Mikið að gera – áfram svona

Eftir umfjöllun í Fréttablaðinu og Kastljósi hefur mikið verið að gerast á prófarkalestursvef Rafbókavefsins.

Í gær skráði tvöhundraðasti sjálfboðaliðinn sig í kerfið. Það segir þó ekki mikið því sumir lesa bara eina síðu og hætta síðan. Það gæti verið vegna þess að þeim þykir kerfið flókið eða óhentugt. Sem betur fer höfum við nýtt ábendingar notenda til þess að gera allt skýrara og um leið þýða meira af kerfinu og leiðbeiningunum á íslensku. Ýmsir vankantar kerfisins hafa líka verið lagaðir til og virka nú betur en áður.

Þeir sem hafa skráð sig en gefist upp á kerfinu ættu að kíkja á Spjallborðið okkar  (sumar útgáfur af Internet Explorer eiga erfitt með spjallborðið og aðra þætti kerfisins – við mælum með Firefox) og biðja þar um aðstoð.

Ef við lítum fyrir tölurnar bara fyrir febrúar (rétt rúmlega 11 dagar) getum við fengið innsýn í hvernig yfirlesturinn gengur.

  • Í P1 (fyrstu yfirlestrarumferð) hafa verið lesnar 1004 síður
  • Í P2 hafa verið lesnar 438 síður.
  • Í P3 28 síður.
  • Í F1 (fyrri formötunarumferð) hafa verið formataðar 9 síður
  • Í F2 hafa 35 síður verið formataðar nú.

Þetta er gríðarlega góður árangur en um leið sést að hættan er að fólk dreifi kröftum sínum ekki nægilega vel á milli umferða. Til þess að lesa í P2 og P3 þá þarf fólk að hafa lesið hið minnsta 50 síður í P1. Það eru því ekki nema fáir notendur sem geta lesið yfir efni í þeim umferðum og þeir þyrftu helst að setja krafta sína þangað.

Um leið er rétt að benda á að líklega hentar formötunarumferðin F1 best öðrum en þeim sem eru góðir að finna textavillur því er bætt við html kóða t.d. fyrir ská- og breiðletranir. Ef einhverjir hafa sérstakan áhuga á þeim umferð ættu þeir að láta vita sér á spjallborðinu.

Það væri gaman ef fólk myndi setja sér markmið fyrir hvern dag eða viku. 1-5 síða á dag til dæmis? Eða 20-30 síður á viku?

Það væri líka spennandi ef fólk myndi nota kerfið og búa til hópa í kringum verkefni eða ákveðnar yfirlestrarumferðir. Þannig væri hægt að nýta kraftana betur með því að beina þeim á sérstaka þætti yfirlestursins.

En um leið er ákaflega mikilvægt að dreifa upplýsingum verkefnið. Facebook og blogg virka vel. Bloggfærslur komu vefnum í Kastljósið og Fréttablaðið. Sá sem finnur fimm vini sem eru áhugasamir um verkefnið hefur þannig hjálpað meira en hann hefði getað gert einn með yfirlestri (maður getur samt gert bæði).