Sturlunga saga
Eftir: Sturlu Þórðarson og fleiri.
Rafbókavefurinn 2018.
rafbokavefur.is
978-9935-445-41-4
Kápuhönnun: Óli Gneisti Sóleyjarson.
Höfundur kápumyndar: Christian Krohg.
Bakgrunnsmynd: Síðu úr Reykjafjarðarbók (AM 122 b).
Byggt að mestu á texta úr Fornritasafnsgrunni Stofnunnar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem deilt er með leyfinu CC BY 3.0.
Tímalína fengið af vefnum Heimskringlu (heimskringla.no) en er upprunalegu úr útgáfu Guðna Jónssonar.
Öll dreifing og breyting á efninu leyfileg.
(Eftir dr. Jón Jóhannesson)
1119 - Veislan á Reykjahólum.
1120 - Hafliði Másson særður á alþingi. Sekt Þorgils Oddasonar.
1121 - Sætt Hafliða og Þorgils á alþingi.
1130 - Andlát Hafliða.
1151 - Andlát Þorgils Oddasonar.
1159 - Deila þeirra Hvamm-Sturlu og Einars Þorgilssonar á alþingi. Hvortveggi verður sekur.
1160 - Einar brennir bæ í Hvammi.
1163 - Brandur Sæmundarson vígður til biskups. Bardagi á alþingi.
1170 - Bardagi í Saurbæ með mönnum þeirra Hvamm-Sturlu og Einars.
1171 - Drukknun Páls Þórðarsonar í Vatnsfirði. Upphaf Deildartungumála.
1180 - Þorbjörg Bjarnardóttir veitir Hvamm-Sturlu áverka.
1181 - Jón Loftsson gerir um mál Hvamm-Sturlu og Páls prests Sölvasonar á alþingi, tekur Snorra Sturluson til fósturs um haustið.
1183 - Andlát Hvamm-Sturlu.
1187 - Helgastaðamál. Guðmundur dýri tekur af Vaðlaþing; skyldi þar eigi sóknarþing heita. [Ekkert skip kom af Noregi til Íslands.]
1188 - Guðmundi dýra gefið Fljótamannagoðorð.
1189 - Ingimundur prestur Þorgeirsson ferst í Grænlandsóbyggðum.
1195 - Vígður Páll Jónsson til biskups.
1196 - Laufæsingar særa Ögmund sneis. Rauðsmál og bardagi á alþingi.
1197 - Langahlíðarbrenna (7. maí). Kvonfang Sighvats Sturlusonar. Andlát Jóns Loftssonar. Ekkert skip kom fyrir norðan land.
1198 - Vígin í Laufási um haustið. Ekkert skip kom fyrir norðan land.
1199 - Fæddur Sturla Sighvatsson. Snorri Sturluson fær Herdísar Bersadóttur. Guðmundur dýri hrekur andstæðingana úr héraði.
1200 - Deilur þeirra Sigurðar Ormssonar og Sæmundar í Odda.
1201 - Andlát Brands biskups. Guðmundur Arason kjörinn til biskups.
1202 - Snorri Sturluson fer að búa á Borg. Sigurður Ormsson ræðst til Norðurlands.
1203 - Guðmundur Arason vígður til biskups.
1205 - Upphaf deilna Guðmundar biskups og Kolbeins Tumasonar.
1206 - (h.u.b.) Snorri flytur í Reykjaholti.
1208 - Víðinessbardagi og fall Kolbeins (9. sept.).
1209 - Fæddur Gissur Þorvaldsson. Hólabardagi (15. apríl). Guðmundur biskup fer í Reykjaholt.
1211 - Erkibiskup boðar höfðingjum á sinn fund. [Utanför Jóns Sigmundssonar.] Guðmundur biskup kemur aftur heim til stóls síns. Andlát Páls biskups.
1212 - Andlát Guðmundar dýra. Utanför Arnórs Tumasonar. Víg Halls Kleppjárnssonar.
1213 - Víg Hrafns Sveinbjarnarsonar (4. mars). Utanför Þorvalds Gissurarsonar.
1214 - Utanför Guðmundar biskups. [Útkoma Arnórs og Þorvalds.]
1215 - Sighvatur flytur í Eyjafjörð. [Sæmundur í Odda og Þorvaldur Gissurarson lögðu lag á varning Austmanna.]
1216 - Magnús Gissurarson vígður til biskups. Bardagi á Mel. Drukknun Páls Sæmundarsonar.
1217 - Sæmundur tekur upp fé fyrir Austmönnum á Eyrum.
1218 - Víg Orms Jónssonar Breiðdælings. [Vopna upptektir á Eyrum.] Árni óreiða fær Hallberu Snorradóttur. Utanför Snorra Sturlusonar. Útkoma Guðmundar biskups.
1219 - Guðmundur biskup tekinn úr valdi Arnórs við Hvítá. Snorri fer til Gautlands. [Ekkert skip kom af Noregi til Íslands.]
1220 - Bardagi á Helgastöðum (30. ágúst). Guðmundur biskup fer í Odda og er þar um veturinn. Herför búin til Íslands. Snorri afstýrir henni, gerist lendur maður konungs og fer til Íslands,
1221 - Bardagi á Breiðabólstað og fall Bjarnar Þorvaldssonar (17. júní). Utanför Jóns murts, Arnórs Tumasonar og Lofts biskupssonar.
1222 - Dráp Tuma Sighvatssonar (4. febr.). Bardagi í Grímsey um vorið. Guðmundur biskup rekinn utan. [Stefnt höfðingjum af Íslandi á fund erkibiskups.) Sekt Arons Hjörleifssonar. Viðureign Jónssona og Þorvalds Vatnsfirðings. Andlát Sæmundar í Odda (7. nóv.).
1223 - Sturla Sighvatsson fær Solveigar. Þorvaldur Vatnsfirðingur verður sekur á alþingi. Sætt Þorvalds og Snorra. Útkoma Lofts.
1224 - Snorri Sturluson gerir félag við Hallveigu Ormsdóttur. Útkoma Jóns murts og Kolbeins unga. Skilnaður Árna óreiðu og Hallberu. Gissur Þorvaldsson fær Ingibjargar Snorradóttur. Þorvaldur Vatnsfirðingur fær Þórdísar Snorradóttur.
1225 - Sturla Sighvatsson eignast goðorð Hrafnssona, lætur gera virki í Dölum.
1226 - Deilur með Sturlungum á Alþingi um Snorrungagoðorð. Útkoma Guðmundar biskups. [Embætti tekið af Magnúsi biskupi og honum utan stefnt ef erkibiskupi, einnig Þorvaldi Gissurarsyni, Sighvati Sturlusyni og Sturlu, syni hans.] Klaustur sett í Viðey. Jólaveisla í Reykjaholti.
1227 - Snorri og Þórður Sturlusynir taka Snorrungagoðorð af Sturlu Sighvatssyni. Sturla fer í Hvamm að Þórði.
1228 - Kolbeinn ungi fær Hallberu Snorradóttur. Snorri tekur trúnaðareiða af bændum í Dölum. Þorvaldur Vatnsfirðingur brenndur inni (6. ágúst). [Utan stefnt Magnúsi biskupi, Sighvati og Sturlu, syni hans, líklega af erkibiskupi.]
1229 - Sauðafellsför Vatnsfirðinga. Sektir Hrafnssona og Þorvaldssona á alþingi. Utanför Magnúsar biskups, Gissurar Þorvaldssonar og Jóns murts. Víg Jóns króks. Kolbeinn skilur við Hallberu. Vatnsfirðingar selja Sturlu sjálfdæmi fyrir Sauðafellsför.
1230 - Sturla lýkur upp gerðum í málum þeirra Vatnsfirðinga. Friður góður á Íslandi. [Hákon konungur og Skúli jarl stefndu höfðingjum af Íslandi utan, en kórsbræður í Niðarósi Guðmundi biskupi.]
1231 - Víg Jóns murts. Deila Snorra og Orms Svínfellings á alþingi. Andlát Hallberu Snorradóttur. Útkoma Gissurar. Drukknun tveggja Hrafnssona. Guðmundur biskup rekinn frá Hólum.
1232 - Víg Vatnsfirðinga Þórðar og Snorra (8. mars). Deila og sætt Snorra og Kolbeins unga á alþingi. Órækja fær Arnbjargar Arnórsdóttur. Guðmundur biskup í varðhaldi. Útkoma Magnúsar biskups. Guðmundur biskup sviptur embætti og fer í Höfða. Erkibiskup stefnir utan [Þorvaldi Gissurarsyni], Sighvati og Sturlu, syni hans.
1233 - Órækja flytur í Vatnsfjörð og gerist höfðingi þar. Utanför Sturlu.
1234 - Víg Odds Álasonar. Víg Kálfs Guttormssonar. Fundur Kolbeins og Sighvats í Flatatungu. Rán og herhlaup um sumarið. Sturla fer til Róms, kemur aftur í Noreg um haustið og er með Hákoni konungi um veturinn.
1235 - Órækja fer með ránum og ófriði í Vestfirðingafjórðungi. Utanför Kolbeins unga. Andlát Þorvalds Gissurarsonar og Sigurðar Ormssonar. Útkoma Sturlu um haustið með erindum Hákonar konungs. [Órækju utan stefnt.]
1236 - Sturla snýr gegn Snorra og leggur undir sig Borgarfjörð. Órækja svikinn og fer utan. Magnús Guðmundarson og Kygri-Björn Hjaltason kosnir til biskupa og fara utan. Útkoma Kolbeins unga.
1237 - Andlát Guðmundar biskups og Þórðar Sturlusonar. Bæjarbardagi (28. apríl). [Hákon konungur, Skúli jarl og erkibiskup stefndu goðorðsmönnum á sinn fund.] Utanför Snorra, Þorleifs í Görðum, Þórðar kakala, Ólafs hvítaskálds og [Þórarins Jónssonar]. Andlát Magnúsar biskups.
1238 - Apavatnsför. Herför Gissurar og Kolbeins í Dali. Örlygsstaðabardagi (21. ág.). Kolbeinn leggur undir sig allan Norðlendingafjórðung. [Norrænir biskupar vígðir til Íslands.]
1239 - Útkoma Snorra, Þorleifs og Órækju. Útkoma Sigvarðar og Bótólfs, norrænna biskupa.
1240 - Útkoma Árna óreiðu og Eyvindar með konungsbréf til Gissurar.
1241 - Víg Illuga Þorvaldssonar. Andlát Hallveigar Ormsdóttur og Orms Svínfellings. Víg Snorra og Klængs Bjarnarsonar.
1242 - Bardagi í Skálaholti (2. jan.). Órækja og Sturla Þórðarson sviknir við Hvítárbrú. Utanför Gissurar og Órækju. Kolbeinn lætur Vestfirðinga sverja sér trúnaðareiða. Útkoma Þórðar kakala. Kolbeinn eltir Þórð um Borgarfjörð og Mýrar (28. nóv.).
1243 - Þórður kakali gerður sekur á alþingi. Herför Kolbeins, Orms Bjarnarsonar og Hjalta biskupssonar í Dali. Vatnsdalsför. Fundur í Stafaholti (29. sept.).
1244 - Herhlaup manna Tuma Sighvatssonar norður í Húnavatnsþing. Sættaboð Kolbeins við Þórð. Reykhólaför og víg Tuma (19. apr.). Útkoma Gissurar. Flóabardagi (25. júní). Gissur og Jón Sturluson sættast á að leggja mál sín í konungsdóm.
1245 - Þórður og Kolbeinn sættast á að leggja mál sín í konungsdóm. Andlát Órækju (24. júní) og Kolbeins (22. júlí). Brandur Kolbeinsson verður höfðingi í Norðlendingafjórðungi vestan Öxnadalsheiðar, en Þórður austan. [Stórmæli erkibiskups við Norðlendinga.]
1246 - Haugsnessbardagi (19. apr.). Þórður leggur undir sig allan Norðlendingafjórðung. Þórður og Gissur fara utan og leggja mál sín í konungsdóm.
1247 - Hákon konungur krýndur. Útkoma Þórðar kakala og Heinreks biskups. Þórður tekur undir sig ríki Snorra í Borgarfirði og Þorleifs í Görðum að boði konungs. Gissur fór til Róms.
1248 - Vestfirðingar játa Þórði hlýðni. Hann ræður öllu á alþingi. Hefst missætti Ormssona og Ögmundar. Þórður leggur gjöld á þingmenn Gissurar.
1249 - Sæmundur Ormsson fær Ingunnar Sturludóttur. Þórði kakala stefnt utan. Hann rekur utan Filippus og Harald Sæmundarsyni [og Orm Bjarnarson] og leggur undir sig Sunnlendingafjórðung. Utanför Heinreks biskups.
1250 - Aðför Sæmundar að Ögmundi. Ögmundur verður sekur á alþingi. Utanför Þórðar kakala og Sigvarðar biskups.
1251 - Drukknun Sæmundarsona. Sætt Þórarinssona og Ormssona.
1252 - Víg Ormssona. Útkoma Gissurar, Þorgils skarða, Finnbjarnar Helgasonar og Heinreks biskups. Stafaholtsför. Aðför við Gissur.
1253 - Gissur tekur ríki í Skagafirði. Síðumúlaför. Flugumýrarbrenna (22. okt.).
1254 - Hefndir Gissurar. Útkoma Sigvarðar biskups. Utanför Gissurar. Oddur Þórarinsson tekur ríki hans í Skagafirði. Bardagi í Grímsey og víg Hrana. Oddur handtekur Heinrek biskup.
1255 - Bardagi í Geldingaholti og fall Odds (14. jan.). Bardagi á Þveráreyrum og fall Eyjólfs ofsa (19. júlí). Þorgils gerist höfðingi í Skagafirði, sættist við Hrafn og Heinrek biskup. Hákon konungur sendir Ívar Englason til Íslands.
1256 - Mestur þorri bænda í Norðlendingafjórðungi játar að gjalda Hákoni konungi skatt. Þorgilsi skipað ríki norðan Öxnadalsheiðar. Utanför Ívars. Andlát Þórðar kakala.
1257 - Steinvör fær Þorvarði Þórarinssyni heimildir á Eyjafirði. Andlát Þorleifs í Görðum.
1258 - Víg Þorgils skarða (22. jan.). Gissur gerist jarl og kemur út um haustið. Konungur skipar honum Sunnlendingafjórðung, Norðlendingafjórðung og Borgarfjörð. Gissur kemur sér upp hirð (1. nóv.).
1259 - Gissur kaupir Stað í Reyninesi. Þorvarður verður sekur á alþingi. Þórður Andrésson reynir að fá Brandssyni í samsæri gegn Gissuri. Herför Gissurar á Rangárvöllu. Sturla Þórðarson gerist lendur maður Gissurar og fær vilyrði fyrir Borgarfirði.
1260 - [Hákon konungur sendir Ívar Arnljótarson og Pál línseymu til Íslands. Skatti neitað á alþingi.] Fundur á Þingskálum. Rangæingar sverja Gissuri jarli og Hákoni konungi trúnaðareiða.
1261 - Útkoma Hallvarðs gullskós. Hrafni skipaður Borgarfjörður.
1262 - Sætt Þorvarðs og Sighvats Böðvarssonar (3. apríl). Bændur sverja Hákoni konungi trúnaðareiða á Hegranessþingi. Norðlendingar og Sunnlendingar vestan Þjórsár sverja Hákoni konungi skatt og trúnað á alþingi. Gamli sáttmáli gerður. Vestfirðingar og Borgfirðingar sverja konungi skatt og trúnað á Þverárþingi. Sætt Gissurar og Hrafns. Utanför Hallvarðs.
1263 - Ófriður með Sturlu Þórðarsyni og Hrafni. Útkoma Hallvarðs gullskós. [Oddaverjar sverja konungi skatt.] Utanför Sturlu Þórðarsonar. Brandur Jónsson vígður til biskups og kemur út. [Þorvarður Þórarinsson sver honum að fara á fund konungs.] Andlát Hákonar konungs (16. des.).
1264 - Andlát Brands biskups (26. maí). [Ormur Ormsson sór Noregskonungum skatt á alþingi fyrir Síðumenn. Utanför Hallvarðs og Þorvarðs Þórarinssonar. Þorvarður gefur ríki sitt í vald konungs.] Víg Þórðar Andréssonar.
1268 - [Andlát Gissurar jarls og Sigvarðar biskups.]
1284 - Andlát Sturlu Þórðarsonar.
Geirmundur heljarskinn var sonur Hjörs konungs Hálfssonar er Hálfsrekkar eru við kenndir Hjörleifssonar konungs. Annar sonur Hjörs konungs var Hámundur er enn var kallaður heljarskinn. Þeir voru tvíburar.
En þessi er frásögn til þess að þeir voru heljarskinn kallaðir að einn tíma er Hjör konungur skyldi sækja konungastefnu var drottning hans ólétt og varð hún léttari meðan konungur var úr landi og fæddi hún tvo sveina. Þeir voru báðir ákaflega miklir vöxtum og báðir furðulega ljótir ásýnis. En þó réð því stærstu um ófríðleik þeirra á að sjá að engi þóttist hafa séð dökkra skinn en á þessum sveinum var. Drottning felldi lítinn hug til sveinanna og sýndist henni þeir óástúðlegir.
Loðhöttur hét þræll sá er þar var fyrir stjórn annarra þræla. Þessi þræll var kvongaður og ól kona hans son jafnframt því sem drottning varð léttari og þessi sveinn var svo undarlega fagur sem þrælskonan átti að drottning þóttist ekki lýti sjá á sveininum og sýndist henni nú þessi sveinn ástúðlegri en sínir sveinar.
Síðan ræður drottning til kaups um sveinana við ambáttina en ambáttinni sýndist svo sem drottningu að henni þótti sinn sonur eigulegri en þorði þó eigi að synja að kaupa við drottningu um sveinana. Og tekur drottning við ambáttarsyni og lætur nafn gefa og kalla sveininn Leif og segir drottning þenna svein sinn son. En ambáttin tekur við þeim drottningarsonum og fæðast þeir upp í hálmi sem önnur þrælabörn þar til er þeir voru þrevetrir. En Leifur leikur á lófum og hefir virðing sem von var að konungsbarn mundi hafa.
En svo sem aldur færist yfir sveinana alla jafnt saman þá guggnar Leifur en þeir Hámundur og Geirmundur gangast við, því meir sem þeir eru eldri, og bregður því meir til síns ætternis. Þess er við getið að Bragi skáld sótti heimboð til Hjörs konungs og var með konungi nokkura hríð. Og einn hvern dag er það sagt að konungur og hans menn færu á dýrsveiði og svo hirðin en fátt manna var eftir í höllinni. Bragi skáld var heima og sat í öndvegi og hafði reyrsprota einn í hendi sér og leikur að og þuldi í feld sinn. Drottning lá í þverpalli utar í höllinni og var hulin klæðum svo að ekki mátti vita hvort hún var þar nema þeir er áður vissu. Leifur sat í hásæti og lék sér að gulli en þeir Hámundur og Geirmundur sátu í hálmi og hugðu að er Leifur lék sér að gullinu. Þeir sáu og ekki neina í höllinni.
Þá mælti Geirmundur til bróður síns: Viltu að við förum til Leifs og tökum af honum gullið og leikum okkur að nokkura hríð?
Búinn er eg þess, segir Hámundur.
Síðan hlupu sveinarnir að hásætinu og tóku gullið af Leifi en hann glúpnaði og æpir eftir.
Þeir mæltu: Heyr, sögðu þeir, hvernig konungssonur tekur eftir einum gullhringi og er því satt að segja að það er illa komið er þú ferð með, þrífa til Leifs og ráku hann úr hásætinu og hlæja að.
Þá stendur Bragi skáld upp og gengur að þar er drottning lá í pallinum og styður á hana reyrsprotanum og kvað vísu þessa:
1.
Tveir eru inni,
trúi eg báðum vel,
Hámundr og Geirmundr,
hjörvi bornir,
en Leifr þriðji
Loðhattar sonr,
fær þrælum hann,
fár mun enn verri.
Drottning stendur nú upp og gengur í burt með sveinana og skiptir nú aftur við ambáttina í annað sinn. Sýnist drottningu nú sem er, að þeir gerðust nú mannvænlegir sem glíkindi er á og þeir áttu tilbrigði.
Og um kveldið er konungur kom heim og hafði sest í hásæti sitt þá gengur drottning inn og leiðir sveinana með sér og segir konungi frá öllu þessu efni og hverju hún hafði keypt við ambáttina og biður konung hrinda af sér reiði.
Konungur leit á sveinana og mælti síðan: Að vísu ætla eg að þessir sveinar séu minnar ættar en þó hefi eg eigi séð slík heljarskinn sem sveinar þessir eru.
Og af því voru þeir svo kallaðir.
Og þegar er þeir voru frumvaxta fóru þeir úr landi að herja og öfluðu brátt bæði fjár og frægðar og stýrðu lengi miklum skipastóli, að því sem segir í sumum frásögnum og nokkuð vísar til á hinum efra hlut sögu Hróks hins svarta er þeir bræður voru kallaðir þar mestir hermenn af sækonungum í þann tíma.
Og það var eitt sinn er þeir héldu í vesturvíking að þeir fengu svo miklu meira herfang en önnur sumur að því er frá hefir verið sagt. En fyrri en þeir kæmu heim skiptu þeir herfangi sínu um sumarið. Þá hlaut annar þeirra tuttugu pund silfurs en annar tvö pund gulls. Og á þessu sumri sama rufu þeir hernaðinn og leystu hvern sinna manna með góðum skotpeningi á burt. Þeir bræður héldu samfloti tveim skipum í Noregskonungs ríki.
Þá réð fyrir Noregi Haraldur hárfagri og ætluðu þeir bræður að hafa þar friðland og skildu þar samflot sitt og félag. Og er konungur frétti það þá líkar honum eigi þarvist þeirra og þykir eigi örvænt að þeir muni þar eflast ætla til móts við sig.
Og það vilja sumir menn segja að Geirmundur færi fyrir ofríki Haralds konungs til Íslands. En eg hefi það heyrt að í þann tíma er þeir bræður komu úr vesturvíking væri sem mest orð á að engi þætti vera frægðarför meiri en fara til Íslands. Og af því hinu sama vildi Geirmundur sigla þegar um sumarið er þeir komu við Noreg. En Hámundur vildi það eigi og fór hann til móts við Helga hinn magra og fóru þeir báðir síðar út til Íslands.
En Geirmundur fór þegar út og kom skipi sínu í Breiðafjörð og var í Búðardal hinn fyrsta vetur er hann var á Íslandi. En um vorið nam hann land frá Búðardalsá og til Fábeinsár og setti þar bústað sinn er nú heitir á Geirmundarstöðum.
Geirmundur bóndi var stórmenni mikið og hélt aldrei færri menn en átta tigi vígra karla með sér á Geirmundarstöðum. Hann átti og fjögur bú önnur. Var eitt bú hans í Aðalvík í Ísafirði, annað í Kjaransvík. Þar var fyrir Kjaran þræll Geirmundar og hafði Kjaran tólf þræla undir sér. Hið þriðja bú átti Geirmundur á Almenningum hinum vestrum. Það varðveitti Björn þræll hans. Björn varð síðan sekur um sauðatöku og urðu Almenningar sektarfé hans. Hið fjórða bú Geirmundar varðveitti Atli þræll hans og hafði hann og tólf þræla undir sér sem Kjaran og þjónuðu þessi öll búin undir það er hann sjálfur hélt kostnað af á Geirmundarstöðum.
Geir hét maður er kallaður var Végeir. Hann var blótmaður mikill og var af því kallaður Végeir. Hann átti sjö börn eða fleiri. Vébjörn hét sonur hans og Végestur, Vémundur og Vésteinn en Védís dóttir.
En er Végeir andaðist þá tók Vébjörn forráð bæði fjár og metorða. Hann hélt óvini Hákonar konungs Haraldssonar og fóru þau systkin af því öll til Íslands.
Þau velkti úti lengi um sumarið í hafinu og tóku að lyktum Hlöðuvík um haustið fyrir vestan Horn. Þá gekk Vébjörn að blóta en bræður hans eggjuðu burtfarar svo að hann gáði eigi blótsins og létu þau út og brutu hinn sama dag undir hávum hömrum í miklu illviðri og komust þar upp er nú heitir síðan Sygnakleif.
Þá tók við þeim öllum skipverjum um veturinn Atli þræll Geirmundar heljarskinns. Atli var ódæll og hamrammur mjög.
En er Geirmundur vissi þessa úrlausn þrælsins þá frétti hann þrælinn: Hvað kom þér til þess er þú tókst svo mikið á hendur við Vébjörn og föruneyti hans?
Þrællinn svarar: Það kom mér til þess að eg vildi þann veg sýna hversu mikið göfugmenni og stórmenni sá maður var er þann þræl átti er slík stórræði þorði á hendur að takast.
Geirmundur bað þrælinn hafa þökk fyrir sitt úrræði og gaf honum fyrir þessa sök frelsi og búland.
Mörgum mönnum gaf Geirmundur stórar eignir bæði í löndum og lausum eyri. Hann gaf Hrólfi Kjallakssyni bústað að Ballará því að hann var vinur hans og var mikill ættbogi af honum. Hans son var Illugi hinn rauði og Sölvi faðir Þórðar, föður Magnúss, föður Sölva, föður Páls prests.
Geirmundur bjó á Geirmundarstöðum til elli ævi sinnar. En sá var einn hvammur í landi Geirmundar að hann kvaðst vildu kjósa á brott úr landinu ef hann mætti ráða og mest fyrir því að sá er einn staður í hvamminum að ávallt er eg lít þangað þá skrámir það ljós fyrir augu mér að mér verður ekki að skapi. Og það ljós er ávallt yfir reynilundi þeim er þar er vaxinn einn samt undir brekkunni.
Og það fylgdi ef nokkru sinni varð búfé hans statt í hvamminum þá lét hann ónýta nyt undan á því dægri.
Og eitt sinn er frá því sagt að búsmali hans hafði þar komið niður um nótt eina. Og er smalamaður reis upp og sá féið í hvamminum varð hann ákaflega hræddur og hleypur sem mest hann má og eltir féið úr hvamminum og rífur úr reynirunninum vönd einn og keyrir féið með og rekur heim til Geirmundarstaða. En Geirmundur var út genginn úr hvílu sinni um morguninn og sér hvar smalamaðurinn eltir féið ofan úr hvamminum og verður honum eigi vel að skapi er féið hefir þar verið og snýr í móti smalamanninum og þekkir brátt að hann hefir reynivöndinn í hendi og keyrir féið með. Og hér verður honum svo ills kalt við hvorttveggja saman að hann hleypur að smalamanninum og ber hann og hýðir ákaflega mjög og biður hann aldrei gera oftar að berja fé hans með þeim viði er í þeim hvammi er vaxinn en þó einna síst úr reynirunninum. En Geirmundur mátti því auðveldlega kenna viðinn að þar aðeins var þá reyniviður vaxinn í hans landeign, í þeim sama stað er nú stendur kirkja að Skarði, að því er vér höfum heyrt sannfróða menn frá segja. Geirmundur lét taka vöndinn og brenna í eldi en búfé sitt lét hann reka í haga og ónýta nyt undan á þeim degi.
Dóttir Geirmundar var Ýr, móðir Þórodds, föður Odda, föður Hallberu er átti Börkur son Þormóðar Þjóstarssonar.
Steinólfur hinn lági son Hrólfs hersis af Ögðum nam land á milli Búðardalsár og Tjaldaness og bjó í Fagradal.
Hans dóttir var Helga, móðir Hyrnings Ólafssonar er átti Arndísi dóttur Geirmundar heljarskinns. Þeirra dóttir var Friðgerður, móðir Snæris Þóroddssonar, föður Odda, föður Þorgils Oddasonar.
Önnur dóttir Steinólfs hins lága úr Fagradal var Arndís, móðir Þórðar, föður Þorgerðar, móður Hrafns, föður Snartar, föður Jódísar, móður Höllu, móður Yngvildar er átti Snorri lögsögumaður, faðir Narfa, föður Skarð-Snorra. Ingólfur Arnarson, hann staðfestist fyrstur á Íslandi landnámsmanna svo að menn kunni ættir sínar til að telja. Ingólfur var faðir Þorsteins, föður Þorkels mána lögsögumanns. Þórhildur var dóttir Þorsteins Ingólfssonar, móðir Þorkels, föður Ketils, föður Hauks, föður Yngvildar, móður Snorra, föður Narfa, föður Skarð-Snorra.
Hrollaugur hét maður. Hann var sonur Rögnvalds jarls á Mæri. Frá honum eru Síðumenn komnir. Hans sonur var Össur, faðir Þórdísar, móður Halls á Síðu. Egill sonur Halls var faðir Þorgerðar, móður Jóans biskups. Yngvildur Hallsdóttir var móðir Þóreyjar, móður Sæmundar hins fróða. Þorvarður Hallssonur var faðir Þórdísar, móður Jóreiðar, móður Halls prests í Haukadal Teitssonar. Þorsteinn Hallsson var faðir Magnúss, föður Einars, föður Magnúss biskups. Ljótur Hallsson var faðir Guðrúnar, móður Einars Arasonar og Steinunnar, móður Guðmundar og Hallberu, móður Þorgils, föður Húnboga, föður Snorra, föður Narfa, föður Skarð-Snorra. Móðir Skarð-Snorra var Guðrún Þórðardóttir Oddleifssonar Þórðarsonar krákunefs.
Þessi voru systkin Skarð-Snorra, Þórður er átti Jóreiði Hallsdóttur. Þeirra dóttir var Helga er Sturla átti Þórðarson lögmaður. Þorbjörn var laungetinn og Halldís. Yngvildi systur Snorra átti Gunnsteinn Hallsson. Hún var móðir Vigfúss og þeirra systkina. Guðríður systir Snorra var móðir Guðmundar prests Ólafssonar og þeirra systkina. Hallgerði systur Snorra, hana átti Þórður undir Felli. Hún var móðir Snorra og Guðmundar og Yngvildar móður Péturs í Skógarnesi Snorrasonar.
Björn sonur Ketils flatnefs var faðir Kjallaks, föður Þorgríms, föður Vermundar, föður Yngvildar, móður Þorgerðar, móður Yngvildar, móður Snorra Húnbogasonar Þorgilssonar.
Dálkur var bróðir Þorgils Hafliðasonar. Hann var faðir Bersa, föður Dálks, föður Halldórs, föður Þorsteins er átti Ingigerði Filippusdóttur Sæmundarsonar. Þeirra dóttir var Guðrún er Benedikt átti fyrr en síðar herra Kolbeinn Auðkýlingur. Hallbera abbadís var önnur dóttir Þorsteins bónda Halldórssonar og Ingigerðar.
Hafliði hét maður. Hann var Másson Húnröðarsonar Ævarssonar. Þuríður hét kona hans, dóttir Þórðar sonar Sturlu Þjóðrekssonar, og áttu þau mart barna. Síðan átti hann Rannveigu systur Halls Teitssonar. Þeirra dóttir var Sigríður er átti Þórður í Vatnsfirði. Snorri hét son þeirra. Hafliði bjó að Breiðabólstað í Vesturhópi og var bæði forvitri og góðgjarn og hinn mesti höfðingi.
Bergþór hét bróðir Hafliða Márssonar. Hann átti Kolþernu dóttur Eyjólfs halta. Þeirra son var Guðmundur faðir Más prests. Son Bergþórs var Már. Hann var óvinsæll og illa skapi farinn og ólíkur góðum frændum sínum, hafði nakkvað fé og hélst illa á. Hann var oft með Hafliða frænda sínum á vetrum og var honum óskaplíkur.
Það var sagt eitt vor að hann keypti sér skip og færi á Strandir norður. Hann var maður mikill og beinstór, skarpvaxinn, svartur og ósélegur. Hann kemur niður á Ströndum norður þar sem heitir í Ávík til þess bónda er Hneitir hét. Hann var skilgóður bóndi og vinsæll. Kona hans hét Björg. Þau áttu tvo sonu, Steindór og Finnboga. Rannveig og Hergerður voru dætur þeirra. Hann var þingmaður Hafliða og annaðist reka hans.
Þorsteinn hét maður, vinsæll og rólyndur. Hann var kallaður allra manna veiðnastur. Hann annaðist móður sína og börn sín, fór jafnan með skipi Hneitis og skapaði hann honum góðan hlut fyrir sitt starf.
Í þenna tíma bjó Þorgils Oddason á Staðarhóli í Saurbæ. Hann hafði mannmart með sér og rausn mikil var þar í mörgum hlutum. Hann var stórfengur og auðigur.
Þorgils var sonur Odda Snærissonar Þóroddssonar. Móðir Snæris var Friðgerður Hyrningsdóttir. Hyrningur átti Arndísi dóttur Geirmundar heljarskinns. Móðir Odda Snærissonar var Ólöf dóttir Bitru-Odda Þorbjarnarsonar. Móðir Bitru-Odda var Yngvildur dóttir Álfs í Dölum. Yngvildi hafði átt Þorvaldur eyrgoði Steingrímsson er nam Steingrímsfjörð og bjó í Tröllatungu. Sjá kynsþáttur Þorgils Oddasonar er sumum ókunnari en Reyknesinga. Hallbera hét móðir hans, dóttir Ara af Reykjanesi. Kolfinna hét kona Þorgils dóttir Halls Styrmissonar Þorgeirssonar frá Ásgeirsá.
Þær sveitir voru fjölbyggðar og góðir bændur í þenna tíma. Þórður Gilsson bjó undir Felli hinu innra. Húnbogi Þorgilsson bjó að Skarði, faðir Snorra lögsögumanns. Már prestur Þormóðsson bjó í Sælingsdalstungu. Hann var frændi náinn Hafliða Mássonar. Halldóra hét móðir hans, dóttir Védísar Másdóttur en Védís var systir Hafliða Mássonar. Þorsteinn Kvistsson átti Védísi Þorgerðardóttur Védísardóttur Másdóttur.
Guðmundur prestur Brandsson bjó í Hjarðarholti. Hann var náfrændi Þorgils Oddasonar og aldavinur. Örnólfur Þorgilsson bjó að Kvennabrekku. Arnór Kollsson bjó að Kleifum í Gilsfirði. Þórálfur Bjarnarson bjó að Skriðinsenni. Hann var félítill og var þó vinur og þingmaður Hafliða Mássonar.
Ingimundur prestur Einarsson Arasonar, hann bjó á ættleifð sinni á Reykjahólum. Hann var vinsæll maður og þó nokkuð févani og var þó bæði ör af peningum og hið mesta stórmenni í skapi sem ætterni hans var til. Hann var skáld gott og að mörgu hinn mesti mætismaður. Hann var enn frændi Þorgils Oddasonar og hann hafði gefið honum Reyknesingagoðorð og var þeirra frændsemi allgóð. Ingimundur var fræðimaður mikill og fór mjög með sögur og skemmti vel kvæðum og orti, góð kvæði gerði hann sjálfur og þá laun fyrir utanlands. Hann var og góður viðtakna er vinir hans sendu honum vandræðamenn og sendi jafnan vel sér af hendi.
Hrólfur hét maður er bjó á Skálmarnesi undir Múla. Hann var vinur góður Þorgils Oddasonar og var þingmaður hans, lagamaður mikill og fór mjög með sakir. Hann var og sagnamaður og orti skipulega, vel fjáreigandi og átti gott bú.
Þórður hét maður. Hann bjó í Hvammsdal og átti það land Þorgils Oddason. Þórður var félítill og var kallaður Rúfeyjaskáld af því að hann hafði þar lengi verið áður.
Skip það stóð uppi í Dögurðarnesi er átti Bergþór Másson. Hann seldi Má son sinn til fósturs Þórði og óx Már þar upp og þá illa góðan viðurgerning. Og að nestlokum vinnur Már á Þórði fóstra sínum mjög og hleypur síðan til Hafliða Mássonar frænda síns og tók hann við honum. En Þorgils fer með eftirmálið og er því löng frásögn um málaferli þessi og tilganga og er þetta sagt upphaf mála þeirra Þorgils og Hafliða Mássonar.
Maður sá fæddist upp í Breiðafirði er Ólafur hét og var Hildisson. Faðir hans varð sekur skógarmaður en sveinninn var færður til féránsdóms og ger að fjórðungsómaga og héraðfara um Breiðafjörð og fer svo fram uns hann var tólf vetra. Hann var heldur óvænn maður, nokkuð kjötvaxinn, hærður vel og féll mjög hárið í lokka. Þá var hann talinn af þessari vist og var þá löngum með Þorgilsi á Staðarhóli. En þessi Þorgils var fimmti eða sétti maður frá Geirmundi heljarskinn. Hann átti fátt í fémunum, hross nokkur átti hann og var óhraklegur að klæðum, eina fatakistu og öxi mjög góða.
Hann leitar þá við Þorgils hvert ráð hann sæi fyrir honum liggja. Hann svarar, kvað það vænst að hann færi norður á Strandir og aflaði þar fjár, sagði það margra manna siðvenju. Síðan fór hann norður á Strandir með gagn sitt og kemur niður í Ávík til Hneitis.
Þess er enn við getið að Már Bergþórsson vekur til við Þorstein ef hann mundi vera á skipi með honum: Þú ert maður hægur viðureignar en þyrfti eg þess manns mest.
Hann sagði: Eg hefi lengi verið með Hneiti og hefir mér vel geðjast og er mér vanbreytt um það.
Már segir, kvaðst og ætla að hann mundi vel til hans gera og sækir mjög eftir og þar kemur að Þorsteinn neitar eigi skipvist með Mávi. Þá skorar hann til mjög ef Hneitir legði leyfi til að Þorsteinn réðist frá skipi hans og í sveit með honum.
Hneitir sagði: Þykir honum einsætt að skilja við mig?
Már svarar: Það lætur honum nú að honum þykir það ekki síður hent.
Hneitir sagði hann ráða mundi og skilja að því.
Ólafur Hildisson vekur til við Hneiti ef hann mætti vera á hans skipi. Hann sagðist hafa ráðið nóga menn og vísar honum til Más.
Ólafur svarar: Það sem okkur hefir að orðum orðið þá verður mér sá maður torsóttur. Vildi eg nú að þú vektir til fyrir mína hönd.
Hann hét því og vekur síðan til við Má ef hann vildi taka við Ólafi. Már lést vilja tala við manninn áður hann héti honum skipun. Síðan kemur Hneitir máli þeirra saman og ræðir Ólafur til skipunar við Má.
Már fréttir: Hvar eru veiðarfæri þín eða vistir? Er það siður manna að fá sér slíka hluti áður sér taka skipun.
Hann sagðist ekki hafa þeirra hluta. Már segist ekki munu við þeim mönnum taka er svo fólslega hafa búið sína ferð, kveðst og þann veg á hann lítast sem hann mundi glæpamaður nokkur vera. Hneitir átti nú hlut í að hann varni honum eigi skipunar en hann ráði mjög fyrir kostum sjálfur. Már sagðist eigi mundi við honum taka nema hann ynni honum allt og hann réði kaupi hans og þann kost tekur Ólafur upp og réðst hann í skip með Mávi.
Það er sagt um sumarið að Ólafur er óslyngur við allt sem hann átti að gera enda þiggur Már illa. Verður oft þeirra í millum að standa um sumarið. Kemur þar svo að Ólafur svarar illa. En þó fá þeir mikið fang og koma í Ávík að hausti til Hneitis bónda.
Þá vekur Ólafur til hvað hann skyldi til kaups hafa. Már kvað hann ekki hafa munu og kvað hann til einskis unnið hafa. Ólafur kvaðst oft hafa góða menn heimsótt og kvað öllum hafa vel til sín orðið öðrum en honum og kvað hann í mesta lagi úr sinni ætt, sagði engan mundi jafnilla til sín orðið.
Heyr þar á endemi, sagði Már, og eru það mikil firn ef eg skal taka af þér ill orð.
Síðan tekur Már allt upp fyrir Ólafi er hann átti í fémunum, bæði kistu hans og klæði og svo vopn hans sem annað. Ólafur sagði Hneiti til svo búins. Hann sagði að Már mundi það eigi gera vilja og ræddi Hneitir til við Má að hann láti rakna fémuni hans og kistu, segir þó hlut hans yfrið harðan að hann missi kaupsins. Már kvað eigi tjá mundu hans umræðu um þenna hlut. Hneiti þótti verr og skilja við það.
Litlu síðar sagði Hneitir Mávi að vistir hans mundu þar ekki verða lengur að hans leyfi. En það var raunar að Hneiti þótti Már gera of margtalað við dóttur sína. Már kvaðst eigi hirða hvað þeir búkarlar ræddu þar á Ströndum um vistir hans og lést þar mundu öngvan gaum að gefa.
Ólafur Hildisson fer á burt úr Ávík og hefir misst alls fjár síns. Hann kemur í Saurbæ á Staðarhól og var það kveld er hann kom á Staðarhól ósvást veður og situr Þorgils bóndi við eld og húskarlar hans.
Ólafur kemur inn og sér Þorgils manninn og kennir og býður honum þar að vera, lætur nú Þorgils vita að hann selt hefir vopn sín og klæði. Munum vér ekki annars staðar, segir Þorgils, þurfa veiðiskap að kaupa en að þér.
Verr er en því sæti, segir Ólafur. Hann er þar um nóttina og segir Þorgilsi vandræði sín og biður hann ásjá. Þorgils lætur hann þar vera og biður húsfreyju fá honum klæði nokkur. Og þá leitar Ólafur eftir hvert ráð Þorgils legði helst til með honum. Hann sagði að honum hæfði að leita eftir við Má að hann næði fé sínu.
Ólafur sagðist þess ófús og vænti eg þar illra orða.
Þetta er þó mitt ráð, að þú leitir eftir sæmd þinni. En það sé eg að þig skortir vopn.
Og fékk Þorgils mikla öxi í hönd honum og sagði: Eigi værir þú óflugumannlegur, sagði hann.
Og skilja að því og fer Ólafur norður uns hann kemur í Ávík. Það var ekki síð dags. Hneitir var eigi heima en húsfreyja sat á palli og gengur Ólafur á pallinn til húsfreyju. Hún frétti tíðinda. Már lá utar í bekk og hafði lagt höfuð sitt í kné Rannveigar dóttur Hneitis bónda. Hann settist þá upp er hann heyrði til Ólafs og hafði annan fótinn niður fyrir bekknum. Hann var í loðkápu.
Ólafur snýr að pallinum utar fyrir Má og spyr: Hversu máttu Már eða hve líkar þér?
Hann sagði: Hvað mun þig undir vera? Fyrir það mun þér ganga sem eg megi illa og mér líki og illa.
Síðan mælti Ólafur linlega til ef hann mundi vilja bæta honum fyrir fjárupptökuna og mælti til vel. Már svarar illa og sagði ekki mundi tjá um orð né tillögur Þorgils Oddasonar. Síðan höggur Ólafur til Más og verður það svöðusár og eigi beinhögg.
Síðan gengur Ólafur út en Már vill hlaupa eftir honum. Þorsteinn hleypur upp og heldur Mávi og þægir honum í bekkinn. Már verður ákaflega óður við og lést mundu Þorsteini slíkan vilja velja ef hann bannaði honum að hefna sín en Þorsteinn gaf öngvan gaum að orðum hans. Þá eggjaði Már sonu Hneitis út ganga og hefna sín en móðir þeirra hélt þeim þegar þeir hlupu út svo að þeir stofnuðu eigi til þessa vandræðis.
Ólafur fór nú leiðar sinnar en þær konurnar bundu sár Más. Hann þiggur það illa. Og litlu síðar sprettur Már upp og að Þorsteini og vegur hann og hneig Þorsteinn í faðm móður sinnar. Nú kom Hneitir heim og rak þegar Má í burt og kvað margt illt af honum standa.
Það mun og nú vera að sinni, sagði Már, en lítinn gaum væntir mig að eg geri að orðum þínum um það.
Síðan fór Már á fund Hafliða frænda síns og sagði honum víg Þorsteins og þar að allan atburð eftir því sem málavöxtur stóð til. Hafliði lét illa yfir verkinu og kvað Má lengi hafa verið mikinn ónytjung og kallaði slíka menn helst mega heita frændaskömm.
Nú er þar til máls að taka að Hneitir bóndi úr Ávík fer til fundar við Hafliða Másson.
Hafliði tók vel við Hneiti og sagði að hann vildi bæta óhapp bróðursonar síns og lést gjalda mundu fyrir víg Þorsteins tíu hundruð þriggja alna aura eða ella fylgi mér til handa liði hans og mun eg annast, eða að öðrum kosti taktu við fé og ómegð. Hneiti líkar vel ummæli Hafliða og dvelst þar nokkurar nætur. Í annan stað er að segja frá því að sá maður kom til fundar við Má er Hrafn hét og var kenndur við móður sína og kallaður Finngerðarson, mikill og sterkur og ódæll og hinn mesti illhreysingur.
Þeir bera ráð sín saman og mælti Már: Hvað vildir þú helst fyrir þínu ráði sjá?
Hrafn sagði: Það væri mér skapfelldast að vera með þeim mönnum er ódælir væru og kynstórir og veita þeim eftirgöngu.
Már mælti: Slíkir menn væru mér vel hentir sem þú ert.
Hrafn sagði: Það verður yður stundum að þér látið mikillega en þegar er ríkra manna orð koma til yðar þá eruð þér þegar limhlaupa.
Már sagði: Vel er slíkt mælt en eigi ætla eg það enn heldur fyrir mér.
Þeir fara nú til Ávíkur báðir saman og bjuggu þar búi Hneitis meðan hann var heiman og gera það ráð að Már leggst með dóttur bónda en Hrafn með húsfreyju hans.
Hneitir fréttir nú hvað þeir hafa til tekið. Hann bregður við skjótt og fer heimleiðis snúðigt og þó leynilega og vill stræta þá árdegis heima, voru saman nokkurir menn.
En þá er Már veit að Hneitir mundi heim koma þá hefir hann vörðu á sér og biður þann sama morgun er Hneitis var heim von að þeir skyldu standa upp og bíða hans eigi heima, ganga síðan til árinnar. Hún var opin ofan eftir miðju en höfuðísar að utan. Már hleypur yfir ána því að hann var bæði knár og fótmjúkur og jafnt í því er Hrafn vill eftir honum hlaupa koma þeir Hneitir að og höggur hann Hrafn framan á þjóhnappana og fellur hann við sárið áfram. Síðan taka þeir hann og flytja til lækningar.
Már fer nú leiðar sinnar til þess er hann kemur til Jörundar í Oddbjarnareyjar og lætur góðvættlega, biður Jörund þar viðtöku og tók hann við honum. Og þá biður Már að þeir skyldu sækja eftir gagni hans í Ávík. Jörundur kvaðst öngva óþekktarför vilja fara til Hneitis bónda. Már sagði að þeir væru sáttir.
Síðan fer Jörundur með Mávi og koma til Ávíkur snemma morguns.
Már mælti til Jörundar: Nú mun eg ganga inn en þú bíð mín úti.
Már gengur inn. Hneitir hvíldi og spyr hver þar gengi og eftir málinu höggur hann Már. Hneitir sprettur upp og tók í hönd sér trékefli og hleypur á gólfið en Már höggur í tréið og kippast þeir um lengi.
Þá kallaði Már: Skömm er þér það Jörundur að fara svo með manni að standa hjá en menn vinna á mér.
Síðan hleypur Jörundur inn og höggur Hneiti banahögg.
Eftir það ganga þeir út og þá mælti Már: Þú ert glæpamaður mikill og óhappafullur, drepið saklausan mann, góðan bónda. Geri eg betur en ekki, er eg drep þig ekki og vertu á burt sem fljótast en eg mun sækja á fund Hafliða frænda míns.
Jörundur fór til skips síns og er það frá honum sagt að veður kemur að honum og týnist hann.
Már fer á fund Hafliða og segir honum hvað í hafði gerst. Hann telur margt illt af honum standa og kallaði hann mjög segjast úr sinni ætt en fyrir frændsemis sakir þykist hann eigi mega skiljast við hans mál.
Þorgils Oddason átti för norður á Strandir sem oft var vandi hans til.
Björg og synir hennar fóru á fund Þorgils og biðja hann líta á sín mál, nenna nú eigi að sækja á fund Hafliða, mest fyrir því að Már var þar fyrir og þótti sér vera skapraun í því. Þorgils kvað sér ekki vera skylt að sjá á það mál er hlut áttu í þingmenn Hafliða. Hún sækir eftir mjög.
Og er Þorgils sér það þá segir hann að henni muni harðir einir kostir á gervir því að ekki mun auðsótt þykja að sækja Hafliða málum. Eg mun gjalda tólf hundruð vaðmála fyrir víg Hneitis en eg mun það hafa er af fæst af málinu við þá Hafliða.
Og á það sættast þau.
En er Hafliði fréttir þetta þá þykir honum málið verr snúist hafa en hann vænti, sagði þetta öngva sæmd fyrir víg Hneitis og kallar þau gert hafa vandalaust til sín og kvaðst meiri sæmd hafa þeim fyrir hugað fyrir víg Hneitis.
Þorgils býr mál þetta til alþingis. Hafliði býr og mál til á hendur Ólafi Hildissyni. Hann var þá með Þorgilsi á Staðarhóli. Og ríða þeir Þorgils og Hafliði báðir til þings með þenna málatilbúnað.
En áður Þorgils ríður heiman sendir hann Ólaf suður á Eyrar til handa þeim manni er Árni hét og var kallaður fjöruskeifur. Hann hafði verið heimamaður Þorgils um veturinn. Hann átti þar skip uppi standanda og sá maður annar er Hermundur hét Þorvaldsson, bróðir Þórðar í Vatnsfirði. Þeir höfðu báðir verið í útförum með Jórsala-Sigurði og voru þeir síðan félagar. Og sendir Þorgils Árna orð til að hann flytti Ólaf utan.
Eg þykist glöggt sjá, segir Þorgils, hversu mál þetta mun fara. Þú munt verða sekur en eg mun leita um sættir og bjóða fé til farningar þér.
Snorri hét maður er kallaður var Mág-Snorri. Hann bjó í Saurbæ fyrir Múlanum neðra. Hann átti Hallberu dóttur Snorra Þórðarsonar Sturlusonar, bróðurdóttur Þuríðar er átti Hafliði Másson. Grímur hét son þeirra, ungur og seinlegur. Snorri átti vel fé og hafði selför í Svínadal þar sem nú heita Snorrastaðir. Hann drukknaði í Sælingsdalsá þar sem nú heitir Snorravað. Þá fór Sighvatur Úlfsson mágur hans að leita líksins og þeir fimm saman og tók þá snæskriða og fórust þeir þar allir.
En er Ólafur fór af Staðarhóli og suður til Eyra þá tók hann hest fyrir Snorra frá Múla því að hann nennti illa að ganga og ríður uns hann kemur til fundar við Árna og tekur hann við honum og lætur hann vera þar á laun.
Nú eru menn Þorgils komnir til þings og er leitað um sættir milli þeirra höfðingjanna og segir Þorgils að hann vill þessu máli eigi með kappi fylgja og kvaðst meira hafa gert fyrir úrlausna sakir og bænastað frændanna. Hafliði tekur og svo upp og svarar að eigi mundi varnað bótanna og dregur þó hvortveggi sitt mál mjög fram, Þorgils um víg Hneitis, góðs bónda og frænda síns, en Hafliði um áverkana við Má. En þó verða þessi málalok að í sætt var slegið og skulu þar gjaldast þrír tigir hundraða fyrir víg Hneitis en níu hundruð fyrir áverka við Má og sekt Ólafs slík að hann skal leita við utanför þrjú sumur og varða eigi bjargir hans. Hann skyldi vera sýkn í förum með Þorgilsi og í landeign hans en sekur fullri sekt annars staðar.
Hafliði greiddi Þorgilsi fé sem ákveðið var fyrir vígsgjöld eftir Hneiti.
Þá voru kveðnar vísur þessar:
2.
Varð Hafliði hundruð
happvísum Þorgísli,
sá var vegs né vægðar
valdr, þrjátigi gjalda.
Sátt var sögð á sumri
slík meðal göfgra ýta,
hlaut Odda sonr aura
ítr að Stranda-Hneiti.3.
Varð hundraða af höndum
hring-Baldr tugu gjalda,
djarfr sást Odda arfa
enn Hafliði, þrenna.
Játti slíkum sáttum
sveit eft Stranda-Hneiti,
afreks kunni að unna
alvísum Þorgísli.4.
Lét Hafliði af höndum
Hneitis gjöld á Ströndum.
Drótt var Odda arfi
áðr að miklu hvarfi.
Reyndist seggr hinn svinni,
slíkt hefir öld í minni,
óð geri eg oft með sanni,
að ágætismanni.
Nú er að segja frá því að þeir kaupmennirnir bjuggust á Eyrum og Ólafur Hildisson var þar á laun með Árna fjöruskeif. Þeir báru út um daginn vöru sína. Ólafur gengur út á skip með vöru sína og hafði hött síðan á höfði.
Hermundur stýrimaður getur að líta manninn og snýr að honum og spyr: Hver ertu?
Honum verður stans að svara.
Hann segir: Ert þú eigi Ólafur Hildisson? og hleypur að honum og hrindir honum af bryggjunni á kaf, og verða aðrir menn að bjarga honum, og fyrirkveður honum farningina. Og verður þeim stýrimönnum þetta að sundurþykki en þeygi rjúfa þeir skipun sína og sigla á haf út.
En Ólafur situr eftir og fór vestur til Þorgils og tekur hann við honum. Þetta spyrst nú um héruðin að Ólafur er með Þorgilsi og situr á Staðarhóli.
Már Bergþórsson er með Hafliða. Hann fer heiman vestur til Saurbæjar og slæst í ferð með þeim mönnum er fóru til sölvakaupa og hefir Már frétt af um athafnir Ólafs og situr um ef ferðir þeirra bæri saman.
Þorgils fréttir til ferða Más og skipar fyrir sér erindum hans og mælti síðan til Ólafs: Hvert ráð muntu taka nú Ólafur? Eg hefi spurt að Már fór norðan með þessum mönnum en hann er hvergi til bæja kominn og mun hann sitja til hefnda við þig.
Ólafur mælti: Eg mun þínum ráðum fram fara.
Þorgils mælti: Hér eru blautar mýrar hjá garði sem þú veist. Þangað sendi eg þig með ljá að rista torf og er þeir sjá þig munu þeir þykjast hafa ráð þitt í hendi. En vera má að leiðin verði eigi svo greið sem þeir ætla.
Ólafur gerir svo en Þorgils sendir því nær alla karla af bæ og lætur það spyrjast og svo athöfn Ólafs og egndi þann veg veiðina fyrir þeim Mávi.
Nú frétta þeir Már þetta að ekki var karla heima á Staðarhóli en Ólafur væri á leið þeirra.
Þá mælti Már: Vera má að oss gefi nú í veisluna.
Og ríða þeir á mýrina að Ólafi og liggja hestarnir drjúgt í mýrinni og fórst þeim seint og ógreitt. Ólafur víkur heim til bæjarins en þeir vildu eftir ríða. Í því kemur heiman frá Staðarhóli fjöldi kvenna gyrðar í brækur og höfðu sverð í hendi. Þeir Már fóru þá af baki og ætluðu að henda Ólaf á hlaupi er hestunum mátti eigi við koma. Og er konurnar komu heiman snúa þeir undan og vildu til hesta sinna og náðu eigi, komust á hlaupi undan og áttu fótum fjör að launa.
Þorgils lætur gefa að þeim öngvan gaum þaðan frá og fara þeir uns þeir komu norður til Hafliða og lítt erindi fegnir.
Hafliði lét illa yfir för þeirra og kvað þess von að Már mundi eigi hafa gæfu við Þorgils og ger þína för aldrei heiman slíka síðan.
Líða nú af misserin og kemur annað sumar og er ekki getið að Ólafur leiti til utanferðar.
Yngvildur Þórðardóttir bjó í þenna tíma vestur í Ísafirði. Hún var auðug að fé og virðingakona. Bóndi hennar var andaður og áttu þau tvær dætur. Hét önnur Helga en önnur Hallfríður. Þetta vor hið sama réðst hún vestan á Reykjahóla til Ingimundar prests og gera þau félag sitt.
Ingimundur var sonur Einars Arasonar, systrungur Þorgils Oddasonar. Ingimundur var hið mesta göfugmenni, skáld gott, ofláti mikill bæði í skapferði og annarri kurteisi, hinn mesti gleðimaður og fékk sér allt til skemmtunar. Hann var hinn vitrasti maður og hélt sér mjög til vinsælda við alþýðu. Hann var og mikils virður af mörgum göfgum mönnum. Og þá er Einar faðir Ingimundar andaðist þá gaf Ingimundur Þorgilsi frænda sínum Reyknesingagoðorð sem fyrr var ritað og var þeirra frændsemi allar stundir góð meðan þeir lifðu báðir.
Um sumarið biður sá maður Helgu dóttur Yngvildar er Ólafur hét og skyldu þau ráð takast. Skyldi veislan vera á Reykjahólum um Ólafsmessuskeið um sumarið. Ingimundur og Yngvildur vildu bjóða fyrstum til þessarar veislu Þorgilsi Oddasyni. Síðan bauð Yngvildur Þórði Þorvaldssyni úr Vatnsfirði. Hrólfur að Skálmarnesi var og að þessari veislu og margt annað gott mannval en þó voru Þorgils og Þórður mestir virðingamenn komnir.
Nú er mönnum í sæti skipað og situr Þorgils á annan bekk með sveit sína og Ingimundur prestur en Þórður á annan bekk gagnvart Þorgilsi.
Þórður mælti við förunauta sína: Þann veg segir mér hugur að nokkuð verði það að þessari veislu að eg mundi mig nú heldur vilja annars staðar kjósa að þessari mannaskipun sem hér er fyrir. Og gjarna vildi eg heldur sitja heima í Vatnsfirði ef eg hefði tvö ráð úr einu og kann eigi að vita nema hér séu nokkurir fyrir óvinir vorir og þætti mér allt betra undir mér að eiga en þeim.
Förunautar hans sögðu: Miklu eru hér fleiri góðir menn saman komnir en hér muni nein flærð eða svæla til nokkurs manns ger. Mun og eigi annar maður meiri virðingarför hingað fara en þú, annar en Þorgils Oddason. Eru og fyrirmenn þessarar veislu eigi annars manns vinir meiri en þínir.
Þórður kvað það svo vera og gerir sig nú glaðan.
Eftir það fara borð fram og er bæði setið þröngt á bekkjum og forsætum. Þar voru tilföng bæði góð og gnógleg og gengu ósparlega. Skorti og eigi drykk góðan.
Þá ræddi Ingimundur prestur að Þorgils skyldi mæla fyrir minnum en hann veik til Þórðar og bað hann ráða hvert minni fyrst væri drukkið. Þórður var þá kátur vel og mælti við Ingimund prest að nokkur vildismanna ætti að hefja gildið en kvaðst undir mundi standa með þeim um hverja gleði er þeir vildu fram hafa. Drukku nú glaðir og fær á þá brátt drykkurinn.
Þórður var ekki mikill drykkjumaður, nokkuð vangæft um fæðsluna sem oft kann að verða þeim sem vanheilsu kenna því að maðurinn var þá á efra aldri og var þó enn hraustur en kenndi nokkuð innanmeins og var því ekki mjög matheill og nokkuð vandblæst að eta slátur því að hann blés svo af sem hann hefði vélindisgang og varð þá nokkuð andrammur. Þórður var mikilleitur maður, eygður vel og lágu vel augun, framsnoðinn og strýhærður, sá upp mjög og riðaði lítt að.
Þeir drukku nú ákaft og fær á þá alla nokkuð. Gerast nú málgir og má kalla að hver stingi annan með nokkuru hnýfilyrði og er þó fátt hermt af þeirra keskiyrðum í þessari frásögu.
Þess er getið að Ingimundur prestur laut að sessunaut sínum og mælti við hann svo sem hinn spyrði:
5.
Hvaðan kennir þef þenna?
Þórðr andar nú handan.
Og verður að hlátur mikill og er næsta ger að þessu gys mikill.
Og er því léttir þá kveður Þórður í mót:
6.
Andi er Ingimundar
ekki góðr á bekkjum.
Og af þessum áaustrum tekur heldur að grána gamanið og koma kviðlingar við svo.
Þá var þetta kveðið til Þórðar:
7.
Rírar í barka
ríkismanni.
Glitar skallinn við
á goða yðrum.
Hér hlær Þórður mjög að þessum kveðlingi og kveður þegar í móti:
8.
Vaxa blástrar
á bekk þaðan.
Raunillr gerist þefr
af ropum yðrum.
Þorgils brosti nú að en lagði aldrei til um áköstin. Ingimundur mælti að nokkur þeirra bekkjunauta skyldi sjá í móti við Þórð.
Þá var þetta kveðið:
9.
Það er válítið
þótt vér reptum
búðunautar
af bolakjötvi.
Reptir Þórðr
Þorvaldssonr
Kjartanssonar
af kana sínum.
Þórður lítur eftir kveðlingi þessum og þótti honum mjög bera hljóðið þar yfir sem maður sat á forsætinu mjög þreklegur og allvel hærður. Þórður heimtir þá húsfreyju á tal við sig og spyr hver sá sé lokkamaðurinn sem situr á forsætinu á bekk Þorgils og vísar henni til.
Hún svarar: Það er Ólafur Hildisson.
Þórður mælti: Eigi munum við báðir sitja að veislu einni lengi og sendu hann í burt á annan bæ ellegar munum vér ríða á burt.
Hún svaraði seint og mælti svo: Sæmd þykir oss að hérvist þinni og eigi kann eg það að mínu ráði að sjá að kveðja á burt förunauta Þorgils. Og mun Ólafur öngva skapraun yður gera í orðum sínum.
Nú verða aðrir menn nokkuð áheyrsla hjals þeirra og spyr Þorgils eftir hvað þau eigi að hjala en hún segir honum og biður Þorgils með vægð að hann léti Ólaf í burt fara að yrðu eigi beinaspjöll.
Þá svaraði Þorgils: Svo var Ólafi sýkn mælt að hann skal sýkn með mér en sekur ef væri annars staðar. Því mun eg öngvan senda minna manna til bana. En Þórður geri um burtreið sína sem hann vill en Ólafur mun hvergi fara og munum vér láta vel vært við Þórð.
Þá stígur Þórður undan borði og blés við mæðilega en mælti ekki.
Þá var þetta kveðið:
10.
Æsti upp úr brjósti
átfang um dag langan
bryðju bessa niðja
billings hviðu illa.
Allt tók sér þá er særir
sóttlinna blés innan,
þjóð óx þefr í búðum
þingheimr of nef fingrum.
Ekki er þess getið að Þórður andæfði þessari vísu og gengur hann og allir hans menn á burt og eru þeim greidd vopn sín og klæði og ríða þeir á burt og á annan bæ um nóttina.
En þá er Þórður gekk út þá var þetta kveðið af einhverjum:
11.
Goðinn repti svá
er gengum hjá,
stóð á hnakka hý
hver maðr kvað fý.
Er svo sagt að Þórður væri út leiddur með þessum kveðlingi en eigi er getið að neitt yrði af gjöfum við hann.
En Þorgils situr nú eftir og förunautar hans og svo brúðgumi og boðsmenn og þykir þeim förunautum Þorgils næsta íbroslegt um burtreiðina þeirra Þórðar.
Þar var nú glaumur og gleði mikil og skemmtan góð og margskonar leikar, bæði dansleikar, glímur og sagnaskemmtun. Þar var sjö nætur fastar og fullar setið að boðinu af því að þar skyldi vera hvert sumar Ólafsgildi ef korn gæti að kaupa, tvö mjölsáld á Þórsnessþingi og voru þar margir gildabræður. Á Reykjahólum voru svo góðir landskostir í þenna tíma að þar voru aldrei ófrævir akrarnir. En það var jafnan vani að þar var nýtt mjöl haft til beinabótar og ágætis að þeirri veislu og var gildið að Ólafsmessu hvert sumar.
Frá því er nokkuð sagt, er þótti lítið til koma, hverjir þar skemmtu eða hverju skemmt var. Það er í frásögn haft, er nú mæla margir í móti og látast ekki vitað hafa, því að margir ganga duldir hins sanna og hyggja það satt er skrökvað er en það logið sem satt er. Hrólfur af Skálmarnesi sagði sögu frá Hröngviði víkingi og frá Ólafi liðsmannakonungi og haugbroti Þráins og Hrómundi Gripssyni og margar vísur með. En þessari sögu var skemmt Sverri konungi og kallaði hann slíkar lygisögur skemmtilegar. Og þó kunna menn að telja ættir sínar til Hrómundar Gripssonar. Þessa sögu hafði Hrólfur sjálfur saman setta. Ingimundur prestur sagði sögu Orms Barreyjarskálds og vísur margar og flokk góðan við enda sögunnar er Ingimundur hafði ortan og hafa þó margir fróðir menn þessa sögu fyrir satt.
Á því sama hausti keypti Þorgils Oddason Múlaland að Grími Snorrasyni og móður hans og með því fé kaupa þau Tunguland í Svínadal og búa þó í sama stað þau misseri.
Nú takast leikar upp margir í Bænum og sækir Grímur leik á Staðarhól og eigast þeir leika við oft Ólafur Hildisson og Grímur Snorrason. Ólafur var góður leikmaður, harðleikinn og kappsamur en Grímur var eigi aflmikill og linur og ákaflega sækinn. Verður hann því oft vanhluti og hraklegur fyrir Ólafi og leggja þeir á ofan gár og gys. Grímur ræðir að þeim væri það lítilmennska að gera hann að athafnarmanni og gera leik til hans. Þeim þótti þess að broslegra og réðust öngvar bætur á að heldur.
Þá fer Grímur heiman og suður yfir heiði í Sælingsdalstungu. Þar bjó Már prestur Þormóðsson frændi hans og Hafliða Mássonar og sagði Grímur honum hvað títt var.
Már bauð Grími með sér að vera um jólin og mælti: Eg mun fara norður á bak jólum til Hafliða frænda míns og far þú þá með mér norður þangað og segðu honum þá til vandræða þinna.
Þetta þekkist Grímur og er hann þar fram um jól og fara síðan norður bak jólum og koma nú til Hafliða og eru þar góðar viðtökur. Var þar mannfjöldi mikill og gleði og glaumur.
Þeir áttu oft hjal sín í milli Hafliði og Már prestur og þá er þeir bjuggust í burt leiddi Hafliði þá á götu og mælti vel við þá að skilnaði. Þá spurði Már Grím hversu honum hefði þar hugnað.
Hann lét vel yfir. Og hér hefi eg svo verið, segir Grímur, að mér hefir best þótt og vel væri sá maður kominn er hér skyldi lengi vera. En fleira ætlaði eg að mæla við Hafliða en orðið hefir.
Hverf þú aftur þá, sagði Már, og mæl við Hafliða slíkt er þér sýnist af því að hann tók ávallt vel þínu máli.
Grímur hvarf þá aftur og kallar á Hafliða og veik hann aftur á móti honum og fagnar honum og segir Grímur að hann vill ræða við hann og setjast niður og sagði Grímur hvað þeir ættu um að vera vestur þar í sveitunum og það með að honum hugnaðist eigi, kveðst því hafa þangað sótt erfiðlega um langan veg að hann vænti fyrir frændsemis sakir þar nokkurrar ásjá, sagði öngvan sér veita slíkan ágang sem Ólaf Hildisson.
Skil eg hvað þú segir, kvað Hafliði, en ekki vil eg eggja þig fram til ónýtra hluta. En halda mun eg þig sem son minn hvað sem þér berst á hendur.
Síðan stígur Grímur á hest sinn og biður Hafliða vel lifa. Kemur Grímur heim vestur í Saurbæ. Og nú taka þeir að gabba hann og segja að hann hafi hlaupið undan leikum og þorað eigi við að verða. Hann gefur að því öngvan gaum. Og líður á fram á langaföstu.
Þorgils átti heimanför og ræðir við Ólaf, segir að hann vill að Ólafur sé jafnan heima því að það mun þá nokkuð vandara en þá er eg er heima. Þú skalt og einnig geyma hrossa minna. Hann sagði og sín heim von í efstu viku föstu.
Líður nú sú stund og kemur Þorgils eigi heim. Ólafur vinnur heima á bænum sem honum var boðið.
Það er sagt þá er kemur að dymbildögum, þá sækja menn þangað fjölmennt tíðir skírdagsmyrgin.
Grímur var þar kominn og gekk að honum Ólafi eftir náttsöng og mælti: Skaltu nokkuð geyma hrossa Þorgils? Nú eru þau í voru landi og er engi gaumur að gefinn.
Ólafur svaraði: Við mig mun það metið og eg skal og eftir fara.
Ganga síðan báðir saman og hefir Ólafur öxi í hendi en Grímur staf.
Þá mælti Ólafur: Óvarlega fer eg nú er eg geng einn saman úti á nóttu með þér en með okkur er heldur ótrútt og veit eigi hvar manni mætir eða hverju heilli út gengur.
Grímur svaraði: Ekki er nú hættlegt um. Eg hefi sprota í hendi en þú hefir öxi og það hefi eg á fundið þó að við værum jafnt til búnir að þér mundi við ekki glíkt víglegir þykja.
Ólafur svaraði: Við skulum það nú niður leggja er menn eiga saman í leikum og eru nú þær tíðir að ekki þarf á slíkt að minnast.
Fara nú báðir saman til Laxár og hefir þar fjöldi hrossa gengið um veturinn á mýrunum. Vill Ólafur henda hross Þorgils og vill slá beisli við hestinn en Grímur safnar að hrossunum öðrum og á götuna. Hesturinn gerist órór er hann sér önnur hrossin og fær Ólafur varla haldið hestinum og hrýtur öxin úr hendi honum. Þá gengur Grímur þangað að og þrífur upp öxina og veitir Ólafi banasár og ríður heim síðan og þykist nú það fyrir sjá að ekki muni þarvist hans mega vera lengi og fer hann þegar af skyndingu norður yfir heiði til Bitru og svo til Hrútafjarðar og kemur þvottdaginn fyrir páska til fundar við Hafliða og tekur hann við honum vel.
Og eftir páskaviku sendir Hafliði Grím austur í fjörðu í Hofsteig til Finns Hallssonar lögsögumanns. Hann hafði átt Halldísi dóttur Bergþórs Mássonar bróður Hafliða. Og kemur Finnur honum utan. Og þá er Grímur kemur út staðfestist hann austur þar í fjörðunum og þótti vera mannhafnarmaður og var veginn af húskarli sínum.
Nú er það sagt að lík Ólafs var heim flutt og tjaldað yfir í kirkjugarði.
Og um daginn ríður Þorgils sunnan um heiði og tekur áfanga að Þórðar Rúfeyjarskálds í Hvammsdal. Þórður hafði ort kvæði um Þorgils og var eigi launað. Þorgilsi hafði gefin verið öxi góð og tekur Þórður til öxarinnar og lítur á og spyr hvað þeim þætti verð öxin en þeir urpu á tvær merkur.
Þórður kvað vísu:
12.
Metin er marka tveggja.
Mér þætti Svartleggja
góð ef grunlaus væri.
Getr vildri mér færi.
Og fagrslegin fála
fastleggs virði hála
semdi sjá fyr kvæði.
Sleppr mörgum fullræði.
Þorgils mælti að Þórður skyldi taka landsleigu undir sjálfum sér en hann sagðist eiga lóg til öxarinnar.
Og um daginn kemur Þorgils heim og eru honum sögð þessi tíðindi og lætur hann grafa lík Ólafs að kirkju.
Það er sagt að um vorið kemur sá maður til Þorgils er Ketill hét og skorar á hann til viðtöku og ásjá. Hann var vestfirskur og sekur.
Þorgils mælti: Þú munt verða fátt undir höfuð að leggja ef eg skal við þér taka.
Ketill mælti: Ef eg kveð nei við því er þú vilt fyrir mig leggja þá segðu mig þér afhendan. En enginn er eg giftumaður og mun oft verða þinnar gæfu við að njóta ef vel skal takast. Nú er hann með Þorgilsi um vorið.
Og einn dag um vorið mælir Þorgils til Ketils: Eg vil senda þig norður í Vesturhóp og far eigi erindleysu og setti Þorgils ráð fyrir hann að hann skyldi drepa einhvern mann fyrir Hafliða Mássyni.
Ketill mælti: Fara mun eg en eigi er eg sigurstranglegur, sagði hann.
Og þá var búin för hans og er ekki getið náttstaða hans fyrr en hann kemur norður í Vesturhóp til Hafliða Márssonar og ber upp erindi sín og vankvæði öll og segir að hann var sekur og hafði Þorgils eftirsjónir og skorar Ketill á hann til ásjá og viðurtöku og var hann þar og hugnar mönnum vel til hans.
Maður er nefndur Steinólfur. Hann var austfirskur að kyni og hafði verið ger sekur fyrir nokkurs konar illvirki austur þar í fjörðunum. Síðan strauk hann í brott og fór þá á fund Hafliða og tekur hann við Steinólfi og gerir hann sinn heimamann.
Og einn dag um vorið er þeim Katli og Steinólfi skipað til verks báðum saman og skyldu gera upp stekka og fara snemma dags heiman og hjala mart síðan og varast hvorgi annan. Og verður þá skilnaður þeirra sá að Ketill vegur Steinólf og fellir á hann stekksgarðinn og fer á brott síðan og lýsir vígi á hendur sér þar er honum var óhætt og fer síðan uns hann kemur heim á Staðarhól og segir erindi sitt. Og lætur Þorgils vel yfir hans erindi og kvað hann hafa vel farið.
Nú fer tveimur sögunum fram. Þá þykir þeim í Vesturhópi frestast heimkoma þeirra Ketils og Steinólfs um kveldið og er þeirra farið að leita og mælir Hafliði: Ef svo illa berst að, að þér finnið annan hvorn þeirra andaðan af mannavöldum, þá gerið þér ekki að honum fyrr en eg kem til og kann mart í mörgu að verða.
Og er nú fyrst farið að leita til stekkanna og finnst Steinólfur þar en ekki Ketill sem líklegt var.
Nú er sagt Hafliða og fer hann skjótt til stekkanna og lítur hann á og menn með honum og sjá að kemur höndin ber fram undan torfinu fram frá úlflið. Og þar leiðir Hafliði að votta að eigi sé hræið hulið og býr þetta mál til alþingis ef nokkuð skortir áður á fulla sekt Ketils.
Þorgils býr og mál til um vígið Ólafs Hildissonar svo sem hann væri sýkn maður og færir það til að honum væri sú sýkna mælt að hann skyldi sýkn í förum með Þorgilsi og í hans landeign.
Og eftir það fjölmenna nú mjög hvorirtveggju til þingsins og var leitað um sættir. En Hafliði kallar Ólaf sekjan hafa fallið og drepinn í annarri landeign en honum var sýkna mælt.
Þá innti Þorgils til þess hvort eigi væri sú sýkna Ólafi mælt að hann skyldi sýkn í förum með mér og í landeign minni.
Og svo er þá borið.
Þá mælti Þorgils: Hvað megið þér að því kalla Ólaf sekjan? Eg kalla mína landeign allt þar sem eg á lönd.
Hafliði mælti: Eg mun gefa Þorgilsi átta kúgildi fyrir metnuð hans og virðing og kalla eg gjöf en alls ekki gjald.
Og skilur það með þeim að öðrum þótti fyrir ekki að gjalda en öðrum þótti betra lítið gjald fyrir sökina en eiga gjöf að launa. Og þótti þar hvorum sín virðing við liggja hvort heldur væri það kallað og stóð það í milli að eigi urðu sáttirnar. Og skildust með því að þá þótti hvorum verr en áður.
Það er sagt, að Pétursmessudagsmorgun um þingið gengu flokkarnir allir til kirkju um messu um guðspjall og stóðu með vopnum fyrir framan kirkjuna og stóðu sínum megin kirkjudyranna hvorir. Hafliða flokkur stóð fyrir norðan kirkjudyr og þar var hjá Hallur Fáluson en fyrir sunnan kirkjudyr Þórður úr Vatnsfirði og hans sveitungar og þar suður frá Hallur Teitsson og margir menn með honum. En fyrir vestan kirkju gegnt kirkjudyrum stóðu þeir Þorgils Oddason og Böðvar Ásbjarnarson og þar voru margir flokkar hjá þeim.
Þá mælti Þorgils Oddason til Böðvars Ásbjarnarsonar: Taka mun nú öx mín til Hafliða Mássonar, sagði hann, og mun þá um meira að mæla en um átta kúgildi.
Böðvar mælti: Ær ertu, sagði hann og fékk nokkuð svo til hans og mælti harðlega til hans.
Þorgils mælti: Ekki em eg ær, sagði hann.
Þetta er satt, segir Böðvar. Fyrir hvað? sagði Þorgils.
Eigi lítur þú rétt á. Hygg að þú hvar vér erum komnir að þetta skal vera sættarfundur við guð er vér höfum á kirkjuhelgi sótt og biðjum oss miskunnar. Nú er í þessu og kirkjufrið raskað og er þetta fyrir þá sök ódæmaverk. Hitt er og annað að yfir stendur dagshelgurin er vér höfum alla hjálp af hlotið og sjálfur guð almáttigur lét sína mildi og miskunn svo mikla skína og birta á þessum deginum. Það er og til að telja að grið og friður er settur um þingið og þinghelgurin stendur yfir og er þetta fyrir því hið mesta lagabrot.
Og er þeir höfðu þetta við mælst þá heftist hann að því Þorgils og réð hann eigi til Hafliða.
Og er þeir gengu heim til búða þá mælti Þorgils til Böðvars: Það mæla menn að þú sért trúlaus mágur og meðallagi góðgjarn en eigi lýstir þú nú það.
Böðvar mælti: Það er og satt er þú segir og ekki gekk mér trúa til þess er eg latti þig tilræðis við Hafliða. Heldur hugði eg að fleira en að hjali okkru og sá eg að flokkarnir stóðu á tvær hendur okkur en vér vorum í kvínni og sá eg það ef þetta færi fram, að þegar mundi slá í bardaga og mundi hver vor félaga drepinn vera á fætur öðrum. En því sagði eg þér það eigi til að eg kunni skap þitt að því, að þú mundir engan gaum að gefa ef eg fyndi það til. En ef eigi væri það þá hirti eg aldregi þótt þú dræpir hann í kirkjufriði eða í þinghelginni.
Nú biðja þeir hvorirtveggju liðs til dóma og fjölmenna mjög hvorirtveggju eftir föngum. Þá tekur Hafliði öxi í hönd sér áður hann gengur frá búð sinni til dóma en það hafði ekki verið vandi hans fyrr að gera það því að hann réð nálega einn jafnan fyrir öllum málum við hverja sem að skipta var því að Hafliði var bæði fjölmennur og frændgöfugur.
Þá mælti kona hans Rannveig: Hvað er í þessu Hafliði, sagði hún, að bera nú vopn heldur en fyrr ertu vanur að gera? Og hald þú háttum þínum.
Hún var vitur kona og vel að sér um mart.
Hann svaraði nokkuð stygglega og kvað það ekki til hennar koma og kastaði að henni nokkurum orðum.
Þorgils gekk að dómum með miklu fjölmenni og hafði fram sökina um víg Ólafs Hildissonar. Þorgils var svo búinn að hann var í selskinnskufli yfir brynjunni utan og var gyrður í brækur og hafði öxi sína í hendi sér.
Þess er við getið að Þórð Magnússon í Reykjaholti dreymdi draum um þingið og var hann þó heima í Reykjaholti.
Honum þótti sem maður kæmi að honum og þóttist spyrja hvaðan hann væri kominn. Hann sagðist vera kominn af þingi. Þórður þóttist spyrja tíðinda. Hann sagði þingkvitt. Þórður þóttist spyrja ef nokkur deiluvænleg mál væru fram höfð á þinginu.
Það er helst nýlunda, sagði draummaðurinn, að einn maður hefir tekist á hendur að vinna í öllum búðum, sá er heitir Þórir dritloki.
Þórður réð svo drauminn að eigi mundu þar öll mál vel lúkast áður sliti þinginu.
Það er nú sagt þessu næst að Hafliði gekk að dóminum með fjölmenni miklu og vildi hleypa upp dóminum. En þeir Þorgils voru komnir þar í þröng mikla og er hún bæði löng og breið og réð hann ýmist aftur eða fram þröngina. Og þá er svo hefir gengið mjög langa stund dags þá eiga margir vitrir menn um að enn skyldi leita um sættir. Og enn býður Hafliði hin sömu boð sem fyrr hafði hann boðið. Og vildu nú menn til hlýða hvað mælt var og rýmir nú heldur nokkuð um þröngina. Þorgils lést eigi nema orð Hafliða og lætur hann reiðast þangað að er fáir menn voru í millum þeirra Hafliða. Og sér hann Þorgils hvar upp kemur öxin Hafliða og þá höggur Þorgils yfir öxl manni og kemur höggið á hönd Hafliða Mássonar við öxarskaftinu og af hinn lengsta fingurinn með öllu en í sundur köggulinn í hinum minnsta fingri og þeim er þar er í millum.
Og þá hlaupa menn í millum þeirra og verður Þorgilsi laus öxin þá er menn þröngdust að Hafliða. Þorgils þrífur þegar öxi mikla úr hendi manni einum í flokki Hafliða. Sá hét Þormóður og var kallaður læknir. Sá hinn sami Þormóður batt höndina Hafliða Mássonar og græddi hann svo að fingurnir lágu tveir upp í lófann en hann græddi fyrir stúf hins þriðja fingursins.
En þá er Hafliði hafði fengið áverkana þá sleit þinginu og gekk allur flokkur Hafliða heim til búðar.
Og þá er hann gekk inn í búðina og þar að sem sat Rannveig kona hans mælti hann svo: Oft hefi eg það reynt að eg er vel kvongaður og enn hefir þá raun á borið að þú ert allvitur kona og hefir þú nær forspá verið af því að eigi mundi eg fyrir þessum vansa orðið hafa ef eg hefði þín ráð haft.
Síðan var bundin höndin og gengið til Lögbergis. Eftir það var lýst áverkunum og beiddu þeir Hafliði að síðan skyldi færa dóma út í annað sinn og náðu eigi fleirum dómendum en í þeirra flokki höfðu verið og settu þeir þrisvar niður dómendur sína í dómsteinum og mátti aldrei dómurinn setjast. Og þá nefndi Hafliði votta að því að hann mátti eigi dóminum fram koma fyrir ofríki Þorgils og þá færðu þeir dóminn austur í hraunið hjá Byrgisbúð. Þar gæta gjár þrem megin en virkisgarður einum megin. Og í þeim dómi verður Þorgils Oddason ger sekur skógarmaður og þetta eitt mál nýttist þar það er í dóm var lagt. Og þá var gengið til Lögbergis og sagt til sektar hans.
Og er menn komu heim til búða þá var frétt hverja Hafliði hefði hlotið áverkana af því að alþýðan vissi ennþá eigi víst hvað að hafði orðið eða hversu mikið. Þá var sendur til Böðvar Ásbjarnarson og Ingimundur prestur Einarsson að skynja um áverkana og menn fóru og aðrir með þeim til fundar við Þorgeir Hallason er átti Hallberu Einarsdóttur systur Ingimundar prests.
En Böðvar hafði búðarvist með Þórólfi Sigmundarsyni og hafði meiri ráð yfir þingmönnum og búðarliði en Þórólfur. Svo var ásett að Böðvar riði að baki Þórólfi og héldi þó í taumana og stýrði hvert fara skyldi.
Og þá er þeir komu heim til búðar Þorgils þá voru þeir spurðir tíðinda og eftir erindum sínum.
Þá kvað Ingimundur prestur vísu:
13.
Fingr eru þrír af þeiri,
þó skyldu mun fleiri
sundr í Svalins hendi,
slíkt er böggr mikill, höggnir.
Síðan var kvatt féránsdóms og ríða menn heim til héraða og situr Þorgils eigi að síður í búi sínu.
Og nú þegar dregur að féránsdómum safnar Þorgils að sér mönnum og verða saman nær fjögur hundruð manna. Hafliði hafði norðan nær hundrað manna og einvala lið bæði að búningi og mannvirðingu. En í þriðja stað söfnuðust saman heiðarlegir menn. Var þar fyrirmaður Þórður Gilsson og Húnbogi Þorgilsson frá Skarði og með þeim aðrir góðgjarnir menn, Guðmundur Brandsson og Örnólfur Þorgilsson frá Kvennabrekku og höfðu tvö hundruð manna til meðalgöngu.
En Þorgils ætlaði að verja vígi allt héraðið og skyldu þeir Hafliði eigi ná Bæjarreiðinni. Og ætlaði Þorgils að verja heiðarbrekkurnar ef þeir riðu Sælingsdal en í Mjósyndi ef Svínadal væri riðið. Þar mega fáir einir menn ríða frammi því að þar eru fjöll brött á báðar hendur.
Þeir Hafliði ríða um kvöldið fyrir féránsdómana til gistingar til Más prests í Sælingsdalstungu og hafði hann fyrir fjóra tigi manna til liðs við Hafliða.
Þá ríður Guðmundur Brandsson, systrungur Þorgils, son Steinunnar Aradóttur, og var hann hinn mesti mætismaður og var hann oft mikils metinn í stórmælum og hann var mest hafður í orðstefi þá er um biskupa skyldu kosningar vera í Vestfirðingafjórðungi, annar maður en Klængur. Guðmundur var vinur Hafliða.
Og þá ríður hann á milli og menn með honum og vildi koma á sættum með þeim og spyr Hafliða hverja tilætlan hann hefði um för sína og ger svo vel að þú far varlega og gæt virðingar þinnar og sóma af því að svo er mikið fjölmenni fyrir að þú hefir ekki liðs við og eiga menn mikið í hættu ef eigi gætist vel til og er þér engi svívirðing í að búa þar mál þitt til er þú kemur framast lögum að og yður er óhætt. Mun eg og með þeim ykkrum að snúa að mín orð virðir meira með þá menn alla sem eg fæ til. Haf þú nú við ráð vina þinna að þú fylgir svo aðeins málum þessum að þú gætir vel sóma þíns.
Hafliði mælti: Sannlega er þetta vel mælt og vingjarnlega og mun eg mjög það hafa er slíkir menn mæla er bæði eru heilráðir og vitrir og eiga mikils kosti.
Og þá ríður Guðmundur á fund Þorgils og spurði hverja tilætlan hann hefði á sinni ráðagerð, svo mikið fjölmenni sem þar var saman komið og búið sem til bardaga bæði að vopnum og öðrum viðurbúningi.
Þorgils kveðst það ætla vænst að hann mundi við leita að verja þeim Hafliða og mönnum hans Bæjarreiðina, annað tveggja heiðarbrekkurnar við Sælingsdal eða Mjósyndi ef þeir riðu Svínadal.
Þá svaraði Guðmundur: Ekki er slíkt að mæla en að því er að hyggja við hversu göfgan mann þú átt málaferlum að skipta. Og mun þó sá orðrómur á leika að þú hafir þó allmikilmannlega mót tekið þó að þú takist ekki meira á hendur en verjir bæ þinn og þar sem féránsdómurinn ætti að vera eða landeign þína hið mesta. En ef þú ferð með þann ofsa sem í einskis manns dæmi er þá uggi eg að þú mætir ofsanum og ofurkappinu áður lýkur málum ykkrum Hafliða því að eg hefi hvergi heyrt dæmi til að nokkur maður hafi með slíku ofurkappi farið eða fram komist. Og fylg ekki slíku svo þrátt. Þigg heldur ráð af vinum þínum er þú þó mátt eigi sjá satt mál fyrir ofurkappi þínu. Og vill Hafliði fara með vægð og stillingu og er vorkunn að hann vilji halda máli sínu til þrautar. Og muntu vilja virða orð vor vina þinna og stýra eigi mörgum mönnum í mikil vandræði.
Og hér fær hann heitorð af Þorgilsi um þetta.
Og í því bili koma þeir menn ríðandi er Þorgils hafði til sett að njósna um ferðir þeirra Hafliða og kunnu þeir það að segja að hann mundi ríða Sælingsdal. Og þá eftir það biður Þorgils flokkinn ríða á móti þeim Hafliða og riðu síðan allt þar til er þeir komu upp um Steinshyl að Þverdalsá. Þar bíða þeir þeirra Hafliða og koma þar héraðsmenn þeir er í milli gengu. Þar eru hamrar hávir fyrir austan ána en múlar brattir fyrir vestan og má þar ekki hjá ríða ef fjölmenni er mikið og verður þetta nær að einstigi.
Og ríða þeir Hafliði að fram og stíga af baki og nefnir hann votta að þeir megi eigi óhætt komast lengra og heyja þar féránsdóminn og er það eigi í Staðarhólslandeign og ráða hvorigir á aðra.
Reið Hafliði heim norður en Þorgils situr í búi sínu með átta tigi vígra karla. Og höfðu hvorirtveggju vörð á sér um sumarið.
Skip hafði staðið uppi í Hrútafirði um veturinn og hafði Þorgils keypta marga viðu til skálagerðar og heim flutta nema eitt hundrað viðar hafði eftir orðið og það eitt fékk Hafliði af sektarfjám Þorgils.
Þau misseri var skálinn ger er Þorgils var í sektinni og sá skáli var þá óhrörlegur er Magnús biskup Gissurarson andaðist. Og þau misseri var Einar fæddur Þorgilsson er hann var í sektinni.
Eftir það sendi Hafliði orð í allar sveitir að biðja sér liðs og fulltingis, bæði stærri menn og smærri. Og um haustið stefndu þeir fund sín á milli, Hafliði og Hallur Teitsson og Þórður Þorvaldsson Vatnsfirðingur.
Og var þetta þar um kveðið:
14.
Ambhöfði kom norðan
en Orknhöfði sunnan,
Hjarthöfði kom vestan,
höfðu ráð und skauti.
Tóku margt að mæla
er menn spakir fundust,
þó var úlfúð ærin
í Ambhöfða brjósti.
Og nú liðu af misserin og er flest seinna en segir.
Og um vorið eftir fór Hafliði Másson suður yfir heiði í Haukadal til kirkjudags tveggja postula messu, Filippuss og Jakobs, til Halls mágs síns og dvaldist þar í góðu yfirlæti og talaði þar langt erindi um mál þeirra Þorgils Oddasonar eftir allar tíðir um daginn og sagði að honum þótti sér erfitt veita að skipta málum við hann fyrir ofurkappi og fjölmenni og talaði þar um langt erindi og snjallt og bað liðsinnis og þingreiðar og fjölmennis úr héraðinu og bað Hall mág sinn liðs og styrktar. Og hann bað liðs lærða menn að biðja skyldi fyrir þeim til guðs og þess, að mál þessi lykjust með góðu og svo yrði nokkurs háttar sem best gegndi öllum landsbúendum en hann héldi þó sæmd sinni.
Þá svarar sá maður er Þorsteinn hét af Drumb-Oddsstöðum: Nauðsyn sýnist mér mikil að styðja orð þín því að þú hefir lengi borið harðan hlut fyrir Þorgilsi og setið honum mikinn vansa.
Þá svarar Hallur Teitsson: Þorsteinn félagi, verum við hljóðir og ertu vesall máls. Ekki kunnum við betur en hlýða til. Þú vilt vel en mátt illa. Hafliði hefir honum aldrei vansa setið en þó er honum þetta nauðsynjamál og sá einn er minn vinur er þessum málum fylgir síðar.
Og nú um sumarið fjölmenntu hvorirtveggju til alþings eftir föngum þá er þar kom og riðu menn á þing hinn næsta dag fyrir Jóns messu baptista. Og þeir mágar Hafliði og Hallur Teitsson og nokkurir flokkar með þeim ríða snemma dags á þingið og snýr Hafliði til búðar Þorgils og brjóta niður alla til jarðar.
Og síðan eggjar Hallur að þeir Hafliði skuli ríða á móti Þorgilsi með því liði er þeir fá til og segir það ósóma mikinn og lögleysu að sekir menn ríði á helgað þing og minnumst nú þess að hann lét eigi ná að heyja féránsdóminn þar sem vera átti að lögum nema menn berðust.
Og þá ríða þeir upp á völlu og gera þar fyrirsát og verður allt um seinna en segir af, því að þar lögðu margir menn orð til og löttu fyrirsátarinnar, kváðust og ætla að hvorirtveggju mundu þá heldur láta leiðast til sátta er margir góðgjarnir menn gengu millum og áttu hlut að en margra mundi við kostur ef menn hittast eigi. Og margt varð til dvala og er af því eigi riðið lengra og stíga menn af baki.
Þá gengur að Ketill prestur Þorsteinsson og spurði: Ræður þú Hafliði fyrirsátinni?
Svo er víst, sagði hann.
Þessi fyrirætlan er óráðleg. Mætti vera að Þorgils tæki það ráð að ríða í nótt eða eigi alþýðuveg ef þó vill hann með kappi fara.
Og þá gengur að Þorlákur biskup er þeir ræddu þetta og bað Hafliða að hann færi heim til búða og væri leitað um sættir.
Hann svarar: Þetta mál er mér miklu nauðsynlegra og nákomnara en þetta megi í nokkura umræðu leggja að sekir menn ríði á helgað þing og brjóti svo landslög. Og þá raun mun enn á bera af stundu að eftir þessu munu margir glíkja ef þessum hlýðir.
Þá mælti biskup: Það er satt sem þú mælir. En hvort er það satt sem komið er fyrir oss að þessi misseri hafir þú þér liðs beðið um allar sveitir, höfðingja og minni menn og svo fátæka menn og hverja kararkerlingu?
Það er víst satt, segir Hafliði.
Biskup mælti: Það var lítillátlegt, slíks manns sem þú ert, að þú vildir að allir menn væru í huga sínum og bænum þér í sinni. En þó mun það einmælt að vitrum manni missýnist slíkt í meira lagi ef þú vilt alla hina herfilegstu menn með þér í sinni en þenna hinn dýrlega mann á móti þér er messudaginn á á morgun og göfgastur er nær allra guðs ástvina að vitni sjálfs guðs. Og mun hans reiði á liggja og muntu hana hafa ef þú vilt svo margs manns blóði út hella um þessa sök en líkast ef þú lætur fyrirfarast þetta á þessari hátíðinni um friðinn að guð og hinn heilagi Jóhannes sjái þér hlut til handa um þetta mál. En hitt annað, er þetta er einskis vert hjá, að þér mun í öðrum heimi endurgoldið það sem nú gerir þú fyrir guðs sakir og Jóns baptista.
Þá svarar Hafliði: Sannlega er slíkt mælt en þó nennum vér eigi að heyja þingið í svo mikilli lögleysu að sekir menn ríði á þingið.
Og svo lauk að Hafliði fyrirkvað það sem biskup beiddi og voru þar í fyrirsátinni tólf hundruð manna.
En þá fyrirbýður biskup öllum lærðum mönnum að ganga í flokk með honum en biður alla alþýðu til meðalgöngu með sér og til þess létust margir búnir mundu.
En þá er Þorgilsi var fyrirkveðin þingreiðin af Hafliða þá hleyptu menn að móti flokkinum Þorgils og sögðu honum hvar komið var og hittu flokkinn fyrir norðan Sandvatn. Þar var þá sjö hundruð manna. Þar var beðið Styrmis Hreinssonar af Gilsbakka mágs Þorgils. Þar voru þá allir goðorðsmenn með Þorgilsi fyrir vestan Bláskógaheiði nema Þórður úr Vatnsfirði. Og síðan tóku menn hjal með sér og umræður og löttu flestir þingreiðarinnar við svo mikinn liðsmun.
Og þá mælti Þorgils: Það veit eg glöggt ef það er svo mikið fjölmenni sem sagt er að þar munu þeir margir er í mínum flokki mundu sig kjósa heldur ef þeir þyrðu og munu þeir lítt berjast með Hafliða. Þeir munu og þar margir er fagna mundu því ef annartveggi okkar létist en hirða mundu þeir aldrei hvor á burt kæmist. En eg veit að eg hefi svo trausta menn í mínu föruneyti og mér örugga að hver mun heldur vilja falla um þveran annan en mér verði neitt og munum vér af því fram halda ferðinni.
Þá var Styrmir kominn með hundrað manna.
Og þá mælti Styrmir: Það vitum vér hversu það er nær öllum gefið að öngvum þykir sér lið vera veitt með fullu nema vígsgengi sé veitt. Nú megum vér og það sjá að Þorgilsi þykir sér eigi lið veitt með fullu nema honum sé vígsgengi veitt.
Og svo fer Þorgils nú af stað og mælir: Þeir menn sem hér eru saman komnir bindist í því að skiljast eigi við málin fyrr en þau lúkast á nokkura leið, þeir er nú vilja sig leggja í svo mikla hættu.
Styrmir svarar: En vita vil eg til hvers þú vilt á þingið fara annars en sýna ofurkapp þitt og stýra svo mörgum mönnum í svo mikinn vanda.
Þorgils sagði: Það er erindi mitt til þings að bjóða Hafliða allgóðar sættir til handa honum en ef því er neitað njóta þá margra vina og göfugra manna og mikils brautargengis.
Að þessu er öllum veitandi vöskum mönnum og vinum þínum, sagði Styrmir.
Þá var fenginn til Bárður hinn svarti og Aron son hans og nokkurir menn með þeim að ríða fyrir og bera njósn áður en saman lysti flokkunum. En meginliðið reið í fylkingu og beið í Víðikjörrum nokkura hríð, en reið svo ofan yfir háls að Sandvatni og töluðu margt um ráðagerðir og var farið heldur tómlega. Reið Þorgils í framanverðri fylkingu sinni.
Þá kvað Ingimundur vísu:
15.
Hallr villat frið fullan,
fer Hafliða að verja
breiðan völl og búðir
banna skógarmanni.
Þar ríðr mætr að móti,
málmrýri tel eg skýran
orðinn, allrar ferðar,
Oddasonr, í broddi.
Þá kom þar að Þórður prestur ríðandi er kallaður var Lundarskalli og nokkurir menn með honum. Hann var auðkýfingur mikill og vinur Þorgils, tilkvæmdarmaður og skilgóður. Hann spyr, þó að hann vissi áður, um hvað þeir ættu að ræða eða hvar þá væri hverju komið eða hvað menn vissu síðast til flokksins. En þeir sögðust ekkert víst frá honum kunna að segja. Honum var sagt innilega að flokkur Hafliða væri kominn á völluna efri og ætluðu að verja vígi alla þinghelgina _ en biskup og margir aðrir góðgjarnir menn löttu fyrirsátar og mótreiðina _ en vissu eigi lengra og menn voru sendir fyrir að vita hvað tíðinda væri.
Þórður mælti: Ekki kann eg þér Þorgils ráð að kenna en á því er mér bænarstaður að þú þiggir af mér heimboð. En fyrir lítillæti þitt og fyrir aufúsu mína skal það vera um mælt að þú hafir eigi til matar eins aftur horfið. En það er líklegast að Hafliði haldi eigi fyrirsátinni lengur en í dag eða í nótt og muntu þá mega ríða hlutlaust og svo vel má verða að góðir menn komi sættum á með ykkur eða griðum og er þá gott að ríða en hafa marga menn firrða vandræðum svo sem nú horfist til.
En þá er Þórður lauk sínu máli þá þökkuðu margir honum vel ummæli sín, svo og fýstu að sá væri upp tekinn.
Nú er að segja frá ferðum þeirra feðga Arons og Bárðar að þeir koma ofan á Kluftir og sjá niður undir Ármannsfelli fjölda mikinn hrossa og manna og er nokkuð svo að þeir hugsa fyrir sér ráðið og þykir eigi ólíklegt að þeir Hafliði muni þar sitja fyrir og gæta svo hvorrartveggju leiðarinnar, er önnur liggur fram undir Ármannsfell og að Sleðaási en önnur leið liggur austur yfir hraunið undir Hrafnabjörg og undir Reyðarmúla til Gjábakka og svo austan um hraun til búða.
Þeir Aron gera það ráð með sér að ríða að hitta þessa menn og veit eg oss í engum sökum við menn en nokkurir förunautar vorir skulu ríða síðar og hugleiða um hvað í vegi verður og segja Þorgilsi hvað sem í gerist ef nokkuð er tálmað um ferð vora. Og felmtrið eigi allmjög og vitið með sannleik áður hvað þér skuluð segja.
Og nú ríða þeir Bárður hinn svarti og Aron son hans og nokkurir förunautar þeirra þar að fram er flokkurinn var fyrir. Og hinir standa á fætur er fyrir voru með vopnum og síns vegar hvor þeirra leiddur og var þröng mikil að ger svo að hinir máttu eigi sjá fyrir þrönginni hvað um sig var og höfðu það fyrir satt að þeir væru allir gervir handteknir og bundu eigi lengi síðan byr við og riðu aftur síðan skyndilega til fundar við Þorgils og sögðu snara sögu mikla, að eigi mun tíðindalaust vera.
Þorgils mælti: Frá hverjum er tíðindum að segja?
Vér kunnum frá öngvum tíðindum að segja víslega en sögðu frá því hvar þeir Bárður skildust og þar var mikill fjöldi manna fyrir ofan Sleðaás og þangað riðu þeir Bárður til og það þóttumst vér sjá að menn spruttu upp í flokkinum með vopnum og gerðu þá handtekna alla að minnsta kosti.
Þorgils mælti: Þóttust þér nokkuð vita hvorra flokkur það mundi vera eða kennduð þér nokkuð menn eða búning þeirra eða fararskjóta?
Sendimenn mæltu: Eigi viljum vér það víst segja en það hugsuðum vér að flokkur Hafliða mundi vera og kenna þóttist eg Kinnskjóna, fák þann er þú gafst Böðvari mági þínum í fyrra sumar á þingi. Eigi kann eg að kenna og ef eigi var þar spjótið það hið gullrekna er þú gafst honum.
Margir tóku undir að þetta mundi víst tíðindum gegna og einsætt væri að þiggja heldur sæmd og virðingarheimboð að Þórðar heldur en að leggja sjálfan sig í slíka mannhættu og menn sína, að ganga til bardaga á móti svo miklu ofurefli og sýna svo mikinn ofsa að gæta eigi sómans fyrir því en hættulaust mundi að ríða um morguninn eða á tveggja nátta fresti og tóku upp allt hjal Þórðar.
Þorgils hlýddi til meðan aðrir mæltu slíkt og lagði ekki til og hugsaði fyrir sér málið.
Og þá er aðrir spurðu hvert ráð taka skyldi mælti Þorgils: Ef þetta er svo sem sagt er að menn vorir hinir vöskustu og bestu séu gervir handteknir og klandaðir eða meiddir eða drepnir þá mun oss ámælissamt verða ef vér ríðum svo á burt að vér vitum öngvan hlut gerr en vér getum til. Hitt er í öðru lagi að þeir þóttust kenna þá tvo gripi, hest og spjót, er eg gaf Böðvari mági mínum er hann mundi hvorngi lausan láta að vilja sínum. Og ef honum er orðið nakkvað til meins þá vil eg ríða og vita ef eg megi hefna hans. En ef svo er vel sem eg vænti að hann fylgi sjálfur gripum sínum með flokki miklum til fulltings við oss en vér ríðum á brott en látum hann eftir í háska þá mun eigi látið orðalaust við oss. Og vil eg að vísu ríða til þingsins hvað sem kostar með þá menn er mér vilja fylgja en þeir hverfi aftur er það þykir drengilegar.
Og víkur þegar áleiðis og ríða menn ofan um Sandkluftir en engi vildi aftur hverfa þegar Þorgils reið fram hvað sem á aðra hönd væri.
Nú er að segja frá þeim Bárði og Aroni að þeir ríða fram að flokkinum og menn standa upp í móti og fagna þeim vel, af því að þar var vina fundur. Þar var fyrir Böðvar Ásbjarnarson og Guðmundur Þorgeirsson mágur Þorgils, og höfðu þeir með sér vel hundrað manna. Böðvar frétti Bárð að fyrirætlan Þorgils en Bárður frétti Böðvar tíðinda af þinginu og var þar þröngst að öllum megin er margir vildu heyra hvað sagt var.
Og er þeir hafa við talast of hríð þá ríða þeir Bárður enn lengra og allt þar til er þeir koma ofan á völlu að flokkinum Hafliða og var þeim vel fagnað af því að margir vissu deili á þeim feðgum. Þeir voru fréttir hvað þeir kynnu að segja af ferðum Þorgils eða fjölmenni. Þeir segja að Þorgils var kominn á heiðina suður frá Reykjadal með miklu fjölmenni og þá komu menn í móti flokkinum og sögðu að þeim Þorgilsi var bönnuð þingreiðin og Hafliði ætli að verja þinghelgina en Þorgils kvað Hafliða mundu hafa kastað því fram við öngvan alhuga. En hinir sögðu að vísu satt vera og að Hafliði væri á ferð kominn með tólf hundruð manna þá er þeir vissu síðast og við þetta nam flokkurinn stað og tóku ráðagerðir með sér hvern upp skyldi taka og í því stóð þá er þeir vissu síðast.
Eftir þetta ríða þeir heim til búða og fara til fundar við biskup. Biskup fagnar þeim feðgum og þar segja hvorir öðrum allan trúnað og hvar þá var komið öllu jafnsaman. Síðan senda þeir Þorgilsi njósn að segja honum allt svo skapað sem var og þeir höfðu vísir orðið.
Njósnarmenn komu til fundar við Þorgils undir Ármannsfelli fyrir ofan Sleðaás þar sem þeir Böðvar höfðu beðið og segja Þorgilsi allt sem vaxið var. Þeir segja og það að búðin var öll brotin að jörðu.
Þá mælti Böðvar: Það er sýnt í slíku, segir hann, að Hafliði sparir lítt hendur vorar að hefna enda væri það eigi fjarri að hann reyndi hvort vér kynnum nakkvað fleira að vinna en gera upp búðina Þorgils því að nú klæja oss lófarnir og tók að berja vopnum á hlífarnar.
Þá tóku margir undir að það væri þá líklegast að Þorgils mundi ráða athöfnum þeirra.
Þá svarar Þorgils og kvað:
16.
Munat óss vita ásum
arnsprengjandi lengi,
það segi eg, gulls hins gjalla
Gerðr, þinglogi verða.
Og munum vér ríða, segir Þorgils, eigi að síður og verður för sem má.
En er tveim fer sögum fram, þá er biskup hefir til sín kallað lærða menn, þá gengur hann í annað sinn á fund þeirra Hafliða og mælti: Ertu nú Hafliði ráðinn til að virða engis manns orð né vilja til heimgöngunnar?
Svo verður nú sem það kveði.
Þá mælti biskup: Þá munum vér ganga heim til kirkju og af því veldi er guð gaf Pétri postula að binda allt og leysa á himni og jörðu, en hann gaf Klementi páfa og hver að öðrum tók það veldi en Össur erkibiskup gaf mér, og fyrir það atkvæði mun eg banna yður hér að sitja og neita sættum en slíta friðinn. Eru mér þau orð komin af Þorgils hendi að hann vill sæmileg boð bjóða fyrir sig, og endi biskup svo málið, að af þessi röksemd allri jafnsaman, ef mitt mál má nakkvað standast við guð og vorar bænir að hann sé þér svo bæna á dómsdegi sem þú ert mér nú bæna.
Þá mælti Hafliði: Verður það að lyktum málaferlis okkars Þorgils sem auðið verður og slíka virðing hver á leggja sem sýnist en við þetta umtal þitt mun eg eigi berjast daglangt ef þessir menn heita að skiljast eigi við mál mín fyrr en þau lúkast á nokkvern veg til sóma.
Og náir þú einn að gera þá, svarar Hallur Teitsson.
Og því játtu menn.
Þá mælti Einar Gilsson: Þiggðu Hafliði þetta heilræði sem biskup kennir þér en slíkt veitum vér þér eftir helgina sem vér höfum föng á.
Og síðan ganga þeir Hafliði heim til búða.
En í annan stað ríða þeir Þorgils á völlinn og til búðar hans og sjá þar vegs of merki. Margir bjóða honum sínar búðir að tjalda en Þorgils neitti því og vildi ekki annað en láta gera upp búð sína. Og þá gekk að Sæmundur hinn fróði með nakkverja menn og var tekið til að gera upp búðina of aftaninn og varð lokið fyrir óttusöng öllu starfinu.
Nú var leitað of sættirnar með þeim Hafliða og Þorgilsi og vill Hafliði öngvar sættir nema sjálfdæmi og þess varnaði Þorgils eigi að Hafliði gerði fésekt til handa sér sem hann vildi en undan væru skildar mannsektir allar og goðorð og staðfesta. Og stóð í því of helgina að Hafliði vill einn ráða óskorað og þykir þá beggja vinum vant í millum að ganga.
Og eftir messudaginn hinn næsta dag síð of aftaninn þá er flestir menn höfðu lagst til svefns, þá gekk Ketill Þorsteinsson með nokkverja menn til búðar Hafliða og var honum þar vel fagnað.
Ketill mælti til Hafliða: Stór mein þykir vinum yðrum á því ef eigi skulu sættir takast og lúkast mál þessi með góðu og þykir mörgum nú fyrir van komið eða nær því. Nú kann eg þér eigi ráð að kenna en dæmisögu vil eg segja þér.
Vér óxum í Eyjafirði og var það mælt að það lið væri efnilegt. Eg fékk og þann kost er bestur þótti vera, Gró dóttur Gissurar biskups. En það var mælt að hún gerði mig eigi einhlítan. Það þótti mér illa er það var mælt og tilraunir voru gervar og gengu þær vel en eigi að síður þótti mér illur orðrómur sá er á lagðist og fyrir það lagði eg fjandskap á manninn. Og eitt sinn er við hittumst á förnum vegi þá veitti eg honum tilræði en hann rann undir höggið og varð eg undir. Síðan brá hann knífi og stakk í auga mér og missti eg sýnar að auganu. Þá lét hann Guðmundur Grímsson mig upp standa. Og var það nakkvað með ólíkindum að því sem mér þótti. Eg hafði tvö megin hans enda þótti mér vera mundu slíkur mun okkar í öðru. Og þess vildi eg greypilega hefna með frænda afla og gera manninn sekjan og bjuggum vér mál til. Og þó urðu nakkverjir aflamenn til að veita honum að málunum og ónýttust mín mál. Nú má og vera að til verði nakkverjir að veita Þorgilsi þó að þín mál séu réttlegri. Og þá er svo var komið þá buðu þeir fé fyrir málið. Þá hugði eg að hvað mér hafði að borist eða hversu allt hafði tekist þunglega og neitti eg fébótunum. Og sá eg þá að það eitt var hjálpráðið til að skjóta málinu á guðs miskunn því að allt tókst þá áður öðru þunglegar til mannvirðingar of mitt ráð. Fann eg þá það og sá metnað Möðruvellinga er manninum fylgdu, alls eg hugði þá að mannvirðinginni, að ekki mundu þær bætur fyrir koma er mundi að sæmd verða. Gerði eg þá fyrir guðs sakir að gefa honum upp allt málið. Vissi eg að þá mundi eg það fyrir taka er mér væri haldkvæmst og bauð eg honum til mín og var hann með mér lengi síðan. Og þá snerist þegar orðrómurinn og með virðing manna og lagðist mér síðan hver hlutur meir til gæfu og virðingar en áður. Og vænti eg og af guði að þér muni svo fara og haf nú af tali mínu það er þér þykir nýtanda, sagði Ketill.
