sig ráða og fylgdu fýsn sinni, þá tóku þeir brátt til að
eyða hina fögru akra Egyptalandsmanna, ræna konum og ungbörnum,
og drepa karlmannafólkið. Nú barst herópið fljótt til
borgarinnar; og er borgarmenn heyrðu hljóðið, komu þeir
undireins og lýsti af degi, og var þá hverr völlur þakinn fótgöngumönnum
og vagnaliði og leiftranda málmi. Hinn þrumuglaði
Seifur kom þá illum flótta í lið mitt, og þorði enginn
af mínum mönnum að veita viðnám, því háskinn var á allar
hendur; drápu þeir þar marga menn af oss með beittum eirvopnum,
handtóku suma, og leiddu á land upp í ánauð. Þá
lét Seifur mér eitt ráð til hugar koma; og hefði betur verið,
að eg hefði legið þar dauður í Egyptalandi, því ný ógæfa lá
enn fyrir mér. Eg brá fljótt við, tók hinn velgerða hjálm af
höfði mér og skjöld af herðum, og kastaði spjótinu úr hendi
mér, gekk svo á móti vagni konungs, tók um kné hans og
kyssti, en hann aumkvaðist yfir mig, og gaf mér grið, lét mig
upp í vagn sinn, og flutti mig grátanda heim til sín. Margir
af mönnum hans vildu þá ráðast að mér með eskispjótum, og
vinna á mér, því þeir vóru orðnir ævareiðir; en hann lét þá
ekki ná að gera það, því hann óttaðist reiði Seifs, sem er
verndargoð gesta og hefnir strengilega illverkanna. Síðan var
eg þar í sjö ár, og græddi mikið fé hjá Egypzkum mönnum, því
allir greiddu fyrir mér.
287 En þegar hið áttunda ár bar að hendi, þá kom þar
Feniskur maður nokkur, hann var svikari og skelmir og gerði
mönnum oft margt illt. Hann gat talað mig upp með fláræði
sínu til að verða sér samferða til Feníkalands, þar sem hann
átti hús og eignir. Eg var þar hjá honum árlangt. En er mánuðir
og dagar vóru liðnir, árið komið í kring, og ný misseri
gengu í garð, lét hann mig á skip, sem átti að fara til Libýju,
og laug því til, að eg ætti að hjálpa honum til að ferma, en
ætlaði að selja mig þar mansali, og fá fyrir mig mikið verðkaup.
Eg fór nauðugur með honum á skipunum, og grunaði
mig þó margt. Skipið hljóp í hvössum landnyrðingi, fögrum
byr, miðleiðis fyrir ofan Krítarey. Þá bjó Seifur skipverjum
mannskaða; því þegar vér vórum komnir í hvarf frá Krítarey,
og hvergi sást til landa, og ekki nema himinn og haf, þá lét
Kronusson svartan skýmokk upp stíga uppi yfir hinu rúmgóða
skipi, og varð dimmt á sjónum, þar sem mokkurinn var yfir.
Í sama vetfangi þrumaði Seifur, og kastaði reiðarslagi á skipið,
en það hringsnerist allt, og fylltist brennusteini, þá það varð
lostið af reiðarslagi Seifs; féllu skipverjar þá útbyrðis, og veltust
í bylgjunum umhverfis hið svarta skip, eins og krákur, og lét
guð þeim ekki heimkomu auðið verða. En þegar eg var í
þessum nauðum staddur, lét sjálfur Seifur hið geysistóra siglutré
hins stafnbláa skips berast upp í hendur mér, til þess eg
enn skyldi af komast úr lífsháska; hélt eg mér þá utan um
siglutréð, og hraktist svo í fárviðrinu.
314 Eg hraktist í níu daga, en tíunda daginn skolaði stórsjórinn
mér í náttmyrkri upp að Þesprótalandi. Þar tók öðlingurinn
Fídon, Þespróta konungur, á móti mér, og vildi ekkert
lausnargjald fyrir hafa; því son hans hafði borið þar að, sem
eg lá yfirkominn af þreytu og morgunkulda: hann rétti mér
hönd sína, reisti mig á fætur, og leiddi mig heim, unz hann
kom til hallar föður síns, og fékk mér klæði til að vera í,
bæði yfirhöfn og kyrtil.
321 Þar frétti eg til Odysseifs, kvaðst Fídon hafa hýst hann
og tekið honum vinsamlega á heimleið hans til síns föðurlands.
Hann sýndi mér alla þá fjárhluti, sem Odysseifi höfðu bætzt,
eir og gull og seigunnið járn. Hann hefði getað fætt annan
mann til, allt fram á tíunda mannsaldur; svo vóru þær gersemar
margar, sem hann átti í geymslu í herbergjum konungsins.
Kóngur kvað hann ferðazt hafa til Dódónu, til þess að
heyra undan enu hálaufgaða eikitré guðsins, hvaða ráð Seifur
legði til, hvort hann skyldi koma heim til hins frjóvsama
Íþökulands eftir svo langa útivist á allra manna vitorði eða
leynilega. Hann sór og, svo eg sjálfur heyrði, þegar hann dreypti
dreypifórn í höllinni, að skipið væri fram sett, og menn til
ferðar ráðnir, sem þá skyldu flytja hann heim í sitt kæra föðurland.
En mig lét hann frá sér fara áður; því svo stóð á, að
eitt skip, sem Þesprótar áttu, ætlaði til hinnar hveitifrjóvu
Dúlikseyjar; bauð konungur þeim að flytja mig þangað til
Akastuss kóngs, og bað mér allra virkta. En þeir höfðu illt
ráð með höndum við mig, til þess eg enn skyldi rata í háskalega
ógæfu. Því þegar hafskipið var komið langt undan landi, þá
tóku þeir saman ráð sín að gera mig að ánauðugum þræli. Þeir
færðu mig úr yfirhöfninni og kyrtlinum, sem eg var í, og köstuðu
yfir mig vondri flík og kyrtli, sem hvorttveggja var götótt;
það eru nú spjarirnar, sem þú sérð á mér. Þeir komu um kvöld
til ens víðsýna Íþökulands; bundu þeir mig þá fast á hinu
þóftusterka skipi með harðsnúnum kaðli, en stigu sjálfir á
land í skyndi, og tóku kvöldverð á sjávarströndinni. En guðirnir
leystu sjálfir fyrirhafnarlaust þann fjötur, sem á mig var
lagður; vafði eg þá flíkinni um höfuð mér, fór ofan með hinu
heflaða stýri, lagðist á sjóinn á grúfu, og greip báðum höndum
til sunds, og bar mig skjótt í hvarf frá þeim. Eg sté á land,
þar sem var runnur nokkur í einum blómlegum skógi, kraup
þar niður, og lá þar. Þeim sárnaði, og fóru að svipast eftir mér,
en af því þeim þókti ekki ráðlegt að leita langt, stigu þeir
aftur á hið rúmgóða skip. En sjálfir guðirnir leyndu mér, og
var þeim það auðvelt; síðan leiddu þeir mig heim að bæ
viturs manns, því mér á enn að verða lengra lífs auðið.
360 Evmeus svínahirðir svaraði honum og sagði: „Allmikill
raunamaður ertu, gestur, og mjög rennur mér til rifja allt það,
er þú segir frá raunum þínum og hrakningum. En hitt er
grunur minn, að það sem þú segir frá Odysseifi muni ei allskostar
satt, og þyki mér það allótrúlegt. Hvað viltú, gamall
maðurinn, vera að skrökva því, sem engin er tilhæfa til? Mér
er sjálfum fullkunnugt, hvað um heimför hússbónda míns
líður, að allir guðirnir hafa lagt á hann allþunga reiði, þar
sem þeir ekki hafa látið hann falla í Trójulandi, eða deyja í
vina höndum að afloknu stríðinu. Því ef svo hefði farið, mundi
alþjóð Akkea hafa orpið haug eftir hann, og þá mundi hann
einnig hafa aflað syni sínum mikillar frægðar eftir sinn dag.
En nú hafa Sviptinornirnar hrifið hann í burtu voveiflega, svo
orðstír hans er enginn uppi. Eg sit hérna yfir svínunum, afskekktur
frá öðrum mönnum, og ekki kæmi eg til borgarinnar,
nema hin vitra Penelópa segði mér að koma, þegar einhver
fregn bærist einhverstaðar að. Setjast menn þá hjá mér og
spyrja mig tíðinda, bæði þeir sem harma af langri burtveru
hússbóndans, og eins þeir sem hafa gaman af því að eta upp
eigur hans bótalaust. En mér er orðið leitt að forvitnast um
fréttir og spyrja tíðinda, síðan Etólski maðurinn laug að mér.
Hann hafði vegið mann, og farið farflótta víða um lönd; hann
kom til húsa minna, og tók eg við honum báðum höndum.
Hann kvaðst hafa séð Odysseif hjá Idomeneifi í Krítarey vera
að bæta skip sín, sem brotnað höfðu í ofviðri, og kvað hann
koma mundu annaðhvort að næsta sumri, eða þá að næsta frumhausti,
með sína ágætu félaga, og hafa með sér mikla fjárhluti.
Fyrst guð hefir látið þig, raunamæddi gamli maður, bera að
húsum mínum, þá ræð eg þér að leita ekki hylli minnar með
ósannindum eða fagurgala; það er ekki fyrir þá skuld, að eg
virði þig og tek þér vinsamlega, heldur af lotningu fyrir Seifi,
sem er verndargoð gestanna, og af meðaumkvun yfir sjálfum
þér.
390 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði: „Allmikil
tortryggni býr þér í brjósti, að eg skuli ei geta talið þig á
mitt mál eða komið þér til að trúa mér, þó eg hafi eið við
lagt. En látum oss nú gera þann samning okkar á meðal, og
skulu þeir guðir, sem á Ólympi búa, vera okkur til vitnis síðar
meir, að ef svo fer, að hússbóndi þinn komi í þetta hús, þá skaltú
gefa mér yfirhöfn og kyrtil til að vera í, og láta flytja mig til
Dúlikseyjar, því þangað vildi eg komast. En fari svo, að hússbóndi
þinn komi ekki, eftir því sem nú hefi eg sagt, þá skaltu
gera þræla til mín og láta steypa mér ofan af hávum kletti, til
að leiða öðrum fátæklingum að gabba menn“.
401 Hinn ágæti svínahirðir svaraði honum og sagði: „Þá
vænti eg, gestur, að eg fái fyrst lofið og orðstírinn hjá mönnum
bæði í bráð og lengd, ef eg býð þér fyrst inn í bæ minn
og geri þér greiða, en drep þig síðan og tek þig af lífi! Þá
vænti eg geti með fullu trausti heitið á Seif Kronusson til
hjálpar mér! En nú er mál komið að taka kvöldverð. Eg vildi,
að sveinar mínir kæmi sem fyrst heim, svo vér gætum búið
oss góðan kvöldverð hér í bænum“.
409 Þannig töluðust þeir við. Ekki leið á löngu, áður svínasmalarnir
komu heim með svínin; þeir byrgðu þau í þeim
stíum, sem þau vóru vön að liggja í; var allmikið gnauð í svínunum,
þegar þau vóru komin í stíurnar. Hinn ágæti svínahirðir
bauð þá sveinum sínum og sagði: „Færið hingað bezta svínið,
eg ætla að slátra því handa hinum útlenda gesti; skulum
vér og sjálfir gleðja oss með, því vér höfum langa armæðu
haft og margt illt þolað fyrir hin hvíttenntu svín, þar sem þó
aðrir menn eta það bótalaust, sem vér höfum alla fyrirhöfnina
fyrir“.
418 Að því mæltu klauf hann eldiviðinn með beittu eirtóli,
en þeir leiddu inn fimm vetra gamalt svín, næsta feitt, og
héldu því hjá eldstónni. Svínahirðirinn gleymdi ekki hinum
ódauðlegu guðum, því hann var góður maður: hann skar til
frumfórnar hárlokk af höfði hins hvíttennta svíns og kastaði
á eldinn, og hét á öll goð, að hinn vitri Odysseifur næði að
komast heim til sín. Síðan reiddi hann til höggs og laust svínið
með eikiskíði, sem hafði orðið afgangs, þá hann klauf viðinn;
svínið svæfðist, en hinir skáru það og sviðu, limuðu svo í
sundur. Þá skar svínahirðirinn blótbita af öllum limunum, og
lagði þá hráa ofan á hinn feita mör, sáði þar á bygggrjónum,
og lagði það svo á eldinn. Síðan brytjuðu þeir limina, stungu
stykkjunum upp á teina og steiktu gætilega, tóku svo öll stykkin
af teinunum, og létu þau öll saman á steikaraborðin. Svínahirðirinn
stóð þá upp til að skammta, því hann var réttsýnn
maður; hann deildi öllu slátrinu í sjö jafna hluti, tók einn
hlutinn, gerði bæn sína, og lagði hann fyrir Landvættirnar og
Hermes Majuson; síðan deildi hann hverjum sinn verð, en
Odysseifi veitti hann þá virðingu, að hann lagði fyrir hann
svínshrygginn, eins og hann var sig til, og gladdi með því hússbónda
sinn. Þá talaði hinn ráðagóði Odysseifur til hans og sagði:
„Eg vildi óska, Evmeus, að þú værir föður Seifi eins kær, eins
og mér þykir vænt um þig, fyrir það að þú sæmir mig, umkomulausan
mann, með góðum veitingum.“
442 Evmeus svínahirðir svaraði honum og sagði: „Et þú,
gestur sæll, og neyt þess, sem hér er fram reitt, það er eins og
eg á það til. Guð veitir eitt, og synjar um annað, allt eftir því
sem hans er vilji til, því hann megnar allt“.
446 Að því mæltu brenndi hann frumfórnina handa hinum
eilífu guðum, og er hann hafði dreypt hinu skæra víni, rétti
hann dreypikerið að Odysseifi borgabrjót, þar sem hann sat
við hinn deilda verð. Messálíus deildi þeim brauð; þann mann
hafði svínahirðirinn útvegað sér á eigin kostnað, meðan hússbóndi
hans var utanlands, án alls styrks frá drottningu eða
gamla Laertes; hafði hann keypt hann af Taffeyjarmönnum
fyrir sína eigin peninga. Þeir tóku nú til hins tilreidda matar,
er fram var settur; en er þeir höfðu satt lyst sína á mat og
drykk, bar Messálíus brauðið frá þeim. Skunduðu þeir svo til
hvílu, og vóru nú saddir af brauði og kjöti.
457 Um nóttina var illt veður og tunglsleysa, lét Seifur rigna
alla nóttina, og var á hvass útnyrðingur, sem jafnan er vætusamur.
Þá vildi Odysseifur freista svínahirðisins, og vita, hvort
hann mundi vilja fara af yfirhöfn sinni og ljá sér, eða þá
bjóða einhverjum sveina sinna að gera það, því Evmeusi var
mjög annt um gestinn. Odysseifur tók þá svo til orða: „Heyr
nú, Evmeus og allir þér sveinar! Eg ætla að segja nokkuð
mér til gildis, fyrst vínið hefir gjört mig öran; því oft hefir
vínið komið hyggnasta manni til að syngja mikið, hlæja hátt
og dansa; oft hefir það líka látið það orð um munn líða,
sem betur hefði verið ótalað. En fyrst eg einu sinni fór upp
úr með þetta, þá skal eg ekki láta það niður detta. Eg vildi
eg væri núna með sama ungdóms fjöri og með sömu kröftum
óskertum, eins og eg var, þegar vér eitt sinn fórum með flokk
upp að Trójuborg og gerðum þar launsátur. Þeir vóru fyrir
sátinni Odysseifur og Menelás Atreifsson, og eg var hinn þriðji
fyrirliði með þeim, því þeir höfðu mælzt til þess. Þegar vér
komum að borginni og hinum háva borgarvegg, lögðumst vér
niður í reyrgresi og veitu nokkura, þar sem vóru þéttir runnar
hjá bænum, og krupum þar undir vopnin. Næsta nótt var ill og
stormur á útnorðan með frost, en fjúk að ofan, kalt sem hrím,
og klakaði skjölduna. Allir menn aðrir en eg höfðu þar yfirhafnir
og kyrtla, sváfu í makindum og höfðu yfir sér skildina;
en eg hafði verið svo óforsjáll, þegar eg fór af stað, að skilja
yfirhöfn mína eftir hjá lagsmönnum mínum, því eg fortók, að
mér mundi verða kalt; fylgdist eg svo með, að eg hafði ekki
nema skjöld og fagurt brynbelti. En er lifði þriðjungur nætur
og stjörnurnar vóru komnar úr miðdegisstað, þá hnippti eg
olboganum í Odysseif, sem næstur mér lá, og vaknaði hann
skjótt við; sagði eg þá til hans: „Seifborni Laertesson, ráðagóði
Odysseifur! Eg held eg ætli ekki að halda lífinu lengur, kuldinn
bítur mig svo, því eg er yfirhafnarlaus; einhver óhamingja hefur
blekkt mig svo, að eg fór snöggklæddur heiman, svo nú hef
eg engin sköpuð ráð“.
490 Svo mælti eg, en honum kom þá eitt ráð í hug, því hann
var eins til úrræðanna, eins og hann var til framgöngunnar. Hann
sagði við mig, og hafði ofurlágt: „Þegi þú nú, svo enginn af
hinum Akkeum heyri til þín!“
494 Síðan reis hann upp við olboga, studdi hönd undir kinn,
og tók til orða: „Heyrið, vinir, mér birtist draumur í svefni,
sendur af guði. Heldur til langt höfum vér farið frá skipunum!
Fari nú einhverr, og segi hershöfðingjanum Agamemnoni
Atreifssyni til, svo hann geti sent hingað fleiri menn frá skipunum!“
499 Svo mælti hann, en Þóant Andremonsson reis þá upp
skyndi, lagði af sér guðvefjarskikkju sína, og hljóp af stað til
skipanna; en eg fór í yfirhöfn hans og lá í henni, þar til að
dagur ljómaði, og þá varð eg feginn. Eg vildi eg væri nú með
sama ungdóms fjöri og sömu kröftum óskertum, eins og eg
var þá! Þá mundi einhverr af svínasmölunum, sem hér eru
við húsin, ljá mér yfirhöfn, bæði af góðvilja sínum og virðingu
fyrir hraustum dreng; en nú fyrirlíta þeir mig, af því eg er í
vondum fötum“.
507 Evmeus svínahirðir svaraði honum og sagði: „Góð er
saga sú, sem þú hefir sagt frá, gamli maður, og engan hégóma
hefir þú talað, sem ekki heldur á að vera. Þessvegna skal þig
ekki klæði skorta í bráð, né nokkuð annað af því sem mótlættur
líknarmaður þarf að hafa. En á morgun skaltu aftur hypja
þig í spjarir þínar, því hér er ekki mikið til af yfirhöfnum eða
kyrtlum að hafa til skiptanna, ekki nema einn klæðnaður handa
hverjum manni“.
518 Að því mæltu spratt hann upp, setti rúm handa honum
nálægt eldinum, og lét þar í sauðagærur og geitskinn. Þegar
Odysseifur var lagztur þar, breiddi hann ofan á hann þykkva
og stóra yfirhöfn, sem hann hafði þar hjá sér til vara, að fara
í, ef eitthvert hræðilegt óveður kæmi á.
523 Þannig svaf Odysseifur þar, og sveinarnir hjá honum.
En svínahirðirinn vildi ekki hafa ból sitt þar inni, þar hann
þóttist þá vera oflangt frá svínunum. Hann bjó sig nú, því hann
ætlaði út; þótti Odysseifi vænt um, að hann hafði svo grandgæfilega
gát á eigum hann, meðan hann var í burtu. Fyrst varpaði
Evmeus beittu sverði um sínar þreknu herðar, fór síðan í
skjólgóða yfirhöfn, mjög þykkva, og lét þar utan yfir gæru
af stórri aligeit; því næst tók hann í hönd sér hvasst spjót, til
að verja sig með fyrir hundum og mönnum; gekk síðan af
stað, og ætlaði að liggja þar sem hin hvíttenntu svín kúrðu
undir einum hellisskúta í hlé við norðanáttinni.
[1230.png]
[1231.png]
FIMMTÁNDI ÞÁTTUR.
TELEMAKKUS KEMUR TIL EVMEUSS.
PALLAS AÞENA fór til hinnar landvíðu Lakedemonar
til að minna hinn fræga son hins hugstóra Odysseifs
á heimför sína, og reka á eftir honum að fara af stað.
Hún fann Telemakkus og hinn efnilega Nestorsson, þar sem
þeir hvíldu í framhúsinu í höll hins fræga Menelásar, svaf
Nestorsson væran svefn, en Telemakkusi kom ekki sætur dúr
á auga, því hann hafði miklar áhyggjur um föður sinn, sem
héldu vöku fyrir honum um nóttina.
9 Hin glóeyga Aþena gekk að honum, og sagði til hans:
„Telemakkus, nú hæfir þér ekki lengur að rekast langt í
burt að heiman, og skiljast við eigur þínar, og slíka ofstopamenn,
sem eru eftir í húsi þínu, að þeir ekki eyði fyrir þér
öllu fénu, og skipti því í milli sín, og farir þú svo ferðina til
ónýtis. Skora nú sem skjótast á hinn rómsterka Menelás um
fararleyfi, svo þú enn megir hitta þína góðu móður heima;
því faðir hennar og bræður eggja hana nú á að giftast Evrýmakkusi,
þar sem hann er stórgjöfulli en allir hinir biðlarnir,
og eykur enn meir og meir á brúðgjafirnar. Hrædd er eg því
um, að eitthvað fari það að forgörðum innanstokks, sem þú
vilt ekki missa. Þú veizt, hverninn konur eru skapi farnar: þær
vilja gjarna auðga hús þess manns, sem þær búa saman við,
en muna ekki framar til sinna fyrri barna eða bænda sinna,
sem dánir eru. Þú skalt því, þegar þú kemur heim, fá öll búráð
í hendur þeirri þernunni, sem þér þykir þar til bezt fallin,
og skal svo fram fara, þar til guðirnir vísa þér á það kvonfang,
sem þér er sómi að. Eitt er enn, sem eg vil segja þér, og sem
þú skalt hugfesta: þeir hraustustu af biðlunum sitja fyrir þér
með nægum liðstyrk í sundinu milli Íþöku og hinnar bröttu
Sámseyjar, og vilja drepa þig, áður en þú komist heim í föðurland
þitt. En eg kvíði því ekki; fyrr skal einhverr biðlanna,
sem nú eta upp eigur þínar, verða kominn undir græna torfu.
Þú skalt halda þínu traustsmíðaða skipi langt út frá eyjunum,
og sigla ekki nema á nóttum; en sá guðanna, sem gætir þín og
verndar þig, mun senda byr á eftir þér. Jafnskjótt og þú hefir
tekið land í Íþöku, skaltu senda skipið og alla förunauta þína
inn til borgarinnar, en sjálfur skaltu fyrst fara til svínahirðirsins,
sem gætir svína þinna, og er þér jafnan velviljaður. Þar
skaltu vera um nóttina, en svínahirðirinn skaltu senda inn til
borgarinnar, að segja hinni vitru Penelópu það í fréttum, að
hún hafi þig aftur heilan heimt, og að þú sért kominn frá
Pýlusborg“.
43 Að því mæltu fór hún upp til hins háva Ólymps; en
Telemakkus vakti Nestorsson af hinum væra svefni, og sagði:
„Vaknaðu Písistratus Nestorsson! farðu og beittu hinum einhæfðu
hestum fyrir vagninn, svo við komumst af stað!“
48 Písistratus Nestorsson svaraði honum: „Ekki tjáir, Telemakkus,
þó okkur sé annt um ferðina, að vera á ferð á náttarþeli;
það mun bráðum fara að morgna. Bíddu heldur við, þar
til öðlingurinn, hinn spjótfimi Menelás Atreifsson, kemur með
gestgjafirnar og lætur þær upp á vagn þinn, og kveður þig
blíðlega að skilnaði. Því hverr gestur man alla sína ævi til
gestgjafa þess, er veitir honum góðar viðtökur“.
56 Svo mælti hann, en vonum bráðar kom Morgungyðjan
Gullinstóla. Þá kom til móts við þá hinn rómsterki Menelás,
nýrisinn úr rekkju frá hinni hárfögru Helenu. En er öðlingurinn,
hinn kæri sonur Odysseifs, varð hans var, þá færði hann
sig fljótlega í skínanda kyrtil, og lagði stóra skikkju yfir sínar
þreknu herðar, fór fram, gekk til hans og sagði: „Seifborni
Menelás Atreifsson, þjóðhöfðingi! Gef mér nú orlof til heimferðar
í föðurland mitt, því nú langar mig til að komast heim“.
67 Hinn rómsterki Menelás svaraði honum: „Ekki mun eg
halda þér hér lengur, Telemakkus, fyrst þú ert orðinn heimfús;
aldrei líkar mér við þann gestgjafa, sem tekur manni fyrst með
miklum dáleikum, en sýnir sig síðan óvinveittan. Betra er að
hafa hóf í hverjum hlut. Sá kemur sér jafnilla, sem vísar gestinum
burtu, þegar hann vill vera, og hinn, sem heldur honum,
þegar hann vill fara. Bíð þú nú, þar til eg færi þér fagrar gjafir
á vagn þinn, svo þú getir skoðað þær sjálfur; en eg mun segja
konunum að tilreiða dagverð í höllinni af þeim nægtum, sem
til eru; veitir það bæði hugarkæti og hressingu að taka dagverð,
áður en maður byrjar langferð yfir land. En ef þú vilt
ferðast um Helluland og allt um Argverjaland, þá bíddu við,
eg skal fara með þér sjálfur og beita hestum fyrir vagn og
fylgja þér í byggðar borgir, og mun engi láta okkur tómhenda
burtu fara, heldur gefa okkur einhverja gjöf að skilnaði, annaðhvort
fallegan eirketil eða laugarfat, eða tvo múlasna, eða
gullker“.
86 Hinn vitri Telemakkus svaraði honum: „Seifborni Menelás
Atreifsson, þjóðhöfðingi! Mér er nú heldur í mun að fara
heim til mín, því þá eg fór heiman, skildi eg öngvan eftir til
að gæta eigna minna. Vera má, að eg týnist sjálfur, meðan eg
leita míns ágæta föður, eða þá að einhverr góður gripur hverfi
úr herbergjum mínum“.
92 En er hinn rómsterki Menelás heyrði þetta, bauð hann
þegar konu sinni og þernunum að efna til dagverðar í höllinni,
af þeim birgðum, er til voru innanhúss. Þá kom til móts við
hann Eteóneifur Bóetusson; hann bjó skammt frá honum; var
hann þá nýrisinn úr rekkju. Hinn rómsterki Menelás bað hann
kveikja upp eld, og steikja kjöt; og gjörði hann sem hann
bauð. Síðan gekk Menelás ofan í hinn ilmríka geymslusal, og
með honum þau Helena og Megapenþes. En er þau komu þar
sem gripirnir vóru, þá tók Atreifsson tvískál, en bað Megapenþes,
son sinn, koma með silfurskaftker. Helena gekk þangað sem
hirzlurnar vóru, átti hún þar allavegalita möttla, sem hún sjálf
hafði búið til; tók hin ágæta kona, Helena, upp einn af þeim,
og hélt á, var sá möttullinn stærstur og glitmestur, ljómaði eins
og stjarna, og lá neðstur af möttlunum. Síðan gengu þau fram
eftir höllinni, þar til þau komu til Telemakkuss; mælti þá
hinn bleikhári Menelás til hans: „Telemakkus, hinn háþrumandi
Seifur, verr Heru, láti heimferð þína ganga þér að óskum!
Nú vil eg gefa þér hinn fegursta og dýrmætasta menjagrip,
sem til er í húsi mínu; eg vil gefa þér vandað skaftker, allt
úr silfri, en barmarnir úr gulli gjörðir. Það er smíði Hefestusar,
en öðlingurinn Fedímus, konungur Sídonsmanna, gaf mér það,
þá eg gisti í húsi hans á ferð minni þangað. Þenna grip vil
eg gefa þér“.
120 Að því mæltu rétti öðlingurinn Atreifsson að honum
tvískálina, en hinn sterki Megapenþes setti fyrir framan hann
hið ljómandi silfurskaftker, sem hann hélt á. Þá gekk hin kinnfagra
Helena til hans, hún hélt á möttli, tók til orða og sagði:
„Eg gef þér og þessa gjöf, sonur kær, til minningar um hannyrðir
Helenu. Skal kona þín bera þenna búning á hinum eftirþreyða
brúðkaupsdegi sínum, en þangað til skal hann vera
geymdur í höllinni hjá þinni kæru móður. Óska eg nú, að
þú komist ánægður til þíns velbyggða húss og til föðurlands
þíns“.
130 Að því mæltu fékk hún honum möttulinn, en hann
tók við, og þótti vænt um; síðan tók öðlingurinn Písistratus við
gripunum, skoðaði þá alla með undrun, og lagði þá niður í
vagnlaupinn.
133 Hinn bleikhári Menelás leiddi þá nú inn í stofu, og
settust þeir þar á legubekkina og hástólana. Þá kom ein herbergismær
með handlaug í fallegri vatnskönnu úr gulli og hellti
á hendur þeim yfir silfurfati, að þeir þvæði sér; þá setti hún fram
skafið borð; en hin heiðvirða matselja kom með brauð, og
lagði fyrir þá; hún lét og til nógan mat, og veitti fúslega það
sem til var. Bóetusson var þar hjá, skar kjötið og skammtaði, en
sonur hins fræga Meneláss skenkti vínið. Tóku þeir nú til hins
tilreidda matar, er fram var settur.
143 En er þeir höfðu satt lyst sína á mat og drykk, fóru þeir
Telemakkus og hinn efnilegi Nestorssonur, og beittu hestunum
fyrir, og stigu svo upp í hinn fjölskreytta vagn, óku síðan fram
úr fordyrinu og hinum ómanda svölugangi. Hinn bleikhári
Menelás Atreifsson gekk á eftir þeim, og hélt í hægri hendi á
gullkeri með ljúffengu víni handa þeim til að dreypa dreypifórn,
áður en þeir færi af stað. Hann stóð fyrir framan vagninn,
kvaddi þá og sagði: „Farið vel, sveinar, og berið þjóðhöfðingjanum
Nestor kveðju mína, því hann var mér góður, eins
og hann væri faðir minn, alla þá stund er vér, synir Akkea,
herjuðum í Trójulandi“.
154 Hinn vitri Telemakkus svaraði honum: „Seifborni konungur!
Gjarnsamlega skulum við skila öllu þessu til hans, sem
þú segir, þegar við komum þangað. Eg vildi óska, að eg gæti
eins sagt við Odysseif heima, þegar eg er kominn aftur til
Íþöku, að eg komi nú frá þér, og hafi fengið hjá þér ástalegustu
viðtökur, og hafi meðferðis margar ágætar gersemar“.
160 Þá hann hafði þetta sagt, bar þar að fugl, sem flaug til
hægri handar honum, út úr forgarðinum; það var örn, og hélt
í klónum á hvítri heimgæs ákaflega stórri, en karlar og konur
hlupu á eftir henni með óhljóðum. En er örnin nálgaðist þá,
þaut hún til hægri handar fyrir framan vagninn. En er þeir
sáu hana, urðu þeir glaðir, og hýrnaði öllum hugur í brjósti.
Þá tók Písistratus Nestorsson fyrstur til máls: „Seifborni Menelás,
þjóðhöfðingi! Seg mér, hvort guð hefir sent okkur báðum þenna
fyrirboða, eða þér einum“.
169 Svo mælti hann, en hinn hervani Menelás hugsaði sig
um, svo hann mætti svara honum af skynsemi því sem rétt
væri; en hin síðmöttlaða Helena varð fyrri til orðs, og sagði:
„Heyrið hvað eg segi, eg ætla nú að spá, eins og hinir ódauðlegu
guðir blása mér í brjóst, og eins og eg hygg að eftir muni
ganga. Eins og þessi örn kom ofan af fjalli, þar sem hún á
hreiður og unga, og hremmdi heimgæsina: eins mun Odysseifur
heim koma eftir afstaðnar margar mannraunir og hrakninga,
og hefna sín; ellegar hann er nú þegar heim kominn, og
er að upphugsa eitthvað öllum biðlunum til meins“.
179 Hinn vitri Telemakkus svaraði henni: „Veiti það hinn
háþrumandi Seifur, verr Heru, að svo verði! Þá skal eg og
heita á þig heima, eins og þú værir ein af gyðjunum“.
182 Þá hann hafði þetta sagt, lagði hann svipunni á hestana,
urðu þeir þá ólmir og stukku mjög frálega gegnum borgina
og út á völlinn, og skóku okið allan daginn á hálsum sér.
185 Nú rann sól, og skugga brá yfir alla vegu, en þeir komu
til Feruborgar að húsi Díókless Orsílokkssonar, Alfeussonar;
þar voru þeir um nóttina, og gaf hann þeim gestgjafir.
189 En er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í ljós,
beittu þeir hestunum fyrir, stigu upp í hinn fjölskreytta vagn,
og óku fram úr fordyrinu og hinum ómanda svölugangi. Þá
keyrði hann hestana til hlaups, en þeir tóku á rás og voru viljugir,
og komust þeir skjótt til hinnar hávu Pýlusborgar.
194 Þá sagði Telemakkus við Nestorsson: „Eg vildi, Nestorsson,
að þú hétir nú að gera bón mína. Við höfum ávallt verið
gestfélagar, því feður okkar vóru vinir; þar að auki erum vér
jafnaldrar, og ferðalag þetta gerir okkur enn þá samrýndari.
Skildu mig hér eftir, konungsson, en farðu ekki með mig
framhjá skipinu. Eg er hræddur um, að hinn aldraði maður
(Nestor) haldi mér af gestrisni í höll sinni, þó mér sé það
nauðugt, því mér liggur á að komast fljótt heim“.
202 Svo mælti hann; en Nestorssonur hugsaði sig um, hverninn
hann mætti verða við bón hans, sem skylt var. Honum kom
þá eitt til hugar, sem honum þótti bezt: hann snéri hestunum
fram að sjá til hins fljóta skips, tók þar upp hinar fögru gjafir,
klæðin og gull það er Menelás hafði gefið honum, og lét þær
í skutstafn skipsins. Síðan rak hann eftir honum, talaði til hans
skjótum orðum og sagði: „Gakk nú snarlega á skip og kalla
á förunauta þína, áður en eg verð kominn heim og segi gamla
manninum frá. Því þar er eg handviss um, að eins ákaflyndur
og hann er, mun hann ekki sleppa þér, heldur mun hann
koma hingað sjálfur til að bjóða þér heim, og hygg eg, að hann
fari ekki erindisleysu, því hann mun verða stórreiður.
215 Að því mæltu keyrði hann hina faxprúðu hesta og hélt
aftur til borgar Pýlusmanna, og kom skjótt heim til hallarinnar.
217 Telemakkus kallaði nú til förunauta sinna og mælti.
„Hagræðið nú, félagar, öllum farvið og reiða á enu svarta
skipi, förum svo upp í sjálfir, og höldum áfram ferð vorri“.
220 Svo mælti hann, en þeir gerðu sem hann bauð, stigu
þegar upp í og settust á þófturnar.
222 Meðan hann var að láta búa skipið, baðst hann fyrir, og
færði Aþenu fórnir hjá skutstafni skipsins. Þá kom til hans útlendur
maður, hann fór útlægur frá Argverjalandi fyrir það,
að hann hafði vegið mann; hann var spámaður, og kominn af
ætt Melampuss. Melampus bjó fyrst í hinni sauðauðugu Pýlusborg,
og var hann langauðugastur af búandi mönnum í Pýlusborg.
Þá fór hann í annað land, og flýði úr föðurlandi sínu fyrir
hinum stórhugaða Neleifi, sem var allra manna ríklundaðastur,
þeirra er uppi hafa verið, lagði hann hald á mikið af eigum
Melampuss, og hélt þeim í heilt ár. Allan þann tíma var
Melampus þungum viðjum bundinn í höll Fýlakuss, varð hann
megnar raunir að þola sökum dóttur Neleifs[* Peróar, sjá XI, 287.] og hinnar þungu
glæpsku, er hin óttalega Refsinorn hafði skotið í brjóst honum.
Þó gat hann umflúið Banagyðjuna, rak hann þá hin hábaulandi
naut frá Fýlöku til Pýlusborgar, hefndi ójafnaðarins á hinum
goðumlíka Neleifi, og flutti konuna heim til bróður síns.[** Bíants, er beðið hafði Peróar.]
Eftir það fór hann í annað land, og kom til hins hestauðuga
Argverjalands, því þar lá fyrir honum að búa og ráða yfir
mörgum Argverjum; þar kvongaðist hann, og byggði sér háreist
hús. Hann átti tvo sterka sonu, Antífates og Mantíus.
Sonur Antífatess var hinn hugstóri Oikles, en sonur Oikless
var bardagamaðurinn Amfíarás; honum unni Seifur Ægisskjaldi
og Apollon og veittu alls konar vinaratlot; og þó náði
hann ekki elliárum, heldur lézt í Þebu, vegna gjafa þeirra er
konu hans[* Erífýlu, sjá XI, 326-7.] voru gefnar. Synir hans vóru þeir Alkmeon og
Amfílokkus. En synir Mantíuss voru þeir Polýfídes og Klítus.
Morgungyðjan Gullinstóla nam Klítus burtu fyrir sakir fríðleiks
hans, til þess hann væri hjá þeim ódauðlegu guðum; en
Apollon gerði hinn hugstóra Polýfídes að hinum ágætasta spámanni
eftir dauða Amfíarásar. Polýfídes varð reiður föður sínum,
og flutti sig því burt til Hýperesíu, bjó þar síðan, og sagði
spár öllum dauðlegum mönnum. Það var sonur hans, sem hér bar
nú að, hann hét Þeóklýmenus ; hann gekk til Telemakkusar,
og hitti svo á, að hann var að dreypa dreypifórn og biðjast fyrir
hjá hinu örskreiða, svarta skipi. Hann talaði til hans skjótum
orðum og sagði: „Fyrst eg hitti þig, góður maður, að blóti á
þessum stað, þá bið eg þig í nafni blótsins og goðsins, og þar
næst í nafni sjálfs þíns og förunauta þeirra, er með þér eru:
seg mér satt frá því, sem eg spyr þig um, og leyn öngvu af:
hverr ertu og hvaðan? hvar áttu heima og foreldrar þínir?“
265 Hinn vitri Telemakkus svaraði honum: „Eg skal segja
þér satt þar frá, gestur! Ætt mín er í Íþöku, en faðir minn er
Odysseifur, sem mér er svo mikil eftirsjón að; en er nú dáinn
hryggilegum dauða. Þessvegna tók eg nú menn og skip, og
fór hingað til að spyrjast fyrir um föður minn, þar hann hefir
verið svo lengi í burtu“.
271 Hinn goðumlíki Þeóklýmenus svaraði honum: „Það
stendur líkt á fyrir mér, eg fór úr föðurlandi mínu, af því eg
hafði drepið einn af löndum mínum, en hann átti marga bræður
og vandamenn í enu hestauðuga Argverjalandi, er þar hafa
mikið vald yfir Akkeum. Þeir vildu fyrirkoma mér og drepa
mig, en eg komst undan þeim, og fer eg því landflótta, liggur
nú ei annað fyrir, en að flakka landa á milli. Tak mig nú á
skip þitt, fyrst eg kom farflótta á þínar náðir, svo óvinir mínir
drepi mig ekki, því eg hygg, að þeir séu hér á eftir mér“.
279 Hinn vitri Telemakkus svaraði honum: „Víst skal eg
ekki reka þig frá hinu jafnbyrða skipi, fyrst þú vilt fá far.
Kom með mér, þú skalt fá slíkar viðtökur á skipinu, sem vér
getum í té látið“.
282 Þá hann hafði þetta sagt, tók hann við eirspjóti hans af
honum, og lagði það í lyftingu hins borðróna skips, steig svo
sjálfur upp á hafskipið, og settist niður aftur í skipinu, og lét
Þeóklýmenus sitja hjá sér. Þá slógu menn skutfestum, en
Telemakkus kallaði til skipverja, og bað þá seglbúa, en þeir
brugðu skjótt við, hófu upp furutréð, settu það niður í hinn
hola siglubita, og bundu með stögum fram og aftur, drógu
síðan upp hin hvítu segl með velfléttuðum ólum. Hin glóeyga
Aþena sendi þeim hagstæðan byr, til þess að skipið hlypi sem
skjótast yfir hið salta vatn; datt þá byr á snögglega úr háa lofti.
Þeir sigldu framhjá Krúnum og enni straumfögru Kalkisá.[* Hvort tveggja sunnan á Elealandi.]
296 Nú rann sól, og skugga brá yfir alla vegu. Skipið rann
áfram í byrvindi Seifs, og stefndi á Feu,[** Bær og höfði norður á Elealandi, Castell Tomeso.] og fram hjá enu
helga Elealandi, þar sem Epear hafa yfirráð. Þá tók Telemakkus
stefnu á klakkeyjar,[*** Fyrir framan Akkelóusfljót í Akarnalandi.] og var hugsandi um, hvort hann mundi
undan stýra bananum, eða mundi hann feigur vera.
301 Þeir sátu nú að kvöldverði í bænum, Odysseifur og hinn
ágæti svínahirðir, og tóku hinir sveinarnir náttverð með þeim.
En er þeir höfðu etið og drukkið, sem þá lysti, tók Odysseifur
til máls, og vildi freista, hvort svínahirðirinn mundi vilja veita
sér lengur gestbeina og lofa sér að vera þar í bænum, eða mundi
hann vísa sér til borgarinnar: „Heyr nú, Evmeus, og þér sveinar!
Mig langar til að fara til borgarinnar á morgun að biðja
að gefa mér, svo eg liggi ekki uppi á þér og sveinum þínum.
Legðu mér nú einhver góð ráð, og ljáðu mér góðan fylgdarmann,
sem leiði mig þangað; en eg mun verða að flakka einn
um borgina, og vita, hvort nokkur vill víkja mér vínsopa eða
brauðbita. Mig langaði til að koma í garð hins ágæta Odysseifs,
og segja hinni vitru Penelópu eitthvað í fréttum. Þá vildi eg og
koma á fund hinna yfirgangssömu biðla, og vita, hvort þeir
vilja gefa mér málsverð, því þeir hafa ógrynni af mat. Brátt held
eg gæti orðið dugandi vinnumaður hjá þeim, hvað sem þeir
vildu gjöra láta. Því eg skal segja þér fyrir satt, taktu nú eftir
og hlustaðu til: Hermesi sendiguð, sem veitir veg og frama fyrirtækjum
allra manna, honum er svo fyrir þakkandi, að enginn
maður skal þurfa að reyna sig við mig til verknaðar, hvorki til
að hlaða laglega bál, kljúfa þurr skíði, brytja og steikja kjöt,
eða skenkja vín, sem eru þau verk, er minni háttar menn eru
vanir að vinna fyrir heldra fólk“.
325 Evmeus svínahirðir varð mjög fár við, og sagði: „Æ,
hví kemur þér þessi ætlun í hug, gestur? Þig langar víst til að
bíða bana þinn í borginni, er þú vilt ganga í flokk biðlanna,
þar sem yfirgangur þeirra og ofríki nær allt upp til ens járnsterka
himins (þ.e. gengur fjöllunum hærra). Þeir eru ólíkir
sveinar þeir, er þjóna undir þá: þeir eru ungir, ganga á góðum
yfirhöfnum og kyrtlum, höfuð þeirra og fríða andlit eru sígljáandi
af smyrslum, en sléttskafin borð eru hlaðin af brauði og
keti og víni. Vertu heldur kyrr; því enginn amast við þér hér,
hvorki eg né nokkur sveina minna. En þegar Odysseifs kæri
sonur kemur, mun hann bæði gefa þér yfirhöfn og kyrtil til
að vera í, og láta flytja þig, hvort sem þér leikur hugur á að
komast.
340 Hinn þolgóði, ágæti Odysseifur svaraði honum: „Eg vildi
óska, Evmeus, að þú værir föður Seifi eins kær, eins og mér
þykir vænt um þig, fyrir það, að þú hefir létt af mér hrakningi
og mikilli vesöld. Því enginn hlutur er armæðufyllri fyrir
dauðlega menn en hrakningurinn; og þeir menn, sem eru á
hrakningi og eiga í bágindum og vesöld, verða oft illar raunir
að þola sökum þess aumlega hungurs. En fyrst þú vilt halda
mér og láta mig bíða hans, þá láttu sjá, segðu mér frá móður
hins ágæta Odysseifs, og frá föður hans, er hann skildist við,
þá hann fór heiman, kominn að gamals aldri; segðu mér,
hvort þau eru enn á lífi í sólarljóss heimi, eða þau eru nú
dáin og komin niður í Hadesar heim?“
351 Hinn fyrirmannlegi svínahirðir svaraði honum: „Eg skal
segja þér satt frá þessu, gestur. Laertes er enn á lífi, en ávallt
biður hann Seif, að líf sitt megi burtu líða þar á sjálfs hans
heimili; harmar hann sárlega hvarf sonar síns, og lát sinnar
fróðhuguðu eiginkonu; féll honum það sárast, er hún dó, og
það gerði hann ellihruman, áður en hann hafði aldur til. En
hún dó hryggilegum dauða, hún dó af sorg eftir hinn fræga
son sinn. Eg vildi óska þess, að enginn í þessu landi, sem mér
er kær og vinveittur, hreppti slíkan dauða. Meðan hún var á
lífi, enn þótt hún alltaf væri syrgjandi, þá hafði eg gaman af
að forvitnast og spyrja eftir ýmsu, því hún uppól mig ásamt
með dóttur sinni, hinni rösklegu, síðmöttluðu Ktímenu, sem
var yngst barna hennar; með henni ólst eg upp, og hafði litlu
minna yfirlæti af móður hennar en hún sjálf. Þegar við vorum
bæði orðin frumvaxta, giftu þau hana burt til Sámseyjar, og
fengu svo mikið brúðfé, að seint er að telja. En mér gaf hún
mjög fallegan klæðnað, yfirhöfn og kyrtil, og skó á fæturna,
og lét mig fara út á landsbyggðina, því hún unni mér hugástum.
Þó eg nú ekki njóti þessa lengur, þá láta þó hinir sælu guðir
mér vel lánast þá iðn, sem eg legg stund á; þaraf hefi eg fengið
fæði og drykk, og nokkuð til að víkja þurfamönnum. En af hússmóðurinni
er til engra vinarhóta að ætla, hvorki til orða né
atlota, síðan sá ófögnuður kom yfir konungsgarðinn, að ofstopamennirnir
verða þar innligsa. En þrælar vilja gjarna tala við
hússmóðurina sjálfa, þeir vilja spyrja hana að ýmsu, fá hjá henni
að eta og drekka og nokkuð til að hafa með sér út á landsbyggðina;
slíkt á jafnan vel við þræla“.
380 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði: „Sér
er hvað! Þú hefir þá verið eitthvað ungur, Evmeus svínahirðir,
þegar þú flæktist langt í burt frá föðurlandi þínu og foreldrum!
Gjör nú svo vel, seg mér og inn með sannindum: var hin strætabreiða
borg, sem þau bjuggu í faðir þinn og hin heiðvirða
móðir, lögð í eyði? eða rændu víkingar þér, þar sem þú sazt
einmana að sauðum eða nautum, fluttu þig til skipa sinna, og
seldu þig til heimilis þessa manns fyrir fullt andvirði?“
389 Hinn fyrimannlegi svínahirðir svaraði honum: „Með
því þú spyr mig og forvitnast eftir þessu, gestur, þá sittu kyrr
og taktu eftir, og skemmtu þér og drekktu vínið, því nætur
um þetta leyti eru endalausar, bæði má sofa og eins má hlýða á
frásögur sér til skemmtunar; og ekki þarft þú að ganga til
hvílu, fyrr en háttatími er kominn; mikill svefn er og aldrei
hollur. Hverr hinna, sem vill, má ganga út og fara að sofa,
en undir eins og lýsir af degi, verður hann að taka dagverð
og fylgja svínum hússbóndans. Við tveir skulum drekka hér
og sitja að mat inni í bæ, og skemmta okkur með því að segja
hvorr öðrum raunir okkar, því hverr maður, sem margt hefir
reynt, og víða flækzt, hann hefir jafnvel gaman af raunum
sínum eftir á. Nú vil eg segja þér frá því, sem þú spurðir mig
að, og þér er forvitni að heyra.
403 Sírey heitir ey nokkur, sem þú munt hafa heyrt um
getið, hún er fyrir ofan Ortygíu; þar eru sólhvörfin; þessi ey
er ekki fjölbyggð, og er þó góð ey, þar er beitarland gott og
sauðland, vínland og hveitiland. Þar kemur aldrei hallæri í
land og ekki gengur þar heldur nein skæð sótt manna á meðal,
því þegar mannfólkið tekur til að eldast í byggðinni, þá kemur
Appollon Silfrinbogi og Artemis með honum, ráðast þau að
mönnunum og bana þeim með sínum þýðu skeytum. Þar eru
tvær borgir, er skipt hafa til jafns milli sín allri eyjunni, var
faðir minn konungur yfir báðum þessum borgum, hann hét
Ktesíus Ormenusson, og var áþekkur hinum ódauðlegu guðum.
Einu sinni komu þar nokkurir feniskir menn við land,
þeir voru frægir sjóferðamenn; þessir menn voru svikarar, og
höfðu á skipi sínu svo mikið af glysi og glingri, að ekki varð
tölu á komið. Á heimili föður míns var kona nokkur fenisk,
hún var fríð sýnum, mikil vexti, og hannyrðakona mikil. Þessa
konu glöptu hinir brögðóttu Feníkar. Einu sinni þegar hún var
að þvotti nálægt skipi þeirra, átti fyrst einn af þeim samlag
við hana og ástarhót; tæla þeir hlutir hugi margrar konu, enda
þó góð kona kunni að vera. Síðan spurði hann hana, hver
hún væri og hvaðan hún kæmi. Hún sagði þegar, hvar faðir sinn
ætti heima. „Eg er frá hinni eirsettu Sídonsborg“, sagði hún,
„og dóttir hins vellauðuga Arýbants. Víkingar nokkurir frá
Taffey ræntu mér, þá eg kom af akri, fluttu mig svo hingað
og seldu mig til heimilis þessa manns, og galt hann fullt verð
fyrir mig“. Maðurinn, sem hafði haft samlag við hana leynilega,
sagði til hennar: „Viltu nú ekki fylgjast með okkur heim
aftur, til að sjá heimkynni föður og móður, og finna foreldra
þína? því þeir eru enn á lífi, og eru kölluð vel fjáð“. Konan
svaraði honum og sagði: „Það má og vel vera, ef þér skipverjar
viljið festa með eiði, að þér skuluð koma mér heilli
heim“. Svo mælti hún, en þeir sóru allir, eins og hún mæltist
til. En er þeir höfðu svarið og unnið fullan eið, þá svaraði
konan þeim og sagði: „Látið nú hljótt um yður, og tali enginn
af félögum yðar til mín orð, þó hann mæti mér, annaðhvort á
stræti, eða þá hjá vatnsbólinu; annars er eg hrædd um, að einhverr
fari heim til karlsins, og segi honum frá, fari hann svo
að gruna eitthvað, og láti setja mig í harðan fjötur, en ráði yður
bana. Látið heldur þessa ráðagjörð fara leynt, og flýtið yður
að kaupa inn landvöruna. En jafnskjótt og þér hafið fengið
fram á skip yðar af matvörum, þá skuluð þér skjótt gera mér
boð heim, skal eg þá koma með allt það gull, sem eg get
höndum yfir komizt. Þar að auki langaði mig til að fá yður
nokkuð annað í flutningskaup. Eg fóstra upp son göfugs manns
hér á heimilinu, hann er orðinn greindur vel, og svo stálpaður,
að hann er farinn að hlaupa út með mér. Þenna svein ætla eg
að hafa til skips með mér, getið þér fengið fyrir hann geysimikið
verð, hvert sem þér seljið hann til annarra landa“. Þá
hún hafði þetta sagt, gekk hún heim til hinna fallegu húsakynna.
En þeir vóru þar kyrrir hjá okkur allt liðilangt árið,
og keyptu inn mikið af matvörum á skip sitt. En er skipið var
hlaðið og ferðbúið, þá sendu þeir mann til konunnar, að láta
hana vita af. Þessi kyndugi maður kom til húsa föður míns,
hann hafði með sér hálsfesti, hún var úr rauðagulli, en kaflarnir
á milli af lýsigulli. Þernurnar í höllinni og mín heiðvirða móðir
handléku festina, skoðuðu hana, og buðust til að kaupa. Þá
benti hann konunni hljóðlega, og þegar hann hafði bandað
henni, gekk hann ofan til skips, en hún tók í hönd mér og
leiddi mig út úr herbergjunum. Í framhúsinu fann hún fyrir
sér borð með borðkerum, sem ætluð vóru þeim boðsmönnum,
sem þá vóru hjá föður mínum; vóru þeir þá gengnir út á
samkomu, þar sem lýðurinn var að tala málum sínum. Hún
laumaði í snatri þremur borðkerum undir kápulaf sitt, og hafði
þau burt með sér, en eg fylgdi henni í grannleysi. Þegar komið
var sólarlag, og farið var að bregða lit, komum við til hinnar
ágætu hafnar, þar sem hið örskreiða skip Feníkumanna lá, því
við gengum hratt. Síðan létu þeir okkur bæði upp í, stigu á
skip, og sigldu í haf; og sendi Seifur byr á eftir þeim. Vér
sigldum samfleytt sex dægur, nótt og dag. En er Seifur Kronusson
lét sjöunda daginn yfir koma, þá skaut hin örvumglaða
Artemis konuna, svo hún skall niður í austurinn, eins og veiðibjalla;
byltu þeir henni þá útbyrðis, svo hún yrði selum og
fiskum að bráð; en eg var einn eftir, í döprum hug. Vindur og
alda bar kaupmennina upp að Íþöku, og þar keypti Laertes mig
fyrir eigin fé. Svona leit eg fyrst augum þetta land“.
485 Hinn seifborni Odysseifur svaraði honum: „Sannarlega
hefir þú hrært mér hug í brjósti, Evmeus, með þessari sögu, sem
þú hefir nú sagt um allar þær raunir, er þér hafa til handa
borið. Þó hefir Seifur lagt þér bót með böli, þar sem þú komst
eftir margar þrautir afstaðnar til húsa góðs manns, sem veitir
þér góðfúslega mat og drykk, svo þú lifir góðu lífi. Eg þar á
móti er kominn hingað, eftir að hafa hrakizt um mörg byggðarlög
manna“.
493 Þannig töluðust þeir við, gengu síðan til hvílu, og sváfu
skamma stund, því ekki leið á löngu, áður dagur ljómaði.
495 Þá vóru þeir komnir undir land, menn Telemakkusar,
og vóru að leysa seglin; þeir tóku niður siglutréð í skyndi, og
réru skipinu upp í lendinguna, köstuðu stjóra, og bundu skutfestarnar,
stigu svo af skipi, og gengu á land, bjuggu þar til
dagverðar, og blönduðu hið skæra vín. En er þeir höfðu etið
og drukkið, sem þá lysti, þá tók hinn vitri Telemakkus svo til
máls: „Nú skuluð þér róa skipinu inn til borgarinnar, en eg
ætla að fara út á landsbyggðina til hjarðmannanna, geng svo
ofan í borgina í kvöld, þegar eg hefi séð yfir bú mitt, en á
morgun skal eg halda yður góða veizlu af kjöti og ljúffengu
víni, skal það vera ferðarkaup yðar“.
508 Hinn goðumlíki Þeóklýmenus svaraði honum: „Hvort
á eg að fara, sonur sæll? Hjá hverjum á eg að gista af höfðingjum
þeim, er vald hafa á hinni ósléttu Íþöku? eða á eg að
ganga rakleiðis til móður þinnar og í hús þitt?“
512 Hinn vitri Telemakkus svaraði honum: „Ef öðruvísi stæði
á, skyldi eg vísa þér heim til okkar, og skyldi þig ekki skorta
þar gestbeina. En það mundi verða lakara fyrir, sjálfan þig, því
hvorki verð eg við sjálfur, né heldur mun móðir mín koma á
fund þinn; hún lætur ekki biðlana sjá sig með jafnaði í
stofunni, heldur er hún langt í burt frá þeim uppi á lofti að
vefa. Eg vil heldur vísa þér á annan mann, sem þú getur
komið til, það er hann Evrýmakkus, hinn frægi son ens vitra
Polýbuss; Íþökumenn hafa hann nú í hávegum, eins og væri
hann einhverr af goðunum; hann er og allra manna ágætastur,
og stendur hans hugur helzt til að fá móður minnar, og ná metorðum
Odysseifs. En það veit hinn Ólympski Seifur, sem býr
í uppheimsloftinu, hvort hann ætlar að láta hinn illa dag koma
yfir þá á undan brúðkaupinu“.
525 Þá hann hafði sagt þetta, flaug fugl til hægri handar
honum, það var smyrill, hinn skjóti sendiboði Appollons; smyrillinn
hélt á dúfu í klónum, og var að reita af henni fiðrið, og
duttu fjaðrirnar til jarðar milli skipsins og Telemakkusar. Þá
kallaði Þeóklýmenus hann á eintal, greip um hönd hans, tók
til orða og sagði: „Þessi fugl hefir ekki flogið til hægri handar
þér, Telemakkus, án einhverrar sérlegrar ráðstöfunar guðs, því
eg sá það strax sem eg leit hann, að þetta var spáfugl. Engin
ætt í Íþökulandi stendur nær konungdóminum, en yðar ætt,
og mun ríkið alltaf haldast hjá yður“.
535 Hinn greindi Telemakkus svaraði honum: „Eg vildi
óska, gestur, að þetta rættist, sem þú segir! Þá skyldi eg brátt
launa þér svo með greiða og gjöfum, að hverr, sem yrði á vegi
fyrir þér, skyldi kalla þig lánsmann“.
539 Að því mæltu kallaði hann til Píreusar, síns trúa félaga:
„Píreus Klýtusson! Þú hefir verið mér eftirlátastur allra förunauta
minna, sem fóru með mér til Pýlusborgar. Leiddu nú
þenna gest heim til þín, og haltu hann vel og virðuglega, þar
til eg kem“. Hinn spjótfimi Píreus svaraði honum: „Þó þú
dveljir hér langa tíma, Telemakkus, þá skal eg halda þenna gest,
og láta hann öngvan beinleika skorta“.
547 Að svo mæltu gekk hann til skipsins, og sagði skipverjum
að fara upp í og slá skutfestum. Þeir stigu þegar á
skip og settust á þófturnar. Telemakkus batt fallega sóla undir
fætur sér, og tók úr lyftingunni sterkt spjót með beittri eirfjöður;
en þeir slógu skutfestunum, stjökuðu skipinu frá landi,
og sigldu til borgarinnar, eins og Telemakkus, hinn frægi sonur
hins ágæta Odysseifs, hafði sagt þeim.
555 Telemakkus gekk nú af stað, og fór hratt, þar til hann
kom að forgarðinum, þar átti hann fjölda svína, og þar var
hinn dyggi svínahirðir, sem var svo góðviljaður hússbændum
sínum, vanur að sitja hjá svínunum.
[1247.png]
[1249.png]
SEXTÁNDI ÞÁTTUR.
TELEMAKKUS KANNAST VIÐ FÖÐUR SINN.
ÞEGAR með birtingu kveiktu þeir upp eld í bænum,
Odysseifur og hinn ágæti svínahirðir, og bjuggu til
dagverðar, og sendu svo smalana út í hagann með svínahjarðirnar.
Þá er Telemakkus kom að bænum, flöðruðu hinir
sígeyjandi hundar upp á hann, en geltu ekki að honum. Hinn
ágæti Odysseifur tók eftir því, að hundarnir voru að flaðra
upp á einhvern, og heyrði einhvern fótadyn. Hann talaði þá til
Evmeuss skjótum orðum: „Hér kemur víst einhverr vinur þinn
eða kunningi, Evmeus, því hundarnir flaðra upp á einhvern,
en gelta ekki, og líka heyri eg skóhljóð“.
11 Varla hafði hann sleppt orðinu, þegar hans kæri sonur
var kominn að fordyrinu. Svínahirðirinn varð forviða og spratt
upp, og borðkerin, sem hann blandaði í hið skæra vín, sluppu
úr höndum hans. Hann gekk út móti hússbónda sínum, kyssti
höfuð hans, bæði hans fögru augu og báðar hendur, og grét
fögrum tárum. Svo sem ástríkur faðir umfaðmar ástfólginn
einkason sinn, þá hann kemur heim úr fjarlægu landi á tíunda
ári, og hefir faðir hans marga hugraun þolað hans vegna: svo
faðmaði hinn ágæti svínahirðir Telemakkus allan og kyssti
hann sem væri hann úr helju heimtur. Hann talaði grátandi til
hans skjótum orðum: „Þar ertu kominn, Telemakkus, mitt
sæta ljós! Ekki hugsaði eg, þá er þú sigldir til Pýlusborgar, að
eg mundi sjá þig framar. Ger nú svo vel og gakk inn, sonur
sæll, svo eg megi hafa unun af því að horfa á þig, nýkominn
heim frá útlöndum. Þú kemur næsta sjaldan út á landsbyggðina
og til hjarðmannanna, heldur hefst alltaf við heima í borginni;
það er eins og það eigi svo vel við þig, að horfa upp á
hinn skaðvæna biðla grúa“.
30 Hinn greindi Telemakkus svaraði honum: „Svo skal
vera, faðir sæll! Eg átti erindi til þín hingað, bæði að sjá þig
sjálfan, og til að fá fréttir af móður minni, hvort hún er ennþá
kyr heima, eða annar maður hefir gengið að eiga hana, og
standi svo rekkja Odysseifs í einhverju horninu rúmfatalaus og
full með köngulóarvefi“.
36 Hinn fyrimannlegi svínahirðir svaraði honum: „Víst er
hún kyr í húsum þínum með stöðugu þolgæði, og líður svo
yfir hana mörg döpur nóttin og margur raunadagur, að hún
lætur ekki af gráti“.
40 Að því mæltu tók hann við eirspjóti hans, en Telemakkus
gekk inn, og steig yfir steinþröskuldinn.
42 Þá hann kom inn í húsið, veik Odysseifur, faðir hans, úr
sæti fyrir honum, en Telemakkus bað hann vera kyrran, og
sagði: „Sittu, gestur, eg get vel fengið sæti annarstaðar í bæ
mínum; hérna er maðurinn, sem getur búið mér sess“.
46 Svo mælti hann; gekk Odysseifur þá aftur til sætis, og
settist niður, en svínahirðirinn lét undir hann grænt lim og
breiddi þar ofan á sauðargæru, og þar settist hinn kæri sonur
Odysseifs á. Síðan setti svínahirðirinn fyrir þá diska með steiktu
kjöti, sem þeir höfðu leift daginn fyrir; hann fyllti í skyndi
karfir með brauð, og blandaði hunangsætt vín í viðvindilskeri,
settist svo sjálfur gengt hinum ágæta Odysseifi. Tóku þeir nú
til hins tilreidda matar, er fram var settur; en er þeir höfðu
etið og drukkið, sem þá lysti, þá talaði Telemakkus til hins
ágæta svínahirðirs: „Hvaðan er þessi gestur, sem hér er kominn
til þín, faðir sæll? hverninn fluttu skipverjarnir hann til Íþöku?
hvaða menn eru þeir? því ekki get eg ætlað, að hann hafi
komið hingað fótgangandi“.
60 Evmeus svínahirðir svaraði honum: „Eg skal segja þér
satt frá öllu þessu, sonur sæll: hann kveðst vera ættaður frá
hinni víðlendu Krítarey, segist víða hafa flækzt, og hrakizt um
mörg byggðarlög manna, því það hefir átt fyrir honum að liggja.
Hann strauk hingað af skipi Þespróta, og kom núna að bæ
mínum, og ætla eg nú að afhenda þér hann til ásjár. Gerðu,
sem þér líkar! en hann þykist nú vera líknarmaður þinn“.
68 Hinn greindi Telemakkus svaraði honum: „Tarna eru
slæmar fréttir, Evmeus! Hvernin á eg að geta tekið þennan gest
í hús mitt? Eg er sjálfur ungur, og treysti mér enn ekki til að
hrinda af mér, ef einhverr bekkist til við mig að fyrra bragði.
En móðir mín er á báðum áttum, hvort hún eigi að meta svo
mikils sæng bónda síns og orðróm alþýðu, að vera hjá mér
heima og annast búið, eða eigi hún að ganga með þeim
af Akkeum, sem göfgastur er, og hennar biður þar í höllinni,
og gefur henni flestar gjafir. En fyrst þessi gestur er kominn
til húss þíns, þá skal eg fá honum sæmileg klæði, yfirhöfn
og kyrtil, og gefa honum tvíeggjað sverð og sóla á fæturna, og
láta flytja hann hvert á land sem hann vill. En viljir þú hitt
heldur, þá láttu hann vera hér á bænum, og annastu hann
sjálfur, en eg skal senda hingað klæðin og allan mat honum
til fæðis, svo hann verði ekki þér til þyngsla eða sveinum þínum.
En ekki get eg leyft honum að fara til borgarinnar til biðlanna,
sem eru svo frekir og ofstopafullir; en hætt er við, að
þeir spotti hann, og mun eg hafa þar mikla skapraun af; eru
þeir miklu aflameiri, en eg, og má enginn við margnum, enn
þótt mikill sé fyrir sér“.
90 Hinn þolgóði, ágæti Odysseifur svaraði honum: „Ef eg
má leggja orð til, kæri, þá er mér mesta raun að, þegar eg heyri
ykkur geta um, að biðlar þessir skuli hafa slíkar óspektir í
frammi í höllinni, án þess að skeyta um þig, slíkur maður sem
þú ert. Seg mér, lætur þú kúgast viljandi, ellegar hatast landsfólkið
við þig, laðað af raust einhvers guðs? eða hefirðu
nokkuð að ásaka bræður þína um? sjá menn þar helzt til
trausts í bardögum, sem bræður eru, þegar stórar deilur rísa
upp. Væri eg eins ungur, og þú ert, og með því skapi, sem eg
hef, eða væri eg sonur hins ágæta Odysseifs, eða þá sjálfur
hann, þá mætti útlendur maður þegar í stað höggva höfuð af
mér, ef eg skyldi ekki ganga inn í höll Odysseifs Laertessonar,
og verða skaðamaður allra þeirra. Og þó þeir nú bæri mig einan
ofurliða, þá vilda eg heldur liggja dauður í sjálfs míns húsum,
en að horfa alltaf upp á þann ósóma, að gestir séu hraktir og
hrjáðir, að þeir dragi ambáttirnar um hin fallegu herbergi til
að smána þær, að víninu sé útausið í ógegnd, að þeir eti upp
matinn með frekju, skeytingarlaust og hóflaust, svo aldrei er
lát á“.
112 Hinn greindi Telemakkus svaraði honum: „Eg skal nú
segja þér, gestur, allt eins og er. Ekki er alþýða manna mér
óvinveitt eða mótsnúin; ekki hefi eg heldur tilefni til að ásaka
bræðurna, sem vel geta orðið manni að góðu trausti í bardögum,
og þá stórar deilur upp rísa. Því Kronusson hefir mjög
einskipað ætt vorri: Arkisíus átti engan son, nema Laertes,
Laertes ekki heldur neinn, nema Odysseif, og Odysseifur átti
öngvan, nema mig; og hann skildi mig, þann eina soninn, sem
hann átti, eftir í höllinni, án þess að hafa mín nokkur not. Þessvegna
er slíkur grúi illviljaðra manna orðinn innligsa í húsum
vorum. Því allir þeir höfðingjar, sem nokkurs eru ráðandi á eyjunum,
Dúliksey, Sámsey og hinni skógi vöxnu Sakyntsey, og
allir þeir, sem ríki hafa á hinni grýttu Íþöku, biðla til móður
minnar, og eyða búinu. En hún gerir hvorki að neita þessum
ráðahag, sem henni er þó mjög á móti skapi, né heldur getur
af sér fengið að ganga að honum; eyða þeir svo búi mínu með
ofneyzlu, og munu bráðum tortýna sjálfum mér, en þó ræður
mestu um, hvað guðirnir vilja vera láta. Far nú sem skjótast,
faðir sæll, og seg hinni vitru Penelópu, að hún hafi mig heilan
aftur heimt, og eg sé kominn frá Pýlusborg. Eg ætla að bíða hér,
þangað til þú kemur hingað aftur. Þú skalt segja Penelópu
einni frá þessu, en enginn af Akkeum má verða þess áskynja;
því margir eru þeir, sem hafa illan hug til mín“.
135 Evmeus svínahirðir svaraði honum og sagði: „Eg veit,
eg skil, það þarf ekki að segja mér allt! En seg mér hitt og
kveð á glögglega, hvort eg á um leið að fara með nokkur
skilaboð til hins vesæla Laertess? Meðan hann einkanlega harmaði
hvarf Odysseifs, fór hann oft að sjá yfir sýslur manna, og
át og drakk með þrælunum í höllinni, þegar honum bauð svo
hugur um. En nú, síðan þú sigldir til Pýlusborgar, segja menn
hann hafi hvorki neytt matar né drykkjar, eins og vandi hans
hefir verið, og ekki gengið að sjá yfir sýslur manna, heldur situr
hann grátandi með ekka og harmatölum, og fellir stórum af“.
146 Hinn greindi Telemakkus svaraði honum: „Það fer báglega!
en þó munum vér ekki skipta oss af honum, þó oss taki
sárt til hans. Því, þó svo væri, að dauðlegir menn mætti kjósa
sér allt að óskum, þá mundum vér fyrst af öllu kjósa, að föður
vorum auðnaðist að koma heim aftur. Þú skalt því koma aftur,
undir eins og þú hefir skilað þessu, og ekki rekast eftir honum
út á landsbyggðina. Segðu heldur móður minni, að hún skuli
sem fljótast senda matseljuna til hans á laun; hún getur sagt
afa mínum frá þessu“.
154 Að því mæltu rak hann eftir svínahirðirnum að fara af
stað; tók þá svínahirðirinn sóla sína, batt undir iljar sér, og hélt
af stað til borgarinnar.
155 Ekki fór Evmeus svínahirðir svo burt af bænum, að Aþena
yrði þess ei vör. Kom hún þá til bæjarins, og var lík í vexti
fríðum og stórum kvenmanni, sem er vel að sér í fallegum
hannyrðum. Hún nam staðar andspænis á móti bæjardyrunum,
og birtist Odysseifi, en ekki sá Telemakkus hana, eða varð
hennar var, því guðir birtast ekki öllum bersýnilega. Enginn
sá hana, nema Odysseifur og hundarnir; en þá geltu hundarnir
ekki, heldur þutu ýlandi eitthvað annað í bæinn. Síðan bandaði
Aþena Odysseifi með augnabrúnunum, en hann skildi, og gekk
fram úr húsinu, og út undir hinn háva húsagarðsvegg, og nam
staðar frammi fyrir henni.
166 Aþena talaði þá til hans: „Seifborni Laertesson, ráðagóði
Odysseifur! Nú skaltu þegar segja syni þínum frá ætlan þinni
og engu af leyna. Þá skuluð þið taka ráð ykkur saman að
fyrirkoma biðlunum, og fara svo báðir heim til hinnar víðfrægu
borgar. Eg skal ekki vera lengi í burtu frá ykkur, því nú er kominn
á mig vígahugur“.
172 Að því mæltu snart Aþena hann með gullnum sprota.
Hún færði hann fyrst í hreina yfirhöfn og kyrtil, og gerði hann
vöxtuglegri og unglegri, varð hann nú aftur rauðleitari í framan
og kinnfiskameiri, og blásvart skegg spratt á vöngum hans. Að
því búnu fór hún burt aftur.
177 Odysseifur gekk nú inn í bæinn aftur. Þá varð hans kæri
sonur frá sér numinn af að sjá hann; það setti að honum skelk,
svo hann leit út í hött, því hann var hræddur um, að þetta
mundi vera einhverr af guðunum. Hann talaði þá til hans
skjótum orðum, og sagði: „Mér sýndist þú, gestur, rétt núna
vera allur annar maður, en þú varst áður; þú ert í öðrum
klæðum, og allt vaxtarlag þitt er öðruvísi, en fyrr. Þú ert vísarlega
einn af þeim guðum, sem byggja víðan himin. Miskunna
þú mér! eg skal færa þér þægilegar fórnir og kostulegar gáfur
úr gulli; vertu mér vægur!“
186 Hinn þolgóði, ágæti Odysseifur svaraði honum: „Eg er
enginn guð; því líkir þú mér við ódauðlega guði? Eg er faðir
þinn, sem þú harmar svo sárt, og vegna hvers þú hefir orðið
svo margar raunir að þola af yfirgangi annarra manna“.
190 Þá hann hafði talað þetta, kyssti hann son sinn, en tárin,
er hann áður hafði stöðuglega aftur haldið, hrundu þá ofan
eftir kinnum hans. Telemakkus, sem enn þá ekki trúði, að þetta
væri faðir sinn, svaraði honum og sagði: „Ekki ertú Odysseifur
faðir minn; einhverr guð villir sjónir fyrir mér, til þess eg skuli
enn meir gráta og andvarpa. Enginn dauðlegur maður gæti
slíku til leiðar komið af sjálfs síns hyggjuviti, nema einhverr af
guðunum kæmi sjálfur til, og vildi með almætti sínu gera þig
ungan eða gamlan. Því rétt áðan varstu gamall karl, og í
ljótum fötum, en nú ertu líkur einhverjum guðanna, sem
byggja víðan himin“.
201 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði: „Ekki
hæfir þér, Telemakkus, að undrast svo fjarskalega, eða kippa
þér upp við, þó faðir þinn sé heim kominn; því það skal eg
segja þér fyrir satt, að enginn annar Odysseifur mun framar
koma til þín hingað í land. Eg er hann, svona útlítandi, eins og
þú sérð, hefi eg margt illt þolað og víða flækzt, og er nú heim
kominn í mitt föðurland á tuttugasta ári. En umskiptum þessum
hefir hin fengsæla Aþena valdið, hún hefir brugðið mér í
það líki, sem hún hefir viljað, því hún er máttug, ýmist gert
mig líkan fátæklingi, ýmist ungum manni, ítarlega búnum.
Hægt veitir guðum, sem byggja víðan himin, bæði að gera dauðlegan
mann veglegan, og líka að gera hann aumingjalegan“.
213 Þá hann hafði sagt þetta, settist hann niður, en Telemakkus
fleygði sér í fangið á sínum góða föður harmandi, og
útjós tárum; og nú vaknaði upp hjá þeim báðum grátfýsi. Þeir
grétu hástöfum, og höfðu hærra en hræfuglarnir, arnirnar eða
þeir klóbjúgu gammar, sem bændur hafa steypt undan, áður
en ungar þeirra urðu fleygir: eins aumkvunarlega báru þeir
feðgar sig, og tárin hrundu af augum þeirra; og þarna hefðu
þeir verið að gráta til sólarlags, ef Telemakkus hefði ekki bráðum
talað til föður síns: „Faðir minn góður! Á hvaða skipi
varstu fluttur hingað til Íþöku? hverjir vóru það sem fluttu
þig? því ekki muntu hafa komið hingað yfir land“.
225 Hinn þolgóði, ágæti Odysseifur svaraði honum: „Eg
skal nú segja þér, sonur, hvernin allt hefir til gengið; hinir frægu
sjóferðamenn Feakar, sem vanir eru að veita hverjum manni
flutning, sem til þeirra kemur, þeir fluttu mig, fóru með mig
sofanda á fljótu skipi yfir hafið, og settu mig á land í Íþöku.
Þeir gáfu mér fagrar gjafir, gnótt eirs og gulls, og ofin klæði.
Allt þetta er geymt í hellrum að ráðstöfun guðanna. En nú
kom eg hingað að undirlagi Aþenu, til þess við tökum saman
ráð okkar um dráp óvina vorra. Láttu nú sjá, teldu nú upp
fyrir mér alla biðlana, svo eg viti, hvað margir þeir eru og
hvaða menn það eru. Þá skal eg skoða hug minn um, og gá
að, hvort við munum tveir einir geta mætt þeim án annarra
tilstyrks, eða þurfum við að fá aðra menn með okkur“.
240 Hinn greindi Telemakkus svaraði honum: „Ætíð hefi
eg heyrt þig orðlagðan, faðir minn, fyrir framgöngu þína í bardögum
og vitsmuni í ráðagjörðum; en það sem þú segir núna,
það er ofviða; hreint gengur yfir mig! Það er ómögulegt, að
tveir menn geti barizt við svo marga hrausta menn. Biðlarnir
eru ekki einir tíu menn, eða tvennir tíu menn; þeir eru langtum
fleiri. Þú skalt nú heyra fjöldann: frá Dúliksey eru fimmtíu og
tveir útvaldir menn, og þeim fylgja sex þjónustumenn; frá
Sámsey eru tuttugu og fjórir menn, frá Sakyntsey tuttugu
Akkear, en úr sjálfri Íþöku eru ekki færri en tólf hraustustu
menn, og með þeim er kallarinn Medon og hinn ágæti söngmaður,
og tveir þjónar, útförnustu brytar. Ef við förum móti öllum
þessum sæg, sem fyrir er heima, er eg hræddur um, að hefndin
sem þú vinnur, verði þér sjálfum sárbeitt og skæð. Gáðu heldur
að, hvort þér ekki dettur í hug einhverr liðsmaður, sem vilji
veita okkur lið af einlægum hug“.
258 Hinn þolgóði, ágæti Odysseifur svaraði honum: „Eg skal
segja þér það, taktu nú eftir, og hlustaðu á hvað eg segi: gáðu
að, hvort okkur muni ekki nægja að hafa hana Aþenu og föður
Seif; eða á eg að hugsa eftir einhverjum öðrum aðstoðarmanni?“
262 Hinn greindi Telemakkus svaraði honum: „Víst er um
það, að bæði þessi, sem þú til tekur, eru góð til liðveizlu; þau
sitja hátt í skýjum uppi, og hafa vald ekki að eins yfir mönnum,
heldur og yfir guðum“.
266 Hinn þolgóði, ágæti Odysseifur svaraði honum: „Ekki
munu þessi tvö lengi sitja hjá bardaganum, þegar skríður til
skarar milli mín og biðlanna í höll minni. Nú skaltu, undir
eins og lýsir af degi, fara heim, og vera með hinum ofstopasömu
biðlum, en svínahirðirinn skal eftir á leiða mig til borgarinnar,
ætla eg þá að hafa á mér fátæks og gamals manns gjörvi. Þú
skalt þreyja við með þolinmæði, þó þeir óvirði mig í höllinni,
og þó eg kunni að verða fyrir misþyrmingum. Og þó þú horfir
upp á, að þeir dragi mig á fótunum utar eftir hallargólfinu,
og kasti að mér vígvölum, þá skaltu bera það með jafnaðargeði.
Þó skaltu biðja þá að hætta fólsku þessari, og skaltu þó fara
að þeim blíðlega, og munu þeir ekki gegna þér að heldur, því
skapadægur þeirra vofir yfir höfði þeim. En eitt ætla eg að segja
þér, sem þú skalt festa þér í huga. Sé það satt, að þú sért minn
sonur og af mínu bergi brotinn, þá láttu öngvan lifandi mann
af vita, að Odysseifur sé heim kominn; hvorki má Laertes
vita það, né svínahirðirinn, né nokkur heimamanna, og ekki
sjálf Penelópa, við skulum tveir einir, þú og eg, komast eftir,
hvernin skaplyndi ambáttanna er varið; við gætum líka reynt
einhvern af þrælunum, til að vita, hverjir virða og akta okkur,
og hvort það er nokkurr, sem ekki skeytir um þig eða fyrirlítur
þig, svo efnilegur maður sem þú ert“.
305 Hans frægi sonur svaraði honum og sagði: „Eg vona
faðir minn, að þú á síðan fáir að þekkja hugarfar mitt betur,
og að eg muni reynast ekki með öllu hugsunarlaus. En það
held eg, að hvorugur okkar hafi gagn af þessari rannsókn;
vildi eg samt, að þú hugleiddir það betur. Þú munt margt sporið
ganga mega til lítils, ef þú ætlar þér að fara þangað, sem þrælarnir
eru við sýslanir sínar, og kanna hvers manns hug; á
meðan sitja hinir makráðir í höllinni, og eyða fénu í óhófi, svo
engin gegnd er á. Til hins vil eg heldur ráða, að þú leitist við
að komast að því, hvað af ambáttunum fyrirlítur þig, og hverjar
ekki eru þar í sekar; þar á móti vil eg ekki, að við að svo
stöddu reynum þrælana við peningshúsin, heldur sýslum það
síðar, ef það annars er víst, að Seifur Ægisskjaldi hafi sýnt þér
eitthvert teikn um aðstoð sína“. — Þannig töluðust þeir við
um þetta.
322 Hið traustsmíðaða skip, sem Telemakkus og allir förunautar
hans höfðu farið á til Pýlusborgar, lagði nú að landi
við Íþökuborg; en er þeir voru komnir inn á hina djúpu höfn,
settu þeir hið svarta skip upp á þurrt, létu sína vösku sveina
bera upp farviðinn og flytja hinar fögru gjafir heim til Klytíusar;
sendu síðan kallarann til hallar Odysseifs, að segja hinni
vitru Penelópu þær fréttir, að Telemakkus væri úti á landsbyggðinni,
og hefði látið sigla skipinu inn til staðarins; gerðu
þeir það til þess, að hin ágæta drottning skyldi ei verða hrædd
um son sinn, og ekki falla í grát af hugarkvíða. Nú mættust
þeir, kallarinn og hinn ágæti svínahirðir, og ætluðu báðir að
flytja drottningu sama boðskapinn. En er þeir komu í höll hins
ágæta konungs, þá gekk kallarinn þangað sem þernurnar vóru,
og kvað svo að orði: „Nú er, drottning, þinn kæri sonur aftur
heim kominn“. En svínahirðirinn gekk til Penelópu, og sagði
henni allt það, er sonur hennar hafði beðið hann að skila; og
þegar hann hafði skilað öllu erindinu, fór hann af stað, gekk
burt úr forgarðinum og höllinni, og fór til svína sinna.
342 Illa kom biðlunum fregn þessi, urðu þeir fálátir við,
gengu út úr stofunni, og út undir hinn háva vegg forgarðsins,
og settust þar fyrir framan dyrnar. Þá tók Evrýmakkus Polýbusson
fyrstur til orða: „Kærir vinir, víst er það meira en vér
mundum hafa til ætlazt af Telemakkusi, að hann hefir komið
fram því stórræði, að fara þessa ferð, og hugsuðum vér, að hann
mundi aldrei fá slíku til leiðar komið. Látum oss nú setja fram
það skip, sem vér höfum bezt til, og ráðum menn til, skulu
þeir fara sem skjótast, og segja hinum að koma fljótt heim
aftur“.
351 Naumast var hann búinn að sleppa orðinu, þegar Amfínómus
varð litið við þaðan sem hann var staddur, og sá skip
leggja inn á voginn, vóru sumir að taka saman seglin, en sumir
vóru undir árum. Honum varð það fyrir, að hann hló dátt upp
yfir sig, og sagði til félaga sinna: „Við þurfum nú ekki að
senda nein boðin; þeir koma þarna! annaðhvort hefir einhverr
guðanna sagt þeim að snúa aftur, eða þeir hafa sjálfir
séð skipið fara fram hjá sér, en ekki getað náð því“.
358 Svo mælti hann, en þeir stóðu upp, og gengu ofan að sjó,
settu þegar upp skipið, og létu sína vösku sveina bera upp
farviðinn.
