Jóhannesar guðspjall

1

Í upphafi var orðið, og orðið var hjá Guði, og orðið var Guð; 2 það var í upphafi hjá Guði. 3 Allir hlutir eru gjörðir fyrir það, og án þess varð ekkert til, sem til er orðið. 4 Í því var líf, og lífið var ljós mannanna; 5 og ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið meðtók það ekki. 6 Maður kom fram, sendur af Guði, hann hét Jóhannes. 7 Þessi maður kom til vitnisburðar, til þess að vitna um ljósið, til þess að allir skyldu trúa fyrir hann. 8 Ekki var hann ljósið, heldur átti hann að vitna um ljósið. 9 Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, var að koma í heiminn. 10 Hann var í heiminum, og heimurinn var til fyrir hann, og heimurinn þekti hann ekki. 11 Hann kom til sinna eigin, og hans eigin meðtóku hann ekki. 12 En öllum þeim, sem meðtóku hann, gaf hann vald til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans, 13 sem ekki eru af blóði, né af holds vilja, né af manns vilja, heldur af Guði fæddir. 14 Og orðið varð hold og hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð sem eingetins sonar frá föðurnum. 15 Jóhannes vitnar um hann og kallar, segjandi: Þessi var sá, sem eg sagði um: Hann, sem kemur á eftir mér, hefir verið á undan mér; því að hann var fyrri en eg. 16 Því að af gnægð hans höfum vér allir fengið, og það náð á náð ofan; 17 því að lögmálið var gefið fyrir Móse, en náðin og sannleikurinn varð fyrir Jesúm Krist. 18 Guð hefir enginn nokkurn tíma séð; sonurinn eingetni, sem er í skauti föðurins, hann hefir lýst honum.

19 Og þessi er vitnisburður Jóhannesar, þá er Gyðingarnir sendu til hans frá Jerúsalem presta og Levíta, til þess að spyrja hann: Hver ert þú? 20 Og hann játaði og neitaði ekki, og hann játaði: Ekki er eg Kristur. 21 Og þeir spurðu hann: Hvað þá? Ertu Elía? Og hann segir: Ekki er eg. Ertu spámaðurinn? Og hann svaraði: Nei. 22 Þeir sögðu þá við hann: Hver ert þú? til þess að vér getum gefið svar þeim, er oss sendu. Hvað segir þú um sjálfan þig? 23 Hann sagði: Eg er rödd manns, er hrópar í óbygðinni: Gjörið beinan veg drottins, eins og Jesaja spámaður hefir sagt. 24 En þeir voru sendir frá Faríseunum. 25 Og þeir spurðu hann og sögðu við hann: Hví skírir þú þá, ef þú ert ekki Kristur, ekki heldur Elía, né spámaðurinn? 26 Jóhannes svaraði þeim og sagði: Eg skíri með vatni; mitt á meðal yðar stendur sá, sem þér þekkið ekki, 27 hann sem kemur eftir mig, og skóþvengi hans er eg ekki verður að leysa. 28 Þetta bar við í Betaníu hinumegin Jórdanar, þar sem Jóhannes var að skíra.

29 Daginn eftir sér hann Jesúm koma til sín og segir: Sjá, lambið Guðs, er ber synd heimsins! 30 Hann er sá, sem eg sagði um: »Eftir mig kemur maður, sem hefir verið á undan mér; því að hann var fyrri en eg«. 31 Og ekki þekti eg hann, en til þess að hann yrði kunnur Ísrael, — til þess er eg kominn og skíri með vatni. 32 Og Jóhannes vitnaði og sagði: Eg hefi horft á andann stíga niður af himni eins og dúfu, og hann hvíldi yfir honum. 33 Og eg þekti hann ekki, en sá sem sendi mig, til þess að skíra með vatni, hann sagði við mig: Sá sem þú sér andann stíga niður yfir og hvíla yfir, hann er sá sem skírir með heilögum anda. 34 Og eg hefi séð það, og eg hefi vitnað, að þessi er guðssonurinn.

35 Daginn eftir var Jóhannes þar aftur staddur og tveir af lærisveinum hans. 36 Og hann horfði á Jesúm, þar sem hann gekk um kring, og segir: Sjá, lambið Guðs! 37 Og lærisveinarnir tveir heyrðu hann tala þetta, og fóru á eftir Jesú. 38 En Jesús sneri sér við, og er hann sá þá koma á eftir sér, segir hann við þá: 39 Hvers leitið þið? En þeir sögðu við hann: Rabbí — það þýðir útlagt: meistari, — hvar dvelur þú? 40 Hann segir við þá: Komið, og þá getið þið séð það. Þeir komu þá og sáu hvar hann dvaldi, og voru hjá honum þann dag. Var það um tíundu stundu. 41 Andrés, bróðir Símonar Péturs, var annar af þessum tveimur, sem höfðu heyrt til Jóhannesar og farið á eftir honum. 42 Hann finnur fyrst bróður sinn Símon og segir við hann: Við höfum fundið Messías, það er útlagt: Kristur; 43 og hann fór með hann til Jesú. Jesús leit á hann og sagði: Þú ert Símon, sonur Jóhannesar; þú skalt heita Kefas, það er útlagt: Pétur.

44 Daginn eftir hafði hann í hyggju að fara á stað til Galíleu, og hittir Filippus; og Jesús segir við hann: Fylg þú mér! 45 En Filippus var frá Betsaída, úr borg þeirra Andrésar og Péturs. 46 Filippus finnur Natanael og segir við hann: Vér höfum fundið þann, sem Móse hefir ritað um í lögmálinu og spámennirnir, Jesúm Jósefsson frá Nazaret. 47 Og Natanael sagði við hann: Getur nokkuð gott verið frá Nazaret? Filippus segir við hann: Kom þú og sjá. 48 Jesús sá Natanael koma til sín og segir um hann: Sjá, sannarlega er þar Ísraelíti, sem ekki eru svik í. 49 Natanael segir við hann: Hvaðan þekkir þú mig? Jesús svaraði og sagði við hann: Áður en Filippus kallaði á þig, sá eg þig, þar sem þú varst undir fíkjutrénu. 50 Natanael svaraði honum: Rabbí, þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels. 51 Jesús svaraði og sagði við hann: Trúir þú, af því eg sagði við þig: »Eg sá þig undir fíkjutrénu«? Þú skalt sjá það sem þessu er meira. 52 Og hann segir við hann: Sannlega, sannlega segi eg yður: þér munuð sjá himininn opinn og engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir mannsins son.


2

Og á þriðja degi var haldið brúðkaup í Kana í Galíleu. Og móðir Jesú var þar, 2 en Jesús var og boðinn til brúðkaupsins og lærisveinar hans. 3 Og er vín þraut, segir móðir Jesú við hann: Þeir hafa ekki vín. 4 Og Jesús segir við hana: Kona, hvað skiftir þú þér af mér? Minn tími er enn ekki kominn. 5 Móðir hans segir við þjónana: Hvað sem hann segir yður, skuluð þér gjöra. 6 En þar voru sett sex vatnsker úr steini, samkvæmt hreinsunarsiðum Gyðinga, og tók hvert þeirra tvo eða þrjá mæla. 7 Jesús segir við þá: Fyllið nú kerin vatni; og þeir fyltu þau á barma. 8 Þá segir hann við þá: Ausið nú upp og færið kæmeistaranum, og þeir færðu honum. 9 En er kæmeistarinn bergði á vatni því, er að víni var orðið, og vissi ekki hvaðan það var, — en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það — kallar kæmeistarinn á brúðgumann og segir við hann: 10 Hver maður setur fyrst góða vínið fram, en þegar menn eru orðnir ölvaðir, hið lakara; þú hefir geymt góða vínið þangað til nú. 11 Þessa byrjun jarteinanna gjörði Jesús í Kana í Galíleu, og opinberaði dýrð sína; og lærisveinar hans trúðu á hann.

12 Eftir þetta fór hann niður til Kapernaum, hann sjálfur og móðir hans og bræður og lærisveinar hans, og voru þau þar nokkura daga.

13 Og páskar Gyðinga fóru í hönd, og Jesús fór upp til Jerúsalem. 14 Og hann fann í helgidóminum þá, sem seldu naut og sauði og dúfur, og víxlarana sitjandi þar. 15 Og hann gjörði sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, bæði sauðina og nautin; og hann steypti niður smápeningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra. 16 Og við dúfnasalana sagði hann: Takið þetta burt héðan; gjörið ekki hús föður míns að verzlunarbúð. 17 Lærisveinum hans kom í hug, að ritað er:

Vandlæti vegna húss þíns mun uppeta mig. 18 Gyðingarnir svöruðu þá og sögðu við hann: Hvert tákn sýnir þú oss, þar eð þú gjörir þetta? 19 Jesús svaraði og sagði við þá: Brjótið þetta musteri, og á þrem dögum mun eg reisa það. 20 Þá sögðu Gyðingarnir: Í fjörutíu og sex ár hefir musteri þetta verið í smíðum, og munt þú reisa það á þremur dögum? 21 En hann talaði um musteri líkama síns. 22 Þegar hann því var upprisinn frá dauðum, mintust lærisveinar hans, að hann hafði talað þetta, og þeir trúðu ritningunni og því orði, sem Jesús hafði talað.

23 En er hann var í Jerúsalem á páskunum, á hátíðinni, trúðu margir á nafn hans, er þeir sáu tákn hans, þau er hann gjörði. 24 En Jesús sjálfur trúði þeim eigi fyrir, hver hann væri, því að hann þekti alla, og þurfti þess ekki, að nokkur vitnaði um manninn, því að hann vissi, hvað með manninum bjó.


3

En það var maður nokkur af flokki Faríseanna, að nafni Nikódemus, höfðingi meðal Gyðinga. 2 Hann kom til hans um nótt og sagði við hann: Rabbí, vér vitum, að þú ert meistari kominn frá Guði, því að enginn getur gjört þessi tákn, sem þú gjörir, nema Guð sé með honum. 3 Jesús svaraði og sagði við hann: Sannlega, sannlega segi eg þér: enginn getur séð guðsríki nema hann endurfæðist. 4 Nikódemus segir við hann: Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Hvort getur hann aftur komist inn í kvið móður sinnar og fæðst? 5 Jesús svaraði: Sannlega, sannlega segi eg þér, ef maðurinn fæðist ekki af vatni og anda, getur hann ekki komist inn í guðsríkið. 6 Það sem af holdinu er fætt, er hold, og það sem af andanum er fætt, er andi. 7 Undrast þú ekki, að eg sagði þér: Yður ber að endurfæðast. 8 Vindurinn blæs, hvar sem hann vill, og þú heyrir þytinn, en ekki veiztu, hvaðan hann kemur eða hvert hann fer; eins er farið hverjum sem af andanum er fæddur. 9 Nikódemus svaraði og sagði við hann: Hvernig má þetta verða? 10 Jesús svaraði og sagði við hann: Þú ert lærimeistari í Ísrael, og veizt ekki þetta? 11 Sannlega, sannlega segi eg þér, að vér tölum það sem vér vitum, og vitnum um það, sem vér höfum séð, og vitnisburð vorn meðtakið þér ekki. 12 Hafi eg sagt yður jarðneska hluti, og þér trúið eigi, hvernig munuð þér þá trúa, ef eg segi yður himneska? 13 Og enginn hefir stigið upp til himins, nema sá er niður sté af himni, mannsins sonur, sem er á himni. 14 Og eins og Móse hóf upp höggorminn á eyðimörkinni, þannig á mannsins sonur að verða upphafinn, 15 til þess að hver sem trúir, hafi í honum eilíft líf. 16 Því að svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver, sem á hann trúir, glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. 17 Því að ekki sendi Guð soninn í heiminn, til þess að hann skyldi dæma heiminn, heldur til þess að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann. 18 Sá sem trúir á hann, dæmist ekki; sá sem ekki trúir, er þegar dæmdur, því að hann hefir ekki trúað á nafn eingetins sonar Guðs. 19 En þessi er dómurinn, að ljósið er komið í heiminn, og mennirnir elskuðu myrkrið meir en ljósið, því að verk þeirra voru vond. 20 Því að hver sem ilt aðhefst, hatar ljósið og kemur eigi til ljóssins, til þess að verk hans verði ekki átalin. 21 En sá sem sannleikann gjörir, kemur til ljóssins, til þess að verk hans verði augljós, því að þau eru í Guði gjörð.

22 Eftir þetta kom Jesús og lærisveinar hans til Júdeulands; og þar dvaldist hann ásamt þeim og skírði. 23 En Jóhannes skírði líka í Ainon nálægt Salem, því að þar var vatn mikið. Og menn komu þangað og létu skírast; 24 því að Jóhannesi hafði enn ekki verið varpað í fangelsi. 25 Þá kom upp þræta af hálfu lærisveina Jóhannesar og Gyðings nokkurs um hreinsanir. 26 Og þeir komu til Jóhannesar og sögðu við hann: Rabbí, sá sem var með þér hinumegin Jórdanar, hann, sem þú vitnaðir um, sjá, hann skírir, og allir koma til hans. 27 Jóhannes svaraði og sagði: Enginn maður getur tekið neitt, nema honum sé gefið það af himni. 28 Þér eruð sjálfir vottar mínir, að eg sagði: Ekki er eg Kristur, heldur: Eg er sendur á undan honum. 29 Sá sem á brúðina, hann er brúðgumi, en vinur brúðgumans, sem stendur hjá honum og hlýðir á hann, gleðst innilega við rödd brúðgumans. Þessi gleði mín er því orðin fullkomin. 30 Hann á að vaxa, en eg að minka.

31 Sá sem að ofan kemur, er yfir öllum. Sá sem er af jörðunni, hann er af jörðunni og talar af jörðunni. Sá sem kemur af himni, er yfir öllum; 32 og það sem hann hefir séð og heyrt, það vitnar hann og vitnisburð hans meðtekur enginn. 33 En sá sem hefir meðtekið vitnisburð hans, hefir staðfest, að Guð sé sannorður. 34 Því að sá, sem Guð sendi, talar Guðs orð, því að ómælt gefur hann andann. 35 Faðirinn elskar soninn og hefir gefið alla hluti í hönd honum. 36 Sá sem trúir á soninn, hefir eilíft líf, en sá sem óhlýðnast syninum, skal ekki sjá lífið, heldur varir reiði Guðs yfir honum.