Þá þakkaði Hafliði honum vel og mælti: Það mál hefir hér verið að ræða á þinginu er mikils er um vert, hvern vér Norðlendingar skulum til biskups kjósa í stað Jóns biskups en til míns kjörs hafa flestir vikið. En fyrir málum þessum hefir eigi svo skjótur dómur á fallið. En nú þarf eigi lengur að líta á þá kosning, að eg verð eigi á annað sáttur sumarlangt en þú sért til biskups kosinn. Og það er mitt vit að þá sé best hugað fyrir landsfólkinu að því mannvali sem nú er ef þú verður biskup.
Og fékk Hafliða mikils viðurtal þeirra og þaðan í frá var hann meir snúinn til sátta en áður og miklu auðmjúkari.
Þá mælti Ketill: Eg em ósæmilegur slíks erindis. Það mega allir sjá hve stór lýti á mér eru fyrir manna augum en miklu eru þó meiri lýti á mínum hag í guðs augliti, að eg em ófallinn til biskups tignar.
En þar kom að lyktum að Ketill mælti: Ef þá væri nær of sættir yðrar en áður þá kviðst eg eigi þenna vanda ef til þess er annarra vilji slíkur sem þinn.
Eftir þenna atburð var leitað of sættirnar enn á nýja leik af vitrum mönnum og góðgjörnum og var Hallur torsóttari í öllu málinu en Hafliði. En þó varð sætt þeirra að Hafliði skyldi gera fé svo mikið sem hann vildi fyrir áverkana en frá skildar sektir allar og guðorð og staðfesta sem boðið var í fyrstunni. Og það fylgdi með að hver þeirra fimmtardómsmanna, þeirra er til handsala gengu, unnu eið að gjalda slíkt fé sem gert væri. En þessir menn gengu til handsala: Þorsteinn Gellisson frá Fróðá, auðmaður mikill og mágur Þorgils, hann átti Steinvöru dóttur Þorsteins Arasonar; annar maður Styrmir Hreinsson af Gilsbakka mágur Þorgils, Þuríður dóttir Þorgeirs Galtasonar var móðir Styrmis en Styrmir Þorgeirsson var faðir Halls, föður Kolfinnu; þriðji maðurinn gekk til handsala, Þorsteinn ranglátur að því sem mig minnir.
Og þá er lokið var málum þessum þá var sjá vísa kveðin:
17.
Máttit seigum sáttum
sandkorn fyrir standa,
þó latti mjög mága
mál að greiða tæki.
Betr kvað hlymbjóðr hjörva
hyrmildr að þá skyldi
til eggþrimu, ósa,
öll þjóð fara bráðla.
18.
Máttit mága sáttum,
mál dragast ljót til bóta,
geigr varð við svað, seigum
sandkorn fyrir standa.
Hraðslöngvir bað hringa
hugstríðr fara síðan
alla þjóð, þá er olli,
allskjótt, meginþrjósku.
Þess hafði á kennt í meðalgöngu mannanna, þá er of sættirnar var talað, að Halli þótti eigi þurfa að draga allmikið lið saman nema Hafliði neytti þess of sinn sakir of nauðsynjamál sín eða réði einn ella óskorað og lét Hafliða ærið fé hafa á gamals aldri ef hann héldi virðing sinni.
Hinn þriðja dag fyrir þinglausnir gengu menn til með fjölmenni hvorirtveggju er sættin skyldi vera upp sögð. Hafliði gerði fyrir áverka átta tigu hundraða þriggja alna aura vöruvirt fé, lönd í Norðlendingafjórðungi, gull og silfur, austrænan varning, járnsmíði; ríflegir gripir þeir er eigi tækju minna en kúgildi, geldir hestar, því að einu graður hestur ef mer fylgdi, ekki hross eldra en tólf vetra og eigi yngra en þrevett. Gjalddagi á fénu fyrir búðardurum Hafliða eða færa honum heim en hann sjálfur virða allt féið.
Þá er Hafliði sagði upp vöxt fjárins þá svaraði Skafti Þórarinsson: Dýr mundi Hafliði allur ef svo skyldi hver limur.
Þá svarar Hafliði: Eigi mundi sjá tunga þá eftir mæla ef þess þyrfti við og fer þetta meir eftir því sem vilja mundi Böðvar Ásbjarnarson eða aðrir óvinir vorir er eg skal fé taka á mér en eg hefði mér þenna hlut ætlað. Og meir hefi eg þessa sætt gert eftir bæn vina minna en eftir fégirni einni saman.
Böðvar mælti: Af því að þessu er meir á mig vikið en á aðra þá verð eg að svara og mun eg þetta ósanna af því að vanhlutarins unni eg þér slíks eða meira en fjárins eigi.
Það hafði Böðvar mælt þá er Hafliði sagði upp sáttina: Þar reis at undir króki, og kvaddi Hafliði Böðvar að, enda var ávallt óþykkt með þeim.
Þorgils mælti: Gefi menn vel hljóð máli Hafliða því að hér hefir hvor okkar það er vel má una.
Og eftir það þökkuðu hvorirtveggju vel sínum liðveislumönnum fylgd og föruneyti og allan sóma.
Og fyrr en Þorgils kæmi heim af þingi hafði hann eigi minna fé þegið en átta tigi hundraða af vinum sínum og frændum en margir buðu honum heim úr öllum sveitum bæði norðan og sunnan, austan og vestan, þeir er hann vitjaði síðar og leystu þeir hann með stórum gjöfum á brott. Víða krafði hann fjár í Vestfirðingafjórðungi en að luktu öllu fénu, því er gert hafði verið, gaf Þorgils Hafliða virðulegar gjafar, stóðhross fimm saman og fingurgull og feld hlaðbúinn er honum hafði gefið Sigríður dóttir Eyjólfs Snorrasonar goða austan frá Höfðabrekku er átt hafði Jón Kálfsson. Þangað sótti Þorgils heimboð og þá gaf hún honum þessa gripi alla.
Hafliði mælti: Nú sé eg það að þú vilt heilar sættir okkrar og skulum vér nú betur við sjá deilunum héðan í frá.
Og það efndu þeir því að þeir voru og ávallt einum megin að málum meðan þeir lifðu.
Sæmundur hinn fróði átti Guðrúnu dóttur Kolbeins Flosasonar. Þeirra börn voru þau Eyjólfur prestur og Loftur prestur og Loðmundur og Þórey er átti Þorvarður Ólafsson, þeirra son var Ólafur prestur. Loftur Sæmundarson fór utan og fékk í Noregi Þóru en reyndist síðan að hún var dóttir Magnúss konungs berfætts. Jón var son þeirra er mestur höfðingi og vinsælastur hefir verið á Íslandi. Hann átti Halldóru dóttur Skegg-Brands, þeirra börn voru þau Sæmundur og Solveig er átti Guðmundur grís. Synir Ragnheiðar og Jóns voru þeir Páll biskup og Ormur Breiðbælingur. Ragnheiður var Þórhallsdóttir, systir Þorláks biskups hins helga. Son Jóns Loftssonar og Æsu Þorgeirsdóttur var Þorsteinn. Hans synir voru þeir Andrés og Ámundi, Þorgeir og Gunnar. Enn var son Jóns Loftssonar og Helgu Þórisdóttur Einar. Hann átti mörg börn: Svartur, Hrafn, Kriströður. Enn voru synir Jóns Loftssonar og Valgerðar Loftsdóttur Hallbjörn prestur og Sigurður er átti Salgerði Erlendsdóttur.
Loðmundur Sæmundarson átti Þórunni dóttur Þórarins Fornasonar, þeirra son Jón er átti Aldísi Halldórsdóttur, þeirra börn Valgerður og Eyjólfur. Sonur Eyjólfs og Valgerðar Gamladóttur var Guðlaugur. Enn voru börn Eyjólfs og Hildar Skeggjadóttur Skútusonar Jón, Loðmundur, Álfheiður. Ragnhildur var dóttir Valgerðar og Sæmundar Jónssonar og Solveig.
Þórður son Gils Snorrasonar Jörundarsonar var samtíða við Gissur biskup. Móðir Gils var Ásný dóttir Sturlu Þjóðrekssonar. Móðir Þórðar var Þórdís Gunnlaugsdóttir. Móðir Þórdísar var Þorkatla dóttir Halldórs Snorrasonar goða. Þórður Gilsson átti Vigdísi Svertingsdóttur Grímssonar. Móðir Vigdísar var Þórdís dóttir Guðmundar Guðmundarsonar, Eyjólfssonar hins halta, Guðmundarsonar hins ríka. Sturla hét son þeirra Þórðar og Vigdísar en annar Snorri, Þórdís og Guðrún dætur.
Sturlu fylgdi fyrst Ólöf Þorgeirsdóttir, þeirra börn Sveinn og Þuríður, Helga og Valgerður, Sigríður.
Síðan fékk hann Ingibjargar dóttur Þorgeirs Hallasonar. Steinunn hét dóttir þeirra er átti Jón Brandsson, þeirra synir Bergþór og Ívar, Brandur, Ingimundur. Þórdís hét dóttir þeirra Sturlu og Ingibjargar. Hana átti Bárður son Snorra Bárðarsonar hins svarta. Pétur hét son þeirra, Sturla og Snorri.
Og Björn hét son þeirra Sturlu og Guðfinnu.
Sturla átti síðar Guðnýju dóttur Böðvars Þórðarsonar. Móðir Böðvars var Valgerður dóttir Markúss lögsögumanns. Móðir Guðnýjar var Helga dóttir Þórðar Magnússonar úr Reykjaholti. Börn þeirra Sturlu og Guðnýjar voru þau Þórður og Sighvatur, Snorri og Helga, er átti Sölmundur austmaður, og Vigdís er Gellir Þorsteinsson átti.
Þórður Sturluson átti fyrst Helgu dóttur Ara hins sterka og áttu þau ekki barn. Síðan átti hann Guðrúnu dóttur Bjarna Bjarnasonar. Böðvar var son þeirra en Halla dóttir er átti Tómas prestur Þórarinsson. Þórður átti frillu er Þóra hét, þeirra börn Ólafur, Sturla, Guttormur, Þórður, Valgerður, Guðrún.
Sighvatur Sturluson átti Halldóru Tumadóttur, þeirra börn Tumi, Sturla, Kolbeinn, Þórður kakali, Markús, Þórður krókur, Tumi, Steinvör er átti Hálfdan Sæmundarson. Valgerður hét dóttir Sighvats er átti Bárður Hjörleifsson. Sigríður hét enn dóttir Sighvats og Helgu Bjarnadóttur. Hana átti Styrmir Þórisson.
Snorri Sturluson átti Herdísi Bersadóttur, þeirra börn Jón murti og Hallbera er Kolbeinn Arnórsson átti. Síðar átti Snorri Hallveigu dóttur Orms Jónssonar, ekki lifði barn þeirra. Snorri átti son er Órækja hét. Þuríður Hallsdóttir var hans móðir. Ingibjörg var dóttir Snorra og Guðrúnar Hreinsdóttur. Ingibjörg var gift Gissuri Þorvaldssyni. Þórdís var dóttir Snorra er Þorvaldur átti Vatnsfirðingur. Oddný hét hennar móðir.
Ásbjörn Arnórsson átti Ingunni dóttur Þorsteins Snorrasonar goða. Börn þeirra voru þau Arnór, Þorsteinn og Böðvar, Sigríður.
Arnór átti Guðrúnu dóttur Daða Starkaðarsonar. Þeirra son var Kolbeinn, hans son Tumi og var hann eigi skilgetinn.
Tumi átti fyrr Guðrúnu dóttur Þóris Steinmóðssonar. Sigríður hét dóttir þeirra er átti Sigurður Ormsson. Síðar átti Tumi Þuríði Gissurardóttur. Þeirra börn voru þau Kolbeinn og Arnór og Halldóra, er átti Sighvatur Sturluson, og Álfheiður er átti Ingimundur Grímsson. Þorsteinn hét son Tuma laungetinn. Hann var faðir Ívars munks og Tuma og Guðrúnar er fylgdi Sveinbirni Hrafnssyni, og Steinunnar er Krákur fylgdi, og Sigríðar. Arndís hét dóttir Tuma laungetin er átti Steingrímur Þorvaldsson. Arnór Tumason átti Ásdísi Sigmundardóttur, þeirra börn Kolbeinn ungi og Sigríður er átti Böðvar að Stað, og Herdís er átti Böðvar í Bæ, og Arnbjörg er Órækja átti Snorrason. Dóttir Arnórs laungetin var Þjóðbjörg er Broddi átti.
Kolbeinn son Arnórs Ásbjarnarsonar átti Herdísi dóttur Þorkels Steinólfssonar. Þeirra son var Arnór er átti Guðrúnu dóttur Brands biskups, þeirra son Kolbeinn kaldaljós og Halldóra er átti Jón Sigmundarson. Þeirra son var Brandur biskup hinn síðari. Kolbeinn kaldaljós átti Margrétu dóttur Sæmundar Jónssonar, þeirra börn Brandur, Páll, Valgerður.
Sigmundur Þorgilsson átti Halldóru dóttur Skeggja Bjarnasonar. Þeirra son var Jón. Hann átti Þórnýju dóttur Gils Einarssonar. Þeirra son var Ormur er átti Helgu dóttur Árna Grímssonar. Þeirra son var Sigmundur er átti Arnbjörgu dóttur Odds Gissurarsonar, þeirra son Jón er fyrr átti Þóru dóttur Guðmundar gríss, þeirra börn Ormur Svínfellingur og Steinunn og Solveig. Jón átti síðar Halldóru Arnórsdóttur. Þeirra son var Brandur biskup. Son Jóns laungetinn var Þórarinn er átti Helgu dóttur Digur-Helga. Þeirra synir voru þeir Þorvarður og Oddur.
Sigurður munkur var enn son Orms, bróðir Sigmundar. Hann átti Þuríði Gissurardóttur síðar en fyrr Sigríði Tumadóttur.
Ormur Svínfellingur átti Álfheiði Njálsdóttur, þeirra börn Sæmundur og Guðmundur, Ormur og Þóra er Krákur átti Tómasson. Oddný var laungetin dóttir Orms er Finnbjörn átti.
Móðir Skarð-Snorra hét Guðrún, hennar móðir Halldóra dóttir Jóns Sigmundarsonar, Þorgilssonar, Þorgeirssonar, Þórðarsonar Freysgoða.
Bárður hinn svarti hét göfugur bóndi er bjó í Selárdal. Hann var Atlason. Bárður átti Birnu dóttur Arons Snorrasonar, þeirra börn Sveinbjörn, Atli, Aron, Snorri, Ingólfur, Styrbjörn, Gunnar, Höskuldur, Rögnvaldur, Markús, Hallbera, Oddgerður, Salgerður, Úlfrún.
Sveinbjörn átti Steinunni dóttur Þórðar Oddleifssonar. Hrafn var son þeirra er átti Hallkötlu Einarsdóttur, Sveinbjörn og Krákur, Einar og Grímur, Steinunn, Herdís, Þórey, Þuríður, Hallgerður voru börn þeirra. Markús prestur hinn sterki var son Sveinbjarnar en dætur hans voru þær Herdís er Hallur Gissurarson átti, og Helga er Brandur átti, og Guðrún er Sámur Símonarson átti, og Birna og Halla.
Aron Bárðarson átti Sigríði Þorleiksdóttur systur Þorleifs beiskalda úr Hítardal, þeirra börn Hafþór, Yngvildur, Ragnheiður er Ámundi átti; þeirra börn Þórður, Tófa, Margrét, Hallbera, Birna. Ragnheiði átti síðar Þórarinn Þorkelsson, þeirra börn Krákur, Halldór, Eyvindur, Tómas er átti Höllu dóttur Þórðar Sturlusonar, þeirra börn Krákur, Þórarinn, Auðun, Snörtur, Guðrún, Ragnheiður, Guðfinna, Guðríður, Hallbera. Guðfinna var dóttir Þórarins er Skúli átti undir Hrauni. Snorri Bárðarson átti Cecilíu Ásgeirsdóttur. Þeirra son var Bárður er átti Þórdísi Sturludóttur. Snorri átti síðar Cecilíu Hafþórsdóttur. Þeirra dætur voru þær Þorlaug og Úrsúla er átti Sveinn Sturluson. Þessi voru laungetin börn Snorra Bárðarsonar, Eilífur og Tófa. Hún var móðir Sæunnar er Skarð-Snorri átti.
Þórður í Vatnsfirði var son Þorvalds Kjartanssonar og Þórdísar Hermundardóttur. Móðir Þorvalds var Guðrún dóttir Halldórs Snorrasonar goða. Þórður átti Sigríði dóttur Hafliða Mássonar. Páll var son þeirra og Snorri, Teitur og Ívar.
Páll átti Guðrúnu dóttur Brands biskups. Þessi voru börn Páls og Hallveigar Ásmundardóttur, Vigfús og Oddný. Hennar börn og Kálfs Snorrasonar á Mel, Vigfús og Snorri, Eirný er fylgdi Þórði Jörundarsyni á Hítarnesi. Þessi voru börn Oddnýjar og Þorbjarnar Bergssonar: Snorri, Teitur, Valgerður, Margrét er Ásgrímur átti Bergþórsson.
Snorri hét faðir Hafliða er týndist með Ásmundi kastanrassa. Snorri Þórðarson var og faðir Þórðar og Þorvalds og Bárðar. Móðir Þorvalds var Jóreiður Oddleifsdóttir, Þórðarsonar, Þorvaldssonar, Þórðarsonar, Þorkelssonar hins auðga úr Alviðru. Þorvaldur átti Kolfinnu dóttur Einars Þorgilssonar, þeirra börn, Einar er drukknaði á Ísafirði, og Jóreiður er Hafþór Halldórsson átti. Þórður var son Þorvalds og Helgu Ormsdóttur. Snorri hét enn son Þorvalds. Illugi var son Þorvalds og Þórdísar Ásgeirsdóttur. Ketill var son Þorvalds og Lofnheiðar. Páll var son Þorvalds og Halldóru dóttur Sveins Helgasonar. Þorvaldur átti síðan Þórdísi dóttur Snorra Sturlusonar, þeirra börn Einar og Kolfinna.
Þorsteinn er ranglátur var kallaður bjó á Grund í Eyjafirði. Hann var Einarsson Ketilssonar Þorvaldssonar króks Þórissonar af Espihóli Hámundarsonar heljarskinns. Móðir Þorsteins var Steinunn Bergsdóttir Vigfússonar Víga-Glúmssonar.
Þessi voru börn Þorsteins og Steinunnar dóttur Bjarnar Karlsefnissonar: Ketill, hann átti Álfheiði Þorleifsdóttur beiskalda Þorleikssonar hins auðga úr Hítardal. Þessi eru börn þeirra: Þorleikur, Árni, Herdís; þessi laungetin: Jón, Þórdís.
Börn Þorleiks Ketilssonar og Guðlaugar Eyjólfsdóttur Guðmundarsonar gassimanns Þorsteinssonar Eyjólfssonar hins halta: Ketill prestur lögsögumaður, Steinunn, Ingunn; þessar eru laungetnar, Þóra og Þorbjörg.
Björn var son Þorsteins rangláts, Ólafur og Einar, Guðrún og Steinunn, Helga. Börn Ólafs Þorsteinssonar: Einar, Guðrún.
Börn Guðrúnar og Eyjólfs Hallssonar, Jón í Möðrufelli.
Björn Þorsteinsson átti Ingibjörgu dóttur Þorleifs beiskalda. Þeirra son var Sæbjörn.
Dætur Guðrúnar Þorsteinsdóttur og Jörundar Gunnarssonar: Halla, Kolfinna, Hallfríður, Hallótta. Börn Höllu: Flosi, Einar, Guðrún, Helga, Guðrún. Börn Kolfinnu: Jón, Kár. Börn Jóns: Þorsteinn í Hvammi, Guðrún, Einar. Börn Hallóttu: Styrmir, Steinunn, Þuríður.
Börn Steinunnar Þorsteinsdóttur: Vilmundur, Þorsteinn, Hafliði.
Börn Helgu Þorsteinsdóttur og Ásgríms Þórðarsonar: Hafliði, Þuríður, Halldóra.
Móðir Ketils prests Þorleikssonar var Guðlaug Eyjólfsdóttir Guðmundarsonar gassimanns Þorsteinssonar Eyjólfssonar halta Guðmundarsonar hins ríka Eyjólfssonar Einarssonar Auðunarsonar rotins. Móðir Eyjólfs Einarssonar var Valgerður. Hennar móðir var Vilborg Ósvaldsdóttir. Hennar móðir Úlfbrún Játmundardóttir Englakonungs. Móðir Guðlaugar var Sigríður Hallsdóttir Hrafnssonar lögmanns Úlfhéðinssonar lögmanns Gunnarssonar lögmanns en móðir Sigríðar var Valgerður Þorsteinsdóttir Ásbjarnarsonar Arnórssonar Arngeirssonar Spak-Böðvarssonar Öndóttssonar kráku.
Þorgils hét maður og var Oddason. Hann var höfðingi mikill. Hann bjó á Staðarhóli í Saurbæ. Hallbera var móðir hans Aradóttir af Reykjahólum. Hann átti Kolfinnu dóttur Halls Styrmissonar úr Víðidal frá Ásgeirsá.
Þessi voru börn þeirra, þau er úr barnæsku komust: Oddi og Einar. Dóttir þeirra var Hallbera er átti Gunnsteinn Þórisson er bjó norður í Reykjardal á Einarsstöðum, önnur var Valgerður er átti Þórhallur Finnsson austur í fjörðum í Fljótsdalshéraði, þriðja var Ólöf er átti Snorri Kálfsson er bjó á Mel í Miðfirði, fjórða Álfdís er átti Örnólfur Kollason frá Snjófjöllum úr Ísafirði, fimmta Yngvildur er átti Halldór Bergsson, sétta Ingibjörg er átti Böðvar Barkarson, sjöunda Guðrún er átti Halldór slakkafótur er bjó í Fagradal.
Oddi Þorgilsson var að fóstri í Odda með Sæmundi Sigfússyni og varð hann fróður. Einar Þorgilsson var að fóstri með Þorgeiri Sveinssyni að Brunná. Viðar hét son Þorgeirs.
Vermundur hinn auðgi bjó á Hóli í Saurbæ. Hann átti Þuríði Starradóttur. Þorbjörn hét son þeirra en Þóra dóttir og önnur Þorbjörg er átti Ari Einarsson Arasonar. Þóru átti Þorgils Símonarson og voru þeirra synir Gunnlaugur prestur og Jón, Vermundur og Þorgeir.
Þá bjó á Stað í Hrútafirði Skeljungur Helgason. Hann átti Þorgerði dóttur Ásbjarnar hins daufa. Börn þeirra voru Helgi prestur, Narfi og Þorlaug er átti Jón Þorgilsson.
Snorri lögsögumaður Húnbogason bjó að Skarði á Nyrðri-Strönd. Hans móðir var Yngvildur Hauksdóttir. Hennar móðir hét Þorgerður, hennar móðir Yngvildur, hennar móðir var Þorbjörg dóttir Ólafs Höskuldssonar. Móðir Höskulds var Þorgerður dóttir Þorsteins rauðs Ólafssonar hvíta Ingjaldssonar. Móðir Ingjalds var Ólöf dóttir Sigurðar orms-í-auga. Snorri lögsögumaður átti Yngvildi Atladóttur. Synir þeirra voru þeir Þorgils og Narfi faðir Snorra prests er þar bjó síðan.
Álfur Örnólfsson bjó í Fagradal öðrum.
Birningur Steinarsson bjó í Tjaldanesi. Hann átti Helgu dóttur Þorgeirs langhöfða. Dóttir þeirra hét Sigríður. Móðir Birnings var Hallfríður Birningsdóttir Halldórssonar Snorrasonar goða.
Undir Felli á Syðri-Strönd bjó Þórður Gilsson. Móðir Þórðar var Þórdís dóttir Guðlaugs úr Straumfirði og Þorkötlu Halldórsdóttur Snorrasonar goða. Þórður Gilsson tók við guðorði Snorrunga eftir Mána-Ljót. Þórður átti Vigdísi dóttur Svertings Grímssonar. Börn þeirra voru þau Sturla og Snorri, Þórdís og Guðrún.
Hallur son Þórðar gufu var húskarl undir Felli og græddi fé þar til er hann keypti land í Flekkudal. Hann elskaði Sturlu er hann var ungur og gerðist fóstri hans. Hallur átti þá konu er Guðbjörg hét, þeirra synir Grímur og Snorri og Ingjaldur.
Erlendur hét maður er bjó í Svínaskógi. Hann átti Ólöfu dóttur Þorgeirs Kaggasonar. Þeirra dóttir var Guðleif. Erlendur andaðist en Ólöf bjó þar eftir og þótti kvenna fríðust og gervilegust. Sturla Þórðarson tók þar til ráðs og hafði hana heim við sér. Þau áttu fimm börn: Helga og Valgerður voru jafngamlar, Sveinn og Þuríður voru og jafngömul, Sigríður hét ein.
Skeggi hét maður er bjó á Skarfsstöðum son Gamla Skeggjasonar skammhöndungs. Hann var son Herdísar systur Grettis Ásmundarsonar. Skeggi var vitur maður og gildur bóndi. Þóroddur hét annar son Gamla er bjó í Þjóðólfshöfn. Hann var góður bóndi. Son hans hét Vilmundur. Einar hét hinn þriðji son Gamla er bjó í Miðfirði. Hann átti Sigríði Kálfsdóttur systur Snorra. Helga hét enn dóttir Gamla er átti Þórarinn Króksfjörður. Þeirra synir voru þeir Jón, Þorsteinn og Oddur. Þeir voru miklir menn og sterkir.
Þá bjó í Hvammi Þorkell prestur, góður bóndi. Hann átti Þórunni Ormsdóttur. Þeirra synir voru þeir Guðmundur og Bjarni. Þeir voru gervilegir menn. En er Þorkell andaðist þá eyddist fé fyrir þeim bræðrum og seldu þeir landið Böðvari Barkarsyni.
Gunnvarður hét prestur útlendur. Þessi voru börn hans: Ásólfur og Aðalríkur og Margrét. Þeir voru þriflegir menn og fóru með verkakaup um sumrum.
Nú er frá því sagt að Aðalríkur tók sér vist með Skeggja Gamlasyni.
Það varð of sumarið til tíðinda að sex alnar lérefts hurfu Arnóru konu Skeggja en Skeggi þóttist það spurt hafa að Vigdís fylgjukona Aðalríks mundi hafa. Hún var skilalítil kona og var þá vestur í sölvafjöru í Saurbæ og að herbergi í sauðahúsum frá Hvítadal.
Skeggi heimti Aðalrík á mál og kvað svo að orði: Svo er með vexti að léreft nakkvað er horfið og hefir hugur minn þar helst á að þið munið handhafa hafa orðið og valda. Vildi eg að þú segðir mér í trúnaði og mun þá létt falla.
Hann svarar og kveðst eigi ætla slík orð Skeggja fyrir sitt starf er hann vann fyrir honum.
Skeggi mælti: Viljið þið festa járnburð?
Aðalríkur lést það gjarna vilja og fór það fram en lést hann þó eigi vilja í vistinni þar til er hann hefði hrundið málinu. Aðalríkur lést sér ekki títt að bera járn ef hann skyldi láta vistina.
Skeggi svarar: Svo er að varast óráð að þau lúkast oft eigi vel.
En með því að Skeggi var vinsæll og haldsamur á sínu máli, þótt stórmenni ætti hlut að, þá var það öfundsamt því að öllum tengdamönnum Þorgils Oddasonar þóttu allir skyldir til að vægja fyrir þeim en Aðalríkur var þeim á hendi bundinn. Og nú fór hann að hitta Odda Þorgilsson og sagði honum hver ósæmd honum var ger og bað hann ásjá. Oddi svarar og lést óglöggt vita hver maður hann var í trúlyndi eða öðrum hlutum, hvort hann var eftir ásýnd og gervilegleik eða eigi. Aðalríkur kveðst það eigi vita, hversu það vildi verða. Oddi veik þá eigi af hendi of ásjána.
Og í þenna tíma hafði Oddi í bú sest að Skarði á Nyrðri-Strönd en Einar bróðir hans bjó í Tungu í Sælingsdal.
Það sama sumar hittust þeir á þingi Þorgeir Hallason og Sturla Þórðarson og hafði fram bónorð fyrir sína hönd og bað Ingibjargar dóttur hans. Þorgeir svarar þeim málum vel og átti ráð við vini sína. Hann hafði spurdaga af Sturlu að hann var mikilmenni og ættstór og líklegur til höfðingja og réðst það úr málum þeirra að Sturla fastnar sér Ingibjörgu á því þingi. Hún var vænst kvenna í þann tíð á Íslandi. Hana hafði átt Helgi Eiríksson og hét Einar son þeirra. Hann var þá þrevetur. Móðir Ingibjargar var Hallbera dóttir Einars Arasonar. Þorgeir bjó þá í Krossanesi í Eyjafirði og var mikill höfðingi.
Sturla sótti norður þangað brúðkaup sitt og fóru þeir Þorgils Oddason og Einar son hans og Magnús prestur og voru þrír tigir saman og höfðu frítt lið. Faðir hans var þá hrumaður af elli og fór hann eigi. Ingibjörg fór norðan með Sturlu og voru þau undir Felli of veturinn.
En of haustið Matthíasmessu var hreppfundur í Hvammi og kom þar fjölmennt. Oddi Þorgilsson var þar kominn á kynnisleið. Og of daginn milli tíða skyldi mæla samkomumálum og var stofan skipuð. Oddi sat í öndugi en Skeggi Gamlason sat í innanverðri stofu á hinn æðra bekk. Menn biðu Böðvars Barkarsonar en hann kom eigi inn. En Aðalríkur var þar kominn og reikaði á gólfi.
En er hann kom fyrir Skeggja þá brá hann öxi undan skikkju og hjó í höfuð honum svo að öxin sökk og mælti við: Svo kann eg járn bera.
Skeggi hljóp upp við höggið og settist þegar niður aftur en Aðalríkur hljóp þegar til dyra og fram en Böðvar Barkarson hafði staðið fyrir framan hurðina og lauk aftur eftir honum er hann hljóp út. Hann hljóp í fjall upp og svo vestur um heiði.
Þá mælti Oddi Þorgilsson: Þetta er illur atburður.
Skeggi svarar: Eigi fjarri því sem þér munduð vilja.
Og er eigi getið fleiri orða hans og varð það þegar að vígi.
En fyrir því að Skeggi var þingmaður þeirra Þórðar og Sturlu og vin þá tók Sturla eftirmálið og kvað slíkt illa að berast er flugumenn hljópu í höfuð mönnum. En til Aðalríks fréttist ekki í bráð.
En annan vetur eftir jól var skinnleikur undir Fjalli. Þar var kominn norðlenskur maður. Hann mælti og kvað það á máli haft norður þar um Öxarfjörð að vestur hér mundu vera góðir leikmenn því að þar var kominn sá er forgangsmaður var leikanna og fór um vorið austur í fjörðu. Sturla frétti hvert nafn hans væri. Gesturinn kvað hann undarlega heita og svo föður hans. Þá nefndi Sturla Aðalrík Gunnvarðsson. Gesturinn kvað hann svo nefnst hafa og kvað Brand prest Úlfhéðinsson hafa sent sig austur í fjörðu til Þórhalls Finnssonar. Sturla kvað nú hægra um að leitast.
Og um vorið eftir páska fór Sturla norður til Öxarfjarðar að fjárreiðum sínum. En er hann var í Skagafirði að Vallalaug kom þar Brandur prestur Úlfhéðinsson og heimti Sturla hann á mál og spurði ef hann væri sannur að björg við manninn: Viljum vér leita eftir með stillingu við þig. Hann kvað það satt vera en nú er svo komið að eg vil að þú vitir allt of ferðir hans en eg vil að þú gerir einn of málið með okkur.
Sturla segir: Eg skil gjörla hvað þig hefir til rekið og mun verið hafa í ráði Oddi Þorgilsson og margir aðrir þótt eg nefni eigi.
Hann þóttist nú glöggt vita hverjir í ráðum eða björgum höfðu verið með Aðalríki og nú tóku að rísa úfar á vinfengi þeirra Odda. En þó var þetta mál í deild lagt á þingi um sumarið og varð Aðalríkur sekur og stóðu menn því ekki í mót. En honum varð utan komið austur í fjörðum. Síðan var eftir leitað hvað menn vildu bjóða fyrir bjargir eða fjörráð en þar kom við umtölur góðra manna að goldið var fyrir bjargir eða fjörráð þrír tigir hundraða.
Það sama sumar létu þeir Þorsteinn Ásbjarnarson og Eiríkur son hans sekja Gils Þormóðsson og Guðrúnar Gilsdóttur, systur Þórðar Gilssonar, um það er hann átti börn við Ásnýju knarrarbringu, systur Þorsteins tittlings. Hámundur og Sigurður voru synir Gils og Ásnýjar.
Sturla beiddi að fé væri tekið fyrir frænda hans en því var eigi játað og fóru sakir í dóm. Þá bað Sturla sér liðs og kvað nauðsyn á að frændur hans yrðu eigi vanhaldnir og hétu menn honum liði. Eftir það gekk hann að dómi og gekk upp dómurinn.
Síðan mælti hann: Nú eru enn söm boð, að fé mun fram lagt fyrir frænda vorn til sæmdar því að hér viljum vér eigi sýna ójafnað.
Þá var því játað en dómur var eigi settur fyrr en sæst var á málið og tekið fé sektalaust.
Þessi voru af Sturlu upphöf fyrst er hann átti málum að skipta við menn.
Þá er menn komu heim af þingi hitti Sturla Böðvar Barkarson og kveðst vilja kaupa land að honum og kveðst þar helst hug til fellt. Böðvar gerði kosti á því og sömdu þeir það með sér. Eftir þetta gerði Sturla bú í Hvammi, það er hann hélt til elli, en Böðvar fór þá í Sælingsdalstungu. Og í þann tíma fór Þorgils Oddason norður til Þingeyra en synir hans tóku við búi á Staðarhóli og goðorði.
Og um veturinn eftir var sótt mikil. Þá andaðist Oddi Þorgilsson og þótti það mikill mannskaði því að hann var vitur maður og manna snjallastur í máli. Hann andaðist barnlaus. Þá andaðist og Álfdís systir hans og sama vor andaðist Þorgils faðir þeirra.
Einar tók þá fé sitt og goðorð og gerðist hann höfðingi því að margar stoðar runnu undir hann, frændur og mágar og vinir, er Þorgils faðir hans hafði fengið sér. Hann skorti og eigi kapp né áræði. Engi var hann lagamaður og blestur í máli.
Frá því er sagt að Vermundur hinn auðgi andaðist en Þorbjörn son hans tók arf eftir hann. Hann var kvennamaður mikill og átti mart barna og flest lítt að þroska. Hann átti Helgu Þórólfsdóttur. Ólafur hét son þeirra og var prestur.
Yngvildur Þorgilsdóttir varð ekki unnandi Halldóri bónda sínum og var með nokkurum hæfindum meðan Þorgils faðir hennar var við en síðan nýttu þau ekki af. Ræðst Halldór þá til utanferðar og við honum Þorbjörn Vermundarson. Og er þeir komu of haf réðust þeir til suðurferðar og önduðust báðir.
En er það spurðist út hingað þá tóku þau Þorgils og Þóra fé barna Þorbjarnar og bjuggu að Hvoli. Þá réðst þangað Helgi prestur Skeljungsson. Hann var vitur og góður kennimaður og hinn besti læknir. Þá gekk Jón Þorgilsson að eiga Þorlaugu systur Helga prests en hann fékk þá Þorgerðar dóttur Halldórs slakkafóts og Guðrúnar Þorgilsdóttur. Tók þá Jón við búi að Hvoli því að Þorgils og Þóra eltust mjög. Helgi prestur átti bú með Jóni mági sínum.
Þóroddur Grettisson hét bóndi mikill og sterkur. Hann gat son við Þórdísi hinni lygnu. Hún var göngukona. Sá sveinn hét Geir og var hinn mesti óaldarmaður, stulda maður og útilegu. Hann var svo skjótur á fæti að engi hestur tók hann.
Víðkunnur hét annar maður. Hann var Galmansson og Stutt-Línu. Hann gerðist og óráðamikill. Hann var lítill maður vexti og hinn hvatasti.
Þórir hét maður norðlenskur, fóstri Þorgríms assa. Hann var í föruneyti með Geir og gerðu mart illt.
Það var eitt sinn að húskarlar frá Hvoli höfðu farið í eyjar út og er þeir komu utan að fjöru sjávar þá festu þeir skip sitt við Salthólm og báru upp föt sín á land og fóru heim of kveldið. En um nóttina komu þeir Geir og tóku brott vistir og klæði og allt það er þar var hirt. Og of morguninn er Hvolmenn komu þangað þá misstu þeir þar vinar í stað og þótti sín för ill.
Um haustið nokkuru síðar þóttist Helgi prestur hafa njósn af að Þorgeir að Brunná og Viðar son hans mundu herbergja útilegumenn.
Og öndverðan vetur er lagðar voru mýrar þá fóru þeir tíu saman frá Hvoli öndverða nótt því að nýlýsi var á. Þeir fóru ofan til Brunnár og er þeir komu mjög að garði þá fóru í móti þeim menn tveir, þeir Viðar og Þórir hinn fjölkunngi, og fundu þeir eigi fyrr en Hvolmenn komu að þeim því að þeir áttu að sjá í gegn tunglinu. Þeir hljópu á eitt ennisvell og höfðu vopn fyrir sér en Hvolmenn slá um þá hring og sækja að þeim í glett og kastast á orðum. Jón kvað maklegan fund þeirra og kvað Þóri ekki farið hafa kurteislega um byggðir og lét þeim illa sóma að miklir þóttust að stela bitlingum. Þórir kvaðst stundum vera vel áviljaður að skera stærrum segum. Hann hafði öxi snaghyrnda er átt hafði Víga-Steinn. Hann lagði öxinni til Jóns og kom á kvið. Það var mikið sár. Tóku þeir Þóri höndum en Viðar komst á braut og fór á Staðarhól til Einars fóstra síns og sagði honum svo búið og kveðst ætla að hann mundi vilja rétta hans hlut þá er þeir léku saman barnleikum. Einar lést svo gera mundu og kvað hann ekki skyldu rekast um strandir. En Þórir fór í böndum til Hvols og var ætlaður til dráps.
Snemma of morguninn kom Einar til Hvols með fimmtánda mann og gengu til stofu og köstuðust menn orðum á. Einar spurði ef þeir vildu manninn lausan láta. Helgi prestur kvað eigi það efni að láta lausan þjóf og fjölkunngan mann en unnið nú til óhelgis sér.
Einar svarar: Mart mun mega tína of hann sem aðra menn en lét honum karlmennsku í því að hann verði hendur sínar.
Prestur kvað mundu mál manna að of frekt væri að gengið ef þeir tækju hann í brott og kvað meðallagi ráðlegt að hefja svo virðing sína of vændismenn að gera góða menn sér að óvinum. Einar kvaðst mundu manninn í brott hafa og það varð að lyktum að Einar gekk að Þóri og skar af honum böndin og hafði hann við sér.
En síðan varð Helgi prestur aldrei slíkur vin Einars sem áður en Jón lá um hríð í sárum og andaðist úr.
En Þórir lá úti og var ýmsum stöðum og höfðu þeir sveit og Víðkunnur Línuson. Vigfús hét einn og var austfirskur. Geir var og þar aðra lotu og það kvittað að þeir væru hríðum á Staðarhóli eða að Brunná eða í Tjaldanesi.
Um veturinn fyrir föstu er þess getið að Hvolmenn komu og voru fimmtán eða sextán og sóttu þegar að þeim en þeir vörðust úr húsum. Hvolmenn þóttust vita að ójafnt mundi skipt ef Einar yrði var við og hurfu frá. Birningur taldi að er hús hans voru rofin en Hvolmenn kváðu ærna sök til þess er hann hafði hýst óaldarmenn og varð af slíku lítt milli manna.
En um vorið tók Helgi prestur Geir í sauðahúsi þeirra frá Brunná og hafði hann upp við sér til Hvols og bað nú eigi fresta að hann væri upp festur eða menn gerðust til að draga hann af þeim. Og svo gert, að hann var upp festur í Kópströð þar að húsbaki.
En um sumarið eftir var lagt hestaþing á Staðarhóli. Þá var þar Víðkunnur Línuson. Þeim bar að orðum og Birni Gilssyni. Taldi Víðkunnur að við hann er hann hafði farið í Tjaldanes með Hvolmönnum og beiddi bóta fyrir. Björn kvað hann sýna mikla óhæfu er hann fór á mannfundi, þjófur og stuldamaður. Síðan heitaðist hvor við annan. Björn segir að Víðkunnur mundi eigi þora að ráða á hann framan.
Þá mælti Víðkunnur: Sjá þú nú við.
Þá lagði hann öxinni Steinsnaut framan í kviðinn og féll þar Björn en Víðkunnur gekk heim á Staðarhól og inn í suðurbúr. Þar var þá Þórir fyrir og var þá lokið búrið í lás.
Björn andaðist um nóttina. Síðan kom Einar Þóri utan en vígin voru bótalaus. Víðkunnur var í ýmsum stöðum. En menn höfðu á höndum Einari að hann væri í ráðum um víg Bjarnar en hann færðist undan með eiðum og varð það aldrei umalaust.
Það bar til tíðinda að Kambi í Króksfirði, þar bjó Eiríkur Kjartansson. Þangað höfðu sótt dagskemmtan Jón og Þorsteinn synir Króksfjarðar og var Þorsteinn inni, hann átti þar fylgjukonu, en Jón stóð úti undir vegg og talaði við Steinunni húsfreyju.
Þá ríða menn fyrir húsin, Víðkunnur Línuson og Vigfús. Hann hafði þá öxina Steinsnaut en Víðkunnur hafði sviðu og silfri rekinn leggurinn og allra vopna bitrast, járni vafið skaftið. Þeir hljópu þegar að Jóni og sögðu að þá skyldu þeir launa honum atferðir og eltingar og lagði Víðkunnur til hans með sviðunni en Steinunn rann á Vigfús og hélt honum. Jón hafði öxi víða og lágt skaft í. Hann laust af sér lagið og greip sviðuna og las að höndum honum. Þá vildi Víðkunnur bregða saxi en Jón tók hann og þá kenndi aflsmunar og hörfaði Víðkunnur undan. Þá kom Þorsteinn út og varð ekki tilræði hans. Og er Jón sá það hratt hann Víðkunni frá sér svo hart að honum lá við fall. Síðan hjó hann til hans og kom um þvert ennið og var það ærið banasár.
Þessi áverki var mjög lofaður af flestum mönnum. Eftir þessa atburði lagðist orðrómur á að annar háttur þótti á um héraðsstjórnina en þá er Þorgils hafði og tóku þá margir þeir er mikið þóttust að sér eiga að ráða sér til eigna í aðra staði þar sem þeim þótti trausts að von.
Nú skal taka þar til máls er Böðvar bjó í Tungu í Sælingsdal. Þá réðst til búlags með honum Yngvildur Þorgilsdóttir. Hún var þá ekkja.
Þá var það tíðinda að þeir synir Þorgeirs voru í Hvammi með Sturlu mági sínum, Þorvarður og Ari. Þeir gerðu sér títt um fundi við Tungumenn og hittust oftast að laugu.
Það var um veturinn er Þorvarður hafði farið til laugar í Sælingsdal og er hann skyldi heim fara féll hann af baki og skeindi sig á fæti og mæddi hann blóðrás og fóru þeir í Tungu og var hann þar eftir og batt Yngvildur um fót honum. Hann var mjög lengi í Tungu að lækningu og um vorið var hann ýmist eða í Hvammi. Það var rætt að þau Þorvarður og Yngvildur mæltust fleira við en aðrir menn en vinir þeirra synjuðu þess.
En um vorið eftir ræðst Þorvarður til Eyjafjarðar en Yngvildur gerði þá bú að Ballará. Hún lét sér búa svefnhús og var þar löngum. Hún hafði fótarmein um sumarið og gekk lítt um sýslur.
En of haustið kom þar kona að sex vikum. Hún hét Þórdís og var Leifsdóttir. Hún var úr Eyjafirði. Og er hún hafði skamma hríð dvalist þá ól hún barn. Það var nefnt Sigríður en faðir hennar Þorsteinn Þorleifsson, norðlenskur maður. Hún fór um haustið með barnið norður til Eyjafjarðar.
En eigi að síður grunuðu menn og gerðu menn margort of ráð þeirra Þorvarðs og Yngvildar.
Og er Einar varð þessa var leitar hann eftir um málið við Þorvarð og kvað hann mundu vilja hér um sönnu svara. En þau svör komu hér í mót af Þorvarðs hendi að synja og var festur járnburður fyrir en Klængur biskup skyldi gera um hversu sem skírsla gengi. Grímur hét sá maður norðlenskur er járnið bar. En er höndin var leyst þá var það ákvæði biskups að hann væri skír. Og eftir sneri biskup gerð og gerði fé á hendur Einari og sleit svo því þingi.
Það sumar bjóst Þorvarður til utanferðar í Eyjafirði. Þá seldi og Yngvildur Sturlu fjárheimtur sínar allar og tók hann sókn og vörn allra hennar mála sem hann væri aðili. Eftir það ræðst Yngvildur til ferðar á laun norður til Eyjafjarðar og skar sér skör og karlklæði og með henni Steingrímur kumbaldi Mársson. Og er kaupmenn lögðu út eftir firði hlóðu þeir segli og skutu báti og reru yfir á Galmansströnd og gekk Yngvildur þar á skip og fór í brott með Þorvarði og komu við Noreg.
Þá var Ingi konungur Haraldsson og réðst Þorvarður til hans en Gregoríus Dagsson tók við haldi Yngvildar. En er þetta fréttist þá hófst af nýju sá orðrómur að Sigríður mundi vera dóttir Þorvarðs og Yngvildar og það með að skírsla hefði villt verið og að Sturla og Ingibjörg hefðu þessi ráð vitað með Þorvarði. Og snýst nú Einar með fjandskap á hendur Sturlu og kvað hann hafa vafið sig í miklu vandræði.
Og næsta sumar kvað Einar það upp fyrir vinum sínum að hann mundi málum fram halda á hendur Sturlu um þenna óhæfuhlut og svo gerði hann og fjölmennti mjög og sótti þau mál í dóm að hann hefði ráðið þau ráð Þorvarði að hann skyldi segja að Þorsteinn væri faðir Sigríðar þar sem Þorvarður var Þorgeirsson og gert í því mannvillu og kristnispell og lét varða fjörbaugsgarð. En Sturla bauð eið fyrir málið að hann hefði eigi í þessum ráðum verið.
Einar mælti: Fá tólf menn með þér að sanna eið þinn og mun eg þá eigi halda málum fram.
Og er eiða skyldi vinna þá skildi Sturla svo undir eiðstaf að hann hafði eigi ráðið Þorvarði að gera mannvillu.
Þá innti Einar svo undir málið: Og eigi vitað með honum.
Þá svarar Sturla: Eigi hugði eg mig um það mundu sekjan verða þótt eg segði eigi óhöpp eftir tengdamönnum mínum meðan eg var eigi að spurður.
Þá svarar Einar, kvað nú það heyra mega hvort Sturla hefði vitað mannvilluna. Og sá orðrómur lagðist á að hann mundi vitað hafa. Var þá lokið sættinni. En með því að sætt sú var ógoldin er biskup hafði gert á hendur Einari þá stefndi Sturla eindaga um alþingissættarhald og lét varða fjörbaugsgarð. Og fóru hvortveggi málin í dóm og höfðu hvorirtveggju mikið fjölmenni og gengu hvortveggi málin fram og urðu báðir sekir fjörbaugsmenn, Sturla og Einar.
Eftir þingið söfnuðu þeir báðir liði til féránsdóma og þá fór Einar í Hvamm með hálft fjórða hundrað manna en hann lét eftir í Saurbæ Hrólf Gunnólfsson við hundrað manns. Þar var með Einari Snorri Kálfsson og Þorleifur beiskaldi úr Hítardal son Þorleiks auðga, og Hermundur Koðránsson, Halldór Egilsson og mart annarra virðingamanna. Sturla hafði og mikið lið. Þar var Böðvar Þórðarson, Páll Bjarnason.
Sturla reið vestur til Saurbæjar með sex tigu manna upp Þverdal en ofan Traðardal og svo í Saurbæ og háði féránsdóma á Staðarhóli og reið aftur um Sælingsdal og utan reiðgötu að Hvammi. En flokkur Einars sat fyrir ofan götuna milli túngarðs og Stekkamúla. Síðan gengu þeir Böðvar heiman af bænum með flokkinn mót Sturlu. En Einar hljóp upp og eggjaði atgöngu en Þorleifur beiskaldi bað hann eigi stefna mönnum í svo mikinn voða að aldrei leystist sem von var á, að svo mikið fjölmenni skyldi berjast. Og urðu margir góðir menn til með honum að eiga hlut í og skildu menn þar óhappalaust.
En er þeir fundust, Sturla og Böðvar, sagði Böðvar að Sturla hafði mjög hætt til um málin, riðið frá mönnum sínum. Sturla kvað eigi mundu þykja haldið til jafns við Einar ef hann sæti heima og hæði eigi féránsdóma en kvað vant að hvorir þar bæru hærra hlut.
Nú sátu hvorirtveggju í sekt þau misseri. En að sumri búast þeir báðir til þingreiðar Sturla Langavatnsdal en Einar Brattabrekku.
Og er hann kemur suður í Karlsdal skipti hann liði sínu og mælti: Nú er að þann veg að vér munum breyta ráðum um ferðir vorar og snúa aftur til héraðs en Álfur son Þórodds jarls skal taka við goðorði mínu.
Mörgum mönnum kom þetta á óvart og þóttust skilja að nokkuð stórt mundi undir búa. Einar snöri þá aftur við hálfan þriðja tug manna. Þar var við honum Gunnsteinn Þórisson og Eyjólfur, Oddur Bersason, Viðar Þorgeirsson. Þeir átu náttverð að Sauðafelli og riðu of nóttina inn í Hvamm.
Þá mælti Einar áður þeir riðu að bænum: Nú væri eg á það viljaður að vér eldum þeim ósparlega í Hvammi í nótt og mættu þeir reka minni til komu vorrar.
Þeir voru og flestir með honum að eigi löttu þessa mjög.
Og er þeir komu í Hvamm þá færðu þeir menn alla í kirkju en rændu fé öllu og brenndu bæinn og færðu allt vestur til Saurbæjar og sögðust að sínu ganga. Einar reið þá til þings við níunda mann.
Og er menn komu á fund Sturlu og sögðu honum tíðindi, hann kvað Einar mundu elt hafa frýjulaust eina nátt.
Síðan var leitað um sættir af vinum beggja þeirra og stefnur til lagðar og þótti mönnum til vandræða búast. Síðan var að sóttur Klængur biskup, að hann mundi gera um málið. Einar játaði því og svo Sturla. Og áður þingi var sett var sæst á öll mál að þessu. En áður lykt féll á málin kveðst Sturla vilja að biskup ynni fimmtardómseið að hann gerði jafnsætti. Síðan var fundur í bóndakirkjugarði allfjölmennur.
Þá mælti biskup: Eg geri fyrir brennu og bæjarskaða sex tigu hundraða en fyrir sakir við Einar fimm tigi hundraða. Rán skulu gjaldast aftur.
Eftir það vann biskup fimmtardómseið.
Þá mælti Sturla: Svo virði eg eið biskups sem páskamessu en sómi er oss það. En flestir munu kalla gjöldin eigi mikil og gerðir eigi fésamar.
Síðan fóru menn heim af þinginu og voru sáttir að kalla. Réttust rán flest og eigi gersamlega.
Sturla lét húsa bæ sinn um sumarið og var húsað fyrir veturnætur eigi verr en áður.
Þau Sturla og Ingibjörg áttu tvær dætur, Þórdísi og Steinunni. Ingibjörg tók sótt og andaðist áður málalok urðu. Síðan átti Jón Brandsson Steinunni Sturludóttur og bjuggu þau á Reykjahólum. Þeirra synir voru þeir Bergþór og Brandur, Ívar og Ingimundur. En Þórdísi átti Bárður Snorrason, son Bárðar hins svarta úr Selárdal, og voru þeirra synir Snorri, Pétur og Sturla.
Nokkuru síðar átti Sturla son við Guðfinnu Sveinsdóttur, þann er Björn hét. Og litlu síðar fékk hann Guðnýjar Böðvarsdóttur og var það brúðkaup í Hvammi, og átti hana til elli.
Þá var Einar Helgason stjúpson Sturlu í Hvammi. Hann gerðist roskinn maður. Þá galt Sturla út fé hans. Það var land í Sælingsdalstungu og þar búið með. Hann settist þá í bú og kvongaðist og fékk Guðnýjar Brandsdóttur, systur Jóns Brandssonar, með tilstilli Sturlu. Henni fylgdi heiman land í Króksfjarðarnesi og Króksfjarðareyjar.
En það hafði verið nokkura hríð að Brandur hafði léð Einari Þorgilssyni að færa í ær um haustum til skurðar en þá var svo komið að Einar Þorgilsson þóttist eiga mála á að hafa meðan hann bjó á Staðarhóli. Síðan lét Einar Ingibjargarson færa út ær sínar um haustum og kveðst ætla að hann skyldi eigi vera ræningi fyrir Einari Þorgilssyni.
En er þetta fregn Einar kvað hann það líkara að hann mundi halda réttu fyrir nafna sínum og kvað þeim enn eigi leiðast að leita á sig.
Hann sendi síðan Ljúfina prest að færa út sínar ær en hinar utan. Og er þeir komu í Króksfjarðarnes til Eyjólfs Hallgrímssonar, hann var gamall maður og góður bóndi, þeir báðu hann skips. Hann kvaðst eigi ljá mundu.
Þá mælti prestur: Firn mikil tekur þú til og laust hann með öxarhamri og varð það sýnn áverki.
Þeir tóku skipið og færðu út ærnar en hinar utan og fóru heim eftir það.
En er þetta spurði Einar Ingibjargarson kvað hann Einar Þorgilsson enn sýna ranglæti og fylgja að vondum málaefnum sem fyrr. Hann lét fara eftir ám sínum og reka heim. Síðan finnur hann Sturlu og sagði sér illa líka við nafna sinn.
Sturla svarar: Það munu flestir ætla að eg muni láta af málaferlum við Einar en eigi vil eg sitja honum óhæfuhlut við mig eða vini mína.
Litlu síðar fóru þeir Sturla og Einar við tólfta mann vestur í Gufudal til heimboðs. Og er þeir fóru vestan fóru þeir út í Króksfjarðareyjar og hjuggu allar ær Einars Þorgilssonar og báru saman í einn köst. Eftir það fóru þeir heim.
Einar Þorgilsson sat að brúðkaupi á Reykjahólum er Böðvar Barkarson gifti Valgerði dóttur sína Þórhalli Brandssyni. Þá frétti Einar áhöggið.
Hann svarar svo: Eigi leiðist þeim að vér eigumst við glettni.
En um veturinn eftir jól fór Einar Ingibjargarson norður til Eyjafjarðar. Og er Einar Þorgilsson frétti það þá fór hann við átta mann suður í Tungu. Hann kvaddi til sín Þorgeir Grímsson og kveðst vilja að hann ynni á Lofti fóstra Guðnýjar Brandsdóttur og lést vilja gera þeim nokkura ákenning sinna verka.
Þá er þeir komu í Tungu gengu þeir í stofu og var þeim heilsað og spurðir tíðinda. Þeir settust niður. En er Einar sá að ekki varð tilræði Þorgeirs þá stóð hann upp og gekk utar á gólfið. Hann var nærsýnn og þekkti eigi hvar Loftur sat. Hann sneri að þeim manni er Þórólfur hét og lagði spjóti í lær honum svo að út skar úr og varð það svöðusár. Þá hlaupa upp allir menn, þeir inni voru, og hélt hver á öðrum. Þar var Guðfinna Sveinsdóttir og hélt hún Einari. Þau sendu konu eina út í Hvamm að segja Sturlu en konur og karlar héldu þeim, þeir er þar voru, og mundu þeir eigi á braut komast ef Svertingur Starrason veitti þeim eigi. Hann lét þá lausa og kvað eigi hæfa að þar yrðu meiri vandræði og kom hann þeim í braut. Hann var þar heimamaður. Þeir Einar fóru þegar á braut og gengu upp á Múla og svo norður eftir fjalli þar til er þeir komu heim.
En er þeir Sturla komu í Tungu lét hann lýsa áverkum. Hann gekk að Svertingi og reiddi öxarhamar að höfði honum, kvað hann þess verðari að hann væri drepinn og var við sjálft að það færi fram en það barg honum að hann var heimamaður Einars Ingibjargarsonar.
Nú þóttist Einar Þorgilsson hafa hefnt áhöggsins.
Nú er það sagt um haustið að Þorgrímur prestur brotamaður kom norðan úr héraði og við honum Ólöf kona hans. Hún var kvenna vænst en hann gamall. Þau komu á Staðarhól. Hallur Þjóðólfsson var heimamaður Einars. Hann kvað það aldrei skyldu lengur að gamall maður flekkaði svo væna konu og tók hana af honum og svo hest hans er Máni hét, allra hesta bestur.
Þorgrímur fór braut af Staðarhóli og varð illa við. Hann fór í Hvamm og sagði Sturlu að honum var ger svívirðing og bað hann ásjá. Sturla svarar, kvað eigi sýnast mikilmennsku í slíku en kvað Einar það illa gera að veita vandræðismönnum á leið fram og leggja þar við virðing sína.
Um haustið hafði brotið skip norður við Horn og komu þeir þaðan félausir til Sturlu og báðu sér ásjá. Hann tók við þeim um veturinn. Einn þeirra hét Gjafvaldur.
Sturla mælti við hann: Eg þykist hafa veitt þér mjög vel. Nú vil eg senda þig vestur til Saurbæjar til Helga prests að hann sé þér að liði og heimamenn hans en þú skalt sitja um Hall Þjóðólfsson. Hann kveðst þess skyldur að gera það er Sturla vildi. Hann fór til Helga prests og sagði erindi sín.
Hann kvaðst mundu við honum taka og var hann þar um hríð.
Og litlu síðar kom þar Hallur um farinn veg og stefndi ofan til Márskeldu en húskarlar Helga prests slógust á leið við honum. En er þeir komu út úr garði kom Gjafvaldur eftir þeim og hjó þegar til Halls. Það kom á öxlina hægri og renndi ofan eftir armleggnum mjög að olboga. Varð það mikið sár. Gjafvaldur tók þá á rás og létti eigi fyrr en hann kom í Hvamm.
Og er Einar Þorgilsson spyr þetta heim heimtir hann að sér vini sína og vill eigi hafa svo gert. Sumir mæltu að það væri óráðlegt. Eftir það fór Ólöf braut af Staðarhóli og suður í Hvamm og tók Þorgrímur við henni.
Þá bað Sturla Þorgrím fara eftir hesti sínum ef hann gæti náð honum. Síðan fór hann í Saurbæ og sat um hestinn í drífuéli og komst á braut með.
Einar Ingibjargarson kom norðan um veturinn og líkaði illa er húskarl hans var særður.
Sigurður hét maður kerlingarnef. Hann bjó að Laugum í Sælingsdal. Hann var þingmaður Einars Þorgilssonar. Honum fylgdi að lagi Arngerður dóttir Ásólfs Gunnvarðssonar. Hún var væn kona.
Það var eitt sinn að Einar Ingibjargarson reið yfir til Lauga og batt hest sinn við dyr. Hann gekk til stofu og talaði við Arngerði. En er Sigurður varð þessa var hleypti hann beisli af hestinum og hljóp hann brott en konur komu í stofu og kváðu Einar mundu verða að ganga heim ef hann tæki eigi hest sinn. Einar gekk út og hitti Sigurð og spurði hví hann gerði honum slíkan farartálma. Sigurður var stórorður og kvað hann vel til búinn að hlaupa og elta hest sinn.
Heyr á, segir Einar, að þú gerir mér afarkosti og laust til hans með öxinni fyrir ofan eyra svo að þegar horfðu fætur upp.
Einar mælti: Viltu enn annað?
Sigurður stóð á fætur og skaust inn í dyrin en konur þrifu Einar og báðu hann heim fara. Hann gerði svo. Síðan sendi hann mann í Hvamm að segja Sturlu. Einar Þorgilsson var að gistingu í Ásgarði að Erlends prests. Sigurður fór þegar á fund Einars Þorgilssonar og sagði honum hver ósæmd honum var ger og bað hann ásjá. Einar lést vilja að eigi ynnu þeir oft á þingmönnum hans.
Sturla fór í Tungu og stefndi til sín bóndum og voru nær þremur tigum manna.
Einar Þorgilsson sendi þá Styr Gilsson að beiða bændur að þeir kæmu í Ásgarð. Og er Sturla varð þess var kvað hann þess eigi skyldu kost. Síðan reið Einar í Tungu við níunda mann en þeir Sturla gengu í mót þeim Einari.
Þá mælti Sturla: Saddir erum vér nú á heimsóknum yðrum og mjög virðum vér til ágangs yðrar tiltekjur og sýnu meir þykist mér undan eira og veldur það að vér viljum sjá við vandræðum. En kostur mun nú að rétta hlut sinn við þig.
Einar svarar: Svo aðeins skal þessi heimsókn að yður skal eigi ósæmd að vera og mælti allfagurt.
Og var því máli svo lykt að Sturla skyldi gera með þeim.
Sturla sagði: Eg geri fyrir áverkann hest og uxa þrevetran og gjaldi nú þegar.
Og skildu við það.
Hallur Þjóðólfsson var að lækningu að Hvoli til þess er hann var heill.
Helgi prestur mælti: Það ræð eg þér að þú farir í Hvamm og bjóðir mál þitt undir Sturlu og ætla eg þér það vænst til liðveislu.
Hallur fór nú og hitti Sturlu og kveðst vilja hans dóm á sínu máli. Sturla svarar og kveðst vilja unna Halli sæmdar fyrir áverka.
Halldór hét maður er kallaður var hvirfill. Son hans hét Kjartan, hann var húskarl Óspaks í Holti, en Guðbjörg kona. Hún var dóttir Skáld-Þórðar. Hún hafði fylgt Viðari Þorgeirssyni og voru þau þá skild. Hún var þá heimakona í Holti. Það var mælt að Kjartan væri í hjali við hana.
Svo bar að eitt sinn er þau fóru frá tíðum að Viðar fann þau á leið. Hann hljóp að Kjartani og rak hann niður og kvað mikil firn er auvirð það lagðist að konum og fór við hann illa.
En er bóta var beitt svarar hann: Ef eg skal bæta þetta þá vildi eg fyrir nokkuð eiga að gera.
Og enn í annað sinn finnur hann Kjartan og rekur hann niður og fer við hann verr en fyrr og mælti mart svívirðlega til hans.
Og er Óspakur varð þessa var beiddi hann enn bóta og virð mig til í þessu máli er hann er húskarl minn. Þeir voru bræður, Oddur faðir Óspaks og Þorgeir faðir Viðars.
Hann kvaðst engu mundu bæta, kvað Kjartan hafa verr haft í svörum og tilgerðum og fékkst þar ekki af.
Það var um veturinn, Magnúsmessu fyrir jól, að þeir fóru hvorirtveggju til Hvols til tíða. Og er lokið var tíðum búast menn brott. Viðar gekk úr kirkjugarði og heim en Kjartan gekk þegar eftir honum og hjó í höfuð honum og leiddi það sár Viðar til bana.
Kjartan fór eftir það suður yfir heiði og kom í Hvamm og sagði Sturlu áverkann. Sturla kvað honum nauðsyn á hafa verið og skaut yfir hann nokkuru skjóli. Kjartan var skyldur þeim bræðrum að Skarði, Narfa og Þorgilsi, og sendi Sturla hann þangað. Þeir tóku við honum og komu honum utan og gáfu fé til farningar honum.
Gils hét maður er bjó á Meðalfellsströnd. Hann átti lítið fé og mannheill. Össur hét son hans. Hann var í förum og var fyrst lestreki Guðlaugs auðga, norræns manns. Hann græddi þar af fé til þess er hann varð maður auðigur, keypti sér land á Nyrðri-Strönd í Búðardal og gerði þar bú og var góður bóndi og gagnsamur og þó lítt heill löngum.
Þorgils hét maður er bjó í Króksfirði. Hann var lítill fyrir sér. Hans synir voru þeir Grímur og Skofti. Grímur var kominn á framfærslu Álfs Örnólfssonar í Fagradal en Skofti bjó í Króksfirði og átti ómegð mikla en fé lítið og sjálfur lítils háttar. Þeir bræður voru nefndir til arftöku eftir Össur hinn auðga því að Þorkatla Svartsdóttir þótti eigi hafa vit til að varðveita féð en var þó skyldust Össuri.
Jósep hét maður. Hann var son Grettis Skeggjasonar skammhöndungs. Hann var góður bóndi. Kona hans hét Ólöf og var Tryggvadóttir. Börn þeirra voru þau Oddur og Heimlaug og Þórdís. Oddur Jósepsson var jafnskyldur Össuri sem þeir Skofti og Grímur. Oddur var gervilegur maður og vel mæltur og þótti Össuri þar komið fé sitt best er Oddur tæki. Oddur var og löngum í Búðardal og svo þá er hann andaðist.
Þá bjó Erlendur prestur Hallason í Ásgarði. Hann var þingmaður Einars Þorgilssonar og aldavin og sat fyrir gisting hans hvort sem hann fór við fleiri menn eða færri. Hann var gildur bóndi. Honum fylgdi Jórunn Grettisdóttir.
Snorri son Gufu-Halls hafði ráðist að vistafari vestur til Saurbæjar því að hann var í kærleikum við Kolfinnu Þorgeirsdóttur, konu Sigurðar á Bjarnarstöðum Höskuldssonar, og gerðist vin Einars Þorgilssonar. En er um var vandað vistir hans í Saurbæ þá lagði hann búlag sitt við Erlend prest í Ásgarði. Hann var hallur undir Einar í málaferlum þeirra Sturlu. Þá lagði Sturla óþykkt á þá Erlend og Snorra og kvað sýnast sem þeir vildu vera mótgöngumenn hans.
Það var eitt sinn að hross þeirra úr Ásgarði höfðu gengið út yfir ána en Már Álfsson gætti smala í Hvammi. Hann tók hrossin og reið en Þorleifur Ketilsson, húskarl Erlends prests, fór til og rak hann af baki og barði hann svo að hann var bæði blár og blóðugur.
Sturla var riðinn á Strönd út og kom heim annan dag viku. Honum var sagt frá sameign þeirra Márs og Þorleifs. Sturla kvað slíkt vera ósóma mikinn, að berja á saklausum mönnum. Síðan lét Sturla halda njósnum til hvað þeir hefðust að í Ásgarði og varð þess vís að þeir Erlendur prestur ætluðu til laugar á drottinsdag.
Og eftir dagverð drottinsdag fór Sturla heiman og Sveinn son hans til lauga. Og er þeir komu þar þá var prestur í laugu en Snorri gekk úr lauginni en Þorleifur sat og fór úr klæðum og ætlaði í laug. Þeir unnu þegar á Snorra og vógu Þorleif. Þá mælti Sturla við Svein að hann skyldi vinna á Erlendi presti.
Hann kvað sér það eigi sama því að hann er skírifaðir minn.
Síðan fóru þeir Sturla heim og prestur.
Ketill faðir Þorleifs, hann var þingmaður Einars Þorgilssonar. Þeir Einar fóru og lýstu vígi og áverkum og kváðu þá mjög sýna ofsa og fjandskap og segja Sturlu oftast fyrr vekja óvísu.
En um vorið eftir var fundur lagður í Dal ofanverðum og urðu menn þar ekki ásáttir.
Nokkuru síðar kom norðan Snorri Einarsson og var þá enn fundur lagður í Sælingsdal. Hann átti mikinn hlut í sættum og kvað einsætt að eigi ykjust vandræði manna og kvað ýmsa valda. Þá varð sætt og tók sinn mann hvor til gerðar. Eftir það brá Erlendur prestur búi en Snorri fór á Skarfsstaði.
Þá er Einar Þorgilsson frá andlát Össurar auðga fór hann út í Fagradal.
Og er hann kom þar sagði hann Grími erindi sitt: Eg vil að þú farir heim við mér en eg vil taka fjárheimtur þær er þú átt í Búðardal.
Grímur var leiddur úr kirkju og fór með Einari.
En Álfur kvað það eigi að sínum vilja gert því að eg hefi áður lagt fyrir hann fé því að Össur var eigi skilgetinn og sat eg því fyrir ómegðum og þykist eg því til kominn um fjártekjuna að nokkurum hluta.
Einar kveðst eigi hirða hvað hann mælti og tók í hönd Grími og nefndi votta og skildi svo fyrir handsali að hann tók handsölum og heimildum á fé því öllu er var í Búðardal og Grímur var þá arfi að orðinn en eg handsala honum vist að móti og framfærslu.
Eftir það fór Einar á fund Skofta og tók af honum handsöl með þeim hætti. Síðan fór hann í Búðardal á fund Odds og kveðst vilja leysa hann frá fé því öllu, er þar var, með sex tigi hundraða. Oddur kveðst það eigi vilja þótt hann tæki af mönnum nauðgum slíkar klengingar.
Þá mælti Einar: Það hefi eg heyrt menn segja að þú munir eigi vera skilgetinn og mun það vera réttara að þú hafir ekki af.
Og skildu að því. Reið Einar heim en Oddur fór þegar suður í Hvamm að hitta Sturlu og sótti hann að málinu. Sturla kveðst mundu á líta með honum. Síðan bauð Oddur Einari járnburð að hann væri löglegur arfi heldur en láta laust féið fyrir lög fram.
Þar var kominn til Einars Már Gilsson, Vilmundur Snorrason, Ívar Össurarson, Grímur og Ásbjörn Ljótssynir. Þeir urðu sekir um víg Karls Konráðssonar og Böðvars Grímssonar. Þeir voru kallaðir Skógungar og höfðu verið áður með Þorsteini Gyðusyni í Flatey.
Um vorið eftir páska fór Einar Þorgilsson í Búðardal og tók upp féð allt, mat og vöru og kvikfé allt það er þeir máttu með komast. En Oddi var haldið meðan og bað Einar hann vera kyrran og gekk að honum og greip af honum silfurhring og fór heim síðan.
Þá var gert virki um bæinn á Staðarhóli og þar byrgð í nautin of nætur og vakað yfir og setið að of daga yfir undir fjallinu gegnt Staðarhóli.
Oddur Jósepsson fór þegar eftir ránið í Hvamm og bað Sturlu liðs og kveðst mjög þurfa hans fulltings og vil eg gefa þér fé til liðveislu.
Sturla kveðst eigi nenna að deila of slík mál við Einar en hitta máttu Einar Ingibjargarson og vita ef hann vilji rétta hlut þinn.
Nú hitti Oddur Einar að málinu og kveðst vera mjög vanhaldinn af, nú vil eg gefa þér fé til liðs.
Einar kveðst vilja hitta Sturlu.
Nú fara þeir báðir á fund Sturlu og segir Einar að hann vill til sælast, sýnist mér að ójafnaði ganga svo búið eða hvað viltu þér af skipta?
Sturla svarar: Veist þú það mágur að eg mun eigi skiljast við þig í málaferlum. Síðan fór Sturla og Einar í Búðardal við Oddi og gerðu þar setu og söfnuðu að sér kvikfé því er eftir hafði orðið og svo fengu þeir úr eyjum egg og sela.
Síðan fór Sturla heim en þeir Einar og Oddur voru fyrir setunni. Þeir Einar höfðu skipakost betra en Búðdælir og urðu hans menn því oft fengsælli.
Einar Ingibjargarson fór eitthvert sinn við nokkura menn í Tjaldanes og kveðst vilja gera Saurbæingum nokkuð illt. Og er þeir komu í Tjaldanes og hjuggu skip Einars þrjú og kváðu þá jafnast með þeim. Þeir fóru aftur hið neðra um fjöru. Þá fóru þeir Már Gilsson og Bjarni Kálfsson utan í mót þeim hið efra um mýrar og fundu þeir Einar eigi fyrr en þeir komu um fram og sneru þegar eftir þeim og eltu langt en þá dró undan og skildu að því.
En er Einar Þorgilsson varð þessa var kveðst hann vilja hitta Búðdæli og svo var gert. En er bændur urðu þessa varir þá söfnuðust þeir saman og gengu í milli og var hvorigum kostur að gera öðrum mein. Einar stefndi síðan um skipahöggið og fór heim eftir það. Einar reið síðan til þings.
Og þriðju nótt hina næstu fyrir þingið fóru þeir Einar Ingibjargarson yfir fjall hið efra og ofan Traðardal upp frá Staðarhóli en þeir gerðu tvo menn hið efra um Melárdal en ofan Ásólfsgötu á njósn að vita um naut þau er komin voru úr Búðardal. Þeir komu í mót þeim Einari í Þverárdal og sögðu að nautin voru nær túni á Staðarhóli. Síðan fóru þeir til nautanna og kenndi Oddur þar með griðung þann er kominn var úr Búðardal og fyrir því hugðu þeir að þau mundu vera nautin en það voru þó heimanaut af Staðarhóli. Þeir ráku nautin fyrir sér og stefndu til Tjaldaness.
En þá er Einar reið til þings setti hann eftir Má Gilsson og Vilmund. Sturla reið og til þings. Vilmundur og þeir félagar voru gengnir til borða en Már fastaði um daginn.
Þá kom Már inn í stofuna og sagði að þá væri til önnur sýsla en matast allengi, kvað naut Einars í braut rekin og kvað Búðdæli komna mundu. Þeir Vilmundur hljópu þegar til vopna og fóru eftir þeim og nokkurir menn af næstum bæjum er sáu för hvorratveggju.
Þeir fundust fyrir utan ána upp frá Hleypilæk og voru Búðdælir sextán saman en þeir Vilmundur fjórtán. En er þeir fundust slær þar í bardaga. Og snemma dagsins hjó Ívar prestur um þverar herðar Einar Ingibjargarson og varð það mikið sár en Oddur hjó Ívar prest banahögg. Oddur Jósepsson vó Leif húskarl Einars Þorgilssonar. Síðan hjó Oddur til Ásbjarnar Ljótssonar á öxlina og klauf niður í síðuna svo að sá inn í búkinn. Þá hjó hann til Þorsteins Ólafssonar og klauf andlitið og féll hann þar. Ásbjörn Finnsson lagði spjóti til Gríms og féll hann eigi og gekk upp á lagið svo að oddurinn nam staðar í hrygginum. Hann snaraðist við og hljóp spjótið út milli rifjanna og gekk hann þá upp á lagið og hjó með handöxi á hönd Ásbjarnar og varð það mikið sár. Þar féll Grímur og Auðun Tóstason. Steinólfur af Kverngrjóti og Einar Sigurðarson af Bjarnastöðum höfðu hlaupið til úr torfskurði. Bjarni Finnsson fékk og mikið sár á síðu. Sigurður Ingimundarson fékk mikið sár. Vilmundur Snorrason varð og nauðuglega staddur og hörfaði fram að ánni og stakk spjótskaftinu aftur á bak sér yfir ána og komst svo hlaupi undan.
En er sleit bardaganum og þeir voru skildir urðu Búðdælir þess varir að Einar Ingibjargarson var sár orðinn og vildu þá sumir fara eftir þeim og drepa þá en hitt var ráðs tekið að þeir sneru yfir til Hvols til Helga prests og sögðu honum tíðindi. Síðan fór hann í mót þeim og batt um sár Einars og flutti hann heim til hans.
En það er mitt ráð, segir prestur, að nakkverjir fari á Staðarhól því að miklu er nú um meira að tala, alls þó hefir mistekist til nautanna.
Og það vildi Oddur. Voru þá nautin rekin á Staðarhól. Síðan fóru þeir Oddur í Búðardal og sendu þegar mann til þings og var þá hestur búinn og reið Ólafur Þorgeirsson hesti þeim í Lækjarskóg, þá var tekinn annar og reið hann þeim á Glýstaði, þá hinn þriðji og reið hann þeim til búðar Sturlu og sagði honum tíðindin. Þá heimti Sturla að sér vini sína og sagði hvað að hafði orðið.
Og litlu síðar kom Sigmundur og hafði Herdís hann sendan af Staðarhóli að segja Einari Þorgilssyni tíðindi.
Síðan gerðist óþykkt mikil milli manna og liðsdráttur. Klængur biskup var með Einari frænda sínum, Gissur Hallsson, Þorleifur beiskaldi, Snorri Kálfsson og margir aðrir. En Brandur biskup veitti Sturlu frænda sínum. Sæmundur faðir biskups var föðurbróðir Vigdísar móður Sturlu. Böðvar Þórðarson veitti Sturlu mági sínum, Þorvarður Þorgeirsson og margir aðrir. En sumir leituðu um sættir og varð ekki af því og fóru málin í dóm og gerðu hvorir aðra sekja.
En er leið að þinglausnum þótti mönnum ófriðlegt ef svo búin færu mál til héraðs og áttu menn þá hlut að og varð þá sæst á málin og skyldi Klængur biskup gera og Böðvar Þórðarson og var þá þegar upp lokið og þótti Sturlu verða gerðir skakkar og óhagar. Voru þá fram færðar sýknur manna.
Sturla reið fyrr af þingi en Einar og er hann kom heim þá var Einar Ingibjargarson kominn þar og Helgi prestur með honum. Og litlu síðar kom Oddur Jósepsson að hitta Sturlu en Sturla kvað eigi mundu annað vænna en þeir gerðu félagsbú. Oddur kveðst þess búinn og var það ráðið að Oddur skyldi eiga í búi í Hvammi. Síðan settist Sturla fyrir mál þeirra öll. Einar Ingibjargarson og Oddur og aðrir Búðdælir voru í Hvammi þau misseri og voru þar átján menn sekir um veturinn.
Einar Þorgilsson hafði og mart setumanna um veturinn. Þar var Hallur Gilsson frændi hans og Ásbjörn Hefla-Bjarnarson, Árni Bassason, Þorgils Sighvatsson, Hallur Þórðarson, Þorgrímur Kolbeinsson. Þeir voru allir fylgdarmenn Einars Þorgilssonar og þóttust öruggir fyrir jafnmörgum og eigi þótti þeim sitt óvænna þótt þeir hittu hálfu fleiri Búðdæli.
Margur fór orðasveimur en ekki varð af fundum. Sturla lét og engi gjöld of sumarið því að hætt var kallað milli þeirra. Hann hafði látið gera virki um húsin í Hvammi. Einar Ingibjargarson fór oftlega of veturinn til laugar með fimmta mann eða sjötta. Einar Þorgilsson hélt njósnum til um ferðir hans. Hann frétti þá að Einar Ingibjargarson ætlaði annan dag til laugar. Hann fór þá vestan við þrjá tigu manna.
Þann sama dag bjóst Einar Ingibjargarson til laugar við fimmta mann.
Sturla latti hann og þykja mér illar hleypifarar slíkar.
Einar kveðst fara vilja jafnt sem áður. Síðan bjóst Sturla til ferðar og voru þeir á þriðja tigi og alvopnaðir.
Gils Styrmisson bjó þá að Laugum. En er hann varð var við að Einar Þorgilsson sat við laugina fjölmennur þá leysti hann út kýr sínar og rak ofan í hóla því að hann vissi að Hvammsmenn ætluðu til laugar. Hann kallar að þeir Sturla skyldu aftur ríða en annað skeið æpti hann á nautin til ólíkinda.
Þeir Sturla fóru um fjall og komu til laugarinnar og voru þeir Einar Þorgilsson þar fyrir og réðu hvorigir á aðra. Og nú fór Einar Þorgilsson heim en Sturla litlu síðar. Sturla lést ætla að Einar Ingibjargarson mundi eigi þykjast of fjölmennur verið hafa ef hann hefði farið með fimmta mann sem hann ætlaði.
Hann svarar: Oft ertu mágur vitrari en eg.
Síðan voru þeir varari um laugarfarar en áður. Þennan kölluðu Hvammsmenn Búðdælavetur.
Um sumarið riðu hvorirtveggju til þings. Þá sótti Einar Þorgilsson um sættarhaldið og áttu þá enn vinir þeirra hlut í að sætta þá og var þá enn málum komið til sætta og gengu þeir til handsala fyrir Sturlu Snorri bróðir hans og Ingjaldur son Gufu-Halls. Hann átti Þuríði dóttur Sturlu og bjó þá á Skarfsstöðum. Þá voru ger fé á hendur Sturlu fyrir sættarhald en allar hinar fyrri gerðir stóðu. Þá voru færðar fram sýknur hvorratveggju.
Það sumar var Þorvarður Þorgeirsson á þingi. Hann hafði það á máli að Einar systurson hans væri hafður að forhleypismanni og að áeggjunarfífli vestur þar og lét sér þá ekki annað líka en hann færi norður þangað með honum af þinginu og svo var og.
Síðan fór hann utan og var með Magnúsi konungi Erlingssyni um veturinn og þótti kurteis maður en hann féll á Íluvöllum.
En er Sturla kom heim af þingi þá líkuðu honum gerðir eigi betur en fyrra sumar. Hann lét og Ingjald mág sinn engi gjöld gjalda og bauð honum að fara til sín og kvaðst það varlegar þykja. Ingjaldur kvaðst sitja vilja í búi sínu.
Snorri Þórðarson galt og ekki fé því að honum þótti sem ekki mundi af sættum verða þótt hann gyldi sumt en sumt væri ógoldið. Hann seldi af höndum búið undir Fjalli og tók við Oddur Króksfjarðarson en Snorri fór til Ballarár til Álfs Snorrasonar og var þar um sumarið. Þá var illt þerrisumar og spilltist hey manna.
Og drottinsdag að veturnóttum kom Ingjaldur til tíða í Hvamm.
Þá mælti Sturla við hann: Eg vildi kaupa að þér geldinga til sláturs því að mér þykir ekki varlegt að þú farir með mart geldinga. Hefi eg það spurt að þeir Saurbæingar heitast jafnan við þig og fé þitt.
Ingjaldur gekk undan og þagði.
Og þriðja dag eftir kom Ólafur Þorgeirsson í Hvamm. Hann var heimamaður á Bjarnarstöðum. Sturla leiddi hann á götu og spurði hvert hann skyldi fara. Hann kveðst eiga erindi upp á Skógstaði. Hann hafði verið heimamaður Sturlu.
En þá var þar í Hvammi Ásbjörn prestur bróðir hans og Kolfinna Gísladóttir móðir hans og Cecilía systir hans. Hún fylgdi þá Sveini Sturlusyni. Þá var fátt karla í Hvammi. Oddur Jósepsson var farinn norður til héraðs að smíðiskaupum. Sveinn og Oddur prestur voru farnir yfir í Dali.
Sturla mælti um kveldið er hann kom heim: Ekki þótti mér Ólafur fóstri vor alhuglegur og veit eg eigi hvað verið mun hafa undir förum hans.
Um kveldið kom Sveinn heim og Oddur prestur og mart búimanna. Og um kveldið eftir náttverð mælti Sturla við Guðnýju húsfreyju að slá skyldi hringleik og fór til alþýða heimamanna og svo gestir. Sturla mælti að sjá skyldi út að öðruhverju og bað menn hlýðast um því að þá var kyrrt veður og var vakað til miðrar nætur eða meir og varð ekki vart við mannaferðir.
Ólafur Þorgeirsson kom vestur á Staðarhól og sagði Einari öll tíðindi úr Hvammi og svo það að fátt var karla heima. Einar kvað hann vel segja.
Og annan aftan eftir bjóst Einar til ferðar. Þeir voru fjórtán eða fimmtán. Þar var Hallur Gilsson, Ásbjörn Hefla-Bjarnarson, Árni Bassason, Ólafur Klökkuson og Hallur Þórðarson, Þorgils Sighvatsson, Þorsteinn Tjörvason, Þjóstólfur Starrason.
Þeir Einar Þorgilsson fóru vestan of nóttina og suður af brúninni fyrir austan gilsbotn þann er austur er frá reiðgötunni. En skafl var og nýfenni lagður í brúnina og brutu þeir þar slóð í gegnum. Þeir fóru ofan eftir Sælingsdal og út fyrir Hvamm og allt á Skarfsstaði og fóru sumir til húsa heim og leystu út naut úr fjósi þrettán. Sumir fóru ofan til sauðahúsa og söfnuðu saman öllu sauðfé því er þeir fundu. Þar var Einar sjálfur í för. Hann reið í gryfju nakkverja og féll hesturinn undir honum en hann af baki og varð honum meint við. Þeir ráku allt það er þeir fundu og fóru utan of nóttina og komu er lýsti í Sælingsdal.
Nú er það tíðinda á Skarfsstöðum að kona ein stóð upp í dæging og gekk til bænahúss. Hún gekk til fjóss því að hún heyrði að naut beljaði. Hún sá að nautin voru í brottu nema ein kvíga var eftir. Hún gekk inn og sagði Ingjaldi. Síðan fóru menn í klæði sín og tóku sér hross og riðu inn til Hvamms. Þar var með Ingjaldi Þorsteinn Gunnarsson, Þórður Böðvarsson. Þeir komu á far nautanna og mikla mannaslóð.
Sturla hafði risið upp þegar lýsti og gekk til töðugarðs. Þar voru fyrir húskarlar og rufu heydes er drepið hafði um haustið. Vindur var á norðan og frjósanda. Þeir sáu að þrír menn hleyptu handan frá Akri sem fara máttu og er þeir komu á túnvöllinn þá kenndu þeir að þar var Ingjaldur.
Þá mælti Sturla: Svo líst mér á Ingjald mág minn sem muni nú í dag selja mér geldingana.
Ingjaldur kom í Hvamm og sagði þeim Sturlu ránið. Sturla svarar öngu og gekk inn þegjandi og inn til rúms síns og tók ofan skild sín og öxi. Guðný húsfreyja var vöknuð og spurði hvað tíðinda væri.
Hann svarar: Ekki enna annað en þeir Einar Þorgilsson hafa ræntan Ingjald öllu ganganda fé og hljóp þegar fram á gólfið og því næst út.
Guðný stóð upp skjótt og gekk utar á gólfið og mælti: Standi menn upp skjótt. Sturla er braut genginn með vopn sín en Ingjaldur ræntur.
Menn brugðust við skjótt og klæddu sig og bjuggust þó mjög af hrapaði. Árni Bjarnason tók skjöld af þili og enn fleiri menn. Þeir höfðu tvö ein spjót og fór þá hver sem búinn var út úr garði með hlíðinni og tóku tveir hross saman. Og er þeir komu til Krosshóla voru þeir nítján saman. Sáu þeir að þeir Einar fóru upp um Ránarvöllu.
Þá mælti Sturla: Það vil eg að menn beri svo öxarsköft sín að eigi leggi jökul á en bað þá duga sem best, sagði þess von að nú mundi annaðhvort fást mikil sæmd eða bani góðum drengjum. Og sóttu nú leiðina sem ákafast.
Þeir Einar sáu eftirreiðina.
Þá mælti Hallur Gilsson: Það sýnist mér ráð frændi að láta eftir ungféð en reka undan það er skjótfærra er, því að mér segir svo hugur um sem við liðsmun muni að eiga ef vér finnumst hér fyrir sunnan heiðina.
Þá mælti Árni Bassason og þeir er ákafastir voru: Ekki sjáum vér þá fleiri en vér erum heldur nokkverju færri, og víst eigi viljum vér renna fyrir jafn mörgum.
Þá segir Ólafur Klökkuson: Eg er maður skyggn og sýnist mér sem flestir hafi tvímennt þeir er eftir ríða.
Einar mælti: Hafa skal hvert lamb meðan ganga má.
Þeim varð nú sein förin upp yfir ána því að féið var heimfúst.
Þá er þeir Einar komu upp yfir Snorravað þá fóru þeir Sturla um Ránarvöllu. Þeim Einari varð seint um brekkurnar því að þar var snjár í driftum.
Þá mælti Einar til Arngeirs Auðunarsonar: Þú skalt fara vestur um heiði og safna liði og svo gerði hann.
Þeir Einar fóru allt upp á heiðarbrúnina og fara reiðgötu. Og er þeir voru komnir á upp þá hljópu þeir af hestum sínum og tóku sér stöðu á framanverðri brúninni. Og þá voru þeir Sturla komnir upp að hinni efstu brúninni og hlupu af hestum sínum. Og hljóp Sveinn Sturluson og Þorsteinn Gunnarsson og varð Sveinn fyrstur upp og sneru til þeirrar slóðar er þeir Einar höfðu farið of nóttina vestan og engir voru menn fyrir. Árni Bassason skaut af boga nokkverjum örum og kom það á engan mann. En er þeir Einar sáu hvar þeir stefndu þá runnu þeir á mót þeim fyrir gilsbotninn en Sturla sneri þar upp er þeir Einar höfðu áður upp farið. Og er þeir komu upp á brúnina þá snúa þeir Einar aftur í móti þeim.
Þá mælti Sturla: Viljið þér laust láta féið?
Einar svarar: Aldrei meðan vér megum á halda.
Og síðan hljópust þeir að og gekk Ingjaldur fast fram með reidda öxina en Ólafur Klökkuson hjó þegar til hans og á öxlina vinstri og hljóp öxin þegar á hol og varð það banvænlegt sár. Ásbjörn Hefla-Bjarnarson hjó til Sturlu ofan í skjöldinn og klauf niður í mundriða. Þá fékk hann og lög tvö og kom hvorttveggja í skild. Og í því bili var höggvin hönd af Brúsa Ljótssyni. Og þessu nær fékk sár Þorgrímur Kolbeinsson. Sveinn Sturluson og Þorsteinn Gunnarsson særðu hann og var hann hogginn á tvefalda höndina og sundur handleggurinn bæði fyrir ofan olboga og framan. Hann hafði og herðasár mikið. Síðan lagði maður til Ólafs Klökkusonar og kom á hann miðjan. Tvö hafði hann lög og mörg sár önnur og stór og gekk hann frá bardaganum og upp í hallinn og settist þar niður. Þá fékk Snorri Hallsson sár á hendi. Þeir Árni Bassason og Árni Bjarnason stóðu í þot og reiddu vopnin.
Þá mælti Árni Bjarnason: Eigumst við ekki við því að við höfum mælt til vináttu.
Þá lét Árni Bjarnason síga niður skjöldinn frá andliti sér. En er Árni Bassason sá það reiddi hann upp öxina tveim höndum og hjó til hans en hann brást undan og hjó hann niður öxinni og steyptist eftir. Þá hjuggu Árni og Þórður báðir til hans og kom annað í höfuðið en annað of þverar herðarnar og niður í gegnum brjóstið og lét Árni þar líf sitt. Og í því bili varð Ásbirni laus öxin er hann hafði niður hoggið og renndi frá honum og er hann vildi taka þá féll hann flatur því að þar var halllent. Þá hjó Sveinn Sturluson til hans og kom á hann miðjan og brast við hátt. Ásbjörn var gyrður saxi og kom höggið ofan í hjaltið en oddurinn saxins nam við jörðunni. Hann stóð þegar upp og var ekki sár orðinn. Þá fékk Einar lag af spjóti á síðu og rann honum mjög blóð. Þorsteinn Tjörvason krækti mann Sturlu að sér með öxi sinni og söxuðu þeir hann undir fætur sér og fékk hann komið sér ofan í gilið undir holfenni nakkvað. Fleiri menn urðu sárir af hvorumtveggja flokki en hér eru nefndir.
Þá mælti Einar við Svein Sturluson: Það vildum vér að þú gæfir oss grið því að þú átt þann hlut jafnan í með oss er þá er betur en áður.
Sveinn mælti: Faðir minn ræður griðum.
Þá settist Einar niður og mæddi hann blóðrás. Þá mælti Hallur Gilsson til Sturlu: Grið þættumst vér nú þurfa.
Sturla svarar: Leggið þá vopnin niður. Þeir vildu það eigi.
Þá mælti Sturla: Grið skulu þeir hafa.
Þá voru þeim grið gefin og mælti engi í móti því að féið færi aftur.
Þessir menn eru nefndir með Sturlu á heiðinni: Sveinn son hans og Ingjaldur mágur hans og húskarlar hans tveir, Snorri bróðir Ingjalds, Prest-Oddur, Þorgeir Bassason, Þórður Indriðason, Ásbjörn Hjartarson, Oddur Sveinsson, Brúsi Ljótsson og Ingimundur bróðir hans, Árni Bjarnason, Hallur Gilsson, Atli Þormóðarson.
Ingjaldur var þegar örendur og Árni Bassason en Ólafur Klökkuson og Þorgrímur Kolbeinsson fengu þjónustu og önduðust báðir. Þorsteinn Tjörvason lá allan vetur í sárum og varð græddur að kalla. Græddir urðu og aðrir menn allir. En Snorri Hallsson og Brúsi urðu eigi örkumlalausir því að Brúsi lét hönd sína en Snorri nýtti og ekki sína hönd.
Þá er Sturla fór heim af fundinum hafði hann við sér lík Ingjalds og fé allt það er rænt hafði verið. Þeir Einar fluttust og heim og komu menn í mót þeim í Hvammsdal.
Eftir fund þenna sátu hvorirtveggju í búum sínum um veturinn og var það mál flestra manna að á þeim fundi skipti um mannvirðing með þeim Sturlu og Einari.
Of vorið eftir voru mál búin til alþingis og riðu hvorirtveggju til alþingis og héldu fram málunum og var enn sem fyrr að vinir þeirra gengu í milli og var málum snúið til sátta og skyldi Jón Loftsson gera um og Gissur Hallsson. Og var þeim gerðum svo farið sem líklegast mundu sættirnar verða haldnar en ekki með þvílíkum stafnaburði sem fyrr voru gervar. Og skildust menn sáttir á því þingi á öll mál þau er milli höfðu verið og fóru við það heim og voru nú sáttir.
Tanni hét maður er bjó í Galtardalstungu. Hann átti Gunnhildi Brúsadóttur, systur Þórðar. Þórdís hét önnur Brúsa dóttir. Hún fylgdi að lagi þeim manni er Þorgeir hét. Hann var kenndur við móður sína og kallaður Arnóruson. Böðvar hét faðir hans. Þórdís var óskapvær.
Hún fór eitt sinn á kynnisleitun í Tungu til systur sinnar. En er Þorgeiri þótti hún sein heim fór hann eftir henni en hún var trauð heimfarar. Þá lagði Tanni bóndi til, að hann kveðst eigi vilja að hún færi nauðig úr hans híbýlum. Þorgeir segir að hann mundi ekki því ráða og greindi þá á þar til er Þorgeir hjó til Tanna og varð það banasár.
Eftir þetta fór Þorgeir á fund Sturlu og bað hann ásjá en Sturla kvað illverk vera en lést eigi kunna við þingmenn sína að reka þá frá sér.
En Tanni hafði verið þingmaður Þorleifs beiskalda og frændi. Þorleifur tók við máli eftir Tanna og sótti Þorgeir til sektar fullrar á alþingi og sýndist Sturlu eigi að verja það mál og varð Þorgeir sekur skógarmaður. En Sturla kom honum utan of sumarið norður í Eyjafirði.
Ófeigur hét maður Salgerðarson en Bergur hét faðir hans. Hann var vin Sturlu og heimamaður. Hann fór norður með Þorgeiri og fór utan. Annað sumar eftir kom Ófeigur út og fór þá til Sturlu og var þar um veturinn.
Þorleifur varð þessa vís og kvað mikla ósæmd í slíku sýnast af Sturlu er hann vildi sitja fyrir sæmd höfðingja. Þorleifur gerir um vorið liðsafnað og fer í Dali og gisti í Ásgarði að Bjarna Steinssonar. Þar kom Einar Þorgilsson til liðs við hann og höfðu þá þrjú hundruð manna og fóru stefnuför í Hvamm. En er Sturla spurði liðsdrátt þeirra þá safnaði hann að sér liði og hafði þó miklu minna fjölmenni.
Síðan stefnir Þorleifur Ófeigi of það er hann hafði verið í förum við Þorgeiri. Sturla kvað Þorleif hafa jafnan stórræði fyrir hendi þótt ekki mætti við það jafnast er hann brenndi inni Magnús biskup í Hítardal en var sjálfur dreginn grátandi úr eldinum.
Þorleifur svarar: Öngum munu þau tíðindi verri þykja en mér. En eigi erum við enn þaðan komnir að það sé víst að sá hafi betur er engis þykir um þau tíðindi vert. En ekki gjörla manst þú það nú að þú mundir drepinn hjá garði þínum sem melrakki hjá greni ef eg stæði eigi fyrir. En þess vilnast eg að færri gangi höfuðlausir fyrir mig á dómsdegi en fyrir þig er þú hlærð nú að glæpum þínum.
Síðan riðu þeir Þorleifur í braut og í Ásgarð um kveldið og gistu þar aðra nótt með flokk sinn allan. En að morgni skildust þeir Einar þar og fóru hvorirtveggju heimleiðis.
Og litlu síðar reið Sturla við sétta mann í Ásgarð og var Bjarni bóndi í smiðju.
Sturla kvaddi hann út og mælti: Það ætla eg, segir hann, að við munum skilja verða nábúðina og kveðst eigi vilja að oftar ættu óvinir hans heimilan gistingarstað í Ásgarði þá er þeir færu slíkar óspektarferðir og kvað annanhvorn þeirra færa mundu verða bústaðinn.
Síðan reið Sturla heim. En Bjarni seldi landið Erlendi presti Hallasyni.
Síðan reið Þorleifur beiskaldi til þings og hafði fram málið um sumarið og gengu menn á meðal og sættu þá og tóku sinn mann hvorir til gerðar. Sturla tók til Böðvar Þórðarson en Þorleifur Einar Þorgilsson og urðu þeir ekki sáttir á gerðina.
Þá mælti Böðvar: Það þykir mér ráð að við hlutum um hvor okkar gera skal.
Og því játti Einar. Síðan hlutuðu þeir og hlaut Böðvar að gera. Hann gerði lítil fégjöld á hendur Sturlu.
Nokkuru síðar fór sótt mikil yfir héruð. Þess er getið að einn hvern aftan kom í Hvamm sá maður er kominn var utan af Snjáfellsnesi en áður úr Borgarfirði. Hann var sumrungur einn.
Sturla settist á tal við hann og spurði margs. Hann spurði fyrst um ferðir hans en hinn sagði.
Þá mælti Sturla: Er sótt mikil suður um héraðið?
Hann sagði að svo væri.
Komstu í Hítardal? segir Sturla.
Já, sagði hann ferðamaðurinn. Hversu mátti Þorleifur? segir Sturla. Því var betur að hann mátti vel, sagði ferðamaðurinn.
Já, segir Sturla, svo má vera því að allar kvalar munu honum sparaðar til annars heims.
Nú skildu þeir talið.
Og fer hinn of myrgin og allt vestur í fjörðu og vestan nær vetri og kom í Hítardal.
Þorleifur bóndi var spurull við hann og frétti margs: Komstu úr fjörðum vestan?
Ferðamaðurinn segir svo vera.
Þorleifur spurði: Hversu er þannig ært?
Hann segir þar gott utan sótt gerðist þar nú mikil.
Þorleifur spurði: Komstu í Hvamm?
Já, segir hann.
Hversu mátti Sturla bóndi?
Vel mátti hann, segir ferðamaðurinn, er eg fór vestur en nú lá hann er eg fór vestan og var mjög tekinn.
Svo mun vera, segir Þorleifur, hann mun nú hafa illt en hálfu verra síðar.
Maður hét Bjarni og var Þorsteinsson. Hann átti Helgu Gellisdóttur. Þeirra son hét Þorsteinn drettingur.
Þórhallur hét bóndi. Hann var Svartsson. Hann bjó að Hólmlátri á Skógarströnd. Hann átti Æsu Þorkelsdóttur. Hann var auðmaður mikill og sterkur og ódæll. Hann var þingmaður Þorleifs beiskalda og gjafvin. Þau áttu þrjár dætur, hétu Þórdís, Þórný og Helga.
Þórnýjar fékk Þorsteinn drettingur. Hann hafði þá góðan fjárhlut og réðst hann til Hólmláturs með fé sitt. Þá kom það upp að Þórný hefði verið ólétt gefin og átti sá maður barn við henni er Þórður hét og var allskillítill. Þorsteinn drettingur átti og barn í vonum og var því leynt. Guðrún Ásbjarnardóttir sagði og þá að Þorsteinn var faðir að barni hennar því er þá var nokkurra vetra gamalt. En er það kom upp allt saman þá lét Þórhallur kenna mannamunar og dró fé Þorsteins allt undir sig en hann var sjálfur lagður í vinnu. En ef hann lagði til þá var hann hraktur í orðum eða barður. Ekki var Þorsteinn vinsæll maður.
Þorvarður hét maður er bjó út í Eskigrasey, gildur bóndi.
Það var eitt sinn að veturnóttum að Sveinn Sturluson fór út þangað og keypti mjöl að honum til handa Sturlu. En er mjölin komu heim reyndust þau verr en ætlað var. Nú líkar Sturlu illa og þótti Þorvarður hafa falsað sig.
Sturla fór stundu síðar og hitti Þorvarð og segir honum svo: Tveir eru kostir til af minni hendi. Sá annar að eg mun stefna þér eða þú takir við syni mínum er Halldór heitir.
Þorvarður kveðst það mundu kjósa að sitja eigi fyrir ágangi þeirra feðga og fór Halldór þangað.
Þorvarður var aldavin Þórhalls að Hólmlátri og er hann spurði þetta þá fór hann þangað og færði í brott sveininn á hendur móðurfrændum þar sem áður hafði verið og kveðst eigi vilja slíkan ágang.
Þorvarður kvað hann sýna vináttu við sig en mér þykir þó betra að sýna lítilmennsku hér um en koma sjálfum mér í vandræði.
Þórhallur kvað svo búið vera skyldu.
En er Sveinn spurði þetta þá mælti hann: Vera kann að Þórhallur vilji sitja yfir vorum hlut en kostgæfur mun eg vera að leggja hér slíkt í móti.
Sturla kvað það auðsætt vera að slíkir menn vildu illt við þá eiga en Guðný bað þá vera láta kyrrt því að vel var með þeim Þórhalli.
Síðan var það af ráðið að menn voru sendir til Hólmláturs að fala þrjár vættir matar að honum og voru borin til orð Guðnýjar. En Þórhallur kveðst engan mat mundu selja Hvammverjum. Æsa fýsti að selja en Þórhallur vildi eigi selja og réð hann. Sendimenn komu heim í Hvamm og segja Sturlu orð hans. Sturla bað Guðnýju reyna enn vini sína.
Litlu síðar hittust þeir Sveinn Sturluson og Þorsteinn drettingur á Kambsnesi og sátu á tali um stund og var það í hjali með þeim að Sveinn skyldi ráða af Þórhall en Þorsteinn skyldi gefa honum til sex tigu hundraða og skyldi það kaup á laun fara.
Og um vorið eftir páska fór Sveinn út á Hólmlátur með tíunda mann og fóru á skipi og lentu út hjá stekkum Þórhalls.
Síðan mælti Sveinn við menn sína: Vita skuluð þér nú erindi mitt, að vér munum stefna Þórhalli.
Síðan ganga þeir til húss. Hafþór Naddsson var húskarl Þórhalls en vinur Sveins og ætluðu þeir að kalla hann út að heyra stefnuna. Þeir gengu fyrst til dura Þóroddur og Þórður Brúsason og drápu á dyr en Þórhallur gekk sjálfur til dura og lauk upp dyrin og stóð fyrir innan.
Þá gengu þeir Sveinn að durunum og nefndi hann sér votta og stefndi Þórhalli um það að hann hefði leynt fjórðungi fjár síns og gert eigi tíund af. Stefndi hann annarri stefnu of það að hann hefði tvo pundara og hefði á hinn meira keypt en á hinn minna selt og væri hvortveggi rangur og lét varða fjörbaugsgarð. Hann stefndi enn um það að hann hefði alnar rangar og lét varða fjörbaugsgarð og jafnan sex merkur. Því næst stefndi honum Þorleifur Þormóðarson fjórum stefnum, sinni um hvern fjórðung tíundar og lét jafnan varða sex merkur.
Þá mælti Þórhallur við Svein: Kaupa muntu vilja fé mitt svo sem þú hefir virt til tíundar.
Sveinn svarar og kvað hann eigi mundu vilja selja honum þrjú hundruð hundraða á frest ef hann vildi eigi eiga að honum verð þriggja vætta matar. Síðan fór Sveinn brott en Þórhallur fór á fund Þorleifs beiskalda og sótti hann að ráðum. Þorleifur segir að tveir væru kostir til, sá annar að selja land sitt og ráðast á brott vestan þaðan eða sættast við Hvammverja og selja þeim sjálfdæmi.
Þórhallur mælti: Viltu þá fá mér land suður hér?
Þorleifur lést ætla að honum mundi það eigi fullgera og eggjaði að hann réðist lengra brott.
Þórhallur fór heim og inn í Hvamm og hitti Sturlu og seldi honum sjálfdæmi og kveðst ætla að honum mundi það betur gegna og kveðst þetta mál ekki vilja til þrautar leggja. Sturla kveðst ætla að honum mundi það best gegna.
Síðan frétti Sturla Svein son sinn eftir hvað gera skyldi en Sveinn kveðst vilja að eigi væri minna gert en hundrað hundraða og kvað hann þess maklegan.
Nei, segir Sturla, tíu hundruð skal gera lengur, þó hefir hann undir mig lagt málið.
Og þessa gerð sagði Sturla upp en Þórhalli læst vel líka og svo konu hans, galt fé þegar, land í Langeyjarnesi og þrjú hundruð í slátrum.
Maður hét Þorsteinn. Hann var Þorleifsson. Hann hafði verið heimamaður Sturlu. Hann var þá á vist með Þórhalli og fór með þeim heldur illa og Þórhallur stefndi honum um hrossreið. Síðan fór hann á fund Sturlu og bað hann ásjá. En Þórhallur sótti hann á þingi til fullrar sektar en Sturla gekk við heimilisfangi hans og réð því Þórhallur eigi til að féránsdómur væri háður. Síðan sendi Sturla hann norður um land og varðaði eigi um bjargir hans.
Nú líkaði hvorumtveggjum verr en áður. Sturlu þótti Þórhallur það engis virða er hann hafði honum á hendi verið en Þórhalli þótti enn hafður ójafnaður við sig.
Nú er Þórhallur þóttist spyrja kaup þeirra Sveins og Þorsteins þá hitti hann þá Þorleif beiskalda og Einar Þorgilsson eitt sumar á þingi og segir þeim svo að hann þóttist við mikil vandræði kominn vera.
Einar mælti: Þætti þér eigi það til liggja að við Þorleifur ráðum Sturlu af en þú haldir upp fébótum?
Hann kveðst vilja það gjarna.
En Helgi prestur Skeljungsson var var við þessa ráðagerð og segir þeim feðgum.
Kálfur hét maður er bjó á Gunnarsstöðum inn frá Hólmlátri hið næsta. Hann átti þrjá sonu og hét yngsti Börkur. En er Kálfur faðir þeirra andaðist þá seldu þeir landið hinir eldri Þórhalli. En er Börkur var nakkvað á legg kominn þá kallar hann í hendur Þórhalli til landsins á Gunnarsstöðum en Þórhallur kveðst eigi mundu laust láta landið fyrir honum og svarar heldur stutt. Börkur var eigi vel orðstilltur. Hann var þingmaður Sturlu.
Kár hét maður er þar bjó í Dölum. Hann var óspektarmaður. Þenna mann sótti Þórhallur til fullrar sektar en Kár hafðist þó þar við í Dölum. Og eitt sinn hittust þeir Kár og Sveinn og bar Kár upp fyrir hann vandræði sín og kveðst eigi vera vel við látinn. Sveinn kvað það satt vera og kvað margan eigi mundu slíkt sitja.
Maður hét Álfur. Hann var lítill bóndi. Hann hafði fastnað sér konu er Valgerður hét og skyldi brúðkaup þeirra vera á Ketilsstöðum viku eftir miðsumar og fór Þórhallur til boðs og kona hans og dóttir.
En drottinsdaginn reið hann inn í Leiðarhólm til hestaþings. Þar var þá kominn Sveinn Sturluson og höfðu þeir aðra sveit og voru þeir Þórhallur fjölmennari því að hann gekk of daginn með þrjá tigu manna. Og um aftaninn reið hann út á Ketilsstaði og var þar of nóttina.
Þeir Sveinn riðu og út á Skógarströnd og förunautar hans. Þar var Börkur Kálfsson og Bergþór og Tjörvi Snartarsynir, Kár hinn seki. Þeir riðu á Gunnarsstaði um kveldið til Héðins Bergþórssonar.
En of morguninn eftir reið Börkur inn á Ketilsstaði á njósn og kallaði þá enn til lands við Þórhall og var þar deila mikil. Og síðan fór hann aftur til þeirra Sveins.
Og um daginn reið Þórhallur heimleiðis og Æsa kona hans með honum og Helga dóttir hans, Halldór Guðbrandsson mágur hans. Kolbrandur hét maður og reið þar við honum. Þau riðu hið neðra með sjó.
Og er þeir Sveinn sjá för þeirra þá riðu þeir í móti þeim og hittust við sjóinn gegnt Gunnarsstöðum. Er er þeir Þórhallur sáu ferð þeirra Sveins þá stigu þeir af baki. Og er þau hittust hljópu þeir Sveinn og hans förunautar af baki og hélt Börkur Halldóri en Sveinn Kolbrandi. Kár og Bergþór vógu Þórhall.
Og eftir það riðu þeir Sveinn inn í Hvamm og tók Sturla við þeim öllum nema Kári. Hann var í ýmsum stöðum.
Þorleifur beiskaldi tók við eftirmáli um víg Þórhalls og sótti þá á þingi og var Bergþór sekur skógarmaður. Tjörvi var og af landi ger og skyldi utan vera þrjá vetur. Bergþór var og ferjandi en fégjöld komu fyrir Svein og Börk.
En féránsdómar voru í Hvammi og sóttu þeir heim til Sturlu Þorleifur og Einar Þorgilsson og höfðu nær hundrað manna. Þar var og fjölmenni fyrir. Þá bauð Sturla Þorleifi heim til dagverðar með flokk sinn.
Þorleifur segir: Öðru sinni mun eg hingað kynnis leita. En skylt var með Þorleifi og Guðnýju.
Sturla mælti: Þiggja máttu af því boð að hér eru þeir Bergþór og Tjörvi og skulu þegar í brott en þér viljið hingað.