361 Því næst gengu biðlarnir allir saman á þing og leyfðu
öngvum útífrá, hvorki yngra manni né eldra, að vera við á þeirri
samkomu. Antínóus Evpíþesson tók þá svo til orða: „Furðanlegt
er, hversu guðirnir hafa stýrt þessum manni undan öllum
háska! Njósnarmenn vorir sátu á daginn uppi á veðurnæmum
hæðum, og komu æ aðrir á vörðinn þegar aðrir fóru; og aldrei
lágum vér á landi á næturnar, þegar sól var sezt, heldur vórum
vér einlægt á siglingu allt til lýsingar, og sættum Telemakkusi,
ætluðum vér að handtaka hann og drepa; en á meðan hefir einhverr
bjargvættur komið honum undan og heim. Nú skulum
vér taka ráð vor saman, að ráða Telemakkus af dögum hér
heima. Hann má ekki sleppa úr höndum oss, því grunur minn
er, að fyrirætlan vor verði aldrei framgeng, meðan hann náir
að lifa, því hann er ráðvitur og hygginn maður, en landsfólkið
tekur nú að gerast oss heldur óvinveitt. Látum oss því bregða
við, áður en hann nær að stefna Akkeum til þings; því það
hygg eg, að hann muni ei þetta láta niður falla, heldur mun
hann rækja þetta við oss, og rísa upp á samkomunni, og segja
í heyranda hljóði, að vér höfum ráðið honum banaráð, þó svo
færi, að fundum vorum Telemakkusar ekki bæri saman. Mun
illa mælast fyrir ódáðum þessum, og er eg hræddur um, að
menn amist við oss, og reki oss af ættjörðum vorum, svo vér
verðum að fara í önnur héröð, skulum vér því verða fyrri að
bragði, og handtaka hann utanborgar, á landsbyggðinni eður
á þjóðleiðinni; skulum vér þá sjálfir halda eigum hans og fémunum,
og skipta með oss að jafnaði, en láta móður hans og
þann, sem hennar fær, hafa bæjarhúsin. En ef yður líkar ei
þessi ráðagjörð, og viljið heldur láta hann halda lífi og þarmeð
allri föðurleifð sinni, þá skulum vér ekki lengur venja
hingað komur vorar, og ekki eyða fyrir honum fullsælu fjár,
heldur skal hverr vor fara heim til sín, hefja þaðan bónorð sitt,
og leita sér kvonfangs með brúðgjöfum, getur hún þá gifzt
þeim, sem flestar gjafir lætur af hendi rakna, og sem henni á
að auðnast að eiga“.
393 Svo mælti hann, en þeir þögnuðu við og urðu hljóðir.
Þá tók Amfínómus til orða og sagði, hann var Nísusson Aretíussonar
konungs, hann var fyrir þeim biðlum, er komu frá hinni
hveitisfrjóvu, grösugu Dúliksey, og líkaði Penelópu bezt tillögur
hann, því hann var vitur maður. Hann var þeim velviljaður,
tók til orða og sagði: „Kærir vinir, fjær er það mínu
skapi, að Telemakkus sé drepinn, því mikið vandhæfi er á, að
drepa niður konungsættina. Vér skulum heldur fyrst grennslast
eftir, hverr guðanna vilji muni vera. Ef andsvör hins mikla
Seifs leggja þar lof á, þá skal eg sjálfur verða til að taka hann
af lífi, og eggja alla hina til þess. En ef guðirnir verða þess
letjandi, þá vil eg ráða til að láta af þessari fyrirætlun“.
406 Svo mælti Amfínómus, og líkaði þeim þetta ráð, stóðu
þá upp, og gengu inn í höll Odysseifs, og er þeir komu þar,
settust þeir á hina fáguðu hástóla.
409 Hinni vitru Penelópu kom þá til hugar að ganga á fund
hinna ofstopafullu biðla. Hún hafði orðið þess áskynja, að
syni sínum var bani ráðinn þar í höllinni; því kallarinn Medon,
sem frétt hafði ráðagjörðina, hafði sagt henni það. Hún gekk
ofan í stofu með þjónustumeyjum sínum, og er hin ágæta
kona kom þar sem biðlarnir vóru, nam hún staðar við dyrustaf
hins vandaða sals; og hafði smágjörva höfuðblæju fyrir andliti
sér. Hún deildi á Antínóus, tók til orða, og sagði: „Þú ofstopafulli,
illráði Antínóus! Það orð leikur á í Íþökulandi, að
þú sért framastur jafnaldra þinna að ráðdeild og mælsku; en
það er öðru nær, en að svo sé! Ertu ekki með öllu ráði? eða
hvað kemur til, að þú ræður Telemakkusi bana? Hvað kemur
til, að þú virðir einskis nauðleitamennina, sem standa í ábyrgð
Seifs? Það er óhæfa, að menn beitist illu við. Eða veiztu ekki
af því, að hann faðir þinn kom hingað farflótta, þar hann var
hræddur við landsfólkið? því alþýða var orðin honum stórreið,
fyrir það hann hafði lagt lag við víkinga nokkura frá Taffey,
og slegizt upp á Þespróta, sem vóru sambandsmenn vorir. Vildu
því landsmenn fyrirkoma honum og taka af lífi, og gera upptækar
allar eigur hans, sem miklar vóru. En Odysseifur aftraði
þeim og lægði ofsa þeirra. Og þó etur þú upp bú hans bótalaust,
biðlar til konu hans, ætlar að drepa son hans, og gerir mér
stóra hjartasorg. Eg ræð þér að láta af þessu, og seg hinum
að gera slíkt hið sama“.
434 Evrýmakkus Polýbusson svaraði henni: „Dóttir Íkaríuss,
vitra Penelópa! Vertu óhrædd, og lát þetta ei á þér festa! Enginn
er sá maður, eða mun verða, sem leggja skal hendur á Telemakkus,
son þinn, meðan eg lifi og heil eru augu í höfði mér.
Eg mæli svo um, og það skal efnt verða, að dauðablóð þess manns
skal laga á mínu spjóti. Því Odysseifur borgabrjótur lét mig
þráfaldlega sitja á knjám sér, lagði steikt kjöt í lófa mér, og
gaf mér rautt vín að drekka. Þess vegna er Telemakkus mér
langkærastur allra manna, og því þarf hann ekki að óttast
banaráð af hálfu biðlanna, en hvað af guðanna hálfu kann að
verða, það getur enginn varazt“.
448 Með þessum orðum hughreysti hann drottninguna, og
þó bjó hann sjálfur Telemakkusi banaráð. Hún gekk þá upp
á hinn glæsilega loftsal, og grét þar Odysseif, sinn kæra mann,
þar til hin glóeyga Aþena lét sætan svefn síga á augu hennar.
452 Hinn ágæti svínahirðir kom um kvöldið til Odysseifs og
sonar hans. Þeir höfðu þá slátrað ársgömlu svíni, stóðu að matreiðslu
og bjuggu sér kvöldverð. Hafði Aþena þá komið þar
að, snortið Odysseif Laertesson með sprota sínum, gert hann
aftur að gamalmenni og fært í ljótar flíkur; því ef svínahirðirinn
hefði séð hann og þekkt, þá hefði hann ekki getað þagað
yfir því, heldur farið og sagt Penelópu frá. Telemakkus yrti
nú fyrst á svínahirðirinn, og sagði: „Þar ertu kominn aftur, ágæti
Evmeus! Hvað er í fréttum úr borginni? Eru hinir rösku
biðlar komnir heim úr fyrirsátrinu? eða sitja þeir enn þá um
að ná mér á heimleiðinni?“
464 Evmeus svínahirðir svaraði honum og sagði: „Eg hafði
annað að gera en ganga um borgina til að forvitnast um þær
fréttir; mér var meir í mun að skila sem fljótast erindinu, og
komast hingað aftur. Eg mætti einum skjótum sendiboða, það
var kallarinn, sem sendur hafði verið af förunautum þínum,
og hann sagði fyrstur móður þinni tíðindin. En nokkuð get
eg sagt þér, sem eg sá með eigin augum. Þegar eg gekk, þar
sem Hermesarhóll er fyrir ofan borgina, þá sá eg hvar skip
lagði að í höfn vorri, þar voru margir á, það var hlaðið af
skjöldum og tvíeggjuðum spjótum. Eg hélt, að þeir mundu
vera þetta, þó er eg ekki viss um það“.
476 Svo mælti hann; þá brosti hinn ágæti höfðingi Telemakkus,
og leit upp á föður sinn, en forðaðist þó svínahirðirinn
að því. En er þeir höfðu lokið starfi sínu og efnað til kvöldverðar,
settust þeir að mat, og skorti ekkert, sem vant er að
hafa í jafndeildum máltíðum. En er þeir höfðu satt löngun
sína á mat og drykk, gengu þeir til hvílu og tóku á sig náðir.
[1262.png]
[1263.png]
SEYTJÁNDI ÞÁTTUR.
TELEMAKKUS KEMUR TIL ÍÞÖKUBORGAR.
ÞÁ er hin árborna, rósfingraða Monrgungyðja kom í ljós,
þá batt Telemakkus, hinn ástfólgni sonur hins ágæta
Odysseifs, fagra ilskó undir fætur sér, og tók í hönd sér
sterkt spjót, sem honum var greiphæft, lék honum nú hugur
á að komast til borgarinnar. Hann talaði þá til síns svínahirðirs:
„Eg ætla nú til borgarinnar, faðir sæll, svo móðir mín fái að
sjá mig; því eg býst ekki við, að hún láti fyrr af hinum harmsfulla
gráti og táruga trega, en hún hefir litið mig augum. En
fyrir eitt vil eg biðja þig: þú skalt fylgja gesti hinum vesæla
til borgarinnar, svo hann geti sníkt sér þar út málsverð, mun
þá hverr, sem vilja hefir til, víkja honum brauðbita og vínsopa;
en sjálfur er eg með öngvu móti til fær að veita hverjum manni
ásjá, þar sem svo stórar hugraunir ama mér. Láti gesturinn sér
þykja þetta, mun hann sjálfur hafa verra þar af; það er vandi
minn, að segja eins og mér býr í brjósti“.
16 Hinn ráðsvinni Odysseifur svaraði honum og sagði: „Eg
gef þá ekki heldur um, vinur, að dvelja hér lengur; það er
betra fyrir mig, fátækan mann, að biðja mér matar í borginni,
en á landsbyggðinni: því þar mun hverr greiðvikinn maður
víkja mér einhverju; eg er nú hvort sem heldur er, orðinn of
gamall til þess að vera á útbúum og gegna öllu því, sem ráðsmaðurinn
kann fyrir mig að leggja. Far þú! Maðurinn þarna, sem
þú til nefndir, skal fylgja mér, undireins og eg er búinn að
orna mér við eldinn, og mér er farið að hlýna. Þær eru ekki
kerlegar, flíkurnar, sem eg er í; eg er hræddur um, að eg verði
innkulsa af morgunhélunni, því þér segið, að héðan sé langur
vegur til borgarinnar“.
26 Þá hann hafði þetta sagt, gekk Telemakkus út úr bænum;
hann hvatti sporið, því hann hafði hug á að gera biðlunum
eitthvað illt. En er hann kom til hallarinnar, reisti hann
spjót sitt upp við hina hávu stoð, gekk svo inn og steig yfir
steinþröskuldinn. Fóstran Evrýklea var þá að breiða feldi á
hin haglega smíðuðu hásæti, hún sá hann fyrst af öllum, og
gekk grátandi á móti honum; síðan söfnuðust þernur hins þrautgóða
Odysseifs í kringum hann, fögnuðu honum, og kysstu
höfuð hans og herðar. Því næst gekk hin vitra Penelópa út úr
kvennasalnum, var hún lík Artemis eða hinni gullfögru Afrodítu;
hún umfaðmaði sinn kæra son báðum höndum grátandi,
kyssti höfuð hans og bæði hans fögru augu, og talaði
harmandi til hans skjótum orðum: „Þar ertu, kominn, Telemakkus,
elskulífið mitt! Eg hugsaði, að eg mundi ekki sjá
þig framar, síðan þú sigldir til Pýlusborgar, leynilega og
móti vilja mínum, til að spyrjast fyrir um föður þinn. Lát nú
sjá, segðu mér, hvers þú ert orðinn vísari“.
45 Hinn greindi Telemakkus svaraði henni: „Vektu ekki
upp aftur harma mína, móðir mín, og kveiktu ekki á ný hugarsorg
í brjósti mínu, enn þótt eg hafi undan stýrt bersýnilegum
lífsháska. Taktu heldur laug, og far í hrein klæði, og heit á
alla guðina, að fórna þeim fullkomnum hundraðsfórnum, ef
Seifur lætur þér auðið verða að hefna harma þinna. Sjálfur ætla
eg að ganga út á torg til að bjóða heim gesti þeim, sem mér varð
samferða hingað frá Pýlusborg; eg sendi hann á undan mér með
mínum ágætu förunautum, og bað Píreus að hafa hann heim
með sér, og gera til hans vel og sæmilega, þar til eg kæmi“.
57 Þannig mælti hann, en hún lét sér þetta vera hugfast;
hún laugaði sig, fór í hrein klæði, og hét á alla guðina, að hún
skyldi fórna fullkomnum hundraðsfórnum, ef Seifur léti henni
auðnast að reka harma sinna.
61 Því næst gekk Telemakkus út úr herberginu, hann hélt
á spjóti sínu, og hinir fóthvötu hundar fylgdu honum. Þá brá
Aþena yfir hann slíkri forkunnar fegurð, að allur lýður starði
á hann með undrun, þá er hann kom á mótið. Hinir djarfmannlegu
biðlar þyrptust í kringum hann, þeir töluðu vinalega,
en bjuggu yfir illu í hjörtum sínum. Hann forðaðist hinn
mikla biðlasæg, en fór heldur þangað sem þeir sátu, Mentor og
Antífus og Halíþerses, er voru aldavinir föður hans, og settist
hjá þeim, og spurðu þeir hann vandlega tíðinda.
71 Hinn spjótfimi Píreus kom þar til þeirra, hafði hann fylgt
gestinum um borgina og á torgið; lét Telemakkus þá ekki líða
á löngu, áður hann gekk á fund gestsins; talaði Píreus þá til
hans að fyrra bragði: „Telemakkus, sendu fljótt einhverjar af
þernum þínum heim til mín, svo eg geti skilað þér gjöfum
þeim, er Menelás gaf þér“.
77 Hinn greindi Telemakkus svaraði honum: „Við vitum
ekki, Píreus, hvernig þessi mál lúkast. Fari svo, að hinir djarfmannlegu
biðlar myrði mig í höllinni, og skipti með sér öllum
föðurarfi mínum, þá vil eg heldur, að þú haldir fénu og njótir
þess, en að nokkur biðlanna fái það. En ef svo fer, að eg fái
unnið þeim bana og fjörtjón, þá er mér þökk á, ef þú vilt svo
vel gjöra og færa til mín gjafirnar til hallarinnar“.
84 Að því mæltu leiddi hann hinn raunamædda gest heim
til sín. En er þeir komu í höllina, lögðu þeir yfirhafnir sínar á
legubekkina og hástólana, stigu síðan niður í fögur laugarker,
og lauguðu sig. En er ambáttirnar höfðu laugað þá og smurt
með viðsmjöri, lögðu þær yfir þá loðkápur og kyrtla; stigu
þeir svo upp úr lauginni, og settust á legubekkina. Þá kom
herbergismey með handlaugarvatn í fagri vatnskönnu af gulli,
sem stóð á silfurfati, hún hellti vatninu á hendur þeim, að
þeir þvæði sér, setti svo hjá þeim fágað borð. Hin heiðvirða
matselja kom með brauð, og lagði það á borðið, hún bar og
fram margskonar rétti, og veitti fúslega það sem til var. Móðir
Telemakkusar sat gagnvart honum á legubekk við dyrustaf
herbergisins, og var að spinna smáband. Þeir tóku nú til þess
tilreidda matar, er fram var settur; en er þeir höfðu satt lyst
sína á mat og drykk, tók hin vitra Penelópa svo til máls: „Eg
ætla nú, Telemakkus, að fara upp á loft, og leggjast í hvílu
mína, sem orðin er mér að sorgarsæng, og hefir baðazt í tárum
mínum, ávallt síðan að Odysseifur fór til Ilíonsborgar með
Atreifssonum; þú ætlar ekki, hvort sem heldur er, að segja
mér glögglega, hvort þú hefir fengið nokkurs staðar fregn um
heimför föður þíns, fyrr en hinir djarflegu biðlar koma inn í
stofuna“.
107 Hinn greindi Telemakkus svaraði henni: „Eg skal nú
segja þér satt þar frá, móðir mín! Vér fórum til Pýlusborgar,
og komum til þjóðhöfðingjans Nestors; hann hýsti mig í sinni
hávu höll, og tók mér ástsamlega, eins og faðir mundi syni sínum,
nýkomnum frá útlöndum eftir langa burtuvist; eins ástúðlegar
viðtökur veitti hann mér, og hans frægu synir. Þó fortók
hann, að hann hefði nokkura fregn fengið af nokkurum lifanda
manni um hinn þolgóða Odysseif, lífs eða liðinn. En
hann fékk mér hesta og sterkan vagn, og lét fylgja mér til
Atreifssonar, hins spjótfima Meneláss. Þar sá eg Helenu hina
Argversku, sökum hverrar Argverjar og Trójumenn höfðu
margar þrautir þolað, að ráðstöfun guðanna. Hinn rómsterki
Menelás spurði mig þegar, hverra erinda eg væri kominn til
ennar helgu Lakedemonar, en eg sagði honum allt, sem var;
talaði hann þá til mín þessum orðum, og sagði: „Mikið er til
þess að vita, að menn þessir, sem sjálfir eru þreklausir, skuli
hafa bragðað að leggjast í rekkju þess manns, sem reyndur er
að því, að hann hefir harðan karlmanns hug! Það mun fara
fyrir þeim, eins og fyrir hind þeirri, er leggur nýgotna kálfa
sína, sem enn þá eru á spenanum, í bæli hins sterka ljóns, rásar
síðan á beit um heiðar og grösuga afdali, en eftir á kemur ljónið
í bæli sitt, tekur báða kálfana, og veitir þeim grimman dauðdaga.
Eins mun fara fyrir biðlunum, að Odysseifur mun veita
þeim grimman dauðdaga. Faðir Seifur og Aþena og Apollon!
Eg vildi óska, að hann Odysseifur væri nú kominn á fund biðlanna,
og væri núna eins og hann var forðum, þegar hann gekk
til leiks í hinni fögru Lesbey, og glímdi kappsglímuna við
Fílomeleides, og felldi hann af kröftum, svo allir Akkear
urðu alls hugar fegnir; þá mundu allir biðlarnir verða skammlífir,
og giftingin þeirra fara raunalega. En hvað því viðvíkur,
sem þú spyr mig um og biður mig að segja þér, þá skal eg
ekki segja þér annað en það, sem er, og ekki halla sögu minni
eða leiða þig í villu, heldur segja þér það, sem hinn sannfróði
sjávaröldungur sagði mér, og öngvu orði þar af leyna. Hann
kvaðst séð hafa Odysseif í þungum raunum á einni ey í húsum
Landvættar nokkurrar, Kalypsóar, sem heldur honum hjá
sér nauðugum, en hann getur ekki komizt heim til síns föðurlands,
þar hann hefir engin árbúin skip eða ræðara, sem geti
flutt hann yfir hinn breiða sjóarflöt“. — Svo mælti Atreifsson,
hinn spjótfimi Menelás. En er eg hafði aflokið erindi mínu,
fór eg heimleiðis aftur, gáfu hinir ódauðlegu guðir mér byr,
og greiddu skjótt för mína til míns kæra föðurlands“.
150 Svo mælti hann, en henni brá mjög við þessa sögu; þá
mælti hinn goðumlíki Þeóklýmenus þessum orðum: „Þú heiðvirða
kona Odysseifs Laertessonar! Ekki hefir hann verið sannfróður
um þetta. Taktu nú eftir því, sem eg segi, því eg skal
segja þér sanna spá, og öngvu leyna þig. Viti það Seifur, æðstur
guða, og þetta gestaborð, viti það eldstalli hins ágæta
Odysseifs, sem eg nú er til kominn, að Odysseifur er nú vissulega
annaðhvort seztur að í sínu föðurlandi, eða hann ráfar þar
um kring, og hefir spurn af þessum illverkum, og ætlar sér
að vinna öllum biðlunum eitthvað til meins. Eg sá þann spáfugl,
sem þetta boðaði, þá eg sat hjá hinu þóftusterka skipi og
gat eg þegar um þenna fyriburð við Telemakkus“.
162 Hin vitra Penelópa sagði til hans: „Eg vildi óska, gestur,
að þessi spá rættist; þá skyldir þú fá hjá mér beztu viðtökur
og margar gjafir, svo að hverr, sem yrði á vegi þínum, skyldi
telja þig lánsmann“.
166 Þannig töluðust þau við, en biðlarnir skemmtu sér á
meðan að töfluleik og spjótkasti á hinu lagða gólfi fyrir framan
stofu Odysseifs, þar sem þeir voru vanir áður að hafa ýmislegt
ofríki í frammi. En er leið að matmáli, kom féð alstaðar að
frá landsbyggðinni, og fylgdu því sömu menn og vant var. Þá
sagði Medon til biðlanna, hann var þeim kærstur af köllurunum,
og sat að veizlum með þeim: „Með því þér, sveinar, hafið
allir skemmt yður að leikum, þá gangið inn í stofu, að vér
búum þar til máltíðar; það er aldrei lakara, að taka kvöldverð í
tæka tíð“.
177 Svo mælti hann, en þeir féllust á það, sem hann sagði,
stóðu upp og gengu inn. En er þeir komu í stofuna, lögðu þeir
af sér yfirhafnir sínar á legubekkina og hástólana; tóku nú til
að slátra stórum sauðum og feitum geitum, þeir slátruðu og
alisvínum, og einu nauti af hjörðinni, og matbjuggu til veizlunnar.
182 Odysseifur og hinn ágæti svínahirðir bjuggust nú af stað
til borgarinnar utan af landsbyggðinni. Hinn fyrirmannlegi
svínahirðir tók þá svo fyrri til máls: „Með því þér er meir í
mun, gestur, að halda til borgarinnar í dag — og vildi eg þó
heldur láta þig vera hér eftir til að gæta bæjarins, ef ég þyrði
það fyrir hússbóndanum, því eg er hræddur um að hann þá
deili á mig seinna, og eru þungbærar ávítur hússbændanna —
komdu þá, við skulum halda af stað, því nú tekur mjög til að
líða á dag, en hætt við, að heldur svali að þér undir kvöldið“.
192 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum: „Eg fer nærri
um meiningu málsins, og allvel skilst mér það er þú segir; við
skulum strax fara af stað, en þú verður þá að vísa mér veg
alla leiðina; ljáðu mér líka einhverja tilhöggna kylfu til að
styðjast við, ef þú átt hana til: því þið segið, að vegurinn sé
ógreiðfær“.
197 Að því mæltu kastaði hann hinum herfilega malpoka á
bak sér, var hann víða götóttur, og í fléttuband til að halda í;
en Evmeus fékk honum staf, sem Odysseifi þókti við sitt hæfi.
Gengu þeir nú af stað, en hundarnir og smalamennirnir, sem
eftir voru, gættu bæjarins. Evmeus fylgdi konunginum til borgarinnar,
var hann í hátt sem aumur fátæklingur og gamall karl,
studdist við staf sinn, og var í vondum flíkum. Þeir gengu
áfram grýttan veg, en er þeir nálguðust borgina, komu þeir að
fagri vatnslind, þar sem borgarmenn höfðu vatnsból sitt, á henni
voru mannaverk, og höfðu þeir Íþakus, Nerítus og Polyktor
hlaðið hana upp. Í kringum lindina var kringlóttur runnur af
vatnsöspum, en kalt vatnið bunaði ofanaf berginu, uppi á
berginu var stalli Landvættanna, þar sem allir ferðamenn voru
vanir að blóta.
212 Melanþíus Dolíusson mætti þeim hjá þessari lind; hann
rak geitur til snæðings handa biðlunum, var það einvalafé af
öllum geithjörðunum, með honum voru tveir smalar. En er hann
leit þá Evmeus, atyrti hann þá gífurlega og smánarlega, svo
Odysseifi fór að ganga nær skapi. Tók hann svo til orða og
sagði: „Nú sannast það, að sækjast sér um líkir, saman níðingar
skríða! eða hvert ætlar þú, armur svínahirðir, að fara með
mathákinn, þenna viðbjóðslega förukarl, veizluspillirinn? Það
mun vera vandi þessa karls að ganga frá einum dyrustafnum
til annars, og núa sér upp við þá, meðan hann er að biðja um
bita ofan í sig; ekki mun hann vera vanur að mælast til (stórgjafa)
sverða eða katla. Ef þú léðir mér þenna förumann til
að gæta fjárhúsa, moka kvíar, og bera kiðlingum brum, þá
gæti hann fengið mysu að drekka, svo honum skyldi vaxa
fiskur í lærum. En ekki er við því að búast, að hann nenni að
ganga að vinnu, þar sem hann ekki hefir öðru vanizt en
ómennskuverkum; hitt mun honum ljúfara, að ganga um
byggðir, og sníkja sér út mat til að láta í hít sína, sem aldrei
verður fyllt. En það segi eg þér, og það mun eftir ganga, að
ef hann kemur í höll hins ágæta Odysseifs, þá mun barið
verða á honum í höllinni, og reiddar að honum margar fótskarir,
sem bylja munu á skrokk honum“.
233 Þá hann hafði sagt þetta, hljóp hann upp á Odysseif,
eins og gapi, um leið og hann gekk fram hjá, og rak fótinn í
mjöðm hans; þó gat hann ekki hrundið honum út af stígnum,
því Odysseifur stóð fast fyrir og bifaðist ekki. Þá runnu tvær
grímur á Odysseif, hvort hann ætti heldur að vaða að honum
með kylfuna og rota hann til dauðs, eða skyldi hann færa hann
á loft, og reka hann niður til jarðar á höfuðið. Hann hafði
samt þol við, og hefti skap sitt; en svínahirðirinn einblíndi
framan í Melanþíus, og rak í hann skammir, fórnaði síðan upp
höndum og baðst fyrir rækilega: „Þér Landvættir, dætur Seifs,
sem ráðið fyrir þessari lind! Hafi Odysseifur nokkru sinni brennt
sauðalæri eða kiðlingalæri, vafin í feitri netju, á stalla yðrum,
þá veitið mér þá bæn, að þessi afreksmaður komi, og leiðbeini
Guð honum heim; mætti þá svo fara, að hann lækkaði í þér
oflætið og frekjuna, sem í þér er núna, af því þú alltaf ert
sjálfur að rápa inn í borgina, en lætur ónýta smala týna fénu
á meðan“.
247 Melanþíus geitahirðir svaraði honum: „Heyr á endemi!
hvað segir hrekkvís hundurinn! Þenna hund skal eg einhvern
tíma flytja á þóftusterku, svörtu skipi langt í burt frá Íþöku,
og fá fyrir hann drjúga matvöru. Eg vildi óska, að Apollon
Silfrinbogi skyti Telemakkus til dauðs í höllinni í dag, eða
hann félli fyrir biðlunum, svo það færi fyrir honum eins og
honum Odysseifi, sem misst hefir heimkomu sinnar langt úti
í löndum“.
254 Þá hann hafði sagt þetta, skildist hann við þá, því þeir
gengu hægt, en hann fór hart, og kom brátt til konungshúsanna,
gekk þegar inn, og settist meðal biðlanna gegnt Evrýmakkusi,
því hann unni honum mest. Frammistöðumennirnir
lögðu fyrir hann kjötskammt, en hin heiðvirða matselja kom
með brauð handa honum að borða, og lagði það fyrir hann.
260 Þegar Odysseifur og hinn ágæti svínahirðir komu að
höllinni, numu þeir staðar. Þá bar fyrir eyru þeim eiminn af
hörpuslættinum, því Femíus var þá tekinn til að kveða biðlunum
til skemmtunar. Odysseifur greip þá í hönd svínahirðirsins,
og mælti: „Þetta munu vera hin fögru hús Odysseifs, þau eru
mjög auðkennd, og bera af öllum öðrum húsum, stendur eitt
hús af enda annars; hefir hann vandað mjög veggi og veggjabrúnir
að forgarðinum; fyrir dyrunum eru tvennar hurðir með
góðri læsingu, og mun enginn maður fá hér inn brotizt með
vopnastyrk. Skil eg, að hér munu margir menn að veizlu
sitja, því bæði bregður hér fyrir steikarilminum, og líka kveður
harpan við, sem guðirnir gerðu að lagskonu veizlunnar“.
272 Evmeus svínahirðir svaraði honum, og sagði: „Rétt skilst
þér, og ertu nærgætinn maður í þessu sem öðru. Nú skulum við
taka saman ráð okkar, hversu við skulum að fara. Þú skalt
gera annaðhvort, að þú gakk fyrr inn í höllina, og í flokk
biðlanna, og skal eg þá vera hér eftir: eða bíddu hér stundarkorn,
ef þú vilt það heldur, en eg skal ganga inn á undan.
Ekki skaltu samt hafa langa dvöl, því hætt er við, ef einhverr
sér þig úti fyrir, að hann annaðhvort ljósti þig eða hrindi hér;
hugsaðu eftir því“.
280 Hinn margreyndi, ágæti Odysseifur svaraði honum og
sagði: „Eg veit, eg skil, það þarf ekki að segja mér allt. Far
þú á undan, eg skal vera hér eftir. Víst em eg ekki óvanur
höggum eða skotum; eg á þrautgóðan hug, því eg hefi margt
illt þolað bæði í sjávarvolki og orustum, svo mig gildir einu,
þó þetta bætist þar ofan á. En hinn áfjaða og meinsamlega sult
fær enginn dulið; hann er mönnunum margs ills ollandi: hans
vegna eru jafnvel herskip gerð út í leiðangur yfir hið ófrjóvsama
haf, til þess að herja í óvinalöndum“.
290 Þannig töluðust þeir við um þetta. Hundur nokkur, sem
þar lá, lyfti þá upp hausnum og reisti eyrun; það var Argus,
hundur hins þolgóða Odysseifs. Þann hund hafði Odysseifur
sjálfur uppalið forðum, án þess þó að hafa hans nokkur not,
því Odysseifur fór áður til ennar helgu Ilíonsborgar. Áður fyrr
meir voru ungir menn vanir að fara með hann á dýraveiðar,
til að ná skógargeitum, rádýrum og hérum; en núna, af því
hússbóndi hans var ekki við, lá hann umhirðingarlaus á stórum
haug, sem var fyrir framan hússdyr Odysseifs; hafði þangað
verið borinn mikill haugur undan múlösnum og nautum, og
ætluðu þrælar Odysseifs seinna meir að færa út mykjuna til að
teðja hinn mikla konungsvöll, er Odysseifur átti. Á þessum
haug lá hundurinn Argus, og skreið nú kvikur. Nú sem hundurinn
varð þess var, að Odysseifur var þar kominn, þá flaðraði
hann rófunni og lét bæði eyrun lafa, en hafði nú engan
máttinn að skreiðast til hússbónda síns. Þá leit Odysseifur undan
og þerraði af sér tár, átti hann hægt með að gera það, svo
Evmeus yrði eigi var við. Síðan tók hann til orða: „Þetta er
næsta undarlegt, Evmeus, þar liggur hundur á hauginum, sem
að vísu hefir ágætlegt vaxtarlag, en hitt veit eg eigi til sanns,
hvort hann hefir verið eins hvatur til hlaups, eins og hann
er vaxinn hlaupalega, eða hann er rétt sem aðrir stofurakkar
eru vanir að vera, þeir er eigendurnir ala sér upp til gamans“.
311 Evmeus svínahirðir svaraði honum og sagði: „Þar liggur
hundur þess manns, sem dáinn er langt, langt úti í löndum.
Ef hann væri nú eins þreklegur og eins til afreks, eins og
hann var, þegar Odysseifur skildi við hann, þá hann fór til
Trójuborgar, þá mundi þér gefa á að líta, þegar þú sæir, hvað
hann er bæði frár og knár; því ekkert kvikindi, sem hann
lagði í einelti, gat forðað sér fyrir honum innst inni í skógum,
þar sem runnarnir voru þéttastir, því hann var allra hunda sporvísastur.
Nú er þessi hundur aumlega staddur. Það sér á, að
lánardrottinn hans er dáinn langt í burt frá föðurlandi sínu;
því ambáttirnar, sem aldrei hirða um neitt, leggja öngva rækt
við hann. Það er segin saga, þegar hússbændurnir eru ekki
uppi yfir þrælunum, þá nenna þeir ekkert handtak að vinna af
því, sem þeir eiga að gera; því hverr sá maður, sem hinn háþrumandi
Seifur hneppir í ánauð, verður ekki nema hálfur
maður til dyggðar og trúmennsku upp frá því“.
324 Að því mæltu gekk hann inn í höllina, og inn í stofuna
til biðlanna. En Banagyðjan sem ræður þeim dimma dauða,
heltók Argus, undir eins og hann hafði litið Odysseif augum
á tuttugasta árinu.
328 Hinn goðumlíki Telemakkus sá fyrstur af öllum, hvar
svínahirðirinn gekk inn í stofuna, og benti honum undir eins,
að hann skyldi koma til sín. Svínahirðir litaðist um, og sá hvar
stóll stóð, sem brytinn var vanur að sitja á, þá hann skammtaði
biðlunum kjöt, þegar þeir sátu að veizlum í höllinni; þenna
stól tók svínahirðirinn, bar hann þangað sem Telemakkus sat
við borð sitt, og setti hann þar gagnvart honum, settist síðan
á stólinn; tók kallarinn þá til deildan verð og lagði fyrir hann,
og fékk honum brauð með úr körfunni.
336 Ekki leið á löngu, áður Odysseifur gekk inn í höllina
á eftir honum; var hann líkur aumlegum fátæklingi og gömlum
karli, studdist við staf sinn, og var í ljótum lörfum. Hann settist
á eskiþröskuldinn fyrir innan dyrnar, og hallaði sér upp við
dyrustafinn; stafurinn var af sýpresviði gjörr, og hafði smiðurinn
telgt hann haglega til, og gert beinan eftir snúru. Telemakkus
tók heilt brauð upp úr hinni fallegu körfu, og svo
mikið af kjöti, sem hann gat höndum yfir greipað, kallaði til
sín svínahirðirinn og sagði til hans: „Far þú með þetta, og fær
gestinum, og seg honum að ganga fyrir sérhvern af biðlunum,
og biðja þá að gefa sér; því þurfamanni hentar ekki að vera
ófrömum“.
348 Svo mælti hann, en svínahirðirinn fór, þegar hann hafði
fengið þessi boð, gekk hann til gestsins og sagði: „Telemakkus
sendir þér þetta, gestur, og segir að þú skulir ganga fyrir hvern
af biðlunum, og biðja þá gjafa; segir hann, að þeim manni,
sem lifir á bónbjörgum, henti eigi að vera ófrömum“.
353 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði:
„Voldugi Seifur, veit mér þá bæn, að þú lát Telemakkus verða
auðnumann, og hlotnast allt það, er hann æskir sér“.
356 Að svo fyrirmæltu tók hann við sendingunni báðum
höndum, og lagði hana til fóta sér, þar sem hann sat, ofan á
pokaræfilinn, fór svo að éta, og var að því, meðan söngmaðurinn
kvað í höllinni, og stóðst það á endum, að hann var búinn
að éta, þegar hinn ágæti söngmaður hætti.
360 Nú tóku biðlarnir til að hafa hátt um sig í höllinni;
gekk Aþena þá til Odysseifs Laertessonar, og rak eftir honum,
að hann gengi fyrir biðlana og bæði sér beina, svo hann kæmist
að raun um, hverjir af biðlunum væri sannsýnir menn, og
hverjir engum réttindum skeytti; og ætlaði hún þó ekki að
heldur að hlífa neinum þeirra við óhamingjunni. Odysseifur
fór nú, og tók til hægra megin í höllinni, bað hvern mann að
gefa sér, og rétti hendur frá sér hvaðanæva; lék hann þetta,
eins og hann hefði langa lengi lifað á bónbjörgum. Þeir kenndu
í brjóst um hann, og gerðu honum úrlausn; fannst þeim mikið
um þenna mann og spurði hverr annan, hverr hann væri, og
hvaðan hann kæmi. Þá tók Melanþíus geitahirðir svo til orða:
„Hlustið til, þér biðlar hinnar víðfrægu drottningar, meðan
eg segi það, sem ég veit um þenna gest, því eg hefi séð hann
áður. Það er víst, að svínahirðirinn fylgdi honum hingað, en
hitt veit eg ekki með vissu, hverrar ættar hann er“.
374 Svo mælti hann, en Antínóus deildi á svínahirðirinn, og
sagði: „Hví fylgdir þú, illa ræmdi svínahirðir, karli þessum til
borgarinnar? eða höfum vér ekki nóga aðra flökkumenn og
leiða fátæklinga, sem gera hér veizluspjöll? eða þykja þér þeir
offáir, sem hér eru saman komnir og eta upp eigur hússbónda
þíns, að þú skulir hafa farið að bjóða þessum karli hingað líka?“
380 Evmeus svínahirðir svaraði honum og sagði: „Ekki er
þetta vel mælt af þér, Antínóus, svo göfugum manni. Hverr
mundi gera sér ferð til þess, að bjóða til sín ókunnum manni
úr öðru landi, nema sá hinn sami sé að einhverju þjóðnýtur,
annaðhvort spámaður, eða læknir, eða smiður, eður og andríkur
söngmaður, er kveðið geti mönnum til skemmtunar? því
slíkir menn eru öllum velkomnir um víða veröld. En varla fer
nokkurr að bjóða til sín sníkjugesti, sem eta mundi sjálfan
hann út á hússgang. Það er kynlegt, að þú skulir jafnan vera
verri við þræla Odysseifs, en allir hinir biðlarnir, og einkanlega
við mig; en eg skeyti því ekki, meðan eg veit af þeim lífs í
höllinni, hinni vitru Penelópu og hinum goðumlíka Telemakkusi“.
392 Hinn greindi Telemakkus svaraði honum: „Þegi þú!
þú mátt ekki vera svörull við þenna mann. Það er jafnan vandi
Antínóusar, að vera meinertinn með óþægum orðum, og líka
eggjar hann aðra til hins sama“.
396 Þá hann hafði sagt þetta, talaði hann til Antínóusar
skjótum orðum: „Dáfallega lætur þú þér um mig hugað,
Antínóus, rétt eins og faðir um son sinn! þar sem þú býður
með stóryrðum, að reka gestinn út úr höllinni. Guð láti það
aldrei verða! Taktu eitthvað til, og gefðu gestinum; eg meina
þér það ekki, nei, eg er þess heldur hvetjandi; þú þarft ekki að
forðast hana móður mína að því, eða nokkurn af þrælum þeim,
sem eru í höll hins ágæta Odysseifs. Nei, það er ekki þesslegt,
að þú sért svo lyntur; þú vilt langtum heldur eta sjálfur, en
gefa öðrum“.
405 Antínóus svaraði honum og sagði: „Hvað segir þú, stórorði
og ofurhugaði Telemakkus! Ef hverr biðlanna viki að
honum öðru eins, þá mundi hann ekki hingað koma oftar, og
ekki út fyrir dyr fara í þrjá mánuði“.
409 Þá hann hafði þetta sagi, tók hann fram undan borðinu
fótaskör, sem þar lá og hann var vanur að leggja á fætur
sína, þá hann sat að veizlum. Allir aðrir gáfu nú gestinum, og
fylltu poka hans með brauð og kjöt, og nú ætlaði Odysseifur
bráðum að fara aftur á þröskuldinn, til að smakka á ölmusugjöfum
Akkea, en gekk um leið fyrir Antínóus, og talaði til
hans: „Gef mér nokkuð, kæri! Svo lízt mér á þig, sem þú
munir ekki vera hinn lítilmannlegasti af Akkeum, heldur hinn
göfuglegasti, því þú ert því líkastur, sem þú værir einhverr
konungur. Þessvegna ber þér að vera örlátari af matnum, en
aðrir; enda skal eg þá bera lofstír þinn út um víða veröld. Þær
voru tíðirnar, að eg átti líka hamingjuláni að fagna, og átti
auðugt bú, gerði eg þá mörgum förumanni gott, hversu vesæll
sem hann var, og hvers sem hann við þurfti; eg átti ótal þræla,
og marga hluti aðra, sem þeir einir eiga, er kallaðir eru velsældarmenn
og auðmenn. En Seifi Kronussyni þóknaðist að
bregða þessu láni. Hann kom mér til að fara í langferð til
Egyptalands með víkingum nokkurum, til þess eg skyldi rata
í ógæfuna. Eg lagði hinum borðrónu skipum upp í Egyptafljót;
þá bað eg mína kæru förunauta að vera kyrra við skipin, þar
sem vér höfðum tekið land, og gæta skipanna, en sendi menn
upp á leiti í njósn. En með því þeir voru ofstopar og fylgdu einræði
sínu, þá tóku þeir þegar til að eyða hina fögru akra
Egyptalandsmanna, ræna konum og ungbörnum, og drepa niður
karlmannafólkið. Nú barst hersagan skjótt til borgarinnar; og
er borgarmenn heyrðu hersöguna, komu þeir undir eins og
lýsti af degi, og var þá hverr völlur þakinn fótgöngumönnum
og vagnaliði og leiftranda málmi. Hinn þrumuglaði Seifur kom
þá illum flótta í lið mitt, svo enginn af mínum mönnum þorði
að veita viðnám, því háskinn var á allar hendur; drápu landsmenn
þar marga menn af oss með beittum vopnum, handtóku
suma, og leiddu á land upp í ánauð. En mig gáfu þeir burt
til Kýpreyjar gestfélaga nokkurum, er til þeirra kom; sá hét
Dmetor Jasusson, og var ríkur konungur í Kýprey. Kom eg
nú einmitt þaðan hingað, og hefi miklum raunum mætt“.
445 Antínóus svaraði honum og sagði: „Hvaða óhamingja
hefir stefnt hingað þessum meinvætt, til þess að gera hér veizluspjöll.
Snáfaðu fram á gólfið, og stattu þar, en komdu ekki
nærri borðinu mínu; annars er hætt við, að þú farir ekki betri
för, en þú fórst til Egyptalands og Kýpreyjar. Svo framan og
ósvífinn förukarl hefi eg aldrei séð; þú gengur á röðina og
kemur fyrir hvern mann, en allir eru svo hugsunarlausir, að
þeir gera þér úrlausn: því þegar hverr hefir nóg fyrir framan
höndurnar, hlífast þeir ekki við, og eru ósparir á að gefa af
því, sem aðrir eiga“.
453 Hinn ráðagóði Odysseifur vék þá til baka, og mælti: „Sér
er hvað! góðmennskan fer þá ekki eftir útlitinu hjá þér! Varla
tryði eg því, að þú tímdir að gefa manni, sem bæði þig ölmusu,
svo mikið sem einn saltmola af þínu eigin borði, fyrst þú tímir
ekki að láta neitt matarkyns af hendi rakna við mig, og situr
þú þó við annarra manna borð, og hefir nóg fyrir framan
hendurnar“.
458 Svo mælti hann, en Antínóus varð við þetta enn reiðari;
hann leit til hans með reiðisvip, og talaði skjótum orðum: „Nú
hugsa eg þú komist ekki klaklaust aftur út úr höllinni, fyrst
þú hreytir úr þér smánaryrðum“.
462 Þá hann hafði sagt þetta, tók hann fótaskörina, og rak
hana á hægri öxl hans upp við hálsinn, en Odysseifur stóð fastur
fyrir, eins og klettur, og þokaðist ekki úr stað við högg það,
er Antínóus greiddi honum. Hann hristi höfuðið, en talaði
ekki orð, því hann hafði illt í huga; fór síðan aftur að þröskuldinum,
og settist þar, og lagði af sér fullan malpokann, mælti
síðan til biðlanna: „Hlustið til, þér biðlar ennar víðfrægu
drottningar, meðan eg tala það sem mér býr í brjósti. Enginn
maður kveinkar sér eða lætur á sér festa, þó hann fái sár í
bardaga, þegar hann er að verja fé sitt, naut eða sauði. Hér
stóð öðruvísi á, Antínóus laust mig vegna þess eg vildi sefa hið
illa og meinsamlega hungur, sem er mönnum svo margs ills
ollandi. En sé það víst, að fátækir menn eigi guðina og hefndargyðjurnar
að, þá óska eg, að Antínóus hreppi sitt banadægur,
áður en hann kvongast“.
477 Antínóus Evpíþesson svaraði honum: „Sittu kyrr, gestur,
og vertu að éta, eða þá farðu burt, og eitthvað annað; annars
máttu búast við, fyrir orðin, sem þú hefir, að sveinarnir dragi
þig út úr höllinni á fætinum eða handleggnum, svo þú verðir
allur hruflaður“.
481 Svo mælti hann, en þeim þókti öllum stórlega fyrir, og
þá tók einhverr af hinum ofstopafullu sveinum svo til orða:
„Ekki var það fallega gert af þér, Antínóus, að slá vesalings
förumanninn. Einhver óheill stendur af þér! Hverr veit nema
þetta sé einhverr guð af himni ofan? Því guðirnir, sem geta
brugðið sér í allar myndir, eru vanir að ganga um byggðir
manna í líkjum útlendra gesta, og gefa svo gætur að ofstopa og
siðlæti mannanna“.
488 Svo mæltu biðlarnir, en Antínóus gaf öngvan gaum að
orðum þeirra. Telemakkusi sveið sárt, að barið var á gestinum:
þó felldi hann ekki tár af augum, heldur hristi höfuðið og
mælti ekki orð, því hann hugsaði biðlunum ekki gott niðrí.
492 Þegar hin vitra Penelópa heyrði, að barið var á gestinum
í stofunni, sagði hún til ambáttanna: „Eg vildi, að hinn
bogfimi Apollon lysti þig sjálfan eins!“
495 Matseljan Evrýnóma svaraði henni: „Ef svo færi, sem
við óskum, mundi enginn þeirra líta þá næstu morgunsól“.
498 Hin vitra Penelópa svaraði henni aftur: „Að sönnu eru
þeir mér allir leiðir, heillin góð, af því þeir hafa illt með
höndum; þó er mér verst við Antínóus, hann er mér leiður,
sem hinn dimmi dauði. Einhverr útlendur aumingi er að ráfa
um höllina, og biður ölmusu, því örbirgðin þrýstir honum til
þess; allir hafa gert honum úrlausn og gefið honum, nema
Antínóus, hann laust fótaskörinni ofan til í hægri öxl honum“.
505 Þannig talaði hún, þar sem hún sat í kvennasalnum hjá
ambáttunum. Odysseifur var að snæða, meðan þetta var. Hún
kallaði þá til sín hinn ágæta svínahirðir, og sagði við hann:
„Far þú, góði Evmeus, og bið gestinn koma; eg ætla að hafa
orð af honum, og spyrja hann, hvort hann hafi frétt nokkurs
staðar til hins þolgóða Odysseifs, eða séð hann sjálfur, því
mér lízt svo á þenna mann, sem hann muni víða farið hafa“.
512 Evmeus svínahirðir svaraði henni, og sagði: „Ef Akkear
hefðu hljótt um sig, drottning, þá mundi þér þykja skemmtun
að tali þessa manns, svo segist honum vel frá! Eg hýsti hann í
þrjár nætur, og hélt honum í þrjá daga á bæ mínum, því hann
hafði strokið af skipsfjöl, og kom fyrst til mín; og þó hefir
hann enn ekki sagt til loks alla raunasögu sína. Mér fór eins
og manni þeim, er starir á þann söngmann, sem kveður dauðlegum
mönnum til skemmtunar hjartnæm kvæði, þau er hann
numið hefir af sjálfum guðunum; eins og menn langar æ því
meir til að hlýða á hann, því lengur sem hann heldur áfram að
kveða: eins varð eg frá mér numinn, þegar hann sat hjá mér í
kotinu og var að segja mér söguna. Hann kveðst vera gestavinur
föður Odysseifs, og eiga heima í Krít, þar sem ættniðjar Mínóss
búa. Hann kom þaðan hingað nú fyrir skömmu eftir miklar
þrautir og margvíslega hrakninga; læzt hann hafa frétt, að
Odysseifur sé á lífi, hér nálægt í Þesprótalandi, og hafi meðferðis
margar gersemar heim til sín“.
528 Hin vitra Penelópa svaraði honum: „Far þú, kalla þú
hann hingað, eg vil láta hann segja frá því sjálfan, svo eg
heyri á. Biðlar þessir geta setið í fordyrinu og gamnað sér þar,
eða þá í stofunni, þar sem þeir eru. Þeim er kátt í hug, þar
sem eigur þeirra liggja óskertar heima hjá þeim, bæði kornmatur
og hið ljúffenga vín, nema það sem húskarlar þeirra neyta;
en sjálfir venja þeir hingað komur sínar dag hvern, slátra
nautum og sauðum og feitu geitfé, sitja að mannboðum, og
drekka hið skæra vín gegndarlaust, gengur þar mikið til af
eigum mínum; því nú er ekki sá maður til staðins, er Odysseifs
maki sé, til að bægja þessari óhamingju frá heimili mínu. Ef
Odysseifur væri heim kominn í sitt föðurland, og væri hér, mundi
hann ásamt með syni sínum hefna þess ofríkis, er þessir menn
hafa í frammi“.
541 Svo mælti hún; þá fékk Telemakkus mikinn hnerra, svo
að hátt tók undir í allri stofunni. Þá hló Penelópa, og talaði
þegar skjótum orðum til Evmeusar: „Farðu og kallaðu gestinn
hingað til mín! Sérðu ekki, að sonur minn hnerraði til
allra minna orða? Þar fyrir hugsa eg, að biðlunum muni bani
búinn öllum saman, og mun enginn þeirra undan komast dauðanum
og Banagyðjunum. En eitt vil eg segja þér, sem þú skalt
taka eftir: ef eg kemst að raun um, að hann segi satt frá öllu,
þá skal eg gefa honum sæmilegan klæðnað til að vera í, bæði
yfirhöfn og kyrtil“.
551 Þá hún hafði sagt þetta, fór svínahirðirinn, þegar hann
hafði fengið skilaboðin, gekk til gestsins, og kvað svo að orði:
„Gestur góður, hin vitra Penelópa, móðir Telemakkuss, kallar
á þig; þó hún sé næsta sorgmædd, leikur henni hugur á að fá
einhverja fregn um mann sinn. Og ef hún kemst að raun um,
að þú segir satt frá öllu, þá ætlar hún að gefa þér yfirhöfn og
kyrtil, sem þú helzt þarfnast; en saðning þinn geturðu fengið,
með því að ganga meðal manna og biðja þér matar, því sérhverr
greiðvikinn maður mun víkja þér einhverju“.
560 Hinn þrautgóði, ágæti Odysseifur svaraði honum: „Að
vísu gæti eg, Evmeus, sagt hinni vitru Penelópu Íkaríusdóttur
þegar í stað sanna sögu um allt, því mér er fullkunnugt um
hann, er við höfum báðir ratað í sömu raunir; en eg þori ekki
að hætta mér í flokk hinna svæsnu biðla, hverra yfirgangur og
ofríki gengur fjöllunum hærra. Því áðan, þegar eg gekk um
stofuna í meinleysi, laust hann mig maðurinn, sem þarna er,
svo eg kenndi til, og gat hvorki Telemakkus, né nokkurr hinna
aftrað því. Þess vegna skaltu segja Penelópu, þó hana langi eftir
fréttunum, að bíða í herbergi sínu, þar til sólarlag er komið;
þá getur hún spurt mig um heimför bónda síns, vilda eg þá
hún veldi mér sæti nálægt eldinum, því eg er í lélegum fötum,
eins og þér er sjálfum kunnugt, þar eg kom fyrst á þínar náðir“.
574 Svo mælti hann, en er svínahirðir hafði heyrt þessi skilaboð,
gekk hann til drottningar, og þegar hann var stiginn inn
yfir þröskuldinn, talaði Penelópa til hans: „Kemurðu ekki með
hann, Evmeus? Hvað hugsar förumaðurinn með þessu ? Kannske
hann sé hræddur við einhvern ójafnaðarmann, eða hann sé svo
feiminn, að hann þori ekki að ganga um stofuna. Það er bágt
að vera feiminn fyrir þann, sem lifa skal á bónbjörgum“.
579 Evmeus svínahirðir svaraði henni og sagði: „Maðurinn
hefir rétt fyrir sér, og sama mætti hverjum öðrum í hug koma:
hann vill forðast ofríki hinna ofstopafullu biðla, og því segir
hann, að þú skulir bíða til þess er sól sezt. Það er líka miklu
betra fyrir sjálfa þig, að eiga tal við gestinn og heyra andsvör
hans í einrúmi“.
585 Hin vitra Penélópa svaraði honum: „Ekki er ímyndun
gestsins óviturleg, hverr sem hann er; því varla held eg finnist
nokkurstaðar í heimi þeir yfirgangsmenn, sem séu jafnfrekjufullir,
sem þessir menn“.
589 Þannig mælti hún, en hinn ágæti svínahirðir gekk inn
til biðlanna, þegar hann hafði skilað erindinu; hann talaði þá
skjótum orðum til Telemakkuss og laut höfði til hans, svo
aðrir skyldu ei heyra: „Nú ætla eg að fara heim, kæri, til að
gæta svínanna og hins, sem heima er, þinna eigna og minna,
en þú skalt hafa gát á öllu innan hallar. Fyrst af öllu skaltu
vera var um sjálfan þig, og gæta þess, að þér verði ekkert að
grandi, því margir af Akkeum hafa illan hug til þín; tortýni
Seifur þeim, áður en þeir verði oss að tjóni!“
598 Hinn greindi Telemakkus svaraði honum: „Svo skal
vera, faðir sæll, en bíddu fyrst náttmálanna, og farðu svo;
komdu svo aftur með morgunsárinu, og hafðu með þér útvalið
blótfé, en eg skal með hjálp hinna ódauðlegu guða hafa hér
gát á öllu“.
602 Svo mælti hann, en Evmeus settist aftur á hinn fagra
stól, og þá hann hafði etið og drukkið lyst sína, gekk hann
af stað til svínanna; hann gekk út úr forgarðinum og höllinni,
sem alsett var af boðsmönnum; skemmtu þeir sér við dansleik
og söng, því þá voru komin náttmál.
[1281.png]
[1283.png]
ÁTJÁNDI ÞÁTTUR.
HNEFALEIKUR ODYSSEIFS OG ÍRUSS.
ÞAR kom til hallarinnar húsgangsmaður nokkurr, allra
sveita kvikindi, sem þar var vanur að ganga um í
Íþökuborg og biðja sér ölmusu; hann var hinn mesti
ofneyzlumaður, síétandi og sídrekkandi; kraftalaus var hann
og óharður, en ærið mikill á velli að sjá. Hann hét Arneus, það
nafn hafði hans heiðvirða móðir gefið honum; en allir hinir
yngri menn kölluðu hann Írus, af því hann var því vanur að
fara með skilaboð, þegar hann var beðinn. Þegar Írus kom í
höllina, vildi hann reka Odysseif úr húsi sínu, og gjörðist við
hann stórorður, og sagði: „Farðu burt úr fordyrinu, karl, ef
þú vilt ekki verða fóttogaður! Sérðu ekki, að allir eru að depla
til mín augunum, og biðja mig að draga þig út. Eg fyrirverð
mig samt að gera það; stattu heldur upp, því annars er hætt
við, að bráðum komi til handanna milli okkar“.
14 Hinn ráðagóði Odysseifur leit til hans reiðuglega og sagði:
„Ekki er eg að leggja neitt til þín, kunningi, eða tala þér illa
til, og ekki sé eg ofsjónum yfir, þó einhverr greiði fyrir þér,
og það ekki þó hann taki ríflega til. Það er nóg rúm fyrir
okkur báða hérna á þröskuldinum. Það er óþarfi fyrir þig,
að sjá ofsjónum yfir mér, þó aðrir geri mér gott; mér sýnist
þú vera förumaður líka, eins og eg; en hamingjulánið veita
guðirnir. Æ, vertu ekki að bjóða mér út í handalögmál! gerðu
mig ekki illan! eg er hræddur um, að eg gæfi þér blóðnasir, þó
eg sé gamall; eg gæti þá líka betur haft frið fyrir þér á morgun,
því mig vonar, að þú mundir þá ekki koma í næsta sinn í
höll Odysseifs Laertessonar“.
25 Húsgangurinn Írus reiddist við þetta, og sagði: „Heyr
á endemi! enn hvað mathákurinn fleiprar, eins og eldakerling!
Mér þækti gaman að finna þig í fjöru, berja á þér með báðum
höndum, og brjóta allar tennurnar úr skoltinum á þér, eins
og gert er við túnsæknu svínin. Beltaðu þig nú, svo allir, sem
hér eru, sjái upp á, þegar við berjumst. Hvernin áttu að geta
barizt við ungan mann?“
32 Að þessu þjarki voru þeir á þröskuldinum fyrir framan
stofudyrnar, báðir fokreiðir. Hið ágæta hraustmenni Antínóus
heyrði lætin til þeirra, hann sagði þá til biðlanna, og hló dátt
upp yfir sig: „Slíkt hefir aldrei fyrr að borið, vinir! mikla
blessaða skemmtan lætur guð verða hérna í höllinni! Þeir eru
að bjóða hvorr öðrum út að fljúgast á, gesturinn og hann Írus;
við skulum strax etja þeim saman!“
40 Svo mælti hann, en þeir stukku upp allir hlæjandi, og
flykktust í kringum förukarlana, sem voru illa klæddir. Antínóus
Evpíþesson tók þá svo til orða: „Heyrið til, þér vösku biðlar,
meðan eg tala fáein orð. Hér eru nokkurar geitvambir yfir eldinum,
faldar upp með mör og blóð, sem vér höfum ætlað til
kvöldverðar oss. Hvorr karlanna, sem ber af öðrum og betur
hefir, skal mega velja sér sjálfur hvert iðrið sem hann vill;
sá skal og ávallt hér eftir sitja að veizlu með oss, og öngvum
öðrum förumanni skulum vér leyfa að koma í höllina til að
biðja ölmusu“.
50 Svo mælti Antínóus, og féllust allir á það, sem hann
sagði. Hinn slægvitri, margráðugi Odysseifur tók þá svo til
orða: „Góðir menn, með öngvu móti em eg fær um, gamall
maður og mæddur af vesöld, að berjast við ungan mann. En
með því sár sulturinn sverfur fast að mér, knýjumst eg til að
hætta mér undir höggin. En þá verðið þér allir að vinna mér
þess styrkvan eið, að enginn yðar skal gera það Írusi í vil, að
slá mig af hrekk með harðri hendi, til þess að hann verði
mér yfirsterkari“.
58 Svo mælti hann, en þeir sóru allir, eins og hann mæltist
til. Þá tók hinn ágæti höfðingi Telemakkus til orða: „Ef þú,
gestur, finnur hjá þér hug og dug til, að reka þenna karl
af höndum þér, þá máttu vera óhræddur, að enginn af Akkeum
skal gera þér mein; því hverr sem blakar þig hendi, hann
skal eiga fleirum að mæta. Eg er gestgjafi hér, og þeir höfðingjarnir,
Antínóus og Evrýmakkus, sem báðir eru vitrir menn,
skulu verða mér samþykkir hér í“.
66 Svo mælti hann, en þeir rómuðu allir mál hans. Nú batt
Odysseifur upp tötrana um sig miðjan; sáust þá læri hans, sem
voru sjáleg og mikil, þá sáust og hans breiðu herðar, og bringan
og hinir þreklegu handleggir; en Aþena gekk þá til þjóðhöfðingjans,
og gerði allt hans limalag vöxtuglegra. Furðaði biðlana
stórlega á þessu, og þá tók einhverr þeirra svo til orða, í því
hann leit til þess, sem næstur honum stóð: „Senn fer illa fyrir
veslings Írusi, og má hann kenna sjálfum sér um. Enn að sjá
lærastoðirnar, sem koma fram undan tötrunum karlsins þarna!“
75 Svo mæltu þeir, en Írusi varð illa felmt við. Eigi að síður
leiddu þjónarnir hann fram, þá þeir höfðu stytt hann upp, og
drógu hann með valdi, var hann þá svo hræddur, að holdið
nötraði á beinum hans. Antínóus átaldi hann, tók til orða og
sagði: „Það væri betur, að þú værir ekki til, og hefðir aldrei
til orðið, oflátungurinn þinn, fyrst þú titrar allur og ert lafhræddur
við þenna gamla mann, sem örmæddur er af þeim
raunum, sem hann hefir í ratað. En eitt skal eg segja þér, sem
eftir mun ganga: ef þessi karl sigrar þig og hefir betur, þá skal
eg flytja þig á skip, og senda með þig inn á meginland til
Eketuss kóngs, sem sálgar öllum mönnum, er til hans koma;
hann mun sníða af þér nef og eyru, slíta undan þér, og gefa
það hundum hrátt að éta“.
88 Svo mælti hann, en við þetta setti enn meiri skjálfta að
Írusi; síðan leiddu þeir hann fram, og nú reiddu báðir karlarnir
upp hnefana. Hinn margþjáði, ágæti Odysseifur hugsaði
sig þá um, hvort hann skyldi ljósta svo hart, að Írus félli þegar
í stað dauður niður, ellegar skyldi hann slá linlega til, svo að
hann að eins jarðvarpaði honum. En er hann taldi þetta í hug
sér, leizt honum ráðlegra, að ætla sér af, svo Akkea skyldi eigi
gruna, hverr hann væri. Báðir karlarnir reiddu nú til höggs,
kom högg Írusar á hægri öxl Odysseifs, en Odysseifur laust á
hálsinn fyrir neðan eyrað, svo að inn sprungu beinin, gaus þá
blóðspýja fram úr Írusi, hann datt öskrandi til jarðar, japlaði
tönnunum, og brauzt um á hæli og hnakka. Hinir göfugu
biðlar fórnuðu þá upp höndunum, og ætluðu að springa af
hlátri. Odysseifur tók í fót Írusar, og dró hann út eftir fordyrinu,
þar til hann kom að forgarðinum, og stólpagangsdyrunum,
þar reisti hann Írus upp við húsagarðsvegginn, lét prik í hönd
honum, og talaði svo til hans skjótum orðum og sagði: „Sittu
nú hérna, og bandaðu móti svínunum og hundunum! Ekki
skaltú, vesalingurinn þinn, vera hér kóngur yfir gestum og
gangandi, nema þú viljir enn verri för fara“.
108 Að því mæltu varpaði hann á bak sér hinum herfilega
malpoka, sem víða var götóttur, og í fléttuband til að halda
í. Hann gekk nú aftur að þröskuldinum, og settist þar; en
biðlarnir gengu inn í stofuna og hlógu dátt, fögnuðu Odysseifi
og sögðu: „Seifur og aðrir ódauðlegir guðir veiti þér, gestur,
allt hvað þú helzt æskir þér, og þér er hjartkærast, fyrir það
að þú vandir af komur þessa matháks, hér um byggðir; því bráðum
munum vér flytja hann inn á meginland til Eketuss kóngs,
sem sálgar öllum mönnum, er til hans koma“.
117 Svo mæltu þeir, og varð Odysseifur glaður við þessa
orðheill. Þá lagði Antínóus fyrir hann stórt blóðmörsiður, en
Amfínómus tók tvö brauð úr körfunni, og lagði fyrir hann,
drakk honum síðan til af gullbikar, og sagði: „Heill þér, gestur
sæll, eg óska, að þér hlotnist lán og hamingja seinna meir, þó
þú eigir nú við mörg bágindi að berjast“.
124 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði: „Svo
lízt mér á þig, Amfínómus, sem þú munir vera maður harðla
vitur, áttu og kyn til þess, þar sem hann faðir þinn var. Heyrða
eg þar fagurt frá sagt, að Nísus frá Dúliksey væri öðlingur af
manni og vel fjáður; er mér sagt, að þú sért sonur hans, lízt
mér svo á þig, að þú munir vera valmenni. Þess vegna ætla
eg að segja þér nokkuð, taktu nú eftir, og hlustaðu til. Ekkert
af öllu því, sem á jörðu andar og bærist, er ístöðuminna, en
maðurinn. Meðan guðirnir veita honum velgengni og líkamsfjör,
hugsar hann, að hann muni aldrei nokkuru illu mæta framvegis.
En þegar hinir sælu guðir láta bölið einnegin falla í
hans skaut, þá þrokar hann það fram af sér, og unir illa hlutfalli
sínu. Því lund jarðneskra manna er eins og dagurinn, sem
faðir manna og guða lætur yfir þá koma. Sú var og tíðin, að
eg gat verið lánsmaður, en eg framdi margt ofríki, þar eg
treysti á mátt minn og megin, og reiddi mig á föður minn og
bræður mína. Því skyldi enginn maður nokkuru sinni vera
óréttvís, heldur njóta með spekt þeirra gjafa, sem guðirnir
veita honum. Svo sé eg og að biðlar þessir hafa mörg illverk í
frammi, eyða eigum og svívirða konu þess manns, er eg hygg
að ekki muni hér eftir lengi vera fjærvistum frá vinum sínum
og föðurlandi; nei, eg hygg hann vera allnærri. Vildi eg því
óska, að einhverr bjargvættur leiddi þig heim héðan, svo þú
yrðir eigi á vegi hans, þegar hann kemur heim í sitt kæra föðurland;
því það er ætlan mín, að þeir muni ekki vandræðalaust
skilja, biðlarnir og hann, þegar hann er kominn undir húsþak
sitt“.
151 Þá hann hafði þetta sagt, dreypti hann hinu sæta víni,
drakk síðan, og rétti bikarinn aftur að þjóðhöfðingjanum. Gekk
Amfínómus þá um gólf í stofunni, drap niður höfði, og lá
illa á honum, því nú tók hann að óa fyrir einhverri ógæfu. En
allt fyrir það varð eigi feigum forðað; því Aþena kom á hann
herfjötrum, svo hann skyldi verða vopndauður og falla fyrir
spjóti Telemakkusar. Settist hann þá aftur á þann stól, sem
hann hafði áður á setið.
158 Hin glóeyga gyðja Aþena blés nú því í brjóst hinni
vitru Penelópu Íkaríusdóttur að ganga á fund biðlanna, til
þess þeim skyldi verða sem heitast um hjartarætur, og hún
sjálf meir metin en áður af manni hennar og syni. Hún gerði
sér nú upp hlátur, tók til orða og sagði: „Evrýnóma, allt hvað
biðlarnir eru mér leiðir, þá langar mig þó til, aldrei þessu vant,
að ganga á fund þeirra. Eg vildi fegin ráðleggja syni mínum,
það sem betur má fara, að hafa ekki mjög mikil mök við hina
yfirgangssömu biðla, sem tala fagurt, en búa yfir illu“.
169 Matseljan Evrýnóma svaraði henni: „Allt er þetta vel
mælt, sem þú segir, dóttir góð! Far þú, og ráð syni þínum
heilt, og leyn öngvu af, en fyrst skaltu þó þvo þér og smyrja
þig í framan; þú skalt ekki ganga fram svona, eins og þú ert,
með andlit vott af tárum: það er ekki gott að vera í sífelldri
sorg, sem aldrei linnir. Nú er líka sonur þinn kominn á þann
aldur, að þú sér hann orðinn frumvaxta, eins og þú baðst hina
ódauðlegu guði að þér mætti auðnast“.
177 Hin vitra Penelópa svaraði henni: „Evrýnóma, mjög
lætur þú þér um mig hugað, en þess vil eg biðja þig, að nefna
það ekki við mig, að taka laug eða smyrja mig; því guðirnir,
sem á Ólympi búa, hafa svipt mig veglyndi mínu, síðan að
maðurinn minn fór utan. Segðu nú henni Átonóu og Hippodamíu
að koma; eg ætla að láta þær vera hjá mér í stofunni, því
eg fyrirverð mig að ganga einsömul inn til karlmanna“.
185 Svo mælti hún, en hin aldraða kona gekk út úr herberginu,
til að flytja konunum þessi boð og segja þeim að
koma. Hin glóeyga gyðja Aþena hafði nú annað ráð með höndum:
hún brá sætum svefni yfir Íkaríusdóttur, svo hún hneig
aftur á bak og sofnaði, urðu allir limir hennar lémagna, þar
sem hún sat á legubekknum. En á meðan hún svaf, veitti hin
veglega gyðja henni himneskar ástgjafir, til þess að Akkeum
skyldi verða starsýnt á hana: fyrst þvoði hún hennar fríða andlit
með ódáins fegurð, þvílíkri er hin fagurbeltaða Kýterea ber á
sig, þá hún gengur í hinn ununarfulla dansflokk Þokkagyðjanna;
þvínæst gerði hún hana hávaxnari og þreknari á að
sjá, og hörundsbjartari en fágað fílsbein. Og sem hin ágæta
gyðja hafði aflokið þessu, gekk hún burt.
198 Nú komu hinar hvítörmuðu þjónustumeyjar út úr herbergi
sínu, og fóru með miklum glaumi. Við það brá Penelópa
hinum væra blundi, hún strauk um vanga sér, og sagði: „Mikið
væran svefn hefi eg haft, raunamædda kona! Eg vildi óska,
að hin hreinlífa Artemis veitti mér nú þegar í stað eins hægan
dauðdaga, svo eg ekki framar þurfi að eyða ævi minni í tárum
og trega út af söknuði eftir minn ástkæra mann, sem skaraði
fram úr öllum Akkeum að alls konar atgervi“.
206 Að því mæltu gekk hún ofan af hinum glæsilega loftsal,
og tvær þjónustumeyjar með henni. En er hin ágæta kona
kom þangað, sem biðlarnir voru, nam hún staðar við dyrustaf
hins traustsmíðaða húss, og hafði fyrir andliti sér smágjörva
höfuðblæju, og stóð sín þjónustumey til hvorrar handar henni;
urðu þá knjáliðir biðlanna magnþrota, því hjörtu þeirra urðu
ástum heilluð, og langaði þá alla til að samrekkja henni. Hún
tók þá svo til orða við Telemakkus, sinn ástkæra son: „Nú er
ekki framar sú staðfesta í geði þínu, Telemakkus, eða þau
hyggindi, sem áður voru. Það bar jafnvel meir á hyggjuviti
hjá þér, meðan þú enn varst ungur. En nú, þegar þú ert vaxinn
maður og í broddi lífs þíns, þegar jafnvel útlendur maður,
sem sæi, hvað þú ert vöxtulegur maður og fríður sýnum, mætti
segja, að þú værir sæls manns sonur, nú er ekki lyndi þitt eða
hyggja, eins og vera ber. Hvílíkt athæfi er það, sem hér hefir
fram farið í höllinni, að þú skulir hafa látið viðgangast, að
gesti þessum væri misboðið svo freklega! Heyr þú! vita skaltu
það, að ef ókunnur maður verður fyrir svo sárum hrakningi
meðan hann er í vorum híbýlum, þá muntu þar af hafa smán
og svívirðingu af hverjum manni“.
226 Hinn greindi Telemakkus svaraði henni: „Ekki lái
eg þér, móðir mín, þó þér þyki fyrir af þessu. Fyrr meir var
eg sem barn, en nú hefi eg fullt vit, og sé, bæði það sem vel
má fara, og eins hitt sem miður fer. Þó get eg ekki haft eins
viturlega fyrirhyggju fyrir öllu, sem skyldi; því þessir illviljuðu
menn setjast að mér hverr á fætur öðrum, og glepja fyrir
mér, en aðstoðarmenn hefi eg öngva. Ekki fór þó bardagi gestsins
og hans Írusar, eins og biðlarnir mundu óskað hafa, því
gesturinn bar hærra hlut. Faðir Seifur og Aþena og Appollon!
Eg vildi óska, að biðlarnir lægi nú yfirkomnir og máttvana í
vorum húsum, sumir í forgarðinum, sumir inni í höllinni, og
væri nú eins niðurlútir, og hann Írus núna, sem situr í forgarðsdyrunum,
og hengir niður hausinn, sem drukkinn maður,
getur ekki staðið réttur á fótum, og ekki komizt þangað sem
hann á heima, svo er hann magnþrota“.
243 Þannig töluðust þau við, mæðginin. Þá sagði Evrýmakkus
við Penelópu: „Dóttir Íkaríuss, vitra Penelópa! Ef allir þeir
Akkear sæju þig, sem búa í hinu íasiska Argverjalandi, þá
mundu fleiri biðlar að veizlu sitja í húsum yðrum á morgni
hverjum; því, þú ber af öllum konum bæði að vænleik og
vexti og að jafnaðargeði“.
250 Hin vitra Penelópa svaraði honum: „Evrýmakkus, hinir
ódauðlegu guðir hafa drepið niður atgervi minni, vexti og vænleik,
síðan Argverjar fóru upp til Ilíonsborgar, og Odysseifur,
maðurinn minn, með þeim. Ef hann væri nú heim kominn að
annast bú mitt, þá mundi vera meira og fegra af mér að frétta.
En nú er eg hugsjúk, því guð hefir látið svo margt mótlæti
að mér steðja. Áður en Odysseifur fór úr landi, tók hann um
úlnlið hægri handar minnar, og kvað svo að orði: „Það er
grunur minn, kona, að hinir harðbrynjuðu Akkear muni ei
allir heilir heim aftur koma frá Trójuborg; því sagt er,
Trójumenn séu hraustir bardagamenn, bæði góðir skotmenn
og bogmenn, þar með góðir riddarar, sem skjótast mega umskipti
gjöra í stórum fólkorustum. Veit eg því eigi, hvort guð
lætur mér heimkomu auðið verða, eða muni eg falla þar í
Trójulandi. Nú skaltu hafa umsjá fyrir öllu, sem hér er, annast
föður minn og móður mína, sem heima eru, eins og þú gerir
nú, eður jafnvel betur, meðan eg er í burtu. En þegar þú sér, að
sonur okkar er frumvaxta, þá skaltu giftast þeim manni, sem
þér er að skapi, og fara burt úr húsi þínu“. Svo mælti hann,
og mun nú allt þetta fram koma; því sú nótt mun koma, þá
hin fagnaðarlausa gifting verður mitt hlutfall, vesællar konu,
sem Seifur hefir svipt allri hamingju. Eitt, sem tekur mig sárt
í hug og hjarta, er það, að það var ekki siður biðla fyrr meir,
að haga sér þannig. Þeir, sem vilja biðja sér göfugrar konu og
ríks manns dóttur, og nokkur metningur er í, þeir færa heim
til brúðarinnar naut og feitt sauðfé, til mannfagnaðar handa
vinum meyjarinnar, og gefa henni fagrar gjafir, en hafa ekki
þann sið, að eyða fjármunum annarra bótalaust“.
281 Svo mælti hún, en hinum margþjáða, ágæta Odysseifi
þókti vænt um, að hún lokkaði af þeim gjafir, og hyllti þá með
fagurgala, þar sem hún þó hafði annað í hyggju. Antínóus
Evpíþesson svaraði henni: „Dóttir Íkaríuss, vitra Penelópa! Þigg
nú þá gjafir þær, er hverr Akkea vill hingað færa; því vant er
velboðnu að neita. En ekki munum vér fyrr hverfa til heimkynna
vorra, eða fara nokkuð annað, en þú gengur að eiga
þann af Akkeum, sem göfgastur er“.
290 Svo mælti Antínóus, og líkaði biðlunum vel tillaga hans.
Sendi nú hverr þeirra sinn kallara til að sækja gjafirnar. Einn
færði Antínóusi stóran, prýðilegan möttul, alla vega litan, á
honum voru ekki færri en tólf krókapör úr gulli, sem féllu í
fallega beygðar lykkjur. Annar færði Evrýmakkusi haglega tilbúna
hálsfesti úr gulli, hún ljómaði eins og sól, því kaflarnir í
milli voru af lýsigulli. Sveinar færðu Evrýdamanti tvö vönduð
eyrnagull með þremur tölum í, skein af þeim mikil fegurð.
Einn sveinninn kom með hálsgjörð heiman frá höfðingjanum
Písander Polýktorssyni, það var hin fegursta gersemi; og sína
gjöfina færði hverr af Akkeum, voru það allt fagrar gjafir.
Eftir það gekk hin ágæta kona upp á loft, fóru þjónustumeyjarnar
með henni, og báru hinar fögru gjafir.
304 Nú fóru biðlarnir þangað sem dansleikurinn var og
hinn ununarfulli söngur, skemmtu sér þar, og biðu þess að
kvöldaði; og meðan þeir voru að þeirri skemmtan, datt hið
dimma kvöld á. Samstundis létu þeir upp setja í höllinni þrjá
eldpalla, til að lýsa höllina; lögðu þeir í kring á pallana
þurrkaðan eldivið, fyrir löngu skrælnaðan og gagnþurran,
nýklofinn með öxi, þar létu þeir og blys á meðal; gengu
ambáttir hins þolgóða Odysseifs að til skiptis, og glæddu
eldana. Hinn seifborni, ráðagóði Odysseifur talaði þá til þeirra:
„Þér ambáttir Odysseifs konungs, þess er lengi hefir á burtu
verið, gangið til þeirra herbergja, er hin virðuglega drottning
byggir, sitjið þar hjá henni í herberginu, henni til skemmtunar,
og spinnið band eða kembið ull. En eg skal annast, að öngvan
þessara skal ljós skorta; því þó þeir vilji vaka til lýsingar, skal
ekki bilbug á mér finna, því eg hefi mjög margt þolað“.
320 Svo mælti hann, en þær hlógu, og litu hver upp á aðra.
Þá atyrti hann hin kinnfagra Melanþó smánarlega. Faðir hennar
hét Dolíus, en Penelópa ól hana upp, sem hún væri dóttir
hennar, og gaf henni barnagull til að leika sér að. Þó gekk
henni ekki til hjarta sú hugraun, sem Penelópa hafði, heldur
lagði lag sitt við Evrýmakkus, og unni honum. Hún atyrti
Odysseif með þessum smánarorðum: „Þú ert eitthvað ekki með
öllum mjalla, gestur hinn vesæli, þar sem þú vilt ekki ganga
út í smiðju eða út í skrafhús (skála) til að sofa, heldur slórir
hér og lætur allt á þér vaða. Eða er þessi ofkæti í þér, af því
þú hafðir sigur yfir hússganginum honum Írusi? Það skyldi
ekki verða, að einhverr gengi senn til móts við þig, sem meiri
væri fyrir sér, en hann Írus, berði þig um höfuðið með hnúum
og hnefum, og ræki þig svo alblóðugan úr stofunni“.
337 Hinn ráðagóði Odysseifur leit til hennar reiðuglega, og
sagði: „Og eg skal upp á stundina fara til hans Telemakkusar
þarna og segja eftir þér, tæfan þín, fyrir orðin, sem þú brúkar,
svo hann skal höggva þig í sundur lið fyrir lið, þar sem þú
stendur“.
340 Svo mælti hann, og skaut með þessum orðum ambáttunum
skelk í bringu; þær flýttu sér út úr stofunni, og skjögruðu
undir þeim fæturnir af hræðslu, því þær hugsuðu, að honum
væri alvara. En hann nam staðar hjá eldpöllunum, og gerði
að logunum, og hafði augun á öllum pöllunum, en var þó að
hugsa um annað með sjálfum sér, sem seinna kom fram.
346 Aþena lét hina vösku biðla ekki með öllu hætta móðgandi
smánarorðum, til þess Odysseifi Laertessyni skyldi verða
enn sárara í skapi. Evrýmakkus Polýbusson tók svo til orða
við biðlana, og dró spott að Odysseifi, því hann vildi koma
félögum sínum til að hlæja: „Hlýðið til, þér biðlar ennar víðfrægu
drottningar, meðan eg segi það sem mér dettur í hug.
Ekki hefir þessi maður komið í höll Odysseifs án einhverrar
sérlegrar ráðstöfunar guðs. Mér sýnist bjarmi leggja út af
honum og upp af höfði hans, rétt eins og af blysunum; því ekki
sést minnsti vottur til hára á höfði honum“. — Að því mæltu
sagði hann við Odysseif borgabrjót: „Ætli þú vildir, gestur, verða
kaupamaður hjá mér, ef eg vildi taka þig, til að tína saman
þyrna og gróðursetja hávaxin tré á einhverju útbúi mínu?
Þú skyldir fá nægilegt kaupgjald, og nógan matinn skyldi eg
þá gefa þér, og föt utan á þig, og skó á fæturna. En eg býst ekki
við, að þú nennir að ganga að vinnu, þar sem þú ekki hefir
öðru vanizt en ómennskuverkum einum; hitt mun þér ljúfara,
að ganga um byggðir og sníkja þér út mat til að láta í hít þína,
sem aldrei verður fyllt“.
365 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði: „Þú
segðir annað, Evrýmakkus, ef við ættum báðir að keppast hvorr
við annan í vinnu, einhverstaðar þar sem loðið væri, á vortíma,
þegar dag væri farið að lengja, og skyldi eg hafa fallega
lagaðan ljá, og þú annan, eins góðan; skyldum við svo reyna
okkur, hvorr betri verkmaður væri, og vera fastandi allt til
rökkurs, en grasið skyldi vera nóg. Eða þá, ef við hefðum tvö
naut að keyra, þau skyldu vera útvalin, bröndótt, stór, bæði
vel alin, jafngömul, jafnsterk og óbilug til þols, skyldum við
hafa fjögur plóglönd að erja, og jarðvegurinn láta vel undan
plógnum: þá skyldir þú sjá, hvort eg gæti haldið einlagt fram
beinni ristunni. Eða þá, ef Kronusson léti einhvern ófrið að
hendi bera í dag, og eg hefði skjöld og tvö spjót, og hjálm, allan
úr eiri gjörvan, sem vel félli að höfði mér: þá skyldirðu sjá,
hvernin eg skyldi berjast í brjósti fylkingar, og þá skyldirðu
ekki þurfa að brígzla mér um hítina. En þú ert ofstopafullur
og önuglega lyntur, þykist mikill fyrir þér og hafa bein í
hendi, af því þú ert með fáum mönnum, og öngvum þeim, sem
dáð sé í; því ef Odysseifur væri heim kominn í föðurland sitt,
þá spái eg, að þó hallardyrnar hérna séu ærið víðar, mundu
þær þó verða þér þröngar útgöngu, þegar þú færir að flýja
fram eftir fordyrinu og út“.
387 Svo mælti hann, en Evrýmakkus varð við þetta afar
reiður, leit til hann illilega og sagði: „Eg skal senn gjalda þér
það grálega, þú armi gestur, að þú talar svo djarflega í margmenninu,
og sést ekki fyrir. Annaðhvort er, að vínið hefir
svifið á þig, ellegar þetta er þitt lundarlag, sem alltaf loðir við
þig, að hreyta fram ónýtum orðum“.
394 Þá hann hafði þetta sagt, tók hann fótaskörina, en Odysseifur
settist niður hjá knjám Amfínómusar frá Dúliksey, því
honum stóð ótti af Evrýmakkus; en Evrýmakkus laust hægri
hönd byrlarans, svo vatnskannan féll og skall í gólfið, en hann
rak upp hljóð, og datt upp í loft á jörðina. Gerðu biðlarnir nú
mikinn hávaða í hinum skuggalegu herbergjum, og þá sagði
einhverr þeirra, í því hann leit til þess, er næstur honum sat:
„Það væri óskandi, að þessi gestur hefði beðið bana einhverstaðar
annarstaðar á flakki sínu, áður en hann kom hingað;
þá hefði hann ekki vakið hér slíka styrjöld. Nú þar á móti
þráttum vér um fátæka förumenn. Það er ekki von, að nokkur
ánægja geti orðið að góðri veizlu, þegar það ræður, sem
verra er“.
405 Hinn ágæti höfðingi Telemakkus talaði þá til þeirra:
„Vesælir menn, þér takið nú til að gjörast óðir, og fáið nú
ekki dulið, að þér hafið neytt matar og drykkjar í óhófi; það
er eins og einhverr guð æsi yður upp. Nú er ráð, þar þér hafið
snætt til hlítar, að þér gangið heim, til að taka á yður náðir,
þegar yður þykir mál til sjálfum; því engum vísa eg á burt
héðan“.
410 Svo mælti hann, en þeir bitu allir á varirnar, og furðaði
á, hvað Telemakkus var djarfmæltur. Þá tók Amfínómus til
orða og sagði: „Enginn má reiðast sannmælunum, góðir menn,
eða svara þeim illu. Látið nú af að hrekja gest þenna, eða nokkurn
af þrælum þeim, sem eru á heimili hins ágæta Odysseifs.
Nú skal byrlarinn skenkja á borðkerin, skulum vér þá dreypa
dreypifórn, og að því búnu ganga heim, að taka á oss náðir,
en láta Telemakkus annast gestinn í herbergjum Odysseifs,
því hann leitaði hælis í hans húsi“.