4

Þegar nú drottinn varð þess vís, að Farísearnir hefðu frétt, að Jesús fengi fleiri lærisveina og skírði fleiri en Jóhannes, — 2 Jesús skírði þó ekki sjálfur, heldur lærisveinar hans — 3 yfirgaf hann Júdeu og fór aftur til Galíleu. 4 En hann varð að leggja leið sína um Samaríu. 5 Kemur hann þá til bæjar í Samaríu, sem Síkar heitir, nálægt landi því, sem Jakob gaf Jósef syni sínum. 6 En þar var Jakobsbrunnur. Þar eð Jesús nú var orðinn vegmóður, settist hann rakleiðis niður við brunninn; það var um séttu stund. 7 Kona nokkur samversk kemur þá, til þess að ausa upp vatni. Jesús segir við hana: Gef mér að drekka! 8 því að lærisveinar hans höfðu farið burt inn í bæinn, til þess að kaupa vistir. 9 Samverska konan segir þá við hann: Hvernig biður þú, sem ert Gyðingur, mig, samverska konu, um að drekka? Því að Gyðingar eiga ekki mök við samverska menn. 10 Jesús svaraði og sagði við hana: Ef þú þektir gjöf Guðs og hver sá er, sem segir við þig: Gef mér að drekka! þá mundir þú hafa beðið hann, og hann mundi hafa gefið þér lifandi vatn. 11 Konan segir við hann: Herra, þú hefir enga ausu og brunnurinn er djúpur; hvaðan hefir þú þá hið lifandi vatn? 12 Eða ertu meiri föður vorum Jakob, sem gaf oss brunninn og drakk sjálfur úr honum og synir hans og kvikfé? 13 Jesús svaraði og sagði við hana: Hver sem drekkur af þessu vatni, hann mun þyrsta aftur, 14 en hver sem drekkur af því vatni, sem eg mun gefa honum, hann mun að eilífu ekki þyrsta, heldur mun vatn það, sem eg mun gefa honum, verða í honum að lind, er sprettur upp til eilífs lífs. 15 Konan segir við hann: Herra, gef mér þetta vatn, til þess að mig skuli ekki þyrsta, né heldur þurfi eg að fara hingað til að ausa upp vatni. 16 Jesús segir við hana: Far þú, kallaðu á mann þinn og kom hingað. 17 Konan svaraði og sagði við hann: Eg á engan mann. Jesús segir við hana: Rétt sagðir þú: Eg á engan mann; 18 því að þú hefir átt fimm menn, og sá sem þú átt nú, er ekki maður þinn; þetta hefir þú sagt satt. 19 Konan segir við hann: Herra, eg sé, að þú ert spámaður. 20 Feður vorir tilbáðu á þessu fjalli, og þér segið, að í Jerúsalem sé staðurinn, þar sem tilbiðja eigi. 21 Jesús segir við hana: Trú þú mér, kona, sú stund kemur, er þér hvorki munuð tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem. 22 Þér tilbiðjið það sem þér þekkið ekki; vér tilbiðjum það sem vér þekkjum; því að frá Gyðingum er hjálpræðið. 23 en sú stund kemur, og er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur skulu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika, því að einmitt faðirinn leitar slíkra tilbiðjenda. 24 Guð er andi, og þeir sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja hann í anda og sannleika. 25 Konan segir við hann: Eg veit, að Messías kemur, sem kallast Kristur; þegar hann kemur, mun hann kunngjöra oss alt. 26 Jesús segir við hana: Eg er hann, eg, sem við þig tala.

27 Og í því bili komu lærisveinar hans og undruðust, að hann var að tala við konu. Þó sagði enginn: Hvað viltu henni? eða: Hvað ertu að tala við hana? 28 Konan skildi þá eftir skjólu sína, gekk burt inn í bæinn og segir við menn: 29 Komið og sjáið mann, sem sagði mér alt, sem eg hefi aðhafst; mundi ekki þessi maður vera Kristur? 30 Þeir gengu út úr borginni og komu til hans. 31 Meðan á þessu stóð, báðu lærisveinarnir hann og sögðu: Rabbí, neyttu matar! 32 Hann sagði við þá: Eg hefi fæðu að eta, sem þér vitið ekki af. 33 Lærisveinarnir sögðu þá hver við annan: Ætli nokkur hafi fært honum að eta? 34 Jesús segir við þá: Minn matur er að gjöra vilja þess sem sendi mig og fullkomna hans verk. 35 Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? Sjá, eg segi yður: hefjið upp augu yðar og lítið á akrana, þeir eru þegar hvítir til uppskeru. 36 Hver sem upp sker, fær laun og safnar ávexti til eilífs lífs, til þess að bæði sá sem sáir, og sá sem upp sker, geti glaðst sameiginlega. 37 Því að í þessu efni er orðið satt: »Einn er sá sem sáir, og annar sá er upp sker«. 38 Eg hefi sent yður til þess að upp skera það, sem þér ekki hafið unnið að; aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í vinnu þeirra.

39 En úr þessum bæ trúðu margir af Samverjunum á hann fyrir orð konunnar, sem vitnaði: Hann sagði mér alt, sem eg hefi aðhafst. 40 Þegar því Samverjarnir komu til hans, beiddu þeir hann að dveljast hjá sér; og hann dvaldist þar tvo daga, 41 og miklu fleiri tóku trú fyrir orð hans; 42 og við konuna sögðu þeir: Það er eigi framar fyrir þitt tal, að vér trúum, því að sjálfir höfum vér heyrt og vitum, að þessi maður er í sannleika frelsari heimsins.

43 En eftir þá tvo daga hélt hann burt þaðan til Galíleu. 44 Því að Jesús vitnaði sjálfur, að spámaður væri ekki í metum í föðurlandi sínu. 45 Er hann nú kom til Galíleu, tóku Galíleumenn við honum, sem séð höfðu alt það, er hann gjörði á hátíðinni í Jerúsalem; því að þeir höfðu einnig sótt hátíðina.

46 Hann kom þá aftur til Kana í Galíleu, þar sem hann gjörði vatnið að víni. Og þar var konungsmaður nokkur, og lá sonur hans sjúkur í Kapernaum. 47 Þegar hann frétti, að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu, fór hann til hans og bað hann að koma og lækna son sinn, því að hann lægi fyrir dauðanum. 48 Jesús sagði þá við hann: Þér trúið ekki, nema þér sjáið tákn og stórmerki. 49 Konungsmaðurinn segir við hann: Herra, kom þú áður en barnið mitt andast. 50 Jesús segir við hann: Far þú, sonur þinn lifir. Maðurinn trúði orði því, sem Jesús talaði til hans, og fór burt. 51 En á heimleiðinni mættu honum þjónar hans og sögðu, að sonur hans væri á lífi. 52 Þá spurði hann þá að, hve nær honum hefði farið að létta; og þeir sögðu við hann: Í gær um sjöundu stundu hvarf sóttin frá honum. 53 Þá sá faðirinn, að það var á þeirri stundu, er Jesús hafði sagt við hann: Sonur þinn lifir. Og hann tók trú og alt hans heimafólk. 54 Þetta var önnur jarteinin, sem Jesús gjörði, er hann kom til Galíleu frá Júdeu.


5

Eftir þetta var hátíð Gyðinga, og Jesús fór upp til Jerúsalem. 2 En í Jerúsalem er við sauðahliðið laug, sem kallast á hebresku Beþesda og hefir fimm súlnagöng. 3 Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra, visinna. 5 En þar var maður nokkur, sem sjúkur hafði verið í þrjátíu og átta ár. 6 Þegar Jesús sá hann liggja og vissi, að hann þegar hafði lengi sjúkur verið, segir hann við hann: Viltu verða heill? 7 Sjúklingurinn svaraði honum: Herra, eg hefi engan mann, til þess að láta mig í laugina, þegar vatnið hrærist; en meðan eg er á leiðinni, fer annar ofan í á undan mér. 8 Jesús segir við hann: Rís upp, tak sæng þína og gakk. 9 Og jafnskjótt varð maðurinn heill, tók upp sængina og gekk.

En sá dagur var hvíldardagur. 10 Því sögðu Gyðingarnir við hinn læknaða mann: Það er hvíldardagur, og þér er ekki leyfilegt að bera sængina. 11 En hann svaraði þeim: Sá sem mig gjörði heilan, hann sagði mér: Tak þú sæng þína og gakk. 12 Þeir spurðu hann: Hver er sá maður, sem sagði við þig: Tak þú sæng þína og gakk? 13 En læknaði maðurinn vissi ekki, hver það var, því að Jesús hafði leynst burt, með því að fjöldi fólks var á staðnum. 14 Eftir þetta hittir Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: Sjá, þú ert orðinn heill, syndga þú ekki framar, til þess að þér vilji ekki annað verra til. 15 Maðurinn gekk burt og sagði Gyðingunum frá, að Jesús væri sá, er hefði gjört sig heilan, 16 og vegna þess ofsóttu Gyðingarnir Jesúm, að hann gjörði þetta á hvíldardegi. 17 En Jesús svaraði þeim: Faðir minn starfar alt til þessa, eg starfa einnig. 18 Fyrir því leituðust Gyðingarnir nú enn frekar við að ráða hann af dögum, að hann ekki einungis braut hvíldardaginn, heldur kallaði einnig Guð föður sinn og gjörði sjálfan sig Guði jafnan.

19 Jesús svaraði þá og sagði við þá:

Sannlega, sannlega segi eg yður: sonurinn getur ekkert gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra, því að það sem hann gjörir, það gjörir og sonurinn sömuleiðis. 20 Því að faðirinn elskar soninn og sýnir honum alt, sem hann gjörir, og hann mun sýna honum meiri verk en þessi, til þess að þér skulið furða yður. 21 Því að eins og faðirinn upp vekur hina dauðu og lífgar, þannig lífgar og sonurinn þá sem hann vill. 22 Því að faðirinn dæmir ekki heldur nokkurn, heldur hefir hann falið syninum á hendur allan dóm, 23 til þess að allir heiðri soninn eins og þeir heiðra föðurinn. Sá sem ekki heiðrar soninn, heiðrar ekki föðurinn, sem sendi hann. 24 Sannlega, sannlega segi eg yður: sá sem heyrir mitt orð og trúir þeim sem sendi mig, hefir eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur hefir hann stigið yfir frá dauðanum til lífsins. 25 Sannlega, sannlega segi eg yður: sú stund kemur, og er nú komin, er hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonar, og þeir, sem heyra, munu lifa. 26 Því að eins og faðirinn hefir líf í sjálfum sér, þannig hefir hann einnig gefið syninum að hafa líf í sjálfum sér; 27 og hann hefir gefið honum vald til að halda dóm, því að hann er mannsins sonur. 28 Undrist ekki þetta, því að sú kemur stund, er allir þeir sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans, 29 og þeir munu ganga út, þeir sem gott hafa gjört, til upprisu lífsins, en þeir sem ilt hafa aðhafst, til upprisu dómsins.

30 Ekki megna eg að gjöra neitt af sjálfum mér; eg dæmi eins og eg heyri; og minn dómur er réttvís, því að eg leita ekki míns vilja, heldur vilja þess er sendi mig. 31 Ef eg vitna um sjálfan mig, þá er vitnisburður minn ekki sannur. 32 Annar er, sem vitnar um mig, og eg veit, að vitnisburðurinn er sannur, sem hann vitnar um mig. 33 Þér hafið sent til Jóhannesar, og hann bar sannleikanum vitni. 34 En vitnisburðinn tek eg ekki hjá manni, heldur segi eg þetta, til þess að þér verðið hólpnir. 35 Hann var brennandi og skínandi lampi, en þér hafið aðeins um stund viljað gleðjast við ljós hans. 36 En eg hefi þann vitnisburð, sem meiri er en Jóhannesar, því að þau verk, sem faðir minn fékk mér að leysa af hendi, einmitt þau verk, sem eg gjöri, vitna um mig, að faðirinn hefir sent mig. 37 Og faðirinn, sem sendi mig, hann hefir vitnað um mig. Hvorki hafið þér nokkurn tíma heyrt rödd hans né séð ásýnd hans. 38 Og ekki hafið þér orð hans varanlegt í yður, því að þeim sem hann sendi, honum trúið þér ekki. 39 Þér rannsakið ritningarnar, því að í þeim hugsið þér, að þér hafið eilíft líf, og þær eru það, sem vitna um mig; 40 og ekki viljið þér koma til mín, til þess að þér hafið lífið. 41 Eg tek ekki heiður af mönnum, 42 en eg þekki yður, að þér hafið ekki Guðs kærleika í yður. 43 Eg er kominn í nafni föður míns, og þér meðtakið mig ekki. Ef annar kæmi í sínu eigin nafni, munduð þér meðtaka hann. 44 Hvernig getið þér trúað, þér, sem takið heiður hver hjá öðrum, en leitið ekki þess heiðurs, sem er hjá Guði einum? 45 Ætlið ekki, að eg muni ákæra yður fyrir föðurnum; sá er til sem ákærir yður, Móse, sem þér hafið bygt von yðar á. 46 Því að ef þér tryðuð Móse, þá tryðuð þér og mér, því að hann hefir ritað um mig.47 En ef þér trúið ekki ritum hans, hvernig ættuð þér þá að trúa orðum mínum?


6

Eftir þetta fór Jesús burt til landsins hinumegin við Galíleuvatnið, sem kent er við Tíberías. 2 En mikill mannfjöldi fylgdi honum, því að menn sáu þau tákn, sem hann gjörði á hinum sjúku. 3 En Jesús fór upp á fjallið og settist þar niður ásamt lærisveinum sínum. 4 En páskar, hátíð Gyðinga, voru í nánd. 5 Þegar Jesús nú hóf upp augu sín og sá, að fjöldi fólks kom til hans, segir hann við Filippus: Hvar eigum vér að kaupa brauð, til þess að menn þessir fái etið? 6 En þetta sagði hann til þess að reyna hann, því að sjálfur vissi hann, hvað hann ætlaði sér að gjöra. 7 Filippus svaraði honum: Brauð fyrir tvö hundruð denara er ekki nóg handa þeim, til þess að hver einn fái lítið eitt. 8 Segir þá einn af lærisveinum hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, við hann: 9 Hér er ungmenni, sem hefir fimm byggbrauð og tvo smáfiska, en hvað er þetta handa svo mörgum? 10 Jesús sagði: Látið fólkið setjast niður. En gras mikið var á staðnum. Settust þá niður karlmennirnir, að tölu nær fimm þúsundir. 11 Jesús tók þá brauðin, og er hann hafði gjört þakkir, skifti hann þeim meðal þeirra, sem sezt höfðu niður; sömuleiðis og af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu. 12 En er þeir voru mettir, segir hann við lærisveina sína: Takið saman brotnu brauðin, sem afgangs eru, til þess að ekkert fari til ónýtis. 13 Þeir söfnuðu þeim þá saman og fyltu tólf karfir með molum af byggbrauðunum fimm, sem gengu af hjá þeim, er neytt höfðu. 14 Þegar fólkið nú sá það tákn, sem hann gjörði, sagði það: Þessi er sannarlega spámaðurinn, sem á að koma í heiminn.

15 Þegar Jesús því varð þess var, að þeir ætluðu að koma og taka hann með valdi, til þess að gjöra hann að konungi, veik hann aftur afsíðis upp á fjallið einn saman.

16 En er kveld var komið, fóru lærisveinar hans niður að vatninu, 17 og þeir stigu á skip og héldu yfir um vatnið til Kapernaum; og það var þegar orðið dimt og Jesús var enn ekki kominn til þeirra. 18 En vatnið tók að ókyrrast, því að veður blés mikið. 19 Þegar þeir nú höfðu róið hér um bil tuttugu og fimm eða þrjátíu skeiðrúm, sjá þeir Jesúm gangandi á vatninu og kominn nálægt skipinu, og þeir urðu hræddir. 20 En hann segir við þá: Það er eg, óttist ekki.21 Vildu þeir þá taka hann upp í skipið, og jafnskjótt kom skipið að landi, þar sem þeir reru að.