Síðan riðu þeir Þorleifur í brott og létti þar þessum málum.
Klemet hét maður. Hann var Karlsefnisson. Hann var bóndi. Hann átti konu er Helga hét. Hún var dóttir Vincentíuss Eyjólfssonar. Bárður hét maður Álfsson Örnólfssonar. Það lék orð á að hann fífldi Helgu konu Klemets. Maður hét Kjartan og var Þorvaldsson. Hann var frændi Klemets.
Það var eitt sinn á hestaþingi að Kleifum í Gilsfirði að Bárður var á tali við Helgu. Þar kom að Kjartan og veitti Bárði áverka. Eftir það sótti Álfur að liðveislu Einar Þorgilsson en hann taldist undan því að hann var meir hallur undir þá feðga Kjartan og Þorvald. Þeir voru vinir hans og þingmenn.
Síðan sótti Álfur að Sturlu og tók hann við haldi þeirra Álfs og Bárðar og mælti eftir Bárð og var þá sæst á málin og gerði Sturla hálfan þriðja tug hundraða og réðst Álfur þá að þingfesti undir Sturlu.
Birningur Steinarsson og Helga kona hans, dóttir Þorgeirs langhöfða, urðu eigi ásátt og var ger skilnaður þeirra og áttu þau þó dóttur eina er Sigríður hét. Þá gekk Birningur að eiga Guðbjörgu Álfsdóttur en Helga giftist Þorsteini Þorvarðssyni og áttu þau börn saman, Þorgeir prest og Ingimund. Þau Guðbjörg og Birningur áttu þann son er Þorleikur hét.
Nú kallar Birningur Þorleik arfa sinn en Sigríður dóttir hans varð lítt að þroska. Henni fylgdi að lagi Hjaltur nokkur er Eiríkur hét. Einar Þorgilsson keypti að henni arfvon eftir Birning en kallaði það ekki verið hafa lagakvonfang er hann fékk Guðbjargar. Síðan beiddist Einar að Birningur færi heim til hans með fé sitt en hann kveðst mundu skipa af nokkverju til handa Guðbjörgu og syni hennar, slíku sem hann ræður. En Birningur vildi það eigi. Hann bjó þá að Heinabergi og hafði mikið fé.
Og of haustið sendi Einar húskarla sína út á heiðar að safna saman geldfé Birnings. Þeir fóru og ráku heim á Staðarhól sjö tigu geldinga og lét Einar alla skera.
Síðan fór Birningur í Hvamm og hitti Sturlu og sótti hann að ráðum og kveðst vilja handsala honum fé sitt allt og var það af ráðið að Birningur fór í Hvamm og var þar meðan hann lifði en Guðbjörg varðveitti búið að Heinabergi.
Og lauk svo þessum málum að Sturla sótti eigi Einar um ránið enda sagði Einar eigi ósátt sína á handsali Sturlu og Birnings og sátu þá hvorir um það sem fengið höfðu.
Þenna tíma bjuggu þeir í Vatnsfirði bræður Snorri og Páll, synir Þórðar Þorvaldssonar og Sigríðar dóttur Hafliða Márssonar og Rannveigar Teitsdóttur Ísleifssonar biskups. Þeir bræður voru hinir mestu höfðingjar. Páll var allra manna vænstur og gervilegastur en Snorri var lítill maður og vænn og forvitri og skörungur mikill.
Þá bjó að Helgafelli Ólafur prestur Sölvason bróðir Páls prests í Reykjaholti. Þar var á vist göfugur kennimaður Runólfur prestur Dálksson Þorsteinssonar, bróðurson Ketils biskups. Hann var hinn mesti klerkur. Hans dóttir var Hallgerður er átti Ólafur prestur. Hún var kvenna vænst og merkilegust og mestur skörungur að öllu.
Það er sagt að Páll tók að máli við Snorra bróður sinn og kveðst vilja fara suður til Helgafells og taka brott Hallgerði og kveðst vilja þar til hafa hans liðsinni. Snorri sagði það illa sama að gera slíkt við göfga kennimenn og lét að hann ætti þá menn í nánd sér að eigi mundu slíkt vel þola. Páll kveðst á það vilja hætta.
Síðan fóru þeir eigi allfáir suður yfir heiði og yfir Breiðafjörð og komu um nátt til Helgafells og gengu þegar inn í skálann og var Hallgerður tekin upp úr hvílu sinni og borin út en Ólafi var haldið og Runólfi presti. Hann var mikill og sterkur. Þá var þar að Helgafelli Jórunn Hafliðadóttir móðursystir þeirra Vatnsfirðinga. Hana hafði átta Brandur Gellisson er búið hafði að Helgafelli. Síðan fóru Vatnsfirðingar brott. Þetta fréttist víða og þótti mönnum sýndur í slíku mikill ósómi.
Og of sumarið er menn komu til alþingis þá var að sóttur Jón Loftsson þessum málum. Hann var allmikill vin þeirra bræðra Páls og Ólafs en frændi Runólfs og þeirra Möðruvellinga. Dóttir Eyjólfs hins halta var Þórey móðir Sæmundar, föður Lofts, föður Jóns. Runólfur prestur var son Dálks Þorsteinssonar Eyjólfssonar. Þeir Vatnsfirðingar voru og á þingi og svo Hallgerður. Voru þá sem mestar virðingar hans og var þangað skotið öllum stórmælum sem hann var.
Þeir Páll og Runólfur og Ólafur sögðu Jóni hver ósæmd þeim var ger og báðu hann liðs. Hann svarar og kvað víst í slíku sýnast mikinn ósóma og ágang.
Hann bað þangað kalla Hallgerði og svo var gert og tóku þau Jón tal með sér og tjáði hann fyrir henni hversu illa samdi og bað hana leggja hug sinn frá þessu óráði. Hefir með oss, segir hann, lengi vel verið og vildi eg að þú semdir við bónda þinn. En þótt þér þyki mannamunur þá er þó miklu meiri munur um ábyrgð þá er á er og mun þetta ráð illa út seljast og samir þér betur að þú ráðir þig frá sjálfviljandi en nauðskilnaður verði því að eigi mun þér lengi nytja af auðið. En ekki mun að sinni þröngva þér of þetta en segi eg þér hvað á mun liggja. En ef þú virðir orð mín og ferð heim með bónda þínum að þínum vilja þá skal það fram ganga. En því mun eg þér heita ef þú þarft nokkverju sinni mína ásjá að eg skal þér heill til liðveislu ef þú gerir nú eftir mínum vilja. En ef þú vilt þetta eigi þá mun eg þér aldrei veita.
Hallgerður svarar: Það mun eg kjósa að þú sért mér í vinar húsi.
Síðan lagði Jón til að Ólafur prestur tæki við konu sinni og var síðan sæst á málið.
Og litlu síðar dreymdi Pál Þórðarson, hann þóttist vera í skykktum línkyrtli. Og eftir það drukknaði hann á Ísafirði og nokkurir menn við honum og var þá svo ráðinn draumurinn að línkyrtill sá væri bárur stórar og ljósar er að honum gengju. Eftir það tók Snorri bróðir hans mannvirðing í Vatnsfirði og voru hans synir Hafliði, Þórður og Þorvaldur og Bárður.
Valgerður hét dóttir Hallgerðar. Hana nam Sveinn Sturluson í Hvamm og gerðust þar af miklar ósættir. Þá sótti Hallgerður Jón að málinu og kveðst þá vilja taka til þess er hann hafði henni heitið. Hann kvað það heimult vera og síðan sendir hann vestur Sæmund son sinn og nokkverja menn með honum. Þeir fóru vestur til Borgarfjarðar og komu þar til liðs við þá Þorleifur beiskaldi og Einar Þorgilsson og fóru stefnuför í Hvamm.
Þá mælti Sturla er hann kenndi mennina: Er Sæmundur þar? segir hann.
Eg þykist hér vera, segir Sæmundur.
Sturla mælti: Miklu muntu vera maður vitrari en eigi munir þú vita hvort þú ert eða aðrir menn.
Síðan stefndu þeir Sveini Sturlusyni og koma þessi mál öll undir Jón Loftsson á þingi og réð einn sem hann vildi og skipaði svo að flestum líkaði vel.
Páll Sölvason bjó þá í Reykjaholti. Hann átti Þorbjörgu Bjarnardóttur, systur Auðhelgu er átti Brandur biskup. Börn þeirra Páls voru þau Brandur og Magnús, Þorlaug og Arndís.
Þórir hét maður og var Þorsteinsson. Hann var prestur. Hann bjó í Deildartungu í Reykjadal hinum nyrðra. Hann var auðmaður mikill. Hann átti hundrað kúgilda á leigustöðum og tíu lendur. Honum fylgdi að lagi Ásný Halldórsdóttir. Synir þeirra voru þeir Leggur og Liður súbdjákn er úti varð á Bláskógaheiði.
Vigdís hét systir Þóris skilgetin er átti Klyppur prestur Þorvarðsson. Börn þeirra voru Þorvarður prestur og Kolþerna er átti Hámundur Gilsson frændi Sturlu Þórðarsonar. Þorvarður prestur átti Oddnýju Torfadóttur.
Þau Þorvarður prestur og Oddný áttu mörg börn: Árni prestur faðir Ara að Lundi, föður Lundarsveina, Snorri prestur faðir Játgeirs prests, Torfi prestur faðir Leggs prests og Oddnýjar, Gunnar, Guðbrandur.
Þórir hinn auðgi bað Þorlaugar Pálsdóttur.
Páli kvaðst kunnigt um fjárhagi Þóris en því að mannamunur mun þykja mikill þá vil eg ráða fyrir máldaga.
Síðan tókust ráð þessi með þeim máldaga að Þorlaug hafði heiman þrjá tigu hundraða og var það þó mál manna að Þórir legði fram í gjöfum við Pál og staðinn í Reykjaholti eigi minna fé en hún hafði heiman. En eftir samlag þeirra þá skyldi þá hálft fé eiga hvort þeirra við annað, fengið og ófengið.
Og eftir þenna ráðahag bjuggu þau í Tungu sjö vetur eða átta. Þau áttu börn og önduðust öll.
En eftir það beiddist Þorlaug að fara af landi brott og kvaðst hafa heitið Rómferð sinni í vanmætti sínum en Þórir kvað það eigi ráðlegt að skiljast við hægindi og kvaðst ófús vera ráðabreytni. En hún bað hann mjög og fyrir ástar sakir við hana þá lét hann leiðast og var þó tregur til. Hann seldi fjárvarðveislu sína í hendur Páli presti mági sínum meðan þau væru utan og voru það fjögur hundruð hundraða.
Þórir kom af hafi norður við Þrándheim og var þar um veturinn. Og um sumarið eftir fóru þau suður til Björgvinjar og voru þar annan vetur og þar ól Þorlaug svein þann er Björn hét. Og eftir um sumarið bjuggust þau til suðurferðar og seldu sveininn til fósturs að Mjólkurá. Það var skammt frá bænum. Síðan fóru þau til Róms og kom hvorki þeirra aftur. En um sumarið eftir andaðist sveinninn Björn nær Seljumannamessu.
Jón hét prestur íslenskur. Hann var Þórhallsson, réttorður maður og breiðfirskur að ætt. Hann hafði þenna vetur verið í suðurgöngu. Hann sagði svo frá að Þórir prestur hinn auðgi andaðist í Lukkuborg föstudag í imbrudögum á langaföstu en Þorlaug hefði fram haldið ferðinni til Rómaborgar og hafði hann hitt hana á veginum er hann fór sunnan og var það eftir páska og var þá snauð og nakkvað sjúk.
Þórir kráka hét maður norrænn er þá var á suðurvegum. Hann kvaðst hitt hafa Þorlaugu um sumarið eftir andlát Þóris nærri Maríumessu. Og er þau tíðindi komu til Noregs var Þorlákur biskup kominn frá vígslu til skips og fór það sumar til Íslands og sagði þessi tíðindi út.
Þá sagði Páll prestur Sölvason eftir sögn Þóris kráku of misdauða þeirra að Þórir hafði fyrst andast en því næst sveinninn. Segir hann að þá væri Þorlaug arfi hans og sonar síns en hann kveðst vera hennar arfi og tók hann allt féið undir sig.
Böðvar Þórðarson var frændi Þóris og Vigdísar er lifði og taldi hann Vigdísi réttan arftökumann Þóris því að hún var skyldust skilgetinna manna. Böðvar sendi menn til fundar við Pál um veturinn og beiddist lands þess er tæki fjóra tigu hundraða fyrir hennar hönd og kvað betur sóma að hún væri nokkurn veginn frá leyst. Páll kveðst ætla að lög mundu honum bera féin og kveðst eigi vilja láta það hann átti að réttu.
Sonum Þóris þótti sem þeim mundi berast arfur eftir föður sinn og bauðst Eyjólfur Þorgeirsson til liðveislu við þá er bjó í Stafaholti.
Og um vorið reið Böðvar í Tungu hinn þriðja dag páska með fjóra tigu manna og settist í búið og bauð Páli að hafa af fénu fjóra tigu hundraða en Páll kvað sig eigi mega svo til lokka að gefa það upp er hann vildi eigi fyrr.
Síðan gerði Böðvar orð vinum sínum Hermundi Koðránssyni og sonum hans Katli og Koðráni er þá voru vænlegstir menn í héraði og Magnús Þorláksson af Melum. Helga Sölvadóttir var móðir Þorláks, systir Þórðar, föður Magnúss, föður Sölva, föður Páls. Magnús Þorláksson átti Valdísi dóttur Hreins ábóta að Þverá. Brandur Pálsson bað Magnús liðveislu en Valdís eggjaði mjög að hann veitti honum. Þórður Böðvarsson bað Magnús og liðs og kvað honum það hent að veita föður sínum er þeir voru báðir í einni sveit og kvað honum þungt mundu móti þeim að standa. Magnús kvaðst Páli mundu veita er hann hét fyrri liði. Brandur var knár og mikill vexti. Magnús bróðir hans var og gildur maður og voru oft með honum einhleypingar. Þórarinn svaði var fóstbróðir hans, hinn styrkasti maður og allódæll, og margir aðrir voru þá í Reykjaholti hans jafningjar.
En var þó ráð höfðingja að auka eigi vandræði í héraðinu og láta bíða alþingis og fóru hvorirtveggju til þings of sumarið og voru áttar stefnur að málum. Taldi Páll upp skaða sinn, að Böðvar hefði eytt upp í Tungu miklu fé og beiddi bóta fyrir og þótti hann ranglega í hafa sest. En Böðvari þótti Vigdís eiga heimila viðtöku og varðveislu þess hluta fjár er Þórir bróðir hennar hafði átt í félagi við Þorlaugu en til þess að sæst væri á málið þá vildi hann að Vigdís hefði þriðjung alls fjár til eiginorðs við Pál. Þá var svo komið að hvorirtveggju játtu í dóm Jóns Loftssonar.
Og á þingi lauk Jón upp gerð sinni, að Páll skyldi hafa lönd öll, þau er Þórir hafði átt, og svo lausafé en gjalda Vigdísi fjóra tigu hundraða sem Böðvar hafði beiðst fyrst og þótti vel að Páll gerði þetta til samþykkis við frændur Þóris þótt hann ætti fé að lögum. Páll kvað sér hans ummæli vel líka en Böðvari líkaði ekki af gerðinni og reið heim í Tungu og sat þar í búi þau misseri.
Páll Sölvason hafði gift Arndísi dóttur sína Guðmundi hinum dýra og veitti hann því Páli. Um vorið eftir páska fór til liðveislu við Pál Brandur biskup og Guðmundur hinn dýri með mikla sveit, Þorleifur beiskaldi og Ari hinn sterki Þorgilsson því að Magnús sonur Páls átti Hallfríði systur Ara. Þar kom og Hermundur úr Kalmanstungu er átt hafði Hallfríði Runólfsdóttur og fjöldi héraðsmanna.
Þá kom norðan úr Tungu Þórður Böðvarsson og beiddi að Páll ynni sómahlutar frændum Vigdísar.
Þá svarar Guðmundur hinn dýri og kvað Pál hafa sett höfðingja fyrir sitt mál Jón Loftsson og vill nú halda öll hans ummæli og gera það fyrir sakir kennimannsskapar síns að eigi ykist stórvandræði af í héraðinu, lét þá Tungumenn lítt það hafa í sýnt að þeir væru sæmdar af verðir.
Síðan fóru Reykhyltingar stefnuför í Tungu. Þá hafði Böðvar gera látið virki um bæinn í Tungu og hafði þar fjölmenni mikið. Þar var þá Sturla Þórðarson mágur hans við marga menn, Þórður Böðvarsson, Árni Borgnýjarson frá Hólmi, Sveinn Sturluson og gengu þeir allir á tal um það hverja meðferð hafa skyldi ef þeir stefndu þeim. Réðu nokkverjir, þeir er ódælastir voru, að vinna skyldi á þeim. Sturla kvað það ekki ráð við svo mikinn afla sem þeir höfðu, bað heldur stefna þeim jafnmörgum stefnum og finna slíkt til er sýndist. Og var þetta af tekið og bjuggu hvorirtveggju mál til.
Sturla gekk að Jóni Þórarinssyni bróður Guðmundar hins dýra, móðir þeirra var Þuríður dóttir Guðmundar lögsögumanns.
Sturla mælti: Heill þú Jón. Maður spurði hví hann kveddi hann en eigi Guðmund. Sturla svarar, kvað þenna þá víðfrægstan að endemum.
Jón var skáld. Hann kvað þetta:
19.
Karl er staðr hjá Sturlu.
Stendr hann frá rangindum.
Þrumir andskotinn undir
orðslægr goða bægi.
Síðan riðu menn brott af þeim fundi og fóru málin of sumarið til alþingis. Lét Páll þá sanna misdauða þeirra Þóris og Þorlaugar á þinginu að lögum eftir því sem fyrr hafði hann gert.
En ekki urðu þeir enn sáttir og lagður var sáttarfundur í héraði um haustið eftir Mikjálsmessu í Reykjaholti. Áttu þá margir góðir menn hlut í. Kom þá þar til Böðvar Þórðarson og Sturla mágur hans og sátu menn úti á velli fyrir sunnan hús og var rætt um sættina. Vildi Böðvar enn sem fyrr að þau Vigdís hefðu þriðjung fjár og taldi það, sem var, þótt búið í Tungu hefði orðið ófésamt en hann hafði þó mikið sitt til lagt í mjölum og slátrum. En Páll var heldur tregur og heimti til síns máls og varð sein lyktin.
Þorbjörg kona Páls var grimmúðig í skapi og líkaði stórilla þóf þetta.
Hún hljóp fram milli manna og hafði kníf í hendi og lagði til Sturlu og stefndi í augað og mælti þetta við: Hví skal eg eigi gera þig þeim líkastan er þú vilt líkastur vera en þar er Óðinn.
En lagið kom í kinnina og varð það mikið sár. Síðan hljópu upp menn Sturlu og reiddu vopnin.
Þá mælti Sturla: Vinnið ekki á mönnum fyrr en eg segi hvar niður skal koma. Böðvar var og óður mjög.
Þá mælti Sturla: Setjist menn niður og tölum um sættina og þurfa menn ekki hér lýsa vanstilli fyrir þessa sök því að konur kunna með ýmsu móti að leita eftir ástum því að lengi hefir vinfengi okkað Þorbjargar verið mikið.
Hann hafði höndina að andlitinu og dreifði blóðinu á kinnina og mælti: Þess er mest von að við Páll munum sættast á okkur mál og þurfi menn ekki hér hlut í að eiga og setjist niður Páll mágur.
Þá svarar Páll: Ræða vil eg víst um sætt við Böðvar en þó líst mér þetta umræðuvert sem nú hefir í gerst, að snúa nokkvað áleiðis.
Sturla svarar: Ræði menn fyrst um sættir með ykkur Böðvari, einskis er þetta vert og munum við Páll mágur ræða um þetta síðar.
Þá sættust þeir Böðvar og lét Páll þá gangast þá hluti að áður höfðu í millum staðið og var þá lokið málum á þá leið að Böðvar skyldi hafa þriðjung þess fjár er Þórir hafði átt.
Eftir þetta bjuggust menn brott að ríða og báðu vinir Páls að hann skyldi selja Sturlu sjálfdæmi. Hann kvaðst þess ekki fús vera og lét þar ójafnaðar eins að von er Sturla var þótt hann mælti fagurt. En þó gekk hann að Sturlu við umtölur manna og bað hann hafa þökk fyrir stilling sína er hann hafði þar gert á því þingi.
Sturla svarar: Það heyri eg að litlu muni skipta hve til mín er gert enda finn eg það eitt á að yður þyki svo.
Páll mælti: Ef þetta má bæta þá vil eg að þú gerir slíka sæmd til handa þér sem þér líkar sjálfum.
Sturla mælti: Sjást þú svo fyrir ef eg skal sjálfur meta mig að yður mun þykja óhófs vita.
Þá svarar Páll: Ekki hefir mér fyrir þá sök slík vandræði til handa borið að eg mundi það kjósa né svo þig að hafa fyrir orðið og er það því vel fallið að þú ráðir fyrir. En biðja vil eg þig, segir Páll, að þú leggir eigi fyrr dóm á málið en við eru vinir allra vor.
Eftir það handsalaði Páll Sturlu sjálfdæmi en Sturla í mót niðurfall að sökum og skildust að því.
Nú leið veturinn og um vorið eftir fór Sturla suður til Borgarfjarðar og reið í Tungu til Böðvars. Síðan sendir hann orð Páli í Reykjaholt að hann skyldi koma í Tungu að heyra á sáttargerð. Það var krossmessu.
En er Páll kom þá mælti Sturla: Hversu marga menn viltu skilja undir sættir okkrar svo að þú viljir handsölum upp halda fyrir?
Þá mælti Páll: Mig og sonu mína og konu.
Þá mælti Sturla: Nakkvað fleiri menn?
Þá mælti Páll: Hermund og sonu hans og Torfa Svartsson.
Þá mælti Sturla: Viljir þú þá til skilja þá vil eg þá frá skilja því að nú berð þú vitni um hverjir í svikræðum hafa verið við mig.
Það er mín ætlan, segir Páll, að í þeim ráðum hafi engir menn sig vafið nema sá er til stýrði. En því nefndi eg þessa menn til að engir menn sýna sig búnari til liðveislu við mig en þessir. Nú muntu eigi bæði vilja að skilja menn undan sættum og gera þó einn um þér til sæmdar.
Síðan kom þar að Sturla lauk upp gerðinni og mælti: Hvað munum vér breyta um að gera eftir hins vitrasta manns dæmum, Hafliða Mássonar, er hann fékk vansa í sárafari. Nú geri eg þér á hönd fyrir frumhlaup Þorbjargar konu þinnar til mín tvö hundruð hundraða. Það skal vera vara og búfé, gull og brennt silfur eða aðrir ríflegir aurar.
Páll mælti: Víst hefir hér lengi að þrútnað um ójafnaðinn en þó er nú knútur á riðinn og kvað þess von að eigi mundi féið goldið að hinum fyrsta fardag.
Þótti öllum mönnum mikil undur er hann kvað slíkt upp og eftir það fóru menn heim.
Páll kvaddi á mál sonu sína og spurði hvað þeim sýndist af að kjósa: Hyggi menn svo að ef fé þetta gelst upp að þar munu fara allir vorir peningar. Nú er að kjósa hvort þér viljið sitja fyrir ágangi Sturlu og umsátum eða viljið þér leita trausts á menn með fégjöfum til liðveislu því að flestir munu svo virða að við þetta sé ekki leitanda.
Þeir kváðust aldrei vilja sína eigu upp gefa.
Síðan sendi Páll Brand son sinn suður í Odda og fékk hann þar góðar viðtökur af Jóni. Bar hann þá upp málið fyrir hann og segir allan málavöxt. Jón kvað eigi vel sama að höfðingjar gengju við svo mikinn ójafnað á hendur svo dýrlegum kennimanni sem Páll var og kvaðst veita mundu honum lið á þingi sem hann hafði föng á. Síðan fór Brandur heim og sagði Páli svo búið og nú líður að þinginu.
Páll reið til þings því að hann átti Reykhyltingagoðorð og voru viðsjár og varðhöld með flokkum. Hann reið til búðar sinnar.
En Jón Loftsson gekk frá búð sinni og heilsaði honum og bað hann velkominn og far til búðar með mér.
Páll bað hann hafa þökk fyrir boðið en eg mun ríða til búðar minnar en vér munum drekka allir samt um þingið.
Og svo gerðu þeir.
Snemma þingsins kom Böðvar Þórðarson á fund Jóns Loftssonar og kvað Sturlu hafa sent sig og kvað hann þess vænta að Jón mundi eigi mótsnúinn málinu þótt þau orð færu um.
Jón kvað með miklum ákafa farið á hendur Páli en lét eigi sama að etjast á við kennimenn gamla og göfga ríkum höfðingjum. Nú mun eg Páli lið veita.
Böðvar mælti: Svo segir mér hugur um að höfuðgjarnt verði nokkurum vina Páls ef Sturla er nakkvað minnkaður.
Jón svarar: Vita menn það, kvað hann, að Sturla er oft óbilgjarn um manndrápin en fleiri menn kunna að láta drepa menn en Sturla einn. Og það segi eg þér, Böðvar, ef Sturla lætur drepa einn mann fyrir Páli að drepa skal eg láta þrjá menn fyrir Sturlu.
Síðan skildu þeir talið og voru miklar viðsjár of þingið. Sturla var oftast í búð sinni og gekk óvíða og lét skemmta sér heima í búð.
Páll prestur gekk á fund Þorláks biskups og töluðust með.
Biskup mælti: Eigi þykir mér vera makleg deilan yður Sturlu. Þeir eru menn ríkir og kaldráðir en þú ert dýrlegur kennimaður. Nú vildi eg að þú værir var um þig og bærir vopn og verðir hendur þínar ef þú þarft þess við því að einskis er fyrir þá örvænt.
Og svo gerði Páll en þó lágu honum oft eftir vopnin þá er hann gekk frá kirkju og sýndist það í því að hann var óvanur vopn að bera.
Nú var leitað um sættir og verða þeir Sturla þess varir að Jón ætlar með kappi að veita Páli að bæn Brands biskups og ganga menn nú meðal þeirra og beiða að Sturla játaði í dóm Jóns um málið, kváðu þess von að honum mundi í því aukast mestur sæmdarhlutur en hitt allósýnt hversu vegnar að slá í deilur um og sögðu þá breytt hafa gerðum þeim er Jón gerði um Tungumál og gert í því enga virðing til hans.
Og einn dag er menn komu flestir til Lögbergs þá gekk Sturla fram á virkið fyrir búð sína því að það var oft háttur hans að setja á langar tölur of málaferli sín því að maðurinn var bæði vitur og tungumjúkur. Vildi hann og að það væri jafnan frá borið að hans virðing yrði víðfræg.
Hann kvað nú svo að orði: Kunnigt mun mönnum vera um málaferli vor Páls og um þá svívirðing er mér var ætluð að gera ef fram kæmi og olli því meir hamingja mín en tilstilli þess er gerði. Síðan var sæst á málið og selt mér sjálfdæmi af Páli. En nú eru sóttir að hinir æðstu menn á Íslandi að þetta mál skuli nú í gerð leggja er áður kom í sjálfdæmi. Nú ef dæmi finnast til að svo hafi menn fyrr gert þá væri á að líta. En þeir menn er sig binda nú við málið, nefni eg fyrst til þess Jón Loftsson er dýrstur maður er á landi þessu og allir skjóta sínum málaferlum til, þá veit eigi eg hvort annað er nú virðingarvænna en reyna hvern sóma hann vill minn gera. Nú kann vera að eg hafi eigi vit til að sjá mér hlut til handa en vilja mundi eg halda sæmd minni.
Þá svarar Brandur biskup: Engi maður frýr þér vits en meir ertu grunaður um gæsku.
Jón kvað Sturlu viturlega mæla og sjá fyrir margra hönd en fégjald, segir Jón, af Páls hendi munu til vægðar snúast því að þau voru hátt reist og skal nú við mig um að eiga en eigi við Pál.
Síðan gengu menn frá Lögbergi og heim til búða. En áður þinginu lyki bauð Jón Sturlu barnfóstur og bauð heim Snorra syni hans og honum sjálfum til kirkjudags í Odda.
Síðan fylgdi Sturla suður sveininum og þá síðan virðilegar gjafar af Jóni en gjald snerist mjög og var það helst ákvæði að væri þrír tigir hundraða.
Páll prestur bauð heim Jóni Loftssyni í Reykjaholt og var þar góður drykkur. Þar voru leiddir fram öxn þrír og var einn sex vetra en annar níu vetra.
Þá mælti Páll: Minni munu laun fram koma en þú værir verður fyrir liðveisluna en hér skaltu kjósa hvort þú vilt hafa þenna uxa, hinn sex vetra, eða hina báða.
Jón mælti: Svo líst mér á hinn sex vetra öxa að eigi megi betri öxn verða en þessi og kýs eg hann.
Páll mælti: Það er vel fyrir því að jafnmikið hefir mig kostað þessi einn sem hinir tveir.
Síðan dró hann gullhring á horn uxanum og kvað því fylgja skyldu tíu hundraða vaðmála. Jón þakkaði honum vel slíkar vingjafar og skildust með hinni mestu vináttu.
Svo er sagt að þá er Sturla frétti lát Þorbjargar konu Páls prests að hann leggst í rekkju og það var honum mjög títt þá er hann var hugsjúkur. Menn fréttu að hví það gegndi.
Hann svarar: Eg hefi nú þau tíðindi fregið er mér þykja áhugaverð.
Menn svöruðu: Ekki hugðum vér að þú mundir stríð um það bera þótt Þorbjörg væri önduð.
Sturla svarar: Annað ber og til því að mér eru eigi allhæg að, því að eg virði svo sem aldrei væri sakalaust við syni Páls og Þorbjargar meðan hún lifði en nú samir eigi vel að veita þeim ágang er hún er önduð.
Þá bjó Magnús prestur Pálsson að Helgafelli og Hallfríður dóttir Þorgils Arasonar hins fróða og var hún skörungur mikill.
Sturla andaðist í elli sinni í Hvammi en Guðný bjó þar lengi síðan. Einar Þorgilsson andaðist tveim vetrum síðar en Sturla sem enn mun sagt verða síðar.
Margar sögur verða hér samtíða og má þó eigi allar senn rita: Saga Þorláks biskups hins helga og Guðmundar hins góða Arasonar þar til er hann var vígður til prests. Saga Guðmundar hins dýra hefst þremur vetrum eftir andlát Sturlu og lýkur þá er Brandur biskup er andaður en Guðmundur hinn góði vígður til biskups. Saga Hrafns Sveinbjarnarsonar og Þorvalds Snorrasonar er samtíða sögu Guðmundar hins góða og lýkst hún eftir andlát Brands biskups svo sem Sturla Þórðarson segir í Íslendinga sögum.
Flestar allar sögur þær er hér hafa gerst á Íslandi voru ritaðar áður Brandur biskup Sæmundarson andaðist en þær sögur er síðan hafa gerst voru lítt ritaðar áður Sturli skáld Þórðarson sagði fyrir Íslendinga sögur og hafði hann þar til vísindi af fróðum mönnum þeim er voru á öndverðum dögum hans en sumt eftir bréfum þeim er þeir rituðu er þeim voru samtíða er sögurnar eru frá. Marga hluti mátti hann sjálfur sjá þá er á hans dögum gerðust til stórtíðinda og treystum vér honum bæði vel til vits og einarðar að segja í frá, því að hann vissi eg alvitrastan og hófsamastan. Láti guð honum nú raun lofi betri.
Þorgeir Hallason bjó undir Hvassafelli í Eyjafirði. Hann átti Hallberu Einarsdóttur af Reykjanesi Arasonar Þorgilssonar Arasonar Mássonar. Þau Þorgeir og Hallbera áttu tíu börn þau er úr barnæsku komust, syni fimm og dætur fimm.
Þeirra son var Einar. Hann átti ekki barn. Hann fékk líflát á Grænlandi í óbyggðum og er tvenn frásögn. Sú er önnur sögn Styrkárs Sigmundarsonar af Grænlandi, og var hann sagnamaður mikill og sannfróður maður, að skip þeirra hefði fundist í óbyggðum en lið þeirra hefði gengið í tvo staði og barist um það er aðra hafði fyrr þrotað vist en aðra, og komst Einar á brott við þriðja mann og leitaði byggðar. Hann gekk á jökla upp og lét þar lífi er dagleið var til byggðar og fundust vetri síðar. Lík Einars var heilt og ósakað og hvílir hann á Herjólfsnesi.
Annar son Þorgeirs var Þorvarður. Hann fór utan átján vetra gamall og þegar hann kom í Björgvin laust hann hirðmann Inga konungs er Jón hét svo að hann varð aldrei heill og dó um veturinn eftir. En það var fyrir þá sök að þessi maður sigldi frá honum úr Eyjafirði en Þorvarður réðst þegar í annað skip og komu þeir þrem nóttum síðar til Björgvinjar en Jón. Þorvarður sótti á fund Ketils Kálfssonar og hafði í sinni hendi hvort, öxina og skaftið er brotnað hafði þá er hann laust Jón. En því máli lauk svo að Þorvarður gerðist hirðmaður Inga konungs og varð honum kær.
Nú er hætt frásögn um athafnir Þorvarðs því að þar eru meiri efni í en eg vilji í þessa sögu rita.
Hann kvongaðist þá er hann létti af ferðum og fékk Herdísar Sighvatsdóttur. Hann átti fimm dætur þær úr barnæsku komust. Guðný var ein er átti Þorgeir son Brands biskups en síðar Eiríkur Hákonarson úr Orkneyjum, dótturson Sigurðar slembis. Önnur Guðríður er átti Kolbeinn Tumason, þriðja Guðrún er átti Klængur Kleppjárnsson, fjórða Hallbera er átti Þórður Önundarson, fimmta Ingibjörg er Brandur átti. En áður Þorvarður kvæntist átti hann dóttur við Yngvildi dóttur Þorgils Oddasonar. Hún var gift Hjálmi Ásbjarnarsyni. Aðra dóttur átti hann við Herdísi Klængsdóttur og hét sú Helga. Hún var gift Teiti Oddssyni í Austfjörðum. Þorvarður átti son er Ögmundur hét við þeirri konu er Helga hét. Ögmundur fékk Sigríðar Eldjárnsdóttur af Espihóli. En í elli sinni átti Þorvarður dóttur er Berghildur hét við Birnu Brandsdóttur. Hún var gift Eldjárni í Fljótsdalshéraði.
Son Þorgeirs hét Þórður og var munkur að Þverá og andaðist þar. Hann átti ekki barn. Fjórði hét Ingimundur. Hann átti Sigríði Tumadóttur og átti ekki barn. Hann var prestur og mikið göfugmenni. Ari hét hinn fimmti son Þorgeirs. Hann var mikill maður og sterkur. Þóru Þorgeirsdóttur átti Héðinn Eilífsson er bjó að Hólum í Eyjafirði en síðan átti hana Eyjólfur Einarsson. Önnur dóttir Þorgeirs var Ingibjörg. Hana átti fyrst Helgi Eiríksson úr Lönguhlíð en síðan Hvamm-Sturla. Þriðja dóttir Þorgeirs hét Þórný. Hana átti Grímur Snorrason að Hofi í Skagafirði á Höfðaströnd. Fjórða dóttir Þorgeirs hét Gríma. Hana átti Brandur Tjörvason á Víðivöllum. Fimmta dóttir Þorgeirs hét Oddný. Hana átti Darr-Þórir Þorvarðsson.
Gunnar hét maður er kallaður var Sleggju-Gunnar. Hann var Helgason Þórðarsonar Þórissonar Arngeirssonar Böðvarssonar. Gunnar átti Rannveigu Úlfhéðinsdóttur Kollasonar Þormóðssonar Kollasonar Þorlákssonar bróður Steinþórs af Eyri er Eyrbyggjar eru frá komnir.
Þormóður Kollason átti Þórnýju Aradóttur af Reykjanesi.
Þau Gunnar og Rannveig áttu dóttur er Úlfheiður hét. Hún var gift nauðig en síðan lagði þokka á hana Ari Þorgeirsson og átti við henni börn fjögur. Klemet hét son þeirra og andaðist ungur.
Þau áttu þann son annan er Guðmundur hét. Hann var fæddur á bæ þeim er að Grjótá heitir í Hörgárdal. Þar bjó þá Steinunn Þorsteinsdóttir og Sigríðar Úlfhéðinsdóttur. Hún var systrunga Úlfheiðar og var ástúðigt með þeim. Það var þremur nóttum fyrir Mikjálsmessu er sveinninn var fæddur.
Þar var vitur maður og fróður, Guðmundur kárhöfði. Hann mælti er sveinninn kvað við nýfæddur að hann lést engis barns rödd slíka heyrt hafa og kvaðst víst vita að það barn mundi afbragð verða annarra manna ef lífi héldi og kallaði sér bjóða ótta mikinn er hann heyrði til.
Þau áttu dóttur er Guðrún hét og son er Gunnar hét og andaðist ungur.
En er til tók lag þeirra Ara og Úlfheiðar lét hún koma í hendur honum fimmtán hundruð þriggja alna aura til forráða og hafði hún þá eftir gullhring og marga gripi aðra. En fyrir því að Ari var maður stórlyndur þá lagðist þetta fé brátt í lóg.
Nú er þar til máls að taka er Þorvarður Þorgeirsson kom út eftir fall Inga konungs og lýsti því að hann vildi engum jarðlegum konungi þjóna eftir Inga konung því að honum þótti sem engi mundi hans jafningi verða. Og þess bað hann Ara bróður sinn, ef hann kæmi til Noregs, að hann byndist eigi við þann flokk er fellt hafði Inga konung, kallaði von að flokkur mundi hefjast í Vík austur að leita eftir hefndum og bað hann ráðast í þann flokk og setjast í rúm sitt.
Nú fer Ari utan en Úlfheiður situr eftir með son þeirra Guðmund. Ari sótti á fund Erlings jarls og hitti hann í Vík austur um vorið eftir og áttu þeir þegar bardaga í Túnsbergi, Hákon herðibreiður og Erlingur jarl, og fékk Hákon ósigur og flýði. En litlu síðar börðust þeir fyrir Hrafnabjörgum og lagði Hákon enn á flótta. Hinn þriðja bardaga áttu þeir það sumar undir Sekk fyrir Raumsdal. Þar féll Hákon konungur og mart göfugra manna með honum.
Erlingur jarl lagði mikla virðing á Ara fyrir fylgd sína.
Um veturinn fór jarl um Upplönd og Magnús konungur og Ari með þeim og margt hirðmanna og áttu þá bardaga á Reyri, það var skammt frá Hamarkaupangi, og börðust við Sigurð jarl og féll hann þar og mart lið með honum.
En er tíðindi þessi komu til Íslands og það hverja virðing Ari fékk af konungi og jarli þá kvað Þorvarður vísu:
20.
Endr lét sunnr á sumri,
snarfengr, með Erlingi
bróðir minn und breiðar,
brandéls, staðið randir.
Víggarðs hefir varðað
veðreggjandi beggja
okkað rúm, þar er ámir
ungr, böðkuflar sprungu.
En um vorið eftir fýstist Ari út hingað og gaf jarl honum knörr með rá og reiði. Hann varð vel reiðfari og kom skipi sínu að Gásum í Eyjafjörð. Skipið átti hálft með honum Ámundi Konráðsson.
Það sumar var kallað grjótflaugarsumar. Þá var barist í lögréttu á alþingi og varð mart manna sárt. Þar féll Halldór prestur Snorrason og þar varð særður Þorvarður Þorgeirsson. En er þessi tíðindi voru orðin þá þótti höfðingjum nauðsyn á að auka þingið og væru mál þessi þegar sótt er menn biðu vansa af grjótflaug og vopnum því að það varð með svo miklum ólíkindum, er grjótinu var kastað, að sannorðir menn segja það, þeir er þar voru, að eftir bardagann fengu menn þeim steinum trautt af jörðu lyft er kastað var í bardaganum.
Og er þetta mál var mjög knjáð, að þing væri aukið, þá svaraði Þorgeir Hallason og sagði svo: Það er víst að þessu máli verð eg eigi samþykkur, að gera öllum mönnum svo mikið mein og vanhag að auka þingið og uggi eg það að við það muni vaxa vandræði og ófriður en þverra eigi. Nú hafa það kennt hinir vitrustu menn að lægja skuli vandræði en æsa eigi. Nú hefir minn son orðið fyrir áverka og þykir mér hann gildur maður fyrir sér og mun eg þó eigi sjá þann hlut til handa honum eða mér að gera almúginum vandræði í heldur mun eg bíða og leita mér ráðs og fara heim að sinni.
Og er hann hafði þetta upp kveðið þá taka allir höfðingjar þetta ráð. Var þá slitið þinginu.
Of haustið fór Ari til Hvassafells til föður síns og þann veg fór við honum Úlfheiður og voru þau þar of veturinn. Þangað var og kominn Guðmundur son þeirra.
En er Ari hafði þar verið tvo vetur fer hann utan og Ingimundur bróðir hans. Og er þeir komu af hafi fer Ari til hirðvistar með Erlingi jarli og er við honum of veturinn. Á þeim vetri hófst flokkur Guðbrands Ólafssonar, dóttursonar Haralds gilla.
Ari bjó skip sitt of vorið til Íslands og voru albúnir til hafs. En þeir er helst voru öfundarmenn Ara lögðu honum til ámælis að hann legði svo fylgd sína við Erling jarl að fara frá honum er jarl þyrfti helst manna við og ófriðar að von. En er Ari heyrði þessa umræðu þá lét hann þegar bera föt sín af skipi og ræðst þá enn til hirðvistar með konungi og jarli en Ingimundur prestur og aðrir íslenskir menn héldu til Íslands og urðu vel reiðfara.
Það sumar fylgdi Ari jarli og of haustið austur í Vík.
En um nóttina eftir allraheilagramessu var jarl staddur á bæ þeim er á Ryðjökli hét með lið sitt og reis upp of nóttina að vanda sínum til óttusöngs og gekk til kirkju og þeir menn með honum er honum voru kærastir. En er lokið var óttusöng sat jarl og söng sálma. Þá heyra þeir lúðragang og þóttust vita að ófriður mundi fylgja. Jarl lauk sálminum sínum og gekk út síðan og urðu þeir varir að lið er komið að bænum svo að hann er fullur af mönnum og vildi jarl leita til stofu sinnar og liðs og vopna. Þá tók til orða Björn bukkur að jarli væri einsætt undan að halda og þeir höfðu ekki vopna að verja jarl þótt þeir vildu.
Ari svarar: Verum hér þó og fylgjum jarli að betur þótt engi séu vopnin.
Þá taka þeir undan en ófriðarmenn eftir. Jarli fylgdi Björn bukkur og Ívar gilli, lendir menn, Björn stallari og Ari. En er þeir koma að skíðgarði nokkurum hlaupa þeir yfir garðinn Björn bukkur og Ívar gilli en jarl fékk eigi yfir hlaupið er hann var þungur á sér og tóku þeir Björn og Ívar í mót honum. En Ari hljóp á milli jarls og ófriðarmanna sem hann setti sig skjöld fyrir jarl og sneri í mót hermönnum og gaf svo jarli líf en fann sig fyrir því að hann var áður ekki sár en þá var hann skotinn gaflaki í óstinn og nístur svo við garðinn og lét Ari þar líf sitt. En jarl var skotinn í lærið áður hann komst yfir garðinn.
En í þessu athlaupi féllu tíu menn aðrir en Ari. Þessir féllu af jarli að sögn Þorkels haga: Ari Þorgeirsson, Einar opinsjóður, Björn sterki, Jón fjósi, Ívar dælski, Sámur tjörskinn, Þóroddur Jórsalamaður. Og er jarl komst yfir garðinn og í nakkvað hlé þá spurði hann hvar Ari Íslendingur væri en þeir sögðu að hann dvaldist þar eftir við garðinn líflátinn.
Jarl svarar: Það er víst að þar fór sá maður er oss hefir best fylgt og höfum vér engan jafn hvatan eftir og varð hann einn búinn til af yður að gefa sjálfviljandi líf sitt fyrir mitt líf. Nú mun eg eigi hans frændum launað fá þann skaða sem þeir hafa beðið fyrir mínar sakir.
Nú kemur jarl til liðs síns og safnar saman flokki sínum og lætur grefta menn sína þá er fallið höfðu.
Tíðindi þessi koma til Íslands of sumarið eftir. Þá yrkir Þorvarður bróðir hans erfiflokk um Ara og þóttist þann veg helst hyggja af lífláti Ara og láta hreysti hans koma í kvæði þau er víða væru borin.
Nú tek eg þar til frásagnar er Guðmundur son Ara var fæddur að Grjótá. Það var á einum misserum og fall Inga konungs og það er brenndur var bær Sturlu í Hvammi. Þá var Björn biskup að Hólum en Klængur biskup í Skálaholti, vígður Eysteinn erkibiskup einum vetri áður. Þá var liðið frá burð vors herra.
Annað sumar eftir fór Björn biskup norður til Þverár að vígja til ábóta Björn bróður sinn og í þeirri för biskupaði hann Guðmund Arason á Möðruvöllum og var það um vorið eftir páska.
Það sumar ætlaði Björn biskup að ríða til þings en þá tók hann sótt og mátti eigi til þings komast. Hann stefnir nú að sér frændum sínum og vinum og skipar svo til sem hann ætti skammt eftir sem síðar kom fram. Hann gefur hundrað hundraða af staðnum til Munka-Þverár og sýndi það tvennt í því að hann þóttist verið hafa of óveitull af staðarfjánum en trúði það mesta styrkinn kristninnar að styrkja munklífin, og handsalaði Brandi frænda sínum til heimtu er næst var biskup eftir hann. En það var forsjálegt að handsala þeim er sjálfur hlaut að gjalda. En síðan fer hann heim til Hóla og liggur allt sumarið og andast of haustið fyrir Kolnismeyjamessu.
Þá bauð Þorgeir Hallason heim til fósturs Guðmundi Arasyni og var sá annar vetur aldurs hans.
Og þau misseri féll Hákon konungur herðibreiður undir Sekk en hófst Magnús konungur. Þau misseri andaðist Ásgrímur ábóti og Þorvarður auðgi og þau misseri börðust menn að réttum í Flóa suður og þá var vígður Hrói biskup til Færeyja.
Hin þriðju misseri kom út Ari Þorgeirsson og það sumar var lögréttubardagi sem fyrr var ritað. Það sumar var kosinn til biskups Brandur Sæmundarson og fór hann út.
Fjórðu misseri fjölmenntu þeir mjög til þings Þorgeirssynir, Þorvarður og Ari. Hann hafði Austmenn marga í flokki með sér, nær þrjá tigu, og var það kallað skjaldasumar. Þá mæltu þeir eftir áverka við Þorvarð við Vatnsfirðinga og lauk svo að sá varð sekur er á vann. En Vatnsfirðingar seldu Þorvarði sjálfdæmi, Páll og Snorri, en Þorkell Flosason, er sekur var ger of sumarið, færði Þorvarði höfuð sitt skírdagsaftan. En hann bað hann fara í friði hvert er hann vildi og gaf honum hest eftir páskaviku og skyldi hann þess njóta er hann kom á þeim tíðum.
Hin fimmtu misseri kom Brandur biskup út og urðu landsskjálftar miklir í Grímsnesi og fórust átján menn. Þá var Karlshríð Gregoríusmessu.
Hin séttu misseri féll Ari Þorgeirsson og þá kom blóð Krists í Niðarós og þann vetur andaðist Jón Sigmundarson hinn fyrri, Hreinn ábóti vígður.
En fyrir því að fjárhlut þann er Ari hafði átt bar undan Guðmundi syni hans þá þótti frændum hans ráð að setja hann til bækur og tekur Ingimundur prestur við honum að kenna honum og fékk honum það fyrst í föðurbætur og erfð að hann var barður til bækur. Hann var ólátur mjög og þótti þá það þegar auðsýnt á athöfn hans að honum mundi í kyn kippa of ódælleika því að hann vildi ráða við hvern sem hann átti. En fyrir það var fóstri hans við hann harður.
Sá vetur var kallaður kynjavetur. Þá voru sénar sólir tvennar og álfar og aðrir kynjamenn ríða saman í flokki í Skagafirði. Sá Ari Böðvarsson. Það var í Hegranesi að þar hljóp gyltur úr húsi sínu of nóttina og braut upp hurðir og hljóp að hvílunni er kona hvíldi í með barni og greip gylturin barnið og beit til bana og hljóp út síðan og í hús sitt.
Önnur misseri eftir selur Þorgeir Hvassafell og ræðst til Munka-Þverár en Þorvarður tekur við búinu og Ingimundur prestur. Þau misseri brann kirkja í Laufási. Guðmundur var þá átta vetra.
Þá fóru þeir Ingimundur fóstri hans norður á Háls til Brands er átti Grímu Þorgeirsdóttur og voru með honum þau misseri. Þá fór Þorvarður til Ljósavatns búnaði en Guðmundur var þá níu vetra.
Þá átti Ingimundur bú við Brand mág sinn á Hálsi og voru þeir þar vetur annan. En á því ári vó Þorvarður Höskuld Herason og urðu víg þeirra Karls Konráðssonar og þá var vígður til Þingeyra Karl ábóti. Þá var Guðmundur tíu vetra er Ingimundur fóstri hans fór á Vagla að búa en þá fór Þorvarður á Háls að búa.
En er þeir bræður bjuggu svo í stoðrenni þá áttu þeir Guðmundur og Ögmundur leika saman og mart annað ungmenni með þeim. En til hins sama atferlis kom jafnan um leik þeirra hvað sem fyrst var upp tekið að Guðmundi var ger mítra og bagall og messuföt, kirkja og altari, og skyldi hann vera biskup í leiknum en Ögmundi öx og skjöldur og vopn og skyldi hann vera hermaður. Þótti mönnum það vera fyrirspá mikil þá er það kom fram um hvorn þeirra sem ætlað var. Þau misseri fórust átta tigir manna í skriðum og var kallaður býsnavetur.
Þau misseri féll Tómas erkibiskup á Englandi og andaðist Þorgeir munkur Hallason. Það sumar börðust þeir Einar Helgason og Skógungar, þeir Vilmundur Snorrason Kálfssonar, í Saurbæ og féllu átta menn af Vilmundi en Einar varð sár og var borinn á skildi í brott og nokkurir menn urðu sárir af liði hans.
Um vorið eftir fór Ingimundur prestur búi sínu á Möðruvöllu innri og leigði landið tíu hundruðum. Þau misseri fékk Ingimundur Sigríðar Tumadóttur og það haust börðust þeir Sturli Þórðarson og Einar Þorgilsson sem fyrr ritað.
Þá var Guðmundur tólf vetra. Ingimundur brá þá búinu og réðst til Skagafjarðar í Ás til Tuma mágs síns með Sigríði konu sinni því að samfarar þeirra voru eigi mjög værar. Þá fór Guðmundur á Háls til Þorvarðs. Þá var andaður Grundar-Ketill.
Um haustið fór Ingimundur brott úr Ási því að þau Sigríður nýttu ekki af samförum og bjóða margir göfgir menn honum heim en hann fór á Grenjaðarstaði til Halls Hrafnssonar. Þá réðst þann veg Guðmundur frændi hans um langaföstu um vorið.
Sá var kallaður hinn góði vetur. Þá brann Björgvin of veturinn. Þá var hin heilaga Sunneva færð úr Selju áður um sumarið og stöðvaði það eldsganginn er skrín hennar var í móti borið. Veginn Einar Grímsson og brenndur bær Helga Skaftasonar í Saurbæ á Kjalarnesi. Tók lögsögn Styrkár Oddason.
Nú voru þeir Ingimundur og Guðmundur á Grenjaðarstöðum. Þá var hann tólf vetra og tók þá vígslur af Brandi biskupi til acolitatum. Vetri síðar vígði Brandur biskup hann til súbdjákns en fjórtán vetra til messudjákns.
En hin fyrstu misseri var það til tíðinda að þá var veginn Ingimundur Jónsson bróðir Karls ábóta og þau misseri fór Páll Þórðarson úr Vatnsfirði og Sveinn Sturluson með honum með fjölmenni til Helgafells og tóku Hallgerði Runólfsdóttur og Valgerði dóttur hennar.
Önnur misseri eftir var veginn Helgi Skaftason á alþingi fyrir það er hann brenndi kaupskip fyrir Páli austmanni er kallaður var Brennu-Páll. En eftir vígið mælti Þorvarður Þorgeirsson og fékk sjálfdæmi af Austmönnum og fékk hann af því virðing mikla. Þau misseri andaðist Snorri Kálfsson á Mel.
Þriðju misseri Klængur biskup og þá féll Eysteinn konungur á Ré og Nikulás Sigurðarson. Og þau misseri voru skærur Arnórs Kolbeinssonar og Sveins Sturlusonar og hafði Sveinn riðið að hitta konu þá er Arnór meinaði og reið Arnór eftir honum við sjöunda mann og barðist við hann Maríumessudag hinn síðara hjá Svínavatni. En þeir Sveinn voru tveir saman og var förunautur hans tekinn og haldinn en Sveinn hljóp að Arnóri og hjó á hönd honum svo að hann var óvígur. En þeir sóttu hann sex og þóttust ganga af honum dauðum en Sveinn varð heill sára sinna en Arnór lifði við örkuml síðan. Af þessum atburð má skilja að Kolbeini var ættgengt að stilla lítt ákefð sína og reiði fyrir hátíðar sakir Maríu drottningar.
Hin fjórðu misseri var vígður til biskups Þorlákur hinn helgi og þá tók Sverrir konungsnafn. Þá var Guðmundur sautján vetra.
Þá réðust þeir Ingimundur braut af Grenjaðarstöðum og fór Ingimundur til Staðar í Kaldakinn að búa til Þórarins og bjó þar tvo vetur. En Guðmundur fór inn í Saurbæ í Eyjafjörð til Ólafs Þorsteinssonar og var hann þar þessa tvo vetur er fóstri hans var að Stað.
En þann hinn fyrra vetur fékk Guðmundur kárhöfði vitran. Þann vetur sat fyrstan að stóli Þorlákur biskup. Þá féll Erlingur jarl um vorið eftir. Þá voru í lög teknar Ambrósíusmessa og Cecilíumessa og Agnesarmessa en af teknir tveir dagar í hvítasunnuviku. Þau misseri eftir andaðist Hallbera Einarsdóttir og þá var gift Guðný Þorvarðsdóttir Þorgeiri biskupssyni og var boð þeirra á Hálsi og voru fimm hundrað boðsmanna. Þau misseri var bardagi á Íluvöllum með Sverri og Magnúsi.
Um vorið er Guðmundur var nítján vetra brá Ingimundur prestur til utanferðar og Guðmundur fóstri hans við honum. Þeir réðu sér far að Gásum með Hallsteini kolubak og létu út hinn næsta dag fyrir Mikjálsmessu. Það var drottinsdag og leiddi það veður þá norður fyrir Núp til Melrakkasléttu. Þá kom andviðri og leggja þeir í rétt og velkir svo viku og rekur vestur að Hornströndum.
Og einn aftan er þeir sátu yfir matborði sprettir tjaldskörum sá maður er Ásmundur hét. Hann var Austmaður og varð þetta á munni er hann sá út: Hviss piss, af tjöldin. Upp mennirnir hart og títt. Boðar eru allt fyrir. Hrindi borðunum og hirði ekki um matinn. Þá spretta menn upp allir og kasta af sér tjöldunum.
Þá kallar Hávarður stýrimaður: Hvar er skipprestur vor?
Skammt er hans að leita, segir Ingimundur, eða hvað viljið þér honum? Vér viljum ganga til skrifta, segir hann.
Ekki er nú betra til skrifta að ganga en í haust. Hefi eg hvern drottinsdag beðið yður til fyrir guðs sakir en þér vilduð því aldrei hlýða. Nú varðar eigi að guð skrifti yður því að ekki er mér sjór verri en yður. Verið nú hraustir og óhræddir.
Þá muntu vilja prestur heita með oss suðurgöngu og öðrum stórheitum því að nú mun ekki annað stoða.
Víst eigi, segir prestur, eg mun heita ef ræð hverju heita skal en ellar mun eg taka máli fyrir alla Íslendinga þá er á skipi eru, að engi mun í heitum með yður því að eg vil nú eigi heldur yðra forsjá fyrir mér en þér hafið viljað mína forsjá í haust.
Hverju viltu heita þá prestur?
Eg vil heita á allsvaldanda guð og helgan kross og frú sánkti Maríu og alla helga að gefa tíunda hlut af öllu því er á land kemur til kirkna eða fátækum mönnum eftir ráði biskups.
Þeir svara: Þú skalt ráða prestur því að eigi megum vér nú missa þinnar forsjá.
Þá áttu þeir handtak að þessu heiti.
Og eru þeir þá komnir mjög allt að boðunum og er þá á þræta mikil hvert ráð taka skal og vill sitt hver. Sumir vilja láta vinda segl upp og var til þess hlaupið.
Þá ræðir Hávarður stýrimaður um við Ingimund prest ef hann kynni nafn guðs hið hæsta.
Kann eg nokkur nöfn guðs og trúi eg því er segir Páll postuli að eigi sé annað helgara en Jesús. En hitt veit eg eigi hvert þú kallar hæst.
Hann svarar: Ekki kalla eg slíkt presta er eigi kunnu nafn guðs.
Þá kallar hann á Hallstein stýrimann og spyr: Kanntu nafnið hæsta?
Hann svarar: Veit guð að eg ætla mig nú eigi muna þegar og er það þó illa og mun kunna Þórður kráka.
Þórður kráka, kanntu nafnið?
Hann svarar: Því er verr félagi að mér er úr minni fallið en eg veit þann er kunna mun, Þorbjörn humla mun kunna.
Já, já, vel, vel. Þorbjörn humla, seg nafnið ef þú kannt.
Hann svarar: Eg vildi gjarna kunna en eg ætla mig aldrei heyrt munu hafa það nafn en vísa mun eg til þess manns er eg ætla kunna munu, Einar vípa.
Þá var rætt við hann og nefnir hann nafnið.
En er þeir höfðu lyft segli af búlka upp varla mannhæð þá kemur áfall mikið fyrir framan búlka og aftan og dreif yfir búlkann. En þá hélt maður á reipi hverju. En Ingimundur prestur þreif hefilsskaft og vildi kippa ofan segli. Guðmundur fóstri hans átti byggð í báti og stóð milli bátsins og seglsins og skyldi greiða seglið. En í því kemur áfall annað, svo mikið að yfir gekk þegar skipið og ofan drap flaugina og af vígin bæði og utanborðs allt það er laust var á búlkanum nema menn, og lestist þá mjög skipið og svo báturinn. Þá hrindur þeim fram af boðanum og fá þeir áfall hið þriðja og var það minnst. Þá var hlaupið til austrar bæði fram og aftur en segl var undið upp.
Þá sáu þeir land og ræða um hvar þeir munu komnir, sögðu sumir að þeir mundu komnir að Málmey en Þórarinn rosti, íslenskur maður, kvað þá skammt rekið hafa að því. Þá svaraði Már Eyjólfsson og lést kenna að þeir voru komnir vestur að Hornströndum að Skjalda-Bjarnarvík og kvaðst þar hafa verið áður of sumarið. Þeir báðu hann vísa leið til hafnar og vildu norður fyrir til Þaralátursfjarðar því að þar var góð höfn.
Þá var leitað um hvað til skaða hafi orðið og kemur Ingimundur að Guðmundi frænda sínum. En áfallið hafði drepið hann inn í bátinn en fóturinn hægri hékk út af bátsborðinu og var fastur í seglinu. Ingimundur spurði hví hann stæði eigi upp en hann kvað svo höfugt á sér að hann mátti hvergi hrærast. Þá var rutt af honum og mátti hann eigi að heldur upp standa og spurði Ingimundur hví hann mátti eigi upp standa. Hann kvað svo höfgan fótinn á sér að hann mátti hvergi hræra.
Mun eigi brotinn? spyr Ingimundur.
Eigi veit eg, segir hann, ekki kenni eg til.
Þá var að hugað og var fóturinn brotinn á bátsborðinu svo smátt sem skeljamoli og horfðu þangað tær sem hæll skyldi. Þeir bjuggu þar um hann í bátinum.
Þá saknaði Ingimundur prestur bókakistu sinnar og var hún fyrir borð drepin. Þá þótti honum hart um höggva því að þar var yndi hans sem bækurnar voru en maður sá meiddur er hann unni mest. Og þakkaði hann það allt guði og þótti skjótt hafa ræst draum sinn er hann dreymdi áður of nóttina, að hann þóttist koma til Eysteins erkibiskups og þótti hann fagna sér vel. En Guðmundur réð drauminn að þar mundi koma yfir þá býsn.
En um daginn áður þeir sigldu í boðana tekur til orða Magnús Ámundason og spyr hvort þeir vissu hvar boðar þeir væru er Þúfuboðar heita en þeir segja honum að þeir voru fyrir Ströndum.
Svo hefir mig dreymt til að þeim nær mundum vér komnir.
En litlu síðar en þeir höfðu þetta talað þá urðu þeir varir við boðana.
Og nú hefur þá norður fyrir Reykjafjall. Þá gengur eigi lengra og leggja segl og kasta akkeri og hrífur við línuakkeri eitt um síðir og liggja þar of nóttina.
En að morgni flytjast þeir til lands með viðum af skipi og höggva tré sitt og strengi á borði og létu reka upp.
Þá var um rætt hversu fara skyldi með Guðmund og tók til orða sá maður er Bersi hét og kallaður valbráð því að kinn hans önnur var kolblá: Hví munum vér fara með fótbrotinn mann er vér megum eigi bjarga sjálfum oss og skjóti fyrir borð.
Þórarinn rosti svarar: Mæl þú allra manna armastur og skyldi þér fyrir borð kasta ef vel væri en hér munum vér annars ráðs leita, hleypur þegar fyrir borð og Einar vípa.
Þá víkur skipið svo að þeir stóðu grunn og láta síga Guðmund ofan í vaðmáli fyrir borð en Þórarinn og Einar taka við honum og hélt um sitt lær hvor þeirra og hann sinni hendi um háls hvorum þeirra. Þá gengu sumir eftir og hlífðu þeim við áföllum og drógust svo til lands að út vildi draga að útsoginu en þá skreið á er brimið hratt þeim að upp og komust að landi um síðir.
Þá kastar skipinu til djúps og skolar til hafs út allt úr skipinu og braut skipið allt í spón en lítið kemur á land af fjárhlut.
Þar bjó sá maður er Snorri hét og var Arngeirsson. Hann var læknir. Hann tekur við Guðmundi og gerir við hann sem hann kunni best. En hann var þó félítill og vildi vel.
Margir menn komu þangað úr næstum héruðum og vildu duga þeim og fé þeirra.
Þá hét Ingimundur prestur að bókakista hans skyldi á land koma og bækur. En fám nóttum síðar spurðist að hún var á land rekin að Dröngum heil og allt það er í var og hélt ein hespa en tvær voru af brotnar. En allar aðrar kistur voru upp brotnar, þær er á land komu, og allt úr það er í var.
Þá fór Ingimundur þangað að þurrka bækur sínar og var hann þar til Marteinsmessu. Þá fór hann norður aftur að finna fóstra sinn og vildi vita hvað liði um fót hans en þá var festur fóturinn. En Ingimundur ræðst til Breiðabólstaðar í Steingrímsfjörð. Þar bjó þá Jón Brandsson. Hann átti Steinunni Sturludóttur og Ingibjargar Þorgeirsdóttur, systurdóttur Ingimundar, og taka þau við honum báðum höndum og er hann þar of veturinn.
En er þrjár vikur voru til páska þá kom Guðmundur norðan við það að úti stóðu leggjabrotin og gekk hann við það norðan og kom á Breiðabólstað in passione domini og varð Ingimundur frændi hans honum allfeginn. Þar var hann fram um páskaviku en þá þótti eigi lengur vera mega aðgerðalaust um fót hans.
Þá fór hann suður á Hóla á Reykjanes til Helga prests Skeljungssonar. Hann var ágætur maður og hinn mesti læknir. Hann tekur við Guðmundi forkunnar vel og var hann þar til lækningar fram um fardaga. En brátt er hann kemur þannig bakar hann fótinn og drógu tveir karlar beinið úr fætinum með töngu áður brott gekk. En þá græðir hann eftir og varð Guðmundur heill nær fardögum. Eftir fardaga fer hann norður á Breiðabólstað.
En vetur sá er hann var á Ströndum var kallaður sóttarvetur. Þá andaðist Björn ábóti að Þverá og Styrkár lögmaður, Oddur Gissurarson, Arnór Kolbeinsson. Þá tók Gissur Hallsson lögsögn. Þá voru Deildartungumál. Og er Guðmundur nú tvítugur.
Um sumarið eftir fór Jón Brandsson norður til Þingeyra til gildis og við honum Guðmundur Arason því að Ingimundur prestur vildi að hann færi á Háls til vistar til Þorvarðs og var hann þar of veturinn.
Þá fýsir hann vestur aftur til fóstra síns og fer hann til þings norðan með Þorvarði. Það var kallað grasleysusumar.
Þá um veturinn áður andaðist Valdimar konungur í Danmörk, son Knúts konungs, og þann vetur urðu landskjálftar miklir og týndust ellefu menn af því. Þá hafði Guðmundur vetur og tuttugu.
En af þingi of sumarið fylgdi hann Jóni Brandssyni. Það sumar fór hinn heilagi Þorlákur biskup fyrsta sinn of Vestfjörðu. En er hann kemur í Steingrímsfjörð þá hefir hann gistingarstað í Kálfanesi því að þar var kirkja óvígð og nýger. Þar kemur gott mannval. Þar var Ögmundur ábóti, Þorsteinn Tumason er síðan var ábóti. Þar var þá Ingimundur prestur og Guðmundur fóstri hans.
En Guðmundi þótti skemmtilegra að eiga tal við klerka biskups en vera að tíðum eða kirkjuvígslu.
Þá gengur Ingimundur prestur eftir Guðmundi fóstra sínum og mælti við hann: Far þú til tíða og kirkjuvígslu og hygg að vandlega því að eigi veit hver til slíks þarf að taka. En eg hygg sá er nema þarf að eigi muni færi á gefa að nema að betra manni en þeim sem þetta embætti skal hér fremja.
Og var þetta tvífaldlegur spáleikur því að hvorttveggja kom fram síðan, það er í hans orðum bjó, að Þorlákur biskup var sannheilagur maður en Guðmundur þurfti sjálfur þetta embætti að fremja.
Um haustið eftir fór Ingimundur prestur til skips í Hvítá að kaupa varning til sölu og ávaxtar því að jafnan bjóst hann við utanferð sem síðan kom fram.
Nú skildust þeir frændur í Dölum og fékk Sturla Guðmundi föruneyti norður á Háls því að Ingimundur prestur sendi hann enn þá þangað. En þar undi hann eigi meir en hálfan mánuð og fór vestur aftur þegar og er á Breiðabólstað of veturinn.
Þenna vetur var veginn Guðmundur Bjarnarson að Kleifum í Gilsfirði. Hann var vin Jóns Brandssonar og fær hann til að mæla eftir víginu Guðmundur Arason.
Nú stefnir Guðmundur Koll-Oddi og sækir hann til sektar. Og er hann er sekur orðinn þá tekur við honum Jón Húnröðarson.
Guðmundur fer af þingi vestur í Saurbæ að heyja féránsdóma á Staðarhóli eftir Odd. Þaðan fer hann á Breiðabólstað að finna Jón frænda sinn og er þar kynnisvist. Hann fer þaðan og kemur í Hvamm að beiða Sturlu mág sinn að leita eftir skógarmanni sínum.
En það var þar tíðinda að Sturla lá í banasótt sinni og lifði tvær nætur þaðan frá er Guðmundur kom þannig. Og bíður hann þar til er Sturla var grafinn og var þá farið það traust er þar var von en kapp hans var eigi farið. Og leitaðist hann þá um hug sér hvert hann skyldi leita til framgöngu síns máls, þess er honum yrði eigi að svívirðu, er hann hafði mann sekan gert enda legði hann eigi á sig ábyrgð að hann týndi í því vígslum sínum og kennimannsskap. Og gefur sá honum ráðið er honum veitti, er almáttigur guð er, og snýr honum því í skap að heita á almáttkan guð og heitir hann því að gefa það fé allt guði er hann tekur á sektum Odds og yrði sæst á það mál svo að honum yrði eigi að sáluháska.
Nú er þar komið þessi sögu sem frá var horfið Heiðarvígs sögu og hafa þær lengi jafnfram gengið.
Þessi misseri urðu Bæjar-Högna mál er hann gifti Snjólaugu dóttur sína Þórði Böðvarssyni með tveföldum meinum. Þann ráðahag bannaði Þorlákur biskup hinn helgi með svo miklu guðs trausti að hann gekk til Lögbergs með klerkasveit sína og lætur vinna eiða að sá ráðahagur var í móti guðs lögum. Þá nefnir hann votta að og segir í sundur ráðahagnum og forboðar þá alla er ráðið höfðu þessu.
Þetta sumar týndust fimm hafskip og var kallað ófarasumar. Þessi misseri átti Sverrir konungur orustu á Íluvöllum. Nú hefir Guðmundur tuttugu og tvo vetur.
Eftir andlát Sturlu fór Guðmundur til Þingeyra. Þá var þar fyrir Þorgrímur alikarl, vinur hans og fóstbróðir. Hann biður Guðmund fara með sér til hestaþings vestur til Vatnsenda í Vesturhóp.
En hann svarar: Eg veit eigi hve vel það hæfir því að þar munu koma þeir menn er mér er lítið um, Oddur skógarmaður minn og þeir er halda. En mér er það skapraun að sjá þá. En þó skal eg fara ef þú vilt og mun guð gæta.
Þeir fara nú og eru á mannamóti. Þar kemur Jón Húnröðarson með mikla ræingasveit og glens mikið. Þar var Oddur hinn seki. Þar kemur og Þórður Ívarsson frá Þorkelshvoli og við honum fjölmenni mikið. Þar kom Bjarni Hallason og margir Miðfirðingar með honum.
Þá skilur á Koll-Odd og Húnröð, systurson Jóns, og hlaupast að móti og heggur Húnröður til Odds og verður hann sár á hendi. Þá varð Jón óður við og vill vinna á Húnröði frænda sínum. Þá verður þröng mikil og höggur Húnröður þá annað sinn til Odds og verður að mishöggum son Jóns er Eyjólfur hét og fékk þar bana. Og þar vann Jón á húskarli Þórðar Ívarssonar er Þóroddur hét. Mart annarra manna varð þar sárt.
Nú fór Guðmundur við það af mannamóti að guð hefndi óvinum hans og lét Jón þar son sinn fyrir Odds sakir en Oddur varð sár mjög og hlutust þessi vandræði öll af Oddi. En guð gætti svo Guðmundar að hann hafði til þessa hvorki lagt orð né verk.
Hann fer síðan norður til Staðar til Þorgeirs biskupssonar og er með honum um veturinn í góðu yfirlæti svo að hann vottaði því síðan að honum hefði engi maður óskyldur jafngóður þótt sem Þorgeir.
Um vorið eftir voru búin mál á hendur Jóni Húnröðarsyni af Þórði Ívarssyni um áverka og verður Jón sekur um sumarið. En að málum veita þeir Þórði Brandur biskup og Þorgeir son hans og frændur þeirra og vinir og fjölmenna þeir norðan til féránsdóma og urðu þær málalyktir að lagið var í gerð Brands biskups. En Þorgeir biskupsson kvað það skyldu fyrir sættum standa ef eigi fylgdu þar málin Guðmundar og sekt Koll-Odds og bjargir og sýndi svo mikla ást og einurð við hann í þessu máli að engi kostur var sætta ellar. Og var þá sæst á það mál undir dóm biskups og Þorgeirs.
Á þessum misserum var það til tíðinda að þá féll Magnús konungur í Sogni Erlingsson og þá andaðist Tumi Kolbeinsson. Þá brann bærinn á Möðruvöllum og á Bakka í Miðfirði. Þá hafði Guðmundur þrjá og tuttugu vetur.
Þetta sumar fór Guðmundur Arason til alþingis og þaðan suður á Nes, til Magnúss Ámundasonar og Þorfinns er síðan var ábóti, að heimboðum og með honum Gellir prestur Höskuldsson og var hann því eigi staddur við sáttarfundinn að Ásgeirsá. Þaðan fer hann norður til Staðar til Þorgeirs og er þar þau misseri og Ingimundur prestur fóstri hans.
Um vorið eftir bregður Þorgeir búi sínu og ræðst til utanferðar í Eyjafirði. Það skip átti Ögmundur rafakollur. Hann var faðir Helga er síðan var biskup á Grænlandi. Þar fer til skips við honum Þórólfur prestur Snorrason, Þorsteinn og Ketill Eiríkssynir og mart annað íslenskra manna. Það sumar fór og utan í Eyjafirði á öðru skipi Karl ábóti og Ingimundur prestur Þorgeirsson og Ögmundur Þorvarðsson og mart annarra íslenskra manna.
Þá átti bú á Stað sá maður er Hesthöfði hét Gunnarsson og Sigríðar Sæmundardóttur, systur Brands biskups.
Þenna vetur andaðist Einar Þorgilsson á Staðarhóli og þá hófust Kuflungar, týndist Einar káti og mart góðra drengja við honum allrahelgramessudag. Og þann vetur hljóp skriða austur í Geitdal og týndust átján menn. Og hefir Guðmundur nú fjóra vetur og tuttugu.
Þetta vor um langaföstu var Guðmundur vígður til prests af Brandi biskupi fjórum nóttum eftir Gregoríusmessu. En Ingimundur prestur gaf honum bækur þær allar er hann átti bestar og fróðastar og messuföt að skilnaði þeirra og skildist svo við hann að hann var prestur og fullkominn í góðum siðum. Og fóru þá í brott þeir menn tveir er hann unni mest, Ingimundur og Þorgeir.
Nú fara skip þessi utan í Eyjafirði og taka Noreg og eru í Þrándheimi um veturinn. Þorgeir biskups son er með Eysteini erkibiskupi of veturinn en Ingimundur prestur hafði bæjarsetu og var honum gefin Jónsstúka að Kristskirkju til söngs en var hátíðir um jól og páska með erkibiskupi og hafði góða virðing af honum.
Um vorið eftir fór Þorgeir til Íslands og félagar hans en Ingimundur prestur er eftir í Noregi og tekur Maríukirkju til söngs á Staði og er þar tvo vetur. Og var það til marks hve vel erkibiskupi reyndist hans klerkdómur að þá er Jón biskup, er knútur var kallaður, á Grænlandi andaðist þá vildi Eysteinn erkibiskup vígja hann þangað til biskups en í því mátti metnaðarleysi hans vita og varúð að það fékkst eigi af honum.
Þann vetur hinn fyrsta er Ingimundur prestur var utan var Guðmundur að Hofi með Grími mági sínum þingaprestur. Þenna vetur andaðist Böðvar Þórðarson og Þorvarður auðgi. Þá var hann hálfþrítugur.
Um sumarið tekur Þorgeir sótt í hafi son biskups og liggur þar til er þeir eru landfastir og andast tveim nóttum fyrir Maríumessu fyrri og var lík hans fært til Hóla. Og spyr biskup eigi fyrr andlát hans en þeir koma þar með líkinu. Þau tíðindi þóttu mikil frændum hans og vinum en þó biskupi mest. Og svo segir Guðmundur Arason að hann hefði engis manns þess misst er honum þætti jafnmikið að missa og það féll honum svo nær að nálega mátti kalla að hann skiptist í allan mann annan. Hann var þá að Hofi.
Guðmundur prestur gerðist þá svo mikill trúmaður í bænahaldi og tíðagerð og örlæti og harðlífi að sumum mönnum þótti halda við vanstilli og ætluðu að hann mundi eigi bera mega allt saman, harðlífi sitt og óyndi af andláti Þorgeirs.
Hann tók heim til kennslu klerka og var það athöfn hans daglega tíða í millum að kenna og rita. Hann var og að kirkju mikinn hluta nátta, bæði öndverðar nætur og ofanverðar en gekk til skrifta jafnan er hann náði kennimönnum. Hann rannsakaði bækur manna og hendir af hvers bókum þar er hann kemur slíkt er hann hafði eigi áður.
Öllum mönnum þótti mikils vert um trú hans og þeim öllum mest er vitrastir voru. Marga hluti tók hann þá upp til trú sér að engi maður vissi né einn mann áður haft hafa hér á landi. En í annað sinn þóttust menn mestan mun á hafa fundið að skap hans hafði skipast vetur þann er hann var á Ströndum því að þá undi hann sér hvorki nótt né dag þar til er hann hitti fóstra sinn. Og kom þaðan frá við nokkuð á hverjum misserum til siðbótar honum og þar kom að nær þótti hann orðinn allur annar maður í atferð sinni en fyrst þótti til horfast er hann var ungur. Það fylgdi og þessu að mörg merki urðu að vatnsvígslum hans og yfirsöngum svo að mönnum þótti þá þegar mikils um vert og það mátti á finnast að guði líkaði atferð hans. En alþýðu manna sýndist það í því hvers efni í þótti vera um atferð hans að honum var það gefið kenningarnafn að hann var kallaður Guðmundur hinn góði.
En það varð sem jafnan er vant að eigi lagði jafnt í þökk við alla þótt góðu væri til varið. Sumir þökkuðu guði, þeir er þurfandi voru og bæði höfðu gagn af honum andlegt og líkamlegt, en sumir öfunduðu það er þeir voru minni nytjamenn af meirum efnum en hann var.
Og því fór fram hvert ár að eytt var offri því öllu er hann tók á vetrin og gaf hann það til matar og klæða fátækum mönnum og frændum sínum og voru það sjö ómagar er hann fæddi með þessu. Nú var bæði þess í leitað að honum væri það óhægt og mætti hann minna að hafast til þurftar öðrum, af þeim er hann öfunduðu, að skipt var um þing við hann og hafði hann þau er féminni voru. Og þá kallaði Brandur biskup til bóka og messufata í hendur honum og ollu því öfundarmenn hans en biskup kallaði staðinn að Hólum eiga arf eftir Ingimund prest. En þeir fengu hvorigu hnekkt, örlæti hans né meinlætum því að nakkvað bar þess til jafnan af tilstilli góðra manna að hann fékk því haldið er hann hafði upp tekið.
Þessi misseri varð mart tíðinda. Þá var Jórsalaborg unnin af Serkjum svo að allir kristnir menn, þeir er voru, urðu annaðtveggja að flýja eða voru drepnir ella og allur kristinn dómur niður brotinn. Þá dró myrkur fyrir sól um miðdegi svo að margir vitrir menn ætluðu verða mundu heimsslit. Það var kallaður fellivetur. Kom grasleysa mikil og óáran um sumarið og kom ekki skip til Íslands af Noregi. Þá hafði Guðmundur sex vetur og tuttugu.
Um vorið eftir fór Guðmundur á Miklabæ til vistar. Þar bjó þá Björn hinn auðgi og var þar tvo vetur. Og hin fyrri misseri er hann var þar andaðist Eysteinn erkibiskup. Þá hafði hann áður vígt Jón til biskups Sverrisfóstra til Grænlands. Þá hafði Guðmundur sjö vetur og tuttugu. En hinn síðara andaðist Heinrekur konungur á Englandi. Þann vetur var Jón Grænlendingabiskup á Íslandi í Austfjörðum. Þá drukknaði Ögmundur ábóti um vorið og þá andaðist Kári ábóti.
Þessi misseri var Ingimundur prestur í Björgvin og reyndist vitrum mönnum og göfgum þess að merkilegri hans atferð er hann var kunnari og fékk hann virðing mikla af Jóni kuflungi og hans mönnum. Þar var þá og fyrir Ögmundur Þorvarðsson og hafði virðing mikla og tekur hann báðum höndum við Ingimundi presti föðurbróður sínum og bauð honum allt sitt fullting það er hann mætti til leggja.
En um vorið hafði Ingimundur prestur farið vestur til Englands kaupferð og kom vestan að hausti til Björgvinjar með mikil gæði víns og hunangs, hveitis og klæða. Þá vilja menn Jóns kuflungs ræna þá.
Þá gengur Ögmundur til Jóns kuflungs og mælti svo: Ef Ingi konungur væri á lífi, þá mundi hann eigi ræna láta bræður Þorvarðs Þorgeirssonar ef hann kæmi á vald þeirra og svo Magnús konungur sakir Ara. Nú vænti eg fyrir sakir þeirra og minnar bænar að þér látið fé hans frið hafa.
Jón svarar: Vel segir þú og skal það satt vera að hver peningur skal sá frið hafa er hann á og gakk til sjálfur með honum frænda þínum og skal hann guði velkominn og oss.
Nú gengur Ögmundur til skips og segir ummæli Jóns.
Þá gengu að menn Jóns að átta víntunnum er kaupmenn áttu og spurðu hver ætti en Ingimundur prestur kenndi sér fimm eða fjórar og svo mart annað það er þeir spurðu eftir þar til er þá grunaði að hann væri svo auðigur sem hann sagði og mæltu við hann: Nú sjáum vér prestur að þú munt kenna þér það er aðrir eiga og nennum vér eigi að missa alls.
Og taka síðan tunnu eina og hlaust svo til að Ingimundur prestur átti þá og enn tóku þeir sextán alnar klæðis rauðbrúnt er hann átti. Það var allgott klæði. En það vildi hann eigi segja og vildi heldur missa en þá skildi á.
Eftir það fær Ingimundur prestur sér herbergi og er þar um veturinn. En er á leið vetur þá ber það til að hann kennir klæði það í kyrtlum hirðmanna er hann hafði ræntur verið um haustið. Honum verður þá rætt um fyrir Ögmundi að hann kennir klæðið og bað hann þó vera láta kyrrt og kvaðst eigi vilja að nakkvað hark stæðist af honum og kvað sig ekki mundu fé skorta. Björn bríkarnef gestahöfðingi hafði ráðið fyrir ráni við Ingimund prest þá er hirðmenn vildu upp gefa.
Það bar við um dag einn að Ögmundi bar fyrir augu menn þá er gengu í kyrtlum þeim er gervir voru af klæði Ingimundar prests og sagði hann frá vinum sínum Bárði sálu og Pétri glyfsu og Indriða og mælti við þá: Eigi eru nú góð efni í. Mér ber það fyrir augu að Björn bríkarnef og sveitungar hans gengu í klæðum þeim er ræntur var Ingimundur prestur frændi minn á hausti.
Indriði svarar: Hví lést þú það kyrrt vera og kallaðir eigi til?
Ögmundur svarar: Eigi vill hann sjálfur hefna og vill hann að ekki illt gerist af.
Indriði svarar: Það skal verða aldrei að svo vondir menn gangi yfir oss og geri vinum vorum slíkar skapraunir og skulum vér að vísu eftir leita þótt hann vilji eigi frændi þinn.
Spretta upp þegar og ganga út og taka öxar í hönd sér. Þeir Austmennirnir ganga til drykkjustofu og Ögmundur með þeim þar er Björn bríkarnef drakk inni og gestasveit með honum, nær fjórir tigir manna, og vildi Indriði ganga inn þegar að þeim en Bárður kvað það eigi hæfa þar sem fyrir voru fjórir tigir manna en þeir fjórir einir og bað þá bíða þess er þeir gengju út. Og hæfir þá svo til að þeir ganga út fjórir sem þeir væru valdir til er klæðin báru þessi og höggur Indriði Björn þegar banahögg en þeir Bárður og Ögmundur og Pétur vógu hina þrjá svo að ekki varð viðnám.
Þá kveður við gestlúður og safnast saman fjögur hundruð manna. Þá koma þessi tíðindi fyrir Jón kuflung og kvað þá við hirðmannalúður og sögðu hvorirtveggju Jóni kuflungi sögu sína. En þeir Bárður og Pétur voru náfrændur Eysteins erkibiskups og virðir hann þá svo mikils í þessu máli að hann gerir í brott sveit þá alla frá fylgd við sig. En þeir Ögmundur tóku klæðin til sín og um þetta mál var kyrrt síðan.
Um vorið eftir ræðst Ingimundur prestur til skips þess er Stangarbolli hét og bjóst til Íslands. Þar var á skipi Bergþór son Þórðar Ívarssonar og mart íslenskra manna og svo norrænna, góðra drengja.
Skip þeirra kom í óbyggð á Grænlandi og týndust menn allir en þess varð svo víst að fjórtán vetrum síðar fannst skip þeirra og sjö menn í hellisskúta einum. Þar var Ingimundur prestur. Hann var heill og ófúinn og svo klæði hans en sex manna bein voru þar hjá honum. Vax var og þar hjá honum og rúnar þær er sögðu atburð um líflát þeirra. En þetta þótti mönnum mikil merki hve guði hafði líkað atferð Ingimundar prests er hann skyldi svo lengi legið hafa úti með heilum líkam og ósköddum.
Það sumar er Stangarbollinn týndist kom af Grænlandi Ásmundur kastanrassi. Nú hefir Guðmundur átta vetur og tuttugu.
Þá er Guðmundur prestur var á Miklabæ þá átti hann brautsöng á þann bæ er á Marbæli heitir. Þannig söng hann einn hátíðardag. Þar var á vist góð kona og skynsöm er Hallfríður hét og var Ófeigsdóttir. Hún stóð hjá messu Guðmundar prests og hugði að sér vel sem jafnan var hún vön og horfði jafnan á hann um messuna. En er lesið var guðspjall og hann snerist utar og sagði dominus vobiscum þá sá hún eld fara af munni honum í loft upp, bjartara miklu en hún hefði fyrr slíkan séð.
Eftir þetta fer hann af Miklabæ og í Viðvík og er hann þar um veturinn með Mávi Finnssyni. Það var eitt sinn er Guðmundur prestur var í kirkju að bæn sinni þá kemur Már bóndi í kirkjudyr. Sá hann að fugl lítill fló upp af öxlum Guðmundar í loftið og hverfur þar.
Þau misseri týndist skip Ásmundar kastanrassa og fóru þar margir íslenskir menn, þeir er mikill skaði var að. Þá andaðist Hallur ábóti og Eiríkur jarl og þá var bardagi í Vík austur. Nú er Guðmundur vetri miður en þrítugur.
Nú tek eg þar til frásagnar er tvennum fer sögum fram að Guðmundur hét maður. Hann var Eyjólfsson. Hann bjó á Helgastöðum í Reykjardal. Hann var auðigur og vinsæll. Heldur var hann sínkur kallaður. Hann átti son er Teitur hét. Hann var vænn maður og vinsæll. Guðmundur átti bræður tvo, hét annar Halldór en annar Björn. Þeir voru féminni en Guðmundur og voru þó bændur báðir í dalnum.
Þar var þá gott bóndaval í dalnum. Þá bjó í Fellsmúla Sigurður Styrkársson lögsögumanns en á Grenjaðarstað Eyjólfur son Halls Hrafnssonar lögmanns Úlfhéðinssonar lögmanns Gunnarssonar lögmanns. Sigríður dóttir Halls Hrafnssonar var móðir Guðlaugar, móður Ketils prests Þorlákssonar, móðurföður Narfasona.
En er Teitur óx upp þá var honum ráðs leitað. Bóndi er nefndur Þórólfur. Hann var Sigmundarson. Hann bjó í Eyjafirði á bæ þeim er heitir í Möðrufelli. Hann var dótturson Hafliða Márssonar. Hann var góður bóndi. Kona hans hét Steinunn, dóttir Þorsteins rangláts. Þau áttu þrjá sonu og er þeirra ekki hér getið. Dóttur áttu þau eina er Otkatla hét. Hún var væn kona og kunni sér allt vel. Þeirrar konu var beðið til handa Teiti. Það þótti jafnræði, hann var kynstærri en hún fémeiri en hvorttveggja hið vinsælasta. Nú er hún föstnuð Teiti og fór hún heim til bús þess er þau áttu og tók þegar til búsforráða en áður höfðu ýmsar matseljur verið síðan kona Guðmundar andaðist. Það varð öllum vel að skapi.
En eftir það, vonu bráðara, seldi Guðmundur af hendi búið og alla fjárhluti og tóku þau við en Guðmundur ræðst í brott með það er hann þurfti til forlagseyris og réðst til Þverár og gerðist þar munkur. Þar var þá Hallur Hrafnsson ábóti. Brátt sneri fjárhagnum fyrir Teiti er Guðmundur var í brottu.
Einn vetur stóðu uppi þrjú skip í Eyjafirði en þá var hallæri mikið. Þá var Kolbeinn Tumason höfðingi í Skagafirði. Það var vilji hans að bændur skyldu eigi taka minni forgift þar í héraði en hann kvað á og lagði fé við. Austmenn vistuðust því ekki þannig vestur um heiði.
Teitur Guðmundarson tók við þrem Austmönnum. Hét maður Grímur er kallaður var rauður, Erlingur og Hrafn. Það var þann vetur er bæjarbrunar voru á Möðruvöllum í Eyjafirði og á Bakka í Miðfirði og enn fleiri aðrir. Honum líkaði vel við þá og þótti fýsilegt að fara brott með þeim því að hann hafði ekki áður af landi farið og réðst hann til skips með þeim.
Þá fóru og utan fleiri menn. Teitur hét maður úr Gunnarsholti. Hann átti Vilborgu dóttur Gissurar Hallssonar. Og það sumar fór utan Þorgeir son Brands biskups og sá maður er Gunnar hét af Auðkúlu. Annað sumar áður hafði farið Þorvarður Ásgrímsson hinn auðgi. Og um hvern þeirra í sinni sveit þá þótti að engum meiri skaði þeim er eftir var, en engi þeirra kom aftur.
Það var þá siðvenja að Brandur biskup fór yfir fjórðung sinn hvert sumar og gisti að annarri hverri kirkju. Þá átti hann að gista á Helgastöðum að búi Teits. Þá hafði Otkatla þar boð inni og bauð þangað frændum sínum og vinum, Þórólfi föður sínum og Ólafi Þorsteinssyni móðurbróður sínum og Eyjólfi Hallssyni er átti Guðrúnu Ólafsdóttur systrungu Otkötlu.
Þann dag er biskup sat þar urðu kynlegleikar þeir, þá er konur gengu um beina um dagverð, að Otkatla þóttist sjá Teit bónda sinn sitja milli manna nokkurum sinnum. En er hún hugði að þá sá hún engan honum líkan og mátti hún eigi ganga um beina fyrir því.
Og áður menn færu í brott þá heimti Otkatla föður sinn og trúnaðarmenn sína og beiddi að skipta skyldi fé með þeim Teiti bónda hennar. En það þótti kynlegt því að þau unnust vel meðan þau voru ásamt. En er hún sagði þeim þetta þá voru þeir í því ótrauðari. En hún átti að hafa mund sinn og heimanfylgju og var ákveðið hvað hún skyldi hafa í löndum eða lausum aurum. En hún kvaðst hvorki skilja mundu við Teit bónda sinn fjárhlut né samvistu ef hann kæmi til. En það sumar hið sama er skip komu þá var sagt út lát Teits og hafði hann andast um vorið í Noregi.
Þau áttu ekki barn og þá tókst umræða hver erfingi Teits var og þótti veiðivefjan mikil. Það var margra manna álit að faðir hans mundi arf eiga að taka eftir hann en bræður Guðmundar, Björn og Halldór, kölluðu að Guðmundur ætti ekki fé að taka né að annast er hann var munkur. Þar gengu menn að sveitum og voru margir hvorirtveggju.
Eyjólfur Hallsson á Grenjaðarstöðum lét sýnna að Guðmundur ætti. Eyjólfur átti tvo sonu og vildi fá þeim staðfestu. Hann fór til Þverár og falaði að Guðmundi löndin og erfðina og keypti síðan litlu betur en hálfvirði og skyldi sjálfur ábyrgjast hvort lög bæru.
En þeim bræðrum Guðmundar þótti sín eign og unnu Eyjólfi illa að njóta en þeir mjög féþurfa. Eyjólfur keypti féið milli jóla og föstu en þeir fóru í páskaviku inn í Eyjafjörð til Hörgárdals til fundar við goðorðsmenn sína. Annar þeirra var í þingi með Þorvarði Þorgeirssyni, hann bjó á Möðruvöllum í Hörgárdal, en annar með Önundi Þorkelssyni á Laugalandi, og báru fyrir þá sín vandræði og báðu þá ásjá. Og þar kom að hvor handsalaði sínum goðorðsmanni heimting fjárins, hvergi er þeirra hlutur verður af sjálfra, og fóru við það í brott. Og spurðust þessi tíðindi.
En um vorið eftir páska skipar Otkatla lönd sín og tók þá til þess fjárskiptis er verið hafði um sumarið og síðan fór hún af Helgastöðum með allt sitt og inn til Möðrufells til föður síns og er úr þessi sögu.
Eftir þetta hittast þeir höfðingjarnir, Þorvarður og Önundur, og réðu það með sér að hverfa að báðir samt og fóru norður til Reykjadals og höfðu nær fimm tigu manna og settust í bú á Helgastöðum.
En er Eyjólfur frá það þá safnaði hann sér mönnum og ræðst þar til með honum Sigurður búi hans Styrkársson og Ísleifur og Ásbjörn bræður Eyjólfs, Kleppjárn Klængsson er átti Ingiríði systur Sigurðar. Þar var og við Eyjólfi Hjálmur Ásbjarnarson frá Vesturhópi og Ásgrímur Gilsson úr Vatnsdal, hann átti Járngerði systur Eyjólfs, Már Guðmundarson, náfrændi Eyjólfs. Hann átti Helgu dóttur Snorra Kálfssonar.
En með Önundi var Einar Hallsson af Möðruvöllum. Þeir áttu bæði saman guðorð og frændsemi.
Þá höfðu hvorirtveggju setur fjölmennar.
Þá fór Eyjólfur á Helgastaði og máttu þeir eigi sættast því að hvorirtveggju kölluðust allt eiga það er þeir deildu um og urðu engi miðlunarmál með þeim því að hvorigir vildu láta né eitt af sínu máli og varð það síðan að stefnuför og stefndi Eyjólfur Önundi um afneyslu fjárins og kallaði síns neytt vera. En Þorvarði stefndi Már Guðmundarson og stefnt var sonum Önundar tveimur, Hámundi og Vigfúsi, og þeim manni er Valgarður hét. Þeir bjuggu mál til Vaðlaþings.
Maður hét Guðmundur og var Þorvaldsson. Hann var kallaður Guðmundur hinn dýri. Hann bjó í Öxnadal á bæ þeim er á Bakka heitir. Hann var bróðir Ásgríms föður Þorvarðs hins auðga og Álfheiðar er átti Gissur Hallsson og Vigdísar er átti Forni Sökkólfsson, er Fornungar eru við kenndir, og var sammæðri við Þórð Þórarinsson að Laufási. Guðmundur hafði goðorð að meðför er átt hafði Ásgrímur bróðir hans og Þorvarður auðgi.
Hann var með hvorigum að þessum málum. Hann safnaði sér mönnum, bæði sínum þingmönnum og annarra, og fór við það til vorþings.
En er menn komu til vorþings þá var ekki um sættir að leita því að hvorigir vildu né eitt af sínum málum leggja og kölluðust einir allt eiga það er um var deilt. Þeir Þorvarður og Önundur buðu bardaga fyrir sig en engar lögvarnir en Guðmundur gekk svo á milli með flokk sinn að hvorki varð bardagi né saksóknir. En þeir er með sóknir fóru buðu svo búin málin til alþingis er eigi mátti að lögum sækja á vorþingi og sleit við það þinginu.
Þá bjuggust menn til alþingis, og fór hvorgi Þorvarður né Önundur og fór Einar Hallsson með goðorð Önundar en Snorri Grímsson með goðorð Þorvarðs. Þeir beiddu þá ekki vernda fyrir sig og kváðust mundu klappa um eftir er mál kæmu heim í hérað.
Ólafur Þorsteinsson bauð Kleppjárni hvort hann vildi heldur veita Eyjólfi og fara til þings eða vera heima og gæta héraðs. Kleppjárn fór til þings en Ólafur var heima. En þeir Önundur og Þorvarður sátu í búm sínum of þingið og hlífðu svo setunni og gerðu engum manni til meins.
Og er menn komu heim af þingi voru þeir sekir kallaðir Önundur og Þorvarður. Þá höfðu hvorirtveggju setur fjölmennar.
Nú dró að féránsdómum og sóttu menn langt til. Þá kom austan úr fjörðum Teitur Oddsson mágur Þorvarðs að veita honum.
Þá var kominn til ráða í Skagafjörð Sigurður Ormsson með Þuríði Gissurardóttur er átt hafði Tuma Kolbeinsson en Kolbeinn Tumason var utan farinn og skyldi Sigurður hafa mannaforráð eftir. Guðmundur sendi Sigurði orð að hann fengi honum lið nakkvað. Sigurður fékk honum fjóra tigu manna allvel búna.
Þann dag er féránsdómar skyldu vera fór Guðmundur heiman við hálft annað hundrað manna og fór á hálsa millum Hörgárdals og Kræklingahlíðar og mætti þar flokki Eyjólfs. En féránsdómar voru nefndir, annar á Möðruvöllum en annar á Laugalandi og nú fóru þeir Önundur og Þorvarður með flokki sínum á mót flokki Eyjólfs. En er Guðmundur hafði stöðvað flokk Eyjólfs þá sneri hann í mót flokki þeirra Önundar og Þorvarðs og stöðvaði þá. Hann gekk þar í milli því að Eyjólfur kallaði lög til þess að þeir hæðu þar féránsdóma í liði sínu sem þeim var óhætt framast að koma en þeir Önundur og Þorvarður hétu því að þegar skyldi bardagi vera.
Þá gengur Guðmundur í millum og sagði að hann mundi þeim í mót er eigi vildi hlýða því er hann mælti. Og varð engi féránsdómur og engi bardagi og fóru menn við það í brott er á leið daginn því að það var mælt í lögum að féránsdómsgögn skyldu fram komin er sól væri í suðri. Og fóru menn svo í brott og í setur hvorirtveggju en þeir menn til héraða er lengst voru að komnir.
Þá sátu hvorirtveggju með fjölmenni. Vist var betri að búnaði á Helgastöðum og var þar betra til einhleypinga en fór um tilföng sem verða mátti þá er búið stóðst eigi. En að Eyjólfi var borinn hvalur og egg og var neytt alls þess er ætt var og haft það eitt er Eyjólfur átti.
Þá er fættast tóku föng á Helgastöðum þá urðu rán og var ræntur sá maður er Þorgeir hét og var kallaður Hlífarson, hann bjó á þeim bæ er í Nesi heitir, og annar sá er Hallur hét og var Ísleifsson og hann vildu þeir taka sjálfan en hann komst út í glugg einn á húsum sínum og reið í brott þeim hesti er þeir áttu en þeir tóku fé og mat. En er þeir fóru aftur þá áðu þeir í túni á Grenjaðarstöðum og eggjuðu menn ofan úr virkinu því að hvorirtveggju höfðu virki um bæ sinn. Ísleifur Hallsson vildi ofan ganga og berjast við þá og náði eigi fyrir sínum mönnum og fóru þeir Þorvarður og Önundur til Helgastaða með feng sinn.
Þá þótti Eyjólfi of liðfátt og fékk eigi menn í nánd sér. Þá fór Ísleifur vestur til Skagafjarðar að afla liðs. Hann bjó í Geldingaholti.
Grímur hét maður. Hann bjó að Hofi út á strönd frá Hjaltadal. Hann átti Þórnýju Þorgeirsdóttur systur Þorvarðs. Hann fór á Bakka til Guðmundar hins dýra og þaðan fór Guðmundur við honum og voru fimmtán saman norður til Reykjadals til Helgastaða og Grenjaðarstaða og hitta hvoratveggju og leitast um sættir og sögðu þeim að eigi mundi setan standa mega svo að eigi gerðist rán eða annar ófriður með þeim.
Grímur var vitur maður og ráðleitinn og komu þeir Guðmundur sættum á með þeim. Þar fylgdi bónorð og kom Grímur því upp að Klængur son Kleppjárns bað Guðrúnar dóttur Þorvarðs Þorgeirssonar. Það ræðst allt saman, sætt þeirra og þessi ráðahagur. Þar voru engir menn til gerðar teknir. Var þar allt á kveðið. Hvorgir skyldu lönd hafa þau er þeir deildu um en búfé allt var upp eytt. Þeir höfðu lönd feðgar, Klængur og Kleppjárn. Þótti Þorvarði þá bera undir sig með mægðum en þeir inna fé fyrir þeim er lög segðu.
Gengu menn til handsala fyrir rán þau er verið höfðu. Eru nú sáttir og rufu nú seturnar og vistuðust menn þá, þeir er þeim höfðu fylgt, og fóru við það í brott og höfðu hvorigir metorð af þessum málum, þeir er um deildu, og hurfu þau til Guðmundar. Og lýkur þar þessum málum áður Ísleifur kemur aftur og þóttist Eyjólfur þá að engu þurfa manna en hverjum þeirra var heitið veturvist er teknir voru frá sumarbjörg sinni. Skildi þá á það bræður Ísleif og Eyjólf. Síðan leysti Ísleifur þá alla af hendi og gekk í hvalgrafir Eyjólfs og reiddi hverjum þeirra þrjár vættir og fóru þeir við það í brott.
En ráðahagur sá tókst um haustið og var boð á Möðruvöllum. Fór Guðrún þegar til Hrafnagils með Klængi.
Þá var Ásbjörn Hallsson bróðir Eyjólfs staðfestulaus. Hann falaði Helgastaði að þeim feðgum Klængi og Kleppjárni því að þeim varð búið skylft og seldu fyrir því landið Ásbirni. En er Þorvarður frá það þótti honum verr er undir Hallssonu var komið en þeir kölluðust heimilt eiga að selja það fé sitt sem aðra eign sína og fór Ásbjörn búi sínu á Helgastaði.
Og hafði Guðmundur hinn dýri mesta virðing af málum þessum.
Björn hét maður. Hann var Gestsson. Hann bjó í Ólafsfirði þar er á Sandi heitir. Hann var fylgdarmaður Önundar og þingmaður. Hann var mikilmenni og óeirinn um allt, bæði um menn og fjárhluti. Hann dróst oft þá menn á hendur er óskil gerðu. Hann hafði það sumar allt fylgt Önundi og kom svo fremi heim til bús síns að lyktað var þessum málum og var lítið forverk orðið en hann átti ómegð en fé lítið.
Þann vetur gerðust ill tíðindi í héraðinu, stuldir og búrbrot um Ólafsfjörð og Fljót. Þá varð vart við að illræðismenn voru í húsum Bjarnar.
Jón Ketilsson bróðir Ásgríms skálds hafði þar mannaforræði. Hann bjó í Holti en hann var vistum að Hólum með Brandi biskupi.
Þá fóru heiman úr Fljótum tveir bændur, hét annar Már og var Runólfsson en annar Þorvarður og var Sunnólfsson, inn til Hóla að hitta Jón og sögðu honum til vandræða sinna. En hann leitaði ráðs við Brand biskup en hann kallaði það ráð margra manna að hreinsa héruð og væru þeir menn af teknir er lengi hefðu reynst að óskilamönnum en það var þar er Björn var.
Síðan fór Jón út í Fljót með þeim Þorvarði og Mávi og þaðan fóru Fljótamenn með honum og voru nær fimm tigir manna og fóru til Ólafsfjarðar og komu á Sand. Björn var róinn á fiski. Þeir tóku skip tvö og reru eftir þeim og hittust á sjó og var búið að hann mundi eigi tekinn verða. Eyjólfur hét maður er á skipi var með honum. Þeir tóku Björn og bundu hann á skipi og fóru svo til lands með Björn.
Prest-Valdi hét maður. Hann var Másson. Hann var illræðismaður. Hann höfðu Fljótamenn tekið á óráðum og höfðu þeir hann með sér. Hann skyldi vinna það til lífs sér að vinna að Birni og vannst illa að. Síðan kösuðu þeir Björn.
Nú spyr Önundur aftöku Bjarnar og kallaði sér mjög misboðið í þessu því að hann virti menn eftir því er honum þóttu sér fylgja en miður að vinsældum við aðra menn, og kallaði fullar vígsbætur eftir Björn því að hann var þá á engum óráðum staðinn er þeir tóku hann.
Miðvikudaginn í sæluviku á langaföstu kom sá maður í Fljót er Sölvi hét og var Þórarinsson. Hann kom á þann bæ er á Gili heitir. Þar bjó Þorvarður Bjarnarson er kallaður var Skerja-Björn. Þorvarður hafði verið við víg Bjarnar og var hann sendur til höfuðs Þorvarði.
En er menn fóru heiman til nóntíða þá ræðst Sölvi í brott og vildi eigi verða staðinn þar og þóttist fáliður. Síðan fór hann í sauðahús er Jón átti í Holti og sat þar um aftaninn. Glúmur hét sá maður er þar gætti sauða og um kveldið er hann kom til sauðahússins vó Sölvi hann. Eftir þetta hljóp Sölvi um nóttina út til Svarfaðardals og kól hann mjög á fætur og komst hann inn á strönd frá Svarfaðardal en þá var honum fylgt hús úr húsi uns hann kom á Laugaland til Önundar og var hann þar síðan.
Um vorið heitaðist Önundur að fara út í Fljót og búa mál til á hendur þeim er verið höfðu að vígi Bjarnar því að þeir voru allir vel fjáreigandi og þóttu málin févænleg.
Eftir víg Glúms áttu að mæla þeir bræður Jón og Ásgrímur, og hafði þar sá einn til farið er þeim þótti ekki undir hvort sekur var eða eigi og þóttust Fljótamenn sjá að þeir mundu eigi hafa fullnað úr málum við Önund ef eigi nytu þeir við annarra og fóru til fundar við Brand biskup og leituðu ráða undir hann. En biskup kallar um þau mál er verið höfðu mikilvæglegst hið fyrra sumarið að þar hefði Guðmundur fengið öll hin bestu ráð til og bað þá fara til fundar við hann og vera fyrir málum þeirra.
Nú fara þeir bræður Jón og Ásgrímur á fund Guðmundar dýra og báðu hann vera fyrir málum með sér en Guðmundur kallaði sig ekki til skylda, kvað sér að hvorigum langt. Sáu nú að þeir mundu ekki af honum fá um þetta mál. Þá gáfu þeir Guðmundi Fljótamannagoðorð. Það var bæði fjölmennt og vel skipað og þá Guðmundur þessa gjöf af þeim og urðu nú hans þingmenn allir þeir er sakirnar horfðu til.
Síðan var stefndur sáttarfundur með þeim Guðmundi og Önundi og sættust á mál sín og voru menn teknir til gerðar, Hallur prestur Gunnarsson af Möðruvöllum og Björn prestur Steinmóðsson af Yxnahóli, og gerðu þeir jafnmikla sekt fyrir víg Glúms og aftöku Bjarnar og kölluðu þeir því févænna málið eftir Björn sem þar voru við fleiri og kölluðu hann þó engra bóta verðan. Og skildu að því að hvorirtveggju skyldu bæta sínum mönnum.
Guðrún hét kona og var Þórðardóttir. Hún bjó á þeim bæ er heitir í Arnarnesi út á strönd frá Svarfaðardal. Hún var kvenna vænst og kurteisust. Hún átti þar bæði land og bú. Hún var ung kona og hafði tekið við föðurleifð sinni. Hún þótti þar bestur kostur jafnborinna kvenna.
Hennar bað sá maður er Símon hét Þorvarðsson er kallaður var kamphundur. Hann var vinsæll maður og þótti það jafnræði og fór Símon til bús með henni.
Ekki varð samlag þeirra hægt og svo gerðist brátt að Guðrún fór stundum frá búinu en stundum heim. Símon var hinn hógværasti. Þau voru saman tvo vetur og var hinn síðara veturinn hægra með þeim. Var hún þá heima.
Þá var föstumatar fátt. Og er langafasta kom ræddi hún að hann skyldi sækja föstumat út á Siglunes er hann átti að föður síns. Þá fór hann og sigldi út eftir firði og sigldu á stein upp er kallaður er Svarthöfðasteinn. Þar drukknaði Símon og húskarlar hans tveir og var Guðrún ekkja eftir.
Hið sama sumar bað hennar sá maður er Hrafn hét og var Brandsson, vestan úr Skagafirði úr sveit Gríms Snorrasonar og hann gekk með þessu máli. En Þorvarður Þorgeirsson var að umsjá með henni og færðu þeir mágar þau mál saman að Guðrún var föstnuð Hrafni. Og var boð þeirra Hrafns á Hofi að Gríms og var það sagt að hún hljóp úr hvílu hina fyrstu nótt er Hrafn var innar leiddur.
Þá fóru þau norður til Arnarness til bús síns og tók Hrafn þar til umsýslu. En Guðrún var enn eigi allskapvær sem fyrr, hljóp hún í brott um sumarið og vestur til Hofs og tók Grímur vel við henni og var hún þar of hríð.
Þá varð hún þess vör að Grímur ætlaði til skips í Eyjafjörð með hana. Hún vildi það eigi. Þá hljóp hún brott á laun og varð eftir faraskjóti hennar. Hún nam eigi fyrr staðar en hún kom út á Siglunes til Þorvarðs kamphunds, kom þar grátandi og kvaðst þar unna hvívetna af Símoni. Þorvarður tók við henni og var hún þar lengi.
Það var vani Þorvarðs hvert sumar að ferma ferju af föstumat og flytja inn til héraðs og selja bóndum. Og enn gerði hann svo, að hann sigldi inn eftir firði og hafði Guðrúnu við sér. Hann fór til Gása því að þar var kaupskip. Þorvarður tjaldaði þar og var Guðrún í tjaldi með honum.
Þeir menn voru þar fyrir er nakkvað er getið við, Þórður Þórarinsson undan Laufási og synir hans Hákon og Hildibrandur og Dagstyggur. Eitt sinn bar saman fund þeirra Hákonar og Guðrúnar svo að þeim varð að málsendum en oft höfðu þau sést. Af því tali gekk Hákon hvern dag til máls við hana meðan þau voru þar.
En er Þorvarður hafði keypt slíkt er hann vildi bjóst hann í brott og hafði Guðrúnu við sér. Og er hann kom til Arnarness lét hann Guðrúnu fara heim til bónda síns og búnaðar. Síðan fór hann heim og er hann úr sögunni.
En þaðan í frá vöndust komur Hákonar í Arnarnes og fór því fram þann vetur allan.
Einn dag mælti Guðrún til Hákonar, kvaðst eigi vilja komur hans meðan Hrafn væri á lífi en ger sem þér sýnist síðan.
Það var einn dag að þau sátu á þverpalli, Hákon og Hildibrandur bróðir hans og Guðrún milli þeirra og töluðu lágt en Hrafn sat í bekk og reist spón því að hann var hagur maður. Síðan rísa þeir upp bræður og er þeir gengu utar eftir gólfinu þá lagði Hákon spjóti lágskeftu til Hrafns og kom í brjóstið. Og annað sinn hjó Hákon til hans og varð svöðusár. Síðan gengu þeir út bræður en Hrafn tók til öxar er lá hjá honum og reis upp en Guðrún tók til hans og bað hann eigi fram ganga.