422 Svo mælti hann, og féll þeim öllum vel í geð, það sem
hann sagði. Öðlingurinn Múlíus, kallari frá Dúliksey, blandaði
vínið í skaftkerinu, hann var þjón Amfínómusar; hann gekk
til hvers manns, og fékk hverjum sinn bikar; en þeir dreyptu
hinum sælu guðum, og drukku svo hið hunangsæta vín. En
er þeir höfðu dreypt, og drukkið, sem þá lysti, gekk hverr
heim til sín, og fóru að hátta.
[1295.png]
[1297.png]
NÍTJÁNDI ÞÁTTUR.
FUNDIR ÞEIRRA ODYSSEIFS OG PENELÓPU.
EVRÝKLEA ÞEKKIR ODYSSEIF.
HINN ágæti Odysseifur var nú eftir í höllinni, og var
að hugsa um að fyrirkoma biðlunum með tilhjálp
Aþenu. Hann talaði þá þegar til Telemakkusar skjótum
orðum: „Nú skaltu taka öll hervopnin og láta þau inn; en
þegar biðlarnir sakna þeirra, og fara að spyrja þig að þeim,
þá skaltu tala til þeirra blíðlega svo felldum orðum: „Eg tók
þau úr reyknum“, skaltu segja, „þau eru nú ólík því, sem þau
voru forðum, þegar Odysseifur skildi þau eftir, áður hann fór
til Trójuborgar, því það hefir fallið á þau, þar sem svælan
hefir náð að komast að þeim. Þar að auki skaut einhverr guð“,
skaltu segja, „í brjóst mér nokkuru, sem meira varðar: ef svo
kynni til að bera, að þér yrðuð víndrukknir, að deila kæmi meðal
yðar, þá vildi eg ekki, að þér bærust vopn á, og gerðuð þar
með veizluspjöll og smánuðuð bónorð yðar; því sjálft laðar
veganda vopn“.
14 Svo mælti hann, en Telemakkus gerði, sem faðir hans
bauð, kallaði á Evrýkleu, fóstru sína, og sagði: „Gerðu nokkuð
fyrir mig, fóstra mín, að þú halt ambáttunum inni í herbergjum
sínum, meðan eg kem fyrir hinum ágætu vopnum föður
míns uppi á geymsluloftinu; þau hafa legið hér í stofunni umhirðingarlaus,
af því faðir minn hefir ekki verið við, og hefir
því fallið á þau í reyknum. Eg hefi hingað til verið athugalaus
um þau, en nú ætla eg að hirða þau þar, sem reykjarsvælan
kemst ekki að þeim“.
21 Hin kæra fóstra Evrýklea svaraði honum: „Eg vildi óska,
sonur sæll, að þá fengir þó einhverntíma skynbragð á, að
annast heimilið og gæta allra eigna þinna. En heyrðu til! hver
á að fara með þér, og halda á ljósinu, fyrst þú bannar ambáttunum
að ganga fram? því annars gætu þær lýst þér“.
26 Hinn greindi Telemakkus svaraði henni: „Það skal gesturinn
þarna gera; því öngvan þann, sem er á mínum kosti,
vil eg láta vera iðjulausan, enn þótt langferðamaður sé“.
29 Svo mælti hann, en hún hugfesti orð hans, og skaut loku
fyrir dyr hinna byggilegu herbergja. En þeir spruttu upp,
Odysseifur og hans frægi sonur, og báru inn hjálmana, hina
bjúgrendu skildi og hin oddhvössu spjót. Pallas Aþena gekk á
undan þeim, og hélt á gulllampa, og lét bjart verða allt í kringum
þá. Þá sagði Telemakkus við föður sinn: „Mikil furða er
þetta, faðir minn, sem nú ber fyrir augu mér; mér sýnist stofuveggirnir,
hinar fögru veggjalautir, furusyllurnar og hinar háttgnæfandi
súlur ljóma allar, eins og logandi eldur. Hér er víst
inni einhverr af þeim guðum, sem byggja hinn víða himin“.
41 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði: „Þegi
þú, geym þetta með sjálfum þér, og grennslast ei þar eftir. Þetta
er vandi guðanna, sem á Ólympi búa. Gakk nú til hvílu, en
eg ætla að verða hér eftir, til þess að erta ambáttirnar, og vekja
enn fremur nýjungagirni móður þinnar, sem sorgbitin mun
spyrja mig allskonar tíðinda“.
47 Svo mælti hann: gekk Telemakkus þá með logandi blysum
út úr stofunni, til að hátta í því svefnherbergi, sem hann
áður var vanur að hvíla í, hvert sinn sem sætur svefn kom
á augu hans. Hann lagðist nú og þar til svefns, og beið lýsingar.
En hinn ágæti Odysseifur var eftir í stofunni, og var að hugsa
um að fyrirkoma biðlunum með aðstoð Aþenu.
53 Hin vitra Penelópa gekk nú út úr herbergi sínu, lík
Artemis eða hinni gullfögru Afrodítu. Nálægt eldinum var
settur legubekkur handa henni, sem hún var vön að sitja á;
hann var lagður fílsbeini og silfri, hafði smiðurinn Ikmalíus
smíðað þann bekk forðum, og gert undir niðri fótaskör til að
standa á, og var hún áföst við bekkinn sjálfan, en yfir bekkinn
var breitt stórt gæruskinn. Hin vitra Penelópa settist á þenna
bekk. Þá komu ambáttirnar fram úr herberginu, og tóku burt
alla vistina, sem og borðin og þau borðker, sem hinir ofurhuguðu
biðlar höfðu af drukkið; þær steyptu eisunni á gólfið úr
eldpöllunum, og hlóðu þar á aftur miklu af nýjum eldivið, til
að lýsa og verma stofuna.
65 Þá atyrti Melanþó Odysseif í öðru sinni, og sagði: „Ætlarðu
enn þá, gestur, að reika hér um stofuna, og það á náttarþeli,
svo enginn hefir næði fyrir þér? ertu á gægjum eftir
okkur kvenfólkinu? Farðu á dyr, auminginn þinn, og láttu
þér nægja, að þú hefir fengið matinn í þig, ellegar eg skal
fleygja í þig eldibrandi og reka þig út“.
70 Hinn ráðagóði Odysseifur leit til hennar með reiðisvip,
og sagði: „Hvað kemur til, ambáttin þín, að þú slæst svona
upp á mig í vonzku? Er það af því, að eg er óhreinn og í vondum
fötum, og bið mér ölmusu um byggðarlög manna? En
neyðin þrýstir mér til þess; fátæklingar og förumenn eiga þátt
í slíku. Þær voru tíðirnar, að eg átti og hamingjuláni að fagna
og átti auðugt bú, gerði eg þó mörgum förumanni gott, sem
til mín kom, hversu aumlegur sem hann var, og hvers sem hann
viðþurfti. Eg átti og ótal þræla, og marga hluti aðra, sem þeir
einir eiga, er velsældarmenn eru og auðmenn eru kallaðir. En
Seifur Kronusson brá þessu láni, því sá hefir verið hans vilji.
Eins mætti svo fara, að rembilætið lækkaði í þér, konukind,
sem þú nú hefir um fram aðrar ambáttir. Hverr veit, nema
hússmóðir þín reiðist þér fyrir eitthvað, og láti þig kenna á
hörðu, eða þá að Odysseifur komi heim, því ekki er enn fyrir
von komið um það. En þó hann væri undir lok liðinn, og
hans eigi framar heim von, þá er þó Appolloni svo fyrir þakkanda,
að Odysseifur á efnilegan son, þar sem Telemakkus er,
sem nú er kominn á þann aldur, að hann hefir gát á, ef einhver
ambáttin er offrekjufull á heimilinu“.
89 Svo mælti hann, en hin vitra Penelópa heyrði, hvað hann
sagði; hún deildi þá á þernuna, tók til orða og sagði: „Fullvel
veit eg, þú djarfa og ósvífna ambátt, hvert stórræði þú hefir
með höndum, og mun það sjálfri þér í koll koma. Þú hafðir þó
heyrt mig sjálfa segja, svo þér var það fullkunnugt, að eg ætlaði
að spyrja gestinn að manni mínum hér í höllinni, sökum
þess að sorgin gengur svo fast að mér“.
96 Að því mæltu talaði hún til matseljunnar Evrýnómu:
„Komdu hingað með stól, Evrýnóma, og breiddu feld yfir
hann, skal gesturinn sitja þar á, og skulum við hafast orð við,
því eg vil spyrja hann tíðinda“.
100 Svo mælti hún, en Evrýnóma brá við skjótt, sókti stól
og setti fram á gólfið, og breiddi yfir hann gæruskinn. Að því
búnu settist hinn þolgóði, ágæti Odysseifur á stólinn, en hin vitra
Penelópa tók svo fyrri til máls: „Fyrst vil eg spyrja þig, gestur,
að því, hverr þú sért, og hverra manna; hvar áttu heima, og
hvar búa foreldrar þínir?“
106 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði henni og sagði: „Trauðlega
mun nokkurr sá dauðlegur maður finnast í víðri veröldu,
sem leggi þér last til, drottning, því frægð þín fer svo langt,
sem himinninn nær; það fer orð af þér, eins og af einhverjum
ágætismanni eða þeim guðhræddum konungi, sem ræður yfir
fjölmennri og hraustri þjóð, og verndar lög og réttindi; af því
stjórnin fer honum giftusamlega úr hendi, þá ber hin dökkva
jörð hveiti og bygg, trén svigna af aldinum, ærnar eiga lömbin
óðum, og fiskurinn gengur að landinu, svo að landsfólkið lifir
sælu lífi undir hans stjórn. Þessvegna skaltu nú heldur spyrja
mig að einhverju öðru hér í höll þinni, en frétta eftir ætt minni
og föðurlandi mínu, svo þú ekki fyllir huga minn með enn
meiri sorgum, þá eg minnist þess; því eg er mikill raunamaður.
Mér sómir ekki heldur, að sitja kveinandi og grátandi í annarra
manna húsum, eins og það ekki er hollt fyrir mann, að vera
ætíð sísyrgjandi. Vera kann líka, að einhver ambáttanna, eður
og þú sjálf, lái mér það, og haldi, að eg fljóti í tárum, af því eg
sé ölvaður“.
123 Hin vitra Penelópa svaraði honum: „Gestur, hinir ódauðlegu
guðir hafa drepið niður atgervi minni, bæði vexti og vænleik,
síðan að Argverjar fór upp til Ilíonsborgar, og Odysseifur,
maðurinn minn, með þeim. Ef hann væri nú heim kominn að
annast bú mitt, þá mundi vera meira og fegra til mín að
spyrja. En nú er eg sorgbitin, þar eð Guð hefir látið mér svo
margt mótlæti að hendi bera. Þessvegna sinni eg hvorki gestum,
né nauðleitamönnum, né heldur sendimönnum, sem fara í
alþjóðleg erindi; því hjarta mitt er vanmegnað af söknuði eftir
hann Odysseif minn. Biðlarnir vilja flýta giftingu minni, en
eg beiti brögðum við. Fyrst blés einhverr guð mér því í brjóst,
að eg setti upp mikinn vef, og óf smágjörva og ummálsmikla
voð í herbergi mínu. Síðan sagði eg til þeirra: „Þér ungu menn,
sem nú biðjið mín, þar eð Odysseifur er dáinn, bíðið, þó yður
sé annt um að ná ráðahag við mig, unz eg hefi lokið við
dúkinn, því mér er ekki um, að vefturinn verði mér ónýtur;
það á að verða náklæði handa öðlingnum Laertes, þegar hin
skaðvæna Banagyðja, sem ræður fyrir dauðanum, er manninn
leggur flatan, hefir yfirbugað hann. Því vera kann, að konur
Akkea hér í landi lái mér, ef hann liggur umbúðalaus, svo auðugur
maður“. Svo mælti eg, og féllust þeir á þetta; óf eg svo
hinn mikla vef á daginn, en rakti upp aftur á næturnar við
ljós. Þannig fékk eg leynt þessu í þrjú ár, svo Akkea grunaði
ekki. En er hið fjórða ár gekk í garð, og ný misseri komu að
hendi, þá voru þernurnar svo ósvífnar og skeytingarlausar, að
þær komu öllu upp um mig, komu þeir þá að mér, þar sem eg
var að verkinu, og átöldu mig harðlega. Þannig neyddist eg
til að ljúka við vefinn, þó mér væri það móti skapi. Get eg
nú ekki lengur undan ráðahagnum skorazt, og hefi engin úrræði
framar; því foreldrar mínir reka eftir mér að giftast, og sonur
minn unir illa sínum hlut, síðan hann er orðinn þess vísari, að
biðlarnir eta upp eigur hans, því nú er hann orðinn fulltíða
maður, svo hann er fær um að veita búinu forstöðu, og Seifur
er tekinn til að veita honum virðingu. En hvað sem þessu
líður, þá seg mér nú ætt þína, og hvaðan þú ert upprunninn;
því ekki muntu vera kominn af fornri eik, eða úr hömrum
hlaupinn“.
164 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði henni og sagði: „Þú
heiðvirða kona Odysseifs Laertessonar! Ætlar þú enn ekki af
að láta að spyrja mig um ætt mína? Eg skal þá segja þér frá
henni. Að sönnu muntu við þetta auka á þá sorg, sem eg nú
hefi; því von er, þó þeim manni sé sárt í skapi, sem eins lengi
hefir í burtu verið frá föðurlandi sínu, eins og eg, hrakizt um
mörg byggðarlög manna, og þolað ýmsar raunir. Eigi að síður
skal eg segja þér frá því, sem þú spyr mig að og þér er forvitni
á að vita.
172 Mitt úti á hinu dimma hafi er land nokkurt, sem heitir
Krítey, það er fagurt land og frjóvsamt, og umflotið af sjó. Þar
búa svo margir menn, að varla verður tölu ákomið, þar eru
níu tigir borga, og skiptast þar tungumál mjög ýmislega, því
þar eru Akkear, þar eru hinir hugstóru Frumkríteyingar, þar
eru Kýdónar og hinir þrídeildu Dórar, og hinir ágætu Pelasgar.
Ein af þessum borgum heitir Knósus, þar var Mínos konungur
í níu ár, málvinur hins mikla Seifs; hann var faðir föður míns,
hins stórhugaða Devkalíons. Við vorum synir Devkalíons
Ídomeneifur konungur og eg. Ídomeneifur fór á stafnbognum
skipum til Ilíonsborgar með Atreifssonum. Nafn mitt er allfrægt,
eg heiti Eton, var eg yngri að aldri, en bróðir minn
var eldri og meiri fyrir sér. Þar sá eg Odysseif, og gaf honum
gestgjafir; því þegar hann ætlaði til Trójuborgar, þá hrakti
stórviðri hann frá Malíuhöfða, og bar hann til Kríteyjar;
hann kom skipi sínu upp í Amnísusá, þar sem hellir Ílíþýju er
þar var hættuleg höfn, og komst hann nauðuglega undan ofviðrinu.
Undir eins og hann kom til borgarinnar, spurði hann
að Ídomeneifi, kvaðst hann vera ástkær og heiðvirður gestfélagi
hans; en hann var þá farinn með hin stafnbognu skip til
Ilíonsborgar, fyrir tíu eða ellefu dögum. Eg leiddi Odysseif heim
til hallarinnar, og tók honum gestbeinlega, og gerði við hann
ástúðlega, því gnógt var til innan hallar; gaf eg honum og
félögum hans, sem með honum voru, byggmélskökur og skært
vín og naut til sláturs, að þeir hefðu það til saðnings sér;
safnaði eg þeim gjöfum hjá alþýðunni. Hinir ágætu Akkear
dvöldu þar tólf daga, því þeir voru veðurfastir í norðanstormi
svo hvössum, að ekki var stætt á landi, hafði einhverr guð gert
það veður í reiði sinni. Á þrettánda degi féll veðrið, og lögðu
þeir þá til hafs“.
203 Þó öll þessi saga væri uppdiktuð, kom hann henni þó
fyrir svo líkindalega, að hún sýndist sennileg. Og sem Penelópa
heyrði söguna, þá hrundu henni tár, og yfirlitur hennar hjaðnaði.
Eins og snjór, sem drifið hefir í útnyrðingi, þiðnar á hávum
fjöllum í landsynningshláku, svo vöxtur kemur í árnar við
leysinguna: eins hjöðnuðu hennar fríðu kinnar, þegar hún útjós
tárunum, og grét manninn sinn, sem þá sat hjá henni.
Odysseifi gekkst hugur við sorgarkvein konu sinnar, en þó
stóðu augun í honum og bærðust ekki, heldur en í þeim væri
horn eða járn; svo varðist hann tárunum kænlega. En er hún
hafði svalað sér á hinum táruga harmi, tók hún aftur til orða,
og sagði við hann: „Nú ætla eg að gera raun til, gestur, hvort
það sé satt, sem þú segir, að þú hafir gist mann minn og hans
ágætu förunauta í höll þinni. Lýstu fyrir mér að nokkuru klæðum
þeim, sem hann var í, og hvernig hann sjálfur var í hátt, svo
og félögum þeim, sem með honum voru“.
220 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði henni og sagði: „Bágt
verður fyrir mig, drottning, að segja þér það, þar sem svo
langt er, síðan við höfum sézt, því nú er á tuttugasta ár, síðan
hann fór þaðan, og burt frá föðurlandi mínu. Eigi að síður
skal eg segja þér það, sem mig rekur minni til. Hinn ágæti
Odysseifur var í guðvefjar loðkápu tvíbrotinni, á henni var
gullpar með tveimur augum. Framan á parinu var gert hagvirki:
þar var á hundur, sem hélt á flekkóttum hindarkálfi
í framlöppunum, og hvessti rakkinn augun á kálfinn, meðan
hann var að sprikla; en á því furðuðu sig allir, hversu
það var gert, að hundurinn hvessti augun á kálfinn, meðan
hann var að kyrkja hann, og hvernig kálfurinn spriklaði
fótunum, til þess að losa sig, og þó voru þeir báðir úr gulli
gerðir. Eftir því tók eg líka, að Odysseifur var í ljómanda kyrtli,
hann var eins mjúkur og himna á þurrum hnapplauk, en svo
lýsti af honum, sem af sólu; varð mörgu af kvenfólkinu næsta
starsýnt á hann. En eitt vil eg segja þér sem þú skalt taka
eftir: það veit eg ekki, hvort þetta var hvers dags klæðnaður
hans, eða hafði einhverr af vinum hans gefið honum þessi
klæði, þá hann gekk á skip sitt, eða þá einhverr gestfélagi hans;
því Odysseifur var vinsæll af mörgum, og fáir voru honum líkir
af Akkeum. Eg gaf honum eirsverð og fallega purpuraskikkju
tvíbrotna og dragkyrtil, og lét fylgja honum til skips með miklum
virktum. Kallari nokkur var í för með honum, litlu eldri
en Odysseifur; eg skal segja þér, hvernin hann var í hátt: hann
var boginn í herðum, dökkur á hörundslit og hrokkinhærður;
hann hét Evrýbates, virti Odysseifur hann meir en aðra förunauta
sína, því hann var honum lyndislíkur“.
249 Svo mælti hann, og vakti með þessari sögu upp hjá
henni enn meiri sorgarlöngun, því hún kannaðist við þær
jarteiknir, er Odysseifur lýsti svo glögglega fyrir henni. En er
hún hafði svalað sér á hinum táruga harmi, þá svaraði hún
honum aftur og sagði: „Þó þú, gestur, hafir áður fyrr meir
verið auðnuleysingur, þá skal eg þó nú hafa þig í kærleikum
og virðingu, meðan þú ert í höll minni; því eg tók sjálf þessi
klæði, rétt eins og þú lýsir þeim, úr geymslusalnum, og fékk
honum þau samanbrotin; eg hafði sjálf látið hið fallega par á
skikkjuna, honum til búningsbótar; en manninn minn fæ eg
aldrei að sjá aftur, heimkominn í sitt kæra föðurland. Hefir því
Odysseifur illu heilli farið þessa sjóferð til að sjá ólánsborgina
Ilíonsborg, sem eg aldrei má nefna“.
261 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði henni og sagði: „Þú
heiðvirða kona Odysseifs Laertessonar, ófríðka þú eigi lengur
þinn fagra litarhátt, og lát eigi hjarta þitt sundur renna af
harmi eftir mann þinn! Og lái eg þér það þó ekki; því hver
kona, sem missir eiginmann sinn, sem hún hefir átt börn við,
grætur lát hans, enn þótt hann ekki væri annar eins maður og
Odysseifur, sem menn segja líkan vera guðunum. Hættu þessum
harmi, og tak eftir því, sem eg segi; því eg skal segja þér
fyrir satt, og ekki leyna þig því, að eg frétti nýlega í Þesprótalandi
hér nálægt, að Odysseifur er á lífi, og hans bráðum heim
von; hefir hann meðferðis margar ágætar gersemar; sem hann
hefir fengið þar í landinu gefins; en sína tryggu förunauta og
skip sitt missti hann á hinu dimma hafi, þá hann fór frá Þrínaksey,
því bæði Seifur og Helíus voru honum reiðir, fyrir það
að förunautar hans höfðu drepið naut Helíusar; fórust því allir
félagar hans á hinu brimótta hafi, en aldan rak sjálfan hann upp
að landi á skipskjölnum við land Feaka, sem eru jafnsælir guðunum;
þeir tóku honum ástsamlega, eins og hann væri einhverr
af guðunum, gáfu honum stórgjafir, og vildu greiða för hans
heim, svo honum yrði við öngvu hætt. Fyrir löngu hefði Odysseifur
getað verið hingað kominn, en honum hefir þókt betra,
að fara víða um lönd og afla sér fjár; því svo var Odysseifur
hverjum manni séðari, að enginn þurfti við hann að keppa.
Þetta sagði Fídon mér, Þesprótakonungur, og sór að mér áheyranda,
þá hann var að dreypa dreypifórn í höll sinni, að skip
hans væri fram sett, og menn til farar ráðnir, sem skyldu flytja
hann heim í sitt kæra föðurland. En mig lét hann fara frá sér
áður; því svo stóð á, að eitt skip, sem Þesprótar áttu, ætlaði til
hinnar hveitisfrjóvu Dúlikseyjar. Kóngur sýndi mér og alla þá
fjármuni, er Odysseifi höfðu bætzt; eg held hann gæti fætt
annan mann til, allt fram á tíunda mannsaldur, svo voru þær
gersemar margar, sem hann átti í geymslu í herbergjum konungsins.
Konungur kvað hann ferðazt hafa til Dódónu, til þess
að heyra, undan hinu hálaufgaða eikitré guðsins, hvaða ráð
Seifur legði til, hvort hann skyldi koma heim til síns kæra
föðurlands eftir svo lauga burtveru á allra manna vitorði eða
leynilega. Eftir þessu er þá Odysseifur enn þá á lífi, og mun
bráðum heim koma, mun hann ekki lengi hér eftir fjærvistum
vera frá vinum sínum og föðurlandi, og em eg albúinn
að vinna þér eið að þessu. Viti það fyrst Seifur, sem æðstur er
og máttugastur guðanna, viti það eldstalli hins ágæta Odysseifs,
sem eg nú er til kominn, að allt skal það rætast, sem eg nú
segi: Odysseifur mun koma hér til lands um næstu mánaðamót
á þessu ári, sem nú yfir stendur“.
308 Hin vitra Penelópa svaraði honum: „Eg vildi óska, gestur,
að þetta rættist, sem þú segir; þá skyldir þú fá góðan greiða
og margar gjafir hjá mér, svo að hverr, sem yrði á vegi þínum,
skyldi telja þig lánsmann. En það er hugboð mitt, og það mun
sannast, að hvorki mun Odysseifur framar heim koma, né heldur
þú fá hér nokkurn fararbeina; því nú eru ekki hér á heimili
aðrir eins forgangsmenn, og Odysseifur var, meðan hans naut
við — ávallt er mér eftirsjón að honum! — hvorki til að taka
móti virðuglegum gestum né til að veita þeim farargreiða. Farið
nú, þjónustumeyjar, og gerið gestinum fótlaug, búið honum
hvílu og setjið til rúm með yfirhöfnum og glæsilegum glitábreiðum,
svo honum verði vel hlýtt til morguns. En árla á morgun
skuluð þér lauga hann og smyrja, svo hann geti setið að dagverði
í stofunni með Telemakkusi; en hverr sá af biðlunum,
sem skapraunar manni þessum og móðgar hann, skal sjálfan sig
fyrir hitta, sá maður hefir ekkert hér að gera þaðan af, hvort
sem honum þykir betur eða miður. Því hversu máttu vita,
gestur, hvort eg er fyrir öðrum konum að hyggindum og ráðsnilld,
ef þú situr að veizlu í höllinni óhreinlegur til fara og
illa búinn? Skömm er hérvistar dvöl mannanna. Hverr sá sem
tjáir sig harðhjartaðan og er grimmur í skapi, honum biður
hverr maður böls, svo lengi sem hann lifir, en þegar hann er
látinn, spotta hann allir. En sá sem er góður maður og tjáir sig
sem góðan mann, hans lofstír víðfrægja ókunnir menn um
öll lönd, og margir menn tala vel um hann“.
335 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði henni og sagði: „Þú
heiðvirða kona Odysseifs Laertessonar! Eg skal segja þér það
fyrir satt, að þegar eg fyrst fór á langskipi frá hinum snjólögðu
fjöllum í Krítey, var mér leitt að hafa ofan á mér yfirhafnir og
glæsilegar glitábreiður; vil eg því eiga aðra eins hvílu, og
áður hefi eg átt, þótt mér ekki hafi orðið mjög svefnsamt á
næturnar; því marga nótt hefi eg legið í lélegu rúmi, og vakað
til birtingar. Ekki er mér heldur um, að taka fótlaug, og engin
af ambáttum þeim, sem þjóna í húsi þínu, skal snerta fót minn,
nema hér sé einhver gömul kona og nákvæm, sem ratað hefir
eins margar raunir og eg hefi orðið að þola; sé sú til, þá held
eg meini henni ekki að koma við fætur mína“.
349 Hin vitra Penelópa svaraði honum: „Kæri gestur! Eg
má kalla þig svo, þar sem enginn gestur hefir enn komið í hús
mitt frá útlöndum jafnvitur, að mér hafi kærari verið, en þú;
því þú talar allt af miklum vitsmunum, og þó mjög orðfærlega.
Hér er hjá mér gömul kona nokkur, sem hefir mörg viturleg
ráð í brjósti sér; hún tók við vesælings manninum mínum,
undir eins og hann var fæddur, og uppól hann og fóstraði
með mikilli virkt. Hún skal þvo fætur þína, þó hún sé næsta
hrum orðin. Stattu nú upp, vitra Evrýklea, og laugaðu þenna
mann, hann er jafnaldri hússbónda þíns, og vera má, að Odysseifur
hafi nú eins ellilegar hendur og fætur, því fljótt eldast
dauðlegir menn í mótganginum“.
361 Svo mælti hún, en gamla konan hélt höndum fyrir
andlit sér, úthellti heitum tárum, og tók til orða harmandi: „Æ,
mig tekur sárt til þín, sonur sæll. Sannarlega hefir Seifur lagt hatur
á þig um fram aðra menn, og ertu þó guðhræddur maður: því
enn hefir enginn dauðlegur maður brennt svo mörg feit læri
til fórnar hinum þrumuglaða Seifi, og enginn fórnfært honum
svo margar útvaldar hundraðsfórnir, sem þú hefir gert, þá þú
hefir beðið, að þér mætti auðnast að ná hraustri elli og koma
upp þínum efnilega syni; og þó hefir Seifur látið þig einan
heimkomu missa með öllu! — Vera kann, að einhverjar þernur
ókunnugra manna langt úti í löndum, þar sem Odysseifur hefir
leitað gistingar í ágætri höll einhvers manns, hafi dregið spott
að honum, eins og þessar hinar ósvífnu ambáttir, sem hér eru,
gera gys að þér; þess vegna viltu ekki heldur láta gera þér fótlaug,
að þú vilt komast hjá móðgun þeirra og margföldu spotti,
og því hefir hin vitra Penelópa Íkaríusdóttir sagt mér að gera
það, og em eg þess allfús. Nú mun eg þvo fætur þína, bæði fyrir
sakir Penelópu, svo og sjálfs þíns vegna, því mér ganga til
hjarta raunir þínar. En taktu nú eftir því, sem eg segi: margir
raunamæddir gestir hafa hingað komið, og þó má eg segja, að
eg hefi enn öngvan séð jafnlíkan Odysseifi, sem þig, hvorki í
vexti, né málfæri eða göngulagi“.
382 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði henni og sagði: „Gamla
kona, svo segja þeir menn, er okkur hafa séð báða, að við séum
mjög líkir, eins og þú sjálf hefir eftir tekið og sagt“.
386 Svo mælti hann, en hin gamla kona tók fagran eirpott,
sem hún var vön að hafa til fótlaugar, hellti þar í köldu vatni,
sem þurfa þókti, og jós síðan heitu þar saman við. Odysseifur
settist nú við eldstóna, en snéri sér skjótt undan birtunni, því
honum flaug þegar í hug, að þá hún færi höndum um sig,
mundi hún verða vör við örið; og mundi allt upp komast.
Síðan gekk hún til, og tók til að lauga hússbónda sinn, varð
hún brátt vör við örið. Það ör hafði Odysseifur fengið af þeim
atburð, að göltur nokkurr hafði lostið hann með hvítri tönn
sinni, þá hann eitt sinn fór til Parnasus til Átolýkuss móðurföður
síns og sona hans.
395 Átolýkus var allra manna slægvitrastur og viðsjálastur
í eiðum; hafði guðinn Hermes sjálfur veitt honum það lén, því
Átolýkus hafði oftlega fært honum þægilegar brennifórnir,
bæði sauðalæri og hafralæri, og því veitti Hermes honum fulltingi
sitt miskunnsamlega. Eitt sinn kom Átolýkus til hins
frjóvsama Íþökulands, og hitti svo á, að þar var þá nýfæddur
dóttursonur hans; og um kvöldið, er hann hafði matazt, setti
Evrýklea sveininn á kné honum, tók til orða og sagði: „Hugsa
nú upp eitthvert nafn, Átolýkus, handa þínum kæra dóttursyni,
sem þú óskaðir svo þráfalt, að þér mætti auðið verða“.
405 Átolýkus svaraði henni og sagði: „Mágur minn og dóttir
mín, gefið sveininum það nafn, sem nú mun eg ákveða: með
því eg hingað til hefi verið óvinsæll af mörgum manni, karli
sem konu, á hinni gagnauðugu jörð, þá skal hann hafa það
kenningarnafn, að hann skal heita Odysseifur. En þegar hann
er orðinn frumvaxta, og komi hann í höll móður sinnar á
Parnasus, þar sem fjármunir mínir eru, þá skal eg gefa honum
nokkuð af þeim, og láta hann fagnanda frá mér fara“.
413 Nú tókst Odysseifur ferð á hendur þangað í því skyni,
að þiggja þær hinar fögru gjafir. Átolýkus og synir hans fögnuðu
Odysseifi með handabandi og blíðum orðum, en Amfíþea,
móðurmóðir Odysseifs, umfaðmaði hann, og kyssti höfuð hans
og bæði hans fögru augu. Þá bað Átolýkus syni sína að efna
til dagverðar; gerðu þeir, sem hann bauð, leiddu þegar inn
fimm vetra gamlan uxa í höllina, flógu hann og gerðu til,
limuðu hann allan í sundur, brytjuðu síðan limina laglega,
og stungu stykkjunum upp á teina, og steiktu þau gætilega, og
deildu síðan hverjum sinn skammt. Þannig sátu þeir að veizlu
allan daginn til sólarlags, og skorti ekkert, það er heyrði til
jafndeildum máltíðum. En er sól var runnin og rökkva tók,
gengu þeir til hvílu og tóku á sig náðir. En er hin árborna,
rósfingraða Morgungyðja kom í ljós, fóru þeir á dýraveiðar,
synir Átolýkuss, og höfðu með sér veiðihunda. Hinn ágæti
Odysseifur var þar í för með þeim. Þeir gengu upp á Parnasus,
það var hátt fjall og allt skógi vaxið, og komu þeir brátt upp
á hina veðurnæmu hálsa. Helíus var nýkominn upp af hinum
lygna og djúpa Jarðarstraumi, og skaut geislum á akurlöndin;
þá komu veiðimennirnir upp í fjalldal nokkurn, runnu veiðihundarnir
undan þeim og röktu sporin, en Átolýkussynir gengu
þar á eftir, og hinn ágæti Odysseifur með þeim, hann var
næstur hundunum og hafði langt spjót í hendi sér. Þar lá stór
göltur í einum þykkvum skógarrunni; sá runnur var svo þéttur,
að hvorki gátu hvassir þeyvindar blásið í gegnum hann, né
hinn lýsandi Helíus skotið þangað geislum sínum, eða regnið
þrengt sér þar í gegnum; þar var allmikið lauffall í runninum.
Gölturinn heyrði fótadun mannanna og hundanna, þegar þeir
komu að honum, reis hann þá upp örðugur úr bæli sínu, þeytti
hátt bustina, og var sem eldur brynni úr augum hans, gekk
hann fram þangað, sem veiðimennirnir voru. Odysseifur hljóp
þá fyrstur til, og hafði á lofti langskeft spjót, sem hann hélt á,
og ætlaði að leggja á geltinum, en galti varð viðbragðsskjótari,
og laust hann, og kom höggið á fyrir ofan knéð; hafði gölturinn
skotizt að honum á svig, og sökk tannskaflinn djúpt og
reif með sér mikið af holdinu, en nam þó ekki við beini.
Odysseifur lagði spjótinu á geltinum, og kom í hægra bóginn,
og gekk spjótsoddurinn út annars vegar, féll galti þá grenjandi
til jarðar, og lézt þar. Átolýkussynir störfuðu að geltinum,
og bundu vandlega sár hins ágæta, goðumlíka Odysseifs, stilltu
þeir svo blóðrásina, að þeir kváðu galdra yfir, og fóru að því
búnu heim aftur til hallar föður síns. En er Átolýkus og synir
hans höfðu grætt Odysseif að fullu, og gefið honum fagrar
gjafir, létu þeir hann glaðir glaðan frá sér fara til Íþöku, þar
sem hann átti heima. Tóku foreldrar hans honum feginsamlega,
þá hann kom heim aftur úr ferðinni, og spurðu hann tíðinda,
og um sár það, er hann hafði fengið; en hann sagði þeim allt,
sem farið hafði, að göltur nokkurr hafði lostið hann með hvítri
tönn sinni, þá hann fór á dýraveiðar upp á Parnasus með
Átolýkussonum.
[1311.png: Galtarveiðar.]
467 Hin gamla kona greip um örið, þegar hún lagði lófana
utan að fætinum, og kannaðist hún undir eins við það, og
hún þreifaði á því. Hún sleppti þá fætinum niður, féll fóturinn
ofan í pottinn, svo að skall við, en potturinn valt um á
hliðina, og vatnið helltist á gólfið. Kerlingin varð undireins
glöð og hrygg, augu hennar fylltust tára, og hún gat öngvu orði
upp komið. Hún tók á kinn Odysseifs, og mælti: „Sannarlega
ertu Odysseifur, sonur sæll! og þekkti eg ekki fyrr, að þú
varst hússbóndi minn, en eg hafði þreifað um þig allan“.
476 Þá hún hafði sagt þetta, renndi hún augunum til Penelópu,
og ætlaði að gera hana vara við, að maður hennar væri
þar innan hallar; en Penelópa átti engan kost á, að líta við
henni aftur, eða verða nokkurs vör, því Aþena hafði snúið
huga hennar annað. En Odysseifur þreif til hægri hendi sinni,
og tók fyrir háls kerlingu, en dró hana að sér með hinni, og
sagði: „Hví viltu steypa mér í ógæfu, fóstra mín! þú sem hefir
sjálf nært mig á brjósti þínu. Eg er nú heim kominn til míns
föðurlands á tuttugasta ári, og hefi í margar raunir ratað. En
fyrst þú varðst mín vör, og einhverr guðanna skaut þér því í
brjóst, þá þegi þú, svo enginn annar fái þetta að vita innan
hallar. Því það skal eg segja þér fyrir satt, og það skal framgengt
verða, að ef guð lætur hina göfugu biðla falla fyrir minni
hendi, þá mun eg ekki þyrma þér, þó þú sért fóstra mín, þegar
eg fer að drepa hinar ambáttirnar í höllinni“.
491 Hin vitra Evrýklea svaraði honum: „En að slíkt skuli
þér af vörum líða, barn mitt! Þú veizt, hvað eg er geðföst og
óhviklynd. Eg skal ekki láta á neinu bera, heldur en eg væri
jarðfastur steinn eða járn. En eitt ætla eg að segja þér, sem
þú skalt taka eftir. Fari svo, að Guð láti þá göfuga biðla falla
fyrir þinni hendi, þá skal eg telja upp fyrir þér ambáttirnar í
höllinni, bæði þær sem óvirða þig og eins hinar, sem ekki eru
þar í sekar“.
499 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði henni og sagði: „Hví
viltu lýsa þeim fyrir mér, fóstra? Þess gerist engin þörf. Eg
mun sjálfur geta kannað þær grant, og komizt að raun um,
hversu hver þeirra er. Láttu heldur hljótt yfir þessu, og fel
guðunum á vald, hversu af skipast“.
503 Svo mælti hann, en hin gamla kona gekk út úr stofunni,
til að sækja fótlaugarvatn; því allt það vatn, sem hún áður
kom með, hafði steypzt niður. En er hún hafði laugað hann,
og smurt með viðsmjörsviðarfeiti, þá færði Odysseifur stól
sinn aftur nær eldinum til að verma sig, og breiddi tötrana
yfir örið.
508 Hin vitra Penelópa tók þá svo til máls að fyrra bragði:
„Nú mun eg skamma stund hér eftir eiga tal við þig, gestur,
því senn er mál að ganga til hvílu fyrir hvern þann, sem
hugarangurs vegna má værðar njóta. En um mig er mjög öðru
máli að gegna: einhverr guð hefir lagt á mig ómælilega sorg;
á daginn hefi eg það að sönnu mér til afþreyingar í grátnum
og harminum, að skoða hannyrðir mínar og þjónustumeyjanna
í herbergi mínu: en þegar nóttin kemur, og allir eru í hvílu
gengnir, þá ligg eg í rekkju minni harmsfull, og hlaðast þá sárar
sorgir alla vega utan um hjarta mitt og ýfa það. Eins og hin
bleika sönglóa, dóttir Pandaruss, syngur fagurt fyrst á vorin,
þar sem hún situr í þéttu laufi trjánna, og breytir á ýmsa vega
sinni marghljóðuðu rödd, harmandi Itýlus, ástkæran son sinn
og Setus konungs, þann er hún eitt sinn vo með vopni
ófyrisynju: eins leikur hugur minn á tveim áttum um það,
hvort eg, af virðingu fyrir sæng bónda míns og fyrir orðróms
sakir alþýðu, eigi að vera kyrr hjá syni mínum, og hafa stöðugt
gát á öllu, eigum mínum, þernunum og minni háreistu höll,
eða eigi eg nú að ganga að eiga þann af Akkeum, sem göfgastur
er, og mín biður hér í höllinni, og lætur flestar brúðargáfur af
hendi rakna. Meðan sonur minn var barn að aldri og fyrirhyggjulaus,
mátti eg ekki skilja við hús bónda míns og giftast
öðrum; en nú, þegar hann er vaxinn maður og kominn á
bezta æskuskeið, þá mælist hann til, að eg fari heim aftur og
burt úr höllinni, því hann unir því illa, að Akkear eti upp
eigur hans. Heyrðu, hvað mig hefir dreymt, og ráð þú drauminn:
eg á hér tuttugu gæsir í höllinni, þær eru því vanar, að
eta hveitikorn upp úr vatni, og hefi eg oft gaman af að horfa
á þær. Nú þókti mér stór, klóbjúg örn koma af fjalli ofan, hún
braut þær allar á háls og gekk af þeim dauðum, lágu þær hvor
um aðra þvera hér í höllinni, en örnin flaug upp í háva loft.
Eg þóktist hljóða og bera mig aumlega í svefninum, en hinar
fagurlokkuðu konur Akkea flykktust utan um mig, þar sem
eg var að kveina hörmulega yfir því, að örnin skyldi hafa
drepið fyrir mér gæsirnar. Þá kom örnin aftur, og settist á
þekjubrúnina, talaði til mín mannsröddu, og tók til að hugga
mig: „Vertu hughraust, dóttir hins víðfræga Íkaríuss“, sagði
hún; „ekki er þetta draumur, heldur heillavænleg vökusjón,
og mun hún á þér rætast: gæsirnar eru biðlarnir; eg, sem þér
þókti áður vera örn, eg er bóndi þinn, og nú aftur heim kominn,
og mun veita öllum biðlunum illan dauðdaga“. Þetta kvað
örnin, en eg vaknaði af hinum sæta svefni, litaðist um, og sá,
að gæsirnar voru í höllinni, stóðu við trogið, og átu hveitikornið,
eins og vant var“.
554 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði henni og sagði: „Ekki
tjáir að þýða þenna draum á annan veg, en efni liggur til,
fyrst Odysseifur sjálfur hefir birt þér, hversu fara muni; er það
nú ljóst, að öllum biðlunum er bani búinn, og mun enginn
þeirra undan stýra feigð og fjörtjóni“.
559 Hin vitra Penelópa svaraði honum: „Gestur, oft verða
draumar ómerkilegir og einber lokleysa, og eigi gengur það
allt eftir, er fyrir mann ber. Því tvenn eru hlið hinna svipulu
drauma, önnur hliðin eru af horni gjörð, en hin af fílsbeini;
þeir draumar, er út koma um hið fagaða fílsbein, það eru táldraumar
og markleysudraumar; en þeir draumar, er út koma
um hornhliðin, eru sannir draumar, og þegar menn fá slíka
drauma, þá rætast þeir. Nú hygg eg, að þessi hinn voðalegi
draumur, sem mig dreymdi, muni eigi um þetta hlið komið
hafa, og hefði það þó verið óskandi, mín vegna og sonar míns.
En eitt ætla eg að segja þér, sem þú skalt taka eftir. Nú fer
í hönd sá óhamingjudagur, sem hrekur mig úr húsi Odysseifs,
því nú ætla eg að efna til axaleiks. Odysseifur var því vanur,
að setja upp í röð ekki færri en tólf axir í höll sinni, til að
mynda og skipsrengur; síðan nam hann staðar langan spöl
frá, og skaut svo ör í gegnum. Þessa þraut vil eg nú leggja
fyrir biðlana. Þeim, sem hægast veitir að draga upp bogann
með handafli, og skýtur öru í gegnum allar tólf axirnar, honum
skal eg fylgja til eiginorðs, og yfirgefa þetta fagra og gagnauðuga
hús bónda míns, sem eg hugsa að mér muni verða
minnisstætt á síðan, og jafnvel dreyma til þess á næturnar“.
582 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði henni og sagði:
heiðvirða kona Odysseifs Laertessonar! Fresta því eigi, að efna
til þessa leiks í höllinni, því fyrr mun hinn ráðagóði Odysseifur
koma hingað á fund þinn, en menn þessir fái með handastjórn
dregið upp streng þessa hins fágaða boga, og skotið ör í gegnum
axaraugun“.
588 Hin vitra Penelópa svaraði honum: „Ef þú vildir, gestur,
sitja hjá mér hér í höllinni og skemmta mér, þá mundi mér
ekki síga svefn á augu. En það má með öngvu móti vera, að
maðurinn sé ávallt svefnlaus, því hinir ódauðlegu guðir hafa
áskapað hverjum dauðlegum manni sitt hlutfall. Eg vil því
ganga upp á loft, og leggjast í rekkju mína, sem er þegjandi
vottur til minna andvarpa, og hvað eftir annað hefir vöknað
af tárum mínum, síðan að Odysseifur fór úr landi til að vitja
hinnar óhamingjusamlegu Ilíonsborgar, sem eg aldrei má nefna.
Þar mun eg hvíla, en þú leggst niður hér í höllinni, og annaðhvort
bú um þig á gólfinu, eða ligg í því rúmi, sem upp er
búið handa þér“.
600 Að því mæltu gekk hún upp á hinn glæsilega loftsal;
ekki fór hún þangað einsömul, heldur fylgdu henni nokkurar
þjónustumeyjar. Og sem hún var upp komin á loftið með
þjónustumeyjum sínum, þá tók hún til að gráta Odysseif, sinn
ástkæran mann, unz hin glóeyga Aþena lét sætan svefn síga
á augu hennar.
[1315.png]
[1317.png]
TUTTUGASTI ÞÁTTUR.
AÐDRAGANDI AÐ BIÐLAVÍGUNUM.
HINN ágæti Odysseifur bjó um sig í framhúsinu, hann
breiddi undir sig óelta nautshúð, og þar ofan á mörg
gæruskinn af sauðum þeim, sem Akkear slátruðu þar
með degi hverjum. Þegar hann var lagztur fyrir, breiddi Evrýnóma
yfirhöfn ofan á hann; lá Odysseifur þar vakandi, og
var hugsandi um það, hversu hann mætti vinna biðlunum eitthvert
mein. Ambáttir þær, sem voru því vanar löngum og löngum,
að hafa mök við biðlana, gengu nú út úr höllinni, þær
flissuðu hver framan í aðra og voru hinar kátustu. Þá varð
hjarta Odysseifs uppvægt í brjósti hans, velti hann því fyrir
sér í huga sínum á margar lundir, hvort hann skyldi heldur
hlaupa á fætur og drepa þær allar hverja með annarri, eða
skyldi hann enn leyfa þeim að leika lyst sína við hina yfirgangssömu
biðla í hinsta og síðasta sinni. Hjarta hans gnöllraði
í honum innanbrjósts, eins og greyhundur, sem hvarflar í kringum
nýgotna hvolpa sína, og urrar að ókunnugum manni, og
býst til að hlaupa í hann; eins gnöllraði hjarta Odysseifs innanbrjósts
af gremju yfir þessu hinu illa athæfi. Hann sló þá á
brjóst sér, og hughreysti hjarta sitt. „Vertu þolinmótt, hjarta
mitt, þú hefir eitt sinn fyrr þolað enn frekari skapraun, en þessa,
þann dag er hinn óhemjulegi Kýklópur át fyrir mér mína
vösku félaga; samt þreyðir þú, þar til eg með ráðkænsku minni
kom þér út úr hellirnum, jafnvel þó þér þækti ósýnt, hvort þú
mundir fá lífi haldið“. Með þessum orðum ávarpaði hann
hjartað í brjósti sér, og hélt hjarta hans sér þá stöðugt í skorðum
með miklu þolgæði, en sjálfur veltist hann á ýmsar hliðar, líkt
og þá maður steikir blóðmörsiður yfir eldi brennanda, og
snýr því á ýmsar hliðar, og langar mjög eftir, að það stikni
sem fyrst. Eins veltist hann á ýmsar hliðar, þá hann var að
hugsa um, hversu hann mætti leggja hendur á hina ósvífnu
biðla, þar sem hann var einn, en þeir margir.
30 Þá kom Aþena til hans í konulíki, stigin af himni ofan;
hún gekk að höfðalagi hans, og talaði til hans þessum orðum:
„Hví heldur þú svo vöku fyrir hér, þú ógæfusamasti allra
manna? Hér er heimili þitt, hér er kona þín í höllinni, og hér
áttu þann son, er margur maður mundi óska sér að eiga slíkan“.
36 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði henni og sagði: „Allt
er þetta satt að vísu, gyðja, sem nú segir þú. En eitt er það,
sem mér er hugstætt, sem er það, hversu eg fái lagt hendur á
þá hina ósvífnu biðla, þar sem eg þó er einn míns liðs, en þeir
ávallt fjölmennir innan hallar. Enn er og annað, sem eg er
enn meir hugsandi um; það er það, hvert eg skal hælis leita,
ef eg fæ banað þeim með fulltingi Seifs og tilbeina þínum. Vil
eg biðja þig að hugleiða þetta“.
44 Hin glóeyga gyðja Aþena svaraði honum og sagði: „Heyr
þú, ofurhuginn þinn! Sérhverr maður leitar trausts hjá vin sínum,
þó minna máttar sé en eg, og þótt hann sé dauðlegur
maður og ekki jafnt við ráðkænsku brugðinn. Eg þar á móti er
gyðja, og hefi ávallt varðveitt þig í öllum þínum þrautum. Það
skal eg segja hér skýlaust, að þó að fimmtíu flokkar mælandi
manna umkringdi okkur bæði og vildi drepa okkur í orustu,
þá skyldir þú þó fá tekið naut þeirra og sauðfénað að herfangi,
og haft á burt með þér. Sigri nú svefn þig! það er mikil raun,
að hafa andvökur alla nóttina í gegnum; en bráðum muntu
leysast úr vandræðum þínum“.
54 Að því mæltu lét hún svefn síga á augnabrár hans, en
hin ágæta gyðja fór aftur til Ólymps, þegar er svefninn tók
til að renna í brjóst honum, sá svefn, sem eyðir áhyggjum hugarins
og gjörir liðu manns lémagna.
57 Þá vaknaði hans tryggva kona, settist upp í hinni mjúku
sæng, og grét. En er hún hafði svalað hjarta sínu á grátinum,
bað hin ágæta kona fyrst til Artemisar: „Artemis, þú hin
virðuglega gyðja, dóttir Seifs! Eg vildi óska, að þú hleyptir
nú þegar öru í brjóst mér, og tækir mig af lífi samstundis! eða
þá, að stormbylur hrifi mig í loft upp, og feykti mér um dimma
vegu, og fleygði mér út í forvaða hins kringrennanda Jarðarstraums,
eins og vindbyljirnir gerðu, þegar þeir sviptu burt
Pandareusdætrum. Guðirnir höfðu af lífi tekið foreldra þeirra,
svo þær voru einar eftir heima munaðarlausar; en hin ágæta
gyðja Afrodíta fæddi þær á osti, sætu hunangi og ljúffengu
víni: Hera veitti þeim vænleik og vitsmuni um fram allar konur
aðrar, hin hreinlífa Artemis gaf þeim hávan vöxt, en Aþena
kenndi þeim að vinna ágætar hannyrðir. Eitt sinn var hin
ágæta gyðja Afrodíta gengin upp til hins háva Ólymps til hins
þrumuglaða Seifs, ætlaði hún að biðja hann að veita þeim
systrum fagnaðarsæla giftingu, því hann veit allt hvað dauðlegum
mönnum er ætlað, bæði meðlæti og mótlæti; en á meðan
hrifu Sviptinornirnar meyjarnar í burtu, og vistuðu þær hjá
enum hræðilegu Hefndarnornum. Eins vildi eg óska, að guðirnir,
sem á Ólympi búa, léti mig hverfa í burtu skyndilega,
eða að hin fagurlokkaða Artemis banaði mér með örvum sínum,
svo eg kæmist niður í hina óttalegu jörð með Odysseif í huga
mínum, og svo engum manni, — sem minni væri fyrir sér en
hann, yrði unaðsbót að ráðahag við mig. Þó maður gráti um
daga, og sé mjög harmsfullur í hjarta, þá getur samt mótlætið
orðið bærilegt, ef manni verður svefnsamt á nóttum; því þegar
svefninn nær að breiða sig yfir brárnar, þá lætur hann manninn
öllu gleyma, bæði hinu góða, og eins því sem misjafnt er.
En um mig er mjög öðru máli að gegna, þar sem einhverr guð
sendir mér í svefni óttalega drauma, og nú í nótt var hann í
rúminu hjá mér, í líki mannsins míns, og eins og hann var í
hátt, þegar hann fór í leiðangurinn, og varð hjarta mitt fegið
í svefninum, því eg hugsaði, að þetta bæri ekki fyrir mig í
draumi, heldur í vöku“.
91 Svo mælti hún, og brátt þar eftir tók til að lýsa af degi.
Hinn ágæti Odysseifur heyrði kveinstafi hennar, varð hann þá
mjög áhyggjufullur, því honum virtist í huganum, sem kona
sín bæri þegar kennsl á sig, og stæði við höfðalag sitt. Hann
vöðlaði saman yfirhöfninni og gæruskinnunum, sem hann lá á,
og lagði þau á stól í húsinu, en bar nautshúðina út, og lét hana
þar. Síðan fórnaði hann upp höndum, og bað til Seifs: „Faðir
Seifur, fyrst þér guðirnir hafið miskunnsamlega leitt mig yfir
láð og lög heim í land mitt, eftir að þér hafið látið mig sæta
stórum hrakningum, þá bið eg, að einhverr þeirra manna,
sem hér eru inni vakandi, mæli mér einhverja orðheill, og
Seifur láti einhvern fyrirboða birtast mér úti“.
102 Þannig baðst hann fyrir, en hinn ráðvísi Seifur heyrði
bæn hans, og lét á samri stundu þrumu koma af hinum bjarta
Ólympi hátt ofan frá skýjunum; varð hinn ágæti Odysseifur
feginn þeirri jarteikn. Þá varð konu nokkurri orðheill á munni;
hún var að mala í næsta húsi, þar sem stóðu kvarnir þær, er
hann átti, þjóðhöfðinginn. Á þeim kvörnum mólu tólf konur
byggkorn og hveitikorn til mannfæðis; höfðu hinar konurnar
þá malað sitt hveiti, en ein kona hafði enn ekki lokið við sitt
verk, því hún var kraftaminni en hinar. Hún lét nú standa
kvernina, og mælti það orð, er konungurinn tók mark á: „Faðir
Seifur“, sagði hún, „þú sem ræður yfir mönnum og guðum,
mikla þrumu hefir þú sent af hinum stirnda himni, og sér þó
hvergi ský á lofti; ætlar þú víst að gefa einhverjum manni vísbendingu
með þessari jarteikn. Veit einnig mér vesælli, það
sem eg nú mælist til. Eg óska, að biðlarnir matist þenna dag í
síðasta sinni í húsum Odysseifs; þeir hafa gert kné mín máttvana
með óþolandi erfiði, að mala fyrir þá byggið. Eg vildi,
að þetta væri í síðasta sinn, sem þeir sætu að veizlu“.
120 Svo mælti hún, en hinn ágæti Odysseifur varð glaður
við þessa orðheill, og við þá þrumu, sem frá Seifi kom; því nú
vonaði hann að geta hefnt sín á ójafnaðarmönnunum.
122 Nú söfnuðust ambáttirnar í hinum fögru húsum Odysseifs,
og kveiktu glæðilegan eld á eldstónni. Þá reis og Telemakkus
úr rekkju, hinn goðumlíki maður, og fór í klæði sín,
hann lagði biturlegt sverð um herðar sér, og batt fagra ilskó
undir fætur sér, tók síðan í hönd sér sterkt spjót með hvössum
eiroddi, gekk inn yfir þröskuldinn, nam þar staðar, og
sagði við Evrýkleu: „Fóstra góð, hafið þið veitt gestinum
sæmilegt hvílurúm, og gefið honum mat? eða liggur hann einhverstaðar,
umhirðingarlaus? Því þó móðir mín sé vitur kona,
þá verða henni þó stundum svo mislagðar hendur, að hún hefir
þann í hávegum sem ekkert er að manni, en vísar aftur vænum
manni burt, án þess að sýna honum nokkurn sóma“.
134 Hin vitra Evrýklea svaraði honum: „Ekki þarftu, barn
mitt, að áfella móður þína, saklaus er hún af þessu. Því hann
sat, og drakk vínið, eins lengi og hann vildi; hún bauð honum
líka meir að borða, en hann kvaðst vera mettur. En þegar hann
vildi ganga til hvílu og fara að sofa, þá bauð hún ambáttunum
að búa upp rúm handa honum; en hann, eins og einhverr mesti
raunamaður og auðnuleysingi, kvaðst ekki vilja sofa í rúmi
með sængurklæðum í, heldur svaf hann úti í forstofunni á óeltri
nautshúð og sauðagærum, en við breiddum yfirhöfn yfir hann“.
144 Svo mælti hún, en Telemakkus gekk út úr höllinni, og
hafði spjót sitt í hendi sér, og fylgdu honum fótfráir hundar;
hann gekk út á torg til hinna harðbrynjuðu Akkea. En hin ágæta
kona Evrýklea, dóttir Ops Písenorssonar, kallaði til ambáttanna:
„Komið nú fljótt! Stökkvi sumar vatni á gólfið, sópi höllina
og breiði purpuradúka á hina fallegu hástóla, og verið nú
fljótar! Aðrar strjúki borðin með njarðarvöttum alla vega í
kring, og geri hrein skaftkerin og hina fögru, tvíhvolfuðu bikara.
Enn aðrar skulu fara til lindarinnar eftir vatni, og koma
fljótt með það. Því ekki mun á löngu líða, áður biðlarnir koma
til hallarinnar; munu þeir koma mjög árla í dag, því í dag er
almenn hátíð haldin“.
157 Svo mælti hún, en þær hlýddu henni, og gerðu sem
hún bauð: fóru tuttugu þernur til hinnar tæru vatnslindar, en
hinar önnuðust það sem gera þurfti inni í herbergjunum, og
fórst þeim það kunnáttulega. Þvínæst komu inn þjónustusveinar
Akkea, og klufu eldiviðinn, var það auðséð, að þeir voru því
verki vanir. Þá komu ambáttirnar frá vatnsbólinu; og brátt á
eftir þeim kom svínahirðirinn, hann hafði með að fara þrjú
alisvín, sem bezt voru af öllum svínunum, lét hann þau inn í
falleg gerði, þar sem þau gátu fengið sér fóður, gekk síðan til
Odysseifs, og talaði blíðlega til hans þessum orðum: „Sýna
Akkear þér nokkuð meiri sóma, gestur, en áður, eða óvirða þeir
þig í höllinni enn sem fyrr?“
168 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði: „Eg
vildi óska, Evmeus, að guðirnir hefndu þeirrar svívirðingar, sem
þessir ofstopamenn hafa í frammi með svo mikilli frekju í annars
manns húsi; er nú svo komið, að þeir svífast einskis“. Þannig
töluðust þeir við um þetta.
173 Þá bar að geitahirðirinn Melanþíus, hann hafði með sér
geitur þær, sem feitastar voru í öllum geithjörðunum, áttu
þær að vera til borðhalds handa biðlunum; með honum fylgdust
tveir smalamenn. Hann batt geiturnar í hinum ómanda stólpagangi,
síðan talaði hann þessum smánarorðum til Odysseifs:
„Ætlarðu enn þá, gestur, að vera að biðja þér matar hjá mönnum
hér í höllinni, svo enginn hafi frið fyrir þér? ætlarðu ekki
að snáfa á dyr? Eg sé það, að við skiljum ekki til fulls héðan
af, fyrr enn við reynum með okkur. Það er ekki eins og við
séum þeir einu af Akkeum, sem höldum veizlur“.
183 Svo mælti hann, en hinn ráðagóði Odysseifur svaraði
honum öngvu, hann skók höfuðið, en mælti ekki, því hann
hugsaði honum illt niðrí. Næst eftir þá kom þriðji hirðirinn,
það var hinn fyrimannlegi Fíletíus, hann færði biðlunum gelda
kú og feitar geitur: höfðu ferjumenn flutt þá yfir sundið, þeir
eð vanir eru að veita flutning hverjum manni, sem til þeirra
kemur. Hann batt féð trúlega í hinum ómanda stólpagangi,
gekk svo til svínahirðirsins, og spurði hann: „Svínahirðir, hverr
er þessi ókunni maður, sem hér er nýkominn í hús vort? hverra
manna segist hann vera? hvar er ætterni hans og föðurland?
Hinn ógæfusami maður! sannarlega er hann því líkur á vöxt,
sem hann væri einhverr konungur. Von er, þó guðirnir láti víðförula
ferðamenn rata í ýmisleg bágindi, þegar þeir einnig úthluta
konungmönnum sinn mótlætisskammt“.
197 Að því mælti gekk hann til Odysseifs, rétti honum hönd
sína, talaði til hans skjótum orðum og sagði: „Sæll vertu, gestur
góður! Eg óska, að þú hljótir hamingju síðar meir, þó þú eigir
nú við bágan kost að búa. Faðir Seifur, enginn guðanna er
jafnmeinsamlegur, sem þú! Þú hlífist eigi við að steypa þeim
mönnum, sem þú hefir sjálfur alið, í volæði og hörmuleg
bágindi. Eg svitnaði, þegar eg sá þig, og mér vöknaði um
augu, því þá datt mér Odysseifur í hug. Eg býst við því, að
hann ráfi nú eins manna á meðal, í líkum tötrum og þú, ef
hann annars er enn á lífi, og sér ljós sólarinnar. En sé hann
dáinn og kominn til Hadesar heimkynna, þá hefir hinn ágæti
Odysseifur illu heilli sett mig, meðan eg enn var ungur sveinn,
yfir nautahjarðir sínar í landi Kefallena. Þær eru nú óðum að
fjölga, svo furðu gegnir, og varla trúi eg, að kyn hinna ennisbreiðu
nauta æxlist svo drjúgum hjá nokkurum manni út í frá.
En nú eru aðrir menn, sem bjóða mér að flytja til sín nautin
til borðhalds handa sjálfum þeim; skeyta þessir menn því ekki,
þó sonur hans sé innan hallar, og óttast heldur ekki hegningu
guðanna, því nú er svo komið, að þeir ætla sér að skipta milli
sín eigum konungsins, þar eð hann hefir svo lengi á burtu
verið. Nú er eitt, sem hugur minn er að velta fyrir sér innanbrjósts
á margar lundir: mér þykir að sönnu illt, meðan sonur
hans lifir, að leggja af stað með nautin, og fara í annað byggðarlag
til útlendra manna; aftur finnst mér hitt enn verra, að vera
hér kyrr og sitja yfir annarra manna nautum við slíkar raunir.
Og fyrir löngu væri eg úr landi farinn og kominn til einhvers
annars voldugs konungs, þar eð eg get ekki unað lengur við
svo búið, ef eg væri ekki enn þá að vona eftir, að minn ógæfusami
hússbóndi kunni að koma einhverstaðar að, og stökkva
burtu biðlunum úr höllinni“.
226 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði: „Svo
lízt mér á þig, nautahirðir, sem þú munir hvorki vera vondur
maður, né ógreindur: sé eg sjálfur, að þú munir hafa vitsmuni
að geyma. Þar fyrir vil eg segja þér nokkuð, og leggja
þar við dýran eið: Viti það Seifur, æðstur guða, viti það gestaborð
og eldstalli hins ágæta Odysseifs, sem eg nú er til kominn,
að Odysseifur mun vissulega heim koma, meðan þú ert hér,
og muntu sjá mega með augum þínum sjálfs, ef þú vilt, hversu
hann mun af lífi taka biðla þessa, sem hér eru nú hússráðendur“.
235 Nautahirðirinn svaraði honum: „Eg vildi óska, gestur,
að þetta rættist, sem þú segir; þá skyldir þú sjá, hvað eg má
ætla mér, og hvaða kraft eg hefi í kögglum“. — Á sama hátt
bað Evmeus til allra guðanna, að hinum fjölvitra Odysseifi
mætti auðnast að koma heim aftur til húss síns. Þannig ræddust
þeir við um þetta.
241 Biðlarnir höfðu nú það ráð með höndum, að veita
Telemakkusi dauða og fjörtjón; en þá flaug spáfugl nokkurr
til vinstri handar þeim, það var háfleyg örn, og hélt á skjálfandi
dúfu í klónum. Þá tók Amfínómus svo til orða og mælti:
„Ekki munum vér, vinir, fá þessari ætlun fram komið, að fyrirkoma
Telemakkusi; komið, látum oss ganga til borða!“
247 Svo mælti Amfínómus, og féllust þeir á það, sem hann
sagði: gengu þeir þá inn í höll hins ágæta Odysseifs, og lögðu
yfirhafnir sínar á legubekkina og hástólana, tóku síðan til að
slátra stórum sauðum og feitum geitum, þeir slátruðu og alisvínum
og einu útvöldu nauti af hjörðinni. Þegar þeir höfðu
steikt slátrið, skömmtuðu þeir það; sumir blönduðu vín í skaftkerinu,
en svínahirðirinn bar bikarana í kring; hinn fyrirmannlegi
Fíletíus bar brauð til þeirra í fallegum körfum, en Melanþíus
skenkti vínið; tóku þeir nú til hins tilreidda matar, er á borð
var borinn.
257 Telemakkus gerði það af kænsku sinni, að hann valdi
Odysseifi sæti inni í hinni gólfföstu stofu við steinþröskuldinn,
og setti þar handa honum stól heldur lélegan, og lítið borð þar
hjá, lagði svo fyrir hann nokkura bita af slátri, skenkti vín á
gullbikar, og talaði til hans þessum orðum: „Hér skaltu nú
sitja, og drekka vín, eins og aðrir menn; en eg skal afstýra því,
að nokkurr biðlanna móðgi þig í orðum eða leggi til þín; því
þetta hús er engin almannastofa, heldur hús Odysseifs, sem
hann eignaðist sjálfur mér til handa. En þér, biðlar, heftið nú
skap yðar, að þér eigi hafið í frammi nein smánaryrði eða ofríki,
svo að ekki rísi upp neinar þrætur eða deilur“.
268 Svo mælti hann, en þeir bitu allir á varirnar, og furðuðu
sig á, að Telemakkus skyldi vera svo djarfmæltur. Þá sagði
Antínóus Evpíþesson til þeirra: „Þolum Telemakkusi, Akkear,
þó hann gerist heldur harður í orðum, þar sem hann heitist
mjög svo við oss, fyrst Seifur Kronusson lofaði oss ekki hitt;
annars mundum vér fyrir löngu vera búnir að þagga niðrí
honum, þó hann sé skorinorður, þegar hann er að tala“.
275 Svo mælti Antínóus, en Telemakkus hirti ekki um, hvað
hann sagði.
276 Kallararnir fóru nú um borgina með þá hundraðsfórn,
er guðunum var helguð; og hinir hárprúðu Akkear söfnuðust
saman hjá hinum skuggafulla lundi, er helgaður var hinum langskeyta
Appolloni.
279 Nú sem biðlarnir höfðu steikt hryggjarstykkin og tekið
þau af teinunum, skömmtuðu þeir kjötið, og settust að dýrðlegri
veizlu. Frammistöðumennirnir lögðu fyrir Odysseif deildan
verð, jafnmikinn og þeir sjálfir fengu, því svo hafði Telemakkus
boðið, hinn ástkæri sonur hins ágæta Odysseifs.
284 Aþena lét hina vösku biðla enn ekki með öllu hætta
móðgandi smánarorðum við Odysseif Laertesson, til þess honum
skyldi verða enn sárara í skapi. Meðal biðlanna var maður
nokkurr, ofstopi í skapi, hann hét Ktesippus, og átti heima í
Sámsey. Hann var vellauðugur af fé, og gerðist því til að biðla
til konu Odysseifs, þess er lengi hafði á burtu verið. Hann
kvað nú svo að orði við hina yfirgangssömu biðla: „Hlýðið
til, þér hinir vösku biðlar, meðan eg tala fáein orð; gestur þessi
hefir nú fengið sinn skammt, jafnt við aðra, eins og vera ber:
því það er ekki sæmilegt, og ekki heldur réttvíst, að setja hjá
gesti Telemakkusar, sem koma kunnu í þessa höll. Gott og
vel! eg skal gefa honum gestgjöf, sem hann getur aftur gefið
í þóknun, annaðhvort baðkonunni, eða þá einhverjum þræli
þeim, sem hér er í höll hins ágæta Odysseifs“.
299 Þá hann hafði sagt þetta, tók hann nautsfót, sem lá í
körfunni, og kastaði af afli. Odysseifur vék höfði sínu lítið eitt
til hliðar, glotti við tönn og hló kaldahlátri í hermdarhug, en
nautsfóturinn, sem Ktesippus fleygði, lenti í veggnum. Telemakkus
átaldi þá Ktesippus, og mælti: „Sannarlega var það
heppni fyrir þig, Ktesippus, að þú misstir gestsins, þar hann
forðaði sér sjálfur við skotinu, því annars skyldi eg hafa lagt
þig í gegn með mínu oddhvassa spjóti, og þá hefði faðir þinn
getað haldið hér erfi þitt í stað brúðkaups. Það er því bón
mín, að enginn yðar bryddi á ójöfnuði hér á heimili mínu;
því nú hefi eg fengið skynbragð og vit á því, sem er gott og
illt, þar sem eg fyrr meir var sem barn. Samt sem áður horfi
eg með þolinmæði uppá það, sem hér fram fer, að sauðunum
er slátrað, vínið drukkið, og matnum eytt: því enginn má við
margnum. Gjörið nú svo vel, og hafið ekki lengur í frammi
nein vonzkuverk í óvinsamlegum hug. En sé það ætlan yðar
nú, að bana mér með vopnum, þá er eg sáttur með, að þér
gerðuð það; því mér þykir miklu betra, að liggja dauður, en
að horfa alltaf uppá þann ósóma, að gestir séu hraktir og
hrjáðir, og ambáttir smánarlega dregnar um hin fallegu herbergi“.
320 Svo mælti hann, en þeir urðu allir orðlausir, og þögðu.
Um síðir tók Agelás Damastorsson svo til máls: „Enginn má
reiðast sannmælunum, góðir menn, eða svara þeim illu. Látið
nú af að hrekja gest þenna, eða nokkurn af þrælum þeim, sem
eru á heimili hins ágæta Odysseifs. En eitt vinsamlegt ráð vil
eg gefa Telemakkusi og móður hans, ef þeim líkar báðum svo
að hafa. Meðan þið höfðuð nokkura von um, að hinn ráðsvinni
Odysseifur mundi aftur heim koma, þá var ykkur ekki láanda,
þó þið biðuð hans, og hélduð biðlunum hér í höllinni; því það
hefði verið snjallræði, ef líkindi væru á, að Odysseifi yrði heimkomu
auðið, og hann mundi aftur hingað koma til hallarinnar.
En nú er öðru máli að gegna, þar sem það er augljóst,
að honum verður aldrei framar heimkomu auðið. Far þú því,
og sezt á tal við móður þína, og seg henni, að hún skuli giftast
þeim, sem göfgastur er, og flestar gjafir lætur af hendi rakna
við hana, svo þú sjálfur megir hafa þann fögnuð, að setjast að
allri föðurleifð þinni, og búa að þínu sjálfur, en hún taki við
búráðum á annars manns heimili“.
338 Hinn greindi Telemakkus svaraði honum og sagði: „Nei,
Agelás, eg hefi aldrei hamlað giftingu móður minnar, það
sver eg við Seif og við allar raunir föður míns, sem nú er
líklega annaðhvort dáinn, eða á hrakningi langt í burt frá
Íþöku. Eg hefi miklu fremur ráðið henni að giftast þeim
manni, sem henni væri að skapi, og þar á ofan hefi eg gefið
henni stórgjafir til þess. En það get eg ekki fengið af mér,
að vera svo ráðríkur, að vísa henni burt af heimilinu; Guð forði
mér frá því!“
345 Svo mælti Telemakkus, en Pallas Aþena gerði biðlunum
óstjórnlegan hlátur, og truflaði hyggju þeirra: tóku þeir
nú til að hlæja einhvernegin annarlega, þeim sýndist ketið,
sem þeir átu, vera alblóðugt, augu þeirra fylltust tárum, og huga
þeirra tók að óa fyrir einhverri hrellingu. Þá tók hinn goðumlíki
Þeóklýmenus svo til orða: „Vesælir menn, hvaða óhamingja
er það, sem að yður gengur? Höfuð og ásjánir yðar og kné
eru myrkri hulin; harmakvein rísa upp, og kinnar yðar vökna
af tárum; veggirnir og hinar fögru veggjahvylftir eru blóði
drifnar; forstofan og forgarðurinn úir og grúir af vofum, sem
fara vilja niður í dimmuna í Myrkheimi; sólin er af himni
horfin, og hræðilegt myrkur á dottið“.
358 Svo mælti hann, en þeir hlógu dátt að honum. Þá tók
Evrýmakkus Polýbusson svo til orða: „Þessi gestur, sem hingað
er nýkominn frá útlöndum, er ekki með öllu ráði. Það er því
bezt, sveinar, að þér færið hann út úr höllinni, svo hann komist
fram á torgið, fyrst honum þykir vera skuggsýnt hér inni“.
363 Hinn goðumlíki Þeóklýmenus svaraði honum: „Engin
þægð er mér í, Evrýmakkus, að þú látir fylgja mér; eg hefi
enn augu mín og eyru og báða fætur mína, og enn er vit mitt
óbrjálað. Með þessu ætla eg að bera mig að komast út, því eg
sé, að nú fer í hönd sá óhamingjudagur, sem enginn mun fá
umflúið eða undanstýrt af yður biðlunum, sem hafið frekjufullt
ofríki í frammi við aðra menn í höll hins ágæta Odysseifs“.
371 Að því mæltu gekk hann út úr hinum fagursettu herbergjum,
og fór heim til Píreusar, sem tók á móti honum
fúslega. Biðlarnir litu nú hverr upp á annan, og reyndu til
að erta skap Telemakkusar, með því að spottast að gestum
hans; og þá sagði einhverr af hinum ofurhuguðu ungmennum:
„Enginn maður er ógestsælli en þú, Telemakkus, þar sem þú
hefir dregið að þér slíkan flökkumann, sem sníkir út brauð
og vín, kann ekkert verk að vinna, er linur og hörkulaus, og
ekki nema eintóm byrði fyrir jörðina; og eins var hinn karlinn,
þessi sem uppstóð til að spá fyrir oss. En viljir þú mínum
ráðum fram fara, sem þér mun ráðlegast vera, þá munum vér
skjóta gestunum í róðrarferju, og flytja þá á land í Sikiley,
getur þú fengið þar fullt verð fyrir þá“.
384 Svo mæltu biðlarnir, en Telemakkus hirti eigi um, hvað
þeir sögðu; hann talaði ekki orð, en hafði augun á föður
sínum, og beið ávallt þeirrar stundar, að hann mætti leggja
hendur á hina ósvífnu biðla.
387 Hin vitra Penelópa Íkaríusdóttir hafði sett sinn fagra
stól andspænis á móti stofudyrunum, og heyrði því, hvað
hverr þeirra talaði þar inni. Biðlarnir sátu nú að vísu hlæjandi
að dagverðinum, því veizlan var hin bezta og dýrlegasta, er
mjög mörgu hafði slátrað verið: en kvöldverður getur enginn
hvumleiðari verið, en sá kvöldverður, er gyðjan og hinn hrausti
kappi ætluðu bráðum að halda biðlunum, því þeir höfðu fyrri
haft ójöfnuðinn í frammi.
[1329.png]
[1331.png]
TUTTUGASTI OG FYRSTI ÞÁTTUR.
BOGATAK.
HIN glóeyga gyðja Aþena blés nú því í brjóst hinni vitru
Penelópu Íkaríusdóttur að leggja fram bogann og hin
fögru axablöð fyrir biðlana í höll Odysseifs; skyldi sú
þraut verða upphaf að vígunum. Hún gekk upp hinn bratta
stiga að herbergi sínu, tók þar í hönd sér eirlykil, hann var
fallega beygður, vel gerður, og lykilhaldið af fílsbeini; síðan
gekk hún með þjónustumeyjum sínum inn í innsta geymslusalinn,
þar sem hún hafði lagt fyrir gersemar konungsins, bæði
eir og gull og hið seigunna járn. Þar lá hinn staðgóði bogi og
örvamælirinn, í honum voru margar skaðvænar örvar; hafði
hinn goðumlíki Ifítus Evrýtusson, gestfélagi hans, gefið honum
þessa gripi, þá hann eitt sinn hitti hann í Lakedemona landi.
Því svo bar við, að fundum þeirra beggja bar saman í höll hins
fróðhugaða Orsílokks í Messenu; kom Odysseifur þangað þess
erindis, að heimta skuldafé, er allur landslýðurinn skyldi lúka
honum: því Messenumenn höfðu farið á róðrarferjum til Íþöku,
og rænt þaðan þrem hundruðum sauða og hjarðmönnunum
með; fór Odysseifur fyrir þá sök þessa sendiför um langan veg,
var hann þá ungur að aldri, og var sendur af föður sínum og
öðrum formönnum lýðsins. En það var erindi Ifítusar, að hann
var að leita að hrossum nokkurum, sem hann hafði misst, það
voru tólf hryssur, og gengu undir þeim þolnir múlfolar; urðu
þessar hryssur honum síðar meir að bana og fjörtjóni, þá hann
kom til hins hugsterka sonar Seifs, kappans Herakless, er mörg
stórvirki vann, því Herakles drap hann heima hjá sér, og var
Ifítus þó gestfélagi hans; sá það á, að Herakles lét sér ekki allt
fyrir brjósti brenna, er hann óttaðist ekki hefnd guðanna, og
virti einskis það gestaborð, er hann hafði sett fram fyrir hann,
heldur drap hann allt að einu, og hélt hans hófsterku hryssum
hjá sér í húsum sínum. Þegar Ifítus var að spyrja eftir þessum
hrossum, fann hann Odysseif, og gaf honum þá bogann: þann
boga hafði hinn mikli Evrýtus borið fyrr meir, og eftirlét hann
syni sínum í höll sinni á deyjanda degi; en Odysseifur gaf honum
aftur biturlegt sverð og sterkt spjót: var það upphaf trúrrar
gestvináttu þeirra meðal, en þó sátu þeir aldrei til borðs saman,
því, áður en það yrði, drap sonur Seifs hinn goðumlíka Ifítus
Evrýtusson, sem gefið hafði Odysseifi bogann. Þenna boga
tók hinn ágæti Odysseifur aldrei með sér, þá hann fór í víking
á herskipum, heldur var boginn þá geymdur á þessum
sama stað í höll hans, en ávallt bar Odysseifur bogann, þá hann
var heima í landi sínu.
42 Nú sem hin ágæta drottning kom að þessum geymslusal,
steig hún upp á þröskuldinn; sá þröskuldur var af eik, og hafði
smiður nokkurr fyrr meir teglt hann haglega til og gert þráðbeinan,
hafði hann greypt dyrustafina ofan í þröskuldinn, og
látið þar fyrir fallegar hurðir. Penelópa leysti þegar lokubandið
úr hurðarhringnum, hleypti inn lyklinum beint fram undan
sér, og skaut frá hurðarlokunum. En er hinar fögru hurðir
kenndu lykilsins, gall í þeim, eins og þá griðungur gellur í
haga úti, lukust þá dyrnar skjótt upp. Penelópa steig upp á
fjalapall nokkurn; þar stóðu á kistur, og í þeim geymd ilmandi
klæði. Drottningin seildist til af pallinum, og tók bogann ofan
af naglanum, var gerður allfagur stokkur að boganum, og
tók hún ofan stokkinn með öllu saman. Síðan settist hún niður
á pallinn, og lagði stokkinn á kné sér; grét hún nú hástöfum,
og tók boga konungsins upp úr stokkinum. En er hún hafði
svalað sér á hinum táruga harmi, gekk hún inn í stofu til hinna
göfugu biðla, og hélt á hinum stælta boga og örvamælirnum,
sem hafði mörg mannhætt skeyti að geyma. Nokkurar þjónustumeyjar
voru með henni, og báru eina örk, þar var geymt
í mikið af járni og eiri, er konungurinn var vanur að hafa
til kappleika. En er hin ágæta kona kom til biðlanna, staðnæmdist
hún við dyrustaf hins vandaða sals, og hafði fyrir kinnum
sér dýrlega höfuðblæju. Þvínæst talaði hún til biðlanna, og
tók svo til máls: „Heyrið mér, þér hinir vösku biðlar, er vanið
hafið komur yðrar sí og æ í hús þetta til að eta og drekka, alla
þá stund er maðurinn minn hefir á burtu verið, og er það
langur tími, og hafið þér ekki getað borizt annað fyrir, en að
yður léki í mun að kvongast og fá mín. Komið nú til, biðlar,
hér er til nokkurs að vinna! Eg vil leggja fram fyrir yður
hinn mikla boga hins ágæta Odysseifs; þeim, sem hægast veitir
að draga upp bogann með handafli, og skýtur öru í gegnum
allar tólf axirnar, honum skal eg fylgja til eiginorðs, og yfirgefa
þetta hið fagra og gagnauðuga hús bónda míns, sem eg hugsa
að mér verði næsta minnisstætt á síðan, svo að mig jafnvel mun
dreyma til þess á næturnar“.
80 Að því mæltu bað hún hinn ágæta svínahirðir, Evmeus,
að leggja fram bogann og hin fögru axablöð fyrir biðlana.
Evmeus tók við boganum grátandi, og lagði hann fram; nautahirðirinn
grét og annarsvegar, þegar er hann leit boga konungsins.
En Antínóus deildi á þá, tók til orða og mælti: „Þér
heimskir búkarlar, sem ekki hugsið til næsta máls! Hví tárast
vesælmenni yðar, og vekið harm í brjósti konu þessarar? Hún
hefir nóga hjartasorg samt, þar sem hún hefir misst ástkæran
eiginmann sinn. Gerið annaðhvort, að þér sitjið kyrrir að mat,
eða farið út og grátið þar, og látið bogann hér eftir; munum
vér biðlarnir leggja þenna leik til þrautar, og hygg eg þó, að
eigi muni allauðvelt að benda þenna hinn fagurskyggða boga;
því enginn af öllum þeim, sem hér eru, er jafnoki Odysseifs;
eg man eftir honum, því eg sá hann, þegar eg var barn“.
96 Svo mælti hann, því hann gerði sér í hugarlund, að hann
mundi fá upp dregið bogastrenginn og hæft í gegnum axaraugun;
en það lá fyrir honum raunar, að kenna fyrstum á
örvarskoti frá hinum ágæta Odysseifi, þeim er hann óvirti fyrrum,
þá er hann sat í höllinni, og eggjaði alla félaga sína til
þess líka.
101 Hinn kraftagóði Telemakkus tók nú svo til orða: „Sárt
er til þess að vita, að Seifur Kronusson skuli hafa látið mig
verða svo athugalausan, að þegar móðir mín, sem er vitur
kona, segir mér, að hún muni skiljast við hús þetta, og ganga
að eiga annan mann, þá býr mér hlátur í hug, og em hinn
kátasti, og er slíkt næsta óviturlegt. Komið nú til, biðlar, fyrst
til slíks er að vinna, þar sem sú kona er, að ekki finnst nú
hennar líki um allt Akkealand, hvorki í enni helgu Pýlusborg,
né í Argverjaborg, né í Mýkenuborg, eins og yður er sjálfum
kunnugt; hvað þarf eg að hrósa fyrir yður atgervi móður
minnar? Heyrið nú, leitið nú einskis í, að þessum leik verði
frestað, og skorizt eigi lengur undan að draga upp bogann,
svo vér sjáum, hversu þessu máli lýkur. Eg em og albúinn
sjálfur, að reyna mig við þenna boga; því ef eg fæ hann upp
dregið, og skotið öru í gegnum axaraugun, þá mun mér verða
harms léttara, þó móðir mín fari af þessu heimili og gangi
með öðrum manni, ef eg skilst svo við hana, að eg sé nú þegar
orðinn þess um kominn að halda uppi hinum ágætu íþróttum
föður míns“.
118 Að því mæltu spratt hann á fætur, lagði af sér þá purpuraskikkju,
er hann hafði yfir sér, og tók hið bitra sverð af herðum
sér. Fyrst gerði hann eitt langt far fyrir öll axablöðin, risti
það eftir mæliþræði, svo það yrði beint, og setti þar upp axablöðin,
tróð svo mold utan að; furðaði alla sem það sáu, hversu
hann reisti axirnar hönduglega, þar sem hann hafði þó aldrei
séð það fyrir sér áður. Síðan gekk hann upp á þröskuldinn, og
stóð þar, og tók til að fást við bogann. Hann knúði bogann
þrisvar, og neytti sín til þess að fá hann spenntan, en þrisvar varð
hann að sleppa tökunum, rétt í því að hann ætlaði, að hann
mundi fá upp togað bogastrenginn og skotið örinni gegnum
axaraugun; og þegar hann togaði strenginn í fjórða sinni, sem
hann mátti mest, þá hefði hann getað dregið upp bogann, ef
Odysseifur hefði ekki gert honum bendingu og aftrað honum,
þegar hann var sem ákafast að. Þá tók hinn kraftagóði Telemakkus
aftur svo til orða: „Þetta er mikil minnkun! Annaðhvort
er, að eg verð ónýtur og þreklaus alla mína ævi, eða
mér er enn ekki fullfarið fram til þess, að eg megi treysta
kröftum mínum til að verja mig, ef einhverr ræðst á mig að
fyrra bragði. En þér, sem eruð mér kraftameiri, takið nú bogann,
og reynið yður, og gerum svo enda á leik þessum.