22 Daginn eftir sá fólkið, sem stóð hinumegin vatnsins, að þar hafði eigi verið nema einn bátur og að Jesús hafði ekki stigið á skip með lærisveinum sínum, heldur höfðu lærisveinarnir farið einir saman, — 23 aftur á móti voru þar komnir bátar frá Tíberías, nálægt þeim stað, sem þeir átu brauðið, er drottinn hafði gjört þakkir; — 24 þegar því fólkið sá, að Jesús var ekki þar, né heldur lærisveinar hans, stigu þeir í bátana og komu til Kapernaum, til þess að leita að Jesú. 25 Og er þeir fundu hann hinumegin vatnsins, sögðu þeir við hann: Rabbí, hve nær komstu hingað? 26 Jesús svaraði þeim og sagði: Sannlega, sannlega segi eg yður: Þér leitið mín ekki af því að þér sáuð jarteinir, heldur af því, að þér neyttuð brauðanna og urðuð mettir. 27 Aflið yður ekki þeirrar fæðu, sem eyðist, heldur þeirrar fæðu, sem varir til eilífs lífs, sem mannsins sonur mun gefa yður; því að hann hefir faðirinn, Guð, innsiglað. 28 Þeir sögðu því við hann: Hvað eigum vér að gjöra, til þess að vér vinnum verk Guðs? 29 Jesús svaraði og sagði við þá: Þetta er verk Guðs, að þér trúið á þann, sem hann sendi. 30 Þeir sögðu því við hann: Hver tákn gjörir þú þá, til þess að vér sjáum og trúum þér? Hvaða verk vinnur þú? 31 Feður vorir átu manna á eyðimörkinni, eins og ritað er: Brauð af himni gaf hann þeim að eta. 32 Þá sagði Jesús við þá: Sannlega, sannlega segi eg yður: Ekki gaf Móse yður brauð af himni, heldur gefur faðir minn yður hið sanna brauð af himni. 33 Því að brauð Guðs er það, sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf. 34 Þá sögðu þeir við hann: Herra, gef oss ávalt þetta brauð. 35 Jesús sagði við þá: Eg er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur, og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir. 36 En eg hefi sagt yður, að þér hafið séð mig og trúið þó ekki. 37 Alt, sem faðirinn gefur mér, mun koma til mín, og þann, sem til mín kemur, mun eg alls ekki burt reka. 38 Því að eg hefi stígið niður af himni, ekki til þess að gjöra vilja minn, heldur vilja þess er sendi mig. 39 En þetta er vilji hans er sendi mig, að af öllu því, sem hann hefir gefið mér, skuli eg ekki láta neitt glatast, heldur upp vekja það á efsta degi. 40 Því að þetta er vilji föður míns, að hver sem sér soninn og trúir á hann, hafi eilíft líf; og eg mun upp vekja hann á efsta degi.

41 Þá mögluðu Gyðingarnir um hann, af því að hann sagði: Eg er það brauð, sem kom niður af himni. 42 Og þeir sögðu: Er hann ekki Jesús, sonur Jósefs? Og þekkjum vér ekki föður hans og móður? Hvernig segir hann þá nú: Eg hefi stigið niður af himni? 43 Jesús svaraði og sagði við þá: Möglið ekki yðar á meðal; 44 enginn getur komið til mín, nema faðirinn, -sem sendi mig, dragi hann, og eg mun upp vekja hann á efsta degi. 45 Ritað er í spámönnunum: Þeir munu allir verða af Guði fræddir; hver sem heyrir föðurinn og lærir, sá kemur til mín. 46 Ekki að nokkur hafi séð föðurinn, nema sá sem er frá Guði, hann hefir séð föðurinn. 47 Sannlega, sannlega segi eg yður: Sá sem trúir, hefir eilíft líf. 48 Eg er brauð lífsins. 49 Feður yðar átu manna í eyðimörkinni og dóu. 50 Þetta er brauðið, sem kemur niður af himni, til þess að maður neyti af því og deyi ekki. 51 Eg er hið lifandi brauð, sem kom niður af himni; ef nokkur etur af þessu brauði, mun hann lifa til eilífðar; og það brauð, sem eg mun gefa, er hold mitt, heiminum til lífs.

52 Þá þráttuðu Gyðingarnir sín á milli og sögðu: Hvernig getur hann gefið oss hold sitt að eta? 53 Því sagði Jesús við þá: Sannlega, sannlega segi eg yður: Ef þér ekki etið hold mannsins sonar og drekkið blóð hans, hafið þér ekki líf í yður. 54 Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, hefir eilíft líf, og eg mun upp vekja hann á efsta degi; 55 því að hold mitt er sönn fæða og blóð mitt er sannur drykkur. 56 Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, sá er í mér og eg í honum; 57 eins og hinn lifandi faðir sendi mig, og eg lifi fyrir föðurinn, eins mun sá lifa fyrir mig, sem mig etur. 58 Þetta er það brauð, sem komið er niður af himni; ekki eins og feðurnir átu og dóu; sá sem etur þetta brauð, mun lifa að eilífu. 59 Þetta sagði hann í samkundunni, er hann var að kenna í Kapernaum.

60 Margir af lærisveinum hans, sem hlýddu á, sögðu þá: Hörð er þessi ræða, hver getur hlýtt á hana? 61 En er Jesús vissi með sjálfum sér, að lærisveinar hans mögluðu um þetta, sagði hann við þá: Hneykslar þetta yður? 62 Hvað þá, ef þér sæjuð mannsins son stíga upp þangað, sem hann áður var? 63 Það er andinn, sem lífgar, holdið gagnar ekkert; orðin, sem eg hefi talað við yður, eru andi og eru líf. 64 En þeir eru nokkurir meðal yðar, sem ekki trúa, — því að Jesús vissi frá upphafi hverjir þeir voru, sem ekki trúðu, og hver sá var, sem mundi svíkja hann. 65 Og hann sagði: Fyrir því hefi eg sagt við yður: Enginn getur komið til mín, nema honum sé það gefið af föðurnum.

66 Upp frá þessu fóru margir af lærisveinum hans burt frá honum aftur, og voru ekki framar með honum. 67 Jesús sagði því við þá tólf: Viljið þér einnig fara burt? 68 Símon Pétur svaraði honum: Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefir orð eilífs lífs, 69 og vér höfum trúað og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs. 70 Jesús svaraði þeim: Hefi eg ekki útvalið yður tólf? Og einn yðar er djöfull! 71 En hann átti við Júdas, son Símonar Ískaríot, því að hann varð síðan til að svíkja hann, einn af þeim tólf.


7

Og eftir þetta ferðaðist Jesús um í Galíleu, því að ekki vildi hann ferðast um í Júdeu, af því að Gyðingarnir sátu um líf hans. 2 En hátíð Gyðinga, laufskálahátíðin, var í nánd. 3 Þá sögðu bræður hans við hann: Tak þig upp héðan og far til Júdeu, til þess að einnig lærisveinar þínir þar sjái þau verk, sem þú gjörir. 4 Því að enginn sá gjörir nokkuð leynilega, sem alkunnur vill verða; ef þú gjörir þetta, þá sýn þig sjálfan heiminum; 5 því að bræður hans trúðu ekki heldur á hann. 6 Þá segir Jesús við þá: Minn tími er enn ekki kominn, en yðar tími er jafnan fyrir hendi. 7 Ekki getur heimurinn hatað yður, en mig hatar hann, af því að eg vitna um hann, að verk hans eru vond. 8 Farið þér til hátíðarinnar; eg fer ekki að sinni til þessarar hátíðar, því að minn tími er enn ekki fullnaður. 9 Þetta sagði hann við þá, og var kyrr í Galíleu.

10 En er bræður hans voru farnir til hátíðarinnar, þá fór hann og sjálfur þangað, ekki opinberlega, heldur eins og á laun. 11 Gyðingarnir leituðu hans því á hátíðinni og sögðu: Hvar er hann? 12 Og mikill kurr var um hann meðal fólksins; nokkurir sögðu: Hann er góður maður; en aðrir sögðu: Nei, heldur leiðir hann fólkið í villu. 13 Þó talaði enginn opinskátt um hann af ótta fyrir Gyðingunum.

14 En er hátíðin var hálfnuð, gekk Jesús upp í helgidóminn og kendi. 15 Gyðingana furðaði nú á því, og þeir sögðu: Hvaðan hefir þessi maður lærdóm sinn og hefir þó enga tilsögn hlotið? 16 Jesús svaraði þeim því og sagði: Mín kenning er ekki mín, heldur þess sem sendi mig. 17 Ef sá er nokkur, sem vill gjöra vilja hans, hann mun, hvað kenninguna snertir, komast að raun um, hvort hún er frá Guði, eða eg tala af sjálfum mér. 18 Sá sem talar af sjálfum sér, leitar eigin vegsemdar, en sá, er leitar vegsemdar þess er sendi hann, er sannorður, og ranglæti er ekki í honum. 19 Gaf Móse yður ekki lögmálið, og enginn yðar heldur lögmálið? Hví sitjið þér um líf mitt? 20 Fólkið svaraði: Þú hefir illan anda; hver situr um líf þitt? 21 Jesús svaraði og sagði við þá: Eitt verk gjörði eg, og yður furðar alla á því. 22 Móse gaf yður umskurnina, — ekki að hún sé frá Móse, heldur frá feðrunum, — og þér umskerið mann á hvíldardegi. 23 Ef maður meðtekur umskurn á hvíldardegi, til þess að Móse-lögmál verði ekki brotið, reiðist þér mér þá fyrir það, að eg gjörði allan manninn heilan á hvíldardegi? 24 Dæmið ekki eftir ásýndum, heldur dæmið réttlátan dóm.

25 Þá sögðu nokkurir af Jerúsalembúum: Er það ekki þessi maður, sem þeir sitja um að lífláta? 26 Og sjá, hann talar opinberlega, og þeir segja ekkert við hann. Skyldu höfðingjarnir hafa komist að því með sanni, að hann sé Kristur? 27 En um þennan mann vitum vér, hvaðan hann er; en þegar Kristur kemur, veit enginn, hvaðan hann er. 28 Jesús kallaði þá, þar sem hann var að kenna í helgidóminum, og sagði: Bæði þekkið þér mig og vitið, hvaðan eg er. Og af sjálfum mér er eg ekki kominn, en sá er sannur, sem sendi mig, en hann þekkið þér ekki. 29 Eg þekki hann, því að eg er frá honum, og hann hefir sent mig. 30 Þeir leituðust þá við að handtaka hann. Þó lagði enginn hendur á hann, því að stund hans var enn ekki komin. 31 En margir af fólkinu trúðu á hann og sögðu: Þegar Kristur kemur, mun hann þá gjöra fleiri jarteinir en þessi maður hefir gjört? 32 Farísearnir heyrðu, að fólkið var þannig að þrátta um hann; og æðstu prestarnir og Farísearnir sendu þjóna, til þess að handtaka hann. 33 Jesús sagði því: Enn þá er eg hjá yður lítinn tíma, og fer svo til hans, er sendi mig. 34 Þér munuð leita mín og þér munuð ekki finna mig, og þar sem eg er, þangað getið þér ekki komist. 35 Gyðingarnir sögðu þá sín á milli: Hvert skyldi hann ætla að fara, svo að vér finnum hann ekki? Skyldi hann ætla að fara til þeirra, sem dreifðir eru meðal Grikkja, og kenna Grikkjum? 36 Hvað er þetta orð, sem hann sagði: Þér munuð leita mín og þér munuð ekki finna mig? Og: Þar sem eg er, þangað getið þér ekki komist?

37 En síðasta daginn, hátíðisdaginn mikla, gekk Jesús fram og kallaði, segjandi: Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki! 38 Sá sem trúir á mig, úr hans kviði munu, eins og ritningin hefir sagt, renna lækir lifandi vatns. 39 En þetta sagði hann um andann, er þeir mundu meðtaka, er á hann tryðu, því að enn þá var andinn ekki gefinn, af því að Jesús var ekki enn þá dýrðlegur orðinn. 40 Því sögðu nokkurir af fólkinu, sem heyrðu þessi orð: Þetta er sannarlega spámaðurinn. 41 Aðrir sögðu: Þessi maður er Kristur. En sumir sögðu: Mundi Kristur þá koma frá Galíleu? 42 Hefir ekki ritningin sagt, að Kristur muni koma af Davíðs sæði og frá Betlehem, þorpinu þar sem Davíð var? 43 Nú varð ágreiningur um hann meðal fólksins. 44 En nokkurir af þeim vildu handtaka hann, þó lagði enginn hendur á hann.

45 Þjónarnir komu þá til æðstu prestanna og Faríseanna, og þeir sögðu við þá: Hví komuð þér ekki með hann? 46 Þjónarnir svöruðu: Aldrei hefir nokkur maður talað þannig. 47 Farísearnir svöruðu þeim þá: Hvort hafið þér einnig látið leiðast afvega? 48 Hefir nokkur af höfðingjunum trúað á hann eða af Faríseunum? 49 En þessi múgur, sem ekki þekkir lögmálið, — þeir eru bölvaðir! 50 Nikódemus, — sá sem kom til hans fyrrum, þótt hann væri einn af þeim, — segir við þá: 51 Dæmir lögmál vort nokkurn mann, nema menn hafi yfirheyrt hann áður og viti, hvað hann hefst að? 52 Þeir svöruðu og sögðu við hann: Ert þú líka frá Galíleu? Rannsakaðu og sjáðu, að enginn spámaður kemur fram úr Galíleu.

[53 Og þeir fóru hver heim til sín.


8

En Jesús fór til Olíufjallsins. 2 En snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn, og alt fólkið kom til hans, og hann settist niður og kendi þeim. 3 En fræðimennirnir og Farísearnir koma með konu, sem staðin hafði verið að hórdómi, og leiða hana fram 4 og segja við hann: Meistari, kona þessi er beinlínis staðin að því að drýgja hór. 5 Móse hefir nú boðið oss í lögmálinu, að slíkar konur skuli grýta; hvað segir þú nú um hana? 6 En þetta sögðu þeir til að freista hans, til þess að þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut þá niður og ritaði með fingrinum á jörðina. 7 En þar eð þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana. 8 Og hann laut aftur niður og ritaði á jörðina með fingrinum. 9 En er þeir heyrðu þetta, gengu þeir burt hver eftir annan, öldungarnir fyrstir, og Jesús var einn eftir og konan frammi fyrir honum. 10 Og Jesús rétti sig upp og sagði við hana: Kona, hvar eru þeir? Sakfeldi enginn þig? 11 En hún svaraði: Enginn, herra. En Jesús sagði: Eg sakfelli þig ekki heldur. Far þú; syndga ekki upp frá þessu].