Hann svarar: Skammt mun nú farið verða þótt bröstulega sé látið.
Hún spurði hve mjög hann væri sár.
Hann svarar: Grunn verða svöðusár en svíða get eg bringspaladílann of stund.
Hrafn lá þrjár nætur í sárum og fékk alla reiðu og andaðist síðan og var færður á Möðruvöllu.
Nú þótti höfðingjum ærinn uppgangur Guðmundar dýra. Gerðist hann þá fjölmennur. Hann hafði af tekið Vöðlaþing. Skyldi þar eigi sóknarþing heita. Þótti honum þar verða stórdeilur sem á alþingum.
Höfðingjar hugðu gott til að taka eftirmál of Hrafn. Guðmundur var fyrir málum því að Hákon var bróðurson hans.
Þá leitaði Guðmundur sér ráðs og sendi mann er Valgarður hét vestur til Skagafjarðar á fund Erlends. Hann var Brandsson, bróðir Hrafns, og átti mál og fébætur eftir Hrafn. Guðmundur lét bjóða honum til sín og bað hann svo segja að hann mundi þannig mestar bætur taka eftir bróður sinn.
Erlendur fór vestan með Valgarði og tveir prestar aðrir, Flosi prestur Þóroddsson er bjó á Silfrastöðum og Björn prestur Ólafsson er bjó undir Felli í Skagafirði og komu þeir á fund Guðmundar. Hann tók vel við þeim og sendi eftir Þórði og sonum hans og þeir fóru til Steinastaðar. Þar átti Guðmundur bú. Það er öðrumegin ár.
Síðan leitaði Guðmundur um sættir en Þórður kvaðst eigi nenna að bæta Hrafn fé nema Guðrún bætti að helmingi. Þórður kvað hana ráðbana Hrafns. En Guðrún vildi það ekki ofrast láta og sættast nú á það að Guðmundur og Flosi prestur gerðu með þeim og gerðu þeir fimmtán hundruð um víg Hrafns þriggja alna aura og galt Guðmundur þá hvern eyri þegar. Hann galt lönd tvö fyrir vestan heiði. Annað heitir í Hálfdanartungu en annað að Uppsölum hið næsta Silfrastöðum og reifði þá alla gjöfum er þeir fóru í brott. Voru þá og veittar tryggðir eftir víg Hrafns. Og urðu höfðingjar ekki varir við fyrr en þessu var lokið.
Síðan fékk Hákon Guðrúnar og var við hana harður og kvað sér eigi skyldu það verða að hennar menn stæðu yfir höfuðsvörðum hans. Og verður nú þar frá að hverfa.
Helgi hét prestur. Hann var Halldórsson. Hann bjó á bæ þeim er heitir í Árskógi inn á strönd frá Svarfaðardal. Hann bjó þar við konu þá er Herdís hét er átt hafði Brandur Gellisson er þar hafði búið og þar var veginn í kirkjudurum. Þórdís hét kona sú er Helgi prestur átti en Þorgerður hét móðir hennar og var Þorgeirsdóttir.
Þorgerður bjó á þeim bæ er á Brattavelli heitir öðrumegin ár þar er Þorvaldsdalur var kallaður. Hún átti land það er hún bjó á og vildi hún láta gera upp stofu sína. Helgi prestur sýslaði um með henni og dró viðu að henni og annað það er hún þurfti.
Sá maður var þar í sveit er Ingimundur hét. Hann var einhleypingur og hagur. Hann réðst þangað til stofusmíðar. Hann gerði stofuna og dvaldist þar um veturinn og síðan var hann þar mjög lengi og var það mælt að hjal væri á með þeim. Taldi engi maður að því, því að meinalaust var. Var þá og liðlegra hans ráð og svo bú hennar.
Þar kom þá að honum entist ekki gæfa þar til og elskaði þá aðra konu er Ásgerður hét og var hún að vistum á Kálfskinni og fór Ingimundur þangað oft og varð þeim Þorgerði það að sundurþykki og stökk Þorgerður í burt stundum af því og ofan í Árskóg.
Og föstudaginn næstan eftir jól fór Ingimundur að hitta Ásgerði og er hann kom heim urðu þau Þorgerður sundurorða og hljóp hún í burtu um kveldið og ofan í Árskóg og var þar um nóttina. Og um aftaninn er menn sátu yfir náttverði þá kom Ingimundur þar og vildi hafa Þorgerði í burt með sér en hún vildi eigi fara. Þá spurði Ingimundur Helga ef hann vildi sér nokkuð af skipta um þetta ráð.
Hann sagði: Það vil eg að Þorgerður sé aldrei nauðug hér dregin í milli húsa og skal vist hennar heimil hvert hún vill heldur vera.
Og voru þau bæði þar um nóttina.
Þá var karlfátt og hvíldu allir menn í stofu. Og er menn voru sofnaðir þá gekk Ingimundur út. Hann hvíldi í langbekk en konur á þverpalli. Ljós brann í stofunni og var dregið upp. Og er Ingimundur kom inn gekk hann að Helga og hjó í höfuð honum með öxi og vaknaði hann ekki hingað í heim svo að menn vissu.
Síðan hljóp Ingimundur í burtu og kom í Árskóg hinn ytra og kallaði á Sumarliða er þar bjó og mælti að hann skyldi biðja fyrir Helga presti. Síðan fór hann til þess er hann kom vestur til Hóla og hitti Brand biskup og bar upp fyrir honum vandræði sín. En biskup vildi eigi skrifta honum, kallar hann þess verðugan að hann væri af lífi tekinn en kvað það ekki sitt að gera en taldist eigi til fær að skrifta honum en lést mundu leggja til umráð með honum.
Sumarliði hét maður og var Ásmundarson er bjó að Tjörn í Svarfaðardal. Hann var frændi Ingimundar og sendi biskup hann þangað og tók Sumarliði við honum.
Helgi prestur var frændi Þorvarðs Þorgeirssonar en þingmaður Önundar Þorkelssonar og fékk sinn mann hvor þeirra til að sitja í búinu að Þorgerðar og skyldu vinna fyrir búi hennar og sitja fyrir að Ingimundur væri þar ekki og veiða hann ef þeir mættu. Maður sá hét Þórarinn og kallaður ofláti er Önundur fékk fyrir. Annar maður hét Jón og var Ólafsson er kallaður var skólpa. Hann fékk Þorvarður til. Nú sátu þeir í búinu.
En er voraði þá Ingimundur svo eigi vistina að Sumarliða sem vera átti og hljóp hann inn á strönd að hitta Ásgerði og hafði hana burt og út til Svarfaðardals á bæ þann er heitir á Reykjarhamri. Þar bjó sá maður er Eyjólfur hét og var kallaður sopi.
Nú urðu þeir við varir í Hörgárdal hvar Ásgerður var niður komin og fóru heiman átta menn og komu á Brattavöll. Þeir fóru þá þaðan Þórarinn og Jón og voru þá tíu og komu á Reykjarhamar snemma um morguninn og urðu varir við að Ingimundur var þar í úthýsi einu og eggjuðu hann út að ganga. Hann svarar og kvað vera liðsmun mikinn en Jón Ólafsson sagði að hann skyldi af sér einum eiga ófriðar von en ekki af öðrum mönnum. Þá gerði Ingimundur skeið að durunum og hugðist mundu sæta áverkum við Jón því að hann var beint fyrir durunum og hljóp hann út síðan en Jón vó hann í því er hann kom út. Síðan grófu þeir hann í skafl áður en þeir gengu frá.
Eyjólfur hljóp í burt af bænum og til Tjarnar og sagði Sumarliða svo búið en hann fékk sér menn og fór eftir þeim með fimmtánda mann og hittust eigi og var það vel. Og urðu þessar einar bætur eftir Helga prest og það er þeir fengu á björgum Ingimundar. En þeir fengu ekki af Sumarliða og taldi hann sér mjög misboðið í vígi Ingimundar og hafði hann ætlað að gefa fé til utanferðar honum.
Það hið sama vor var bónorð í Svarfaðardal og bað maður konu sá er Snorri hét og var Grímsson vestan úr Skagafirði frá Hofi. Hann bað þeirrar konu er Þuríður hét systur Sumarliða og var hann fyrir svörum með systur sinni og móður. Grímur var maður vitur og lítill vexti og var kallaður Ref-Grímur. Sumarliði svarar svívirðilega, að því er þeim þótti, kvaðst eigi mundu gefa systur sína þeim Reflingum og bar í sundur.
Guðmundur Arason var þá staðarprestur á Völlum í Svarfaðardal. Hann lét bera Ingimund í burt upp í Ofsadal og lá hann þar til þess er menn komu af þingi. Þá lét Guðmundur prestur hann upp taka og færa heim á Völlu.
Örnólfur hét maður er bjó á þeim bæ er heitir í Garðshorni skammt frá Tjörn. Hans son hét Brandur. Hann var ungur maður og frálegur. Þar var ekki mart milli húsa.
Og einn dag helgan fór Brandur til tíða þangað og reið ótömu hrossi og varð laust hrossið um messuna og gengur í tún og fór hann til Brandur og tók hrossið og mátti eigi ríða og fór það víðara en áður. Þá hljóp Sumarliði að með lurk og barði bæði Brand og hrossið og komst hann með illan leik í burt svo að hann var trautt einfær.
Þá voru enn skip að Gásum og var þar mikil kaupstefna.
Þá bar kirkjudag á Yxnahóli á annan dag viku og komu menn drottinsdag til boðsins. Kom þar Guðmundur hinn dýri og Önundur og voru hross manna færð til gæslu en Önundur lét hafa hesta sína í höftum að bæ heima.
Mánadag var rúmheilagt annars staðar en þar að skipunum var fjölmennt. Bjóst þar annar í burtu er aðrir komu. Sá maður bjóst í burt er Flosi heitir og var prestur að Silfrastöðum og hófu menn upp klyfjar með honum og var þar að Sumarliði frá Tjörn og studdi klyfina. Þá reið maður að honum á folaldi og var í feldi grám og hafði grímu fyrir andliti og sté af baki og lyfti upp grímunni. Var þar Brandur Örnólfsson. Hann mælti að Sumarliði skyldi þá við horfa eigi verr en um sumarið er hann rak hann úr túninu og þá hjó Brandur á herðar honum með breiðöxi og varð það allmikið sár. Þá var hjá Þorsteinn Eyjólfsson, Urða-Steinn, og vildi taka Brand. Og þar var hjá Snorri Grímsson og tekur hann Þorstein og annar maður sá er Björn hét og var Ólafsson. Þeir héldu Þorsteini báðir. Þóroddur hét prestur. Hann var Grímsson, heimamaður Önundar og frændi Brands. Hann skaut hesti undir hann og reið hann í burt. Síðan ríða menn eftir honum og varð hann eigi tekinn.
En tíðindi þessi komu á Yxnahól er menn fóru til aftansöngs en er hann var sunginn þá voru söðlaðir hestar þeirra Önundar. Hann lést fregnað hafa að prestur hans var við riðinn og reið hann til skips. En er hann kom aftur spurði Guðmundur tíðinda af skipunum en Önundur sagði líf Sumarliða og kvað hann skammælegan. Guðmundur spurði að Brandi en Önundur sagði að Kolbeinn Tumason hefði gengið út á skip og mart manna með honum, kvað sagt vera að Brandur hefði þar verið í hans flokki.
Síðan reið Guðmundur til skips og var þar um nóttina og mælti þar um slíkt er þurfti því að Sumarliði var þingmaður hans og frændi. Sumarliði lifði til jafnlengdar annars dags og andaðist þá og var færður á Völlu í Svarfaðardal en Björn Ólafsson fylgdi Brandi á Víðimýri til Kolbeins Tumasonar en Kolbeinn lét fylgja honum austur til Svínafells en Sigurður Ormsson kom honum utan og andaðist hann á suðurvegi.
Og um vorið eftir bjó Guðmundur mál til á hendur Brandi um víg Sumarliða en á hendur Snorra Grímssyni um fjörráð og vetfangsbjörg og á hendur Birni Ólafssyni og Þóroddi presti um vetfangsbjargir og fóru mál þessi öll til þings og veitti Önundur Guðmundi þá að málum og var sæst á málin nema á víg Sumarliða. Þar svarar enginn fyrir Brand og varð hann sekur. Snorri galt tólf hundruð og var í burt ger úr Skagafirði og fór hann suður í Odda. Björn Ólafsson galt sex hundruð og var héraðssekur. Þóroddur prestur galt þrjú hundruð og skyldi vera þar er hann vildi.
Nú hefir fleira orðið senn en einn hlutur og verður þó frá einum senn að segja. Þá varð bónorð í Hörgárdal og bað Þorfinnur konu Önundarson, Ingibjargar dóttur Guðmundar dýra. Hún var laungetin og hét Valdís móðir hennar. Guðmundur taldi henni fullkosta þar sem Þorfinnur var ef það væri að guðs lögum gert. En þar var frændsemi með þeim og kallaði Guðmundur það eigi sitt ráð að gefa hana Þorfinni þar hvorki var til guðs lög né lands. Þeir feðgar mátu svör þessi til svívirðingar og virtu það engis hvað Guðmundur fékk til.
Sá skaplöstur sótti Guðmund að hann elskaði konur fleiri en þá er hann átti. Hann átti Arndísi dóttur Páls prests Sölvasonar úr Reykjaholti.
Guðmundur átti fjölda þingmanna út um Svarfaðardal og náfrændur og fór hann þannig að heimboði haust og vor. Og eitt vor var það þar að heimboði að honum bar fyrir augu konu þá, er honum leist bæði væn og oflátleg er Þorgerður hét og var Ásbjarnardóttir er kallaður var valfrekur. Hann var bróðir Eyjólfs ofláta. Guðmundur tekur hana og hefir við sér og setur hana niður í Myrkárdal.
Það sumar kom skip og komu menn út. Þar kom sá maður er Bergur hét og var Þorsteinsson, annar Illugi og var Jósepsson og var kallaður hallfrekur, þriðji Þormóður Einarsson og voru þar allir sveitarmenn. Þeir Bergur og Illugi fóru til Guðmundar á vist en Þormóður til Hrafnagils til Kleppjárns. En þeir skildust ekki sáttir og sagði Þormóður sér horfið léreft og annan varning og kenndi það Illuga að hann mundi annað tveggja vita eða valda sjálfur ella.
Það haust fór Guðmundur enn út í Svarfaðardal. Þar var sá maður er Þorsteinn hét og var Skeggjason. Hann var skrínsmiður og manna hagastur og tók mikið kaup á skammri stundu. Honum varðist þó svo að hann hafði ekki umfram mat og klæði. Hann hafði áður talað við Þorgerði en Guðmundur tók hana til sín. Guðmundur bauð Þorsteini til vistar með sér og þeim manni með honum er Þorsteinn hét er kallaður var Skáld-Steinn. Þeir voru þar allir senn og þeir menn er áður komu út.
Þorfinnur Önundarson fór þangað jafnlega og talaði við Ingibjörgu þann vetur.
Um vorið reið Illugi til Hrafnagils og hitti Þormóð og spurði hvort hann vildi halda á því er hann hafði mælt um haustið eða vildi hann það aftur mæla. En Þormóður kvaðst það enn ætla sem fyrr. Þá hjó Illugi til Þormóðar af hrossbaki og kom á herðarnar og varð það mikill áverki. Síðan reið Illugi í brott en menn hljópu eftir honum allt til bæjar þess er á Kroppi heitir. Þar voru þeir fyrir Urða-Steinn og annar, Þorsteinn Arnþrúðarson, og höfðu þeir hans þá ekki er eftir fóru.
Þormóður varð græddur og aldrei heill. Síðan var sæst á málið og skyldi Illugi bera járn og færast undan illmæli og skyldi Brandur biskup gera skírslu og svo sáttina eftir. Og fór það fram að Illugi bar járn og varð allvel skír. Þormóður fékk litla bót fyrir áverkann því að mikils þótti vert illmælið því að hann hafði aldrei verið við það kenndur hvorki áður né síðan.
Illugi fór utan það sumar og kom út of haustið og réðst þá á Möðruvöllu í Hörgárdal. Þar bjó þá Þorgrímur alikarl Vigfússon. Hann átti Guðrúnu Önundardóttur Þorkelssonar og var Illugi með Þorgrími þann vetur. En um vorið kvongaðist Illugi og fékk þeirrar konu er Finna hét og bjó að Hlöðum.
Þann vetur voru skip að Gásum og um sumarið var kaupstefna mikil. Þar voru þeir Fornungar og áttu sér einir tjald tengdamenn: Saxólfur Fornason og Höskuldur. Þar var Þórdís, er Saxólfur átti, dóttir Daða Illugasonar úr Skagafirði og Brandur bróðir hennar, er átti Signýju dóttur Guðmundar dýra, og þar var Ingibjörg systir hennar og þar var Guðmundur jafnan er hann var við skip.
Þá fór Guðmundur inn í fjörð og er hann var í brottu þá kom Þorfinnur þar um dag í tjald þeirra og sat á tali við Ingibjörgu og gekk hann eigi fyrr í brott en að náttverðarmáli. Og er þeir bjuggust til rekkna þá kom þar Þorfinnur og þeir þrír saman og töluðu við Ingibjörgu og varð þeim það við búðardvöl.
Þá mælti Saxólfur: Biðja vil eg þig Þorfinnur attú hefðir eigi hingaðkomur eða náttfarar til tjalds vors meðan Guðmundur er eigi hér en þá munum vér oss öngu af skipta er hann er hér.
Þorfinnur svarar: Ekki mein mun þér að komum mínum ef þú vilt þér ekki mein að gera.
Þorfinnur reis upp síðan og tók í hönd Ingibjörgu og vildi leiða hana í brottu. Saxólfur seildist til og hnykkti henni aftur í tjaldið. Þorfinnur brá sverði og vildi höggva til Saxólfs og hjó hann í tjaldströnurnar er í milli þeirra voru. Hann hjó í sundur buklarafetil er þar hékk á og féll hann ofan og tók Saxólfur hann og hlífði sér með. En Þorfinnur og förunautar hans hörfuðu út úr tjaldinu og hjuggust þar til um tjaldströnurnar að þeir skeindust báðir Saxólfur og Þorfinnur nokkuð og hvorgi svo að áverki mætti heita og fóru við það í brott. En eftir voru buklarar þeirra þrír og sótti þá Þóroddur prestur og mælti til vel og voru honum í hendur seldir.
En annan dag eftir kom Guðmundur til skips og hafði Ingibjörgu heim við sér. Hvorigir lögðu orð í við aðra heldur en ekki hefði í orðið.
Á þeirri viku fóru þeir heiman Önundur og Þorfinnur og voru fimmtán saman og riðu upp á Bakka. Guðmundur var heima og fátt annarra manna. Húskarlar voru á verki og unnu langt í brott.
Eigi veit eg viðurmæli þeirra en frá erindislokum er að segja. Þá var Ingibjörg föstnuð Þorfinni áður þeir fóru í brott og ákveðin brúðkaupsstefna og svo á fé hvað hann skyldi hafa með henni. Síðan tókust ráð þessi og hafði Guðmundur boð inni. Fór hún þá í brott með Þorfinni og voru samfarar þeirra laglegar.
Annað sumar eftir lýsti biskup því að börn þeirra skyldu eigi vera skilgetin.
Önundur tók upp bú þess manns er Þórir hét og var Bárðarson. Hann bjó á bæ þeim er heitir í Lönguhlíð og kallaðist Önundur eiga þar mála á landi og var sá ríkismun þeirra að Þórir varð í brott að fara nauðigur. Þá fór Önundur bústað sínum í Lönguhlíð en Þorfinnur bjó á Laugalandi.
Í þenna tíma kom út sá maður er geta verður við er Ögmundur hét og var son Þorvarðs Þorgeirssonar. Hann var kallaður sneis. Hann hafði utan verið lengi. Hann kom út í Austfjörðum og var með Teiti mági sínum um veturinn. Þá þóttist Teitur hann ærið lengi hafa haft í lotu.
Þá fór Ögmundur í Fnjóskadal til Brands er bjó á Draflastöðum. Hann átti Ingibjörgu dóttur Þorvarðs og var hann með Brandi of veturinn. Þar var kona sú í vist með Brandi er Þuríður hét. Hún var systir Brands. Hún var væn kona og garpur mikill í skapi. Hana lagði Ögmundur í rekkju hjá sér um veturinn og kom það illa við því að hana átti sá maður er Björn hét Hallsson Ásbjarnarsonar er búið hafði á Fornastöðum og höfðu þeir verið fylgdarmenn og vinir Þorvarðs Hallur og synir hans. Þau Ögmundur og Þuríður voru óþokkaleg ásamt því að hvorttveggja var óskapsmaður. Ögmundur gerði Þuríði barn en Björn bóndi hennar var eigi hér á landi.
En að vordögum þóttist Brandur hafa fulllengi haft Ögmund með sér. Þá bauð honum til sín Þórður Þórarinsson í Laufási og hafði Þórður verið fylgdarmaður og vin Þorvarðs föður hans. Fór Ögmundur til Þórðar og hafði Ögmundur þar eigi lengi verið áður kallað var að mart væri með þeim Margrétu konu Þórðar, dóttur Odds Gissurarsonar.
Það sumar kom út Björn Hallsson og færði Ögmundur honum konu sína og bauð honum sjálfdæmi og sættust að því.
Ögmundur var með Þórði þau misseri en að vori fór hann í burt og tók enn Brandur við honum og skyldi Ögmundur eiga þá helming í búi og hafði hann oft komur í Laufás og varð þeim það að sundurþykki hjónum, Þórði og Margrétu, og fór hún austur í fjörðu til Teits bróður síns og var þar. Þá var Hákon Þórðarson í Laufási því að Þórður bað hann þess.
Eitt sinn átti Ögmundur för út í Höfðahverfi og lá leið hans of garð í Laufási. Honum fylgdi sá maður er Þorsteinn hét og var Ketilsson og voru tveir saman.
En er þeir voru út farnir kvöddu þeir Þórðarsynir húskarla sína með sér og kváðust vilja fara í skóg til viðar. Maður hét Gissur og var Halldórsson, mikill og sterkur, annar Bergur, þriðji Sölvi og var Þóroddsson. Síðan gengu þeir upp til dals á brekku þá er síðan er kölluð Ögmundarbrekka og varð ekki af viðarverki.
Þá sagði Hákon þeim deili á, húskörlunum, að hann ætlaði að sitja fyrir Ögmundi og taka hann af lífi og spurði hvert lið þeir mundu veita.
Gissur svarar: Eigi mun eg vinna á Ögmundi en dvelja má eg förunaut hans.
Bergur þagði en Sölvi læst eigi vera mundu á móti Ögmundi ef hann veitti honum eigi, kvaðst eigi honum eiga verra að launa en þeim.
Nú sáu þeir að Ögmundur fór utan. Síðan spretta þeir upp úr sátinni en hinir hlaupa af baki. Gissur tók förunaut Ögmundar og hélt honum og Bergur með honum. En þeir sóttu Ögmund þrír Þórðarsynir. Sölvi sat hjá.
Ögmundur varðist vel því að hann var vígfimur og vel við búinn. Þá lagði Dagstyggur til hans undir höndina með spjóti og ætluðu þeir að hann mundi sár til ólífis en það var þó lítið sár því að hann hafði pansara öruggan. Ögmundur var og sár í andliti og blæddi í augun svo að hann mátti eigi vega. Þá sest Ögmundur niður og bað að hann skyldi ná prestsfundi ef þeir vildu hann af lífi taka. Þeir Hildibrandur og Dagstyggur vildu drepa Ögmund en Hákon vildi það eigi. Þá kvaðst Sölvi mundu til fara að veita Ögmundi ef þeir hættu eigi. Þá bauð Hákon að binda sár Ögmundar og ætluðu hann særðan til ólífis en hann vildi það eigi þiggja. Síðan fóru þeir heim.
Þórður var úti og spurði hvað þeir hefðu að gert en þeir sögðu áverka við Ögmund og líf og hann vildi prestsfund. Þórður kvað það ekki nema slægð hans og kvaðst mundu hafa gengið milli bols og höfuðs ef hann hefði við verið. Síðan fór prestur heiman þaðan, sá er Erpur hét, og maður við honum.
Og er þeir komu þar er fundurinn hafði orðið var Ögmundur í brottu og hafði sár óhægleg en honum fylgdi heill maður og fluttust við það heim á Draflastaði og fór kona sú til að græða Ögmund er Álfheiður hét er átt hafði Hallur Ásbjarnarson af Fornastöðum.
Þorvarður Þorgeirsson var þá á Víðimýri með Kolbeini Tumasyni og er hann frá þessi tíðindi þá lét hann söðla sér hest og reið hann það á nótt er hann mátti eigi á dag uns er hann kom á Draflastaði og hafði hann eigi verið snerri en þá.
En er Ögmundur varð heill sára sinna þá var lagður sáttarfundur með þeim og sættust þeir að kalla og varð það að engu haldið. Síðan ortust þeir um þetta.
Kvað Ögmundur of Dagstygg vísu:
21.
Mér réð á bak bróðir,
bjóðr var styrkr í myrkri,
hæg raun var það honum,
Hildibrands, að standa.
Þá er lébrigðir lagði,
liðinn stormr var þá orma,
áðr var eg felldr til foldar,
fótrunnr á mig spjóti.
Þá kvað Dagstyggur vísu:
22.
Því em eg hljóðr, er hríðar
hyrsveigir fekk eigi
endr af órum fundi
aldrtjón roðins skjaldar.
En því glaðr er gæði
geirhríðar sá eg skríða,
sæki sára tíra,
sunnan lágt meðal runna.
Þann vetur andaðist Dagstyggur úr sótt.
En við það að það entist ekki er þeir höfðu sæst á þá bjó Ögmundur mál á hendur þeim er eftir lifðu og fóru mál til þings. Jón Loftsson veitti Ögmundi að málum og Sæmundur son hans. Var þá enn sæst á og voru ger tólf hundruð til handa Ögmundi en þrjú hundruð til handa Þorsteini fyrir það er hann hafði haldinn verið.
Síðan tóku þeir Laufæsingar þann málshátt að þeir sögðu þá er maður hefði haldinn verið: Stattu kyrr, hafa skaltu þrjú hundruð.
Guðmundur hinn dýri handsalaði sættina og skyldi goldinn þriðjungur er menn kæmu heim af þingi en annað á Þverárleið í Eyjafirði.
Ögmundur kom á fund Guðmundar er menn komu af þingi og galt hann ekki, en til Þverárleiðar kom Ögmundur ekki. Var þar og ekki goldið. Þá nefndi Ögmundur sér votta og sagði í sundur griðum og sættinni allri. Og verður þar nú staðar að nema.
Á þeim bæ er í Brekku heitir í Ólafsfirði bjó sá maður er Þorsteinn hét og var Halldórsson. En á annarri Brekku bjó Eyvindur Bjarnarson og Sigríður móðir hans. Það var mælt að Þorsteinn væri vel til Sigríðar.
Þá var Sighvatur hinn mikli út kominn bróðir Eyvindar. Hann hafði verið utan nokkura vetur og verið í víkingu og var hann þar á Brekku.
Þeir bræður gátu fyrr lokið heyverki sínu en Þorsteinn átti úti nokkvað og hafði fært heim í tún það er úti var. En meystelpa ein var að fé þeirra bræðra og einn dag rak hún naut að túni en Þorsteinn fór á mót henni og bað hana eigi þangað reka að heyjunum og vísaði í brott fénu en hún kvaðst skyldu fara heim og segja að hann ræki bæði nautin og hana og svo gerði hún.
En síðan gengu þeir bræður á Brekku til Þorsteins en hann leiddi hross sitt úr garði og fundust þar. Ræddu um síðan að hann hefði meyna skyndilega brott rekið. En Þorsteinn kvað ekki það og kvað ærna haga annars fénu en í túni þar er hann átti hey. Þeir kváðu þá svo komið sumri að fé átti heimult að ganga þangað er það vildi.
Sighvatur hafði öxi í hendi og lýstur til Þorsteins en hrossið var millum þeirra og lagðist hann niður hjá hrossinu og kom öxarskaftið á herðatoppinn og brotnaði í sundur en öxin kom á herðarblað Þorsteini og varð honum ekki mein að því. En hann skaust að Sighvati og hjó til hans með bolöxi og kom á höndina og varð það mikill áverki svo að honum var höndin ónýt síðan og skildust við það.
Síðan stökk Þorsteinn í brott. Þeir voru bræður og Arnoddur hinn mikli er bjó að Kvíabekk. Fer Þorsteinn nú á fund Guðmundar hins dýra. Hann var hans þingmaður og var hann þar of veturinn en Þórður húskarl hans annaðist búið eftir. Þeir Bjarnarsynir kváðu ekki fé þaðan mundu rakna.
En of vorið fóru þeir út þangað Saxólfur Fornason er bjó í Myrkárdal og Urða-Steinn og Arnþrúðarsynir og tóku upp eigu Þorsteins alla og höfðu til Guðmundar og varð engi forstaða veitt. Síðan bjó Guðmundur mál til á hendur Sighvati um frumhlaup við Þorstein en Önundur Þorkelsson bjó til mál um áverka við Sighvat á hendur Þorsteini því að þeir bræður voru hans þingmenn.
Síðan fóru þau mál til þings og var leitað um sættir og gekk til Þorfinnur Önundarson mágur Guðmundar og bað Guðmund að sættast og bauðst til gerða og hét hann að gera Guðmundar hlut góðan og lét hann leiðast að því og sættust þar. Þau voru öll senn á þingi og Ögmundar mál. Síðan fóru menn heim af þingi.
Og á mannamóti um sumarið á Skeiðhólmum í Hörgárdal þá gerði Þorfinnur þessa sætt: tólf hundruð til handa Sighvati of áverka en ekki til handa Þorsteini og varð sú sættargjörð óvinsæl en þó galst þetta fé að mestum hluta.
Eitt sumar var hestaþing í Fljótum að Hamri. Hét hvortveggi Nikulás þeirra er etja skyldu hestunum. Var annar Runólfsson. Hann var félítill og heldur kynsmár. Hann átti þrjá sonu. Hét einn elsti Runólfur, Leifur og Halli. Þeir voru allir fulltíða menn. Annar Nikulás var sonur Skratta-Bjarnar Þorvaldssonar á Griðli. Hann átti vel fé og var í góðra bónda virðingu. Þeir áttu báðir grá hesta að lit.
Nú voru hestarnir saman leiddir og beist hvortveggi vel meðan þeir áttu með sér að skipta. Þá þótti Nikulási frá Mjóvafelli ójafnt keyrðir hestarnir og gert að mannvirðing. Hafði hann staf mikinn í hendi og vildi ljósta hest nafna síns. En Nikulás Bjarnarson hljóp undir höggið og kom á hann stafurinn. Hann hjó í höfuð nafna sínum með handöxi og varð það lítill áverki. Þá varð þröng mikil. Þá hjó Runólfur son Nikuláss frá Mjóvafelli millum herða Nikulási Bjarnarsyni og varð allmikið sár. Og skildu við það hestaþingið.
Nikulás frá Mjóvafelli hafði lítinn áverka og mælti er hann reið heim: Eigi veit eg hvað eg mundi snúa þá er mér var á léttasta skeiði en höggva í höfuð á sextugum manni og riði sá með bandlaust höfuð í brott.
Eftir þetta stökk Runólfur í brott en Nikulás Bjarnarson varð græddur. Hann var náfrændi Kolbeins Tumasonar en þingmaður Guðmundar hins dýra og var sæst á málið. Var það jafnt látið er þeir höfðu við ást nafnar en Runólfur varð héraðsekur og skyldi hvergi vera þar er þeir ættu mannaforráð Guðmundur og Kolbeinn. En of sumarið eftir kom Runólfur sunnan of heiði.
Maður hét Böðvar og var Bjarnarson. Hann bjó í Felli í Skagafirði. Böðvar var lítill maður vexti og kurteis og var kallaður lítilskeita. Hann tók við Runólfi og var hann þar um sumarið allt til þess er Kolbeinn Tumason fór að heimboði til Hofs til Gríms Snorrasonar. Þá sendir Kolbeinn orð Böðvari að hann skyldi þangað koma og hann kom. Síðan varð Böðvar að láta Runólf lausan og fór hann þá inn í hérað á bæ þann er Þverá heitir til Dálks Þorgeirssonar og tekur hann vel við honum og var hann þar of veturinn. En um vorið frétti Runólfur Dálk hvað hann skyldi ráðs taka.
Dálkur mælti: Far fyrst á fund Kolbeins og bjóð honum bætur fyrir hérvist þína. Nú fór Dálkur við honum og vildi Kolbeinn eigi út ganga. Þá gekk Dálkur inn og beiddi að Kolbeinn skyldi út ganga. Hann kvaðst einn eigi málþarfa við Runólf.
Dálkur svarar: Þá muntu þykjast meiri maður fyrir þér en faðir þinn. Með mér var skógarmaður hans um vetur og reið eg í tún hans um vorið með hann og gekk hann út og reið eg með þann sýknan í burt svo sem verða mátti.
Kolbeinn svarar: Þykir þér ráð að ganga til fundar við Runólf?
Já, segir Dálkur, það þykir mér ráð að hafa af Runólfi, að betra er að hafa en eigi.
Nú gekk Kolbeinn út og bauð Runólfur honum stóðhross að þiggja.
Kolbeinn mælti: Far fyrst til Guðmundar dýra og bjóð honum hrossin.
Þá sendu þeir Kolbeinn og Dálkur mann til Guðmundar með Runólfi að hann skyldi þekkjast bæturnar. Síðan kom Runólfur til Guðmundar og bauð honum að þiggja hrossin en hann þá. Runólfur var þar nokkverjar nætur.
Þaðan fór hann ofan í Langahlíð og voru þar komnir bræður hans, Leifur og Halli, til Önundar. Nú sagði Halli að Runólfur hafði gefið hrossin. Önundur tók lítt á hrossagjöf þeirri er hann skyldi þó eigi í frið tekinn greiðlega. En þar kom að Runólfur tók í brott hrossin og gaf Önundi í Langahlíð og tók hann við hvorutveggja, Runólfi og hrossunum og var Runólfur kallaður snúinbrúni.
En Guðmundur lét sem hann vissi eigi og þurru mjög metorð hans og þóttu mjög saman ganga um það er til kom og kölluðu menn Önundar að hann sæti á friðstóli uppi í Öxnadal og kváðust þeir mundu hlaða vegg í dalinn fyrir ofan og fyrir neðan og tyrfa yfir síðan og kasa þar metorð Guðmundar. Þá fór Guðmundur aldrei til mannamóta um sumarið og engir hans menn og eigi til leika of veturinn.
Hinn fyrsta drottinsdag eftir jól var leikur að Bægisá. Þar bjó sá maður er Þorvaldur hét og var náfrændi Guðmundar. Fóru þeir þangað til leiks Langhlíðingar en ekki kom ofan úr Öxnadal.
Þar kom sá maður er Ólafur hét og var kallaður tjörskinn en var vistum með Kolbeini Tumasyni. Hann sat á þverpalli en er lokið var leik sneri hann að Runólfi og hjó á hönd honum svo að hann var einhendur síðan. Þá komst Ólafur fram úr stofunni og eigi út. Þeir Langhlíðingar komust fyrir dyrin og hélt þar maður á manni. Konur urðu þar við riðnar og gátu komið Ólafi í búr og þar út í vindauga en á var úti fjúkrenningur neðan eftir dal.
Þá mælti Þorvaldur að létta skyldi þæfu þessi en þeir kváðust þegar létta skyldu ef þeim væri Ólafur fram seldur og sögðust vilja leiða hann fyrir Önund of kveldið og vita hvert víti hann skapaði honum. Þorvaldur kveðst eigi hafa ráð á því að selja Ólaf fram en eigi örvænt ef brátt væri að skyggnst að þeir mundu sjá hann. Þeir kváðust ekki framar beiðast. Þorvaldur kvað þá sjálfa valda ef hann ræki langt undan.
Síðan hlaupa þeir út allir og sjá hvar maður hleypur ákaflega og var kominn að Bægisá hinni syðri en Langhlíðingar héldu eftir. Fjúkið tók að vaxa og gerði veður illt og myrkt. Ólafur kom hvergi til byggða í dölum fyrr en til sels Guðmundar er hét að Varmavatni. Hann lagðist þar niður í selið og svaf um stund. Síðan fór hann í brott. Þá komu menn Önundar þar er hann var brottu úr selinu. Svo fór þrisvar um nóttina er hann flýði úr selinu að þeir komu þar hvert sinn er hann var í brottu. Síðan fóru þeir ofan eftir dal og ætluðu að hann mundi farinn suður yfir heiði. En þegar hann sá að lýsti af degi þá fór hann og kom heill heim á Víðimýri.
En Langhlíðingar færðu Runólf til Bægisár hinnar syðri. Þar bjó Þorsteinn gullsmiður er átti Sigríði Þjóðólfsdóttur er þar hafði lengi búið og kom Guðmundur því ráði í hendur honum og svo landinu. Þorsteinn tók við Runólfi og batt sár hans.
Þá bjó Björn prestur á Yxnahóli Steinmóðsson. Hann átti konu þá er Birna hét og var Guðmundardóttir. Hann gerði skilnað við hana og fékk henni bústað í Efri-Langahlíð. Þau áttu dóttur og hét hún og Birna. Þær voru báðar vænar konur og kurteisar.
Þorvaldur frá Bægisá gekk þangað jafnan og talaði við Birnu hina yngri. Hann hafði húskarl þann er Guðmundur hét og var Tassason. Honum þótti og gaman að að tala við hina eldri Birnu og fóru þangað báðir.
Það var hálfum mánuði síðar en Runólfur hafði fengið áverkann að þeir gengu enn í Langahlíð og sátu á tali við konurnar sem þeir áttu vanda til. Þar komu um daginn Nikulássynir, Leifur og Halli, og sátu þar inni. En við rökkur kom þar Þorfinnur Önundarson og Tjörvi við honum er bjó að Rauðalæk og var hann lengstum með Önundi.
En er þeir komu í stofu spratt Halli upp og hjó til Þorvalds og kom í fangið og varð það svöðusár en þeir Leifur og Tjörvi héldu Guðmundi. Síðan fóru þeir Þorfinnur í brott en Birna hin eldri batt sár Þorvalds. En Guðmundur fór heim.
En er Guðmundur dýri spyr þetta fór hann heiman af Bakka og ofan í Langahlíð hina efri og vildi vita ef Þorvaldur væri færandi upp til hans og voru fjórtán saman. Önundur fór og heiman til Bægisár að hitta Runólf þenna sama dag. Þeir Önundur voru fimmtán. Þeir fórust í mót og kenndu hvorir aðra.
Hákon Þórðarson var með Guðmundi og mælti: Það er vel er vér finnumst hér og látum nú sverfa til stáls með oss og er eigi víst að færrum mönnum týni til en nú því að skammt mun að bíða.
Guðmundur svarar: Eigi er sá liðsmunur sem eg mundi kjósa.
Hákon svarar: Slíkan vildi eg helst liðsmun því að nú má allt ganga sem auðið verður um vor viðskipti.
Guðmundur svarar: Eigi vil eg vekja láta úr mínum flokk áköst né frumhlaup en taka við sem þriflegast ef þeir gera á oss.
En auðsýnt var á Hákoni að hann sparði eigi að vekja. Þeir Önundur námu stað á hæð lítilli en þeir Guðmundur gengu hjá fram og áttu hvorigir við aðra. Síðan fór Guðmundur í Langahlíð og hafði Þorvald heim við sér um kveldið og hittust þeir Önundur ekki. En Þorvaldur varð heill.
Erlendur hét maður og var Þorgeirsson er kallaður var Óhæfu-Geir. Hann hafði verið utan með Þorvarði hinum auðga Ásgrímssyni. Hann bjó að Myrká. Hann var vinsæll maður, mikill maður og sterkur og fylgdarmaður Önundar og var þó vistum að búi sínu.
Það var um vorið snemma að Erlendur fór í Lönguhlíð að finna Önund og kvaðst verða var við að menn Guðmundar fóru flokkum hvert sem þeir fóru. Hann kvaðst og vita að Saxólfur Fornason í Myrkárdal hafði jafnan fjölmennt og bað hann Önund hafa á sér vörðu meiri en áður.
Þeir Leifur og Halli voru hjá og svöruðu: Fyrir litlu gengum við um allan Öxnadal og könnuðum haga allt hið efra og fundum ekki sauða nema á eina kollótta og var af fallin ullin öll og mun hún óvíða ganga í vor og ætlum vér að Guðmundur sitji fast á friðstóli sínum.
Önundur svarar: Það má vera að hann sitji of stund en ef hann rís upp þá er eigi víst hve lítt hann stígur fram.
Síðan fór Erlendur heim.
Það var um vorið er húskarlar komu inn í Langahlíð of ljósan dag og vildu hitta Önund að því er þeir þurftu. Þeir sáu hann eigi og fór svo þrisvar og sat hann þó í rúmi sínu.
Að Sökku í Svarfaðardal bjó þá Arnþrúður Fornadóttir og synir hennar. Það varð til tíðinda um myrgin er menn hvíldu í skála að öxar tvær þutu hátt á öxatré. Þá voru þær ofan teknar og áttu þeir bræður Þorsteinn og Snorri Arnþrúðarsynir. Þær þutu eigi að síður þótt haldið væri á þeim. Þá var farið eftir Guðmundi presti Arasyni og þá þögnuðu þær er hann stökkti á þær vígðu vatni.
Það var viku síðar en Erlendur kom í Langahlíð að hann þóttist verða var við safnað manna og fór hann þá heiman. Það var þriðjuaftan fyrir gagndaga. Sá maður fór með honum er Haukur hét og var stjúpson hans. Þeir fóru til ár þeirrar er Barká heitir. Þá var þar fyrir Saxólfur Fornason við átta mann. Hann spurði hvert Erlendur ætlaði að fara.
Hann svarar: Í Langahlíð.
Saxólfur mælti: Það ráð mun eg þér kenna að þú far eigi lengra en nú ertu kominn og ætla eg þetta vera heilræði.
Erlendur svarar: Eigi veit eg að þær torfærur séu á götu minni að eg megi eigi fara leið mína.
Saxólfur kvað það vera sem til tækist.
Erlendur reið leiðar sinnar og kom á Öxnahól og dvaldist þar um stund. Þaðan fóru þeir og voru átta saman. Og er þeir komu út of Hallfríðarstaði þá var Saxólfur þar fyrir í annað sinn. Voru þeir þá fimmtán saman.
Saxólfur mælti: Snú aftur Erlendur og far eigi lengra. En veit eg að þú þykist var orðinn við að safnaður dregst að Önundi og ótti nokkur og er þín það þó drengilegt að þú viljir hann gera varan við. En það mun nú fyrir ekki koma og vera má að þú hafir þig í hættu. Er nú ekki þess að dylja að nú mun fundur vor verða. Máttu nú sjá fyrir Öxnadalsmynni hjá Grænabrú að þar kemur fram lið og þar er sól skín í hamra ofan máttu sjá að skildir blika við og eru þeir þar utan úr Svarfaðardal og mun þetta lið allt hittast og sækja Önund heim í nótt.
Erlendi þótti eigi að minni þörf að fara og keyrði hestinn en Saxólfur tók í taumana. Þá hljóp Erlendur af baki og vildi hlaupa. Þá hjó Snorri Arnþrúðarson til hans en Haukur brá fyrir buklara og var hann ekki sár. Erlendur hjó í móti og brá Brandur buklara fyrir og varð og engi áverki. Þá hljóp að Sighvatur Saxólfsson og lagði spjóti til Erlends og kom í lærið ofarlega og skar inn úr. Það varð svöðusár. Og hurfu við það aftur á Öxnahól.
Síðan komu flokkar þeirra Guðmundar saman á eyrunum fyrir ofan Langahlíð. Þar var og kominn Kolbeinn Tumason vestan með flokk sinn og höfðu þeir Guðmundur nær níu tigum manna.
Þeir Langhlíðingar sáu nú flokkana og þóttust vita að ófrið mundu fylgja. Þeir höfðu og þar fyrir nær fimm tigum manna. Nú ræða þeir um að þeim þætti ráðlegt að búast um úti til varnar. Þar var virki nokkuð á húsum og kölluðu þeir að lengi mundi vörnin deilast af úti. Önundur kvaðst þess oft vita dæmi að illa sóttist þar er menn voru inn sóttir í hús. Þeir svara og kváðust ætla að þá mundi eldur að borinn. Önundur lét sér það ekki skiljast og vildi ráða og gengu menn inn allir.
En flokkar stigu af baki utan garðs og gengu síðan til bæjar allir og skiptu flokkinum og gengu sumir á bak húsum og ætluðu tveim megin að að ganga ef þeir verðust úti. En er þeir komu fyrir dyrin voru allir menn inn gengnir en einar dyr opnar. Þá spurði Önundur hver fyrir flokki þeim réði.
Guðmundur svarar: Lítil er forustan. Hér er nú komin ærin sú hin kollótta, gengin úr dal ofan, og þó af ullin harla mjög og er eigi forustusauðurinn föngulegri en svo. En þó ætlar hún nú að annaðhvort skal vera, að hún skal nú láta af sér allt reyfið eða ganga með fullu reyfi heim.
Önundur spurði ef nokkvað skyldi sættum við koma fyrir menn þar.
Guðmundur svarar: Lengi hefir nú ekki orðið af sættum þótt svo sé látið. Mun nú og ekki af því verða.
Ekki skal þess þá leita, sagði Önundur.
Þá skutu menn Guðmundar inn í dyrin og var þá lokið aftur hurðunni. Þeir Guðmundur þóttust sjá að húsin mundu seint sækjast ef eigi væri eldur að borinn. Þar voru margir menn inni vel vopnaðir. En eldur fékkst eigi heima þar og var sóttur á Grund ofan en sumir brutu ofan fjós og hlöðu og báru að hey að húsunum og kveiktu síðan eld fyrir durunum. Þórður Laufæsingur var á hús uppi og hans menn og rufu þakið og gerðu þar eldana á rjáfrinu en heyi var troðið í glugga alla. En þurr var viðurinn undir og var þar eigi hægt að verja innan úr húsunum.
Þá var beitt útgöngu konum og þeim mönnum er eigi voru sakar við. Þá lét Guðmundur brjóta vegginn hjá durunum við staflægjuna og gengu menn þar út, þeir er leyft var, því að þeir voru þar margir er þeir vildu eigi grand gera. Þá gerðist reykur mikill og sáu þeir óglöggt.
Þar var sá maður er Þóroddur hét og var kallaður laugarnef. Hann hafði vopn mörg í fangi sér og vildi út bera. En Hákon Þórðarson stóð þar fyrir úti og hjó hann þegar banahögg og miskenndist hann ekki því að þeir höfðu honum ætlað líflát. Þóroddur lést þar fyrstur manna.
Þar var inni góður bóndi er Galmur hét og var Grímsson úr Dynhaga. Hann var vin þeirra allra en engis meiri en Kolbeins Tumasonar. Hann gekk að durum og mælti við þá og var þá enn eigi svo sótt af eldi að eigi mundi borgið verða öllu. Hann bauð þeim Guðmundi og Kolbeini að þeir skyldu frá hverfa því sinni og bauð þeim til þess öll fé sín. En hann var vellauðigur maður og átti hið besta bú. Kolbeinn svarar og kveðst mundu gefa Galmi svo mikið fé sem hann vildi til þess að hann gengi út.
Galmur svarar: Lengi hafið þér hlegið að því að mér hafi þótt bað gott og eg hafi oft drukkið mikið. Nú mun kostur baðs en ósýnt þykir mér nú hversu um mjöðdrykkjuna fer.
Og gekk hann eigi út.
Þá mælti Þorfinnur til Guðmundar mágs síns: Það er illa er Ingibjörg dóttir þín er eigi hér inni.
Guðmundur svarar: Það er vel þótt hún sé hér eigi en þó mundi það nú fyrir engu standa.
Þá hljóp út Halli Nikulásson og var hann mjög kumlaður af hita og lagðist niður í læk er var fyrir durunum. En ætlaður var til áverka við hann Snorri Arnþrúðarson og hann hljóp að og hjó hann þar banahögg í lækinum.
Síðan gekk út Tjörvi og var þar til ætlaður Þorvaldur frá Bægisá og lagði Tjörva í gegnum með sverði. Síðan gekk Tjörvi ofan á völlinn og þar að er Guðmundur stóð.
Guðmundur mælti og hafði eigi séð er hann fékk áverkann: Gefa skal Tjörva grið, segir hann, og ertu ómaklegur.
Tjörvi svarar: Vætka eg of griðin og féll hann þá niður og var örendur.
Þá hljóp út Leifur Nikulásson en til áverka við hann var ætlaður Guðmundur Tassason. Leifur var vopnlaus og þrífur hann upp mann þann er Sveinn hét og var Jónsson og hlífði sér með honum. Það sá Hákon Þórðarson og hjó á öxlina og frá alla öxlina ofan og komst hann til kirkju með áverka sinn.
Vindur var á of nóttina og þótti þeim við því búið að leggja mundi að kirkjunni eldinn. Þá hét Guðmundur að gefa kú kirkjunni ef hún héldist. Þá féll veðrið í logn og því næst kom gusturinn af kirkjunni og lagði í brott eldinn allan. Þá mátti og hvergi í nánd koma eldinum og kastaði upp úr húsunum svo hátt að hvar fjarri kom niður er húsin tóku að loga.
Þá sáu þeir að út kastaði nokkuru í skarðið er á var brotið vegginum og vissu eigi fyrr en hrærðist og spurðu hvað það væri. Hann svarar og segir að Þorfinnur var þar. En til áverka við hann var ætlaður Urða-Steinn en hann varð eigi til búinn því að logaði allt það er á honum var, bæði hár og klæði. Síðan hlaupa þeir til Arnþrúðarsynir Þorsteinn og Snorri og vinna á honum. Þorfinnur mælti að þeir skyldu bæði höggva stórt og mart og kvað eigi mundu þeim óþarfara mann en sig ef hann lifði. Þorfinnur komst í kirkju með áverka sinn og lifði þrjár nætur síðan. Það var mál manna að Þorfinnur mundi eigi lifa þótt hann hefði enga áverka. Svo var hann mjög kostaður af eldi.
Þar brann Önundur inni og Galmur.
Brennunni var lokið fyrir dagmál. Þeir Þórðarsynir fóru og stönguðu með spjótum allt þar er þeim þótti von að þau fylgsni væru að menn hefðu haldist. Eftir það fóru þeir í brott og höfðu dagverð að Bakka.
Og er þeir fóru frá brennunni þá kvað Kolbeinn vísu:
23.
Lágu lymskudrjúgir
lundrakkir Guðmundi
hjörva éls á hálsi
herðendr of skapferði.
Nú hafa randviðir reyndan,
ríkmennið veldr brennu,
æsirunn of annað
eggþeys en kjarkleysi.
Hinn sama dag fór Kolbeinn vestur heim og unnu allir eið áður þeir skildu að hver skyldi annars hefna ef á hluta væri gert of þessa sök. En einn maður skarst undan. Þar var Vermundur frá Móbergi. Hann kvaðst eigi mundu leggja hlut sinn við að hefna hvers illmennis þótt þar væri í för.
Nú þóttu Guðmundi ærnir mótstöðumenn sínir og sendi hann orð Ögmundi sneis að hann skyldi koma á vit fjár þess er haldið hafði verið fyrir honum og sagði að þá mundi verða goldið ef á vit væri komið. En þá var svo komið að eigi þótti víst hvað Guðmundur léti ógert við þá menn er honum þætti ábótavant við. Ögmundur hafði þá sett bú saman af litlum efnum þar er á Hálsi heitir og þóttist eigi til fangaður að hafa svo menn með sér að hann ætti eigi minna undir sér en Guðmundur og fór því eigi. Síðan tók Guðmundur sjálfur og virti fé til gjalds, tólf hundruð, sem áður var á kveðið og lagði við þrjú hundruð og lét færa honum og sendi þau orð með að Ögmundur skyldi eigi mótstöðumaður hans vera um þessi mál er nú höfðu gerst. Síðan kom féð til Ögmundar og varð hann glaður við.
Þeir Hörgdælir höfðu orðið svo limhlaupa við Guðmund að þeir sendu orð Brandi biskupi að hann færi vestan og kæmi á griðum með þeim. Biskup fór þegar upp til heiðar og höfðu með sér húð og reip og ætluðu að setja biskup þar á ef hann mæddist í göngunni. Og er hann kom norður þannig gat hann komið á sættarstefnu þeirri að Jón Loftsson skyldi gera.
Þá sendi Þorgrímur alikarl orð Sæmundi Jónssyni því að börn hans tvö Sæmundar, Páll og Margrét, voru systurbörn Þorgríms. Þá safnaði Sæmundur mönnum og fjölmennti til þings.
Það sumar fjölmenntu margir menn mjög og var allmikil þingreið og var þingheimurinn allur í tveim stöðum. Með þeim Guðmundi og Kolbeini var Þorvaldur Gissurarson og þeir allir bræður og með þeim var Sigurður Ormsson. En með Sæmundi voru Sturlusynir allir.
En Eyjólfur Hallsson af Grenjaðarstöðum reið suður til Keldna og hitti þar Jón Loftsson. Hann ætlaði ekki til þings að ríða áður Eyjólfur sagði að þar var helst til sættar stofnað er hann gerði of mál þessi.
Jón svarar: Eigi er eg til þess fær, segir hann, því að eg hefi aldrei fyrr átt of slíkt að mæla.
Eyjólfur svarar: Það mun þó til liggja að leita við að menn sættist og eigi er sýnt hver þá má gera ef þú þykist eigi til fær.
En þá bað Eyjólfur fyrir guðs sakir að hann skyldi eigi undan skerast. En það varð of síðir að Jón fór til þings.
Um þingið var veðrátta ill og ofanföll.
Jón leitaði of sættir og biskupar báðir, Páll og Brandur, og varð sættum á komið og skyldi Jón einn gera óskorað allar sættir. Og nú voru tryggðir veittar og lauk Jón upp gerðum þar á þinginu. Fyrir brennu Önundar með þeim atburðum sem orðnir voru gerði hann sex tigu hundraða þriggja alna aura en fyrir víg Þórodds fimmtán hundruð þriggja alna aura en fyrir einn mann annan gerði hann fimmtán hundruð þriggja alna aura og varð þá hundrað hundruð þriggja alna aura með því er gert var fyrir víg Þorfinns þrír tigir hundraða þriggja alna aura.
Þá voru virðar gagnsakir og þóttu sumir hafa unnið til óhelgis sér þeir er þar létust. Þeir Guðmundur og Kolbeinn kváðust eigi mundu bæta Galm fé því að þeir höfðu boðið honum fé til útgöngu.
Guðmundur skyldi kaupa landið í Langahlíð sem óbrunnið væri og bæta fjárhlut þann allan er inni hafði brunnið og Önundur hafði áttan. Hann skyldi bæta fjórum tigum hundraða þriggja alna aura. En þann fjárhlut er aðrir menn höfðu inni átt þá var það mælt að þeir menn er átt höfðu til fimm hundraða eða minna skal bæta hálfu meira en sá er átt hafði til tíu hundraða eða meira skyldi taka jafnmikið.
Þar voru og gervar mannsektir. Þorsteinn og Snorri Arnþrúðarsynir skyldu utan vera, annar þrjá vetur en annar eigi út koma og skyldu þeir kjósa hvor sá væri. Þeir Þórðarsynir skyldu og utan vera, annar þrjá vetur en annar koma eigi út og skyldu þeir ráða hvor það gerði. Það var og mælt að Þórður Laufæsingur skyldi og utan fara og vera utan þrjá vetur eða gjalda fimmtán hundruð og kvaðst hann hvorki gera mundu. Þá skyldi og reiða hundrað fyrir hvern mann er til brennu hafði verið og voru það tíu tigir hundraða og skyldi það Kolbeinn greiða að helmingi og bæta Önund að helmingi. Þeir Kolbeinn og Guðmundur skyldu vera brottu úr búum sínum þrjá vetur ef þeir vildu og fella niður fimm hundruð í hverjum vetri.
Eftir þetta fóru menn heim af þingi og tók Guðmundur þegar til að gjalda fé allt það er hann mátti úr búi sínu. Hann galt bæði hross og aðra gripi allt það sumar svo sem hann mátti af miðla. Þann vetur öndverðan hinn næsta eftir andaðist Jón Loftsson. Þá var kyrrt í héruðum eftir.
Erlendur hét maður er kallaður var hinn rauði. Hann var vistum í Skjaldarvík. Eitt sinn bar saman fund þeirra Illuga frá Hlöðum. Það varð þeim að tali að þeir fóru í mannjafnað. Kvað Erlendur engi mann jafnkurteisan sem Kálf Guttormsson og vaskan að sér. Hann var þá nýkominn út. En Illugi kallaði Þorgrím alikarl öngu óvaskara mann að sér. Svo lauk tali þeirra að Erlendur vó Illuga og varð ekki annað til en þetta. Síðan hljóp Erlendur til þeirra Kálfs og Guðmundar.
En um vorið eftir sendu þeir hann suður til Þorvalds í Hruna og skyldi hann koma honum utan. Þorvaldur tók Erlendi far á Eyrum og varð hann strandarglópur. En vígsmál tók sá maður er Sigurður grikkur var kallaður, hann var Oddsson, og varð ónýtt fyrir honum og urðu engar bætur eftir Illuga. Þá tók Þorvaldur Erlendi far í annað sinn á Eyrum með Hjöltum en þeim gaf eigi í brott um haustið. Þá vildi Þorvaldur eigi hafa Erlend suður þar lengur fyrir skaps sakir og fór hann aftur til Guðmundar.
Erlendur tók og fór milli lands og Grímseyjar. Þá vann á honum Brandur bróðir Illuga. Hann var eigi alls tvítugur. Brandur vann á Erlendi mikinn áverka og bað hver maður honum góðs fyrir það. Erlendur varð aldrei alheill.
Hann fór til fundar við Brand biskup og leitaði ráðs við hann, hversu hann skyldi með fara. En biskup réð honum að hann skyldi fara í fjárbón og ráðast til munklífis. Þá fór Erlendur í fjárbón of sumarið og rifnuðu aftur sár hans og urðu seint grædd. Síðan var hann vígður til munks að Þingeyrum. En þóttust þeir eigi mega hafa hann þar lengur fyrir skaps sakir og fór hann víða of héruð.
Brennusumarið og annað eftir komu engi skip fyrir norðan land og dvöldust utanferðir þeirra manna er til voru ætlaðir.
Þá bjó Þorgrímur alikarl á Möðruvöllum í Hörgárdal. Hann átti Guðrúnu Önundardóttur.
Guðmundur hinn dýri fór að féföngum alla vega. Hann fór norður á Sléttu og til Grímseyjar með ferju er hann átti að fá í bú sitt og til gjalda. Hann bað og víða fjár og svo lét hann aðra fara.
Kolbeinn Tumason var í brottu úr búi sínu hinn fyrsta vetur og var að Þingeyrum. Þá gerði Þorgrímur flugumann og kom sá engu fram en Kolbeinn galt engi fé síðan.
Í þenna tíma voru þeir Önundarsynir kynnisvist á Möðruvöllum, Vigfús og Hámundur og Þórður, honum höfðu verið gefin grið í brennunni og var barn að aldri og nývígður til prests. Vigfús var og prestur og hafði ekki til sætta gengið og látið sem honum væri ekki að langt. Þar var og á búi Fálki Dálksson og sá sekur maður með honum er Starkaður hét.
En að dagverðarmáli of daginn komu fram fyrir þá svið af fé og eigi neitt annað.
Þorgrímur spurði: Hví sætir harkafæla sjá? Þætti mér nú heldur til annars um vart fyrir manna sakir.
Guðrún svarar: Ekki verður mér jafn drjúgdeilt sem sviðin.
Vigfús bróðir hennar svarar: Ekki er það að þú minnir oss eigi á sviðin.
Og þann sama dag fóru þeir Þorgrímur fimmtán saman út í Arnarnes. Þar átti Hákon Þórðarson bú. Þeir fóru á beggja vit, fjár og mannhefnda. Hákon var eigi heima. Þeir rændu þar og tóku brott tíu hundruð mórendrar vöru er Hákon hafði ætlað til utanferðar sér. En þar var engi forstaða önnur en Guðrún mælti mart hrapaðlegt við þá, kona Hákonar.
En er þeir komu á Möðruvöllu stóð Guðrún Önundardóttir í durum og kvaðst eigi vilja innhýsa ránsfé. Þeir færðu það á Laugaland. Þar bjuggu þeir þá Bjarnarsynir, Sighvatur og Eyvindur.
En þegar þeir voru í brottu farnir var Hákoni ger njósn og sagt er hann var á skipi út við Hjaltaeyri og þeir fimm saman, Hildibrandur bróðir hans og Þorsteinn Urða-Steinn og Arnþrúðarsynir Þorsteinn og Snorri. Og þegar þeir urðu þess varir fóru þeir út með landi til Svarfaðardals og lentu við ósinn og drógu upp skip sitt og fóru þaðan til Sökku og fóru þaðan með þeim Klængur og Brandur Arnþrúðarsynir. Fóru síðan upp eftir dal um nóttina og ætluðu til fundar við Kolbein því að þeim þótti það auðveldara en finna Guðmund er hann var norður á Melrakkasléttu. Fara nú uns þeir koma þar sem heitir Litla-Skarð í ofanverðum dal. Þar snúa þeir aftur för sinni ofan eftir dal og höfðu dagverð að Urðum, þar bjó þá Ormur prestur Fornason, og þaðan til Sökku. Var Klængur þar eftir. Fóru nú til skips síns sex saman og reru austur um Hrísey þar er kallaður er Laugarkambur og lögðust þar til svefns á skipinu. En er Brandur vaknaði þá voru þeir svo hámæltir að honum þótti sér nær annars hugar við verða. Þeir töluðu um það að Þórður mundi eigi fritt fara í Laufási og þeir mundu fara þannig og hafa hann við sér. Lentu nú skipi sínu í poll þann er þar gengur norðan að túni, gengu til húss og átu þar náttverð. Síðan var búið um þá í stofu og lögðust niður til svefns og var hún lukt innan. En Þórður var eigi heima.
Nú er að segja frá þeim Þorgrími öðrum megin fjarðarins. Þeir fóru til skips tólf saman. Þar var annar maður Vigfús prestur Önundarson, þriðji Hámundur bróðir hans, fjórði Sighvatur hinn mikli, fimmti Eyvindur bróðir hans, sétti Fálki Dálksson, sjöundi Starkaður hinn seki, átti Ásmundur, níundi Eyjólfur son Eilífs ristarbeins, tíundi Sölvi Þóroddsson laugarnefs, ellefti Sigurður grikkur, tólfti Þorgrímur bróðir hans.
Síðan reru þeir yfir fjörð til Laufáss og lentu hjá skipi þeirra Hákonar og kenndu skipið og gengu til bæjar og fyrst í skála og fundu þar enga búimenn. Þá vildu þeir í stofu og var hún lukt. Þá rufu þeir of skjána. Þá vaknaði Brandur við ókyrrleik og hljóp upp og spurði hverjir þar færu.
Þorgrímur kenndi mál hans og kallaði á förunauta sína og mælti: Hér eru þeir inni fjandurnir Arnþrúðarsynir.
Síðan köstuðu þeir inn grjóti í skjávindaugun og varð þeim ekki mein að því er inni voru.
Hákon spurði hve mannmart þeir hefðu. Þorgrímur svarar: Vart hundrað.
Hákon beiddi þeim útgöngu og var þeim eigi leyfð.
Þá tóku þeir Þorgrímur eld og báru að stofudurum og kveiktu í arkarskrifli því er þeir máttu þegar í burtu kippa er þeir vildu. En er þeir kenndu reykjarins er í stofunni voru þá báðu þeir að eigi væri brenndur bærinn. Og þá bað Hákon þeim griða en Þorgrímur hét griðum Hákoni og Hildibrandi. Síðan brutu þeir stofuna um skjána og drógu þar út alla þá í festi nema Þorstein Urða-Stein. Hann kvaðst aldrei sig mundu þar láta út draga þótt þar væri allur bærinn brenndur til hans.
Og er þeir komu út voru þeir allir handteknir nema Hákon. Hann var laus og var hann úti þar. Og er Erpur prestur kom út mælti hann að Hákon skyldi fara í kirkju og forða sér.
Hákon mælti: Eigi þarf eg þess því að mér er heitið griðum.
Prestur svarar: Það munu þeir ekki efna er þeir heita góðu.
Hákon mælti: Eigi er mér lofað í kirkju að ganga.
Prestur svarar. Eg mun það ábyrgjast þótt hann forðaði lífi sínu þannig.
Hákon svarar: Eigi mun eg þó í kirkjuna ganga því að mér er eigi lofað. En ef þeir gera mér illt þá er það þeirra.
Þá lét prestur kirkjuna standa opna. Þeir Arnþrúðarsynir þrír höfðu prestfund. Þá varð Brandur þess var að hann var laust haldinn. Hann brást við hart og varð laus og komst í kirkju en þeir hljópu eftir honum allt að kirkjunni. Þeir bræður Þorsteinn og Snorri bjuggust við lífláti, þógu hendur sínar og kembdu sér sem til fagnaðar væru að fara.
Þá mælti Snorri: Það vildi eg, segir hann, að eg væri fyrr af lífi tekinn en Þorsteinn því að eg treystist honum betur að hann muni fyrirgefa yður þótt hann sjái mig af lífi tekinn.
Þá mæltu menn Þorgríms að festa skyldi fyrir augu þeim nakkvað en þeir svöruðu og kváðust ekki þurfa að láta binda fyrir augu sér sem þjófum og sögðust oft hafa vopn séð.
Nú var Snorri fyrr hogginn. Það gerði Hámundur Önundarson. Vigfús Önundarson kvað það maklegast að hann vægi að Þorsteini en taldist illa til fallinn er hann var prestur. Fálki Dálksson kveðst fá mundu mann til þess og vó að honum Starkaður hinn seki.
Sighvatur hinn mikli gekk að fast og bað að þeir væru drepnir Þórðarsynir, kvað önga mundu Þorgrími verri en þá. Síðan bað Þorgrímur taka þá bræður. Hildibrandur komst að kirkju og gat fengið stoðina og slitu þeir hann af stoðinni og síðan vó Sölvi hann.
Þá var Hákon einn eftir. Bað hann að þeir skyldu höggva af honum hönd og fót og fara utan við það og bæta fyrir sér og öðrum og ganga suður. Þorgrímur kvaðst það eigi vilja, að pína hann svo. Hákon bað að þeir skyldu stanga hann til bana en höggva hann eigi. Þorgrímur vildi það eigi. Þá varð engi maður til að vega að Hákoni. Sölvi vildi það eigi vinna því að hann hafði veitt Hákoni tryggðir fyrir víg Þórodds.
Þá mælti Sigurður grikkur: Eg mun úr þessu vandræði leysa, að vega að Hákoni.
Hákon svarar: Það mundi eg og helst kjósa því að frá þér er eg ómaklegastur þeirra manna er hér eru. Eg tók við þér félausum er þú komst út og veitti eg þér vist. En eg stóð þig þrisvar í hvílu hjá Guðrúnu konu minni.
Hákon gaf vopn sín Sölva Þóroddssyni.
Síðan vó Sigurður Hákon.
Síðan réðu þeir inn í stofuna og brutu upp til Þorsteins og sóttu hann þar en hann varðist vel. Þar var innangengt úr stofunni í matbúr og stökk upp hurðin fyrir Þorsteini er hann kom að og hörfaði hann þangað undan og var særður nær til ólífis.
Þá gekk út kona til kirkju og hafði sveinbarn í faðmi sér það er Hildibrandur var faðir að. Sighvatur bað þá höggva sveininn.
Þorgrímur mælti: Hvorki skal hér vinna á börnum né konum þótt sjá sveinn verði oss öllum að bana.
Síðan fóru þeir Þorgrímur í brott.
En Þórður kom heim þá er þeir voru í brottu og sá hvað þar var að sýst og mælti: Ný slátur er hér nú að höndla.
Síðan var búið um lík þeirra og voru þeir greftir heima þar Þórðarsynir en þeir Þorsteinn og Snorri voru færðir á Völlu í Svarfaðardal.
En er þeir Þorgrímur komu yfir fjörð fengu þeir sér hesta og riðu á Bakka til Guðmundar og rændu þar, tóku vopn öll og hlífar og báru í brott en þeir fundu eigi skjöldu þá er Guðmundur átti besta. Síðan tóku þeir Valgarð Hjartarson, húskarl Guðmundar, og vildu nauðga honum til sagna og vann Sighvatur hinn mikli á honum og hjó á hönd honum svo að hann var einhendur síðan. En þeir fengu ekki af honum og fóru við það í brott ofan á Skeiðshólma og reistu þar tjald því að þeim var von að Guðmundur mundi koma norðan og ætluðu þar að sitja fyrir honum er hann riði frá skipi.
Þá fóru heiman af Bakka tveir menn, Sighvatur Saxólfsson og Gissur son Höskulds Fornasonar. Þeir fóru Skjálgsdalsheiði til Eyjafjarðar og svo norður, taka annað hross er annað þraut og nema eigi fyrr stað en norður á Sléttu og hittu þar Guðmund og sögðu honum svo skapað.
Guðmundur fékk menn með skipinu en þeir fjórir saman fóru landveg sem þeir máttu skjótast og urðu þeir Þorgrímur eigi fyrr við varir en Guðmundur var heima og hafði mart manna.
Síðan fóru þeir Þorgrímur á Laugaland og söfnuðust þar saman margir og lögðu þar til þingmenn og sátu þá hvorirtveggju með fjölmenni og gerðu hvorgir á aðra.
Þá kom til vestan Brandur biskup og fýsti þá að hafa eigi setur.
Nú fóru þeir Þorgrímur í brott að ráði biskups inn til Eyjafjarðar og suður of heiði til þess er þeir komu á Rangárvöllu þar er í Klofa heitir. Þar bjó Einar Bárðarson er átti Guðrúnu Gísladóttur systur Þorgríms alikarls. Þar voru þeir um hríð. Síðan fylgdi Einar þeim ofan í Odda og tók Sæmundur við þeim vel og voru þar hálfan mánuð. Þaðan fóru þeir upp í Skarð hið eystra til þeirra bræðra Eyjólfs hins óða og Halls prests Þorsteinssona. En þeir voru systkinasynir Hallur prestur og Önundur Þorkelsson.
Og er þeir voru brottu úr Odda hittust þeir bræður Sæmundur og Ormur og spurði Ormur tíðinda en Sæmundur segir slík er var.
Ormur mælti: Hefir þú heitið bróðir að veita Þorgrími að þessum málum?
Sæmundur svarar: Víst hefi eg heldur vænt honum minni umsjá eða hversu líst þér á það eða hvern hlut munt þú að eiga?
Ormur svarar: Vita máttu þess von að eg mun aldrei við þig skiljast. En eigi eru þau mál að mér séu óskapfelldri en þessi.
Sæmundur spurði hví það sætti.
Ormur svarar: Það ætla eg að gangi á metnaður, segir hann. Vér áttum föður þann er hafði mikil metorð hér á landi svo að eigi var sá maður er eigi þætti sínu máli vel komið ef hann skyldi um gera. En nú veit eg eigi, segir hann, hvort meir er frá dæmum um málaefni þau er seld voru eða sættirnar þær er hann gerði nú síðast. Nú hafa þeir það upp goldið, segir Ormur, ófin þau er ger voru er menn ætluðu að aldrei mundu goldin verða og það mundi að sættabrigðum verða. En þeir er við tóku gjaldinu hafa nú rofið og bakferlað allt það er hann mælti um og er mér óskapfellt að veita Þorgrími og svívirða orð föður vors og hann sjálfan og alla oss sonu hans.
En þaðan í frá kölluðu menn að dvínaði liðveisla Sæmundar við Þorgrím.
Eyjólfur úr Skarði fór til fundar við Sæmund og beiddi að hann legði til með honum og Þorgrími um veturinn og fékkst þar ekki af. Síðan bauð Eyjólfur þeim öllum þar of veturinn.
Hallur var fémikill bróðir hans en Eyjólfur var auðnarmaður og bjó sér hvor þeirra. Þá sá Hallur að bú Eyjólfs mundi skamma stund standast og keypti við Þorgrím því að hann tók við búi hans svo sem hann hefði við tekið að fardögum og skyldi Þorgrímur hafa af þurrð og vöxt og hafa svo mart manna sem hann vildi of veturinn. Og var Hallur í vist með Þorgrími en Hallur veitti Vigfúsi Önundarsyni en Hámundur var vestur í Stafaholti með Eyjólfi Þorgeirssyni of veturinn.
Nú er að segja frá Guðmundi hinum dýra. Um veturinn eftir allraheilagramessu þá kom sú saga sunnan og innan úr Eyjafirði að Þorgrímur væri kominn með hundrað manna og væri í Gnúpufellsskógum og ætlaði að Guðmundi.
Þá sendi Guðmundur menn til Kolbeins Tumasonar og bað hann koma vestan með því liði sem hann fengi til. En Kolbeinn safnaði mönnum þegar og fór norður of leið.
En Guðmundur fór meðan á Laugaland og rændi þar og tók bú það er þar var eftir og svo fór hann of dalinn og tók fé af bóndum þeim er til höfðu lagt of haustið með Þorgrími. Og svo kom hann á Öxnahól til Bjarnar prests og hafði hann í brott með sér og svo Þórunni Önundardóttur fylgjukonu Bjarnar prests og var það við orð að leggja Þórunni í rekkju hjá einhverjum gárungi en gera það við Björn prest að það þætti eigi minni svívirðing því að hann hafði til lagt um haustið með Þorgrími og þar hafði verið Steinmóður son hans í setunni.
Og þann sama aftan er Guðmundur kom heim kom Kolbeinn vestan með fimm tigu manna. En er hann vissi að Þórunn var þar þá kvað hann henni ekki skyldu gera til svívirðingar fyrir sakir Brúsa bróður hennar.
Og þá kvað Kolbeinn vísu:
24.
Let eg geðsnara gotna,
grænist friðr, að ræna,
lítt mun böl að bættra,
búandmenn of dal þenna.
En ef aftr koma sunnan
unndýrs of Kjöl runnar,
þá er snarræða síðan
seggjum þörf að eggja.
En um kveldið er menn fóru í rekkjur þá byggðu sitt set hvorir. Þá hljóp Björn prestur úr seti til Kolbeins og bað að hann veitti honum svo að honum væri öngi svívirðing ger en bað Kolbein hafa fé af sér í mót sem hann vildi. Hann tók við Birni presti og þótti þeim Guðmundi það trautt einn veg en Kolbeinn taldist hafa veitt Guðmundi því líkt sem hann réði þessu. Og svo var að Kolbeinn réð og fór Björn prestur heim um myrgininn með Þórunni og gaf Kolbeini öxn tvö.
Síðan spurðist það að Þorgrímur var ekki sunnan kominn.
Kolbeinn var þar um hríð. Menn þeirra Guðmundar áttust illt við. Þeir deildu bæði um tafl og konur og stálust frá og skildust við það að hvorigum líkaði vel. Síðan fór Kolbeinn um dalinn og tók af bóndum slíkt er honum sýndist og skyldu þeir þá sitja í friði fyrir Guðmundi er Kolbeinn færi í brott. Eftir það fór hann vestur heim og sleit flokk sinn á Miklabæ.
Böðvar lítilskeita hét maður og Þorvaldur bróðir hans. Þeir fóru út eftir strönd og komu á þann bæ er að Tjörn heitir. Þar hitta þeir mann á leið er Þorsteinn hét og var kallaður Rannveigarson. Hann var sekur og hafði kvígur tvær með að fara tvævetra er hann hafði keypt til veturbjargar sér. Þorsteinn hafði verið of haustið við Þorgrími í setu á Laugalandi og þó í engum fjörráðum.
Þeir bræður sækja að Þorsteini og vildu drepa hann. Þorsteinn getur tekið Böðvar, hann var maður lítill en Þorsteinn sterkur, og hafði hann Böðvar fyrir sér og varðist með honum og gat Þorvaldur eigi sóttan Þorstein en Böðvar skeindist á vopnum Þorvalds bróður síns. Þá bað Böðvar að þeir skyldu hætta og skildu þeir svo að Þorsteinn hafði skjöld þeirra en þeir spjót hans og kvígur og komst Þorsteinn undan á vatnið og gekk þar yfir ís einnættan en þeir ráku kvígur heim og drápu af.
En Þorsteinn fór til Hóla og hitti Brand biskup og segir að Böðvar hafði tekið björg frá honum.
Maður hét Ólafur og var Vífilsson. Hann bjó í Laxárdal. Það er fyrir vestan Skagafjörð utarlega. Hann var frændi Þorsteins og hafði handsalað fyrir Þorstein á þingi en ekki var goldið og var hann því eigi sýkn.
Biskup lagði það til að hann færi og hitti Ólaf og vita ef hann legði það til veturbjargar sér er eigi hafði goldist til sýknunnar. Hann fór og kom hinn sama aftan aftur til Hóla og segir biskupi að þar fékkst ekki af. Þá kveðst biskup ekki kunna til að leggja með honum og voru honum þá fengin vopn svo að hann var fær með öðrum mönnum.
Maður hét Hermundur, góður bóndi. Hann bjó þar er mætist Fljót og Skagafjörður er á Heiði heitir. Hann átti dóttur er Gróa hét og var kölluð Heiðar-Gróa. Hún var væn kona og kurteisleg. Böðvar úr Felli fór oft þangað og talaði við Gró og virtu menn sem henni væri ekki um það.
Maður hét Beinir Sigmundarson Ásólfssonar er búið hafði í Næfurholti á Rangárvöllum. Hann var styrkur maður og kurteis. Hann var vistum í Haganesi í Fljótum með Illuga syni Ásgríms skálds. Beinir kom stundum á Heiði og þótti gaman að tala við Gró og svo virtu menn að þetta væri henni að skapi.
Þorsteinn hinn seki var skyldur Gró og kom hann þar er hann fór frá Hólum og töluðu þau Gróa stund þá. Þaðan fór hann í Haganes og hitti Beini. Síðan fóru þeir á leið þá er Böðvar var vanur að fara og sátu þar fyrir honum þar til er hann kom og þeir bræður, Þorvaldur bróðir hans. Þá tók Beinir Þorvald og hélt honum en Þorsteinn vó Böðvar.
Síðan tók Þorsteinn hest þann er Böðvar hafði riðið og reið í brott og til Ólafs. Þá tók Þorsteinn stóðhest er Ólafur átti en lét hinn eftir er hann hafði áður. Síðan reið hann vestur í Dali til Sveins Sturlusonar en þeir Hermundur og Illugi handsöluðu fyrir Beini tólf hundruð og skyldi hann vera þar sem hann vildi.
Nú leið vetur sá og fóru þeir Þorgrímur sunnan of Kjöl til Skagafjarðar og drifu þá til þeirra harkamenn þeir er vistlausir voru. Þá fóru þeir upp í Goðdali og hið efra inn til Eyjafjarðar og komu á þann bæ er á Leyningi heitir. Sá maður hét Bersi er þar bjó. Þar rændu þeir og tóku þaðan mat og léreft og vaðmál til klæða sér. Síðan fóru þeir víða um héraðið og tóku bændur við þeim.
Og er það spurðist fóru þeir Þórálfur og Eyjólfur norðan af Grenjaðarstöðum til fundar við þá og svo fór hann og að hitta Guðmund og gat hann komið á sáttarfund með þeim. Kolbeinn kom til vestan og ekki fjölmennur.
Og er hann kom til Guðmundar kvað hann vísu:
25.
Víst er hér með hraustum
hróðr fengin gæðingi.
Nýta sér til slátra
seggir mart að leggja.
Heimkynni munu hreinni
hafa oft verið, þoftu
Freyr strýkr fáks að árum,
flóðbundins Guðmundar.
Þeir höfðu sáttarfundinn við Glerá og komu sínu megin að hvorir. Þar var brú á ánni og gljúfur undir. Eyjólfur gekk þar á milli og fékk sættum á komið og gengu þá allir menn til handsala þeir er þar voru, svo Vigfús sem aðrir. Og skyldi gera um víg Þórðarsona Teitur Oddsson austan úr fjörðum og svo um ránið í Arnarnesi. Og um víg Arnþrúðarsona skyldi gera Þorvaldur Gissurarson og svo um það er Guðmundur var ræntur og áverka húskarls Guðmundar. Þorsteinn Urða-Steinn var þá heill orðinn og skyldi Þorvaldur um það gera. Síðan fóru menn heim af fundinum.
Þá fór Þorgrímur á Laugaland og hafði þar eigi fleiri kýr of sumarið en tíu.
Það sumar fór Vigfús utan og Sölvi og urðu þeir ekki við riðnir síðan þessum málum.
Of sumarið um engiverk kom Hallur prestur sunnan á Laugaland og galt Þorgrímur Halli presti það er eyðst hafði um veturinn í búinu. Síðan fór Hallur prestur heim og voru vinir.
Þá er Hallur prestur hafði skamma stund heima verið fór hann í Odda og vissu menn eigi erindi hans.
En litlu síðar fór Þorsteinn Jónsson sunnan og ætlaði utan, að því er hann sagði, og Þórdís kona hans og eigi allfáir menn voru með honum. Hann fór til Eyjafjarðar og var fyrst í Miklagarði með Jóni Örnólfssyni. En er menn spurðu að Þorsteinn var í hérað kominn þá drifu Innfirðingar til hans flokkum. En er Þorgrímur spyr það þá færir hann inn bú sitt allt og ræðst hann í flokk með honum og fóru þeir út stundum á Laugaland mjög margir saman eða til skipa og voru nótt saman.
Þá bjó í Auðbrekku Kálfur Guttormsson. Hann átti Ósk dóttur Þorvarðs hins auðga og hafði Guðmundur gift hana því að Þorvarður var bróðursonur hans. Og var Guðmundur ýmist heima á Bakka eða í Auðbrekku og þótti það varlegra ef í nokkurn vafa slægi.
Það var einn helgan dag að þeir Þorsteinn voru á Laugalandi og riðu þaðan til skips. Þá var Guðmundur í Auðbrekku og bjuggust þeir Kálfur með sinn flokk. Þeir Þorsteinn komu fyrr með sinn flokk og stigu af baki og stóðu þeir öðrumegin búða. Þá komu þeir Guðmundur og Kálfur með flokk sinn og stigu og af baki og stóðu gegnt þeim Þorsteini og horfðust á. Þá hlógu Austmenn að því að Íslendingar létu bröstulega. Síðan gengu nokkurir menn af hvorumtveggjum að kaupmönnum og tóku sér veturtaksmenn. Tók Guðmundur þann mann er Ásbjörn hét og var kallaður lýri en þeir Þorsteinn tóku við þeim manni er Þorbjörn hét og var kallaður Grænlendingur.
Þá mælti Kálfur við Guðmund: Hví skulum vér nú eigi að gangast? Er nú vel á komið og meiri von að öðrum mönnum þyki nokkuð undir að eiga nokkurn hlut í.
Guðmundur svarar: Eigi vil eg vekja láta úr mínum flokki áhlaup né áköst.
Þá stigu þeir á bak og riðu milli tjalda og sjávarins og svo á bak liði Guðmundar og keyrðu hart hestana eftir sandinum en Kálfur skellti sverðskálpi á skjöld sinn og skyrpti við er þeir riðu í burt. Síðan stíga þeir Guðmundur á hesta og ríða og er þeir koma á brekkurnar upp þá var þar fyrir flokkur þeirra Þorsteins.
Þá mælti Kálfur: Nú er einsætt að láta eigi undan líða að vér eigumst saman og erum vér nú hálfu betur komnir en áður.
Guðmundur kvað eigi vekja skyldu úr sínum flokki en bað taka við sem best ef þeir vektu. Síðan ríða þeir Guðmundur heim og áttust ekki við. En þeir Þorsteinn höfðu því þar staðar numið að sumir vildu við taka en sumir eigi.
Þá um sumarið kom Þorvaldur og sunnan og gerði sættir þær er hann var til tekinn. Þar kom og Þorgrímur. Þorvaldur gerði þrjá tigu hundraða þriggja alna aura fyrir hvern þeirra Arnþrúðarsona og kallaði þá jafna við Þorfinn Önundarson. Hann gerði tíu hundruð fyrir áverka við Valgarð en tuttugu hundruð fyrir rán og heimsókn við Guðmund. Skyldu þeir þó bera heim allt það er rænt var, hlífar og vopn. Hann gerði tólf hundruð þriggja alna aura fyrir áverka við Urða-Stein.
Þorgrímur reið brott af sáttarfundi. Og er þeir voru skammt komnir hleypir maður eftir þeim niður frá Auðbrekku er Máni hét og var Grímsson.
Víga-Starkaður var í för Þorgríms og spurði: Hví ganar þú svo?
Máni kveðst leita hests síns. Starkaður segir: Hyggur þú eigi hér vera munu í vorri för? Máni kveðst eigi mundu leita víðara ef hann vissi hvar væri. Síðan hjó Starkaður á lær honum við söðultreyjunni með handöxi og var það mikill áverki. Eftir það rak Þorgrímur hann úr föruneyti sínu og kveðst sjá að hann vildi að þeir væru aldrei í friði. Þá fór Starkaður austur í fjörðu og suður um land.
Teitur kom og austan úr fjörðum og gerði gerðir þær er hann skyldi gera. Hann gerði þrjá tigu hundraða þriggja alna aura fyrir víg þeirra sérhvors sona Þórðar og kallaði þá enn jafnmenni hinna en færa aftur ránið í Arnarnes. Þeir Teitur fóru leið sína og gistu að Guðmundar föstunótt í imbrudögum um haustið.
Og létust þeir Þorvaldur verða varir við kvitt þann að þeir Innfirðingar ætluðu að gera til hans heimsókn. Og fóru þeir þaðan laugardaginn.
En drottinsnóttina var Guðmundur að kirkju sem hann átti vanda til. Hann varð þess var að riðið var yfir ána hjá túni eigi allfám hrossum. Veður var kyrrt. Guðmundur gekk inn og vakti upp menn sína. Klængur Arnþrúðarson hljóp fyrst út og maður með honum. Þeir hlupu á bæinn upp og fram á duraveggina og hugðu þeir að þaðan mundi að sótt.
Þeir Þorsteinn Jónsson og Þorgrímur voru þá komnir utan að virkinu með tíu tigu manna. Þá hljópu af liðinu fjórir menn, Sigurður grikkur og Fálki Dálksson, Þorgeir Helgason, sunnlenskur maður, og Hallur Bjarnarson, skagfirskur maður. Hann var sekur. Þeir komust upp í virkið allir og vildu leita laundura er á voru virkinu og fundu eigi.
Þá gekk Guðmundur út þær dyr og sá maður næst honum er Þorkell hét. En þá var dagað og áttu þeir að sjá í gegn dagsbrúninni er til voru komnir undir húsin. Guðmundur sá mennina og kenndi eigi því að hann var óskyggn og spurði hverjir þar væru.
Fálki svarar: Gestir eru hér.
Guðmundur svarar: Og munu eigi aufúsugestir.
Guðmundur hafði skjöld fyrir sér og sviðu í hendi og var gyrður sverði. Þá sótti Guðmundur að þeim en þeir opuðu undan í eitt garðsbrot á virkinu. Og þá urðu þeir Klængur við varir að hark tókst á bak húsunum og hljópu þannig til. Þar féll Fálki og vó Guðmundur hann. Þá hjó Klængur Hall banahögg. Þar féll Þorgeir og. Þá mættust þeir Sigurður grikkur og Guðmundur og sóttust um hríð og vó hvortveggi með sverði og varð hvorgi sár. Þá drifu út menn Guðmundar en Sigurður opaði út af virkinu.
Þá féll ofan af virkinu húskarl Guðmundar í læk er féll undir virkinu. Sá hét Grímur. En þeir sáu er fyrir utan voru og ætluðu það sinn mann. Síðan gekk Grímur til dura, og voru konur þá að byrgja, og komst þar inn.
Síðan sóttu þeir að virkinu er til voru komnir og urðu þeir sárir Guðmundur og Klængur og enn fleiri menn aðrir. En þá er ljóst var orðið gaf missýni þeim er til voru komnir. Þeim sýndist sem menn færu alla vega nær að þeim. En þar sáu þeir torfkróka og stakkgarða en þoka var um mýrarnar og komu upp úr kollarnir. Og leystust við það í brott að þar lágu eftir förunautar þeirra þrír.
Síðan riðu þeir ofan eftir dal og ætluðu í Langahlíð og taka þann mann er þar bjó er Þorgeir hét. Hann var frændi Guðmundar. Þeir riðu hvatlega og vissu eigi fyrr en þeir voru komnir langt um bæinn í Langahlíð.
Þá réðu þeir það af að fara í Auðbrekku og taka Kálf Guttormsson af lífi. Þá reið frá þeim Sigurður grikkur og kom Kálfi í kirkju og síðan stóð hann fyrir kirkjunni og kveðst verja mundu meðan hann mátti upp standa. Þá vildi Þorsteinn Jónsson láta brjóta kirkjuna eða brenna en Þorgrímur vildi það eigi. Þeir brutu búr og tóku hest er Kálfur átti og klyfjuðu af mat og fóru við það í brott og inn í fjörð.
En Guðmundur lét færa Fálka til Bægisár og jarða þar en þeir Hallur og Þorgeir voru færðir þangað er Hallsgrafir heita og jarðaðir þar.
Annan myrgin er lýsti komu þeir í Auðbrekku og ætluðu enn að taka Kálf en hann var farinn upp til Guðmundar en þar kominn í staðinn Þórður úr Laufási og níu tigir manna og voru allir uppi í virkinu með hesta sína. Þeir veittu þar atsókn er til voru komnir og fengu ekki að gert. Þeir fóru þá til fjóss og leiddu í brott kýr átta og höfðu við sér. Það máttu þeir ekki banna er í virkinu voru því að þeir höfðu ekki lið til ofangöngu. Þá fóru þeir inn á Grund og höfðu þar setu.
Þá safnaði Guðmundur mönnum þeim er hann fékk. Hann sendi orð Kolbeini og öllum þeim er honum þótti vænlegast. Og nú fer hann inn á Grund með lið sitt og reisti þar tjöld í túni og sátu fyrir tilföngum öllum þaðan frá er þeir Guðmundur komu. Þar kom og Ögmundur sneis til liðs við Guðmund með fjóra tigu manna. Þeir Guðmundur sóttu að þeim um daginn þar til er Kolbeinn kom. Þá var með Guðmundi sex hundruð manna.
Þá gerðu þeir flaka yfir sér og höfðu ljá í langorfum og kraka og kræktu í virkisgarðana og brutu svo virkið og þeir brenndu hús eitt eða tvö.
Þeir höfðu fyrir í virkinu nær hundrað manna og vel búið. En það vafði fyrir þeim að þeir réðu allir jafnmiklu og var engi fyrir þeim heldur annar en annar.
Þá tókst atlaga með þeim greiðlega er allir voru komnir og gengu menn þá til að skjóta þeir er til þess voru færir. Og er skothríðin tókst þá mælti djákni einn er var í virkinu að sækja skyldi að honum Guðmundi. Og litlu síðar kom djáknanum lásör og malla í, í brúnina og smó þegar í gögnum, og gátu þeir eigi í brott komið fyrr en þeir hétu á Þorlák biskup.
Þá sáu þeir að þeir mundu unnir verða og buðu þá Guðmundi að sættast.
Hann svarar: Ekki stoðar við yður að sættast og engar munu nú verða nema eg ráði einn.
Síðan sættust þeir að því að þeir handsöluðu allir Guðmundi sjálfdæmi. Og þá er sæst var gekk Þorsteinn Jónsson úr virkinu til fundar við Kolbein og töluðu þeir um stund.
Síðan lauk Guðmundur upp gerðum og gerði sættir þær allar fyrst til gjalda er gervar voru um sumarið er ekki hafði verið af goldið. En fyrir það er síðan hafði í gerst gerði hann og. Þá voru goldnar sættir þær allar enda var þá Þorgrímur félaus kallaður. Allir guldu nakkvað er þar höfðu verið og nokkur miðmundi var að. Hann gerði úr héraði brott Þorstein Jónsson og Þorlák Ketilsson og fór hann suður í Hítardal því að hann átti þar við staðfestu að taka. Síðan fór Þorgrímur vestur til Skagafjarðar og var með Ísleifi í Geldingaholti hinn fyrsta vetur.
Þórður kom heim af fundi í Laufás með húskarla sína. Og þann aftan hitti hann Þorvarð húskarl sinn úti hjá læk. Hann var kallaður kamphundur. Hann hafði hvatt öxi sína og sýndi Þórði.
Hann mælti: Bíta mun nú ef þú þorir að neyta.
Þar voru Austmenn tveir með Þórði og voru bræður. Hét annar Sörli og annar Þorkell. Þeir voru synir Handar-Bassa. Þeir höfðu verið illa við Þorvarð og haft Þorvarð að athafnarmanni of sumarið.
Þá gekk Þorvarður inn og sátu menn við elda. Hann hjó Sörla banahögg. En er Þorvarður vildi út hlaupa þá sat Þórður bóndi á stóli og reisti sig fyrir hann og féll Þorvarður um fætur Þórði. En Þorkell Bassason hljóp að og vann á honum og annar maður með honum en Þorvarður komst út og til skips og kom því á sjó og reri yfir fjörð. Hann komst í Auðbrekku og lá þar í sárum og varð græddur.
Þórður hét maður. Hann bjó á þeim bæ er heitir í Fagraskógi. Hann hafði kú að meðferð er Guðmundur hinn dýri átti. Hann hjó hana um haustið en markaði honum aðra fyrir og lofaði Guðmundur það.
En um vorið sendir hann menn tvo eftir. Hét annar Hafur en annar Guðmundur. Þórður vildi eigi fara láta þá kúna er mörkuð var og bauð fram aðra þá er fengminni var og kallaði þá betri en gjaldfang. En Hafur vildi þá hafa er Guðmundi var mörkuð. Þórður var mikill maður og sterkur og ójafnaðarmaður í skapi. Síðan kipptust þeir um kúna og náðu eigi. Þá hljóp Guðmundur að og vann á Þórði mikinn áverka og skildust við hann hjá torfgröfum er voru skammt frá húsi. En þeir höfðu kúna við sér og sögðu til Þórðar á öðrum bæ, hvers hann þurfti við. Þórður lifði frá dagmálum til miðs dags.
En þeir fóru heim um kveldið til Guðmundar og sagði Hafur tíðindin.
Guðmundur svarar: Það er auðsýnt að þið vilduð eigi erindlaust fara.
Síðan bætti Guðmundur hinn dýri víg Þórðar.
Þá er Guðmundur prestur hinn góði Arason var á Miklabæ og var vetri miður en þrítugur að aldri þá ræðst hann á Völlu í Svarfaðardal því að þess bað Arnþrúður Fornadóttir er þar bjó, frændkona hans. Hún var ekkja. Bóndi hennar hét Eyjólfur sá er hana átti síðar. Þau áttu tvo sonu, Brand og Klæng. Sá hét Snorri er hana átti áður. Þau áttu og tvo sonu, Þorstein og Snorra. Hann Snorra bónda hennar vó Austmaður er hann vildi eigi gjalda skuld fyrir húskarl sinn en hann hafði ekki til. Þá tók við honum Austmanninum Önundur Þorkelsson og kom honum utan og var þetta upphaf saka þeirra er Arnþrúðarsynir voru að brennu Önundar.
Og önnur misseri er Guðmundur prestur var á Völlum um haustið að tjöldum var veginn Sumarliði Ásmundarson en víg það var kennt Snorra Grímssyni bræðrungi Guðmundar Arasonar. En til liðveislu um eftirmálið gerist Brandur biskup og vildi láta bera kviðu á Snorra á þingi um fjörráð og vettvangsbjörg við Brand er vó vígið. En af orðum Guðmundar prests Arasonar og margra annarra merkra manna, þeirra er Snorra veittu lið, þá lét Þorlákur biskup bera kviðu af Snorra um fjörráð. Nú hefir Guðmundur vetur um þrítugt.
Og þá er Guðmundur hafði tvo vetur og þrjá tigu, annan vetur, tveim nóttum fyrir jól andaðist Þorlákur biskup hinn helgi í Skálaholti. Hann hafði nokkuru áður boðið þangað til vistar Gissuri Hallssyni þá er honum tók ráðahagur sinn að óhægjast og var Gissur þar meðan hann lifði.
Þrjá menn virti Þorlákur biskup mest og hafa þeir trautt orðið alllíkir öðrum mönnum velflestum. Var einn Páll systurson hans er síðan varð biskup, annar Þorvaldur Gissurarson er síðan var hinn mesti höfðingi og voru honum flestir hlutir betur gefnir en þeim öðrum er honum voru samtíða, þriðji Guðmundur grís er fleira veitti fyrir guðs sakir en flestir menn aðrir en gerði síðan eftir guðspjalla boðorðum, skildist við á einum degi allt fé sitt og ástmenn og gekk þá í munklífi.
Son Guðmundar gríss var Magnús goði, annar Þorlákur faðir Árna biskups hins fyrra er einnhver hefir mestur merkismaður verið á Íslandi.
Þessir voru enn synir Þorláks Guðmundarsonar: Ormur prestur kanoki í Þykkvabæ og Magnús er andaðist kanoki í Viðey. Dætur Þorláks voru þær Ásbjörg nunna, móðir Árna biskups hins síðara og Agötu abbadísar, Þorgerður og Guðrún systur í Kirkjubæ.
Alla virti Þorlákur biskup mikils sonu Gissurar. Hann veitti ástsamlegt fóstur Magnúsi meðan hann vildi þar verið hafa. Hafði hinn sæli Þorlákur biskup mjög tírarhendi á honum tekið af því að hann var bæði forvitri og vel lærður og hinn málsnjallasti. Þorlákur biskup vígði þá til presta Þorvald og Magnús. Þorlákur biskup réð og staðfestu undir systurson sinn Orm Jónsson, Breiðabólstað í Fljótshlíð, þá staðfestu er honum þótti best þeirra er hann ætti forráð.
Það sumar eftir, er Þorlákur biskup andaðist um veturinn áður, andaðist Snorri Þórðarson Vatnsfirðingur Remigíusmessu.
Nú er það að segja frá Guðmundi presti Arasyni að þá er hann hafði verið á Völlum nokkura vetur og Arnþrúður húsfreyja var komin til Sökku í Svarfaðardal og synir hennar, Brandur og Klængur, þá var það eitt sumar á þingi að Halldóra abbadís Eyjólfsdóttir úr Kirkjubæ bauð Guðmundi presti að hann skyldi ráðast austur þannig til forustu með henni og játti hann því og skyldi hún senda menn í móti honum um sumarið.
En eftir Ólafsmessu kom skip út að Gásum og var þar á Páll biskup. Þá reið Brandur biskup á Grund og fundust þeir Páll biskup þar. Þar kom þá Guðmundur prestur og tók leyfi af þeim biskupunum að ráðast í Kirkjubæ. En er sveitarmenn verða þess varir fara þeir til fundar við Brand biskup og biðja að hann banni Guðmundi presti í brott að ráðast. Og hann gerði svo. Og er þeir fundu Guðmund prest og sögðu honum orð biskups þá hittir hann biskup þegar og sagði biskup að hann bannaði honum í brott að ráðast. Reið Guðmundur þá á Völlu og var þar um veturinn. Þenna atburð virti Brandur biskup svo mikils að honum þótti þetta fara líkt og Gregóríusi páfa.
Um veturinn eftir gerðist þverúð milli þeirra Guðmundar prests og Þorsteins Þraslaugarsonar er bjó á Völlum því að sveitarmenn báru fé þau í hendur Guðmundi er þeir hétu á helga menn en það fé kallaði Þorsteinn að Guðmundur tæki.
Það var vandi Guðmundar prests oft hátíðir að láta menn kyssa á helga dóma en Þorsteinn kveðst eigi vita hvort það voru heilagra manna bein eða hrossbein.
Nú gerðist af þessu óþykkt með þeim svo að Þorsteinn sótti að því Brand biskup að hann skyldi koma Guðmundi presti brott þaðan.
Um vor eftir fór Brandur biskup norður á Völlu og fann það af alþýðu sveitarmanna að þeir vildu Guðmund með engum kosti í brott. Þá býður biskup honum staðinn á Völlum til varðveislu en hann vildi það eigi. Þá réð biskup þangað annan prest.
Þá stefnir Guðmundur prestur Þorsteini tveim stefnum um vorið, annarri um það er hann kenndi honum stuld um heitfé manna en annarri um guðlastan er hann kallaði bein heilagra manna hrossabein og ræðst í brott að fardögum og til Ufsa.
En um sumarið reið Guðmundur til þings og var um mál hans selt honum sjálfdæmi.
Af þingi býður honum heim Sigurður Ormsson til Svínafells og fer hann af þingi suður í Haukadal og svo austur til Svínafells, þaðan austur í fjörðu, svo í Fljótsdalshérað og til Vopnafjarðar og Öxarfjarðar og svo norðan til Eyjafjarðar og kemur heim til Ufsa nærri veturnóttum. En í farlengd hans urðu fleiri hlutir merkilegir en eg kunni að telja af yfirsöngum og vatnsvígslum.
Þeir Arnþrúðarsynir, Brandur og Klængur, voru að Sökku í Svarfaðardal en Eyjólfur faðir þeirra hafði búið á Völlum og hafði svo tekið staðinn handsölum að í erfð skyldi hverfa. En þá er Eyjólfur andaðist kallaði Brandur biskup sonu Eyjólfs ekki til færa og byggði þá Þorsteini Þraslaugarsyni. Hann átti frændkonu biskups. Nú kalla Arnþrúðarsynir til staðarins en Þorsteinn vill eigi lausan láta.
Það var drottinsdag einn á Völlum að hvor þeirra hljóp að öðrum Klængur og Þorsteinn og gættu menn svo til að hvorgi varð fyrir áverkum.
Síðan fór Þorsteinn vestur til Hóla og sagði biskupi en biskup bað hann fara heim og fékk honum mann til fylgdar er Snorri hét og var Þórðarson, systurson Víga-Starkaðar, en Starkaður hafði vegið Þorstein Arnþrúðarson sem fyrr var ritað.
Þá áttu þeir hreppstefnu krossmessu um haustið á Hálsi í Svarfaðardal og um daginn er menn sátu í stofu hjó Klængur fót undan Snorra fyrir ofan kné. Annar maður vann og á Snorra er hét Grímur og varð þegar að vígi.
Þorsteinn fór enn til Hóla og sagði biskupi hvað í gerðist en Arnþrúðarsynir fóru til fundar við Guðmund hinn dýra og báðu hann fara til að sitja á staðnum með þeim. Hann kveðst eigi mundu til fara og bað að þeir skoruðu Ögmundi sneis því að hann var þeim jafn skyldur en lést mundu fá til Þorvald son sinn með honum.
Þá fóru þeir til fundar við Ögmund og hann fór við þeim og lét bera út úr húsum allt það er fémætt var í kirkju og í kirkjugarðinn það eigi mátti í kirkjunni vera. Kirkjugarðurinn var bæði góður og mikill og eigi svo nær húsum að þaðan mætti sækja. Síðan víggyrðluðu þeir kirkjugarðinn með röftum og bjuggust þaðan til viðnáms. Síðan skiptu þeir garðinum með sér til varnar ef þyrfti. Þar voru þrír tigir manna og hafði Ögmundur forráð fyrir þeim.
En Brandur biskup lét safna mönnum í annan stað og var Hjálmur Ásbjarnarson lengst vestan þeirra manna er nokkuð merki var að og biskup sjálfur ætlaði og að fara. Og þá nótt er þeir voru þar að Hólum laust verk í andlit biskupi og var hann eigi fær.
Síðan fóru þeir þaðan nær hálfu öðru hundraði manna og Kolbeinn Arnórsson var fyrir því liði og Hafur Brandsson fóstri hans. Þeir komu á Völlu og áttu tal við Ögmund. Hann kallaði þar von viðurnáms af þeim er fyrir voru og kváðust eigi mundu ganga af staðnum. Hafri leist og ekki efnilegt að sækja kirkjugarðinn og kallaði þeirra völd er til sóttu þótt garðurinn saurgaðist en eigi þeirra er hendur sínar áttu að verja. Þeir voru þar við tvær nætur og fengu sér eigi gistingar því að héraðsmenn allir voru meir með Ögmundi. Þá gaf Ögmundur þeim kú til sláturs og fengu þeir eigi katla til að sjóða og steiktu við elda. En þeir sýstu það eitt að þeir sættust á víg Snorra og var hann fé bættur og fóru við það í brott.
Síðan fór Guðmundur hinn dýri til og tók í brott Arnþrúðarsonu af staðnum og fór til fundar við biskup og sættust þeir á það að biskup skyldi fá mann til að varðveita staðinn meðan hann lifði en þá skyldu þeir taka Arnþrúðarsynir en Þorsteinn skyldi og eigi hafa stað.
Þá réðst til staðarins Þorkell Þórarinsson og bjó þar meðan hann lifði. Síðan tóku þeir við Arnþrúðarsynir.
Sá maður varð enn fyrir áverka er Skæringur hét. Hann var Hróaldsson, djákn að vígslu og frændi Guðmundar hins dýra og hjuggu Austmenn hönd af honum. Síðan voru Guðmundi seld sjálfdæmi fyrir áverkann en Hafur Brandsson og Guðmundur hinn dýri gerðu þrjá tigu hundraða og skyldi þá þegar gjaldast. Síðan reið Guðmundur brott frá skipi.
En Austmenn settust að Hafri eftir og þótti of mikið gert og báðu hann gera annaðhvort að minnka sektina eða vinna eið. En hann gerði hvorki. Þá var riðið eftir Guðmundi og sagt honum til svo gers. Þá sneri hann þegar aftur til skips og spurði Hafur hvað þá væri um en Hafur segir hvar þá var komið.
Guðmundur mælti: Vinn þú eið eða eg mun ella og skulu þeir þá gjalda sex tigu hundraða. Skal jafndýr vera eiður annarshvors okkars sem hönd Skærings.
En Austmenn vildu það eigi.
Guðmundur mælti: Þá skal gera yður kost annan, að eg mun gjalda þrjá tigu hundraða Skæringi er gervir eru en eg skal velja mann af liði yðru, þann er mér þykir jafn Skæringi, og höggva af honum hönd og bætið þér þá svo litlu sem þér viljið.
En Austmenn vildu það eigi og guldu upp féið en Guðmundur hafði Skæring með sér frá skipi.
Síðan bjó hann eigi lengi á Bakka áður hann réðst vestur til Þingeyra til munklífis og andaðist þar og lagði svo metorð sín.
Og hverf eg þar frá þessi sögu.
Það vor hið næsta eftir er þeir voru vegnir um haustið í Laufási Þórðarsynir og Arnþrúðarsynir fór Guðmundur prestur Arason til vistar til Staðar í Skagafjörð því að Kolbeinn Arnórsson bauð honum þangað.
Og eftir þing sendir Páll biskup menn sunnan eftir Brandi biskupi og Guðmundi presti Arasyni að þeir skyldu koma suður í Skálaholt þegar eftir þingið. En það hafði ráðið verið á þinginu að taka upp helgan dóm Þorláks biskups úr jörðu. Og fara þeir eftir þingið og koma í Skálaholt Margrétarmessu.
En í þjónustugerð þeirri er ger var guði til dýrðar og hinum sæla Þorláki biskupi þá setti Páll biskup Guðmund Arason næst þeim biskupunum í allri þeirri þjónustu og létu hann þerra kistunni með sér er hún var í kirkju borin. Og hann réð mjög fyrir hvað sungið var er heilagur dómurinn var upp tekinn. Þá urðu þar margar jartegnir af verðleikum hins sæla Þorláks biskups.
Eftir þetta fer Guðmundur prestur heim og er að Stað með Kolbeini þau misseri. En um vorið eftir ræðst hann á Víðimýri til Kolbeins Tumasonar.
Það sumar fór Guðmundur prestur til þings en af þingi vestur til Borgarfjarðar og bjóða honum þá heim margir menn um allt hérað. Þaðan fór hann vestur í Hvamm og var að brúðkaupi Snorra Sturlusonar. Þaðan fór hann í Fagradal, þaðan á Reykjahóla og vígði þar brunn þann er þeir migu í síðan og gerðu það til háðs við hann og batnaði þá eigi síður við það vatn en áður. Þaðan fór hann til Steingrímsfjarðar og svo til Miðfjarðar og svo heim um haustið á Víðimýri og var þar um veturinn í góðu yfirlæti. Og lagði Kolbeinn svo mikla virðing á hann og ástúð að hann kallaði hann að sönnu sannhelgan mann og sagði sjálfan sig margar raunir á því hafa.
Um sumarið áður var Þorláksmessa í lög leidd.
Þann vetur er Guðmundur prestur var á Víðimýri var vetur mikill og horfði mörgum mönnum þunglega. Þá ber í drauma um helgi Jóns biskups, að hann vitraði það að veðráttan mundi batna ef heilagur dómur hans væri upp tekinn.
Þá var það ráðið af Brandi biskupi og sendi hann orð Guðmundi presti Arasyni að hann skyldi til koma og vera forráðsmaður þessarar þjónustu því að biskup lá í rekkju sjálfur. Stefnir biskup að sér mönnum og voru svo hörð veður að Guðmundur prestur kom degi síðar en ákveðið var og var hans þó beðið. En er hann kom þá var upp tekinn heilagur dómur Jóns biskups með stórum jartegnum sjö nóttum eftir Matthíasmessu.
Um vorið fer Guðmundur prestur norður til Eyjafjarðar. En meðan hann var heiman andaðist Úlfheiður móðir hans og var líki hennar fylgt til Hóla og tók biskup við henni með ástúð.
Nú kemur Guðmundur prestur heim og réðst enn heiman. Hann fór til þings of sumarið. Þá var leidd í lög Jónsmessa biskups af bæn Brands biskups og tölu Guðmundar prests er hann talaði í lögréttu.
Af þingi buðu honum heim Vestfirðingar og fór hann fyrst til Borgarfjarðar og þaðan til Breiðafjarðar.
Af Reykjanesi var hann fluttur til Flateyjar. Þorgils Gunnsteinsson lét sonu sína flytja Guðmund prest og einn húskarl.
Hann bað Guðmund prest gefa sveinunum byr er þeir færu aftur því að þeir eru ókröftulegir, segir hann, og fel eg þá þér á hendi.
Biðja skal eg guð, segir prestur, að hann gefi þeim byr.
Þá var logn er þeir komu í Flatey. Nú búast sveinarnir í brott og bera til seglreiða sinn og báðu prest efna við sig um byrinn. En hann gengur til kirkju. Og er þeir voru búnir draga þeir upp segl og kastar þegar vindi á og lægja eigi fyrr segl fyrr en heima og höfðu því betra byr er þeir sigldu lengra.