136 Að því mæltu lagði hann frá sér bogann á gólfið, og
reisti hann upp við hinar felldu, fagursköfnu hurðir, en setti
hið bitra skeyti upp við hinn fagra bogaháls, settist síðan aftur
á þann hástól, sem hann hafði áður á setið. Þá tók Antínóus
til orða, Evpíþesson: „Rísið nú upp allir, félagar, hverr eftir
annan, og takið til hægri handar megin, þaðan frá sem vínið
er byrlað“.
143 Svo mælti Antínóus, og líkaði þeim svo að hafa, sem
hann mælti. Stóð þá fyrstur upp Leódes Enópsson; hann var
brennifórnarspámaður hjá biðlunum, og sat ávallt innstur hjá
hinu fagra skaftkeri, var hann sá eini, sem óbeit hafði á ofsvæsni
biðlanna, og líkaði honum illa við þá alla. Hann tók þá
fyrstur bogann og hið bitra skeyti, gekk upp á þröskuldinn,
stóð þar, og tók til að fást við bogann, en hann gat eigi dregið
hann upp; hann þreyttist fyrr í handleggjunum, en hann fengi
bent hann til fulls, því hendur hans voru óharðnaðar og veiklegar.
Hann mælti þá til biðlanna: „Ekki fæ eg dregið upp
bogann, vinir; taki aðrir við! því þessi bogi mun verða mörgum
afreksmanni að fjörlesti; enda er það miklu betra fyrir
oss að deyja, en lifa svo, að vér förum á mis við það sem vér
höfðum til ætlazt, þá er vér vöndum hingað ávallt komur vorar
og biðum hér dægur og daga. Vera kann, að einhverr yðar hafi
nú í hyggju og langi til að eignast Penelópu, eiginkonu Odysseifs;
en þegar hann hefir reynt sig við bogann og séð leikslokin,
þá mun honum ráðlegast, að biðja einhverrar annarrar
af hinum fagurmöttluðu konum Akkea, og leita við að vinna
hana með brúðargáfum; en Penelópa mun giftast þeim manni,
sem henni færir flestar gjafir, og sem henni á að auðnast að fá“.
163 Að því mæltu lagði hann frá sér bogann, og reisti hann
upp við hinar felldu, fagursköfnu hurðir, en lagði hið bitra
skeyti upp við hinn fagra bogaháls; settist síðan aftur á þann
hástól, sem hann hafði áður á setið. Antínóus átaldi hann, tók
til orða og mælti: „En að þér, Leódes, skuli slík orð um munn
fara, sem bæði eru hræðileg og óþægileg — mér gremst í geði,
þegar eg heyri þau — að þessi bogi muni verða öðrum afreksmönnum
að fjörlesti fyrir það, þó þú getir ekki dregið hann
upp. Þess er ekki heldur von af þér, því þú fæddist ekki með
því atgjörvi, að þú gætir orðið dugandi bogmaður og skotmaður,
en hinir biðlarnir eru svo vaskir menn, að þeir munu
skjótt fá bogann upp dregið“.
175 Að því mæltu hét hann á Melanþíus geitahirðir: „Farðu
fljótt, Melanþíus“, sagði hann, „kveiktu upp eld í höllinni, set
þar hjá stóran stól, og gæruskinn yfir, tak síðan stóran skjöld
af tólg þeirri, sem inni er; munum vér hinir ungu menn þá
verma bogann og smyrja með feiti, reyna oss svo við hann og
enda þenna kappleik“.
181 Svo mælti hann, en Melanþíus kveikti upp glæðilegan
eld, sókti stól og setti hann þar hjá, og breiddi gæruskinn yfir,
kom síðan með stóran tólgarskjöld af tólg þeirri, sem inni
var. Hinir ungu menn bökuðu nú bogann og reyndu sig svo
við hann; þó gátu þeir ekki dregið hann upp, því þeim varð
helzt til aflfátt. Þó gengu þeir enn ekki til leiksins, fyrirmenn
biðlanna, þeir Antínóus og hinn goðumlíki Evrýmakkus, sem
voru langt um fram aðra að karlmennsku.
188 Nú gengu þeir út úr stofunni báðir undir eins, nautahirðir
og svínahirðir hins goðumlíka Odysseifs; og hinn ágæti
Odysseifur gekk út á eftir þeim. En er þeir voru komnir út
fyrir dyrnar og forgarðinn, tók Odysseifur til máls, og talaði
til þeirra blíðlega: „Þú, nautahirðir og þú, svínahirðir! Eg vil
tala nokkuð við ykkur; eða á eg ekki að gera það uppskátt?
jú, hugur minn býður mér að gjöra það. Hversu munduð þið
bregðast undir liðveizlu við Odysseif, ef hann kæmi hingað
einhverstaðar að, og engi vissi fyrri til, en einhverr Guð hefði
flutt hann í land? Mundu þið þá veita biðlunum eða Odysseifi?
Segið mér, eins og ykkur býr í skapi“.
199 Nautahirðirinn svaraði honum: „Faðir Seifur, lát þá
ósk mína rætast, að þessi afreksmaður, sem þú umtalar, komi,
og leiði einhver bjargvættur hann heim. Þá skyldir þú komast
að raun um, hvers eg er um kominn, og að eg hefi krafta í
kögglum“. — Á sama hátt hét Evmeus á alla guðina, að þeir
léti hinum margvitra Odysseifi auðnast að koma aftur heim
í hús sitt.
205 En er Odysseifur vissi, hverr hugur þeirra var í alvöru,
þá svaraði hann þeim aftur og sagði: „Eg er nú hér, og kominn
heim til mín; eftir margar raunir afstaðnar er eg á tuttugasta
ári heim kominn í föðurland mitt. Eg sé, að þið tveir
eruð þeir einu af þrælum mínum, sem fegnir eruð heimkomu
minni; því eg hefi ekki heyrt nokkurn af hinum þrælunum
óska, að eg væri heim aftur kominn. Nú skal eg segja ykkur
satt frá, á hverju þið eigið von. Ef Guð lofar mér að yfirbuga
hina vösku biðla, þá skal eg fá ykkur kvonföng hvorurntveggjum,
og gefa ykkur fjárstofn og uppgert hús hér nálægt mér,
og upp frá því skal eg álíta ykkur sem félaga og albræður hans
Telemakkusar. Takið nú eftir, eg skal hér á ofan sýna ykkur
eina augljósa jarteikn, svo þið skuluð kannast við mig fullkomlega,
og verða þar um sannfærðir með sjálfum ykkur. Lítið
á örið, sem eg ber eftir sár það, er göltur nokkur veitti mér
eitt sinn með hvítri tönn sinni, þá eg fór upp á Parnasusfjall
með Átolýkussonum“.
221 Að því mæltu fletti hann tötrunum frá hinu mikla öri;
en er þeir höfðu skoðað örið og tekið vandlega eftir öllu, þá
umföðmuðu þeir hinn fróðhugaða Odysseif og grétu, fögnuðu
honum, og kysstu bæði höfuð hans og herðar, og eins
kyssti Odysseifur höfuð þeirra og hendur; og þarna hefðu
þeir verið að gráta af gleði til sólarlags, ef Odysseifur hefði
ekki beðið þá að hætta, og sagt við þá: „Hættið þessum gráti
og harmi; eg veit ekki nema einhverr komi út úr stofunni og
sjái til ykkar, og segi svo frá því inni. Gangið inn, hverr sér;
við skulum ekki fara inn allir undir eins; eg skal ganga fyrstur,
og þið svo á eftir mér. En þetta skuluð þið hafa til marks:
enginn af hinum vösku biðlum mun vilja leyfa, að mér sé
fenginn boginn og örvamælirinn, en þá skaltu, ágæti Evmeus,
fá mér í hendur bogann, þá þú gengur með hann um stofuna;
síðan skaltu segja ambáttunum að læsa hinum velfelldu hurðum
á herbergi sínu, og þó einhver þeirra heyri stun eða háreysti
til manna hér inni í vorum herbergjum, þá banna þeim að gægjast
fram, en seg þeim að vera kyrrum við vinnu sína, þar sem
þær eru. En þér fel eg á hendur, ágæti Fíletíus, að hleypa lokunni
fyrir forgarðsdyrnar, og reyra þær aftur í flýti“.
242 Að því mæltu gekk hann inn í hin velsettu herbergi, og
settist aftur á þann stól, sem hann hafði áður á setið; síðan
gengu þeir inn einnegin, báðir þrælar hins goðumlíka Odysseifs.
245 Evrýmakkus handlék þá bogann, og bakaði hann alla
vega við eldslogann, en allt fyrir það gat hann ekki dregið
hann upp. Þá stundi hans prúðlynda hjarta mjög; hann varð
angurvær, tók til orða og mælti: „Æ, sannarlega tekur mig
þetta sárt, bæði sjálfs mín vegna og okkar allra, og ekki fellur
mér eins nærri um kvonfangið, þó eg sé næsta hugsjúkur um
það: það eru nógar aðrar Akkeakonur til, bæði á hinni umflotnu
Íþöku og í öðrum borgum. Hitt fellur mér sárara, að
vér erum svo miklu kraftaminni en hinn goðumlíki Odysseifur.
að vér skulum ekki fá upp dregið boga hans; því það er mikil
skömm, og illt til afspurnar jafnvel hjá eftirkomandi mönnum“.
256 Antínóus Evpíþesson svaraði honum: „Þessu má ekki
fram fara, eins og þér gefur sjálfum að skilja, þar sem nú er
haldin heilög hér í landinu hátíð slíks Guðs. Hverr maður ætli
þá fáist við bogadrátt? Nei, leggið bogann frá yður, og sitjið
kyrrir; en óhætt mun vera, þó vér látum axirnar standa, því
enginn held eg muni verða til þess að fara inn í höll Odysseifs
Laertessonar til að taka þær. Heyrið nú til, nú skal byrlarinn
skenkja á bikarana að nýju, skulum vér svo dreypa dreypfórn,
og að því búnu leggja fyrir þenna hinn bjúga boga; en á
morgun skuluð þér segja geitahirðirnum Melanþíusi að koma
hingað með þær geitur, sem vænlegastar eru í öllum geithjörðunum,
skulum vér þá færa Apollon Bogaguði lærleggi í fórn,
og að því búnu freista bogans og enda leik þenna“.
269 Svo mælti Antínóus, og líkaði öllum það er hann mælti.
Helltu nú kallararnir vatni á hendur þeim, en þjónustusveinarnir
fylltu skaftkerin á barma með drykk, skenktu að nýju á
borðkerin, og fengu hverjum sinn bikar. En er þeir höfðu dreypt,
og drukkið sem þá lysti, tók hinn slægvitri, margráðugi Odysseifur
svo til máls: „Hlýðið til, þér biðlar ennar víðfrægu drottningar.
Einkanlega bið eg Evrýmakkus, svo og hinn goðumlíka
Antínóus þar eð hann hefir farið hér um viðurkvæmilegum
orðum, að þér hættið nú bogaleiknum, og felið það mál guðunum
á vald; en á morgun mun sá hafa gagn, sem Guð vill.
Nú er sú bón mín til yðar, að þér ljáið mér hinn fagra boga,
þækti mér gaman að reyna, eins og þér, handa afl mitt, hvort
eg muni enn hafa þann kraft í kögglum, sem eg hafða fyrr meir,
eða muni hrakningurinn og aðhjúkrunarleysið drepið hafa allan
kjark í mér“.
285 Svo mælti hann, en þeim þókti öllum stórkostlega fyrir,
þar þeir voru hræddir um, að hann mundi fá upp dregið hinn
fágaða boga. Antínóus átaldi hann, tók til orða og sagði: „Þú
ert ekki með öllum mjalla, gestur hinn vesæli; nægir þér það
ekki, að þú mátt sitja hér að veizlu í makindum ásamt með
oss afreksmönnunum og ert aldrei settur hjá, þegar farið er með
eitthvað matarlegt, og mátt heyra á orðræður vorar og tal,
sem vér annars lofum engum gesti né ganganda? Hið gómsæta
vín hefir svifið á þig, en vínið verður mörgum að meini,
þeim er slokar það í sig og drekkur setningslaust. Vínið varð
Kentárinum að tjóni, hinum nafnfræga Evrytíoni, þá hann kom
til Lapítalands í höll hins hugstóra Píríþóuss, því þegar hann
var búinn að drekka frá sér vitið, varð hann óður og hafði
illt í frammi í húsi Píríþóusar, urðu kapparnir þá gramir, stukku
upp, og drógu hann út í gegnum forstofuna, og sniðu af honum
nef og eyru með hörðu járni; en hann, sem ekki vissi sitt
rjúkandi ráð, dróst í burt, og bar skaða sinn í ráðleysu, gerðist
siðan ófriður milli Kentára og Lapíta, og var Evrytíon sá fyrsti,
sem beið þar bana, enda var hann þá víndrukkinn. Eins spái
eg að þú hafir eitthvert stórt ólán af því, ef þú dregur upp
bogann, því þá muntu engra góðra atlota njóta í voru húsi,
heldur munum vér láta þegar flytja þig á byrðingi til Eketus
kóngs, er sálgar öllum mönnum, er til hans koma, muntu aldrei
þaðan með lífi komast; þess vegna er bezt fyrir þig að drekka í
kyrrð, en fara ekki í kapp við þér yngri menn“.
311 Hin vitra Penelópa svaraði honum: „Eigi er það sæmilegt,
Antínóus, og ekki heldur réttvíst, að unna ekki jafnaðar
gestum Telemakkusar, þeim er koma í þetta hús. Hugsar þú,
þó gestur þessi fái upp dregið hinn mikla boga Odysseifs af
handafli sínu, að hann muni hafa mig heim til sín og gera
mig að eiginkonu sinni? Eg held honum geti varla komið
þetta til hugar sjálfum; þarf enginn yðar að setja það fyrir
sig, eða láta standa sér fyrir ölteiti, því slíkt er siður en ekki
jafnræði“.
320 Evrýmakkus Polýbusson svaraði henni aftur: „Vitra
Penelópa Ikaríusdóttir, ekki kemur oss það til hugar, að þessi
maður muni ganga að eiga þig, því það sæmir eigi; heldur
óttumst við orðtal karla og kvenna, að einhverr af Akkeum,
sem oss er ófræknari, taki svo til orða: „Ekki eru þeir hótinu
knárri en aðrir, þeir menn sem biðla til konu þessa hins ágæta
manns, þar sem þeir ekki fá upp dregið hinn fagra boga; því
hér kom einn útlendur maður, fátækur förukarl nokkurr, hann
dró bogann fyrirhafnarlaust, og skaut í gegnum axaraugun“.
Þannig munu menn að orði kveða, og verður þetta okkur til
ámælis“.
330 Hin vitra Penelópa svaraði honum: „Með öngvu móti
má það verða, Evrýmakkus, að þeir menn verði þokkasælir hjá
alþýðu, sem svo svívirðilega eyða búi þessa ágætismanns. Hví
teljið þér yður þá minnkun í hinu? Gestur þessi er mjög mikill
vexti og næsta þreklegur, og segist kominn vera af göfugu
faðerni. Fáið honum nú hinn fagra boga, svo vér sjáum, hvað
hann má; því svo mæli eg um, og það skal eg efna, að ef hann
dregur upp bogann, og gefi Appollon honum sigur, þá skal eg
fá honum sæmileg klæði, yfirhöfn og kyrtil, til að vera í; eg
skal og gefa honum oddhvasst spjót, til að verja sig með fyrir
hundum og mönnum, og tvíeggjað sverð; líka skal eg fá honum
skó á fæturna, og láta flytja hann hvert á land sem
hann vill“.
343 Hinn greindi Telemakkus svaraði henni og sagði: „Móðir
mín, enginn af Akkeum hefir meiri ráð á boganum, en eg,
hvort sem eg vil ljá hann nokkurum eða synja hans; enginn
af þeim, sem ríki hafa á hinni grýttu Íþöku, eða á eyjunum
hjá hinu hestauðga Elealandi, skal taka ráðin af mér nauðugum,
enda þó eg vildi gefa gestinum þenna boga alveg með
sér. En þú gakk nú inn í herbergi þitt, og annast vinnu þína,
vefinn og snælduna, og bið þjónustumeyjarnar að fara til
vinnu sinnar. Vér karlmennirnir eigum að annast bogann, og
einkum eg, sem er hér hússráðandi“.
354 Henni brá mjög við þessi orð; hún gekk aftur til herbergis
síns, því hún lagði á hjarta viturleg orð sonar síns. En
er hún var komin upp á loft með þjónustumeyjum sínum, grét
hún Odysseif, sinn kæra mann, þar til hin glóeyga Aþena brá
sætum svefni yfir augu hennar.
359 Hinn ágæti svínahirðir tók nú hinn bjúga boga, og fór
með hann, urðu allir biðlarnir þá háværir í stofunni, og þá
sagði einhverr af hinum ofstopafullu ungmennum: „Hvert ætlar
þú að fara með hinn bjúga boga, illa ræmdi svínahirðir?
Ertu með vitinu? Senn munu fráir hundar, sem þú hefir sjálfur
upp alið, rífa þig í sundur, þar sem þú situr yfir svínunum einmana
langt frá öðrum mönnum; það mun verða, svo framarlega
sem Apollon og aðrir ódauðlegir guðir verða oss líknsamir“.
366 Svo mæltu þeir, en svínahirðirinn, sem bogann bar,
lagði hann niður þegar í stað, því hann varð hræddur, þegar
svo margir menn gjörðu háreysti í höllinni. En hins vegar ógnaði
Telemakkus honum og kallaði til hans: „Berðu bogann
lengra, faðir sæll, þér mun senn ekki hlýða, að gera eins og
allir vilja, þú veizt ekki, nema eg, þó eg sé yngri, elti þig
út á landsbyggðina og fleygi grjóti eftir þér, því eg er sterkari
en þú. Eg vildi óska, að eg væri eins fremri að burðum
og harðfylgni, en allir þeir biðlar, sem hér eru innan hallar;
þá skyldi eg vísa sumum hverjum með harðri hendi burt úr
húsi voru, því þeir hafa hér ill ráð með höndum“.
376 Svo mælti hann; þá hlógu allir biðlarnir dátt að svínahirðirnum,
en reiddust nú ekki svo mjög Telemakkusi. Svínahirðirinn
fór nú með bogann eftir stofunni, nam staðar hjá
hinum fróðhugaða Odysseifi, og fékk honum bogann. Síðan
kallaði hann á fóstruna Evrýkleu, og sagði til hennar: „Telemakkus
biður þig, vitra Evrýklea, að loka hinum velfelldu
hurðum herbergjanna, og þó einhver ambáttanna heyri stun eða
háreysti til manna hér inni í vorum herbergjum, þá mega þær
ekki gægjast fram, heldur veri þær kyrrar við vinnu sína, þar
sem þær eiga að vera“.
386 Svo mælti hann, en hún lét sér vera þetta hugfast og
lokaði aftur hurðum hinna velsettu herbergja. Fíletíus hljóp út
úr stofunni, svo lítið bar á, og lokaði dyrum hins velumgirta
forgarðs. Þar lá skipskaðall úr pappírsviðar basti hjá stólpaganginum,
með þeim kaðli reyrði hann fastar hurðirnar, gekk
síðan inn, og settist á þann stól, sem hann hafði áður á
setið, og hafði augun á Odysseifi.
393 Odysseifur handlék nú bogann, snéri honum fyrir sér
alla vega, og hugði að hvervetna, hvort eigi mundu yrmlingar
nagað hafa boghálsana í fjærveru eigandans. Þá leit einhverr
biðlanna til þess, er næstur honum sat, og kvað svo að orði:
„Þetta er víst einhverr sjónhagur maður og kænn við boga;
eitt er af tvennu, að hann annaðhvort á heima hjá sér slíkan
boga, eður og að honum er í hug að smíða sér annan eins;
hann snýr boganum svo fyrir sér á báða bóga, förukarl þessi,
sem eigi hefir öðru en illu vanizt“.
401 Þá sagði einhverr af hinum ofstopafullu ungmennum:
„Eg vildi óska, að þessi karl hreppti hamingjulán að því skapi,
sem hann getur þenna boga upp dregið“.
404 Svo mæltu biðlarnir; en er hinn margráðugi Odysseifur
var handhafi orðinn að hinum mikla boga, og hafði skoðað
hann umhverfis, þá dró hann þegar bogann upp, fórst honum
það eins hönduglega og söngkænum hörpuslagara, sem vindur
strenginn upp á spánýjan hörpulykilinn, og spennir hann eins
og honum er hægast, þegar hann áður er búinn að festa hið
velsnúna girni til beggja endanna; eins dró Odysseifur upp
hinn mikla boga þrautarlaust. Þá tók hann til hægri hendi sinni,
og drap henni á bogastrenginn, söng fá fagurt í strengnum, og
var hljóðið í honum líkt svölusöng. Þá kom að biðlunum stór
hugarkvíði, og urðu litverpir allir, en Seifur lét birtast jarteiknir,
og lét koma stóra reiðarþrumu. Varð hinn margþjáði,
ágæti Odysseifur þá glaður, er sonur hins lævísa Kronusar sendi
honum þessa jarteikn. Þá tók hann hið bitra skeyti, það lá bert
hjá honum á borðinu, en hinar örvarnar voru niðri í örvamælirnum,
og á þeim áttu Akkear bráðum að kenna. Hann bar nú
örina við bogarifið, dró bogastrenginn og strengflaugarnar,
rétt þar sem hann sat á stólnum; hann gerði hæfing beint fram
undan sér, og lét hlaupa örina af strengnum, missti hann ekki
þess axaraugans, er fremst var, og gekk eirskeytið út í gegnum
allar axirnar. Þá mælti hann við Telemakkus: „Enga minnkun
gerir þessi gestur þér í höllinni, þó hann sitji hér. Ekki geigaði
skotið hjá mér, og ekki var eg lengi að rogast við að draga
bogann. Eg hefi enn óskerta krafta mína, og ekki er eg eins
linur, eins og biðlarnir álasa mér. Nú er mál fyrir Akkea að
búa til kvöldverðar, meðan bjart er, og því næst skemmta sér
með öðru, söng og hörpuslætti, sem er veizlunnar prýði“.
431 Í því hann sagði þetta, benti hann Telemakkusi með
augnabrúnunum; þá lagði Telemakkus, hinn ástkæri sonur hins
goðumlíka Odysseifs, biturt sverð um herðar sér, og greip spjót
í hönd sér, gekk síðan að stólnum til hans, og stóð þar, vopnaður
blikanda málmi.
[1344.png]
[1345.png]
TUTTUGASTI OG ANNAR ÞÁTTUR.
BIÐLAVÍG.
HINN margráðugi Odysseifur kastaði nú af sér tötrunum,
og hljóp upp á hinn háva þröskuld, og hafði í hendi
sér bogann og örvamælirinn, fullan af skeytum. Hann
steypti hinum skjótu örvum niður fyrir fætur sér á þröskuldinn,
og mælti til biðlanna: „Nú er þessi leikur reyndur til
fulls, en nú mun eg velja mér annað hæfingarmark, sem engi
maður hefir enn til skotið, og vita, ef eg fæ hitt það, og hvort
Appollon vill unna mér sæmdar“.
8 Að því mæltu gerði hann hæfing með hinu bitra skeyti
eftir Antínóusi. Antínóus ætlaði í þessu að taka upp fagran gullbikar
með tveimur handarhöldum, og nú handlék hann bikarinn,
og ætlaði að drekka sér vínsopa, og átti nú sízt von á
dauða sínum; því hverjum manni gæti til hugar komið, ef
hann væri í samsæti með öðrum boðsmönnum, að einn maður,
hvað hraustur sem væri, mundi í fjölmenninu skapa sér dapran
dauða og dimma feigð. En Odysseifur gerði hæfing eftir honum,
og skaut örinni í barka honum, gekk örvaroddurinn þvers
í gegnum hinn mjúka háls; hann valt þá út af á aðra hliðina,
en borðkerið féll úr hendi hans, þá hann fékk skotið, og þegar
stóð digur blóðbogi út um nasir hans; hann spyrndi fætinum
í ofboði, og hratt frá sér borðinu, svo maturinn hrökk ofan á
gólf, en brauðið og steikin varð allt í blóði.
21 Þegar biðlarnir sáu, að maðurinn var fallinn, gerðu þeir
hávaða mikinn í höllinni, spruttu upp af hástólunum, æddu
innan um stofuna, og skyggndust alla vega upp um hina velbyggðu
veggi, en hvergi var skjöld eða nokkurt sterkt spjót
að fá. Þeir ógnuðu þá Odysseifi með þessum heiftar orðum: „Illa
mun þér það gefast, gestur, að skjóta að mönnum, muntu eigi
oftar ganga að slíku leikfangi; nú er þér bráður bani vís, því
nú hefir þú vegið þann mann, sem miklu er göfgastur ungra
manna á Íþöku, og fyrir því munu gammar slíta hér hræ þín“.
31 Ekki höfðu biðlarnir allir eina ætlan um þenna atburð,
því þeir héldu, að hann mundi eigi manninn viljandi drepið
hafa; en hitt vissu þeir ekki, hinir heimsku menn, að nú var
þeim sjálfum bani búinn öllum samt. Hinn ráðagóði Odysseifur
leit þá til þeirra með reiðisvip, og mælti: „Þér hugsuðuð, hundarnir,
að eg munda eigi framar heim aftur koma frá Trójulandi,
og þess vegna eydduð þér búi mínu, nauðguðuð ambáttunum
til samlags við yður, og báðuð konu minnar, að mér
sjálfum lifanda, án þess þér óttuðuzt guðina, þá er byggja hinn
víða himin, eða skeyttuð hið minnsta um, að þetta mundi á
síðan mælast illa fyrir af mönnum. Nú er yður öllum einnegin
bráður bani búinn“.
42 Svo mælti hann, en bleikur óttinn greip þá alla, og þorði
enginn að tala til hans orð, nema Evrýmakkus, hann sagði: „Ef
það er víst, að þú ert Odysseifur frá Íþöku, sem hingað ert kominn,
þá er það satt, sem þú segir, að Akkear hafa framið mörg
vonzkuverk hér í höllinni, og eins úti á landsbyggðinni. En nú
liggur sá fallinn, sem upphafsmaður er alls þessa, og það er
hann Antínóus; því hann er valdur að þessum verkum, var
honum þó ekki svo mjög um það hugað, að kvongast, eins og
honum var annt um nokkuð annað, er hann hafði í hyggju,
þó Kronusson léti honum það ekki lánast, sem var það, að
hann vildi verða konungur yfir Íþökulandi, gera syni þínum
launsátur og drepa hann. Hann er nú fallinn, eins og maklegt
er. Væg því mönnum þínum; vér skulum þá síðar, þegar vér
höfum þegið landsgrið af þér, bæta þér að fullu, það sem etið
og drukkið hefir verið í höllinni, skal hverr vor gjalda fyrir
sig andvirði tuttugu uxa, skal það greiðast í eiri og gulli, svo þú
sért vel sæmdur af, því ekki er þér láanda, þó þú viljir ekki
sættast, fyrr enn þú hefir fengið skaða þinn bættan“.
60 Hinn margráðugi Odysseifur leit til hans reiðuglega, og
mælti: „Evrýmakkus, þó þér gylduð mér allan föðurarf yðvarn,
sem þér nú eigið, og þar á ofan annað fé, sem yður hefir bætzt
út í frá, þá er nú svo komið, að eg mun ekki bindast manndrápa,
fyrr en eg hefi hefnt alls þess yfirgangs, sem þér biðlar
hafið gert. Nú eru tveir kostir fyrir höndum, annaðhvort að
berjast við mig, eða flýja, þeim sem þess verður auðið að
komast undan feigð og fjörtjóni, og er það þó ætlan mín,
að enginn yðar muni umflýja bráðan bana“.
68 Svo mælti hann, en þeir urðu svo skelkaðir, að hné
þeirra og hjörtu urðu máttvana. Þá tók Evrýmakkus til orða
í öðru sinni, og mælti til biðlanna: „Heyrið, vinir, ekki mun
heljarmaður þessi láta hér við lenda, heldur, með því hann er
handhafi orðinn að hinum fagra boga og örvamælirnum, þá
mun hann skjóta af hinum skafna þröskuldi, unz hann hefir
drepið oss alla. Látum oss því búast til bardaga; bregðið sverðunum,
og hlífið yður með borðunum við hinum banvænu
skeytum; vöðum svo að honum allir í einum hnappi, og vitum,
ef vér fáum hrundið honum af þröskuldinum og frá dyrunum.
Göngum síðan út í borgina, og ljóstum upp ópi sem
bráðast; mætti þá svo fara, að þessi maður skyti nú af boga í
síðasta sinni“.
79 Að því mæltu brá hann hinu bitra sverði; það var af
eiri, og tvíeggjað. Hann hljóp á móti Odysseifi, og grenjaði
hræðilega. En í sama vetfangi hleypti hinn ágæti Odysseifur
ör af boganum, kom skotið í brjóstið hjá geirvörtunni, og
hljóp hin skjóta ör inn í lifrina. Evrýmakkus lét þá laust
sverðið, svo það féll á gólfið, en hann hringsnérist, datt um
borðið, og velti því með sér, svo maturinn hraut á gólfið og
hinn tvíhvolfaði bikar: hann barði enninu í gólfið í ofboðinu,
sparkaði báðum fótunum í stólinn, svo hann hristist, þar til
loksins sorti sé fyrir augu hans.
89 Amfínómus gekk nú í móti hinum prúðlynda Odysseifi,
og geisaði mjög; hann hafði brugðið hinu bitra sverði, og ætlaðist
til að Odysseifur skyldi hrökkva fyrir sér úr dyrunum.
En Telemakkus varð fyrri að bragði, og lagði eirslegnu spjóti
í bak honum meðal herðanna, svo út gekk um bringuna, en
Amfínómus féll mikið fall, og skall flötu andliti niður í
gólfið. Telemakkus stökk þá burt, og lét eftir hið langskefta
spjót, þar sem það stóð í Amfínómusi, því hann var hræddur
um, ef hann færi að kippa hinu langskefta spjóti úr sárinu, að
þá mundi einhverr Akkea hlaupa á sig með sverðið undan
sér og reka sig í gegn, eða reiða það að sér og höggva sig. Hann
brá því við og hljóp burt, og komst mjög skjótt til föður síns,
og er hann var kominn til hans, talaði hann til hans skjótum
orðum: „Nú vil eg, faðir, sækja skjöld og tvö spjót handa
þér, og hjálm, allan úr eiri gjörvan, sem vel falli að höfði þér;
eg vil og sjálfur koma í alvepni, en fá svínahirðirnum og nautahirðirnum
önnur vopn; því bezt er að vera vopnaður“.
105 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði:
„Hlaup þú eftir þeim; meðan eg hefi örvar til að verjast með,
munu þeir ekki fá hrakið mig frá dyrunum, þó eg sé einn“.
107 Svo mælti hann, en Telemakkus gerði, sem faðir hans
bauð. Hann brá við skjótt, og gekk til geymslusalsins, þar sem
hin góðu vopn Odysseifs voru geymd; þar tók hann fjóra
skildi, átta spjót og fjóra eirhjálma þykkfexta, og fór af stað
með þá, og kom skjótt til föður síns; fór hann fyrst sjálfur í
vopnin, og sömuleiðis herklæddu báðir þrælarnir sig, tóku sér
síðan stöðu hjá hinum fróðhugaða, brögðótta Odysseifi.
116 Meðan Odysseifur hafði örvar til að verjast með, hæfði
hann ávallt einhvern af biðlunum, þann er hann skaut til í höll
sinni, og féllu þeir hverr um þveran annan. En er upp voru
gengnar örvarnar fyrir konunginum, þá reisti hann bogann upp
við hina skínandi hallarveggi hjá dyrustaf hinnar gólfföstu stofu;
hann lagði á herðar sér fjórlagðan skjöld, og setti á sitt hrausta
höfuð vellagaðan hjálm með hrosshársfaxi, og grúfði faxbustin
geigvænlega niður á við; því næst tók hann í hönd sér
tvö sterk spjót með eiroddi.
126 Á hinum velbyggða húsvegg voru stigadyr nokkurar,
og efst hjá þröskuldi hinnar gólfföstu stofu útgangur út í
göngin, voru þar fyrir velfelldar hurðir. Odysseifur bað hinn
ágæta svínahirðir að standa hjá þessum dyrum, og gæta dyranna;
varð þar ekki að komizt nema einumegin. Nú tók Agelás
til orða, og vék máli sínu til allra biðlanna: „Góðir bræður,
ætli enginn geti komizt upp stigadyrnar, til að gera lýðinn
varan við, og láta hljóðið berast sem fyrst; mætti þá svo fara,
að þessi maður skyti nú af boga í síðasta sinni“.
135 Melanþíus geitahirðir svaraði honum: „Ekki verður það,
seifborni Agelás, því hinar fögru hallardyr eru þar rétt hjá, en
útgangurinn út í göngin næsta torsóktur, svo að einn maður,
ef hann er hraustur, má vel verja hann, þó allir sæki að. Heyrið
nú, eg vil fara upp í geymslusalinn, og sækja yður vopn til
að fara í; því grunur minn er, að Odysseifur og hans frægi
sonur hafi látið þau þar, og hvergi annarstaðar“.
142 Að því mæltu fór Melanþíus geitahirðir upp í geymsluloft
Odysseifs, og komst inn um gáttina á herberginu; þar tók
hann tólf skildi, eins mörg spjót, og jafnmarga eirhjálma þykkfexta,
skundaði síðan af stað, og bar vopnin skjótt til biðlanna,
og fékk þeim. Þá skaut Odysseifi skelk í bringu, þegar hann
sá þá vera að fara í vopnin, og skekja hin löngu spjót í höndum
sér; þókti honum nú vandast sitt mál. Hann talaði þá til Telemakkusar
skjótum orðum: „Telemakkus, það er víst, að einhver
af ambáttunum í höllinni æsir illan ófrið í gegn okkur,
eða þá, að það er hann Melanþíus, sem gerir það“.
153 Hinn greindi Telemakkus svaraði honum: „Eg er sjálfur
skuld í þessu, faðir minn, en enginn annar; mér varð það á,
að eg skildi hina velfelldu hurð geymslusalsins eftir uppi á
gátt, og hafa þeir haft einhvern aðgætinn mann á gægjum. Far
þú nú, ágæti Evmeus, og loka aftur salshurðinni, og komst
eftir, hvort það muni vera nokkur af ambáttunum, sem hér
er í verki með, eða það er hann Melanþíus Dolíusson, sem mig
heldur grunar“.
160 Þannig ræddust þeir við um slíkt. Nú fór Melanþíus
geitahirðir öðru sinni upp í geymslusalinn, til að sækja hin
fögru vopn. Hinn ágæti svínahirðir varð þess var, og talaði þá
þegar til Odysseifs, sem hjá honum stóð: „Seifborni Laertesson,
margráðugi Odysseifur! Þessi hinn meinsamlegi maður, sem við
höfðum grunaðan, fer þar aftur upp í geymslusalinn. Seg mér
nú glögglega, hvort eg skal taka hann af lífi, ef eg á alls kosti
við hann, eða skal eg færa hann hingað til þín, að þú skapir
honum víti fyrir allan þann mikla yfirgang, sem hann hefir í
frammi haft í húsi þínu“.
170 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum: „Við Telemakkus
munum verjast hér fyrir hinum vösku biðlum í höllinni,
þó þeir sæki fast að. En þið skuluð snara saman höndur
og fætur á bak honum, kasta honum inn í geymslusalinn, og
reyra fast hurðina að ykkur; síðan skuluð þið binda við hann
snúinn kaðal, og draga hann upp með hinni hávu súlu, og
allt upp að þvertrjám, svo hann lifi þar lengi við mikil harmkvæli“.
178 Svo mælti hann, en þeir tóku vel eftir því, sem hann
sagði, og gerðu, eins og hann bauð. Þeir brugðu við skjótt og
fóru upp í geymslusalinn; Melanþíus var þar fyrir, og varð
ekki var við þá, því hann var að leita að vopnum innst á salnum,
en þeir stóðu við sinn dyrustafinn hvorr, og biðu hans. Nú
kom Melanþíus geitahirðir, og hélt í annarri hendi á fögrum
hjálmi, en í hinni á víðum skildi, fornum og mygluðum; þann
skjöld átti öldungurinn Laertes, og hafði borið hann, þegar
hann var í broddi lífs síns, en síðan hafði skjöldurinn legið
lengi, og voru raknaðir upp saumarnir á fetlunum. En er
Melanþíus steig yfir þröskuldinn, stukku þeir á hann, höfðu
hendur á honum, og drógu hann inn á hárinu, og slengdu honum
niður í gólfið, svo honum varð sárt við; síðan snöruðu þeir
hendur hans og fætur á bak aftur mjög harðfengilega, og bundu
þær saman með sárum fjötri, eins og Laertessonur, hinn þolgóði,
ágæti Odysseifur, hafði boðið; þeir bundu við hann snúinn
kaðal, og drógu hann upp með hinni hávu súlu, og allt upp
að þvertrjám. Þá talaði Evmeus svínahirðir til hans þessum skapraunarorðum:
„Nú skaltú, Melanþíus, liggja hér vel og lengi
í nótt; rúmið, sem þú liggur í, er eins mjúkt og þér hæfir; ekki
trúi eg öðru, en þú getir orðið var við, þegar hin árrisula
Morgungyðja kemur á gullstólnum upp af hinum rennandi
Jarðarstraumi, í það mund, er þú ert vanur að færa biðlunum
geitur til borðhalds í höllinni“.
200 Þannig skildu þeir hann þar eftir, hnepptan í harðan
fjötur; síðan fóru þeir í vopnin, lokuðu aftur hinni glæsilegu
hurð, og fóru til hins fróðhugaða, margbrögðótta Odysseifs, og
numu staðar hjá honum, og voru hinir vígamannlegustu. Stóðu
þeir nú fjórir uppi á þröskuldinum, en innar frá í stofunni
voru biðlarnir, var það fjöldi manns, og margir hraustir.
205 Þá kom þar til þeirra Aþena, dóttir Seifs, hún hafði tekið
á sig líki Mentors, og var honum lík í vaxtarlagi og málrómi.
En er Odysseifur sá hana, varð hann glaður, og mælti: „Firr
mig nú vandræðum, Mentor, og minnst þíns kæra vinar; eg
hefi ávallt verið þér góður, og við erum jafnaldrar“.
210 Svo mælti hann, og hugsaði, að þetta mundi vera vígagyðjan
Aþena. En hinsvegar gerðu biðlarnir mikið háreysti
inni í höllinni, og Agelás Damastorsson varð fyrstur til að ógna
Aþenu með þessum orðum: „Láttu ekki, Mentor, hann Odysseif
túlka þig til að hjálpa sér, en berjast í móti biðlunum; því eg
hygg, að sú ætlan vor verði framgeng, að þegar vér höfum
drepið þá feðgana, þá munt þú og verða drepinn, eins og
þeir, fyrir þá ráðaætlan, sem þú hyggst í frammi að hafa hér
í höllinni; skaltu hér gjalda þess með höfði þínu. En er vér
höfum tekið yður af lífi, þá munum vér slá eigum þínum, bæði
þeim sem þú átt innanstokks og utanhúss, saman við eigur
Odysseifs; hvorki munum vér grið gefa sonum þínum né dætrum,
og ekki unna konu þinni samastaðar í Íþökuborg“.
224 Svo mælti hann, en Aþena varð við þetta enn reiðari í
skapi, og átaldi Odysseif með þessum reiðiorðum: „Ekki er
nú framar í þér, Odysseifur, sá staðfastur hugmóður, eða það
þrek, sem forðum var, þá er þú barðist stöðugt við Trójumenn
í samfleytt níu ár sökum hinnar hvítörmuðu, ættgöfugu Helenu;
vóstu þá margan mann meðan sá hinn grimmi ófriður yfir
stóð, og með þínum ráðum varð hin strætabreiða borg Príamusar
tekin. Hví vex þér nú í augu, að beita þér móti biðlunum, þar
sem þú ert nú heim kominn í hús þitt og til eigna þinna? Láttu
sjá, vinur, komdu hingað, og stattu hjá mér, og sjáðu aðfarir
mínar, svo þú vitir, hversu Mentor Alkímusson kann að launa
þér veittar velgjörðir, þegar þú ert staddur í óvina flokki“.
236 Svo mælti hún, en þó lét hún enn á hvorugan bóginn
hníga sigurinn gjörsamlega, heldur reyndi hún enn afl og þrek
Odysseifs og hans fræga sonar. En sjálf spratt hún upp, og settist
í svölulíki á þak hinnar sótugu stofu.
241 Nú eggjuðu þeir biðlana, þeir Agelás Damastorsson,
Evrýnómus, Amfímedon, Demotólemus, Písander Polýktorsson
og hinn fróðhugaði Polýbus, því þessir voru langt um fram
aðra biðla að hreysti, þá er enn stóðu uppi og áttu líf sitt að
verja, en hinir voru fallnir fyrir tíðum bogaskotum. Þá tók
Agelás til máls, og vék orðum sínum til allra biðlanna: „Vinir,
senn mun afarmenni þetta hefta ofurafl sitt, því nú fór Mentor
frá honum, og var það eigi nema hégóma skrum, er hann mælti,
og eru þeir nú einir eftir frammi við dyrnar. Þess vegna skulum
vér nú eigi skjóta hinum löngu spjótum að þeim allir í
senn, heldur skulu sex af yður skjóta fyrst, ef svo mælti fara,
að Seifur veitti yður það happ, að koma banasári á Odysseif og
bera sigur frá borði; því ekki þarf að hræðast hina, þegar hann
er fallinn“.
255 Svo mælti hann, og nú skutu þeir allir, eins og hann til
tók, og neyttu afls. En Aþena lét öll skot þeirra verða til
ónýtis; því einn þeirra skaut í dyrustaf hinnar gólfföstu stofu,
annar í hina velfelldu hurð, og eirslegið eskiviðar spjót, sem
hinn þriðji skaut, lenti í veggnum. En er þeir Odysseifur höfðu
undan stýrt spjótum biðlanna, þá tók hinn margþjáði, ágæti
Odysseifur svo til máls: „Nú mun eg, vinir, einnig verða að
mælast til, að vér skjótum í flokk biðlanna, sem nú bæta því
ofan á það, sem þeir hafa áður illt gert, að þeir vilja drepa oss“.
265 Svo mælti hann, en þeir skutu allir hinum beittu spjótum,
og gerðu hæfing beint fram undan sér; þar drap Odysseifur
Demotólemus, en Telemakkus Evrýades, svínahirðirinn drap
Elatus, og nautahirðirinn Písander, hnigu allir þessir til jarðar
og bitu tönnum í gras; hrukku biðlarnir þá innar í stofuna, en
hinir hlupu til, og kipptu spjótunum úr þeim sem fallið höfðu.
Því næst skutu biðlarnir hinum beittu spjótum af öllu afli, en
Aþena lét mörg af þeim fara til ónýtis, því einn biðlanna skaut
í dyrustaf hins gólffasta húss, annar í hina velfelldu hurð, og
eirslegið eskiviðarspjót, sem hinn þriðji skaut, lenti í veggnum.
Telemakkus skeindist á úlnliðnum af spjóti Amfímedons,
var það skinnsprettur. Ktesippus skaut til Evmeusar löngu
spjóti, kom skotið fyrir ofan skjöldinn og í öxlina, var það
svöðusár, og renndi spjótið upp af, og lenti í gólfinu. Hinn
fróðhugaði, margráðugi Odysseifur og félagar hans skutu þá
aftur beittum spjótum í flokk biðlanna, og felldi Odysseifur
borgabrjótur Evrýdamant, Telemakkus Evrýmedon.[* Af einhverjum ástæðum, sennilega vangá, hefur hér slæðzt inn
Evrýmedon, en á að vera Amfímedon. Telemakkus er hér einmitt að hefna
sín fyrir sárið.
Aths. útg.] svínahirðirinn
Polýbus; nautahirðirinn skaut til Ktesippusar, og kom
í bringuna, talaði nautahirðir þá til hans, og var hróðugur:
„Þú Polýþersesson, sem hefir gaman af því að spotta aðra,
vertu aldrei framar sá heimskingi, að fara með stóryrði,
heldur fel þú guðunum á vald, hvað verða vill, því þeir eru
miklu máttugri en þú. Þessa sendingu skaltu nú hafa fyrir
nautsfótinn, sem þú gafst hinum goðumlíka Odysseifi áðan,
þegar hann bað sér beina í höllinni“.
292 Svo mælti hirðir hinna bjúghyrndu nauta, en Odysseifur
óð fram að Damastorssyni, og rak hann í gegn með langspjóti.
Telemakkus lagði spjóti í miðjan kvið Leókríts Evenorssonar,
svo að gekk í gegn, en hann féll á grúfu, og skall í
gólfið á flatt andlitið. Þá brá Aþena upp hinum mannskæða
Ægisskildi, þar sem hún sat uppi á þakinu, urðu þá hjörtu
biðlanna óttaslegin; þeir riðluðust felmtrandi innan um stofuna,
eins og nautahjarðir, þegar hin áfjáða broddfluga legst
á þær, og ærir þær á vorin, þegar dagana tekur að lengja. En
hinir voru eins og klóbjúgir, bjúgnefjaðir haukar, sem koma
af fjöllum ofan, og steypa sér niður á smáfugla; fuglarnir
þora þá ekki að vera uppi undir skýjunum og vilja þjóta niður
á láglendið, en haukarnir stökkva á þá og drepa þá, verður þar
engi vörn fyrir og ekkert undanfæri, en mennirnir hirða fuglana,
sem niður detta, og þykir vænt um: allt eins ruddust þeir
Odysseifur um í stofunni, og börðu biðlana á báða bóga, en
þeir hljóðuðu afskaplega, þegar þeir fengu höfuðhöggin, og
allt gólfið flaut í blóði.
310 Leódes hljóp þá til Odysseifs, tók um kné hans og bað
um líf með svofelldum orðum: „Eg fell þér til fóta, Odysseifur,
álít mig miskunnsamlega, og haf meðaumkvun með mér! Eg
hefi alls ekki talað eða gert til miska nokkurri ambátt hér í
höllinni; eg hefi miklu fremur borið mig að aftra biðlunum
frá að fremja nokkuð þvílíkt, en þeir hafa eigi viljað gegna
mér til þess, að halda sér frá illverkunum, og hafa því hreppt
hræðileg afdrif fyrir sitt svívirðilega athæfi. En ef eg, sem
ekkert hefi gert af mér, og ekki verið annað en brennifórnarspámaður
hjá þeim, á að leggjast í valinn, þá er lítilla launa
framar að vænta fyrir það, sem vel er gert“.
320 Hinn ráðagóði Odysseifur leit til hans með reiðisvip, og
mælti: „Ef svo er, sem þú segir, að þú hefir verið brennifórnarspámaður
hjá biðlunum, þá muntu víst oft hafa óskað þess í
höllinni, að mér mætti seint auðið verða eftiræsktrar heimkomu,
og að þú næðir ráðahag við mína ástkæru konu, og að þér yrði
með henni barna auðið. Þess vegna skaltu ekki sleppa hjá hinum
harðleikna dauða“.
326 Að því mæltu þreif hann með sinni þreknu hendi sverð,
er þar lá; því sverði hafði Agelás varpað frá sér til jarðar, þá
hann var veginn. Með þessu sverði hjó hann á þveran háls
honum, svo höfuðið féll niður á gólf, meðan Leódes var að tala.
330 En söngmaðurinn Femíus Terpíusson, sem biðlarnir
höfðu kúgað til að kveða hjá sér, komst undan hinum dimma
dauða. Hann stóð nálægt stigadyrunum, og hélt á hinni hljómfögru
hörpu. Nú kom honum tvennt í hug, hvort hann skyldi
ganga út úr stofunni og setjast hjá enum veglega stalla hins
mikla Seifs, húsvarðargoðs: voru þeir Laertes og Odysseifur á
þeim stalla vanir að brenna mörg nautslæri: eða skyldi hann
hlaupa til Odysseifs, taka um kné hans, og biðja sér lífs. En er
hann hugsaði um þetta, leizt honum ráðlegast, að flýja á náðir
Odysseifs Laertessonar; hann lagði þá niður hina hvelfdu hörpu
milli skaftkersins og hins silfurneglda hástóls, hljóp svo til
Odysseifs, og tók um kné honum, bað sér griða, og talaði til
hans skjótum orðum: „Eg knéfell, og bið þig, Odysseifur, álít
mig miskunnsamlega, og haf meðaumkvun með mér. Sjálfur
muntu þess sárlega iðrast síðar meir, ef þú drepur þann söngmann,
sem kveður guðum og mönnum til lofs, eins og eg
gjöri. Eg hefi af öngvum manni lært, heldur hefir Guð blásið í
brjóst mér ýmislegum ljóðasöngvum. Það er skylt, að eg syngi
fyrir þér, eins og fyrir einhverjum guðanna. Lát þig því ekki
fýsa til að höggva höfuð af mér. Telemakkus, þinn ástfólgni
son, getur borið mér það, að eg kom ekki sjálfráður í hús þitt
til að kveða yfir borðum, biðlunum til skemmtunar, og ekki
heldur af því að eg þyrfti þess, heldur fóru þeir með mig hingað
nauðugan, því þeir voru fjölmennari og mér yfirsterkari“.
354 Svo mælti hann, en er hinn kraftagóði Telemakkus
heyrði, hvað hann sagði, talaði hann þegar til föður síns, er
hjá honum stóð: „Lát vera, högg eigi þenna mann, hann er
saklaus. Við skulum og gefa líf kallaranum Medoni, hann hefir
ávallt verið mér unnandi hér í húsi voru, meðan eg hefi verið
sem barn. Mér þykir verst, ef Fíletíus eða svínahirðirinn hafa
drepið hann, eða hann hefir orðið á vegi fyrir þér, þegar berserksgangurinn
var á þér í höllinni“.
361 Svo mælti hann, en hinn vitri Medon heyrði, hvað
hann sagði. Hann hafði kropið af hræðslu undir einn hástól,
lagzt þar fyrir, og vafið utan um sig nýfleginni nautshúð, til
þess að forða sér dimmum dauða. Hann spratt nú skjótt upp
undan stólnum, tók fljótlega utan af sér nautshúðina, hljóp fram,
og tók um kné Telemakkusar, bað sér griða, og talaði til hans
skjótum orðum: „Hér em eg, vinur, gef mér grið, og bið föður
þinn, að hann bani mér ekki með sínu bitra vopni, því hann
getur nú eigi stýrt afli sínu sökum þeirrar ofurreiði, er hann
hefir á biðlunum, sem hafa eytt eigum hans innan hallar, og
verið svo heimskir að virða þig einskis“.
371 Hinn ráðagóði Odysseifur sagði til hans brosandi: „Vertu
óhræddur, úr því þessi maður hefir gefið þér grið, og tekið þig
á sitt vald; máttu nú sjálfur sanna, og vitna fyrir öðrum útífrá,
hversu það er stórum betra, að gera gott, en illt. Farið nú út
úr stofunni og úr valnum, og fram í forgarðinn, og setjist þar,
þú og hinn kvæðafróði söngmaður, meðan eg starfa hér í stofunni,
það sem eg þarf“.
378 Svo mælti hann, en þeir gengu út úr stofunni, og settust
hjá stalla hins mikla Seifs, lituðust þeir alla vega í kring um
sig, eins og byggist þeir við, að þeir mundu þá og þá verða
drepnir.
381 Odysseifur hvarflaði nú augum um höll sína, og hugði
að, ef nokkurr biðlanna væri enn lífs, og leyndist einhverstaðar,
til að forða sér dimmri feigð. En hann sá, hvar þeir lágu
allir saman niðri í blóðinu á gólfinu, var það mikill sægur.
Þeir voru eins og fiskar þeir, er fiskimenn hafa dregið í djúpriðnu
neti utan af hinum gráa sæ inn í vík nokkura við sjávarströndina;
liggja fiskarnir allir í kös í fjörunni, og sakna þá
sjávarvatnsins, en hinn lýsandi Helíus dregur smámsaman úr
þeim fjörið. Eins lágu biðlarnir í hrúgu, hverr um þveran annan.
Þá talaði hinn margráðugi Odysseifur til Telemakkusar: „Far
nú, Telemakkus, og kalla á fóstruna Evrýkleu; eg vil tala nokkuð
við hana, sem mér er hugleikið“.
393 Svo mælti hann, en Telemakkus gerði, sem faðir hans
bauð; hann knúði hurðina, og mælti til fóstrunnar Evrýkleu:
„Rís á fætur, gamla kona, sem hefir umsjón yfir ambáttum
þeim, sem eru í húsum vorum! Kom hingað, faðir minn kallar
á þig, og vill tala eitthvað við þig“.
398 Þannig mælti hann, en hún hugfesti orð hans, lauk upp
dyrum hinna velsettu herbergja, og gekk fram, en Telemakkus
fór á undan henni. Hún fann Odysseif í valnum, dreyra drifinn
og blóðstorkinn; var hann líkur ljóni því, er kemur úr nautsskrokki,
sem það hefir upp etið: öll bringa þess og kjaftvikin
beggja vegna löðra í blóði, og sjálft er það ógurlegt ílits. Eins
voru fætur og hendur Odysseifs ataðar. En er hún sá valköstinn
og ósköpin af blóðinu, þá varð henni það fyrir, að hún hrein
upp yfir sig af gleði, því hún sá, að hér var stórmikið að gert.
En Odysseifur þaggaði niður í henni og hefti ákafa hennar, og
talaði til hennar skjótum orðum: „Gleðstu með sjálfri þér,
gamla kona, stilltu þig, þú mátt ekki hrína upp yfir þig; það er
synd, að hlakka yfir vegnum mönnum. Álög guðanna og illverk
sjálfra þeirra hafa riðið þeim að fullu, því þeir virtu engan
jarðneskan mann, sem til þeirra kom, hvort sem hann var
meira háttar eða minna, og því hrepptu þeir hræðileg afdrif
illverka sinna. En tel nú upp fyrir mér þær ambáttir innan
hallar, sem óvirða mig, og eins hinar, sem eigi eru þar í sekar“.
419 Hin kæra fóstra Evrýklea svaraði honum: „Eg skal
segja þér, sonur sæll, allt eins og er. Hér eru í höllinni fimmtíu
ambáttir, sem þú átt, höfum við kennt þeim ýmsan verknað,
bæði að kemba ull og vinna þrælavinnu. Tólf af þeim hafa
í frammi haft mikla ósvífni, og hvorki aktað mig, né heldur
sjálfa Penelópu; en Telemakkus er nýlega orðinn vaxinn maður,
og hefir móðir hans aldrei leyft honum að hafa nein umráð
yfir ambáttunum. Heyrðu nú til, eg vil fara upp á hinn
glæsilega loftsal, og gera konu þína vara við; einhverr guð
hefir látið svefn renna í brjóst henni“.
430 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði henni og sagði: „Ekki
skaltu vekja hana, en seg þú þeim ambáttum, sem áður hafa
hagað sér ósæmilega, að koma hingað“.
433 Svo mælti hann, en hin gamla kona gekk út úr stofunni,
til að skila þessu til ambáttanna og segja þeim að koma.
Síðan kallaði Odysseifur til sín þá Telemakkus, nautahirðirinn
og svínahirðirinn, og talaði til þeirra skjótum orðum: „Gangist
nú fyrir því, að valurinn sé út borinn, og segið ambáttunum
að gera það. Þar næst skuluð þér láta þvo hina fögru hástóla
og borðin úr vatni með gljúpum njarðarvöttum. En þá er þér
hafið látið koma öllu í lag innan hallar, þá skuluð þér leiða
ambáttirnar út úr hinni gólfföstu stofu, og út í sundið milli
hvolfklefans og hinnar traustu forgarðsgirðingar, og höggva
þær þar með langeggjuðum sverðum, þar til þér hafið tekið
þær allar af lífi, og þær hafa gleymt þeim ástarhótum, er þær
nutu af launmökum sínum við biðlana“.
446 Svo mælti hann; þá komu allar ambáttirnar í einum
hnapp, þær báru sig hörmulega, og grétu fögrum tárum. Fyrst
báru þær út líkin, og lögðu þau fram í stólpagang hins velumgirta
forgarðs, og flýttu sér svo, að þær rákust hver á aðra, því
sjálfur Odysseifur var uppi yfir þeim og rak eftir þeim, svo
þær urðu að bera út líkin nauðugar viljugar. Síðan þvoðu þær
hina fögru hástóla og borðin úr vatni með gljúpum njarðarvöttum.
Telemakkus, nautahirðirinn og svínahirðirinn mokuðu
gólf hins vandaða sals með rekum, en þær tóku bleytuna og
báru út.
457 En er þeir höfðu ræst allan salinn, leiddu þeir ambáttirnar
út úr hinni gólfföstu stofu, og út í sundið milli hvolfklefans
og hinnar traustu forgarðsgirðingar, og kvíuðu þær þar,
svo þær áttu sér ekkert undanfæri. Hinn greindi Telemakkus
tók þá svo til máls: „Ekki mun eg láta ambáttir þessar fá svo
heiðarlegan dauðdaga, þar sem þær hafa lagt bæði sjálfum mér
svívirðingar til, og svo móður minni, og legið hjá biðlunum“.
465 Að því mæltu tók hann festarkaðal af einu stafnbláu
skipi, batt hann við stóra máttsúlu, og brá honum upp um
hvolfklefann, lét síðan draga þær á loft svo hátt, að engi þeirra
náði fótum til jarðar. Það fór fyrir þessum ambáttum, líkt og
fer fyrir vængjalöngum þröstum eða skógardúfum, sem ætla í
hreiður sitt, en lenda þá í einhverri snörunni, sem lögð hefir
verið í viðarrunninn, og mega svo gista þar, þó illt þyki. Allteins
héngu ambáttirnar uppi við kaðalinn með höfuðin í röð,
en um háls þeim voru snörur, til þess þær skyldu deyja aumkvunarlegum
dauða; þær sprikluðu fótunum litla stund, en þau
fótalæti voru ekki lengi.
474 Því næst leiddu þeir Melanþíus út eftir forstofunni, og
út í forgarðinn, skáru af honum nasir og eyru með hörðu
járni, slitu undan honum og köstuðu fyrir hunda, og hjuggu
af honum hendur og fætur í heiftarhug. Síðan þógu þeir sér
um hendur og fætur, og gengu inn til Odysseifs; var nú þessu
verki lokið.
480 Þá mælti Odysseifur við hina kæru fóstru, Evrýkleu:
„Sæktu eld, gamla kona, og brennustein, sem er bót við mörgum
meinum, því eg ætla að hreinsa húsið með brennusteini.
En þú bið Penelópu að koma hingað með þjónustumeyjum
sínum, og seg öllum ambáttunum að koma ofan í stofu“.
485 Hin kæra fóstra Evrýklea svaraði honum: „Rétt segir
þú, sonur sæll; en, heyrðu til, eg ætla fyrst að færa þér yfirhöfn
og kyrtil til að fara í; þú mátt ekki standa hér í höllinni
með slíka tötra um þínar breiðu herðar; það væri til þess
takanda“.
490 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði henni: „Eg vil fyrst
fá eldinn hér inn í höllina". — Svo mælti hann, en hin kæra
fóstra Evrýklea gerði, sem hann bauð, og sókti eld og brennustein;
en Odysseifur hreinsaði stofuna, framhúsið og forgarðinn
með brennusteini.
495 Hin gamla kona gekk nú í gegnum hin fögru herbergi
Odysseifs, til að segja konu hans tíðindin, og biðja hann að
koma. En ambáttirnar gengu út úr herbergi sínu, og héldu á
blysum í höndum sér; þær flykktust kringum Odysseif og
fögnuðu honum, kysstu höfuð hans og herðar af feginleiknum,
og tóku í hendur hans; en sæt löngun til gráts og andvörpunar
gagntók hann, því hann þekkti þær allar grant.
[1360.png]
[1361.png]
TUTTUGASTI OG ÞRIÐJI ÞÁTTUR.
PENELÓPA KENNIR ODYSSEIF.
HIN gamla kona gekk fagnandi upp á loftsalinn, til að
segja hússmóður sinni, að hennar kæri maður væri heim
kominn. Kné hennar iðuðu og fæturnir tifuðu óðar, en
vant var. Hún gekk að höfðalagi drottningar, og mælti til
hennar: „Vakna þú, Penelópa, dóttir góð, svo þú sjáir með eigin
augum, það sem þú hefir eftir þráð alla daga. Odysseifur er
kominn, og heim til sín, þó seint væri. Hann hefir drepið hina
vösku biðla, sem gerðu óspektir í húsi hans, átu upp eigurnar,
og misbuðu syni hans“.
10 Hin vitra Penelópa svaraði henni: „Kæra fóstra, guðirnir
hafa gert þig brjálaða; þeir geta gert jafnvel hinn vitrasta
mann óvitran, og gefið grunnhyggnum manni hyggindi:
eins hafa þeir brjálað vit þitt, þó þú áður værir heilvita. Hví
gabbar þú mig með þessari sögu þinni, sem fjærri er öllum
sanni? Hjarta mitt er nógu harmþrungið samt. Hví vekur þú
mig af hinum sæta svefni, sem nýlega seig á augu mér og hélt
saman augnabrám mínum? Eg hefi aldrei sofið svo væran,
síðan Odysseifur fór úr landi, til að vitja ólánsborgarinnar,
Ilíonsborgar, sem eg aldrei má nefna. Far nú ofan, og gakk
aftur til herbergis þíns. Ef einhver önnur af ambáttum þeim,
sem eg á, hefði komið með þessar fréttir og vakið mig af svefni,
þá skylda eg hafa rekið hana þegar með harðri hendi aftur í
herbergi sitt; en þú nýtur þess, að þú ert gömul“.
25 Hin kæra fóstra Evrýklea svaraði henni: „Ekki gabba
eg þig, dóttir góð; það er satt, sem eg segi, að Odysseifur er
kominn í land, og heim til sín; hann er gestur sá, sem allir
óvirtu í höllinni. Telemakkus vissi fyrir löngu, að hann var
innan hallar, en hann leyndi kænlega fyrirætlun föður síns,
svo hann mætti hefna þess ofríkis, er hinir ofstopafullu menn
hafa í frammi haft“.
32 Svo mælti hún, en Penelópa varð glöð, stökk ofan úr
sænginni, umfaðmaði hina gömlu konu, og felldi tár af augum;
síðan talaði hún til hennar skjótum orðum: „Æ, seg mér,
kæra fóstra, ef það er satt, sem þú segir, að hann sé heimkominn,
hversu mátti hann þá leggja hendur á hina ósvífnu biðla
einn síns liðs, þar sem þeir eru ávallt vanir, að vera fjölmennir
innan hallar“.
39 Hin kæra fóstra Evrýklea svaraði henni: „Eg sá ekkert,
og frétti ekkert, en heyrði einungis andvörpin, þegar verið var
að vega að þeim, því við sátum innst inni í hinum traustsmíðuðu
herbergjum kvíðafullar, en dyrnar harðlæstar; fyrr en Telemakkus,
sonur þinn, kallaði til mín úr stofunni, því faðir hans
hafði sent hann eftir mér, — þá fann eg Odysseif, þar sem
hann stóð í valnum, en biðlarnir lágu í kringum hann á hinu
harða gólfi, hverr um annan þveran; þér hefði orðið kátt í hug,
ef þú hefðir séð það. Nú liggja þeir allir í einni kös í forgarðsdyrunum,
en Odysseifur hefir kveikt mikinn eld, og er nú að
hreinsa hús sitt með brennusteini, en sendi mig hingað til að
kalla á þig. Kom þú nú, svo hjarta ykkar beggja nái að gleðjast
eftir það hið mikla mótlæti, sem þið hafið þolað. Nú er það
loksins komið á daginn, sem þú hefir lengi eftir þráð, hann er
lífs heimkominn til heimilis síns, og hefir fundið þig heima
og son sinn í höllinni; og biðlana, sem fóru smánarlega með
hann, á þeim öllum hefir hann hefnt sín í húsi sínu“.
58 Hin vitra Penelópa svaraði henni: „Kæra fóstra, hrósaðu
enn ekki svo mjög happi af feginleikum. Þú veizt, hve mjög
við öll hér í höllinni mundum fagna heimkomu hans, einkanlega
eg og sonur okkar beggja. En saga þessi, er þú segir frá,
mun eigi sönn vera; heldur mun einhverr guðanna hafa banað
hinum vöska biðlum, hefir honum þókt nóg um þann sárbeitta
yfirgang og hin illu verk, er þeir höfðu í frammi, því þeir virtu
engan jarðneskan mann, sem til þeirra kom, hvort sem hann var
meira háttar eða minna, og því hrepptu þeir ill afdrif sökum
illverka sinna. En Odysseifur mun misst hafa heimkomu sinnar
fjarri Akkealandi, og mun sjálfur undir lok liðinn“.
69 Hin kæra fóstra Evrýklea svaraði henni: „En að slíkt
skuli þér af vörum líða, dóttir góð! Þú segir, að maður þinn
muni aldrei heim koma, og þó sat hann hér inni við eldstóna;
ávallt er hugur þinn tortryggur. Heyrðu nú til, eg skal segja
þér annað augljóst merki, það er örið, sem hann ber eftir sár
það, er göltur nokkurr veitti honum eitt sinn með hvítri tönn
sinni; eg varð þess vör, þá eg gerði honum fótlaug, og vildi
gera þig vara við, en hann var svo séður, að hann greip höndum
fyrir munn mér, og leyfði mér ekki að segja neitt. Kom þú nú,
en eg set mig sjálfa í veð, ef eg gabba þig, að þá skaltu mega
lífláta mig hinum versta dauðdaga“.
80 Hin vitra Penelópa svaraði henni: „Kæra fóstra, bágt
mun þér veita, þó þú sért margfróð, að komast að ráðstöfun
hinna eilífu guða. Förum nú samt ofan til sonar míns; eg vil
sjá biðlana, sem drepnir eru, og þann, sem á þeim hefir unnið“.
85 Að því mæltu gekk hún ofan úr loftsalnum, og var
mjög hugsandi um það, hvort hún skyldi spyrja sinn kæra mann
í einrúmi, eða ganga til hans, kyssa höfuð hans og taka í
hendur honum. En er hún var gengin inn, og stígin yfir steinþröskuldinn,
settist hún gagnvart Odysseifi, í eldsbirtunni við
vegginn annarsvegar; en hann sat við hina hávu súlu, og
horfði niður fyrir sig, og beið þess, að sín skörulega kona yrpi
orði á sig, þá hún liti sig augum. En hún sat lengi, og mælti
ekki orð, því hennar hjarta var fangið af undran. Þó hún
öðru hverju renndi til hans augunum, og liti í andlit honum,
þá kannaðist hún ekki við hann aðra stundina, af því hann var
klæddur vondum flíkum. Þá átaldi Telemakkus hana, tók til
orða og mælti: „Móðir mín, þú ógæfusama móðir, sem ert svo
torsveig í skapi! Hví firrist þú svo föður minn? Hví sezt þú
eigi hjá honum, tekur hann orðum og spyr hann? Ekki mundi
önnur kona með slíkum stöðugleik firrast mann sinn, ef hann
kæmi eftir afstaðnar margar þrautir heim til hennar í föðurland
sitt á tuttugasta ári; en þitt hjarta er ávallt fastara fyrir
en steinninn“.
104 Hin vitra Penelópa svaraði honum: „Hjartað í brjósti
mér er utan við sig af undrun, sonur minn. Eg get ekki yrt
orði á hann eða spurt hann, og ekki litið upp á hann. En ef
það er satt, að þetta sé Odysseifur, og sé heim kominn í hús
sitt, þá munum við eflaust bæði tvö betur kannast hvort við
annað, því við höfum þær jarteiknir okkar í milli, sem við
vitum bæði, en aðrir vita ekki af“.
111 Svo mælti hún; þá brosti hinn þolgóði, ágæti Odysseifur,
og talaði þegar til Telemakkusar skjótum orðum: „Telemakkus,
lofa þú móður þinni að freista mín hér í höllinni; hún mun
senn bera kennsl á mig betur; en nú, af því eg er óhreinn og í
vondum flíkum, þá fyrirlítur hún mig fyrir þá skuld, og vill
enn eigi viðkannast, að eg sé maðurinn sinn. En nú skulum
við taka ráð okkar saman, hversu þetta mál megi sem beztan
enda taka. Því sá maður, sem ekki á kost á því fleiri liðveizlumönnum,
ef hann vegur víg innanlands, og þó ekki verði hann
nema eins manns bani, þá fer hann útlægur frá tengdamönnum
sínum og föðurlandi. Nú höfum við fellt mikla stoð undan
ríkinu, þar sem við höfum að velli lagt þá sveina, sem langgöfgastir
voru á Íþöku; vil eg því biðja þig að hugleiða þetta
mál“.
123 Hinn greindi Telemakkus svaraði honum, og sagði:
„Þar muntu sjálfur bezt fyrir sjá, faðir kær; því það er almæli,
að þínar tillögur séu hinar beztu, og mun enginn dauðlegur
maður þurfa við þig að keppa þar í“.
129 Hinn ráðvitri Odysseifur svaraði honum og sagði: „Eg
skal þá segja þér hvað mér þykir ráðlegast. Fyrst skuluð þér
lauga yður, og fara í kyrtla yðar, og segið ambáttunum í höllinni
að taka klæði sín. Þá skal hinn andríki söngmaður taka
í hönd sér hina hljómfögru hörpu, og leika á hana fyrir okkur
skemmtilegan dansleik, svo að þeir, sem til heyra úti fyrir, eða
ganga um strætið, eða búa hér í grennd, hugsi, að hér sé
drukkið brúðkaup inni; geri eg það til þess, að fregnin um
biðladrápið berist eigi fyrr út um borgina, en vér erum komnir
út á vorn trjávaxna akur. Þar skulum við hugleiða hverr með
öðrum, hvaða heill hinn Ólympski Seifur muni vilja veita
okkur“.
141 Svo mælti hann, en þeir gegndu honum, og gerðu, sem
hann bauð. Fyrst lauguðu þeir sig, og föru svo í kyrtla sína;
síðan bjuggust ambáttirnar; en hinn andríki söngmaður tók hina
hljómfögru hörpu, og vakti hjá þeim löngun eftir sætum
söng og fallegum dansleik. Tók nú undir í allri höllinni af fótatökunum,
þegar karlmennirnir og hinar fagurbeltuðu konur
léku sér. Einhverr, sem úti stóð á hleri fyrir utan höllina, tók
þá svo til orða: „Nú hefir víst einhverr gengið að eiga hina
biðilsælu drottningu; hin harðgeðjaða kona, hún bar þá ekki
þrek til að varðveita hið mikla hús eiginmanns síns allsendis,
þar til hann kæmi sjálfur heim“. — Svo tók einhverr til orða,
því menn vissu ekki, hvað gerzt hafði.
153 Matseljan Evrýnóma laugaði hinn hjartaprúða Odysseif
í herbergi sínu og smurði hann með viðsmjöri, lagði síðan yfir
hann fagra skikkju og kyrtil. Aþena sveip höfuð hans með
forkunnar fegurð, gerði hann hærra á velli að sjá og þreknara,
og lét hrynja þykkva lokka niður af höfði hans, líka sverðliljublómi.
Eins og hugvitsmaður nokkurr, þeim er Hefestus
og Pallas Aþena hefir kennt allskonar hagleik, gullbýr silfur,
og smíðar fagra gripi: eins brá Aþena fegurð yfir höfuð og
herðar Odysseifs; var hann í sjón líkur hinum ódauðlegu guðum,
þegar hann sté upp úr lauginni. Síðan settist hann aftur
á þann stól, er hann hafði áður á setið, gagnvart konu sinni,
og mælti til hennar: „Þú hin undarlega kona, upphiminsbúarnir
hafa gert þig miklu harðbrjóstaðri, en nokkura konu aðra. Ekki
mundi önnur kona með slíkum stöðugleik firrast mann sinn,
ef hann kæmi á tuttugasta ári heim til hennar í föðurland sitt,
eftir afstaðnar margar þrautir. En, heyrðu, fóstra, bú upp rúm
handa mér, eg vil ganga til hvílu; því kona þessi hefir sannarlega
járnhjarta innanbrjósts“.
173 Hin vitra Penelópa svaraði honum: „Þú hinn undarlegi
maður, þetta kemur ekki til fyrir mér af nokkurskonar mikillæti
eða fyrirlitning fyrir þér, eða af kynlegleik; því eg man
vel, hversu þú varst í hátt, þegar þú fórst á árlöngu skipi leiðangurinn
frá Íþöku. En — heyrðu, Evrýklea, bú þú upp handa
honum rúmið hið góða fyrir framan það gólffasta svefnherbergi,
sem hann sjálfur smíðaði; setjið hið prýðilega rúm út
þangað, og látið þar í sængurklæði, feldi, rúmskikkjur og glæsilegar
glitábreiður“.
181 Svo mælti hún til að freista manns síns; en Odysseifi
þókti þungt um, og mælti til sinnar tryggvu konu: „Það orð,
sem þú þar mælir, kona, tekur mig mjög sárt. Hverr hefir gert
mér það, að færa rúmið á annan stað, en það átti að vera? Ekki
ætlaði eg, að það mundi verða allauðvelt fyrir nokkurn mann,
enn þótt hagsýnn væri, nema einhverr af guðunum kæmi
sjálfur til, og vildi með almætti sínu færa það á annan stað; en
engum mennskum manni, enn þótt væri í broddi lífs síns,
mundi auðgert að þoka því úr skorðum: því á þessu hinu
hagsmíðaða rúmi eru glögg einkenni. Eg hefi sjálfur smíðað
það, og engi maður annar. Inni í hallargarðinum vóx langlaufgað
viðsmjörsviðartré, það tré var fullvaxið og stóð í blóma,
og digurt, sem máttsúla. Kringum þetta tré lagða eg grundvöll
til svefnherbergis, og hlóð það upp af steinalögum, þar til er
fullgert var, þakta svo yfir vandlega, lét þar síðan fyrir samskeyttar
hurðir, sem vel voru samanfelldar. Að því búnu hjó
eg limið af hinu langlaufgaða viðsmjörstré, og sneið bolinn frá
rótinni, síðan teglda eg stofninn alla vega með bitjárni, vandlega
og haglega, og gerði beinan eftir mæliþræði, bjó eg þar af rúmfótinn
og rennda hann allan með rennibor, hafði eg þenna
stofn fyrir undirstöðu að rúminu, og teglda eg svo rúmið sjálft,
þar til er lokið var, og bjó það listilega með gulli, silfri og fílsbeini,
síðan reyrða eg rúmið saman með ól af nautsskinni, sem
lituð var í fögrum purpura. Þannig lýsi eg fyrir þér þessum
einkennum. Nú veit eg eigi, kona, hvort rúmið stendur enn
kyrrt, þar sem eg lét það, eða hefir nokkurr maður af nýjungu
höggvið undan stofn viðsmjörsviðartrésins, og fært rúmið á
annan stað“.
205 Svo mælti hann; en þá urðu hennar kné magnþrota, og
hjartað komst við, þá er hún kannaðist við þær jarteiknir, er
Odysseifur lýsti svo glögglega fyrir henni. Hún hljóp grátandi
í fang honum, og lagði hendur sínar um háls Odysseifi, kyssti
höfuð hans og mælti: „Reiðst mér eigi Odysseifur, þar sem
þú ert allra manna bezt viti borinn í hvívetna. Guðirnir lögðu
á okkur það mótlæti, að þeir unntu okkur ekki að njóta samvista
á bezta aldri okkar, og ná svo ellidögum. Reiðst mér eigi
nú, og lát þér eigi fyrir þykja, þó eg tækja þér ekki í fyrstunni,
þá eg sá þig, eins blíðlega, og nú geri eg. Því eg hefi
ávallt borið kvíðboga fyrir því innanbrjósts, að einhverr, sem
hingað kæmi, mundi gabba mig með frásögum sínum; því
margur er maðurinn viðsjáll. Ekki mundi Helena hin Argverska,
dóttir Seifs, hafa bundið ástir og samlag við útlendan
mann, ef hún hefði vitað það fyrir, að hinir herkænu synir
Akkea mundu flytja hana heim aftur í föðurland hennar; einhverr
guð hefir orðið að æsa hana til þess að fremja þetta
óhæfuverk, og ekki hefir hún fyrir fram leitt í huga sér þau
hin hryggilegu afdrif illverka sinna, sem urðu hin fyrsta orsök
til vorra harma. En með því þú hefir nú lýst glöggum einkennum
á rúmi okkar, sem enginn maður hefir augum litið, utan
við ein, þú og eg, og herbergismeyjan Aktoris, er faðir minn
gaf mér, þá eg fór hingað, og sem gætti dyranna á okkar
traustsmíðaða svefnherbergi, með þessu móti þá hefir þú fært
mér heim allan sann, þó eg áður hafi verið mjög treg að trúa“.
231 Svo mælti hún, og vakti við þetta enn meiri sorgarlöngun
upp hjá honum; hann hélt um sína hugþekku, trygglunduðu
konu, og grét. En hún varð eins fegin manni sínum, eins og
skipbrotsmenn á sundi verða fegnir að sjá landið, þegar Posídon
hefir brotið þeirra ramgjörva skip á hafi úti, eftir að það
hefir hrakizt í stormi og stórsjó; að sönnu geta fáir af þeim
bjargað sér á sundi til lands, og eru þá allir storknir af sjávarseltunni,
en þessir fáu stíga fegnir fótum á land, þegar þeir eru
komnir úr háskanum. Eins var henni það fagnaðarsýn að líta
á mann sinn, og sleppti ekki sínum hvítu örmum af hálsi honum.
Og þarna hefðu þau verið að gráta, þar til hin rósfingraða
Morgungyðja hefði í ljós komið, ef hin glóeyga gyðja Aþena
hefði ekki haft annað ráð með höndum: hún hélt hinni löngu
nótt á vesturloftinu, en dvaldi þar á móti Morgungyðjuna, Gullinstólu,
hjá Jarðarstraumnum, og leyfði henni ekki að beita
hinum fráu hestum fyrir vagn sinn, folunum Lampusi og Faetoni,
sem draga kerru Morgungyðjunnar og færa mönnum dagsljósið.
247 Þá mælti hinn margráðugi Odysseifur við konu sína:
„Ekki em eg enn til enda kominn allra þrauta minna, kona,
þar sem eg á enn fyrir höndum eina þraut ómælilega, er sú
þraut mikil og torveld, og verð eg þá þraut að vinna að fullu.
Þessu spáði mér vofa Tíresíasar, þann dag er eg steig niður í
Hadesarheim, til að leita fréttar um heimkomu félaga minna
og sjálfs mín. Kom nú kona, látum okkur ganga til rekkju,
svo við fáum að njóta hvíldar með værum svefni“.
256 Hin vitra Penelópa svaraði honum: „Rekkja skal að
vísu vera þér til reiðu, þegar er þér leikur í mun að hvílast,
fyrst guðirnir létu þér auðnast að koma til þíns velbyggða húss
og heim til föðurjarðar þinnar. En fyrst guð skaut því þér í
brjóst að minnast á þraut þessa, þá seg mér, hver hún er; eg
mun þó, vonar mig; seinna fá að vita, hver hún er, og er þá
eins gott að vita hana nú þegar“.
263 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði henni og sagði: „Hvað
hugsarðu, kona! Hví leggur þú svo fast að mér, að eg skuli
segja frá þessu? Eg skal þá segja þér það, og engu af leyna,
og mun þó hugur þinn lítt gleðjast, því eg gleðst ekki sjálfur
þar af. En það er að segja af þraut þessari, að hann bauð mér
að ferðast um mörg byggðarlög manna, skyldi eg hafa velteglda
ár í hendi mér, og fara þar til er eg kæmi til þeirra
manna, er eigi þekkja sjó og eigi eta mat salti blandinn, og
kenna eigi hlýrroðin skip eða tiltegldar árar, sem eru vængir
skipanna. Hann sagði mér eitt augljóst merki, sem eg nú skal
segja þér. Hann sagði, að þegar mér mætti einhverr ferðamaður,
sem segði mig reiða axaspilli (kornskóflu) um öxl mér, þá
skyldi eg stinga árinni í jörð niður, færa svo fríðar fórnir hinum
volduga Posídoni, hrút, griðung og graðan svíngölt, halda síðan
heim aftur, og efna heilög hundraðsblót öllum ódauðlegum
goðum, þeim er byggja víðan himin, hverju eftir tign
En ekki mun eg sjódauður verða, mun mér að hendi koma
einhverr hinn hægasti dauði, og vinna á mér í góðri elli og
ellimóðum, en landsfólkið í kringum mig mun lifa sælu lífi.
Allt þetta kvað hann mundu fram við mig koma“.
285 Hin vitra Penelópa svaraði honum: „Ef guðirnir láta
þér auðnast að ná góðri elli, þá máttu eiga von á því, að þú
komist einhverntíma úr raunum þínum“. Þannig töluðust þau
við um þetta.
289 Á meðan bjuggu þær Evrýnóma og fóstran upp rekkju
með mjúkum sængurklæðum, og brunnu hjá þeim logandi blys
á meðan. Þær flýttu sér að búa hina fögru rekkju, og að því
búnu gekk hin aldraða kona aftur til herbergis síns, og fór
að hátta. En herbergismærin Evrýnóma fylgdi hjónunum til
sængur, og hélt á blysi í höndum sér; en er hún hafði fylgt
þeim inn í svefnherbergið, gekk hún fram aftur; en þau gengu
fagnandi þangað, sem hin forna rekkja þeirra stóð.
297 Þeir Telemakkus og nautahirðirinn og svínahirðirinn
létu nú af dansleiknum, og sögðu konunum einnig að hætta,
gengu síðan til rekkna sinna í hinum skuggafullu herbergjum.
300 En er hjónin höfðu fagnað hvort öðru með ástaratlotum,
skemmtu þau sér með viðræðum, og sögðu hvort öðru sögur.
Hin ágæta kona sagði frá þeim raunum, sem hún hafði haft í
höllinni af því, að horfa uppá hinn skaðvæna biðlasæg, sem
fyrir hennar skuld slátruðu miklum fénaði, nautum og feitu
sauðfé; hún gat og um, að miklu víni hafði ausið verið af
tunnunum. En hinn seifborni Odysseifur sagði frá öllum þeim
raunum, sem hann hafði verið öðrum mönnum valdur að, svo
og þeim, er hann sjálfur hafði í komizt og orðið að þola; þókti
henni gaman að hlýða á, og ekki kom svefn á augu hennar,
fyrr en hann hafði sagt alla söguna. Tók hann þar til, er hann
vann fyrst sigur yfir Kíkónum, og kom þar eftir til hins frjóvsama
Lótófagalands. Hann sagði frá því, er Kýklópurinn gerði,
og hversu hann sjálfur hefndi sinna hraustu félaga, er risinn
hafði etið án allrar vægðar. Þá sagði hann frá, hversu hann kom
til Eólusar, sem tók vel við honum og greiddi för hans; en
honum átti enn ekki að auðnast að komast heim í sitt kæra
föðurland, því stormbylur hreif hann aftur og rak hann út á
hið fiskisæla haf við þungar mannraunir. Þá sagði hann frá,
hversu hann kom til Telepýlusborgar í Lestrýgónalandi, og
hversu þeir brutu skip hans og drápu hina brynhosuðu félaga
hans. Hann sagði og frá vélræðum Kirku og fjölkynngi, og
hversu hann fór á margþóftuðu skipi niður í hinn dimma
Hadesarheim, til að leita frétta hjá vofu Tíresíasar hins Þebverska,
sá hann þar alla félaga sína, og móður sína, sem hafði
alið hann og upp fætt í barnæsku. Enn sagði hann frá því, er
hann heyrði söng hinna snjallrómuðu Sírena, og hversu hann
kom til Villihamra, og hinnar ógurlegu Karybdís og Skyllu,
sem öngvir menn höfðu nokkuru sinni hjá sloppið heilu og
höldnu. Þá sagði hann frá, hversu félagar hans drápu naut
Helíusar, og hversu hinn háþrumandi Seifur laust hans örskreiða
skip með rjúkanda reiðarslagi; létust þá hinir vösku
félagar hans allir í einu, en sjálfur komst hann undan hinum
skæðu Banagyðjum. Hann sagði og frá, hversu hann kom til
eyjarinnar Ógýgju og landvættarinnar Kalypsóar; hún hélt
honum hjá sér í hellisfylgsnum sínum, og vildi, að hann yrði
maðurinn sinn, hélt hún hann á sínum kosti, og hét að gera
hann ódauðlegan og ellivana alla daga, og þó gat hún aldrei
að heldur talið honum það í hug. Þá sagði hann frá, hversu hann
kom til Feaka, eftir afstaðnar margar þrautir; höfðu þeir hann
í miklum kærleikum og virðingu, eins og hefði hann verið
einhverr goðanna, gáfu honum gnótt eirs og gulls og klæða,
og fluttu hann á skipi heim í föðurland hans. Þetta orð mælti
hann síðast, þegar sætur svefn rann í brjóst honum, sá er gerði
limu hans lémagna og eyddi sorgum hugarins.