12 Og enn talaði Jesús til þeirra og sagði: Eg er ljós heimsins, hver sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkrinu, heldur hafa ljós lífsins. 13 Farísearnir sögðu því við hann: Þú vitnar um sjálfan þig, vitnisburður þinn er ekki sannur. 14 Jesús svaraði og sagði við þá: Þótt eg vitni um sjálfan mig, er vitnisburður minn sannur; því að eg veit, hvaðan eg er kominn og hvert eg fer. En þér vitið ekki, hvaðan eg kem eða hvert eg fer. 15 Þér dæmið eftir holdinu; eg dæmi engan; 16 og jafnvel þótt eg dæmdi, er dómur minn sannur, því að eg er ekki einn, heldur eg og faðirinn, sem sendi mig. 17 Það er og ritað í lögmáli yðar, að vitnisburður tveggja manna sé sannur. 18 Eg er sá sem vitna um sjálfan mig, og faðirinn, sem sendi mig, vitnar um mig. 19 Þeir sögðu þá við hann: Hvar er faðir þinn? Jesús svaraði: Hvorki þekkið þér mig né föður minn; ef þér þektuð mig, þá þektuð þér og föður minn. 20 Þessi orð talaði hann hjá fjárhirzlunni, er hann var að kenna í helgidóminum, og enginn lagði hendur á hann, því að stund hans var enn ekki komin.

21 Hann sagði nú aftur við þá: Eg fer burt, og þér munuð leita mín og deyja í synd yðar. Þangað sem eg fer, getið þér ekki komist. 22 Gyðingarnir sögðu þá: Mun hann ætla að fyrirfara sér, þar eð hann segir: Þangað sem eg fer, getið þér ekki komist? 23 Og hann sagði við þá: Þér eruð neðan að, eg er ofan að; þér eruð af þessum heimi, eg er ekki af þessum heimi. 24 Þess vegna sagði eg yður, að þér munduð deyja í syndum yðar, því að ef þér trúið ekki, að eg sé sá sem eg er, munuð þér deyja í syndum yðar. 25 Þeir sögðu þá við hann: Hver ert þú? Jesús sagði við þá: Einmitt það sem eg hefi frá upphafi talað til yðar. 26 Eg hefi margt um yður að tala og dæma; en hann sem sendi mig, er sannorður, og eg tala það til heimsins, sem eg hefi heyrt af honum. 27 Þeir skildu ekki, að hann talaði um föðurinn við þá. 28 Því sagði Jesús: Þegar þér hefjið upp mannsins son, þá munuð þér komast að raun um, að eg er það, og að eg gjöri ekkert af sjálfum mér, heldur tala eg þetta eins og faðirinn hefir kent mér. 29 Og sá sem sendi mig, er með mér; ekki hefir hann látið mig einan, því að eg gjöri ætíð það sem honum er þóknanlegt. 30 Þegar hann talaði þetta, tóku margir trú á hann.

31 Jesús sagði því við þá Gyðinga, sem tekið höfðu trú á hann: Ef þér haldið stöðugt við orð mitt, þá eruð þér sannarlega lærisveinar mínir. 32 Og þér munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa. 33 Þeir svöruðu honum: Vér erum sæði Abrahams, og höfum aldrei verið þrælar nokkurs manns; hvernig segir þú þá: Þér skuluð verða frjálsir? 34 Jesús svaraði þeim: Sannlega, sannlega segi eg yður, að sérhver, sem drýgir syndina, er þræll syndarinnar. 35 En þrællinn dvelur ekki um aldur og æfi í húsinu; sonurinn dvelur þar um aldur. 36 Ef því sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér vera sannarlega frjálsir. 37 Eg veit, að þér eruð Abrahams sæði, en þér leitist þó við að lífláta mig, af því að orð mitt fær ekki rúm hjá yður. 38 Eg tala það sem eg hefi séð hjá föður mínum; gjörið þér þá og það, sem þér hafið heyrt af föðurnum. 39 Þeir svöruðu og sögðu við hann: Faðir vor er Abraham. Jesús segir við þá: Ef þér væruð Abrahams börn, þá munduð þér vinna Abrahams verk. 40 En nú leitist þér við að deyða mig, mann, sem hefi talað til yðar sannleikann, sem eg heyrði hjá Guði; þetta gjörði Abraham ekki; 41 þér gjörið verk föður yðar. Þeir sögðu við hann: Vér erum ekki hórgetnir, vér höfum einn föður, Guð. Jesús sagði við þá: 42 Ef Guð væri faðir yðar, þá elskuðuð þér mig, því að frá Guði er eg út genginn og kominn; því að ekki er eg heldur kominn af sjálfum mér, en hann hefir sent mig. 43 Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlýtt á orð mitt. 44 Þér eigið að föður djöfulinn, og það sem faðir yðar girnist, viljið þér gjöra. Hann var manndrápari frá upphafi, og ekki var hann stöðugur í sannleikanum, því að sannleiki er ekki í honum; þegar hann talar lygi, talar hann af sínu eigin, því að lygari er hann og faðir lygarans. 45 En af því að eg tala sannleikann, trúið þér mér ekki. 46 Hver yðar sannar á mig synd? Ef eg tala sannleikann, hví trúið þér mér ekki? 47 Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð; þér heyrið ekki, vegna þess að þér eruð ekki af Guði. 48 Gyðingarnir svöruðu og sögðu við hann: Segjum vér ekki rétt, að þú sért Samverji og hafir illan anda? 49 Jesús svaraði: Ekki hefi eg illan anda, heldur heiðra eg föður minn, en þér smánið mig. 50 En eg leita ekki míns heiðurs; sá er til, sem leitar hans og dæmir. 51 Sannlega, sannlega segi eg yður: ef nokkur varðveitir mitt orð, hann skal aldrei að eilífu sjá dauðann. 52 Gyðingarnir sögðu við hann: Nú vitum vér, að þú hefir illan anda. Abraham er dáinn og spámennirnir, og þú segir: Ef nokkur varðveitir mitt orð, sá mun aldrei að eilífu smakka dauðann. 53 Ert þú meiri en faðir vor Abraham, sem er dáinn? Spámennirnir eru líka dánir. Hvílíkan gjörir þú sjálfan þig? 54 Jesús svaraði: Ef eg vegsama sjálfan mig, er vegsemd mín ekkert. Það er faðir minn, sem vegsamar mig, hann sem þér segið, að sé Guð yðar. 55 Og ekki þekkið þér hann, en eg þekki hann, og ef eg segði: Eg þekki hann ekki, þá mundi eg vera lygari, eins og þér; en eg þekki hann og varðveiti orð hans. 56 Abraham faðir yðar hlakkaði til að sjá minn dag, og hann sá hann og gladdist. 57 Þá sögðu Gyðingarnir við hann: Þú ert enn ekki fimtugur, og þú hefir séð Abraham? 58 Jesús sagði við þá: Sannlega, sannlega segi eg yður: Áður en Abraham var, er eg. 59 Þeir tóku þá steina upp, til að kasta á hann, en Jesús duldist og fór út úr helgidóminum.


9

Og er hann gekk fram hjá, sá hann mann, sem var blindur frá fæðingu. 2 Og lærisveinar hans spurðu hann og sögðu: Rabbí, hvor hefir syndgað, þessi maður eða foreldrar hans, að hann skyldi fæðast blindur? 3 Jesús svaraði: Hvorki syndgaði hann né foreldrar hans, heldur er það til þess, að Guðs verk verði opinber á honum. 4 Oss ber að vinna verk þess er sendi mig, meðan dagur er; það kemur nótt, þegar enginn getur unnið. 5 Meðan eg er í heiminum, er eg heimsins ljós. 6 Þá er hann hafði þetta sagt, hrækti hann á jörðina, gjörði leðju úr hrákanum og reið leðjunni á augu hans. 7 Og hann sagði við hann: Far þú og þvo þér í Sílóam-laug, — sem er útlagt: sendur —; fór hann þá burt og þvoði sér og kom aftur sjáandi. 8 Þá sögðu nágrannarnir og þeir, sem höfðu séð hann áður, því hann var ölmusumaður: Er það ekki sá, sem setið hefir og beiðst ölmusu? 9 Nokkurir sögðu: Það er hann. Aðrir sögðu: Nei, en hann er líkur honum. Sjálfur sagði hann: Eg er sá hinn sami. 10 Þeir sögðu þá við hann: Hvernig opnuðust þá augu þín? 11 Hann svaraði: Maðurinn, sem heitir Jesús, gjörði leðju og reið á augu mín og sagði við mig: Far þú til Sílóam og þvo þér. En er eg nú fór og þvoði mér, fékk eg sjónina. 12 Og þeir sögðu við hann: Hvar er hann? Hann segir: Eg veit það ekki.

13 Þeir færa nú manninn, sem áður var blindur, til Faríseanna; 14 en hvíldardagur var þann dag, er Jesús bjó til leðjuna og lauk upp augum hans. 15 Nú spurðu líka Farísearnir hann aftur, hvernig hann hefði fengið sjónina; en hann sagði við þá: Hann lagði leðju á augu mín, og eg þvoði mér, og nú er eg sjáandi. 16 Þá sögðu nokkurir af Faríseunum: Ekki er maður þessi frá Guði, fyrst hann heldur ekki hvíldardaginn. En aðrir sögðu: Hvernig getur syndugur maður gjört slíkar jarteinir? Og ágreiningur var með þeim. 17 Þeir segja þá aftur við hinn blinda: Hvað segir þú um hann, þar sem hann lauk upp augum þínum? En hann sagði: Hann er spámaður. 18 En Gyðingarnir trúðu því þá ekki um hann, að hann hefði verið blindur og væri orðinn sjáandi, fyr en þeir kölluðu á foreldra mannsins, sem var orðinn sjáandi, 19 og spurðu þau og sögðu: Er þetta sonur ykkar, sem þið segið, að hafi verið fæddur blindur? Hvernig er hann þá nú orðinn sjáandi? 20 Foreldrar hans svöruðu og sögðu: Við vitum, að hann er sonur okkar, og að hann fæddist blindur. 21 En hvernig hann nú er orðinn sjáandi, vitum við ekki, eða hver hefir lokið upp augum hans, það vitum við ekki. Spyrjið hann sjálfan; hann hefir aldurinn; hann getur sjálfur talað fyrir sig. 22 Þetta sögðu foreldrar hans, vegna þess að þau óttuðust Gyðingana, af því að nú höfðu Gyðingarnir komið sér saman um, að ef nokkur maður játaði, að hann væri Kristur, skyldi hann samkundurækur. 23 Þess vegna sögðu foreldrar hans: Hann hefir aldurinn, spyrjið hann sjálfan. 24 Þeir kölluðu þá í annað sinn á manninn, sem hafði verið blindur, og sögðu við hann: Gef þú Guði dýrðina; vér vitum, að maður þessi er syndari. 25 Þá svaraði hann: Hvort hann er syndari, veit eg ekki; eitt veit eg, að eg, sem var blindur, er nú sjáandi. 26 Þeir sögðu þá við hann: Hvað gjörði hann við þig? Hvernig lauk hann upp augum þínum? 27 Hann svaraði þeim: Eg hefi þegar sagt yður það, og þér hlustuðuð ekki á það; hvers vegna viljið þér heyra það aftur? Hvort viljið þér líka verða lærisveinar hans? 28 Og þeir atyrtu hann og sögðu: Þú ert lærisveinn hans, en vér erum lærisveinar Móse. 29 Vér vitum, að Guð hefir talað við Móse, en um þennan mann vitum vér ekki, hvaðan hann er. 30 Maðurinn svaraði og sagði við þá: Þá er þetta þó undarlegt, að þér vitið ekki, hvaðan hann er, og hann lauk upp augum mínum. 31 Vér vitum, að Guð heyrir ekki syndara, en ef einhver er guðrækinn og gjörir vilja hans, þann mann heyrir hann. 32 Aldrei hefir það heyrst, að nokkur hafi opnað augu þess, er var fæddur blindur. 33 Væri þessi maður ekki frá Guði, þá gæti hann ekkert gjört. 34 Þeir svöruðu og sögðu við hann: Allur ert þú í syndum fæddur, og þú ert að kenna oss! Og þeir ráku hann út.

35 Jesús frétti, að þeir hefðu rekið hann út, og er hann fann hann, sagði hann: Trúir þú á Guðs son? 36 Hann svaraði og sagði: Hver er sá, herra, að eg geti trúað á hann? 37 Jesús sagði við hann: Bæði hefir þú séð hann og hann er sá sem við þig talar. 38 En hann sagði: Eg trúi, herra! og hann féll fram fyrir honum. 39 Og Jesús sagði: Til dóms er eg kominn í þennan heim, til þess að þeir sem ekki sjá, verði sjáandi, og þeir sem sjáandi eru, verði blindir. 40 Þetta heyrðu þeir af Faríseunum, sem hjá honum voru, og sögðu við hann: Hvort erum vér þá líka blindir? 41 Jesús sagði við þá: Ef þér væruð blindir, hefðuð þér ekki synd, en nú segið þér: Vér erum sjáandi. Synd yðar helzt við.


10

Sannlega, sannlega segi eg yður: Sá sem ekki gengur um dyrnar inn í sauðabyrgið, heldur stígur yfir annarstaðar, sá er þjófur og ræningi. 2 En sá sem gengur inn um dyrnar, hann er hirðir sauðanna. 3 Fyrir honum lýkur dyravörðurinn upp og sauðirnir heyra raust hans, og hann kallar sauði sína með nafni og fer út með þá. 4 Þegar hann hefir látið út alla sauði sína, gengur hann á undan þeim og sauðirnir fylgja honum, af því að þeir þekkja raust hans; 5 en ókunnugum fylgja þeir alls ekki, heldur munu þeir flýja frá honum, af því þeir þekkja ekki raust ókunnugra. 6 Þessa líkingu sagði Jesús þeim, en þeir skildu ekki, hvað það var, sem hann talaði til þeirra.

7 Jesús sagði því aftur við þá: Sannlega, sannlega segi eg yður: Eg er dyr sauðanna. 8 Allir, sem komu á undan mér, eru þjófar og ræningjar, en sauðirnir hlýddu þeim ekki. 9 Eg er dyrnar; ef einhver gengur inn um mig, sá mun hólpinn verða, og hann mun ganga inn og ganga út og fá fóður. 10 Þjófurinn kemur ekki nema til þess að stela og slátra og eyða. Eg er kominn til þess að þeir hafi líf og hafi nægtir. 11 Eg er góði hirðirinn; góði hirðirinn gefur líf sitt út fyrir sauðina; 12 leiguliðinn og sá, sem ekki er hirðir og ekki á sauðina, sér úlfinn koma, og yfirgefur sauðina og flýr, — og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim — 13 af því að hann er leiguliði og honum er ekki ant um sauðina. 14 Eg er góði hirðirinn, og eg þekki mína, og mínir þekkja mig, 15 eins og faðirinn þekkir mig og eg þekki föðurinn; og eg gef út líf mitt fyrir sauðina. 16 Og eg hefi aðra sauði, sem ekki eru af þessu sauðabyrgi; þá byrjar mér og að leiða, og þeir munu heyra mína raust; og það mun verða ein hjörð, einn hirðir. 17 Fyrir því elskar faðirinn mig, að eg læt líf mitt, til þess að eg taki það aftur. 18 Enginn tekur það frá mér, heldur læt eg það sjálfviljuglega. Eg hefi vald til að láta það, og eg hefi vald til að taka það aftur. Þetta boðorð hefi eg meðtekið af föður mínum.

19 Enn varð ágreiningur meðal Gyðinganna vegna þessara orða. 20 Og margir þeirra sögðu: Hann hefir illan anda og er óður, hví hlýðið þér á hann? 21 Aðrir sögðu: Þetta eru ekki orð manns, sem haldinn er af illum anda; mun illur andi geta opnað augu blindra?