Nú fer Guðmundur prestur vestur í fjörðu og er hann var í Sauðlauksdal þá vígði hann vatn það er kona bar heim í húfu sinni.
Þaðan fór hann norður í Fjörðu þar til er hann kemur í Keldudal til Þórðar Arasonar. Hann hafði hönd visna og lá verkur í sá, að hann mátti eigi mata sig með henni. En um nóttina er hann þóttist eigi mega liggja gekk hann út. En er hann kom inn sá hann til rekkju Guðmundar prests ljós mikið sem skini geisli ofan. Hann rétti höndina þá hina vanmegnu í ljósið og var þá ljósið jafnbjart á hendinni sem áður. En eftir það var höndin heil og verklaus og leið þá af ljósið.
Þaðan fór hann í Haukadal til Árna rauðskeggs. Og um kveldið er hann kom í hvílu var fengin til kona að klá fót hans. Hún var handmeidd svo að þrír fingurnir lágu í lófa. En er honum þótti of kyrrt klegið þá spyrnir hann við fætinum mjög hart og kemur hællinn í bug fingranna þeirra er krepptir voru og spyrnir hann þar í svo að henni verður sárt við nokkuð. En fám nóttum síðar kom hún á fund hans og sýndi honum hönd sína heila og þökkuðu allir guði þeir er sáu.
Þá fór hann til Ísafjarðar og kemur að Matthíasmessu í Súðavík. Og þar gefur hann þrjá tigu hundraða vöru Bárði frænda sínum til kvonarmundar og var honum þar fest dóttir Steinþórs prests Bjarnarsonar.
Og þar kemur kona sú hlaupandi er Þuríður hét er fylgt hafði Árna rauðskegg áður í banni Páls biskups og fékk hann eigi skilið þau. En er hún heyrði sagðar kenningar Guðmundar prests þá gerðist hún engis jafnfús sem að finna hann. Og verður hún að hlaupast frá honum Árna því að hann unni henni mikið og áttu börn saman. Hún var og fríð sýnum. Hún kemur nú á fund Guðmundar prests Matthíasmessu og bað hann með iðranargráti sér miskunnar og viðurtöku, að hún mætti skiljast við vandræði sín. Og hlaut hún svo mikið gott af fundi hans að hún vitjaði aldrei aftur til hins sama vandræðis og fylgdi honum jafnan síðan þá er þau skildi eigi ófriður manna.
Þaðan fór hann til Vatnsfjarðar og svo til Steingrímsfjarðar til Jóns Brandssonar og var mart lið í för við honum og var mælt að sendir mundu menn fyrir að segja að þeir kæmu eigi óvart.
En Guðmundur prestur kvað eigi þurfa mundu og mun guð gefa fyrir oss og senda þeim hval áður vér förum í brott.
En þessi orð hans fylltust svo að þann sama dag kom reyður á reka Jóns þar er hann átti einn og var sögð hvalkoman um myrgininn eftir.
Jón gaf Guðmundi presti bók er gersemi var í og Páll biskup hafði gefið Jóni.
Þaðan fer hann á Broddanes og svo norður um Flóa til Miðfjarðar og svo til Vatnsdals.
Og er hann var að Hofi þetta haust bar svo til að hann söng yfir sjúkum manni og sofnaði hann á bæninni að því er þeim þótti er við voru og bar áður yfir hann helga dóma sína og lagðist niður hjá hinum sjúka manni. Djákn hans lá í bekk hjá honum og hné Guðmundur prestur ofan á hann er hann sofnaði. En er hann hafði skamma stund legið þá kenndi djákninn eigi að hann lægi á honum en hann sá og aðrir að hann lá þar. Það var mjög langa stund. En er hann vaknaði spurði djákninn hví hann kenndi hans eigi er hann lá á brjósti honum en hann vildi ekki frá segja.
Þá kemur sú saga vestan úr fjörðum um veturinn að sá maður er Snorri hét vestur í Skálavík var leikinn af flagði einu og sótti hann tröllkona svo mjög að hann hugðist eigi mundu lifa. En þessa nótt hina sömu er fyrr var frá sagt, það var laugarnótt, þá fór hann Snorri til tíða einn saman og var mjög langt að fara. Þá kemur að honum tröllkonan og sækir hann og vill bægja honum til fjalls. Þá biður hann að Guðmundur prestur skyldi duga honum ef hann væri svo mikils ráðandi við guð sem hann hugði og leysa hann af flagði þessu. En í því sýndist honum sem ljós kæmi yfir hann en ljósinu fylgdi maður í kápu dökkri og hafði vatnsstökkul í hendi og stökkti á hana. En þá hvarf hún tröllkonan sem hún sykki niður en honum fylgdi ljósið allt til bæjarins og þóttist hann gerla kenna að ljósinu fylgdi Guðmundur Arason.
Nú bar saman að á einni stundu vitraðist hann Snorra og djákninn hafði eigi þunga kennt af honum.
Sá hinn sami djákn hafði sull í höfði sér. Og eitt sinn er hann stóð undir höndum Guðmundi presti í messu og lá olbogi hans á sullnum og varð honum sárt við mjög. En er sungin var messan kenndi hann hvergi sullsins.
Síðan fara þeir til Þingeyra og koma þar fyrir allraheilagramessu. Þar var fyrir Karl ábóti og Gunnlaugur munkur. Þeir gerðu processionem í móti honum um daginn og var hann þá prestur og sungu þeir í móti honum responsorium:
Vir iste in populo suo mitissimus apparuit sanctitate dei et gratia plenus, iste est qui assiddue.
Nú ber þetta sama vitni um hvílíks menn virtu hans ráð áður þeir urðu af metnaði blindir.
Þá predikaði hann lengi allraheilagramessudag.
Þaðan fer hann út á Blöndubakka og er þar mjög lengi.
Þá var hann þaðan ekinn upp eftir Langadal og voru menn sendir eftir hesti þeim er feitastur var í dalnum og sterkastur og var eigi léð. En um nóttina gengur hesturinn í heimabrunnlæk og dó.
Nú fer Guðmundur prestur þar til er hann kemur heim á Víðimýri að Nikulásmessu og varð Kolbeinn honum allshugar feginn og er hann heima um veturinn í góðu yfirlæti.
En um vorið fór hann norður til Eyjafjarðar að heimboðum og um Flatey og norðan að alþingi og reið til þings. Og af þingi buðu honum heim margir Sunnlendingar og Austfirðingar sem enn mun síðar sagt verða.
Sturla son Þórðar Gilssonar bjó í Hvammi vel þrjá tigu vetra. Hann andaðist þá er hann hafði sjö vetur hins sjöunda tigar. Þá var lokið deilum þeirra Páls prests í Reykjaholti. Hafði Jón Loftsson sætta þá og boðið til fósturs Snorra syni Sturlu. Hann var þá fimm vetra er Sturla andaðist en Sighvatur þrettán vetra, Þórður átján vetra. Voru þeir heima báðir.
Þá höfðu enn eigi lokist mál þau er þeir Einar Þorgilsson deildu um fé Birnings Steinarssonar er þar var þá í Hvammi en Guðbjörg og son þeirra Þorleikur bjuggu að Heinabergi.
Eftir andlát Sturlu vandi Ari hinn sterki ferðir sínar í Hvamm og gerðust með þeim Guðnýju kærleikar miklir. Ari bjó að Stað á Snjáfellsnesi. Hann átti Kolfinnu dóttur Gissurar Hallssonar. Helga hét dóttir þeira.
Einum vetri eftir andlát Sturlu andaðist Tumi Kolbeinsson í Skagafirði, mikill höfðingi. Hann átti þá Þuríði Gissurardóttur.
Tveim vetrum eftir lát Sturlu reið Einar Þorgilsson til Heinabergs við sjöunda mann og kallaði til fjár við Guðbjörgu en hún synjaði þess þverlega.
Eftir það riðu þeir Einar til fjárins og ætluðu brott að reka. Þá hljópu konur heiman og sveinninn Þorleikur. Hann var eigi alls tvítugur og lítill vexti. Annar hét Snorri fóstri þeirra og var hann yngri. Hljópu konur til fjárins og vilja elta úr höndum þeim en Guðbjörg og sveinarnir snúa að Einari. Tók Guðbjörg tveim höndum í kápuna og hélt honum á baki en sveinarnir hjuggu til hans báðir senn. Kom annað höggið í höfuðið fyrir ofan eyra en annað á kinnina og var það meira ásýndum. Eftir það hljópu menn til en sveinarnir í brott. Þar var unnið á konu þeirri er Valgerður hét, dóttir Brands læknis. Þeir Einar fóru heim en láta eftir féð. Þetta var um haustið nær Matthíasmessu.
Einar lá í sárum og var Helgi prestur Skeljungsson að græða hann. Greru fyrst sárin en fyrir jólaföstu sló í verkjum og rifnuðu aftur sárin. Hann andaðist tveim nóttum eftir Magnúsmessu.
Þá var Salbjörg Ketilsdóttir fyrir búi á Staðarhóli og var búið fengið í hendur Þorsteini Gyðusyni um veturinn og lögðust þá Akureyjar í búið. Steinvör Ingjaldsdóttir var þá fyrir búi.
Eftir áverka Einars Þorgilssonar fóru þeir Þorleikur og Snorri út til Skarðs og voru þar um nóttina. Var Þorleikur orðinn sár nokkvuð. Of myrgininn eftir létu þeir bræður synir Snorra Húnbogasonar lögsögumanns, Narfi og Þorgils, fylgja þeim suður yfir fjall í Hvamm. Þá var Ari þar og tóku þau Guðný við þeim. Voru þeir stundum í Hvammi en hríðum að Stað.
Eftir Einar Þorgilsson áttu arf að taka systur hans. Þá hafði Þorvaldur Gissurarson fengið Jóru dóttur Klængs biskups og Yngvildar Þorgilsdóttur. Þeim var meinuð samvista af kennimönnum. Fór Þorvaldur utan nokkuru síðar og leyfði erkibiskup að þau skyldu ásamt vera tíu vetur þaðan frá en að liðnum tíu vetrum skyldu þau skilja hvort er þeim væri það blítt eða strítt en þau unnust allmikið. Og þó játar Þorvaldur þessu.
Yngvildur var með Þorvaldi þá er Einar var veginn og sótti hún hann að eftirmáli. Þorvaldur fór á fund Jóns Loftssonar og leitaði ráða og liðveislu.
Jón svarar: Það eitt var vinfengi okkað Einars að mér er fyrir þá sök engi vandi á þessu máli. En þó þykir mér í óvænt efni komið ef það skal eigi rétta er skillitlir menn drepa niður höfðingja og vil eg því heita þér minni liðveislu of þetta mál þá er til þings kemur.
Of vorið fóru þeir Þorvaldur og Magnús bróðir hans vestur í Fjörðu. Og er þeir komu í Breiðafjörð kom norðan úr Miðfirði Kálfur Snorrason til móts við þá. Þeir fóru vestur í Saurbæ og bjuggu til vígsmálið. Þá færðu þeir Salbjörgu nauðga í brott af Staðarhóli. Þorgils Gunnsteinsson tók þá þar við staðnum og ómögum. Þeir Þorvaldur fóru þá í Hvamm og stefndu þar nokkurum mönnum um bjargir.
Þar var Böðvar fyrir og bauð þeim til dagverðar því að þá var illt til matar í héraði. Það var hið illa vor kallað. Þorvaldur þakkaði honum boðið og lést vita búrisnu hans en kveðst þó eigi vilja þar mat hafa. Þeir Þorvaldur voru átján saman og gengu allir suður og sunnan.
Þessi mál fóru til þings og var Ari hinn sterki fyrir svörum en þeir veittu honum Þorleifur beiskaldi og Böðvar. Urðu þeir Þorleikur og Snorri sekir og var gefið fé til farningar þeim. Þar var sæst á öll mál þau er til voru búin og gekk Þorleifur beiskaldi til handsala fyrir Ara og greiddi upp fé mikið.
Það sumar brá Ari til utanferðar en Stað seldi hann í hendur Þórði Sturlusyni og gifti honum Helgu dóttur sína. Þórður tók þar þá við búi og mannaforráði. Guðný seldi bú í Hvammi í hendur þeim manni er Oddur dignari hét. En þau Ari bæði réðust til skips vestur í Vaðil og fóru þar utan. Þar fóru þeir og utan Þorleikur og Snorri.
Ari andaðist í Noregi. Hann gekk til með menn að bera langskipsrá. En með því að þeir vissu að Ari var sterkari en aðrir menn þá hljópu þeir undan ránni en Ari lét eigi niður falla að heldur. Eftir það tók hann sótt og andaðist.
Síðan fór Guðný til Íslands og tók við búi sínu í Hvammi.
Þórður Sturluson tók arf eftir Ara og þau Helga dóttir hans. Þórður bar eigi auðnu til að fella þvílíka ást til Helgu sem vera átti og kom því svo að skilnaður þeirra var ger. En Þórður tók þá til sín Hróðnýju Þórðardóttur er átti Bersi hinn auðgi Vermundarson og hélst þeirra vinátta lengi.
Það var sex vetrum eftir andlát Einars Þorgilssonar að Sighvatur Sturluson gerði bú á Staðarhóli og Oddur dignari með honum. Sighvatur nam þar ekki yndi. Fór hann út til Staðar því að þá var svo ástugt með þeim bræðrum að nær þóttist hvorgi mega af öðrum sjá.
Þann vetur vógu þeir Þorgrímur Ingimundarson og Bassi Óspaksson Jón Bjarnarson hinn óða á Staðarhóli eftir messu í stofu inni.
Þeir voru systrasynir Jón hinn óði og Björn Sturluson og vinir góðir. Því sótti Björn Þórð bróður sinn að eftirmáli um víg Jóns. Þeir fóru fjórir bræður Sturlusynir og nokkurir menn aðrir vestur til Saurbæjar. Þeir gistu í Hvammi að Guðnýjar.
Þau fóru öll samt til laugar í Sælingsdal. Þá bjó Hallur Arason á Höskuldsstöðum. Hann var þar kominn og synir hans. Þeir förunautar Þórðar höfðu þar tekið þjóf og ætluðu að festa upp en Hallur og synir hans komu honum í brott. Við það varð Þórður Sturluson svo reiður að hann bað ganga að þeim. Guðný móðir hans hélt honum og fleiri menn. Þá eggjaði hann bræður sína, Svein og Sighvat. Þeir Hallur hlaupa að heydes og vörðust þaðan. Þar vó Ámundi Bergsson mann er Þórhallur hét. En er Þórður vissi það þá bað hann þá Svein hætta atsókninni og var svo gert. Fóru þeir þá vestur til Saurbæjar og sættust á víg Jóns. Þórður bætti og það víg er Ámundi hafði vegið og settu því máli öllu.
Þórður Sturluson fékk Guðrúnar dóttur Bjarna Bjarnasonar er átt hafði Þorvarður hinn auðgi. Tók hann við henni mikið fé. Gerðist Þórður þá höfðingi. Sighvatur bróðir hans var með honum lengstum.
Hámundur hét maður Gilsson. Hann bjó á Lundi í Reykjadal. Hann átti Kolþernu Klyppsdóttur systur Þorvarðar prests. Þeir bjuggu báðir samt. Hámundur var þingmaður Þórðar Sturlusonar.
Þórður hét maður og var kallaður rauður. Hann bjó á Oddsstöðum upp frá Lundi. Hann var gildur bóndi. Finnur hét son hans. Þeir voru þingmenn Kolbeins Tumasonar og var Finnur löngum við honum.
Þorsteinn brattsteinn bjó að Reykjum í Reykjardal. Hans synir voru þeir Guðmundur og Steinn.
Þá Þórð rauð og Hámund skildi á um víðirif á fjalli og mart varð þeim til óþykkju.
Þorgils Skeggjason var frændi Hámundar. Hann bjó í Tungu. Þórdís hét dóttir hans. Hana leiddi Guðmundur Steinsson á götu frá tíðum. Þorgils hljóp eftir þeim en er hann bar að stakk Guðmundur öxinni á bak sér svo að hann leit eigi til og kom í auga Þorgilsi og varð hann einsýnn. Þetta mál hlutdeildi Hámundur og varð eigi á sæst en Guðmundur var í vingan við Þórð rauð. Og voru þá dylgjur miklar með þeim öllum samt.
Á öndverðan vetur átti Guðmundur för á Hvítárvöllu. Hann bað Finn Þórðarson til ferðar við sér. Grímur Erlingsson fór hinn þriðji. Þeir gengu um garð að Lundi.
Þá kom inn sauðamaður Hámundar er Finnbogi hét og segir að þeir Guðmundur þrír gengu um garð. Þeir Hámundur hljópu eftir þeim, Hallgrímur Kolbeinsson og Þorgils.
Þeir Guðmundur nema stað er þeir sáu eftirförina og mætast fyrir utan garð og hljópust þegar að. Hallgrímur hjó á öxl Finni mikið sár. Guðmundur lagði til Hallgríms og í gegnum buklarabólu og höndina. Þá hljópu þeir Hámundur og Þorgils báðir að Guðmundi. Hann lagði að móti í lær Hámundi og renndi í smáþarma en hann hjó á hönd Guðmundi og af tvo fingurna við spjótsskaftinu. Grímur stóð hjá. Þá kom Þorvarður prestur og heimalið og skildi þá.
Þeir Guðmundur voru fluttir til Skarðs en Hámundur lá lengi í sárum. Hann sendi mann til Staðar að segja Þórði. Þórður sendi Sighvat bróður sinn og Halldór son Odds Jósepssonar suður þannig og höfðu þeir um veturinn mannfleira en að vanda.
Um vorið var sæst við Reykjamenn en áverkar Finns og Hámundar voru búnir til alþingis.
Högni prestur hinn auðgi bjó í Bæ. Hann var tengdamaður Lundarmanna og vin Þórðar Sturlusonar. Högni bað Þórð til liðs við þá Hámund og fyrir þá sök fjölmennti Þórður til þings.
En á þingi var sveitardráttur mikill. Veitti Kolbeinn Tumason Þórði rauð en Þorvaldur Gissurarson veitti Kolbeini og allir Haukdælir og Svínfellingar og Guðmundur hinn dýri. En Oddaverjar veittu Sturlungum og Önundur Þorkelsson og mágar Þórðar, Einar brúður og Flosi og Ögmundur sneis, Þórður Böðvarsson og margir aðrir. Jón Loftsson var að búð en Sæmundur var með flokkinum.
Að dómum varð þröng mikil. Þá slóst Þórður rauður á bak Þórði Sturlusyni og hjó meðal herða honum með breiðöxi sem honum var hægst og beit ekki og hafði hann hvorki brynju né treyju. En er Sighvatur bróðir hans sá það hljóp hann fram að Þorvaldi Gissurarsyni og hjó til hans en Halldór fylgdarmaður hans hljóp fyrir hann og hjó Sighvatur undan honum fótinn og varð það banasár.
Eftir það tókust athlaupin. Þá særðu þeir Þórður Sturluson og Einar brúður Finn Þórðarson til ólífis. Fleiri menn urðu þar sárir áður í meðal var gengið svo að þeir skildust. Mágar Þórðar Sturlusonar særðu Þórð rauð en Eyjólfur Oddsson vann á Beini úr Næfurholti. Urða-Steinn vann á Jóni lág úr flokki Sæmundar.
Varð þá griðum á komið en engar urðu sættir á því þingi. En Páll biskup átti þar mestan hlut að meðalgöngunni.
Þau misseri eftir voru dylgjur miklar með mönnum og ófriður á landi. Um haustið var veginn Markús á Rauðasandi en um vorið eftir var brenna Önundar í Langahlíð. En sæst var á brennumálið um sumarið á þingi og gerði Jón Loftsson. Þá var og sæst á Rauðsmál og hélt Þórður bótum upp fyrir Sighvat bróður sinn. Voru mælt gjöld á Þingvelli að miðju sumri. Halldór Oddsson færði af höndum gjöldin en við tók Hlíðar-Ormur.
Það vor hið sama er Önundarbrenna var gerði Sighvatur Sturluson bú í Hjarðarholti. Fékk Magnús prestur Guðmundarson staðinn í hendur honum en hann hafði áður handsalað Sturlu föður hans staðinn eftir sinn dag. Sighvatur hafði til búsefna föðurarf sinn, fjóra tigu hundraða. Hann tók fyrst Galtardalstungu og seldi hana og keypti Staðarhól hálfan. Síðan seldi hann Staðarhól til lausafjár og hafði það fé á vöxtum áður hann gerði búið. Þorleifur skeifa og Þuríður systir hans réðust til bús við honum með fé sitt og voru fyrir búinu.
Of sumarið á þingi, þá er sæst var á Rauðsmál, hóf Sighvatur bónorð sitt og bað Halldóru Tumadóttur. Var þar fyrir svörum Sigurður Ormsson og Þuríður Gissurardóttir móðir hennar Halldóra var með þeim að Svínafelli Kolbeinn Tumason bróðir hennar og aðrir ágætir menn, frændur hennar. Þorvaldur Gissurarson átti engan hlut að, því að hann var lítill vin Sturlusona í þann tíma. Þuríður Gissurardóttir svarar svo að hún unni Halldóru dóttur sinni því hærra en Álfheiði að hún mundi hana þeim einum manni gefa er það þætti frændum jafnaður en Álfheiði lést hún gefa mundu ef eigi þætti ósæmilega fyrir henni séð. En öllum forsjámönnum Halldóru þótti þetta forlag sæmilegt og var Sighvati heitið konunni.
Sturlusonum þótti langt að sækja brúðkaup til Svínafells og var þá um leitast að koma niður annars staðar. Magnús prestur Gissurarson bjó í Tungu upp frá Skálholti. Hann bauð Sigurði mági sínum að hafa inni brúðlaupið og sóttu þannig hvorirtveggju til. Kom þar saman allgott mannval.
Fór Halldóra til bús við Sighvati í Hjarðarholt og voru þeirra samfarar góðar. Taka þau um vorið við búi sínu og réðu ein fyrir. Þeim varð gott til fjár og mannorðs.
Þorgils prestur son Snorra lögmanns fékk Þórði Sturlusyni Þórsnesingagoðorð hálft en hálft hafði átt Ari. En Sighvatur tók þá erfðagoðorð þeirra er Sturla hafði átt.
Sighvatur átti vináttu við Helgu Gyðudóttur. Hún bjó að Brjánslæk. Helga hafði tekið arf eftir Þorstein Gyðuson en Gellir son Þorsteins hafði Flatey af arfinum og bjó hann þar og átti Vigdísi Sturludóttur. Helga hafði búfé fátt en lendur góðar. Sighvatur lagði jafnan stórfé til bús hennar en tók í mót af lendum sem hann vildi og dróst með því stórfé undir Sighvat.
Maður hét Ketill Eyjólfsson en Ljótur hét son hans. Þeir bjuggu á Eyri í Kjós. Ketill var bróðir Kols hins auðga á Möðruvöllum. Markús Skeggjason bjó þar hjá þeim. Hann var frændi Þórðar Böðvarssonar, kominn af ætt Markúss lögsögumanns.
Þá skildi á um búsifjar sínar og dreittu þeir feðgar Markús inni. Eftir það fór hann á fund Þórðar frænda síns og er hann kom aftur vó hann Ketil en særði Ljót. Markús var þingmaður Sæmundar Jónssonar og vin.
Sighvatur Sturluson fór um vorið suður í Kjós við sjöunda mann. Sóttu frændur Ketils hann að málum og bjó hann mál þessi til alþingis. Var um þessi mál alltíðrætt því að mönnum þótti það hin mesta nýjung ef nokkurir menn vildu deila þingdeildum við Oddaverja í þann tíma. Kolbeinn Tumason og Sigurður Ormsson veittu Sighvati að málum. Þeir höfðu fjölmenni mikið.
Þórður Sturluson var í vináttu við Sæmund og hlýddi hann mjög hans fortölum um þessi mál. Þótti þeim lítill slægur til Markúss og varð hann sekur á þinginu og skyldi Markús fara utan og koma aldrei út.
Fékk Sighvatur af þessum málum mikla sæmd og voru Kjósverjar jafnan vinir hans síðan.
Maður hét Þórður og var Kollason, Dalamaður. Hann vó Þórð Þrágjarnsson og Helgu Erlendsdóttur, bróður Brands Þórhallssonar frá Fjallsenda er þeir fóru frá leik úr Snóksdal. Eftir það hljóp Þórður í fjörðu vestur og tók við honum Þorvaldur Snorrason og var hann með honum að vígi Ljóts Sela-Eiríkssonar. En um sumarið eftir reið Þorvaldur til þings og var í búð við Þorvaldi Gissurarsyni frænda sínum og Þórður Kollason með honum.
Hann hafði gengið í búð Skarðverja er Austmenn höfðu tjaldað og sat á kistu. Þá kom í búðina Brandur Þórhallsson og hjó á háls Þórði svo að nær tók af höfuðið og hefndi svo bróður síns.
Eftir það hljóp Brandur í búð til Sighvats og segir honum tíðindi þessi. Sighvatur lét kalla Pál Kollason þangað, þingmann sinn en bróður Þórðar. Hann var aðili málsins. Og sætti Sighvatur þá Brand fyrr en Þorvaldur varð við var og þóttist hann mjög vanvirður í þessi sætt og var lengi fæð á með þeim Sighvati.
Þau Sighvatur og Halldóra áttu son er Tumi hét. Hann var fæddur um sumarið er þau höfðu einn vetur ásamt verið. En annan vetur eftir gekk Halldóra með barni og laukst seint of hag hennar.
Guðný Böðvarsdóttir bjó þá í Hvammi og leiddi mjög að fréttum um mátt Halldóru. Og eina nótt dreymdi hana að maður kæmi úr Hjarðarholti og þóttist hún spyrja að mætti Halldóru. Hann kvað hana hafa barn fætt og kvað vera sveinbarn. Guðný spurði hvað héti.
Hann heitir Vígsterkur, segir hann.
En um myrgininn eftir kom maður úr Hjarðarholti og segir að Halldóra var léttari orðin. Guðný spurði hvort væri. Hann kvað vera svein og heita Sturlu.
Snorri Sturluson fæddist upp í Odda með Jóni Loftssyni meðan hann lifði. Var Snorri þá nítján vetra er Jón andaðist. Var hann þá með Sæmundi fóstbróður sínum þar til er þeir Þórður Sturluson báðu til handa honum Herdísar dóttur Bersa hins auðga frá Borg á Mýrum. Hann átti átta hundruð hundraða. En Snorri var þá félaus því að móðir hans hafði eytt fjórum tigum hundraða þeim er hann tók eftir föður sinn. Lagði Guðný þá Hvammsland til kvonarmundar Snorra og var brúðkaup þeirra í Hvammi. Var mælt að Snorri skyldi eiga bú við móður sína en þau Herdís fóru um haustið suður í Odda og voru þar um veturinn.
Eftir andlát Jóns Loftssonar tóku til deilur þeirra Sæmundar og Sigurðar Ormssonar. Þeir deildu um arf þess manns er Glæðir hét. Hafði Jón Loftsson haft handsöl á fjám hans en erfingjar voru austur í sveit Sigurðar er tók hann féið undir sig og setti í þann mann er Kári hét. Voru þar um deilur á þingi. Bauð Sæmundur á gerð Þorvalds Gissurarsonar er þá átti Þóru, dóttur Guðmundar gríss og Solveigar dóttur Jóns Loftssonar systur Sæmundar og þeirra Páls biskups. En Sigurður vildi það eigi því að þeir Sighvatur Sturluson og Kolbeinn Tumason löttu hann sátta og hétu honum öllum sínum styrk og urðu þessi mál ekki greidd á þingi.
En um veturinn er á leið, þann er Snorri Sturluson hafði kvongast um sumarið áður, fóru þeir Sæmundur við nítjánda mann austur á Síðu og lét Sæmundur drepa Kára er sat í fjám þeim er Glæðir hafði átt. En um vorið stefnir Snorri Sturluson Sigurði til vorþings að Þingskálum.
Sigurður sendi snemma um vorið Arnór Tumason stjúpson sinn á fund þeirra Sighvats og Kolbeins Tumasonar og bað þá koma til sín með allan afla þann er þeir fengju því að hann þóttist vita um málatilbúnaðinn.
Sæmundur sendi Snorra Sturluson til Borgarfjarðar að kveðja manna upp er Jón faðir hans hafði átt, bæði marga og góða bændur. Fékk hann gott mannval.
Þá er Snorri kom í Skálaholt með föruneyti sitt var Arnór Tumason þar fyrir, kominn úr liðsbón frá þeirra Sighvats og Kolbeins og þóttust þeir eigi fá dregið flokka um vorsdag svo mikið torleiði.
Þá var Snorri tvítugur en Arnór átján vetra.
Sigurður varð sekur á þinginu. Og eftir það safna hvorirtveggju liði af nýju. Varð Sæmundur miklu fjölmennri. Sigurður fær tvö hundruð manna. Og er hann fréttir að Sæmundur hefir sjö hundruð manna fer hann upp á Eyna há með lið sitt og býst þar fyrir.
En við þenna vanda fer til Páll biskup og Þorvaldur Gissurarson að leita um sættir. En við þenna aflamun gerðist Sigurði sá einn kostur að láta síga til samþykkis við Sæmund. Eru þá grið sett og fundust við Fossá hjá Skógum og varð sú sætt að Páll biskup skyldi gera á þingi.
Fara þeir nú til þings, hvortveggja, og lauk biskup þar gerðum upp við ráð hinna bestu manna. Gerir hann eign til handa Sæmundi en stillir svo gerðum að hvorirtveggju máttu vel við una. En Sæmundur hafði virðing af málum þessum. Kolbeini Tumasyni líkaði illa þessar málalyktir en Sighvati verr.
Ketilbjörn Ketilsson, maður norrænn frægur, fór til Íslands þá er landið var víða byggt með sjó. Móðir hans var Æsa Grjótgarðsdóttir systir Hákonar Hlaðajarls. Hann átti Helgu dóttur Þórðar skeggja Hrappssonar og var við honum of veturinn fyrir neðan Bláskógaheiði og fór upp í landaleitun um vorið. Svo segir Teitur. En þeir gerðu sér skála þar er þeir höfðu náttból og kölluðu þar að Skálabrekku. En er þeir voru þaðan skammt farnir þá komu þeir á árís og hjuggu á vök og felldu í öxi sína og kölluðu hana af því Öxará. Sú á var síðan veitt í Almannagjá og fellur nú eftir Þingvelli. Þá fóru þeir þar til er þeir komu undir Reyðarmúla. Þar urðu þeim eftir reyðar þær er þeir höfðu með sér og kölluðu af því Reyðarmúla. Ketilbjörn gerði bú undir Mosfelli og nam þar land umhverfis sig svo vítt sem hann vildi átt hafa.
Frá þeim Ketilbirni og Helgu eru Mosfellingar komnir. Þeirra son var Teitur, faðir Gissurar hvíta, faðir Jórunnar, móður Ásgríms Elliða-Grímssonar og Sigfúss, föður Þorgerðar í Odda, móður þeirra Gríms og Sigfúss, föður Sæmundar prests hins fróða. Fleiri voru börn Teits en hér eru nefnd. Gissur hvíti var faðir Ísleifs biskups og er frá honum mikil saga sem getur í sögu Ólafs hins helga og svo frá því er hann fór út hingað til Íslands með kristniboð og þeir Hjalti Skeggjason úr Þjórsárdali.
Ísleifur var vígður til biskups á dögum Haralds Sigurðarsonar. En það sáu höfðingjar á Íslandi að Ísleifur biskup var miklu meiri nytjamaður en aðrir kennimenn hér á landi. Þá seldu margir menn honum syni sína til læringar og láta vígja til presta. Þeir voru síðan vígðir til biskupa, Kolur er var í Vík austur og Jón er síðan varð biskup að Hólum. Ísleifur var vígður til biskups þá er hann var fimmtugur. Þá var Leó páfi sá er hinn níundi hefir verið með því nafni. En hann var hinn næsta vetur í Niðarósi og fór síðan til Íslands. Hann andaðist í Skálaholti þá er hann hafði alls verið biskup fjóra vetur og tuttugu. Það var á drottinsdegi sjö nóttum eftir Pétursmessu og Páls, átta tigum vetra eftir fall Ólafs konungs Tryggvasonar.
Gissur son Ísleifs biskups var vígður til biskups á dögum Ólafs konungs hins kyrra að bæn landsmanna, tveim vetrum eftir andlát föður síns. Þann var hann annan á Íslandi en annan á Gautlandi. En það var nafn hans rétt að hann hét Gissröður. Svo sagði hann Ara presti. Gissur biskup var betur þokkaður af öllum landsmönnum en aðrir menn á Íslandi. Af ástsemd við hann og fortölum þeirra Sæmundar prests og umráði Markúss lögmanns og enn fleiri spakra manna var það í lög leitt að allir menn á Íslandi, þeir er eigi voru frá numdir, töldu og virtu fé sitt og sóru að rétt virt væri, hvort sem var í löndum eða lausum eyri, og gerðu tíund af síðan. Það var með miklum jartegnum hve hlýðið allt fólk var honum er hann kom því fram, að fé allt var virt með svardögum, það er hér á landi var, og svo landið sjálft og tíund af ger, og lögleiddi að svo skal vera meðan Ísland er byggt.
Gissur biskup lét og lög á það leggja að stóll biskups þess er á Íslandi væri skyldi vera í Skálaholti og gaf hann til þess Skálaholtsland og mörg önnur auðæfi í löndum og lausum aurum. En þá er honum þótti sá staður vel þróast að auðæfum þá gaf hann meir en fjórðung biskupsdóms síns til þess að tveir væru biskupsstólar hér á Íslandi. En hann hafði áður látið telja bændur á Íslandi og voru þá í Austfirðingafjórðungi sjö hundruð en Rangæingafjórðungi tíu hundruð en Breiðfirðingafjórðungi níu hundruð en í Eyfirðingafjórðungi tólf hundruð. En þeir voru ótaldir er eigi áttu þingfararkaupi að gegna.
Úlfhéðinn Gunnarsson tók lögsögu eftir Markús og hafði níu sumur. Þá hafði Bergþór Hrafnsson sex sumur. Fyrsta sumar er Bergþór sagði lög upp var Gissur biskup eigi þingfær. Þá sendi hann orð til alþingis vinum sínum að biðja skyldi Þorlák Runólfsson bróður Halls í Haukadal að hann léti vígjast til biskups. Og það gerðu þeir er orð hans komu til og fór hann utan það sumar og kom út hið næsta sumar eftir og var þá vígður til biskups.
Gissur var vígður til biskups er hann var fertugur. Þá var Gregóríus páfi sá er hinn sjöundi hefir verið með því nafni. En síðan var hann hinn næsta vetur í Danmörk og kom út of sumarið eftir til Íslands. En þá er hann hafði verið biskup tuttugu og fjóra vetur sem faðir hans þá var Jón vígður til biskups. Þá var hann fjórum vetrum meir en fimmtugur. En tólf vetrum síðar þá er Gissur hafði biskup verið þrjá tigu og sex vetur var Þorlákur vígður til biskups í Skálaholt að Gissuri biskupi lifanda. Gissur biskup andaðist í Skálaholti. Á því ári hinu sama andaðist Paschalis páfi fyrr en Gissur biskup og Baldvini Jórsalakonungur og Arnaldur patríarki í Jerúsalem og Filippus Frakkakonungur og Alexíus Grikkjakonungur, hundrað og átján vetrum eftir fall Ólafs Tryggvasonar en tvöhundruð og fimm tigum eftir það er Ingólfur landnámsmaður kom til Íslands.
Ísleifur biskup átti þrjá syni. Þeir voru allir höfðingjar, Gissur biskup og Þorvaldur. Teitur hét hinn þriðji. Hann fæddist upp í Haukadal með Halli hinum milda, eg kom til hans sjö vetra gamall, vetri eftir það er Gellir Þorkelsson andaðist. En Hallur sagði svo Ara presti hinum fróða að hann myndi að hann var skírður þrevetur. En það var vetri fyrr en kristni væri í lög tekin á Íslandi. En hann gerði bú þrítugur og bjó í Haukadal sex tigu vetra og fjóra vetur. Hann hafði fjóra vetur hins tíunda tigar er hann andaðist. Það var Marteinsmessu tíu vetrum eftir andlát Ísleifs biskups. Eftir Hall bjó í Haukadal Teitur prestur, fóstri hans, son Ísleifs biskups og var mikill merkismaður. Frá honum er mart manna komið. Það er Haukdælaætt kölluð. Hann andaðist ellefu hundruð og tíu og einum vetri eftir burð Krists en fimm vetrum fyrr en Hvamms-Sturli væri fæddur. Son Teits prests var Hallur biskupsefni, mikill höfðingi. Hann bjó í Haukadal eftir föður sinn og andaðist þá er liðnir voru frá burð Krists ellefu hundruð og fimm tigir vetra.
Hallur Teitsson átti Þuríði dóttur Þorgeirs á Mýri. Gissur lögsögumaður var son þeirra. Hann bjó í Haukadal eftir föður sinn. Hann var bæði vitur og málsnjallur. Hann var stallari Sigurðar konungs föður Sverris konungs. Hann var og hinn besti klerkur þeirra er hér á landi hafa verið. Oft fór hann af landi brott og var betur metinn í Róma en nokkur íslenskur maður fyrr honum af mennt sinni og framkvæmd. Honum varð víða kunnigt of Suðurlöndin og þar af gerði hann bók þá er heitir Flos peregrinacionis.
Hann átti Álfheiði dóttur Þorvalds hins auðga Guðmundarsonar. Börn þeirra voru þau Þorvaldur og Hallur ábóti og Magnús biskup, Þuríður er átti Tumi Kolbeinsson, Kolfinna er átti Ari hinn sterki en síðar Garða-Snorri. Halldóra var dóttir Gissurar og Þuríðar Árnadóttur er átti Bersi Halldórsson. Þeirra börn voru þau Teitur biskupsefni og Þorgerður. Vilborg var dóttir Gissurar og Þorbjargar Hreinsdóttur er átti Teitur Súgandison. Valgerður var dóttir Gissurar og Þórnýjar Vigfúsdóttur er átti Teitur Ásláksson. Þórdís var enn dóttir Gissurar og Þórnýjar. Hana átti Þorsteinn Jónsson. Hallur Gissurarson átti Herdísi Sveinbjarnardóttur, þeirra dóttir Hallfríður. Magnús var son Halls laungetinn. Hann átti Steinvöru Sámsdóttur. Sámur var son þeirra. Magnús biskup átti Halldóru Hjaltadóttur. Hjalti og Gissur voru synir þeirra. Þorvaldur Gissurarson bjó í Hruna. Hann átti Jóru biskupsdóttur. Synir þeirra voru þeir Guðmundur, Klængur, Björn, Einar, Teitur.
Í þenna tíma bjó Guðmundur grís á Þingvelli. Hann átti Solveigu dóttur Jóns Loftssonar. Þau áttu tvær dætur er Þóra hét hvortveggi og voru svo skilin nöfn með þeim að önnur var kölluð hin yngri Þóra en önnur hin eldri Þóra. Þær voru báðar hinar gervilegstu konur og vel menntar. Þær þóttu þá bestir kvenkostir af ógiftum konum. Þær fóru jafnan upp í Almannagjá með léreft sín til ár þeirrar er þar fellur.
Það var einn dag er þær voru þar staddar að skemmta sér við ána, þá tók Þóra hin eldri til orða: Hvað ætlar þú systir, hversu lengi þetta mun vera að eigi verði menn til að biðja okkar eða hvað ætlar þú að fyrir okkur muni liggja?
Þar ber eg litla hugsan fyrir, segir hin yngri Þóra, því að eg uni allvel við meðan svo búið er.
Svo er og, segir hin eldri Þóra, að hér er sæmilegt að vera með föður og móður en ekki er hér glaðværi eða svo unaðsamlegt fyrir það.
Svo er víst, segir hin yngri Þóra, en eigi er víst að þú unir þá betur er þessu bregður.
Nú þá, segir hin eldri Þóra, gerum við okkur hér af gaman og reynum hugspeki okkra. Seg mér hvað þú mundir kjósa, hver maður helst bæði þín því að það þykist eg vita að eigi munum við allan aldur ógiftar heima sitja.
Enga þörf ætla eg á því, segir hin yngri Þóra, því að allt mun ætlað fyrir og gerir því ekki hugsan fyrir slíku að bera eða geipa þar um nokkuð.
Nú er það víst, segir hin eldri Þóra, að það er ákveðið er minna háttar er en forlög manna. En þó vil eg eigi að síður að þú segir mér hvað þú mundir kjósa hvað fyrir þér lægi.
Hitt ræð eg, segir hin yngri Þóra, að við látum þetta tal niður falla því að brátt fer orð er um munn líður.
Ekki þykir mér undir, segir hin eldri Þóra, þótt hér gerist nakkvað sögulegt af og mun eg segja þér fyrri hvað eg vildi mér kjósa ef þú vilt þá síðan segja mér.
Þú ert fyrir okkur, segir hin yngri Þóra, og skaltu af því víst segja mér fyrr með því að þú vilt þó að eigi falli hér niður geipan sjá.
Það vildi eg, segir hin eldri Þóra, að Jón Sigmundarson riði hingað og bæði mín og honum væri eg gefin.
Hin yngri Þóra svarar: Víst hefir þú að því hugað að láta þann eigi undan ganga er nú þykir bestur karlkostur vera og vildir þú því fyrr kjósa að þú sást að þá vandaðist kjörið. Nú er það miklu torveldlegra og ólíklegra er eg vildi að væri. Það vildi eg að Jóra biskupsdóttir andaðist en Þorvaldur Gissurarson færi hingað og bæði mín.
Hættum þessu tali, segir hin eldri Þóra, og getum ekki um.
Síðan gengu þær heim.
Nú voru liðnir þeir tíu vetur er Guttormur erkibiskup hafði leyft þeim Þorvaldi og Jóru ásamt að vera og sagði hann svo að aldrei hefði hann henni meira unnt en þá og hann vissi eigi víst hvort hann fengi af sér að skilja við hana eftir því sem hann hafði heitið erkibiskupi. En þau sömu misseri andaðist Jóra.
Og um vorið áttu þeir Þorvaldur og Jón báðir erindi vestur til Borgarfjarðar. Þeir riðu báðir samt og gistu á Þingvelli. Og um daginn er þeir riðu vestur varð þeim mart talað til þeirra Guðmundardætra. Þær systur lágu jafnan í einni hvílu og hvíldi hin eldri Þóra við stokk. Og er þeir koma vestan, Þorvaldur og Jón, þá gistu þeir enn á Þingvelli.
Þá mælti hin eldri Þóra til systur sinnar: Nú mun eg skipa þeim í hvílu okkra í kveld, Þorvaldi og Jóni. Og með því að þeir biðji okkar nú þá skal eg þann eiga er í minni hvílu liggur en þú þann er í þinni liggur.
Það vissi hún að Þorvaldur var jafnan vanur að hvíla við stokk og vildi þá hvortveggi hann heldur.
Hví muntu eigi slíku ráða, segir hin yngri Þóra, hversu þú skipar hvílum. En það mun verða um forlög okkur sem áður er fyrir ætlað.
Og um kveldið er þeir Þorvaldur komu til hvílu þá spurði Jón Þorvald bónda: Hvort viltu hvíla við stokk eða þili?
Þorvaldur svarar: Jafnan er eg vanur að hvíla við stokk en skaltu nú kjósa.
Þá mun eg við stokk hvíla nú, segir Jón og svo var.
Og of myrgininn eftir höfðu þeir uppi bónorð sín og fór það fram að Þóra hin eldri var gift Jóni en hin yngri Þorvaldi.
Þessi voru börn þeirra Þorvalds Gissurarsonar og Þóru hinnar yngri: Halldóra var elst barna þeirra, þá Gissur jarl, þá Kolfinna. Halldóru Þorvaldsdóttur átti Ketill prestur Þorláksson lögsögumaður.
Einum vetri eftir deilur þeirra Sæmundar Jónssonar og Sigurðar Ormssonar andaðist Brandur biskup að Hólum. En þá réð Kolbeinn Tumason einn öllu fyrir norðan land. Hann kaus við ráð vina sinna Guðmund prest hinn góða Arason til biskups er þá var prestur á Víðimýri við Kolbeini.
Þau voru bræðrabörn Guðríður Þorvarðsdóttir, kona Kolbeins, og Guðmundur prestur hinn góði. Hann var maður vinsæll og hógvær og mæltu það margir að Kolbeinn vildi því Guðmund til biskups kjósa að hann þóttist þá ráða bæði leikmönnum og kennimönnum fyrir norðan land.
Þetta sumar fór Guðmundur prestur hinn góði til þings en af þingi buðu honum heim Sunnlendingar og Austfirðingar og fór hann af þinginu suður í Skálaholt. Þá nótt er hann var þar andaðist Ketilbjörg nunna og lét Páll biskup Guðmund prest syngja yfir líki hennar en biskup stóð yfir og Gissur Hallsson. Og var sú þjónusta svo merkileg að Gissur vottaði því í tölu sinni yfir greftinum að þeir þóttust eigi slíkan söng heyrt hafa og virti henni til heilagleiks er henni skyldi slíks söngs auðið verða.
Þaðan fer hann austur yfir ár. Þá býður honum heim Árni prestur á Skúmsstöðum. Þar var fall mikið svo að sjö menn voru fallnir og bæði naut og hross. Þar gistir hann og vígir vatn og gengur með helga dóma og stökkvir sjálfur vatninu um akra hans og tún og víða um engjar og tók þegar af fallið.
Þaðan fer hann austur undir Eyjafjöll og svo austur á Síðu og í Ver austur. Þá kemur hann á þann bæ er að Lómagnúpi heitir. Þar var þá hlaup í ánni Lómagnúpsá, svo mikið að Árni bóndi komst við illan leik af og drukknaði maður fyrir honum. Hún braut víða land. Menn sátu við ána fyrir austan og máttu eigi yfir komast því áin var berlega ófær. Og er þeir Guðmundur prestur komu að ánni þá stíga þeir af baki og sjá að áin mun ófær. En er þeir höfðu langa stund setið við ána og treystust eigi á að ríða þá sjá þeir, er fyrir austan sátu ána, að áin fellur fram og ráða til og ríða. Þá ríða þeir Guðmundur prestur og menn hans á ána og hittast á ánni nær miðri og þeir er austan komu að og fórst hvorumtveggjum hið besta. En er hvorirtveggju komu yfir ána þá vex hún þegar og var ófær nokkura daga eftir.
Þaðan fer Guðmundur prestur til Svínafells til Sigurðar Ormssonar. Þar var þá kominn Kolbeinn Tumason til heimboðs og voru þeir þar allir samt þrjár nætur. Þá fer Kolbeinn í brott og ríða þeir Sigurður og Guðmundur prestur á leið við honum. En er þeir Sigurður riðu aftur vildi hann tala við Guðmund prest einslega um vandræði sín þau er leiddi af málum þeirra Sæmundar, að hann lést varla þola mega vansa þann og ámæli er leiddi af málum þeirra og leitaði ráðs við Guðmund prest, kvaðst engis jafnfús sem leita til hefnda við Sæmund.
En Guðmundur prestur bað hann það mest varast því að þú mátt við það una að þú hafir af því ámæli er þú hefir vel gert. Nú mun eg biðja guð að hann styrki þig og gæti þín.
Hins vil eg þig biðja, segir Sigurður, að þú biðjir þess guð að hann léti þig ráðanda verða að þú mættir sýsla mér nokkura staðfestu norður þar í sveitum þá er höfuðburður væri að, því að mér sýnist svo mikið yfir þér að mér býður það í skap að þú verðir enn meira ráðandi en nú ertu. En eg vildi þessa staðfestu selja í hendur Jóni Sigmundarsyni frænda mínum. Nú mun eg annaðhvort að leita undan ef þú vilt mér þessu heita ella mun eg eftir leita við Sæmund hversu sem fer.
En Guðmundur prestur kveðst heldur vilja þessu heita, að biðja að guð léti hann þessa verða ráðanda.
Og þenna sama dag er þeir ræddust þetta við andaðist Brandur biskup og fylltust nú beggja þeirra orð, um yfirbragð það er Sigurður þóttist sjá á honum, og góðviljaheit það er Guðmundur prestur hét Sigurði ef hann mætti stöðva missætti þeirra Sæmundar, að sýsla honum staðfestu. En þenna dag bar undir hann ráð biskupsdóms þótt þeir vissu það eigi.
Sá atburður varð þar að Sigurður bað Guðmund prest gefa sér helga dóma og svo gerði hann. Og er hann gaf honum af beini Jóns biskups þá ræddi um prestur sá er Steinn hét, kvaðst eigi þykja vel litt beinið og óheilaglegt. En Guðmundur prestur svarar mjúklega hvort hann tryði Martein biskup að óhelgara að bein hans væru dökk eða hvort honum þætti Þorlákur biskup heilagur eða eigi. Steinn prestur svarar og kveðst Jón biskup eigi þykja taka hærra en í miðjar síður Þorláki biskupi.
Guðmundur prestur mælti þá: Biðjum vér nú öll guð og hinn helga Jón biskup að hann sýni sinn heilagleik í nokkuru tákni að svefja ótrú Steins prests.
Þá féllu allir menn á kné með Guðmundi presti en eftir það lét hann alla menn kyssa á beinið. Þá kenndu allir svo mikinn ilm af beininu sem af hinu sætasta reykelsi nema Steinn prestur, hann kenndi engan ilm. Þá skammaðist Steinn ótrú sinnar og orða og sá þá reiði guðs og Jóns biskups við sig er hann var nú ger fráskila þessi dýrð og bað þá guð og hinn heilaga Jón biskup með tárum sér fyrirgefningar. Þá bauð Guðmundur prestur að gefa Steini presti af beininu Jóns biskups ef hann vildi dýrka hann af öllu hjarta. En hann kveðst vilja feginn og var hræddur um hvort Jón biskup mundi vilja þiggja dýrkan hans. Þá mælti Guðmundur prestur að allir skyldu biðja að hinn helgi Jón biskup sýndi Steini presti fyrirgefning orða sinna. En er Steinn tók við beininu kenndi hann ilm slíkan sem aðrir. Þá þökkuðu allir guði og hinum helga Jóni biskupi. Var þá hringt öllum klukkum og sunginn Te deum og lýst svo þessi jartein.
Sá atburður varð enn þar að hlaup kom í á þá er þar fellur við bæinn og braut akra og tún svo að stórum sköðum sætti. Þá bað Sigurður Guðmund prest fara til og syngja yfir ánni. Hann fór með helga dóma sína og klerka og söng lengi yfir ánni. En of myrgininn eftir var hún horfin úr þeim farveg og hafði brotið sér nýjan farveg austur um sandana.
Kerling ein lá þar að Svínafelli og svo komin að bana að hún hafði þá sjö nætur mállaus verið og engum mat bergt og ekki hrært á sér nema framanverða fingur og tær en þó skildist eigi önd við hana. En þá hafði henni veitt verið öll þjónusta. Hún var góðmenni.
En er Guðmundur prestur var í brott búinn frá Svínafelli og var kominn til hests síns þá mælti hann: Það er satt, segir hann, að eg hefi eigi kyssta kerlingu sæla inni, hina sjúku. Það skal eigi vera þó.
Þá gengur hann inn og alþýða manna við honum. Hann kemur í stofu og að þar er kerlingin liggur og þó var hún þá nær andláti.
Hann kyssti hana og mælti: Vertu nú heil og sæl kerling mín. Og muntu nú fara til guðs og berðu kveðju mína Maríu móður guðs og Mikjáli yfirengli, Jóhanni baptista, Pétri og Páli, Ólafi konungi og einkum Ambrósíusi vin mínum.
Þá svarar kerling svo hátt að jafngerla heyrðu þeir fyrir framan voru stofuna. Já, kvað kerlingin.
Það orð mælti hún síðast. Þá var miðdegi en hún andaðist að nóni þann sama dag.
Þá fer Guðmundur prestur og föruneyti hans til Austfjarða og kemur að Bartólómeusmessu til Stafafells. Þar spyr hann þau tíðindi um óttusöng andlát Brands biskups Sæmundarsonar. En við þessi tíðindi varð honum svo ósvipt sem hann væri steini lostinn. Þá lét hann þegar syngja sálumessu en um daginn eftir allar sálutíðir og líksöng með allri vandvirkt og ástsemd.
Og síðan fara þeir og koma í Fljótsdalshérað til Valþjófsstaða til Jóns Sigmundarsonar að Egidíusmessu. Þá var þar kirkjudagur. Þar voru viðtökur góðar. En er Jón leiddi Guðmund prest inn í kirkju um kveldið þá spyr Guðmundur prestur hann tíðinda.
En Jón sagði tíðindin mikil og góð: Héraðsmenn í Skagafirði skulu eiga fund á myrgin og kjósa sér biskup og muntu kjörinn vera því að guð mun það vilja.
En þaðan frá var honum svo mikil hræðsla í brjósti að hann mátti hvorki með haldkvæmd njóta svefns né matar fyrir ugg og ótta slíkra hluta.
En um aftaninn fyrir krossmessu kom Guðmundur prestur á þann bæ er í Hlíð heitir í Fljótsdalshéraði. Þá dreymdi hann of nóttina að hann þóttist koma í kirkjuna á Völlum í Svarfaðardal og þótti honum altarið falla í fang sér og var skrýtt hinu besta skrúði.
Um daginn eftir fara þeir norður yfir heiði til Vopnafjarðar og koma í Krossavík um kveldið. En er þeir voru undir borði þá koma þar sendimenn Kolbeins Tumasonar og gengur Einar forkur inn fyrir Guðmund prest og kvaddi hann vel. Hann spurði tíðinda.
Einar segir: Góð eru tíðindi. Þú ert kosinn til biskups af Kolbeini og öllum héraðsmönnum. Nú fer eg með bréfum og þeirri orðsending að þú skyldir sem skjótast heim koma.
En við þessi tíðindi varð hann svo hryggur að hann mátti langa stund ekki mæla. Þá bað hann guð láta það upp koma er öllum gegndi best.
Um daginn eftir fer Guðmundur prestur til Hofs til Teits Oddssonar. Þar var þá vistum Halldór prestur Hallvarðsson. Þá ræðst Guðmundur prestur við Halldór prest ef nokkur von væri að hann vildi leysa hann undan þessum vanda og ganga sjálfur undir.
En hann taldist undan og kvaðst mjög aldri farinn og þó að öðru eigi til felldur og kvaðst vita þykjast að honum mundi eigi tjá undan að mælast: Mun það bæði guðs vilji og manna að þú sért biskup. En eg vil beina til með þér bænum mínum og öllu því er eg má þér til fulltings.
Þaðan fer hann norður til Öxarfjarðar um Möðrudalsheiði og kemur veður á fyrir þeim mikið og hart og kafahríð og skilst lið þeirra þar til er Guðmundur prestur raknar við að þeir mundu eigi rétt fara. Hann kom fyrstur til byggða og með honum djáknar tveir, Sturla Bárðarson og Lambkár Þorgilsson, en aðrir komu miklu síðar.
Nú fara þeir norðan og koma á Grenjaðarstaði. Þar bjó þá Eyjólfur Hallsson. Þá talar Guðmundur prestur um við Eyjólf ef hann vildi ganga undir og verða biskup en hann kvað ekki um það að leitast, kvað Skagfirðinga og Eyfirðinga engan annan vilja en Guðmund.
Nú fara þeir norður og koma á Háls að Mikjálsmessu til Ögmundar Þorvarðssonar. Spyr Ögmundur hvort það sé satt að hann teljist undan að vera biskup. Hann kvað það satt vera.
Hví sætir það? segir Ögmundur.
Hann svarar: Því að mér þykir vandi mikill fylgja að eiga við marga menn óhlýðna og öfundarfulla og ríka. Eða muntu frændi vera oss hlýðinn ef vér vöndum um ráðið þitt?
Ögmundur svarar: Hvers vandræði skaltu heldur ábyrgjast en mín? En svo sem eg er þér óhlýðinn þá mun eg öllum öðrum óhlýðnari og öngum mun stoða öðrum um að vanda. Og mun þér ekki stoða undan að mælast því að þér mun fara sem Ambrósíusi biskupi því að þér spáðu barnleikar fyrir sem honum að þú mundir biskup verða. Nú tjáði honum eigi undan að teljast enda mun þér svo og viljum vér öngan annan biskup en þig.
Nú fer Guðmundur prestur vestur heim á Víðimýri að veturnóttum og urðu honum allir menn fegnir og hans heimkomu.
Laugardaginn gengur Þorvarður Þorgeirsson til máls við Guðmund prest einn saman, spyr hvort það væri satt að hann vildi gerast einhverfur í því máli að teljast undan biskupsvígslu og hlíta eigi hans forsjá og annarra vitra manna. En hann kvað það satt vera.
Eg þykist, segir Þorvarður, eiga að vera forsjámaður yðvar og vil eg ráða, segir hann.
Guðmundur mælti: Hví mun það sæta að eg muni eigi eiga að ráða fyrir mér?
Þá mælti Þorvarður: Veist þú það frændi að eg hefi verið höfðingi fyrir ætt vorri og minn faðir fyrir mér. Nú hlítti þinn faðir minni forsjá og svo aðrir frændur mínir enda ræð eg þér það. Nú mun þér ætlaður höfðingskapur eftir mig.
Guðmundur segir: Ekki bauðstu mér að taka fé eftir föður minn og lítillar virðingar hefir þú mér leitað hér til nema láta berja mig til bækur. Enda sýnist mér sem þú viljir heldur koma mér í vanda en virðing og mun eg eigi þessu játa.
Þorvarður svarar: Hvað hefi eg slíkt heyrt, að drepa hendi við virðing sinni enda mun ekki stoða því að þú munt biskup verða. Svo hefir mig dreymt til.
Hvað hefir þig dreymt? segir Guðmundur.
Mig dreymdi að eg skyldi ganga inn í hús mikið og hátt en eg hefði ekki jafnmikið séð og svo miklar dyr á að það var eigi með minna móti. En er höfuð mitt var komið inn í dyrin þá nam við herðunum og gekk eigi lengra. En eg ræð þann draum svo að vegur þinn muni verða svo mikill að öll kristni mun eigi hyggja mega svo mikla virðing þína sem verða mun.
Þá dreymdi mig annan draum, að eg þóttist koma norður í Niðarós í höll Ólafs konungs og þótti mér hann sitja í hásæti sínu og alskipuð höll hans.
Mér þótti hann standa upp í móti mér og breiða faðminn og kveðja mig: Kom þú heill og sæll Þorvarður. Þú munt blessaður um öll Norðurlönd. Nú veit eg að þú átt þessa drauma. Vilji guð að þú sért vígður í höll Ólafs konungs það er í Kristskirkju, þar muntu vígður til biskups nú mun það fram ganga hvort er þú vilt eða eigi.
Þá skilur með þeim og segir Þorvarður Kolbeini umtal þeirra og gengur Kolbeinn til hans og segir honum að þeir áttu fund Egidíusmessu á Völlum og var þar ábóti frá Þingeyrum og Þverá og Gissur Hallsson, Guðmundur hinn dýri og mart héraðsmanna. Og var látinn í kosningi þú og Magnús Gissurarson og dró Gissur fram mál sonar síns og þótti meiri stoðar rísa að með honum til fulltings og meir reynd fjárvarðveisla hans en þín. En eg lét mér vel líka hvor ykkar til væri kjörinn. Þá mælti Hjálmur Ásbjarnarson og Hafur og margir aðrir að þeim kvaðst lítt um að úr öðrum fjórðungi væri maður til kjörinn enda þótti þetta öllum mönnum svo vel að engi var til mótmæla og samþykktu því þá allir. Og ertu nú því kjörinn fastlega að guðs kjöri og manna. Nú væntum vér að þú munir bæði vilja gera guðs vilja og vorn og skerast eigi undan.
Hann svarar: Það vil eg vita og heyra hvort svo er öðrum héraðsmönnum gefið sem þér því að mér þykir stór vandi við liggja og em eg því trauður undir að játast.
Þá var fundur stefndur drottinsdag á Víðimýri og komu héraðsmenn til og lögðu þá af nýju til umtals og kom í sama stað niður. Senda þá eftir Guðmundi presti og segir Kolbeinn honum að þeir biðja hann til samþykkis og jáyrðis að ganga undir vanda þann er þeir höfðu hann til kjörið að vera biskup.
En er Guðmundur prestur sá hve horfði af Kolbeini, að hann vildi ekki annað og hugði sér þetta mundu vera dælst þá svarar hann: Heldur vil eg hætta á guðs miskunn og játa þessum vanda en ábyrgjast það að engi sé til kjörinn.
Þá svarar Kolbeinn: Mæl þú manna heilastur.
Og þökkuðu honum nú allir af nýju og fara menn heim um kveldið. Og um kveldið er honum búið þar hásæti og bar Kolbeinn sjálfur mat fyrir hann og breiddi dúk á borð.
En er skjótt þurfti til að taka var dúkurinn slitinn mjög og ræddi Kolbeinn um: Mjög kennir nú dæligleika af vorri hendi meir en verðleiks yðvars er svo vondur dúkur er á borði yðru, segir hann.
Guðmundur prestur mælti: Ekki sakar um dúkinn en eftir mun fara biskupsdómur minn. Svo mun hann slitinn vera sem dúkur þessi.
Kolbeinn roðnaði við og svarar engu.
Um morguninn eftir búast þeir til Hóla með biskupsefni, Kolbeinn og Þorvarður, og klerkar hans sjálfs. Kolbeinn gaf honum uxa gamlan um myrgininn er þeir fóru og kvaðst skyldu hefja gjafar upp við hann. En hann þakkaði honum vel. Fara síðan um daginn út til Hóla og koma út um aftaninn fyrir Kolnismeyjamessu og er þá ger prósessía í mót honum.
En er þeir eru þar komnir tekur Kolbeinn ráð öll undir sig og búsfar að engu loforði biskupsefnis. Þar var þá fyrir Kygri-Björn að Hólum. En áður þeir kæmu til Hóla þá hafði Lambkár djákn ritagerðir Kolbeins allar jafnlega þá er hann var heima en þegar er hann kom til Hóla þá var hann að viðsjá hafður um ritagerð alla en Kygri-Björn er tekinn til bréfgerðar í staðinn og gerði Kolbeinn sér við öngan mann kærra en Björn. En Björn sló þegar fæð á við biskupsefni því að hann þóttist of lítils metinn af honum og spáði það þegar fyrir er síðar kom fram við Björn því að sjá öfund fæddist með honum og var þess að meiri er hún hafði lengur staðið.
Nú fer því fram um veturinn að Kolbeinn ræður þar einn öllu en biskupsefni var svo ráðum borinn að hann skyldi eigi ná að þar væru bróðursynir hans og gerði hann þeim bú á Kálfsstöðum að því er honum var gefið um sumarið. En Kolbeinn sat þar við sjöunda mann. Biskupsefni vildi og láta fá fátækum mönnum mat í tvö mál en Kolbeinn rak þá í gestahús og lét þeim gefa einmælt.
En geisladagsaftan kom Þórarinn bryti að biskupsefni og segir svo: Ekki ertu forvitinn um búsfar það er vér höfum með höndum.
Guðmundur svarar: Ekki þykir mér sá bestur að hlutast til og ráða engu.
Þórarinn mælti: Eg vil þó segja þér deili á. Eg hefi slíkan kost ætlað til jólavistar sem hér hefir lengi vant verið og hvern vetur fyrr kreppti að sjóða til jóla en hann hefir enst viku lengur og hefir þó aldrei mannfleira verið um jólin en nú.
Það er sýnt, segir Guðmundur, að Maríu þykir betra það er veitt er en Kolbeini.
Kolbeinn sat hjá og þagði. Þá gekk bryti í brott. Þá kom nautamaður og segir frá fjárfóðri því er hann hafði hendur yfir, að aldrei hafði honum jafndrjúgt orðið fóður sem þá.
En biskupsefni svarar hinu sama: Hver veit nema Maríu þyki betra er veitt er en Kolbeini?
Eftir jólin sendir biskupsefni mann, Þórð Vermundarson, að boða Hrafni Sveinbjarnarsyni til fundar við sig í Miðfjörð og vildi biskupsefni krefja hann til utanferðar með sér. En er að þeirri stundu leið bjóst biskupsefni heiman.
Og er hann var kominn í kerru sína þá gengur Kolbeinn að honum og mælti: Nú vil eg að við látum niður fæð þá er á hefir verið með oss í vetur því að það eitt er til og virði hvorigir við aðra.
Biskupsefni svarar: Ekki þykist eg til saka hafa gert. Er og vel ef þér hafið svo gert en ábyrgist sjálfir ef öðruvís er en yður þykir.
Kolbeinn svarar: Hvorigir munum vér einir valda. Svo verður oftast. Nú er líklegt að vér völdum meira af. Viljum vér af því biðja yður fyrirgefningar. Viljum vér og fyrirgefa yður ef þér hafið í nokkuru oftekjur haft.
Hann svarar: Góð eru orð góð og munu þar nú hvorirtveggju að sínum gerningi duldir því að eg dylst við að eg hafi hér við nokkuð oftekjur haft í vetur því að eg hefi eigi kosti átt.
Nú fer hann vestur í sveitir og gistir að Þingeyrum. Þar var nunna góð og skynsöm, einsetukona er Úlfrún hét. Hún var móðir Símonar prests hins mikla. Hún hélt svo ríkt einsetuna að hún vildi eigi sjá hann son sinn er hann sótti hana heim. Hún segir biskupsefni svo að María hafði það vitrað henni að guð, og hún, vildi að hann væri biskup og skaltu því eigi undan teljast ef þú vilt guðs vilja gera sem þú munt vilja því að það mun ætlað.
Þessi sögn þótti honum merkileg og vann á trúnað.
Hann fer síðan vestur í Miðfjörð og kemur að nefndum degi á Staðarbakka. Og hinn sama aftan kom þar Hrafn Sveinbjarnarson vestan að úr fjörðum sem á kveðið var.
Þar taldi biskupsefni langa tölu og merkilega drottinsdag og frétti ef nokkur væri sá þar kominn er þess manns vissi vonir að undir þann vanda vildi ganga er honum var ætlaður eða sá er honum vildi hnekkja þá vil eg feginn upp gefa ef það mætti verða með samþykki manna. En því treystist eg eigi að verða að því hnekkingarmaður. Og var á þeim fundi ráðin utanferð hans og Hrafns Sveinbjarnarsonar.
Af þeim fundi fara hvorirtveggju heim, biskupsefni norður til Hóla en Hrafn vestur í fjörðu.
Um veturinn hafði biskupsefni sent mann með bréfi austur til Svínafells. Það mælir svo:
Guðs kveðju og sína sendir Guðmundur er nú er kallaður electus. Sigurði Ormssyni og Þuríði.
Guð hefir miklar jartegnir gert að vér skyldum heit vort efna mega sem vér erum skyldir til við yður, að fá staðfestu. Nú em eg skyldugur þíns fulltings að eg hefi meira vanda játt á mig en eg sé til fær að bera. Nú býð eg ykkur til staðarforráða og fjárvarðveislu með mér og komið sem fyrst því að það gegnir betur staðnum og öllum oss.
Valete.
Nú fer hann austan eftir jól og hittast þeir biskupsefni á leiðinni er hann fer heim norður og fer Sigurður fyrir skjótara norður til Hóla. En er biskupsefni kom til Hóla þá var lagt í umræðu hverja kosti Sigurður skal hafa. Hann kveðst eigi vilja til ráðast nema honum væru handsöluð staðarforráð en biskupsefni var þess trauður að handsala en kveðst gefa mundu staðarforráð í hendur Sigurði. Þá báðu vitrir menn, Kolbeinn Tumason og Hafur Brandsson og margir aðrir, að biskupsefni skyldi heldur handsala Sigurði staðinn til forráða en hnekkja slíkum manni frá sem Sigurður var og þótti mönnum eigi mega betur fyrir sjá staðarforráðum en selja í hendur Sigurði og Þuríði. Og réðst það úr að hann handsalar Sigurði staðarforráð með sér.
Síðan fer Sigurður með bréfi biskupsefnis í Skálaholt til Páls biskups það er svo mælti:
Páli biskupi sendir kveðju guðs og sína Guðmundur prestur er nú er kallaður biskupsefni.
Eg hefi jást undir meira vanda en eg sé til fær að bera og haft ekki yðvart lof til sem vera ætti. Nú vil eg biðja yður á líta af guðs hálfu sem þér eruð skyldir til að segja hvað yður er næst skapi. Viljið þér annan mann kjósa til þessa vegs og vanda er eg hefi ómaklegur undir játast þá vil eg feginn upp gefa og frá fara því að eg verð þess var af nokkurum að þetta þykjast ofmælt hafa. Og hefi eg því ráðið Sigurð Ormsson til fjárforráða með mér að menn kvíddu við fjárforráðum mínum. Nú kjósið skjótt annaðtveggja mig til eða frá sem guð kennir yður og sendið mér bréf sem fyrst.
Valete.
En er Sigurður færir Páli biskupi bréf þetta þá sendir hann mann með bréfi austur í Odda til Sæmundar:
Páll biskup sendir kveðju guðs og sína Sæmundi bróður sínum.
Bréf biskupsefnis kom til mín að eg skyldi kjósa annan mann til biskups ef eg vildi. Hann læst búinn upp að gefa kosninginn. Hann hefir ráðið til Sigurð Ormsson til forráða því að menn uggðu það helst áður að fjárvarðveisla hans mundi eigi með forsjá. Eg þykist þess kenna í bréfi hans að hann mun ætla utan í sumar ef hann er eigi frá kosinn því að hann bað mig skjótt að kveða hvort eg vildi kjósa hann til eða frá. Nú vil eg að þú segir hvort eg skal að kveða.
Sæmundur sendi bréf í mót og mælti svo:
Páli biskupi sendir kveðju Sæmundur guðs og sína.
Veistu bróðir að Guðmundur biskupsefni hefir ekki mikill vin verið í málum vorum Sigurðar. En þó er hann mjög leyfður af mönnum og líklegt að því muni kosningur undir hann fallinn að það mun guðs vilji vera. Spyr eg að hann mun fyrir mart vel til fallinn, bæði gæsku sinnar og siðvendi og hreinlífis er mestu varðar. En ef nokkvað er annað í þá takið þér vanda af Norðlendingum að þeir ábyrgist sjálfir kjör sitt. En það er mitt ráð, kjós hann heldur til en frá því að eigi er víst hver líklegri er til að guði líki en sjá og er vænu best að hætta. Óráðið að sá finnist að ekki megi að finna. Einhlítir gerðust Norðlendingar að um kjör sitt. Beri þeir nú ábyrgð fyrir hve verður.
Nú kemur bréfið í Skálaholt. Þá sendir Páll biskup orð Þorvaldi Gissurarsyni og Halli og Magnúsi bróður hans og Sigurði Ormssyni og eiga þeir fund. Lýsir biskup yfir því fyrir þeim að kosningi var orpið undir hann og hann hafði ráðið fyrir sér að kjósa hann til biskups en eigi frá. Binda allir þeir þetta þá með fastmælum. Sendir biskup þá Sigurð Ormsson norður með bréfum til Guðmundar biskupsefnis.
Það mælti svo:
Páll biskup sendir kveðju guðs og sína Guðmundi biskupsefni.
Guð hefir kosið þig til biskups og vér, og ertu fastlega kosinn að guðs lögum og manna svo sem á þessu landi má fulllegast. Nú er guð og góðir menn hafa þenna vanda á þig lagt þá ber oss nauðsyn til að finna þig sem bráðast því að eg kenndi þess í bréfi þínu að þú munt ætla utan í sumar ef svo vill sem þú mundir kjósa. Nú vil eg koma til móts við þig þar er þú vilt en kunna þökk ef þú sækir mig heim en skylda þig eigi til því að eg á mörg nauðsynjaerindi til erkibiskups, þau er eg vil attú komir á minn fund áður þú ferð utan.
Valete.
Nú líður veturinn af höndum og eftir helguviku fer biskupsefni suður í Skálaholt að hitta Pál biskup og tekur með bréfum hans þeim er hann sendi til erkibiskups. Síðan fer hann heim til Hóla.
Þá kemur Sigurður austan og þau Þuríður og gera þann kost biskupsefni að þeirra skyldi ekki þverra og kölluðu það tvö hundruð hundraða. En það var allskonar fé bæði frítt og ófrítt og var því játað.
Guðmundur var búinn til skips með tíundavöru sína. En er hann var til skips kominn þá kemur Hrafn vestan Sveinbjarnarson og var búinn til ferðar sem þeir höfðu ætlað. Þar var og Tómas Ragnheiðarson og Ívar Jónsson, Grímnir munkur, Eyjólfur Snorrason. Fimmtán voru íslenskir menn.
Þeir létu út drottinsdagsmyrgin divisio apostolorum.
Biskupsefni hafði sendan Kollsvein Bjarnarson frá skipi norður um fjörð að sækja vatnskjöröld sín og kemur hann norðan að firði þá er skipið lét út og er orðinn strandarglópur. Þar koma þá að þrír menn róandi, Narfi úr Brekku, og voru komnir austan úr Flatey með skreið. Kollsveinn segir þeim til sinna vandkvæða og skorar á þá til flutningar.
Illa ertu við kominn, segir Narfi, og er þetta bæði þín nauðsyn og biskupsefnis og skal að vísu við þér verða.
Þeir kasta þegar föngum af skipi, taka við Kollsveini og föngum hans og róa út undir segli eftir firði. Tekur vindur að vaxa og gengur kaupskipið undan.
Narfi mælti er hann sér að undan bar hafskipið: Hversu langt róum vér nú eftir kaupskipinu áður þér þykir klækislaust eftir róið vorrar handar?
Hann svarar: Út í fjarðarkjafta þar til er haf tekur við.
Svo er jafnt, kvað Narfi, og skal svo vera.
En er kaupskipið kemur út að Hrísey tekur biskupsefni til orða: Nú skal lægja segl og vil eg eigi sigla frá manni mínum þeim er á landi er enda vil eg segja messu í dag í eyjunni.
Austmönnum var þetta mjög í móti skapi að ónýta svo hægan byr.
En hann segir að þeim mundi hefna og mun guð láta verða meiri seinkan farar vorrar en þetta.
En er þeir sjá að honum mislíkar þá var lagt segl og kastað akkeri. Gekk biskupsefni á land að segja messu. Nú þurftu þeir Narfi eigi lengra að róa og stígur Kollsveinn þar á skip.
En um myrgininn eftir var byr og vilja þeir heimta upp akkeri sitt og er það fast. Þar ganga til aðrir að öðrum og leita í alls þess er þeim kemur í hug og gengur eigi upp. Þá er sagt biskupsefni.
Hann gengur til og blessaði og mælti: Drottinn minn, leystu akkerið og tekur í strenginn.
Þá losnar akkerið. Síðan taka þeir til og er þá laust, sigla síðan til Grímseyjar og liggja þar viku. Þá kemur á byr og sigla þeir norður fyrir Núpa. Þá kemur andviðri og rekur þá aftur allt vestur fyrir Skaga. Þá léttir þeim rétti og komast þeir annað sinn norður fyrir Langanes og kemur þá enn andviðri og rekur aftur vestur í haf.
Þá dreymir konu um nótt á skipi þeirra að maður í biskupsbúningi gengi eftir skipinu og þar að er biskupsefni hvíldi og blessaði yfir hann. Hún þóttist vita að þar var Jón biskup.
Um daginn eftir bað biskupsefni að taka skyldi til segls og sigla vestur um landið því að ganga á landnyrðingar og mun eigi ganga vilja fyrir norðan landið.
Og var það ráðs tekið og sigla vestur um landið og svo fyrir Vestfjörðu og suður fyrir Snæfellsnes og svo suður fyrir Reykjanes, þá fyrir Eyjafjöll. Þá ganga á landnyrðingar og rekur þá suður í haf og verða varir við Suðureyjar og bera kennsl á og eru komnir við eyjar þær er Hirtir heita. Þar spurðu þeir andlát Sverris konungs.
Þá ber þá suður í Írlandshaf og suður fyrir Írland og höfðu storm veðurs og heyra grunnföll alla vega frá sér. Þá mælti biskupsefni að allir menn skyldu ganga til skrifta og kennimenn allir skyldu gera krúnur sínar og skyldi stofna heit. Svo var gert sem hann bauð. Þeir heita að gefa alin af sekk hverjum og gera mann til Róms og gefa hálfa mörk vax fyrir mann til kirkna.
Þá féll þegar veðrið og fengu byr til Noregs og fann biskupsefni Hákon konung í Björgvin og tók hann allvel við honum. Fór biskupsefni norður til Niðaróss og vígði Eiríkur erkibiskup hann til biskups.
Þann vetur er Guðmundur var fyrir kennimönnum að Hólum sendi Kolbeinn orð Sigurði mági sínum og Þuríði móður sinni jafnfram sem biskupsefni sendi sína menn austur til Svínafells. Bað hann þau og til ráðast með biskupsefni til fjárforráða og staðar. Hann segir þeirra sæmd mundu vera miklu meiri fyrir norðan en austur þar.
Seldu þau þá Svínafellsland og mannaforráð Jóni Sigmundarsyni bróðursyni Sigurðar. Hann átti Þóru hina eldri dóttur Guðmundar gríss og Solveigar Jónsdóttur og voru þeirra börn Ormur og Solveig er átti Skeggi í Skógum og Steinunn er átti Ögmundur Helgason. Þau Jón bjuggu á Valþjófsstöðum og seldu það land Teiti syni Odds Gissurarsonar. Hann átti Helgu Þorvarðsdóttur bræðrungu Guðmundar biskups.
Og þá er Jón reið brott af Valþjófsstöðum og suður á Öxarheiði snýr hann aftur hestinum og mælti: Hér skilst eg við Fljótsdalshérað og á eg nú hér ekki eftir.
Þá svarar Þóra kona hans: Þú átt eftir en eg á ekki eftir.
Þetta spámæli birtist á þann hátt að nokkurum vetrum síðar var sveinn sá kenndur Jóni í Fljótsdalshéraði er Þórarinn hét. Hann varð síðan mikill maður fyrir sér sem enn mun sagt verða.
Þetta sumar er kaup þessi voru réðust þau Sigurður og Þuríður til Hóla og voru þar tvo vetur. Þá buðu þau til fósturs Tuma syni Sighvats.
Þá er Guðmundur Arason var vígður til biskups og hann hafði einn vetur verið í Noregi fór hann til Íslands og heim til stólsins. Voru þeir Sigurður þar báðir um veturinn eftir.
Um vorið eftir bað Guðmundur biskup Sigurð að hann skyldi ráðast norður til Munka-Þverár og reisa staðinn er mjög var af sér kominn að húsum. Ormur faðir Sigurðar var systurson Bjarnar biskups er staðinn hafði sett á Þverá og andaðist Ormur þar munkur. Hafði Sigurður því elsku mikla á staðnum og fór til við bæn biskups og Orms ábóta frænda síns og sneri áleiðis að húsum og ganganda fé.
Bersi prestur hinn auðgi andaðist á því ári sem Brandur biskup. Tók Snorri Sturluson arf eftir hann. Ræðst hann þá til bús til Borgar og bjó þar nakkvara vetur.
Þá bjó Þórður móðurbróðir hans Böðvarsson í Görðum og átti þingmenn upp um Akranes og marga upp um hérað. Honum þótti Þórður Sturluson systurson sinn leggja þingmenn undir sig þá er honum voru næstir. Gaf hann þá Snorra hálft Lundarmannagoðorð og skyldi hann halda þingmenn fyrir Þórði og öðrum þeim er á leituðu. En er Snorri hafði tekið við þingmönnum þá þótti Þórði Böðvarssyni hann leita meir á sína vini en áður hafði Þórður bróðir hans á leitað.
Þá er Snorri Sturluson bjó að Borg kom skip í Hvítá, Orkneyjafar, og var stýrimaður Þorkell rostungur son Kolbeins karls bróður Bjarna biskups. Hann fór til Borgar um veturinn og lagðist lítt á með þeim Snorra. Lét Snorri taka mjöl fyrir honum um veturinn og lést sjálfur vilja ráða lagi á en Þorkell vildi ráða hve dýrt hann seldi varning sinn. Voru mjölin tekin úr útibúri en Þorkell stóð hjá og lét sem hann vissi eigi. En sá maður hét Guðmundur er mest gekk að og var djákn að Borg en átti bú í Þingnesi og þeir tveir bræður og Guðmundur hinn ungi er síðan átti Halldóru dóttur Snorra Ófeigssonar.
Sveinn Sturluson lá þá í banasótt sinni er mjölin voru tekin og tók illa er honum var sagt. Hann kvað eigi mundu tekin ef hann væri á fótum og kvað Snorra eigi mundu að sæmd verða þessa upptekt.
En of sumarið er Orkneyingar voru búnir til hafs vann Þorkell á Guðmundi djákn og særði hann til ólífis. En er Snorri spurði þetta sendi hann menn bræðrum sínum Þórði og Sighvati og koma þeir til Borgar. Eggjaði Snorri þá að þeir legðu að þeim kaupmönnum. Var Sighvatur auðveldur í því en Þórður latti heldur. En þó senda þeir upp í Hvítá, er Rosmhvelingar áttu þar ferjur tvær og fleiri drógu þeir skip að sér og söfnuðu liði.
En kaupmenn voru út við Seleyri og höfðu þá hvert fat á skipi og lögðu út í álinn og lágu þar um strengi. Sturlusynir lögðu að framan og vildu höggva strengina en kaupmenn höfðu reyrt járni við strengina og vörðust drengilega með skotum og grjóti og fengu Sturlusynir ekki að gert og urðu við það frá að hverfa.
En þeir Þorkell sigldu á haf og urðu afturreka um haustið á Eyrar. Þorkell reið frá skipi austur í Odda og hét á Sæmund til viðtöku og tók hann við Þorkatli og mest fyrir vináttusakir við Bjarna biskup föðurbróður hans. Snorri sendi flugumenn þrjá saman og komu þeir öngu fram. Fór Þorkell utan um sumarið eftir.
Þá er Snorri bjó að Borg bjó Magnús prestur í Reykjaholti. Hann átti Hallfríði dóttur Þorgils prests frá Stað. Brandur prestur og Ari prestur voru synir þeirra. Magnús prestur var son Páls prests Sölvasonar og var Páll eigi skilgetinn. Því þóttist Þórður Böðvarsson og son Helgu Þórðardóttur úr Reykjaholti vera næst erfðum um staðarvarðveislu í Reykjaholti og tvennir aðrir voru jafnkomnir til sem Þórður. En Magnúsi presti eyddust fé er hann tók að eldast en synir hans þóttu ekki færir til staðarforráða.
Snorri Sturluson felldi mikinn hug til staðarins og fékk heimildir af Þórði og þeim öðrum er erfðum voru næstir á staðnum. Síðan átti hann við Magnús prest að hann gæfi upp staðinn og sömdu þeir með því móti að Snorri skyldi taka við staðnum og þeim hjónum og koma sonum þeirra til þroska þess er auðið yrði.
Maður hét Egill Halldórsson. Hann var af Mýramanna langfeðgum. Hann var heimamaður Snorra þá er hann var í þessum ráðbrotum. Egil dreymdi að Egill Skalla-Grímsson kæmi að honum og var mjög ófrýnlegur.
Hann mælti: Ætlar Snorri frændi vor í brott héðan?
Það er satt, segir Egill.
Það gerir hann illa, segir draummaðurinn, því að lítt hafa menn setið yfir hlut vorum Mýramanna þá er oss tímgaðist og þurfti hann eigi ofsjónum yfir þessu landi að sjá.
Egill kvað vísu:
26
Seggr sparir sverði að höggva.
Snjóhvítt er blóð líta.
Skæröld getum skýra.
Skarpr brandr fékk þar landa,
skarpr brandr fékk mér landa.
Og sneri þá í brott en Egill vaknar.
Þau Herdís og Snorri áttu tvö börn þau er úr barnæsku komust. Hallbera var elst barna Snorra, þá Jón. Hann var fjórum vetrum yngri en Sturla Sighvatsson. Jón var lítill maður í barnæsku. Því var hann murtur kallaður.
Snorri Sturluson fór búi sínu í Reykjaholt eftir samning þeirra Magnúss prests. Gerðist hann þá höfðingi mikill því að eigi skorti fé.
Snorri var hinn mesti fjárgæslumaður, fjöllyndur og átti börn við fleirum konum en Herdísi. Hann átti son er Órækja hét við Þuríði dóttur Halls Órækjusonar. Hann átti og börn við Guðrúnu dóttur Hreins Hermundarsonar og komst Ingibjörg ein úr barnæsku þeirra barna. Þórdís var dóttir Snorra. Oddný hét hennar móðir.
Sæmundur þótti göfgastur maður á Íslandi þenna tíma. Hann hafði í Odda rausnarbú mikið en átti mörg bú önnur. Eigi var Sæmundur eiginkvæntur og fóru orð milli þeirra Haralds jarls Maddaðarsonar að mundi gifta honum Langlíf dóttur sína. Og var það milli að Sæmundur vildi eigi sækja brúðkaup í Orkneyjar en jarlinn vildi eigi senda hana út hingað.
Þau voru elst barna Sæmundar Margrét er átti Kolbeinn kaldaljós og Páll. Þau voru systurbörn Þorgríms alikarls. Sæmundur átti dóttur er Solveig hét við Valgerði Jónsdóttur Loðmundarsonar. Hún varðveitti bú að Keldum. Þar var og hið mesta rausnarbú. Vilhjálmur og Haraldur, Andrés og Filippus voru synir þeirra Sæmundar og Yngvildar Indriðadóttur. Hálfdan og Björn og Helga voru sér um móður. Þorbjörg hét þeirra móðir. Öll voru börn hans fríð og vel mennt.
Ormur Jónsson bjó á Breiðabólstað í Fljótshlíð bróðir Sæmundar. Hann var spekingur mikill að viti og hið mesta göfugmenni. Hann átti frillu er Þóra hét Eiríksdóttir systir Kolskeggs hins auðga í Dali. Jón var son þeirra en Hallveig dóttir. Ormur var vellauðigur að fé því að hann hafði af fé Kolskeggs slíkt er hann vildi því að Þóra var arfi hans en börn hennar eftir hana. Borghildur var enn frilla Orms og voru synir þeirra Sigurður og Andrés og margar dætur er enn mun getið verða sumra.
Í Skarði hinu vestra bjó Loftur son Páls biskups, hinn fríðasti maður, og þótti vænn til höfðingja. Ketill var yngri sona biskups og hinn vinsælli. Svo sagði Þorvaldur Gissurarson að sonum biskups væri ólíkt farið, kvað Ketil vilja mönnum hvaðvetna gott en Loft kvað hann mæla til manna hvaðvetna gott.
Sighvatur Sturluson bjó í Hjarðarholti nokkura vetur. Síðan keypti hann Sauðafell og fór þangað nautfellisvetur og bjó þar. Hann gerðist mikill höfðingi og vinsæll við sína menn. Með þeim Kolbeini Tumasyni var hin mesta vinátta með tengdum.
Kolbeinn réð þá mestu fyrir norðan land og hafði öll goðorð fyrir vestan Öxnadalsheiði til móts við Eyvellingagoðorð. En Þorsteinn Ívarsson gaf Snorra Sturlusyni Eyvellingagoðorð það er hann átti en Melmenn áttu sinn hlut.
Fyrir norðan Öxnadalsheiði áttu þeir goðorð Ögmundur sneis og Hallur Kleppjárnsson. Þorvaldur son Guðmundar hins dýra fékk Sigurði Ormssyni þau goðorð er hann hafði átt. Sigurður gaf þau goðorð Tuma syni Sighvats og komst Sighvatur svo að þeim síðan.
Þá er Guðmundur biskup kom út og hann tók forráð kennimanna og stjórn kristni fyrir norðan land urðu margar greinir með þeim Kolbeini Tumasyni, þær er sinn veg þótti hvorum, og varð með þeim mikið sundurþykki. Var biskup allt minni leiðingamaður og allt ráðgjarnari en þeir ætluðu.
Sigurður Ormsson var skamma hríð að Þverá áður Guðmundur biskup skipaði honum staðinn á Möðruvöllum. Var þá skipulega með þeim í fyrstu en grændist brátt. Tumi Sighvatsson var jafnan með Sigurði og dætur Arnórs Tumasonar tvær.
Með því upphafi reis deila með Guðmundi biskupi og Kolbeini Tumasyni og hans venslamönnum. Ásbjörn hét prestur sá er Kolbeinn hafði fyrir sökum um fornt fémál og kölluðu sumir menn þá fjárheimtu eigi réttlega. Nú sækir presturinn biskup að sínu máli en biskup þóttist eiga mál á prestinum en kallar hann frjálsan fyrir Kolbeini. Nú sækir Kolbeinn prestinn til dauða og útlegðar því að það var þá eigi fyrirboðið ef þeir fyrirnæmust rétt að gera. En er þeir véltu um dóminn á þingi þá gekk biskup til dóms við staf og stólu og fyrirbauð þeim að dæma prestinn en þeir dæmdu eigi að síður.
En annan dag eftir fyrirbauð biskup Kolbeini og öllum þeim, er í þessum dómi höfðu verið og þar höfðu eiðum vitni eða vætti borið, alla guðs þjónustu. Eftir þetta tekur biskup prestinn til sín en kona prestsins gaf Kolbeini fé til að bú þeirra skyldi í friði.
Um haustið eftir veitir Kolbeinn biskupi heimsókn og stefnir húskörlum hans skóggangsstefnum um samneyti við prestinn. Varð við þetta biskup svo styggur að hann bannsetur Kolbein.
Nú koma til vinir þeirra og vilja sætta þá og verða sáttir með því móti að Kolbeinn festi biskupi eindæmi bæði til skrifta og fégjalda. En bændur festu Kolbeini að halda upp fégjöldum slíkum sem biskup vildi gert hafa.
Um sumarið eftir á þingi gerði biskup gerð þessa við ráð Páls biskups og Sæmundar úr Odda tólf hundruð vaðmála á hendur Kolbeini. Það fé galst hálft en eigi hálft því að Kolbeinn vildi að biskup heimti að bóndum þeim er fest höfðu gjaldið en biskup vildi heimta að sjálfum Kolbeini er til handsala gekk við hann sjálfan.
Þetta sumar hið sama hafði Guðmundur biskup í stórmælum tvo höfðingja, Sigurð Ormsson og Hall Kleppjárnsson, fyrir það er þeir höfðu tekið mann úr munkaklaustri til meiðinga og limaláts. Þeir höfðu kúgað mikið fé af einum bónda og kölluðu það höfuðmund hans og höfðu sjálfir það fé allt. Hallur sættist við prest og vildi eigi biskups dóm á þessu máli. Og voru þeir nú í stórmælum.
Kolbeinn varaðist fyrst samneyti við þá en þó kom svo að hann og öll alþýða samneytti þeim. Og svo bönnuðu þeir kaup öll til staðarins og sölur.
En þessi mál lukust svo að um haustið Máritíusmessu sættust þeir Sigurður við biskup og lögðu sitt mál allt á biskups dóm. Kolbeinn situr hjá þessi sætt því að hann vildi eigi fé gjalda en biskup vildi þvílíka sætt af honum sem hinum. Nú kallar biskup Kolbein í banni af samneyti við þá Sigurð en Kolbeinn og öll alþýða metur það engis.
En um veturinn fyrir jól bannfærir biskup Kolbein að þeim tvennum sökum er hann hafði samneytt bannsettum mönnum og hann hélt fé því hálfu er biskup hafði gert á hendur honum.
Um vorið eftir páska veitir Kolbeinn aðra heimsókn að staðnum með átta tigu manna og stefnir til Hegranessþings skóggangsstefnum heimamönnum biskups, prestum, djáknum og leikmönnum og flestum fyrir litlar sakir. Biskup og hans menn voru á húsum uppi og var hann skrýddur og las hann bannsetning á norræna tungu svo að þeir skyldu skilja. Og ef Kolbeinn hefði þá verið verr stilltur í því sinni þá hefði þar bardagi orðið.
Kolbeinn fer þá í brott og kvað vísu:
27.
Báls kveðr hlynr að Hólum
hvern mann vera í banni
Gylfa láðs, þann er greiðir,
geðrakkr, fyrir mér nakkvað.
Trautt kann hóf, sá er háttar,
hoddlestir, vel flestu,
meðr eru af því aðrir
ósælir, stórmæla.
Og enn þessa:
28.
Bannar biskup mönnum,
ber stríð af því víða
lýða kind á landi,
löngum kirkjugöngur.
Geystr mun gegn að flestu
Guðmundr fara um stundir
Trautt má eg enn fyrir annan
enda sjá hvar lendir.
Um vorið dregur Kolbeinn lið saman um öll héruð til vorþings. Þá kom sunnan Þorvaldur Gissurarson og höfðu þeir mál fram á hendur mönnum biskups er Guðmundur biskup kallaði undirrót alls þess ófriðar er Kolbeinn gerði honum og hans mönnum. En þau voru orð á að þeir mundu af þinginu fara að biskupi með öllum flokkum þessum og taka menn þessa er þeir höfðu sekta. Þá fóru til vinir þeirra að leita um sættir. Og urðu sættir á þann hátt að öll mál skyldu vera undir erkibiskupi. Gáfu þeir Kolbeinn þá upp sektir allar en biskup tók þá alla úr banni.
Biskup hafði jafnan Kolbeins menn fyrir sökum um ýmsa hluti, tíundarmál eða kirkjufjárhald og um viðtöku við fátæka frændur sína. Bændur tóku því þunglega og virtu sem engir mættu vera í friði fyrir biskupi.
Nú bar svo til að klerkur einn sá er Skæringur hét, akolitus að vígslu og ósiðvandur að vopnaburð og klæðnaði. Hann var einhendur. Þenna höfðu Austmenn handhoggið að Gásum þá er Guðmundur hinn dýri mælti eftir hann. Þessi maður gat barn við konu en bræður hennar sóttu Kolbein að þessu máli. Klerkurinn sótti biskup að sínu máli en Kolbeinn kallar eftir og vill eigi biskups dóm. Biskup býður að gjalda sex hundruð fyrir málið og kallar það meir en tvö lögrétti en Kolbeinn neitar því og kvað ekki tjá að sættast við biskup, kallaði hann rjúfa hverja sætt.
Lætur Kolbeinn sækja klerkinn til sektar en biskup forboðar Kolbein og alla þá er að dómi höfðu verið. En hálfum mánuði síðar höfðu þeir Kolbeinn og Sigurður féránsdóm eftir klerkinn og tóku upp féið.
En er biskup spyr þetta þá bannsetur hann þá báða því að honum var féið handsalað. Biskup var heima um alþingi en þeir Kolbeinn og Sigurður sækja þingið og samneyta menn þeim en þeir öðrum. Þeir sekja sex heimamenn biskups um bjargir við klerkinn.
Eftir þingið safnar Kolbeinn liði um öll héruð og ætlar að heyja féránsdóm að Hólum eftir þá sem sekir voru kallaðir og taka upp fé þeirra. Biskup var fáliður fyrir á staðnum og báðu menn hann undan ríða, sögðu ósýnt hver friður gefinn væri mönnum hans. Biskup var þess trauður en gerði þó fyrir bæn vina sinna og fór norður í sýslu sína.
Hann mat engis sekt manna þeirra er Kolbeinn hafði sekta, lét þá ganga í kirkjur sem frjálsa menn. Þeir Kolbeinn gerðu og svo, gengu í kirkjur allir þeir er biskup kallaði bannsetta. Prestar tóku það upp er þeir héldu lengi síðan að samneyta þeim er biskup bannsetti, bæði í þjónustugerð og öðrum hlutum. Þeir sungu og eigi að síður messur að biskup bannaði þeim eða bannsetti þá fyrir þvílíka óhlýðni.
En er á leið sumarið og biskup vendir aftur, dreif þá til hans mart manna. Var þar fyrstur manna Ögmundur sneis frændi hans og margir aðrir röskir menn voru með biskupi, Vigfús kennimaður Önundarson, Konáll Sokkason og margir aðrir. Gerðist hann þá fjölmennur mjög því að þau voru orð óvina hans ef hann færi á staðinn með sekja menn að þeir mundu drepa þá er sekir voru. En þeir þorðu eigi við hann að skiljast er sér vissu eigi annað traust.
Þá er þeir biskup fóru norðan um Eyjafjörð hljópu nokkverjir óspektarmenn úr flokki biskups til Gása og rændu útlenda menn þá er biskup kallaði í banni að samneyti við Kolbein og Sigurð. En er þeir biskup og Ögmundur urðu þess varir þá réttu þeir mesta hluta ránsins. Síðan fer biskup með flokkinn heim á Möðruvöllu og hafði í brott skrín og helga dóma og bækur nakkverjar því að honum þótti ómaklega komnir helgir dómar þeir er bannsettir menn varðveittu. Arnór Tumason var þar fyrir með Sigurði og mart manna.
Nú ríður biskup brott en þeir gera orð Kolbeini, kalla nú að biskup hefji rán og hernað. Nú draga hvortveggi flokka saman, Sigurður og Arnór og Hallur Kleppjárnsson en í öðrum stað Kolbeinn og ætluðu allir að biskupi sem þeir gerðu.
Biskup kemur heim á staðinn snemma kirkjudag sinn og syngur þar messu. En um daginn eftir var Maríumessa hin síðari og vill biskup þar gera þjónustu þann dag því að Maríu er staður helgaður.
Þann dag kemur Kolbeinn með aukin þrjú hundruð manna og settist um staðinn.
Þá fóru menn í milli þeirra að leita um sættir. Var það svo þvert af Kolbeini að hann vildi ekki annað en þeir menn er sekir voru væru fengnir í vald hans en biskup vildi eigi selja menn sína undir öxi ef þeim væri eigi friði heitið. Ögmundur átti allan hlut í að skirra vandræði en draga saman sáttina er hvortveggi var hans venslamaður. En með því að Kolbeinn var óleiðingasamur þá var þess leitað að biskup skyldi ríða af staðnum í friði með menn sína. En Kolbeinn játti því eigi. En þó tóku þeir biskup og Ögmundur það ráð því að mönnum þótti sem þannig mundi helst óhæfa við berast.
Maríumessukveld var hringt á staðnum öllum klukkum til aftansöngs og er svo sagt að þeir Kolbeinn heyrðu eigi klukknahljóð. Nú ríður biskup af staðnum við þrjú hundruð manna. Með honum voru þrír ábótar og tveir munkar, nær fjórir tigir presta og mart klerka. Þar var og mart röskra manna og sumt strákar og stafkarlar og göngukonur.
Nú er þeir Kolbeinn sjá að þeir biskup ríða í brott tók til orða Brúsi prestur: Kolbeinn, þar ríður biskup nú brott með virðing ykkra beggja.
Kolbeinn bað menn taka hesta sína, lést eigi þola mega að biskup riði brott með skógarmenn hans. Hann ríður fyrir á veginn við fjögur hundruð manna og fylkir liðinu. Biskup víkur þá af vegnum og vildi ríða fram annars staðar. Þeir Kolbeinn snúa þar í mót.
Og er flokkarnir mætast slær þegar í bardaga. Biskup sat á hesti og með honum ábótar og nakkverjir prestar og kallaði að eigi skyldi berjast. Að því gáfu engir gaum.
Bersi Vermundarson frá Móbergi gekk fram fast og spurði að Ögmundi. Naddur hét fylgdarmaður Ögmundar. Hann ræðst í mót Bersa. Fóru þeirra skipti svo að Bersi vegur Nadd.
Ögmundur mælti: Fast gengur þú nú fram Bersi.
Það skaltu finna, segir Bersi, að eg skal ganga enn nær þér.
Þá snýr Ögmundur í móti Bersa og hjó hann banahögg.
Biskupsmenn börðust alldjarflega, Konáll Sokkason, Sveinn Jónsson, Vigfús kennimaður og margir aðrir.
Kolbeinn fékk steinshögg í ennið. Það var banasár og féll hann við og hafði þó vit til að beiðast prestsfundar og vildi biskup að hann næði því. Svarði Kolbeinn þá sættareið og var hunslaður og dó síðan. Ekki varð víst hver steinum hafði kastað.
Þar féll með Kolbeini Brúsi prestur, Þórður prestur Einarsson, Bersi, Böðvar Tannsson, Eyjólfur Halldórsson, Glúmur, Styrbjörn, Björn Steinþórsson, Starri Sveinsson. En af biskupi féll Naddur Þórarinsson og Einar Ólafsson. En annað lið Kolbeins allt flýði það er mátti fyrir sárum. Sumir gengu slyppir á vald biskups og svörðu honum eiða, festu í hans dóm skriftir og fégjald.
Nú sjá biskupsmenn hvar fer flokkur þeirra Sigurðar og Arnórs og snúa þegar í mót þeim. Þeir höfðu nú vopn Kolbeins manna. Þeir Sigurður snúa undan og aftur en biskupsmenn eftir og heldur tómlega í fyrstu því að sumir löttu en sumir fýstu eftirreiðar.
En aðra nótt eftir þá er þeir Sigurður og Arnór urðu varir við að flokkur biskups var mjög eftir þeim kominn þá leyndust þeir Sigurður og Arnór fjórir samt frá flokkinum og riðu suður of Kjöl og voru þar þann vetur með frændum sínum og mágum. En Hallur Kleppjárnsson og flokkurinn gengu til sætta við biskup og játa með eiðum hans dómi hver á sínu máli.
Kolbeinn hafði stefnt til móts við sig og aðfarar við biskup Þorvaldi Gissurarsyni. Hann frétti lát Kolbeins á Kili og sneri þaðan aftur. Hann fann Snorra Grímsson frænda þeirra biskups og Ögmundar, vitran mann og vinsælan, súbdjákn að vígslu. Þorvaldur lét taka hann og hafði ætlað mann til áverka við hann og varð þeim bilt. Þá hljóp að Klængur son Þorvalds, messudjákn, og hjó hann banahögg.
Nú er biskup að stóli sínum um veturinn og býður erkibiskups dóm á öllum málum þessum. Því var ekki játað. Ögmundur bauð þá sem jafnan hafði hann fyrr boðið sinn fjárhlut til sætta með þeim og margir aðrir.
Biskup leggur nú gjald á þá menn er að honum höfðu farið, þrjú hundruð vaðmála á mann eða fimm eða tíu svo sem sakir þóttu honum til. Á einn mann lagði hann tuttugu hundruð. Biskup sendir menn sína að draga saman fé þetta og treystust þeir eigi allfámennir að fara. En þeir er fyrir voru þorðu eigi annað en gjalda slíkt er þeir kröfðu og kölluðu rán. Nú var illur kurr í bóndum, þóttust hafa látið höfðingjann og farið sjálfir sneypu, látið frændur sína og vini en sumir limu og gjalda fé á það ofan. Kalla þeir þetta allt hernað og rán.
Hinir ylmast því meir er yfir fara með flokkum, gefa aðrar sakir hjá fram bóndum. Þeir ganga og yfir bú þeirra Sigurðar og Arnórs og gera marga hluti þá er biskup bauð þeim eigi, heldur bannaði hann þeim. Þeir brenndu bæ einn og unnu á nokkverjum mönnum þeim er þeir þóttust sakir við eiga og þeim þótti um sitt líf sitja og einn mann drápu þeir. Og drepinn var og prestur einn af þeim. En það sem biskupsmenn gerðu óspaklegt þá kenndu bændur það allt biskupi.
Biskup kallar bændur í sama banni sem áður þeir sættust því að þeir vildu ekki gjalda það er þeir höfðu fest og svarið og vildu allt í mót honum það er þeir máttu sem síðan gaf raun á. Þeir voru margir er stukku norðan í Dali til Sighvats Sturlusonar og kærðu fyrir honum sín vandræði.
Um veturinn eftir jól fæddi Þóra Guðmundardóttir kona Þorvalds í Hruna sveinbarn. Töluðu menn við Þorvald að hann skyldi láta kalla eftir Kolbeini.
Þorvaldur svarar: Eigi mun minn son verða jafnvel menntur sem Kolbeinn. En þó hafa það vitrir menn mælt að menn skyldu eigi kalla syni sína eftir þeim mönnum er skjótt verða af heimi kallaðir. Mun eg son minn láta heita Gissur því að þeir hafa lítt auðkvisar verið í Haukdælaætt sem svo hafa heitið hér til.
Þenna vetur er á leið fóru menn milli þeirra höfðingjanna með þeim ráðagerðum að þeir skyldu draga flokka að biskupi. Þar var Þorvaldur Gissurarson og Arnór Tumason, Jón Sigmundarson, Sighvatur og Snorri Sturlusynir, Magnús Guðmundarson, Þorvaldur Vatnsfirðingur.
Sighvatur sendi orð Þórði bróður sínum og fundust þeir í Hítardal. Bað Sighvatur Þórð til ferðar við sér. Þórður spurði hverju hann skyldi ráða ef hann færi.
Hví muntu eigi ráða því er þú vilt, segir Sighvatur, eða hve fjölmennur muntu vera?
Með fimmta mann, segir Þórður.
Hvað skal mér þú heldur en annar maður ef þú ert svo fámennur?
Þú sérð það, segir Þórður.
Sighvatur var þá reiður og hljóp á bak og skildi þar með þeim. Og sagði Þórður svo að síðan þótti honum aldrei hafa orðið frændsemi þeirra slík sem áður.
Um veturinn eftir bardagann í Víðinesi voru dreymdir draumar margir. Það dreymdi mann í Skagafirði að hann þóttist koma í hús eitt mikið. Þar sátu inni konur tvær blóðgar og reru áfram. Honum þótti rigna blóði í ljórana.
Önnur kvað konan:
29.
Róm við og róm við,
rignir blóði,
Gunnr og Göndul
fyrir guma falli.
Við skulum ráðast
í rekka lið
þar munum blótaðar
og bölvaðar.
En í Vestfjörðum dreymdi mann að hann þóttist kominn í litla stofu og sátu upp menn tveir svartklæddir og höfðu gráar kollhettur á höfði og tókust í hendur. Sat á sínum bekk hvor og reru svo hart að þá reiddi til falls og ráku herðarnar á veggina.
Þeir kváðu vísu þessa og kvað sitt orð hvor þeirra:
30.
Höggvast hart seggir
en hallast veggir,
illa erum við settir
þá er inn koma gráir hettir.
Verk munu upp innast
þá er aldir finnast,
engr er á sómi,
á efsta dómi.
Um vorið eftir páska draga þeir sjö höfðingjar er áður voru nefndir flokka saman og fóru að biskupi. Þorvaldur Vatnsfirðingur var við þrjá tigu manna og gengu þeir allir. Hann hafði öxi í hendi og studdi ekki niður skaftinu er hann fór norður eða norðan. En er flokkarnir komu saman höfðu þeir sjö hundruð manna er biskupi veittu heimsókn á staðinn.
Biskup hafði fátt lið fyrir utan heimamenn sína því að menn gengu mjög undan honum og vilja nálega ekki veita honum. Ögmundur vildi til og veita honum og komst eigi því að flokkur var ger í mót honum. Hann komst undan en þeir tóku skjöld hans úr kirkju og hesta hans svo að hann gat hvergi farið. Þeir Sigurður og Hallur voru fyrir þeim flokki.
Þá er flokkarnir riðu á staðinn voru biskupsmenn á húsum uppi og höfðu búist þar til varnar. Þar var mart röskra manna. Gengu höfðingjar um bæinn og hugðu að hvar auðveldlegast væri að að sækja. Þórður Böðvarsson lagði það til að þeir skyldu um kveldið æpa heróp en ganga eigi að fyrr en um myrgininn og lést ætla að þá mundi þunnskipaðra á húsunum en um kveldið. Það fór svo sem hann gat að margir menn leyndust frá biskupi, sumir til óvina hans en sumir annan veg í brott svo að fátt var eftir um myrgininn. Þá gengu þeir í kirkju er sér þótti óvænt til griða.
En er fátt biskupsmanna var eftir hljópu þeir á þá til bardaga. Þorkell prestur Bergþórsson er naddur var kallaður varðist alldrengilega og féll þar á húsunum. Þar voru fleiri menn drepnir en sumir í húsum inni. Einn drápu þeir í kirkjugarðinum svo að blóðið hraut á kirkjuna. Sex menn létust þar af biskupsmönnum. Arnór lét og sex menn. Síðan hljópu þeir í hús inn og brutu upp hurðir og hirslur, lok og lása, að leita manna.
Nú gera þeir Arnór biskupi tvo kosti. Annan að hann skyldi taka þá úr banni en þeir mundu gefa grið sumum þeim er í kirkju voru en biskup skyldi fara af staðnum og koma þar aldrei síðan, ella mundu þeir drepa þá alla er í kirkju voru og eira öngu vætta en hafa þó biskup af staðnum svívirðilega. Biskup kaus hvorngan kost, sagðist ekki mega leysa þá. Það varð við bæn þeirra er dauðamenn voru að biskup vann það til lífs þeim að hann las yfir þeim Miserere og segir þeim að þá voru þeir eigi lausari en áður. Eftir þetta býður Snorri Sturluson biskupi til sín og fór biskup þann dag brott með Snorra.
En er biskup var í brottu gengu þeir Arnór í kirkju með vopnum og eggjuðu út þá er inni voru og þeir þóttust mestar sakir við eiga ella kváðust þeir mundu sækja þá eða svelta þá í kirkjunni.
Þá mælti Sveinn Jónsson: Gera má eg kost á út að ganga.
Þeir spurðu hver sá væri.
Ef þér limið mig að höndum og fótum áður en þér hálshöggvið mig.
Og þessu var honum játað. Gekk hann þá út og allir þeir því að þeir vildu eigi að kirkjan saurgaðist af þeim eða blóði þeirra. Allir gengu slyppir út. Var Sveinn þá limaður og söng meðan Ave María. Síðan rétti hann hálsinn undir höggið og var allmjög lofuð hans hreysti sem guð hjálpi honum. Þar var og hálshogginn Skæringur klerkur og hinn þriðji sekur maður.
Þessir höfðu áður látist af biskupi: Þorkell prestur, Leifur Þorgeirsson, Bárður og Steingrímur, Handar-Leifur, Einar Hallvarðsson og Þórarinn og er nú taldur sá er í kirkjugarði var drepinn. En af hinum er til sóttu létust þessir: Bergþór og Gissur, Sigmundur og Svalur, Einar birkibeinn, Símon.
Þeir er sekir voru voru færðir í urð og lágu þar tvo mánuði. En sína menn þá er þar féllu án iðran og lausn grófu þeir að kirkju og kölluðust það allt líkja eftir biskupi er hann lét seka menn í kirkju ganga. Biskup lét og einn mann er fallið hafði af Kolbeini iðrunarlaus eigi að kirkju liggja mánuð.
Mörgu var þar rænt og stolið því er staðurinn átti og það er menn áttu í hestum og húsbúnaði og því flestu er utan kirkju var.