344 Hin glóeyga gyðja Aþena hefði nú annað ráð með
höndum: þegar hún hugsaði, að Odysseifur hefði notið fulls
svefns og hvíldar hjá konu sinni, þá sendi hún þegar hina árbornu
Gullinstólu upp af Jarðarstraumnum, til þess að færa
mönnum dagsbirtuna. Reis Odysseifur þá upp úr hinni mjúku
rekkju sinni, og tók svo til orða við konu sína: „Hingað til hefir
hvorttveggja okkar, kona, margvíslegum raunum sætt, svo við
erum fullsödd af: þú af því, að þreyja grátandi heimkomu mína,
sem þér hefir aflað margs hugarangurs; en mér hefir Seifur
og hinir aðrir guðir með ýmsu andstreymi hamlað frá því að
komast heim til föðurjarðar minnar, og hefi eg þó verið þangað
allfús. En nú með því við erum bæði komin í þá rekkju, er við
höfum mjög þreyð eftir, þá skaltu gæta þeirra fjármuna, sem
eg á hér innanhallar; en um fénað þann, er hinir yfirgangssömu
biðlar hafa eytt fyrir mér, þá mun eg sjálfur ræna mörgu
fé í skarðið, og Akkear gefa mér það, sem á vantar, unz öll
fjárhús mín eru full orðin. Nú vil eg fara út á hinn trjávaxna
akur, til að sjá minn góða föður, sem ber þunga hjartasorg
mín vegna. En eitt ráð vil eg gefa þér, þó þú sért vitur kona:
þegar er sól er runnin á loft, mun sú fregn berast, að eg hafi
unnið á biðlunum í höllinni; þú skalt því ganga upp á loft
með þjónustumeyjum þínum, og sitja þar, og líta ekki upp á
neinn eða aðspyrja nokkurn mann“.
366 Að því mæltu fór hann í hinn fagra herbúnað; hann
hét á Telemakkus og nautahirðirinn og svínahirðirinn, og bað
þá alla vopnast; gerðu þeir, sem hann bauð, og herklæddust.
Þeir luku upp dyrunum og gengu út, fór Odysseifur fyrir; þá
var ljóst orðið. Aþena brá yfir þá myrkva, og leiddi þá skjótlega
út af borginni.
[1372.png]
[1374.png: Hermes sendiguð.]
[1375.png]
TUTTUGASTI OG FJÓRÐI ÞÁTTUR.
FRIÐUR.
HINN kyllenski Hermes kallaði nú til sín vofur biðlanna,
hann hélt á fögrum sprota úr gulli; með þeim sprota
stingur hann mönnum svefnþorn, þeim er hann vill,
og með hinum sama vekur hann þá er sofa. Með þessum
sprota stökkti hann vofunum á fætur og laðaði þær til sín, svo
þær fóru á eftir honum gnauðandi, eins og leðurblökur, sem
fljúga ymjandi, hver aftan í annarri, inn í afkima afarvíðs hellirs,
þegar einhver þeirra hefir losnað úr röðinni og hrapað ofan
fyrir bergið: eins fylgdust allar vofurnar að, ymjandi, en hinn
góði Hermes gekk á undan þeim, ofan dimma vegu. Þær gengu
fram með Jarðarstrauminum og Levkashamri, og fram hjá
Helíusshliðum og Draumalandinu, og komu brátt á Gullrótarengið,
þar er vofurnar búa, sem eru svipir dauðra manna.
15 Þær fundu þar vofu Akkilless Peleifssonar og Patróklusar,
hins ágæta Antílokks, og Ajants, sem var hinn fríðasti maður
sýnum og gjörvuglegastur allra Danáa, næst enum ágæta
Peleifsssyni; voru þessir kappar vanir að safnast í kring um
Akkilles. Þá bar þar að vofu Agamemnons Atreifssonar, hún
var sorgbitin, og flykktust í kringum hana vofur allra þeirra
manna, er fallið höfðu með honum og beðið bana í húsi
Egistusar. Vofa Peleifssonar talaði þá að fyrra bragði við
Agamemnon: „Vér hugsuðum, Atreifsson, að hinn þrumuglaði
Seifur mundi hafa þig kæran um fram aðra ágætismenn, alla
þína daga, sökum þess þú réðir fyrir mörgum afreksmönnum
í Trójulandi, þar sem vér Akkear áttum við mannraunir að
etja. En þó átti það einnig fyrir þér að liggja, að hin skaðvæna
örlaganorn, er engi sá fær umflúið, er fæðzt hefir, skyldi þér
svo brátt að hendi bera. Betur hefði farið, ef þú hefðir fallið
og bana beðið í landi Trójumanna við slíkan heiður, eins og
þú hafðir, þá þú hefðir herstjórnina á hendi; því þá hefði alþjóð
Akkea orpið haug eftir þig, og þú hefðir þá aflað syni þínum
mikillar frægðar eftir þinn dag. En nú varð það hlutfall þitt,
að þú skyldir deyja hinum aumkvunarlegasta dauðdaga“.
35 Vofa Atreifssonar svaraði honum: „Sæll ertu þess, Peleifsson,
goðumlíki Akkilles, að þú féllst við Trójuborg, langt í
burtu frá Argverjalandi; því hinir hraustustu synir Trójumanna
og Akkea féllu í kring um þig, er þeir börðust til að ná líki
þínu, en á meðan lást þú, hinn stórvaxni maður, á stóru rúmsvæði
í rykmokknum, og sinntir þá ekki riddaraskapnum. En
vér börðumst allan liðlangan daginn, og hefðum ekki hætt bardaganum,
ef Seifur hefði ekki látið á koma það óveður, að allir
urðu frá að hverfa. Eftir það fluttum vér þig af vígvellinum, og
til skipa, þógum líkið í volgu vatni og smurðum með smyrslum,
og lögðum það á legubekk; úthelltu Danáar þar mörgum
heitum tárum í kring um þig, og rökuðu hár sitt. En er móðir
þín spurði þessi tíðindi, kom hún upp úr sænum, ásamt með
hinum ódauðlegu sjávargyðjum, urðu þá svo mikil harmalæti
á öllu hafinu, að furðu gegndi, setti þá svo mikinn geig
að öllum Akkeum, að þeir hefðu sprottið upp og gengið á
skip, ef einn maður hefði ekki aftrað þeim; það var Nestor,
sem fróður var í mörgum fornum dæmum, og þókt hefði að
undanförnu einhverr hinn tillagabezti. Hann var þeim velviljaður
í huga, talaði til þeirra og mælti: „Stöðvið yður, Argverjar,
flýið eigi, sveinar Akkea! Móðir hans kemur hér upp
af sænum, ásamt með hinum ódauðlegu sjávargyðjum, og vill
finna son sinn, sem dáinn er“. Svo mælti hann, og stöðvuðu
hinir hugmiklu Akkear þá flóttann. En dætur hins gamla sjávaröldungs
stóðu umhverfis í kring um þig, sárlega grátandi, og
færðu þig í himnesk klæði. Allar níu Sönggyðjurnar sungu á
víxl með fagri rödd, og hörmuðu mjög, sást þá enginn af Akkeum
ógrátandi, því hin rómsnjalla Sönggyðja hóf sig þá svo
hjartnæmilega. Vér grétum þig í seytján daga og nætur samfleytt,
jafnt ódauðlegir guðir sem dauðlegir menn; en á átjánda
degi brenndum vér líkið, og slátruðum mörgum feitum sauðum
og bjúghyrndum nautum umhverfis um bálið, og þar varstú
brenndur í klæðum goðanna, og í miklum smyrslum og sætu
hunangi; en margir ágætismenn Akkea runnu vopnaðir í
kring um bálið, þar er þú brannst, bæði fótgangandi menn og
ríðandi. En er eldsloginn hafði upp unnið líkið, þá söfnuðum
vér árla morguns hinum hvítu beinum þínum, Akkilles, og
höfðum þar við óblandað vín og smyrsl. Móðir þín fékk oss
byðnu af gulli, kvað hún Díonýsus hafa gefið sér byðnuna,
en hinn víðfræga Hefestus búið hana til; í þeirri byðnu liggja
hin hvítu bein þín, frægi Akkilles, og þar saman við bein
hins fallna Patrókluss Menetussonar, en sér í lagi eru bein
Antílokkuss, þess er þú virtir um fram aðra félaga þína, eftir
það að Patróklus var fallinn. Fórum vér þá, hinir fríðu liðsmenn
hinna herkænu Argverja, og urpum mikinn haug og
veglegan að þessum mönnum á skaganum við hið breiða Hellusund,
til þess að þeir menn, sem nú eru uppi, svo og seinni
tíða menn, mætti sjá hauginn langt utan af hafi. Því næst kom
móðir þín með fagrar sigurgjafir, er hún hafði fengið hjá guðunum,
og lagði þær fram á samkomu Akkea, handa þeim er
hraustastir voru. Þú hefir að vísu verið við staddur greftrun
margra ágætismanna, svo sem þegar einhverr konungur hefir
látizt, og ungir menn hafa búizt til leiks, til að vinna þau
sigurlaun, er við lágu; en þá mundi þig hafa allan furðað, ef
þú hefðir séð jafnfagrar sigurgjafir, og þær voru, sem hin silfurfætta
Þetis lagði fram við útför þína; því guðirnir höfðu þig
í stórmiklum kærleikum. Þannig hefir ekki nafn þitt undir
lok liðið við fráfall þitt, heldur mun góður orðstír þinn ávallt
lifa eftir þig, Akkilles, hjá öllum mönnum. En hvern árangur
hefi eg af því, að eg hefi barizt til þrautar, þar til ófriðurinn
var á enda kljáður? því, þegar eg kom heim, varð mér að ráðstöfun
Seifs hryggilegur bani búinn af Egistusi og hinni ógiftusamlegu
konu minni“. — Þannig töluðust þeir við um þetta.
99 Í þessu kom sendiguðinn Argusbani til þeirra, hann hafði
meðferðis vofur biðlanna, þeirra er fallið höfðu fyrir Odysseifi.
Þeir Akkilles urðu báðir forviða, er þeir litu þær, og gengu
móti þeim; þar þekkti vofa Agamemnons Atreifssonar hinn
fræga Amfímedon Melaneifsson, því hann var gestfélagi hans
og átti heima í Íþöku. Vofa Atreifssonar talaði þá til hans að
fyrra bragði: „Hvað kemur til þess, Amfímedon, að þér eruð
gengnir niður í hina dökkvu jörð, allir útvaldir menn og jafnaldrar?
Yrði ekki auðveldlega kosið á jafnhrausta menn í
nokkurri borg, þó um væri að velja. Æsti Posídon að yður
skaðræðisvinda og stórar öldur á sjóvegsferð, og fyrirkom yður
svo? Eða drápu óvinir yður einhverstaðar á landi, þegar þér
rænduð nautum og fríðum sauðahjörðum, eða þá þeir börðust
til að verja borg sína og konur? Seg mér það, er eg spyr, því
eg er gestfélagi þinn. Manstu ekki, þegar eg kom þangað í hús
yðvart, til að eggja Odysseif að fara í leiðangurinn til Ilíonsborgar
með hinum goðumlíka Menelási á hinum þófrusterku
skipum? Og þegar vér með áheitum höfðum fengið Odyseif
borgabrjót til fararinnar, vorum vér í heilan mánuð að sigla yfir
hið breiða haf“.
120 Vofa Amfímedons svaraði honum: „Allt man eg það,
er þú segir, seifborni konungur, og skal eg segja þér satt og
rétt frá öllu, hversu afstóðst um þau illu afdrif, að vér skyldum
bana hljóta. Vér báðum konu Odysseifs, þess er þá hafði
lengi á burtu verið; en hún gerði hvorki að synja ráðahagsins,
þó henni væri hann mjög svo móti skapi, né heldur fékk það af
sér að ganga að honum, því hún ætlaði oss bana og dimma
feigð; heldur hugsaði hún meðal annars upp þessa vél: hún
setti upp mikinn vef, og óf smágjörva og ummálsmikla voð í
herbergi sínu, sagði síðan til vor: „Þér ungu menn, sem nú
biðjið mín þar eð Odysseifur er dáinn, bíðið, þó yður sé annt
um að ná ráðahag við mig, unz eg hefi lokið við dúkinn, því
mér er ekki um, að vefturinn verði mér ónýtur; það á að verða
náklæði handa öðlingnum Laertes, þegar hin skaðvæna Banagyðja,
sem ræður fyrir dauðanum, er manninn leggur flatan,
hefir yfirbugað hann: því vera kann, að konur Akkea hér í
landi lái mér, ef hann liggur umbúðalaus, svo auðugur maður“.
Svo mælti hún, en vér féllumst á þetta; óf hún svo hinn
mikla vef á daginn, en rakti upp aftur á næturnar við blys.
Þannig fékk hún leynt þessu í þrjú ár, svo Akkea grunaði ekki.
En er hið fjórða ár gekk í garð, og ný misseri komu að hendi,
þá sagði ein af þernum hennar frá, sú er vissi, hvernig á öllu
stóð; komum vér þá að henni, þar sem hún var að rekja
upp aftur hinn glæsilega vef. Þannig neyddist hún til að ljúka
við vefnaðinn, þó henni væri það móti skapi. Nú sem hún
hafði ofið þenna hinn mikla dúk og þvegið hann, og lagt fram
voðina til sýnis, þá var hún svo fögur, sem sól væri eða tungl.
En rétt í þeim svifum leiddi einhver ill vættur Odysseif heim,
hvaðan sem hann hefir svo að komið; kom hann í land við
útskaga nokkurn á landsbyggðinni, þar sem svínahirðirinn átti
heima. Þangað kom og hinn ástkæri sonur hins goðumlíka
Odysseifs sjóleiðis frá hinni sendnu Pýlusborg. Þeir tóku nú
saman ráð sín að fyrirkoma biðlunum, og fóru til borgarinnar,
fór Telemakkus fyrri, en Odysseifur síðar, og leiddi svínahirðirinn
hann, var hann í vondum flíkum, og líkur aumlegum
förukarli og gömlum manni; gat enginn af oss þekkt, að það
væri hann, er svo bar óvörum að, og ekki þekktu hann heldur
þeir, sem eldri voru. Vér tókum nú til að misbjóða honum
með illyrðum og barsmíðum, og bar hann fyrst lengi þolinmóðlega,
þó hann væri barinn og svívirtur í herbergjum sínum.
En er hugur Seifs Ægisskjalda tók til að hreyfa sér í honum,
þá fór hann til með Telemakkusi, og tók hin fögru vopn,
kom þeim upp í geymslusalinn, og skaut fyrir lokunum. Því
næst gerði hann það af slægvizku sinni, að hann bað konu
sína að leggja þá þraut fyrir oss ólánsömu menn, að draga
boga hans og skjóta í gegnum axaraugun, átti það að vera
upphaf að vígunum; en enginn af oss gat upp dregið streng
hins sterka boga, og var mikils á vant, að vér fengjum það
leikið. En er hinn mikli bogi kom til Odysseifs, þá kölluðum
vér allir upp í einu hljóði, og bönnuðum að fá honum bogann,
hvað mikið sem hann mælti um. En þá skarst Telemakkus
í einn saman, og bauð, að honum skyldi fá bogann. Tók hinn
þolgóði, ágæti Odysseifur þá bogann í hönd sér, og dró þrautarlaust,
og skaut í gegnum axaraugun, steig síðan upp á þröskuldinn
og lét drífa frá sér örvarnar, var hann þá voðalegur, þegar
hann gaut í kring um sig augunum. Hann skaut Antínóus
konung, og hleypti því næst hinum skaðvænu skeytum á hina
biðlana, gerði hann hæfing beint fram undan sér, en þeir
féllu hverr um annan þveran. Var það auðséð, að einhverr
guðanna var þeim Odysseifi liðsinnandi, því þeir hjuggu þegar
á báða bóga, eins og þeim bauð við að horfa, en hinir hljóðuðu
afskaplega, þegar þeir fengu höfuðhöggin, og allt gólfið
flaut í blóði. Á þenna hátt biðum vér bana, Agamemnon, og
liggja líkamir vorir enn óhirtir í höll Odysseifs, því vinir
vorir, sem heima eru, vita enn ekkert af þessu, svo þeir geta
ekki þvegið dauðablóðið af sárum vorum, ekki lagt oss til og
harmað yfir oss, sem þeir annars mundu gjört hafa: því það
er sá heiður sem veitist dauðum mönnum“.
191 Vofa Atreifssonar svaraði honum aftur: „Sæll ertú,
Laertesson, margráðugi Odysseifur, er þú eignaðist þá konu,
er svo var mjög að kostum búin. Hversu prúðlynd var hin
góða Penelópa Íkaríusdóttir! Hversu trúlega mundi hún eftir
Odysseifi, eiginmanni sínum! Þess vegna mun mannkosta minning
hennar aldrei deyja, og hinir ódauðlegu guðir munu veita
hinni vitru Penelópu æskilegan orðstír hjá jarðneskum mönnum.
Ekki fórst henni, eins og Tyndarsdóttur, sú er framdi það
ódáðaverk, að hún drap eiginmann sinn, og mun því verða
hryllilegt yrkisefni meðal eftirkomandi manna, hefir hún og
komið óorði á aðrar konur, enda þó góðar konur kunni að
vera“. — Þannig ræddust þeir við um þetta, þar sem þeir
stóðu í Hadesarheimi, í leynifylgsnum jarðarinnar.
205 Þeir Odysseifur gengu nú ofan úr borginni, og komu
skjótt á akurlendi Laertesar, það var vel ræktað, og hafði
Laertes keypt landið sjálfur fyrrum, því hann var hinn mesti
starfsmaður; þar átti hann bæjarhús, og lágu húsakot allt umhverfis
um bæinn. Hinir ánauðugu þrælar hans, sem unnu þau
verk, er hann vildi gera láta, mötuðust, sátu og sváfu í þessum
kotum; þar bjó og kona nokkur gömul frá Sikiley, hún þjónaði
hinum aldraða manni með mikilli virkt þar úti á landsbyggðinni,
þá hann var ekki í borginni.
213 Þegar Odysseifur var þar kominn, talaði hann til þrælanna
og sonar síns: „Gangið nú inn í hinn velhúsaða bæ, og
takið af svínunum, það sem feitast er, og slátrið til borðhalds.
En eg mun fara til föður míns, og freista, hvort hann þekkir
mig, þá hann sér mig, eða hann rankar ekki við mér, af því eg
hefi svo langan tíma á burtu verið“.
219 Að því mæltu fékk hann þeim herbúnað sinn, gengu
þeir þá skjótlega heim á bæinn, en Odysseifur gekk út á hið
frjóvsama akurland, til að freista föður síns. Hann gekk ofan
í hinn mikla garð, en fann þar ekki Dólíus og engan af
þrælunum, og ekki heldur sonu hans; því þeir voru farnir að
tína saman þyrna til akurgirðingar, en hinn gamli maður vísaði
þeim leið. Odysseifur fann föður sinn einmana í hinum
ræktaða aldingarði, var hann þar að grafa í kring um eitthvert
tré; hann var í óhreinum kyrtli, bættum og ljótum, hafði leðurhosur
á fótum, saumaðar af nautsleðri, til þess hann hruflaði
sig ekki á fótunum; vetlinga á höndum, vegna þyrnanna, en
geitskinnshúfu á höfði; hann var mjög harmandi. En er hinn
þolgóði, ágæti Odysseifur sá hann, hruman af elli og harmþrunginn
í huga, þá nam hann staðar undir einu hávöxnu perutré,
og úthellti tárum. Þá lék honum tvennt í hug, hvort hann
skyldi heldur fara og kyssa og umfaðma föður sinn, eða skyldi
hann spyrja fyrst frétta og grennslast eftir sérhverju. En er
hann hugsaði þetta með sér, leizt honum bezt að freista hans
fyrst með skapraunarorðum. Með þessum huga gekk hinn ágæti
Odysseifur til móts við hann. Laertes laut þá niður og gróf
um tréð; þá gekk hans frægi sonur til hans og mælti: „Ekki
vantar þig kunnáttu, gamli maður, til að yrkja garðinn, og vel
stundar þú hann, er hér enginn sá hlutur, að umhirðingu vanti;
engar plantanir, ekkert fíkjutré, víntré, viðsmjörstré, perutré,
og engi reitur í garðinum er vanhirtur. En eitt vil eg segja þér,
sem þú mátt ekki reiðast af: þú ert illa stundaður sjálfur, þar
sem þú bæði ert örvasa af elli, og þar á ofan mjög óþokkalegur
og í ljótum flíkum. Ekki þarf þó hússbóndi þinn að vanhirða
þig þess vegna, að þú sért iðjulaus; sér það og ekki á vaxtarlagi
þínu og stærð, að þú sért þrælaættar, því þú ert líkur konungbornum
manni, þú ert líkur þeim manni, sem þveginn og mettur
ætti að fá mjúkt hvílurúm, því það er gömlum mönnum eiginlegt.
Gjör nú svo vel, seg mér og inn með sannindum, hverjum
manni ertu háður til þjónustu? Hverr á garð þann, er þú
yrkir? Seg mér og satt frá, að eg verða vísari, hvort það er
satt, að land þetta, sem eg er til kominn, sé Íþaka, eins og mér
sagði rétt nýlega maður nokkurr, er eg hitti, þá eg kom hingað;
var sá maður ekki mjög vitur, er hann gat ekki af sér fengið
að segja mér allt af létta, og hlýða á mál mitt, þegar eg hélt
spurnum fyrir um einn gestfélaga minn, hvort hann mundi enn
lífs uppi vera, eða væri hann nú dáinn og kominn í Hadesarheim.
Því það skal eg segja þér fyrir satt, taktú nú eftir og
hlýð á orð mín: eg gisti eitt sinn mann nokkurn, er mig sótti
heim, þá eg var í föðurlandi mínu; hefir enginn gestur enn
komið í mitt hús frá útlöndum, að mér hafi kærari verið: hann
kvaðst vera ættaður frá Íþöku, og kvað föður sinn vera Laertes
Arkisíusson. Þenna mann leidda eg til herbergja minna, tók
honum vel, og veitti honum af allri virkt, því gnógt var til
innanhúss: gaf eg honum sæmilegar gestgjafir: eg gaf honum
sjö vættir af smíðuðu gulli: eg gaf honum skaftker af alsilfri,
flúrað, tólf einbrotnar yfirhafnir, eins marga dúka, eins margar
fallegar skikkjur, og að auk jafnmarga kyrtla: auk þess gaf
eg honum fjórar konur, fríðar sýnum og vel að sér í fallegum
hannyrðum, og mátti hann sjálfur velja sér þær eftir vild sinni“.
280 Faðir hans svaraði honum aftur tárfellandi: „Það er
satt, gestur, að þú ert kominn í land það, er þú spyr um; en
hér ráða nú fyrir ofríkismenn og ofstopar, og koma þær til
lítils hinar stórmiklu gjafir, er þú hefir látið af hendi rakna.
Ef þú hefðir hitt hann á lífi í Íþökulandi, þá hefði hann goldið
þér að fullu með gjöfum og góðum gestbeina, og látið þig svo
frá sér fara, því svo byrjar þeim að gera, sem fyrst bindur vináttu
við annan. En seg mér nú og inn með sannindum: hversu
mörg ár eru nú síðan, að þú gistir hann, þenna ógæfusama gestfélaga
þinn, minn vesæla son? — ávallt er mér eftirsjón að honum!
— Nú munu annaðhvort fiskar vera búnir að eta hann
upp einhverstaðar í hafi úti, fjarri vinum hans og föðurlandi,
eða hann er orðinn dýrum og fuglum að bráð á landi. Ekki
höfum við foreldrar hans, sem ólum hann, náð að hjúpa hann
og gráta yfir honum; ekki hefir hans gjafsæla kona, hin vitra
Penelópa, náð að veita honum nábjargir, og harma mann sinn
á börunum, eins og vera bar, því það er sá heiður, sem veitist
dauðum mönnum. Seg mér og satt frá, að eg verða vísari: hverr
ertu, og hverra manna? hvar áttu heima og foreldrar þínir?
hvar stendur hið örskreiða skip, er flutti þig hingað og hina
ágætu félaga þína? eða komstu hingað sem farþegi á skipi
annarra manna, sem settu þig hér á land, og fóru svo burt aftur?“
302 Hinn þolgóði Odysseifur svaraði honum: „Eg skal segja
þér alla sögu, eins og hún er; eg er frá Alýbantsborg, og bý
þar í ágætri höll, og em sonur Afídants konungs Polýpemonssonar,
en nafn mitt er Eperítus. Einhver vættur lét mig hrekjast
afleiðis frá Síkanalandi, svo eg kom hingað nauðugur, og
stendur skip mitt uppi hér úti á landsbyggðinni, langt frá borginni.
En þetta er nú fimmta ár, síðan hinn ógæfusami Odysseifur
fór burt þaðan frá föðurlandi mínu. Víst var það þó, að þegar
hann fór frá mér, þá komu honum heillavænlegir spáfuglar,
sem flugu til hægri handar honum; varð eg glaður við það, og
lét hann fara af stað, gladdist hann þá og sjálfur, og fór, vonuðum
við báðir, að fundum okkar mundi bera saman á síðan,
og mundum við þá skiptast gestgjöfum við“.
315 Svo mælti hann, en þá sveif yfir Laertes dimmt harmaský:
hann tók svarta moldina báðum höndum og jós yfir hærur
sér, og andvarpaði ótt. Þá gekkst Odysseifi hugur við; hann dró
súg í nösum, af því honum var sárt í brjósti, þá hann leit upp
á föður sinn; hljóp hann þá fram að honum, umfaðmaði hann
og kyssti, og tók svo til orða: „Eg er sá hinn sami, faðir minn,
sem þú spyr eftir, og em nú heim kominn í föðurland mitt á
tuttugasta ári. Lát nú af grátnum og hinum táruga trega. Eg skal
segja þér nokkuð í fréttum, en verð að fara sem skjótast yfir:
eg hefi drepið biðlana í höll minni, og hefnt hinnar sáru svívirðingar
og hinna illu verka“.
327 Laertes svaraði honum og sagði: „Ef það er satt, að þú
sért Odysseifur og sonur minn, sem hingað sért kominn, þá
seg mér nú einhverja glöggva jarteikn, að eg megi trúa“.
330 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði:
„Gættu fyrst að þessu öri, sem eg ber eftir sár það, er göltur
nokkur veitti mér með hvítri tönn sinni, þá eg fór upp á
Parnasusfjall. Þú og mín heiðvirða móðir senduð mig á fund
Átolýkusar móðurföður míns, til að taka við gjöfum þeim, er
hann hafði lofað, og heitið að gefa mér, þá hann kom hingað.
Heyr nú til, eg skal telja upp fyrir þér tré þau, er þú gafst mér
eitt sinn á hinum frjóvsama akri; eg var þá barn og fylgdist með
þér í garðinum, og bað þig um eitt og eitt tré; við vorum
á gangi innan um trén, og nefndir þú og til tókst hvert tré
fyrir sig. Þú gafst mér þrettán perutré, tíu apaldra, og fjórtán
fíkjutré; þú tilnefndir og fimmtíu víngarða, sem þú hézt að
gefa mér, og voru allir misfrjóvir, spretta þar alls konar vínber,
þegar árstíðir Seifs leggjast á með gróandann ofan að“.
345 Þannig mælti hann, en kné Laertesar urðu magnþrota
og hjartað vanmegna, þegar hann kannaðist við þær jarteiknir,
er Odysseifur lýsti svo glögglega; hann lagði báðar hendur
um sinn kæra son, og leið í ómegin, en hinn þolgóði, ágæti
Odysseifur hélt honum í fangi sér. En er hann raknaði við
og kom aftur til sjálfs síns, þá tók hann aftur til orða og mælti:
„Faðir Seifur, sannlega eru guðirnir enn á hinum háva Ólympi,
fyrst það er satt, að biðlarnir hafa tekið gjöld fyrir hinn ofstopafulla
yfirgang. En nú ber eg stóran kvíðboga fyrir því,
að allir Íþökumenn komi bráðum hingað, og geri orðsendingar
hvervetna frá sér í borgir Kefallenumanna“.
356 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði: „Vertú
ókvíðinn, lát þér eigi þetta að áhyggju verða. Göngum heldur
heim á bæinn, sem hér er nálægt garðinum. Eg sendi Telemakkus
þangað og nautahirðirinn og svínahirðirinn á undan
mér, til þess að búa sem skjótast til dagverðar“.
361 Að því mæltu gengu þeir báðir til hinna fagursettu húsakynna.
En er þeir komu heim á bæinn, fundu þeir Telemakkus
og nautahirðirinn og svínahirðirinn, voru þeir að brytja nóg af
kjöti og blanda hið skæra vín.
365 Þjónustumærin hin Sikleyska laugaði nú hinn hugstóra
Laertes í herbergi sínu, og smurði hann með viðsmjöri, lagði
síðan yfir hann fagra yfirhöfn; þá gekk Aþena til hans og
styrkti limu þjóðhöfðingjans, og gerði hann meira vexti, en
áður, og þreknara á velli að sjá. Síðan steig hann upp úr lauginni,
en hans ástkæri sonur undraðist, er hann sá, að hann var
orðinn líkur í sjón hinum ódauðlegu guðum. Hann talaði þá
til hans skjótum orðum, og sagði: „Sannlega hefir einhverr
hinna eilífu guða gert þig, faðir, fríðara sýnum og stærra á
velli að sjá“.
375 Hinn vitri Laertes svaraði honum: „Faðir Seifur og
Aþena og Apollon, eg vildi óska, að eg hefði verið í gær, eins
og eg var, þá eg var fyrirliði Kefallenumanna, og tók hina
ramgjörvu Neríkonsborg, á ströndinni á meginlandinu; ef eg
hefði þá verið eins, og staðið í herbúnaði til annarrar handar
þér í höllinni, og barizt við biðlana, þá skylda eg hafa látið
marga af þeim til jarðar hníga í herbergjunum, og þá skyldi þér
hafa orðið glatt innanbrjósts“. — Þannig ræddust þeir við
sín í milli.
384 En er þeir Telemakkus höfðu lokið sýslu sinni og búið
til matar, þá settust þeir hverr að öðrum á legubekkina og
hástólana, tóku síðan til dagverðar. Þá kom það hinn aldraði
maður, Dólíus, og með honum synir hans, þeir voru þreyttir
af erfiði. Móðir þeirra, hin gamla Sikleyska kona, hafði gengið
fram og kallað á þá; hún ól þá upp, og stundaði hinn gamla
mann með mikilli virkt, eftir það að aldur færðist yfir hann.
Nú sem þeir litu Odysseif og báru kennsl á hann, numu þeir
staðar í herberginu og undruðust, en Odysseifur talaði til þeirra
blíðlega, og mælti: „Seztu að dag,verði, gamli maður! og látið
með öllu af að undrast. Vér höfum lengi dvalið hér í herberginu,
og ekki tekið til matar, þó oss hafi langað til, því vér
höfum alltaf beðið eftir ykkur“.
397 Svo mælti hann; þá gekk Dólíus til hans, og breiddi
út báðar hendurnar; hann tók í hönd Odysseifs, og kyssti á
úlnliðinn, talaði til hans skjótum orðum og sagði: „Mjög hefir
oss langað eftir heimkomu þinni, vinur, og kom oss það óvænt,
að þú skyldir nú vera kominn; en með því guðirnir sjálfir hafa
leitt þig í land aftur, þá kom þú heill og sæll, og veiti guðirnir
þér hamingju! Seg mér nú með sannindum, svo eg viti
með vissu, hvort hin vitra Penelópa veit sönnur á, að þú sért
hingað heim kominn, eða eigum vér að gera henni orðsendingu“.
406 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og sagði:
„Gamli maður, hún er búin að fá að vita það; þú þarft ekki
að sýsla um þetta“.
408 Svo mælti hann, en Dólíus settist á einn fagran stól. Á
líkan hátt þyrptust synir Dólíusar í kring um Odysseif, og
fögnuðu honum, báðu hann velkominn og tóku í hendur honum;
settust síðan hverr að öðrum hjá föður sínum Dólíusi.
Þannig sýsluðu þeir um dagverðinn í bæjarhúsunum.
413 Fréttagyðjan Ossa gekk nú í skyndi um alla borgina og
sagði frá hinum hræðilega dauða og fjörtjóni biðlanna. En er
þetta spurðist, söfnuðust menn úr öllum áttum fyrir framan
hallardyr Odysseifs, og voru með stunum og andvörpum; þeir
báru líkin út úr höllinni, og jarðaði hverr sinn vandamann.
En þá, sem heima áttu í öðrum borgum, lögðu þeir á örskreið
skip, og sendu fiskimenn með þá, hvern heim til sín. Eftir
það gengu menn á samkomu allir saman, og voru mjög sorgbitnir.
En er menn höfðu safnazt saman og voru komnir á
einn stað, þá stóð Evpíþes upp, og talaði til þeirra; því hann
bar ógleymanlega sorg í hjarta sínu út af falli Antínóusar, sonar
síns, er hinn ágæti Odysseifur hafði drepið fyrstan. Hann var
grátandi út af syni sínum, tók til orða á samkomunni og mælti:
„Góðir vinir, mikið stórræði hefir þessi maður með höndum
haft við Akkea. Hann flutti fyrst marga hrausta menn héðan
á skipum, týndi síðan skipunum, en missti mennina; síðan,
eftir það að hann kom í land, drap hann þá, sem göfgastir voru
af Kefallenumönnum. Heyrið nú, förum af stað, áður en hann
bregður við og fer annaðhvort til Pýlusborgar, eða til hins
helga Elealands, þar sem Epear hafa yfirráð. Annars munum
vér aldrei um frjálst höfuð strúka héðan af, og er það mikil
skömm, ef eftirkomandi menn spyrja slíkt. Ef vér ekki hefnum
sona vorra og bræðra á banamönnum þeirra, þá þykir mér
ekki betra líf, en hel, og heldur vilda eg vera dauður samstundis
og vera í samfélagi dauðra manna. Förum nú af stað, svo þeir
verði ekki fyrri yfirum, en vér“.
438 Þannig mælti hann grátandi, og kenndu allir Akkear í
brjósti um hann. Í þessu bar Medon og hinn andríka söngmann
þar að, þeir komu úr höll Odysseifs, og voru þá nývaknaðir.
Þeir gengu fram á samkomuna, og varð hverjum manni bilt
við. Hinn vitri Medon tók þá svo til máls: „Hlýðið nú á orð
mín, Íþökumenn. Ekki hefir Odysseifur framið þessi verk án
ráðstöfunar hinna ódauðlegu guða. Eg sá sjálfur einhvern
himneskan guð, sem stóð Odysseifi til annarrar handar, og var
öldungis eins í hátt og Mentor. Ýmist sýndist einhverr ódauðlegur
guð standa frammi fyrir Odysseifi og vera að hughreysta
hann, ýmist sló hann felmtri á biðlana, og æddi um höllina;
féllu þeir þá hverr um þveran annan“.
450 Svo mælti hann, en bleikur óttinn greip þá alla. Því
næst tók til orða öðlingurinn Halíþerses Mastorsson, hann var
sá einn manna, er bæði var framsýnn og forspár; hann var
þeim velviljaður, tók til orða á samkomunni, og mælti: „Heyrið
nú mál mitt, Íþökumenn, það er eg vil mæla. Yðar ómennsku
er það að kenna, vinir, að þessi verk eru framan. Þér vilduð
ekki gegna mér, og ekki þjóðhöfðingjanum Mentori, til þess
að stilla sonu yðra, að þeir færi ekki fram slíkri fíflsku. Höfðu
þeir því fram stórræði mikið með illri frekju, er þeir eyddu
eigum, og smánuðu eiginkonu hins hraustasta manns, og hugsuðu,
að hann mundi aldrei framar heim koma. Nú er það mín
tillaga, að þér hlýðið mér, og gerið, eins og eg gef ráð til,
sem er það, að vér förum hvergi, svo engi rati í ógæfu af
sjálfskaparvítum“.
463 Svo mælti hann, en þeir spruttu upp með miklu háreysti,
var það meir en helmingur þingheimsins, en aðrir biðu þar
eftir, sér í flokki. Því hinum líkuðu ekki þessar tillögur, heldur
létu að orðum Evpíþesar, og þustu þegar til vopna. En er þeir
höfðu herklætt sig skínanda málmi, kom allur flokkurinn saman
fyrir utan hina landvíðu borg, var Evpíþes fyrir liðinu;
sá það á, að hann var ekki vitur maður, er hann ætlaði, að
hann mundi fá hefnt sonar síns, því honum átti ekki að verða
heimkomu aftur auðið, heldur lá fyrir honum að bíða bana í
þessari för.
472 Aþena tók nú til orða við Seif Kronusson: „Faðir vor,
Kronusson, æðstur konunga, seg mér, það sem mig forvitnar
að vita: hvað er það, sem þú hefir nú í hyggju? Ætlar þú að
láta enn meir verða af hinni illu styrjöld og hinum ógurlega
hergný, eða viltu leggja frið milli beggja flokkanna?“
477 Skýsafnarinn Seifur svaraði henni og sagði: „Hví spyr
þú mig að þessu, dóttir, og forvitnast um þetta? Hefir þú
ekki sjálf haft þá ætlan í huga, að Odysseifur skyldi hefna
sín á þeim, þá hann kæmi heim? Far þú fram því, sem þú
vilt; en segja mun eg þér, hversu þetta mál á að lúkast. Með
því hinn ágæti Odysseifur hefir hefnt sín á biðlunum, þá
skulu menn veita hvorir öðrum tryggðir, og skal hann vera
konungur ávallt; en vér munum koma því til vegar, að gleymast
mun sonadrápið og bræðradrápið, skulu menn verða eins
góðir vinir, og áður, en velsæld og fullkominn friður aftur á
koma“.
487 Með þessum orðum eggjaði hann Aþenu, sem þó var
áður alláköf. Hún brá nú skjótt við, og gekk ofan af Ólympstindum.
489 En er þeir Odysseifur höfðu satt sig á hinum ljúffenga
mat, þá tók hinn þolgóði, ágæti Odysseifur þannig til orða:
„Fari einhverr út, og gæti að, hvort þeir eru komnir nærri“.
492 Svo mælti hann, en einn af sonum Dólíusar gekk út,
eins og hann bauð, steig upp á þröskuldinn og stóð þar, sá
hann þá, að allur flokkurinn var kominn nálægt; talaði hann
þá þegar skjótum orðum til Odysseifs: „Þeir eru nú komnir í
nánd, vér skulum því vopnast í skyndi“.
496 Svo mælti hann, en þeir spruttu upp, og fóru í vopnin,
þeir Odysseifur fjórir, og sex synir Dólíusar. Þeir Laertes og
Dólíus fóru og í vopn sín, þó þeir væru gráir fyrir hærum;
gengu þeir því að eins til bardaga, að nú var nauðugur einn
kostur. En er þeir höfðu herklætt sig skínanda málmi, þá luku
þeir upp dyrunum og gengu út, og fór Odysseifur fyrir þeim.
502 Aþena, dóttir Seifs, gekk þá til þeirra, og var þá lík
Mentori í vexti og málrómi. En er hinn þolgóði, ágæti Odysseifur
leit hana, varð hann glaður, og mælti þegar til Telemakkusar,
sonar síns: „Þegar þú gengur nú fram í fólkorustu, Telemakkus,
þar sem hraustustu menn skiptast vopnum við, þá muntu sjálfur
hafa vit á að gera ekki skömm til ætt vorri, forfeðra þinna, er
áður fyrr meir höfðum orð á oss um allan heim fyrir hreysti
og karlmennsku“.
510 Hinn greindi Telemakkus svaraði honum, og sagði: „Það
muntu sjá, faðir minn, ef þú vilt, að við áhuga þann, sem eg
hefi nú, mun eg enga skömm gera ætt þinni, eins og þú segir“.
513 Svo mælti hann, en Laertes varð glaður við, og mælti:
„Góðu guðir, hvílíkur dagur er þetta fyrir mig! Mig gleður
það stórum, að sonur minn og sonarsonur keppa um hreysti
sín í milli“.
516 Hin glóeyga Aþena gekk þá til hans, og sagði: „Þú
Arkisíusson, sem ert mér langkærastur allra félaga vorra, heit
á hina glóeygu mær og föður Seif, og reið svo hið langskefta
spjót og skjót því fljótlega“.
520 Svo mælti Pallas Aþena, og blés miklum hug í brjóst
honum. Hann hét þá á dóttur hins mikla Seifs, reiddi hið
langskefta spjót mjög snarlega aftur á bak, og skaut, kom skotið
í Evpíþes, og gegnum hjálminn, á honum voru kinnbjargir af
eiri, og stóðst hjálmurinn þó ekki skotið, og gekk spjótið í
gegn, en maðurinn féll mikið fall, og hringlaði í vopnunum
ofan á honum. Þá gerðu þeir áhlaup fremstir í flokki, Odysseifur
og hans frægi sonur, og hjuggu með sverðum og tvíeggjuðum
spjótum. Og nú hefðu þeir lagt alla óvinina að velli, og svipt
þá heimkomu sinni, ef Aþena, dóttir Seifs Ægisskjalda, hefði
ekki kallað hárri röddu, og stöðvað allan lýðinn: „Hættið hinum
mannhætta bardaga, Íþökumenn“, sagði hún, „og skiljizt
að, áður en meira mannfall verður“.
533 Svo mælti Aþena, en bleikur óttinn greip þá alla, urðu
þeir svo hræddir, að vopnin hrutu úr höndum þeim og féllu
öll til jarðar, þegar gyðjan lét heyra raust sína; snéru þeir þá
á flótta til borgarinnar, og vildu gjarna forða lífi sínu.
537 Hinn þolgóði, ágæti Odysseifur æpti þá ógurlega, hann
hneppti sig saman í kút og stökk svo áfram, eins og háfleyg örn.
En í sama vetfangi skaut Kronusson glóandi reiðarslagi, og
það fyrir framan Glóeygu, dóttur hins sterka föður. Þá talaði
hin glóeyga Aþena til Odysseifs: „Seifborni Laertesson,
ráðagóði Odysseifur, heft þig, og stöðva deilu hins sameiginlega
bardaga, svo hinn víttþrumandi Seifur Kronusson verði
þér ekki reiður“.
545 Svo mælti Aþena, en hann hlýddi henni, og varð glaður
í huga. En síðar meir gjörði Pallas Aþena, dóttir Seifs Ægisskjalda,
sáttmál á meðal hvorratveggju, var hún þá lík Mentori
að vexti og í málrómi.
[1391.png]
SKÝRINGAR.
(Tölurnar vísa til ljóðlínu gríska textans. I. = Inngangur; J. G. = Jón Gíslason:
Goðafræði Grikkja og Rómverja, Rvík 1944).
FYRSTI ÞÁTTUR
Fyrstu tíu línurnar eru ávarp til Sönggyðjunnar og jafnframt eins konar formáli,
þar sem stuttlega er skýrt frá meginefni kviðunnar, Odysseifi, hrakningum
hans og ævintýrum. Á svipaðan hátt byrjar skáldið Ilíonskviðu með orðunum:
„Kveð þú, gyðja, um hina fársfullu heiftarreiði Akkils Peleifssonar ...“
Í næstu línum, 11—95, kemur svo lengri inngangur, sem nánar skýrir
formálann.
1 víðförla, réttara væri e. t. v.: margráða, úrræðagóða (gr. polytropon).
3 þekkti, réttara: kynntist (gr. egnó).
8 Helíus Hyperíonssonar, gr. orðið Hyperíon þýðir líklega „sonur hins
æðsta“, viðurnefni á Helíus, sólguðnum, sem ekur hinum gullglóandi
sólar vagni.
Frá nautaátinu er sagt nánar í tólfta þætti.
10 Seg mér einnig nokkuð af þessu: Í gríska textanum kemur greinilegar
fram, að frásögnin eigi að hefjast „einhvers staðar“ í viðburðunum. Með
því gefur skáldið til kynna, að frásögnin verði ekki tæmandi, byrji t. d.
ekki við brottför Odysseifs frá Tróju, heldur á síðasta ári flakks hans.
Í næstu ljóðlínum er gefið í skyn, að til séu frásagnir um aðra kappa,
er ratað hafi í raunir og ævintýr á heimleiðinni frá Tróju.
Í 13. l. gefur skáldið í skyn tvo meginþættina í kvæðinu: Frásögnina
um heimförina og heimkomuna.
Þegar í 1. þætti koma fyrir allar helztu persónur kviðunnar, og auk þeirra
ýmsar aukapersónur, svo sem Kalypsó og Polýfemus.
11 vísan, réttara: bráðan (gr. aipyn).
18 kæmist eða væri kominn.
20 Skýringin á reiði Posídons kemur í l. 68 o. s. frv.
22 Hómer hugsar sér jörðina flata kringlu, sem Ókeanos rennur allt í kring
um; vestast og austast á henni búa svo Eþíópar. Hér — eins og oftar —
kemur fram landfræðilegur áhugi skáldsins; sbr. einnig ferðalýsingu
Menelásar í IV 81 og áfram og í lýsingunni á Krít í XIX 172—80.
Sbr. kort bls. XXXV.
27 í húsum, þ. e. sal, skála, megaron, sjá I. bls. XLV—XLVI og mynd.
29 Um heimkomu Agamemnons og dráp hans sjá I. bls. XIX.
Egistus er sjálfsagt nefndur hér til þess að minna á biðlana á heimili
Odysseifs. — Órestes vó Egistus og móður sína. Þess vegna var hann
lengi ofsóttur af Refsinornunum. Um þetta efni hefur Evrípídes ort
harmleikinn Órestes.
Í svari sínu viðurkennir Aþena, að Egistus og hans líkar fái makleg
málagjöld, en jafnframt leggur hún áherzlu á, að allt öðru máli sé að
gegna um Odysseif, sem sé saklaus og guðunum unnandi. Það er yfirleitt
rauði þráðurinn í frásögninni: Að söguhetjan sé vitur, guðhrædd og
réttlát og hljóti því að lokum verðskuldaða gæfu, en hinir óréttlátu,
óguðlegu og hrokafullu, eins og förunautar Odysseifs og biðlarnir,
hljóti makleg málagjöld.
Með því að nefna Órestes, son Agamemnons, gefur skáldið í skyn, að
einnig Odysseifur eigi stálpaðan son, sem hvetja megi til dáða og geti
hjálpað föður sínum í fyrirætlunum hans. Út frá þessu spinnur svo
skáldið þann mikla þátt, sem Telemakkus á í rás viðburðanna í fyrsta
og síðasta hluta kviðunnar.
38 Argos var risi, hundraðeygur, sem Hermes svæfði og drap; sjá nánar
J. G. bls. 226 og 143.
50 í miðju hafi, í grískunni stendur orðrétt: „Þar sem er nafli hafsins“, þ. e.
úti í miðju hafi. Eyju Kalypsóar, Ógýgju, töldu fornmenn vera Gozzo
nálægt Möltu. En auðvitað er ómögulegt um það að segja, þar sem
hún er sköpuð af hugmyndaflugi skáldsins, eins og mörg landfræðileg
heiti í Odysseifskviðu.
52 Hómer hugsar sér himininn hvelfingu, sem hvíli á súlum, er Atlas
heldur uppi; sjá nánar J. G. bls. 102 og víðar.
57 heillar, réttara: reynir að heilla.
61 þakknæmilegur, þ. e. þakklátur.
64 leið af vörum þér, á gr. stendur orðrétt: „slapp út fyrir gerði tanna þinna“.
69 o. s. frv. Nánar um viðureign þeirra Odysseifs og Polýfemuss sjá 9.
þátt, Kyklópaþátt.
72 ófrjóva, eða réttara: síólgandi eða eyðilega.
76 ráðslaga, þ. e. ráðgast.
90 hinum hárprúðu Akkeum, allir frjálsbornir Hellenar báru mikið og sítt
hár. Þrælar voru hins vegar snoðklipptir.
92 bjúghyrndu naut, eða: gljáandi, þriflegu naut.
93 Pylos var borg í Messeníu í suðvesturhluta Pelopsskaga; stóð hún á
höfða norðanvert við fjarðarmynni, sem nú heitir Navarinoflói.
103 við forgarðsþröskuldinn o. s. frv., um húsaskipun, sjá I. bls. XLV-XLVI
og mynd.
105 Taffeyjarmenn bjuggu norður af Íþöku, sumpart á meginlandinu, sumpart
á smáeyjum. Þeim er lýst sem kaupmönnum og víkingum.
117 sæmd, þ. e. konungstign.
eignum, réttara: húsum.
128 hvar eð = þar sem.
131 mikla gersemi, á við „hásætis“ („sem var mikil gersemi“).
132 fjölfágaðan, þ. e. fagurlega útskorinn.
137 að hann gæti þvegið sér: Venja var að þvo sér um hendurnar, áður en
snætt væri eða drukkið. Sami siður var hjá Gyðingum (sbr. Markús 7,2
og áfram) og yfirleitt í Austurlöndum, eins og hann er enn þann dag
í dag.
152 prýði, orðrétt í gr. „ábætir“.
171 hví, réttara: hvernig (gr. pós).
176-177: Mjög heppileg þýðing hjá Sveinbirni, eins og svo oft.
181 róðrargjörnu, ágæt þýðing á gr. orðinu.
183 í útlönd, orðrétt í gr.: „til manna, er aðra tungu tala“.
184 Temesa var annaðhvort á Kyprosey eða í Bruttium á Suður-Ítalíu.
186 Hríðra var höfn á Íþöku, líklega í suðvesturhluta eyjarinnar.
Nejon var fjall sunnan til á Íþöku.
188 Á eftir „... aldavinir“ hafa fallið niður í Þýðingunni orðin: „frá
upphafi, frá fornu fari“.
193 frjóvsama, eða: hæðótta, óslétta.
202 glöggþekkinn, mjög góð þýðing.
211 rúmbyggðu skipum, skip þau, er Hómer lýsir, voru allbreið, stafnhá og
stafnbjúg. Skrokkurinn var ýmist tjargaður eða dökkmálaður. Framstafninn
var oft rauður eða blár. Þilfar var einungis í barka og skut, en
þófturnar voru þar á milli. Skipið var ýmist knúið af segli eða árum.
Siglan var miðskipa, rekin niður í seglbitann, og mátti reisa hana og
taka ofan eftir vild; var hún fest með stögum; á siglunni var eitt mikið
segl á rá. Árarnar voru festar við keipana með hömluböndum. Stýrið
var ár með breiðu blaði og stjórnvöl; var það fest með stýrihömlunni.
Skipinu var þannig fest, að skuti var snúið að landi og skutfestar á
land bornar, en stjóra var varpað úr framstafni. — Skipshöfnin var að
jafnaði 50 til 60 manns. Sjá mynd á næstu bls.
219 Sem orðin er, réttara: „sem fæðzt hefur“.
226 vinagildi er þýðing á grísku orði, sem táknar máltíð, þar sem hver gestur
leggur fram sinn skerf.
232 ... mun þetta hús verið hafa, réttara: „leit út fyrir að verða“.
239 o. s. frv. mjög góð þýðing.
241 Sviptinornirnar, er Grikkir nefndu Harpyiaj, voru hugsaðar sem verur
í fuglslíki, sem ræntu mönnum, eins konar „andar stormsins“.
[1396.png: Skip (skýringarmynd).]
242 svo orðstír hans er enginn uppi, réttara: „svo ekkert hefur til hans
spurzt“.
246 Dúlikhíon var eyja suðaustur af Íþöku; nú áföst meginlandinu;
Sámsey, eyja nærri Íþöku, e. t. v. Kefallenía eða hluti hennar;
Sakyntsey, stór eyja fyrir vestan Pelopsskaga, nú Zante.
247 grýttu eða: klettóttu, fjöllóttu.
253 „Ósköp er slíkt!“, mjög góð þýðing.
259 Effýra, borg í Epírus (Þesprótíu), nú: Jannina.
277 Munu þeir o. s. frv., sumir telja, að hér sé átt við biðlana, og vilja þýða
orðið, sem hér er þýtt með „heimanmund“, með „gjafir“. Á elztu tímum
hjá Grikkjum voru brúðir keyptar, en seinna fylgdi þeim heimanmundur.
283 frétt frá Seifi, fréttir, sem menn vissu ekki heimildir að, hugsuðu þeir
sér, að ætti rót sína að rekja til Seifs.
287 o. s. frv. Mjög vel þýtt.
291 verpa haug eftir hann, ætlunin með slíkum tómum haug hefur upprunalega
verið að veita sál hins dauða samastað. Síðar er það aðeins
gert í virðingarskyni.
298 heyrir þú ekki, réttara: „hefur þú heyrt“.
304 á milli sem og munu ætti helzt að koma: „sennilega“.
305 á eftir lát þér ætti að koma: „sjálfum“.
326 er Pallas Aþena hafði ákveðið þeim, Aþena var reið Akkeum vegna þess,
að Ajant Öyleifsson hafði við töku Tróju dregið Kassöndru, dóttur
Príamuss, með ofbeldi burt úr hofi hennar og jafnframt steypt af
stalli líkneski Aþenu.
328 úr loftsalnum, sem var svefnherbergi Penelópu; úr honum hefur legið
stigi niður á dyngjuna eða kvennasalinn, sem var á jafnsléttu undir
svefnherberginu, sjá I. bls. XLVI. og mynd.
Í fylgd með konungum og drottningum voru alltaf a. m. k. tveir
þjónar eða þjónustumeyjar.
334 o. s. frv. Búningur kvenna hjá Hómer var litaður ullarkyrtill, sem
vafinn var um líkamann; á herðum og hægra megin var hann festur
saman með sylgjum; um mittið var belti. Á höfðinu var slæða úr hvítu
lérefti, sem féll niður á herðar; slæðuna mátti draga fyrir andlitið.
Um búning karla sjá I. bls. XLIX.
341 ávallt, réttara: „í hvert sinn“ (nl. sem hann er sunginn).
344 Helluland eða Hellas táknar hjá Hómer ekki allt Grikkland, heldur
aðeins borg og hérað í Þessalíu, ríki Akkilless; Argverjaland eða Argos
var hérað á Pelopsskaga undir yfirráðum Agamemnons. Hvort tveggja
orðatiltæki táknar þá h. u. b. „alls staðar í Grikklandi“.
349 hugvitssömum, aðrir þýða orðið: „brauðétandi“, enn aðrir „stritandi,
atorkusömum“. Þetta er eitt þeirra mörgu lýsingarorða, sem svo eru
forn og torskilin, að jafnvel málfræðingana í Alexandríu á 2. og 1.
öld f. Kr. b. deildi á um, hvað þau þýddu.
364—365 brá sætum svefni yfir hvarma hennar, mjög falleg þýðing.
387 Mjög góð þýðing.
414 spyrja frétta, réttara: „trúa fréttum“.
431 tuttugu uxar var óvenjulega hátt verð fyrir ambátt; í Ilíonskviðu, 23.
þætti 705. l., er ambátt, gædd miklum og góðum kostum, metin á 4 uxa.
Slíkt mat á rót sína að rekja til þeirra tíma, er menn þekktu ekki peninga
eða mynt, en notuðu í þess stað nautpening, sbr. ísl. orðið „fé“.
440 útskorna, vafasamt, að hér sé átt við skraut, heldur mun gríska orðið
tretos tákna, að á bekknum hafi verið göt, sem ólum var stungið í gegn
um til þess að halda bekknum saman.
442 dró að sér hurðina o. s. frv., hurðin opnaðist inn, og var innan á henni
þverslá; við slána var fest ól, sem lá út í gegn um gat á hurðinni, nálægt
dyrastafnum. Þegar hurðin hafði verið látin aftur að utanverðu og átti
að lokast, var togað í ólina; ýttist þá sláin til hliðar og endinn rann
inn í þar til ætlaða greypingu á dyrastafnum. Væri enginn inni í herberginu,
og hurðin ætti að vera lokuð, var ólin því næst bundin við
snerilinn eða hurðarhringinn. Þegar svo þurfti að opna hurðina að utan,
var ólin fyrst leyst, en því næst var lykli, króklöguðum í endann, stungið
inn um gatið á hurðinni, og slánni ýtt með lyklinum úr greypingunni.
[1398a.png: Hurðarloka (skýringarmynd).]
[1398b.png: Lykill (skýringarmynd).]
ANNAR ÞÁTTUR
Næstu þrír þættir (II. til IV.) eru oft nefndir einu nafni Telemakkusar
þættir (Telemachia), af því að Telemakkus er aðalsöguhetjan í þeim. En samt
eru þeir í raun og veru nátengdir frásögninni í heild, því að Odysseifur,
afdrif hans, ævintýr og afrek eru rauði þráðurinn, sem gengur í gegn um
þá alla, allt frá þinginu á Íþöku til frásagna Nestors í Pýlus og Menelásar
í Spörtu.
Stíll og framsetning í þessum þáttum eru líka í fullu samræmi við aðra
þætti kviðunnar. Skal drepið hér á örfá sameiginleg einkenni:
Þegar Telemakkus hefur lokið máli sínu í 2. þætti, l. 146, sendir
Seifur fyrirboða, tvo örnu, sem fljúga yfir þingstaðnum með vængjaþyt
miklum. Öldungurinn Halíþerses ræður þetta sem fyrirboða um
mikla hættu, sem vofi yfir biðlunum, því að Odysseifur muni koma heim,
áður en langt um líði. En auðvitað trúa biðlarnir ekki spádómi þessum.
Mjög svipaðar lýsingar koma víðar fyrir í Odysseifskviðu, t. d. í 15. þætti
159. l. o. s. frv., þar sem Menelás og Helena í Spörtu eru að kveðja Telemakkus.
Á báðum stöðum hefur sögupersóna látið sér um munn fara orð,
sem síðar eiga eftir að rætast. Sameiginlegt fyrir alla fyrirboða og spádóma í
kviðunni er, að þeim er naumast trúað, en jafnframt er sem snöggvast
varpað ljósi yfir fjarlægar persónur og atburði og brugðið upp mynd af
hinu raunverulega ástandi viðburðanna.
Annað sameiginlegt einkenni, sem kemur fram í þessum þremur þáttum,
en gætir lítið í Ilíonskviðu — nema helzt í líkingum — er áhugi
skáldsins á daglegum, hversdagslegum störfum og hve ljúft honum er að
lýsa þeim. Sem gott dæmi þessa má nefna lýsingar í sambandi við fórnfæringarnar
í 3. þætti. Allar þær lýsingar ná yfir rúmar 400 ljóðlínur. Skal
ekki nánar út í það farið, en vísað t. d. til III 404 og áfram.
Þá er atriði, sem er sérkennilegt fyrir alla kviðuna og er rauði þráðurinn
í allri frásögninni um heimkomu Odysseifs, en það er nafnleyndar- eða
dulargerviseinkennið, sem einnig gætir mjög í þessum þremur þáttum. Þetta
einkenni er fólgið í því, að einhver segir frá einhverju, án þess að hafa
hugmynd um, hve mjög það snertir áheyrandann — eða öfugt, að einhver
heyrir frásögn, án þess að vita, hve mjög hún snertir sögumanninn sjálfan.
Slíkt gefur frásögninni fjör og eftirvæntingu. Sem dæmi má nefna samtal
Nestors og Telemakkusar í 3. þætti 218. l. og áfram. Nestor segir: „Því að ef
hin glóeyga Aþena vildi eins unna þér, og henni fyrrum var annt um hinn fræga
Odysseif í landi Trójumanna ... ef hún vildi unna þér eins, og annast
af hjarta, þá mætti svo fara, að einhver þeirra (þ. e. biðlanna) yrði afhuga
ráðahagnum“. Og Telemakkus svarar: „Gamli maður, aldrei held eg þetta
orð rætist, því þú hefur mælt helzt til mikið, svo mig undrar stórum. Ekki
gæti eg vænt þess, og ekki þó sjálf goðin vildu það“. En á meðan þessu
fer fram, situr Aþena í líki Mentors við hliðina á þeim. Hún fylgir Telemakkusi
og sýnir honum sömu umhyggju og hún hafði sýnt Odysseifi, —
en Nestor og Telemakkus vita það ekki. Áheyrendurnir aftur á móti vita
það og skáldið veit það — og þykir gaman að. Lýsingunni lýkur svo með
því, að Aþena fullvissar þá um, að guð geti frelsað manninn, þegar hann vill.
Í 4. þætti 78. l. o. s. frv. ávarpar Menelás gesti sína, án þess að vita,
hverjir þeir eru, m. a. með þessum orðum: „Eg hefði viljað til vinna, að eg
ætti ei nema þriðjung þess fjár innanstokks, en þeir menn væri á lífi, er
þá létust í hinu víða Trójulandi . . . . En þó eg tregi þá alla, þá harma eg
þó engan þeirra eins og einn . . . . Því enginn Akkea hefur afborið jafnmiklar
þrautir og Odysseifur . . . . mun nú víst gamli Laertes harma hann,
og hin vitra Penelópa, og Telemakkus, er hann eftirskildi nýfæddan í húsi
sínu“. Allt þetta segir hann án þess að hafa hugmynd um, að Telemakkus
situr fyrir framan hann. Telemakkus getur þá ekki tára bundizt og hylur andlit
sitt í skikkju sinni. Þá skilur Menelás, að þar er kominn Telemakkus, og
er að hugsa um, hvort hann eigi að spyrja hann. En skáldið lætur það
samt ekki verða þegar í stað, því að rétt í þessu kemur Helena inn, og
finnst henni, að hún kannist við Telemakkus. Loksins kemur svarið, og er
það þá ekki Telemakkus, sem segir til sín, heldur Písistratus.
Öll þessi lýsing minnir mjög á lýsinguna í 8. þætti (73. l. og áfram),
þar sem sent er eftir skáldinu til þess að syngja í veizlunni. Skáldið syngur þá
einmitt um Trójustríð og um deilu þeirra Odysseifs og Akkilless. Odysseifur
dregur þá purpuraskikkjuna fyrir andlit sér, til þess að leyna tárunum.
Alkínóus einn tekur eftir þessu, en hann spyr ekki gestinn að nafni, heldur
stingur upp á annarri skemmtun. Svipuð lýsing kemur svo aftur síðar í sama
þætti (487. l. og áfram). Odysseifur biður skáldið að syngja um tréhestinn.
Skáldið gerir það, og Odysseifur getur ekki tára bundizt. Alkinóus tekur eftir
því og spyr nú loks gestinn að nafni.
1 rósfingraða; nafnið er dregið af því, að einkum í Suðurlöndum má
nokkru fyrir sólarupprás sjá á himninum ljósrauðar rákir, er teygja sig
um loftið líkt og útþandir fingur.
3 gyrðti sig, á grískunni stendur orðrétt: „festi um öxl sér“, en sverðinu var
fest við leðuról, sem lá yfir aðra öxlina.
6 Kallarar voru þjónar og sendiboðar konunga og höfðingja. Þeir stefndu
saman þingi og sáu um röð og reglu. Voru þeir mikils metnir og friðhelgir.
Tignarmerki þeirra var stafur eða sproti, sem þeir á þingum
fengu ræðumönnum í hendur til merkis um, að þeir mættu taka til máls.
14 settist í sæti föður síns: Telemakkus gefur þannig til kynna, að hann
eigi heimtingu á konungstign föður síns. Öldungarnir, sem voru oddvitar
aðalsættanna og ráðgjafar konungs, viðurkenna þetta með því
að víkja fyrir honum.
19 hinn grimmi Kýklópur, Pólýfemus, sem getið er í 9. þætti, Kýklópaþætti.
22 búið á óðalseignum sínum eða e. t. v. réttara: stýrt búum föður síns.
30 að herr sé í nánd, eða réttara: „af hernum, sem snýr aftur“, þ. e. af
gríska hernum, sem kemur frá Tróju.
37 fékk honum sprota í hönd: Sprotinn táknar vald þess, er embætti gegnir.
Þess vegna taka konungar, hershöfðingjar, erindrekar, kallarar og ræðumenn
sér sprota í hönd, er þeir gegna störfum sínum; sbr. aths. við II 6.
64 Látið yður og sjálfum um finnast o. s. frv., þessum orðum er beint til
alls þingheims og skírskotað til þriggja hvata, sem mikils máttu sín á
þeim tímum: eigin samvizku, sómatilfinningar (aidós, sbr. I. bls. XLIV)
og guðsótta.
64 Þemis ræður fyrir lögmætri skipan og reglu. Hún er dóttir Úranosar og
Gaju; sjá J. G. bls. 159.
75 o. s. frv. mjög góð þýðing.
85 o. s. frv. mjög vel þýtt.
87 biðlunum, á grískunni stendur á eftir því orði: „úr hópi Akkea“.
93 meðal annars eða réttara: auk þess.
94 setti upp mikinn vef, þ. e. festi uppistöðuna við vefjarrifinn. Vefstóllinn,
sem Penelópa óf voðina í, virðist hafa verið ekki ósvipaður gamla íslenzka
vefstólnum (sbr. Matthías Þórðarson: Fornmenjasafn Íslands bls. 69-70).
100 er manninn leggur flatan, eða: er sársauka veldur.
106 o. s. frv.: mjög vel þýtt.
120 Týró var móðir Neleifs, föður Nestors konungs í Pýlus. Alkmena var
móðir Herakless. Mýkena, dóttir fljótsguðsins Ínakkuss, var tignuð í
Mýkenu.
fagurbeltaða, réttara: „með fagurt höfuðdjásn“ (evstefanos).
134 föður hennar, réttara: föður mínum; T. óttast reiði föður síns.
Óhamingjuguðinn, á gr. daimón, var vættur eða goðmagn — oft fjandsamlegt
—, sem þekkja mátti af áhrifum þess; þeos, guð, var persónulegri.
135 hinar ógurlegu Refsinornir eða Erinýjur, sjá J. G. bls. 107-108.
150 o. s. frv., mjög vel þýtt.
154 þutu síðan til hægri handar: þ. e. til austurs. Þegar frétta var leitað af
flugi fugla, sneru menn sér í norðurátt; ef fuglinn flaug frá hægri
hlið, úr austri, var það talið góðs viti og góður fyrirboði, en ef fuglinn
flaug úr öfugri átt, var það talið óheillavænlegt.
190 ... sjálfur hann hafa verra þar af; á eftir þessari línu sleppir þýð. l.
191 (sem reyndar vantar í beztu handrit): „og alls ekki koma honum
að neinu haldi“.
192 skapa þér það víti, í gr. stendur orðrétt: „vér munum leggja á þig fégjöld“.
194 ... vil eg gefa Telemakkusi, á eftir þessum orðum ætti að koma: „í
allra áheyrn“.
263 dökkva haf, eða e. t. v. réttara: „loftkennda“ (eeroeidea).
269 skjótum orðum, réttara: „vængjuðum, hraðfleygum“ (gr. pteroenta), eins
og Svbj. þýðir það stundum. Orðunum er líkt við fugla.
271 o. s. frv.: mjög góð þýðing.
290 byggmjölið, sem búinn var til úr grautur eða deig.
295 leggja á haf, á gr. stendur: „á hið víðáttumikla haf“.
304 lát ekkert illt á þér festa, eða e. t. v.: „haf ekkert framar illt í huga“.
328 Effýru, sjá ath. I 259.
337 geymslusal, herbergi aftast í húsinu, sjá I. bls. XLVI og mynd.
340 tunnur, þær voru úr leir.
345 nætur og daga, Grikkir töldu upprunalega eftir nóttum, en ekki dögum;
eins gerðu Gallar og Germanar.
352 Banagyðjunum, á gr. Keres, sjá J. G. bls. 206.
362 skjótum orðum, sjá ath. II 269.
367 fram á leið, þ. e. síðar (opissó).
370 ófrjóva, sjá ath. I. 72.
377 dýran eið við guðina, réttara: „hinn mikla eið guðanna“, þ. e. í stað þess
að vinna eið við Seif eða annan guð, sór hún við jörð; himin og Styx
(undirheimafljótið), eins og guðirnir voru vanir að gera, þegar mikið
lá við.
388 o. s. frv. mjög falleg þýðing.
402 fagurbrynhosuðu, þ. e. með fagrar, sterkar legghlífar framan á leggnum
eða sköflungnum; upprunalega voru hlífar þessar úr leðri og voru til
hlífðar fyrir skjaldarröndinni; síðar, þegar kringlóttir eirskildir tíðkuðust,
voru þessar hlífar úr eir.
403 förunautar þínir, á eftir þessum orðum ætti að koma: „undir árum“.
405-406 á eftir Pallas Aþena ætti að koma „hratt“ (karpalímós).
419 á þófturnar, eiginl. „við árar“ (epí kleísi).
421 útnyrðing, þ. e. vestanvind, Zefyros; samkv. því hugsar skáldið sér, að
siglt sé í austurátt, en í raun og veru var siglt í suður, svo í norðvestur
og loks í suðaustur.
gnýjanda, á við vindinn, ekki hafið.
422 þeir reistu upp siglutréð o. s. frv., sjá ath. I 211.
428 mórauð bylgjan, eða e. t. v. „ólgandi, glitrandi b.“
432 dreyptu dreypifórn, áður en drukkið var, var venja að skvetta dálitlu víni
á jörðina sem fórn til guðanna.
ÞRIÐJI ÞÁTTUR.
1 upp af hinu fagra vatni, Hómer hugsar sér, að sólin komi upp úr og
hverfi aftur niður í Jarðarstrauminn, Ókeanos, sem rennur kring um
jörðina, en nefnist hér „vatn“.
2 eirsterka himin, himinninn var hugsaður sem afarmikil eirhvelfing, sem
stjörnurnar voru festar á.
4 Pýlus var borg í Messeníu, beint á móti eyjunni Sfakteríu; hún var
stofnuð af Neleifi, syni Posídons og föður Nestors, sem flutzt hafði
þangað frá Þessalíu.
fagursettu eða fagurbyggðu (evktímenon).
6 Landaskelfi, þ. e. Posídon.
alsvörtum griðungum, svörtum dýrum var alltaf fórnað guðum undirheima,
og stundum líka Posídon.
7 sæti, réttara: sætaraðir.
9 iðrunum, hjarta, lifur og lungu voru tekin úr fórnardýrinu þegar eftir
slátrunina og etin sem forréttur fórnarmáltíðarinnar.
17 reiðkæna N., mjög góð þýðing.
36 Písístratus var yngstur sona Nestors; þeir voru 6 á lífi (l. 413-415);
sá elzti, Antílokkus, hafði fallið við Tróju (l. 111 o. s. frv.).
38 á sjávarströndinni, á grískunni stendur: á sendinni sjávarströndinni.
48 því að allir menn o. s. frv., þetta var uppáhaldsljóðlína Melanktons.
63 tvíhvolfaða eða tvíhalda (amfíkypellon).
65 kjötstykkin, sem yfir eldinum voru, réttara: yztu kjötstykkin, þ. e. kjötið
utan á beinunum.
68 Gerenski, í Gereníuborg hafði Nestor fengið hæli, þegar Herakles hafði
eyðilagt Pýlusborg.
73 víkingar, sjórán var ekki óalgengt; fenískir og grískir víkingar stunduðu
á elztu tímum sjórán á Grikklandshafi, en alltaf þótti sú atvinna
ósæmileg.
78 er sleppt í þýðingunni; á gr. stendur: „og getið sér orðstír meðal manna“,
sem ætti að koma á eftir: ... um sinn fjarverandi föður.
83 hinum ágæta, réttara: sem frægur er víðs vegar (kleos evry).
105 hið dimmleita haf, sjá ath. II 263.
124 svo líkt honum, eða: svo viturlega (eodikotes).
130 borg Príamusar, l. 131 er sleppt í þýð., en þar stendur: „og vér vorum
komnir til skipanna og einhver guð hafði dreift Akkeum“.
135 sökum skaðvænnar reiði Glóeygar, sjá ath. I 326. l.
138 eigi eftir réttum sið, þingin hófust venjulega á morgnana.
142 yfir hinn víða sjávarflöt, á gr. stendur orðrétt: „yfir hið breiða bak
hafsins“.
154 hábeltuðu konur, þ. e. hinar herteknu tróversku konur; á gr. stendur
orðrétt: djúpbeltuðu (baþytsónús).
159 til Teneduseyjar, sem er skammt undan Trójulandi,
Próf. Craigie bendir réttilega á þann kost á þýðingu Sveinbjarnar, að
hann bætir oft skýrandi orði aftan við eiginnöfn, lesendum til hægðarauka,
t. d. Festusborg, Sámsey, Sólýmafjöll o. s. frv., þó að ekki sé
það í grískunni.
163 fróðhugaða, fjölráða O., ágæt þýðing.
borðrónu, réttara: stafnháu, sjá mynd bls. 396.
170 fyrir ofan, þ. e. fyrir vestan.
fyrir neðan, þ. e. fyrir austan.
bröttu, réttara: klettóttu.
171 Psyría, lítil eyja (nú: Ipsara) norðvestur af Kíey, Chios;
Mímant, Mimas, höfði á strönd Asíu beint á móti Chios;
Gerestus (l. 177), höfði suðvestast á Evbeu. — Sjá landakort, bls. XXXVIII.
185 hinum Akkeum, þ. e. Agamemnon, Odysseifur og fleiri, sem eftir
höfðu orðið.
189 Syni ... Akkilless, þ. e. Neoptolemus eða Pyrrhos, sem samkv. síðari
sögnum átti að hafa setzt að í Epírus ásamt Andrómökku. — Myrmídónar
voru þessalskur þjóðflokkur.
Fílóktetes var grískur fyrirliði,
Ídomeneifur var konungur á Krít.
217 (allir) Akkear, þ. e. þeir Íþökumenn, sem komi aftur með honum.
231 ... frelsað manninn o. s. frv., í gr. stendur orðrétt: „komið honum heim
heilum á húfi, jafnvel úr fjarska“.
238 dauðanum, er manninn leggur flatan, eða: „hinum sára dauða" (tanelegeos
þanatojo).
260 langt frá Argverjalandi, eða e. t. v. réttara: langt frá borginni (hekas
asteos), þ. e. frá Mýkenu.
262 unnum margar þrautir, eða: háðum marga bardaga.
266 vel viti borinn, eða: var göfugt hugsandi.
273 Súníuness, þ. e. suðurodda Attíkuhéraðs.
280 með sínum þýðu skeytum, ef einhver dó skyndilega og sársaukalaust og
orsökin var ekki auðsæ, var sagt, að hann hefði orðið fyrir mjúku skeyti
(ör) úr boga Apollons, eða, ef það var kona, úr boga Artemísar.
283 stýrinu, sjá ath. við I 211.
287 Maleafjalls, hættulegur höfði á Peloponnes (nú: Kap Malio di San
Angelo).
289 þjótandi, eða réttara: ýlfrandi (lígeón).
digrum öldum, orðrétt: „öldurnar bólgnuðu“, þ. e. risu himinhátt
(trofeonto).
292 Jardanar, fenískt nafn (jarden = fljót).
294 Gortúnsborg og Festusborg (296) voru borgir sunnan til á Krít.
vinstra höfðanum, þ. e. vesturhlið höfðans.
300 Egyptafljóti eða Egyptalandi.
302 útlendra manna, eða manna, er töluðu, aðra tungu (alloþroús).
310 viðurstyggilega móður o. s. frv.: sjá J. G. bls. 257.
322 brytjið nú tungurnar, tungur fórnardýranna voru venjulega skornar af
og brenndar síðastar; fórnarveizlunni lauk með því og dreypifórn.
366 Kákónar var gamall þjóðflokkur í suðurhluta Elíshéraðs.
378 Trítogenía = Aþena (gyðjan); e. t. v. dregið af Tríton, á í Böótíu, þar
sem Aþena var mikið tignuð.
382 ársgamalli kvígu, eða e. t. v. réttara: ljómandi (þriflegri) k.; á eftir
kvígu hefur í þýð. fallið niður orðið „krúnubreiðri“ (evrymetópon).
399 útskornum, sjá ath. við I 440.
408 gljáandi af smyrslum, feiti virðist hafa verið borin á þær til þess að
auka gljáa marmarans og verja hann veðrun.
411 vörður Akkea er Nestor oft nefndur í Ilíonskviðu, af því að hann með
ráðkænsku sinni og reynslu forðaði Akkeum fjörtjóni.
440 (í) skrautlegum (katli), eiginl. „með laufskurði“ (anþemoenta).
441 blótbyggi, heilum, brenndum bygggrjónum, blönduðum salti, var sáldrað
yfir enni fórnardýrsins, og það vígt þannig til fórnar.
444 trogi, eða: fórnarskál.
453 lyftu kvígunni, aðallega höfði hennar og hálsi. — Við blót var vatni og
korni (byggi) kastað á jörðina, upprunal. sem fórn til hinnar frjósömu
jarðar, en síðar fastur helgisiður. Hárlokknum er fórnað, af því að
lífsþrótturinn var talinn vera fólginn í því (sbr. þegar Indíánar tóku
höfuðleðrið af óvinum sínum); þegar honum er brennt, er það táknrænt
og táknar, að líf dýrsins sé þrotið. Fórnarmáltíðin er sameiginleg máltíð
manna og goða.
470 sem yfir eldinum voru, sjá ath. III 65.
477 Á eftir orðunum: „hlýddu honum“ vantar í þýð. „fúslega“ (mala).
488 Feruborg var við Messeníuflóa, skammt frá sjó.
493 er sleppt í þýð., en þar stendur: þeir óku út úr fordyrinu og hinum
ómandi svölugangi.
FJÓRÐI ÞÁTTUR
5 fylkingabrjóts, góð þýðing.
11 hafði átt einan sona, eða e. t. v. réttara: hafði átt, er hann var kominn
á efri ár.
14 gullfögru, er í bókstaflegri merkinu í gr.: prýdd skrautgripum úr gulli.
Í þýð. er sleppt 15.—19. lín., en þar stendur: „Þannig sátu þeir að
veizlu í hinu mikla, háreista húsi grannar og ættingjar hins ágæta
Meneláss og voru kátir. En þar var með þeim andríkur söngmaður, er
lék á hörpu og söng undir; en er hann byrjaði sönginn, komu fram
tveir kollhlauparar og hringsneru sér meðal þeirra“ (sbr. Il. XVIII
604—606).
25 skjótum, réttara: hraðfleygum, eins og Svbj. þýðir orðið oft; eiginl.
„vængjuðum“ (pteroenta).
29 eða vísa þeim til einhvers annars, spurningin er borin upp þrátt fyrir
gestrisnina vegna þess, að húsið er þegar fullt af gestum vegna brúðkaupsins.
50 loðkápur, réttara: ullarkápur (khlainas úlas).
52—53 á silfurfati og hellti á hendur þeim, réttara: og hellti á hendur þeim
yfir silfurfati (sbr. I 136 o. s. frv., bls. 7).
57—58 er sleppt, en þar stendur: „Brytinn tók diska með alls konar kjöti
og lagði fyrir, og setti hjá þeim gullskálar“ (sbr. I 140—141).
60 verið velkomnir, eða e. t. v. réttara: gerið ykkur að góðu (khaireton).
73 lýsigullinu, gr. orðið elektron táknar ýmist „raf“ eða — eins og hér —
blending úr gulli og silfri, sem ásamt fílabeini var notað til skreytingar
á hurðum, súlum o. þ. u. l.
77 skjótum orðum, sjá ath. IV 25.
80 En fáir munu gefa um o. s. frv., orðrétt: Einhver kann að geta jafnazt á
við mig um auðlegð, kannske enginn.
84 Eremba, einhver þjóðflokkur í Asíu, e. t. v. Arabar eða Hebrear.
Lönd þau og þjóðir, sem hér eru nefndar, eru á austur- og suðausturströndum
Miðjarðarhafs og auðugustu þjóðir Asíu og Afríku.
90 á eftir orðunum: í þessum löndum hefur fallið niður í þýð.: „og safnaði
miklum auði“.
91 annar maður: Egistus; bróður minn: Agamemnon; konu hans: Klytemnestra.
94 á eftir orðunum: hjá feðrum ykkar ætti að standa: „hverjir sem þeir eru“.
118 og áfram: Mjög falleg þýðing.
123 legubekk, eða réttara: hægindastól (klisíen).
126 Þebu hinni egypzku, mjög fræg borg, höfuðborg Suður-Egyptalands.
129 tíu vættir gulls, með vætt þýðir Svbj. gr. orðið talanton (talenta); talentur
hjá Hómer voru litlar stengur, en óvíst er, hve þungar þær hafa verið;
löngu seinna var í Aþenu ein talenta rúml. 4000 kr. virði (miðað við
verðlag fyrir fyrri heimsstyrjöld). Hómer þekkir ekki mótaða mynt.
145 mín, blygðunarlausrar konu segir Helena í sárri sjálfsásökun og iðrun.
178 o. s. frv. Falleg þýðing.
188 sonur hinnar björtu Morgungyðju (þ. e. Eosar) var hetjan Memnon,
konungur Eþíópa.
191 rætt um þig, í þýð. er l. 192 sleppt, en þar stendur: í salnum og spurðum
hvor annan.
198 skeri hár sitt, sem sorgarvott; upprunalega fórn til hins dána til þess
að veita honum nýjan lífsþrótt. Sbr. aths. við III 453.
220 töfragras nokkurt, líklega það, sem nefnist haschisch, sem hinir fornu
Egyptar þekktu og enn er notað mikið í Austurlöndum sem nautna- og
deyfimeðal.
230 til drykkjar, í gr. stendur: blönduð, þ. e. hvað innan um annað.
232 Peons ættar, Peon var læknir guðanna.
257 marga af Trójumönnum, sennilega verðina við borgarhliðið;
eirvopni, nl. sem hann hafði fengið hjá Helenu.
263 dóttur mína: Hermíónu, sbr. IV 13.
276 Deífobus var einn af hraustustu sonum Príamuss; hann gekk að eiga
Helenu eftir dauða Parísar.
278 með nafni, l. 279 er sleppt í þýð. „og stældir þú raddir eiginkvenna
allra Argverja“. Aristarkus vill strika þessa línu út, af því að bæði sé
ólíklegt, að Helena hafi getað þetta, og svo sé harla ósennilegt, að kapparnir
í hestinum tryðu því, að þarna væru konur þeirra komnar.
282 urðum við þá báðir óðir, í gr. stendur: urðum við þá gripnir löngun.
285—289 er sleppt í þýð., en þar stendur: „Nú sátu allir aðrir synir Akkea
steinþegjandi, en Antiklos einn vildi svara þér. En Odysseifur hélt með
sínum sterku höndum stöðugt fyrir munninn á honum og frelsaði þannig
alla Akkea; aftraði hann honum, þangað til Pallas Aþena hafði komið
þér burt“.
299 loðkápur, sjá ath. IV 50;
til að fara í, eða e. t. v. réttara: til að breiða yfir sig.
308 gyrðti sig bitru sverði, sjá ath. II 30.
309 hraustlegu fætur, eða: gljáandi fögru (líparoisín).
313 breiða flöt, orðrétt á gr. „breiða bak“.
342 hinni fögru Lesbey, eða e. t. v. réttara: vel ræktuðu, vel byggðu
(evktímene).
343 Fílomelídes var konungur á Lesbos; hann skoraði á alla, sem fram hjá
sigldu, til kappglímu.
344 Mjög falleg þýðing.
352 hundraðsfórnir; hér á eftir er í þýð. sleppt l. 353: „en guðirnir vilja, að
menn muni alltaf eftir boðorðum þeirra“.
356 hún er svo langt undan landi o. s. frv., fjarlægðin er mjög ýkt.
362 breiða sjávarflöt, orðrétt á gr.: breiða bak sjávarins.
365 Próteifs, sjá J. G. bls. 174.
368 veiddu fiska: en fisk lögðu kapparnir hjá Hómer sér ekki til munns,
nema alls ekkert annað væri að fá.
402 með útrænunni, þ. e. með vestanvindinum, Zephyrus.