22 Nú kom vígsluhátíðin í Jerúsalem, og þá var vetur. 23 Og Jesús var á gangi í helgidóminum í súlnagöngum Salómons. 24 Þá flyktust Gyðingarnir að honum og sögðu við hann: Hversu lengi ætlar þú að halda sálum vorum í óvissu? Ef þú ert Kristur, þá seg oss það berlega. 25 Jesús svaraði þeim: Eg hefi sagt yður það, en þér trúið ekki. Verkin, sem eg gjöri í nafni föður míns, þau vitna um mig. 26 En þér trúið ekki, því að þér eruð ekki af mínum sauðum. 27 Mínir sauðir heyra raust mína, og eg þekki þá, og þeir fylgja mér, 28 og eg gef þeim eilíft líf, og þeir skulu aldrei að eilífu glatast, og enginn skal slíta þá úr hendi minni. 29 Faðir minn, sem hefir gefið mér þá, er öllum meiri, og enginn getur slitið þá úr hendi föðurins. 30 Eg og faðirinn erum eitt. 31 Enn tóku Gyðingarnir upp steina, til að grýta hann. 32 Jesús svaraði þeim: Mörg góðverk sýndi eg yður frá föðurnum; fyrir hvert af þessum verkum grýtið þér mig? 33 Gyðingarnir svöruðu honum: Fyrir gott verk grýtum vér þig ekki, heldur fyrir guðlast og fyrir það, að þú, sem ert maður, gjörir sjálfan þig að Guði. 34 Jesús svaraði þeim: Er ekki ritað í lögmáli yðar: Eg hefi sagt: Þér eruð guðir. 35 Ef hann kallar þá guði, sem Guðs orð kom til, og ritningin getur ekki raskast, 36 segið þér þá við þann, sem faðirinn helgaði og sendi í heiminn: Þú guðlastar! af því að eg sagði: Eg er sonur Guðs? 37 Ef eg gjöri ekki verk föður míns, þá trúið mér ekki. 38 En ef eg gjöri þau, þá trúið verkunum, þótt þér ekki trúið mér, til þess að þér vitið og komist að raun um, að faðirinn er í mér og eg í föðurnum. 39 Þá leituðust þeir aftur við að taka hann, en hann komst burt úr höndum þeirra.

40 Og hann fór aftur yfir um Jórdan til þess staðar, þar sem Jóhannes skírði fyrst, og dvaldist þar. 41 Og margir komu til hans, og þeir sögðu: Jóhannes gjörði að sönnu enga jartein, en alt það, sem Jóhannes sagði um hann, var satt. 42 Og þar trúðu margir á hann.


11

En maður nokkur var sjúkur, Lazarus frá Betaníu, úr þorpi Maríu og Mörtu systur hennar. 2 En María var sú, sem smurði drottin smyrslum og þerraði fætur hans með hári sínu, og það var bróðir hennar Lazarus, sem var sjúkur. 3 Sendu þær systur því til hans og létu segja honum: Herra, sjá, sá sem þú elskar, er sjúkur. 4 En er Jesús heyrði það, sagði hann: Þessi sótt er ekki til dauða, heldur vegna dýrðar Guðs, til þess að sonur Guðs vegsamist fyrir hana. 5 En Jesús elskaði þau Mörtu og systur hennar og Lazarus. 6 Þegar hann nú heyrði, að hann væri sjúkur, dvaldist hann þó tvo daga á þeim stað, þar sem hann var. 7 Síðan segir hann eftir þetta við lærisveinana: Förum aftur til Júdeu. 8 Lærisveinarnir segja við hann: Rabbí, nýlega ætluðu Gyðingarnir að grýta þig, og nú fer þú þangað aftur! 9 Jesús svaraði: Eru ekki tólf stundir í deginum? Ef einhver er á gangi að degi til, hrasar hann ekki, því að hann sér ljós þessa heims; 10 en ef hann er á gangi á næturþeli, hrasar hann, af því að ljósið er ekki í honum. 11 Þetta talaði hann, og eftir það segir hann við þá: Lazarus vinur vor er sofnaður, en eg fer nú að vekja hann. 12 Lærisveinarnir sögðu þá við hann: Herra, ef hann er sofnaður, þá mun honum batna. 13 En Jesús hafði talað um dauða hans, en þeir héldu að hann ætti við hvíld svefnsins; 14 því sagði Jesús þeim þá með berum orðum: Lazarus er dáinn; 15 og það gleður mig yðar vegna, að eg var þar ekki, til þess að þér skulið trúa. En förum nú til hans. 16 Þá sagði Tómas, sem kallaður er Dídymos, við samlærisveina sína: Vér skulum og fara, til þess að vér deyjum með honum.

17 En er Jesús nú kom, varð hann þess vís, að hann hafði þegar legið fjóra daga í gröfinni. 18 En Betanía var nálægt Jerúsalem, hér um bil fimtán skeiðrúm þaðan. 19 En margir af Gyðingum voru komnir til Mörtu og Maríu, til þess að hugga þær eftir bróðurinn. 20 Þegar Marta nú heyrði, að Jesús kæmi, gekk hún á móti honum, en María sat heima. 21 Marta sagði þá við Jesúm: Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn. 22 Einnig nú veit eg, að hvað sem þú biður Guð um, það mun Guð veita þér. 23 Jesús segir við hana: Bróðir þinn mun upp rísa. 24 Marta segir við hann: Eg veit, að hann mun upp rísa í upprisunni á efsta degi. 25 Jesús sagði við hana: Eg er upprisan og lífið; sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. 26 Og hver sá sem lifir og trúir á mig, hann skal aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu? 27 Hún segir við hann: Já, herra, eg hefi trúað, að þú ert Kristur, sonur Guðs, sem kemur í heiminn. 28 Og er hún hafði þetta mælt, fór hún burt og kallaði á systur sína Maríu, og sagði einslega: Meistarinn er hér og vill finna þig. 29 En hún stóð skjótt upp, er hún heyrði þetta, og fór til hans. 30 En Jesús var enn ekki kominn til þorpsins, heldur var hann enn á þeim stað, þar sem Marta hafði mætt honum. 31 Þegar nú Gyðingarnir, sem voru hjá Maríu í húsinu og voru að hugga hana, sáu að hún stóð upp og gekk út í skyndi, fóru þeir eftir henni og hugðu, að hún færi til grafarinnar, til að gráta þar. 32 En er María nú kom þangað sem Jesús var, og sá hann, féll hún honum til fóta og sagði við hann: Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn. 33 Þegar nú Jesús sá hana gráta og Gyðingana gráta, sem með henni höfðu komið, hrygðist hann í andanum og komst sjálfur við og sagði: 34 Hvar hafið þér lagt hann? Þeir segja við hann: Herra, kom þú og sjá. 35 Jesús táraðist. 36 Þá sögðu Gyðingarnir: Sjá, hve hann hefir elskað hann. 37 En nokkurir þeirra sögðu: Gat ekki þessi maður, sem opnaði augu hins blinda, einnig séð svo um, að þessi maður skyldi ekki deyja? 38 Jesús hrygðist þá aftur með sjálfum sér og kemur til grafarinnar; en hún var hellir og lá steinn fyrir honum. 39 Jesús sagði: Takið steininn burt. Marta, systir hins framliðna, segir við hann: Herra, það er nú þegar komin nálykt af honum, því að hann hefir legið þar fjóra daga. 40 Jesús segir við hana: Sagði eg þér ekki, að ef þú tryðir, mundir þú sjá dýrð Guðs? 41 Þeir tóku þá steininn burt, en Jesús hóf upp augu sín og mælti: Faðir, eg þakka þér, að þú hefir heyrt mig. 42 Eg vissi að sönnu, að þú ávalt heyrir mig, en vegna mannfjöldans, sem stendur hér umhverfis, sagði eg það, til þess að þeir skuli trúa, að þú hafir sent mig. 43 Og er hann hafði þetta mælt, kallaði hann hárri röddu: Lazarus, kom þú út! 44 Og hinn dáni kom út, bundinn líkblæjum á fótum og höndum, og fyrir andlit hans var bundinn sveitadúkur. Jesús segir við þá: Leysið hann og látið hann fara.

45 Margir af Gyðingunum, sem komnir voru til Maríu og höfðu séð það sem hann gjörði, trúðu á hann. 46 En nokkurir þeirra fóru til Faríseanna og sögðu þeim, hvað Jesús hefði gjört.

47 Æðstu prestarnir og Farísearnir söfnuðu því ráðinu saman og sögðu: Hvað eigum vér að gjöra? Því að þessi maður gjörir margar jarteinir. 48 Ef vér látum hann nú afskiftalausan, munu allir trúa á hann, og svo munu Rómverjar koma og taka bæði land vort og þjóð. 49 En einn af þeim, Kaífas, sem það ár var æðsti prestur, sagði við þá: 50 Þér vitið alls ekkert og hugleiðið ekki heldur, að yður er gagnlegra, að einn maður deyi fyrir lýðinn, en að öll þjóðin fyrirfarist. 51 En þetta talaði hann ekki af sjálfum sér, heldur spáði hann, með því að hann var æðsti prestur það ár, að Jesús ætti að deyja fyrir þjóðina, 52 og ekki einungis fyrir þjóðina, heldur til þess að hann einnig safnaði í eina heild hinum sundur dreifðu börnum Guðs. 53 Upp frá þeim degi ráðguðust þeir því um að lífláta hann.

54 Jesús gekk því ekki framar berlega um meðal Gyðinganna, heldur fór hann burt þaðan út á landsbygðina nálægt eyðimörkinni, til bæjar, sem heitir Efraím, og þar dvaldist hann ásamt lærisveinunum. 55 En páskar Gyðinga voru í nánd. Og margir fóru úr landsbygðinni upp til Jerúsalem fyrir páskana, til að hreinsa sig. 56 Þeir leituðu þá að Jesú, og sögðu hver við annan, þar sem þeir stóðu í helgidóminum: Hvað virðist yður? Ætli hann komi alls ekki til hátíðarinnar? 57 En æðstu prestarnir og Farísearnir höfðu gefið þá skipun, að ef nokkur vissi, hvar hann væri, skyldi hann segja til, svo að þeir gætu handtekið hann.


12

Sex dögum fyrir páska kom Jesús þá til Betaníu, þar sem Lazarus var, sem Jesús hafði vakið upp frá dauðum. 2 Þá gjörðu menn honum þar kvöldverð, og Marta gekk um beina, en Lazarus var einn af þeim, sem sátu til borðs með honum. 3 Þá tók María pund af ómenguðum og dýrum nardus-smyrslum og smurði fætur Jesú, og þerraði með hári sínu fætur hans, en húsið fyltist af ilm smyrslanna. 4 Þá segir Júdas Ískaríot, einn af lærisveinum hans, sem síðar varð til þess að svíkja hann: 5 Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum? 6 En þetta sagði hann ekki af því, að honum væri ant um fátæka, heldur af því að hann var þjófur; og með því að hann hafði pyngjuna, tók hann það sem í hana var látið. 7 Þá sagði Jesús: Lát hana í friði; hún hefir geymt þetta til greftrunardags míns; 8 því að fátæka hafið þér ávalt hjá yður, en mig hafið þér ekki ávalt.

9 Nú komst almenningur meðal Gyðinga að því, að hann væri þar, og þeir komu ekki aðeins vegna Jesú, heldur og til að sjá Lazarus, sem hann hafði vakið upp frá dauðum. 10 En æðstu prestarnir ráðguðust um að deyða einnig Lazarus; 11 því að hans vegna fóru margir Gyðingar og trúðu á Jesúm.

12 Daginn eftir, þegar hinn mikli fjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, heyrði, að Jesús væri að koma til Jerúsalem, 13 tóku þeir pálmaviðargreinar og gengu út til móts við hann, og þeir hrópuðu: Hósanna, blessaður sé sá, sem kemur í nafni drottins, Ísraelskonungurinn! 14 En Jesús fékk sér ungan asna og settist upp á hann, eins og ritað er: 15 Óttast ekki, dóttir Síon! sjá, konungur þinn kemur ríðandi á ösnufola. 16 Þetta skildu ekki lærisveinar hans í fyrstu; en þegar Jesús var dýrðlegur orðinn, mintust þeir þess, að þetta var ritað um hann, og að þeir höfðu gjört þetta honum til handa. 17 En fólkið, sem var með honum, er hann kallaði Lazarus út úr gröfinni og uppvakti hann frá dauðum, vitnaði nú. 18 Þess vegna gekk og múgurinn á móti honum, því að menn höfðu heyrt, að hann hefði gjört þessa jartein. 19 Þá sögðu Farísearnir sín á milli: Þér sjáið, að þér komið engu til vegar. Sjá, allur heimur eltir hann.

20 En meðal þeirra, sem fóru upp til þess að tilbiðja á hátíðinni, voru nokkurir Grikkir. 21 Þeir gengu þá til Filippusar frá Betsaída í Galíleu, og báðu hann og sögðu: Herra, oss langar til að sjá Jesúm. 22 Filippus kemur og segir Andrési. Andrés og Filippus koma og segja Jesú. 23 En Jesús svarar þeim og segir: Stundin er komin, að mannsins sonur verði dýrðlegur. 24 Sannlega, sannlega segi eg yður: Deyi ekki hveitikornið kornið, sem fellur í jörðina, verður það einsamalt, en deyi það, ber það mikinn ávöxt. 25 Sá sem elskar líf sitt, glatar því, og sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs. 26 Hver sem þjónar mér, fylgi mér eftir, og hvar sem eg er, þar skal og þjónn minn vera; hvern sem mér þjónar, hann mun faðirinn heiðra. 27 Nú er sál mín skelfd, og hvað á eg að segja? Faðir, frelsa þú mig frá þessari stundu? En vegna þessa er eg kominn að þessari stundu. 28 Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt. 28 Þá kom rödd af himni: Bæði hefi eg gjört það dýrlegt og mun aftur gjöra það dýrlegt. 29 En fólkið, sem stóð þar og heyrði, sagði þá, að þruma hefði komið. Aðrir sögðu: Engill talaði við hann. 30 Jesús svaraði og sagði: Ekki mín, heldur yðar vegna kom rödd þessi. 31 Nú gengur dómur yfir heim þennan, nú skal höfðingja þessa heims kastað út. 32 Og eg mun, er eg verð hafinn frá jörðu, draga alla til mín. 33 En þetta sagði hann, til þess að tákna, með hvaða dauðdaga hann mundi deyja. 34 Mannfjöldinn svaraði honum þá: Vér höfum heyrt í lögmálinu, að Kristur verði til eilífðar, og hvernig segir þú þá: Mannsins sonur á að verða hafinn upp? Hver er þessi mannsins sonur? 35 Þá sagði Jesús við þá: Stutta stund er ljósið enn á meðal yðar; gangið meðan þér hafið ljósið, til þess að myrkrið komi ekki yfir yður; og sá sem gengur í myrkrinu, veit ekki hvert hann fer. 36 Meðan þér hafið ljósið, þá trúið á ljósið, til þess að þér verðið ljóssins synir. Þetta talaði Jesús og fór burt og fól sig fyrir þeim.