Þá er manndrápum var lokið tóku höfðingjar til sín menn þá er þeim líkaði og gáfu grið. Gerði því nokkvað hver í þrá öðrum. Sighvatur gaf grið Konáli Sokkasyni en Snorri Vigfúsi kennimanni. Þeir voru flestir af hinum stærrum mönnum að nokkvern mann tóku til sín.
En er biskup var í brottu af héraði gerðu þeir Arnór alla vega orð frá sér og létu presta taka menn alla úr banni og tíðir að syngja og gera alla þjónustu bæði þar á staðnum og að öllum kirkjum og sögðu það biskups leyfi.
Alla þá menn er biskupi höfðu fylgt eða fullting veitt kúguðu þeir til sjálfdæma við sig, svo vígðan sem óvígðan, og leggja fégjald á, þrjú hundruð eða fimm eða tíu eða tuttugu hundruð, þrjá tigu hundruð eða sex tigu. Ögmundur lét hundrað hundraða og héraðsvist áður létti. Fór hann þá austur í Hofsteig. Suma menn gerðu þeir útlaga bótalausa. Fjórir góðir menn, prestar tveir og leikmenn tveir, voru til járns færðir um það að þeir hefðu eigi unnið á Kolbeini og urðu allir vel skírir um það mál.
Nú setjast þeir Arnór og Sigurður yfir staðinn auk alla staðarins eign og skipa mönnum til að taka tíundir biskups og allar hans eignir.
Um vorið eftir sendir biskup bréf sín til staðarins og bað læsa kirkju og kallaði hana saurgaða bæði af manndrápi og grefti bannsettra manna. Var og svo gert. Þá var tjald reist utan kirkjugarðs og þar messur sungnar. Þeir Arnór og Sigurður þola eigi að kirkjan sé tíðalaus, fara til og þröngva prestum til að syngja í kirkju og eigi messur fyrst en litlu síðar var þar framið öll þjónusta og lík jörðuð.
Aumleg og hörmuleg kristni var þar þá að sjá. Sumir prestar lögðu messusöng fyrir hræðslu sakir við guð, sumir frömdu fyrir hræðslu við höfðingja, sumir að sínum sjálfvilja. Höfuðkirkjan, móðirin, sat í sorg og sút og sumar dæturnar með henni en sumar glúpnuðu yfir hennar harmi. Lifði hver sem lysti en engi þorði um að vanda né satt að mæla.
Guðmundur biskup var í Reykjaholti um veturinn með Snorra. Um vorið fór hann norður til Hrútafjarðar og ætlaði á skipi norður til staðarins eða allt til Austfjarða.
En er þeir Arnór fregna það þá safna þeir liði saman og ætla að biskup muni ætla að setjast á staðinn. Þeir setja menn fyrir hjá höfnum þeim er líkast þótti til að biskup mundi lenda. En Arnór ætlar að snúa flokkinum til móts við biskup þegar hann fréttir til hans.
En er biskup fréttir liðsdráttinn vendir hann aftur og fer á skipi til Steingrímsfjarðar. Fréttir hann þá meðferð prestanna og tíðagerð, bæði á staðnum og annars staðar. Biskup bannsetur þá alla presta er messur höfðu sungið í óleyfi hans og áttu allt samneyti við bannsetta menn. Biskup fer um sumarið yfir Vestfjörðu en um veturinn var hann á Breiðabólstað í Steingrímsfirði með Bergþóri Jónssyni og urðu þar margir hlutir þeir er frásagnar væru verðir og jartegnum þótti gegna þótt hér séu eigi ritnir, bæði það er biskup átti við flagð það er þeir kölluðu Selkollu og mart annað.
Prestar fara sínu fram um þjónustugerð sína hvað sem biskup sagði og höfðu helst ráð um sinn vanda við Gunnlaug munk er mestur klerkur og góðviljamaður þótti vera þar í sveitum.
Um vorið eftir var fundur lagður með þeim biskupi og Arnóri til sátta. Bauð Arnór marga kosti sæmilega en þó vildi hann eigi að biskup færi á staðinn svo að hann réði meira en klerkum og tíðum.
Um sumarið eftir fór biskup vestan við tuttugasta mann og kemur í Eyjafjörð á óvart til Halls Kleppjárnssonar og tekur hann vel við biskupi því að þeir höfðu sæst áður. Nú frétta þeir Arnór þetta og draga lið saman og svo þeir Hallur og biskup í móti. Þeir fundust og varð svo til gætt að þeir skildu óhappalaust en sætt varð engi. Ventu þeir Hallur og biskup undan og vildu eigi ófrið. Fer biskup þá norður í sýslu sína og syngur messur í tjöldum en eigi í kirkjum meðan eigi var höfuðkirkjan hreinsuð.
Þá koma út bréf Þóris erkibiskups svo mælandi:
Þórir erkibiskup sendir hörmungarorð og heilræða Arnóri Tumasyni, Sigurði Ormssyni, Þorvaldi Gissurarsyni, Jóni Sigmundarsyni, Halli Kleppjárnssyni, Snorra Sturlusyni.
Sannlegt þykir oss að byrja bréf vort og erindi af hörmung og heilræðum því að svo sem vér eigum að fagna yðrum fagnaði svo eigum vér og að ófagna yðrum ófagnaði eftir því segir Páll postuli: Gaudete cum gaudentibus et flete cum flentibus. Fagna þeirra fagnaði er fagnað gera guði en gráti hina er við hann gremjast.
En eftir guðs orðum sjálfs þá gremst sá við guð er við hans erindreka gremst, það er biskupa og presta. Hann segir sínum postulum: Qui vos audit me audit, qui vos spernit me spernit. Sá er yður hlýðir hann hlýðir mér en sá er yður fyrirlítur hann fyrirlítur mig. Sömu orð taka til vor því að þeir eru vorir feður en vér þeirra synir sem propheta segir: Pro patribus nati sunt tibi filii. Þá kenning kennum vér er þeir lærðu oss og með sömu umbun ef vér flytjum vel, með sömu gjöldum ef vér flytjum illa. Háleitur er vor vandi ef vér þegjum eða hegnum eigi glæpa því að ef vér gerum það þá er týnd sál hins synduga en guð heimtir hana af oss og er ólíkur kostur að falla í nakkverja gremd við mennina hvegi máttugir er þeir eru eða grimmir heldur en gremjast við guð.
En héðan spyrst hörmulegur grimmleikur og fátíður, guði og öllum guðs lögum gagnstaðlegur er Guðmundi biskupi er veittur ef sá er vöxtur á er margir segja að ólærðir menn hafa hann fyrirdæmdan, þar sem engi maður á á honum dóm nema páfinn og vér af hans hendi, og hann nú settur af sínu biskups ríki, hættur af mörgum sálum til ábyrgða, menn af honum drepnir og nokkur prestur í þeirri tölu en þann vanda á engi að leysa nema páfinn sjálfur aðrir og á móti teknir.
Nú er þar komið að þessur mein verða aldrei með orðsendingum slökkt. Vér höfum þess freistað og hafa yfirbætur frestast og veldur því vansi trúar, ofkapp og þrályndi þeirra er í illu þrályndast. En þá er vér leitum við að rannsaka hvaðan þessar sakir rísa eða hverjir með kapp leita við heldur að næra þessi mein en slökkva þá vísa sumir sökum í einn stað, sumir í annan. Og sjáum vér fyrir því ekki annað heldur í þessu máli en biskup sæki á fund vorn og þeir með honum er hér eru á nefndir. Það bjóðum vér og undir hlýðni guði til þakka, heilagri kristni til frelsis, syndum yðrum til lausnar og öllum landslýð til þurftar að þér sækið að sumri á vorn fund en vér skulum alla stund á leggja að ósætt falli, sætt rísi, sálur hjálpist og langær friður standi í þessu landi. Til langra meina mun standa eftir því sem guð kennir oss ef þetta ráð er fyrirlitið. En þér Arnór og öðrum þeim er þú hefir yfir guðs eigu og biskups setta, þá bjóðum vér þeim af guðs hálfu fastlega í hlýðni að þér fáið honum af staðarins eign svo mikið góss að hann megi sæmilega utan fara og hvorki kenni hann hneisu í utanferð né afturhvarfi. En ef þér afrækist þetta vort boð þá vitið það fyrir víst að yðvar vandi skal aukast margfaldlega.
Nú kyrrast þeir Arnór við bréfin. En biskup fór til Hóla um haustið og sat þar í friði um veturinn að kalla og eigast þeir Arnór ekki við þann vetur. Þá ganga margir menn til sætta við biskup.
Þann vetur er Guðmundur biskup var í Steingrímsfirði andaðist Páll biskup þriðja kalendas decembris en kjörinn var til biskups Teitur Bersason, systurson Þorvalds Gissurarsonar og fór Þorvaldur utan við honum. Teitur andaðist í Noregi og varð eigi biskup. Þá andaðist Guðmundur hinn dýri og Jón Sigmundarson.
Í þenna tíma bjó Kálfur Guttormsson á Grund í Eyjafirði. Hann átti Ósk Þorvarðsdóttur hins auðga. Guttormur hét son hans en Jórunn dóttir. Kálfur þótti þá mestur bóndi í Eyjafirði.
Þá bjó að Hrafnagili Hallur Kleppjárnsson. Hann átti Ingibjörgu dóttur Guðmundar hins dýra. Einar og Kleppjárn voru synir þeirra.
Með þeim Halli og Kálfi var óþokki mikill. Varð þeim mart til. Hafði Hallur þá mannaforráð í Eyjafirði. Þótti honum Kálfur ekki trúr að leita á þingmenn sína. Þeir deildu og um hvalmál nokkur og færðu það til alþingis og var hvortveggi hinn mesti fulltingsmaður síns máls. Þótti það æ sannara er sá talaði er þá flutti sitt erindi en þó fengu þeir ekki samið því að þeim varð mart til. Hrafngilingar ortu mart um Kálf og gerðu að honum spott mikið.
Þetta var kveðið:
31.
Vetrungs fæðist efnið eitt,
öllum er það mönnum leitt.
Tvennar liggja til þess bætr,
tveir einir eru undir fætr.
Helsti hefir það lengi lifað,
láti menn það höndum þrifað.
Ekki er það sem annar smali,
engi er skaptr við arsinn hali.32.
Reið eg fyrir dyr og dúðag,
dyns háskutil brynju,
eldr lék Yggs und skildi
óskjálfandi, Kálfi.
Mælt vara gott þá er geltu
Grundarmenn sem hundar,
þyss var í þrælum Kusla
þeim í virki heima.
Og enn:
33.
Hefir um hrepp hinn efra,
hann er ger að þrotsmanni,
það er kotmanna kynni,
Kálfr matgjafir hálfar.
Í þenna tíma báðu þeir Arnór Tumason og Sigurður Ormsson Sighvat Sturluson að hann skyldi ráðast norður þannig í sveit. Vildi Sigurður að Sighvatur tæki við goðorðum þeim er hann hafði gefið Tuma syni hans en Arnór hafði þá lýst utanferð sinni af málum þeirra biskups. Sigurður bjó þá á Möðruvöllum í Hörgárdal og voru þau Sighvatur og Halldóra þar jafnan á kynnissókn.
Og eitt sinn er Sighvatur var á Möðruvöllum kom Kálfur Guttormsson að finna hann og kærði fyrir honum missætti þeirra Halls. En Sighvatur lét sér fátt um finnast og kvaðst ekki vilja fýsa Kálf vandræða en lést honum veita skyldu hvað er honum kynni til handa að bera og mæltust þeir vel við að skilnaði.
Það varð fimm vetrum eftir bardagann á Hólum á jólaföstu að Kálfur varð þess vís að Hallur Kleppjárnsson átti ferð til Munka-Þverár. Þangað fór og of daginn Jón Eyjólfsson er átti Valgerði systur Kálfs. Hann bjó í Möðrufelli og er það sumra manna sögn að það væri ráð þeirra Kálfs beggja. Kálfur fór um daginn síðar og við honum Þorbjörn kúlunef móðurbróðir hans er bjó í Núpufelli og þeir Steingrímssynir, Eldjárn prestur og Þorgeir. Þeir voru dóttursynir Tuma Kolbeinssonar. En er þeir komu til Þverár gengu þeir Hallur Kleppjárnsson tveir neðan á völlinn. Sneru þeir Kálfur þegar að móti þeim og sættu áverkum við Hall en hann hörfaði undan og varði sig.
Menn voru úti á bænum og talaði Austmaður einn um hvort menn berðust þar á vellinum niðri.
Jón Eyjólfsson svarar: Skylmast menn þar.
Og varð því ekki til hlaupið er hann tók þannig á.
Þeir Kálfur unnu allir á Halli og lét hann þar líf sitt. Sneru þeir Kálfur þá í brott og fór hann heim á Grund um kveldið. En heimamenn að Þverá bjuggu um lík Halls.
Kálfur stefnir að sér vinum sínum og frændum og hafði fjölmennt á Grund og leið svo fram til jóla. Synir Halls voru ungir og var Klængur bróðir hans vígssakaraðili.
Þá er víg Halls spurðist vestur í Dali til Sauðafells segja menn að Sighvatur Sturluson kvæði vísu þessa:
34.
Nú spurðum vér norðan,
náir hrafn af því tafni,
heift hefir her fyrir giftu,
Hall Kleppjárnsson fallinn.
Þar er Eyfirðings orðið
allmargs hins forsnjalla,
gunnmána hné grennir
geðhraustr, lokið trausti.
Jóladaginn fyrsta spurði Kálfur þau tíðindi að Klængur Kleppjárnsson væri kominn á Espihól með flokk manna og gekk þar til matar. Kálfur sendi þá menn til Möðrufells og víðara á bæi að stefna mönnum að sér.
Guttormur Jónsson hljóp þegar ofan til Grundar er orðsendingin kom. Þeir Klængur voru þá komnir á bæinn. Guttormur hljóp að virkinu og langt upp í vegginn svo að öxin náði á virkið og las sig svo upp.
Þeir Kálfur voru fyrir í virkinu og bjuggust fyrir til varnar, bæði konur og karlar. Þeir Klængur sóttu að og höfðu á öðru hundraði manna. Fengu þeir Kálfur lítt vörn við komið fyrir liðfjölda sakir og stukku þeir úr virkinu og inn í húsin. Urðu nokkurir menn sárir af Kálfi. Einn maður hljóp í kirkju og var sá særður af Klængs mönnum innar við reiðustól.
Menn áttu hlut í að sætta þá og hlýddi Klængur á það. Kom þar ekki öðru við en Kálfur seldi sjálfdæmi fyrir víg Halls og skildu þeir við það.
Klængur gerði gerð þessa um vorið, tvö hundruð hundraða fyrir vígið. Kálfur skyldi vera utan þrjá vetur og héraðsekur úr Eyjafirði. Þetta fé galt Kálfur allt sem gert var og fór utan og gekk suður og tók lausn allra sinna mála, hélt og alla sætt vel.
Um sumarið eftir víg Halls búast þeir til utanferðar Guðmundur biskup og Arnór Tumason. Lá biskup til hafs sex vikur og sigldi út tveim sinnum og varð afturreka og var borinn sjúkur af skipi. En tveir menn fóru utan af þeim er erkibiskup hafði utan boðið með biskupi. Arnór fór utan einn af þeim sex er með honum voru nefndir. Þá fór og utan Þorvaldur Gissurarson og Teitur biskupsefni. En Guðmundur biskup fór utan vetri síðar og var hinn fyrsta vetur í Vík austur og lengst við Nikulási biskupi.
Nú er þar til máls að taka er fyrr var frá horfið að þá er þeir Guðmundur biskup og Hrafn Sveinbjarnarson komu út og höfðu einn vetur verið í Noregi fór Hrafn vestur í Arnarfjörð á Eyri til bús síns. Og áður þeir skildu gaf Guðmundur biskup Hrafni stóðhross góð og sólarstein.
Og er Hrafn hafði eigi lengi heima verið fór hann í Vatnsfjörð að heimboði til Þorvalds Snorrasonar og þá af honum önnur stóðhross og mæltu þá af nýju til vináttu. Litlu síðar fór Þorvaldur að heimboði á Eyri og þá af Hrafni góðar gjafir.
Ragnheiður hét kona, dóttir Arons Bárðarsonar hins svarta. Hún bjó í Selárdal. Þar kom reyður og er Þorvaldur frétti það fór hann og bað Ragnheiði selja sér hval en hún lét hann hafa tólf vættir og mælti að hann skyldi gjalda henni jafnmikinn þá er ræki á fjörur hans. Þann hval galt Þorvaldur aldrei síðan.
Og er hann fór brott úr Selárdal gisti hann á þeim bæ er heitir í Lokinhömrum. Þar var stolinn í brott sumur hvalurinn. Sá stuldur reyndist síðan á hendur þingmanni Hrafns þeim er bjó á Sléttanesi. Og er Hrafn varð þess var bauð hann Þorvaldi að gjalda fyrir þingmann sinn slíkt sem Þorvaldur vildi gera fyrir tökuna. Þorvaldur vildi eigi þiggja fébætur af Hrafni og rændi hann þann mann er hvalinn tók.
Gekk Þorvaldur þá að öðru hverju á þingmenn Hrafns.
Maður hét Haukur er kallaður var Víga-Haukur son Orms Fornasonar. Hann var norðlenskur að kyni. Hann kvongaðist vestur á Rauðasandi og fékk Hallberu dóttur Markúss Gíslasonar og fór þangað vistafari til Lofts.
Þá er Gísli var fulltíða Markússon beiddi hann Loft bróður sinn gjalda fé þau er þeir Magnús bræður áttu. Loftur greiddi sem Gísli beiddi bæði lönd og lausafé því að Loftur var laungetinn.
Nú er Loftur var staðfestulaus, þá fór hann norður í Dýrafjörð á Mýrar. Þar bjó sá maður er Mögur hét, þingmaður Hrafns, og átti Hrafn mála á landinu. Loftur keypti svo landið að hann spurði Hrafn ekki að og fór þangað búi sínu. Víga-Haukur ræðst á Mýrar með Lofti.
Hrafni mislíkaði landkaupið Lofts og búgerð því að Loftur var hávaðamaður og ódæll. Loftur hafði orð tygileg við Hrafn og þingmenn hans, kvaðst aldrei hirða hvort þeim þætti vel eða illa hans byggð.
Þá fór Hrafn á Mýrar við fjölmenni. Þar kom Þorvaldur Snorrason með sjötta mann og bauð Hrafni lið sitt og gekk í flokk Hrafns. Síðan var leitað um sættir og var Loftur tregur. Þá fóru þeir Hrafn til og veittu í brott læk þann er inn féll í húsin á Mýrum. Þá grunaði Loft að þeir mundu ætla að brenna bæinn. Leitaði Haukur þá um sættir og það varð að sætt að Sighvatur Sturluson skyldi gera með þeim.
Eftir þenna fund ýfðust þeir Loftur og Haukur við Þorvald fyrir það hann hafði gerst ber í liðveislu við Hrafn. Um sumarið eftir á alþingi hljóp Haukur til Þorvalds og hjó milli herða honum en Þorvaldur varð ekki sár því að hann var í brynju. Þá hjó Haukur til förunauts Þorvalds er Teitur hét. Hann var son Árna rauðskeggs. Það högg kom á höndina og var kallað í fyrstu eigi mikið sárið en leysti af honum síðan í úlfliðnum. Á þau mál var sæst þar á þinginu.
En það kom upp síðan að þeir Loftur og Gísli hefðu verið í fjörráðum við Þorvald og þeir hefðu heitið að halda fébótum upp fyrir Hauk ef hann ynni á Þorvaldi. En er Loftur vissi að Þorvald hafði eigi sakað þá vildi hann ekki gjöldum upp halda en Hauki þótti þeir bæta eiga þar sem hann réð til Þorvalds.
Nú sýndist Lofti sér óvarlegt að sitja í Dýrafirði fyrir ófriði Þorvalds og fór hann suður um land, er menn komu af þingi, til Eyjólfs hins óða Þorsteinssonar mágs síns, föður Álfdísar konu hans, og var þar um sumarið og öndverðan vetur.
Þetta sumar fór Þorvaldur vestur í Dýrafjörð til leiðar að vitja fjár þess er gjaldast skyldi fyrir Hauk en féin komu eigi fram. Beiddi Þorvaldur Hrafn að hann færi við honum á Mýrar að ræna þar en Hrafn vildi það eigi, kvaðst veita mundu Þorvaldi til laga, bað hann sækja Loft eða Gísla að lögum um fjörráð eða fégjald og kvaðst mundu veita honum til þess. Eftir það fór Þorvaldur á Mýrar og rændi þar mörgu en lagði ámæli á Hrafn.
Þá var þetta kveðið:
35.
Rækir frá eg að ræki,
ráð var það mikið, dáða,
kynnist kappgirnd manna,
kýr tuttugu af Mýrum.
Nú hefir hyrbirkis hvorki
hlynr, veit eg á því skynjar,
illr mun kostr sá kallaðr,
kýr né land á Mýrum.
Um veturinn eftir jól fór Loftur vestur á Mýrar að ráði Sighvats Sturlusonar og Eyjólfs mágs síns.
Og er Þorvaldur frá það fór hann á Mýrar við fjölmenni. Vinir Lofts spurðu til ferða Þorvalds og söfnuðu liði og komu á Mýrar er Þorvaldur var nýkominn og leituðu um sættir. Og er Þorvaldur sá að Loftur var fjölmennri en þeir þá sættust þeir og fór Þorvaldur í brott.
Síðan treystist Loftur eigi að vera á Mýrum. Fór hann þá til Hrafns á Eyri og kvað Sighvat hafa orð til sent ásjá við sig en þá var Sighvatur kallaður vinur Hrafns. Tekur Hrafn nú við Lofti. Þetta líkar Þorvaldi illa.
Eftir það sendir Þorvaldur Hrafni orð að hann kæmi til móts við hann í Dýrafjörð á þann bæ er á Granda heitir.
Þar kom Hrafn við þriðja mann fyrr en Þorvaldur og beið hans inni. Þorvaldur kom við marga menn og bað Hrafn út ganga. Og er Hrafn gekk út og hans förunautar, Tómas Ragnheiðarson og Sturla Bárðarson, þeir Þorvaldur höfðu gert kví að þeim Hrafni fyrir durunum og hafði Þorvaldur brugðið sverð á miðjar slíðrir. En þeir Hrafn gengu eftir kvínni að Þorvaldi og heilsaði Hrafn Þorvaldi og minntist til hans en Þorvaldur tók kveðju hans. Þorvaldi varð ekki að orðum við Hrafn og þótti honum það undarlegt og eigi sá hann erindi við sig í því sinni.
Loftur keypti síðan Stakkaland á Rauðasandi og gerði þar bú. Víga-Haukur og Hallbera kona hans fóru brott af landi, fyrst til Noregs og þaðan til Grænlands og þótti hann mikill maður fyrir sér hvar er hann kom. Magnús Markússon fór og til Grænlands og kom ekki þeirra aftur síðan.
Guðmundur hét maður og var Hallsson. Hann var einhleypingur og hávaðamaður. Hann gerðist fylgdarmaður Gísla Markússonar. Galti hét vin Lofts. Hann átti hest góðan. Þann föluðu þeir Gísli og Guðmundur en hann vildi eigi þeim selja og gaf Lofti. En er Guðmundur vissi það ætlaði hann að taka brott hestinn. Loftur sá það og fór eftir honum við fjórða mann. Þeir Loftur vógu Guðmund. Það vígsmál var lagt undir Sighvat Sturluson en hann gerði fyrir víg Guðmundar Loft í brott úr Vestfirðingafjórðungi og förunauta hans þá er til vígsins voru með honum og þar með mikið fé.
Fór Loftur þá í brott úr Vestfjörðum og suður um land til Eyjólfs mágs síns og var lengi síðan undir trausti Oddaverja.
Í þenna tíma tók að vaxa mjög sundurþykki með þeim Hrafni og Þorvaldi af þeim ágangi er Þorvaldur tók að hafa á hendur þingmönnum Hrafns.
Þorvaldur færði ómaga þingmanni Hrafns. Sá fór að finna Hrafn og bað hann af sér flytja ómagann. Þá safnar Hrafn liði og fer við átta tigu manna til Súðavíkur og færði ómagann þeim manni er Jósep hét.
Þorvaldur varð var við ferð hans og tók skútu þar í Súðavík og lagði í einn leynivog og var þar meðan Hrafn var í Súðavík. Hrafn lét þar eftir ómagann.
Þetta kváðu förunautar hans:
36.
Færum góðan
grepp Jósepp.
Sá skal ráða
ríkr Súðavík.
Eftir það fór Hrafn heim.
Þá urðu í Vestfjörðum mörg kyn í draumum og fyrirburðum. Einu sinni er Hrafn hafði verið á kynnisleitan í Selárdal fór hann brott snemma um morgun og tveir menn við honum. Þá sáu þeir ljós mikið fara úr austri í móti sér frá bænum á Eyri. Hrafn sá í ljósinu þrjá menn. Þar þóttist hann kenna sig í ljósinu og tvo menn aðra. Þessa sýn sagði hann fám mönnum.
Þórður hét maður. Hann var heimamaður í Selárdal. Hann dreymdi að maður kæmi að honum, svartur og illilegur. Þórður þóttist spyrja hver hann væri.
Hann kvað:
37.
Faraldr eg heiti.
Fer eg of aldar kyn,
emka eg sættir svika.
Döprum dauða
eg mun drengi vega
og nýta mér nái.
Guðmundur hét maður er dreymdi að maður kom að honum svartur, mikill og illilegur. Hann þóttist spyrja hvað manna hann væri.
Sá svarar: Hér er nú kominn Ingólfur sá er þér vitraðist fyrir vígi Markúss.
Guðmundur spurði: Ferð þú nú með jafnillum tíðindum sem þá?
Hann kvað:
38.
Fagna eg því er ógnir,
ym þjóðar böl, glymja.
Allr tekr svarmr að svella.
Svellr það er mannkyn hrellir.
Fara mun eg suðr hið syðra,
snákranns, með lið manna,
verið hefi eg norðr hið nyrðra
návaldr, of far aldar.
Eyjólfur hét maður. Hann var Snorrason. Hann dreymdi að hann þóttist út koma. Hann þóttist sjá tungl svo mörg sem stjörnur á himni, sum full eða hálf, sum meir eða miður vaxandi og þverrandi. Hann undraði þessa sýn. Þá þóttist hann sjá mann standa hjá sér.
Sá kvað:
39.
Sé þú hve hvarfla
heima í milli
syndauðigra
sálur manna,
Kveljast andir
í orms gini,
skelfr rammr röðull,
ræð eg þér að vakna.
Hann mundi vísuna er hann vaknaði.
Jón hét maður Þorsteinsson. Hann var heimamaður á þeim bæ er á Kúlu heitir. Þar bjó sá bóndi er Kjartan hét. Símon hét maður og var Bjarnason, heimamaður Hrafns. Símon átti frillu og barn á Kúlu. Jón fífldist að henni.
Einn helgan dag fór Símon til fundar við frillu sína og sat á tali við hana en Jón gekk að honum og hjó hann banahögg. Fyrir víg það gerði Hrafn Jón sekjan skógarmann.
Nokkuru síðar færði Jón Hrafni höfuð sitt en hann gaf honum höfuðið. Jón varð illu höfði feginn og þakkaði Hrafni gjöfina. Hrafn bætti síðan fé fyrir víg Símonar frændum hans og færði sjálfur fram sýknu hans.
Það var eitt vor er Þorvaldur fór til Arnarfjarðar með fjölmenni. Og er þeir komu ofan í heiðarbrún í Arnarfjarðarbotn þá sá för þeirra kona sú er Ástríður hét. Hún var dóttir Gunnars Bárðarsonar svarta. Hún bjó á einum litlum bæ. Og er hún sá mannaförina sendir hún son sinn til Eyrar að gera Hrafn varan við.
Og þegar hann spurði það sendir hann menn til Selárdals sonum Ragnheiðar, Eyvindi og Tómasi, að þeir kæmu til fundar við hann með þá menn er þeir fengju. Þeir söfnuðu þegar mönnum og flotuðu skipum.
Þorvaldur kom litlu síðar á Eyri við flokki miklum. Hrafn skipaði mönnum fyrir í húsum með vopnum og lét vera opnar dyr allar og skjóta slám fyrir innan. Hrafn hafði boga og skaut af honum. Þorvaldur bar eld að húsum og kveikti fyrir þeim durum er honum þótti minnst vörn fyrir vera og í þekjunni víða. En þeir er inni voru báru vatn og sýru í eldinn og slökktu sem þeir máttu.
Hrafn spyr hverjir fyrir eldinum réðu. Þorvaldur svaraði og sagði að hann réði fyrir. Hrafn spurði að sökum er hann bar eld að húsum hans. Þorvaldur kvað Hrafn verið hafa í fjörráðum við sig þá er hann færði ómagann í Súðavík.
Hrafn kvað það eigi satt því að eg vissi hvar þú varst og svo skip þín er eg var í Súðavík og hafði eg svo mikið fjölmenni að eg átti alls kosti við þig. Svo vissi eg og er þú varst í Holti í Önundarfirði og hafði eg þá enn nógt fjölmenni að gera á þinn hlut slíkt er eg vildi. Nú er á hitt að líta hvað vér skulum til þess vinna að þú brennir oss eigi inni eða bæinn.
Þorvaldur svaraði: Þú skalt handsala mér sjálfdæmi fyrir þá hluti alla er eg vil gert hafa þér á hendur.
Hrafn sagðist eigi það sjálfdæmi handsala mundu því að mig mun eigi skorta menn af stundu.
Þeir háðust við um stund og gátu þeir Þorvaldur eigi bæinn brenndan fyrir varnar sakir. Sáu þeir þá að skip fóru utan eftir Arnarfirði skipuð mönnum og vopnum.
Þorvaldur spurði þá Hrafn ef hann vildi mál þeirra í nokkurs manns dóm leggja eða gerð. En Hrafn gerðist þá heldur tregur því að hann vissi sér liðs von. Þá áttu margir menn hlut að að þeir sættust og hefði Hrafn þá nefnu of þeirra mál er honum þætti góð. Þorvaldur var þá fús til sátta. Þau urðu málalok að Þórður Sturluson skyldi gera of öll þeirra mál. Eftir þetta fór Þorvaldur brott með skyndingu.
Drífur þá lið að Hrafni, bæði Seldælir og aðrir margir. Þeir voru sumir að þess fýstu að ríða skyldi eftir þeim Þorvaldi og drepa hann svo ber sem hann varð að fjörráðum við Hrafn. Það vildi Hrafn eigi.
Hér af fékk Hrafn mikið ámæli svo sem Guðmundur Galtason sagði Guðrúnu systur hans er hún spurði hvað hann heyrði rætt of málaferli Hrafns:
40.
Heyri eg Hrafni fjóra
hyrtælendr ámæla,
þjóð er til lymsk á láði,
línspöng, um atgöngu.
Raun mun segja sína
seimhrjóðandi góða:
Vígs er Ullr að öllu
eitrþvengs fyrirleitinn.
Þá er Þorvaldur kom til Ísafjarðar sagði hann allt annað frá fundi þeirra Hrafns en verið hafði.
Um sumarið eftir riðu þeir Hrafn og Þorvaldur með fjölmenni miklu til alþingis. Á þingi voru knjáð mál þeirra og voru í fyrstu öll vitni borin í hag Hrafni en Þorvalds menn báru með honum allir nema einn maður. Sá hét Vermundur. Hann bar með Hrafni. Ekki varð greitt um mál þeirra á því þingi.
Um veturinn eftir kom hvalur norður á Strandir á land það sem Hrafn átti. En sá maður er fann hvalinn sagði Þorvaldi hvalkomuna. Þá gerði Þorvaldur það ráð að sá er fundið hafði hvalinn skyldi segja að komið hefði á almenningar og hefði hann þar fyrst lögfesti af skorið. Þá fór Þorvaldur til og lét skera hvalinn og flytja heim.
Nú er Hrafn spurði þetta sendir hann menn suður um land til Halls lögmanns mágs síns og Þorvalds Gissurarsonar bróður Halls og hafði ráð við þá hversu hann skyldi þetta mál leiðrétta við Þorvald. En þeir lögðu það til að hann byggi mál til á hendur Þorvaldi og þeim mönnum er neytt höfðu af hvalnum til Dýrafjarðarþings og sæki þar að lögum. Sendimenn komu aftur og sögðu Hrafni þessi tillög.
Um vorið eftir bjó Hrafn mál til á hendur Þorvaldi og þeim mönnum öllum er neytt höfðu hvalsins. Sturla son Bárðar Snorrasonar og Þórdísar Sturludóttur hafði mál á hönd Þorvaldi. Á því þingi varð Þorvaldur sekur skógarmaður og níu menn aðrir þeir er að hvaltökunni höfðu verið.
Um sumarið eftir reið Þorvaldur til alþingis með fjölmenni. Það sumar fór Hrafn eigi til þings. Sturla Bárðarson fór til þings fyrir Hrafn og var í flokki Þórðar Sturlusonar. Sturla segir til sektar Þorvalds og þeirra manna sem sekir höfðu orðið um hvalmálið. Það sumar fór Hrafn norður til Ísafjarðar og tók upp sektarfé fyrir mönnum Þorvalds er sekir voru.
Og er Þorvaldur kom heim af þingi safnar hann brátt mönnum um allan Ísafjörð og fékk hundrað liðs. Margir fóru nauðgir í þá för. Kolbeinn hét fylgdarmaður Þorvalds. Hann sendi Þorvaldur til fundar við einn fátækan bónda er Ámundi hét. Hann var ómagamaður mikill og þingmaður Hrafns. Þorvaldur mælti við Kolbein og hans förunauta að þeir skyldu beiða Ámunda að fara með þeim og vera í heimsókn með Þorvaldi til fundar við Hrafn en ef hann vildi eigi það þá mælti Þorvaldur að þeir skyldu taka hann af lífi. Þeir Kolbeinn fundu Ámunda á heyteig þar er hann sló en kona hans rakaði ljá eftir honum og bar reifabarn á baki sér það er hún fæddi á brjósti sér. Þeir Kolbeinn beiddu Ámunda að hann færi til Eyrar með þeim. Ámundi kveðst í engri þeirri ferð vera að Hrafni væri óþekkt að. Þeir Kolbeinn vógu Ámunda og fóru síðan til fundar við Þorvald og sögðu honum vígið.
Þá er Þorvaldur kom í Dýrafjörð fór kona nokkur af skyndingu til Eyrar og sagði Hrafni til ferða Þorvalds. Og þegar sendi Hrafn menn Eyvindi í Selárdal og bað hann koma til liðs við sig. Hrafn sendi og menn á Barðaströnd Steinólfi presti Ljótssyni og Gelli Þorsteinssyni. Þeir komu með þá menn er þeir fengu. Hrafn hafði látið gera virki af grjóti of bæ sinn.
Síðan kom Þorvaldur á Eyri með hundrað manna og er hann sér viðbúning Hrafns leist honum torsóttlegur. Settist hann þá niður með flokk sinn á brekku nokkurri skammt frá virkinu.
Eyvindur Þórarinsson hafði safnað liði um Tálknafjörð og Arnarfjarðardali og fór skipaliði til Eyrar. Nú er Þorvaldur sér hvar skipin fara fer hann til strandar með flokk sinn. Eyvindur sér hvar flokkur Þorvalds er í vörum fyrir og mælti við sína menn að þeir skyldu eigi að landi leggja. Þorvaldur spyr hver fyrir skipunum réði en honum var sagt að Eyvindur Þórarinsson réð fyrir.
Þorvaldur kallaði á Eyvind og bað þá leggja að landi skipin og vil eg tala við þig.
Eyvindur bað hann þaðan tala ef hann ætti nokkuð vanmælt við hann en ekki á eg við þig vanmælt.
Þorvaldur svarar þá engu.
Og er þeir sáu er í virkinu voru flokk Þorvalds og svo skipamennina þá ganga þeir bræður Eyvindar, Tómas og Halldór, úr virkinu með miklum flokki á móti Eyvindi. Og er Þorvaldur sér þeirra för gengur hann brott úr fjörunni. Þá leggja þeir Eyvindur að landi og ganga í flokk þeirra Tómass og með því í virkið til Hrafns. Hafði hann þá þrjú hundruð manna.
Þá mæltu nokkurir við Hrafn að þeir skyldu ganga að Þorvaldi og drepa hann og mun eigi komast í betra færi.
En Hrafn kvaðst virða vilja til hinn heilaga Jakob postula að berjast eigi við Þorvald. Þetta var um aftaninn fyrir Jakobsmessu.
Þá kallaði Þorvaldur á Steinólf prest og bað hann koma til sín. Hann fór til fundar við hann og töluðu þeir lengi hljótt. Síðan fór Steinólfur prestur í virkið og leitaði þaðan frá um sættir.
Um morguninn eftir kom Áli Oddsson hinn auðgi og leitaði um sættir með Steinólfi. Og þá sættust þeir Hrafn og Þorvaldur. Sú var sætt þeirra að of öll þeirra málaferli skyldi gera Þorvaldur Gissurarson og Þórður Sturluson.
Þorvaldur þakkaði þá öllum mönnum þeim er um sættir höfðu leitað. Em eg, sagði Þorvaldur, feginn orðinn er við erum sáttir. Sýnist mér sem við munum eigi uppnæmir fyrir einum höfðingja ef við erum báðir að einu ráði.
Þeir Þorvaldur höfðu þar allir dagverð að boði Hrafns. Hann fékk þeim reiðskjóta norður yfir heiði til Dýrafjarðar. Þorvaldur minnist til Hrafns áður þeir skildu.
Þá voru málaferli þeirra kyrr of sumarið og veturinn eftir.
Um vorið eftir fór Hrafn suður til Borgarfjarðar í Reykjaholt til sáttarfundar þess er þeir Þorvaldur og Hrafn höfðu ákveðið með sér. Til þess fundar kom Þorvaldur eigi. Þar kom Þorvaldur Gissurarson og Þórður Sturluson er gera skyldu um mál þeirra Hrafns og Þorvalds. En þeim sýndist sem ekki mundi stoða að gera of þeirra mál ef Þorvaldur væri eigi við. Þótti þeim Þorvaldur rýfa sættir er hann kom eigi sem ákveðið var.
Um haustið sendi Þórður Sturluson þau orð þeim Hrafni og Þorvaldi að þeir skyldu koma á Skarðsströnd í Fagradal ef þeir vildu sættast. Til þess fundar kom Hrafn en Þorvaldur eigi.
Þá fór Hrafn á Barðaströnd til brúðlaups þess er Haukur Þorgilsson gekk að eiga Oddnýju dóttur Steinólfs prests. Þar var og Eyvindur prestur Þórarinsson.
Eyvindur fór frá boðinu út yfir heiði til Arnarfjarðar. Og er þeir fara með Fossfirði sáu þeir eld brenna úr sævarbökkunum svo víðan sem stakkgarðvídd. Þeir sáu lengi og ætluðu til að fara en flóð var í ánni niðri. Fara þeir síðan upp með ánni og sáu jafnan eldinn. Þetta var um kveld og var fjúkviðri og áin upp gengin. En er þeir voru komnir yfir ána var horfinn eldurinn.
Menn voru rónir á sæ í Selárdal. Þeir sáu eld á sænum út til hafs. Og litlu eftir þetta sáu þeir blóð á klæðum sínum og vissu eigi hvaðan að var komið.
Blóð sást víða þar sem menn vissu enga von til. Þorbjörn hét maður. Hann var Magnússon. Hann bjó í Valþjófsdal. Hann gekk út um nótt fyrir Ambrósíusmessu þann vetur er Hrafn lést. Hann sá í landsuður í loftinu hvar eldur fór úr landsuðri í vestur en eftir eldinum sá hann mann ríða á hvítum hesti í standsöðli. Hann hafði skjöld hvítan og hjálm á höfði, höggspjót mikið í hendi og lagði spjótinu fram millum eyrna hestinum og sá hann að spjótið tók lengra fram en hesturinn og svo aftur. Og þar eftir sá hann annan mann ríða. Sá hafði hest svartan og hálflitan skjöld, hálfan rauðan en hálfan hvítan. Sá hafði og hjálm á höfði og gyrður sverði og spjót mikið í hendi og fór á einn hátt með sem hinn fyrri. Hann sá ríða hinn þriðja mann með slíkum hætti sem hina fyrri utan hann hafði brúnan hest og svartan skjöld og öll kolmerkt klæði. Hann hafði á höfði sem biskupsmítur væri. Þenna atburð sá Þorbjörn svo gerla að hann sá allan fótaburð hestanna og svo það að menninir stóðu í stigreipin.
Þann sama vetur varð sá atburður á Eyri átta aftan jóla að sá maður er Þórarinn hét sá mann standa fyrir matborði Hrafns. Hann var mikill og hafði hjálm á höfði og sverð í hendi og studdi niður blóðreflinum í borðið fyrir hann og stóð þar um stund og gekk í brott síðan. Þórarinn sat hið næsta Hrafni þá er hann sá þenna atburð.
Hallkatla Einarsdóttir sá og ljós mikið eitt sinn er hún var að kirkju heim undir virkið.
Jón hét maður er þar sá og ljós og enn fleiri menn sáu þar ljós þenna sama vetur.
Um veturinn eftir jól fóru þeir Pétur og Sturla norður í Súðavík og tóku þar höndum bónda þann er Jósep hét og Einar son hans. Þeir höfðu sekir orðið of hvalmál. Þeir Sturla færðu þessa menn Hrafni en hann gaf þeim báðum grið og kunni enga þökk er þeir höfðu þangað verið færðir.
Of langaföstu of vorið fór Þorvaldur norðan úr Ísafirði með tvo menn hins fjórða tigar. Þeir fóru Glámuheiði til Arnarfjarðar. Og er þeir komu ofan í Arnarfjarðarbotn til byggða þá bundu þeir menn alla á bæjum þar sem þeir komu að eigi væri njósn borin fyrir þeim til Eyrar. En þeir báru illa sín meinlæti, börn grétu en mæður eða feður máttu þeim eigi duga þar sem voru bundnir sjálfir.
Á einum bæ hétu þeir sem bundnir voru á helgan Þorlák biskup að þeir skyldu lausir verða söngum nokkurum. Og er þeir höfðu fest heitið spruttu bönd af einum þeirra er bundnir voru. Sá leysti aðra og fór síðan á aðra bæi og leysti síðan þá menn úr böndum er bundnir höfðu verið.
Hrafn var jafnan vanur að láta halda vörð hverja nótt. Og þann aftan er þeir Þorvaldur komu af heiðinni spurði Hrafn heimamenn sína hver þá héldi vörð en þeir kváðu þá eigi þurfa mundu að halda vörð er vont veður var úti og fjúk, sögðu engan mann fara mundu millum héraða í því illviðri er þá var úti, sögðu og að menn mundu eigi til þeirra gera of langaföstu. Hrafn kvaðst sýnast að haldinn væri. Þessa nótt var eigi vörður haldinn en allar þangað til.
Þá er Hrafn var kominn í rekkju mátti hann ekki sofa. Hann bað þann mann er Steingrímur hét kveða sér Andrésdrápu og eftir hvert erindi ræddi Hrafn margt um þá atburði er gerst höfðu um pínsl heilags Andrés postula.
Þá sömu nótt dreymdi Tómas í Selárdal að hann sæi pínsl Andrés postula. Og það sama dreymdi hann alla þá nótt jafnan er hann sofnaði.
Þá sömu nótt kom Þorvaldur á Eyri. Og er þeir komu að virkinu settu þeir mann þann er Bárður hét á skjöld einn og hófu hann upp á skildinum með spjótaoddum svo að hann mátti klífa af skildinum í virkið. Síðan fór Bárður til virkisdura og renndi frá lokunum. Þeir Þorvaldur gengu þá í virkið.
Í því reis Hrafn upp því að hann mátti eigi sofa og sá út. Og er hann lauk upp hurðina sá hann að menn voru komnir í virkið með vopnum.
Hrafn lauk aftur hurðu og gekk inn og sagði mönnum til að margir menn voru komnir við vopnum í virkið og hafið þér eigi vel haldið vörðinn í nótt.
Þeir Þorvaldur viðuðu fyrir dyr öll og lögðu eld í og svo víða í þekjuna. Og er menn Hrafns voru komnir í klæði sín þá gengu þeir til dura og spurði Hrafn hver fyrir eldi réði. En honum var svarað að þeir réðu fyrir er kveiktu en Þorvaldur væri höfðingi. Hrafn spurði ef Þorvaldur vildi taka sættum nokkurum af þeim, kvað Þorvald ráða skyldu sjálfan fyrir sættum ef hann vildi gefa mönnum grið þeim er þar voru fyrir. Menn Þorvalds svöruðu, kváðu Hrafn ómaklegan griða og hans menn. Þorvaldur svarar þá engu en menn Þorvalds höfðu mörg heimsleg orð um þetta mál þeirra.
Hrafn spurði hvar Þorvaldur væri eða hví hann svaraði engu: Vænti eg af honum best yðvar því að eg þykist frá honum góðs maklegur vera.
Þorvaldur svaraði engu.
Þá mælti Hrafn við prest sinn þann er Valdi hét og klerka þá er með honum voru að þeir skyldu ganga í stofu og syngja óttusöng. Og þá söng Hrafn óttusöng við þeim. En er sunginn var gerðist reykur mikill í húsunum.
Þá gekk Hrafn til dura og beiddi Þorvald gefa grið konum og börnum til útgöngu en eg vil bjóða þér fyrir mig slíka sætt sem þú vilt gert hafa og eg mun handsala þér að fara af landi á brott og ganga suður til Róms til hjálpar báðum okkur og koma aldrei til Íslands ef þér þykir þá meiri þinn sómi en áður.
Þorvaldur svarar: Eg mun lofa hér öllum mönnum útgöngu ef þér seljið áður af höndum vopn yður öðrum mönnum og leggið á mitt vald og geri eg slíkt af hverjum yðrum sem mér líkar.
Þá seldu þeir Hrafn af höndum vopn sín öll og gengu út síðan karlar allir og konur. Þá er Hrafn kom út var hann þegar ger handtekinn og haldinn. Sturla Bárðarson systurson Sturlusona var og haldinn, þriðji maður Þórður Vífilsson. En allir menn aðrir, karlar og konur, voru leiddir í kirkju og byrgðir þar.
Þá lýsti Þorvaldur yfir því að Hrafn skyldi taka af lífi. Og er Hrafn heyrði þann dóm þá beiddist hann að ganga til skriftar og taka þjónustu. Og síðan gekk hann til skriftar við Valda prest og mælti fyrir honum trúorð og skriftagang og tók corpus domini og féll til bænar og felldi tár með mikilli iðran.
Þá kvaddi Þorvaldur Kolbein Bergsson til að vega að Hrafni en hann vildi eigi. Þá mælti Þorvaldur við Bárð Bárðarson að hann skyldi vega Hrafn. Lagðist Hrafn þá niður á olbogana og lagði hálsinn á eitt rekatré. En Bárður hjó af honum höfuðið við trénu. Þessi atburður varð þar undir virkinu er ljósið hafði sést áður um veturinn.
Þorvaldur lét höggva fótinn undan Sturlu Bárðarsyni og svo Þórði Vífilssyni.
Þessir atburðir urðu annan dag viku í annarri viku langaföstu, átta nóttum eftir Matthíasmessu, allan einn vetur og veginn var Hallur Kleppjárnsson á jólaföstu.
Þá er Hrafn var veginn rændu þeir Þorvaldur bæinn á Eyri öllu lausafé því er innan veggja var, vopnum og klæðum, húsbúningi og mat. Í því ráni tóku þeir Þorvaldur sólarsteininn er Guðmundur biskup hafði gefið Hrafni. Þeir tóku skip er kirkjan átti á Eyri og báru þar á þann fjárhlut er þeir höfðu rænt. Og er þeir voru á brott farnir fundu heimamenn á Eyri sólarsteininn í flæðarmáli þar sem þeir höfðu skipið hlaðið. Þann atburð virtu svo margir að því máttu þeir Þorvaldur eigi sólarsteininn með sér hafa að Guðmundur biskup hefði áttan.
Um vorið eftir páska fór Þorvaldur annað sinn til Arnarfjarðar og rændi þá marga þingmenn sona Hrafns.
Pétur Bárðarson lét drepa þingmann Þorvalds þann er Hermundur hét. Sá hafði oftlega verið í andskotaflokki Hrafns.
Þorvaldur sendi orð Kár munki að hann skyldi leita um sættir við frændur Hrafns. Þá var lagður sáttarfundur að ráði Þórðar Sturlusonar og Kárs munks á Þingeyri í Dýrafirði. Þá var sæst á þessi mál að því að Þórður skyldi gera eftir því sem hann vildi. Tólf menn handsöluðu fégjöld fyrir Þorvald slík sem Þórður vildi gera og til þeirrar sýknu Þorvalds sem Þórður vildi vera láta.
Annað sumar á alþingi lauk Þórður upp gjörðinni. Sú var sektargjörð Þórðar Sturlusonar á hönd Þorvaldi Snorrasyni að Þorvaldur skyldi fara utan samsumars og vera utan fimm vetur nema hann færi á fund páfa og fengi af honum lausn og að hann væri á brott þrjá vetur. En ef hann kæmi út og hefði svo á brott verið þá væri heimil vist hans í Vatnsfirði, bústaður og þingmannavarðveisla. En Þorvaldur skyldi óheilagur vera milli Vatnsfjarðarár í Breiðafirði og Stiga í Ísafirði. Og allir þeir menn er að aftöku Hrafns höfðu verið, þeir skyldu aldrei koma í þetta takmark, nema þeir yrðu sæhafa nauðgir, þá skyldu þeir fara á brott sem fyrst með spekt fullum dagleiðum. Allir skyldu vera úr þingi frá Þorvaldi því er hann hafði átt, þeir er byggðu í þessu takmarki. Þessir menn skyldu fara af landi brott og koma aldrei aftur: Þorgísl austmaður, Steingrímur Ásgeirsson, Þórður Gunnarsson, Bárður Bárðarson, og vera brott úr Vestfirðingafjórðungi á hinum næsta hálfum mánuði þaðan í frá er þeir spyrðu. Bjarni djákn skyldi vera sekur um allt land. Ormur Skeggjason skyldi hvorki vera í Arnarfirði né í Ísafirði og svo Þórður Steinsson. En allir menn aðrir skyldu hafa héraðsektir sem Þorvaldur án utanför og gjalda þó fé fyrir alla, þrjú hundruð fyrir mann til þess að þeir ættu landvært.
Með þessum mannsektum gerði Þórður Sturluson hundrað hundraða fyrir víg Hrafns. Það fé skyldi gjalda í vöru, gulli eða brenndu silfri, því að eins annað fé ef þeim er við skyldu taka þætti það eigi verra en annað fé. Fyrir afhögg við Sturlu voru gervir sex tigir hundraða. Fyrir afhögg Þórðar Vífilssonar þrír tigir hundraða. Fyrir fjörráð við Pétur þrír tigir hundraða. Fyrir aðild vígsakar eftir Hrafn voru gervir þrír tigir hundraða til handa Magnúsi Þórðarsyni, systursyni Hrafns, er vígsakaraðili var eftir Hrafn. Þeir synir Hrafns voru svo ungir að þeir voru eigi vígsakaraðilar en þó mun nokkuð verða sagt frá þeim síðar. Þessi tvö hundruð hundraða guldust sem ger voru. Rán það er Þorvaldur rændi á Eyri og annars staðar í Arnarfirði voru aftur goldin sem Þórður skildi fyrir.
Þorvaldur fór utan og gekk suður til Róms og var utan þrjá vetur.
Meðan Þorvaldur var utan lét Pétur Bárðarson drepa Má Þorkelsson og höggva fót af Jóni Þorsteinssyni fyrir það er þeir höfðu farið með Þorvaldi til aftöku Hrafns og höfðu eigi fé fyrir sig goldið.
Þorvaldur kom út þá er hann hafði þrjá vetur utan verið og bjó í Vatnsfirði.
Í þenna tíma réðst Sighvatur Sturluson norður til Eyjafjarðar og var hinn fyrsta vetur á Möðruvöllum í Hörgárdal með Sigurði mági sínum Ormssyni. Annan vetur átti hann bú við hann. Eftir það keypti hann Grundarland í Eyjafirði með því móti að Runólfur prestur er þaðan var vígður til ábóta gekk í skuldina fyrir Kálf Guttormsson og galt fyrir landið. En Sighvatur gerði þá bú á Grund og bjó þar til elli.
Kálfur Guttormsson keypti Miklabæ í Skagafirði og bjó þar meðan hann lifði.
Í þenna tíma voru í Eyjafirði margir stórbændur og ýfðust þeir heldur við Sighvat. Þótti þeim hann eiga þar hvorki í héraði erfðir né óðul.
Þá bjó Jón Örnólfsson á Möðruvöllum en Þorvarður bróðir hans í Miklagarði. Hann átti sverð það er Brynjubítur var kallaður. Það hafði Sigurður grikkur úr Miklagarði en Sveinn Jónsson sveitarbót hafði það í Víðinesi og hjó með stórt. Synir Sighvats, Tumi og Sturla, föluðu sverðið og náðu eigi að kaupa en Þorvarður dróst á að ljá Sturlu sverðið og fórst það fyrir.
Þá var Sturla átján vetra gamall er hann fór upp í Miklagarð og tveir eyfirskir menn komu í ferð hans. Þeir riðu að durum og gekk Sturla inn en hinir sátu á baki úti. Sturla gekk til rúms bónda og tók sverðið og gekk í anddyri og ætlaði að sjá og bregður. Þá kom til prestur og þreif sverðið og vildi eigi að brugðið væri. Kallaði hann þá á heimamenn. Kom þá að Þorvarður bóndi og bað hann eigi taka sverðið. Sturla bað hann ljá sér. Þorvarður kvað hann eigi svo með fara að þess væri von og kvað hann með engu móti skulu fá það. Drifu þá að heimamenn, konur og karlar, og vildu allir á sverðinu halda og reiddi þá þvöguna út að durunum. Var þá snarað af honum sverðið.
Sturla hafði öxina Sveðju í handarkrika sér. Tók hann þá til hennar og reiddi hana upp og réð til Þorvarðs en hann gáði eigi hvort fram horfði á öxinni og kom hamarinn í höfuð Þorvarði og sprakk mjög fyrir en hausinn rifnaði. Féll Þorvarður í óvit og lá lengi sem dauður. Styrmdu heimamenn yfir honum en Sturla reið á brott og heim á Grund og förunautar hans.
Sighvatur spurði tíðinda er hann kom heim. Sturla kvaðst engi segja. Förunautar hans sögðu Sighvati í hljóði hvað títt var. En er hann vissi það spurði hann Sturlu hvort það væri satt að hann hefði vegið eða særðan hinn besta bónda er var í Eyjafirði. Sturla lést ætla að því mundi verr að hann mundi eigi dauður. Síðan tók Sighvatur á hinum mestum hrakningum við Sturlu og hét hann honum brottför. Síðan átti Tumi hlut að og segir að þeir skyldu svo fleiri fara, að þeir væru barðir, sagði reynt að bændur mátti eigi með góðu tryggja.
Snemma um morguninn var Sturla á fótum og gekk eftir gólfi. Sighvatur spurði hver þar væri. Sturla nefndi sig. Sighvatur bað hann ganga í lokrekkjuna til sín.
Og er hann kom þar tók Sighvatur til orða: Ekki þykir mér þetta svo illa sem eg læt og mun eg um klappa eftir. En þú lát sem þú vitir eigi.
Síðan sendi Sighvatur eftir Þorvarði í Saurbæ og fékk hann sætta þá og voru gervir þrír tigir hundraða og kom það fé seint fram.
Þessu næst eða litlu fyrr voru skærur þeirra vestur í sveitum Miðfirðinga og Víðdæla.
Þá bjó á Breiðabólstað í Vatnsdal Eyjólfur Kársson, son Kárs munks og Arnleifar dóttur Jóns Húnröðarsonar. Hann var mikill maður vexti og knár og hinn vaskasti um alla hluti. Tvo bræður átti hann sammæðra, Jón og Eyjólf. Voru þeir Ófeigssynir. Þá bjó Þórður móðurbróðir þeirra að Ásgeirsá en Illugi Bergþórsson að Þorkelshvoli, Þorsteinn Hjálmsson á Breiðabólstað í Vesturhópi frændi þeirra og í hverju húsi voru Húnröðlingar í þann tíma.
En á Mel í Miðfirði bjó Þorgísl Kálfsson. Hann átti Þórunni Magnúsdóttur, Ólafssonar og Guðrúnar móðursystur Sturlusona. Þar á Mel voru bræður Þórunnar, Ólafur og Koðrán, Egill, miklir menn og sterkir.
Gísl Bergsson bjó að Reykjum. Hans synir voru þeir Kálfur og Guðmundur, Steingrímur, Eiríkur og Úlfhéðinn en dætur hans Þórhildur, móðir Guðrúnar frillu Bjarnar Sæmundarsonar, og Vigdís frilla Sturlu Sighvatssonar. Þorbjörn Bergsson bjó að Ósi, faðir Teits og Margrétar. Margt var þá röskra manna í Miðfirði.
Þórhildur Gíslsdóttir var þá ekkja og var það mælt að Eyjólfur Kársson slægi á nokkuð marglæti við hana en bræðrum hennar líkaði það illa og var því óþykkt mikil milli sveitanna. Sá maður var í Miðfirði er Tannur hét, son Bjarna Kálfssonar. Hann var orðillur og orti og níðskár. Engi var hann mannasættir.
Vísa þessi kom upp í Miðfirði er kveðin var til Gíslssona:
41.
Upp hafa eigi heppnir
ullstakks boðar vaxið
fimm og fullir vamma
fleinveðrs á bæ einum.
Ólust ekki dála,
allr fylgir því galli,
oft er á gumna giftu
...
Fyrir þessa vísu vógu Gíslssynir mann.
Eftir þetta hófst af nýju ófagnaður og orðasukk. Þá hófu Víðdælir það spott er þeir kölluðust gera meri úr Miðfirðingum. Og var Þorbjörn Bergsson hryggurinn í merinni en Gísl bróðir hans gregurinn en synir Gísls fæturnir, Ólafur Magnússon lærið en Tannur Bjarnason arsinn. Hann sögðu þeir skíta á alla þá er við hann áttu af hrópi sínu.
En af þessum orðasveim og mörgum öðrum er meðal fór gerðist svo mikill fjandskapur að eigi var óhætt með þeim.
En Snorri Sturluson átti flesta þingmenn í hvorratveggju héraði og þótti mönnum til hans koma að sætta þá. Reið Snorri þá til og þeir fáir saman og gerði þá orð til Víðidals og stefndi þeim öllum til Miðfjarðar á Mel, Eyjólfi Kárssyni, Þorsteini Hjálmssyni, Þórði og Bergþóri. Þeir komu til Miðfjarðar. Voru nær sjö tigir manna. Miðfirðingar komu til Mels og höfðu fjölmennt. Leitaði Snorri um sættir við þá en þeir tóku því seinlega.
En þá er Víðdælir komu og stigu af hestum sínum gengu þeir heim á völlinn. Miðfirðingar hlaupa þegar á móti þeim og slær þar þegar í bardaga og voru hvorirtveggju allákafir. Snorri hét á þá að þeir skyldu eigi berjast. Engi hirti hvað er hann sagði.
Þá gekk Þorljótur frá Bretalæk til Snorra og bað hann miðil ganga. Snorri kveðst eigi hafa lið til þess við heimsku þeirra og ákafa. Þorljótur veitti Snorra hörð orð. Síðan hljóp Þorljótur millum hrossanna og leysti og rak millum þeirra. Þá héldu Víðdælir undan ofan eftir vellinum og ofan fyrir melinn. Þeir náðu þá hestum sínum og riðu yfir ána.
Í bardaganum féll Þorbjörn Bergsson. Bergþór hét sá er hann vó. Svo sögðu Víðdælir að merin ysi því er hryggurinn væri í sundur í henni. Illugi Bergþórsson lét fót sinn. Sárir urðu hvorirtveggju nokkurir menn. Þar kalla Miðfirðingar Þorsteinsstig er hann hljóp ofan fyrir melinn en Girðinefsgötu þar er Þórður hljóp ofan.
Miðfirðingar eggjuðu þá Snorra til eftirreiðar og veitti Teitur honum mikið ámæli er hann vildi eigi auka vandræði þeirra. Eftir það voru dylgjur miklar millum sveitanna en aðfaralaust þaðan frá.
Maður hét Þórarinn er bjó í Snóksdal, son Gríms Eldjárnssonar, góður bóndi. Hann átti Steinunni dóttur Brands frá Fellsenda. Þórarinn var vin og frændi Gíslunga og gaf þeim til setunnar mat mikinn og léði þeim vopna og gerði sig beran í liðveislu við frændur sína.
Snorri fékk sætta Miðfirðinga og Víðdæli og gerði of sakar allar er gerst höfðu á Mel og meðal þeirra voru, bæði um víg og áverka.
En eftir það réðst Eyjólfur Kársson vestur í fjörðu og fékk Herdísar Hrafnsdóttur Sveinbjarnarsonar. Henni fylgdi heiman land að Stökkum á Rauðasandi.
Þá er Eyjólfur var á Eyri með mágum sínum fýstist hann að fara norður í Víðidal að erindum sínum. Hann hafði sveit manna. Sveinbjörn mágur hans var við honum. Þeir fóru norðan Haukadalsskarð og dvaldist fyrir neðan garð í Snóksdal.
Þá sendi Eyjólfur heim eftir Gelli presti Höskuldssyni er þar söng. Eyjólfur kallaði á tal við sig Þorberg fylgdarmann sinn og talaði við hann einmæli. Síðan bað hann þá fara heim og biðja Þórarin bónda hrossa út á Hólmlátur. Þeir ætluðu að fara út á Eyri og þaðan vestur á skipum.
Sveinbjörn Hrafnsson fór með honum og annar norðlenskur maður og enn var hinn fjórði. Og er þeir komu heim kalla þeir út Þórarin bónda. Hann gekk út og Helgi djákni son Einars Bjarnasonar frá Kvennabrekku.
Þorbergur bað Þórarin hestanna en hann sagði vera upp á háls. Þorbergur hljóp af baki og bað vísa sér til hrossanna. Þórarinn gekk fyrir vegginn og hafði öxi í hendi. Hann rétti höndina til hestanna.
En Þorbergur hjó af höndina fyrir framan olbogann. Hljóp öxin á nárann fyrir ofan mjaðmarhöfuðið og þar á hol. Þá hljóp djákni til og vildi duga bónda. Hann hafði sverð og buklara. Guðmundur Norðlendingur lagði til hans og kom í buklarann og renndi í brjóstið fyrir ofan geirvörtuna. Sneru þeir þá inn. En þeir Þorbergur sneru ofan til móts við Eyjólf og sögðu presti að bónda þætti mál að hann kæmi heim. Riðu þeir Eyjólfur á brott. En þeir Þórarinn höfðu prestsfund og létust báðir um daginn og lifði Þórarinn lengur.
Steinunn kona Þórarins sótti Þórð Sturluson að eftirmáli of víg Þórarins og fal honum á hendi sjálfa sig því að Sighvatur var þá norður en Sturla og Tumi voru þá ungir.
Dufgus Þorleifsson átti bú að Sauðafelli og var illa með þeim Þórarni.
Þórður lét búa mál til alþingis og urðu þeir báðir sekir Þorbergur og Guðmundur. Sveinbjörn vann eið að hann hefði eigi vitað vígið en Eyjólfur galt fyrir það er honum voru fjörráð kennd.
Sighvatur var heldur andstreymur um eftirmálið því að honum þótti verr er Þórður hlutdeildi og hann kom Þorbergi utan austur í fjörðum.
Þetta vor gerði Eyjólfur bú að Stökkum á Rauðasandi. Þá var Guðmundur hinn seki fylgdarmaður hans og annar Uxi, norðlenskur maður.
Á Rauðasandi í Saurbæ bjó þá Gísli Markússon og lagðist lítt á með þeim Eyjólfi. Varð þeim margt til í byggðarlagi um fjárbeitir og annað. Gísla þóttu fylgdarmenn Eyjólfs glepja konur þær er honum gast eigi að og gerðist með þeim hinn mesti fjandskapur.
Það var á jólum er Stakkamenn komu til tíða. Þá var Gísla sagt að þeir voru í kirkju. Þá sendi hann til mann að læsa kirkjunni. Var Eyjólfur þar en Guðmundur í skotinu. Hann átti eigi kirkjugengt. Gísli og hans menn hljópu til vopna og fóru til kirkju. Bað Eyjólfur þá griða en þess var varnað. Guðmundur gekk út úr skotinu og færði Gísla höfuð sitt en Gísli lést þiggja mundu og kvaddi heimamann sinn, þann er Guðmundur hafði áður illa leikið og glapið konu fyrir, að hann skyldi drepa hann. Þá leiddu þeir hann upp um garð og drápu hann þar.
Eyjólfur komst út um glerglugg austur úr kirkjunni og hljóp út til Stakka og í kastala er hann átti þar. Þeir Gísli fóru út þangað og sóttu hann í kastalann. Þar var húskarl hans í hjá honum er Þorsteinn stami hét og griðkona er Þorbjörg hét. Eyjólfur varðist alldrengilega en Þorsteinn spurði hvort hann skyldi eigi gefa nautum. Eyjólfur bað hann fara hvert er hann vildi og tók hann orlof.
Þar um er þetta kveðið:
42.
Sendir rann af Sandi
sundhreins frá bör fleina
hræddr, svo að hjartað loddi
happlaust við þjóhnappa.
Framar kváðu þar fúra
fleyvangs Njörun ganga,
sókn var hörð er eg heyrði,
hreinláta Þorsteini.
Eyjólfur varð eigi sóttur og hurfu þeir frá Gísli og hans menn. Grið fengu menn Eyjólfs, þeir er í kirkju voru.
Eftir þetta fór Eyjólfur norður á Eyri til mága sinna og voru þá dylgjur miklar millum þeirra. Var þá leitað um sættir með þeim og var lagður sáttarfundurinn um vorið í Tálknafirði og voru grið sett þar til er hvorirtveggju kæmu heim. En ekki urðu þeir sáttir. Hljópu þeir Gísli upp og fóru heim en Eyjólfur og hans menn fóru eftir þeim og út á Sand.
Og er þeir komu í Saurbæ höfðu þeir Gísli fyrir búist á húsum uppi og gert sér þar gott vígi með viðum. Fengu þeir Eyjólfur lítt atsókn við komið og settust þeir um virkið. Komu menn þá til og leituðu um sættir með þeim. Þeir Eyjólfur höfðu matfátt og fóru til fjóss og ætluðu að taka naut nokkuð. Gekk Jón Ófeigsson bróðir Eyjólfs fyrst í fjósið. Þar var fyrir nautamaður Gísla og stóð í uxabási. Þá hjó hann á mót Jóni og kom á kinnina og rauf á hvoftinum og úr jaxlana tvo. Féll hann þá út í fang sínum mönnum. En nautamaður hljóp innar eftir fjósinu og út í hlöðuvindauga og svo upp í virkið. Og er það mál manna að þeir hafi ólíkast borið sig nautamaður þeirra Gísla eða Eyjólfs.
Eftir þetta fékk Steinólfur prestur sætta þá. Skyldi Snorri Sturluson gera um málin og áverka Jóns.
En eftir sætt þeirra réðst Eyjólfur brott af Rauðasandi og kaupir Flatey á Breiðafirði og fór þangað að búa.
Þar kom til hans Aron Hjörleifsson og Sigríðar Hafþórsdóttur Aronssonar Bárðarsonar hins svarta. Herdís kona Eyjólfs var Hrafnsdóttir Sveinbjarnarsonar Bárðarsonar hins svarta. Aron hafði vaxið upp að fóstri með ágætum manni, Þorláki Ketilssyni í Hítardal. Voru þeir Sturla Sighvatsson fóstbræður þar til er Sturla fór á brott úr Hítardal fimmtán vetra gamall til föður síns en Aron í Flatey til Eyjólfs. Urðu þá í greinir nokkurar áður þeir skildu. Þeir Aron voru bræður og Ólafur er síðan var ábóti að Helgafelli.
Nær þessu var það tíðinda eitt sumar á þingi að búðir Snorra Sturlusonar stóðu hið næsta og Allsherjarbúð er Magnús goði átti son Guðmundar gríss og Solveigar dóttur Jóns Loftssonar.
Þeir voru fylgdarmenn Snorra Valgarður Styrmisson og Herburt. Hann var Suðurmaður og kunni allra manna best við buklara. Þeir gengu með nokkura menn til búðar Magnúss og hjuggu kylfur úr viðkesti sem þá var títt að bera til dóma. En sá hét Erlendur bakrauf, Hjaltur einn, hann var þar heitumaður og geymdi viðarins. Hann hljóp til og vildi eigi að viðurinn væri dreginn.
Þá var sagt Magnúsi að þeir héldust á úti og þar var hlaupaför. Hann bað sína menn til fara og hljóp út fyrstur. En er hann kom út hafði hann Herburt brugðið sverði og vildi höggva Hjaltinn. Magnús tók berum höndum sverðið og stöðvaði höggið. Hann skeindist mjög á höndunum.
Þá var sagt Sæmundi að unnið væri á Magnúsi. Sæmundur lét tómlega við áður Páll son hans spurði hvort hann mundi sitja kyrr þótt Magnús systurson hans væri drepinn úti. Þá mælti Sæmundur að menn skyldu taka herklæði sín.
Nú var sagt Snorra að menn hans voru barðir úti og hljópu allir til vopna og út í búðasundið og fylktu þar. Snorri sendi orð bræðrum sínum, Þórði og Sighvati. Komu þeir þá til báðir með sína menn og þótti Sighvati Snorri ekki vel hafa haldið stöðunni áður hann kom til.
Dreif nú til allur þingheimurinn og veitti hver sínum vin. Voru hvorirtveggju mjög fjölmennir en þó var Sæmundur miklu aflamestur. Þorvaldur Gissurarson réð til meðalgöngu og margir menn með honum en þeir Páll Sæmundarson og Loftur biskupsson eggjuðu mest til atgöngu. En Þorvaldur gat komið á griðum um nokkurra nátta sakir.
Senda þá allir höfðingjar heim eftir liði. Þórður Sturluson sendi Þórð Kolbjarnarson eftir Böðvari syni sínum. Riðu þeir föstudag af Þingvelli út til Staðar en Böðvar kom á laugardaginn að nóni á Eyjarsanda með hálft annað hundrað manna. Kom þá orðsending á mót honum að þeir voru sáttir.
En þær urðu málalyktir að Sæmundur skyldi gera fé svo mikið sem honum líkaði og allar sektir voru frá skildar. Bændur af Akranesi gengu til handsala fyrir Snorra.
Þá er Sæmundur kom í búð sína þá talaði einn hans maður að enn færi sem oftar að Sæmundur hefði enn einn virðing af málum þessum.
Sæmundur svarar: Hvað tjór slíkt að mæla því að bræður þessir draga sig svo fram að nær engir menn halda sig til fulls við þá?
Eftir þetta fóru menn af þingi og Snorra líkaði illa.
Jórunn hin auðga hét kona er bjó á Gufunesi. Atli hét maður sá er að búi var með henni. Þeir voru þrír bræður Svartur og Eiríkur synir Eyjólfs Óblauðssonar. Í þann tíma andaðist Jórunn og átti engan erfingja þann er skil væri að, en hún var í þingi með Magnúsi og ætlaði hann sér fé hennar en skipta frændum hennar til handa slíkt sem honum sýndist. En er Snorri spurði þetta sendi hann suður á nes Starkað Snorrason. En er hann kom sunnan hafði hann með sér þann mann er Koðrán hét, strák einn, og kallaði Snorri þann erfingja Jórunnar og tók hann það fémál af Koðráni.
En um vorið um stefnudaga fór Snorri suður á Seltjarnarnes og hafði tvær ferjur af Akranesi og fjóra tigu manna á hvorri. Þeir létu fáa eina sjá er þeir fóru suður að nesinu og komu þeir mjög á óvart Magnúsi og stefndi Snorri Magnúsi skóggangsstefnu til Þverárþings. Magnús kallaðist þar utanþingsmaður en Snorri bað hann þar vörn fram færa.
Eftir það fór Snorri heim og fór málum sínum fram á Þverárþingi og varð Magnús sekur skógarmaður. Eftir þetta fjölmenntu mjög hvorirtveggju til alþingis.
Snorri lét gera búð þá upp frá Lögbergi er hann kallaði Grýlu. Snorri reið upp með sex hundruð manna og voru átta tigir Austmanna í flokki hans alskjaldaðir. Bræður hans voru þar báðir með miklu liði. Allir voru þeir fyrir vestan á. Dylgjur miklar voru um þingið. Magnús biskup fékk sætta þá og hann leysti landið á Gufunesi til handa Atla og lagði þá mjölskuld í landið.
Snorri hafði virðing af málum þessum og í þessum málum gekk virðing hans við mest hér á landi. Hann gerðist skáld gott og var hagur á allt það er hann tók höndum til og hafði hinar bestu forsagnir á öllu því er gera skyldi. Hann orti kvæði um Hákon galin og sendi jarlinn gjafir út á mót, sverð og skjöld og brynju.
Þar kvað um Máni þetta:
43.
Ör hefir sendar Snorra
siklingr gjafir hingað.
Unni afreksmanni
jarl gersema snarla.
Gæðingr hlaut, sem gátum,
göfugr af tignum jöfri,
það fékk skáld, með skildi,
skynjað, sverð og brynju.
Jarlinn ritaði til Snorra að hann skyldi fara utan og lést til hans gera miklar sæmdir og mjög var það í skapi Snorra. En jarlinn andaðist í þann tíma og brá það utanferð hans um nokkurra vetra sakir en þó hafði hann ráðið för sína þegar tími væri til.
Í þenna tíma fór utan Páll Sæmundarson. Og er hann kom til Björgvinjar gerðu Björgvinjarmenn að honum spott mikið og sögðu að hann mundi ætla að vera konungur eða jarl yfir Noregi. Sumir létu sem heitast skyldu við hann og kölluðu óráð að bíða þess að hann efldi ófriðarflokk nokkurn.
Nú við sköll þá er Páli þótti ger að sér réð hann sig í byrðing er ætlaði norður til Þrándheims á fund Inga konungs. Þeir sigldu sjö byrðingum fyrir Stað. Áslákur Hauksson var á einum fyrirmaður. Þar týndust allir þessir byrðingar og lést hvert mannsbarn er á var.
En er þetta spurði Sæmundur faðir hans varð hann reiður mjög og tók svo upp að Páll hefði látist af völdum Björgvinjarmanna. Hann safnaði sér liði miklu og fór út á Eyrar og bar þessar sakir á Björgvinjarmenn og var þar engi kostur annar en Austmenn skyldu festa honum gjöld svo mikil sem hann vildi á þá leggja. Áttu þar margir hlut að að sefja Sæmund og Ormur bróðir hans mestan og honum fór best af öllum Oddaverjum en ekki stoðaði. Tók Sæmundur þar upp þrjú hundruð hundraða fyrir kaupmönnum.
Í Vestmannaeyjar kom knörr mikill og hafði verið Grænlandsfar. Voru þeir stýrimenn Grímar og Sörli. Hann var úr Harðangri. Lagði Sæmundur gjöld á þá sem á aðra menn.
Sörli var um veturinn með Ormi og þótti þeim Grímari allillt félátið. Fór Grímar um vorið í Odda og þeir eigi allfáir Austmennirnir og létu alltortrygglega. Höfðu menn það fyrir satt að þeir hefðu ætlað að ráða á Sæmund ef þeir þættust afla til hafa en þar var margt manna fyrir. Illir voru þeir viðskiptis við landsmenn.
Ormur keypti við að þeim til þaks á kirkju sína og var eigi á land fluttur.
Magnús biskup kom út tveimur vetrum áður.
En um sumarið áður þeir Grímar bjuggust utan fór Ormur Jónsson út í Eyjar og ætlaði að sækja við þann er hann hafði keypt. Og er hann kom út spurði hann Sörla að ef hann vildi ljá honum bátinn en hann kveðst ljá mundu ef þyrfti. Og um daginn er Ormur ætlaði að búast hljóp Grímar að honum og hjó hann banahögg. Þá sneru þeir að Jóni syni hans og sögðu að sá skyldi skemmst eiga að gráta sinn föður og vógu hann. Báðir voru þeir messudjáknar að vígslu. Skeggi prestur laust til Ívars Sörlasonar og hljóp síðan upp á raftabolung og varðist þaðan. Ívar Sörlason vó hann. Þorleifur úr Kollabæ lést og þar. Hann var djákn og átti Guðnýju dóttur Indriða prests Steingrímssonar. Eftir þetta létu Austmenn engi skip ganga úr Eyjunum áður þeir sigldu á haf.
Þetta þóttu mikil tíðindi og ill þá er spurðust. Fór Sæmundi það drengilega að hann gaf allan arf börnum Orms eftir hann, óskilgetnum.
Þá hafði Björn son Þorvalds Gissurarsonar fengið Hallveigar dóttur Orms. Bjuggu þau á Stokkseyri og áttu son er Klængur hét. Og um vorið eftir víg Orms réðst Björn á Breiðabólstað og tók við búi því er Ormur hafði átt og Dalverjagoðorð. Hafði hann þá vald yfir fé Kolskeggs og stórfé er Ormur hafði átt. Gerðist hann rausnarmaður í búi og þótti vænn til höfðingja. Var hann ákafamaður mikill í skapi.
Hann reið norður til Miðfjarðar til þeirra Kálfssona frænda hans. Þaðan fór hann til Bjargs og dró þar Austmann úr kirkju og lét drepa. Sá var honum sagður frændi Sörla.
Borghildur er verið hafði frilla Orms hafði Vallaland og mikið fé annað. Hún gerði heiman dóttur Orms en synir hans höfðu sumt. Guðrún hét dóttir Orms. Hún var sér um móður. Hún var gift Hólmsteini Grímssyni. Þeirra son var Grímur prestur. Sæmundur var vel til allra barna Orms.
Sumar það er Ormur var veginn réðst Snorri Sturluson til utanferðar. Handsalaði hann þá Þórði bróður sínum fé sitt allt til varðveislu en fyrir búið í Reykjaholti setti hann Guðnýju móður sína. Hún hafði áður verið fyrir búum Þórðar sonar síns að Stað eða á Eyri.
Það sumar áður Snorri fór utan gifti hann Hallberu dóttur sína Árna syni Magnúss Ámundasonar. Var brúðlaup þeirra í Reykjaholti. Hafði hann Brautarholt til félags við hana og mikið fé annað. Voru þau í Reykjaholti lengstum þau misseri því að ekki nýtti af henni um samvistur ef þau voru eigi þar.
Snorri frétti eigi víg Orms fyrr en hann kom í Noreg en hann fór utan í Hvítá. Og lagðist þungur orðrómur á um mál Oddaverja um fjárupptökur þær sem verið höfðu á Eyrum. Um víg Orms var þunglega svarað þeim mönnum er þar beiddu bóta fyrir.
Þá er Snorri kom til Noregs voru höfðingjar orðnir Hákon konungur og Skúli jarl. Tók jarl forkunnar vel við Snorra og fór hann til jarls. En þeir menn er utan fóru með Snorra réðust til suðurferðar, Ingimundur Jónsson og Árni son Brands Gunnhvatssonar.
Snorri var um veturinn með jarli en um sumarið eftir fór hann austur á Gautland á fund Áskels lögmanns og frú Kristínar er átt hafði áður Hákon galinn.
Snorri hafði ort um hana kvæði það er Andvaka heitir fyrir Hákon jarl að bæn hans og tók hún sæmilega við Snorra og veitti honum margar gjafir sæmilegar. Hún gaf honum merki það er átt hafði Eiríkur Svíakonungur Knútsson. Það hafði hann þá er hann felldi Sörkvi konung á Gestilsreyni. Snorri fór um haustið aftur til Skúla jarls og var þar annan vetur í allgóðu yfirlæti.
Það sumar hið sama sem Snorri fór utan kom út Guðmundur biskup og fór til stóls síns. Setti hann þá skóla að Hólum og var Þórður ufsi meistari. Dreif þá lið mikið til biskups og horfði til kostnaðar.
Arnór dró þá lið saman og kom um nótt til Hóla. Tóku þeir biskup í hvílu sinni og drógu hann ofan eftir húsum. Hann setur hendur eða fætur í dyristafi eða þili en þeir drógu hann því harðara svo að við stórmeiðslum var búið. Þeir koma honum um morguninn út úr húsum, lögðu hann þá í vagir og óku með hann í Ás til bús Arnórs. Þeir ráku af staðnum allt lið það er biskupi var hendilangt, svo meistara og alla skólasveina en heitast að brenna skólann og lið það er inni var. Þá fór meistari á Völlu og Eyjólfur son Valla-Brands. Kenndi hann mörgum sveinum um veturinn. Þann vetur var biskup í Ási og haldinn sem óspektarmaður í myrkvastofu. Einn þjónn var hjá honum og aldrei var hann frjáls að ganga að nauðsynjum sínum á brott.
Um sumarið eftir báru þeir hann í börum til Hvítár. Í þessi ferð þoldi hann svo hart að hélt við beinbrot að því er menn hugðu. Hestarnir voru keyrðir undir honum svo hart að barirnar hrutu í sundur en biskup dragnaði um grjót og móa en hafði af engum þeirra hjálp.
Um sumarið eftir tók Arnór sér far og ætlaði að biskup skyldi þar utan hvort er honum líkaði vel eða illa. Sat Arnór þar um sumarið og var biskup þar í geymslum.
Þá bjó Eyjólfur Kársson í Flatey sem fyrr var sagt. Honum fannst mikið um er biskup var að nokkuru nauðbeygður og sendi suður sveinpilt þann er hét Skúma hinn litli. Hann var hraustur og eigi svo ungur sem hann var lítill vexti. Hann var á Hvítárvöllum um sumarið og hljóp þangað sem hann var sendur. Var hann lengstum í búð Norðlendinga þar sem biskup var. Þær voru fyrir vestan Hvítá undir Þjóðólfsholti þar sem nú er húsabærinn. Voru dyr á miðri búð og horfðu upp að holtinu. Var biskup í þann arm búðarinnar er vissi frá ánni og stóð húðfatið við gaflinn og vissi höfðafjölin ofan til Ferjubakka.
Um sumarið eftir Maríumessu fór Eyjólfur Kársson úr Flatey og suður til Eyrar til Guðrúnar mágkonu sinnar og fékk sér þar hesta. Voru þeir fimm eða sex og riðu suður um heiði og svo suður um Mýrar þar til er þeir komu í Eskiholt. Þar bjó sá maður er Guðmundur hét. Hann varðveitti þá Eyjólf þar í sauðahúsi sínu og hann sagði biskupi að Eyjólfur var kominn.
Það var eina nótt að laust á foraðsveðri með regni og krapadrífu. Þá riðu þeir Eyjólfur á Völlu og sendu fyrir einn sinn förunaut til móts við Skúmu og sagði hann þeim hvað títt var að sex menn vöktu yfir biskupi og hrukku þeir menn inn í búðina. Og þá er Eyjólfur kom voru þeir sofnaðir og hrutu mjög. Þá var vott veður. Eyjólfur spretti tjaldskörum að höfði biskupi og tóku af húðir er tjaldað var með bæði utan og innan. Hann tók biskup í fang sér og gekk með hann brott frá búðinni og færðu hann þar í klæði þau er þeir höfðu haft á mót honum, kórkápu og kyrtil hvítan, og riðu brott með hann og út á Mýrar. Og sögðu þeir svo að þeir fengju hvergi blautt um Valbjarnarvöllu en hrælog brunnu af spjótum þeirra svo að lýsti af.
Skúma hinn litli lagðist í húðfat biskups og sögðu varðmenn að kampi svæfi lengi um morguninn. Sumir sögðu hann vera mundu sjúkan er hann gáði eigi tíða sinna. Gengu menn þá til og leituðu orða við hann. Sagði Skúma að biskup var á brottu og Eyjólfur Kársson hefði sóttan hann, kallaði þá eigi skemmra komna mundu en vestur yfir Langavatnsdal. Var þá sagt Arnóri og þótti honum allilla en þó varð eigi eftirreiðin því að þeir vissu eigi hvort biskup hafði snúið út á Mýrar eða vestur í Dali.
Arnór brá utanferð sinni og fór norður til Skagafjarðar og var þar um veturinn.
Þeir biskup fóru í hríðinni vestur á Eyri til Guðrúnar Sveinbjarnardóttur og gengu þar á skip og fóru vestur til Flateyjar. Þeir voru þar litla hríð áður þeir fóru inn til Kerlingarfjarðar og lágu þar í skógum þar til er þeir spurðu að engi varð eftirleitin þeirra Arnórs.
Fyrir Maríumessu síðari sendi biskup mann í Múla á Skálmarnes til Oddleifs prests að hann vildi þar veita tíðir Maríumessu og vera þar við níunda mann. En prestur taldist undan og þóttist eigi mega við þeim taka. Þá beiddist biskup að þeir skyldu vera við hinn þriðja mann áður þeir skildu en prestur taldist undan eigi að síður. Þá sagði biskup að hann mundi henda meira misfelli á þeim misserum en þó að hann æli biskup með þriðja mann. Og það gekk svo að annað sumar um nóttina fyrir Maríumessu brann þar upp bærinn að köldum kolum.
Guðmundur biskup var í Kerlingarfirði um hríð og bætti þar mjög að reimleikum þeim er menn þóttust þar eigi mega úti búa áður en síðan varð að því engum manni mein.
Biskup fór þá þaðan út í Flatey og var þar um veturinn með miklu fjölmenni. Hafði Eyjólfur mikinn kostnað og fékk skörulega til.
En um vorið fer biskup norður í sveitir og með honum Eyjólfur Kársson og Einar Hrafnsson. Þar var Ketill Ingjaldsson, Jón Ófeigsson bróðir Eyjólfs. Þeir komu til Hóla og dvöldust þar um hríð.
Síðan fóru þeir norður til Svarfaðardals og ætlaði biskup norður í sýslu sína en Eyfirðingar vildu eigi taka við biskupi á bæi sína og flokk hans. Fór biskup yfir fjörð til Höfða, fór síðan tómlega norður til Reykjadals og þar dvaldist biskup lengi um sumarið. Dreif þá til hans fólk margt. Bergþór Jónsson var þar með biskupi og hafði hann nær tíu tigu manna. Þótti bóndum þungt undir að búa og þoldu þó um hríð. Fer biskup í Múla og tekur Ívar við honum liðlega og er þar sæmileg veisla þess er sjá mátti að engi ástsemd var veitt af Ívari. Skilja þeir þó vel og fór biskup á brott og sest á Einarsstaði um hríð. Flýr Ögmundur prestur ofan í Múla með málnytu sína en Höskuldur Gunnarsson er bjó á hálfu landinu var eftir því að hann bauð biskupi það er hann hafði til.
Litlu síðar gisti biskup á Grenjaðarstöðum. Var þá það orð á að hann mundi þaðan í Múla í annað sinn. Ívar vill nú víst eigi við honum taka og hafði fjóra tigu manna og búnir sem til bardaga og skipaði mönnum í stöður. En að þeim viðurbúningi ríður biskup í tún. Spyrja þeir Eyjólfur hvað safnaður þessi skal en Ívar segir að þeir skulu nú að keyptu komast áður þeir fái eign hans og segir að nú skal fara allt saman, karl og kýr.
En er biskup heyrði þetta þá mælti hann: Ríðum vér sveinar og eigum ekki við Ívar því að nú er óhreinn andi með honum.
Biskup ríður yfir til Kinnar og gistir að Stað.
Bændur fara heim og gera orð Sighvati og Arnóri og þeir rýmdu af þeim ófriði þessum. Þeir bregða við skjótt. Safnar Arnór mönnum um dali en Sighvatur um Eyjafjörð.
Mánadaginn er biskup var undir Fjalli ríður Ívar ofan í Valahrís og með honum Ögmundur prestur af Einarsstöðum og Oddur son hans. Finna þeir þar á veginum Þorvarð úr Saurbæ og stíga af hestum sínum og töluðust við. Þá ríður þar að Höskuldur Gunnarsson.
Ívar mælti: Hví ríður þú hér Höskuldur í glett við oss því að ósýnt er hversu vér þolum þér það.
Eg hlýt að ráða ferðum mínum en þér munuð yður ráða.
Í því hljóp að Oddur skeiðkollur og höggur til Höskuldar og stefnir á fótinn en Höskuldur brá undan fætinum og fram á hestshálsinn og kom á síðu hestsins. Í því reið Höskuldur undan en hesturinn féll dauður niður er hann kom á völlinn undir Fjalli. Fór hann á fund biskups en þeir Ívar heim í Múla.
Síðan fer biskup á Einarsstaði og þaðan á Helgastaði og ætlaði að vígja þar kirkju á Jónsmessu of haustið sem hann gerði.
Eyjólfur Kársson fór í Múla og bauð Ívari að biskup vígði þar kirkju um daginn eftir en Ívar vildi eigi og lést vígi verja mundu ef biskup kæmi.
Nú kemur biskupi njósn að flokkar drógust að öllum megin. Biskup lýkur þá kirkjuvígslu. Síðan búast menn til varnar þar í kirkjugarðinum og báru að sér grjót mikið. Síðan sjá þeir að flokkarnir fara ofan að Einarsstöðum. Er þá sveit biskups í kirkjugarði en Þorljótur bóndi og Sigurður bróðir hans og heimasveitin voru einir sér.
Þá mælti Sigurður: Sjáið nú sveinar hvar flokkurinn þeirra höfðingjanna ríður enda skellur þar nú lás fyrir búr þeirra Reykdæla.
Síðan sáu þeir annan flokk ríða neðan eftir Vatnshlíð. Flokkarnir urðu mjög jafnskjótir. Þá var nón dags.
Var þá slegið upp herópi og skipað til atgöngu. Gekk Arnór sunnan að með sína menn en Sighvatur að hliðinu og úr túninu en Ívar norðan. Biskup er í kirkju. Gengur nú hörð hríð með grjóti og lögum. Sturla Sighvatsson fékk steinshögg.
Þá mælti Sighvatur: Engu eira þeir nú biskupsmenn. Nú berja þeir sveininn Sturlu sem aðra menn eða hvar ert þú Guðmundur Gilsson? Sérð þú hvergi Eyjólf Kársson í kirkjugarðinum? Eða manstu eigi bardagann á Mel?
Við eggjan þessa knúðust Sighvats menn fast til atgöngu. Féll þá margt af biskupsmönnum. Þá féll sá maður er Gísli hét. Litlu síðar fékk lag í augað af spjóti maður Arnórs er Hámundur hét Þorvarðsson. Hann andaðist of morguninn eftir. Eftir þetta gekk biskup úr kirkju og til sinna manna. Eru þeir þá allákafir og berjast djarflega og engi einn betur en Jón Ófeigsson.
Og við þetta leggja þeir frá að sinni og létust heldur vilja vinna með ráðum en mannháska, vildu og eigi berjast fyrir það að biskup væri í lífsháska. Setja þeir menn til að engir af biskupsmönnum kæmust á brott án þeirra vilja. Síðan gengu þeir fyrirmennirnir suður á völlinn.
Þá spurði Arnór Sighvat: Þykir þér eigi hörð hríð gengið hafa mágur? Hörð víst, segir hann.
Arnór mælti: Í sumar hefir mér verið kvellingasamt en er mér komu orð Reykdæla, að þeir þyrftu liðs við, hóf af mér allar vomur svo að eg kenni mér hvergi illt.
Það mun þér þykja jartein, segir Sighvatur.
Arnór segir: Slíkt kalla eg atburð en eigi jartein.
Síðan setjast þeir um kirkjugarðinn og var leitað um sættir og var sem það gerði ekki. Líður nú af nóttin. Var biskup og hans menn í kirkju en hinir sátu umbergis. Einn biskupsmaður komst úr kirkju út yfir um á. Sá hét Eyjólfur hríðarefni, óspakur maður. Var hann þar tekinn og barður. Drógu þeir hann heim hálfdauðan og drápu hann þar.
Drottinsmorguninn snemma gerðu þeir vígflaka af röftum og bera hann að lundi þeim er stóð sunnan að garðinum og grafa þar garðinn undir flakanum. Var þar mjög jafnskjótt að hlið varð á garðinum og biskupsmenn gáfust upp og fóru í kirkju.
En Ísleifur Hallsson var þar kominn og höfðu engir hans menn barist. Hann bjó þá að Þverá í Laxárdal. Ísleifur bauð biskupi að fara heim með sér og það þá biskup.
En þeir er eftir voru gengu til griða. Gaf Arnór grið Eyjólfi Kárssyni en Tumi Sighvatsson Jóni Ófeigssyni. Tveir menn voru drepnir. Hét annar Þorgeir háleygur, annar Þórður Arason. Reið Sighvatur þá á brott en Arnór nótt síðar.
Biskup fór frá Þverá norður yfir Reykjaheiði og allt á Sauðanes og gerði þar vígslur á sæludögum. Eftir það fór hann norður til Öxarfjarðar og svo um Reykjaheiði. En er hann kemur í Reykjardal er honum sagt að Eyfirðingar muni á mót honum rísa. Fór hann þá til Bárðardals og upp Króksdal, svo suður um Sand og létti eigi fyrr en hann kemur í Odda og tekur Sæmundur allvel við biskupi og býður honum þar að vera meðan hann vill og það þiggur biskup. Er hann þar um veturinn við nokkura menn en suma vistaði hann annars staðar þar nær.
Snorri Sturluson var tvo vetur með Skúla sem fyrr var ritað. Gerðu þeir Hákon konungur og Skúli hann skutilsvein sinn. En um vorið ætlaði Snorri til Íslands. En þó voru Noregsmenn miklir óvinir Íslendinga og mestir Oddaverja af ránum þeim er urðu á Eyrum. Þó kom því svo að ráðið var að herja skyldi til Íslands um sumarið. Voru til ráðin skip og menn, hverjir fara skyldu. En til þeirrar ferðar voru flestir hinir vitrari menn mjög ófúsir og töldu margar latar á.
Guðmundur skáld Oddsson var þá með Skúla jarli.
Hann kvað vísu þessa:
44.
Hvað skal eg fyrir mig hyrjar
hreggmildr jöfur leggja,
gram fregn að því gegnan,
geirnets, sumar þetta?
Byrjar hafs að herja
hyrsveigir mér eigi,
sárs vinnr jarl, á órar
ættleifðir, svan reifðan.
Snorri latti mjög ferðarinnar og kallaði það ráð að gera sér að vinum hina bestu menn á Íslandi og kallaðist skjótt mega svo koma sínum orðum að mönnum mundi sýnast að snúast til hlýðni við Noregshöfðingja. Hann sagði og svo að þá voru aðrir eigi meiri menn á Íslandi en bræður hans er Sæmund leið en kallaði þá mundu mjög eftir sínum orðum víkja þá er hann kæmi til. En við slíkar fortölur slævaðist heldur skap jarlsins og lagði hann það ráð til að Íslendingar bæðu konunginn að hann bæði fyrir þeim að eigi yrði herferðin.
Konungurinn var þá ungur en Dagfinnur lögmaður var ráðgjafi konungsins. Hann var hinn mesti vin Íslendinga og var það af gert að konungur réð að eigi varð herförin. En þeir Hákon konungur og Skúli jarl gerðu Snorra lendan mann sinn. Var það mest ráð þeirra jarls og Snorra. En Snorri skyldi leita við Íslendinga að þeir snerust til hlýðni við Noregshöfðingja. Snorri skyldi senda utan Jón son sinn og skyldi hann vera í gíslingum með jarli og það endist sem mælt var.
Snorri varð heldur síðbúinn og fékk harða útivist, lét tré sitt fyrir Austfjörðum og tók Vestmannaeyjar. Jarlinn hafði gefið honum skipið, það er hann fór á, og fimmtán stórgjafir.
Snorri hafði ort um jarl tvö kvæði alhend og voru klofastef í drápunni:
45.
Harðmúlaðr var Skúli
rambliks framast miklu
gnaphjarls skapaðr jarla.
En er Snorri kom í Vestmannaeyjar þá spurðist brátt inn á land útkoma hans og svo með hverjum sæmdum hann var út kominn. Ýfðust Sunnlendingar þá mjög við honum og mest tengdamenn Orms Jónssonar. Þótti þeim sem hann mundi vera settur til af Noregsmönnum að standa á móti svo að þeir mættu engu eftirmáli fram koma um víg Orms. Var mest fyrir því Björn Þorvaldsson er þá bjó á Breiðabólstað og þótti vænn til höfðingja. Sunnlendingar drógu spott mikið að kvæðum þeim er Snorri hafði ort um jarlinn og snöru afleiðis.
Þóroddur í Selvogi keypti geldingi að manni að þetta orti:
46.
Oss líst illr að kyssa
jarl sá er ræðr fyrir hjarli.
Vörr er til hvöss á harra,
harðmúlaðr er Skúli.
Hefir fyrir horska jöfra
hrægamms komið sævar,
þjóð finnr löst á ljóðum,
leir aldregi meira.
Snorri gisti í Skálaholti er hann fór frá skipi og þeir tólf saman, höfðu meir en tylft skjalda og alla mjög vandaða og létu allt vænt yfir sér.
Þá kom þar Björn Þorvaldsson með fylgdarmenn sína og voru þeir allgemsmiklir Steingrímur Skinngrýluson og aðrir þeir er fóru með honum. Og kom svo að Björn gekk í berhögg við Snorra og spurði hvort hann ætlaði að sitja fyrir sæmdum þeirra of eftirmál Orms en Snorri duldi þess. Björn lét sér það ekki skiljast og hélt þar við heitan. Magnús biskup átti hlut að með þeim en þó skildu þeir heldur stuttlega.
Snorri fór heim í Reykjaholt og var þar um veturinn.
Þenna vetur var Guðmundur biskup í Odda með Sæmundi eftir bardagann á Helgastöðum.
Þenna sama vetur spratt upp mikill fjandskapur með þeim Birni Þorvaldssyni og Lofti biskupssyni. Varð þeim margt til. Skildi þá fyrst á um skóga Kolskeggs hins auðga og Lofts. Kolskeggur átti bú á Leirubakka og lágu saman skógar þeirra Lofts. Og þótti Lofti húskarlar Kolskeggs hafa höggið skóg sinn og beiddi þar bóta fyrir en Björn Þorvaldsson vildi engu bæta láta og taldi Loft ljúga allt til um skógamerki. Og hér með færðu Breiðbælingar Loft í flimtan og gerðu um hann dansa marga og margskonar spott annað.
Sáttarfundur var settur með þeim í Árnesi. Skyldu gera Þorvaldur Gissurarson og Sæmundur Jónsson.
En er Loftur innti sitt mál sagði hann Pál biskup föður sinn segja þau skógamörk sem eg segi.
Kolskeggur svarar: Engi þótti faðir þinn jafnaðarmaður í fyrstu og heldur fylginn sínu máli þó að hann yrði nú góður maður er hann varð biskup.
Loftur hljóp þá upp og mælti: Heyr þar til, þú rassragur maður mundir bregða föður mínum rangindum. Skal nú aldrei sættast.
Sæmundur mælti: Ekki, ekki.
Þorvaldur tók þá til orða: Eigi mun nú ekki eitt þitt þurfa ef duga skal.
Sendu þeir þá eftir Lofti og báðu hann halda sættir þær er handseldar voru en Loftur vildi það eigi nema Þorvaldur ynni eið að gerð þeirra. Þeir gerðu skóga til handa Kolskeggi. Bað Sæmundur Loft gefa upp eiðinn Þorvaldi en hann vildi það víst eigi. Þorvaldur vann eið og skildu við það að þá líkaði hvorumtveggja verr en áður.
Það var og mikil undirrót um missætti þeirra Bjarnar og Lofts að Oddaverjum þótti þungt að Haukdælir hæfust þar til ríkis fyrir austan ár. Voru mjög í þessu með Lofti synir Sæmundar Haraldur og Vilhjálmur er þá voru mest á legg komnir.
Það var háttur Sæmundar að hann hafði veisludag hvern vetur Nikulásmessu og bauð til öllu stórmenni þar í sveit. Sæmundur sat jafnan á miðjan bekk en skipaði Lofti frænda sínum utar frá sér hið næsta en Björn sat gagnvert Sæmundi á annan bekk í öndvegi. Þar var drukkið fast og talað margt við drykkinn. Sló þá í orðaheimtingar með þeim Lofti og Birni og vinum hans. Var mest fyrir því Steingrímur Ísfirðingur. Fór þá upp sumur kveðskapurinn og skildust þeir þar með hinum mesta fjandskap.
Og hér eftir sendir Loftur menn til Snorra og kærði sín mál fyrir honum og var það sumra manna mál að Snorri letti lítt Loft uppreistar á mót Birni. Um vorið eftir fardaga sendi Snorri Valgarð Styrmisson fylgdarmann sinn suður til Lofts og dvaldist hann þar um hríð.
Þá sendi Loftur mann á Breiðabólstað að segja Birni að hann mundi þar koma í annarri viku og bað hann svo við búast að hann ætlaði að þá skyldi endir verða á deilum þeirra.
Eftir þetta höfðu hvorirtveggju mikinn viðurbúning um vopn og herklæði. Einar Gíslason var á Breiðabólstað og bjó vopn þeirra Bjarnar nokkurar nætur. Hann var vin Lofts og sagðist þar mundu koma með Lofti að ákveðnum tíma og vera þeim það óþarfur er hann mætti.
Og nú er að dró stefnudeginum söfnuðu hvorirtveggju liði. Voru með Lofti þrír synir Sæmundar: Haraldur, Vilhjálmur og Andrés, þrír synir Þorsteins Jónssonar: Andrés, Ámundi, Gunnar. Þar var og Guðlaugur af Þingvelli son Eyjólfs Jónssonar, bróður Keldna-Valgerðar, og Ingibjörn bróðir hans og Finnur Þorgeirsson frændi hans. Guðlaugur var fyrir mest með Lofti af öllum hans mönnum en hann hafði þá hið besta mannval og eigi færri en tíu tigi manna.
Björn hafði sjö tigu manna fyrir. Þar var Markús Marðarson utan frá Núpi og Páll úr Steinsholti. Árni Magnússon var þar og kominn til gistingar. Þeir Björn höfðu búist um fyrir sunnan kirkju, höfðu lagt stórviðu frá stoðum þeim er voru við húsamótin forkirkjunnar og aðalkirkjunnar og aðra þar er mættust sönghúsið og kirkja og suður á kirkjugarðinn og skipuðu sér þar á milli og horfðu sumir austur en sumir vestur.
Og er Loftur reið í túnið kvað hann þetta:
47.
Hér fer Grýla
í garð ofan
og hefir á sér
hala fimmtán.
Þá hringdi til messu er þeir komu á bæinn.
Sæmundur úr Odda var þar kominn og sátu þeir á hestum sínum og hafði tvö hundruð manna. Hann gerði menn heim til kirkjugarðsins og sagði svo að þeir menn allir skyldu grið hafa er þangað vildu ganga í flokk hans hvort er þeir vildu til þess taka fyrr eða síðar. Hann lét og bjóða Árna grið einslega en hann lést með Birni hafa mat etið um kveldið og sagðist þar vera mundu um daginn.
Loftur spurði áður þeir veittu atgöngu hvort þar væri nokkur vin eða tengdamaður Orms Svínfellings eða Snorra Sturlusonar, sagðist þeim öllum vilja grið gefa.
Þá svaraði Árni óreiða: Hér kenni eg mitt mark á þessu en þó mun eg eigi við Björn skiljast að sinni.
Björn mælti, kvað eigi víst hvorir fyrir griðum ættu að ráða þann dag.
Slær nú í bardaga og gengur nú allhörð hríð af hvorumtveggjum og voru hinir áköfustu lengi. Loftur gekk austan að þeim en Guðlaugur vestan og var þar Björn fyrir. Hann var í pansara digrum og barðist alldjarflega. Þeir höfðu borið að sér grjót og báru það út á þá. Loftur bað sína menn eigi kasta aftur og bíða þess að grjótið þyrri þeim. Maður lést af Lofti snemma fundarins.
Björn varð mjög móður af vörninni og mælti við Árna óreiðu að hann skyldi verja beggja þeirra rúm drengilega meðan hann gengi upp að kirkjunni og hvíldi sig. Allir léttu þeir heldur á Árna um vörnina en Steingrímur mest. Björn spretti frá sér pansaranum er honum var orðið heitt. En er hann kom aftur sáu þeir Guðlaugur að hann var ber um hálsinn. Hljóp Guðlaugur fram og lagði til Bjarnar með spjóti því er þeir kölluðu Grásíðu og sögðu átt hafa Gísla Súrsson. Lagið kom í óstinn og snerist Björn upp að kirkjunni og settist niður.
Guðlaugur gekk til Lofts og sagði honum að Björn var sár orðinn. Loftur spyr hver því olli.
Við Grásíða, svarar hann.
Hve mjög mun hann sár? sagði Loftur.
Guðlaugur sýndi honum spjótið og var feitin ofarlega á spjótinu, á fjöðrinni. Þóttust þeir þá vita að það var banasár. Var þá Loftur spurður hvort þeir skyldu sækja að lengur. Loftur segir að enn væri eftir Steingrímslota. Var þá veitt allhörð hríð og atsókn en Steingrímur varðist alldrengilega og féll þar.
Eftir það hljópu margir menn úr kirkjugarðinum til griða í flokk Sæmundar og þeir Markús og Páll í fyrra lagi. Það veitti þeim Bjarnar mönnum þyngst er þeir tóku grjótið það millum herða sér er bökunum horfðu við er hinir fengu eigi niður drepið með hlífunum er móti þeim Lofti horfðu. Héðinn prestur lést þar með Birni og alls sjö menn.
Árni óreiða lagði lík Bjarnar á kirkjugarðinn og bað Sæmund þar taka við mági sínum og er nú verra en fyrr.
Kolskeggur auðgi var þar með Birni. Og er hann hljóp í flokk Sæmundar til griða sletti Andrés Þorsteinsson flötu sverði beru um herðar honum og spurði hve dýr þá skyldi matarvætt.
Halda lagi, segir Kolskeggur.
Öllum mönnum voru þá grið gefin.
Loftur gekk þá til Sæmundar og spurði hvert lið hann vildi veita þeim. Sæmundur spyr hvers þeir beiddu. Þeir sögðu að þess beiddu þeir að hann riði heim í Odda og hefði þar setu en þeir létust mundu hafa aðra í Skarði og bíða svo þings en fjölmenna síðan til þings og vita hvorir þá yrðu aflameiri. Sæmundur varð eigi búinn til þessa og kvað sér eigi sama að deila við Þorvald mág sinn. Þeir Loftur veittu honum stórar átölur áður þeir skildu. Reið Loftur þá heim með sveit sína.
Tíðindin flugu þegar um nóttina út yfir á. Og er Þorvaldur spurði í Hruna reið hann þegar í Skálaholt og bjóst þar til varnar því að mönnum þótti sem Loftur mundi ekki ógert láta en Sæmundur mundi veita honum með allan sinn afla.
Fundurinn á Breiðabólstað var Bótólfsmessu.
En Loftur reið fyrir þingið vestur til Borgarfjarðar og gisti í Stafaholti. Var Snorri þar kominn búi sínu því að hann vildi eigi sitja í Reykjaholti ef hann ætti ófrið við Sunnlendinga. Snorri tók allvel við Lofti og hét honum sinni liðveislu á þingi ef Sæmundur og nokkurir aðrir höfðingjar vildu veita honum. Reið Loftur þá út á Kolbeinsstaði að finna Þorlák móðurbróður sinn og Ketil son hans er þá bjó í Hítardal, er átti Halldóru dóttur Þorvalds Gissurarsonar og slævuðu þær mægðir mjög liðveislu þeirra feðga við Loft.
Oddur Sveinbjarnarson og enn fleiri þingmenn Sæmundar fóru suður um heiði til fundar við hann og ætluðu að hann mundi veita Lofti. Loftur reið og suður um þingið og var Sæmundur eigi á þingi en Þorvaldur var þar allfjölmennur.
Treysti Loftur þá eigi á þingreiðina og fór suður á Eyjasand og svo út í Vestmannaeyjar og var þar um hríð.
Þorvaldur mæltist mjög einn við á þinginu því að engir menn gengu í berhögg við hann um liðveislu við Loft. Gissur Þorvaldsson var þá tólf vetra gamall. Hann sótti Loft til sektar. Fleiri voru þeir sóttir er meiri slægur þótti til.
En er Þorvaldur spurði að Loftur væri farinn í Eyjar út þótti Þorvaldi sem hann mundi þaðan veita áhlaup nokkur þá er honum þætti tími til. Var því og eigi trúað að Sæmundur mundi eigi veita honum í þraut. Þorvaldur tók það ráð eftir þingið að hann dró lið saman og sendi orð vinum sínum og frændum og ætlaði að draga skip saman og fara út í Eyjar að Lofti. Kom Arnór Tumason til liðs við hann. Sighvatur sendi og til liðs Þorvaldi sonu sína. Var Tumi fyrir Eyfirðingum. Höfðu þeir mikla sveit og voru þeir allóspakir er þeir komu suður um land. En Sturla var fyrir Dalamönnum. Hann hafði það vor tekið við búi að Sauðafelli.
Reið Sighvatur til Borgarfjarðar með honum og bað hann svo segja Þorvaldi að hann mun finna Snorra og letja hann að fara til liðs við Loft sem áður var orð á. En ef hann fengi eigi latt hann sagði hann þá báða fara mundu. Snorri var allmjög snúinn á liðveislu við Loft því að illa hafði verið með þeim Birni. Líkaði honum og illa spott það er Sunnlendingar höfðu gert af kvæðum hans. Voru þá kveðnar í Stafholti vísur nokkurar.
Þessi var ein:
48.
Björn frá eg brýndu járni,
bragð gott var það, lagðan,
gerði Guðlaugr fyrðum
geysihark, í barka.
Auðkýfingr lét ævi
óblíðr fyrir Grásíðu.
Hvöss var hún heldr að kyssa,
harðmúlaðr var Skúli.
Snorri var heldur ófrýnn er Sighvatur kom í Stafaholt en þó samdist vel með þeim bræðrum og skildu við það að lokið var liðveislu við Loft.
En er Sighvatur kom vestur í Dala spurðu vinir hans hversu farið hefði með þeim bræðrum.
En Sighvatur segir að Snorri hefði öxi reidda um öxl svo hvassa að hann ætlaði að hvetvetna mundi bíta þá er þeir fundust. Síðan tók eg hein úr pússi mínum og reið eg í eggina svo að öxin var svo slæ að hló á móti mér áður við skildum.
Þá er Sæmundur spurði liðsdrátt Þorvalds reið hann heiman úr Odda og vissu fáir menn hvar hann var og hafði hann af því allþungt orð er hann varð að engu liði frændum sínum.
Þá var þetta kveðið:
49.