404 Halosýdna þýðir „dóttir hafsins“, og var viðurnefni Þetísar, en hér
Amfítrítu, konu Posídons, sjávarguðs.
409 þóftusterku, eða e. t. v. réttara: „velþiljuðu“.
412 varpað tölu á, orðrétt á gr. „talið þá á fimm fingrum sér“.
417 bregða sér í allra ... kvikinda líki: Menn trúðu því í fornöld, að þenna
eiginleika hefðu einkum sjávargoð, sem er tákn um breytileika sjávarins.
445 ódáinsfeiti, ambrósía, var bæði fæða guða og guðahesta, en auk þess líka
notuð sem smyrsl o. fl.
460 En er hinn meinvísi öldungur o. s. frv.: Í gr. stendur orðrétt: „En er
öldungurinn varð þreyttur á að beita brögðum þeim, er hann kunni“.
477 Egyptafljóts, þ. e. Nílarfljóts.
496 hafa tveir einir látizt á heimleiðinni, nl. Ajant Öyleifsson (l. 499) og
Agamemnon, sem reyndar var drepinn við heimkomu sína.
497 en í stríðinu hefir þú sjálfur verið, þ. e. „svo ég þarf ekki að segja þér,
hverjir létust þar“.
499 Ajant, nl. Öyleifsson.
500 Gýraklettur hefur sennilega verið við suðausturtanga Evböueyjar.
510 bylgjótta haf, l. 511 er sleppt: „Þannig fórst hann þar, þá er hann
hafði drukkið hið salta vatn“.
514 Maleafjalls, sjá ath. III 287.
517 Þýestes, samkv. fornum sögum átti Þ. að eiga heima á eyjunni Kyþeru,
en eftir því, sem hér er sagt, bjó hann í Mýkenu. Hann var bróðir Atreifs,
föðurbróðir þeirra Agamemnons og Menelásar.
531 en lét búa veizlu á öðrum stað, nl. á öðrum stað í höllinni en þar sem
launsátin var búin. Hjá Hómer á vígið sér ekki stað (eins og hjá
Eskýlusi) í Mýkenu, heldur í höll Egistuss við sjóinn.
552 á hinu víða hafi, á eftir þessum orðum er sleppt l. 553: „eða er dauður;
því að mig fýsir að heyra það, þó að ég sé hryggur“.
563 Elýsiska vallar, eða Sæluvallar, sem Hómer hugsar sér á yfirborði jarðar
við Ókeanosfljót; dvelja þar óskmegir guðanna, langt frá skelfingum
Hadesar; sjá J. G. bls. 108—109. Hugmyndin um Sæluvöll á sennil. rót
sína að rekja til Kríteyjar og Mýkenumenningar, en eflist svo aftur við
kenningar Platons.
Hradamant, sjá, J. G. bls. 116 og 233.
567 vestangusti, sem annars flytur með sér regn og snjó.
606 en heldur hálend fyrir hestagöngur, í gr. stendur orðrétt: fremur yndislegt
en hestauðugt land. — Hér kemur skýrt fram ást fjallabúans á
fjallalandi sínu. — Annars virðist Íþaka hafa verið allfrjósamt land með
akuryrkju (IV 318) og vínyrkju (XIII 244).
626 með töfluleik, þ. e. kringluvarpi eða diskos, sem var steinkringla, sem
varpað var að vissu marki.
hafa í frammi allan ósóma, í gr. orðrétt: „Þar sem þeir einmitt voru
vanir að sýna hroka“.
635 rúmlenda, í gr. stendur orðrétt: með víðum dansvöllum (nl. þar sem
dansað var í sambandi við guðsdýrkunina). — Borgin Elís var stofnuð
eftir Persastríðin.
640 eða hjá svínahirðinum, nl. Evmeus; nafn hans er ekki nefnt hér, því
að gert er ráð fyrir, að áheyrandinn kannist við söguna.
644 Og að hann skyldi geta annað þessu, eða e. t. v. réttara: „Og þetta hafði
hann vel getað haft til að gera“. Óvenjulegt var að taka leiguliða eða
þræla sér til fylgdar í stað frjálsborinna manna, en Telemakkus var
svo ákafur að komast af stað, að Antínóus getur vel trúað honum til
þess að gera þetta.
652 á eftir orðunum: er hraustastir eru hér í landi hefur fallið niður: næst
okkur.
658 urðu forviða, eða e. t. v. réttara: reiddust (agassato þymon).
665 (farið utan) sem hægast eða réttara: upp á eigin spýtur (átós).
705 þá tók fyrir hennar fögru rödd, eða: hún ætlaði að tala, en gat ekki
komið upp einu orði.
725 Á eftir orðunum: alls kyns kostum búinn er sleppt l. 726: en orðstír
þess ágætismanns gengur víða um Helluland og inn í mitt Argverjaland.
737 eikagarði, eða e. t. v. réttara: vínekru.
747 Á undan tólfti dagur ætti helzt að standa: að minnsta kosti (ge).
750 Far nú heldur í bað o. s. frv.: Þeir, sem fara áttu til bæna eða fórna,
urðu að vera alveg hreinir.
753 Því hún getur frelsað hann, eða: þá mun hún vissulega frelsa hann.
755 afkvæmi Arkesíusarsonar, þ. e. Odysseif; sonur Arkesíusar var Laertes,
faðir Odysseifs.
762 Atrýtóna = Abena.
770 búa til brúðkaupsveizlu, þetta álykta biðlarnir af fórnum drottningar og
kveinstöfum.
774 Góðir hálsar! í gr. orðrétt: Vitfirringar (daimoníoi).
782 Á eftir orðunum: í ólarhömlur er sleppt l. 783: allt eftir réttum sið, og
breiddu út hin hvítu segl.
793 svefnhöfgi, eða: hressandi, vær svefn (nedymos hypnos).
798 Evmelus, sonur Admetuss og Alkestisar; Feruborg var í Þessalíu.
802 hjá lokubandinu, sjá ath. I 442.
815 Á eftir: alls kyns kostum búinn er l. 816 sleppt: en orðstír þess ágætismanns
gengur víða um Helluland og inn í mitt Argverjaland.
824 dauflegi svipur, eða: þokukenndi svipur.
833 vera á lífi, eftir þeim orðum vantar í þýð.: einhvers staðar (pú).
843 vísan bana, eða: bráðan bana.
846 Asteris telja menn að muni vera eyjan Daskalion, mitt á milli eyjanna
Íþöku og Kefalóníu.
FIMMTI ÞÁTTUR
Með þessum þætti er komið að hinni eiginlegu frásögn af Odysseifi, og
hefst hún á stuttri lýsingu á guðaþingi. Þar minnir Aþena óþolinmóð Seif á
gefin loforð um að koma Odysseifi heim. Seifur gefur nú Hermesi ákveðnar
fyrirskipanir, en segir jafnframt stuttlega fyrir um það, hvað á daga hans
muni drífa, áður en hann komist heim. Er algengt, að skáldið láti söguhetjurnar
segja áheyrendum í stórum dráttum, hvað fram muni koma.
Eitt einkenni Odysseifskviðu kemur fram í lok ræðu Seifs (38. l.):
Feakar munu flytja hann heim og „gefa honum gnótt eirs og gulls og klæða,
svo mikið fé, að Odysseifur mundi aldrei jafn mikið fé haft hafa frá Trójuborg,
þó hann hefði þaðan heill komizt með sinn hluta herfangsins“. Hér og víðar
í þessari kviðu kemur fram talsverður mismunur á lífsskoðun og mati á
andlegum og veraldlegum verðmætum í Odysseifskviðu og Ilíonskviðu. Í
þeirri síðarnefndu er það tíme, sæmdin, sem mest er lagt upp úr, en í hinni
kviðunni er lögð meiri áherzla á auðæfi og eignir. Þessi frumstæða eignargleði
kemur glöggt fram víða í Odysseifskviðu og hefur verið eitt höfuðeinkenni
Íónanna. Þeir hræddust ekki hafið og hættur þess, en þeir vildu
hafa eitthvað í aðra hönd fyrir alla fyrirhöfnina. —
Eftir ráðstefnu guðanna fer Hermes til Kalypsóar og skipar henni að
láta Odysseif lausan. Þó að Odysseifur segi um Penelópu og Kalypsó á einum
stað (216. l.): „Penelópa er þér óálitlegri bæði að vexti og vænleik; hún er
dauðleg, en þú ódauðleg og eldist eigi“, þá lætur hann samt aldrei af að
þrá konu sína, ástvini og heimili og býður hættunum byrginn til þess að
komast heim.
2 Tíþónus, sonur Leomedons, bróðir Príamuss, og maður morgungyðjunnar
Eosar eða Áróru, sjá J. G. bls. 166.
34 Skerju hugsuðu menn sér norðvestur af Íþöku; seinna héldu menn, að
hún væri eyjan Korkyra.
43 Argusbani, þ. e. guðinn Hermes, sem að boði Seifs drap hinn hundraðeyga
Argus, sbr. J. G. bls. 166.
49 rann, þ. e. sveif, flaug.
50 Píería nefndist héraðið fyrir norðan Olympsfjall.
52 ófrjóva, eða: síiðandi, síólgandi.
72 mjúk, þ. e. grösug.
78 Kalypsó, orðið þýðir eiginl. „sú, sem hylur, eða hrífur burt“.
84 ófrjóva: sjá ath. við 52. l.
87 Gullinsproti, sbr. J. G. bls. 144 efst.
90 Á eftir orðunum „ ... til leiðar komið“ er sleppt 91. l.: „en kom þú
nær, svo að ég veiti þér beina“.
97 „Þú spyr mig, gyðja ...“ Hermes á augsýnilega bágt með að flytja gyðjunni
boðskapinn, og kemur það glöggt fram í orðum hans.
105 Hann segir, að hjá þér sé maður nokkur: Til þess að sannfæra gyðjuna
um, að hann eigi enga sök á þessu erindi, þykist hann ekkert vita um
Odysseif, nefnir ekki einu sinni nafn hans.
108 syndguðu þeir móti Aþenu, sjá ath. við I 326.
109 Á eftir orðunum: ... og stórsjó er sleppt l. 110—111: „Létust þar allir
hans ágætu félagar, en hann sjálfan bar vindur og alda hingað á land“.
121 Óríon, veiðimanninn, sbr. J. G. bls. 166. Veiðigyðjan Artemis drap hann
af afbrýðisemi, af því að hann hafði áður verið unnusti hennar.
123 Ortýgju hugsuðu menn sér einhvers staðar langt í vesturátt.
125 Jasíon var vættur hinnar frjósömu jarðar. Um Demetru sjá J. G. bls.
198 og áfram.
126 Þríplægðri ekru, þ. e. um vorið, sumarið og haustið rétt fyrir sáðtímann.
132 Á eftir: ... á enu dimmbláa hafi er sleppt l. 133—134, sem eru = l.
110—111.
135 nærði, þ. e. hjúkraði.
156 við sjávarströndina, á eftir þessum orðum er sleppt l. 157: og grét og
sundursleit hjarta sitt með gráti, andvörpum og harmi.
163—4 ... og negla upp af honum háva stokka, sjá mynd bls. 83.
182 „Séður maður“, eiginl. „bragðarefur“.
185 Stýgsvatn, þ. e. fljótið Styx, sem menn hugsuðu sér, að rynni frá
Uppheimum til Undirheima sem kvísl af Ókeanosstraumi, en við Styx
unnu goðin eiða sína. Fyrirmyndin var fljótið Styx í Arkadíuhéraði. Í
fornöld var vatn þess talið banvænt. Landslagið, þar sem fljótið kemur
upp og rennur fram gljúfrin, er ákaflega hrikalegt og ömurlegt. Er því
skiljanlegt, að undirheimafljótið hafi hlotið sama nafn. Sjá J. G. bls.
103 neðst.
231 silfurbjartan möttul: Búningur hellenskra kvenna nefndist „peplos“. Það
var síð skikkja, sem þær gyrtu að sér með belti og festu um axlir sér
með sylgjum.
252 Þá reisti hann stokkana o. s. frv. Sjá mynd á næstu bls.
256 víðirflekum, eða: víðitágum.
257 og bar svo í hann góða seglfestu, eða (eftir skýringu sumra): breiddi út
lauf, bjó sér hvílu úr laufi.
272 Sjöstirnið eða Pleiades (= viltar dúfur) er stjörnumerki á suðurhluta
himins; Boótes (Nautrekinn) er stór stjarna á norðurhimni; milli þeirra
er Karlsvagninn eða Björninn, sem aldrei hverfur undir sjóndeildarhringinn:
skáldið hugsar sér, að hann skimi hræddur í áttina til hins
mikla veiðimanns Óríons, sem er stjörnumerki nálægt Sjöstirninu. Björninn
hafði Odysseifur á vinstri hönd, þegar hann sigldi í suðausturátt.
283 ofan af Sólýmafjöllum, Sólýmar var þjóðflokkur í Litlu-Asíu (e. t. v. í
Lykíu). Hugsa verður sér, að Posídon komi frá hinum austlægu Eþíópum,
en fari til helgidóms síns á Ægisvöllum (Aigai, V 381) á norðurströnd
Pelopsskaga.
296 heiðríkum, eiginl.: „er kemur upp í háloftunum“.
305 vís bani, réttara: bráður bani.
319 o. s. frv.: ágæt þýðing.
333 Ínó Levkoþea, sjá J. G. bls. 175.
336 Á eftir orðunum: ... og þrautum — er í þýð. sleppt l. 337: „kafaði upp
úr hafinu líkt og blesönd“.
350 og snúa þér undan á meðan, af því að mennsk augu mega ekki skyggnast
um of inn í hulda heima.
368 sáðhrúgum, eða: hismihrúgum.
381 til Ægisvalla, borgin Aigai var á norðurströnd Pelopsskaga; þar var
hinn íónski Posídon tignaður.
422 Amfitríta, sjá ath. III 91.
476 þar sem við blasti, eða: þaðan sem sjá mátti í allar áttir.
lindir tvær o. s. frv., eða: undir tvo samgróna runna, var annar steinlind,
en annar olíuviður.
SJÖTTI ÞÁTTUR
Þessi og tveir næstu þættir mynda að mestu eina heild í frásögninni.
Feakar, bjargvættir Odysseifs, eru huldir hulu ævintýra og þjóðsagna.
Sumir fræðimenn hafa viljað draga nafnið af gr. lo. faios = grár. Samkvæmt
því ættu Feakar upprunalega að hafa verið hinir „gráu“ ferjumenn, er flyttu
þá dauðu til Undirheima. Í Odysseifskviðu eru þeir líka eins konar ferjumenn,
því að aðalverkefni þeirra í kvæðinu er að flytja Odysseif — ekki til
Undirheima, heldur heim til hans, til Íþöku. Annars byggist frásögnin um
Feaka sjálfsagt að verulegu leyti á sögusögnum íónskra sjófarenda um
gestrisnar, ævintýralegar þjóðir á fjarlægum ströndum. Feakar höfðu áður búið
í Hyperíu, „Upplandinu“, en flutzt búferlum til Skerju; er þeim flutningum
lýst líkt og samtíma nýlendustofnun. En Skerja er venjulega talið annað nafn
á eyjunni Kerkyru, er nú heitir Korfu, í íónska hafinu. Ýmislegt fleira minnir
á sumt í fari Ióna, t. d. mætur þeirra á siglingum og sjóferðum (VI 255 og
áfram), íþróttum og kappleikjum (í 8. þætti) o, fl. Ýmislegt er einkennilegt
við stjórnarfarið, t. d. jafnræði konungshjónanna, má drottningin, Areta, sín
sízt minna en konungur.
Aðalpersónan í 6. þætti er hin glæsilega, unga konungsdóttir Násíka, sem
skáldið hefur lýst með svo snilldarlega næmum skilningi og samúð, að þessi
lýsing er talin með fegurstu kvenlýsingum fornaldar. Hin „blíðu og kænlegu
orð“, sem Odysseifur ávarpar hana með, eru ekki eintómt smjaður, heldur
sönn aðdáun og hrifning. Hann hefur ekkert til þess að endurgjalda hjálp
hennar með nema góðar óskir; en þar lætur hann ekki sitt eftir liggja.
Hann óskar henni ekki fyrst og fremst gulls og gersema, heldur segir hann:
„En guðirnir veiti þér allt, er þú æskir í hjarta þínu, og gefi þér mann
og hús og gott samlyndi; því ekkert er betra og ágætara en þegar maður og
kona búa í húsi saman samlynd í hugum“. Þegar Aþena hefur brugðið yfir
Odysseif yndisþokka og fegurð, verður Násíka dálítið feimnari og fer hjá
sér að láta sjá sig með honum og gefur honum því nákvæm fyrirmæli um
það, hvernig hann eigi að hegða sér. „Vil eg gjarna komast hjá sáryrðum
manna, að enginn þeirra spotti mig síðar ... og segi: „Hverr er gestur sá
hinn fríði og mikli, er þar fylgir Násíku?“ Telur hún síðan upp ýmsar getgátur.
Þarna lýsir skáldið á snilldarlegan hátt tilfinningum, sem svipaðar eru á öllum
tímum og í öllum löndum.
Næsti þáttur (7. þáttur) gerist í hinni glæsilegu konungshöll á Skerju. Í
honum ber einna mest á hinni tigulegu drottningu Aretu. Hún hefur auðvitað
tekið eftir því, að hinn ókunni gestur er klæddur fötum, sem hún hefur
sjálf búið til. Þegar þau eru orðin ein, tekur hún því að spyrja hann, fyrst
almennra spurninga, en síðan, hver hafi gefið honum fötin. Svar Odysseifs
er snilldarlegt. Án þess að segja til sín, segir hann nokkuð af hrakningum
sínum og hvernig hann hafi komizt til Skerju. Loks eftir allan þenna langa
inngang segir hann frá því, hversu vel Násíku hafi farizt við sig og lofar
hana fyrir umhyggjusemina. Odysseifur hagar orðum sínum svo hyggilega
og vel bæði í svari sínu til drottningar og konungs, að Alkínóus lætur þá
ósk í ljós, að hann ílendist þar og verði tengdasonur þeirra. En Odysseifur
er með allan hugann heima og biður um flutning heim hið bráðasta. Lofar
konungur að verða við þessari bæn hans. En fyrst stefnir hann saman þingi,
bæði til þess að fá þessa ákvörðun samþykkta (því að þarna ríkir ekki einræði)
og eins til þess að gefa mönnum tækifæri til þess að sjá þenna góða gest.
Í 8. þætti segir svo frá þessu þingi og veizlu þeirri, er haldin er á eftir í
konungsgarði ásamt íþróttum og kappleikjum. Í veizlunni syngur skáldið
Demódókus um Trójustríð og afrek kappanna, einkum Odysseifs. Tilgangurinn
er auðvitað sá, að áheyrandinn skuli spyrja: Hvað segir Odysseifur við
þessu? Hvaða áhrif ætli það hafi á hann, að sungið er um hann sjálfan.
Ætli hann verði ekki svo hrærður, að hann komi upp um sig? En list sinni
samkvæmt dregur skáldið áheyrandann á þessu. Í fyrsta og annað skipti leynir
Odysseifur svo geðshræringu sinni, að Alkínóus einn tekur eftir henni, en
heldur þó forvitni sinni í skefjum. Loksins í þriðja sinni, í 8. þætti, þegar
sungið er um tréhestinn, getur Odysseifur ekki tára bundizt, gengur þá
Alkínóus á hann og fær hann til að segja til sín og síðan að segja frá ferðum
sínum og ævintýrum.
4 Hýpería eða „Upplandið“ hugsar skáldið sér, að sé einhvers staðar fyrir
norðan Skerju, en Kýklópa hugsar hann sér sem ruddalega, siðlausa risa.
Þeir voru síðar, eins og Feakar og Gígantar, taldir synir Gaiu (Jarðar).
18 Þokkagyðjurnar, eða Karítur, voru þrjár, sbr. J. G. bls. 158.
28 þeim ... er leiða til húss, þ. e. brúðgumanum og ættingjum hans. Brúðkaupskvöldið
fór brúðguminn og sveinar hans heim til hans með brúðina.
Þjónustumeyjar með blys í hendi fóru fyrir og dansandi menn
á eftir.
40 laugardælirnar verður að hugsa sér sem þrær, grafnar niður í jörðina.
52 eldstóna eða arininn (eskhare).
53 band úr sjávarpurpura, þ. e. úr purpura, sem glitraði eins og sjórinn, eða
var blár eins og sjórinn.
79 tæra olíu, eða: mýkjandi (hygron) olíu.
91 bláa vatn; eiginl.: svarta, dökka (melan) vatn.
103 Taygetus var nafn á fjallgarðinum milli Lakoníu og Messeníu, en
Erýmantus var fjallaklasi í Arkadíuhéraði.
106 Á eftir orðunum: en skógargyðjurnar vantar í þýð.: í sveitinni.
Letó, móðir Artemisar, sjá J. G.
112 eitt ráð, eiginl.: annað ráð.
127 Að því mæltu o. s. frv. Þýðingin á þessum kafla er sérstaklega góð.
159 með brúðgjöfum: Sá, sem lætur flestar brúðgjafir af hendi rakna, leiðir
brúðina heim. Um daga Hómers var það enn venja, að brúðguminn
keypti brúðina fyrir einhverja tiltekna fjárupphæð; en hins vegar fékk
faðirinn dóttur sinni stundum heimanfylgju.
162 hjá stalla Appollons í Deley, þar sem Apollo (og systir hans Artemis)
fæddist.
177 í þessu ríki, réttara: í þessari borg.
188 Hinn Ólympski Seifur o. s. frv. Hugsunin er: Óhamingja þín gefur mér
ekki rétt til þess að álíta þig illan eða ógöfugan, því að Seifur úthlutar
hverjum sitt hlutskipti eftir geðþótta.
199 Hvað flýið þér, réttara: Hvert (pose) flýið þér.
207 eru undir vernd Seifs, réttara: eru frá Seifi, eru sendir af S.
230 líka sverðliljublómi, líkingin snertir lögunina, ekki litinn.
259 um akrana, eða: jarðeignina.
264 hin borðrónu skip, eða hin stafnbjúgu (amfíelíssai) skip.
303 í herbergin eða réttara: í forgarðinn (sjá I. bls. XLV).
stofuna, þ. e. salinn, skálann (megaron, sjá I. bls. XLVI og mynd).
305 við eldstóna; í höllinni í Tiryns er arinninn, sem er hringmyndaður um
3,30 m. að þvermáli, nákvæmlega í miðjum salnum, í ferhyrningi, sem
takmarkast af 4 súlum.
307 hallar sér upp við súluna, þ. e. stóllinn stendur fast upp við súluna.
308 Þar (stendur), nl. upp við sömu súluna.
312 Á eftir orðunum: ... langt að kominn er í þýð. sleppt l. 313-315:
„Verði hún þér velviljuð í huga, þá er meiri von, að þér auðnist að
sjá aftur vini þína og komast til þíns háreista húss og til föðurjarðar
þinnar“.
316 fögru svipu, eiginl.: skínandi, fáguðu svipu.
SJÖUNDI ÞÁTTUR
9 borðrónum, eða stafnbjúgum.
Apíra er ímyndað land; skáldið hugsar sér, að Feakar hafi farið þangað
í víking og rænt þar Evrýmedúsu.
30 Gakk sem hljóðlegast o. s. frv.: Þessi áminning var nauðsynleg, af því
að Odysseifur var enn ósýnilegur Feökum. Orðin: „landsmenn hér láta
illa við ókunnum mönnum“ o. s. frv. eru og sögð til viðvörunar, en í
raun og veru voru Feakar frekar gestrisnir.
59 Gígantar eru í Odysseifskviðu þjóðflokkur villtra risa, sem ásamt Kýklópum
búa í Hyperíu eða „Upplandinu“. Sagan um tortímingu þeirra er
ekki kunn.
60 óþjálga, eiginl.: glæpafulla.
74 enda setur hún niður o. s. frv., eða: ef hún er konunum velviljuð, setur
hún jafnvel niður deilur manna þeirra.
79 ófrjóva haf, eða síólgandi (atrygeton) haf.
Eins og Posídon fer til Ægisvalla (V 381), fer Aþena til Aþenuborgar og
Afrodíta til Pafusborgar (VIII 362). „Hið ramgjörva hús Erekteifs“ er
hin forna konungshöll á Akrópolis, sem var áföst hofi, þar sem hinn
forni hálfguð landsins var tignaður ásamt gyðjunni Aþenu.
81 hús Erekteifs: Erekteifur var þjóðhetja og konungur Aþeninga, Hann
býr Aþenu, er var verndargyðja borgarinnar og fóstra hans, virðulegar
viðtökur í konungshöllinni.
87 blástáli, eða réttara blágleri (kyanoio), þ. e. sambland af gleri og eir,
eins og fundizt hefur mikið af í Egyptalandi, Mýkenu og Tiryns.
91 Hundar úr gulli o. s. frv.: Líkl. fjórir hundar, tveir hvorum megin,
annar úr gulli, hinn úr silfri. Í eldri grískri list koma hundar sjaldan
fyrir sem dyraverðir, heldur hlébarðar, sfinxar og ljón.
107 tæra (viðsmjör), eiginl.: fljótandi, mýkjandi; viðsmjör var borið í vefinn
til þess að gera dúkinn mjúkan og glitrandi.
113 fjögur plóglönd, plógland samsvaraði h. u. b. einni dagsláttu. Garðurinn
er hugsaður í þremur reitum: 1) eiginlegur aldingarður (l. 114-121),
2) vínekra (122-126), 3) matjurtagarður.
119 útrænan eða Zefýrus, sem annars flytur snjó og regn, andar í þessari
ævintýralegu lýsingu hita og hlýju.
122 o. s. frv. ... á einum stað ... var ... þornað, o. s. frv.: í gríska textanum
er hér alls staðar nútíð: er ... þornar o. s. frv.
125 þar (voru), í gr.: framan á (nl. vínviðnum).
var blómið nýsprungið o. s. frv., í gr. textanum: á sumum eru blómin
að falla, sum eru í fullum blóma.
137 dreypa ... Argusbana, þ. e. Hermes, sem gaf mönnum svefninn; þess
vegna var honum fórnað síðast.
153 settist ... niður í öskuna, táknaði mikla auðmýkt; yfirleitt þótti ósæmandi
að sitja á jörðinni. Askan, sem um er að ræða, er sennil. „heilög
aska“ eftir blót; hana mátti ekki taka burt.
157 fróður í ... fornum fræðum, í gr. textanum stendur aðeins: hafði langa
og mikla reynslu.
197 hinar römmu Örlagagyðjur, á gr. Klóþes = spunakonurnar (sem
„spinna“ örlagaþráð manna). Þær voru 3: Klóþó, Lakkesis og Atrópos;
sbr. J. G. bls. 167.
296 laugaði mig, eða: lét mig laugast.
323 Hradamant var tvíburabróðir Minoss Kríteyjarkonungs, hann var sonur
Seifs og Evrópu. Þessi saga um hann er annars ókunn. Eyjan Evboia
virðist vera hugsuð sem sá staður, þar sem Títýus þoldi refsingu þá
(XI 576), sem Hradamant dæmdi hann til að þola.
326 og náðu heim aftur, nl. samdægris.
338 til að fara í, sjá ath. IV 299.
345 útskornum, sjá ath. I 440.
ÁTTUNDI ÞÁTTUR
28 er eg veit eigi hverr er: Með þessum orðum gefur Alkínóus í skyn, að
hann ætlist til þess, að hinn ókunni maður segi til sín. En hvorki þessi
áskorun né smánaryrði Evrýaluss fá Odysseif til þess að ljósta upp
nafnleynd sinni.
31 o. s. frv. Mjög góð þýðing.
37 þóftur, réttara: keipi (kleísín).
49 ófrjóva hafs, sjá ath. VII 79.
57 svalirnar, þ. e. súlnagöngin, sjá I bls. XLV.
Á eftir orðunum: af mönnum — er í þýð. felld niður 1. 58: „er safnazt
höfðu saman, voru það margir menn, bæði ungir og gamlir.
75 um deilu þeirra Odysseifs og Akkils Peleifssonar ...: Ekkert er með
vissu kunnugt um deilu þessa. Í hetjukvæði því, Kypría, sem lýsti töku
Tróju og nú er glatað, var sagt frá því, að í blótveizlu (eftir fall Hektors)
hafi þeir A. og O. deilt um það, hvort hægara væri að vinna Tróju
með brögðum eða hreysti; hafi O. haldið fram því fyrrnefnda, en A.
því síðarnefnda.
80 Pýþó var elzta nafnið á Delfi. Sem véfrétt er staðurinn aðeins nefndur
hér hjá Hómer.
121 frá hlaupstíunni eða hlaupgrindunum, þar sem skeiðið hófst; „svo
skjótt sem fugl flygi“ stendur ekki í gr. textanum.
128 á hlaupi, réttara: í stökki (halmati).
129 í töfluleik, þ. e. kringlukasti (diskos).
158 í allra áheyrn, eða réttara: upp í opið geðið á honum (anten).
171 óskjálega, þ. e. örugglega.
186 í skikkjunni, sem menn annars lögðu frá sér við slík tækifæri.
208 við vin sinn, eiginl. við gestvin sinn.
219 Fílóktetes, sonur Poiass frá Meliboju í Þessalíu.
224 o. s. frv. Þessi saga um dauða Evrýtuss þekkist annars ekki. Hann var
talinn eiga heima í Þessalíu. Ekkalía var talin vera í Þessalíu.
254 Fari einhverr fljótt o. s. frv. sýnir, að dansinn hefur ekki verið fyrirhugaður,
heldur grípur konungur til hans til þess að hin óþægilegu
atvik skuli gleymast.
258 leiksjáendur, þ. e. leikdómarar.
267 hinnar fagurkrýndu A., þ. e. með fagurt höfuðdjásn.
283 til Lemneyjar, Lemnos er eldfjallaeyja nálægt Hellusundi; hinir grísku
íbúar hennar nefndust Sintíar.
285 Ares Gullintaumi nefnist svo, af því að hestar hans höfðu gullbeizli og
gyllta tauma.
blint, eða e. t. v. réttara: árangurslaust.
288 fagurbeltuðu, eða réttara: fagurkrýndu (evstefanú).
Kýþerea kallast ástargyðjan Afrodíta, af því að hún var tignuð á eyjunni
Kýþeru, fyrir sunnan Pelopsskaga.
300 Bægifótur, gr. orðið (amfígyeis) þýðir e. t. v. „hinn handleggjafimi
snillingur“, eða „halti“. En smiðir voru oft haltir. Ástæðan til þess, að
hinn halti Hefestus og hin fagra Afródíta voru hugsuð sem hjón, er
sennilega sú, að í augum fornmanna þessara tíma voru fögur vopn og
fagrar konur hið fegursta, sem þeir þekktu.
302 Á eftir orðunum: hvar komið var er l. 303 sleppt: „Hann gekk heim
til hallarinnar, sorgmæddur í hjarta“.
309 skæða Ares, eða: ósvífna (aídelon) A.
311 visinn, eiginl.: vanheill, veiklaður (epedanos).
318 allan mundinn, í goðheimi eiga sér stað hjónabönd eins og í mannheimi.
320 er engin stillingarkona, eða er léttúðug (úk ekheþymos).
321 eirföstu, orðrétt: eirþröskulduðu.
322 hinn langskeyti lávarður, eða: verndarinn (hekaergos).
361 fór Ares til Þrakalands, því að hjá hinum herskáu Þrökum undi Ares
sér sérstaklega.
362 Kýpur, á þeirri eyju (Cyprus) var Afrodíta sérstaklega tignuð. Hún
var upprunalega austræn frjósemdargyðja, og flyzt dýrkun hennar yfir
Grikklandseyjar til meginlandsins.
364 sem hinir eilífu guðir á sig bera, eða: sem ljóma (glitra) á líkömum
hinna eilífu guða.
380 í mannhringnum, orðrétt: á dansvellinum.
393 vætt af dýru gulli, „vætt“ er hér þýðing á gr. orðinu talanton, talentu, sem
var gullstöng með ákveðinni þyngd. Attíska talentan seinna meir var
talin gilda rúmar 4000 kr. (eftir peningagildi fyrir fyrri heimsstyrjöld).
404 fílsbeini, Hómer nefnir að vísu fílsbein, en hvergi fíla.
448 hin tignarlega Kirka, sbr. X 47.
517 Deífobus, sonur Príamuss, var eftir fall Hektors aðalforingi Trójumanna;
eftir fall Parísar átti hann líka að hafa fengið Helenu fyrir konu.
524 fallið hefur fyrir föðurland sitt o. s. frv., eða e. t. v. réttara: fallið hefur
fyrir framan ættborg sína í fylkingarbrjósti samborgaranna.
556 megi stefna þangað hyggju sinni, skip Feaka eru hugsuð sem verur
sálu gæddar.
565 Posídon vera oss reiðan, eiginl.: vera afbrýðisaman við oss.
578 óförum A., D. og I., eiginl.: örlögum (oiton) A., D. og I.
NÍUNDI ÞÁTTUR
Ævintýr Odysseifs eru sögð af honum sjálfum, og gerir það frásögnina alla
eðlilegri og skemmtilegri heldur en ef þau væru sögð í þriðju persónu.
Efnið í ævintýrunum er tekið úr undraheimi þjóðsagnanna. Sum þeirra,
t. d. Kýklópa þáttur, koma fyrir í þjóðsögum ýmissa annarra þjóða. Kýklópum
er lýst sem algerðri andstæðu við Feaka og fyrirmyndarríki þeirra, og hlíta
hvorki guða né manna lögum, eins og risinn segir við Odysseif: „Heimskur
ertu, gestur, eða þú ert langt að kominn, er þú ræður mér að óttast eða
forðast guðina. Kýklópar skeyta ekki um Seif Ægisskjalda, né um hina sælu
guði; vér erum þeim langt yfirsterkari. Ekki mun eg vægja þér né félögum
þínum, til að forðast reiði Seifs, nema mér bjóði svo hugur um ...“. Í ruddaskap
sínum og siðleysi er Kýklópinn líka alger andstæða söguhetjunnar
Odysseifs, sem yfirleitt er riddaralegur og ekki grimmur að þarflausu. Hið
eina í fari risans, sem vekur samúð, er umhyggja hans og ást á skepnunum, sem
hann hefur hjá sér.
10 borðkerin, eða e. t. v. réttara: staupin (depaessín).
22 einkennilegt, eða: áberandi.
24 Dúliksey, Sámsey og S., sjá ath. I 246.
39 í Kíkónalandi, þjóð í Þrakíu við Hebrosfljót; Ismarus var borg þeirra,
stóð úti við sjó.
Ýmislegt bendir til þess, að upprunalega hafi menn hugsað sér, að
Odysseifur hafi farið ferðir sínar um norðurhluta Grikklandshafs, um
Hellusund og Svartahaf. En seinna voru flestar ferðir hans staðbundnar
við vesturhluta Miðjarðarhafs, einkum nálægt Sikiley og Suður-Ítalíu.
46 bjúghyrndum, sjá ath. I 92.
56—61 Mjög góð þýðing.
58 er sólu sveif að aklausnum, þ. e. þegar hallaði að kvöldi (eiginl.: er leysa
átti uxana frá plóginum).
64 borðrónu, eða stafnbjúgu.
65 ... höfðum kallað þrisvar o. s. frv.: með þreföldu „dauðaópi“ voru sálir
þeirra, sem fallið höfðu í öðrum löndum, kallaðar heim, svo að þær
gætu þar hlotið rétta útför.
80 Malíuhöfða, sjá ath. III 287;
Kýþera var eyja suðvestur af Malíuhöfða.
84 Lótófagar = Lótusætur voru þjóðflokkur, sem (eftir því, sem Herodót
segir) bjó í Líbýu, á norðurströnd Afríku; lótos er afríkönsk planta
(er kölluð jujube í Afríku), lágur runni með þyrna; ávextirnir, sem
eru á stærð við ólívur, eru ekki ósvipaðir fíkjum eða döðlum á bragðið.
Enska skáldið Tennyson hefur ort frægt kvæði, the Lotos-Eaters, sem
lýsir hugarástandi Lótosætanna.
98 Hafði eg þá með mér o. s. frv.: Gera verður ráð fyrir, að ekki hafi allir
etið af lótosávöxtunum og hafi þeir tilkynnt Odysseifi, hvernig komið var.
106 Til lands Kýklópanna hefur líka talizt geitaeyjan, sem nefnd er rétt á
eftir. Skáldið hugsar sér, að Kýklópar búi á sömu strönd og Lótosæturnar,
því að ekki er talað um langa ferð milli þeirra.
112 Hvorki hafa þeir ráðstefnur né lög o. s. frv., táknar, að þeir lifi ekki í
skipulegu þjóðfélagi, heldur séu algerir villimenn.
125 hlýrroðin skip, orðrétt á gr.: „með rjóða vanga“; framstafn skipsins er
skoðaður sem andlit þess, kinnungarnir kinnar. E. t. v, hefur stafninn
upprunal. verið litaður til þess að bægja burt illum öndum. Af sömu
ástæðu voru oft máluð augu á kinnung skipsins.
127 er farið gætu til mannabyggða, í gr. stendur orðrétt: er farið gætu
ýmissa erinda og komið til mannabústaða, eins og menn eru vanir.
130 mundu ... yrkt geta, orðrétt: mundu ... annars hafa yrkt.
133 mjúklendar, þ. e. grösugar.
140 í hafnarmynninu, eða e. t. v. réttara: innst í höfninni (epí kratos límenos).
151 sofið út, eða: sofnað (apobríxantes).
172 kæru (félagar), réttara: tryggu f.
184 Þar lá margt fé, orðrétt: Þar var vant að vera á nóttunni m. f.
196 geitbelg með ... víni, slíkir belgir voru notaðir undir vín á ferðalögum,
en annars var það geymt í leirkerum.
198 Ismarusborg var borg Kíkónanna; hún var í bandalagi við Tróju og
stóð því undir vernd Apollons eins og Trója.
199 og létum hann njóta þess, orðrétt stendur: af guðhræddri blygðunarsemi
(hatsómenoi).
202 sjö vættir, talan 7 var heilög í goðsögnum Apollons.
209 vanur að koma tuttugu mælum vatns í eitt fullt drykkjarker víns, mjög
sterkt hefur vínið verið, því annars var venjan að hafa 3 hluta vatns
móti 2 hlutum víns.
213 alla jafna, í gr. stendur: þegar í stað, undir eins (nl. og ég sá hellinn
og umhverfið).
231 og blótuðum, nl. ostum; menn voru vanir að blóta af því, sem þeir höfðu
handbært og sjálfir neyttu.
244 o. s. frv. Mjög góð þýðing.
250 Á milli orðanna: En er hann hafði — og ... aflokið — vantar: kappsamlega,
í skyndi.
286 en eg komst lífs af, orðrétt: eg komst hjá bráðum bana.
294 fórnuðum ... höndum, þ. e. með lófana upp, eins og við bæn.
297 og drukkið óblandna mjólk, hinir hófsömu Grikkir blönduðu oftast bæði
mjólk og vín vatni.
302 Á eftir orðunum: og leggja því fyrir brjóst honum — vantar í þýð.:
eftir að hafa þreifað fyrir sér með hendinni (epímassamenos).
322 eins stór og siglutré úr stórum tvítugærum o. s. frv., eiginl. stendur: „úr
tjörguðu tvítugæru, rúmgóðu flutningaskipi, haffæru“.
332 hverr til þess vildi verða, eiginl.: hver þor hefði til þess.
335 eg var sjálfur kjörinn, eða: eg taldi mig sjálfan fimmta mann með þeim.
357 Á eftir: „Hin kornfrjóva jörð“ vantar: einnig (kai).
388 Á eftir: ... upp með honum öllu megin vantar: „er hann snerist“ (íonta).
393 Það, sem gefur járninu hörkuna aftur, hjá Hómer kemur enn ekkert
sérstakt nafn fyrir á stáli.
409 skjótum orðum, eiginl. „hraðfleygum orðum“.
433 Á milli orðanna: vatt mig undir og kvið vantar: loðinn (lasíen).
439 jörmuðu, eða réttara: jörmuðu í sífellu.
453 hinn vondi maður, eða: hinn ragi (huglausi) maður.
454 hafði gert mig ölvaðan, orðrétt: hafði deyft huga minn með víni.
457 úr krummum mér, orðrétt: undan reiði minni.
465 urðum vér oft að fara fyrir þá o. s. frv., eða: og litum oft aftur (lituðumst
oft um), unz ...
503 „Ef einhver spyr þig ... þá seg, að Odysseifur hafi blindað þig ...“.
Aristóteles segir, að þá fyrst sé hefndin fullkomin, þegar sá, sem fyrir
henni verður, veit hvaðan hún kemur og hvers vegna. Nauðsynlegt var
líka að nefna nafnið, þar sem risinn hafði einungis heyrt nafnið „Enginn“.
525 fórnaði höndum til ... himins: Þegar menn báðu Olympsguði, fórnuðu
þeir höndum; þegar þeir báðu sjávarguði, teygðu þeir hendurnar fram
í áttina til hafsins, en þegar undirheimaguðir voru tilbeðnir, börðu menn
með höndunum á jörðina.
531 Á eftir orðunum: að Odysseifur borgabrjótur er í sumum útgáfum l.
532: Laertesson, er heima á í Íþöku.
542 og rak það upp að landi: nl. á geitaeyjunni.
552 Seifi Kronussyni sem verndara og hefnara gestaréttarins.
TÍUNDI ÞÁTTUR
Í þessum þætti og tveim hinum næstu er rakin för söguhetjunnar um
ævintýralönd þjóðsagnanna, sem byggð eru hinum furðulegustu kynjaverum.
Hefst frásögnin á komu Odysseifs til Eólusar vindadrottins og eyjar hans. Er
umhverfis hana óbrjótandi eirveggur. Þessu næst er lýst viðtökum hjá hinni
fjölkunnugu Kirku og för til hinna geigvænlegu undirheima, unz öldur
sjávarins skola hinum raunamædda manni í land á eyju landgyðjunnar
Kalypsóar, þá er hann með naumindum hafði sloppið úr klóm Skyllu,
Karybdísar og annarra meinvætta.
2 Eólus Hippótesson (Aioles Hippotades = Hvatur Stríðsvagnshetjuson):
Bæði nöfnin skulu með nokkrum hætti benda til hraða.
3 var hægt skipi að leggja að þeirri ey, (plóte ení nesó), býða flestir eða
allir: „á fljótandi ey“.
7 hafði hann gift dæturnar sonum sínum: Um hjónabönd bræðra og
systra getur víða í forngrískum sögnum. Munu þetta vera leifar frá
tímum frumstæðra trúarbragða, er konungar voru tilbeðnir sem guðir,
og hið konunglega blóð talið of dýrmætt og heilagt til að blandast
nokkru, sem væri því óæðra. Minna má t. d. á það, sem segir í VII.
þætti um Alkínóus kóng og Aretu (VII. 54 o. áfr.): „Hún á það
kenningarnafn, að hún heitir Areta, og er komin af þeim sömu foreldrum,
sem áttu Alkínóus kóng“. Þá er og sagt, að landslýðurinn
hafi fagnað henni sem gyðju, er hún gekk um borgina (VII. 66 o. áfr.),
ennfremur, að Feakar hafi átt mátt sinn og megin undir Alkínóusi (VI.
197). Allt bendir þetta orðalag til frumstæðra hugmynda um guðdómlega
konunga og drottningar. Er menning Grikkja hafði hafizt á æðra
stig, voru slík hjónabönd talin óhæfa. Verður þess og vart í kviðum
Hómers, að reynt sé að útskýra sagnir um hjónabönd systkina þannig
að þær veki ekki hneyksli. Í VII. þætti er þannig tekið fram, að er
sagt sé, að Alkínóus og Areta hafi verið af sömu foreldrum komin,
sé það svo að skilja, að þau hafi átt til sömu forfeðra að telja, og
skotið er inn ættartölu til að útskýra það nánar.
10 hinnar ilmandi hallar, samkvæmt gríska textanum: „hinnar steikarilmandi
hallar“.
12 á útskornum legubekkjum: Gríska orðið tretos þýðir eiginlega „með
boruðum götum“, annaðhvort til að festa í eitthvert skraut eða til
að binda í ólar, sem héldu uppi rúmfatnaðinum. Hér þýðir Svb.
gr. orðið lekhos „legubekkur“, en annars þýðir hann svo orðið klismos,
sbr. ath. 233.
hvíla þeir á blæjum, hevdús' en te tapesí: Sbr. aths. Il. XXIV 230.
19 Hann fló belg af níu ára gömlum uxa: Talan níu var fornhelg. Níu
ára urðu þær gróðrarvættirnar, Ótus og Efíaltes, sem segir frá í Od.
XI. 305 o. áfr. Er svo hermt, að þegar þeir voru níu vetra, þá hafi
þeir verið níu álna breiðir, en á hæð níu faðma. Í Od. XIX. 179 segir,
að Mínos, „málvinur hins mikla Seifs“, hafi ríkt í níu ár. — Vindbelgur
Eólusar á sér fjölda hliðstæðna í þjóðsögnum ýmissa landa.
23 á hinu rúmgóða skipi: Sveinbjörn þýðir svo hér og víðar gríska orðið
glafyros = „holur“.
28 Vér sigldum nú níu daga, jafnt nótt sem nýtan dag, og þegar á tíunda
degi skaut upp föðurlandi voru: Hér er trúlega fylgt frásagnarhætti
ævintýra. Allt virðist vera að enda vel, hetjan sér föðurland sitt rísa úr
sæ og reykinn stíga til himins af ættjörð sinni, — en skyndilega dynur
ógæfan á af nýju, aðrar þrautir ber að höndum, sem efni verða í ótal
sögur. Með bæn Pólýfemusar (í lok IX. þáttar) til föður síns Posídons
hafði skáldið og vakið oss hugboð um, að för þessi mundi óheillavænleg.
30 og sáum vér vitavörð þann, er í nánd var: Grísku orðin pyrpoleontas
eleyssomen þýða eiginl. „gátum séð menn, sem voru að annast elda
sína“. Sennilega mun hér átt við elda þá, sem smalar kynda, er þeir
sitja yfir hjörðum sínum.
40 frá Trójuborg, ek Troies (gaias), eiginl. „frá Trójulandi“.
64 hvaða Óhamingja hefir hremmt þig: Samkvæmt gríska textanum
„hremmdi þig“ eða „réðst að þér“.
75 því goðagremi veldur því, að þú ert hingað kominn: prýðileg þýðing,
nákvæm og þó færð í fullkoml. íslenzkan búning.
76 og féll mér það ærið þungt: Orðrétt þýðing mundi vera: „og stundi
þungan“.
81 og komum á sjöunda degi til Lamusar háreistu borgar, Telepýlsborgar í
Lestrýgónalandi: Nafnið Telepýlsborg (Telepylos) þýðir „Víðhlið“, viðeigandi
nafn á borg, sem slíkir risar byggðu. Lamus, forn hetja, talinn
stofnandi borgarinnar; sbr. Ovid. Met. XIV. 233 og Horat. od. III. 17.
Rómverjar töldu Formiae (Mola di Gaëta) vera borg Lestrýgóna, en
Grikkir hins vegar Leontinoi á Sikiley.
Þótt frásögnin um bardagann við Lestrýgóna sé stuttorð, virðist hún
í byggingu kviðunnar vera hugsuð sem samstæða viðureignarinnar
við Kýklópinn, Pólýfemus. Hin merkilega lýsing á staðháttum má ætla,
að byggð sé á frásögnum sjómanna, er séð hafi eða heyrt um norðlæg
lönd miðnætursólar og þrönga, hömrumlukta firði. Snarræði Odysseifi
og hugkvæmni hafði orðið til bjargar úr klóm Kýklópsins. Hér virðist
tilviljun ein ráða, að Odysseifur leggur skipi sínu við fjarðarmynnið
og fær þannig undan snúið háskanum.
91 hinum borðrónu skipum: „Borðróinn“ er þýðing á amfíelissa, sem sennilega
þýðir „vaggandi á báða vegu“ eða „sem lætur vel að stjórn“.
95 Eg einn lagði skipi mínu: Fallið hefur hér niður lo. svartur sem einkunn
með skipinu.
97 Eg gekk upp á hátt leiti: Orðrétt: „Eg gekk upp á klettótta hæð, þaðan
sem útsýni var“.
101 hvað mennskra manna byggi í landinu: Orðrétt: „Hvað manna æti hér
brauð á jörðinni“.
124 stungu þeir skipverja í gegn, eins og fiska: Veiðiaðferð þessi var framkvæmd
með þríforkum og aðallega beitt við túnfiska og ála.
Þegar skáldið hefur nú í stuttu máli greint frá ævintýrunum af Eólusi
og Lestrýgónum, er það nokkuð fjölorðara um viðureign Odysseifs og
hinnar fjölkunnugu Kirku á Eyju (Aiaia). Þótt skáldið muni hér hafa
farið eftir fornri ævintýrasögn, er talið sennilegt, að það hafi ummyndað
hana á þá lund að skipta liði í tvo flokka. Þannig gafst færi
á að láta Odysseifi berast fregn af fjölkynngi Kirku og tóm til að
láta fundum hans og Hermesar bera saman, svo að hetjan yrði ónæm
fyrir hinum illu töfrum. Enn fremur barst skáldinu hér tækifæri upp í
hendur til að leiða fram nýja persónu, Evrýlokkus, sem með bleyðiskap
sínum verður hér að vísu að nokkru gagni, því að hann flytur Odysseifi
fyrst fregn af óförum félaga sinna í híbýlum Kirku. Annars kemur
Evrýlokkus úr þessu fram sem eins konar talsmaður fyrir þá uppreisnarhneigð,
sem fyrst hafði orðið vart, er þeir félagar Odysseifs opna belg
Eólusar. Síðar í þessum þætti sárbiður hann Odysseif að fara ekki til
híbýla Kirku og hvetur til flótta. Enn síðar, er Odysseifur kemur til
að sækja félaga sína, þá er eftir höfðu orðið hjá skipunum, og ætlar
að fara með þá til Kirku, rís Evrýlokkus upp öndverður og leyfir sér
jafnvel að bregða Odysseifi um dauðdaga þeirra, sem Pólýfemus hafði
grandað: Allt hafði það hlotizt af ofdirfsku hans. Lætur Evrýlokkus
þó í þetta sinn undan hótunum Odysseifs. En í XII. þætti þröngvar
hann Odysseifi til að lenda á eynni Þrínakíu og fær þar talið félaga sína
á að drepa naut Helíusar. Þannig er Evrýlokkusi lýst sem hreinni andstæðu
Odysseifs, sem talsmanni heimskunnar og bleyðiskaparins. En
hugdirfð og hugkæxmni hinnar staðföstu hetju ljóma þeim mun skærar
fyrir sakir þessa dökka bakgrunns.
Kirka var, sem hér segir, dóttir Helíusar og Persu (Perseis) Ókeansdóttur,
systir Eetess, konungs í Kolkis, þess er komizt hafði yfir gullna reyfið
og var faðir Medeu, (sbr. J. G. Goðafr.).
149 lagði upp af enni víðlendu jörð: Orðið „víðlendur“ er hér þýðing á gríska
orðinu evry-odeia = „með breiðum vegum“.
151 Réðst eg þá um við sjálfan mig: Orðrétt þýðing: „Réðst eg þá um í huga
og sinni“ (kata frena kai kata þymon, þ. e. mente et animo).
152 er eg sá dökkvan reykinn: Orðið, sem hér er þýtt „dökkur“ (aiþ-ops),
þýðir í rauninni „eldglampandi“, því að á reykinn hefur slegið bjarma
af eldinum, sem logaði niðri í híbýlum Kirku.
172 vakti félaga mína: Heppilegri þýðing virðist mundu vera hér: „hughreysti
félaga mína“, þó að sögnin an-egeiró þýði auðvitað líka „að
vekja“.
179-80 og skoðuðu hjörtinn á sjávarströndinni: Orðrétt: „og skoðuðu
hjörtinn á strönd hins ófrjóva hafs“.
189 Heyrið orð mín, góðir félagar, er ratað hafið í margar raunir: Réttara
virðist: „ ... þótt ratað hafið o. s. frv.“.
195 sá eg ómælilegt haf liggja í hring umhverfis eyna: Orðrétt: „sá ég ómælilegt
haf liggja sem sveig umhverfis eyna“.
198 en þeir urðu hnuggnir: Í gríska textanum stendur: toisín de kateklasþe
fílon etor, „hugur þeirra brast í sundur“.
208 og með honum tveir og tuttugu skipverjar og þótti oss sárt að skilja
hvorum tveggjum: Orðrétt: „og með honum tveir og tuttugu skipverjar,
(allir) grátandi; og skildu þeir oss eftir harmandi“. Er þýðing Sveinbjarnar
hér gott dæmi þess, hve hann fær þjappað saman miklu af
merkingu margra grískra orða í eina góða, gagnorða, íslenzka setningu.
222 hafði hún þá uppi mikinn vef (histon epoikhomenes megan): Orðrétt:
„er hún gekk fram og aftur fyrir miklum vef“. — Vefstóll sá, er ætla
má, að tíðkazt hafi á söguöldinni grísku og hér er nefndur, mun hafa
gerður verið úr tveim stólpum með þverslá á milli. Á þessa slá var fest,
lóðrétt og samhliða, þráðum uppistöðunnar. Að neðan voru tvö sívöl
kefli (kanones Il. XXIII 761). Upp á þessi kefli var brugðið á víxl með
lykkjum þráðum uppistöðunnar. Við vefnaðinn var annað keflið dregið
fram upp að brjósti vefarans, og um leið var fyrirvafinu skotið með
vefjarskyttu (kerkis) í gegnum opið, sem þannig myndaðist. Vefarinn
varð því að standa við vefinn og ganga ýmist fram eða færa sig aftur
(epoikhesþai). Sbr. mynd á næstu bls.
228 Vér skulum því þegar gera vart við oss: Orðrétt: „vér skulum því þegar
hefja upp raust (vora)“.
229 en þeir gerðu vart við sig og kvöddu dyra: Orðrétt: „Þeir hófu upp raust
sína og kölluðu til hennar“.
233 lét hún þá setjast á legubekki og hástóla (kata klismús te þronús te):
„Legubekkur“ er óheppileg þýðing; klismos var þægilegur stóll með
baki; þronos (hástóll) var stóll á háum fótum, með bríkum og baki
og áfastri fótskör (þrenýs). Slíkir stólar stóðu oft upp við súlu eða vegg.
235 saman við pramniskt vín: Pramneios oinos var talið vera sterkt rauðvín.
(Þess getur og í Il. XI 639).
[1424.png: Vefstóllinn (skýringarmynd).]
235-236 og blandaði þenna hræring með töfrum, anemisge de sító | farmaka
lygr', eiginl.: „blandaði fæðuna skaðvænlegum töfralyfjum“.
264 Hann tók báðum höndum um kné mér og bað: Hér fer á eftir í gríska
textanum ljóðlína (X 265), sem Sveinbjörn hefur sleppt, enda er svo í
flestum handritum: „og kveinandi mælti hann til mín fleygum orðum“.
269 fá undan stýrt ógæfunni, alyxaimen kakon emar; „fáum undan stýrt
óheilladeginum“.
272 hjá enu dökkva, rúmgóða skipi: „Rúmgóður“ er þýðing á gríska orðinu
koilos, sem þýðir „holur“.
277 þá mætti mér Hermes Gullinsproti o. s. frv.: Lýsing sú á Hermesi, sem
hér fer á eftir, réð miklu um hugmyndir manna síðar um þetta goð.
281 Hví ráfar þú enn einmana: Pe d' át ktl., eiginl.: „Hvert ráfar þú
enn o. s. frv.“.
301 þá þú hefir lagt af þér vopn þín, s' apogymnóþenta: „þá þú hefur
lagt af þér klæðin“.
302 Argusbani, argeïfontes, eitt hinna um deildu orða hjá Hómer. Ætla nú
flestir, að það sé samsett af argos + fainó, (argos = skjótur, fainó =
birta) og þýði því: „sá, sem snögglega birtist“. Aðrir skýra það, einkum
fyrrum, eins og Sveinbjörn hér, svona: Argeïfontes fyrir Argo-fonevtes
(af Argos og fonevó) = „bani Arguss“.
305 kalla guðirnir það Mólý: Sjaldgæf, forn (og sakir þess) hátíðleg orð
töldu menn á hetjuöldinni grísku vera úr tungu guðanna.
324 skjótum orðum, epea pteroenta, eiginlega: „fleygum orðum“, sbr. andstæðuna
apteros (a-pteron = vænglaus) „sem ekki fær vængi“, í
orðatiltækinu te d' apteros epleto myþos: „hún hlustaði á þegjandi“, (Od.
XVII 57, XIX 29, XXI 386, XXII 398).
325 hvar áttu heima og foreldrar þínir, poþí toi polis ede tokees: „hvar er
borg þín og hvar eru foreldrar þínir?“
328 og eitt sinn látið hana koma inn fyrir varir sér, ameipsetai herkos odontón:<(i>
„og eitt sinn látið hana koma inn fyrir gerði tanna sinna“.
329. ljóðlínu hefur Sveinbjörn fellt niður: „Nei, en hugurinn í brjósti
þér verður ei blekktur“.
330 hinn víðförli, polytropos: Svona var orðið skilið fyrr. Nú telja fræðimenn
það þýða „hinn ráðkæni“ (sbr. Od. I 1), samsett af polys og trope, en
ekki af polýs og trefó.
Argusbani (sbr. ath. X 302).
Gullinsproti: Hermes bar gullinn sprota, (sbr. J. G. Goðafr. bls. 144).
341 þá eg hefi lagt af mér vopn mín, gymnóþenta: þá eg hef afklæðzt.
356 sætt, melífrón (melí + fren): „með hunangshjarta“, þ. e. hunangssætt
eða: „með sætleik gleðjandi hjartað“.
363 sára lúa, kamaton þymofþoron (þymos + fþor, fþeiró), þ. e.: „lúann,
sem bugar sálina“.
364 og smurt viðsmjörsviðarfeiti, ekhrisen líp' elaió: „og smurt ríkulega
með v.“.
367 og var skör niðri fyrir til að standa á: Hér á eftir hefur Sveinbjörn fellt
niður ljóðlínurnar 368—372 í gríska textanum, enda er þeim og sleppt
í mörgum handritum. Sömu ljóðlínur standa í Od. I 136—140: Þá kom
herbergismær með handlaug í fallegri vatnskönnu úr gulli, og hellti á
hendur honum yfir silfurfati, að hann gæti þvegið sér; þá setti hún
fram skafið borð, en hin heiðvirða matselja kom með brauð og lagði
fyrir hann, hún lét og til nógan mat og veitti fúslega það sem til var.
377 skjótum orðum, sbr. aths. X 324.
386 Þessvegna, ef þér ...: Ef þér því ...
394 hin volduga Kirka, potnía Kirke: potnía (pot — eins og í des-potes,
„herra“, „húsbóndi“) þýðir 1) drottning, 2) er það einkunn með
a) gyðjunöfnum, t. d. Heru, Aþenu o. s. frv. b) með meter, „göfug
móðir“. Hér fær Kirka þetta virðingarheiti, af því að hún fær ráðið
yfir náttúruöflunum.
410 Þeim fór líkt og sveitakálfum o. s. frv. Orðrétt þýðing þessarar líkingar
mundi vera svona: „Og eins og þegar kálfar á sveitabæ spretta allir í
senn upp og bregða á leik til móts við hjarðir kúnna, er þær koma
heim að haugnum (mykjunni) og hafa fengið nægju sína af beitinni:
Stíurnar fá ekki lengur haldið þeim, heldur hlaupa þeir kringum mæður
sínar og baula látlaust“.
Vér sjáum þá, að Sveinbjörn hefur þýtt t. d. bús agelaias: „sem ganga
úti í haga á daginn“, en það þýðir raunar nánast „kúahjarðir“; elþoosas
es kopron: „koma heim að fjósinu“, en það þýðir orðrétt „koma heim
að haugnum“; hadínon mykómenai, „og baula hátt“, orðrétt: „og baula
látlaust“.
Meðferð Sveinbjarnar sýnir allvel hátt hans: Hann túlkar Hómer með
þeim árangri, að Íslendingum kemur hann kunnuglega fyrir.
418 hraðfleygum orðum, epea pteroenta: Þessu margendurtekna orðatiltæki
söguljóðanna hefur Sveinbjörn stundum sleppt í þýðingu, stundum þýtt
„skjótum orðum“, sbr. aths. X 324.
430. ljóðlínu fellir Sveinbjörn niður. Er henni og sleppt í flestum handritum:
„og ávarpaði hann þá fleygum orðum“.
431 Hvert ætlið þér, pos' ímen, þýðir: „Hvert erum vér að fara?“
434 munum vér þá nauðugir viljugir verða að gista í garði hennar, hoi ken
hoi mega dóma fylassoimen kai ananke: „svo að vér yrðum þannig gegn
vilja vorum að gæta hinnar miklu hallar hennar“.
435 í helli Kýklópsins, (sbr. IX. þátt); messálon þýðir Sveinbjörn hér „helli“.
Orð þetta táknar eiginlega húsagarðinn, sem bæjarhúsin voru byggð
umhverfis, eða gerði kringum bæinn til að geyma í fénað.
439 við síðu mér, pakheos para merú: „frá mínu kraftalega læri (lend)“.
441 jafnvel þó hann væri mér mjög nátengdur: Í síðari tíma sögn er hann
talinn hafa verið kvæntur systur Odysseifs, Ktímenu. Getur hennar aðeins
í Od. XV. 363. Byggist sögnin auðsjáanlega á þessum orðum kviðunnar.
450 smurt þá með viðsmjörsviðarfeiti, sbr. aths. X 364.
451 loðkápur og kyrtla, khlainas úlas ... khítónas: „þykkar ullarkápur
og kyrtla“.
453 og urðu alls áskynja, frassanto t' esanta: „og höfðu þekkt hver annan
augliti til auglitis“ (sem er annar lesháttur).
463 örmæddir, askelees, (askeles, af a- + skelló = þurrka), eiginlega
„uppþornaðir“, „visnir“.
470. ljóðlínu fellir Sveinbjörn niður, og er svo gert í mörgum handritum:
„mánuðirnir liðu og hinir löngu dagar komu á hringrás sinni“.
472 mikli raunamaður, daimoní'; daimoníos (af daimón) táknar eiginlega
þann, sem er undir yfirnáttúrlegum áhrifum, heillaður. Verður þó að
þýða það með ýmsum hætti eftir sambandi. Heppilegri þýðing virðist
mundu hafa verið hér: „undarlegi maður“. Svo hefur og Sveinbjörn
þýtt orðið stundum annars staðar, t. d. Il. I. 561.
476.—479. ljóðlínu sleppir Sveinbjörn. 476.—478. l. er að finna í Od. IX 566
o. áfr., X 183 o. áfr. og XII 28 o. áfr.: Þannig sátum vér þá allan
daginn til sólseturs að veizlu, og höfðum gnógt kjöt og ljúffengt vín;
en er sól var runnin og rökkur á komið, [þá kemur 479. l.:] lögðust
þeir til svefns í enum dimmu herbergjum. En eg steig upp á hinn fagra
beð Kirku, tók um kné henni o. s. frv. ... skjótum orðum, sbr. aths. X 324.
Hjá Kalypsó var það hetjan sjálf, Odysseifur, sem knúði gyðjuna til að
leyfa sér að fara brott, af því að hann þráði Penelópu konu sína svo
heitt. Hjá Kirku hins vegar virðist hann hafa gleymt sér gersamlega, unz
hann gerir það fyrir félaga sína að fá fararleyfi. Kalypsó hafði látið
hann fara að boði guðanna, en hjá Kirku gerist ei þörf slíkrar skipunar.
Hún tekur beiðni hans strax vel, en með ýtarlegum frásögnum um
óorðna hluti býr hún hetjuna undir nýjar þrautir: Odysseifur verður að
takast merkilega ferð á hendur til ríkis Hadesar til að leita þar nánari
vitneskju um heimför sína hjá Tíresíasi spámanni.
Auðsjáanlega hefur skáldið gert sér far um að forðast nákvæma stælingu
(eða endurtekningu) á brottförinni frá Kalypsó. Fræðimenn hafa að
vísu með miklum líkindum á það bent, að Kirka, dóttir Helíusar, systir
Eetess, muni verið hafa forn sagnapersóna, þar sem hins vegar Kalypsó,
er ber hið táknræna nafn („sú, sem felur eða hylur“), muni í ríkara
mæli vera sköpunarverk skáldsins, til orðin sem hliðstæð Kirku. Þrátt
fyrir það hefur skáldinu tekizt að skapa tvær sjálfstæðar persónur: Tilfinningarnar
ná yfirhöndinni hjá Kalypsó, og barmar hún sér sáran,
þegar Hermes þröngvar henni til að láta elskhugann frá sér fara. Hins
vegar tekur Kirka á öllu með fullri geðró, og er það fjarri henni að
halda þeim Odysseifi og mönnum hans hjá sér einum degi lengur en
þeir sjálfir vilja.
491 til heimkynna Hadesar: Hades (Aídes) táknar aldrei hjá Hómer undirheima,
heldur ráðanda þeirra og drottin í eigin persónu (sbr. J. G.
Goðafr. bls. 204).
492 vofu hins blinda spámanns Tíresíasar hins Þebverska: Tíresías var
frægur spámaður í Þebuborg, er sagður var hafa lifað 7 mannsaldra,
(sumir segja raunar í 6, aðrir í 9), eða alla þá stund, er Polýdórus,
Labdakus, Laios, Ödipús og synir hans sátu að völdum í Þebu.
Um Tíresías er sögð sú sögn, að hann hafi í æsku komið að tveim
höggormum, sem voru að eðla sig á fjallinu Kyllene. Sló hann til þeirra
með staf og varð þá skyndilega ummyndaður í mey. Sjö árum síðar
kom hann að tveim höggormum, sem eins var ástatt um, og varð hann
þá aftur að karlmanni, er hann hafði slegið til þeirra með staf sínum.
Á því tímabili, sem hann var kona, hafði Tíresías gifzt. Sakir þess höfðu
þau Seifur og Hera skotið máli sínu til hans, er þau deildu um, hvort
maður eða kona hefði meira yndi af samförum. Tíresías, sem talað gat
af reynslu, tók máli Seifs og lýsti því yfir, að yndi kvenmannsins væri
tíu sinnum meira en karlmannsins. Hera, sem var á annarri skoðun,
refsaði Tíresíasi með því að svipta hann sýn. En þessa refsingu mildaði
Seifur með því að gefa honum spádómsgáfu og veita honum sjö sinnum
lengra líf en öðrum dauðlegum mönnum. Svona segist Ovid og
öðrum frá. Hins vegar er svo hermt í öðrum sögnum, að Tíresías hafi
verið sleginn blindu, af því hann hafi séð Aþenu vera að baða sig í
lindinni Hippokrene á Helíkonsfjalli. Í raunabætur veitti gyðjan honum
spádómsgáfu og gaf honum staf, er stjórnaði skrefum hans með sama
öryggi, sem hann hefði verið alsjáandi. Í lifanda lífi var Tíresías óskeikul
véfrétt fyrir allt Grikkland. Hann andaðist með þeim hætti, að hann
drakk vatn úr jökulkaldri lind, og fraus við það blóðið í æðum hans.
Eftir andlátið hlotnaðist honum guðlegur heiður.
493 heldur óskertu lífsfjöri sínu, tú te frenes empedoi eisí, „heldur óskertum
andlegum kröftum“.
507 blástur Boreasar, þ. e. Norðra, persónugervings norðanvindsins, (sbr.
J. G. Goðafr. bls. 101).
508 yfir Jarðstrauminn, þ. e. Ókeanos, strauminn, sem umflaut jarðarkringluna,
(um heimsmynd goðsagnanna sbr. J. G. Goðafr. bls. 100). Skáldið
hlýtur að hafa hugsað sér, að landræma greindi Ókeanos frá hafinu,
en mjótt sund hafi þó rofið landræmu þessa á einum stað. Hafi verið
unnt að sigla um sund þetta út á Ókeansstraum. Orðin: „En er þú
ert kominn með skipið yfir Jarðstrauminn“, hljóta þá að tákna: „Þegar
þú ert kominn í gegnum sundið, sem liggur út í Ókeanos, og straumur
leikur um inn í haf jarðarinnar“.
509 þangað sem er lág strönd og lundur Persefónu, þ. e. handan við sundið,
sem liggur úr Ókeanos inn í jarðarhafið. Um Persefónu undirheimadrottningu
sbr. J. G. Goðafr. bls. 204.
510 frjólausir pílar, íteai ólesíkarpoi, þ. e., sem fella ávöxt sinn, áður en
hann er fullþroska, í þeim skilningi „frjólausir“, og eru því ásamt
svartöspum taldir standa í sérstöku sambandi við dauðaríkið.
511 hyljótta Jarðstraumi, Ókeanó baþydíne, með djúpum hringiðum, af
því að þar mætast straumar úr Ókeanosi og jarðarhafinu.
512 Hadesar dimma heimkynnis, Aídeó ... domon evróenta, orðið evróeis
þýðir „rakur og óhreinn“, „forugur“.
513 þú skalt fara þangað o. s. frv., eiginlega stendur í gríska textanum aðeins:
„Þar út í Akkeron falla Pýríflegeton og Kókytus“.
515 og á hamarinn, í gríska textanum aðeins: „Og þar er hamar“. Hugsa
verður sér, að þar sem Pýriflegeton (þ. e. eldfljót) og Kókýtus (þ. e.
tárafljót eða grátfljót) koma saman, myndi þau dunandi foss, sem
hamar einn kljúfi í tvennt, en síðan falli fljótin í einu lagi út í Akkeron.
Akkeron verðum vér líklega að hugsa oss sem stöðuvatn. Stýxvatn:
Stýx var talið fljót í undirheimum, er rynni níu sinnum í kringum þá.
Guðirnir unnu eiða sína, þá er sízt máttu rjúfast, við vatn þessa fljóts.
526 hinn mikla draugasæg, klyta eþnea nekrón, eiginl. „hinn fræga draugasæg“,
sennilega svo, af því að skáldinu verður hugsað til anda hinna
framliðnu hetja og kvenskörunga.
528 og snúa þeim mót Myrkheimi, eis Erebos strepsas: Erebos, hinir myrku
dánarheimar undir jörðinni. Til samanburðar má benda á lýsingu á
fórn til uppheimsgoða í III. þætti, einkum III 453 o. áfr.
549 hin tignarlega Kirka, potnía Kirke, er Sveinbjörn þýddi áður (394.
ljóðlínu) „hin volduga Kirka“, sbr. aths. þar.
hefir nú sagt mér að fara, de gar moi epefrade: „hefur nú þegar veitt
mér leiðsögn“, (þ. e. um ferðina).
550 og skipuðust þeir vel við orð mín, toisin d'epepeiþeto þymos agenór:
„og skipaðist hinn karlmannlegi hugur þeirra við orð mín“.
552 Elpenor hét maður: Hin grátbroslega frásögn af þessum unga félaga
Odysseifs hefur nokkra þýðingu í byggingu kviðunnar. Sál Elpenors er
sem sé hin fyrsta, sem birtist Odysseifi í undirheimum. Kvartar hún
undan því, að lík sitt hafi eigi jarðsett verið. Er Odysseifur snýr aftur
úr ríki Hadesar, heldur hann til Kirku til að greftra vin sinn. Þannig
verður þessi atburður tengiliður milli hinna tveggja heimsókna Odysseifs
til Kirku.
566 hjarta þeirra varð sundurknosað af harmi, toisín de kateklasþe fílon etor,
þýðir Sveinbjörn áður (X 198): „en þeir urðu hnuggnir“, sbr. aths. þar.
ELLEFTI ÞÁTTUR
Um þenna þátt hefur verið mikið deilt og mikið ritað, — jafnvel heilar
bækur. Margir gagnrýnendur hafa haldið því fram, að hann væri síðari tíma
innskot, eða að sá, sem setti kviðuna saman, hafi tekið gamalt undirheimakvæði
og skotið því þarna inn. Bent er á, að Kirka segir, að Odysseifur eigi
að fara til undirheima, svo að Tíresías spámaður geti spáð fyrir honum: „En
þó verðið þér fyrst að fara aðra ferð, og fara til heimkynna Hadesar og hinnar
ógurlegu Persefónu til að leita fréttar hjá vofu hins blinda spámanns Tíresíasar
hins Þebverska ...“ (X 489 og áfram).
En þegar til kemur, segir spámaðurinn nálega ekkert um þetta. Aðalatriðið
í spádómnum er aðvörun við að slátra nautum sólarguðsins á Þrínaksey,
og um ógæfu þá, sem af því muni stafa.
Því er ekki að neita, að nokkurs ósamræmis gætir í þessu. En þegar þess
er hins vegar gætt, úr hve mörgum og mismunandi sögusögnum um ævintýr
og viðureignir við menn og ýmiss konar óvættir Odysseifskviða er spunnin, —
sögusögnum frá ýmsum tímum, en um sama manninn, þá er ekki óeðlilegt,
að einhvers staðar geti gætt einhvers smávegis ósamræmis. Víst er um það, að
mikils mundi kviðan í heild sinni missa, ef þessi þáttur væri horfinn. Einmitt
þetta, að söguhetjan sigrast á valdi sjálfs dauðans og heimsækir Hadesarheim í
lifanda lífi, hefur hann hátt yfir venjulega „heimferðarhetju“, söguhetju í
„nostos“, heldur skipar honum jafnvel á bekk með hálfguð eins og Herkúles.
En um hann var einnig sagt, að hann hefði stigið niður í Hadesarheim.[* Um þetta efni sbr. m. a. Per Krarup: Homer, Kbh. 1945, bls. 185-86,
— og Manlio Faggella: Omero, Odissea, libro XI, Roma 1939, introduzione,
bls. 5-6.]
Þátturinn skiptist eðlilega í kafla. Í 1. kaflanum eru lýsingar á blóti og
særingum, svo og spádómar Tíresíasar. Byggist hann á eldgamalli grískri trú,
að hinir dauðu séu ekki ávallt í skuggaheimum, heldur geti þeir nálgazt þá,
sem fórnir færa, og endurnært sig á blóði fórnardýranna. Í næsta kafla er löng
upptalning á frægum grískum kvenhetjum. Er það gert til skemmtunar áheyrandanum
eða lesandanum, en Grikkir höfðu mikinn áhuga á ættartölum. Þá
er stutt hlé eða hvíld í frásögninni, þar sem áheyrendur í höll Alkinóuss
láta undrun sína í ljós, en biðja svo Odysseif um að halda áfram. Næst er
kafli um viðtal Odysseifs við hina dánu kappa Agamemnon, Akkilles og
Ajant. Í frásögn Agamemnons vill skáldið sýna andstæðuna milli hinnar
vélráðu Klýtemnestru og hinnar tryggu Penelópu. Með þessum samtölum
tengir skáldið jafnframt mjög haglega allan þenna þátt við Ilíonskviðu og
viðburði hennar. Loks eru svo hinar frægu lýsingar á óbótamönnunum í Hadesarheimi,
sem engin lýsing þaðan gat án verið. Hér gætir áhrifa frá Orfeusátrúnaði
að því er snertir skoðanir Grikkja á refsingu eftir dauðann.
Skáldið hugsar sér, að viðburðir þessa þáttar gerist ýmist á yfirborði jarðar
eða í Hadesarheimi.
Með því að láta sál Elpenors birtast Odysseifi fyrst og biðja hann um
að fara aftur til Kirku til þess að jarða líkama sinn hefur skáldið mjög
fimlega tengt þenna þátt bæði við 10. og 12. þátt.
Þenna þátt hefur rómverska skáldið Virgill haft til fyrirmyndar í 6. þætti
Eneasarkviðu sinnar, svo og Dante í „Divina Comedia“.
2 hinn helga sæ, eða: hinn glitrandi, glampandi (dían).
8 mælta, gr. orðið (ádeessa) táknar annaðhvort „gædd mennskri röddu“
eða „söngfagra“.
14 Kimmería. Sumir álíta, að þeir hafi átt heima við Svartahaf, aðrir halda
fram, að nafnið sé sama og Cimbri, sem var germanskur þjóðflokkur, er
bjó á Suður-Jótlandi (Himmerland). Orðið sjálft er skýrt á ýmsa vegu.
23 Perímedes og Evrýlokkus eru aðalmennirnir meðal förunauta Odysseifs.
35-36 skar þær á háls ofan í gröfina: Þegar uppheimsguðum var blótað, var
höfði fórnardýrsins lyft upp og það drepið með stungu; en ef neðanjarðarguðum
var blótað, var höfuð dýrsins dregið niður yfir gryfju, sem
til þess var grafin, síðan var hálsæðin skorin sundur og blóðið látið
renna ofan í gryfjuna. — Blóðið er talið hafa lífsmagn. Hinir dauðu, sem
vantar lífsmagn og meðvitund, fá hvort tveggja um hríð, ef þeir dreypa
blóðinu.
37 úr Myrkheimi, á gr. stendur: „úr Erebus“, sem var eitt nafn á undirheimum
(erebus, sbr. ísl. rökkur).
38 ógefnar meyjar og frumvaxta sveinar, eða réttara: ungar brúðir og
ókvæntir sveinar.
39 hugsárar af nýfengnum harmi, þ. e. af því að deyja svo ungar.
45 hörðu (eirvopni), eiginl. grimmu, miskunnarlausu (nelei).
51 Fyrst koma vofa Elpenors o. s. frv.: Sál Elpenors hefur enga eirð á sér
í Hadesarheimi, þar sem líkaminn hafði enn ekki hlotið greftrun, en
bálför eða greftrun ásamt sorgarsiðum og harmagráti var samkv. skoðun
Grikkja skilyrði fyrir því, að sálir hinna dauðu gætu hlotið ró.
66 sakir þeirra, sem þú átt nú á bak að sjá, þ. e. þeirra, sem skildir voru
eftir í uppheimum, þeirra, sem enn eru á lífi.
69 Eg veit o. s. frv.: Hér er Elpenor látinn vera gæddur spádómsgáfu. En
samkv. trú Grikkja komst sálin, rétt þegar hún var í þann veginn að
yfirgefa líkamann, í æðra ástand og sá þá óorðna hluti.
73 að eg verði þér ekki að goðagremi: Svipað hótar hinn deyjandi Hektor
Akkillesi, ef hann misþyrmi líkama sínum. Seinna þótti Grikkjum
ódrengilegt að jarða ekki fallinn fjandmann.
74 með vopnum þeim o. s. frv., vopnin fylgdu hinum dána upprunal. til
þess að hann gæti notað þau annars heims.
78 og reis upp á haugi mínum ár, altítt var á grískum gröfum eitthvert
merki, er gaf til kynna ævistarf eða atvinnu hins látna.
81 Meðan við ræddumst þannig við: Odysseifur er einn með Elpenor, því
að förunautar hans eru farnir til þess að framkvæma skipanir hans um
að flá kindurnar og brenna þær (44. l.).
91 hann hélt á gullnum sprota, sem tákni tignar sinnar.
103 hans kæra son, nl. risann Pólýfemus.
107 við Þrínaksey, nafnið er dregið af gr. orði, er þýðir þrífleinn; síðar var
þetta nafn gefið Sikiley.
117 færa eða e. t. v. réttara; bjóða (dídontes);
brúðgjafir voru upprunalega gcfnar foreldrum stúlkunnar af biðlinum, en
síðar var það öfugt; hvorrar tveggja venjunnar verður vart hjá Hómer.
123 ... manna, er ... ekki eta fæðu salti blandna, hirðingjar, fjarri sjó, er
lifðu nær eingöngu á dýrafæðu, þekktu ekki salt eða fyrirlitu það.
131 hrút, tarf og graðsvín, algeng samsetning fórnar. Rómverjar nefndu
það suovetaurilia.
134 Ekki muntu sjódauður verða, grísku orðin (þanatos de toj ex halos
átó ... elevsetai) geta þýtt: „Dauða muntu sjálfur frá hafi hljóta“, —
eða: „Þegar þú ert af hafi kominn, muntu sjálfur hljóta dauða“, eða:
„Sjálfur muntu fjarri hafi dauða hljóta“. Meiningin virðist vera sú, að
þegar Odysseifur er kominn heim, eigi hann að forðast hafið. — Sumir
telja, að Odysseifur (og jafnvel Penelópa líka) sé upprunalega guðdómur,
sem á vissum stöðum hafi útrýmt dýrkun Posídons. Þess vegna sé auðskilið,
hvers vegna þeir tveir geti ekki samrýmzt.
139 ákveðið, gr. orðið (epeklósan) táknar orðrétt, að guðirnir eigi að láta
örlaganornirnar „spinna“ honum þetta, en ein þeirra (þriggja) hét einmitt
spunakonan, Klóþó.
156 en hér er ógurlegt um að litast fyrir lifandi menn, gr. orðin geta líka
þýtt: „lifendum veitist erfitt að sjá þessa staði“, sbr. nýjustu ensku þýðingu
(the Odyssey, transl. by E. V. Rieu, the Penguin Classics): „This
is no easy place for living eyes to find“.
Á eftir þessari línu er í þýð. sleppt þessum þremur línum: „Því að á
milli okkar falla mikil fljót og ægilegir straumar, fyrst og fremst
Jarðarstraumur (Okeanos), en yfir hann megnar enginn fótgangandi
að komast; skips þarf með og það trausts skips“.
173 eða banaði þér hin örvumglaða Artemis: Grikkir tróðu því, að þeir,
sem dóu snögglega eða voveiflega, hefðu orðið fyrir örvum þeirra
Apollons eða Artemisar (sbr. J. G. bls. 130-34).
175 tign, þ. e. konungstign.
179 höfðingjum Akkea, þ. e. biðlarnir, sem oft eru nefndir Akkear (t. d. XX 3,
XXIII 357, XXIV 426).
181 Á eftir orðunum „Kona þín er ...“ vantar í þýð. „vissulega“ (kai líen).
184 þinni veglegu tign o. s. frv.: Smákonungi þeirra tíma bar þessi fríðindi:
1) konungsjarðir, 2) tvöfaldur skammtur af kjöti, 3) hlutur í herfangi,
4) gjafir og svipuð fríðindi.
192 sumar, Hómer talar aðeins um 3 árstíðir: vetur (kheimón), vor (ear)
og sumar (þeros).
193 (á hinum) frjóvsama (vínakri), eða hæðótta (oinopedoio).
198 beinskeyta Örvumglöð, þ. e. Artemis; gr. orðið, sem hér er þýtt „beinskeyta“
(evskopos), þýðir annars (einkum um Hermes) „hinn glöggskyggni“.
203 ástúð þín, eða réttara: vöntun á ástúð þinni.
213 Persefóna, sbr. J. G. bls. 204.
235 Týró var dóttir Salmoneifs, en sonardóttir Eólusar. Með Posídon í líki
fljótsguðsins Enípeifs átti hún synina Pelías og Neleif (föður Nestors,
sbr. XI. 281. l.). Hún var mjög fræg fyrir fegurð sína (II 120. l.). Sagnir
þessar eru frá Böótíu og Suður-Þessalíu, en Enipeifur var fljót í Þessalíu;
Posídon var tignaður þar mjög. Salmoneifur var bróðir Sísýfuss, er
síðar er nefndur í þessum þætti.
244 Á eftir orðunum: og hina dauðlegu konu hefur í þýð. fallið niður l.
245: „hann leysti meyjarbelti hennar og brá svefni yfir augu hennar“.
251 Á eftir: lát ei á neinu bera vantar í þýð. „og nefndu ekki nafn mitt“.
256 Pelías, konungur í Jólkus, borg í Þessalíu, flæmdi Neleif bróður sinn
burt, en neyddi Jason, son hins bróður síns, Aisons, til þess að fara til
Kolkis til þess að sækja gullna reyfið (sbr. J. G. bls. 243—247). En
Peleifur fluttist til Messeníu og stofnaði borgina Pýlus í suðvesturhluta
héraðsins, beint á móti eyjunni Sfakteríu.
259 og riddarann Amýþaon, eiginl. vagnhetjuna (hippíokharmen) A., því
að kapparnir börðust í vögnum.
260 Antíópu, sjá J. G. bls. 222. Asópos, faðir hennar, var fljót (og fljótsguð)
í Böótíu, sem Þeba var höfuðborg í.
264 turnlausri, þ. e. án múra, óvíggirtri.