37 En þótt hann hefði gjört svo margar jarteinir í augsýn þeirra, trúðu þeir þó ekki á hann; 38 til þess að rættist orð Jesaja spámanns, sem hann hafði talað: Drottinn, hver trúði því, sem hann heyrði hjá oss? og hverjum opinberaðist armleggur drottins? 39 Þess vegna gátu þeir ekki trúað, því að Jesaja hefir sagt á öðrum stað: 40 Hann hefir blindað augu þeirra og forhert hjörtu þeirra, til þess að þeir ekki sjái með augunum og skilji með hjartanu og snúi sér, og eg lækni þá. 41 Þetta sagði Jesaja, af því að hann sá dýrð hans og talaði um hann. 42 En þó trúðu einnig margir af höfðingjunum á hann, en vegna Faríseanna játuðu þeir ekki, til þess að þeir yrðu ekki samkundurækir; 43 því að þeir elskuðu lofstír manna meir en Guðs dýrð.

44 En Jesús kallaði og sagði: Sá sem trúir á mig, hann trúir ekki á mig, heldur á þann sem sendi mig; 45 og sá sem sér mig, sér þann sem sendi mig. 46 Eg er ljós í heiminn komið, til þess að hver sem á mig trúir, sé ekki í myrkrinu; 47 og ef einhver heyrir orð mín og gætir þeirra ekki, þá dæmi eg hann ekki, því að eg er ekki kominn til að dæma heiminn, heldur til þess að frelsa heiminn. 48 Sá sem hafnar mér og meðtekur ekki orð mín, hefir þann sem dæmir hann; orðið, sem eg hefi talað, það mun dæma hann á efsta degi. 49 Því að eg hefi ekki talað af sjálfum mér, heldur hefir faðirinn, sem sendi mig, sjálfur gefið mér boðorð, hvað eg skuli segja og hvað eg skuli tala. 50 Og eg veit, að boðorð hans er eilíft líf; það sem eg því tala, það tala eg eins og faðirinn hefir sagt mér.


13

En fyrir páskahátíðina — Jesús, sem vissi, að stund hans var komin, að hann færi burt úr heimi þessum til föðurins, og hafði elskað sína, þá er í heiminum voru, elskaði þá alt til enda. 2 Og er kveldmáltíðin stóð yfir — en djöfullinn hafði þegar skotið því í brjóst Júdasi Símonarsyni Ískaríot, að svíkja hann, 3 og þó að Jesús vissi, að faðirinn hefði selt honum í hendur alla hluti og að hann var útgenginn frá Guði og fór til Guðs, 4 stendur hann upp frá máltíðinni og leggur af sér yfirhöfnina, og hann tók líndúk og gyrti sig. 5 Eftir það hellir hann vatni í mundlaug, og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúk þeim, er hann var gyrtur. 6 Kemur hann þá til Símonar Péturs. Hann segir við hann: Herra, þvær þú fætur mína? 7 Jesús svaraði og sagði við hann: Nú skilur þú ekki það sem eg gjöri, en seinna munt þú skilja það. 8 Pétur segir við hann: Aldrei til eilífðar skalt þú þvo fætur mína. Jesús svaraði honum: Ef eg ekki þvæ þig, hefir þú ekki hlut með mér. 9 Símon Pétur segir við hann: Herra, þá ekki einungis fætur mína, heldur einnig hendurnar og höfuðið. 10 Jesús segir við hann: Sá sem þveginn er, þarf ekki að þvost nema á fótum, heldur er hann allur hreinn, og þér eruð hreinir, en ekki allir; 11 því að hann þekti þann, sem varð til þess að svíkja hann; fyrir því sagði hann: Þér eruð ekki allir hreinir.

12 Þegar hann nú hafði þvegið fætur þeirra og tekið yfirhöfn sína og sezt aftur, sagði hann við þá: Skiljið þér, hvað eg hefi gjört við yður? 13 Þér kallið mig: »meistari!« og »herra!« og þér mælið rétt, því að eg er það. 14 Ef þá eg, herrann og meistarinn, hefi þvegið fætur yðar, ber einnig yður að þvo hver annars fætur; 15 því að eg hefi gefið yður eftirdæmi, til þess að þér breytið eins og eg breytti við yður. 16 Sannlega, sannlega segi eg yður: ekki er þjónn meiri en húsbóndi hans; ekki er heldur postuli meiri en sá er sendi hann. 17 Ef þér skiljið þetta, eruð þér sælir, ef þér breytið eftir því. 18 Eg tala ekki um yður alla; eg þekki þá, sem eg hefi útvalið, en til þess að ritningin rætist: Sá sem brauð mitt etur, hefir lyft upp hæl sínum á móti mér. 19 Héðan af segi eg yður það, áður en það kemur fram, til þess að þér trúið, þegar það er komið fram, að eg er það. 20 Sannlega, sannlega segi eg yður: hver sem meðtekur þann er eg sendi, sá meðtekur mig, en sá sem meðtekur mig, meðtekur hann sem sendi mig.

21 En er Jesús hafði þetta mælt, hrærðist hann í andanum og vitnaði og sagði: Sannlega, sannlega segi eg yður, að einn af yður mun svíkja mig. 22 Þá litu lærisveinarnir hver á annan og voru í óvissu, um hvern hann talaði. 23 Þar var einn af lærisveinum hans, sem sat til borðs í faðmi Jesú, sá sem Jesús elskaði. 24 Símon Pétur gefur honum nú bendingu og segir við hann: Seg þú hver sá er, sem hann talar um? 25 Og er hinn þannig hallaði sér upp að brjósti Jesú, segir hann við hann: Herra, hver er það? 26 Þá svaraði Jesús: Hann er það, sem eg gef bita þann, sem eg nú dýfi í. Er hann nú hafði dyfið í, tekur hann bitann og réttir Júdasi Símonarsyni Ískaríot. 27 Og eftir að hann hafði fengið bitann, fór Satan inn í hann. Þá segir Jesús við hann: Það sem þú gjörir, það gjör þú skjótt. 28 En enginn þeirra, sem til borðsins sátu, vissi í hverju skyni hann sagði þetta við hann; 29 því sumir héldu, af því að Júdas hafði pyngjuna, að Jesús hefði sagt honum: Kaup þú það, sem vér þurfum til hátíðarinnar, eða að hann skyldi gefa eitthvað fátækum. 30 Þegar hann nú hafði tekið við bitanum, gekk hann þegar út; en þá var nótt.

31 Þegar hann nú var genginn út, segir Jesús: Nú er mannsins sonur dýrðlegur orðinn og Guð er orðinn dýrðlegur í honum, 32 og Guð mun gjöra hann dýrðlegan í sér, og mun hann brátt gjöra hann dýrðlegan. 33 Börnin mín, skamma stund er eg enn þá hjá yður; þér munuð leita mín; og eins og eg sagði við Gyðingana: Þangað sem eg fer, getið þér ekki komist, það segi eg nú við yður. 34 Nýtt boðorð gef eg yður, að þér elskið hver annan; eins og eg hefi elskað yður, að þér einnig elskið hver annan. 35 Af því skulu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.

36 Símon Pétur segir við hann: Herra, hvert fer þú? Jesús svaraði: Þangað sem eg fer, getur þú ekki fylgt mér nú, en seinna munt þú fylgja mér. 37 Pétur segir við hann: Herra, hvers vegna get eg ekki fylgt þér nú þegar? Eg vil leggja líf mitt í sölurnar fyrir þig. 38 Jesús svarar: Vilt þú leggja líf þitt í sölurnar fyrir mig? Sannlega, sannlega segi eg þér: ekki mun haninn gala, fyr en þú hefir afneitað mér þrisvar.


14

Hjarta yðar skelfist ekki; trúið á Guð og trúið á mig. 2 Í húsi föður míns eru mörg híbýli; væri ekki svo, hefði eg sagt yður það. Því eg fer burt að búa yður stað; 3 og þegar eg er farinn burt, og hefi búið yður stað, kem eg aftur og mun taka yður til sjálfs mín, til þess að þér séuð og þar sem eg er. 4 Og þér þekkið veginn þangað sem eg fer. 5 Tómas segir við hann: Herra, vér vitum ekki hvert þú fer; hvernig skyldum vér þá þekkja veginn? 6 Jesús segir við hann: Eg er vegurinn og sannleikurinn og lífið; enginn kemur til föðurins nema fyrir mig. 7 Ef þér hefðuð þekt mig, hefðuð þér og þekt föður minn, og héðan í frá þekkið þér hann og hafið séð hann. 8 Filippus segir við hann: Herra, sýn þú oss föðurinn, og þá nægir oss. 9 Jesús segir við hann: Svo langa stund hefi eg með yður verið, og þú, Filippus, þekkir mig ekki? Sá sem hefir séð mig, hefir séð föðurinn; hvernig segir þú: Sýn þú oss föðurinn? 10 Trúir þú ekki, að eg er í föðurnum og faðirinn í mér? Þau orð, sem eg tala til yðar, þau tala eg ekki af sjálfum mér; en faðirinn, sem í mér er, hann gjörir verk sín. 11 Trúið mér, að eg er í föðurnum og faðirinn í mér; en ef ekki, þá trúið mér vegna sjálfra verkanna. 12 Sannlega, sannlega segi eg yður: sá sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk, sem eg gjöri; og hann mun gjöra meiri verk en þessi, af því að eg fer til föðurins; 13 og hvað sem þér biðjið um í mínu nafni, það mun eg gjöra, til þess að faðirinn vegsamist í syninum. 14 Ef þér biðjið einhvers í mínu nafni, mun eg gjöra það. 15 Ef þér elskið mig, þá munuð þér halda boðorð mín. 16 Og eg mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan huggara, til þess að hann sé hjá yður eilíflega, 17 anda sannleikans, hann, sem heimurinn getur ekki meðtekið, af því að hann sér hann ekki og þekkir hann ekki heldur; þér þekkið hann, af því að hann dvelur hjá yður og mun vera í yður. 18 Ekki mun eg skilja yður eftir munaðarlausa. Eg kem til yðar. 19 Innan skamms — og heimurinn mun ekki sjá mig framar, en þér munuð sjá mig, því að eg lifi og þér munuð lifa. 20 Á þeim degi munuð þér komast að raun um, að eg er í föður mínum, og þér í mér, og eg í yður. 21 Sá sem hefir mín boðorð og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun verða elskaður af föður mínum, og eg mun elska hann og sjálfur birtast honum. 22 Júdas — ekki Júdas Ískaríot —, segir við hann: Herra, hvernig stendur á því, að þú vilt sjálfur birtast oss og ekki heiminum? 23 Jesús svaraði og sagði við hann: Hver sem elskar mig, mun varðveita mitt orð, og faðir minn mun elska hann, og til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum. 24 Sá sem ekki elskar mig, hann varðveitir ekki mín orð, og það orð, sem þér heyrið, er ekki mitt, heldur föðurins, sem sendi mig.

25 Þetta hefi eg talað við yður, meðan ég var hjá yður, 26 en huggarinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, hann mun kenna yður alt, og minna yður á alt, sem eg hefi sagt yður. 27 Frið læt eg eftir hjá yður, minn frið gef eg yður, ekki eins og heimurinn gefur, gef eg yður. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. 28 Þér heyrðuð, að eg sagði við yður: Eg fer burt og kem til yðar; ef þér elskuðuð mig, þá munduð þér hafa glaðst af því, að eg fer til föðurins; því að faðirinn er mér meiri. 29 Og nú hefi eg sagt yður það, áður en það kemur fram, til þess að þér trúið, þegar það er komið fram. 30 Eg mun ekki framar tala margt við yður, því að höfðingi heimsins kemur, og í mér á hann alls ekkert. 31 En til þess að heimurinn viti, að eg elska föðurinn, og að eg gjöri eins og faðirinn hefir boðið mér, þá standið upp, förum héðan.


15

Eg er hinn sanni vínviður, og faðir minn er vínyrkinn. 2 Sérhverja grein á mér, er ekki ber ávöxt, sníður hann af, og sérhverja þá, sem ber ávöxt, hreinsar hann, til þess að hún beri meiri ávöxt. 3 Þér eruð þegar hreinir vegna orðsins, sem eg hefi talað til yðar. 4 Verið í mér, þá verð eg líka í yður. Eins og greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér, nema hún sé á vínviðinum, þannig ekki heldur þér, nema þér séuð í mér. 5 Eg er vínviðurinn, þér eruð greinarnar; sá sem er í mér og eg í honum, hann ber mikinn ávöxt, því að án mín getið þér alls ekkert gjört. 6 Hver sem ekki er í mér, honum verður snarað út eins og greininni, og hann visnar og menn safna því saman og kasta því á eld og það brennur. 7 Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið, og það mun veitast yður. 8 Með þessu vegsamast faðir minn, að þér berið mikinn ávöxt, og þér munuð verða mínir lærisveinar. 9 Eins og faðirinn hefir elskað mig, eins hefi eg elskað yður; verið í elsku minni. 10 Ef þér haldið mín boðorð, þá munuð þér vera í elsku minni, eins og eg hefi haldið boðorð föður míns og er í elsku hans. 11 Þetta hefi eg talað til yðar, til þess að fögnuður minn sé hjá yður og fögnuður yðar fullkomnist. 12 Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og eg hefi elskað yður. 13 Meiri elsku hefir enginn en þá, að hann lætur líf sitt fyrir vini sína. 14 Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það sem eg býð yður. 15 Eg kalla yður ekki framar þjóna, því að þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir, en eg hefi kallað yður vini, því að eg hefi kunngjört yður alt það, sem eg hefi heyrt hjá föður mínum. 16 Ekki hafið þér útvalið mig, heldur hefi eg útvalið yður og sett yður, til þess að þér farið og berið ávöxt, og ávöxtur yðar vari við, til þess að hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, það veiti hann yður. 17 Þetta býð eg yður, að þér elskið hver annan. 18 Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefir hatað mig fyrri en yður. 19 Ef þér væruð af heiminum, þá mundi heimurinn láta sér þykja vænt um sitt eigið; en af því að þér eruð ekki af heiminum, en eg hefi útvalið yður af heiminum, vegna þess hatar heimurinn yður. 20 Minnist orðsins, sem eg sagði yður: Ekki er þjónn meiri en húsbóndi hans. Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður; hafi þeir varðveitt mitt orð, munu þeir og varðveita yðar. 21 En alt þetta munu þeir gjöra við yður vegna nafns míns, af því að þeir þekkja ekki þann, sem sendi mig. 22 Hefði eg ekki komið og talað til þeirra, þá hefðu þeir ekki synd, en nú hafa þeir enga afsökun synd sinni. 23 Sá sem hatar mig, sá hatar og föður minn. 24 Ef eg hefði eigi gjört þau verk á meðal þeirra, sem enginn annar hefir gjört, þá hefðu þeir ekki synd; en nú hafa þeir bæði séð þau og hatað bæði mig og föður minn. 25 En það er til þess að rætist orðið, sem ritað er í lögmáli þeirra: Þeir hötuðu mig án saka. 26 En þegar huggarinn kemur, sem eg mun senda yður frá föðurnum, andi sannleikans, sem útgengur frá föðurnum, hann mun vitna um mig; 27 en þér skuluð og vitna, því að þér hafið frá upphafi með mér verið.