Loftr er í Eyjum,
bítr lundabein.
Sæmundr er á heiðum
og etr berin ein.
Þá er Loftur spurði liðsdrátt Þorvalds og það að hann ætlaði út í Eyjar þóttist hann þar kominn í brunnholu. Fór hann þá inn á land og austur undir Eyjafjöll, fyrst í Holt til Hallgerðar mágkonu sinnar.
En er Þorvaldur spurði til Lofts hélt hann flokkinum austur undir fjöll og bjuggu þeir þar heldur óspaklega og í Holti mest. Loftur var þá riðinn austur undan. Voru þá sendir menn eftir honum með sáttarboðum. En
Loftur var fús til sætta þegar hann vissi að kostir voru. Voru þá grið sett og fundur lagður út við Fossá út frá Skógum þar beint sem þeir höfðu fundist Sæmundur og Sigurður Ormsson.
Sæmundur var í Skógum og vildi ekki nær koma. Ormur Svínfellingur var við þrjá tigu manna. Hann gengur á millum og fór vel með sér. En þeir mæltu mest á móti að sættast skyldi manndrápalaust Tumi Sighvatsson og Arnór Tumason. En er um sættir var talað fannst það á að Þorvaldur var sáttvandur, sagði svo að honum þóttu þær sonarbætur verstar ef hann yrði öxi að eyða óvinum sínum. En til þess kveðst hann þá eigi spara enn, að þeir ynnu fébóta og mannsekta slíkra sem honum líkaði.
Urðu þar þær málalyktir að Þorvaldur skyldi hafa sjálfdæmi en menn allir lífs grið og lima. Loftur skildi undan í fyrstu goðorð sitt og staðfestu og lengur en þrjá vetur utan að vera. En Þorvaldur skoraði það þegar á mót að Loftur skyldi þegar ganga á vald þeirra og Haraldur Sæmundarson, Guðlaugur og Ingibjörn, Ámundi, Andrés Þorsteinssynir. Arnór tók við þeim öllum en Lofti þótti það allþungt. En þó varð svo að dregið að því varð þó öllu að játta sem Þorvaldur vildi.
Arnór Tumason lagði það til að Loftur skyldi standa í þeim sporum þá er handsöl færu fram sem Sigurður mágur hans stóð þá er þeir lögðu þar virðing sína fyrir þeim Oddaverjum. Eftir það fóru handsöl fram.
Síðan voru flokkar skildir og lagðist sá orðrómur á að engi flokkur hefði jafn óspakur verið sem sá er fylgdi Tuma Sighvatssyni og hann sjálfur, en engi flokkur þótti betur siðaður vera en sá er Sturla hafði. Lagði hann vel til og allgegnlega þessa mála og fékk af því mikla vinsæld suður þar. Og hefir það mælt verið síðan að hann hygði þá til mágsemda þeirra er síðan komu fram við Oddaverja. Í þessi för sá Sturla Solveigu og talaði fátt við hana eða ekki.
Þorvaldur gerði gerðir þessar eftir hinum stærstum gerðum sem verið höfðu hér á Íslandi. Sumar þetta fóru þeir utan Loftur og Haraldur Sæmundarson, Guðlaugur og Ingibjörn bróðir hans. Fór Loftur með Arnóri Tumasyni. Hann braut fót sinn um sumarið og þá er festur var þótti honum illa af sér standa. Lét hann þá brjóta í annað sinn og sagði sjálfur fyrir hve binda skyldi. Festi þá vel og gekk hann lítt haltur.
Arnór Tumason skipaði mannaforráð sitt í Skagafirði Þórarni syni Jóns Sigmundarsonar. Hann var settur niður á Víðimýri og skyldi gæta héraðs fyrir mönnum Guðmundar biskups ef þeir kæmu til.
En Guðmundur biskup hafði verið í Odda um veturinn sem fyrr var ritað. En um sumarið fór hann vestur til Borgarfjarðar og fór þar yfir. En er á leið haustið fylgdi Þórður Sturluson honum norður til Skagafjarðar og heim á staðinn. Settist biskup þar. Héraðsmenn vildu þá enn sem fyrr útlaga hann af sínu góss.
Sumar þetta er nú var frá sagt sendi Snorri Sturluson Jón son sinn utan. Fór með honum Árni óreiða mágur hans. Komu þeir á fund Skúla jarls og tók hann allvel við Jóni en Árni fór til Hákonar konungs því að konungurinn var hinn mesti vin hans.
Þá er Loftur biskupsson kom utan fór hann til Hákonar konungs og Haraldur Sæmundarson. Hákon konungur sat í Björgvin. Það var einn dag er konungur gekk til borðs og stóð fyrir borðinu og tók laugar og þeir menn er þar mötuðust. Sá maður hljóp í stofuna er Eiríkur ungi hét. Bróðir hans hafði verið á Eyrum þá er Sæmundur tók fé fyrir kaupmönnum. Eiríkur hafði öxi í hendi og setur á háls Haraldi Sæmundarsyni svo að hann féll fyrir fætur konungi. Eiríkur tók út úr stofunni en konungur bað hlaupa eftir honum og hvar sem hann yrði fanginn þá bað hann drepa hann. Eiríkur komst út úr bænum og varð tekinn langt út frá Mylnudal og var þegar drepinn. Haraldur var allmjög sár og varð þó græddur.
Guðlaugur fór af landi brott og andaðist á suðurvegum. Þenna sama vetur tók Arnór Tumason sótt og andaðist á jólum. En Ásdís kona hans var þar í Noregi og börn hans tvö, Kolbeinn og Arnbjörg. Var Kolbeinn þá þrettán vetra en hún sex vetra. Að Arnóri þótti hans mönnum hinn mesti skaði. Var það orð á að hann hefði verið hinn besti drengur og mikill einarðarmaður.
Guðmundur biskup sat heima að Hólum síðan Þórður Sturluson fór heim. Dreif þá til hans margt manna og gekk upp allt sumarbúið. Var þá mikið orð á af bændum að til auðnar þótti horfa en bændur þóttust litla forstöðu hafa því að Þórarinn var ungur og ekki reyndur að höfðingskap eða héraðsstjórn.
En í Eyjafirði var títt að Tumi Sighvatsson kærði það fyrir föður sínum að hann vildi láta sér bú fá og mannaforráð, sumt eða allt það er Sighvatur átti og Sigurður gaf honum, sagðist eigi verr til manns kominn en Sturla bróðir hans er þá hafði tekið bú að Sauðafelli og mannaforráð í Dölum. En Sighvatur vildi ekki minnka kost sinn norður þar.
Reið Tumi þá vestur til Skagafjarðar og átti fund við bændur og kærði fyrir þeim það að biskupsmenn mundu gera ónáðir þegar föng þverra á staðnum en kallaði þá hafa fyrirmann ungan og óreyndan. Bóndum féllst það vel í eyru er hann sagði og verður það tiltæki þeirra að þeir gera orð biskupi og segja að þeir vildu eigi fjárauðn á staðnum og létust til mundu fara að ryðja á brott fólki með ófriði ef hann vill eigi sjálfur af sér ryðja.
En er biskup vissi þetta og að Norðlendingar voru honum óljúgheitir um það er þeir hétu honum illu þá tók biskup það ráð að fara heldur í útlegð en selja menn sína í dauða og undir vopn þeirra óvina. Fór biskup þá brott af stóli sínum og út í Málmey að jólaföstu. Þar var þá margt röskra manna með honum: Einar skemmingur, Pétur Bárðarson, Eyjólfur Kársson, Ketill Ingjaldsson, Aron Hjörleifsson og margir aðrir.
Tumi sest nú á staðinn að Hólum með sveit sína svo sem það væri hans föðurleifð og hafa þá hvorirtveggju varðhöld, styrk og njósnir og leið svo fram um jól og allt til kyndilmessu.
En Blasíusmessu var veður þykkt og myrkt. Þá fóru þeir úr eyjunni þrír tigir manna og fóru allir hinir röskvari menn nema Pétur Bárðarson. Hann vildi eigi fara að Tuma frænda sínum. Biskup bað og þess að þeir skyldu ekki gera Tuma og færa honum heldur ef þeim líkar. Biskup kvaðst og ætla að eigi mundu þá njósnir ganga fyrir þeim. Þeir fara á tveimur skipum og komu til Hóla um nóttina á óvart því að Tuma menn sögðu að landnyrðingur skyldi þeim halda vörð. Þeir vissu að Tumi svaf í biskupsbúri og báru eld sunnan að brjóstþilinu en rjúfa norðan og báðu þar til ganga alla þá menn er grið vildu hafa og það þætti ráðlegra en brenna inni. Var það ráð þeirra að ganga út og láta eigi brenna staðinn. Eru þar allir upp dregnir þeir sem inni voru.
Þeir velktu lengi Tuma því að sumir mæltu hann undan. Gerði honum kalt mjög og mælti þeir skyldu eigi kvelja hann, sagði vera mega að nokkurir mæltu að hann skylfi af hræðslu. Lofuðu þá margir hreysti hans og mæltu hann undan. Einar skemmingur kvað hann ekki svo skipt hafa goðorðunum fyrir norðan heiði að hann skyldi lifa. Og hann vó að honum því að eigi urðu aðrir til.
Þar voru og drepnir tveir menn aðrir, Þorgeir Steingrímsson og Bergþór Oddason. Tvo fóthjuggu þeir, Jón Þórðarson og Halldór Klasason. En öðrum voru grið gefin.
Eftir þetta fóru biskupsmenn á brott en heimamenn slökktu eldinn. Fylgdarmenn Tuma slógu sér saman og fara eftir biskupsmönnum en þeir undan sem harðast og sáu hvorir aðra og var í hendingum með þeim áður þeir kæmust á skipin. Einn varð seinni og var sá drepinn tveimur nóttum síðar og hét Jón. Annar dó af kulda er Þórarinn hét.
Þeir Einar komu til eyjarinnar og lét biskup illa yfir þeirra för er þeir höfðu drepið Tuma en fært eigi honum. Þeir kváðu þar sagt allt um.
Biskup situr í Málmey um fram páskir. Þar andast Einar skemmingur af nefdreyra. En eftir páskir fór biskup norður til Grímseyjar.
Sighvatur Sturluson hafði mjög öfundarsamt setur fyrst er hann kom í Eyjafjörð en flestum bóndum líkaði því betur til hans er hann hafði lengur verið.
Í þenna tíma bjó Ingibjörg dóttir Guðmundar hins dýra að Hrafnagili með sonum þeirra Halls. En sá maður var að ráðum með þeim er Hafur hét. Hann var bróðir Einars skemmings er vegið hafði Tuma son Sighvats. Þar var fátt millum húsa og Grundar. Þótti Hrafngilingum Sighvatur sitja mjög yfir sæmdum þeim er Hallur hafði haft meðan hann lifði. En þeir menn er eigi voru vinir Sighvats mæltu það að hann hefði ekki heillega farið í skiptum þeirra Kálfs Guttormssonar og Halls.
Það var einn tíma að Sighvatur gekk um völl sinn upp frá húsum. Hann var í kyrtli og hafði kápu yfir sér. Hann sá þrjá menn ríða utan að garði alvopnaða og kenndi að þar var Hafur og sneri hann á móti þeim og brá að hendi sér kápunni. Þeir Hafur riðu að túngarðinum og voru engar kveðjur.
Hafur spurði: Hví er goðinn svo fámennur?
Eg vissi eigi að eg þyrfti nú manna við, segir Sighvatur. Þeir Hafur horfðust á um hríð áður þeir sneru á brott en Sighvatur sneri heim.
Gunnar kumbi hét maður. Hann var gildur maður og var jafnan í Grímsey. Hann tók sér vist að Hrafnagili. Segja sumir menn að Hafur brygði við hann en sumir segja að hann héldi kaupi hans. Gunnar sótti Sighvat að þessu máli en hann vísaði af sér og bað hann finna Halldóru. Hún var skyld honum og vissu menn eigi tal þeirra en Gunnar var hér og hvar um veturinn þar í héraði.
Það var tíðinda að Hrafnagili einn dag er þrjár vikur voru til páska að þar var kominn til gistingar Jón Birnuson. Hann var lausamaður og var vistum að Stokkahlöðu. Þar var og Höskuldur Gunnarsson. Þetta var þann vetur eftir er hann hafði vegið Ögmund prest og Gunnstein son hans. Þeim Jóni var skipað í eina hvílu báðum innar af seti en þar gegnt í annarri stafahvílu lá Hafur ráðamaður. Hann átti varðhund góðan og lá hann jafnan fyrir hvílu hans. Einni nótt áður hvarf hundurinn og fannst aldrei síðan.
Hafur gekk hverja nótt til kirkju til bænahalds og er hann kom inn og hafði skamma stund hljóður verið heyrðu þeir Höskuldur snörgl til hans, fóru til og fundu að Hafur var sár fyrir brjóstinu. Hann hafði lagður verið með öxi og var hún þar og hafði Hafur hana átta. Hún hafði hangið hjá hvílunni. Þeir létust heyrt hafa að maður hljóp utar eftir skálanum, utar til útdura og suður með vegginum. Var nú ljós tendrað og var Hafur örendur og bjuggu þeir um lík hans.
Um morguninn var samkoma á Grund. Voru þar þá sögð tíðindin. Þar kom Gunnar kumbi og bar á sig víg Hafurs. Sighvatur hafði mjög í fleymingi og kallaði sumrungana ódæla og ekki ráðlegt að halda kaupi þeirra. Gunnar var í umsjá Halldóru það er eftir var föstunnar. En hann týndist um vorið er þeir Sighvatur fóru úr Grímsey.
En um sumarið eftir kom Jón Birnuson í Stafaholt til Snorra og sagði Sighvat hafa sent sig. Fastaði hann þar kárföstu. Lagðist sá orðrómur á að hann hefði vegið Hafur og hélst sá orðrómur lengi síðan.
Um vorið eftir páskaviku sendi Sighvatur orð vestur í Dala til Sturlu og bað hann koma norður með fjölmenni, kallaði honum mál að leita til bróðurhefnda. Brá Sturla þegar við og stefndi til sín mönnum og fór norður með fjölmenni og mikla sveit manna.
Þar var Guðmundur skáld Oddsson í för og kvað vísu:
50.
Norðr bera gæti-Gautar
geira stígs að vígi
Hamdis væðr, á heiðar
hagl snýr, á vit Bagla.
Skyldu ei flærðar fylldir
festendr lagar hesta,
harðr get eg víst að verði
vor fundr, reka undan.
Sturla fer norður til Skagafjarðar. Var Þórarinn Jónsson þar fyrir og hafði hann liðsdrátt um Skagafjörð en Sighvatur lét safna liði um Eyjafjörð og dali. Síðan drógu þeir skip að sér og fóru til Grímseyjar. Þeir höfðu nær þrjú hundruð manna.
En er biskupsmenn sáu er ófriðurinn fór að þeim hljópu þeir saman og tóku vopn sín. Voru það sjö tigir manna er vopnfært var en þrír tigir voru konur og stafkarlar. Biskup gekk til kirkju og nokkurir prestar með honum. Eyjólfur Kársson var mest fyrir biskupsmönnum. Sumir menn gengu til skriftar við biskup áður þeir fóru ofan.
Aron Hjörleifsson spurði Eyjólf Kársson hvar væru vopn Tuma.
Þau hanga hjá rúmi mínu heima í skála.
Munum vér nú eigi þurfa vopnin? segir Aron.
Engan ætla eg fúsan að bera þau á mót Sturlu, segir Eyjólfur.
Aron fékk þá sín vopn einhverjum þeirra félaga en gekk eftir vopnum Tumanautum og fór í. En er hann kom að kirkjugarði gekk biskup á mót honum og spurði ef hann vildi skriftast. Aron kvað eigi tóm að því.
Ver góður við fátæka menn, segir biskup, en sjást munum við enn.
Aron kvað sig dreymt hafa að biskup legði yfir hann skikkju sína um nóttina.
Aron hljóp í vík eina og voru þeir þar ellefu til varnar en Eyjólfur var í annarri vík með þrjá tigu manna. Þá voru enn sumir í hinni þriðju vík.
Sturla stakk þar stafni að er þeir Aron voru fyrir. Hann var í rauðum kyrtli yfir brynjunni og hafði upp drepið blöðunum. Þeir Sturla hljópu fyrir borð þegar skipin stóðu grunn og gengu þar upp. Þar var brúk og möl fyrir ofan. Þar stóðu biskupsmenn á ofanverðu brúkinu.
Sturla tók til orða: Þar er Aron fjandinn uppi. Látum vér hann eigi undan komast.
Hljóp Sturla þá upp á brúkið og Sigmundur snagi á aðra hönd honum. Aron lagði til Sturlu og bað hann þar að sækja, kvað þar vera merkið, vopn Tuma bróður hans. Sturla lagði á móti til Arons í kinnina og um þveran munninn og út um aðra kinnina. Aron lagði þá og á móti til Sturlu og féll hann á hliðina á brúkinu og bar brynjuna af lærinu. Vildi Aron þar þá til leggja en Sigmundur snagi kastaði yfir hann skildi og kom þar í lagið. Eftir það hljóp Sturla upp og sóttu að þeim Aroni og stóðu spjót svo þykkt á honum að hann fékk trautt fallið og varð víða sár og þó miður en þeir ætluðu. Runnu þá biskupsmenn upp úr fjörunni en þeir Sturla eftir þeim en Aron lá þar eftir.
Fóru þeir Sturla þá heim til kirkjugarðs. Voru þar teknir prestar tveir og geldir, Snorri og Knútur.
Aron lá á brúkinu þar til er Eyjólfur Kársson kom til hans og mælti: Hvort lifir þú mágur?
Hann læst lifa og leika ekki. Eyjólfur tók hann í fang sér og bar til sjóvar. Þar var skip fyrir, Árni prestur og þrír menn aðrir. Eyjólfur bar Aron út á skipið og hratt frá landi. Þeir báðu hann fara með sér. Hann lést vilja meiða skipin svo að eigi væri eftir þeim róið og bað þá eigi á land ganga fyrir vestan Tjörnes.
Eyjólfur hljóp þá til rimanausts er ferja var í og barði um hana. Það heyrðu menn Sighvats og hljópu til naustsins níu saman og sóttu hann. Eyjólfur varðist með öxi þar til er þeir hjuggu hana af skafti. Þá tók hann ferjuár og varðist með og hjuggu þeir fjórar árar fyrir honum. Þá lagði sá maður til Eyjólfs er Brandur hét, undir höndina og út undir aðra. Hljóp hann þá út millum þeirra. Flæður var sjóvar og skammt til sjóvarins. Maður einn hjó eftir honum. Kom á fótinn við ökklað og tók af svo að lafði við og hnekkti á sjóinn og lagðist í sker eitt. Það voru tólf faðmar. Hljópu þá menn Sighvats á skip en er þeir komu í skerið lá Eyjólfur á grúfu og hafði lagt hendur í kross frá sér. Ekki blæddi þá er þeir lögðu til hans.
Of vörn hans var þetta kveðið:
51.
Varist hefir Eyjólfr árum
örfengr níu lengi,
fræg er orðin sú, fyrðum
fleyvangs í Grímseyju,
áðr út í sker skreytir
skorðu blakks hinn rakki
brjótr, með benjar heitar,
brynflagða, þar lagðist.
Þessir menn féllu þar með Eyjólfi: Árni og Ketill prestur, Sveinn og Marteinn Jónssynir og Skeggi Snorrason, Einar og Gunnar og enn tveir eða þrír af biskupi. Þeir Sighvatur létu leggja hendur á biskup og fór hann á því skipi úr eyjunni er Sighvatur var á.
Guðmundur biskup bað guð hefna sín því að eg má eigi, vesalingur minn.
Það er sögn manna að þrír tigir manna og tveir menn létust af þeim er farið höfðu að biskupi með þeim Sighvati þá er þeir fóru úr Grímsey. Sturla fór heim vestur eftir fundinn.
Þá kvað Guðmundur skáld:
52.
Stórlátr hefir Sturla,
stendr hrafn á ná jafnan,
Kristr ræðr tír og trausti,
Tuma hefndir vel efndar.
Skapað vann hinn er höppum,
hestrennir, veldr flestum,
hás fyrir hernað stóran
höfuðvíti griðbítum.
Þetta sumar hið sama létu þeir Sighvatur Guðmund biskup fara utan og harðlega leikinn af óvinum sínum. Var hann þá nokkura vetur í Noregi og gerðust þar margir merkilegir hlutir þá um háttu hans og spásagnir.
Biskupsmenn þeir flestir er brott komust úr Grímsey tóku land fyrir norðan Eyjafjörð. Var Aron sár og kumlaður mjög. Fór hann seinlega austur í fjörðu.
Hann kom til Svínafells síð um kveld og maður með honum. Og er Ormur vissi það lét hann læsa þá í lítilli stofu. Var það orð á að hann mundi láta drepa þá Aron fyrir vináttu sakir við Sturlu. Þar var þá Þórarinn bróðir Orms er verið hafði í Grímsey. Hann mælti Aron undan og fylgdi þá svo fast að hann lést verja mundu Aron ef hann fengi eigi grið fyrir flutning hans og nennti Ormur eigi að vinna það til hans. Þar lét Aron eftir hjálm og brynju Tumanaut en hann fór með saxið. Ormur fékk honum önnur vopn.
Þaðan fór hann vestur í sveitir og þaðan til Rauðamels til Sölva prests föðurbróður síns og móður sinnar. Þaðan fór hann vestur á Eyri í Arnarfjörð og tóku Hrafnssynir við honum. Guðmundur Ólafsson var með honum þá, er síðan var að brennu Þorvalds.
Þorvaldur Snorrason bjó þá í Vatnsfirði. Hann var þá kallaður sáttur við alla menn og hafði þá heldur mannfátt. Var þá skipulega með honum og Hrafnssonum. Höfðu þeir þá bú á Eyri. En á Breiðabólstað í Steingrímsfirði bjó Bergþór Jónsson en bræður hans Brandur og Ingimundur bjuggu á Reykjahólum. Ingimundur hafði farið utan með Snorra sem fyrr var ritað. Var með þeim frændum allkært. Þá var með Snorra Sturla Bárðarson er Þorvaldur lét fóthöggva á Eyri. Var hann mikill óvin Þorvalds og kærði það oft fyrir Snorra.
Það bar við í þann tíma að Bárður Snorrason bróðir Þorvalds gat barn við Helgu Ásgrímsdóttur konu Bergþórs. Hét Jón son þeirra. Þessi barngetnaður eirði Bergþóri illa og svo bræðrum hans og sótti að því Snorra Sturluson. En Snorri segir svo að þeir mundu eigi fá rétt hlut sinn við Bárð meðan Þorvaldur væri uppi, kallaði hann sitja yfir hvers manns hlut vestur þar en kallaði þá svo mennta og ættaða að þeir mættu halda hlut sínum við flesta menn. En er þeir heyrðu þvílík orð fylltust þeir af fjandskap við Þorvald og var mest undir að Sturla Bárðarson.
Þeir bræður Jónssynir safna til sín nokkurum mönnum. Voru þeir þrír bræður, Bergþór og Brandur og Ingimundur og Ásgrímur son Bergþórs, Filippus Kolbeinsson, Einar naut Gamlason, Sigurður, Rögnvaldur Kársson.
En þessir komu sunnan frá Snorra: Sturla Bárðarson, Eiríkur birkibeinn, Tafl-Bergur og Dansa-Bergur, Brandur Arnórsson. Þeir voru þrettán saman.
Þessir menn riðu vestur til Ísafjarðar á Nauteyri og tóku þar skip en létu eftir hesta sína og söðla. Þeir fóru yfir fjörð til Vatnsfjarðar og gengu þar upp. En er þeir komu í túnið heyrðu þeir að hundur kvað við og kenndu þeir að það var Buski er jafnan var vanur að fylgja Þorvaldi. Þóttust þeir þá vita að Þorvaldur var heima. Skiptu þeir þá mönnum til inngöngu en sumir gættu dura. Ingimundur Jónsson og Ásgrímur gengu inn vestri dyr með nokkura menn. Brandur Jónsson var fyrir þeim durum er nærri voru stofu.
Þorvaldur var heima og sjö karlar. Hann lá í lokhvílu og tvær frillur hans, Halldóra dóttir Sveins Helgasonar, og Lofnheiður.
Þeir Ingimundur hjuggu upp í setið þá er þeir komu inn í skálann og unnu á mönnum, Þóri syni Þorbjarnar merarleists og öðrum manni.
Þorvaldur hljóp upp er hann varð var við ófriðinn og tók yfir sig kvenskikkju. Hann hljóp fram á gólfið og innar eftir skálanum til stofu og kastaði þá af sér skikkjunni og hljóp út í dyrin milli stofu og skála þar er þeir Brandur voru fyrir. Niðamyrkur var á. En er hann kom á völlinn bað hann þá geyma að hann Þorvaldur kæmist eigi út. Þorvaldur rann af túninu og kom fyrst á bæ þann er í Þúfum heitir og tók þar klæði, fór þaðan í Reykjanes og stefndi þar að sér nokkurum mönnum.
Þeir Ásgrímur hljópu í lokrekkjuna og var Þorvaldur þá á brottu. Lofnheiður var sár nokkuð. Þeir leituðu Þorvalds um húsin og fannst eigi sem líklegt var. Brandur lét aldrei á sannast að hann hefði þær dyr út farið er hann var fyrir. Skamma stund dvöldust Jónssynir í Vatnsfirði síðan er þeir vissu að Þorvaldur var á brottu. Fóru þeir þá til skips og fóru út eftir firði til Skutilsfjarðar og fengu sér þar hesta og riðu vestur yfir heiði.
Þá er Þorvaldur var í Reykjanesi sendi hann Hallbjörn Kalason út yfir Glámu, fyrst á Sanda til Odds Álasonar. Bað Þorvaldur að Oddur færi á fund Hrafnssona og letja þá þess að þeir gengju í þetta vandkvæði með þeim Jónssonum.
Þorvaldur fór úr Reykjanesi út til Snæfjalla til Bárðar bróður síns. Gerði hann þar það ráð að hann lét fara Bárð bróður sinn og Þórð son sinn suður í Skálaholt til Magnúss biskups og bað þá þar vera um veturinn og eiga engan hlut að skiptum þeirra um veturinn. Eftir það fór Þorvaldur heim í Vatnsfjörð.
Jónssynir fóru þar til er þeir komu á Eyri í Arnarfjörð og báðu Hrafnssonu að þeir skyldu ganga í málin með þeim. Sögðu þeir að lítið mundi leggjast fyrir Þorvald ef þeir legðust allir að honum. En með því að Hrafnssonum þótti eigi efnd hafa verið gerð sú, er Þórður Sturluson hafði gert um víg Hrafns eða sektir Koll-Bárðar eða fleiri manna, er héraðsekir voru gervir og mjög eggja Jónssynir þá, nú fyrir slíkt gengu Hrafnssynir í þetta vandræði og svo Oddur Álason mágur þeirra og flestir hinir betri menn utan úr fjörðum.
Fóru þeir þá þegar til Ísafjarðar og fóru Hestfjarðarheiði með níu tigi manna. Þeir koma í Kálfavík í Skötufjörð og drápu þar tvo menn en í Heydal í Mjóvafirði drápu þeir einn mann.
Þeir riðu snemma úr Mjóvafirði um hálsinn til Vatnsfjarðar helgan dag. Á hálsinum var á hestverði Þorfinnur kumli son Sela-Eiríks. Hann var hinn gildasti maður og hafði digran pansara. Þeir Ingimundur riðu eftir er þeir sáu hann.
Þorfinnur ríður í keldu og gekk af hestinum. Ingimundur bað sína menn engan hlut að eiga með þeim og vildi að þeir ættust tveir við. En er Ásgrímur Bergþórsson kom til sá hann að engi varð afburðurinn. Hann fór til og varðist Þorfinnur þeim allvel en vopn festi ekki á pansaranum. Þá kom að Oddur Álason og vann á honum með þeim, hjuggu þeir þá á fætur honum og vógu hann síðan.
Eftir það riðu þeir heim á bæinn. Þorvaldur var þá genginn til messu og hans menn og fóru þeir úr kirkjunni og komust á skip nauðulega. En Hrafnssynir og Jónssynir riðu ofan í fjöruna og skorti þar eigi stór orð og eggjan er hvorir mæltu til annarra.
Þorvaldur fór þá út eftir firði en Jónssynir heim í Vatnsfjörð og gerðu ráð sín. Vildu Hrafnssynir að þeir færu út í Arnarfjörð og efldu þar setu en Jónssynir vildu að þeir færu allir á Hóla og byggjust þar fyrir, kölluðu þaðan gott að veita áhlaup til Ísafjarðar.
En þeir urðu á ekki sáttir og lauk með því að Hrafnssynir fóru út í fjörðu en Jónssynir á Reykjanes og varð þeirra félag ekki síðan.
Þorvaldur fór norður til Aðalvíkur og vissu fáir menn hvar hann var niður kominn.
Jónssynir bjuggust fyrir á Hólum og höfðu þangað haft skjöldu Þorvalds.
Um haustið litlu síðar bjuggust Jónssynir að fara til Ísafjarðar til rána eða forvitnast ef þeir yrðu varir við Þorvald. Þeir voru nær þrír tigir manna og riðu flestir en umrenningar gengu.
Þeir fóru vaðil um Þorskafjörð og riðu upp eftir Þorgeirsdal. En er þeir fóru upp úr dalnum og á brekkubrúnina upp úr fjalldalnum, þeim er gengur upp af Ísfirðingagili, hlaupa upp menn fyrir þeim. Var þar Þorvaldur og nær fimm tigir manna. Voru þeir flestir á göngu. Jónssynir köstuðu um hestum sínum og bað Ingimundur þá ríða í fjall upp. Þeir sneru ofan eftir dalnum.
Hrútur hét maður en annar Tyrfingur. Þeir sneru vestur á fjallið og reið Þorvaldur fyrst eftir þeim þar til er dróst hestur hans. Síðan sneri hann ofan eftir dalnum. Þeir Hrútur voru vegnir báðir. Halldór son Eilífs Snorrasonar og Skögul-Álfur sneru suður á fjallið og urðu teknir og særðir til ólífis.
Jónssynir riðu sem mest máttu þeir. Bergþór kastaði skildi sem frægt er orðið en Filippus Kolbeinsson tók upp. Hleyptu þeir þar til er þeir komu yfir Þorskafjörð. Þeir skildu þar. Fóru Bergþór og Einar naut út á Hóla og tóku þar skip og fóru út í Akureyjar. Þeir Brandur og Ingimundur sneru til Króksfjarðar og námu eigi staðar fyrr en í Saurbæ, fóru þaðan til Sauðafells til Sturlu Sighvatssonar og dvöldust þar litla hríð. Þaðan fóru þeir suður í Stafaholt og tók Snorri við þeim Ingimundi en Brandur var að Sauðafelli lengstum þann vetur en Bergþór á Eyri með Þórði Sturlusyni.
Hér um var þetta kveðið:
53.
Hlógu hirðidraugar
hjaldrskýs að Þorvaldi,
meiðr vann mjúkt fyrir lýðum
morðröðla sér forðað.
Nú kná allt, síst eltir
élnárungar voru
hlífar gims, í hömrum
hóts annan veg þjóta.
En er Sturla Bárðarson heyrði þetta kvað hann vísu:
54.
Oss hefir elta víða
eyðir böðvar skíða,
margr spyr seint hið sanna,
sveit hræðum vér manna.
Hitt var hóti fyrra,
heldr teljum það dýrra,
stökk á grundar girði
goðinn sjálfr í Vatnsfirði.
Þetta var enn kveðið:
55.
Brast um Bergþór næsta,
Brandr kallaði fjanda,
varð að illum orðum
Ingimundr of fundinn.
En er mótför manna
meiðendr litu skeiða
hverr rann suðr til Snorra
sáttalaus sem mátti.
Þá er Jónssynir drógu undan Þorvaldi fór hann út á Hóla og tók þar skjöldu sína, fór síðan heim og dvaldist litla hríð heima áður hann fór út í fjörðu með fjölmenni. Hrafnssynir urðu við varir og söfnuðu mönnum fyrir á Eyri og höfðu hvorirtveggju mikið fjölmenni og kom Þorvaldur á Eyri. En bændur gengu millum þeirra og leituðu um sættir og varð það að sætt að Magnús biskup skyldi gera með þeim mönnum sem hann vildi við hafa en Hrafnssynir ganga frá liðveislu við Jónssonu. En er Hrafnssynir gengu til festu við Þorvald stóðu þeir Oddur Álason og Aron Hjörleifsson uppi undir virkinu og töluðu og vildu eigi ganga til festu við Þorvald. Það vildi Þorvaldur síðan virða til fjörráða við Odd sem síðan mun enn sagt verða.
Eftir sætt þessa fór Þorvaldur heim til Vatnsfjarðar og sat í búi sínu um veturinn.
Þetta sumar er næst var og nú hefir frá verið sagt tók sótt Sæmundur í Odda og andaðist hinn sjöunda idus novembris. Það sama haust og öndverðan vetur sást oft stjarna sú er kómeta heitir. Þá sýndist og sólin rauð sem blóð.
En það var tilskipan Sæmundar að Solveig dóttir hans skyldi taka jafn mikinn arf sem einn hver sona hans. Fór Solveig þá til Keldna til móður sinnar og sóttu þær Þorvald Gissurarson að því að hann skyldi halda fram hlut Solveigar um skipti við bræður hennar.
Synir Sæmundar urðu á það sáttir að þeir skyldu því hlíta um fjárskipti sem Snorri Sturluson skipti með þeim og sendu þeir eftir honum um veturinn að hann skyldi koma suður til fjárskiptis. Fór Snorri þá suður og Ingimundur Jónsson og Ásgrímur Bergþórsson og höfðu gott föruneyti. Hann gisti að Keldum. Var hann þar í kærleikum miklum við þær mæðgur og fór Solveig í Odda með honum. Þótti Snorra allskemmtilegt að tala við hana.
En er þau riðu frá Keldum reið kona á mót þeim og hafði flakaúlpu blá og saumuð flökin að höfði henni. Hafði hún það fyrir hattinn. Einn maður var með henni. En það var Hallveig Ormsdóttir er þá var féríkust á Íslandi. Snorra þótti hennar ferð heldur hæðileg og brosti að.
Snorri fór í Odda og stillti svo til að Solveig hafði koseyri af arfi þeim er hún rétti hendur til. En mest hélt hann fram hlut Hálfdanar af öllum sonum Sæmundar.
Þær mæðgur létu föng sín fara út í Hruna í vald Þorvalds Gissurarsonar og bundu honum á hendi allt sitt ráð. Þenna vetur fóru orðsendingar millum þeirra Þorvalds Gissurarsonar og Sighvats Sturlusonar.
Um vorið eftir páska kom Sighvatur norðan í Dali og Halldóra kona hans. Hann reið suður yfir heiðar og þeir níu, Sturla son hans og Brandur Jónsson. Sighvatur kom í Hruna. Var þar Keldna-Valgerður og Solveig dóttir hennar. Var þá talað bónorð Sturlu og laukst með því að Þorvaldur Gissurarson hafði inni brúðlaup þeirra Solveigar.
Þess er getið við að þann dag er að brúðlaupinu var setið að Þorvaldur kallaði fram fyrir þá Sighvat börn sín, fyrst börn þeirra Jóru biskupsdóttur, og sagði að honum þótti miklu máli skipta að Sighvati litist vel á börnin. Sighvatur horfði á þau um hríð og sagði að færri mundu mannlegri.
Þá gengu Þóru börn fram og stóð Gissur fyrir þeim frammi og hélt Þorvaldur í hendur honum og mælti: Hér er nú ástin mín, Sighvatur bóndi, og það þætti mér allmiklu máli skipta að þér litist giftusamlega á þenna mann. Sighvatur var um fár og horfði á hann langa stund en Gissur stóð kyrr og horfði einarðlega á móti Sighvati.
Sighvatur tók þá til orða og heldur stutt: Ekki er mér um ygglibrún þá.
Og er Sighvatur tók þannig þessu máli hvarf Þorvaldur af þessu tali.
Veislan fór allvel fram og var veitt með miklum kostnaði og skildu þeir allir með blíðu. Þær mæðgur fóru vestur með Sturlu.
Það er sagt að Þorvaldur reið á leið með þeim við nokkura menn. Og áður þeir Sighvatur skildu stigu þeir af baki. Ræddu þeir þá margt um vináttu sína.
Þá mælti Sighvatur: Þess vil eg biðja þig Þorvaldur að við gætum svo til með sonum okkrum að þeir héldu vel vináttu með frændsemi.
Þorvaldur leit niður fyrir sig og heldur áhyggjusamlega og mælti: Gætt mun meðan við lifum báðir.
Þetta virðist mönnum hin mesta spásaga að því sem síðar varð því að Þorvaldur var sálaður þá er Apavatnsför var.
Eftir þetta fór Þorvaldur heim.
En er Solveig kom til Sauðafells tók hún þar við búi. En Halldóra lét fylgja Vigdísi Gilsdóttur til Miðfjarðar er áður hafði verið frilla Sturlu. Þuríður hét dóttir þeirra. Sighvatur fór heim norður.
Fár varð Snorri um er hann frétti kvonfang Sturlu og þótti mönnum sem hann hefði til annars ætlað.
Sturla fór vestur til Saurbæjar fyrir þing og kom þar til móts við hann Þorvaldur Vatnsfirðingur. Var við tal þeirra Snorri prestur Narfason og Torfi prestur Guðmundarson. Lögðu þeir saman vináttu sína. Hét Þorvaldur því að hann skyldi veita Sturlu við hvern sem hann ætti málum að skipta á Íslandi og skiljast aldrei við hann en Sturla hét í mót að veita Þorvaldi og setjast fyrir mál þau er Snorri og frændur hans höfðu á Þorvaldi. Festu þeir þetta með því að Sturla lét Torfa prest ríða með goðorð sitt og beggja þeirra til þings og sýndu í því samband sitt.
Þetta sumar lét Snorri Sturluson lýsa hernaðarsök á hendur Þorvaldi. Fór með málið Órækja Snorrason. Var hann þá átján vetra gamall. Varð Þorvaldur á þinginu sekur skógarmaður og sekt fé hans allt og goðorð. Þóttu þetta mikil tíðindi og horfðist til mikils vanda.
En eftir þingið kom Sighvatur Sturluson til Sauðafells. Þar kom þá og Þorvaldur Vatnsfirðingur og sótti Sturla föður sinn að því að hann kæmi sættum á með þeim Þorvaldi og Snorra, þeim er Þorvaldur mætti vel við una.
Fór Sighvatur þá suður í Stafaholt á fund Snorra og leitaði eftir hvern veg það mætti verða að Snorri hefði sæmd af þessum málum en Þorvaldur yrði alsýkn saka afarkostalaust en Sturla hefði slíka sæmd af sem hann beiddi. Sighvatur reið í Stafaholt en bað þá Þorvald og Sturlu ríða degi síðar og senda mann áður til sín áður en þeir kæmu á bæinn og svo gerðu þeir. En er sendimaður Sturlu kom í Stafaholt bað Sighvatur þá heim ríða og sagði Snorra í góðu skapi, lést vænta að vel mundi takast. Snorri gengur út á móti þeim og tók við Sturlu sem frændsamlegast en við Þorvaldi sem hann væri vin hans fyrir Sturlu sakir. Voru þá grið sett sem Snorri sá ráð til. Þar voru þeir tvær nætur í allgóðum fagnaði.
En þær urðu málalyktir sem Sturla kvað að Snorri skyldi skipa einn en Þorvaldur skyldi vera alsýkn. Það voru undirmál með þeim bræðrum að hvorki skyldi gera fé né mannaforráð.
Eftir þetta ríða þeir Sighvatur sunnan í Dali.
En að skilnaði við Þorvald veittu þeir feðgar honum sæmilegar gjafir. Hét Þorvaldur því að vera slíkur vin Sighvats sem þeir Sturla höfðu áður bundið með sér áður þeir skildu í Saurbæ. Herti Sighvatur að Þorvaldi að hann skyldi selja Jónssonum grið svo að þeir mættu sitja í búum sínum og var Þorvaldur alltregur þess en fór það fram og skildust með kærleikum. Tók Þorvaldur við goðorði sínu og fór heim síðan.
Sturla reið til Eyjafjarðar með föður sínum og var hann þann vetur á Grund með Sighvati og Solveig kona hans.
Jón Ófeigsson bróðir Eyjólfs Kárssonar fékk Guðrúnar dóttur Odds á Álftanesi og var hann oft suður þar og var með Snorra í góðu yfirlæti.
Vetur þann er Sturla var á Grund lét Jón Ófeigsson drepa tvo menn í Víðidal þá er verið höfðu í Grímseyjarför með Sturlu. Þótti þetta Sturlu gert til fjandskapar við sig en Jón hafði traust af Snorra til þessa sem annars þess er hann gerði. Af slíkum tilfellum ýfðist heldur með þeim frændum Snorra og Sturlu.
Í þenna tíma fór Þorvaldur Snorrason að Oddi Álasyni og tók hús á honum og var það orð á að hann mundi láta drepa hann. En við bæn Steinunnar húsfreyju fékk hann grið og þó með þeim kosti að hann gerði af honum hundrað hundraða.
Þenna vetur er Sturla var á Grund lét Þorvaldur fara vingjarnleg orð til Snorra og eftirleitan um mágsemd og samband og tók Snorri því sæmilega svo að Þorvaldur þóttist skilja að Snorri mundi unna honum hinna mestu sæmda er hann vildi vera skyldur þess að gera hvað er Snorri legði fyrir hann hverigir sem í mót væru. En um vorið fór Þorvaldur til Borgarfjarðar og bað Þórdísar dóttur hans. Tók Snorri því vel og var konan föstnuð honum en boðið skyldi vera um haustið í Stafaholti.
Þetta vor fór Sturla til bús síns og spurði nokkurn grun af vinum sínum og hvort Þorvaldur mundi vera jafn traustur vin hans sem þeir höfðu við mælst hið fyrra sumarið í Dölum allir samt og Sighvatur. Þetta vor hið sama fór Snorri Sturluson suður um heiði og fundust þeir Þorvaldur Gissurarson og töluðu margt. Litlu áður hafði andast Kolskeggur hinn auðgi er einn var auðgastur maður á Íslandi. En eftir hann tók fé allt Hallveig Ormsdóttir.
Þorvaldur kærði það fyrir Snorra að hann vildi setja klaustur nokkuð, sagði að Kolskeggur hefði heitið að leggja þar fé til. Bað hann Snorra til að eiga hlut að með þeim. Er það hér skjótast af að segja að þeir Snorri og Þorvaldur bundu vináttu sína með því móti að Gissur son Þorvalds skyldi fá Ingibjargar dóttur Snorra en Þorvaldur skyldi eiga hlut að við Hallveigu Ormsdóttur að hún gerði félag við Snorra og fara til bús með honum. En brúðlaup skyldi vera í Reykjaholti um haustið, þeirra Gissurar og Ingibjargar.
Eftir þetta kaupir Þorvaldur Viðey og var þar efnað til klausturs en það var sett vetri síðar. Var Þorvaldur þá vígður til kanoka.
Annað sumar áður þetta var kom út á Eyrum Loftur biskupsson og fór fyrst austur yfir ár. En með því að hann var héraðsekur suður þar, en hann kom þó vetri fyrr út en mælt var, þá treystist hann þó eigi að vera suður þar. Fór hann vestur til Borgarfjarðar á fund Snorra og bauð hann Lofti til sín og var hann þann vetur í Stafaholti.
En um vorið gerðu Snorri og Þorlákur móðurbróðir Lofts og Ketill son Þorláks það ráð fyrir Lofti að hann tók við stað í Hítardal en Ketill keypti land að Skarði að Lofti við verði. Settist Loftur þá í Hítardal og hafði bú sæmilegt. Kallaðist hann þá hinn mesti vin Snorra og allra hans mála.
Þetta vor er nú var frá sagt andaðist Þóra frilla Þórðar Sturlusonar en hann tók til sín Valgerði dóttur Árna úr Tjaldanesi og gerði brúðlaup til hennar um sumarið.
Í þenna tíma var heldur fátt með þeim bræðrum Þórði og Snorra. Varð þeim til um móðurarf sinn. Guðný hafði andast með Snorra og tók hann alla gripi þá er hún hafði átt og var það mikið fé. En hún hafði gefið áður allt féið Sturlu syni Þórðar, fóstra sínum. En Sighvatur tók til sín Glerárskóga er honum voru næstir.
En þetta sumar fyrir þing sendi Snorri orð Þórði bróður sínum og bauð honum heim af þingi, kvaðst vilja að þeir legðu niður alla fæð með sér og tækju upp ástúðarfrændsemi. Kom Þórður að þingi í Stafaholt. Var Snorri allkátur og kvað þá bræður aldrei skulu á skilja um fé.
En með því að heldur tók að fættast með þeim Sturlu og Snorra þá spurði Snorri Þórð hve lengi hann ætlaði að Sturla Sighvatsson skyldi sitja yfir sæmdum þeirra. En það mælti hann til Snorrungagoðorðs er átt hafði Sturla faðir þeirra en Sighvatur hafði einn með farið en fengið þá Sturlu til kvonarmundar. Þórður svaraði svo að hann kvað Böðvar hafa gnógt mannaforráð en lést eiga aðra sonu unga og óskilgetna og kvað það auðsýnt að þeir yrðu til þess færir að hafa mannaforráð. En því kom svo að Þórður bað Snorra fyrir sjá um slík tilköll en það varð ekki á því sumri.
Þá er Þórður Sturluson var í Stafaholti komu þar Hrafnssynir upp á náðir hans Snorra. En hann sá það ráð fyrir að Sveinbjörn og Grímur riðu til þings með goðorð þeirra og fékk hann þá Þórði bróður sínum og voru þeir með honum um þingið og Helgi og Þórarinn Sveinssynir. En Einar og Krákur fóru vestur með sveit þeirra er þeir höfðu vestan.
Þetta sumar kom Þórður snemma á þing og tjaldaði Hlaðbúð er fylgdi Snorrungagoðorði en Sturla tjaldaði Saurbæingabúð og var þá skipulega með þeim frændum það sumar. Þorvaldur Snorrason kom upp að dómum mjög fjölmennur.
Um sumarið eftir miðsumar kom skip í Hvítá. Þá kom út Jón murtur Snorrason. Þá var hann tvítugur. Þá kom út og Kolbeinn Arnórsson fimmtán vetra, Játgeir skáld, Árni óreiða, Kygri-Björn og margir aðrir íslenskir menn.
Þá þegar var gert fjárskipti þeirra Árna og Hallberu Snorradóttur. Lét Snorri sér ekki líka annað en hún hefði Brautarholt úr skipti en Árni keypti Saurbæ á Kjalarnesi.
Magnús biskup fór þetta sumar yfir Vestfirðingafjórðung. En þann tíma sem hann var í Dölum hafði Snorri inni boð þeirra Gissurar og Ingibjargar dóttur Snorra í Reykjaholti því að honum var þangað hægast til að sækja en Þorvaldur vildi fyrir hvern mun að hann væri þar. Að brúðlaupinu var Þórður Sturluson og hið besta mannval úr Borgarfirði og sumt með Þorvaldi. Var þar hin virðulegsta veisla og með hinum bestum föngum er til var á Íslandi.
En litlu fyrir brúðlaupið hafði Snorri heim Hallveigu Ormsdóttur og gerði við hana helmingarfélag en tekið til varðveislu fé sona hennar Klængs og Orms, átta hundrað hundraða. Hafði Snorri þá miklu meira fé en engi annarra á Íslandi.
En ekki hafði hann ráð Þórðar bróður síns við þetta og hann sagði svo að hann lést ugga að hér af mundi honum leiða aldurtila hvort er honum yrði að skaða vötn eða menn.
Síðar um haustið sótti Þorvaldur Snorrason brúðlaup sitt í Stafaholt og var sú veisla hin veglegsta. Fór Þorvaldur heim til Vatnsfjarðar og fann ekki Sturlu vin sinn í þessi ferð.
En nær veturnóttum fór Þorvaldur út á Eyri í Arnarfjörð en Hrafnssynir stukku undan fyrst í Mosdal og voru þar á laun í skógum. En Þorvaldur tók upp búið á Eyri en leggur gjöld á alla þingmenn þeirra og kastaði sinni eign á marga þingmenn Hrafnssona.
En er Hrafnssynir frétta þetta fóru þeir suður yfir Breiðafjörð fyrst á Eyri til Þórðar Sturlusonar og réð hann þeim að fara til Helgafells á fund Halls ábóta er verið hafði mágur þeirra. Var Sveinbjörn þar um veturinn en Einar var á Eyri með Guðrúnu föðursystur þeirra en Grímur og Krákur í Flatey.
Eftir Grímseyjarför lét Sturla Sighvatsson sækja Aron Hjörleifsson til sektar. En síðan var hann með frændum sínum í Vestfjörðum og lengst á Eyri með Hrafnssonum þar til er Sturla lét búa mál til á hendur honum og þeim um bjargir hans. En þá handsalaði Staðar-Böðvar fyrir þá á þingi tíu hundruð og galt. Og eftir það vöruðust menn að innhýsa hann. Var hann þá hér og hvar í leynum. Hann var og jafnan á Geirþjófsfjarðareyri með litlum bónda er Þórarinn hét.
En er Sturla hafði grun af því sendi hann vestur í fjörðu Rögnvald Kársson og Þorvald Sveinsson og Dansa-Berg. Þeir voru þrír saman. Þetta var það sama sumar er nú var frá sagt. Sturla sendi og Ingimund Jónsson vestur til Arnarfjarðar að leita eftir Aroni.
Aron var þá á Geirþjófsfjarðareyri og var í nausti og gerði að báti Þórarins. Hann fann eigi fyrr en tveir menn vopnaðir gengu að naustinu og sneru inn er þeir sáu manninn. Aron heilsaði þeim og spurði þá að nafni. Annar nefndist Egill digri, hann hafði ætlað að finna Aron, en annar hét Sigurður. Þeir höfðu verið með biskupi báðir, sögðust vera heimamenn í Vatnsfirði. Aron tók til öxar því að Þorvaldur var engi vin hans. Brynjan hékk á skipstafninum og fór Sigurður í hana. Aroni hvarflaði hugurinn og vissi eigi hve lengi hann skyldi bíða þeirra. Sigurður spurði hvort hann frétti engar mannaferðir.
Engar nema þið segið mér.
Heyrðum við að menn Sturlu væru hér inn í fjörðum og njósnuðu um ferðir þínar eða vistir.
Vera má svo, segir Aron, því að mig dreymdi Guðmund biskup og legði hann yfir mig skikkju sína.
Egill bað þá fara leið sína.
Sigurður sá út og mælti: Menn ríða þar þrír innan með firði og munu þykjast eigi óvíglegri en vér. Ekki munu þeir og víglegri ef veitumst vel. En eigi veit eg til hvers eg má þar um ætla sem þið eruð.
Sigurður mælti: Drengsbragð er það að skilja eigi við þig en eigi veit eg hve Egli er um farið.
Eigi mun eg renna frá þér, segir Egill.
Þá ætlaði Sigurður af brynjunni.
Aron mælti: Far eigi af brynjunni ef þú vilt mér veita.
Síðan gengu þeir út og riðu þeir Rögnvaldur á völlinn og hljópu af baki og sneru á milli þeirra og húsanna. Gengust þeir þá á móti. Var Egill þeirra mestur og í mið. Snýr Rögnvaldur í móti honum. Hann var berbrynjaður og hafði hálsbjörg við stálhúfu og særði Egill hann á fæti. Sigurður sneri á mót Dansa-Bergi en Aron á mót Þorvaldi og hrökkur Þorvaldur þar fyrir en Rögnvaldur vann á Agli. Þá bar Aron þar að og laust hann með öxarhamri aftan undir stálhúfuna og steyptist húfan fyrir andlitið. Bar hálsbjörgina upp af brynjunni og beraði hálsinn á milli. Sneri Aron þá öxinni í hendi sér og hjó á hálsinn svo að af tók höfuðið. Sigurður var og sár orðinn. Þeir Þorvaldur runnu þá til hestanna og komst hann á bak og keyrði hestinn undir Bergi en hann lá á grúfu í söðlinum. Bar þá svo upp á leitið. Aron rann eftir þeim.
En er Þorvaldur sá það kallaði hann hátt: Upp þér Sturla. Hér rennur Aron eftir okkur.
Þá nam Aron stað en þeir drógu undan.
Síðan fór Aron aftur og fletti Rögnvald af klæðum og vopnum og flutti hann síðan á sjó út og sökkti þar niður.
Þeir Sigurður og Egill voru á Eyri til græðslu, fóru síðan heim í Vatnsfjörð og lét Þorvaldur ekki illa yfir þeirra ferð.
Aron stökk þá til Barðastrandar og var í helli í Arnarbælisdal á kosti konu þeirrar er bjó í Tungumúla.
Um haustið tók Aron skip frá Jóni Auðunarsyni að Vaðli og fór á því suður yfir Breiðafjörð við annan mann. Síðan hratt hann út skipinu og rak það á Eyri til Þórðar. Aron var þá um haustið í ýmsum stöðum suður þar. Kom þá til hans Hafþór móðurbróðir hans.
Um haustið fór Sturla Sighvatsson út til Helgafells að finna Hall ábóta og með honum Vigfús Ívarsson og Korn-Björn Jónsson og Þorkötlu dóttur Böðvars frá Brunná og var hún á Eyri með Þórði. En Aron var í skógi út frá Valshamri er þeir Sturla riðu þar um. Vildi Aron þá leita á þá er þrír voru hvorir en Hafþór hélt honum. Þeir Sturla urðu eigi við varir.
Sturla sendi Björn á Eyri og njósna ef Aron væri þar í sveit.
Það var síðar um haustið að Sturla hafði njósn af að Aron væri að Valshamri á kosti Vigfúss er þar bjó. Reið Sturla þá út á strönd með fimmtánda mann. Þá var Aron að Valshamri og þeir Hafþór tveir og voru þar í sauðahúsi á vellinum. Þeir Sturla riðu að bænum og varð um háreysti mikið en þá var myrkt og tóku þeir af hestum sínum og fóru inn og var þá gert ljós í stofu. Eiríkur birkibeinn var þá nær nýkominn mjög til Sturlu. Var hann einn umrenningur. Hann gekk út og inn og vildi vita hvers hann yrði vís.
Þeir Aron gerðu það ráð að Hafþór skyldi fara heim og njósna hvað komið væri. Hann fór hljóðlega á bak húsum en hliðskjár var á stofunni og setti hann þar við hlustina. Þá kom að Eiríkur birkibeinn og hjó á aðra kinnina og varð það banasár. Hljóp Eiríkur þá inn og sagði að hann hefði drepið einn fjandann. Þeir hljópu þá til vopna og út.
Aron hafði þá gengið heim að forvitnast um Hafþór. Var hann þá kominn á völlinn mjög að húsunum er þeir Sturla komu út og fengu þeir slegið hring um Aron. Sturla hljóp á hest. Aron leitaði út af túninu til árinnar. Þeim Sturlu mönnum sýndist sem lýsu nokkurri brygði við hamarinn og litu þeir þar til. Aron hljóp þá að Korn-Birni og hjó til hans með saxinu og brá eigi áður. Björn rasaði við en Aron hljóp af túninu og yfir ána og hvarf þeim þá í myrkrinu. Hann hljóp suður yfir heiði og létti eigi fyrr en hann kom til Rauðamels til móður sinnar og var þá mjög þrekaður.
Þeir Sturla fóru á brott og hafði hann sjálfdæmi af Vigfúsi og gerði tuttugu hundraða eyjar af honum en Björn laust hann öxarhamarshögg. Sturla fór heim eftir það.
Aron fór suður um heiði sem ritað var og dvaldist þar til þess er hann var fær. Síðan fór hann í Eyrarhrepp og var á Berserkseyri með Halldóri Árnasyni. Þar var frilla föður hans og fundust þeir þar oft feðgar. Þá kom til Arons Starkaður Bjarnarson er kjappi var kallaður og fóru þeir suður í sveitir fyrir jól og voru hér og hvar á laun.
En að jólum sagði Aron að hann vildi að þeir sætu um Sigmund snaga: Hann er settur til höfuðs mér.
En hann bjó að Eyðihúsum út frá Fáskrúðarbakka.
Þeir Aron voru hinn níunda dag jóla í stakkgarði einum. En þaðan skammt var annar garður er Sigmundur færði hey úr og annar maður með honum og vildi Aron eigi á hann leita.
En um kveldið er niðmyrkur var á fóru þeir heim til Eyðihúsa. Var Aron úti hjá durum og stóð úti við kampinn er hlaðinn var af vegginum. Starkaður fór inn og bað sér greiða. Sigmundur var einn karla heima og hafði háttað í dagsljósi er frjádagur var. Helga frilla Sigmundar kvað ekki vatn inni en börn vildu drekka. Sigmundur bað sér fá skjólur og lést taka mundu vatn. Starkaður bauð að fara með honum. Hann játti því. Gengu þeir til dura. Starkaður var hámæltur og bað Sigmund ganga fyrri. En er Sigmundur kom út úr durunum lagði Aron í gegnum hann með saxinu Tumanaut. Var það banasár. Síðan fóru þeir inn og ráku fólk allt í stofu en bjuggu búi sem þeim líkaði og voru þeir þar meðan myrkt var.
Síðan fóru þeir á brott suður í hraun til Rauðamels og voru þar um hríð. Síðan fór Aron suður á Hvalsnes til Þorsteins og var þar um hríð. Þaðan fór hann suður í Odda til Haralds Sæmundarsonar og var þar í skoti um stund. Haraldur kom Aroni utan. Fór hann til Hákonar konungs. Síðan fór hann til Jórsala og aftur í Noreg og gerði Hákon konungur hann þá hirðmann sinn.
Svo segir Ólafur hvítaskáld:
56.
Fór sá er fremd og tíri
fleinrýrir gat stýra,
mest lofa eg mikla hreysti
manns, Jórsali að kanna.
Nafn rak út við ítra
Jórdan við þrek stóran
skjaldar Freyr hinn skýri
skógarmanns að nógu.
Þórður Sturluson hafði keypt land í Hvammi að Sturlu Sighvatssyni en hann hafði haft af Svertingi Þorleifssyni og goldið ekki fyrir. En þá skyldi Þórður ganga í skuld fyrir hann. Síðan seldi Þórður landið Gunnsteini Hallssyni en hann bjó tvo vetur og galt ekki fyrir enda vildi Þórður þá ekki annað en taka með landinu en Gunnsteini var ekki um það. Þórður fór þá til Hvamms um vorið en Gunnsteinn fór til Brunnár og bjó þar til þess er hann keypti Garpsdal.
Þetta vor fundust þeir Hallur ábóti og Sturla Sighvatsson að Vörðufelli. Þá bað ábóti fyrir Hrafnssonu að Sturla skyldi taka við þeim og halda þá fyrir Þorvaldi en hafa slíkt af eignum þeirra sem honum líkaði. Sturla tók við þeim fyrir orð ábóta að þeim kostum að hann tók með goðorðum þeirra til eignar en skyldi veita þeim til sætta þeirra er ábóta og öðrum góðum mönnum þættu þeir mega við una.
Um vorið þá er Þórður Sturluson kom búi sínu í Hvamm lét Sturla efna til virkis í Dölum sem enn sér stað. Safnar hann þar til mönnum um Dali og hafði þar fyrir mikið starf og kostnað. Þetta sumar reið hvorgi þeirra frænda til þings. Hafði Þórður húsastarf mikið í Hvammi. Fátt var með þeim frændum þá því að Sturlu þótti sem þeir Snorri mundu báðir að honum setjast er þá hafði upp komið goðorðstilkallið af Snorra.
Um sumarið fór Snorri að heimboði í Hvamm með tuttugu menn. En þann dag er hann ætlaði heim kom þar Ingimundur skíðungur úr Dölum handan og sáu menn eigi erindi hans. Var mönnum grunur á hvort Sturla mundi eigi vilja finna Snorra er hann færi suður. Því reið Þórður við honum við aðra tuttugu menn upp undir Sópandaskarð. En Sturla sat heima og gerði engan guss á sér og hafði þó heldur fjölmennt.
Ríki Þorvalds Vatnsfirðings gerðist svo mikið í þann tíma að hvorki Hrafnssynir né Jónssynir máttu vera fyrir vestan Gilsfjörð fyrir honum. Voru Hrafnssynir með Sturlu sem fyrr var ritað. Ingimundur Jónsson var og með Sturlu en Brandur í Miðfirði eða að Fellsenda en stundum að Sauðafelli. Ingimundur hafði beðið Jóreiðar Hallsdóttur en hún vildi eigi giftast því að hún vildi eigi ráða fé undan dóttur sinni.
En vetur þann er Þórður bjó fyrst í Hvammi fór Sturla með Ingimundi og nam Jóreiði frá búi sínu yfir til Sauðafells. Leitaði Sturla þá eftir ef hún vildi giftast Ingimundi. En með því að ekki fékk af henni of það og hún vildi eigi mat eta þar þá lét Sturla hana heim færa. Þetta líkaði stórilla frændum hennar. Páll prestur bjó þá á Staðarhóli bróðir hennar. Hann var hinn mesti vin Þórðar og sótti hann að þessu máli.
Um sumarið eftir fjölmenntu þeir allir mjög til alþings Snorri og Sturla, Þórður og Böðvar son hans, Þorvaldur Vatnsfirðingur og Sighvatur norðan. Komst þá upp goðorðstilkallið af þeim bræðrum við Sturlu. Þá tók Snorri við Jóreiðarmálum. Þá lýsti Jón murtur hernaðarmálum á hendur Sturlu. Fleiri menn voru þar fyrir málum hafðir. Horfðist þá til hinnar mestu deilu með þeim. Sturla lét þá leita eftir við Þorvald Vatnsfirðing hvert lið hann vildi veita honum eftir því sem þeir höfðu bundið í Dölum með sér.
En Þorvaldur svaraði svo Þorvaldi Gissurarsyni er þetta mál flutti að hann vildi veita Sturlu allt slíkt sem hann hafði honum veitt ef hann vildi leggja á Snorra dóm öll sín mál en hann sagði mér að hann mundi aldrei við Snorra skiljast ef við sættumst eigi. Mun eg nú og eigi við Snorra skiljast ef Sturla vill honum eigi unna sjálfdæmis.
Þá fór Þorvaldur Gissurarson á fund Sturlu og sagði honum svar nafna síns.
Sturla svaraði: Eigi mun eg hafa ráð Þorvalds of þetta að selja Snorra sjálfdæmi of þetta mál. Faðir minn skal vera fyrir þessu og sjá hlut mér til handa því að hann lét goðorð þeirra koma mér í hendur og þykist eg við hann eiga ef eg missi nokkurs. En eg vil að þú farir á fund Snorra og beiðir að hann eigi hlut að við Þorvald að vér semjum mál hans og Hrafnssona og greiðum þau úr vorum málum, því að þau eru sár, ef þeir mættu sáttir verða.
Þá fer Þorvaldur Gissurarson á fund Snorra sem Sturla bað.
En Snorri svarar svo: Engi efni hefir Þorvaldur til þess að bera sakir þessar allar. Verður hann að verjast Hrafnssonum nú slíku sem auðið verður.
Og varð ekki af þessum sættum. En Sturla lét reka heim hesta sína og reið af þingi fyrir dóma og gisti í Reykjaholti og fór síðan heim í Dali. En Sighvatur Sturluson handsalaði fyrir Jóreiðarmál en Magnús biskup gerði tuttugu hundrað. Ekki varð samið um goðorðsmál á því sumri með þeim frændum.
Kolbeinn Arnórsson er síðan var kallaður Kolbeinn ungi kom út í Hvítá sem fyrr var ritað. Fór hann um haustið norður til Eyjafjarðar og var um veturinn með Sighvati mági sínum á Grund.
En um vorið fór Sighvatur til Skagafjarðar og leita við þingmenn hans að þeir gerðu honum bú og vikust menn og vel undir það. Var honum gert bú í Ási í Hegranesi og gerðist hann skjótt ofsamaður mikill og vænn til höfðingja. Sighvatur réð mestu með honum meðan hann var ungur.
Sumar þetta var illt og votviðrasamt. Kom upp eldur úr sjónum fyrir Reykjanesi. Þá kom skip í Hrútafjörð. Var þar á Guðmundur biskup og fór heim til stóls síns. Þeir frændur Þórður og Sturla fundust við skip og fór þá skipulega með þeim, átu og drukku báðir samt. Tók sinn Austmann hvor þeirra. Fór í Hvamm Bárður garðabrjótur son Þorsteins kúgaðs en Bárður trébót fór til Sturlu.
Í Hjarðarholti bjó þá Dufgus Þorleifsson. Hann þótti þá mestur bóndi í Dölum. Hann átti Höllu Bjarnardóttur. Synir þeirra voru þeir Svarthöfði og Björn drumbur, Kægil-Björn, Kolbeinn grön.
Í Skorravík bjó þá Þorgísl Snorrason. Honum kenndi barn skillítil kona er Guðbjörg hét. Hann gekk eigi við en hún sótti Dufgus að þessu máli. Það þótti þeim Strendunum hæðilegt og gerðu spott að.
En um sumarið fór Dufgus og með honum Bjarni Árnason fylgdar maður hans og nokkurir menn aðrir í Skorravík og tóku Þorgísl í hvílu og drógu hann út og hétu honum fóthöggi ef hann vildi eigi að Dufgus einn réði þeirra á milli. Þorgísl vildi eigi kúgast láta áður Þorkell fanakeli austmaður taldi um fyrir honum og bað hann leysa limu sína. Fór það þá fram að hann seldi sjálfdæmi og skildu við það.
Þá bjó í Ásgarði Þjóstar austmaður. Hann hafði selt Bjarna Árnasyni varning til tveggja hundraða og var ekki fyrir goldið og svarar Bjarni illa er hann heimti. Þeir voru að boði í Höfn er Sveinn Snorrason kvongaðist. Þá heimti Þjóstar enn að Bjarna skuldina en Bjarni svaraði illa. Þjóstar var vel stilltur og sagði slíku smátt ríða. Dufgus spurði Bjarna hversu farið hefði með þeim.
Bjarni svarar: Lifa vildi Þjóstar nú er hann heimti vel og stillilega.
Um veturinn milli jóla og föstu fóru þeir Dufgus og Bjarni í eyjar út eftir skreið og gistu í Höfn er þeir fóru utan.
Þá kom þar Þorgrímur Þórðarson bóndi af Ketilsstöðum og sagði að hann hefði komið á mannaspor er gengið höfðu inn hið efra. Hallbera húsfreyja sagði það Dufgusi og kvað verið mundu hafa Þorgísl. Dufgus kvað Þorgísl vita að Þórður móðurbróðir hans sat í Hvammi en Sturla að Sauðafelli frændi hans og sagði honum slíkt ofráð vera.
Þorgísl hafði farið utan og með honum þrír Erlingssynir, Guðmundur og Bjarni, Hallkell og Húnbogi Hauksson hinn fimmti. Þeir fóru inn í Ásgarð og réðst Þjóstar í ferð með þeim með þeim kosti að þeir festu honum að gera Dufgusi ekki mein en búa við Bjarna sem þeim líkaði. Þeir fóru út og settust í Víkingsgil út frá Skarfsstöðum.
Hallbera húsfreyja lét alla heimamenn sína fara á leið með þeim Dufgusi. Var þar Þorgísl og Oddur synir hennar, Þorkell og Húnbogi húskarlar og Ásbjörn hinn blindi og konur.
Það bar saman er þeir Hafnarmenn hurfu aftur og þeir Þorgísl hljópu upp fyrir þeim. Þá hljópu þeir Dufgus undan og vildu til sauðahúsa og hljópu þá hvorir sem máttu og fundust mjög jafnsnemma. Dufgus laust til Þjóstars og kom á stálhúfubarðið og í andlitið. Eftir það hljóp Þjóstar að Bjarna og héldust þeir á en Dufgus höggur nokkur högg til Þorgísl og beit ekki á því að hann var vafiður léreftum. Þá rennast þeir á og verður þúfa fyrir fótum Þorgísli og fellur hann en Dufgus á ofan. Ásbjörn blindi heldur Guðmundi Erlingssyni. Öllum var haldið förunautum Þorgísls af mönnum Hallberu en Oddur son hennar var sendur í Hvamm að segja Þórði.
Þorkell húskarl úr Höfn var laus. Honum bauð Dufgus framfærslu og syni hans til þess að hann fengi honum öxi sína en hann vildi það eigi. Þá bað hann Þorgísl Oddsson og vill hann eigi.
Guðmundur Erlingsson dróst þangað til. Hinn blindi maður hélt um hann miðjan en hendur hans voru lausar. Hann fékk brugðið sverði og hjó á fót Dufgusi tvö högg og voru það mikil sár. Síðan fékk Ásbjörn hann frá dregið. En þeir Dufgus komust þá til öxarinnar og fékk Dufgus brotið skaftið við augað og sneri þá upp egginni. Þá mæddi Dufgus blóðrás og komst Þorgísl upp og þægði honum á öxareggina. Varð hann þá sár á baki og var þá óvígur.
Þá kallar Þjóstar á Þorgísl: Deyja vildi Bjarni nú, Þorgísl.
Hann hljóp þá til og lagði spjóti á milli herða honum og kom út um brjóstið. Fleiri hafði hann sár áður hann féll.
Þá kom að Þorsteinn Austfirðingur heimamaður Þjóstars og ætlaði að höggva til Dufguss en Þjóstar bannaði honum það. Þá hjó hann í höfuð Bjarna og varð það hans banasár.
Eftir það fóru þeir á brott og ofan til sjóvar, svo síðan inn hið neðra. En Þórður Sturluson og heimamenn hans fóru hið efra og urðu hvorigir varir við aðra. Þórður kom á vetfangið og lét færa Dufgus heim til sín og var hann þar græddur.
Þeir Þjóstar fóru í Ásgarð og átu þar mat. Síðan fóru þeir yfir til Dala átta saman. Ólafur Brynjólfsson og Þorsteinn voru til komnir.
Þeir koma til Sauðafells þá er Sturla var mettur að náttverði og kölluðu út Torfa prest Guðmundarson og senda hann til Sturlu að biðja hann ásjá. En er prestur sagði áverka á Dufgusi var hann hinn beiskasti og sagði þá djarfa er þeir höfðu þangað farið og bað þá verða brottu aðra en Þjóstar bað hann eftir vera ef hann vildi. En Þjóstar vildi það ekki og fóru þeir allir suður með fjalli og ætluðu austur á Síðu til Orms Svínfellings. Hann var vinur Þjóstars.
En Torfi prestur bað fyrir þeim við Sturlu og flutti það að þar eftir mundi fara hollusta Guðmundar undir Felli mágs Þorgísls og annarra Strenda, kvað þá svo mundu skipta trúnaði með þeim Þórði frændum sem hann gæfist nú Þorgísli. Þá fór svo að Torfi prestur reið eftir þeim og komu þeir aftur um nóttina.
Um morguninn eftir fór Sturla við fjórtánda mann inn í Ásgarð og um morguninn eftir inn í Hvamm. Komu þar þá synir Dufguss og margir Laxdælir. Voru þeir þá sáttir gervir að því að þeir frændur, Þórður og Sturla, skyldu gera með þeim og gerðu þeir fjóra tigu hundraða fyrir áverka við Dufgus á hendur Þorgísli en tuttugu hundrað fyrir víg Bjarna og skyldi Þjóstar það gjalda að helmingi. Þorgísl skyldi og vera héraðsekur af Strönd og var hann í Öxney hin næstu misseri.
Eftir það kaupir Dufgus Baugsstaði og réðst þangað en Þorgils gaf þá öngan gaum að héraðssektum.
Þetta kvað Ámundi smiður:
57.
Sitt réð selja
sandauðigt land
fullsvinnr Flosi
fús Dufgusi.
Nú hefir keypta
kvalráðr fala
geirs glymstærir
glaðr Baugsstaði.
Þá er tíðindi þessi fréttust í Reykjaholt um áverka við Dufgus og sættirnar var þar kveðin vísa sjá:
58.
Éls, varð mynd á málum,
meir á hann skylt til þeira
stála hjarls en Sturlu
starr reifandi Skeifu.
Seggr var samr að þiggja
sárbætr, er því mætir,
margr verðr hræddr of hodda
hald en tregr að gjalda.
Þessi vetur var kallaður sandvetur og var fellivetur mikill og dó hundrað nauta fyrir Snorra Sturlusyni út í Svignaskarði.
Snorri hafði um veturinn jóladrykki eftir norrænum sið. Þar var mannmargt. Þar var Jón og Órækja og synir Hallveigar, Klængur og Ormur, Þórðarsynir Ólafur og Sturla, Þórður son Þorvalds Vatnsfirðings, Sigurður Ormsson bróðir Hallveigar, Sturla Bárðarson, Styrmir Þórisson úr Goðdölum, Bárður ungi hirðmaður bróðir Dags er átti dóttur Dagfinns lögmanns og margir aðrir góðir menn. Þá var fæð mikil með þeim Sturlu frændunum. Hafði hann og mannmargt.
Um vorið eftir hafði Þórður uppi Þórsnesþing sem þeir bræður höfðu ráð fyrir gert og sendi Snorri Jón son sinn við sjöunda mann og höfðu þeir einn hest. Þá tók Þórður upp Snorrungagoðorð er var erfðagoðorð Sturlunga og tók Jón við tveim hlutum en Þórður hafði þriðjung. Þetta líkaði Sturlu Sighvatssyni allþungt og sat heima um þingið. Leið svo fram til alþingis.
Snorri reið til þings eftir vanda sínum með fjölmenni. Þórður kvaddi nokkura menn til þingreiðar og ætlaði eigi til öndverðs þings en sendi Sturlu son sinn til Snorra með goðorð sín.
Jónsmessu um þingið stefndi Sturla að sér mönnum. Voru þeir á fjórða tigi. Þar voru tveir Hrafnssynir, Sveinbjörn og Einar, Árni Auðunarson, Ingimundur og Skíði bræður, Lauga-Snorri, Ásbjörn og Eyjólfur bræður, Þorgísl og Birningur bræður, Vigfús Ívarsson, Eiríkur birkibeinn og enn voru heimamenn og umsitjendur. Sturla snýr inn til fjöru.
Þá spurði Sveinbjörn Hrafnsson hvert hann ætlaði. Hann lést ætla inn í Hvamm. Þeir löttu þess flestir.
Sturla kvað eigi þurfa að letja sig því að eigi ætla eg að Þórður skuli einn við mælast nú um Snorrungagoðorð sem á Þórsnesþingi. En engi minna manna vil eg að mein geri Þórði föðurbróður mínum eða sonum hans eða Ingimundi Jónssyni. En ráða vil eg nú að sinni.
Í Hvammi var margt manna fyrir með Þórði, Ólafur son hans, Ingimundur Jónsson, Bárður garðabrjótur, Páll og Magnús bræður, Hallvarður Þorkelsson, Einar naut.
Páll vakti og annar maður og sátu á virkisvegg fyrir loftsdurum. Þeir sáu eigi fyrr en þeir Sturla riðu í Hvammdalsgerði. Vöktu þeir menn upp og ráku aftur hurðir. Þeir Sturla kölluðu að loftinu og sögðu að Sturla vildi finna Þórð en þagað var á mót. Þórður ræddi að skyldu ganga út en Ingimundur kvað ekki ráð vera, sagði vera liðsmun og búningsmun.
En er þeir Sturla fengu engi svör tóku þeir einn hlöðuás og báru að durum og brutu upp hurðina. Þeir luku aftur skálann er þar voru í anddyrinu Þorkell prestur, Ólafur Brynjólfsson, Þorsteinn Finnbogason. Þeir Vigfús Ívarsson og Skíði Þorkelsson gengu fyrstir inn en síðan hver að öðrum. Þorsteinn Finnbogason hörfaði í anddyrinu fyrir kamarsdyr og særðu þeir hann mörgum sárum. En þeir prestur og Ólafur Brynjólfsson hörfuðu í stofu og gengu þeir Lauga-Snorri og bræður hans og þeir sex saman í stofuna. Vann Snorri á Ólafi og lagði hann með sverði, því er Hákon jarl galinn hafði sent Snorra Sturlusyni, í óstinn Ólafi og rauf á barkanum. Hann hjó í andlitið og úr stálhúfubarðinu og úr augað og í sundur kinnarkjálkann. Hann hjó og mikið sár á fótinn en Birningur annað. Þorvarður rennari hjó á hálsinn svo að sá mænuna.
Gengu þeir út og sögðu Sturlu hvað í hafði gerst og spurðu hvort hann vildi láta ganga að skálanum. Sturla lést það eigi vilja og kvað ærið að gert. Sendi hann þá Árna Auðunarson til loftsins og bauð Þórði grið og öllum mönnum. Sagði Árni svo síðan að honum þótti sem Sturla sæi þá þegar missmíði á för sinni. Þórður gekk út og allir er inni voru. Þá voru grið sett og mælti Ólafur son Þórðar fyrir. Sturla reið þegar á brott og varð engi viðræða þeirra og ekki um sættir talað.
Þórður reið annan dag til þings með fjóra tigu manna. Og er þeir Snorri bræður fundust bauð hann að fara í Dali með svo mikinn afla sem Þórður vildi. Þórður sagði að grið stóðu til miðsumars. Þórður lést vilja vita hver svör Sturla hefði fyrir sér þá er góðgjarnir menn leituðu um með þeim.
Sturla sendi norður menn að segja föður sínum hvað í hafði gerst með þeim. En Sighvatur hafði í fleymingi og sagði svo er hann fann bændur í Eyjafirði að sveinninn Sturla hefði riðið í Hvamm og kastað daus og ás.
En er þetta kom í Reykjaholt kvað Guðmundur Galtason:
59.
Öld hefir upp að félli
ás gunnvita runni,
friðskil koma flotnum
fram, og daus í Hvammi.
Og má af efnum slíkum
alls ekki vel falla,
mér er um margt það er eg heyri
margrætt, nema lok bættu.
Sumar þetta er nú var frá sagt kom norðan til alþingis Guðmundur biskup með þrjá tigu manna og tók Snorri við honum um þingið og alla hans sveit. En eftir þingið fór hann vestur til Borgarfjarðar og fór þar yfir um sumarið. Dreif þá til hans mannfjöldi mikill en þó tóku menn vel við honum og gáfu honum mikið fé. Fór hann út um Snæfellsnes og svo inn til Dala og fór þar ekki að gistingum, fór þaðan í Hvammsveit og út um Strönd og um Reykjanes og til Steingrímsfjarðar og þaðan aftur til Saurbæjar og kom á Staðarhól um haustið fyrir vetur og hafði þá hundrað manna.
Sighvatur var þá kominn í Dali og höfðu þeir Sturla sex tigu karla að Sauðafelli því að engar sættir höfðu orðið um sumarið með þeim Þórði og Sturlu. Var Þórður Sturluson þá kominn í Hvamm er hann hafði verið á Eyri um sumarið. Þeir Böðvar son hans höfðu þar sex tigu manna. Fundust þeir bræður í Ljárskógum og var Sighvatur hinn kátasti meðan þeir töluðu um hesta og lausnartíðindi en er þeir skyldu tala um mál sín máttu þeir ekki við talast og skildu ósáttir.
Sighvatur sendi þau orð til biskups að hann skyldi eigi ætla sér það að fara norður til sveita. Biskup var á Staðarhóli þá er hann frétti að honum var bönnuð yfirferð. Þá var sent eftir öxnum þeim er biskupi höfðu verið gefin, nær tveir tigir, og voru þeir fyrst etnir. Þá fóru biskupsmenn til þeirra manna er farið höfðu til Hóla að biskupi og fengu þar mikið fé.
En er leið að jólaföstu tók biskup sótt enda mátti þá eigi lengur ráðalaust vera. Þórður fór þá og bauð biskupi til sín. Varð biskup því feginn og bar Böðvar biskup í börum suður í Hvamm og var þar til föstu. Var þá í Hvammi aldrei færra en hundrað manna alls síðan biskup kom.
Þeir Torfi prestur Guðmundarson og Þorsteinn Kollason fóru oft milli þeirra frænda um veturinn að leita um sættir og varð saman talað fyrir föstu. Skyldi biskup fara norður til staðar síns með þá menn sem í Hvammi höfðu verið um veturinn en Þorlákur Ketilsson og Böðvar skyldu gera með þeim Þórði og Sturlu.
Fór Sighvatur þá norður þegar en biskup fór litlu síðar og fann Sturlu í Hjarðarholti og sættust þeir þá í annað sinn. En þeir Þórður og Sturla fundust á Þorbergsstöðum og sættust þar. Var kyrrt um veturinn það er eftir var.
Um vorið eftir luku þeir gerðum upp Þorlákur Ketilsson og Böðvar á Þorbergsstöðum. Þeir gerðu sex tigu hundraða þriggja alna aura fyrir fjörráð við Þórð en tuttugu hundrað til handa hvorum hinna er sár var orðinn en þrjú hundrað fyrir hvern þann er fór í Hvamm.
Sturla svarar svo gerðum þessum: Eigi er of mikið gert til handa sáramönnum og það skal vel gjalda og það mun sannara að bæta fyrir flesta þá menn er fóru fólskuferð þessa með mér. En fyrir fjörráð kallast eg eigi eiga að bæta Þórði föðurbróður mínum því að eg vildi eigi dauða hans sem eg lýsti fyrir mínum mönnum en eigi mun eg deila við hann héðan frá um fé það er við höfum eigi orðið ásáttir hér til, Glerárskóga og annað fé.
Sturla greiddi þá Valshamarseyjar Þórði er hann hafði gert af Vigfúsi fyrir bjargir við Aron Hjörleifsson.
Vetur þann er Guðmundur biskup var í Hvammi kom norðan í Reykjaholt Kolbeinn ungi Arnórsson og fór bónorðsför og bað Hallberu dóttur Snorra og var þá þegar brúðlaup þeirra og fór hún norður þegar með honum.
Þá fór og norður Jón murtur og komu þeir til Staðar í Hrútafjörð. Þar bjó þá Brandur Jónsson. Snorri Sturluson hafði látið sækja hann til sektar um fornt fémál er hann hafði átt að Steinunni systur sinni, móður Brands. En þeir Brandur höfðu vígása í durum og varð þar ekki inn gengið og hurfu þeir Kolbeinn við það frá og fóru heim norður. Jón hafði málið haft á hendur Brandi.
Það sumar eftir reið Snorri til alþingis eftir vanda en þeir riðu ekki til þings Þórður og Sturla. Og hafði Þórður bú að Eyri en setti Sigurð Ólafsson fyrir bú í Hvammi og var hann ekki þar. Snorri sendi orð Þorvaldi Vatnsfirðingi að hann skyldi ríða til þings með honum. Þorvaldur kom vestan með þrjá tigu manna og Þórður son hans og Órækja Snorrason er eftir honum var sendur og reið á þing og tjaldaði Valhallardilk. Sighvatur Sturluson var til þings kominn norðan og áttust þeir fátt við bræður um þingið og lítt fóru menn á millum þeirra.
Þinglausnadag reið Snorri til Lögbergs sem hann var vanur áður hann reið af þingi. Sighvatur var að Lögbergi. Þorvaldur spurði Sighvat hvað þeir bræður skyldu tala um Snorrungagoðorð.
Ekki mun eg um tala, segir Sighvatur.
Vilja munt þú reyna vitni um, sagði Þorvaldur.
Mér þykja engi merkilegri en þau er eg ber, segir Sighvatur.
Eigi skylduð þið bræður deila um slíkt, segir Þorvaldur.
Ekki þarftu hér til að leggja, segir Sighvatur, því að ekki mun fyrir þín orð gert.
Eftir þetta skildu þeir og riðu þeir Snorri heim í Reykjaholt. Fóru þeir vestur förunautar Þorvalds en hann var eftir við sjöunda mann.
Það var eitt kveld er Snorri sat í laugu að talað var um höfðingja. Sögðu menn að þá var engi höfðingi slíkur sem Snorri en þó mátti engi höfðingi keppa við hann fyrir sakir mægða þeirra er hann átti. Snorri sannaði það að mágar hans væru eigi smámenni.
Sturla Bárðarson hafði haldið vörð yfir laugunni og leiddi hann Snorra heim og skaut hann fram stöku þessi svo að Snorri heyrði:
60.
Eigið áþekkt mægi
orðvitr sem gat forðum,
ójafnaðr gefst jafnan
illa, Hleiðar stillir.
Þá er Sturla Sighvatsson spurði að stuttlega hafi farið með þeim bræðrum á þingi en Þorvaldur var eftir í Reykjaholti en lið hans fór vestur sendi hann Torfa prest suður til Þorvalds og bað hann leita um sættir með þeim Snorra. En Þorvaldur lést fara mundu ef Snorri vildi. Snorra lést það óráðlegt þykja að Þorvaldur færi fyrir sakir Hrafnssona og Jónssona en kallaði þá Sturlu ótrúlegan. Þorvaldur kvað annað lítið mundu fyrir liggja en Hrafnssynir stæðu yfir höfuðsvörðum hans. En þó varð ekki af för Þorvalds.
Snorri fór út undir Hraun til Skúla til móts við Þórð bróður sinn og sagði að hann vildi fara í Dali vestur og leita eftir hlut sínum við þingmenn Sturlu og bað Þórð fara með sér með fjölmenni. Þórður kvaðst fara mundu til umbóta með þeim ef hann mætti og lést vilja gera Sturlu orð. Snorri bað hann slíku ráða.
Eftir það sendi Þórður menn til Sturlu og fýsti hann ekki heima að vera. Reið Sturla þá norður um heiði til Miðfjarðar og hélt svo fréttum vestur til Dala um ferðir þeirra Snorra.
Eftir þetta drógu þeir lið saman Snorri og Þorleifur Þórðarson og höfðu þrjú hundruð manna. Þórður og Böðvar komu utan með hálft annað hundrað manna.
Þorgrímur Hauksson sagði draum sinn sonum Þórðar, Ólafi og Sturlu, er þeir riðu um Vatnaheiði. Hann dreymdi að hann þóttist ríða með flokkinum inn til Dala. Hann þóttist sjá að kona gekk á mót flokkinum, mikil og stórleit, og þótti honum kenna af henni þef illan.
Hún kvað:
61.
Mál er að minnast
mörnar hlakkar.
Við tvö vitum það.
Viltu enn lengra?
Þeir Þórður riðu í Hörðadal og fundust þar flokkar þeirra, riðu síðan til Miðdala. Riðu þeir Snorri og Þorvaldur til Sauðafells en aðrir flokkar dreifðust þar um Dali. Var stefnt til Sauðafells öllum bóndum fyrir sunnan Fáskrúð. Gengu þar allir menn til eiða við Snorra og sögðust í þing með honum.
Þorvaldur leitaði eftir við trúnaðarmenn Sturlu hvar hann væri eða hvenær hann mundi heim. Þeir spurðu hve honum mundi fritt ef hann kæmi heim.
Skammsæta ætla eg honum þá laug, segir Þorvaldur.
Flokkarnir skildu í Dölum miðvikudaginn en Ólafsmessa síðari var fimmtadag. Þórður Sturluson gekk að Þorvaldi áður þeir skildu og bað hann fara varlega og varast Hrafnssonu, lést eigi vita hvar þeir voru og kvað hann dvalist hafa svo lengi þar í sveitum að hver maður mátti njósna um ferðir hans er vildi.
Guð þakki þér bóndi, segir Þorvaldur, er þú varar mig við en annað lítið mun fyrir verða en Hrafnssynir séu banamenn mínir.
Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi, sagði Þórður.
Einar Hrafnsson var á Eyri að Guðrúnar föðursystur sinnar er hann spurði að Þorvaldur ætlaði vestur úr Dölum. Sté hann þá á skip þegar og fór vestur til Flateyjar. Síðan gengu þeir á skip allir bræður og með þeim Guðmundur Ólafsson og Ólafur Varðason, Kár biskupsmaður og Folalda-Narfi, Þorsteinn. Þeir riðu inn í Þorskafjörð og sátu í dæl einni inn frá Kinnastöðum þar sem leiðir skiljast til vaðils og inn með firði.
Þorvaldur reið inn í Hús um aftaninn en til dagverðar Ólafsmessu inn í Tungu til Jóreiðar og vestur til Saurbæjar um daginn og áði í Holti. Stefndi hann til sín Árna úr Tjaldanesi og bar á hann sakir um það er hann hafði keypt Ólafseyjar að Jónssonum og þar höfðu Jónssynir gist oft. Þorvaldur reið um kveldið í Ólafsdal en frjádaginn í Bæ.
Þá gerði hann frá sér menn sína, Þórð son sinn og Þórð Heinreksson til Ísafjarðar, en aðra tvo út yfir Þorskafjörð og skyldu þeir boða mönnum til hestavíga í Þorskafjörð sunnudaginn. Hrafnssynir sáu þá og kenndu og gáfu sér ekki að þeim því að þeir ætluðu að Þorvaldur mundi ríða síðar og gáfu þeir því engan gaum að þeim.
Þorvaldur var laugardag í Bæ en um kveldið bað hann taka hesta sína og lést ríða vilja fram til Gillastaða til Skeggja vinar síns sem hann gerði.
Snorri hét húskarl Skeggja. Hann fann tvo menn um kveldið í skógi og sögðust vera heimamenn í Vatnsfirði og spurðu að ferðum Þorvalds. Hann kvað hans skammt að leita og kvað vera á Gillastöðum. Snorri kom síðan heim og lagðist niður í útihúsi og gerði ekki vart við þetta.
Í Steinbjarnartungu kom maður of nóttina og tók glæður af arni. Kona ein spurði hvað eldurinn skyldi.
Til Bæjar, segir hann, að elda Þorvaldi bað.
Þorvaldur var á Gillastöðum sem fyrr var ritað og Þórdís kona hans, Guttormur Heinreksson og Högni Halldórsson Helgasonar, Skeggi bóndi hinn fjórði maður, Snorri hinn fimmti maður.
Skeggi bóndi gekk út í næturelding og sá að naut voru í túni, sneri inn og spurði að húskarli. Og í því kom dynur undir húsin. Sneri hann til dura og sá fimm menn úti. Heyrði hann þá blót og bölvun og voru nefndir ýmsir menn til atgöngu, Sturla Sighvatsson og enn fleiri aðrir.
Skeggi sagði Þorvaldi að ófriður var kominn og kvaðst ætla að fáir væru mennirnir. Þorvaldur kvað hitt líkara að eigi væru allfáir. Kenndu þeir þá reyk. Skeggi sagði að roftorfsveggur væri undir kamri, sá er ekki væri fyrir undan að ganga. Högni eggjaði útgöngu en Þorvaldur kvað menn fyrir og hvarf frá. Tóku þá þegar að loga húsin. Sneri Guttormur þá til útidura og varði og fékk hann lag í óstinn og annað í kviðinn og féll þar. Þorvaldur gekk í eldahús þá er eldurinn sótti að og húsin loguðu. Hann lagðist yfir elds stó og lagði hendur frá sér í kross og þar fannst hann síðan.
Eftir þetta beiddi Skeggi griða og útgöngu þeim er inni voru. Var Þórdís þar þá út dregin um vegginn. Högni gekk þá út og allir heimamenn. Meystelpa ein lést þar í eldhúsinu hjá Þorvaldi.
Síðan bjuggust Hrafnssynir á brott og tóku hesta þá sem þeir komu höndum á. Tvo tóku þeir og vopn nokkur. Riðu þeir þá inn til Gilsfjarðar og svo norður á Kleifar og sváfu þar um daginn, riðu um kveldið til Hvalsár en mánadaginn inn með Hrútafirði og fundu Sturlu Sighvatsson í fjarðarbotni og sögðu honum tíðindin.
En er því var lokið gengu þeir bræður á tal við Sturlu og töluðu um hríð. Eftir það skilja þeir og riðu þeir Hrafnssynir norður til Eyjafjarðar og tók Sighvatur vel við þeim öllum.
Sturla reið heim og sendi suður Torfa prest í Reykjaholt og beiða sér griða og sínum mönnum og Snorri skyldi selja fyrir sig og son sinn og bróður sinn Þórð og Vatnsfirðinga. Snorri svaraði, kvaðst ætla að Hrafnssynir væru í Dölum og vildi eigi grið selja ef þeir væru þar.
En þá er spurðist að þeir voru með Sighvati var fundur lagður í Norðurárdal með þeim frændum til griða. Kom þar Sturla en Snorri eigi og sendi Þorleif Þórðarson og Styrmi prest hinn fróða að taka grið til handa honum. En Sturlu þótti það ekki trúlegt og vildi hann eigi selja griðin og lét Kálf Gilsson taka í hönd Þorleifi en Torfa prest í hönd Styrmi presti. Mælti Styrmir fyrir griðum og skildu við svo búið.
Drottinsdag eftir brennu Þorvalds kom Þórður son hans í Þorskafjörð og spurði þar tíðindin. Frétti hann þá eftir hvort nokkuð mundi tjóa eftir þeim að ríða en menn ætluðu að þeir mundu undan bornir. Varð ekki af eftirreiðinni. En Þórður reið vestur í fjörðu og gerðist höfðingi yfir ríki föður síns og þeir Snorri bræður.
Illugi hét son Þorvalds jafngamall Snorra. Ketill og Páll voru yngri. Einar var veturgamall, son þeirra Þórdísar.
Snorri Sturluson sendi Jón son sinn til Vatnsfjarðar að bjóða Þórdísi suður þangað en hún réðst þá út á Mýrar til bús þess er þau Þorvaldur höfðu þar átt.
Vetur þann er Guðmundur biskup var í Hvammi var unnið á Kol hinum auðga á Kolbeinsstöðum Árnasyni. Vann á honum Dagstyggur son Jóns, lítils bónda er var landseti þeirra Snorra og Hallveigar. Því tók Snorri við Dagstygg eftir áverkana. Dagstyggur var maður mikill og sterkur og heldur ógiftusamlegur.
Þá var með Snorra Jón er kallaður var sterkastur maður á Íslandi. Þeir Dagstyggur báðir slógu um sumarið.
Það var einn dag um sumarið að Jón murtur kallaði heim alla sláttumenn af verki og tóku hesta sína. Þetta þótti mönnum undarlegt.
Þá tók Guðmundur Galtason til orða:
62.
Hvat er um, hví kveðum sæta?
Heim gengr sterkr af verki.
Vita rekkar nú nokkvað
nýlegs um för Grýlu?
Þeir Jón riðu norður til Staðar í Hrútafjörð og veittu Brandi Jónssyni heimsókn. Þeir tóku Vandráð heimamann Brands og hjó Jón sterkur fót undan honum og var það banasár. Þeir tóku Brand og höfðu hann suður með sér í Reykjaholt því að hann vildi eigi kúgast láta. En Snorri gerði þá sátta en gaf Brandi upp fégjaldið og skildu þeir þá vel.
Þetta haustið sama fór Brandur norður í Víðidal og með honum Teitur Þorbjarnarson mágur hans og bræður Filippus, Ögmundur og Eyvindur. Þeir fala þar slátur að bóndum, Gunnari Klængssyni hann bjó þá að Þorkelshvoli og enn fleirum og heldur með ójafnaði.
Þá fór til Þorsteinn Hjálmsson og mágar Gunnars, Rögnvaldur og Ari, og voru þeir eigi allfáir. Vildi Brandur ekki gera fyrir þeirra orð og sló í hlaupafar með þeim. Sóttu þeir fjórir Brand. Hann hafði pansara þann er ekki gekk á en svaði var á vellinum og skriðnaði hann og stakk niður hendinni. Þá hljóp Rögnvaldur að og hjó á handlegginn við hreifann svo að engu hélt nema sinunum þeim er gengu af þumalfingri. Eyvindur var og sár. Illa var bundin höndin Brands og lauk svo að af var leyst. Og skildu ósáttir.
Sturla Sighvatsson sendi menn um haustið til Vatnsfjarðar og lét bjóða Þorvaldssonum sætt fyrir Hrafnssonu og brennu. En Þórður tók ekki undir það en bar fjörráð á Sturlu um föður sinn svo og Sighvat.
Um veturinn sendi Snorri til Vatnsfjarðar Starkað Snorrason og í annað sinn Gest Kársson og var margtalað um þeirra erindi af þeim mönnum er eigi voru vinir Snorra of slíkt sem síðan kom fram. En um veturinn voru dylgjur miklar með Reykhyltingum og Sauðfellingum.
Um veturinn eftir geisladag stefndu Þorvaldssynir þeim mönnum til sín er þeim þóttu röskvastir og fóru vestan með fimm tigu manna, fyrst til Steingrímsfjarðar en þaðan til Kollafjarðar og svo til Bitru. Að Brunngili bjó Svartur Narfason og Bóthildur Heinreksdóttir systir Þórðar er þar var í för.
Þeir höfðu það orð á að þeir mundu fara til Hrútafjarðar og svo suður til móts við Snorra. Þar tóku þeir til leiðsagnar þann mann er Klakk-Álfur hét. Þeir fóru Gaflfellsheiði og svo til Laxárdals og komu til Hamra og tóku þar menn alla og gættu en gerðu elda stóra og þurrkuðu sig. Þeir bjuggu þar logbranda marga og höfðu þá með sér. Þeir fóru þaðan á öndverða nótt og bundu þar menn alla nema Guðmund Þorgilsson bróður Helga læknis er þar bjó. Hann höfðu þeir með sér. Þeir fóru á háls hjá Dönustöðum og svo ofan með hálsi að Þverdal og ofan að auðnatúni því er að Einarsteigi heitir við Þvergil upp frá Kaldakinn.
Þann dag áður sendi sú kona er Rakel hét, kona Más kumbalda, frá Gnúpi Sturlu orð að hann skyldi eigi heima vera og sagði að ófriðarfylgjur voru komnar í héraðið. Sturla reið heiman um daginn norður til Miðfjarðar og ætlaði að sætta Þorstein Hjálmsson og Brand Jónsson.
Þá er Sturla hafði heiman riðið áður um daginn komu Vatnsfirðingar til Sauðafells og dvöldust í hjá högum við Tungu og skipuðu til atgöngu. Sá maður var kominn til Sauðafells er Sveinn hét, ísfirskur. Hann hafði tekið lokur frá hurðum og gengið út og segja Dalamenn að hann væri njósnarmaður en hann duldi þess og hyggjum vér sannara vera því að hann var kominn að utan af Snæfellsnesi.
Að Sauðafelli voru þá híbýli góð, skáli tjaldaður allur og skipaður skjöldum utan á tjöldin en brynjur voru fyrir framan rekkjur. Solveig húsfreyja hafði fætt barn skömmu áður og var hún þá risin af hvílunni og lá í stofu og Þuríður dóttir hennar og Valgerður móðir hennar og margt annarra manna.
Nú gera Vatnsfirðingar atgöngu til bæjarins neðan með Grafargerði. Var það þá ætlan þeirra að veita atgöngu hvort er Sturla væri fyrir fámennari eða fjölmennari og sækja með vopnum bæinn ef kostur væri eða með eldi. Svo var flokkur sá ákafur að hver eggjaði annan. Engi var til latanna. Og er þeir komu heim á hlaðið varð gnýr mikill af för þeirra.
Kona sú hafði gengið til kamars er Arngerður hét Torfadóttir. Hún fóstraði Guðnýju Sturludóttur. Og er hún varð vör við ófriðinn slökkti hún ljós í skálanum og hljóp til hvílunnar þar er mærin lá. Hún tók dýnuna og breiddi á sig en meyna lagði hún við stokkinn hjá sér og undir sig og gerði yfir krossmark og bað guð gæta.
Þeir hljópu inn í dyrnar, Þórður Þorvaldsson í dýrshöfuðsdyr með tólfta mann en Snorri og þeir Hjálmssynir í brandadyr fimmtán saman. Fimm menn gættu hvorra dura en einn var á húsum uppi, Þórður gleður. Fjórir menn voru fyrir sunddurum til kirkju. Nú gengu þeir í skálann með höggum og blóti og hjuggu þá allt það er fyrir varð og ruddu hvorum tveggja megin lokrekkju og urðu engir menn til varnar með vopnum. Í það eitt rúm kom ekki högg er mærin Guðný lá í.
Þeir er úti voru tendruðu log í eldhúsi og voru þau borin í skálann. En Koll-Bárður hafði haft eld frá Hömrum og kom það ljós fyrst í skálann er hann kveikti. Þar var aumlegt að heyra til kvenna og sárra manna.
Þeir Þórður gengu að lokrekkjunni og hjuggu upp og báðu Dala-Frey þá eigi liggja á laun. En er hurðin lyftist gekk Þórður í lokrekkjuna og lagði í rúmið. Þá fann hann að engi var maður í rúminu og sagði hann svo síðan, er um var talað, að því hefði hann fegnastur orðið er hann kom að hvílunni og hann ætlaði að Sturla mundi þar vera en hinu ófegnastur er hann var eigi þar. Sneri hann þá ofan.
Sveinn prestur Þorvaldsson lá næst lokrekkjunni og tók hann hægindi og bar af sér er þeir lögðu og hjuggu til hans. Ætluðu þeir að vera mundi einn af fylgdarmönnum Sturlu er svo varðist rösklega. Snorri saur hét sá er lá næst honum utar frá.
Hann tók svo til orða: Sækið að oss hinum ólærðum mönnum en látið vera prestinn í friði.
Var þá sótt að Snorra og var hann særður til ólífis.
Þær Solveig húsfreyja og Valgerður móðir hennar vöknuðu í stofunni og ræddu um hvort út mundi að heyra veðurgnýr eða mundi ófriður að kominn. Þær sendu fram þann mann er hét Þormóður valskur. Og þegar er hann kemur fram í stéttirnar er höggvið í fang honum og var hann særður til ólífis. En er hann kom eigi aftur þá sendi Valgerður fram konu og sagði hún að ófriðurinn var.
Og er þeir bræður Þórður þóttust vita að Sturla var eigi í skálanum gengu þeir í stofu með logbröndum og rannsökuðu bæði klefana og stofuna. Þeir gengu að hvílu Solveigar með brugðnum og blóðgum vopnum og hristu að henni og sögðu að þar voru þau vopnin er þeir höfðu litað lokkinn á honum Dala-Frey með. En af öllu saman, skapraun hennar og sjúkleika, þá brá henni nokkuð við slík orð.
Valgerður húsfreyja mælti: Eigi munuð þér þurfa hér að leita Sturlu undir tjöld eða veggi að stanga og er það mitt hugboð að til meira dragi um yður skipti áður létti en þótt þér hafið hér unnið á konum og verkmönnum.
Þeir sögðust þá eigi létta mundu áður þeir hefðu höfuð hans. Hún sagði það svo undan hafa borið í það sinn að eigi væri ráðið hvort þeim yrði auðið að standa yfir höfuðsvörðum hans Sturlu.
En er þeir höfðu leitað í stofunni svo að þeir vissu að Sturla var eigi þar þá leita þeir um allan bæinn. Birtist þá hvað unnið var í skálanum. Voru þar margir menn sárir en sumir hraktir. Var þá allt fólk fært í stofu og geymt þar. Voru upp höggnar hirslur og rænt því er í var. Vopnakistu Sturlu gátu þeir eigi upp brotið áður þeir klufu botninn. Þar tóku þeir öxar, Himintelgju og Snögu, og spjót tvö gullrekin. Til sjö tigi hundraða tóku þeir úr þeirri kistu.
Þeir brutu og upp gripakistu Solveigar. Þá kom þar að Eyvindur austmaður brattur. Hann sá hvar upp var svarfað gullhúsi því er í voru hringar þeirra mæðgna. Hann tók upp og fékk í hendur Kristrúnu farkonu. Þá seildist maður til og vildi taka af henni. Hún bað hann heilan svo að taka eigi af sér og sagði hlut sárra manna yfrið þungan þótt hún næði um að binda og smyrslum á að ríða. Hún sagði og konu þá er brjóstin bæði voru af höggin yfrið þungt að tekna þótt þau næðu smyslum þeim er til væri. Lét hann þá af hendur og lést eigi vita hvað hún segði. Kristrún gekk þá í stofu og fékk Valgerður gullhúsið.
Þeir rændu því er þeir komu höndum á og bundu skjöldu í klyfjar og tóku hross þau öll er þeir gátu náð. Þá var nær alljóst er þeir voru búnir. Gekk Þórður þá í stofu.
Hann tók til orða: Þeir tveir hlutir hafa orðið annan veg en eg ætlaði er eg fann eigi Sturlu en sá annar er þú ert eftir Solveig, og eigi mundi það vera ef mætti með þig komast.
Gengur Þórður þá út og voru engar vináttukveðjur að skilnaði. Fóru þeir þá leið sína. Var þá þoka mikil um héraðið en þokulaust um fjöll. Þeir tóku hross hvar er þeir fengu.
En þegar þeir voru brottu frá Sauðafelli sendu þær mæðgur Þrasa Þrasason að segja Sturlu hvað títt var. Fór hann upp um Haukadal og stefndi mönnum á Þorbergsstaði um daginn en Hallur Arason fór norður með Þrasa. Maður var og sendur til Hörðadals að kveðja þar menn upp.
Ingimundur Jónsson kom til Sauðafells og eggjaði Solveig hann til eftirreiðar en Valgerður latti, kvað bæði vera mundu að Sturla mundi sér unna hefndarinnar enda mundi eigi auðið verða nema hann hefndi. Ingimundur fór þá og kom á Þorbergsstaði. Þar kom nær sjö tigir manna og eggjaði Þórir jökull og sumir aðrir eftirreiðar en Ingimundur lést ætla að þeir mundu farnir til Saurbæjar og varð ekki af eftirförinni.
Þeir Þórður fóru í Hvamm um kveldið og þaðan til Saurbæjar og svo heim vestur og var um þessa för allmargtalað.
Nú er þar til máls að taka er þeir Hallur Arason og Þrasi koma til Staðar í Hrútafjörð. Var Hallur þar eftir en Brandur Jónsson er þar bjó fékk Þrasa annan mann. Komu þeir snemma um morguninn til Reykja. Þá var Sturla í laugu er þeir sögðu honum tíðindin. Sturla spurði hvort þeir gerðu ekki Solveigu. Þeir sögðu hana heila. Síðan spurði hann engis. En Gíslungar og margir aðrir eggjuðu safnaðar en Sturla kveðst ekki mundu hrapa að því. En hver annarra lagði til eftir sínu skaplyndi.
Sturla reið heim eftir það og voru þar mjög kæld híbýli og kynni. Þar voru fimmtán menn sárir en þeir voru níu er enga björg máttu sér veita. Þrír önduðust úr sárum. Lifði Þorbjörg ysja tvær nætur en Bergþór Kollsson lifði lengur en Snorri saur lifði þeirra lengst. Klængur Hallsson lifði við örkuml og Brandur Austfirðingur. Þormóður valskur hafði mikið sár á bringu og enn fleiri en Sveinn prestur og Eyvindur brattur, Kristrún farkona, Helga Ásbjarnardóttir og Oddný voru lítt sár. Þá voru enn sárir karlar þrír og konur tvær.
Það var mælt að þeirra híbýla væri mestur munur hversu gnógleg voru og góð fyrir klæða sakir og annars áður þeir komu um nóttina og hversu órækileg og fátæk voru er þeir fóru á brott. Flaut blóð um öll hús en niður var steypt drykk öllum og spillt öllu því er þeir máttu eigi með komast.
Á þvertrjám í skálanum hafði legið borðfjöl mikil. Þar hafði Guðmundur skáld hlaupið á upp þá er hann heyrði höggin og lá þar svo að hann varð ekki fundinn. Menn spurðu Guðmund hvar hann hefði verið þess að hann var ekki sár.
Hann kvað:
63.
Varð eg þar er víga-Nirðir
valskóð ruðu blóði,
gnýr óx Göndlar skúra,
gagnhræddr svo að bar magni.
Sjálfr lagði eg, sveigðar
sárs féll blóð á árar,
lítt var eg heldr í hættu,
haus minn á fjöl stinna.
Sturla jók ekki fjölmenni er hann kom heim en hafði njósnir frá sér og mest suður til Reykjaholts því að hann hafði þá virðing á að Snorri hefði rót undir verið þessum ófriði.
Snorri hafði og nokkuð í fleymingi er hann spurði þessi tíðindi og kvað:
64.
Raun er að eigi einir
Eyfirðingar heyja,
drótt er sein til sátta,
svertings fetils stinga.
Er þingviðir þorðu
þramskýs, í gný býjar,
títt gekk öld of óttu
inn, harmsakar minnast.
Guðmundur Galtason var með Snorra.
Hann kvað:
65.
Hvort munu hyggjubjartir,
hneppr er friðr með greppum,
öld býst enn við deildum,
Eyfirðingar virða
að dáðframir, dauða,
djarfmælts skörungs arfar,
und var egg svo að kenndu
innt, harmsakar minntust?
En er vísur þessar komu til Sauðafells kvað Guðmundur Oddsson:
66.
Víst hafa minnst þeir er mestu
menn ofstæki nenna,
ferð rauð flein að morði,
föðr síns, og ský böðvar.
Þá hafa lítt för, fréttnir
fyrir gerð, synir byrjað,
her gest hrepps til Snorra,
haldkvæma Þorvaldi.
Tíðindi þessi spurðust um allt land, aðför við Sturlu, og þótti flestum mönnum hann auðnur á hafa haft er hann var eigi heima. En flestir menn lögðu þungt til Snorra ef hann hefði verið vitandi ferðar þessar.
Ormur Svínfellingur var mikill vin þeirra feðganna Sturlu í þann tíma.
Hann kvað er hann heyrði aðförina:
67.
Mikil var ös þá er Ysju
aldrtjón buðu ljónar.
Sárs ruðu seggir dreyra
svell áðr Þorbjörg felli.
Föður dauða rak fæðir
fálu blakks með saxi.
Þórðr var harðr í hörðum
hjörleik guma fjörvi.
Árni Magnússon var lítill vin Vatnsfirðinga. Hann kvað vísu þessa:
68.
Öld hefir Ysju fellda
óframlega gamla
þar er brandr við rif renndi
rauðr kerlingu snauðri.
Minntust mest þar er ræntu,
mikill svarmr var þar, barmar,
skjöld bar her úr hjaldri
happsnauðr, föður dauða.
Þessi vísa var enn kveðin um veturinn og kenna sumir Sturlu:
69.
Risu þá er önd lét Ysja
aldræn í gný skjalda,
sterk frá eg stáli í myrkri,
stórtíðindi, ríða.
Sýnt var að seggir minntust
síns þá er friðr tók dvína,
oft rekr öld til heifta
ofnauð, föður dauða.
Svertingur Þorleifsson bjó í Fagradal. Hann var vin Vatnsfirðinga en lítill vin flestra frænda sinna nema Sighvats.
Hann kvað vísu:
70.
Hörð er heimsókn orðin,
hafa mun svinn að minnum
öld hve ýtar guldu
yfirmanns bana sannan.
En ráfáka ráku
reiðendr gota meiði
barðs úr Breiðafirði
braut sjaldfarnar lautir.