266 Alkmenu, sjá J. G. bls. 234.
269 Megara, dóttir Kreons, var kona Heraklesar; en í æði því, sem Hera lét
koma yfir hann, drap hann konu sína og börn, eins og sorgleikaskáldið
Evrípídes lýsir í harmleik sínum „Æði Heraklesar“. Sbr. J. G. bls. 236.
sonur Amfítrýons = Herakles.
271 hina fríðu Epíköstu, það var nafn hennar hjá Hómer og elztu skáldunum
grísku, síðar nefndist hún Iókaste. Hún var dóttir Þebverjans Menoikuss,
systir Kreons, kona Laiosar, en móðir Ödípusar og kona hans. Um hin
ömurleg örlög hennar og Ödípusar hefur sorgleikaskáldið Sófókles ort
3 sorgleiki. Sjá J. G., bls. 247-249.
284 í Orkómenus, Mínýjaborg, orðrétt: í hinni mínýísku Orkómenusborg; sú
borg var í Böótíu, en Mínýar var þjóðflokkur, kenndur við hálfguðinn
Minýas.
290 Fýlöku í Þessalíu, en þar var nautahjörð sú, er Ífíkles hafði rænt frá
Týró, móður Neleifs.
hinn ágæti spámaður var Melampus, sonur Amýþaons, hálfbróður
Neleifs. Þegar bróðir hans Bías bað Peróar, tók hann að sér að vinna
þrautina, þ. e. að ná nautunum fyrir Neleif. Hann var reyndar, eins
og hann hafði séð fyrir, tekinn til fanga af hirðunum, sem nautanna
gættu, og varpaði Ifíkles honum í fangelsi, þar sem hann var í heilt
ár. En með spádómsgáfu sinni fékk hann tækifæri til þess að gera
Ifíkles greiða (sbr. hér á eftir), og í launa skyni fékk hann lausn og
nautin í viðbót, en þau fékk bróðir hans og þar með Peróar.
297 hann hafði sagt honum margs konar spádóma o. s. frv., hér er átt við,
að Melampus hafði sagt Ifíkles, sem var barnlaus, hvernig hann ætti
að losna við þá ógæfu. Fyrirætlan Seifs varð þá framgengt, því að
einmitt þess vegna hafði spámaðurinn ratað í þessar raunir.
299 hún átti við Tyndareifi o. s. frv., venjulega eru bræðurnir (líka nefndir
Dioskúrar, þ. e. synir Seifs) taldir synir Seifs, a. m. k. annar þeirra. Sjá
nánar J. G. bls. 113—114.
305 Ifímedía frá Þessalíu taldist til sömu ættar og Salmoneifur og Kreteifur,
er nefndir voru hér á undan (236. l.). Sonum hennar, Alóunum, er hér
jafnað við risana (Gígantana), sem dæmi um mannlegan hroka gagnvart
guðunum. Upprunalega hafa þeir sennilega verið akuryrkjuguðir.
Ossa og Pelíon voru fjöll í Þessalíu.
Óríon var hinn mikli veiðimaður, ástvinur Morgungyðjunnar Eosar eða
Áróru, síðan varð hann stjörnumerki. Sjá J. G. bls. 166.
313 ... orð um það á Ólympus ... gegn hinum ódauðlegu guðum, e. t. v.
réttara: orð um það, að þeir ... gegn hinum ód. guðum á Ólympus.
— Annars hugsuðu Grikkir sér ýmist, að guðirnir byggju á Ólympus
eða einhvers staðar á himnum.
318 sonur Seifs = Apollo, sbr. J. G. bls. 124.
321 Fedra, Prókrísis og Aríaðne voru allar kvenhetjur í attískum þjóðsögum.
Um Aríöðnu, Þeseif og Mínós sjá J. G. bls. 231-232.
Día er venjulega talin vera Naxey (Naxos), en er líkl. fremur smáey
rétt hjá Krít.
322 fárhugaða, eða vitra (oloofronos).
326 Mera átti Lokros með Seifi og var þess vegna drepin af Artemis.
Klýmena var móðir Ifíkless (290. l.)
Um Erífýlu og svik hennar sjá J. G. bls. 249.
342 Á eftir orðunum: hinn aldraði öðlingur E. er l. 343 sleppt í þýð.:
„sem elztur var Feakanna“.
344—45 orðrétt: „ekki brýtur það í bág við ætlun vora og skoðun, er
hin vitra dr. talar til vor, og er yður bezt ...“
348 orðrétt: „Þessi tillaga skal framkvæmd verða“.
366 að menn setja þar saman lygar, eða: svo að menn gruni það ekki (sjái
ekki), að það séu lygar.
371 sveitungum, eða félögum (hetarón).
374 einhverjum ævintýrum, eiginlega: furðulegum ævintýrum, miklum afrekum
(þesskela erga).
384 á heimleiðinni eða: við heimkomuna; með orðunum „hinni illu konu“
er átt við Klýtemnestru, konu Agamemnons, sem sagt er svo frá á eftir
í sambandi við hina hryggilegu heimkomu Agamemnons.
386 kvenvofunum, á gr. stendur: vofum hinna veikbyggðu kvenna (gynaikón
þelyteraón).
403 berjast til að verja borg og konur, eða: berjast um borg og konur
(sem herfang).
415 vinagildi, eins og lýst er í upphafi 4. þáttar.
422 Kassandra Príamusdóttir er ekki nefnd í lýsingunum á dauða Agamemnons
í 3. og 4. þætti.
423-24 hóf eg þá upp hendur mínar o. s. frv., eða: „Þar sem ég lá dauðvona
á gólfinu, rekinn í gegn af sveðjunni, ætlaði ég að hefja upp
hendur mínar“ (til varnar — eða: „Þar sem ég var dauðvona, rekinn
í gegn af sv., ætlaði ég að hefja upp h. m., en lét þær hníga aftur niður“).
til að veita mér nábjargir o. s. frv., orðrétt: að loka augum mínum og
munni, þó að ég væri að fara til Hadesar heima.
438 Af Helenu hlauzt það o. s. frv., af því að hún átti sök á Trójustríði.
451 sem siður er til, eða: eins og vera ber (he þemis estín).
464 hégómamál, þ. e. lausmælgi (anemólía).
468 Antílokkus var kærastur Akkillesi næst Patróklosi. Hann féll fyrir
Memnoni, suni Morgungyðiunnar, sbr. IV. þátt 188. l.
471 Eakniðja = Akkilless, því að Peleifur, faðir hans, var sonur Eaks.
480 grýttu, eða: klettótu (paipaloessan).
488 nefndu ekki dauðann við mig, orðrétt: reyndu ekki að sættu mig við
dauðann.
492 af mínum göfuga syni, nl. Neoptólemusi, sem Akkilles hafði átt á eyjunni
Skyros og skilið þar eftir, þegar hann fór í Trójustríð.
495 Myrmídónar, þjóðflokkur Akkilless í Þessalíu.
Hella (Hellas), borg og hérað í Þessalíu.
Fiðja var höfuðborg Myrmídóna.
497 að hann sé orðinn ellihrumur, orðrétt: að ellin lamar hendur hans og
fætur.
509 Skýrey (Skyros) er í námunda við eyjuna Evboiu. Þangað hafði Þetis
hafgyðja sent son sinn Akkilles og komið honum fyrir hjá Lýkomedesi
konungi og látið hann búast kvenbúningi, af því hún vildi ekki, að
hann færi í Trójustríð. En Odysseifur hafði uppi á honum með ráðkænsku
sinni. Við einni dóttur Lykomedesar átti Akkilles son þann, er
hér er nefndur.
520 Evrípýlus var konungur Ketea, sem var þjóðflokkur í Mysíu í Litlu-Asíu.
Móður hans Astýoku sendi bróðir hennar Príamus dýrindis gjöf
og fékk hana til þess að senda son sinn sér til hjálpar í Trójustríði, þar
sem hann svo beið bana.
521 konu hans, réttara: konu (þ. e. systur hans), eða: konugjöfum (gynaión
heineka dórón).
522 Memnoni, syni Eosar, konungi Austur-Eþíópa.
523 í hest þann o. s. frv.: um tréhestinn, sjá IV 272 og VIII 493.
524 Á eftir orðunum: umsjón yfir öllu er sleppt í þýð. l. 525: „bæði að
opna hið trausta fylgsni og að loka því“.
539 á Gullrótarenginu, með orðinu „gullrót“ þýðir Sveinbjörn gr. orðið
asphodelos, en það var jurt með mikil og þykk blöð, en gul, hvít og
fjólublá blóm. Hún óx á afskekktum stöðum, og var oft gróðursett á
gröfum, þess vegna hugsar skáldið sér hana í undirheimum.
542 og tjáði hver raunir sínar, eða réttara: og spurði mig hver um áhyggjuefni
sín.
546 hin heiðvirða móðir hans, nl. hafgyðjan Þetis.
Í þýð. er felld niður l. 547: en það voru tróverskar meyjar og Pallas
Aþena, sem dæmdu.
Eftir fall Akkilless, mælti móðir hans svo fyrir, að sá skyldi hljóta vopn
hans, sem þeirra væri maklegastur af Akkeum. Þeir Ajant og Odysseifur
kepptu báðir um þau, og varð Odysseifur hlutskarpari. Eftir frásögn
Ilíonskviðu hinnar skömmu (Míkra Ilías, sem var eins konar framhald af
Ilíonskviðu) var í dómnum farið eftir áliti nokkurra tróverskra meyja,
sem menn höfðu heyrt tala saman, og eftir innblæstri Aþenu töldu
þær Odysseif eiga þau skilið. Ajant féll þetta svo þungt, að hann afréð
að ráða sér bana. Hefur sorgleikaskáldið Sófókles lýst þessu í sorgleiknum
„Ajant“.
568 Mínós, konungur á Krítey, Óríon, veiðimaður, og Herakles halda áfram
sömu iðju og þeir höfðu haft í jarðlífinu. Þessi skoðun á rót sína að
rekja til Orfeustrúar.
572 Óríon, sjá ath. við l. 305.
576 Titýus jötunn, sjá J. G. bls. 133.
577 yfir níu stakksvelli, gr. orðið (peleþron), sem Svbj. þýðir með stakksvelli,
táknar eiginlega plógfar það, sem plógneytið gerir í einni atrennu. Lengdarmálið
peleþron var um 100 f. eða rúmir 30 m., svo að Titýus náði þá
yfir rúma 277 m.!
581 Pýþóar, Pýþó nefndist seinna Delfí.
Panópa var borg í Fókis, skammt frá Delfí.
landfögru, orðrétt: með hina fögru dansvelli.
583 Um Tantalus og ætt hans sjá nánar J. G. bls. 250.
593 Sisýfus, konungur í Korinþuborg. Orðið þýðir eiginl. sá „slægvitri“. Sjá
nánar J. G. bls. 224.
Báðir tveir, Tantalus og Sisýfus, eru tákn mannlegrar, árangurslausrar,
viðleitni. Gætir þar einnig áhrifa frá Orfeustrú um endurgjald annars
heims.
601 Herakles, sjá J. G. bls. 234—243.
Hómer nefnir hann aldrei sem guð. Hann er af dórískum uppruna.
Afrek hans eru aðallega tvenns konar: 1) hann leggur að velli ófreskjur,
eins og aðrir kappar þjóðsagnanna og 2) táknræns eðlis; hann sækir
epli Vesturmeyjanna (Hesperídanna), þ. e. verður ódauðlegur, og hann
sækir hundinn Kerberus til undirheima, þ. e. hann sigrast á sjálfum
dauðanum.
603 Heba, gyðja æsku og fegurðar, sem Herakles gekk loks að eiga. Sjá
J. G. bls. 163. Á eftir er sleppt l. 604: dóttur hins mikla Seifs og hinnar
gullskóuðu Heru.
610 var þar á markað o. s. frv., eða: voru þar á markaðar furðulegar myndir af
björnum o. s. frv.
613 Sá sem þann fetil o. s. frv.; eða: Óskandi, að sá sem þann fetil hafði
tilbúið, hefði ekki þessa gersemi gert eða gerði aðra slíka.
621 háður miklu minni manni, nl. Evrýsteifi konungi, frænda sínum, sem
hann varð að vinna þrautirnar fyrir. Sbr. J. G. bls. 234.
623 hundinn, þ. e. Kerberos, hinn þríhöfðaði vörður, sbr. J. G. bls. 104.
630 langaði til að sjá, á eftir þessum orðum er sleppt l. 631: Þeseif og
Píríþóus, hina glæsilegu guðasyni.
634 höfuð Gorgóar, þ. e. höfuð Medúsu, eða Medúsu sjálfa. Hún var
ógurleg ófreskja, og urðu allir að steini, sem sáu höfuð hennar, sjá
J. G. bls. 228—229.
TÓLFTI ÞÁTTUR
Í upphafi þessa þáttar, þegar Odysseifur hefur orpið haug yfir Elpenor,
förunaut sinn, tekur Kirka hann afsíðis og segir honum — miklu nákvæmar
en Tíresías hafði gert — fyrir um ævintýr og raunir, sem hann muni rata í.
Það er yfirleitt algengt, að skáldið gefi ýmislegt það í skyn fyrir fram, sem
á fram að koma. Er það gert bæði til þess að leggja áherzlu á það, sem
skáldinu virðist mestu skipta, enda eru endurtekningar eitt einkenni sögu-
og hetjuljóða. Þá fær skáldið auk þess tækifæri til þess að skýra frá ýmsu,
sem Odysseifur sjálfur gæti ómögulega fengið tækifæri til þess að sjá og
heyra, og þetta gerir ferðalýsinguna nákvæmari.
Þessi síðustu ævintýr Odysseifs vekja ekki síður forvitni og eftirtekt
lesandans en hin fyrri. Hvernig munu Sírenurnar reyna að heilla hann?
Hvort mun hann heldur kjósa að fara fram hjá Skyllu eða Karybdís? Af
ásettu ráði segir skáldið ekkert um það fyrir fram og lætur lesandann vera
í óvissu til þess síðasta, hvora leiðina hann muni velja. En af því að hann
velur leiðina fram hjá Skyllu, lætur skáldið Odysseif, þegar skipið er brotið
undir honum, hrekja til baka og komast þá í nánari kynni við hina ægilegu
Karybdís.
Um landfræðilega staðarákvörðun ævintýranna hefur verið rætt í innganginum
(sjá bls. XXXVI o. áfr.). Menn greinir á um, hvort Skyllu og Karybdís
sé að finna í Messínusundi, og sé þá Þrínaksey Sikiley, eða í sundinu milli
Maleuhöfða og Kýþerueyjar, og sé þá Þrínaksey Pelopsskagi. Auk þess bregður
fyrir dráttum úr öðrum ferðasögum og ævintýrum, einkum Argóarfaranna, en
ferðir þeirra voru tengdar við Svartahaf og sundin inn í það.
Í síðasta sorglega ævintýrinu, ævintýrinu á eyju Helíosar og drápi
nautanna, kemur enn fram, sem svo oft í kviðunni, andstæðan annars vegar
milli framsýni og ráðkænsku Odysseifs og skammsýni og heimsku förunauta
hans hins vegar. En á þann streng er slegið þegar í upphafi kviðunnar, þar
sem segir (í 8.—9. l.): „Því þeir (þ. e. félagar hans) tortímdust sökum
illverka sinna, er þeir fávísir átu naut Helíus Hýperíonssonar, sem þess
vegna lét þá missa heimkomudagsins“. Annars gerir skáldið sér far um að
skýra það, hvers vegna mennirnir féllu fyrir freistninni: sultur svarf að þeim,
og hinn illi Evrýlokkus ginnti þá. En þó að þeim væri nokkur vorkunn, létu
guðirnir refsinguna koma yfir þá. Skipið brotnaði, og allir fórust nema
Odysseifur, sem komst eftir 9 sólarhringa volk upp á Ógýgju, eyju Kalypsóar,
sem tók við honum og hélt honum hjá sér í 7 ár.
Þar með lýkur ævintýrunum, og vér erum allt í einu aftur stödd í höll
Feakakonungs eftir þetta langa innskot í frásögnina.
4 leikvellir, orðrétt: dansvellir.
7 og þá vér höfðum sofið hér út, eiginl.: Þar blunduðum vér og biðum
(apobríxantes).
11 Hjuggum vér ... á útskaga nokkrum, brenndum o. s. frv., eða: ... og
brenndum líkið fremst á útskaga nokkrum.
16 Á eftir orðunum: K. varð þess ..., vantar orðið „auðvitað“ (ara) (nl. af
því að hún var gyðja) í þýð.
26 heimsku, eða (réttara): undirferli.
39 Sírenur („hinar hljómfögru“) hugsuðu menn sér, að væru tvær systur,
er byggju á eyju einhvers staðar milli Eyju (Aiaia) og Skylluhamra
og heilluðu sjófarendur til sín með söng sínum og tortímdu þeim svo.
Menn hugsuðu sér þær annaðhvort sem fugla með kvenhöfuð eða
konur með fuglshöfuð. (Sbr. dísina Lorelei í þýzkum þjóðsögum og
kvæði Heine um hana).
41 óvörum, eiginl. „af ókunnugleika“.
53 og mælist til, eiginl.: mælist til og skipar.
60 dimmleitu, eða: dökkeygu, bláeygu (kyanópídos).
61 Villihamra, eiginl. „Skellibjörg“ (Plangtai), en þangað dragast skipin
af ómótstæðilegu afli og farast.
63 styggu dúfur (Pleiödur), helgaðar Seifi, færðu honum ambrósíu (ódáinsfæðu)
frá héruðunum við Jarðarstraum (Okeanos).
70 hin þjóðkunna Argó, skip Jasons með gullna reyfið.
Eetes var konungur í Kolkis við Svartahaf, faðir Medeu. Sjá J. G. bls.
243—47
76 Engi ... mundi komast þar upp o. s. frv.: eiginl.: ... mundi fá klifrað
þar upp eða jafnvel ekki stigið þar á land.
81 Þar skuluð þér ... stýra, eiginl. þar kunnið þér ... að geta stýrt.
83 Ekki mun röskur maður o. s. frv.: Þ. e. svo hátt er hellirinn fyrir ofan
sjávarmál, þó að hann sé í miðjum hamrinum.
85 Skylla („hin dunandi, ólgandi“); myndir af sjóskrímslum með hundshaus
eða hundar að framan, sem skip eru að verjast gegn, hafa fundizt í
Mýkenu.
95 skyggnist um, eða: þreifist um (perímaimóósa).
96 hákarla, sumir þýða gr. orðið (kynas) með „seli“, aðrir „sverðfiska“.
97 Amfítríta var kona Posídons, sjá J. G. bls. 172.
104 Karybdís er persónugerving hringiðunnar.
107 Jarðarskelfir, þ. e. Posídon.
127 Þrínaksey, annaðhvort Sikiley eða Pelopsskagi (sjá inngang að skýr.
við þenna þátt).
129 sjö hjarðir, talan sjö var sérstaklega helguð Apollon.
133 Hýperíonssyni, eiginl. „Himinguði“, viðurnefni á sólarguðinum Helíos.
146 ... á þófturnar, á eftir er sleppt l. 147: og þegar hverr var kominn í
rúm sitt, lustu þeir árum hinn gráa sæ.
158 á eftir forðast er í þýð. sleppt orðinu: heillandi.
199 kæru (félagar), eða tryggu (eríeres).
202 reykinn, þ. e. brimlöðrið.
215 sitja, nl. kyrrir.
og lemja, eiginl. halda áfram að lemja.
228 (fór í mín ágætu) vopn, eða réttara: ... herklæði (tevkhea).
233 dimma, eiginl. dimmbláa.
253 forsendu = grunnsökku; á gr. stendur: „nautshorni“, og er þá átt við
hólk þann úr horni, er hafður var rétt ofan við öngulinn, svo að
fiskarnir gætu ekki „bitið af“.
257 þeim grimmu aðförum, eða: í hinu hræðilega helstríði (aine deíoteti).
284 um napra nótt, orðrétt á gr.: um hraða (þoen) nótt, til þess að tákna
hina skyndilegu komu næturinnar, sem í Suðurlöndum kemur snögglega
án hálfrökkurs.
295 óhamingja, eiginl. óhamingjuvættur (daimón).
296 skjótum, eiginl. hraðfleygum (pteroenta), eins og oft; orðin eru
hugsuð sem litlir fuglar.
325—26 landsynningur, þ. e. sunnanvindur (Notos), en hann og austanvindur
(Evros) voru óhagstæðir þeim, sem komu úr norðvestri.
336 þvoði eg hendur mínar, nl. áður en hann baðst fyrir.
355 bjúghyrndu, eða: vagandi (helíkes), sbr. ath. við I 92.
357 grönn (blöð), eða: græn, safamikil (terena).
368 borðróna (skips), eða stafnbjúga (amfíelisses).
369 sætan, eða: heitan (þermos).
409 báða siglustagina, var einn kaðall, sem brugðið var um siglutoppinn og
síðan fest í skut og stafni. Sjá mynd, bls. 396.
420 Eg lét fyrirberast, eða: En eg reikaði (skundaði) um skipið.
423 ráband, gr. epítonos, sjá mynd bls. 396.
ÞRETTÁNDI ÞÁTTUR
Með þessum þætti hefst síðari hluti kviðunnar um heimkomuna til Íþöku
og viðureignina við biðlana.
Ferðin frá Feökum fer fram að næturlagi, og er það e. t. v. endurminning
um það, að þeir áttu að vera ferjumenn til Undirheima. Um Feaka, sjá
nánar innganginn að skýringum við 6. þátt. Hin einkennilega frásaga um
skip Feakanna, sem breytist í klett, er stundum skýrð á þá lund, að hún
sé skýringarsögn á einhverjum kletti, er líkist skipi. Einn fræðimaður[* V. Bérard: Les navigations d'Ulysse, Paris 1927—29.] getur
þess, að enn þann dag í dag sé klettur einn við Korfu nefndur „skipið“.
Tvær ástæður hafa getað vakað fyrir skáldinu til þess að skjóta þessari frásögn
inn: 1) að minna á reiði Posídons og 2) benda á, að þetta hafi verið síðasta
leiðsöguferð Feakanna.
Odysseifur er nú heima á Íþöku, en þekkir ekki ættland sitt. Slíkur
misskilningur og leyndir eru mjög algeng fyrirbrigði í Odysseifskviðu. Áheyrendur
vita vel, að Odysseifur er heima, en sjálfur hefur hann ekki hugmynd
um það. Mitt í gleði sinni yfir fjársjóðum þeim, sem hann hafði tekið með
sér, „tregaði hann föðurland sitt“. Svipað kemur fyrir í 19. þætti 209. l., þar
sem Penelópa harmar mann sinn, sem situr við hlið hennar.
Þá birtist Aþena honum. Allt samtalið milli þeirra er gamansamt og er
ætlað til þess að skemmta áheyrendunum. Keppa þau hvort við annað í undanbrögðum,
blekkingum og kænsku. Þau dyljast hvort fyrir öðru: Aþena í
gervi ungs sauðahirðis, en Odysseifur með lygasögunni í l. 256 og áfram,
þar sem Odysseifur kemur fram sem slunginn lygalaupur og hugmyndaríkur.
En einmitt slíkar lygasögur voru yndi og uppáhald Íónanna. Og því betri
þóttu slíkar sögur sem hugmyndafluginu var gefinn lausari taumurinn. Eftir
lygasöguna brosir Aþena og tekur allt í einu á sig líki fríðrar konu. Hún
ávítar hann, að hann skuli ekki einu sinni, þegar hann er kominn heim í
föðurland sitt „láta af prettunum og orðslægðinni, sem þér eru svo hjartakær“.
Nú hætta þau að dyljast. Aþena dreifir þoku þeirri, sem hún hafði hjúpað
Odysseif í, sýnir honum landið og segir honum, hvernig ástatt sé heima hjá
honum. Hún heitir honum hjálp í komandi baráttu og breytir honum í
auman og óásjálegan beiningamann. Ýmsir fræðimenn hafa talið þetta ósamræmanlegt:
1) Odysseifur er orðinn svo gamall, að hann er óþekkjanlegur
(engin breyting nauðsynleg), 2) Aþena breytir honum í betlara til þess að
gera hann óþekkjanlegan (án breytingar hefði hann þá getað þekkzt!). En
við því er fyrst og fremst að segja, að í slíkum skáldskap má ekki beita
ströngustu reglum rökfræðinnar. Og, ef vel er að gáð, eru andstæðurnar ekki
eins miklar og af er látið. Odysseif verðum við að hugsa okkur nokkuð
aldraðan, en þó enn mjög glæsilega hetju. En þessi hetja er klædd í tötra
og með betlarastaf allt frá 14. til 23. þáttar. Hann leikur beiningamanninn,
en hið sanna eðli hetjunnar skín þó alltaf í gegn. Með töfrafullri breytingu
Aþenu gefur skáldskapurinn aðeins til kynna, að hann sé óþekkjanlegur.
Og dulargervinu getur hann svipt snögglega af sér eins og hjúp, t. d. í 16.
þætti, þegar hann birtist Telemakkusi syni sínum í sinni sönnu mynd. Gagnvart
biðlunum og Penelópu er hann óþekkjanlegur, en gríman verður sí og æ
gagnsærri, þangað til hann loks í byrjun 22. þáttar rífur tötrana af sér og
birtist nú í öllum sínum hetjuljóma.
4 eirföstu, eiginl.: með eirþröskuldi (khalkobates).
7 Á eftir orðunum: nýrra hrakninga er í þýð. sleppt: þó að þú hafir þolað
margar raunir.
14 á þjóðfundi, eða: með samskotum meðal almennings (ageiromenoi kata
demon).
18 rósfingraða M.: sjá ath. við II 1. l.
19 mannsæma, þ.e. sem skreytir manninn.
26 lærbitana sem fórn til guðanna.
kvað með undirleik á hörpu (forminx).
43 vini, réttara: ástvini (Telemakkus, Laertes o. fl.).
77 steinsauganu, sem skutfesti skipsins er bundin í.
102 Við víkurmynnið, eða: Innst inni í víkinni.
107 vefstaðir af steini, þetta eru skýringar á einkennilegum klettamyndunum.
108 forkunnar fagran sjávarpurpura, eða: ... dúka, purpurabláa á lit eins
og hafið.
151 fyrirbindist, þ. e. verði hindraðir, stöðvaðir.
160 bjuggu, réttara: búa (gegaasín).
174 ... öllum flutning, réttara: öllum öruggan flutning.
195 brautir, réttara: stígar (atrapítoi).
234 strönd, eða: skagi:
241 hins vegar, eiginl.: „að baki“ (þ. e. í vestur), andlitið snýr í austur, en
bakið í vestur.
254 og mælti um hug sér, eiginl.: lét ekki upp hug sinn allan (palín ...
latseto myþon).
256 í hinni víðlendu Krítarey, hin mikla, fornfræga eyja, með stórhýsum
sínum og listaverkum, hefur verið ofarlega í hugum þeirra tíma manna.
261 (aðra) vaska (menn), eða: starfsama, vinnusama (alfestas).
274 ... flytja mig — og setja mig, eða: taka við mér um borð og flytja
mig til P. eða til ...
307 Á eftir orðunum: ... hlýtur að hafa þol við vantar: þó að þú verðir
hart að þér að leggja.
319 Á eftir þessari l. er sleppt í þýð. l. 320—323: „Sífellt hraktist ég, hrelldur
í huga, unz guðirnir leystu mig úr bölinu. Loks kom þar, að þú í
hinu auðuga landi Feaka hughreystir mig með orðum þínum og leiddir
mig sjálf inn í borg þeirra“.
327 L. 328 er sleppt í þýð.: „En segðu mér, er það satt, að ég sé heim kominn
í mitt kæra föðurland?“
334 mundi gjarna óska sér, eða: mundi glaður skunda til þess að ...
346 víkurmynnið, sjá ath. við l. 102.
L. 347—48 er sleppt: „Og nálægt trénu er yndislegur hellir, dimmur,
helgaður landvættum þeim, er Vatnadísir nefnast“.
359 Á undan: fengsama vantar í þýð. náðuga, vingjarnlega, „í náð sinni
ann mér o. s. frv.“
378 gefið henni brúðgjafir, eða: boðið fram (dídontes) b.; sjá ath. við VI 159. l.
388 hin glæsilegu skarbönd (þ. e. höfuðbindi). Tróju er hér líkt við fagra
konu; að leysa skarband konu táknar að ná henni á sitt vald.
389 Glóeyg, viðurnefni á Aþenu, leifar frá eldgömlum tímum, þegar dýr
voru dýrkuð (eins og t. d. í Egyptalandi). Vafasamt er, kvað gr. orðið
(glákópis) þýðir, en e. t. v. stendur það í sambandi við nafn uglunnar
(gláx), sem var sérstaklega helguð Aþenu.
400 þig, eða: nokkurn (anþrópon).
405 bæði, eða: enn sem fyrr.
408 Korakshamri, þ. e. „Hrafnshamri“ (korax = hrafn)).
FJÓRTÁNDI ÞÁTTUR
Segja má, að síðari hluti Odysseifskviðu sé meistaraverk að listrænni
byggingu. Frá því að Odysseifur stígur á land í Íþöku, unz takmarkinu er
náð — biðlavígunum og endurfundum þeirra Penelópu og Odysseifs — er
löng leið og krókótt. Hefur skáldinu þó tekizt frábærlega vel að skjóta þráðum
hinnar flóknu verðandi af slíkri leikni, að hvergi skeikar um listfengi
og handbragð.
List skáldsins kemur eigi hvað sízt fram í því að láta Odysseif í betlaragervinu
komast í tæri við hinar ýmsu persónur og vekur með því oss
lesendum eða áheyrendum hvað eftir annað kvíða um, að nú sé allt að
fara illa. En í hvert sinn líður hættan hjá, svo að Odysseifur fær dulizt,
þar til hin rétta stund er upp runnin. Hvert smáatriði sögunnar á sínu sérstaka
hlutverki að gegna. Hverju sinni, er skáldinu tekst að sýna atburðasamstillingu,
sem gerir því fært að leika sér að mótsetningunni milli vitneskju
vorrar (áheyrendanna) og grandleysis sögupersónanna um hið rétta samhengi,
þá er höfundi skemmt og áheyrendum hans. Hann nýtur þess að
leika sér að eldinum, leiða hetjuna fram á heljarþröm.
Takmarkið, sem keppt er að, eru endurfundir þeirra Odysseifs og Penelópu
og hefndin á biðlunum. En til þess að hefndin megi takast, verður Odysseifur
að fá hjálp, því að þótt sterkur sé, fær hann ekki einn ráðið niðurlögum yfir
100 manna. Hjálpina veita fyrst og fremst Aþena, og síðan Telemakkus og
þeir af heimamönnum, sem trúir hafa reynzt húsbónda sínum, og loks
Penelópa sjálf, þótt hún geri sér þess eigi sjálf grein.
Odysseifur leitar fyrst athvarfs hjá svínahirðinum, Evmeusi, sem tekur
honum forkunnar vel og hefur strax máls á hinum döpru örlögum hins horfna
húsbónda síns, án þess að renna minnsta grun í, að hann stendur nú andspænis
honum. Hin mjög svo algengu kurteisisorð, er Odysseifur mælir
(XIV. 53): „Seifur og aðrir ódauðlegir guðir veiti þér, gestgjafi, allt hvað
þú helzt vilt æskja þér, fyrir það að þú hefir veitt mér viðtöku svo góðfúslega“,
fá því hér sérstakan þunga. Allir vita, hver er heitasta ósk svínahirðisins,
einmitt sú, sem nú mun bráðum rætast, án þess hann geri sér
þess grein. Er betlarinn fullyrðir síðar (XIV. 149 o. áfr.), að Odysseifur muni
heim koma, á hann einungis vantrú að mæta. Eigi vill Evmeus heldur
þiggja eiðinn, sem betlarinn býður honum að sverja, um að hann fari með
rétt mál. Aðalefni 14. þáttar er orðaskipti svínahirðisins og betlarans um
þetta. Bera þau vott um hið sama næma skynbragð á leikræn samtöl, er
fram kom í 13. þætti í viðtali Odysseifs og Aþenu.
Í samtali sínu við Evmeus fær Odysseifur fyrst nánari vitneskju um hið
frekjufulla framferði biðlanna og óbilandi trúfestu svínahirðisins. Enn er
samt eigi hin rétta stund upp runnin til að gefa sig fram við hann. Fyrsti
bandamaður Odysseifs skal vera sonur hans. Í lok 14. þáttar verða orð
Evmeusar um það, að hinn ungi húsbóndi hans muni veita gamla manninum
kyrtil og skikkju, þegar hann komi heim, eins konar brú yfir til næsta þáttar,
sem fjallar um komu Telemakkusar.
1 frá víkinni, ek límenos: „frá höfninni“ eða „skipalæginu“.
3 á hinn ágæta svínahirði: Á eftir þessum orðum lýkur hreinskrift Sveinbjarnar
af hinni endurskoðuðu þýðingu kviðunnar. Tekur hér við sú
endurskoðun þýðingarinnar, sem fólgin er í breytingum þeim, er Sveinbjörn
hefur með eigin hendi fært inn í eintak sitt af hinum prentaða
Viðeyjar (Boðsrita-) texta Odysseifskviðu, (sbr. Inngang hér að framan).
9 án nokkurs styrks frá drottningu o. s. frv., nosfin despoines ktl., þýða
sumir: „án vitundar drottningar o. s. frv.“
13 Inni í forgarðinum gerði hann tólf svínastíur o. s. frv.: Hinn frægi
brezki fornmenntafræðingur, Gilbert Murray, heldur því fram (í The
Rise of the Greek Epic, 4th Ed., bls. 211 o. áfr.), að í þessari frásögn af
svínum Odysseifs og raunar víðar í kviðunni felist goðsagnaleg túlkun á
tímatalinu: Tíminn hefur yfirleitt mældur verið í endurteknum hringferðum
tungls og sólar, þ. e. í mánuðum og árum. Viðleitni manna
beindist því snemma að því að finna tímabil, þar sem þessar tvær hringferðir
samsvöruðu hvor annarri, féllu saman: nýtt tungl bæri upp á
vetrarsólhvörf, sól og máni hæfu göngu sína samtímis. [Raunar eru þessir
tveir hringir ósambærilegir (incommensurable), en það er tiltölulega
ný uppgötvun]. Tunglmánuður er 29 dagar og brot úr degi; tólf mánuðir
eru 354 dagar og nokkrar klukkustundir. Sólarár jafngildir 364
dögum og rúmlega það. Ýmis tímabil voru nú reynd með líkum árangri.
Hið einfaldasta var tvíár (trieteres), þá tímabil, sem náði yfir fjögur
(penteteres) og réð ólympsku og pýþisku leikjunum. Í tímabili þessu
voru 50 og 49 mánuðir til skiptis. Var útkoman nokkurn veginn rétt í
annað hvort skipti. Nefndist það ennaiteres. Samt nam tímatalsvillan
um það bil 1 1/2 degi á átta árum.
Því var enn gerð merkileg tilraun í tímatalsreikningi, „eikosieteres“
Metons eða „stóreniátos“, er nam nítján árum. Síðasta dag hins nítjánda
árs, sem að grísku tali var einnig hinn fyrsti á hinu tuttugasta, bar
hinn nýja mána saman við hina nýju sól við vetrarsólhvörf. Kallaðist
þetta „fundur sólar og mána“ (Synodos Helíú kai Selenes), er eigi
hafði átt sér stað í full nítján ár og mundi ekki eiga sér stað í önnur
nítján.
Hvenær kom nú Odysseifur heim til Penelópu? Tíminn er tilgreindur
með nákvæmni, sem annars er óskyld hætti söguljóða. Hann kom
aftur til Íþöku, „þegar sú bjartasta stjarna, er með komu sinni oftast
boðar ljós hinnar árrisulu Morgungyðju, rann upp“, (XIII. 93). Hann
hitti konu sína „á tuttugasta ári“, þ. e. hann kom jafnskjótt og tuttugasta
árið bar að hendi og nítjánda árið var á enda runnið (XXIII 102,
170; XVII 327; II 175). Hann kom með nýju tungli, þann dag, er
Aþenumenn kölluðu „gamlan og nýjan“, „þegar einn mánuðurinn er að
renna út og annar að hefjast (XIX 307, XIV 162). Á þessum tunglkomudegi
var líka Apollóhátíð eða sólhvarfahátíð (XX 156, XXI 258); tíminn
er tilgreindur að vetri (t. d. XIV 457, XVII 25 og víðar). Fund Odysseifs
og Penelópu ber nákvæmlega saman við „fund“ sólar og mána.
Einn hinna spöku manna í fornöld nefndist Kleobúlos (frá Lindos á
eynni Rhódos, uppi um 580 f. Kr. b.). Varð hann frægur fyrir gátur
sínar. Ein var svona: „Einn faðir, tólf börn; hvert þeirra á þrjátíu
börn, sumpart hvít og sumpart svört; og þótt þau séu ódauðleg, deyja
þau öll“. Svarið er: árið eða öllu heldur hið gríska „eniátos“ með sínum
360 dögum og nóttum. Er þá að undra, þótt Odysseifur eigi nákvæmlega
360 gelti (XIV 20), og að jafnan er einum slátrað dag hvern? Að öðru
leyti virðast og ýmsar fornar sólargangshugmyndir loða við Odysseif:
Sólin, Helíos, er óvinur hans. Hann fer til undirheima lengst í vestri,
kemur í ríki dauðra og kemur upp lengst í austri: „En er skipið bar
úr hinum rennanda Jarðarstraumi, kom það inn á bylgjur hins víða
hafs, og til Eyjar, þangað sem eru híbýli og leikvellir hinnar árrisulu
Morgungyðju og uppgöngur Helíusar“, (XII 1 o. áfr.). Hann er fluttur
heim sofandi á töfranökkva. Gera það Feakar (= hinir blökku), sem
fara hinar mestu vegalengdir á sólarhring (VII 396). Hann á heima á
eyju í hafinu, „er eyin ósæbrött og liggur langefst í hafinu gegnt næturheimi
(vestri)“ (IX 25). Getur þessi lýsing í rauninni engan veginn
átt við Íþöku. Hann hæfir allt örvum langa vegu. Bani hans kemur
til hans úr hafinu, og eins og flestir ár-konungar sætir hann þeim
örlögum að verða veginn af syni sínum.
21 Þar hjá garðinum: Í gríska textanum stendur raunar aðeins „þar hjá“,
en Sveinbjörn bætir við „garðinum“, aðrir þýðendur „svínunum“.
22 hinn fyrirmannlegi svínahirðir, orkhamos andrón, eiginl. „fyrirliði“,
og eru hetjur víða sæmdar þeirri einkunn í kviðunum. Evmeus mun
svo nefndur, af því að hann var settur yfir hina svínahirðana.
23 og sneið sér ilskæði á fæturna, átos d'amfí podessín heois arariske pedíla:
„En sjálfur var hann að máta um fætur sér ilskó“. Hugsa verður sér,
að hann styðji fætinum á nautshúðina og risti síðan beggja megin við
og allt í kring. — Öll er þessi setning hjá Sveinbirni ágætt dæmi um
eitt aðaleinkenni á þýðingu hans: að flytja lýsingar Hómers inn í
íslenzkan hugmyndaheim.
28 og eta sig sadda af kjötinu, kreión koresaiato þymon: „seðja sál sína
á kjötinu“.
36 smásteinum, líþadessín: „steinum“, því að líþas, er ekki smækkunarmynd.
51 handa honum til að liggja á, átú enevnaion: „hans eigin rúmábreiðu“.
Í hinum óendurskoðaða texta þýðir Sveinbjörn líka: „sem hann var
vanur að liggja á sjálfur“.
55 Evmeus svínahirðir svaraði honum og sagði: Í gríska textanum ávarpar
skáldið svínahirðinn beint: „Þú svaraðir honum þá, Evmeus svínahirðir,
og sagðir“. — Það er eins og skáldið hitti hér góðkunningja, er
þessi persóna kemur til sögunnar. Er og svínahirðirinn hér fyrst nefndur
með nafni. Eigi eru þess önnur dæmi en um Evmeus í Odysseifskviðu,
að skáldið ávarpi þannig persónur sínar beint.
59 því er þrælum svo farið, að þeir hafa jafnan einhvern beig: Orð þessi
ber að skoða sem skýringu við það, sem á undan var sagt um smæð
gjafarinnar.
60 þegar ungir lánardrottnar taka við yfirráðum: Hér er auðvitað átt við
biðlana. Í gríska textanum stendur: hot' epíkrateósín anaktes / hoi neoi,
„er yfir þeim ráða húsbændurnir, (og það) ungir (eins og vorir)“.
68 Eg vildi, að ættin hennar Helenu o. s. frv.: Um Helenu og tildrög
herferðarinnar til Tróju sjá Inngang. Í Od. XXIV 115 o. áfr. segir, að
Agamemnon hafi sjálfur farið til Íþöku til að telja Odysseif á að taka
þátt í leiðangrinum gegn Tróju (Ilíonsborg).
71 til hinnar hestauðugu Ilíonsborgar: Hestauðug, evpólos (af ev + pólos,
„auðug að góðum folum“), er Trója kölluð bæði í Ilíons- og Odysseifskviðu.
Er þess vert að geta, að aðalatvinnuvegur manna á þeim slóðum,
þar sem Trója hin forna stóð, er enn í dag hestarækt. „Reiðkænir“,
hippodamoi, eru Trójumenn mjög oft kallaðir (að minnsta kosti 23
sinnum) í Ilíonskviðu, svo og helztu hetjur þeirra og bandamenn. Margir
bera þeir og nöfn, sem mynduð eru með viðskeytinu -ippos (= hestur).
— Talið er, að mongólskar hirðingjaþjóðir frá steppum Asíu hafi
fyrstar kennt þjóðunum fyrir vestan sig að nota hestinn á 3. árþúsundinu
f. Kr. b.
72 batt hann fljótlega að sér kyrtilinn með lindanum: Hér er átt við
mittisól eða belti, er menn tóku af sér inni.
73 þar sem grísirnir voru innibyrgðir, hoþí eþnea erkhato khoirón: „þar
sem ættir grísanna voru innibyrgðar“.
80 Et nú, gestur, grísakjötið: Kjöt af grísum þótti eins og líka fiskur og
fuglar eigi nógu kjarngóð fæða fyrir hetjurnar.
114 talaði til hans skjótum orðum, sbr. aths. X. 324.
121 Hinn fyrirmannlegi svínahirðir, sbr. aths. XIV. 21.
131 skrökvaðir upp einhverri lygasögunni: Á eftir þessum orðum hefur
fallið niður í þýðingu 132. ljóðl.: „ef einhver gæfi þér kyrtil og skikkju
til að klæðast í“.
145—147 Eg fyrirverð mig, gestur, að nefna hann nafni sínu, þ. e. án þess
að láta jafnframt fylgja eitthvert orðatiltæki, er beri vott um þakklæti
það og virðingu, sem Evmeus ber fyrir honum.
„hugljúfa minn“, eþeion: Orð þetta kemur alloft fyrir í Ilíonskviðu og
þá ávallt í ávarpsfalli og eingöngu í ávarpi yngra til eldra bróður.
Virðist það tákna þar í senn bróðurkærleik og virðingu. Svipuð mun
og merking orðsins hér, nema hvað hér er það þræll, sem velur ástkærum
húsbónda þetta lotningarávarp.
153 undir eins og hann er kominn á heimili sitt: Á eftir þessum orðum
hefur fallið niður í þýðingunni 154. ljóðl., „klæddu mig í kyrtil og
skikkju, fögur klæði“. Vantar þessa línu og í mörg handrit.
158 Viti það Seifur o. s. frv.: Hér er um tvöfaldan eið að ræða. Fyrst er
Seifur, verndari gistivináttunnar, ákallaður til vitnis. Mun hann og eiðrofs
hefna. Síðan eru ákallaðir til vitnis sýnilegir hlutir helgir, gestaborð
og eldstalli Odysseifs. Verða gestinum þá hugstæðar þær skyldur, sem
þeginn beini leggur honum á herðar. Um Seif sem verndara gesta
segir svo í Od. IX. 271-72: „... en Seifur er verndari gesta, hann
leiðbeinir hinum heiðvirðu gestum og er hefnigoð allra nauðleitarmanna
og gesta“.
159 eldstalli hins ágæta Odysseifs: Þar eð þrællinn átti í rauninni eigi ráð á
neinum eignum sjálfur, þá var þessi viðtaka gestsins að arni Evmeusar
óbeinlínis viðtaka að arni Odysseifs.
165 Evmeus svínahirðir svaraði honum, sbr. aths. XIV. 55.
174.—184. ljóðl. virðist Aristarkus hafa talið innskot, af því að Evmeus
gat ekki vitað neitt um fyrirsátrið, er biðlarnir höfðu búið Telemakkusi.
(Kafli þessi hefst: „En nú tekur mig sárast ..., og endar: og látið
hann af komast“.)
180 til hinnar helgu Pýlusborgar: Svo hét aðsetursborg Nestors og konungsríki
á vesturströnd Peleifsskaga.
182 afkvæmi hins goðumlíka Arkesíuss: Hann var faðir Laertesar, föður
Odysseifs, sbr. einnig Od. XVI. 118 og IV. 755.
184 Kronusson, þ. e. Seifur, sbr. J. G. Goðafr. bls. 110.
187 hverr ertu? Síðan er nánar til tekið, hvað skilja beri við þessa spurningu,
sbr. Od. I. 170—173.
hvar áttu heima? poþí toi polis: „Hvar er borg þín?“
191 191.—350. ljóðl. tekur yfir lygasögu Odysseifs um uppruna sinn og æviatriði
fram til þess, er fundum þeirra Odysseifs ber saman. — Augljóst
má öllum vera, hve Sveinbjörn beitir listilega ísl. sögustíl í þýðingu alls
þessa kafla eins og víðar.
207 Banagyðjurnar, keres ... þanatoio, sbr. J. G. bls. 63, 107, 206.
til Hadesar heims, sbr. J. G. bls. 103 o. áfr. og 204.
210 Næsta litlu miðluðu þeir mér af arfinum, og létu mig hafa bæjarhúsin
í minn hlut, átar emoi mala pára dosan kai oikí' eneiman: „En mér
miðluðu þeir litlu einu og létu koma bæjarhús í minn hlut“. Stafaði þessi
misskipting auðvitað af því, að hann var eigi skilgetinn eða réttborinn
til arfs (gnesíos).
214 þá vonar mig samt, að þú getir gizkað þér til grassins, þegar þú sérð
kólfinn, all' empes kalamen ge s'oíomai eisoroónta / gignóskein: þ. e.
eins og hægt er að gera sér hugmynd um ásigkomulag kornaxins með því
að athuga stilkinn, sem eftir stendur, þegar búið er að skera upp kornið,
eins má gera sér í hugarlund af útliti gamalmennisins, hvernig það
hefur verið á manndómsskeiði sínu.
216 Ares og Aþena, bæði voru þau hernaðarguðir, sbr. J. G. bls. 120 og 134.
229 Áður en synir Akkea fóru leiðangurinn til Trójulands, sbr. Inngang bls.
XVII.
237 hinn fræga Idomeneif (Devkalíónsson): Hans getur víða í Ilíonskviðu
fyrir hreysti. Hafði hann haft lið mikið til Tróju og 90 skipa.
241 borg Príamuss, þ. e. Ilíonsborg.
258 hinum borðrónu skipum, neas amfíelissas, sbr. aths. X. 91.
262 En með því þeir létu ofstopann við sig ráða o. s. frv.: Auðvitað ber ei
að skilja þessi orð sem fordæmingu á atferli þeirra í sjálfu sér, þar eð
hér var um að ræða venjulega víkingaför, hvort eð var. Óhæfan, sem
þeir fremja, er sú að skeyta ei um fyrirskipanir foringja síns.
285 Síðan var eg þar í sjö ár: Þessi tala minnir á Egistus, sem ríkti sjö ár
í Mýkenuborg (Od. III 304), og sjö ára dvöl Odysseifs hjá Kalypsó (Od.
VII. 259).
286 því allir greiddu fyrir mér, dídosan gar hapantes: „því að allir gáfu
mér gjafir“.
288 Feniskur maður: Víða kemur það fram, að Fenikíumenn hafa verið
helztu kaupmenn í grískum höfum á söguöld Grikkja, þó að bert sé,
að Grikkir sjálfir hafi og þá þegar rekið nokkurn kaupskap.
291 til Feníkalands, sjá kort.
295 til Libýju, sjá kort.
lét hann mig á skip, m' epi neos eessato pontoporoio: „lét hann mig á
hafskip“.
303 Kronusson, sbr. aths. XIV 184.
304 hinu rúmgóða skipi, sbr. aths. X. 23.
315 upp að Þesprótalandi: það er talið verið hafa í Epírus fyrir vestan
Ambrakíu, suðurtakmörk þess sjór. Féllu um það árnar Akkeron og
Kokýtus. Svo nefnir Hómer og árnar í undirheimum, og fara síðan öll
önnur skáld að dæmi hans. Dódónuvéfrétt var í Þesprótalandi, (sjá
aths. XIV. 327).
325 Hann hefði getað fætt annan mann til, allt fram á tíunda mannsaldur,
kai ny ken es dekates geneen heteron g'etí boskoi: „Vissulega mættu á
þeim lifa afkomendur hans allt í tíunda lið“. heteron g'etí: Þann næsta
(þ. e. Telemakkus) á eftir Odysseifi og síðan erfingja þeirra koll af kolli
allt í tíunda lið.
327 til Dódónu: Þetta var fræg véfrétt Seifs, er stóð á fornum ættarslóðum
Hellena. Prestar Seifs þóttust nema þar raust guðsins, er vindurinn
þaut í krónum eikitrjáa.
335 til hinnar hveitifrjóvu Dúlikseyjar (Dúlíkhíon): Eigi er vitað með
vissu, hvar hún hefur verið. Sennilega hefur hún verið ein af eyjum
Íónahafs. Getur hennar á ýmsum stöðum í Odysseifskviðu (I. 246, IX.
24, XVI. 123, 247, XIX. 131) í sambandi við Sámsey, Sakýntus og Íþöku,
sjá kort bls. 11.
354 Þeim sárnaði, og fóru að svipast eftir mér, hoi de megala stenakhontes
foitón: „Og gengu þeir fram og aftur, hrópandi hástöfum“.
357 á hið rúmgóða skip, sbr. aths. X. 23.
360 Evmeus svínahirðir svaraði honum, sbr. aths. XIV. 55.
371 Sviptinornirnar, Harpyíai, eru ímynd áhlaupaveðra og fellibylja. Var það
trú manna, að þegar einhver var horfinn, svo að enginn vissi, hvað af
honum var orðið, þá höfðu Sviptinornirnar hrifið hann burt með sér
(Od. I. 241, XX. 66).
379 etólski maðurinn: Etólía var hérað í Grikklandi. Fljótið Akkelóus setti
því takmörk að vestan, en Korinþuflói lá að því að sunnan.
382 hjá Ídomeneifi á Krítey, sbr. aths. XIV. 237.
394 þeir guðir, sem á Ólympi búa, sbr. J. G. bls. 109.
400 til að leiða öðrum fátæklingum að gabba menn: Þ. e. að gera leiða á.
406 Seif Kronusson, sbr. J. G. bls. 110.
435 Landvættirnar og Hermes Majuson, sbr. J. G. bls. 143 og bls. 187. Landvættirnar
áttu sérstakan helgidóm á Íþöku, sbr. lýsinguna á helli þeirra
Od. XIII. 104 o. áfr.
442 Evmeus svínahirðir svaraði honum, sbr. aths. XIV. 55.
447 og er hann hafði dreypt hinu skæra víni: Þ. e. hellt nokkru af víni yfir
brennifórnina.
447 Odysseifi borgabrjót: Einhver mesti heiðurstitill meðal hinna norrænu
innrásarmanna (sbr. J. G. bls. 44 o. áfr.) var að geta kallazt borgabrjótur
(ptolíporþos). En þessu næst urðu menn ágætir af köppum þeim, sem
þeir höfðu vegið. Sagnir af Herkúlesi, Akkillesi, Díomedesi o. s. frv.
fjalla eigi að litlu leyti um alla þá hreystimenn, er þeir fengu að velli
lagða. Svo var þessu og farið á hinni norrænu hetjuöld, sbr. t. d.
Sigurð Fáfnisbana o. s. frv.
448 þar sem hann sat við sinn deilda verð, ho d'etseto he para moire: „En
hann (þ. e. Evmeus) settist við sinn deilda verð“.
451 frá drottningu eða gamla Laertes: Þ. e. Penelópu konu Odysseifs og
Laertes föður hans; sbr. ennfr. aths. XIV. 9.
452 af Taffeyjarmönnum: Þeir byggðu Taffey (Tafos) við vesturströnd
Grikklands, á milli eyjarinnar Levkas og Akarnaníu (sbr. Od. I. 417).
Voru þeir víkingar miklir og þrælasalar. Getur þeirra á ýmsum stöðum
í Od. (I. 105, 181, 419; XV. 427, XVI. 426).
463 Eg ætla að segja nokkuð mér til gildis, evxamenos tí epos ereó: „Eftir
að eg hef látið í ljós ósk (sbr. hér á eftir: „Eg vildi eg væri núna með
sama ungdómsfjöri o. s. frv.“.), ætla eg að segja sögu eina“.
470 Menelás Atreifsson, bróðir Agamemnons, maður Helenu hinnar fögru.
471 því að þeir höfðu mælzt til þess, átoi gar anógon: „Því að þeir höfðu
sjálfir skipað svo fyrir“.
482 fagurt brynbelti, tsóma faeinon: Orðið tsóma þýðir samkvæmt uppruna
(af tsónnymí) „það, sem maður er gyrður með“. Er ætlað, að það hafi
táknað eins konar mittisskýlu eða svuntu úr leðri, áfasta brynjunni.
485 og vaknaði hann skjótt við, ho d'ar' emmapeós hypakúse: „og hlustaði
hann strax á mig“.
497 Agamemnoni Atreifssyni, yfirforingja Grikkja við Tróju, sbr. Inngang.
499 Þóant Andremonsson, samkvæmt Il. (II. 638, XIII. 218, XV. 282) mikils
metinn foringi Etólíumanna og (samkvæmt Il. VII. 168) náinn vinur
Odysseifs.
500 lagði af sér guðvefjarskikkju sína, apo de khlainan þeto foinokoessan:
„lagði af sér purpuraskikkju sína“.
501 en eg fór í yfirhöfn hans og lá í henni, þar til að dagur ljómaði, og þá
varð eg feginn, egó d'ení heimata keinú / keimen aspasíós, fae de
khrysoþronos Eós: „en eg lá glaður í yfirhöfn hans, og Morgungyðjan
gullinstóla kom í ljós“. — Þýðing Sveinbjarnar er hér sem oftar ljós
og skýr túlkun á skáldskap, sem hann fellir í eðlilega frásögn í óbundnu
máli.
507 Evmeus svínahirðir svaraði honum, sbr. aths. XIV. 55.
FIMMTÁNDI ÞÁTTUR
Sögunni víkur nú til Spörtu. Verður lesandinn Aþenu samferða þangað,
(sbr. XIII. 440). Síðasta þætti lauk með komu nætur. Næsti þáttur hefst því
með komu dags, hins 36. í atburðarás kviðunnar. Tímatalsatriðin eru þó eigi
alls kostar ljós, (sbr. aths. XVII. 515).
1 Pallas Aþena, sbr. J. G. bls. 120 o. áfr.
til hinnar landvíðu Lakedemonar: Lakcdemon er í kviðum Hómers ýmist
látin tákna allt ríki Menelásar eða eins og hér aðeins höfuðborgina, öðru
nafni Spörtu.
1—2 til að minna hinn fræga son hins hugstóra Odysseifs á heimför sína
o. s. frv.: Í fyrstu þáttum Odysseifskviðu hefur því verið lýst, er Telemakkus
sonur Odysseifs tókst ferð á hendur að áeggjan Aþenu til að
leita vitneskju um afdrif föður síns. Í þriðja þætti var lýst komu hans
til Nestors og viðtökum þar. Slóst þá í för með honum Pisistratus Nestorsson
til Menelásar í Spörtu. Í fjórða þætti var lýst viðtökum hjá Menelási.
10 slíka ofstopamenn: Auðvitað er átt við biðlana, sem setzt höfðu í bú
Odysseifs, svo sem áður hefur lýst verið.
16 og bræður: Bræðra Penelópu getur aðeins hér.
17 að giftast Evrýmakkusi: Hann var annar af tveim leiðtogum biðlanna.
Hinn hét Antínóus.
18 brúðgjafirnar, eedna eða hedna, voru eins konar gjald, sem biðillinn varð
að greiða fyrir brúði sína. Síðar virðist þetta hafa breytzt svo, að brúðurin
hafi hlotið gjafirnar sjálf. Samkvæmt Il. XI. 244 virðast gjafir þessar
einkum hafa verið kvikfé.
20 þú veizt, hverninn konur eru skapi farnar: öll þessi ummæli Aþenu eiga
að miða að því að fá Telemakkus til að leggja sem fyrst af stað heimleiðis,
en Penelópa hafði alls eigi gefið neitt tilefni til slíks ótta.
28 með nægum liðstyrk, epítedes: Ýmsir telja þetta orð muni þýða hér
„að yfirlögðu ráði“ (consulto).
29 í sundinu milli Íþöku og hinnar bröttu Sámseyjar, sjá kort bls. 11.
42 frá Pýlusborg, sjá kort; sbr. aths. XIV. 180.
46 einhæfðu hestum, mónykhas hippús: Orðið mónykhes er eitt hinna umdeildu
orða Hómers. Algengast er að skýra það, eins og Sveinbjörn
gerir, „með óskiptum hóf“, mótsett klauf [(s)mónykhes, af sm = sem heis
+ ónyx]. Aðrir telja það vera af rótinni ma, „vera ákafur“ og þýða
þá „fjörhófaður“.
79 byrjar langferð yfir land, ímen pollen ep' apeirona gaian: „áður en
hann byrjar ferð yfir hina víðáttumiklu og takmarkalausu jörð“. Hér
er enn eitt dæmi um aðferð Sveinbjarnar, gagnorða túlkun.
80 um Helluland og mitt Argverjaland, an' Hellada kai meson Argos:
Hellas (= Helluland) táknar í Hómerskviðum borg og hérað í Þessalíu,
hluta af ríki Akkillesar. Argos (= Argverjaland) nefndist ríki Agamemnons
á Peleifsskaga. Orðið meson merkir „innst í“. Orðatiltæki þetta
allt, sem víðar kemur fyrir í Odysseifskviðu, mun þá hafa táknað „um
allt Grikkland“.
95 Eteóneifur Bóetusson, skutilsveinn Menelásar, frjáls maður, er fylgt hafði
höfðingja sínum á ferðum hans (sbr. Od. IV. 22 og 23) og bjó
nú í grennd við hann.
99 í hinn ilmríka geymslusal: Geymslusalur þessi mun hafa verið inn af
dyngjunni niðri í húsinu, sbr. Inng. bls. XLVI.
100 Megapenþes var sonur Menelásar og ambáttar nokkurrar, sbr. Od. IV. 10.
113 113—119 = IV. 613—619. Menelás minnist aðeins á aðalgjöfina, skaftkerið,
af því að bikarinn var talinn sjálfsagður með því.
117 Hefestus, sbr. J. G. bls. 148.
118 Sídonsmenn, þ. e. íbúar í Sídon, hinni víðfrægu verzlunar- og siglingaborg
í Fönikíu.
120 tvískál, depas amfíkypellon: bikar með tveim handarhöldum. Er slíkra
gripa víða getið í kviðunum, sbr. Od. III. 63 og aths. Il. XXIII. 270.
134 á legubekkina og hástólana, sbr. aths. X. 233.
140 Bóetusson, sbr. aths. XV. 95.
146 fram úr fordyrinu og hinum ómanda svölugangi, sbr. aths. XX. 176.
151 Nestor, sbr. J. G. bls. 253 og I. bls. XVII-XVIII.
160 til hægri handar honum, þ. e. til austurs, því að við fuglaspár sneru
Grikkir sér í norður í áttina til Ólymps, aðseturs guðanna. Fyrirburðir,
sem ske á hægri hönd, vita á gott.
169 hinn hervani Menelás, areífílos Menelao: „Menelás, ástvinur Aresar“.
175 þar sem hún á hreiður og unga, hoþí hoi genee te tokos te: „Þar sem
hún á ætt og afkvæmi“.
186 til Feruborgar: Þessa borg hugsar skáldið sér miðja vega á milli Spörtu
og Pýlusborgar, (sbr. líka Od. III. 488). Beinustu leið milli þeirra borga
hefur skáldið líka jafnað og bætt, því að í rauninni var aðeins um
mjótt einstigi fyrir fótgangandi menn og múlasna að ræða.
186—87 Díókless Orsílokkssonar getur sem kappa í Il. V. 542, 547, 548.
208 skjótum orðum, sbr. aths. X. 324.
222 og færði Aþenu fórnir: Bænin var flutt við dreypifórnina, síðan var fórnarbyggi
stráð á fórnareldinn.
224 Argverjaland (Argos) á norðan- og austanverðum Peleifsskaga, upp af
Argosflóa. Þar hét og aðalborgin Argos.
225 Melampuss getur og Od. XI. 291, og er hann þar nefndur „ágætur spámaður“.
Virðist orðstír hans hafa uppi verið sem forföður merkilegrar
ættar, sem gædd var spádómsgáfu.
226 í hinni sauðauðugu Pýlusborg, Pyló ení, meterí melón: „í Pýlusborg,
móður sauða“.
229 Neleifur var sonur Posídons og Týróar (Od. XI. 241), faðir Nestors.
231 í höll Fýlakuss: Hann var sonur Deions konungs í Fókis. Kvæntist
hann Klýmenu, dóttur Minýasar, og stofnaði borgina Fýlöku í Þessalíu.
Var hann faðir Ífíkluss.
233 og hinnar þungu glæpsku: Átt er við stórvirki það, sem hann færðist
í fang.
234 hin óttalega Refsinorn, þea daspletis Erinys: Orðið daspletis [sennil. af
das (= des-, hús, sbr. despoina = húsfreyja, drottning) + ple-, pelatsó
= nálgast] þýðir líklega „sú, sem nálgast hús (í fjandsamlegum tilgangi)“.
— Um Refsinornir sjá J. G., bls. 107, 257.
235 Banagyðja, sbr. J. G., bls. 63, 107.
244 Amfíarás, sbr. J. G., bls. 249.
254 Hýpería, borg ein í ríki Agamemnons, sbr. Il. II. 573.
259 skjótum orðum, sbr. ath. X. 324.
264 hverr ertu o. s. frv., sbr. aths. XIV. 187.
268 sem mér er svo mikil eftirsjón að, ei pot' een: „ef hann þá var það
nokkurn tíma“. Er þetta fastmótað orðatiltæki, sem táknar tregablandna
endurminningu um horfna hamingju.
283 í lyftingu hins borðróna skips, ep' ikríofin ... neos amfíelisses: Orðið
ikríofin er staðarfall af ikría, en svo nefndust pallar tveir, annar í framstafni
skips, en hinn í skut. Upp um fremri pallinn mun siglutréð hafa
reist verið, en skipstjórnarmaður hafði aðsetur á hinum. Um orðið
amfíelissa sjá aths. X. 91.
298 Epear, Epeioi: Svo nefndist þjóðin í Elealandi (Elis).
299 (Þá tók Telemakkus stefnu á) klakkeyjar (enþen d' á) nesoisín
(epíproeeke) þoesín: Sumir þýða „á hinar oddóttu eyjar“ („nesjóttu
eyjar“), og setja þá þoesín í samband við sögnina þooó = brýna eða ydda.
Telja þá, að átt muni vera við eyjar þær, sem Echinades nefnast fyrir
mynni fljótsins Akkelóuss. Aðrir bera fram þessa skýringu: þoesín (af
þoos = skjótur) = hinar þjótandi; eyjarnar hljóti þessa einkunn, af
því að þeim, sem eru á hraðri siglingu, virðist staðir, sem framhjá er
farið eða siglt að, þjóta áfram eða á móti sér. Muni hér átt við eyjarnar
Samos, Asteris og suðurhluta Íþöku, einmitt þess vegna sé í sömu andrá
talað um fyrirsátur biðlanna. Bent er á, hvernig Tacitus notar orðið
„celerrimum“ Annales III 1.
319 Hermesi sendiguð, sbr. J. G. bls. 143.
325 Evmeus svínahirðir varð mjög fár við: Í gríska textanum í beinni ræðu,
sbr. aths. XIV. 55.
344 sökum þess aumlega hungurs, henek úlomenes gastros: „sökum hins
bölvaða maga“.
350 Hadesar heim, sbr. J. G., bls. 102 o. áfr., bls. 204.
366 Þegar við vorum bæði orðin frumvaxta, epei hr'eben polyeraton híkomeþ'
amfó: „Þegar við bæði höfðum náð hinum þráða æskublóma“.
367 til Sámseyjar, sbr. aths. XIV. 120.
367 og fengu svo mikið brúðfé, sbr. aths. XV. 18.
403—404 Sýrey og Ortygía eru nöfn á ævintýraeyjum, sem eigi verða staðsettar,
nema hvað segja má, að þær liggi einhvers staðar í vestri.
409 í byggðinni, polín kata: „í borginni“.
410 Um Apollon og Artemis sjá J. G., bls. 124 og 130.
415 feniskir menn, sbr. aths. XIV. 288.
416 svikarar, tróktai: „braskarar“ eða „brallarar“, (mun vera leitt af trógó
= naga).
416 á skipi sínu, neí melaine: „á hinu svarta skipi“.
425 Sídonsborg, í Fönikíu, sbr. kort.
432 heimkynni, hypserefes dó: „hið háreista hús“.
456 á skip sitt, en neí glafyre: „á hið hola (rúmgóða) skip“.
457 En er skipið var hlaðið, all' hote de koile neýs eþeto: „En þegar hið
hola skip var hlaðið“.
459 Þessi kyndugi maður, elyþ' aner polyídris: „Maður kom, bragðarefur“.
460 hann hafði með sér hálsfesti, hún var úr rauðagulli, en kaflarnir á milli
af lýsigulli: khryseon hormon ekhón, meta d' elektroisin eerto: „Hann
hafði meðferðis hálsfesti úr gulli, en inn á milli var raðað rafperlum“.
— Sams konar festar getur Od. XVIII. 296, sbr. aths. þar.
464 ofan til skips, koilen epí nea: „ofan til hins hola skips“.
469 undir kápulaf sitt, hypo kolpó: „í barmi sínum“. Orðið kolpos táknar
hér fellingu þá, sem myndaðist á kvenkyrtli (peplos), er hann var
látinn falla yfir beltið. Var felling þessi notuð sem vasi.
477 Seifur Kronusson, sbr. J. G., bls. 110.
478 hin örvumglaða Artemis, sbr. J. G., bls. 130.
479 eins og veiðibjalla, einalíe kex: Tæplega verður sagt með vissu um, við
hvaða fugl er átt hér, nema um einhvern sjófugl mun vera að ræða.
Sumir telja þetta helzt vera toppsefönd eða flórgoða.
495 því ekki leið á löngu, áður dagur ljómaði, aipsa gar Eós elþen eýþronos:
„því að brátt kom Morgungyðjan fagurstóla“.
SEXTÁNDI ÞÁTTUR
Aftur er breytt um svið, án þess að samhengi frásagnarinnar rofni. Tengiliðurinn
er för Telemakkusar, sem vér fylgdumst með frá lendingarstaðnum,
þar sem hann kvaddi félaga sína, til kofa Evmeusar. Annar tengiliður er
það, er minnzt er á dögunina (2. ljóðl.), því að hennar var áður getið
XV. 495.
7 skjótum orðum, sbr. aths. X. 324.
23 Telemakkus, blessunin mín góð! Telemakhe, glykeron faos: „Telemakkus,
sæta ljós“.
33 hvort hún er ennþá kyrr heima: Sumum hefur þótt einkennilegt, að
Telemakkus skuli spyrja svo eftir mánaðar fjarveru. Án efa lætur skáldið
Telemakkus haga svo orðum sínum til að minna oss á, að hin miklu umskipti
á högum hans og Penelópu séu að nálgast. Eins og vér munum
sjá, mátti ekki tæpara standa, að Odysseifur kæmi heim.
35 í einhverju horninu: Þessum orðum hefur Sveinbjörn bætt við til skýringar
og áherzlu.
60 Evmeus svínahirðir svaraði honum, sbr. aths. XIV. 55.
101 „kæmi heim úr hrakningum sínum, því ekki er enn fyrir von komið
um það“. Þessari ljóðl. sleppir Sveinbjörn í þýðingunni, enda er hún
til skemmda í þessu samhengi. Síðara hluta hennar er að finna XIX.
84 og fellur þar vel inn í.
123 Dúliksey o. s. frv., sbr. kort bls. 11.
129 en þó ræður mestu um, hvað guðirnir vilja vera láta, all' e toi men táta
þeón en gúnasí keitai: „en sannlega hvílir þetta í skauti guðanna“, sbr.
aths. Il. XX. 435.
135 Evmeus svínahirðir svaraði honum, sbr. aths. XIV. 55.
139 Meðan hann einkanlega harmaði hvarf Odysseifs: Hér virðist Sveinbjörn
nota orðið „einkanlega“ í sömu merkingu og „einungis“.
145 og fellir stórum af: Þetta má teljast ágæt þýðing á orðunum fþínyþei
d' amf' osteofí khrós, „og hjaðnar holdið utan af beinum hans“.
153 afa mínum, gerontí: „öldungnum“.
157 Kom hún þá til bæjarins, all' he ge skhedon elþe: „En hún nálgaðist þá“.
162 Enginn sá hana, nema Odysseifur og hundarnir o. s. frv.: Þetta er eitt
dæmi um það, hve skáldið hefur miklar mætur á hundum, sbr. XIV. 29,
XVI. 5 og sérstaklega XVII. 291—327.
172 með gullnum staf: Slíkan sprota nota líka Hermes og Kirka, (sbr. X.
238, 293, 319).
175 varð hann nú aftur rauðleitari í framan, aps de melankhroies geneto,
„varð hann nú aftur dökkbrúnn á hörund“. Slíkt var auðvitað tákn
um heilsu og hreysti, þar sem hann hins vegar í öldungsgervinu (sbr.
XIII. 430) hafði verið fölur ásýndum.
176 og blásvart skegg spratt á vöngum hans: kyaneai d' egenonto geneiades
amfí geneion: „og blásvart skegg spratt á höku hans“, sbr. ath. XIX.
473. Áður hefur verið tekið fram (XIII. 399), að Odysseifur hafi verið
rauðbirkinn. — Monro segir, að vinur sinn einn hafi bent sér á eigi
ósvipað ósamræmi í Heart of Midlothian eftir Scott í 1. útg. I. bd.
IV. kap. er Effie Deans lýst sem „modest-looking black-haired girl“.
Í IX. kap. sama bindis er sagt, að „her Grecian-shaped head was profusely
rich in waving ringlets of brown hair“. Loks er í II. bd. X. kap. getið
um „her beautiful and abundant tresses of long fair hair“. Í síðari útgáfum
var bætt um þetta ósamræmi með því að breyta „black-haired“ í
„fair-haired“. Þetta dæmi gæti orðið bending um það, hve varlegt er að
gera ráð fyrir fingraförum mismunandi höfunda í Hómer, þótt smávegis
ósamræmis gæti í aukaatriðum. Verður jafnan að hafa í huga þann
reginmun, sem var á aðstæðum höfunda í fornöld og á vorum dögum
prentlistar og hvers konar hjálpargagna.
180 skjótum orðum, sbr. aths. X. 324.
221 hefði ekki bráðum talað til föður síns: Orðið aipsa þýðir Sveinbjörn hér
„bráðum“. Betur virðist eiga við að þýða það „skyndilega“.
237 Þá skal eg skoða hug minn um: „Þá skal eg skoða hinn göfuga hug
minn (þymon amymona) um“.
247 frá Dúliksey eru 52 útvaldir menn o. s. frv.: Sjá kort á bls. 11.
— Samkvæmt upptalningu þessari hafa biðlarnir alls verið 108 og 10
þjónustumenn að kallaranum og söngvaranum með töldum.
Víða í kviðunni er að biðlunum vikið sem ráðendum hinna fjögurra
eyja, Dúlikseyjar, Sámseyjar, Sakyntseyjar og Íþöku, t. d. I. 245—48:
„Því allir þeir höfðingjar, sem nokkurs eru ráðandi á eyjunum, Dúliksey,
Sámsey og hinni skógivöxnu Sakyntsey, og allir þeir, sem ríki hafa á
hinni grýttu Íþöku, biðla til móður minnar og eyða búinu“: Erfitt er
að koma þessu heim við ýmsa aðra staði í kviðunum. Biðlarnir búa
ekki í höll Odysseifs. Þeir koma þangað á hverjum degi (II. 55 =
XVII. 534: „heldur venja þeir komur sínar í hús vort dags daglega“),
en að kveldi halda þeir heim hver til síns heimkynnis í Íþökuborg,
(I. 424). „Gekk þá hverr heim til sín, og vildu leggja sig til svefns“;
II. 397 „Þeir flýttu sér út í borgina til svefns“; XVIII. 428 „gekk hverr
heim til sín og fóru að hátta“. Þegar þeir gefa Penelópu gjafir (XVIII.
291 o. áfr.), fara sendiboðar þeirra og koma að vörmu spori aftur. Í II.
51 segir um biðlana: „Eru það synir þeirra manna, er göfgastir eru hér
í landi“ (þ. e. Íþöku). Mótsögn virðist hér efalaus. Á henni ber þó
fyrr að leita annarra skýringa en mismunandi höfunda. Fremur ber að
líta á það, að ýmsar misfellur í skáldritum er til þess að rekja, að minni
manna eru takmörk sett. Þá skortir oss og oft þekkingu á aðstæðum, sem
samtímamönnum skáldsins voru vel kunnar. Að skáldinu er Íþaka hugstæðust
og það gleymir því stundum hinum eyjunum þrem, getur auðveldlega
stafað af því, að þar átti Odysseifur heima, og höfðingjar nálægra
eyja lutu honum. Hins vegar kunna höfðingjar þessir að hafa átt gistivini
í höfuðborginni. En hvað um það, áheyrendur Hómers munu
kunnað hafa á þessu einhverja skýringu.
Um ríki Odysseifs og þjóðfélagshætti þar hefur ritað m. a. Walter Leaf:
Homer and History. London 1915, bls. 139 o. áfr.; einnig má benda á
Il. II. 632.
281—298 Þessar 18 ljóðlínur hefur Sveinbjörn fellt niður í þýðingunni, (þar
af eru 288-94 að efni til = XIX. 7—13), enda vildu þeir Zenodotus og
Aristarchus ekki við þær kannast. Er hér gert ráð fyrir, að Odysseifur
hafi vitneskju um aðstæður, sem honum að svo komnu máli gat eigi
verið kunnugt um. Hins vegar eru hér fyrir sig fram og óviðbúið bornar
upp ráðstafanir, sem falla miklu betur inn í samhengið síðar, þegar
undirbúningur hefst að biðlavígunum. Auk þess ber frásögninni 295
o. áfr. eigi saman við framkvæmd verksins síðar (XIX. 31—33; XXII.
101—125). Kaflinn, sem felldur hefur verið niður, er svona í þýðingu:
„En eitt ætla eg að segja þér, sem þú skalt festa þér í huga: Þegar hin
fjölvitra Aþena skýtur því mér í brjóst, ætla eg að banda þér með
höfðinu. Skaltu þá, er þú verður þess var, taka öll vopn, sem eru í höll
og koma þeim fyrir hverju eina og einasta innst inni í hinum
háreista geymslusal. En þegar biðlarnir sakna þeirra og fara að spyrja
þig að þeim, þá skaltu tala blíðlega til þeirra svo felldum orðum (=
XIX. 7—13): „Eg tók þau úr reyknum, skaltu segja, þau er nú ólík því,
sem þau voru forðum, þegar Odysseifur skildi þau eftir, áður hann
fór til Trójuborgar, því það hefur fallið á þau, þar sem svælan hefur
náð að komast að þeim. Þar að auki skaut einhverr guð, skaltu segja, í
brjóst mér nokkuru, sem meira varðar: ef svo kynni til að bera, að þér
yrðuð víndrukknir, að deila kæmi meðal yðar, þá vildi eg ekki, að þér
bærust vopn á, og gerðuð þar með veizluspjöll og smánuðuð bónorð
yðar; því sjálft laðar veganda vopn.
Aðeins handa oss tveimur skaltu skilja eftir tvö sverð og tvö spjót og
tvo uxaleðurskildi handa oss til að hafa í hendi, svo að vér fáum sem
skjótast undið oss að þeim og gripið. En hvað biðlana snertir, þá mun
Pallas Aþena og hinn ráðvísi Seifur blekkja þá“.
320 ef það annars er víst, að Seifur Ægisskjaldi hafi sýnt þér eitthvert teikn
um aðstoð sína, ei eteon ge tí oisþa Díos teras aigíokhoio: „ef þú annars
með sanni veizt eitthvert teikn Seifs Ægisskjalda“. — Um Ægisskjalda
sbr. J. G., bls. 120, (3. l. að neðan o. áfr.).
323 til Pýlusborgar, sbr. aths. XIV. 180, sjá ennfremur kort.
322 lögðu nú að landi við Íþökuborg: sbr. XV. 503 og 553. Er hér nú tekinn
upp þráður frásagnarinnar, sem fyrr var frá horfið í XV. 554.
327 Klytíus, faðir Píreusar, hins trúa félaga Telemakkusar, sem hann hafði
falið Þeóklýmenus á hendur, sbr. XV. 539.
331—332 (gerðu þeir það) til þess, að hin ágæta drottning skyldi ei verða
hrædd um son sinn, og ekki falla í grát af hugarkvíða, hina me deisas'
ení þymó / ifþíme basíleia teren kata dakryon eiboi: „til þess að hin
ágæta drottning skyldi ei verða hrædd og úthella hnöttóttum tárum“.
— Orðin teren dakryon þýðir Sveinbjörn annars staðar „mjúk tár“ (Il.
III. 142; XVI. 11) og „fögur tár“ (Il. XIX. 323). Orðið teren, — enos
[sbr. hið latneska teres] þýðir „hnöttóttur“ eða „ávalur“. Notar Hómer
það sem einkunn 1) með tárum, 2) með holdi, og þýðir Sveinbjörn
það þá „mjúkur“ (Il. XIV. 406) eða „fríður“ (Il. XIII. 553), 3) með
gróðri, sem safamikill er og blómlegur, og þýðir Sveinbjörn það þá
„mjúkur“ (Il. XIII. 180), „grannur“ (Od. XII. 357), „blómfagur“ (Od.
IX. 449).
345 Evrýmakkus Polýbusson: Hann og Antínóus voru forystumenn biðlanna.
346 víst er það meira en vér mundum hafa til ætlazt af Telemakkusi að
hann hefir komið fram því stórræði að fara þessa ferð, e mega ergon
hyperfíalós tetelestai / Telemakhó hodos hede: „víst hefur Telemakkus
komið fram miklu stórræði á ofmetnaðarfullan hátt, þar sem ferð þessi er“.
350 og segja hinum að koma fljótt heim aftur, þ. e. þeim, sem lágu í launsátri
fyrir Telemakkusi.
351 Amfínómus, sanur Nísuss, leiðtogi biðlanna frá Dúliksey. Getur hans
síðar hér í þessum þætti (394), einnig XVIII. 119, 153, 395 o. s. frv.
359 settu, þegar upp skipið, nea melainan „settu þegar upp hið svarta skip“.
361 því næst gengu biðlarnir allir saman á þing, átoi d'eis agoren kíon
aþrooi: „En sjálfir gengu biðlarnir því næst allir saman á þing“. —
„Sjálfir“, átoi, er hér sagt í mótsetningu við „hina vösku sveina“ á
undan.
363 Antínóus Evpíþesson: Hann var leiðtogi biðlanna ásamt Evrýmakkusi.
394—95 Amfínómus, sbr. aths. við 351.
Hann var Nísusson, Nísú faidómos hyíos: „hinn frægi Nísusson“.
396 Dúliksey, sbr. aths. við XIV. 335.
412 Medon kallara hafði Odysseifur skilið eftir heima, er hann fór til Tróju.
Þótt hann hefði að vísu átt nokkur mök við biðlana, gaf Odysseifur
honum samt líf (XXII. 357, 361).
416 smágjörva höfuðblæju, lípara kredemna: „skínandi höfuðblæju“. Hefur
Sveinbjörn og þýtt svo I. 334, en XVIII. 210 „smágjörva höfuðblæju“,
en XXI. 65 „dýrlega höfuðblæju“, sbr. aths. XVIII. 210 og aths. Il.
XXII. 406.
422 Hvað kemur til, að þú virðir einskis nauðleitarmennina, sem standa í
ábyrgð Seifs? Eigi getur Telemakkus með réttu kallazt nauðleitarmaður
biðlanna, heldur mun verða að setja þetta í samband við sögu þá, sem
Penelópa segir hér á eftir, að faðir Antínóuss hafi komið sem nauðleitarmaður
til Odysseifs. Sakir þess var Antínóus tengdur heimili
Odysseifs helgum böndum.
426 Taffey, sbr. aths. við XIV. 452.
427 Þespróta, sbr. aths. við XIV. 315.
434 Evrýmakkus Polýbusson, sbr. aths. við 345.
442 Odysseifur borgabrjótur, sbr. aths. við XIV. 447.
452 Hinn ágæti svínahirðir: Hér víkur sögunni aftur til þeirra Odysseifs í
kofa Evmeuss.
464 Evmeus svínahirðir svaraði honum, sbr. aths. við XIV. 55.
471 Hermesarhóll, Hermaios lofos, sbr. J. G., einkum bls. 146—47. Samkvæmt
Od. XIV. 435 hefur Hermes dýrkaður verið ásamt landvættum
(dísum, „nýmfum“).
474 og tvíeggjuðum spjótum, enkhesín amfígyoisín: Skýrendur eru ekki á
einu máli um merkingu orðsins amfígyos. Sennilega táknar það aðeins,
að spjótsoddurinn hafi verið bogadreginn báðum megin, blaðlaga.
479 jafndeildum máltíðum, daitos eíses: þ. e. í máltíðum, þar sem hver
fær jafna hlutdeild í krásunum.
481 gengu þeir til hvílu og tóku á sig náðir, koitú te mnesanto kai hypnú
dóron helonto: „hugsuðu þeir til hvíldar og tóku gjöf svefnsins“.
SEYTJÁNDI ÞÁTTUR
Hér hefst 39. dagur í heildaratburðaröð kviðunnar. Segir frá atburðum
þessa dags aftur að 90. ljóðlínu í XX. þætti.
Hinir þrír höfuðþættir í frásögninni — örlög Odysseifs sjálfs, Penelópu
og Telemakkusar — taka nú að tvinnast saman. Eykst óðum stígandin, unz
hámarki er brátt náð.
4 greiphæft, palamefín: þetta er eitt hinna ágætu nýyrða, sem Sveinbjörn
hefur myndað við þýðinguna.
29 reisti hann spjót sitt upp við hina hávu stoð: Stoð þessi hlýtur að hafa
verið í anddyri, því að í næstu ljóðlínu stendur:
30 gekk svo inn og steig yfir steinþröskuldinn: þ. e. a. s. inn í stofuna eða
skálann, sem var aðalvistarvera heimamanna, (sbr. I. bls. XLV-XLVI).
Langt mál hefur ritað verið um þröskuldinn í Hómerskviðum. Deilum
hefur það valdið, að skáldið talar, ýmist um steinþröskuld eins og hér
eða eskiþröskuld (t. d. XVII. 338). Eðlilegasta skýringin á því virðist
vera þessi: Dyraumbúnaðurinn, sem hurðin féll í, mun hafa verið úr
tré. Hafa dyrustafirnir verið greyptir í viðarþröskuld, sem hvílt hefur
á traustri undirstöðu úr steini. Er það undirstaða þessi, sem Hómer mun
kalla steinþröskuld (laínos údos). Mun hann verið hafa allbreiður, því
að á steinþröskuldinum við inngöngudyr skálans eigast þeir við Írus
karl og Odysseifur (XVIII. 32 o. áfr.), og er Odysseifur vegur biðlana,
tekur hann sér líka stöðu á hinum mikla þröskuld (XXII. 2). — Bent
hefur verið á, að enn á vorum dögum sé slíkur steinþröskuldur hið
venjulega sæti betlaranna í hverju kaffihúsi við austanvert Miðjarðarhaf.