16

Þetta hefi eg talað til yðar, til þess að þér hneyksluðust ekki. 2 þeir munu gjöra yður samkunduræka, já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður, mun þykjast veita Guði þjónustu; 3 og þetta munu þeir gjöra, af því að þeir þektu hvorki föðurinn né mig. 4 En þetta hefi eg talað til yðar, til þess að þér, þegar sú stund kemur, minnist þess, að eg hefi sagt yður það. En eg hefi ekki sagt yður þetta frá upphafi, af því að eg var með yður. 5 En nú fer eg burt til hans, sem sendi mig, og enginn yðar spyr mig: Hvert fer þú? 6 heldur hefir hrygð fylt hjarta yðar, af því að eg hefi talað þetta við yður. 7 En eg segi yður sannleikann: það er yður til góðs, að eg fari burt; því að fari eg ekki burt, mun huggarinn ekki koma til yðar, en þegar eg er farinn, mun eg senda hann til yðar. 8 Og þegar hann kemur, mun hann sannfæra heiminn um synd og um réttlæti og um dóm: 9 um synd, af því að þeir trúa ekki á mig; 10 en um réttlæti, af því að eg fer burt til föðurins og þér sjáið mig ekki lengur; 11 en um dóm, af því að höfðingi þessa heims er dæmdur. 12 Eg hefi enn margt að segja yður, en þér getið ekki borið það að sinni; 13 en þegar hann, andi sannleikans, kemur, mun hann leiða yður inn í allan sannleikann, því að hann mun ekki tala af sjálfum sér, heldur mun hann tala alt það, sem hann heyrir, og það sem koma á, mun hann kunngjöra yður. 14 Hann mun vegsama mig, því að af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. 15 Alt það, sem faðirinn hefir, er mitt; fyrir því sagði eg, að hann taki af mínu og kunngjöri yður. 16 Innan skamms — og þér sjáið mig ekki, og aftur innan skamms — og þér munuð sjá mig! 17 Þá sögðu nokkurir af lærisveinum hans hver við annan: Hvað er þetta, sem hann segir við oss: »Innan skamms — og þér sjáið mig ekki, og aftur innan skamms — og þér munuð sjá mig!« og: »Eg fer til föðurins«? 18 Þeir sögðu því: Hvað er þetta sem hann segir: »Innan skamms«? vér skiljum ekki hvað hann talar. 19 Jesús varð þess var, að þeir vildu spyrja hann, og sagði við þá: Þér spyrjist á um það, að eg sagði: Innan skamms — og þér sjáið mig ekki, og aftur innan skamms — og þér munuð sjá mig. 20 Sannlega, sannlega segi eg yður: þér munuð gráta og kveina, en heimurinn mun fagna; þér munuð verða hryggir, en hrygð yðar mun snúast í fögnuð. 21 Þegar konan elur barn, hefir hún hrygð, því að stund hennar er komin; en þegar hún hefir alið barnið, minnist hún ekki framar þjáningarinnar vegna gleðinnar yfir því, að maður er í heiminn borinn; 22 einnig þér hafið nú að sönnu hrygð, en eg mun sjá yður aftur, og hjarta yðar mun fagna, og enginn tekur fögnuð yðar frá yður. 23 Og á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi eg yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um, það mun hann veita yður í mínu nafni. 24 Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni; biðjið, og þér munuð öðlast, til þess að fögnuður yðar verði fullkominn.

25 Þetta hefi eg talað til yðar í líkingum; sú stund kemur, að eg mun ekki lengur tala við yður í líkingum, heldur mun eg berlega segja yður frá föðurnum; 26 á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Og ekki segi eg yður, að eg muni biðja föðurinn fyrir yður; 27 því að faðirinn sjálfur elskar yður, af því að þér hafið elskað mig og hafið trúað, að eg sé útgenginn frá föðurnum. 28 Eg útgekk frá föðurnum og er kominn í heiminn; eg yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins.

29 Lærisveinar hans segja: Sjá, nú talar þú berlega og mælir enga líkingu. 30 Nú vitum vér, að þú veizt alt og þarft þess ekki, að nokkur spyrji þig; þess vegna trúum vér, að þú sért frá Guði kominn, 31 Jesús svaraði þeim: Trúið þér nú? 32 Sjá, sú stund kemur og er þegar komin, að þér tvístrist hver til sín og skiljið mig eftir einan; en eg er ekki einn, því að faðirinn er með mér. 33 Þetta hefi eg talað til yðar, til þess að þér hafið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging, en verið hughraustir, eg hefi sigrað heiminn.


17

Þetta talaði Jesús, hóf augu sín til himins og sagði: Faðir, stundin er komin; gjör son þinn dýrðlegan, til þess að sonurinn gjöri þig dýrðlegan, 2 eins og þú hefir gefið honum vald yfir öllu holdi, til þess að hann gefi öllum, sem þú gafst honum, eilíft líf. 3 En þetta er hið eilífa líf, að þeir þekki þig einn sannan Guð og þann sem þú sendir, Jesúm Krist. 4 Eg hefi gjört þig dýrðlegan á jörðunni, með því að fullkomna það verk, sem þú fékst mér að vinna; 5 og nú, gjör þú mig dýrðlegan, faðir, hjá sjálfum þér með þeirri dýrð, sem eg hafði hjá þér áður en heimurinn var. 6 Eg hefi opinberað nafn þitt þeim mönnum, sem þú gafst mér af heiminum; þeir voru þínir og þú gafst mér þá; og þeir hafa varðveitt þitt orð. 7 Nú vita þeir, að alt, sem þú hefir gefið mér, er frá þér, 8 því að orðin, er þú gafst mér, hefi eg gefið þeim; og þeir hafa meðtekið þau og með sanni komist að raun um, að eg er kominn frá þér, og hafa trúað, að þú hafir sent mig. 9 Eg bið fyrir þeim; fyrir heiminum bið eg ekki, heldur fyrir þeim, sem þú gafst mér, af því að þeir eru þínir; 10 og alt mitt er þitt, og þitt er mitt, og eg er orðinn dýrðlegur í þeim. 11 Eg er ekki lengur í heiminum, en þeir eru í heiminum, og eg kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, er þú hefir gefið mér, til þess að þeir séu eitt eins og við. 12 Þegar eg var hjá þeim, varðveitti eg þá í þínu nafni, sem þú hefir gefið mér; og eg gætti þeirra, og enginn þeirra týndist, nema glötunar-sonurinn, til þess að ritningin skyldi rætast. 13 En nú kem eg til þín; og þetta tala eg í heiminum, til þess að þeir hafi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn. 14 Eg hefi gefið þeim orð þitt, og heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og eg er ekki af heiminum. 15 Ekki bið eg, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá illu. 16 Þeir eru ekki af heiminum, eins og eg er ekki af heiminum. 17 Helga þú þá í sannleikanum; þitt orð er sannleikur. 18 Eins og þú hefir sent mig til heimsins, hefi eg líka sent þá til heimsins; 19 og þeirra vegna helga eg sjálfan mig, til þess að þeir einnig skuli vera helgaðir í sannleika. 20 En eg bið ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim sem trúa á mig fyrir orð þeirra; 21 til þess að þeir séu allir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og eg í þér, til þess að þeir og séu í okkur; til þess að heimurinn skuli trúa að þú hafir sent mig. 22 Og dýrðina, sem þú hefir gefið mér, hefi eg gefið þeim, til þess að þeir séu eitt, eins og við erum eitt, 23 og í þeim og þú í mér, til þess að þeir skuli vera fullkomlega sameinaðir; til þess að heimurinn skuli komast að raun um, að þú hefir sent mig, og að þú hefir elskað þá, eins og þú hefir elskað mig. 24 Faðir, eg vil, að þar sem eg er, skuli einnig þeir, sem þú hefir gefið mér, vera hjá mér, til þess að þeir skuli sjá dýrð mína, sem þú hefir gefið mér; því að þú hefir elskað mig áður en veröldin var grundvölluð. 25 Réttláti faðir, og heimurinn þekti þig ekki, en eg þekti þig, og þessir hafa komist að raun um, að þú hafir sent mig. 26 Eg hefi kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra, til þess að kærleikurinn, sem þú hefir elskað mig með, sé í þeim og eg í þeim.


18

Að svo mæltu gekk Jesús út með lærisveinum sínum yfir um lækinn Kedron. Þar var grasgarður; inn í hann gekk hann sjálfur og lærisveinar hans. 2 En Júdas, sem sveik hann, þekti og staðinn, því að Jesús hafði oftlega komið þar saman ásamt lærisveinum sínum. 3 Þá tók Júdas hersveitina með sér og þjóna frá æðstu prestunum og Faríseunum, og kemur þangað með blysum og lömpum og vopnum. 4 Þá gekk Jesús, sem vissi alt, sem yfir hann mundi koma, fram og segir við þá: Að hverjum leitið þér? 5 Þeir svöruðu honum: Að Jesú frá Nazaret. Jesús segir við þá: Eg er hann. En hjá þeim stóð einnig Júdas, sem sveik hann. 6 Þegar hann nú sagði við þá: Eg er hann, hopuðu þeir á hæl og féllu til jarðar. 7 Þá spurði hann þá aftur: Að hverjum leitið þér? En þeir sögðu: Að Jesú frá Nazaret. 8 Jesús svaraði: Eg sagði yður, að eg væri hann; ef þér því leitið að mér, þá látið þessa fara; 9 til þess að rættist orðið, sem hann sagði: Eigi glataði eg neinum af þeim, sem þú hefir gefið mér. 10 Símon Pétur, sem hafði sverð, brá því nú, hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum hægra eyrað, en nafn þjónsins var Malkus. 11 Jesús sagði þá við Pétur: Sting sverðinu í slíðrin. Ætti eg ekki að drekka bikarinn, sem faðirinn hefir gefið mér?

12 Hersveitin, sveitarforinginn og þjónar Gyðinganna handtóku nú Jesúm og bundu hann, 13 og færðu hann fyrst til Annasar, því að hann var tengdafaðir Kaífasar, sem það árið var æðsti prestur. 14 En Kaífas var sá, sem gefið hafði Gyðingunum það ráð, að gagnlegt væri, að einn maður dæi fyrir lýðinn.

15 En Símon Pétur fylgdi Jesú og annar lærisveinn, en sá lærisveinn var kunnugur æðsta prestinum, og hann gekk inn með Jesú í höll æðsta prestsins, 16 en Pétur stóð fyrir utan við dyrnar. Þá gekk út hinn lærisveinninn, sem kunnugur var æðsta prestinum, talaði við dyravörðinn og leiddi Pétur inn. 17 Þernan, sem gætti dyranna, segir þá við Pétur: Ert þú ekki líka einn af lærisveinum þessa manns? Hann segir: Ekki er eg það. 18 En þjónarnir og sveinarnir stóðu þar við kolaeld, sem þeir höfðu kveikt, því að kalt var, og vermdu sig; en Pétur stóð og hjá þeim og vermdi sig.

19 Þá spurði æðsti presturinn Jesúm um lærisveina hans og um kenningu hans. 20 Jesús svaraði honum: Eg hefi talað opinberlega fyrir heiminum; eg hefi ávalt kent í samkundum og í helgidóminum, þar sem allir Gyðingar koma saman, og ekkert hefi eg talað í leyni; 21 hví spyr þú mig? Spyr þú þá sem heyrt hafa, hvað eg hafi talað við þá; sjá, þeir vita, hvað eg hefi sagt. 22 En er hann sagði þetta, gaf einn af þjónunum, sem hjá stóð, Jesú kinnhest og sagði: Svarar þú svona æðsta prestinum? 23 Jesús svaraði honum: Hafi eg illa mælt, þá sanna þú, að það hafi verið ilt, en hafi eg talað rétt, hví slær þú mig? 24 Annas sendi hann nú bundinn til Kaífasar æðsta prests.

25 En Símon Pétur stóð og vermdi sig. Menn sögðu þá við hann: Ert þú ekki líka einn af lærisveinum hans? Hann neitaði og sagði: Ekki er eg það. 26 Einn af þjónum æðsta prestsins, sem var frændi þess, er Pétur sneið af eyrað, segir þá: Sá eg þig ekki í grasgarðinum með honum? 27 Þá neitaði Pétur aftur, og jafnskjótt gól haninn.

28 Nú færa þeir Jesúm frá Kaífasi til hallar landshöfðingjans, en það var snemma morguns, og þeir gengu ekki sjálfir inn í höllina, til þess að þeir saurguðust ekki, heldur mættu neyta páskalambsins. 29 Pílatus gekk því út til þeirra og segir: Hverja ákæru færið þér gegn þessum manni? 30 Þeir svöruðu og sögðu við hann: Væri hann ekki illræðismaður, þá hefðum vér ekki framselt þér hann. 31 Pílatus sagði þá við þá: Takið þér hann og dæmið hann eftir yðar lögum. Þá sögðu Gyðingarnir við hann: Oss leyfist ekki að lífláta nokkurn; 32 til þess að rættist orð Jesú, er hann sagði, þá er hann gaf til kynna, hvaða dauða hann mundi deyja.

33 Þá gekk Pílatus aftur inn í höllina og kallaði Jesúm til sín og sagði við hann: Ert þú konungur Gyðinganna? 34 Jesús svaraði: Mælir þú þetta af sjálfum þér, eða hafa aðrir sagt þér um mig? 35 Pílatus svaraði: Er eg þá Gyðingur? Þjóð þín og æðstu prestarnir hafa framselt mér þig; hvað hefir þú aðhafst? 36 Jesús svaraði: Mitt ríki er ekki af þessum heimi; væri mitt ríki af þessum heimi, þá hefðu þjónar mínir barist, til þess að eg yrði ekki framseldur Gyðingunum; en nú er mitt ríki ekki þaðan. 37 Pílatus sagði þá við hann: Eftir því ert þú þá konungur! Jesús svaraði: Þú segir það, því að eg er konungur; til þess er eg fæddur og til þess kom eg í heiminn, að eg skuli vitna um sannleikann. Hver sem er af sannleikanum, hlýðir minni röddu. 38 Pílatus segir þá við hann: Hvað er sannleikur?

Og er hann hafði þetta mælt, gekk hann út aftur til Gyðinganna og segir við þá: Eg finn enga sök hjá honum. 39 En það er venja hjá yður, að eg gefi yður einn mann lausan á páskunum. Viljið þér þá, að eg gefi yður lausan Gyðinga-konunginn? 40 Þeir æptu þá aftur og sögðu: Ekki hann, heldur Barrabas; en Barrabas var ræningi.


