Síðara bréf Páls postula til Þessaloníkumanna

1

Páll og Silvanus og Tímóteus til safnaðar Þessaloníkumanna í Guði föður vorum og drotni Jesú Kristi.

2 Náð sé með yður og friður frá Guði föður og drotni Jesú Kristi.

3 Skylt er oss bræður, að þakka ætíð Guði fyrir yður eins og maklegt er; því að trú yðar eykst stórum og kærleiki sérhvers yðar allra, hver til annars, fer vaxandi, 4 svo að vér sjálfir hrósum oss af yður í söfnuðum Guðs fyrir þolgæði yðar og trú í öllum ofsóknum yðar og þrengingum þeim, er þér þolið, 5 og er þetta augljóst merki um hinn réttláta dóm Guðs, til þess að þér skulið verða álitnir maklegir guðsríkis, sem þér nú einnig líðið ilt fyrir, 6 svo sannarlega sem það er rétt hjá Guði að endurgjalda þeim þrengingu, sem að yður þrengja, 7 en yður, sem þrenging líðið, hvíld með oss, þegar drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns, 8 í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem ekki þekkja Guð, og yfir þá, sem ekki hlýða fagnaðarerindi drottins vors Jesú, 9 því að þeir munu sæta hegningu, eilífri glötun, fjarri augliti drottins og fjarri dýrð máttar hans, 10 þá er hann kemur til að sýna sig dýrðlegan í sínum heilögu og dásamlegan í öllum, sem trúað hafa á þeim degi; því að vitnisburði vorum fyrir yður hefir verið trúað. 11 Í þeim tilgangi biðjum vér og alla tíma fyrir yður, að Guð vor álíti yður maklega köllunarinnar og fullkomni kröftuglega hvers konar velþóknun á því, sem gott er, og verk trúarinnar, 12 svo að nafn drottins vors Jesú verði dýrðlegt í yður og þér í honum eftir náð Guðs vors og drottins Jesú Krists.


2

En vér biðjum yður, bræður, að því er snertir tilkomu drottins vors Jesú Krists og samsöfnun vora til hans, 2 að þér ekki séuð fljótir á að láta hræða yður eða trufla, hvorki af nokkurum anda né við orð eða bréf, sem væri það frá oss, eins og dagur drottins væri þegar fyrir höndum. 3 Látið engan villa yður á nokkurn hátt; því að ekki kemur hann, nema fráhvarfið komi fyrst og maður syndarinnar birtist, sonur glötunarinnar, 4 hann sem setur sig á móti og rís gegn öllu því, sem kallast Guð eða helgur dómur, svo að hann sezt í Guðs musteri og kemur fram eins og hann væri Guð. 5 Minnist þér ekki þess, að eg sagði yður þetta, meðan eg enn þá var hjá yður? 6 Og nú, þér vitið, hvað aftrar honum, til þess að hann opinberist á sínum tíma. 7 Því að leyndardómur lögleysisins er þegar starfandi, einungis að þeim, sem nú aftrar, verði burtu rýmt. 8 Og þá mun hinn löglausi opinberast — og honum mun drottinn Jesús tortíma með anda munns síns og að engu gjöra við opinberun tilkomu sinnar —, 9 en koma hans er fyrir framkvæmd Satans, með alls konar krafti og táknum og undrum lyginnar, 10 og með alls konar vélum ranglætisins fyrir þá, sem glatast, af því að þeir veittu ekki viðtöku kærleikanum til sannleikans, að þeir mættu verða hólpnir. 11 Og þess vegna sendir Guð þeim megna villu, til þess að þeir trúi lyginni, 12 til þess að allir þeir verði sakfeldir, sem ekki hafa trúað sannleikanum, en hafa haft velþóknun á ranglætinu.

13 En skylt er oss, að þakka ávalt Guði fyrir yður, bræður, elskaðir af drotni, að Guð hefir frá upphafi útvalið yður til frelsunar í helgun andans og trú á sannleikann, 14 og til þess kallaði hann yður fyrir fagnaðarboðskap vorn, að þér skylduð öðlast dýrð drottins vors Jesú Krists. 15 Bræður, standið því stöðugir og haldið fast við þá lærdóma, er yður hafa verið kendir, hvort sem það er munnlega eða með bréfi frá oss.

16 En sjálfur drottinn vor Jesús Kristur og Guð, faðir vor, sem elskaði oss og gaf oss í náð eilífa huggun og góða von, 17 huggi hjörtu yðar og styrki í sérhverju góðu verki og orði.


3

Að öðru leyti, bræður, biðjið fyrir oss, að orð drottins megi hafa framgang og vegsamast eins og hjá yður, 2 og að vér mættum frelsast frá spiltum og vondum mönnum; því að ekki er trúin allra; 3 en trúr er drottinn, og hann mun styrkja yður og vernda fyrir hinu vonda. — 4 En vér höfum það traust til yðar í drotni, að þér bæði gjörið og munið gjöra það, sem vér leggjum fyrir. 5 En drottinn leiði hjörtu yðar til kærleika Guðs og þolgæðis Krists.

6 En vér bjóðum yður, bræður, í nafni drottins vors Jesú Krists, að þér sneiðið yður hjá hverjum þeim bróður, er framgengur óreglulega og ekki eftir þeim lærdómi, sem þeir hafa numið af oss. 7 Því að sjálfir vitið þér, hvernig á að breyta eftir oss, því að ekki hegðuðum vér oss óreglulega hjá yður, 8 neyttum ekki heldur brauðs hjá neinum fyrir ekkert, heldur unnum vér með erfiði og striti nótt og dag, til þess að vera ekki neinum yðar til þyngsla. 9 Ekki af því að vér ekki höfum rétt til þess, heldur til þess að vér gæfum yður sjálfa oss sem fyrirmynd, til að breyta eftir oss. 10 Því var og það, að þegar vér vorum hjá yður, buðum vér yður: Ef einhver vill ekki vinna, þá skal hann ekki fá að eta. 11 En vér heyrum, að nokkurir meðal yðar framgangi óreglulega, sem ekkert vinna, heldur gefa sig alla við því, sem þeim kemur eigi við. 12 Slíkum mönnum bjóðum vér og áminnum þá í drotni Jesú Kristi, að vinna kyrlátlega og eta sitt eigið brauð. 13 En þér, bræður, þreytist ekki gott að gjöra. 14 En ef einhver hlýðir ekki orðum vorum í bréfi þessu, þá merkið yður þann mann, að hafa ekkert samfélag við hann, til þess að hann blygðist sín; 15 en álítið hann þó ekki sem óvin, heldur áminnið hann sem bróður.

16 En sjálfur drottinn friðarins gefi yður friðinn, ætíð á allan hátt. Drottinn sé með yður öllum.

17 Kveðjan er með minni, Páls, eigin hendi, og það er merki á hverju bréfi. Þannig skrifa eg. 18 Náðin drottins vors Jesú Krists sé með yður öllum.