37 Artemis ... Afrodítu, sbr. J. G., bls. 130 og 137.
40 skjótum orðum, epea pteroenta: sbr. aths. X. 324.
41 Telemakkus, elskulífið mitt, Telemakhe, glykeron faos: „T., sæta ljós“.
42 til Pýlusborgar: sbr. aths. XIV. 180, sjá ennfremur kort.
47 bersýnilegum lífsháska, aipyn oleþron: „bráðum bana“, sbr. aths. I. 11.
49 Sveinbjörn fellir hér niður 49. ljóðl. (á eftir orðunum „hrein klæði“):
„er þú hefur farið upp í loftsalinn með ambáttum þínum“. — Vantar
þessa ljóðl. einnig í mörg handrit.
50 fullkomnum hundraðsfórnum, telessas hekatombas: „árangursríkum
hundraðsfórnum“, þ. e. hundraðsfórnum, sem leiða til þess, að mönnum
veitist það, er um var beðið. — „Hundraðsfórn“ þýðir í rauninni „hundrað
nauta fórn“ [hekatombe (hekaton = hundrað) + bús = naut].
52 út á torg: Á torginu voru menn vanir að koma saman til skrafs og ráðagerða.
Þar gat hann vænzt þess að hitta Píreus.
55 Píreus: Förunautur Telemakkusar, sem hann hafði falið Þeóklýmenus
(XV. 539, 540, 544).
46—56 Svör þau, sem Telemakkus veitir móður sinni hér, er hann er
nýsloppinn heim úr háskaför, virðast í fyrstu einkennilega stuttaraleg.
Við nánari athugun er orsök þess auðsæ. Hann hefur ekki enn náð sér
eftir hina óvæntu endurfundi við föður sinn. Hið mikla leyndarmál,
endurkoma Odysseifs til Íþöku, leggur hann í fjötra. Telemakkus varast
því alla óþarfamælgi. Penelópa kvartar síðar (104.-106. ljóðl.) undan
því, að hann svari ekki spurningum sínum. Hún viti ekki, hvort hann
hafi nokkrar spurnir haft af Odysseifi eða ekki. Fyrirskipun Telemakkusar,
að Penelópa skuli heita á hina ódauðlegu guði og færa Seifi
hundraðsfórnir, var ef til vill orðtak, sem þýddi: „Eg vil ekkert segja“,
(sbr. Il. VI. 240). Ber hann því við, að hann þurfi að fara til torgsins.
Síðar, þegar hann hefur haft tíma til að ná sér, segir hann móður sinni
ferðasöguna.
59 fullkomnum hundraðsfórnum, sbr. aths. við 50. ljóðl.
62—64 = II. 11—13: lýsing á því, er Telemakkus fer að heiman til torgs.
62 og hinir fóthvötu hundar, dyó kynes argoi: „tveir fóthvatir hundar“.
63 Aþena, sbr. J. G., bls. 120.
68 Mentor og Antífus og Halíþerses: Mentor var aldavinur Odysseifs, sem
hann hafði falið umsjá með húsi sínu og eignum. Flytur hann ræðu á
þingi Íþökumanna (II. 225); Aþena tekur á sig gervi hans (II. 267), er
hún hvetur Telemakkus til að fara til Pýlusborgar og Spörtu og einnig
síðar (416) sem fararstjóri. Mentor kemur og við sögu (XXII. 206) í biðlavígunum,
í bardaganum við Íþökumenn (XXIV. 502) o. s. frv.
Antífus er kallaður (II. 19) sá félagi Odysseifs, sem Kýklópurinn lagði
sér síðastan til munns. Segir þar, að hann hafi verið sonur öldungsins
Egyptíuss. Virðist skáldið hér því rugla saman föður og syni.
Halíþerses var aldraður höfðingi á Íþöku. Flytur hann ræðu á þingi
II. 157. Hans getur og II. 253 og XXIV. 451, er hann ræður frá að
veita Odysseifi atgöngu.
71 Píreus, sbr. aths. 55.
86 legubekkina og hástólana: sbr. aths. X. 233.
89 loðkápur, khlainas úlas: „ullarkápur“ [úlos fyrir (v)ol-nos, sbr. Latn.
vellus, ensku wool].
91—95 = I. 136—140 = IV. 52—56 = VII. 172—176 = X. 368—372
= XV. 135—139. Má af þessu sjá, að hér er um einn hinna endurteknu,
fastmótuðu kafla söguljóðanna að ræða.
97 á legubekk, klismó: Þetta mun verið hafa þægilegur stóll með baki,
svo að sá, er á sat, gat hallað sér aftur.
101—103 = XIX. 594—596: „Eg ætla nú, Telemakkus“, o. s. frv. — Er
Telemakkus hefur nú gegnt skyldum gestrisninnar (52 o. áfr.), langar
Penelópu til að heyra árangur ferðarinnar. En áskorun til hans í þá
átt færir hún í búning trega og auðsveipni: Hún ætlar að leggjast í
hvílu sína, sem orðin er henni að sorgarsæng, en bætir þó jafnframt
við, að hann ætli ekki, hvort sem er, að segja henni neitt af ferðinni.
Þessi orð hennar hafa tilætluð áhrif.
104 Ilíonsborg = Trója, sjá kort.
með Atreifssonum, þ. e. Agamemnoni og Menelási, sbr. I., bls. XVII.
109 til Pýlusborgar (sbr. aths. XIV. 180),
og komum til þjóðhöfðingjans Nestors, sbr. J. G., bls. 253.
118 Helenu hina Argversku, sbr. I., bls. XVII.
121 til ennar helgu Lakedemonar, þ. e. Spörtu.
132 Faðir Seifur og Aþena og Apollon, sbr. J. G., bls. 110, 120 og 124.
133 Lesbey (Lesbos): eyja í Egevshafi við vesturströnd Litlu-Asíu norðanverða.
134 Fílomeleides: Hans getur aðeins hér og IV. 343.
140 sem hinn sannfróði sjávaröldungur sagði mér: Átt er við Próteif
(Prótevs), sbr. J. G., bls. 174; sjá ennfremur IV. 383 o. áfr.
143—146 = IV. 557—560: í húsum Landvættar nokkurrar o. s. frv.
147 hinn spjótfimi Menelás, dúrikleitos Menelaos: „hinn spjótfrægi M.“.
151 hinn goðumlíki Þeóklýmenus: sbr. XV. 223 o. áfr.
155 Viti það Seifur o. s. frv.: sbr. aths. XIV. 158.
167—169 = IV. 625—627.
168 skemmtu sér ... að töfluleik, diskoisín terponto: Það, sem Sveinbjörn
kallar „töfluleik“, nefnist nú „kringlukast“.
169 á hinu lagða gólfi ... , þar sem þeir voru vanir áður að hafa ýmislegt
ofríki í frammi, en tyktó dapedó, hoþí per paros hybrín ekhontes:
hinu troðna gólfi ... svo sem þeir af ósvífni hjartans lögðu í vana
sinn“.
172 Medon: sbr. aths. XVI. 412.
179 á legubekkina og hástólana: sbr. aths. X. 233.
206 á henni voru mannaverk, tykten: Þetta orð mun hér tákna, að við lindina
hafi verið þró úr höggnu grjóti.
207 Íþakus, Nerítus og Polyktor: Sagnaritari einn forn segir þá verið hafa
bræður. Hafi þeir fyrst numið Kefaleníu, en síðar Íþöku. Er þetta talin
forn arfsögn, sem eigi sé í tengslum við ætt Odysseifs. Virðist þetta eitt
dæmi þess, að höfðingjaættir þær, sem koma við sögu Trójustríðs, hafi
rutt af stóli eldri hetjuættum.
212 Melanþíus Dolíusson, geitahirðir, er andstæða hins trúa og dygga
Evmeusar. Er hann ýmist kallaður Melanþíus eða Melanþevs.
251 Apollon Silfrinbogi: sbr. J. G., bls. 124 o. áfr.
257 Evrýmakkus: sbr. aths. XVI. 345.
261—62 eiminn af hörpuslættinum, íóe / formíngos glafyres: „hljóm hinnar
holu hörpu“.
263 Femíus, söngmaður, sem biðlarnir höfðu neytt til að syngja fyrir sig.
Getur hans einnig: I. 154, 337; XVI. 252; Odysseifur þyrmir honum
XXII. 331; XXIV. 439.
264 „Þetta munu vera hin fögru hús Odysseifs o. s. frv.“: Um húsaskipan
hjá Odysseifi sjá I., bls. XLV.
272 Evmeus svínahirðir svaraði honum: sbr. aths. við XIV. 55.
288 herskip, nees eýtsygoi: „þóftusterk skip“, sbr. XIII. 116.
306 „Þetta er næsta undarlegt o. s. frv.“: Það, sem Odysseifur þykist furða
sig á, er, að svo ágætlega vaxinn hundur skuli vera látinn hafast við
á mykjuhaugi; sbr. ennfremur aths. XVI. 162.
311 Evmeus svínahirðir svaraði honum: sbr. aths. XIV. 55.
339 á eski þröskuldinn fyrir innan dyrnar: sbr. aths. 30.
349 og sagði, epea pterecnta: „mælti til hans fleygum orðum“.
369 Melanþíus geitahirðir: sbr. aths. 212.
374 Antínóus: sbr. aths. XVI. 363.
380 Evmeus svínahirðir svaraði honum: sbr. aths. XIV. 55.
383 þjóðnýtur, demíoergoi: Er þetta sagt í mótsetningu við búalið og kaupmenn,
sem aðeins hafa undir höndum eigin eignir eða eignir húsbænda
sinna.
407 Ef hverr biðlanna viki að honum öðru eins, þá mundi hann ekki hingað
koma aftur, og ekki úr fyrir dyr fara í þrjá mánuði, ei hoi tosson hapantes
orexeian mnesteres, / kai ken mín treis menas apoproþon oikos erykoi:
„Ef hver biðlanna viki að honum öðru eins, [Hér verður að hugsa sér,
að Antínóus seilist eftir fótskörunni], þá mundi þetta hús halda honum
álengdar í fulla þrjá mánuði“.
Þessi orð eru af ásettu ráði tvíræð: Þau gætu þýtt, að betlarinn mundi
hafa nægan mat um þriggja mánaða skeið.
410 fætur sína, líparús podas: „hina skínandi fætur sína“.
427—441 = XIV. 258—272.
427 hinum borðrónu skipum, neas amfíelissas: sbr. aths. X. 91.
472 eða sauði, e argennes oíessín: „eða hvíta sauði“.
495 Evrýnóma: Hennar getur XVIII. 164, 169, 178; XIX 96, 97;
XX. 4; XXIII. 154, 289, 293. Virðist hún hafa gegnt störfum Evrýkleu
í forföllum hennar.
499—504 „Að sönnu eru þeir mér allir leiðir o. s. frv.“: Erfitt er að gera sér
grein fyrir, hvernig Penelópa á að hafa fengið vitneskju um það, sem
fram fór í stofunni. Hún virðist ganga að því vísu að Evrýnoma og
ambáttirnar séu einkis vísari. Ef til vill verður að gera ráð fyrir, að á
vistarveru kvennanna hafi verið eitthvert op eða gluggi, sem gerði
Penelópu kleift að fylgjast með því, sem var að gerast í stofunni, (sbr.
542, er hún heyrir Telemakkus hnerra, I. 328 heyrir hún söng Femíusar,
XX. 92 heyrir Odysseifur raust hennar).
512 Evmeus svínahirðir svaraði henni: sbr. aths. XIV. 55.
515 og hélt honum í þrjá daga á bæ mínum: Tímatalið er hér nokkrum vafa
undirorpið. Ef heimferð Telernakkusar hófst ekki fyrr en morguninn
eftir að Odysseifur lenti á Íþöku (sjá aths. XV. 1), hlýtur Odysseifur að
hafa dvalið fjórar nætur í kofa Evmeusar, þ. e. 1) nóttina eftir landtöku,
2) nóttina, sem Telemakkus gisti í Feruborg (XV. 188), 3) nóttina, sem
farið var frá Pýlus og 4) nóttina eftir heimkomu Telemakkusar. En
auðvitað er ósanngjarnt að krefjast vísindalegrar nákvæmni af skáldinu
í þessum efnum og líkum. Auk þess verður þessi ónákvæmni auðskilin,
er tekið er tillit til þess, að einungis þrem kvöldum í kofa Evmeusar
er lýst — einu í hverjum hinna þriggja þátta XIV.-XVI. Að öðru leyti er
dvölin þar — annar dagurinn og fyrri hluti þriðja dagsins — tíðindalaus
og hefur því liðið skáldinu úr minni.
522 vera gestavinur föður Odysseifs: „vera gestavinur Odysseifs að langfeðgatali“,
(xeinos patróïos). Öll þessi frásögn er öðruvísi en sú, sem
Odysseifur segir Evmeusi (XIV. 321 o. áfr.), en er eins og sagan, sem
hann segir Pcnelópu (XIX. 172 o. áfr.).
523 Mínós, sjá J. G., bls. 233.
526 í Þesprótalandi, Þesprótón andrón en píoní demó (= XIX. 271): „í hinu
frjósama landi Þespróta“, sbr. aths. XIV. 315.
552 og kvað svo að orði, epea pteroenta: „og mælti til hans fleygum orðum“.
579 Evmeus svínahirðir svaraði henni: sbr. aths. XIV. 55.
586 Ekki er ímyndun gestsins óviturleg, hverr sem hann er, úk afrón ho
xeinos; oíetai, hós per an eie: „Eigi er gesturinn vizkusnauður; getur
hann sér til, hvernig fara kunni“. — Þýðing Sveinbjarnar: „hverr sem
hann er“, byggist á leshættinum hos per, sem nú er eigi talinn réttur.
599 en bíddu fyrst náttmálanna, sy d' erkheo deielíesas: „far þú leiðar þinnar,
er þú hefur snætt kveldverð“.
ÁTJÁNDI ÞÁTTUR
5 hans heiðvirða móðir, potnía meter: Um notkun orðsins „potnía“ sjá
aths. X. 394. — Þetta, að móður betlarans skuli valin hin sama einkunn,
sem prýðir annars í kviðunum nöfn á gyðjum og mæðrum goðborinna
kappa, hefur orðið fræðimönnum tilefni til allólíkra ályktana. Ameis
telur þetta t. d. bera vott um siðferðilega viðurkenningu á hinu háleita
hlutverki móðurinnar. Monro telur þetta hins vegar eina sönnum af
mörgum fyrir háðfærslu þeirri á hátíðleik hins forna söguljóðastóls, er
víða verði vart í síðari þáttum Odysseifskviðu, (sbr. ennfremur G.
Murray: The Rise of the Greek Epic, 4th Ed., bls. 261 o. áfr.).
6 gefið honum: Á eftir þessum orðum hefur Sveinbjörn fellt niður „ek
genetes“, „frá fæðingu“.
Írus (Íros): Nafn þetta er auðsjáanlega myndað með því að breyta nafni
gyðjunnar Íris í samsvarandi kk.-orð. Var gyðjan Íris hin hraðfara sendimær
guðanna, sbr. J. G., bls. 261.
19 en hamingjulánið veita guðirnir: sbr. VI. 188. Hugsunin er þessi: Við
erum báðir flakkarar. Hvort það á fyrir öðrum eða báðum að liggja að
komast til meiri virðingar, er á valdi guðanna, sem veita hamingjulánið
(olbos) að geðþótta.
21 að eg gæfi þér blóðnasir, steþos kai kheilea fyrsó / haimatos: „að eg ataði
brjóst þitt og varir blóði“
29 túnsæknu svínin, syos hós leíboteires: „svínið, sem eyðileggur uppskeruna“.
— Þótt í smáu sé, kemur aðferð Sveinbjarnar hér vel fram:
Hann lætur sér ekki nægja að þýða, hann flytur jafnframt hið erlenda
efni inn í íslenzkan hugmyndaheim.
31 „Hvernin áttu að geta barizt við ungan mann?“ Pós d'an sy neóteró
andrí makhoio: „Hvernin áttu að geta barizt við (þér) yngri mann?“
34 Antínóus: sjá aths. XVI. 363.
52 við ungan mann, neóteró andrí: „(mér) yngri mann“.
59. ljóðl. sleppir Sveinbjörn, enda vantar hana í ýmis handrit. Þessa ljóðl.
er einnig að finna II. 378, og þýðir Sveinbjörn hana svo þar: „En
er þeir höfðu svarið og unnið fullan eið“. (Hér aðeins „þeir“ fyrir
„hún“).
65 Antínóus og Evrýmakkus: fyrirliðar biðlanna, eins og áður er sagt.
73 „Senn fer illa fyrir veslings Írusi ...“, e takha Íros Aíros epíspaston
kakon hexei: „Senn mun Írus, sem eigi er nú lengur hinn gamli Írus
(þ. e. a. s. er nú orðinn smeykur og hefur týnt niður sinni venjulegu
ósvífni) fá illa útreið af sjálfskaparvíti“.
85 til Eketuss kóngs: Hann mun verið hafa einhver ógnarvera úr goðsögnum,
kenndur við mannát. Getur hans líka hér 116 og XXI. 308 og víðar.
101 dró hann út eftir fordyrinu o. s. frv.: sbr. I., bls. XLV um húsaskipun
hjá Odysseifi.
118 Antínóus: sbr. aths. XVI. 363.
125 Amfínómus: sbr. aths. XVI. 351.
127 Nísus frá Dúliksey: sbr. aths. XVI. 394—95 og XVI. 396.
133 og líkamsfjör, kai gúnat oróre: „og hnén gera sitt gagn“.
149 ekki vandræðalaust, ú ... anaimótí ge: „ekki án blóðsúthellinga“.
158—303 Kafli þessi hefur orðið gagnrýnendum mikið deiluefni. Skulu hér
rakin örfá atriði, sem þeir hafa helzt hnotið um. Hinn frægi þýzki
fornmennfræðingur Wilamowitz bendir á, að allan þenna kafla mætti
strika út, án þess að samhengi frásagnarinnar rofnaði neitt. Það er áliðið
dags (deielon emar XVII. 606), og hafa biðlarnir hætt dansinum og söngnum,
sem þeir voru vanir að skemmta sér við, til þess að horfa á
viðureign þeirra Odysseifs og Írusar. Þegar þeirri viðureign er lokið,
heldur frásögnin ofur eðlilega áfram XVIII. 304: „Nú fóru biðlarnir
þangað sem dansleikurinn var og hinn ununarfulli söngur, skemmtu sér
þar, og biðu þess að kvöldaði“. Virðist því allþungvæg sú athugasemd,
að tímans vegna gefist hér ekkert rúm fyrir komu Penelópu meðal biðlanna
og sendiferðina eftir gjöfunum, sem drottningin krefst af biðlunum.
Aðrar röksemdir snerta skapgerð Penelópu, hversu ólíklegt það sé,
að hún svipti allt í einu af sér öllum böndum hlédrægninnar og lúti
að brögðum, er tæplega verði talin henni samboðin. Einnig er bent á
annarlegan anda og stílblæ þessa kafla.
Því mætti auk þessa við bæta, að frásögnina skortir hér nokkuð á þá
fágun og hnitmiðun, sem Hómer annars er lagin. Svefn Penelópu
(187—197) hefst t. d. og endar, á meðan Evrýnoma er að kalla á ambáttirnar
úr stofunni, — en það mundi annars verða talin örstutt stund. Er
biðlarnir hins vegar senda eftir dýrmætum gjöfum handa Penelópu
(291—303), verður að gera ráð fyrir, að það taki talsverðan tíma, en á
meðan er algert aðgerðaleysi í höllinni. Verður þetta að teljast brot á
einni undirstöðureglu hinnar epísku listar. Eru þess mörg augljós dæmi,
hversu mikið far skáldið gerir sér um að forðast allt verulegt þess háttar
hlé, (sbr. Il. I. 493, III. 121).
Seeck (Quellen, bls. 34—40) leitast við að sýna fram á, að þessi kafli
hafi orðið fyrir einhvers konar hnjaski, er stafi af því, að upphaflega hafi
hann verið hluti af styttri kviðu, einni þeirra, sem að hans kenningu
Odysseifskviða er samin upp úr. Röksemdafærsla hans er á þessa leið:
Eitthvað er úr lagi fært í ummælum Evrýnomu (170—76), sem hlýtur
að hafa sagt meira en fram kemur í textanum, eins og hann er nú. Vér
sjáum, að Penelópa kemur eigi aðeins fram fyrir biðlana til að öðlast
aðdáun þeirra og gjafir. Hún tilkynnir jafnframt, að nú líði að því,
að hún bindi enda á bónorð biðlanna og segir ástæðuna vera þá, að
nú hafi Telemakkus náð fullum þroska (269). Nú er þetta einmitt það,
sem Evrýnoma hafði sagt (176). Þar af leiðandi hlýtur Evrýnoma að
hafa ætlað að knýja Penelópu til að lýsa því yfir, að hún féllist á giftingu.
En ljóðlínur þær, sem hún gerði það með, vantar. Hafa þær verið
felldar brott, er Odysseifskviða var „sett saman“. Ráðleggingin til Penelópu
um að búa sig sem bezt hlýtur einungis að hafa verið afleiðing.
Það, sem Penelópa ætlaði sér að segja við Telemakkus, getur hins vegar
ekki hafa verið hin lítilfjörlega aðvörun í 167. ljóðlínu, heldur tilkynning
um það, að héðan í frá mundi hann verða húsbóndi á heimilinu.
Röksemdir þær, sem nú voru taldar og einkanlega samanburður á 176.
ljóðl. og 269. ljóðl., gera það sennilegt, að skilningur Seecks á ræðu
Evrýnomu sé réttur. En þá mætti spyrja, hvort hin sama merking fáist
ekki líka út úr textanum, eins og hann er nú. Evrýnoma gat ekki vogað
sér að ráða drottningunni skýrt og skorinort til að ganga að eiga einn
biðlanna. En er Penelópa lýsti yfir þeirri ætlan sinni að ganga fram fyrir
biðlana, þá hugði Evrýnoma, að allt þetta fælist í þeirri yfirlýsingu drottningar,
enda sjáum vér af framhaldinu, að svo var. Evrýnoma notar ekki
orðið „gifting“ (fremur en Násíka við föður sinn VI. 66), en segir aðeins:
„Allt er þetta vel mælt, sem þú segir, dóttir góð! Far þú og ráð syni
þínum heilt, og leyn öngvu af, en fyrst skaltu þó þvo þér og smyrja
þig í framan ... það er ekki gott að vera í sífelldri sorg, sem aldrei
linnir. Nú er líka sonur þinn kominn á þann aldur, að þú sér hann
orðinn frumvaxta, eins og þú baðst hina ódauðlegu guði, að þér mætti
auðnast“.
Yfirleitt virðast þó talsverðar líkur til, að kafla þessum hafi síðar
verið skotið inn í þetta samhengi hér. Bent hefur verið á nokkur
dæmi um orð, sem teljast verða heyra til yngra stigi málsins en kviðunnar
(sbr. Monro um þenna kafla).
182 Átonóu og Hippodamíu, þernur Penelópu. Var það siðvenja konunga og
drottninga að hafa jafnan þjónustufólk í för með sér. Getur oft í því
sambandi tveggja þjónustumanna eða þerna, sbr. t. d. I. 331 (eða Helenu
Il. III. 143, Andrómökku Il. XXII. 450, tvær þernur sofa við dyr Násíku
Od. VI. 18).
192 með himneskri fegurð, kalleí ambrosíó: Orð þessi virðast notuð í hlutstæðri
merkingu: „með himneskum fegurðarsmyrslum“.
193 hin fagurlokkaða Kýterea, eystefanos Kyþereia: „hin fagurkrýnda
Kýterea“. — Átt er við Afrodítu ástagyðju, sbr. J. G., bls. 137.
194 Þokkagyðjanna: sbr. J. G., bls. 158.
202 Artemis: sbr. J. G., bls. 130.
207 Á eftir orðunum „hinum glæsilega loftsal“ hafa grísku orðin úk oie,
„ekki ein“ verið felld niður í þýðingu.
207—211 = I. 331—35 og 213 = I. 366.
210 smágjörvu höfuðblæju, lýpara kredemna: „skínandi höfuðblæju“. — Ætla
menn þetta verið hafa líndúk, bundinn um höfuðið með borða, en sinn
hvorum megin hafi hangið niður breið bönd, er bregða hafi mátt yfir
augu og kinnar, (sbr. aths. XVI. 416).
211 og stóð sín þjónustumey til hvorrar handar henni: Í þýðingu hefur verið
felld niður einkunnin „trygg“ (kedne) með „þjónustumey“.
214—243 Þessar ljóðlínur, samtal þeirra Penelópu og Telemakkusar, mega
næstum því óyggjandi teljast síðari tíma innskot, eins og Wilamowitz
(Hom. Unt., bls. 30) hefur sýnt fram á. Búið er að lýsa því, hversu
fullir aðdúnar biðlarnir eru á fegurð Penelópu (212—13, og tjáir
Evrýmakkus hrifningu þeirra (244 o. áfr.). Má telja líklegt, að upphaflega
hafi verið svo til ætlazt, að orð Evrýmakkusar kæmu strax á
eftir lýsingu þeirri, sem felst í ljóðlínunum 212-13. Samtal Penelópu
og Telemakkusar, sem kemur hér inn á milli, rýfur samhengi frásagnarinnar
og kemur ekki við erindi Penelópu í stofuna. Ennfremur er
þetta samtal þess eðlis, að það hefði ekki átt að fara fram í votta
viðurvist. Samt eru þau feðgin látin talast við í áheyrn biðlanna, og
hníga allar aðstæður að því að vekja athygli þeirra. Það, sem freistað
hefur til þessa innskots, er án efa orð Penelópu í 166. ljóðlínu: „Eg
vildi fegin ráðleggja syni mínum, það sem betur má fara o. s. frv.“ En
annars er þetta, sem Penelópa segir við son sinn hér, allt annað en
hún hafði hugsað sér að segja samkvæmt 166. ljóðl. o. áfr., (sbr. ennfremur
aths. við 244—45).
246 í hinu íasiska Argverjalandi, an Íason Argos: Orðasamband þetta kemur
aðeins fyrir hér. Hlýtur það að tákna allan Peleifsskaga eða ef til vill
allt Grikkland, (sbr. aths. XV. 80). Mun þetta eitt hinna fornu landfræðiheita,
sem lifað hafa í skáldamáli, bótt upprunaleg merking þeirra
væri stundum týnd. Sumir fræðimenn telja orðið Íasos vera dregið
af nafni Íóna (Íaones) gríska þjóðflokksins, sem byggt hafi Peleifsskaga
fyrir þjóðflutninga Dóra. Væri svo, ætti orðið að hafa myndina Íaoníos
(eða íoníos).
248 á morgni hverjum, eóþen: „frá því árla á morgun að telja“.
249 (= XI. 337) og að jafnaðargeði, frenas endon eísas: „og traustum
vitsmunum hið innra“. — Áður var lýst hinu ytra atgervi Penelópu,
síðan hinu andlega (innra).
252 síðan Argverjar fóru upp til Ilíonsborgar: sbr. I., bls. XVII. o. áfr.
258 tók hann um úlnlið hægri handar minnar: Sú athöfn virðist hafa átt
að tákna vináttu og góðvild, (sbr. XXIV. 398 og Il. XXIV. 671).
259 hinir harðbrynjuðu Akkear, eýknemídes Akhaiús: Þetta orðasamband
þýðir Sveinbjörn venjulega, fagurbrynhosuðu Akkear“, (t. d. Il. I. 17,
II. 331, IV. 414 o. s. frv.; Od. II. 72, III. 149, XI. 509), en
Il. III. 86 „vel brynhosuðu“ og hér og XX. 146 „harðbrynjuðu“. Eru
báðir hinir síðast töldu staðir úr þeim hluta Odysseifskviðu, sem
Sveinbjörn hafði eigi að fullu lokið endurskoðun á. — Orðið táknar
„búinn góðum knemídes“, þ. e. „legghlífum“. Munu legghlífar þessar
oftast hafa verið úr leðri, hafðar framan á legg fyrir neðan hné til að
hlífa fætinum fyrir núningi við hinn mikla skjöld. Þess getur og, að
slíkar legghlífar hafi verið notaðar, er menn voru að akuryrkjustörfum,
Od. XXIV. 228—29, er Sveinbjörn þýðir svo: „hafði leðurhosur á fótum,
saumaðar af nautsleðri, til þess hann hruflaði sig ekki á fótunum“.
281 en hinum margþjáða, ágæta Odysseifi þótti vænt um, að hún lokkaði
af þeim gjafir: Mikill hátíðleiki helgaði allar þær venjur á tímum
Hómers, sem tengdar voru gjöfum, hvort sem menn voru veitendur eða
þiggjendur. Er svo enn víða í Austurlöndum, og meðal þjóða á frumstæðu
menningarstigi. Mörg dæmi eru þess í Odysseifskviðu, hve gestgjafir
(xeineía) eru dýrmætar, sem hetjur svo sem Odysseifur og Menelás
hljóta, sbr. t. d. XIV. 323—326, XV. 82—86, XIX. 272.
Gagnrýnendur ýmsir hafa verið að velta því fyrir sér, hvernig Odysseifur
hafi átt að geta vitað, að Penelópa var aðeins að blekkja biðlana og var
honum enn trú í hjarta sínu, (Seeck: Quellen der Odyssee, bls. 35).
Frásagnir þær, sem hann hefur haft frá gyðjunni Aþenu (XIII. 336, 379)
og gera verður ráð fyrir, að Evmeus og Telemakkus hafi stutt með
sínum vitnisburði, eru því sem næst næg ástæða fyrir trausti Odysseifs.
Það skal og tekið fram, að orðin í 283. ljóðl.: „þar sem hún hafði þó
annað í hyggju“, minna á XIII. 381, er Aþena mælir til Odysseifs: „en
hugur hennar er allur annar“. Annars mátti Odysseifur gerst þekkja
skapgerð konu sinnar. Með engu móti fæst því hér stuðningur við
þá kenningu, að til hafi verið Odysseifskviða, þar sem endurfundir
þeirra Penelópu og Odysseifs urðu fyrr í frásögninni. Má segja, að
trúnaðartraust Odysseifs sé með öllu eðlilegt, og eykur þetta atriði
einmitt á skáldlegt gildi þessa kafla.
284 Antínóus Evpíþesson: sbr. aths. XVI. 345.
296 af lýsigulli, elektroisín: „úr rafperlum“. Fornmenn gerðu greinarmun á
hvk. orðinu elektron, „raf“, kk. orðinu elektros, sem var málmblendingur
úr gulli og silfri. Fleirtalan hér gæti ekki átt við málm, en væri
eðlileg um efni, sem einungis er að finna í molum eða stykkjum.
297 Evrýdamant: einn biðlanna, XXII. 283 vegur Odysseifur hann.
298 með þremur tölum í, tríglena moroenta: „með þremur perlum sem
berjum í klasa“. — Orðið moroeis er eitt fornyrða þeirra, sem fyrir koma
hjá Hómer, og enginn veit nú framar með vissu um, hvað táknað hafa
upphaflega. Er það nú helzt ætlun manna, að það muni skylt vera
moron = mórber, þýði þá „það, sem situr í klasa eins og ber“. Orð
þetta kemur fyrir einu sinni annars staðar hjá Hómer, Il. XIV. 183.
299 Písander Políktorssyni: einn biðlanna. Getur hans við biðlavígin XXII.
243 og 267.
307 þrjá eldpalla, lampteras treis: (sbr. 343, XIX. 63). Átt mun vera við
eins konar glóðarker, bæði til að lýsa og hita (XIX. 63).
321 Melanþó: ein hinna ótrúu ambátta. Atyrðir hún Odysseif bæði hér og
XIX. 65.
325 Evrýmakkus: sbr. aths. XV. 17.
329 skrafhús, leskhe (af legó = tala, segja frá). Er þetta eini staðurinn í
Hómerskviðum, sem orð þetta kemur fyrir. Ætla menn þetta verið
hafa einhvers konar fundahús, er fólk leitaði sér jafnframt skjóls í,
þegar illa viðraði. Virðist og flækingum hafa verið heimilt að leita sér
þar náttstaðar.
Á eftir orðunum „og lætur allt á þér vaða“ hefur Sveinbjörn fellt niður
ljóðlínurnar 330—332 (= 390-392), sem Aristarchus vildi og eigi við
kannast. Falla þar vel inn í samhengið á síðari staðnum, en ekki hér.
Sveinbjörn þýðir þær svona þar: „Þú talar svo djarflega í margmenninu
og sést ekki fyrir. Annað hvort er, að vínið hefir svifið á þig,
ellegar þetta er þitt lundarlag, sem alltaf loðir við þig, að hreyta fram
ónýtum orðum“.
353 Ekki hefir þessi maður komið í höll Odysseifs án einhverrar sérlegrar ráðstöfunar
guðs o. s. frv.: Þessum hátíðlegu orðum snýr Evrýmakkus
síðan allt í einu upp í fyndni um skalla Odysseifs, sem endurspeglar
bjarmann frá blysunum, „því ekki sést minnsti vottur hára á höfði
honum“.
359 til að tína saman þyrna, haimasías te legón: „til að tína saman steina
til akurgirðingar“. — Orðið haimasíe er nú talið hafa táknað „grjótgarð“,
en Ameis hefur lagt í það sama skilning og Sveinbjörn, einnig
Voss og Wilster í sínum þýðingum. Er eigi ósennilegt, að Sveinbjörn
hafi haft þýðingar þeirra undir höndum og notað þær stundum til
hliðsjónar.[* Eftir að þetta var ritað, benti hr. Finnbogi Guðmundsson stud. mag.
okkur á bréf frá Sveinbirni til Rasks, þar sem einmitt er tekið fram, að
hann hafi notað Voss til hliðsjónar við þýðingu á 18. þætti Ilíonskviðu (Breve
fra og til Rasmus Rask, Kh. 1941, II. bd., bls. 114). Þýðing Wilsters birtist að
vísu ekki fyrr en 1837, en Svb. hefði hæglega getað notað hana við endurskoðun
sinnar þýðingar.]
393. ljóðlínu hefur Sveinbjörn fellt niður í þýðingu, enda vantar hana í
mörg góð handrit. Er hún endurtekning á 333. ljóðlínu, sem Sveinbjörn
þýddi svo: „Eða er þessi ofkæti í þér, af því þú hafðir sigur yfir hússganginum
honum Írusi?“
395 Amfínómus frá Dúliksey: sbr. aths. XVI. 351.
413 = XVI. 395. ljóðlínu þessa hefur Svcinbjörn fellt hér niður í þýðingu,
enda vantar hana í mörg handrit. Hann þýðir hana á fyrri staðnum
svona: „hann var Nísusson Aretíussonar konungs“.
423 Múlíuss, þjóns Amfínómusar, getur aðeins hér.
424 Dúliksey: sjá kort bls. 11.
NÍTJÁNDI ÞÁTTUR
1 = VII. 230. — Nú er síðkveld hins sama dags, sem atburðirnir, er lýst
hefur verið í XVII. og XVIII. þætti, hafa gerzt á.
2 með tilhjálp Aþenu: Hún er hér ósýnileg að verki eins og líka 33 o. áfr.
3 skjótum orðum: sbr. aths. X. 324.
4 „Nú skaltu taka o. s. frv.“: „Telemakkus, nú skaltu taka o. s. frv.“.
5—13 = XVI. 286—294.
13 = XVI. 294 því sjálft laðar veganda vopn, átos gar efelketai andra
síderos: Orðið síderos þýðir „járn“, en er í þessum málshætti auðsjáanlega
notað í sömu merkingu og „vopn“. Fræðimenn telja hins vegar, að
flest vopn hafi verið úr eiri á menningarskeiði því, sem við Hómer er
kennt. Samkvæmt því felst tímavilla (anachronismus) í málshætti
þessum, því að hann hlýtur að hafa myndazt þá, er flest öll vopn
voru orðin úr járni. Hómer getur aldrei um spjót eða sverð úr járni,
en hins vegar notar hann orðið khalkos (= eir) mjög oft í merkingunni
„vopn“ eins og „járn“ í þessum málshætti, (t. d. í Od. IV. 226, 700,
743, XI. 120, 519, 535, XIII. 271, XIV. 271, XVII. 440 o. s. frv.).
15 = XVI. 380 kallaði á Evrýkleu, fóstru sína: Hún var einnig fóstra
Odysseifs, Opsdóttir; fylgir Telemakkusi til sængur I. 429; forðabúrið
í hennar umsjá II. 347; Telemakkus lætur hana hafa til vistir til ferðarinnar
II. 348; hún lokar ambáttirnar inni, á meðan Odysseifur og
Telemakkus fara burt með vopnin XIX. 15; þvær Odysseifi XIX. 357,
þekkir á honum örið 392, 467; lokar ambáttirnar inni fyrir bardagann
XXI. 380; telur upp hinar ótrúu ambáttir XXII. 419; kemur
með brennistein XXII. 480; segir Penelópu frá heimkomu Odysseifs og
drápi biðlanna XXIII. 1, og víðar er hennar getið.
17 uppi á geymsluloftinu, es þalamon: „í vopnabúrinu“. Er herbergi þetta
talið hafa verið á bak við vistarveru kvennanna, niðri, sbr. I., bls. XLVI.
27—28 því öngvan þann, sem er á mínum kosti: hos ken emes ge / khoiníkos
haptetai: „öngvan þann, sem snertir minn útmælda dagskammt af korni“.
Þetta er málsháttur: khoinix mun táknað hafa þann kornskammt, sem
hæfilegur var talinn á dag handa einum þræli.
29 en hún hugfesti orð hans, te d' apteros epleto myþos: sbr. aths. X. 324.
32 hina bjúgrendu skildi, apsídas omfaloessas: Orðið omfaloeis er dregið
af omfalos, „nafli“, og er notað sem einkunn með skjöldum, af því að á
þeim var stór nöf í miðjunni. Annars þýðir Sveinbjörn þessa sömu
einkunn með ýmsu móti, t. d. Il. VI. 118 hinn bungaða skjöld, Il. XII.
161 hinum baugnöfuðu skjöldum, Il. XXII. 111 hinn búklaða skjöld.
33 Pallas Aþena: sbr. J. G., bls. 120.
37 hinar fögru veggjalautir, kalai te mesodmai: Bæði Wilster og Voss hafa
lagt sama skilning í þetta og Sveinbjörn. Sennilegra er, að orðið mesodmai
muni táknað hafa undirstöðu úr steini, sem viðarstoðirnar hvíldu á.
Orð þetta kemur fyrir í eint. í Od. II. 424 (koiles entosþe mesodmes,
„niður í hinn hola siglubita“) og táknar þar holuna, sem siglutréð
gekk niður í, er það var reist.
38 furusyllurnar, eilatínai te dokoi: Orðið dokoi táknar þvertrén, sem þakið
hvíldi á, enda þýðir Sveinbjörn það svo bæði Od. XXII. 176 og 193.
43 er á Ólympi búa: sbr. J. G., bls. 109.
45 til þess að erta ambáttirnar, og vekja ennfremur upp nýungagirni móður
þinnar, ofra k' etí dmóas kai metera sen ereþítsó: „til þess að lokka
ambáttirnar og móður þína til sagna“. (Það var einmitt í samræmi við
það, sem áður hafði ákveðið verið XVI. 304, 316).
46 mun spyrja mig alls konar tíðinda, eiresetai amfís hekasta: „mun spyrja
mig í þaula“.
48 í því svefnherbergi, es þalamon: Herbergi Telemakkusar hefur sennilega
verið sérstök bygging, er snúið hefur út að húsagarðinum. Til
samanburðar má benda á Il. IX. 475—476.
50 beið lýsingar, Eó dían emímnen: „beið hinnar skínandi Morgungyðju“.
54 lík Artemis eða hinni gullfögru Afrodítu: sbr. J. G., bls. 130—137.
55 legubekkur, klisíe [klíno eiginl. „staður til að leggjast niður á“]. Orð
þetta táknar í Ilíonskviðu kofana, sem Grikkir reistu á ströndinni við
Tróju, (t. d. Il. I. 487), kofa hjarðmanna, (t. d. Il. XVIII. 589), og í
Odysseifskviðu kofa Evmeusar, (t. d. XIV. 194, 404 o. s. frv.). Hér
virðist það tákna = klismos, „hægindastól“ og einnig Od. IV. 123.
57 Ikmalíus: Hans getur aðeins hér.
60 Þá komu ambáttirnar, elþon de dmóai levkólenoi: „þá komu hinar
hvítörmuðu ambáttir“.
62 hinir ofurhuguðu biðlar, andres hypermeneontes: „hinir drambsömu
menn“, (en auðvitað er átt við biðlana).
63 úr eldpöllunum, apo lampterón: „úr glóðarkerunum“, sbr. aths. XVIII. 307.
65 Melanþó: sbr. aths. XVIII. 321.
80 Seifur Kronusson: sbr. J. G., bls. 110.
86 Þá er þó Appolloni svo fyrir þakkandi: Mun svo að orði komizt, af því
að Apollon var ímynd æskuþrótts, og veitti hann unglingunum vöxt og
vænleik, enda virðist hann og sérstaklega hafa tignaður verið á Íþöku,
sbr. XX. 278, XXI. 258.
96 til matseljunnar Evrýnómu: sbr. aths. XVII. 495.
109—114 það fer orð af þér ... svo að landsfólkið lifir sælu lífi undir
hans stjórn: Sumir gagnrýnendur álíta þessar ljóðlínur ekki falla inn í
samhengið hér. Telja þeir 108. ljóðl. nægilegan inngang að ræðu
Odysseifs, en að 115. ljóðl.: „Þess vegna skaltu nú heldur spyrja mig
að öðru o. s. frv.“, veki grun um, að ástæða hafi verið tilfærð fyrir því,
að Penelópa skyldi ekki spyrja, hver hinn ókunni væri, — en að slík
ástæða verði ekki fundin í fyrr greindum ljóðlínum. Að efni og stíl eru
þær skyldar ritum Hesiodusar, sbr. mjög svipaðan kafla Hes. Op.
225—237. Að minnzt er á fiskveiðar sem mikilvægan atvinnuveg bendir
til menningarhátta, sem yngri eru en meginefnið í Hómerskviðum.
125 síðan að Argverjar fóru upp til Ilíonsborgar: sbr. I., bls. XVII. o. áfr.
130—133 = I. 245—248 = XVI. 122—125 (með örlitlum breytingum, sem
hefur þurft að gera samhengisins vegna): „Því allir þeir höfðingjar ...
biðla til mín, þó að mér sé það mjög á móti skapi, og eyða búinu. —
Þessar ljóðlínur hefur Sveinbjörn fellt niður og farið þar að dæmi
Aristarchusar.
144 handa öðlingnum Laertes: einkasonur Akrisíusar, maður Antíkleu, faðir
Odysseifs og Klímenu, I. 189, II. 99, IV. 111, VIII. 18, XIV. 9, XV.
353; ætt hans og afsprengi XVI. 118, XXII. 185, Odysseifur freistar hans
XXIV. 226, hann vegur Evpíþes 520.
145 hin skaðvæna Banagyðja, moir' oloe: sbr. J. G., bls. 167.
148 og féllust þeir á þetta, toisín d' epepeiketo þymos agenór: sbr. aths. X.
550.
153 = XXIV. 143, sbr. aths. X. 470. Þessari ljóðl. er sleppt í mörgum handritum,
og fellir Sveinbjörn hana einnig niður: „hver mánuðurinn af
öðrum leið, og margir dagar voru um garð gengnir“.
163 því ekki muntu vera kominn af fornri eik, eða úr hömrum hlaupinn,
ú gar apo dryos essí palaifatú úd' apo petres: Mjög er um deilt, hvað
þessi forni orðskviður, — því að allir koma sér saman um, að hér sé
um slíkt að ræða, — þýði í rauninni upphaflega. Þýðing Sveinbjarnar
er auðvitað ágæt túlkun, en nær merkingu frumtextans mætti ef til vill
komast, ef sagt væri: „Því að ekki ertu kominn af stokk eða steini
eins og maðurinn í hinni fornu sögn“. — Málsháttur þessi mun eiga
ætt sína að rekja til einhverra fornkvæða, en hið upphaflega samhengi
hafa gleymzt. Kemur hann víðar fyrir í grískum bókmenntum með smábreytingum,
t. d. Il. XXII. 126: ú men pós nyn estín apo dryos úd' apo
petres / tó oarítsemenai ktl.: „Það tjáir ekki að hjala við Akkilles ofan
úr einhverju tré eða ofan af bjargi, svo sem meyjar og sveinar hjala hvort
við annað“. — Svona þýðir Sveinbjörn, en Leaf leggur annan skilning
í þessi orð: „Eg hefi ekki svo mikið sem tré eða stein, sem eru þó frá
fornu fari skjól manna, til að skýla mér, svo að eg fái rætt í ró og næði
— jafnmakindalega og þá elskendur hjalast við“. — Það, sem Hómer
virðist vilja sagt hafa með þessum málshætti hér, er þetta: „Þú ert ekki
terrae filius (sonur jarðar) — með öllu umkomulausrar ættar“. Ameis
hefur talið þenna orðskvið benda til goðsagna um fyrsta uppruna
manna, en aðrir (t. d. Monro) telja það fjarri öllum sanni.
165 þú heiðvirða kona, ó gynai aidoie = XVII. 152 = XIX. 262 = 336
= 583.
aidoios [aidós], táknar þann, sem verður er þess að vera sýnd lotning,
sem á sérstaklega kröfu til, að tillit sé tekið til hans. Rieu þýðir því
t. d. hér „your majesty“.
172 á hinu dimma hafi, ení oinopí pontó: Orðið oinops, -opos þýðir
„dökkur sem vín“, „víndökkur“.
Í Ilíonskviðu þýðir Sveinbjörn þetta orðasamband yfirleitt „hið dimmbláa
haf“, (Il. II. 613, V. 771, VII. 88, XXIII. 143, 316), en í Odysseifskviðu
„hið dökkva haf“ (I. 183, III. 286), „hið dimma haf“ (hér og
IV. 474) eða „hið dimmbláa haf“ (II. 421, V. 132).
175—177 Því þar eru Akkear, þar eru o. s. frv., en men Akhaioi, en de ktl.:
Orðalagi í gríska textanum virðist hagað þannig, að gerður sé greinarmunur
á Akkeum annars vegar og hins vegar á hinum þjóðunum
fjórum. Þar sem þessi munur byggist á tungumálunum, („og skiptast
þar tungumál mjög ýmislega“), þá er í rauninni að ræða hér um þann
mun, sem gerður var síðar á Hellenum og „barbörum“.
Orðið „Frumkríteyingar“, Eteokretes, sýnir, að þeir munu verið hafa
álitnir frumbyggjar eyjarinnar eins og t. d. Sicani eða Siculi á Sikiley.
Er sögur hefjast, er þá að finna á austurhluta Krítar, í grennd við fjallið
Dikte, þar sem frumstæð dýrkun Seifs átti sér rætur, (sbr. J. G., bls. 98
og 116). Af áletrun, sem fundizt hefur á þessum slóðum, verður ljóst,
að þeir hafa haldið tungu sinni, er var allsendis óskyld grísku, lengi
fram eftir öldum.
Kýdónar, Kydónes, hafa sennilega verið semízkir, annaðhvort Karíumenn
eða Fönikíumenn að uppruna. Er tekið fram um þá í Od. III.
292, að þeir búi við Jardanarstrauma á Krít.
og hinir þrídeildu Dórar, Dóríees te tríkhaíkes: Mjög örðugt er að gera
sér hér grein fyrir nafninu Dóríees. Ótrúlegt er, að hér sé átt við Dóra,
sem frægir eru úr sögunni, því að á þeim tímum, sem Hómer yrkir
um, munu þeir ekki hafa verið komnir til Peleifsskaga. Hér er svo að sjá,
sem þeir tali tungu, er frábrugðin sé tungu Akkeanna, en síðar er vitað,
að munurinn á mállýzkum Dóra og Akkea var hverfandi lítill. Í rauninni
þýðir Dóríees aðeins „íbúarnir í Dórion“. Til voru borgir með því
nafni bæði í Messeníu (á Peleifsskaga) og í héraðinu Dóris (í Norður-Grikklandi),
svo að vel má vera, að Dórion hafi heitið ein þeirra borga
á Krít, sem ekki var byggð Akkeum.
Hins vegar má þess geta, að um nýlendur Dóra á Rhódos getur í
skipatali (Il. II. 653 o. áfr.), og að nýlendur þeirra á Krít hafa tæplega
verið yngri en þar. En sé svo, mætti ætla, að í skipatali væri sami
greinarmunur gerður eins og hér í Odysseifskviðu á Akkeum og
Dórum á Krít.
Einkunnin trikhaíkes hlýtur að vera dregin af þrix (= hár) og aíssó
(= að hreyfa e-ð með skjótum hætti). Mun þetta orð eiga að lýsa
flaksandi hári hermanna, sem geysast fram til árásar. En er fram liðu
stundir, lagði alþýða manna í það þann skilning, að það væri skylt
tríkha (= þrefaldur eða þrískiptur) og lyti að þeirri þrískiptingu Dóranna
í ættkvíslir (Hylleis, Pamphyli og Dymanes), sem alkunn er úr
sögunni.
og hinir ágætu Pelaskar: Þeirra getur í Ilíonskviðu (II. 840, X. 429)
meðal bandamanna Trójumanna og eru samkvæmt því ekki Akkear. Um
Pelaska, eftir að sögur hefjast, segir Herodót I. 57, að þeir tali útlenda
tungu. Á dögum Hómers var þeirra höfuðsetur Larissa (Il. II. 841), —
sennilega borg með því nafni í Eólíu, fyrir sunnan Tróju. Þess verður
og vart hjá Hómer, að þeir hafi verið í Þessalíu, — sbr. Il. II. 681 „í
Argverjalandi Pelaska“, Il. XVI. 233 „Seifur konungur (kvað hann),
þú Dódónu-goð, þú Pelaska-goð“.
178-179 þar var Mínos konungur í níu ár, málvinur hins mikla Seifs, Ameis
telur, að þetta beri að skilja svo, að Mínos hafi ríkt í níu ára tímabilum,
því að samkvæmt fornum sögnum hafi hann níunda hvert ár haldið
inn í hinn helga helli Seifs, til að fá þar hjá guðinum lög fyrir ríki
sitt, og þess vegna sé hann kallaður „málvinur hins mikla Seifs“. —
Gilbert Murray hefur ritað mjög merkilega um þetta í riti sínu The
Rise of the Greek Epic, 4th Ed., bls. 137, neðanmálsgr. 2.
180 Devkalíon: Hans getur og Il. XIII. 452 og Idomeneifs Il. XV. 301.
182—183 til Ilíonsborgar, sbr. I., bls. XVII.
með Atreifssonum: þ. e. Agamemnoni og Menelási; Eton, Aiþón: þ. e.
„hinn leiftrandi“.
185 Þar sá eg Odysseif o. s. frv.: Þegar Odysseifur er að segja lygasögur sínar,
hagar hann seglum eftir vindi, lagar söguna í hendi sér allt eftir persónunni,
sem á hann hlýðir. Hér, andspænis hinni harmþrungnu konu
sinni, lætur hann hina uppdiktuðu persónu sína þoka fyrir Odysseifi.
Honum nægir aðeins að segja, að hann hafi hitt Odysseif, en þarf
ekki að taka fram, að hann hafi sjálfur verið í bardögum við Tróju.
187 frá Malíuhöfða: Höfði þessi var syðsti oddi á hinu austasta hinna þriggja
nesja, sem teygja sig suður úr Peleifsskaga. Var hann illræmdur í fornöld
sakir brims og fellibylja, sbr. Od. III. 287.
188 upp í Amnísusá, en Amnísó: „inn í Amnísus höfn“, en svo nefndist
höfn Knósusborgar.
hellir Ilíþýu, speos Eileiþyíes: Nafn þetta táknar, „þá, sem kemur“ (á
neyðarstund konunnar) eða „þá, sem lætur barnið sjá dagsins ljós“.
Ílíþýa var gyðja barnsfæðinga, (sbr. Il. XVI. 187, XIX. 103; í flt. kemur
nafnið fyrir Il. XI. 270 „dætur Heru, Lausnargyðjunnar“; XIX 119).
192 heiðvirður, aidoion te: sbr. aths. 165.
205—206 Eins og snjór, sem drifið hefir í útnyrðingi, þiðnar á hávum fjöllum
í landsynningshláku, hós de khíón katateket' en akropoloisín oressín,
/ hen t' Evros katetexen, epen Zefyros katakheve: „Eins og snjór, sem
drifið hefur í vestanvindi, þiðnar á fjallatindum í austanhláku“. — Svona
er venjulega þýtt, Zephyrus látinn tákna „vestanvind“ og Evrys „austanvind“.
Ýmsir telja samt, að Zephyrus hafi í rauninni verið norðvestanvindur
(þ. e. útnyrðingur), en Evrys suðaustanvindur (þ. e. landsynningur).
En í líkingu þessari er hlutverki því, sem Hómer annars fær
þessum vindum, snúið við. Annars staðar er Zephyrus látinn boða
regn, (sjá XIV. 458), en ekki snjó og frost. Hann lætur ávextina í garði
Alkínóusar þroskast (VII. 118) og hann blæs stöðugt á hinum „elysisku“
völlum (IV. 567). Hins vegar er austanvindur kaldur í Miðjarðarhafslöndum.
Að vísu eru Boreas (norðanvindur) og Zephyrus (vestanvindur)
stundum nefndir í sömu andránni, t. d. Il. IX. 5 „Eins og þegar
tveir vindar, norðanvindur og vestanvindur, sem blása frá Þrakalandi
o. s. frv.“, og einnig Il. XXIII. 195 „og hét á tvo vindaguði, Norðra og
Vestra“, en samt virðist vestanvindur ekki hafa verið talinn kaldur
vindur. —
Ameis segir reyndar, að í löndum Grikkja í Litlu-Asíu (Íóníu) sé
vestanvindur eða norðvestanvindur, sem kemur handan yfir snæviþakin
fjöll Þrakíu, kaldur, en austan- eða suðaustanvindur, sem kemur úr
Asíu, mildur.
225 í guðvefjar loðkápu, khlainan porfyreen úlen: Þetta er ein af breytingum
Sveinbjarnar, sem hann hefur fært inn í eintak sitt af Viðeyjarútgáfunni,
(sbr. I., bls. LXXIV). Áður hafði hann þýtt „í skjólgóðri
purpuraskikkju“, og virðist það öllu betra. Um orðið úlos sbr. aths.
XVII. 89.
242 dragkyrtil, termíoenta khítóna: „kyrtil með bryddingum“. — Orðið
termíoeis ætla menn dregið af termis = jaðar. Hugsazt gæti og, að það
táknaði skósíðan kyrtil og væri haft um það, sem nær alla leið niður
(á enda), sbr. terma = endir.
243 til skips, eýsselmú epí neos: „til hins þóftusterka skips“.
247 Evrýbates: Hans getur einnig Il. II. 184 og Il. IX. 170. — Þetta nafn
ber og kallari Agamemnons Il. I. 320.
259 Á eftir orðunum „farið þessa sjóferð“ fellir Sveinbjörn niður koiles epí
neos, „á holu skipi“.
262 Þú heiðvirða kona, ó gynai aidoie: sbr. aths. 165.
266 Á eftir orðunum „og áttu börn við“ fellir Sveinbjörn niður fílotetí
mígeisa, „og blandað ástum við“.
271 í Þesprótalandi, Þesprótón andrón en píoní demó: „í hinu frjósama
Þesprótalandi“, sbr. XVII. 526 og aths. XIV. 315.
279—280 = V. 35—36. Í frásögninni af hrakningum sínum hér sleppir
Odysseifur dvölinni hjá Kalypsó og lætur sig bjargast strax eftir fyrsta
skipbrotið til Feaka, sbr. V. 370—375 og XII. 443 o. áfr.
279 sem eru jafnsælir guðunum, hoi ankhíþeoi gegaasín: „sem eiga náin
samskipti við guðina“, sbr. einnig V. 35, þar sem Sveinbjörn þýðir þessi
sömu orð: „sem goðunum eru nánir“.
287 Fídon, Þesprótakonungur: sbr. XIV. 316 og aths. XIV. 315.
288—299 og sór að mér áheyranda ... á allra manna vitorði eða leynilega:
Þessar ljóðlínur eru endurtekning (með nokkrum breytingum á röð)
á XIV. 323, 325—335.
292 til hinnar hveitisfrjóvu Dúlikseyjar: sbr. aths. XIV. 335.
294 gæti fætt annan mann, allt fram á tíunda mannsaldur: sbr. aths.
XIV. 325.
296 til Dódónu: sbr. aths. XIV. 327.
303—307 = XIV. 158—162 Viti það fyrst Seifur ... sem nú yfirstendur:
sbr. aths. við XIV. 158.
327 óhreinlegur til fara, aýstaleos: „þurr“, þ. e. ósmurður og þess vegna
illa til reika eða ótilhafður.
339 fór á langskipi, neos íón dolíkheretmoio: Orðið dolíkheretmos [dolíkhos
+ eretmon] táknar eiginlega „með löngum árum“. Kemur það fyrir
sem einkunn með skipum Od. IV. 499, XXII. 176 auk þessa staðar hér
og um Feaka VIII. 191, 369; XIII. 166, er Sveinbjörn þýðir „hinir langræðu
Fekar“. Báðar eru þessar þýðingar ágætar.
342 og vakað til birtingar, kai t'anemeina eýþronon Eó dían: „og beðið
hinnar blessuðu Morgungyðju fagurstólu“.
350 Kæri gestur! (Eg má kalla þig svo, þar sem) enginn gestur hefur enn
komið í hús mitt o. s. frv., xeine fíl': ú gar pó tis aner pepnymenos hóde
ktl.: Áður hefur Penelópa aðeins ávarpað hann „gestur“. Á grískunni
hefst útskýringin á þessari breytingu með smáorðinu gar, sem Sveinbjörn
þýðir með orðunum innan svigans í hinum tilfærða kafla.
357 Evrýklea: sbr. aths. 15.
363 Æ, mig tekur sárt til þín, sonur sæll, ó moi egó seo, teknon amekhanos:
„Æ, mig tekur sárt til þín, sonur sæll, að eg skuli ekkert megna fyrir
þig að gera“.
Sveinbjörn fellir í rauninni niður orðið amekhanos, sem virðist þýða
hér „ráðþrota“, „sem ekki sér neitt ráð til úrbóta“. Annars staðar notar
Hómer þetta orð í merkingunni „óstýrilátur“, „örðugur viðskiptis“,
(t. d. Il. XIII. 726, XV. 14, XVI. 29, XIX. 273, X. 167, VIII. 130,
XI. 310, XIV. 262; Od. XIX. 560).
366 útvaldar hundraðsfórnir: sbr. aths. XVII. 50.
381 hvorki í vexti, né málfæri eða göngulagi: Þetta þrennt, demas, fóne, podes,
hafði Aþena eigi látið breytast, því að hún hafði miklu fremur dulbúið
Odysseif en gerbreytt honum, sbr. XIII. 397 o. áfr.
394 Parnasus: Fjall í héraðinu Fókis. Undir þessu fjalli stóð véfréttin í
Delfum.
Átolýkus: maður Amfíþeu og faðir Antíkleu XI. 85; skírir Odysseif
dótturson sinn XIX. 399; Odysseifur særist á villigaltarveiðum í heimsókn
hjá honum XIX. 413 o. áfr., XXI. 220, XXIV. 334. — Í Il.
X. 267 getur um slægvizku hans og viðsjálni í eiðum.
397 Hermes: sbr. J. G., bls. 143.
409 Odysseifur, Odysevs: „hatursmaður“.
410 í höll móður sinnar, metróín es mega dóma: „í höll móðurfrænda sinna“.
434 Jarðarstraumi: sbr. J. G., bls. 102, 177.
457 stilltu þeir svo blóðrásina, að þeir kváðu galdra yfir, epaoide d' aima
kelainon eskheþon: „stöðvuðu þeir svo hið svarta blóð“ o. s. frv.
461 til Íþöku, þar sem hann átti heima, fílen es patríd' epempon / eis Íþaken:
„til Íþöku, hins kæra föðurlands hans“.
462 foreldrar hans, pater kai potnía meter: „faðir hans og hin göfuga
móðir hans“.
473 Hún tók á kinn Odysseifs, hapsamene de geneiú: „Hún tók á höku
Odysseifs“. — Þessi athöfn mun táknað hafa innilega bæn, sbr. Il. X.
454 og Il. I. 501. Evrýklea vill hér fá af munni Odysseifs sjálfs staðfestingu
á uppgötvun sinni.
492 af vörum líða, fygen herkos odontón: sbr. aths. I. 64.
518 hin bleika sönglóa, khlóreïs aedón: „næturgalinn í hinum sumargræna
skógi“. Menn eru eigi á eitt sáttir, hvað lo. khóreïs þýðir. Það er
áreiðanlega dregið af khlóros, „grænn“, og hallast ýmsir að því, að það
þýði „sá, sem hefst við í grænum skógi“.
dóttir Pandaruss: Hún hét Aedon. Pandareus (nafnið er rétt Pandareus)
faðir hennar var konungur í Efesusborg. Aedon giftist Setusi konungi í
Þebu. Hét þeirra sonur Itýlus. Aedon fylltist öfund til mágkonu sinnar,
konu Amfíons bróður síns. Hún hét Níobe og átti sex syni og sex
dætur. Afréð hún að myrða elzta son Níobu, en svo illa tókst til, að
hún vo son sinn Itýlus. Aumkaðist Seifur yfir hana og breytti henni
í næturgala, er stöðugt syngur sitt angurblíða: Itýlus! Itýlus!
537 upp úr vatni, ex hydatos: Hinir fornu ritskýrendur bera fram tvær skýringar
við þenna stað: Önnur er í samræmi við þýðingu Sveinbjarnar
hér. Hin er sú, að ex hydatos þýði „frá vatninu“ eða „frá tjörninni“.
Gæsirnar hafi komið „frá tjörninni“, þar sem þær hafi verið vanar að
halda sig, að sínu leyti eins og örninn kemur ex oreos, „af fjalli ofan“. —
Kornið éta gæsirnar úr trogi, (sbr. 553. ljóðl.).
566 er út koma um hornhliðin, xestón keraón elþósí þyratse: „er út koma
um hin fáguðu hornhlið“.
572 Odysseifur var því vanur, að setja upp í röð ekki færri en 12 axir í
höll sinni, til að mynda og
574 skipsrengur, dryokhús hós: Þessi síðustu orð eiga að útskýra nánar það,
sem á undan var sagt, „í röð“, þ. e. að axirnar hafi reistar verið upp í
þráðbeinni línu. Orðið dryokhoi ber ef til vill fremur að hugsa sér sem
tréhnyðjur, sem festar hafa verið með reglulegum millibilum í jörðina
til að styðja eða skorða kjölinn, er hafin var smíði skips, — heldur en
skipsrengur.
[1476.png: Fornar axargerðir.]
Hvernig ber þá að skilja, að Odysseifur hafi skotið „ör í gegnum“ allar
tólf axirnar? Gera verður ráð fyrir, að á enda skaftsins, við eða á axarhausnum
hafi verið einhvers konar op, og að hægt hafi verið að raða
öxunum þannig, að opin tólf yrðu í beinni línu og mynduðu eins konar
göng, sem slyngur bogmaður hafi getað skotið ör í gegnum. Kunnar
eru axargerðir frá fornöld, sem fullnægt gætu þessum skilyrðum. Þrjár
þeirra eru sýndar hér á mynd, merktar A, B og C. Sú, sem merkt er C,
hefur fundizt í mýkenskri gröf við Vafíó, þ. e. a. s. frá því menningarskeiði,
sem heimur Hómers mun að verulegu leyti heyra til.
592 því að hinir ódauðlegu guðir hafa áskapað hverjum dauðlegum manni
sitt hlutfall, epí gar toi hekastó moiran eþeken / aþanatoi þnetoisín
epí tseidóran arúran: „Því að hverjum hlut hafa hinir ódauðlegu guðir
ákveðið sinn tíma og takmörk í lífi dauðlegra manna á hinni kornfrjóvu
jörð“, þ. e. a. s. svefninn hefur sinn ákveðna og afmarkaða tíma
eins og annað í lífi manna.
595 sem er þegjandi vottur til manna andvarpa, e moi stonoessa tetyktai =
XVII. 102, og þýðir Sveinbjörn þar: „sem orðin er mér að sorgarsæng“.
Er það nær merkingu frumtextans.
TUTTUGASTI ÞÁTTUR
Í þessum þætti greinir frá atburðum næturinnar fyrir biðlavígin og
morgunsins næsta. Bendir allt til úrslitastundarinnar, sem nálgast óðum.
Fyrst er annars vegar dregin upp mynd af efasemdum og áhyggjum Odysseifs
(28 o. áfr.), hins vegar af örvæntingu og hryggð Penelópu (58 o. áfr.), en
síðan taka hinir tryggu bandamenn Odysseifs að skipa sér um hann: 162, 185,
230 o. áfr.
4 Evrýnóma: sbr. aths. XVII. 495.
6 út úr höllinni: Urðu þær því að fara um framhúsið, þar sem Odysseifur
svaf, er þær gengu úr til híbýla biðlanna í borginni.
10 í huga sínum, kata frena kai kata þymon: sbr. aths. X. 151.
17 og hughreysti hjarta sitt, kradíen enípape myþó: „og atyrti hann
hjarta sitt“.
18 Vertu þolinmótt hjarta mitt o. s. frv.: Mörg skáld hafa síðan stælt þessi
orð, t. d. Archilochus, fr. 66; Ovid. Trist. V. 11, 7 perfer et obdura;
multo graviora tulisti.
19 hinn óhemjulegi Kýklópur: sbr. IX. 177 o. áfr.
22 ávarpaði hann hjartað í brjósti sér, kaþaptomenos fílon etor: „áminnti
hann hjartað í brjósti sér“.
31 stigin af himni ofan, úranoþen katabasa: Hins vegar segir 55: „en hin
ágæta gyðja fór aftur til Ólymps“. — Í síðari þáttum Odysseifskviðu
virðist Ólympus þýða hér um bil sama og „himinn“, sbr. J. G., bls. 109.
43 hvert eg skal hælis leita o. s. frv.: Þ. e. undan hefnd biðlanna og vandamanna
hinna vegnu, sem vegandinn átti jafnan vísa, sbr. XV. 224:
„Þá kom til hans útlendur maður, sem fór útlægur frá Argverjalandi
fyrir það, að hann hafði vegið mann“. — Ennfremur má benda á Il.
XIII. 696, XV. 335.
45 Heyr þú, ofurhuginn þinn, skhetlie: Í orði þessu felast ávítur og
aðdáun í senn. Verður það varla þýtt svo vel sé. Ef til vill mætti komast
nær merkingunni með því að þýða: „Ó! þú óbetranlegi maður“. — Til
samanburðar mætti benda á Il. XVI. 203 (Myrmídónar við Akkilles),
XXII. 41 (Príamus við Hektor), XXII. 86 (Hekúba við Hektor), Od.
XII. 279 o. s. frv.
Sérhver maður, kai men tis te: „Margur maðurinn“.
49 mælandi manna, meropón anþrópón: Orðið meropes er notað sem
einkunn með anþrópoi (= menn) og brotoi (= dauðlegir). Vita menn
nú eigi með vissu, hvað það hefur þýtt. Í Liddell og Scott's orðabók er
það útskýrt á sama hátt og Sveinbjörn gerir: mer-ops, -opos (meiromai,
ops), þ. e. „deilandi röddinni“, „máli gæddur“. — Í Ilíonskviðu kemur
þessi einkunn víða fyrir, t. d. Il. I. 250 tveir mannsaldrar mæltra manna,
II. 285 meðal allra mæltra manna, sbr. ennfremur III. 402, IX. 340, XI.
28, XVIII. 288, 342, 490, XX. 217. Á öllum þessum stöðum þýðir Sveinbjörn
eins („mæltra manna“).
55 en hin ágæta gyðja fór aftur til Ólymps: Á eftir þessum orðum er rétt
að hafa punkt og greinaskil. Verður því framhaldið svona:
„Þegar er svefninn tók til að renna í brjóst honum, sá svefn, sem eyðir
áhyggjum hugarins og gjörir liðu manns lémagna, þá vaknaði hans
trygga kona, settist upp í hinni mjúku sæng og grét“.
Eftirtektarvert er, að af þeim útgáfum kviðunnar, sem við höfum séð, er
það Voss einn, sem hefur setningaskil hér eins og Sveinbjörn, (sbr.
Homers Odyssee von Johann Heinrich Voss, vierte stark verbesserte
Aufl., Stuttgart und Tübingen, 1814. — Er eintak það, sem við höfum
undir höndum, úr skólabókasafni Menntaskólans, og því ekki ósennilegt,
að Sveinbjörn hafi lesið það).
60 til Artemisar: sbr. J. G., bls. 130.
61 þú hin virðuglega gyðja, potnía þea [sbr. V. 215, XIII. 391] „máttuga
gyðja“; sbr. ennfremur aths. X. 394.
65 í forvaða hins kringrennanda Jarðarstraums: Átt er við þann stað, er
menn hugsuðu sér, að Jarðarstraumurinn, sem umflýtur jörðina, streymdi
inn í hafið. Þar, á mjóu eyði, ætluðu menn, að leið lægi niður í undirheima,
sbr. aths. X. 508.
66 eins og vindbylirnir gerðu, þegar þeir sviptu burt Pandarusdætrum:
Faðir þeirra hét Pandareus (ekki Pandarus). Ein dætra hans var Aedon,
sem breytt var í næturgala, sbr. aths. XIX. 518. Gera verður ráð fyrir,
að sögn sú, sem til er vitnað hér, hafi sagt frá öðrum dætrum hans og
örlögum þeirra.
77 Sviptinornirnar, Harpýjur, táknuðu áhlaupaveður og fellibylji. Var það
trú manna, ef einhver var horfinn með sviplegum hætti, að Harpýjur
hefðu hrifið hann á braut, (sbr. Od. I. 241; XIV. 371 og aths. þar).
78 hjá enum hræðilegu Hefndarnornum: Erinýjur eða Refsinornir táknuðu
hinn grimma hefndarhug, sem grípur menn, er helgustu réttindi þeirra
eru fótum troðin, sbr. J. G., bls. 107.
91 og brátt þar eftir tók til að lýsa af degi = X. 541: „og leið ekki á
löngu, áður Morgungyðjan kom, Gullinstóla“. —
Hér rennur upp 40. dagurinn, sem lýkur XXIII. 343.
104 hátt ofan frá skýjunum, hypsoþen ek nefeón: Monro telur, að orðin
„frá skýjunum“ (ek nefeón) spilli þýðingu þrumunnar sem jarteikni, því
að hún gat þá aðeins talizt jarteikn, að hún kæmi af heiðum himni,
(sbr. 113. ljóðl. hér á eftir: „mikla þrumu hefir þú sent af hinum
stirnda himni, og sér þó hvergi ský á lofti“). Telur hann því 104.
ljóðl. síðara innskot. Hins vegar bjargar Ameis þessu misræmi við með
því að telja, að ek nefeón þýði hér „hátt ofan af sviði skýjanna“.
105 í næsta húsi: ekki í höllinni, heldur í einni af hinum smærri byggingum
(þalamoi), sem vissu út að húsagarðinum (ále). Í húsum þessum munu
þrælarnir hafa búið, en í sumum þeirra verið unnin alls konar heimilisstörf.
109 höfðu hinar konurnar þá malað sitt hveiti, hai men ar' allai hevdon, epei
kata pyron alessan: „höfðu hinar konurnar þá malað sitt hveiti og farið
að sofa“. Í þýðingu hafa fallið hér niður orðin „og farið að sofa“. —
Að því er virðist, hefur kornið verið malað fyrir eða um sólarupprás,
svo að mjölið yrði ferskt, þegar það var notað um daginn. Að loknu
því verki, hefur ambáttunum verið leyft að ganga til svefns.
123 glæðilegan eld, akamaton pyr: „óþreytandi eld“. — Sennilega felst í
hinu gríska lo. hér sú hugsun, að eldurinn sé „óþreytandi“, þ. e. deyi
aldrei alveg út á arninum.
126 undir fætur sér, possí d'ypo líparoisín: „undir hina skínandi fætur sína“.
128 við Evrýkleu: sbr. aths. XIX. 15.
144 úti í forstofunni, ení prodomó: Þetta orð hefur Sveinbjörn áður þýtt
„framhús“ (XXI 1 og XIV. 5).
146 til hinna harðbrynjuðu Akkea, eýknemídas Akhaiús: sbr. aths. XVIII. 259.
153 tvíhvolfuðu bikara, depa amfíkypella: sbr. aths. XV. 120.
156 því í dag er almenn hátíð haldin, epei kai pasín heorte: Þetta var
tunglkomudagur, númenía, „dagur hins nýja mána“; — sbr. einnig
aths. XIV. 13.
158 til hinnar tæru vatnslindar, krenen melanydron: Orðið melanydros
[melas + hydór] á að lýsa því, er vatn vellur fram úr dökku djúpi.
Í Ilíonskviðu þýðir Sveinbjörn þetta sama „kolbláa vatnslind“ (Il. IX.
14; XVI. 3), „kolblá uppsprettulind“ (Il. XXI. 257) og „dökk lind“
(Il. XVI. 160).
169 Evmeus: sbr. XIV. þátt.
173 Melanþíus: sbr. aths. XVII. 212.
176 í hinum ómanda stólpagangi, hyp' aiþúse erídúpó: Orðið aiþúsa (undirskilið
stoa = súlnagöng) af aiþó, „lýsa“, hefur líklega verið súlnaport við
inngang húsa. Af því að það hefur venjulega snúið gegnt austri eða
suðri til að liggja sem bezt við sól og birtu, hefur það hlotið þetta nafn.
— Í Od. III. 399 þýðir Sveinbjörn þetta svona: „í hinum ómanda svölugangi“.
Virðist fyrrihluti orðsins „svölugangur“ eiga að vera eintölumynd
af svalir“. Í Od. VIII. 57 þýðir Sveinbjörn aiþúsai „svalirnar“.
Í Ilíonskviðu þýðir hann sama orð einnig „svalir“ (Il. VI. 243, XX. 11,
XXIV. 238), en í síðari hluta Odysseifskviðu þýðir hann aiþúsa „stólpagangur“
(XXI. 390, XXII. 449), sbr. og Il. XXIV. 238.
180 fyrr en við reynum með okkur: Hér á eftir hefur Sveinbjörn fellt niður
orðin: epei sy per ú kata kosmon aitítseis, „því að betl þitt er fjarri
öllu velsæmi“.
185 Fíletíus, einn af hirðum Odysseifs. Getur hans einnig í þessum þætti í
254. ljóðl., einnig XXI. 240, 388; XXII. 268, 285, 359.
187 höfðu ferjumenn flutt þá yfir sundið: Um hjarðir Odysseifs á meginlandinu
ræðir XIV. 100 o. áfr.
189 í hinum ómanda stólpagangi: sbr. aths. við 176. ljóðl.
198 skjótum orðum, epea pteroenta: sbr. aths. X. 324.
208 til Hadesarheimkynna: Hades var guð undirheima, sbr. J. G., bls. 204,
210 í landi Kefallena: í Il. II. 631 (þ. e. í Beóta-bálki eða skipatali) nefnast
allir þegnar Odysseifs þessu nafni, bæði þeir, er byggðu Íþöku og
hinar eyjarnar (sbr. Od. I. 246), svo og þeir, er byggðu strandlengju
meginlandsins gegnt eyjunum. Þar á meginlandinu átti Odysseifur hjarðir
stórar (sbr. XIV. 100). En annars er nafn þetta í Odysseifskviðu engan
veginn tengt eyju þeirri, er síðar nefndist Kefallenía. Því nafni hefur
þá ef til vill nefnzt landsvæði eitt í Epírus.
230—231 = XIV. 158—159, sbr. aths. þar.
244 Amfínómus: sbr. aths. XVI. 351.
249 á legubekkina og hástólana: sbr. aths. X. 233.
258 við steinþröskuldinn: sbr. aths. XVII. 30.
270 Antínóus Evpíþesson: sbr. aths. XVI. 363.
276—278 Kallararnir fóru nú um borgina o. s. frv.: Þessarar hátíðar Apollós
hefur áður verið getið í 156. ljóðl. Annars fellur hún ekki öldungis inn
í samhengið. En þetta, að hennar er hér getið, minnir oss á, að hinn
atburðaríki og örlagaþrungni dagur sé upp runninn.
278 hjá hinum skuggafulla lundi: Blótstaðir í Hómerskviðum eru venjulega
altari í trjálundi: sbr. VI. 291, VIII. 363, IX. 200 o. s. frv.— Hof eru
að vísu eigi alveg óþekkt, sbr. VI. 10.
279 hryggjarstykkin, kre' hypertera: Í rauninni er hér aðeins átt við kjötið
á beinunum, „vöðvastykkin“, í mótsetningu við enkata, „innýflin“.
284 ekki með öllu, ú pampan: „alls ekki“.
288 Ktesippus: Eins og hér segir, var hann einn biðlanna; 292 fleygir hann
nautsfæti að Odysseifi; XXII. 279 særir hann Evmeus, en nautahirðirinn
vegur hann 285.
og átti heima í Sámsey: sjá kort.
321 Agelás Damastorsson, einn biðlanna. Hér og 339 ræður hann frá ofbeldi;
XXII. 131, 136 í bardaganum í höllinni ræður hann til að ná
sambandi við lýðinn, sjá ennfremur XXII. 212, 241, 247, 293, 327.
322—325 = XVIII. 414—417.
342 og þar á ofan hefi eg gefið henni stórgjafir til þess, potí d'aspeta dóra
dídómí: „og þar á ofan býð eg henni stórgjafir til þess“.
348 Þeim sýndist ketið, sem þeir átu, vera alblóðugt: Til samanburðar má
benda á sýn þá, er bar fyrir Njál á undan brennunni: Njáll mælti:
„Undarliga sýnist mér nú, — ek þykkjumst sjá um alla stofuna, ok
þykkir mér sem undan séu gaflveggirnir báðir, en blóðugt allt, borðit
og matrinn“.
350 Þeóklýmenus: sbr. XV. 223 o. áfr.
354 hinar fögru veggjahvylftir, kalai te mesodmai: sbr. aths. XIX. 37.
Sakir skyggnigáfu sinnar sér Þeóklýmenus hina óorðnu atburði jafnskýrt
og þeir væru í rauninni að gerast fyrir augum hans.
359 Evrýmakkus Polýbusson: sbr. aths. XV. 17.
376 ógestsælli, kakoxeinóteros: Á þetta mætti benda sem ágæta þýðingu.
379—380 hann kann ekkert verk að vinna, er linur og hörkulaus, úde tí ergón
/ empaion úde bíés: „kann hann hvorki til verka né víga“.
382 í róðrarferju, en neí polykleïdí: „á margþóftuðu skipi“.
383 í Sikiley, es Síkelús: Hinir fyrstu grísku landnemar á Suður-Ítalíu komust
í kynni við þjóðflokk með þessu nafni. Mun hann vera hinn sami og
Siculi, sem kunnir eru úr sögunni. Á þeim tíma, sem Odysseifskviða er
ort, má vera, að þessir ítölsku Síkeloi hafi kunnir verið Grikkjum sem
þrælasalar, t d. getur um „konu frá Sikiley“, gyne Síkele, meðal ambátta
Laertesar (XXIV. 211).
Gamall skýrandi bendir á í sambandi við Eketus kong (Od. XVIII. 85),
að hann hafi verið harðstjóri hjá Sikileyjarmönnum (Síkeloi). Önnur
vitneskja bendir til, að kongur bessi hafi verið í Epírus. Sakir þess
hafa sumir hugsað sér, að þjóðflokkur þessi, sem Hómer ræðir um,
hafi átt heima í Epírus.
TUTTUGASTI OG FYRSTI ÞÁTTUR
3 hin fögru axarblöð, políon te síderon: „hið gráa járn“, — en auðvitað
er átt við axirnar.
5 Hún gekk upp hinn bratta stiga að herbergi sínu, klímaka d'ypselen
prosebesato hoio domoio: „Hún gekk niður hinn háva stiga frá herbergi
sínu“; — prosebesato „steig fæti á“, en flestir telja, að geymsluherbergin
hafi verið á neðri hæð hússins, og þá verður auðvitað að
þýða „gekk niður“.
6 tók þar í hönd sér eirlykil: sbr. mynd bls. 398. — Á lyklinum var sigðmyndað
hak. Honum var stungið inn um rifu á hurðinni, og hrukku þá frá
slagbrandarnir, sem voru á hurðinni að innanverðu.
í hönd sér, kheirí pakheie: „í hina styrku hönd sína“.
8—9 inn í innsta geymslusalinn: Hér er um vopnabúrið að ræða, sem
verið hefur innst í höllinni á bak við vistarveru kvennanna. Göng munu
verið hafa með báðum hliðveggjum hallarinnar endilöngum, og innst
við enda þeirra hefur vopnabúrið verið. Út í göng þessi var farið úr
skálanum (vistarveru karla) annaðhvort í gegnum stigadyr (XXII.
126) eða, eins og Telemakkus gerir (XXII. 109), um framdyr skálans
og anddyrið.
9 þar sem hún hafði lagt fyrir gersemar konungsins, enþa de hoi keimelía
keito anaktos: „Þar sem voru geymdar gersemar konungsins“.
11 hinn staðgóði bogi, palíntonon [palín + ton-, teinó] „endursveigjandisk“
eins og bogi gerir, þegar ör er skotið. Sumir ætla raunar, að orðið þýði
„innsveigður“, þ. e. að í miðjunni hafi boginn verið sveigður inn til að
mynda e. k. handfang.
13 í Lakedemóna landi: Þ. e. Spartverjalandi á Peleifsskaga, sjá kort.
14 Ifítus Evrýtusson: Evrýtus var konungur í Öykalíu (svo ritar Sveinbjörn
nafnið Il. II. 596, 730 Oikhalíe) í Þessalíu, frægur bogmaður (Od. VIII.
224); skoraði hann á Apolló í bogkeppni, og varð guðinn honum að
bana (Od. VIII. 226), en sonur hans hlaut bogann að erfðum (Od.
XXI. 32).
15 í Messenu: Messenía var, eins og sjá má hér, á tímum Hómers talinn
hluti af Lakedemón. Agamemnon (Il. IX. 293) talar um Feruborg, aðsetur
Orsílokks (Od. III. 488), sem hluta af ríki sínu.
26 kappans Herakless, er mörg stórvirki vann: Um Herakles og þrautirnar
tólf, sem hann vann, sjá J. G., bls. 234.
37 = 14 hinn goðumlíki Ifítus Evrýtusson: Frásögnin af boganum hefst á
sömu orðunum og henni lýkur með. Skáldinu hefur auðvitað þótt hlýða
að gera svona nána grein fyrir boganum, af því hve hann er þýðingarmikill
í rás þeirra atburða, sem í hönd fara.
39 á herskipum, melainaón epí neón: „á svörtum skipum“.
40 á þessum sama stað: Hér á eftir hafa fallið niður í þýðingu orðin:
mnema xeinoio fíloio: „til minningar um kæran vin“.
46 Penelópa leysti þegar lokubandið úr hurðarhringnum o. s. frv.: Slagbrandurinn,
sem var innan á hurðinni, var dreginn fyrir að utanverðu
með lokubandi. Gekk það út um gat eða rifu á hurðinni, (sbr. Od. IV.
802, þar sem svipurinn smýgur inn um hurðina „hjá lokubandinu“).
Er slagbrandurinn hafði verið dreginn fyrir, var lokubandinu fest við
hurðarhring eða hún að utanverðu. Lykillinn var sigðmyndað áhald með
skafti. Er hurðin var opnuð að utanverðu, var lyklinum stungið í gegnum
opið, sem lokubandið gekk í gegnum, og var honum „miðað“ þannig,
að hann skyti slagbrandinum frá; en áður en það var gert, varð eigi
hjá því komizt að leysa lokubandið af hurðarhringnum eða húninum.
Sennilega hefur slagbrandurinn verið í tvennu lagi og sín álman gengið
inn í laut í hvorum hliðveggnum.
51 á fjalapall nokkurn: Með því að moldargólf hefur verið í vopnabúrinu,
hafa kistur þar verið látnar standa á fjalapöllum til að verja þær raka.
59 hinum stælta boga, toxon ... palíntonon: sbr. aths. 11.
61