19

Þá tók Pílatus Jesúm og húðstrýkti hann. 2 Og hermennirnir fléttuðu kórónu af þyrnum og settu á höfuð honum, og færðu hann í purpurakápu; og þeir gengu til hans og sögðu: 3 Heill vert þú, konungur Gyðinganna! Og þeir gáfu honum kinnhesta. 4 Pílatus gekk þá aftur út og segir við þá: Sjá, eg leiði hann nú aftur út til yðar, til þess að þér vitið, að eg finn enga sök hjá honum. 5 Jesús gekk þá út með þyrnikórónuna á höfði og í purpurakápunni, og Pílatus segir við þá: Sjá, þar er maðurinn! 6 Þegar nú æðstu prestarnir og þjónarnir sáu hann, æptu þeir og sögðu: Krossfestu, krossfestu! Pílatus segir við þá: Takið þér hann og krossfestið, því að eg finn enga sök hjá honum. 7 Gyðingarnir svöruðu honum: Vér höfum lögmál, og eftir lögmálinu á hann að deyja, því að hann hefir gjört sjálfan sig að Guðs syni. 8 Þegar nú Pílatus heyrði þetta, varð hann enn hræddari. 9 Og hann gekk aftur inn í höllina og segir við Jesúm: Hvaðan ertu? En Jesús gaf honum ekkert andsvar. 10 Pílatus segir þá við hann: Talar þú ekki við mig? Veiztu ekki, að eg hefi vald til að láta þig lausan, og að eg hefi vald til að krossfesta þig? 11 Jesús svaraði honum: Ekki hefðir þú neitt vald yfir mér, ef þér hefði ekki verið gefið það að ofan; fyrir því hefir sá meiri synd, sem seldi mig þér í hendur. 12 Eftir þetta leitaðist Pílatus við að láta hann lausan; en Gyðingarnir kölluðu og sögðu: Ef þú lætur hann lausan, þá ert þú ekki vinur keisarans. Hver sem gjörir sjálfan sig að konungi, hann rís á móti keisaranum. 13 Þegar Pílatus heyrði þessi orð, leiddi hann Jesúm út og settist á dómstólinn, á stað sem heitir Steinhlað, en á hebresku Gabbata. 14 En þá var aðfangadagur páska, hér um bil um séttu stundu. Og hann segir við Gyðingana: Sjá, þar er konungur yðar! 15 Þá kölluðu þeir: Burt, burt með hann! Krossfestu hann! Pílatus segir við þá: Á eg að krossfesta konung yðar? Þá svöruðu æðstu prestarnir: Vér höfum engan konung, nema keisarann. 16 Þá seldi hann þeim hann í hendur, til þess að hann yrði krossfestur.

17 Þeir tóku þá Jesúm. Og hann gekk út og bar kross sinn til svo kallaðs Hauskúpustaðar, sem nefnist á hebresku Golgota. 18 Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra, sinn til hvorrar handar, en Jesúm í miðið. 19 En Pílatus ritaði líka yfirskrift og festi á krossinn; en þar var ritað: JESÚS FRÁ NAZARET, KONUNGUR GYÐINGANNA. 20 Þessa yfirskrift lásu nú margir Gyðingar, því að staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni; og var hún rituð á hebresku, latínu og grísku. 21 Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: Skrifa þú ekki: Konungur Gyðinganna, heldur að hann hafi sagt: Eg er konungur Gyðinganna. 22 Pílatus svaraði: Það sem eg hefi skrifað, það hefi eg skrifað.

23 Þegar nú hermennirnir höfðu krossfest Jesúm, tóku þeir klæði hans og skiftu í fjóra hluti, hverjum hermanni hlut, líka kyrtilinn; en kyrtillinn var ekki saumaður, heldur frá ofanverðu niður úr prjónaður. 24 Þeir sögðu því hver við annan: Skerum hann ekki í sundur, köstum heldur hlut um hann, hver skuli fá hann; til þess að sú ritning rættist, er segir: Þeir skiftu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn. Þetta gjörðu nú hermennirnir. 25 En hjá krossi Jesú stóð móðir hans og móðursystir hans, María, kona Klópa, og María Magdalena. 26 Þegar nú Jesús sá móður sína og lærisveininn, sem hann elskaði, standa þar, segir hann við móður sína: Kona, sjá, þar er sonur þinn! 27 Síðan segir hann við lærisveininn: Sjá, þar er móðir þín! Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.

28 Síðan, — er Jesús vissi, að alt var nú þegar fullkomnað, segir hann, til þess að ritningin skyldi rætast: Mig þyrstir. 29 Þar stóð ker fult af ediki. Þeir settu þá njarðarvött fullan af ediki á ýsópslegg og báru honum að munni. 30 Þegar nú Jesús hafði til sín tekið edikið, sagði hann: Það er fullkomnað! og hann hneigði höfuðið og gaf upp andann.

31 En þar eð aðfangadagur var, og til þess að líkamirnir væru ekki á krossinum um hvíldardaginn, — því að sá hvíldardagur var mikill, — beiddu Gyðingarnir Pílatus, að bein þeirra væru brotin og þeir teknir burt. 32 Hermennirnir komu því og brutu bein hins fyrsta og hins annars, sem með honum hafði verið krossfestur. 33 En er þeir komu til Jesú og sáu, að hann var þegar dáinn, brutu þeir ekki bein hans. 34 En einn af hermönnunum lagði spjóti í síðu hans, og jafnskjótt kom út blóð og vatn; 35 og sá hefir vitnað það sem hefir séð, og vitnisburður hans er sannur, og hann veit, að hann segir satt, til þess að einnig þér trúið. 36 Því að þetta varð, til þess að sú ritniug skyldi rætast: Bein í því* skal ekki brotið. 37 Og enn segir önnur ritning: Þeir skulu snúa augum til hans, sem þeir stungu.

38 En Jósef frá Arímaþeu, sem var lærisveinn Jesú, en heimullega, af ótta við Gyðingana, bað síðan Pílatus um, að hann mætti taka líkama Jesú, og leyfði Pílatus það. Hann kom því og tók líkama hans. 39 En Nikódemus, hann sem í fyrstunni hafði komið til Jesú um nótt, kom einnig og hafði með sér hér um bil hundrað pund af myrrublönduðu alóe. 40 Þeir tóku nú líkama Jesú og sveipuðu hann í líndúk með ilmjurtum, eins og siður er hjá Gyðingum að búa lík til greftrunar. 41 En á þeim stað, þar sem hann hafði verið krossfestur, var grasgarður, og í grasgarðinum ný gröf, sem enginn hafði enn verið lagður í. 42 Þar lögðu þeir þá Jesúm — því að gröfin var þar nærri — vegna aðfangadags Gyðinga.


20

En á fyrsta degi vikunnar kemur María Magdalena snemma, meðan enn þá var dimt, til grafarinnar, og sér að steinninn er tekinn frá gröfinni. 2 Hún hleypur þá og kemur til Símonar Péturs og til hins lærisveinsins, þess sem Jesús elskaði, og segir við þá: Þeir hafa tekið drottin úr gröfinni, og vér vitum ekki, hvar þeir hafa lagt hann. 3 Þá fór Pétur út og hinn lærisveinninn, og þeir komu til grafarinnar. 4 En þeir hlupu saman, og hinn lærisveinninn hljóp hraðara en Pétur og kom fyrst að gröfinni; 5 og er hann gægðist inn, sá hann líndúkana liggja þar, en þó gekk hann ekki inn. 6 Þá kemur og Símon Pétur, sem fylgdi á eftir honum, og gekk inn í gröfina, og hann sér líndúkana liggja þar; 7 og sveitadúkinn, sem verið hafði um höfuð hans, ekki liggjandi hjá líndúkunum, heldur út af fyrir sig, samanbrotinn á öðrum stað. 8 Þá gekk nú einnig hinn lærisveinn inn, sem fyrst hafði komið til grafarinnar, og sá og trúði; 9 því að enn þá skildu þeir ekki ritninguna, að hann átti að rísa upp frá dauðum. 10 Síðan fóru lærisveinarnir aftur heim til sín.

11 En María stóð hjá gröfinni úti fyrir grátandi; þegar hún nú var að gráta, gægðist hún inn í gröfina, 12 og sér tvo engla í hvítum klæðum, sitjandi annan til höfða, hinn til fóta, þar sem líkami Jesú hafði legið. 13 Og þeir segja við hana: Kona, hví grætur þú? Hún segir við þá: Af því að þeir hafa tekið burt drottin minn, og eg veit eigi hvar þeir hafa lagt hann. 14 Þegar hún hafði þetta mælt, sneri hún sér við og sér Jesúm standa þar, en hún vissi ekki, að það var Jesús. 15 Jesús segir við hana: Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú? Hún hugði, að þetta væri grasgarðsvörðurinn, og segir við hann: Herra, hafir þú borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefir lagt hann, og mun eg taka hann. 16 Jesús segir við hana: María! Hún sneri sér við og segir við hann á hebresku: Rabbúni! sem þýðir: meistari. 17 Jesús segir við hana: Snert þú mig ekki, því að enn þá er eg ekki uppstiginn til föður míns; en far þú til bræðra minna og seg þeim: Eg stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar. 18 María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: Eg hefi séð drottin! og að hann hafi sagt henni þetta.

19 En er kveld var komið, þennan sama fyrsta dag vikunnar, og dyrum hafði verið lokað, þar sem lærisveinarnir voru, af ótta við Gyðingana, kom Jesús og stóð mitt á meðal þeirra og segir við þá: Friður sé með yður! 20 Og er hann hafði mælt þetta, sýndi hann þeim hendurnar og síðuna. Lærisveinarnir urðu þá glaðir, er þeir sáu drottin. 21 Jesús sagði þá aftur við þá: Friður sé með yður! Eins og faðirinn hefir sent mig, eins sendi eg yður. 22 Og er hann sagði þetta, blés hann á þá og segir við þá: Meðtakið heilagan anda. 23 Hverjum sem þér fyrirgefið syndirnar, þeim eru þær fyrirgefnar, og hverjum, sem þér synjið, þeim er synjað.

24 En Tómas, einn af þeim tólf, sem kallaður var Dídymos, var ekki með þeim, þegar Jesús kom. 25 Hinir lærisveinarnir sögðu þá við hann: Vér höfum séð drottin! En hann sagði við þá: Sjái eg ekki í höndum hans naglaförin, og láti fingur minn í naglaförin og leggi hönd mína í síðu hans, þá trúi eg alls ekki.

26 Og að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur inni og Tómas með þeim. Þá kemur Jesús, er dyrum hafði verið lokað, og stóð mitt á meðal þeirra og sagði: Friður sé með yður! 27 Síðan segir hann við Tómas: Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína; og ver ekki vantrúaður, heldur trúaður. 28 Tómas svaraði og sagði við hann: Drottinn minn og Guð minn! 29 Jesús segir við hann: Af því að þú hefir séð mig, hefir þú trúað; sælir eru þeir sem ekki sáu, og trúðu þó.

30 Þannig gjörði Jesús og margar aðrar jarteinir í augsýn lærisveinanna, sem ekki eru ritaðar í þessari bók. 31 En þetta er ritað til þess að þér skuluð trúa, að Jesús er Kristur, sonur Guðs, og til þess að þér, er þér trúið, hafið líf í hans nafni.


21

Eftir þetta birtist Jesús aftur lærisveinunum við Tíberíasvatnið. En hann birtist með þessum hætti: 2 Þar voru saman þeir Símon Pétur og Tómas, sem kallaður er Dídymos, og Natanael frá Kana í Galíleu og þeir synir Zebedeusar og tveir aðrir af lærisveinum hans. 3 Símon Pétur segir við þá: Eg fer út að fiska. Þeir segja við hann: Vér komum líka með þér. Þeir fóru út og stigu á skipið, og þá nótt fengu þeir ekkert. 4 En er birti af degi, stóð Jesús á ströndinni; þó vissu lærisveinarnir ekki, að það var Jesús. 5 Jesús segir þá við þá: Börnin góð, hvort hafið þér nokkuð að eta? Þeir svöruðu: Nei. 6 Hann sagði þá við þá: Leggið netið hægramegin við skipið, og þér munuð verða varir. Þeir lögðu því netið, og gátu nú ekki dregið það fyrir fiskimergðinni. 7 Þá segir lærisveinn sá, sem Jesús elskaði, við Pétur: Það er drottinn. En er Símon Pétur heyrði, að það væri drottinn, gyrti hann kyrtilinn að sér, — því að hann var fáklæddur, — og fleygði sér í vatnið. 8 En hinir lærisveinarnir komu á bátnum og drógu netið með fiskinum á eftir sér, — því að þeir voru ekki langt frá landi, heldur svo sem tvö hundruð álnir. 9 Þegar þeir nú voru stignir á land, sjá þeir þar vera kolaeld og fisk liggja þar og brauð. 10 Jesús segir við þá: Komið með nokkuð af fiskunum, sem þér veidduð. 11 Símon Pétur fór þá út í bátinn og dró netið á land, fult af stórum fiskum, hundrað fimtíu og þremur; en þó að þeir væru svo margir,

rifnaði netið ekki. 12 Jesús segir við þá: Komið og takið dagverð. En enginn af lærisveinunum dirfðist að spyrja hann: Hver ert þú? með því að þeir vissu, að það var drottinn. 13 Jesús kemur og tekur brauðið og gefur þeim, sömuleiðis og fiskinn. 14 Þetta var nú í þriðja sinni, sem Jesús birtist lærisveinunum eftir að hann var upprisinn frá dauðum.

15 En er þeir höfðu matast, segir Jesús við Símon Pétur: Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir? Hann segir við hann: Já, herra, þú veizt, að þú ert mér kær. Hann segir við hann: Gæt þú lamba minna. 16 Enn segir hann í annað sinn: Símon Jóhannesson, elskar þú mig? Hann segir við hann: Já, herra, þú veizt að þú ert mér kær. Hann segir við hann: Hirð þú sauði mína. 17 Hann segir í þriðja sinni við hann: Símon Jóhannesson, er eg þér kær? Þá hrygðist Pétur, af því að hann sagði í þriðja sinni við hann: Er eg þér kær? Og hann sagði við hann: Herra, þú þekkir alt; þú veizt, að þú ert mér kær. Jesús segir við hann: Gæt þú sauða minna. 18 Sannlega, sannlega segi eg þér: þegar þú varst ungur, gyrtir þú þig og gekst hvert sem þú vildir; en er þú eldist, muntu útbreiða hendur þínar, og annar mun gyrða þig og fara með þig, þangað sem þú vilt ekki. 19 En þetta sagði hann, til þess að tákna, með hvaða dauða hann skyldi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt, segir hann við hann: Fylg þú mér! 20 En er Pétur sneri sér við, sér hann lærisvein þann, sem Jesús elskaði, koma á eftir, þann sama, sem við kveldmáltíðina hallaði sér upp að brjósti hans og sagði: Herra, hver er sá sem svíkur þig? 21 Þegar Pétur sá hann, segir hann við Jesúm: Herra, en hvað verður um þennan? 22 Jesús segir við hann: Ef eg vil, að hann lifi þangað til eg kem, hvað tekur það til þín? Fylg þú mér. 23 Því barst sú saga út til bræðranna, að þessi lærisveinn mundi ekki deyja; en Jesús sagði ekki við hann, að hann skyldi ekki deyja, heldur: Ef eg vil, að hann lifi þangað til eg kem, hvað tekur það til þín?

24 Þessi er lærisveinninn, sem vitnar um þetta og hefir ritað þetta, og vér vitum, að vitnisburður hans er sannur.

25 Það er og margt annað, sem Jesús gjörði, og ætti það alt, hvað eina, að verða ritað upp, hygg eg, að enda heimurinn mundi ekki rúma þær bækur, sem þá yrðu ritaðar.

* Þ. e. páskalambinu.