En er Svertingur heyrði vísu Snorra kvað hann vísu:
71.
Felldit Ysju aldri,
ill verk friði spilla,
áðr nema ólmu réði
Jóns feðr Hnikars veðri.
Víst hefir minnst hið mesta
mágs brennu arngrennir,
þverri þinn vegr Snorri,
þingríks með kviðlingum.
Þá var með Svertingi Ólafur Brynjólfsson og hafði sig jafnan til þess að flimta sér betri menn.
Hann kvað þetta:
72.
Síns mágs hefir sveigir
snákhauðrs rekið dauða,
hár lék hyr of stýri
hjörþings, með kviðlingum.
Þá er élviðum Ála.
ættstórs, að brag Snorra,
eldr fór afla gjöldum
ítrmennis, stoðlítið.
Sturla Sighvatsson sætti Þorstein Hjálmsson og Brand Jónsson og var það skilið í sætt þeirra að Þorsteinn skyldi fara með Sturlu ferðir þær er Sturla vildi. Skyldu þeir bræður Rögnvaldur og Ari og svo.
Þeir Þorsteinn koma norðan um veturinn tuttugu saman til Sauðafells. Stefndi Sturla þá að sér mönnum. Var þá orð á gert að farið mundi vera að Snorra og borið upp fyrir alþýðu í stofu. En menn urðu hljóðir við það. Rögnvaldur Illugason neitaði fyrst og Halldór frá Kvennabrekku. Þorsteinn latti og en Ingimundur Jónsson vildi ekki í nánd koma þegar er þeir Þorsteinn voru við og raufst þá þessi ætlan.
Sturla sagði svo að hann hefði dreymt um nóttina áður fundurinn var að maður kæmi að honum og mælti: Vittu að Snorri skal fyrr í kistuna en þú.
Og réð eg það svo að Snorri mundi fyrr undir lok líða en hann og því vildi hann eigi fara en ekki lést hann eiga mundu undir Dalamönnum öll ráð sín.
Nokkuru síðar reið Sturla brott úr Dölum og norður til Skagafjarðar. Hann kom á Víðimýri til Kolbeins unga og var þar um vorið. Á Víðimýri var kastali sá er Snorri Sturluson lét gera þá er Arnór Tumason hafði skipað honum ríki sitt er hann fór utan. Þeir Kolbeinn og Sturla höfðu það að skemmtan að renna skeið að kastalavegginum og vita hver lengst gæti runnið í vegginn. En er Sturla rann í vegginn gengu í sundur sinarnar aftan í fætinum og mátti hann nær ekki stíga á fótinn. Hann lá fyrst eftir en fór norður til föður síns þegar hann þóttist reiðfær.
Um vorið eftir fjölmenna allir höfðingjar til þings hver sem við komst og reið Sturla norðan með föður sínum og sendi eftir mönnum í Dali og Miðfjörð en ekki hafði hann lið lengra vestan.
Snorri hafði og margt manna úr Víðidal og Miðfirði og af Suðurnesjum og um allan Borgarfjörð. Hafði hann eigi færra en sjö hundrað manna. Þorvaldssynir höfðu farið um vorið suður til Snorra með tuttugasta mann, fóru fyrst á Svínanes og þaðan á skipum á Eyri til Þórðar. Var Snorri þar eftir en Þórður fór til Staðar og lét Böðvar ríða með honum suður á Hítarnes. Þeir fóru og sömu leið aftur og komu þá í Stagley og drápu þar öxn er Sturla átti. Þeir safna og mönnum til þings og höfðu tvö hundruð manna. Þórður og Böðvar veittu Snorra og höfðu þrjú hundruð.
Þeir Sighvatur og Sturla voru allfjölmennir norðan og þeim veittu allir Austfirðingar, þeir bræður Ormur og Þórarinn. Kolbeinn ungi var einn hver fjölmennastur annar en Snorri. Þar var með Kolbeini Hallbera kona hans og var þá auðsætt að henni að hana firrðist heilsa.
Þá er flokkur Snorra reið ofan um hraun frá Sleðaási riðu þeir Þórður og Böðvar fyrir með flokk sinn. En er þeir komu á völluna efri sneru þeir vestur með hrauninu. Var Sighvatur þá kominn og sat flokkur hans fyrir sunnan völluna á hrauninu. Hann hafði sent Hrafnssonu austur undir Eyjafjöll. Flokkur Kolbeins var niðri á hrauninu fyrir sunnan götu.
Sighvatur sendi til Þórðar bróður síns eftir Halldóri presti Oddssyni og Ámunda Bergssyni fóstbræðrum sínum. Og er þeir fundu hann sendi hann þá til Þórðar og bað að hann riði eigi til Hlaðbúðar og léti Sturlu tjalda hana, sagði hann ráð að sínum megin ár væru hvorir, bað og þess að hann vildi fyrr ofan ríða og kvað sig það eitt dvelja er þeir Sturla og Ormur koma austan af hrauni.
Þórður bað Sighvat ráða um búð sem hann vildi en Snorri mun vilja ráða reiðum þá er hann kemur til.
Böðvar gekk með nokkura menn fram á völlinn en af liði Sighvats gekk á mót Árni son Gísls Kormákssonar og Guðmundur Gíslsson.
Hinn Guðmundur spurði: Eru Vatnsfirðingar hér?
Eigi, sagði Böðvar.
Djarfir væru djöfuls hundarnir ef þeir væru hér, sagði Guðmundur.
Valgarður Styrmisson spurði hvort Hrafnssynir væru þar.
Hvað viltu þá? sagði Árni.
Eigi þykir mér þeir djöfuls menn ódjarfari ef þeir væru hér.
Ekki mun þín þykja við höfð, segir Guðmundur.
Sighvatur sendi menn til að þeir skyldu ekki skattyrðast.
Í því kom Snorri úr hrauninu og reið þegar ofan úr hrauninu. Fóru þeir Böðvar þá til hesta og urðu seinstir. Og er þeir voru á bak komnir riðu þeir Sturla og Ormur úr hrauninu. Reið Sturla á lötum hesti er Álftarleggur var kallaður, allra hesta mestur og fríðastur. Hann var í rauðri úlpu og hygg eg að fáir muni séð hafa rösklegra mann. Böðvar heilsaði honum. Hann tók því.
Solveig tók til orða: Hygg að nú hve langt frændum þínum ganga neðan kveðjurnar við þig.
Þeir Guðmundur voru þá þar komnir og spurði hann hví þá skyldi eigi berjast, sagði þá eigi veðurvana til. Sturla bað þá hvoratveggju fara til hesta sinna og á þing.
Var þar fyrir Gissur Þorvaldsson með mikið fjölmenni og vissi engi hvorum hann ætlaði að veita. Þorvaldur faðir hans var á þingi og var beggja vin.
Vatnsfirðingar voru komnir í Reykjaholt og var það ráð fyrir þeim gert að þeir skyldu ekki upp ríða.
Snorri tók ámusótt um þingið og mátti hann ekki ganga. En Sturla reið til kirkju og öll spjót stóðu við búðarveggi.
Þeir Sighvatur létu lýsa hernaðarsakir að Lögbergi á hendur Vatnsfirðingum en Snorri lét segja til sektar Hrafnssona að lögréttu. Það gerði Jón murtur. En synir Halls Kleppjárnssonar sóttu Vatnsfirðinga og voru þeir sóttir í fjórðungsdómi. Við bárust vandræði með mönnum og skildust óhappalaust.
Féránsdómar eftir Þorvaldssonu áttu að vera í Vatnsfirði en eftir Hrafnssonu á Grund og voru hvorigir sóttir.
Jón murtur hafði beðið föður sinn að hann skyldi leggja fé til kvonarmundar honum og vildi hann biðja Helgu Sæmundardóttur. Vildi hann hafa stað í Stafholti og þar með fé. En Snorri vildi að hann hefði Borgarland og þar með annað fé móður sinnar en dró undan sitt fé.
Jón tekur þá það ráð að hann bregður til utanferðar og heitur á vini sína til vöru. Þórður Sturluson hafði fengið honum hundrað hundraða fyrir arf Hróðnýjar Þórðardóttur og varði hann því sumu til utanferðar. Hann tók fari í Hvítá og Markús Þórðarson úr Bæ. Fór hann til skips eftir þingið. En er Snorri vissi það gaf hann upp staðinn og hét fénu en Jón vill þá eigi upp gefa ferðina og fór utan um sumarið. Þá fór og utan á Eyrum Gissur Þorvaldsson.
Hallbera dóttir Snorra var í búð föðurs síns. Og er Kolbeinn reið af þingi gaf hann engan gaum að henni og fór hún í Reykjaholt og var þar um hríð. Nokkuru síðar lét Snorri fylgja henni norður í Hvamm í Vatnsdal en þau Þorsteinn og Ingunn létu fylgja henni norður á Víðimýri og var hún þar skamma stund og kom ekki í hvílu Kolbeins. Fór hún þá norðan til Borgar og var þar með móður sinni.
Þetta sumar fór utan Magnús biskup að orðsendingu Þóris erkibiskups.
Sturla Sighvatsson var í Dölum um sumarið og batnaði í fætinum svo sem á leið. Hann hafði heldur mannfátt og lét kyrrt um sig.
Guðmundur biskup var heima að Hólum þar til er Skagfirðingar ráku hann á brott að ráði Kolbeins unga af staðnum. Fór hann þá norður um sveitir og heldur tómlega þar til er hann kom í Húsavík til Guðmundar Húsvíkings. Var þá fjölmennt með honum og heldur óspakt lið. Þá setti biskup til Hrafnssonu að eigi væri stolið af flokki hans. Þeir fóru þá með biskupi en áttu heima á Grenjaðarstöðum með Kolbeini.
Og um daginn er þeir fóru úr Húsavík sitja þeir bræður fyrir flokkinum og létu engan undan ríða fyrr en þeir hefðu rannsakað hvern mann, jafnvel biskupinn sjálfan. Fannst þá margt það er bændur áttu og var þá sent hverjum það er hann átti.
Biskup fer þaðan til Öxarfjarðar og heimtir þar tíundarhvali að mörgum mönnum og drógust þar saman föng mikil, hvalur og slátur. Er það fært á Skinnastaði og þar upp fest. Þar bjuggu þau mæðgin, Jón og Guðleif. Kom biskup þar að jólaföstu með lið sitt og var þar mjög til langaföstu. Voru þá upp gengin föngin og ætluðu bændur að þá mundi sest á þeirra kostnað og kurruðu þeir illa. Fór biskup þá af Skinnastöðum og vestur yfir Jökulsá. Hann gisti í Keldunesi. Þá var illur samgangur þeirra og sveitardráttur og hlaupaför. Þaðan fóru þeir undir Fjöll.
Og um kveldið, er biskup var genginn til svefns en þeir til baðs er það líkaði, þá var sleginn dans í stofu en Knútur prestur sat á þverpalli er ljós var ofarlega. Þá kom Jón Birnuson úr baði og var hann í baðkápu og línklæðum.
Jón gekk að Knúti og mælti: Það vildi eg að vér legðum niður óþokka og dylgjur þessar er vér förum með því að eigi er biskupi oflaunaður velgjörningur sinn þótt vér höfum eigi ófrið í föruneyti hans.
Ekki er eg, sagði Knútur, lymskari en þér þótt eg sé skapbráður.
Og í því hljóp sveinn Knúts úr koluskugga og hjó á öxl Jóni mikið sár en Jón slæmdi öxi á bak sér og varð sveinninn sár nokkuð. Þeir voru þá skildir og lá Jón í sárum.
En biskup fór undan Fjöllum með hið knárra lið um brekkur en hið óknárra lið var flutt á skipi fyrir nes. Biskup fer tómlega þar til er hann kemur í Hrísey. Þar kom Jón eftir honum. Var þá á liðin fasta. Úr Hrísey fór biskup til Ólafsfjarðar og með honum mestur hlutur liðs. En Knútur og nokkurir þeir er erindi áttu fóru til Svarfaðardals og ætlaði Knútur þaðan út til fjarðarins um heiði. Biskup var á gistingu áður á Þóroddsstöðum fyrir Benediktsmessu.
En um kveldið eftir mat var biskup inni en menn hans margir úti í túni. Sáu þeir nú er úti voru að Knútur ríður af heiði og þangað til bæjarins. Þeir gera ráð sitt þó að heldur sé óráð og ætla honum að ríða á millum kirkjugarðs og fannar þeirrar er þar hafði lagt sem leiðin lá í túnið. Standa nú sumir á kirkjugarðinum en sumir á skaflinum. Fer nú sem þeir ætluðu að Knútur ríður fram á millum þeirra og vænti sér engis ófriðar. Hann reið jafnan með vopn því að hann var ódæll og embættislaus. Nú lýstur Jón aftan undir stálhúfuna og steyptist hún fyrir andlitið. Hann höggur þegar aftan undir hnakkann og fellur hann þegar af hestinum örendur því að heilinn var á öxinni eftir.
Nú er hlaupið inn og sagt biskupi að unnið var á Knúti nýkomnum. Biskup sat í kamri og sendi út Ketil prest. Hann hleypur út og biður hundana frá fara því að þeir vildu höggva af honum dauðum fingurinn til gulls er hann hafði á hendinni og náðu þá eigi. Er þá þvegið líkinu og jarðað um morguninn eftir. En um kveldið er vígið var orðið segir bóndi biskupi að bað er búið ef hann vill í fara.
Biskup svarar: Menn mínir hafa mér fengið bað að sinni og launað mér veturvist.
Þaðan úr firðinum fóru þeir til Fljóta um heiði með flokk mikinn og svo inn eftir strönd og koma að skírdegi í Viðvík. Var þar fyrir Kolbeinn ungi með mikla sveit manna. Hann rekur lið allt frá biskupi nema tvo klerka, Þorkel son Ketils Ingjaldssonar og Helga bróðurson hans. Kolbeinn lét biskup fara heim til Hóla. Og er hann þá tekinn í varðhald með því móti að hann var inni í stofu og klerkarnir í hjá honum. Þar svaf hann og þar mataðist hann og þar söng hann allar tíðir utan messu með lágasöngum. Öngu réð hann nema þeim félögum og enga mátti hann ölmusu gera af líkamlegri eign heldur var hann haldinn sem arfsalsmaður. Leið svo til þess er Magnús biskup kom út að Gásum með bréfum Sigurðar erkibiskups þeim er Guðmundi biskupi buðu af embætti sínu.
Sá atburður varð það sama sumar nær miðju sumri að Hólum að biskup sat sunnan undir kirkju einn góðan veðurdag. En þar til staðarins var kominn Kolbeinn ungi og Kleppjárn son Halls Kleppjárnssonar. Þar var og kominn Jón Birnuson að finna biskup og stóð hann fyrir framan kirkju en Kolbeinn var í klukknahúsi og lék sér að klukkum en menn hans voru fyrir norðan kirkju og svo Kleppjárn. Þeir sáu hann Jón og hlaupa þegar að honum með vopnum. Hann ver sig og hopar undan norður um kirkjuna og svo austur um og síðan suður um sönghúsið og féll þar í hjá stoðinni og vildi upp standa. Þá hjó Kleppjárn meðal herða honum og gekk frá síðan en hann Jón gekk fá fet frá kirkjunni og féll þá niður og lifði skamma stund. Það er sögn manna að hann bæri af sér áverka við Hafur. Stoðin varð mjög blóðug. Síðan ganga þeir á brott en þeir biskup syngja yfir líkinu.
Nú fara orð millum þeirra Kolbeins og biskups til sættar. Lýkur svo að þeir Kolbeinn og Kleppjárn leggja þetta mál allt undir biskup en hann leysir þá úr banni og bað þá það gjalda hverjum sem átti að réttu, það frændum er þeir eiga, það biskupi og kirkju er þau eiga. Skilja þeir við svo búið og fara þeir heim.
Að áliðnu sumri fer biskup norður um heiði að erindum sínum og yfir fjörð og ætlar norður í sveitir. Hann kemur undir Laufás. Hann fréttir þá að Reykdælir ætla við honum að rísa. Biskup snýr þá aftur yfir fjörð og inn eftir strönd og ætlar inn til Eyjafjarðar. Hann kemur í Árskóg og fréttir að Eyfirðingar vilja eigi við honum taka. Þetta fréttir Brandur bóndi í Höfða. Hann fer og býður biskupi til sín til veturvistar og þiggur biskup blíðlega og er þar tvo vetur.
Vestur í Gufudal bjó í þenna tíma Jón prestur krókur son Þorleifs skeifu og Þuríðar Sturludóttur. Hann átti Halldóru dóttur Þorgils Gunnsteinssonar.
Á Brekku í Gufufirði bjó sá maður er Oddvakur hét og Helga Þormóðardóttir. Þau áttu tvo sonu. Hét annar Þorgísl en annar Ari. Hann var vasklegur maður. Hann Ari gat barn við Halldóru konu Jóns prests og var sæst á málið en þeim feðgum óx í augu fégjaldið.
Guðmundur son Árna Auðunarsonar var á Brekku með Ara. Hann sendi Ari norður á Broddanes. Þar bjó Sigurður Ólafsson en Jón hafði látið drepa Ólaf föður hans og fór Sigurður vestur með Guðmundi. En er þeir koma á Brekku var sent eftir Jóni presti að hann skyldi taka með gjöldum. Hann fór og var í skinnfeldi. En þegar er hann kom lagði Ari til hans með sverði og í gegnum hann. Sigurður hjó á lendarnar mikið sár. Guðmundur hjó í krúnuna og var það banasár og.
Riðu þeir þá suður í Dali og á Hornstaði. Þar bjó þá Árni Auðunarson. Reið Árni þá yfir til Sauðafells og hét á Sturlu að hann tæki við þeim en Sturla tók allþunglega þeirra máli, kvað djarflegt skjóls að leita, bað Árna vel yfir láta ef hann dræpi þá eigi eða þyldi að hann drægist þá á hendur.
Fóru þeir þá til Helgafells og tóku skriftir af Hallkeli ábóta og fóru síðan á Hornstaði og vöfðust þar en Sigurður var í Ljárskógum með Ólafi Brynjólfssyni framan til allraheilagramessu.
Sturla Sighvatsson stefndi að sér mönnum nær allraheilagramessu og fór vestur til Saurbæjar. Hann hafði nær sjö tigum manna. Koma þá þeir Ari félagar í ferðina og reið Ari jafnan fyrir. Ekki gaf Sturla þá gaum að þeim. Sturla reið nótt og dag þar til er hann kom í Gufudal. Þangað reið hann til matar.
Vigfús Ívarsson gaf sér erindi út á Skálanes. Þar var kominn Guðlaugur son Þorgríms skarta og annar maður.
Vigfús laut að Guðlaugi og mælti: Það væri nú drengilegt vinum þeirra bræðra að gera þeim njósn að Sturla er í Gufudal og ætlaði að þeim.
Síðan fara þeir Guðlaugur á Klaufastaði og fá þar skip til Bæjar en þar bjó Einar bróðir Þórðar sammæðri. Tók hann sig upp og hljóp vestur yfir heiði um nóttina til Voga og þaðan fór bóndason út til Vatnsfjarðar og kom þar fyrir dag.
Var Þórður þá í baðstofu og nokkurir menn. Snorri var farinn norður til Aðalvíkur að erindum sínum. Þeir Þórður og menn hans hljópu á skip þá er hann hafði sagt um ferðir Sturlu. En þá hljóp á stormur svo mikill að þeir fengu ekki betur en andæft.
Sturla kom til Vatnsfjarðar þá er þeir Þórður voru á brottu og gekk Narfi hinn þjarfi út því að ekki var karla heima. Tóku menn af hestum og gengu inn. En er lýsa tók sáu þeir skipin og lögðu þeir að og gengu þeir upp. Sendi Sturla þá menn til þeirra að leita um sættir. Var þá komið á griðum og fundust þeir og fóru þeirra skipti svo að Þórður seldi Sturlu sjálfdæmi um öll þeirra mál.
Þá kvað Guðmundur Oddsson vísu:
73.
Höfðinginn fór hingað
harðgeðr til Vatnsfjarðar,
hugði hann vætr á vægðir,
vestr rausnarför mesta.
Mjök hefir málalyktir
menrýranda hins dýra,
vegr Sturlu þvarr varla,
vandað heilagr andi.
Eftir þetta fór Sturla heim og skildist Ari Oddvakursson við hann í Ísafirði en þeir Sigurður og Guðmundur fóru suður. Tók hann grið af Svertingi til handa þeim fram um páskaviku og fóru þeir utan um sumarið eftir. Sturla var í kyrrðum um veturinn og tók þá heldur að þverra hinn mesti fjandskapur með þeim Snorra.
Um vorið bjóst Sturla að fara í fjörðu vestur. Skyldi hann þá lúka upp gerðum eftir því sem mælt var með þeim Vatnsfirðingum. Þeir höfðu lagt fund á Skálanesi. Reið Sturla til Saurbæjar og tók þar skip. Fór Sturla vestur til Skálaness með tuttugu og fimm manna. Þar koma þeir bræður með hálfan fjórða tug manna.
Svertingur Þorleifsson var þar fyrir með tíu menn. Hann kom saman fundi þeirra því að Sturla þótti þeir gnógu fjölmennir. Gekk Sturla í sker eitt og Torfi prestur. Þeir bræður gengu og þangað og töluðu skamma stund og færðu fundinn í Önundarfjörð í Holt, skyldu þar koma með þrjá tigu manna hvorir.
Fóru Vatnsfirðingar vestur yfir heiði en Sturla fór þar til er hann kom til Sanda í Dýrafirði. Þar bjó þá Oddur Álason. Böðvar af Stað kom til móts við Sturlu og bauð að fara með honum til fundarins. Þar kom og Gísli af Sandi. Á Mýrum var Gísli eftir og allir Dýrfirðingar. Steinþór prestur úr Holti fann Sturlu að Arnkelsbrekku og bauð honum til sín. Reið Sturla í Holt.
Þorvaldssynir voru í Valþjófsdal og var þeim sagt að Sturla væri í Holti eigi allfámennur, með hundrað manna. Treystu þeir þá eigi að sækja fundinn. Fór Snorri norður til Bolungarvíkur en Þórður og Guðmundur Sigurðarson og hinn þriðji maður og fóru þeir inn til Holts og riðu þeir Þórður í melana skammt frá garði. En Guðmundur reið heim í Holt og segir Sturlu hver efni í voru. Og er Sturla vissi þetta gengur hann út í melana og Torfi prestur og Vigfús Ívarsson. Tala þeir þar um hríð. Síðan fer Þórður út aftur í Valþjófsdal og hét að koma utan um morguninn með fimmtánda mann. Sturla var í Holti um nóttina og lét vaka átján menn, níu í hvorn hlut.
Þá kvað Ólafur þetta:
74.
Höldum vér of hildar
hyrrjóðanda fróðum,
nýtir hann að hreyta,
höfuðvörð, móins jörðu,
meðan hreggstærir hýrri
hjálma þings í bingi
skóðs hjá sinni leiku
svo kátr unir gáti.
Þórður kom um morguninn og lauk Sturla upp gerðum um víg og áverka á mönnum og flestum öðrum en fjörráðum við sig. Galt Þórður þá níu tigi hundraða. Hann greiddi Skipstúfinn og Ingunnarstaði í Króksfirði, átján hundrað í reka á Reykjanesi og í Skjalda-Bjarnarvík og í gulli og silfri nokkuð. Mæltu menn að féið væri skörulega af hendi greitt og það mundi mikið kosta.
Víst er fégjald mikið, sagði Þórður, en vel ann eg þeim er við tekur. Uni eg betur við þenna hlut en að taka þetta fé fyrir þvílíkar tilgerðir ef eg þættist vera þvílíkur maður sem Sturla.
Fátt fannst Sturlu um þessi orð en þó skildu þeir skipulega. Fór Sturla þá til Dýrafjarðar og þaðan til Arnarfjarðar til Álftamýrar. Sturla falaði Álftamýri að Bjarna Sverrissyni til handa Oddi Álasyni en hann vildi eigi selja. Menn Sturlu föluðu úlpu góða að Bjarna. Vildi hann hana og eigi selja. En þá hvarf úlpan og kenndi Bjarni mönnum Sturlu. Þeir heitast á mót. Sturla gekk þá að er úlpan fannst eigi og hrakti þá. Þá kom það upp að Bjarni hafði látið fela úlpuna. Varð Sturla þá svo reiður að hann vildi láta drepa Bjarna. Áttu menn þá hlut að og kom svo að Sturla tók landið að því verði sem hann kvað á. Síðan fór Sturla heim suður og varð bæði gott til fjár og virðingar.
Þetta sumar var kyrrt og friður góður á Íslandi, lítil þingreið. Snorri reið eigi til þings en lét Styrmi prest hinn fróða ríða til þings með lögsögn.
Nú tók að batna með þeim Snorra og Sturlu og var Sturla löngum þá í Reykjaholti og lagði mikinn hug á að láta rita sögubækur eftir bókum þeim er Snorri setti saman. Þetta haust fór Guðmundur biskup vestur til Hrútafjarðar og þaðan norður í Steingrímsfjörð og aftur til Saurbæjar og í Hvamm til Þórðar. Var hann þá fjölmennur. Komu þá orð frá Sturlu að hann vildi eigi að hann færi lengra. Reið Þórður þá að finna Sturlu til Þorbergsstaða og sömdu þeir að biskup skyldi fara norður Laxárdal en Sturla skyldi láta leggja til sauði úr Dölum á Dönustaði og í Hjarðarholt þar sem biskup skyldi gista. Fór biskup síðan norður heim til Hóla.
Þetta haust fóru Vatnsfirðingar um alla fjörðu að fá til búsins. Höfðu þeir bæði af Sturlu mönnum og sínum slíkt sem þeir vildu. Voru þeir sumir vinir Sturlu er til hans fluttu það að þeir mundu aldrei frjálst höfuð strjúka er vinir hans væru meðan Þórður væri höfðingi yfir Ísafirði. Sturla lét sem hann heyrði eigi slíkt talað.
Jón murtur hafði farið utan um sumarið sem fyrr var ritað. Hann kom á fund Skúla hertoga og tók hann allvel við honum og gerðist hann hirðmaður og skutilsveinn. Var hann með jarlinum um veturinn. Hann þroskaðist vel.
Um vorið fór hann til Björgvinjar og fann þar Hákon konung og ætlaði út um sumarið en konungur gaf honum eigi orlof. Jón var þá mjög févani og gerði út Odd svein sinn eftir fé en Árni biskup bauð Jóni til sín og fór hann á biskupsgarð og hafði herbergi fyrir norðan Kristskirkju þar sem nú er prestagarður. Þar svaf í herbergi í hjá honum Gissur Þorvaldsson mágur hans og þjónustumenn þeirra, Símon knútur og Valgarður Guðmundarson. Þar var og kominn til Jóns Ólafur svartaskáld son Leggs prests. Hann var félaus og var kominn á kost hans. Þeir Jón og Gissur mágar voru með konungi um jól sem aðrir skutilsveinar. En síðan gengu þeir í hjúkólf á konungsgarði.
Það var eitt kveld nær geisladegi er þeir mágar komu úr hjúkólfinum og voru mjög drukknir og var myrkt í loftinu og ekki upp gervar hvílur. En er upp kom ljósið var Jón illa stilltur og ámælti þjónustumönnum. Hann Ólafur skaut orði fyrir þá en Jón tók skíðu og sló til Ólafs en Gissur tekur Jón og heldur honum. Þá fékk Ólafur handöxi og hjó í höfuð Jóni. Varð það ekki mikið sár ásýndum. Hann Jón brást við hart og spurði hví Gissur héldi honum undir högg. Ólafur hljóp úr loftinu og féll aftur hlemmur. Gissur féll á hlemminn fyrst en er hann vissi að Jón var sár þá hljópu þeir báðir úr loftinu eftir honum. En Ólafur var þá undan borinn en niðmyrkur á. Sneru þeir þá aftur í loftið og bundu um sárið. Lét Jón lítt yfir og var á fótum. Leituðu þeir eftir Ólafi of morguninn og fengu hann eigi upp spurðan.
Jón geymdi sín lítt, fór í bað og drakk inni fyrst. Sló þá í verkjum og lagði hann niður. Hann andaðist Agnesarmessu og var jarðaður að Kristskirkju þar sem nú sönghúsveggurinn er. Gissur hafði út gripi þá er hann hafði átt um sumarið eftir.
Um vorið eftir víg Jóns var það tíðinda á Íslandi að Sighvatur Sturluson lét af höndum Hrafnssonu og tók þeim fari að Gásum. Voru þeir þar við skip um sumarið. En þá fóru vingjarnleg orð meðal þeirra bræðra. Reið Sighvatur til þings um sumarið og fann þar Snorra bróður sinn og talast þeir þá enn vel við. Sturla var þá til þings kominn og var þá allkært með þeim Snorra.
Um þingið kom í Reykjaholt maður sá er Brandur hét. Hann var landshornamaður og var þá kominn að austan úr fjörðum. Dagstyggur tók forkunnar vel við honum og var við hann hinn kátasti. Var með þeim kaupamang um klæði og um hesta. Um morguninn bað Brandur Dagstygg fara á leið með sér. Þeir Brandur fóru upp um Úlfsstaði. Brandur vélti hann af klæðum og hjó hann banahögg þá er Dagstyggur dró klæði fyrir andlit sér. Fór Brandur þá suður á heiði og fann Orm Svínfelling áður hann reið á þing. Ormur hafði sendan Brand til höfuðs Dagstyggi. Kolur hafði keypt að Ormi að hann skyldi Dagstygg af ráða.
Ormur reið á þing síð um kveldið og hafði nær hundrað manna en Þórarinn bróðir hans var fyrir með sex tigu manna.
Ormur lét segja Sighvati vígið Dagstyggs en Sighvatur lét segja Sturlu. Gekk Sturla þá til búðar Snorra og var hann kominn í hvílu. Klappaði Sturla að durum. Kallaði Sturla Snorra í ölbúð og sagði honum þar vígið og bauð honum sína liðveislu slíka sem hann vildi. Snorri kallaði þá til brynju sinnar. Hljópu menn þá til vopna um alla Valhöll og Þorleifur og hans menn. Þá kom Sighvatur í búðina og bað Snorra vera vel stilltan og auka eigi vandræði. Snorri kvað þá vel að reyndi hver þeirra þingríkastur væri og segir Orm lengi hafa öfundað sig og sína sæmd.
Sighvatur kveðst vera svo mikill vin Orms að hann kvaðst eigi vilja láta hrekja hlut hans hér á þingi ef hann býður boð þau er mér þyki sæmileg.
Gekk Sighvatur þá til Orms. Þeir bræður Ormur og Þórarinn bjuggust við í búðarvirki hans. Sighvatur spurði hvað þeir bærust fyrir. Þeir segja að þeir ætluðu að verjast þaðan.
Sighvatur kvað það óráð: Hefir Snorri meir en þrjú hundruð manna en við Sturla höfum enn nokkurn afla og munum við ekki við Snorra skiljast að sinni. Vil eg Ormur að þú bjóðir Snorra sjálfdæmi. Vil eg með því ganga að heimta fram þinn hlut síðan.
Gengu þeir bræður þá á tal. Bað Þórarinn Orm sjá fyrir hlut þeirra þannig sem hann vildi.
Þá mælti Ormur: Eg ætla það vel fallið að Snorri meti sjálfur svívirðing sína. Geri þá mikla ef hann vill en þá nokkuru minni ef hann vill svo. Mun tíund mín ekki þverra við þetta.
Eftir þetta gengu þeir Ormur til fundar við Snorra. Hafði hann fylkt á hrauninu milli Allsherjarbúðar og Valhallar. Stóð Snorri í miðju liði sínu. Lét hann þá gera kví þar sem þeir Ormur skyldu ganga til festunnar. Ormur gekk í kvína og þeir bræður. Handsalaði Ormur þá sjálfdæmi, kvaðst hann það gera fyrir svívirðing þá er Snorra þótti ger til sín en Dagstygg kvaðst hann eigi bæta vilja, sekjan mann. Snorri gerði fjóra tigu hundraða og hafði Kolur heitið að gjalda það. Guðmundur biskup kom norðan og hafði verið með Snorra
um þingið með mikla sveit manna. Snorri reið af þingi og þeir Sturla báðir saman. Þar var og Kolbeinn Sighvatsson og Órækja Snorrason, skyldu þá vera báðir með Sturlu, riðu með honum til Sauðafells. Guðmundur biskup reið og vestur af þingi. Með honum var prestur sá er Dálkur hét og var kallaður læknir góður og aðgerðamaður að meinum manna.
En er Guðmundur biskup gisti að Borg þá var talað til hvort Dálkur mundi nokkuð kunna að gera að meini Hallberu. Hún var þá mjög krönk. Dálkur kveðst kunna að gera henni laug þá er henni mundi batna við ef hún stæðist. En hún var fús til heilsunnar og vildi hún hætta á laugina. Eftir það réð prestur til að gera laugina en hún fór í. Síðan voru borin að henni klæði og sló þá verkjum fyrir brjóstið og andaðist hún litlu síðar.
En er það spurði Kolbeinn ungi reið hann suður um land og bað Helgu Sæmundardóttur og var hún gift honum.
Litlu áður hafði Hálfdan Sæmundarson fengið Steinvarar Sighvatsdóttur og bjuggu þau að Keldum og vildu allir Áverjar hann helst til höfðingja. En Hálfdan var óhlutdeilinn og hélt sér lítt fram um flesta hluti. Björn Sæmundarson bjó þá í Gunnarsholti. Hann hélt sér mest til mannvirðingar þeirra bræðra. Þeir Haraldur og Vilhjálmur bjuggu í Odda. Andrés bjó að Eyvindarmúla áður hann keypti Skarð hið ytra að Katli Þorlákssyni. Filippus bjó að Hvoli. Og voru þeir allir góðir bændur en mikið var heimt að þeim fyrir sakir föður þeirra.
Hrafnssynir voru við skip um sumarið sem fyrr var ritað. Þeir létu út og urðu afturreka undir Grímsey. Þar var er þeir komu að skerjótt og skutu þeir báti. Hljópu þeir í bátinn Hrafnssynir, Grímur og Einar, og förunautar þeirra allir nema Guðmundur og nokkurir Austmenn. Þeir týndust allir en skipið hélst og var upp skipað um haustið.
Þetta sumar komu þeir út á Eyrum Gissur Þorvaldsson og félagar hans þeir sem verið höfðu í Noregi um veturinn. Sögðu þeir út víg Jóns með þeim atburðum sem orðið höfðu. Reið Valgarður Guðmundarson í Reykjaholt og sagði Snorra tíðindin og þótti Gissuri hann ekki bera sér mjög söguna.
En er Þorvaldur Gissurarson varð var við orðróm þann sem á lék um vígið Jóns lagði hann fund með þeim Gissuri og Snorra og á þeim fundi sór Gissur fimmtardómseið að hann hefði í öngum ráðum verið með Ólafi um víg Jóns og vildi þá réttum skilnaði skilja í alla staði. Lét Snorri sér það allt vel skiljast er Gissur sagði.
Fóru þau Ingibjörg þá bæði til einnar vistar og var þeirra hjúskapur jafnan óhægur og segja það flestir að hún ylli því meir en hann en þó unni hún honum mikið. Þeim varð barns auðið og var það sveinn og hét Jón og lifði litla hríð. Eftir það dró til hins sama um þeirra ósamþykki og áttu þeir þó allan hlut í að semja með þeim, Þorvaldur og Snorri, og gáfu þeir þeim þá til samþykkis sín tuttugu hundrað hvor þeirra og var þó sem ekki gerði. Og kom því svo að skilnaður þeirra var ger að því er kallað var.
Guðmundur biskup fór út um sveit um sumarið. Þetta var kallað sandsumar. Þá var uppi eldur í sjónum fyrir Reykjanesi og var grasleysi mikið.
En er Guðmundur biskup kom í sveit Þórðar Sturlusonar fékk hann til Sturlu son sinn að fara með biskupi og skipa fólki hans á gistingar því að Guðmundur biskup hafði þá með sér mikið fjölmenni. Hann var fluttur af Eyri til Bjarnarhafnar á því skipi er Langhúfur hét og á annarri ferju mikilli var flutt lið hans. En þaðan fór hann til Helgafells en þá á Eyrar til Páls prests Hallssonar. En er hann var þar kominn kom þar Sturla Sighvatsson og Kolbeinn bróðir hans og Órækja Snorrason og ruddu frá honum flestu fólki en biskup lét hann fara inn til Dala og svo norður Haukadalsskarð og svo í sýslu sína.
Um haustið fór yfir land allt sótt sú er hettusótt var kölluð. Af henni andaðist Ingimundur Jónsson og margt annarra manna. Hann var þá í ferð með Sturlu og átti bú að Skáney í Reykjardal hinum nyrðra.
Þeir Kolbeinn Sighvatsson og Órækja Snorrason fóru báðir brott frá Sauðafelli um haustið. Fór Kolbeinn norður til föður síns og var þar um veturinn en um vorið tóku þeir feðgar heimildum á Grenjaðarstöðum af Jóni Eyjólfssyni í Möðrufelli og gerði Kolbeinn þar bú sæmilegt. Réðust þá Hrafnssynir til hans og voru með honum nokkura vetur síðan.
Órækja Snorrason fór í Reykjaholt og var þar um veturinn. Þar var þá sveitardráttur mikill. Þá var Klængur Bjarnarson á sextánda vetur og hafði hann sveit aðra. Voru þeir með honum Guðmundur Ásbjarnarson, Kári son Ketils ábóta, Sturla Sveinsson, Tanni Finnbogason og enn fleiri. En með Órækju var Valgarður Styrmisson og Játvarður Guðlaugsson, Tafl-Bergur og enn fleiri.
Þetta haust fóru Vatnsfirðingar víða um fjörðu að afla til búsins og þóttust vinir Sturlu þar mjög kulda af kenna. Þá kom vestan Þórður son Guðmundar Sigríðarsonar og sagði Sturlu mikið af framferði þeirra og segja það sumir að hann færði ekki í þurrð. En Sturlu fannst fátt um.
Um veturinn eftir jól sendi Snorri orð Þórði bróður sínum og Böðvari að Stað syni hans að þeir skyldu koma suður í Reykjaholt að heimboði því að hann vildi þá treysta vini sína. Var það fyrir því að þá horfði til deilu með þeim Kolbeini Arnórssyni um arf Hallberu og goðorð fyrir norðan land. En er þeir komu suður þá var þar fyrir Sturla Sighvatsson og var þar allfögur veisla.
En áður þeir færu í brott talaði Snorri við Sturlu og bað hann selja Vatnsfirðingum grið því að hann lést vilja að þeir kæmu þar fyrir föstu. Sturla kvað Snorra vita að þeir voru sáttir og kvað þá ekki griða þurfa.
Snorri kvaðst vita að orðasveimur margur fór í milli og kvaðst eigi vita hvort honum þætti allt vel haldið: Vil eg ekki til þess hætta að þeir fari griðalausir suður hingað.
Sé eg nú, segir Sturla, að þér þykja þeir eigi allt haldið hafa. Mun eg þig nú láta sjá fyrir um grið og láta hönd mína fram sem þú vilt. Síðan tók Snorri í hönd Sturlu og mælti fyrir griðum.
Þórður mælti til Snorra bróður síns: Ekki þótti mér Sturla frændi okkar vera með þeim svip sem eg vildi meðan þú settir griðin.
Ekki mun það, segir Snorri, allvel mun Sturla grið halda.
Eftir þetta sendi Snorri menn til Vatnsfjarðar og bauð þeim bræðrum suður fyrir föstu og var það erindi að hann vildi treysta þá til liðs við sig um sumarið eftir. Það var og mælt að þeir mundu fá systra Hallveigar er þá voru með Snorra, Þuríðar og Valgerðar.
Þann tíma er Snorra var þeirra vestan von sendi hann Órækju son sinn í mót þeim vestur. Kom hann í Sælingsdalstungu og beið hann þeirra þar nokkurar nætur en þeir komu eigi. Síðan reið hann heim suður.
Þorvaldssynir fóru vestan á langaföstu og átu dagverð á Staðarhóli sunnudag hinn næsta eftir sæludagaviku og riðu um kveldið í Hjarðarholt. Þar bjó þá Torfi prestur Guðmundarson. Hann sendi þegar um nóttina Magnús Kollsson til Sauðafells að segja Sturlu um ferðir þeirra bræðra sem hann hafði mælt.
Torfi prestur bað þess að þeir bræður skyldu ríða til Sauðafells og hitta Sturlu og sagði að greinir voru í orðnar milli þeirra síðan þeir sættust: Farið þér nú og til þeirra manna er ekki hafa verið vinir Sturlu þótt nú sé álitlega. Er það og mælt að hann hafi verið rót undir því er til sættarbrigða hefir verið með yður. Kann vera að honum þyki þér eigi trúlegir ef þér finnist allir saman. Vil eg bjóðast til að fara í milli yðar og finna Sturlu og vænti eg að þá mun semjast yður vinátta. Mun eg og taka grið af Sturlu til handa yður af nýju. Bið eg ykkur fyrir guðs sakir að þér takið þenna af og munu vel fara yður skipti ef þér sækið hann með vináttu heim. Mæli eg því þetta af trausti við ykkur að við Sturla höfum þetta talað áður ef þið færuð vestan. En ef þið viljið þetta eigi þá snúið vestur aftur eða norður um heiði og suður Holtavörðuheiði en hættið eigi til að ríða um Dali ef þið viljið enga vináttu sýna Sturlu. Megið þið til þess ætla að honum mun skapraun í reiðum yðrum meðan svo búið standa mál yður.
Þórður svarar: Þeim griðum munum við hlíta er Snorri tók til handa okkur. Munum við og eigi aftur hverfa. En það mun oss ámælissamt verða að ríða eigi leið vora. Munum við og ekki finna Sturlu ef hann fer ekki til móts við oss.
Þá mælti Torfi prestur: Veit Sturla allt um ferðir yðrar.
Ekki munum vér leynast um Dali, segir Snorri, því að við köllumst sáttir við Sturlu.
Þá er Sturla hafði spurt tíðinda af Magnúsi um ferðir Þorvaldssona sendi hann Magnús upp í Haukadal og stefndi þaðan mönnum þeim er honum líkaði. Sendi hann og menn til Hörðadals og svo víðara um Dali og stefndi að sér um morguninn snemma.
Vatnsfirðingar riðu snemma úr Hjarðarholti og kvað Snorri margt hafa fyrir borið um nóttina. Þórður kvað ekki marka skyldu drauma og bað þá ríða. Vigfús Ívarsson var í för með þeim. Hann var heimamaður Sturlu. Þeir riðu þar til er þeir komu yfir Miðá fyrir neðan virki.
Reið þá Vigfús frá og heim. Sturla stóð í durum úti og nokkurir menn hjá honum. Hann heilsaði Vigfúsi og gekk til stofu fyrir og spurði hann tíðinda en hann sagði slík sem voru og festi upp vopn sín. Síðan var Vigfús læstur í stofu og konur hjá honum og Þjóstar austmaður en þeir tóku vopn hans. Og er hann vissi hvað um var þá þoldi hann illa og var illur viðskiptis. Sturlu varð óvært er þeir riðu fyrir neðan bæinn en þá voru menn engir komnir.
Ísfirðingar töluðu um er þeir riðu fyrir neðan bæinn að þar væri allt kyrrlegt og fámennt væri heima. Þeir riðu þá yfir ána til hornagarðs er stóð undir leitinu ofan frá Hundadal og áðu þar.
Halldór frá Kvennabrekku kom fyrst og bað hann Sturlu hafa þol við og bíða manna sinna en eiga eigi allt undir óvinum sínum. Í því komu þeir Hallur Arason níu saman með Magnúsi. Fóru þeir Sturla þá og voru sextán og höfðu átta hesta og riðu öllum tvímenning.
En er þeir komu til Erpstaða þá mælti Sturla til þeirra Halldórs: Viljið þér heyra draum minn og gera af nokkuð?
Já, sagði Halldór.
Það dreymdi mig, segir Sturla, að eg þóttist hafa mörsbjúga hlut í hendi og var af sniðið sneisarhaldið. Eg þóttist slíta það í sundur milli handa mér og gefa yður öllum að eta af með mér. En vita þóttist eg að sjá tíð var sem nú er.
Auðsær er draumur þinn, sagði Halldór, þar muntu rétta hlut þinn. Kann og vera að þú gefir oss nokkurn bergibita af áður þessum fundi lúki.
Vera má að svo sé, segir Sturla og hló að.
Þeir tala um við stakkgarðinn hvort mannaför væri upp með fjallinu.
Þórólfur bóndi úr Hundadal var þar við garðinn og svarar: Eigi veit eg mannferða vonir nema Sauðfellingar fari upp í dalinn til laugar.
Þeim bræðrum varð margtalað um mannaferðina. Sáu þeir þá að mennirnir sneru ofan á Kvígandseyri ofanverða og svo yfir ána á Hundadalseyrar. Þóttust þeir þá vita að ófriður var. Leita þeir bræður þá ráðs við sína menn hvað tiltækilegast væri. Lögðu menn það til að þeir skyldu undan ríða en Þórður lagði það til að Snorri riði undan hinum besta hesti, kallaði sér það vænst til griða ef hann bæri undan. En er þeir töluðu þetta bar þá Sturlu að til hlíðarinnar fyrir ofan garðinn. Fór þá sem jafnan að þeim verður seint um tiltekjur er úr vöndu eiga að ráða en hina bar skjótt að er öruggir voru í sinni ætlan en skunduðu þó ferðinni.
Þá er Sturla kom á holtið fyrir ofan garðinn sendi Þórður Þorvaldsson mann til Þorkels prests og bað hann koma til tals við sig. Og er hann kom spyr Þórður með hverju efni Sturla hefði för þessa gert.
Hann svarar: Eigi veit eg það gjörla en ófriður þykir mér sem vera muni.
Hvað finnur hann til saka? segir Þórður.
Sættarof mörg, segir prestur.
Nú vil eg, segir Þórður, að þú prestur farir til Sturlu og flytjir erindi vort að hann trúi eigi að það séu sakir er Þórður Guðmundarson lýgur á oss.
Fer prestur þá að finna Sturlu og segir orð þeirra bræðra og Þórður afsakar sig um öll afbrigði við þingmenn Sturlu.
Nú ganga menn á milli um stund og leita um sættir. Beið Sturla svo þeirra manna er eigi voru komnir enda vildi hann heyra hvað boðið væri. Og er hann sér Hörðdæla fara þá sendi Sturla Þorkel prest til fundar við þá bræður og bað þá skriftast og búast við ef þeir vildu verjast, segir að þá mun ekki griða kostur. Og er þeir heyra þetta þá skriftast þeir.
En Snorri Magnússon og Hallbjörn Kalason heimamaður Snorra Sturlusonar gengu út af garðinum því að Þórður Grímsson kallaði hann til sín því að þeir voru félagar. Þórður lét sem hann mundi leita um sættir og trúði Snorri því. En þeim gafst öðruvís því að Þórður tók hann og lét halda honum en Sturla lét halda Hallbirni.
Þá voru þeir átta eftir í garðinum: Þeir bræður Snorri og Þórður. Snorri var átján vetra. Hann var vænn maður og ljós á hár og rétthár og vel vaxinn og kurteis í ferð, hár meðalmaður að jöfnum aldri og fræknlegur, heitfastur og fagurorður og kallaði mjög sinn þá er hann talaði við, óhlutdeilinn en ef hann lagði nokkuð til varð hann að ráða við hvern sem hann átti ella fylgdi ber óhæfa. Þórður var hár maður og herðibreiður, góður viðmælis og blíður í skapi, nefljótur og þó vel fallinn í andliti, eygður mjög og fasteygur, ljósjarpur á hár og liðaðist í lokka. Hann þótti líklegur til höfðingja. Svo sagði Sturla að engi þyrfti sér ríki að ætla til mannvirðingar í Vestfjörðum sá er í Dölum sæti ef Þórður væri í Ísafirði.
Þriðji maður var Þórður Heinreksson. Hann var maður skrúfhærður og freknóttur mjög, eygður vel, frammynntur og neflangur, nærsýnn og riðvaxinn og þó vasklegur maður. Hinn fjórði maður var Snorri son Lofts Markússonar. Hann var lítill maður og svartur, eygður mjög og kurteis maður og um allt ger að sér. Hinn fimmti var Þorsteinn Gellisson Höskuldssonar, lágur maður og svartur, opineygur og mjög eygður og knálegur og liðaðist hárið.
Þar voru tveir synir Hjálms. Atli Hjálmsson var lágur maður og bringubreiður og vel vaxinn, samagóður og þó nefljótur nokkuð. Þormóður Hjálmsson var hinn sjöundi. Hann var mikill maður og knálegur, ferstrendur í vexti, ljósjarpur á hár. Hinn átti var Þorkell Magnússon. Hann var lágur og digur og framlegur maður.
Þá er þeir bræður vissu að eigi var friðar von og þeir voru allir skriftaðir skipuðust þeir til varnar því að þeir vildu með öngu móti upp gefast, sögðu að þá væri lítið til frásagnar.
Þórður Þorvaldsson og Þórður Heinreksson vörðu þann hlut garðs er fallið hafði og næst þeim Sturlu var. Var þaðan hægst að að sækja en óhægast að verja. Í þann hluta garðsins er til hægri handar þeim Þórði var er fram vissi til Bæjar voru þeir Þormóður Hjálmsson og Þorkell Magnússon. En í þann hluta garðsins er til árinnar var voru þeir Snorri Þorvaldsson og Snorri Loftsson. Var þar óhægst atsókn við að koma. En þann hluta er til Hundadals vissi vörðu þeir Þorsteinn Gellisson og Atli Hjálmsson.
En er Hörðdælir riðu neðan með ánni tók Snorri Þorvaldsson til orða: Hví sækið þér nú eigi að? Vér bíðum nú búnir. Þarf ekki að þyrma oss lengur með þessu móti. En ef þér bíðið þeirra er hér fara neðan með ánni þá mun það sannast er mælt er að Sturla þori lítt að hætta á jafnaðarfundi við oss.
Sturla svarar brosandi: Þess mun eg njóta nú að eg hefi vald meira en þér. En svo líst mér á þá menn er þar eru í garðinum sem eg hafi þá marga í mínum flokki er standa mættu jafnfætis við yður þótt eigi sé brekkumunur. En hins vil eg gæta að vér fáum ekki mein af yður. En eg ætla mér þó að kjósa af yðru liði þá er eg þykist mestar sakir við eiga.
Snorri kvað það eigi víst.
Þá kom Lauga-Snorri og Hörðdælir. Skipaði Sturla þá til atgöngu og lét brjóta upp grjót á hólinum þar er þeir stóðu á. Skyldi Lauga-Snorri og sveit með honum ganga þar að garðinum er þeir Þórðarnir voru fyrir. Þórður Guðmundarson og sveit með honum skyldi þar að ganga er Þormóður Hjálmsson var fyrir. Halldór frá Kvennabrekku og Hörðdælir gengu þar að er Snorrarnir voru fyrir. Eiríkur birkibeinn og sveit með honum gekk þar að er þeir Atli voru fyrir. Þorkell prestur og menn með honum gættu þeirra er haldnir voru. Sturla og nokkurir menn með honum gengu hjá og skipaði hann þar til er honum þótti þurfa.
Skagi hvíti austmaður var með Sturlu. Hann hafði handboga og bað Sturla hann skjóta að þeim í garðinn. Hann gerði svo að hann skaut tveim örum eða þremur í garðinn og geigaði það allt. Hann var þó bog maður mikill. Sturla drap bogann úr hendi honum og kvað eigi gagns von að fýlu þeirri.
Nú var gengið öllum megin að garðinum og sótt með grjóti en ekki gengu þeir svo nær að vopnin tækju saman. Var það og óvíða garðsins er vopnum mætti sækja.
Sturla gekk um hið ytra og tók upp stein. Hann kastaði allra manna best steini og var hæfinn.
Hann mælti þá: Svo þætti mér ef eg vildi kasta steini sem eg mundi kjósa heldur en þér hvar á skyldi koma en eigi skal eg það nú reyna og lét falla niður steininn.
Þá mælti Snorri Þorvaldsson: Hví sækið þér Sturla ekki að? Og ætla eg að Dala-Freyr sanni nú nafn sitt og standi ekki nær.
Rögnvaldur Illugason svarar: Ekki þarftu svo að eggja. Vera má að þó vinni yður að fullu. Er það maklegra að vér eigumst við.
Hallur Arason mælti þá til Snorra: Við erum hér menn yngstir og megum við reyna með okkur ef þú vilt.
Það vildi eg gjarna, segir Snorri, ef yður mætti til nokkurs trúa. En nú er það reynt að yður má til engis trúa. Svikuð þér nú einn vorn mann úr garðinum og náði sá eigi aftur að fara til vor.
Snorri tók upp stein og reiddi.
Hann mælti: Sjá nú við Hallur.
En hann sendi Rögnvaldi stein þann og féll hann við höggið. Laut þar einn, segir Snorri, og er eigi öðrum að firr.
Nú hertu þeir atgöngu að garðinum er gildastir voru. Atli Hjálmsson lagði til Halldórs Jónssonar og kom í brynjuna og varð hann ekki sár.
Þá kallaði Sturla: Drengið að þeim fast.
Gerði Halldór þá atgöngu ofan að garðinum þar er helst mátti vopnum við koma hjá Lauga-Snorra. Leituðu þeir Þórður þá inn frá garðinum þaðan sem þeir höfðu áður staðið í fyrstu svo að eigi mátti að komast. Lét Þórður svífa með garðinum þar sem þeir sóttu að Þórður Guðmundarson og Eiríkur birkibeinn. Í þessi svipan var Guðmundur skáld sleginn steinshögg svo að hann féll og fótunum kastaði fram yfir höfuðið. Menn vildu til hans taka.
Sturla mælti: Látum hann vera kyrran. Ekki mun hann saka. Svo fer hann á hverjum fundi og skellti upp og hló.
Hann mælti: Sækið þér að fast.
Þá var svo mikill grjótburður í garðinn að þeir gátu eigi hlíft sér við. Féll þá Þórður Þorvaldsson tveimur sinnum við heysendann fyrir grjóti og stóð seint upp hið síðara sinn. Þá var svo komið að þeir er fyrir utan stóðu garðinn höfðu buklarana á garðinum og lögðu þaðan undan með spjótum. Þá kallaði Þórður Þorvaldsson á Halldór Jónsson og Illugasonu að þeir skyldu leita um grið og sættir fyrir hans hönd við Sturlu. Halldór spurði hvert efni hann gæfi til þess.
Eg vil bjóða utanferð mína, segir Þórður, og suðurgöngu báðum okkur til hjálpar. Eg vil gefa í hans vald ríki mitt og sjálfan mig þar til er eg fer utan. Mun eg sverja að halda þetta allt.
Þá gengu þeir Halldór til móts við Sturlu og segja honum boð þessi. Áttu þá margir menn hlut að og sögðu að gott var að heyra af slíkum drengjum áheyrileg boð. Var þá ekki sótt að garðinum meðan.
Þá mælti Þórður Guðmundarson: Vel er boðið en ekki munu þeir af halda ef þeir fá nokkurn kost annan en deyja. Er þeim nú og meir til vorkunnar að virða en fyrr.
Sturla lagði ekki til meðan þeim var tíðast að tala um boðin og var heldur áhyggjusamlegur.
Síðan mælti hann til Halldórs:
75.
Trautt mun eg trúa þér
troll, kvað Höskollr.
Fyrir hvað skal eg þetta hafa? sagði Halldór.
Fyrir það, sagði Sturla, að ekki þarf griða að biðja því að engi munu fást. Og sækið að fast.
Ekki munum vér að sækja, sagði Halldór, og eru mennirnir mjög unnir nú.
Verða munu þó aðrir til, segir Sturla, þó að þér gangist hugur við orð þeirra.
Gerði Sturla sig þá reiðan. En Halldór segir Þórði að engi var kostur griða.
Já, já, sagði Þórður, eigi skal upp gefast að heldur.
Sóttu þá sumir menn að slælegar en fyrr enda voru þeir þá miður færir til varnar en fyrri. Voru Hjálmssynir þá þar komnir er þeir voru nokkuru ómóðari. Bauð Þormóður sig þar jafnan fram er mannraun var mest og atsókn var hörðust. Þá varð enn hvíld á nokkur.
Þá mælti Þórður Þorvaldsson: Gætum vér buklara vorra og bregðum eigi við lögum eða höggum þeim er oss eru eigi hættleg. Búið vér þurfum enn hlífanna.
Þá kom Þórir Ármóðsson til garðsins.
Þá mælti Sturla: Seinn varstu Þórir svefn og sannaðir nafn þitt.
Þykir þér svo vera bóndi? segir Þórir.
Svo er víst, segir Sturla, gakk nú að fast, segir Sturla.
Þórir hljóp þá að garðinum og lagði til Þorkels Magnússonar í handlegginn og varð það mikið sár. Ekki gerði Þórir þar fleira á þeim fundi.
Þá var enn um leitað ef Sturla vildi nokkurar sættir taka en það tjóaði ekki. Eggjaði Sturla þá mjög atsóknar. Þormóður Hjálmsson lagði til Þórðar Guðmundarsonar svo að brynjan sprakk fyrir og varð hann sár svo að stóð í beini. Var þá vörn hin harðasta. Þá kemur steinshögg í andlit Þóroddi Márssyni og töluðu menn um að hann væri mjög sár.
Hann svarar: Eigi er sem vér sýnum hamföngin á oss þótt í andlitinu blæði.
Þá fékk Hermundur Hermundarson og steinshögg á mjöðmina er hann vildi hlaupa á garðinn upp og rasaði hann ofan aftur. Snorri Þorvaldsson veitti honum það slag. Hermundur var þá ungur og heimamaður að Kvennabrekku.
Í þessi svipan fékk Þórður Þorvaldsson steinshögg á stálhúfuna svo að inn gekk á hausinn. Féll hann þá við og er hann stóð upp varð lítið af vörninni hans. Rétti hann þá spjótskaftið út yfir garðinn þar er þeir Halldór og Lauga-Snorri voru fyrir. Gaf hann þá upp vörnina og seldi af höndum vopnin. Þórður Heinreksson gekk út eftir honum og gaf upp sín vopn. En Þormóður og þeir aðrir héldu þá enn vörninni.
Halldór gekk þá enn til Sturlu og beiddi Vatnsfirðingum griða. Sturla kvað ekki þurfa þeim bræðrum griða að biðja en aðra menn sagði hann grið skyldu hafa. Halldór segir þá Þórði hvers af var kostur. Eftir það gáfu þeir upp vörnina í garðinum og seldu af höndum vopnin allir nema Snorri Þorvaldsson. Hann lét sér mjög ógetið að er þeir gáfust upp.
Sturla lét kalla til sín Þormóð valsk og Hermund Hermundarson og talaði við þá hljótt. Hermundur gekk frá þegjandi en Þormóður bað hann fá til annan mann að vega að Þórði. En Sturla kvað honum eigi hlýða skyldu í móti að mæla og kvað hann eigi glöggt muna bringusárið er hann fékk í Sauðafellsferð, tók þá til buklarans og reiddi. Þeir er hjá voru báðu Þormóð eigi í móti mæla því er Sturla vildi.
Gekk Sturla þá ofan að garðinum og gengu menn til griða, þeir er þess var kostur. Snorri Þorvaldsson settist á hornið garðsins með vopnum sínum. Þá gekk Hermundur að og sveiflaði til hans með öxi og kom á knéið svo að nær tók af fótinn. Hann hrataði af garðinum og kom niður standandi og varð undir honum sá hlutur fótarins er af var högginn.
Hann þreifaði þá til stúfsins og leit til og brosti við og mælti: Hvar er nú fóturinn minn?
Þórður bróðir hans sá til og mælti til Þórðar Heinrekssonar: Gakk þú til sveinsins og ver í hjá honum.
Hann blés við og fór eigi.
Halldór mælti í því er Hermundur hjó: Illt högg og ómannlegt.
Sturla svaraði: Það var gott högg og drengilegt.
Sturla bað Þórð þá niður leggjast. Hann gerði svo og signdi sig. Og í því er hann lagðist niður hjó Þormóður um þverar herðar honum og varð það mikið sár.
Sturla mælti: Högg þú annað.
Hann gerði svo og kom það utan á hálsinn.
Sturla mælti: Högg þú hið þriðja og er illa unnið að góðum dreng.
Eiríkur birkibeinn þreifaði í sárið og mælti: Eigi þarf nú meira við. Að fullu mun þetta vinna.
Snorri bróðir hans sá á þessa atburði og brá sér ekki við. Þar stóð alþýða í hjá er Þórður var veginn.
Hermundur snaraði þá fyrir garðshornið með reidda öxi og þar að er Snorri sat.
Hann brá upp hendinni og mælti: Högg þú mig eigi. Eg vil tala nokkuð áður.
Hermundur hafði hið sama riðið og hjó á hálsinn svo að nær tók af höfuðið svo að eigi hélt meira en reipshaldi. Annarri hendi hjó hann til. Eftir það var búið um líkin.
Þá mælti Sturla við Grím er bjó í Snóksdal að hann skyldi taka við líkum þeirra bræðra. En hann taldist undan og kvaðst vera myrkfælinn. Sturla kvað hann vera auvirðsmann að meira.
Halldór frá Kvennabrekku bað Sturlu eigi hrekja hann fyrir þetta og mun eg flytja líkin til mín.
Ger það sama, segir Sturla, því að þú munt skjótt kalla þá helga.
Stíga þeir Sturla þá á bak og riðu heim en Halldór flutti líkin með sér. Ísfirðingar riðu til Hundadals og í Bæ og til Hamraenda um kveldið.
Þá er þeir Sturla riðu heim hjá virki var talað um hversu Snorra mundu líka víg þessi eða hvort hann mundi yrkja um. Sturla bað Guðmund að minnast vísna þeirra er Reykhyltingar höfðu ort um Sauðafellsferð.
Þá kvað Guðmundur vísu þessa:
76.
Hvort munu, hildar kerta
hregg kom æst að seggjum,
raun sleit úr því, Ránar
ræfrfirðingar virða,
að, stálhjarls, Sturla,
steinrunnins, mun kunna,
valr fékk blóðs í byljum
bráðir, stórt að ráða.
En er Sturla kom heim gekk hann til stofu og festu menn upp vopn sín. Spurðu menn þá tíðinda. En er sögð voru kvað Solveig Vatnsfirðinga þá vita mundu hverja grimmd þeir höfðu sýnt þar í heimsókninni.
Þá kvað Guðmundur þetta:
77.
Guldu grimmdarfylldir
gljúfrs bestinga vestan
strætis stórrar sveitar
stiklendr tíund mikla.
Létust einn dag, ítrum
arnsprengi, framgjarnir,
svo hygg eg, fíknir, til tókust,
tveir höfðingjar þeira.
Síðan gengu þeir Sturla til kirkju og voru teknir úr banni. Fóru menn síðan heim.
Ísfirðingar fóru vestur og voru mjög þrekaðir af grjóti og undu þeir illa við sína ferð sem von var að. Hallbjörn Kalason fór heim í Reykjaholt og segir Snorra tíðindin. Honum rann mjög í skap þessi atburður.
Arf og bætur eftir þá bræður átti að taka Einar bróðir þeirra en dótturson Snorra en Illugi var aðili, bróðir þeirra.
Sturla sendi orð til Snorra og bauð honum sættir en beiddist griða í mót. Snorri seldi grið fyrir sig og erfingja þeirra bræðra en ekki lést hann mundu sættir taka til handa Vestfirðingum fyrri en hann vissi skap þeirra. Illugi Þorvaldsson fór suður til Snorra þegar hann spurði víg bræðra sinna og tók Snorri við honum. Allir stakkgarðsmenn viku sínu máli undir forsjá Snorra til sætta en Þórdís tók við búi í Vatnsfirði að ráði föður síns. Snorri lagði gott til um sættir með þeim því að hann vildi eigi missa liðveislu Sturlu á þingi um sumarið í málum þeirra Kolbeins unga.
Þetta vor fór Klængur Bjarnarson braut úr Reykjaholti með sveit sína. Gerði hann þá bú á Völlum er Snorri hafði goldið honum. Réðst þá suður með honum Vigfús Kálfsson og Tanni Finnbogason og enn fleiri sveitungar hans.
Órækja Snorrason gerði bú í Deildartungu um vorið og Filippus mágur hans með honum. Um sumarið fyrir þing voru ráðnar sættir með Sturlu og Vestfirðingum og skyldu þeir bræður Snorri og Sighvatur gera um.
En er að leið þingi reið Snorri til þings með átta hundrað manna og margir höfðingjar veittu honum aðrir, bræður hans báðir og Sturla. Ormur Svínfellingur var þá og kominn í vináttu við Snorra. Hafði Snorri þá gefið upp fégjald allt það er hann hafði gert fyrir víg Dagstyggs. Galt þá Kolur Árnason Ormi fjóra tigu hundraða fríðs fjár. Kolbeinn ungi hafði norðan sex hundruð manna. Þórarinn Jónsson veitti honum og enn fleiri höfðingjar. Þorvaldur Gissurarson gekk mest í milli og leitaði um sættir og margir aðrir lærðir menn með honum. Gissur Þorvaldsson hafði og mikið fjölmenni og vissu menn óvíst hvorum hann mundi veita því að hann lét vel til hvorratveggju.
Snorri beiddist helmingarskiptis um fé og goðorð fyrir norðan land en Kolbeinn var seinn í öllum jáyrðum og tregur í sættargerðinni. Kom þá svo að Þorvaldi Gissurarsyni og Þórði Sturlusyni þótti sín orð engis metin og gáfu þeir upp meðalferðina. En þá fóru í milli vinir og trúnaðarmenn þeirra Kolbeins og Snorra. Kom það þá upp litlu síðar að sætt var saman komin með þeim Snorra og Kolbeini.
En sú var sætt upp sögð að Snorri skyldi eiga helming goðorða þeirra er Kolbeinn átti að réttu en Kolbeinn skyldi með fara og veita Snorra á þingum. Kolbeinn skyldi og gjalda fé nokkuð ef Snorri vildi heimta. Það fylgdi og að Kolbeinn skyldi gifta Arnbjörgu systur sína Órækju syni Snorra með sex tigum hundraða en Snorri skyldi fá Órækju tvö hundruð hundraða og stað á Mel og goðorð Hafliðanaut og skyldu þeir mágar vélast um báðir samt norður þar. Voru þá menn kallaðir til handsala og tóku þeir Kolbeinn og Snorri höndum saman að þessu.
Þorvaldur Gissurarson spurði Þórð Sturluson hví hann ætlaði að svo skjótt mundi saman hafa gengið sættin síðan þeir gengu úr milli að fara.
Eigi veit eg það, segir Þórður, en uggi eg að Snorri bróðir minn muni gert hafa vinaskipti og selt vináttu Sighvats og Sturlu en tekið við vináttu Kolbeins er mig uggir að vér frændur munum mestan ófarnað af hljóta áður lýkur.
Þorvaldur mælti þá: Undarlegt þykir mér er Kolbeinn vildi gifta systur sína skilfengna hórkonusyni Snorra. En það er satt er mælt er að sjálfur veit gerst hverjum varningi verja á.
Þetta sumar um þing fóru Ísfirðingar vestan í Dali, Þórður Heinreksson, Högni Halldórsson, Böðvar Steinarsson, Hjálmssynir og enn fleiri stakkgarðsmenn. Þeir grófu upp lík þeirra bræðra og fluttu vestur í Vatnsfjörð og jörðuðu þar. Þetta þótti mönnum gert af mikilli elsku við þá bræður Þorvaldssonu.
Um sumarið fyrir Ólafsmessu fór Snorri vestur til Vatnsfjarðar með tuttugu menn. Þar var með honum Órækja son Snorra og Árni óreiða og Ásvarðssynir og hafði gott mannval. Hann gisti í Hvammi. Ólafsmessu var hann í Vatnsfirði og komu þar bændur til hans um Ísafjörð og bundust allir á hendi Snorra. Þá kom til hans Ólafur Æðeyingur. Hann hafði getið barn við Þórdísi dóttur Snorra. Seldi hann þá Snorra sjálfdæmi. Hann gerði af honum Æðey en frændur hans skyldu leysa ef þeir vildu. Í þann tíma var í kærleikum við Þórdísi Oddur Álason og fann hann Snorra ekki í þessi ferð. Snorri fór heim suður og fann Sturlu heima og fór með þeim allt sæmilega í það sinn.
Það haust bjóst Kolbeinn við brúðlaupi Órækju og vænti Snorra þannig. En Snorri vildi eigi fara og setti fyrir ferðina Þorleif úr Görðum og Staðar-Böðvar og var ekki ráð gert fyrir um staðfestu í Miðfirði. En er þeir komu norður og Kolbeinn vissi þetta varð hann styggur mjög og kallaði allt rofið við sig. En svo lauk að Þorleifur gekk til handsala við Kolbein að Órækja skyldi hafa tvö hundruð hundraða og stað í Stafaholti og kallaði Snorra því hafa játað sér ef Kolbeini þætti eigi efnt við sig ella. Tókst við þetta ráðahagur með þeim Órækju og Arnbjörgu og fór hún til bús með honum í Deildartungu og var þar um veturinn.
Þetta haust komu út bréf Sigurðar erkibiskups er þá var nýkominn í land. Voru þau mælt harðlega til þeirra Sturlu og Sighvats um Grímseyjarför og annan mótgang við Guðmund biskup. Var þeim utan stefnt báðum feðgum en það réðst af að Sturla skyldi fara fyrir þá báða og leysa mál þeirra beggja. Sturla lýsti utanferð sinni um veturinn en Solveig og börn þeirra skulu vera meðan á Grund með Sighvati. Skyldi Sighvatur hafa umsjá um ríki Sturlu meðan hann væri utan.
Þá var engi höfðingi í Vestfjörðum en þeir voru þá mestir af bóndum Oddur Álason og Gísli á Sandi og voru þeir hinir mestu vinir Sturlu. En Oddi bauð Sturla um að geyma vina sinna og réðst hann þá um vorið á Eyri í Arnarfjörð. Hann hafði margt röskra manna með sér. Gekk þá skjótt við ráð hans. Skorti hann og eigi fé. Gerðist hann ofsamaður mikill og engi jafnaðarmaður.
Þessi vetur var harður og illur og héldu menn illa víða um héruð.
Þórdís bjó þá í Vatnsfirði sem fyrr var ritað. Um vorið eftir páska kom þar Oddur Álason og með honum Högni Halldórsson frændi hans og sveit manna með þeim. Þeir dvöldust þar um hríð. Voru þá kærleikar miklir með þeim Oddi og Þórdísi.
Og einn morgun snemma urðu menn varir við að bærinn var horfinn mönnum og heyrðu þeir vopnabrak. Högni gekk til dura og spurði hverjir komnir væru. Honum var sagt að þar væru þeir mágar Ólafur Æðeyingur og Snorri Magnússon úr Grunnavík og báðu þá út ganga. Högni spurði hvort þeim skyldi fritt vera. Þeir létust eigi mundu því heita. En er Oddur hafði fengið vopn sín og þeir skynjuðu að ekki var mannmargt úti réðu þeir til útgöngu og var lítill liðsmunur og réðu hvorigir á aðra. Skildust þeir að því að Oddur lýsti fjörráðum á hendur þeim við sig. En þar urðu engi hlaupaför né á unnin verk að því sinni með þeim. Fóru þeir heim en Oddur út í fjörðu með sveit sína.
Um vorið heimti Órækja kvonarmund sinn að föður sínum og stað í Stafaholti. En Snorri segir svo að hann skyldi fara vestur í Vatnsfjörð og taka þar við búi og mannaforráði því er Einar átti en lést mundu skipta hvorum þeirra til handa slíku sem honum líkaði þá er Einar þroskaðist. En Þórdísi bauð hann til sín. Órækja vildi fyrir hvern mun hafa Stafaholt en þó varð svo að vera sem Snorri vildi.
Fór þá Órækja vestur með konu sína og sveit manna með honum. En er hann kom í Vatnsfjörð þótti Þórdísi illt upp að standa. Fór hún þá út á Mýrar í Dýrafjörð. En Órækja tók við búi í Vatnsfirði og tók við hverjum manni frjálsum er til hans vildi og dróst þar saman karlfjöldi mikill en brátt varð með harðindum til fengið bússins sem lengi hafði siður verið til í Vatnsfirði.
Sturla Sighvatsson bjóst til utanferðar um sumarið og dró að sér vöru. Hann lét sér fátt um finnast vesturferð Órækju. Var hann jafnan heima að Sauðafelli og leið svo framan til þings. Snorri var á þingi að vanda sínum því að hann hafði lögsögn. Sighvatur kom um þingið norðan í Dali og var að Sauðafelli um þingið.
En er Snorri kom af þingi sendi hann Sturlu Þórðarson eftir Sighvati og bauð honum suður þannig. Fór Sighvatur þá suður og Þórður kakali og Þorvarður úr Saurbæ. Fjórir voru þeir samt. Snorri tók allvel við þeim. Var þar allfögur veisla. Gerðu þeir bræður þá um víg Vatnsfirðinga og urðu vel ásáttir. Snorri gaf Sighvati spjót gullrekið að skilnaði og kvað það ófallið að þeir skildu gjaflaust svo sjaldan sem þeir fundust.
Þá er Sighvatur var í Reykjaholti kom þar austfirskur maður og heimti fé að Sighvati en Sighvatur greiddi honum hest þann er hann hafði þannig riðið. En Sighvatur bað Valgarð Styrmisson ljá sér hest í Dali vestur. Hann var þá ráðsmaður fyrir búi í Reykjaholti. Valgarður léði honum hest bleikálóttan, bæði mikinn og sterkan og járnaðan öllum fótum og hinn besta faraskjóta. En er Sighvatur kom vestur á Brattabrekku var hesturinn þrotinn svo að hann mátti eigi standa.
Sighvatur leit á hestinn og mælti: Þetta mun vera fyrir feigð Valgarðs er hestinn þraut því að þetta er með ólíkindum.
Þenna dag er Sighvatur reið úr Reykjaholti reið Valgarður út á Mýrar að biðja hesta norður til Skagafjarðar eftir viðum. Þá var ger stofan í Reykjaholti. Með Valgarði var Ingjaldur Geirmundarson og Þórður Tyrfingsson og Þórður steypir Grímsson. Þeir koma í Eskiholt og báðu þar hests Halldór son Guðmundar Eskhyltings en hann synjaði. Valgarður setti aurfalinn fyrir óst honum svo að hann hné að vegginum en þeir tóku hestinn og riðu upp í Svignaskarð og átu þar mat. Eftir það fóru förunautar Valgarðs að búa hesta þeirra. En er hann var í stofu og klæddist kom Halldór í stofuna er Valgarður hafði dregið kaprún blátt fyrir andlit sér er hann hafði um hálsinn undir stálhúfunni. Halldór hjó í höfuð honum. Var það banasár. Þá hljóp Halldór út og eltu förunautar Valgarðs hann til skógar og rann hann þeim þar hvarf.
Halldór kom í Vatnsfjörð að Ólafsmessu. Þar var Magnús biskup þá að veislu. Hann flutti mál hans við Órækju svo að hann tók við honum.
Þetta sumar var veginn Vigfús son Kálfs Snorrasonar fylgdarmaður Klængs Bjarnarsonar. Hann var í för með Birni Sæmundarsyni. Jón son Kráks frá Hlíðarenda bjó á Egilsstöðum. Hann vildi eigi gefa þeim mat en þeir höfðu eigi að síður. En um nóttina gekk hann í skála og veitti Vigfúsi banasár og hljóp til skips og reri suður yfir á og forðaði sér. Síðan fór hann norður um land og tók Sighvatur við honum og kom honum utan. En Björn gerði til Hafliða bróður hans og lét fóthöggva hann fyrir þetta.
Oddur Álason var með Sturlu um sumarið og var það orð á að hann mundi utan fara. En þá er Sturla spurði að menn drógust að Órækju í Vatnsfirði setti hann Odd eftir að gæta þingmanna sinna í Vestfjörðum. Fór hann þá vestur og fundust þeir Órækja og lagðist allvel á með þeim. Mæltu þeir til vináttu með sér. Þórdís fór og vestur í fjörðu. Og er hún kom í Saurbæ fæddi hún þar barn á Staðarhóli. Það var mær er þau Oddur áttu. Hún lá þar þrjár nætur og fór síðan vestur og heim á Mýrar.
Sá maður kom til Órækju um sumarið er Björn hét, norðlenskur maður. Hann var kallaður Maga-Björn. Hann hafði verið í Grímsey og barist þar við heimamenn Sighvats og frændur hans, Páll og Magnús Magnússynir. Með Birni var sá maður er Einar kollur hét, sunnlenskur að ætt. En er þeir koma í Vatnsfjörð gerðist Björn þar fyrirmaður um aðdráttu. Var hann allóspakur og ekki heimildavandur að föngum bónda.
Sturla Sighvatsson fór utan um sumarið að Gásum og nokkurir menn með honum. Hann varð síðbúinn og tók Noreg fyrir norðan Stað og hélt til Borgundar. Þar var þá fyrir Álfur af Þornbergi mágur Skúla hertoga. Hann tók allvel við Sturlu og bað hann þar bíða þess er hertoginn kæmi norðan og sagðist vilja koma honum í vináttu við hertogann. Sagði Álfur Sturlu að hertoginn mundi gera hann að hinum mesta sæmdarmanni, slíkt afbragð sem hann var annarra manna, en kallaði hertogann vera hinn mesta vin Íslendinga og þó mestan Sturlunga. Sturla vildi ekki annað en fara suður til Björgvinjar á fund Hákonar konungs.
En þó var sundurþykki mikið með þeim mágum og drógu þeir þá lið saman slíkt er þeir fengu. Þeir fundust um haustið í Björgvin og sættust og þótti hertoganum sér þá heldur erfitt veita sættin. Þetta var kallað hákarlahaust.
Þá var Sturla í Björgvin og svo öndverðan vetur. Síðan réð hann til suðurferðar og fór hann til Danmerkur og fann þar Valdimar konung hinn gamla og tók hann allvel við honum. Var hann þar um hríð. Gaf Valdimar konungur honum hest góðan og enn fleiri sæmilegar gjafir og skildu þeir með hinum mesta kærleik. Fór Sturla þá suður í þýðeskt land. Hann fann þar Pál biskup úr Hamri og voru þeir allir samt í för út í Róma og veitti biskup Sturlu vel föruneyti og var hinn mesti flutningsmaður allra hans mála er þeir komu til páfafundar.
Páll biskup fór fyrir því út til páfa að hann varð missáttur við Hákon konung. Deildu þeir um Eyna helgu er liggur í Mjörs.
Sturla fékk lausn allra sinna mála í Rómaborg og föður síns og tók þar stórar skriftir. Hann var leiddur á millum allra kirkna í Rómaborg og ráðið fyrir flestum höfuðkirkjum. Bar hann það drengilega sem líklegt var en flest fólk stóð úti og undraðist, barði á brjóstið og harmaði er svo fríður maður var svo hörmulega leikinn og máttu eigi vatni halda bæði konur og karlar.
Þeir Páll biskup og Sturla fóru báðir í Norðurlönd og skildu með hinum mesta félagsskap. Veitti hvor öðrum góðar gjafir. Fann Sturla Hákon konung í Túnsbergi og tók hann allvel við honum og dvaldist hann þar lengi hinn síðara vetur er hann var í Noregi og töluðu þeir konungurinn og Sturla jafnan.
Órækja var nú í Vatnsfirði sem fyrr er ritað. Hann fór um sumarið suður til föður síns. Var þá í för með honum Högni Halldórsson og var hann þá í kærleikum við Órækju. En er þeir komu heim vestur fór Högni út á Eyri til Odds. Voru þá kærleikar með þeim öllum.
Um haustið fóru þeir Oddur norður í Grunnavík að þeim Snorra Magnússyni og Ólafi í Æðey með mikla sveit manna og kúguðu þá til sjálfdæmis fyrir för þá er þeir höfðu farið í Vatnsfjörð. Oddur og Snorri deildu og um fé konu einnar og hlaut Oddur því að ráða.
En er þeir komu norðan fóru þeir í Vatnsfjörð að boði Órækju og voru þar í allmiklum kærleikum og gáfust gjöfum. Þá var gefið sverðið Steypir er átt hafði Pétur steypir. Skildust þeir þá hinir mestu vinir að því er kallað var.
Órækja sendi um haustið Maga-Björn suður til Breiðafjarðar og kváðu þeir á hvers manns fé um nes og þverfjörðu en rændu að öðrum kosti. Þeir tóku skip frá sonum Þorbjarnar grana og fóru út í eyjar og rændu hvervetna um Vestureyjar. Þeir komu í Sviðnur og vógu þar Játgeir bónda. Einar kollur vó hann. Þeir fóru suður til Meðalfellsstrandar og rændu þar Svein að Heinabergi og Þorbjörn í Búðardal og að Hvalgröfum. Var þá sent suður í Hvamm eftir Þórði Sturlusyni og fór hann vestur til Saurbæjar. En þeir voru þá vestur farnir og fóru síðan til Vatnsfjarðar og lét Órækja vel yfir þeirra för en fáir lofuðu suður þar.
Ásgrímur Bergþórsson bjó þá á Breiðabólstað í Steingrímsfirði. Hann var vin og frændi Órækju.
Maður hét Otkell. Hann var Bjarnason Þórissonar er búið hafði að Hausthúsum í Eyjarhrepp. Otkell var reikunarmaður, fór með konu og bar keröld af Ströndum til sölu. Hann kom til Ásgríms og færði honum bréf. Hann sagðist kominn úr Ísafirði og utan úr fjörðum og sagði Odd Álason hafa fengið sér bréfið og Þórdísi Snorradóttur. Ásgrímur leit á bréfið og var þar á kveðjusending til Ásgríms, þeirra Odds og Þórdísar, en það var ummál á bréfinu að þau öll saman skyldu geyma ríkis Sturlu með ráði Sighvats og setjast að Órækju, þau vestan en hann norðan svo að hann kæmi engu fram, sögðu sér ekki fyrir að hafa hann uppi ef þau geymdu til.
Þenna sama tíma komu til Ásgríms heimamenn Órækju, Gunnlaugur Hrollaugsson og Bútur Þórðarson, og fékk Ásgrímur þeim bréfið og færðu þeir Órækju. En er hann sá bréf þetta virðist honum það bréf fjörráð við sig og bar þetta fyrir vini sína og trúnaðarmenn. En með Ísfirðingum og Útfjarðamönnum var forn óþokki og lögðu þeir flestir þungt til þeirra mála er í trúnaði voru hafðir.
Eftir þetta lagði Órækja fund við Grunnvíkinga og réðu þeir þá aðför við Odd. Skyldu hvorir hafa hálfan fimmta tug manna. Fór Órækja Glámu en hinir Hestfjarðarheiði. Þeir fundust í Arnarfirði inn frá Eyri og fóru heim á bæinn fyrir dag. Það var geisladagsmorgun. Þeir tóku bæinn því að hurðir allar voru læstar.
En er menn urðu varir við ófriðinn gengu þeir til dura og spurðu hverjir úti væru. Þeir sögðu að Órækja var þar og Grunnvíkingar. Oddur trúði eigi að Órækja væri þar.
Þeir báru eld að húsum en þá var fylgt konum og börnum til kirkju. Högni Halldórsson eggjaði útgöngu því að það var mart röskra manna fyrir, Oddur og Högni, Sanda-Bárður, Börkur Bjarnason, Magnús Gíslason, Hallbjörn Kalason og margir aðrir. Oddur varð allrösklega við.
Þeir Oddur gengu til þeirra dyra er voru á bak húsum úr eldhúsi til baðstofu og þröngt sund fyrir úti. Þar voru fimm menn í sundinu en sumir á húsunum. Hallbjörn Kalason hljóp fyrstur út. Hann drap sér upp í dyrunum og hraut stálhúfan af höfði honum. Var hann þegar hogginn banahögg. Þá gekk Högni út og hafði sverð í hendi. Hann lagði til Þorbjarnar merar og var það banasár. Síðan hjó hann á öxl Þorbirni svo að sá lungun. Þá gekk Oddur út og hjó til Þorbjarnar Jónssonar. Kom í höfuðið fyrir framan eyru, allmikið sár. Þorbjörn var í þófastakki þeim er sverðin þeirra bitu ekki þótt þeir breiddu á tré. Þann hjó Högni í sundur bak og fyrir. Börkur Bjarnason gekk þá út, þá Sanda-Bárður, þá Sveinbjörn frændi þeirra. Átta gengu þeir út. Magnús Gíslason veitti banasár fyrir aftan eyra Þorbirni Jónssyni. Allir menn hljópu úr sundinu fyrir Högna en þó var lagið af húsunum til þeirra og höggið. Varð Oddur þá sár mjög er margir sóttu hann og hörfaði hann þá inn í húsin. En Maga-Björn hljóp þá í sundið til Högna og hjó Högni til hans og sá Björn það eitt sitt efni að renna á Högna og var það ofurefli flestum mönnum. Og nú hljópu fimm menn í sundið og varð Högni þá handtekinn og gaf Björn honum grið og það samþykkti Órækja. Gengu þeir á völlinn og settust niður. Voru mönnum þá grið gefin.
Þá kom maður úr húsunum og sagði að Oddur var sár til ólífis. En er Högni heyrði hljóp hann upp og hjó til þess manns er Sighvatur slappi hét og særði hann á lendum mikið sár og hjó í sundur bróklindann. Sighvatur vildi hefna sín en brækurnar féllu ofan um hann. Högni var þá enn tekinn og hjó hann áður til beggja handa. Kom þá Órækja til og bað drepa hann. Guðmundur kvíagymbill vó að honum.
Eftir það fóru Órækju menn að slökkva eldinn. Voru þá öllum mönnum grið fengin og fóru menn inn en heimamenn sátu yfir Oddi og var hann huslaður og óleaður.
Um daginn eftir mat var það borið í eyru Órækju af hans mönnum að Oddur væri minnur sár en látið var og sendi hann þá til Svein, ísfirskan mann, og lét vega hann og mæltist það illa fyrir. Órækja fór brott af Eyri eftir þessi tíðindi og heim til Vatnsfjarðar.
Það er flestra manna sögn að Magnús prestur og Grunnvíkingar hafi látið gera bréf það er kom til Ásgríms.
Kolbeinn ungi bjó nú á Flugumýri. Hann var höfðingi mikill og hafði mikla sveit um sig röskra manna. Með þeim Sighvati var þá rénan mikil vináttunnar og voru þeir margir er verr gengu á milli en skyldi. Hljópu þeir til Kolbeins er óspektir gerðu í Eyjafirði en hinir til Sighvats er vestur gerðu óspektir í sveitum Kolbeins.
Í þann tíma voru í Skagafirði margir stórbændur og voru flestir vinir Sighvats: Kálfur Guttormsson á Miklabæ, Hallur í Glaumbæ, Illugi að Barði, Björn í Ási, Jón Markússon á Hjaltastöðum. Hann var þá prestur, vitur maður og farinn vel. Einar hét maður skálphæna. Hann var þar sveitarmaður og lét til allra manna vel, hafði verið vin biskups og flestra mótstöðumanna hans. Þenna vetur fór orðasveimur mikill milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar.
Það var eitt sinn á Flugumýri að Einar skálphæna kom að máli við Kolbein og sagði að hann kynni segja honum þá hluti er honum var munur undir að vita. Kolbeinn spurði hvað það var.
Það er ótrúnaður sá er bændur höfðu til hans þar í héraði ef hann ætti málum að skipta við Sighvat.
Kolbeinn blótaði og sagði hann ljúga.
Einar svarar: Hér má gera raun til. Jón Markússon sagði mér svo að þeir Kálfur Guttormsson og Önundur Þorgrímsson hafa bundist í því að draga bændur undan þér ef Sighvatur kemur í hérað og þurfir þú manna við. En eg mun senda orð Jóni Markússyni og inna upp fyrir honum svo að þú heyrir ef þú ert í nokkurum leyndum stað.
Þessu játar Kolbeinn og er svo gert ráð að Einar skal senda eftir Jóni og skulu þeir talast við í litlustofu en Kolbeinn skal vera í kjallaranum undir niðri og heyra tal þeirra. Sendir nú Einar eftir Jóni en er hann fer í garð ríða fylgdarmenn Kolbeins úr garði. Ísar Pálsson reið með vopn Kolbeins og klæði.
En er Jón kom gengu þeir Einar í litlustofu. Innti Einar þá upp en Jón sannaði. Þótti Jóni Einar of hámæltur og mælti þó engu skörulega í mót því er Einar innti.
Menn Kolbeins sneru þegar aftur er Jón var genginn í stofuna og stóðu þá fyrir stofudyrum. Kolbeinn hljóp þá upp úr kjallaranum með blóti og kvað Jón þess verðan að hann væri drepinn. Hljópu fylgdarmenn hans þá í stofuna. Naut Jón þess í það sinn er hann komst heill í brott er hann var prestur.
Eftir þetta sendir Kolbeinn Einar son Glúms Ormssonar frænda sinn vestur til Vatnsfjarðar og bað Órækju koma norður þangað sem skjótast með sveit manna. Nokkuru síðar sendi hann Hildibrand Grímsson að sama erindi og fann hann Órækju í Hrútafirði. Hafði hann á þriðja tigi manna. Fór hann þar til er hann kom á Flugumýri. Tók Kolbeinn allvel við honum.
En eftir tal þeirra Jóns og Einars reið Kolbeinn á Miklabæ og bar fjörráðasakir á Kálf eftir því sem hann kvað Jón segja. Kálfur kallaði það ekki fjörráð þótt menn væru vinir Sighvats. En það samdist með því að Kálfur skyldi skyldur ferða allra með Kolbeini þeirra er fer Illugi Ásgrímsson, Hallur í Glaumbæ, Önundur Þorgrímsson, Þorsteinn Hjálmsson.
En er Órækja kom norður safnar Kolbeinn þegar mönnum og hafa þeir á þriðja hundraði og ætla að Sighvati. Kolbeinn sendir menn á Miklabæ og beiðir Kálf ferðarinnar og í annað sinn er hann reið upp fyrir Miklabæ sendi hann menn til Kálfs og bað hann fara, sagði að þar var Hallur og Önundur. En Kálfur vildi eigi fara.
Þeir Kolbeinn riðu norður til Þverbrekku. Þá spurðu þeir að njósn var komin Sighvati, sú er gert hafði Styrmir mágur hans úr Bjarnastaðahlíð og hét sá maður Eiríkur greifi. Sýndist þeim Kolbeini þá aftur að hverfa. Fóru þá bændur heim.
Kolbeinn og Órækja gera nú ráð sín og er það þeirra ráð að þeir nefna til fylgdarmenn sína að fara að Kálfi og taka hann af lífi og Guttorm son hans. Var þar hinn fyrsti maður af Kolbeins mönnum Þórálfur Bjarnason, annar Guðmundur Ásbjarnarson, Þórður þumli Halldórsson, Sigurður Eldjárnsson, Símon Óttarsson, Einar Glúmsson, Hildibrandur Grímsson, Einar skálphæna, Ófeigur Bjarnarson. En af Órækju mönnum Jón Ófeigsson, Þórður Tyrfingsson, Sigmundur Gunnarsson, Játvarður Guðlaugsson, Svartur Grímsson, Bútur Þórðarson. Þeir komu á Miklabæ um miðmundaskeið miðs dags og nóns.
Og áður þeir komu spurði Ósk húsfreyja hvort Kálfur vildi eta hvítan mat eða þurran.
Kálfur svarar: Nú skal í dag segjast í þing með hinum helga Pétri postula. Valtir verða þeir oss nú þessa heims höfðingjarnir.
Þetta var hinn næsta dag fyrir Pétursmessu um veturinn og bar þá Pétursmessu á miðvikudag hinn fyrra í níuviknaföstu. Þeir feðgar voru í litlustofu og höfðu látið skafa krúnur og raka sér. Var Kálfur akolitus en Guttormur sonur hans djákn.
Guðmundur Ásbjarnarson gekk fyrstur inn og fagnaði Ósk honum en hann varð fár um. Þá var sagt í litlustofuna að Kálfur var út kallaður. Hann spurði hver hann kallaði út. Þeir sögðu það Kolbeins ráð. Kálfur gekk þá fram úr litlustofunni og báðir þeir feðgar og vildi hann taka öxi sína og skinnfeld er lá í rúmi hans í almannastofunni. Kolbeins menn voru þá komnir í stofuna og kváðu hann ekki öxi þurfa og segja að þeim báðum feðgum var líflát ætlað. Kálfur spurði hvort þar væri Styrmir Grímsson eða Kleppjárn Hallsson. Þeir sögðu þá ekki þar vera.
Þá vænti eg, sagði hann, að engir menn séu þeir hér komnir að miklar sakir eigi við mig en þó viljum vér prestsfund hafa.
Þorsteinn prestur Reykjarhóll skriftaði þeim báðum feðgum og gaf þeim þjónustu. Eftir það voru þeir út leiddir og tók Kálfur róðukross úr hendi presti og hafði í hendi sér er hann gekk út. Og er þeir komu millum kirkjugarðs og útibúrs þá setti Kálfur niður krossinn við kirkjugarðinn og lagðist þar niður fyrir.
Þórálfur mælti: Ekki hyggur þú nú að Kálfur hvað þú gerir. Ver eigi svo nær krossinum að blóðið hrjóti á hann.
Kálfur sagði: Vant gerið þér mér nú og lagðist niður firr meir krossinum.
Bútur Þórðarson hjó hann. Síðan gekk Guttormur til þegjandi og lagðist niður hjá föður sínum. Bútur hjó hann.
Eftir það riðu þeir brott og heim á Flugumýri en heimamenn unnu líkum og voru færð til Hóla og er það mál manna að Kálfur Guttormsson hafi mestur bóndi verið fyrir norðan land þann tíma er hann var uppi.
Eftir víg þeirra Kálfs og Guttorms feðga riðu þeir Kolbeinn og Órækja suður í Reykjaholt með átjánda mann að sækja ráð að Snorra og leituðu eftir hvert liðsinni þeir skyldu þar eiga. Snorri kvaðst eigi vanur vera að eiga hlut að héraðsdeildum en lést mundu ríða til alþingis og veita þeim þar slíkt er þeim öllum væri sæmd að. Eftir það ríða þeir norður aftur og er þeir koma í sveitir Kolbeins kvöddu þeir bændur að fara í setur í Skagafirði og skyldu bændur sjálfir fæða sig. Svo var gert og voru oftast þrennar setur.
Nú er að segja frá Sighvati að Eiríkur greifi njósnarmaður Styrmis kom á Grund og annar maður með honum síð um kveld. Sat Sighvatur í rúmi sínu og hafði tuglaskinnfeld á herðum og lambskinnskofra á höfði sér svartan. Þeir Eiríkur voru spurðir tíðinda en þeir sögðu liðsdrátt úr Skagafirði og sögðu að þeir Kolbeinn og Órækja mundu þar koma um nóttina með ófriði. En Sighvatur dæsti við og kvað slíkt ekki gegna mundu og varð þá ekki skjótlegt um ráðagerð hans. Halldóra húsfreyja gekk þá til hans og kvað einsætt að senda eftir mönnum. Sighvatur bað hana eftir senda ef henni líkaði.
Sendi hún þá menn þegar út til Kaupangs og var þaðan sent norður á Grenjaðarstaði til Kolbeins en sá safnaði mönnum hið neðra um hérað er þannig var sendur. Annan mann sendi Halldóra upp í hérað í Saurbæ. Safnaði Þorvarður þá mönnum hið efra um hérað. Þorgils Hólasveinn kom fyrstur með fjóra tigu manna og allir bændur inn í Eyjafirði voru komnir er alljóst var.
Sighvatur var þá í blám kyrtli og hafði stálhúfu á höfði og öxi rekna í hendi. Var hann þá miklu hermannlegri en um kveldið er njósnarmenn komu. Gerði hann þá menn á hestvörð upp á Skjálgdalsheiði en aðra út með firði. Spurðist þá skjótt að þeir Kolbeinn höfðu aftur horfið. Fóru þá bændur heim en Sighvatur hafði fjölmennt og varðhöld sterk.
En er Sighvatur spurði að setur voru í Skagafirði hafði hann setu á Grund og kostaði einn allt til en bændur ekki af sínu. Og leið svo fram á föstuna.
Í þenna tíma var Guðmundur biskup í Höfða með Brandi. Sighvatur sendi þannig menn og bauð biskupi til sín og vildi að hann væri með honum í þessum málum. En er þeir komu í Höfða voru þar fyrir sendimenn Kolbeins og Órækju þeir er biskupi buðu vestur þannig. En með því að Órækja hafði jafnan verið vin biskups síðan hann mátti nokkuru orka og Snorri faðir hans þá virti biskup það meira og fór vestur til Flugumýrar og var hann þar um föstuna.
Um vorið eftir páska sendi Órækja menn vestur í fjörðu eftir liði og fór Illugi Þorvaldsson vestan með þrjá tigu manna. Með þeim fór úr Laxárdal Svarthöfði Dufgusson og Oddur son Guðlaugs af Höskuldsstöðum. Þeir Kolbeinn sendu og menn austur í Fljótsdalshérað til Þórarins Jónssonar og báðu hann koma til liðs við sig og fór hann austan við fjóra tigu manna.
Þar var þá með honum Ögmundur sneis og var hann þá á hinum átta tigi vetra og sögðu menn svo að hann þætti þar þá maður víglegastur í því liði.
Þá er Sighvatur spurði liðsdrátt þeirra Kolbeins og Órækju bæði vestan og austan þá dró hann lið saman og fór til Skagafjarðar með fjögur hundruð manna. Þar voru með honum synir hans Kolbeinn og Þórður kakali en hinir yngri voru þá eigi vopnfærir. Þar voru og með honum Hrafnssynir, Sveinbjörn og Krákur.
En er Sighvatur reið ofan eftir Norðurárdal var honum sagt að þeir Kolbeinn og Órækja voru á Silfrastöðum með sex hundruð manna. Þar var og Guðmundur biskup. Þannig höfðu og riðið nokkurir Sighvats menn og voru þeir teknir og flettir. Sighvatur snýr þá til Flatatungu og var þar um nótt með lið sitt.
Um myrgininn eftir bjuggust hvorirtveggju til bardaga og skriftaði Guðmundur biskup mönnum Kolbeins en segir þó að þeir mundu eigi berjast um daginn en þó mun Sighvati fara sem Haraldi konungi Sigurðarsyni.
Þeir Sighvatur bjuggust fyrir í Flatatungu og fylktu þar liði sínu hjá húsum í túninu.
Þá er þeir riðu neðan að Flatatungu, Kolbeinn og Órækja, reið Þorsteinn Jónsson úr Hvammi að Kolbeini og spurði hvernig hann ætlaði til um skipti þeirra Sighvats. Kolbeinn segir að þeir skyldu þegar berjast er þeir fyndust. Þorsteinn segir að menn vildu veita honum til sæmilegra sætta en berjast eigi við Sighvat. Kolbeinn lagði til Þorsteins með spjóti og bannaðist um. Þorsteinn bar af sér lagið. Kolbeinn vildi þá bregða sverði en þá kom Órækja að og tók hann. Áttu þá margir hlut að og svöfðu hann en Kolbeinn var allreiður.
Riðu þeir þá upp til Flatatungu og hljópu af baki og heim á bæinn. En er þeir sáu fylking Sighvats leist þeim liðið meira en þeir hugðu og varð þeim bilt um árásina.
Þá mælti Sighvatur: Ekki þurfum vér nú að ugga þá er þeim varð bilt í fyrstu.
Eftir það gengu stórbændur af liði Sighvats og enn nokkurir af liði Kolbeins og leituðu um sættir í milli þeirra. Þar var og með þeim Ólafur af Steini. Hann var þá í fyrstu ferð og var heimamaður að Keldum með Hálfdani. Þá var hann átján vetra. Svo kom að hvorirtveggju hlýddu á góðra manna fortölur og sættust á það að Magnús biskup skyldi gera um öll þeirra mál. Þá var og sæst á víg þeirra Kálfs og Guttorms því að Ólafur úr Möðrufelli systurson Kálfs var aðili málsins.
Reið Sighvatur eftir sættina norður heim og dreifði liði sínu. Þórarinn Jónsson spurði sættina í Reykjardal og sneri hann þá austur aftur. Vestfirðingar komu það kveld í Skagafjörð er sleit fundinum í Flatatungu og mæltust þeir illa um er þeir urðu svo seinir.
Órækja fór heim vestur eftir þetta og hafði meir en sex tigu manna. Þeir fóru óspaklega um héruð, tóku hesta manna og mat þar er þeir þóttust þurfa að hafa. Þeir riðu allir í Hvamm til bús Þórðar Sturlusonar og bjuggu þar óspaklega heyjum og öðru. Þeir hjuggu þar uxa níu vetra gamlan er Þórður átti. En hann var þá út á Eyri að búi sínu. Þaðan fór Órækja til Saurbæjar og tók þar fé af bóndum og gerði bú á Staðarhóli. Skyldu þeir Svertingur Þorleifsson eiga það báðir samt og var hann fyrir. Órækja fór þaðan á Reykjanes og gerði mikið bú á Hólum. Setti hann þar fyrir Snorra Magnússon. Síðan fór hann í Vatnsfjörð og gerði þar bú mikið og fékk til um alla fjörðu.
En er Sighvatur spurði þetta þóttu honum eigi haldast sættir þær allar er undir handsöl höfðu komið í Flatatungu og bjóst hann því eigi til þingreiðar.
Kolbeinn ungi fór heim á Flugumýri eftir fundinn í Flatatungu og líkaði allilla við bændur þá er þar höfðu mest milli gengið. Þá urðu vísir trúnaðarmenn Jóns Markússonar að Kolbeinn ætlaði að láta drepa hann og gerðu hann varan við. Reið Jón þá þegar í brott og Sveinn son hans og syntu vestur yfir Jökulsá og námu eigi stað fyrri en þeir komu suður í Reykjaholt og tók Snorri við þeim fyrir sakir fornrar vináttu en Kolbeinn lét taka upp bú Jóns og hafði til sín.
En er leið fram að þingi riðu höfðingjar til þings og flestir fjölmennir. Kolbeinn reið norðan með fimm hundruð manna. Snorri Sturluson hafði fimm hundrað manna. Þorleifur úr Görðum hafði hundrað manna. Árni óreiða hafði fimm tigu manna. Og veittu þeir Snorra báðir. Ormur Svínfellingur hafði tíu tigu manna en Þórarinn bróðir hans fimm tigu manna og voru þeir Kolbeins vinir mestir. Gissur Þorvaldsson hafði tvö hundruð manna og lét til allra skipulega. Þorvaldur Gissurarson var á þingi og Magnús biskup. Hann kom út tveimur vetrum áður. Þá hafði Sigurður erkibiskup tekið embætti af Guðmundi biskupi.
Um þingið voru miklar viðsjár með mönnum því að Kolbeini forþokkaðist það mjög er Snorri hafði tekið við þeim Jóni Markússyni. Magnús biskup bannaði öllum mönnum að bera vopn til dóma. Gengu menn þá vopnlausir til dóma þar er þá skyldi mál fram flytja.
En Kolbeinn gekk með flokk sinn vopnaðan upp í virki þeirra bræðra Orms og Þórarins og höfðu þeir allir samt þar flokka sína með vopnum. Snorri var með flokk sinn í brekkunni fyrir ofan Valhöll og allt vestur um Dilkinn. Var Þorleifur með honum og Árni Magnússon. Órækja var með sinn flokk upp frá lögréttu og hentu gaman að glímum.
Þórarinn son Saka-Steingríms hafði gengið úr flokki Kolbeins til búðar Jöklamanna og stóð við vegginn og talaði við annan mann og stóð á víxl fótunum. Þá gengu þeir þar að Jón prestur Markússon og Sveinn son hans og hjó Sveinn á báða fótleggi honum og af annan en skoraði þó mjög á annan. Síðan sneru þeir upp milli Austfirðingabúðar og Jöklamannabúðar og stefndu svo í flokkinn Snorra. Guðmundur Ásbjarnarson brá sverði og hljóp upp og spurði hver á manninum hafði unnið.
Hann Jón snaraðist við og mælti: Sveinn Jónsson vann á honum og eigi fyrir því á honum að vér vildum eigi heldur að þú hefðir fyrir orðið.
Þeir Kolbeinn hljópu þegar upp og heim til búðar og tóku brynjur sínar og pansara og spjót og skjöldu og gengu síðan suður yfir á og upp á völlu. Mætti hann þá Órækju og bað hann ganga í lið með sér og hefna mannsins. Órækja kvað sér eigi sama að berjast við föður sinn. Kolbeinn varð þá allstyggur og hét á þá Orm og Þórarin til liðveislu. Bjuggust þeir þá allir til bardaga og fylktu liði sínu á völlunum fyrir neðan lögréttu milli og Austfirðingabúðar.
Órækja gekk til móts við föður sinn og skipaði sér og liði sínu í brjóst á fylkingu hans. Árni óreiða var þá að að fylkja liði Snorra á norrænu og tókst það heldur ófimlega því að hann var eigi vanur því starfi.
Þorvaldur Gissurarson gekk til Gissurar sonar síns og bað hann hvorigum veita, kvað það vænst til friðar ef hann misjafnaði eigi með þeim fyrir því að áður var lítill liðsmunur og hafði Snorri þó nokkuru meira. Þeir Magnús biskup og Þorvaldur Gissurarson gengu þá til Kolbeins og höfðu mikinn flokk því að biskup kallaði til sín alla lærða menn. Leituðu þeir þá um sættir og lagði Þorvaldur það til að þeir skyldu setja dóm og gera Svein sekjan. Og þetta gerðu þeir. Og kom því svo að því var heitið með griðasetning að allir menn skyldu skiljast óhappalaust á því þingi en öngvar urðu þar sættir.
Þórarinn dó af sárum.
Kolbeinn reið heim af þingi og lauk Magnús biskup öngum gerðum upp með þeim Sighvati því að Sighvatur kom ekki til þings. En hann gerði fyrir víg Kálfs Guttormssonar og Guttorms sonar hans tíu tigi hundraða og greiddi Kolbeinn það allt vel eftir skildögum.
Vinir Kolbeins fýstu hann mjög að sættast við Sighvat og fóru þá enn menn í milli þeirra og kom svo að fundur var lagiður með þeim í Hörgárdal. En er þeir komu til fundarins og menn leituðu um sættir kom því svo að annar hvor þeirra skyldi einn gera og hluta um og kasta til teningum. En er þeir hlutuðu fyrirkast kastaði Sighvatur daus og ás.
Þá mælti einn af fylgdarmönnum Kolbeins: Smátt féll nú úr hendi Sighvati bónda.
En í síðurum köstum kastaði stærra Sighvatur og hlaut hann að gera og lauk hann ekki gerð upp á þeim fundi. En það var þá ráðið að Kolbeinn Arnórsson og Kolbeinn Sighvatsson skyldu ríða suður um land og hafa á öðru hundraði manna og setjast í bú Snorra Sturlusonar þau er hann átti suður þar í Dal undir Eyjafjöllum og á Leirubakka og enn fleiri. Þeir sátu mjög lengi um sumarið á Leirubakka og gerðu þeir þar margar óspektir og rændu víða.
Þórði Sturlusyni þótti sem menn Órækju mundu gera margar óspektir þingmönnum hans ef hann sæti í Saurbæ eða á Hólum. Er það ráð hans að hann dregur saman lið og Böðvar son hans og ríða þeir inn til Dala og svo til Saurbæjar með hálft annað hundrað manna en hina yngri sonu sína lét hann fara á skipum, Ólaf og Sturlu, með sex tigu manna. Fóru þeir á Hóla með liði sínu og tóku þar upp bú allt og fóru síðan aftur til Saurbæjar og finna þar föður sinn. Tóku þeir allt bú það sem þar hafði verið saman dregið. Fengu þeir þá menn til að reka hvorttveggja búið út til Krosssunds en þeir fóru út eftir firði með skipin. Þórður og Böðvar riðu aftur sömu leið með flokkinn.
En þeir er féið ráku fóru til matar í Búðardal en sendu sex menn til matar í Hvarfsdal. Þar bjó sá maður er Eyjólfur tjúga var kallaður og var Erpsson, frændi Þorbjarnar í Búðardal. Hann vildi eigi gefa þeim mat en þeir vildu eigi að síður hafa. Fóru svo þeirra skipti að hann hljóp til eins þeirra og særði þann banasári. Sá hét Hafliði og var ættaður af Snæfellsnesi. Síðan hljóp Eyjólfur í fjall upp og höfðu þeir hans ekki. Fóru þeir þá út eftir strönd og fundu þá bræður Ólaf og Sturlu að Melum og sögðu þeim vígið.
Gengu þeir bræður þá á Langhúf og höfðu þrjá tigu manna og reru um nóttina inn til Búðardals. Voru þeir Þorbjörn og Bárður bræður farnir út til Skarðs að finna Snorra prest Narfason. En er þeir Ólafur komu þar báru þeir út hvatvetna það er laust var.
Þá er Snorri prestur kom leitaði hann um sættir með þeim. Vildi Ólafur hafa sjálfdæmi en Snorri bauð gerð Þórðar föður hans. En það var að sætt að Þórður skyldi gera og skildi Ólafur það til að Sturla skyldi vera í gerð með föður sínum og lét Snorri sér það vel líka. Gekk þá Þorbjörn til handsala fyrir vígið við Ólaf og skildu sáttir.
Fór Ólafur út til Bjarnarhafnar með allt ránféið og sat þar um sumarið og hafði fjölmennt. Þórður hafði fjölmennt og á Eyri um sumarið. En er þetta spurðist til Borgarfjarðar fór sunnan Jón Markússon og Sveinn son hans, Bergur og Ari, og tók Ólafur við þeim öllum og voru þeir þar.
Að áliðnu sumri sendi Snorri Sturluson orð Órækju syni sínum að hann skyldi koma suður þannig með fjölmenni og vill Snorri fara að þeim Norðlendingum er í búum hans sátu. Safnaði hann þá liði um alla Vestfjörðu og hafði á fjórða hundraði manna og fóru suður á sveitir.
En er liðsdráttur var um Rauðasand og Barðaströnd þá sendi Haukur prestur Þorgilsson úr Haga sonu sína, Ólaf og Pál, suður til Eyrar og sögðu þeir Þórði liðsdráttinn og sögðu að suður þannig mundi snúið flokkinum. Lét Þórður þá safna liði fyrir norðan nes en Böðvar fyrir sunnan og fengu tvö hundruð hvorir. En því komu þeir eigi saman liðinu að þeir vissu eigi hvorum megin þeir mundu út nessins.
En þá er Órækja kom í Dali með flokk sinn kom liðið sunnan frá Snorra og sögðu að þeir Kolbeinn voru í brottu af Rangárvöllum og höfðu riðið norður um land og höfðu gert svo mikinn skaða á búum Snorra að það var virt meir en sex tigir hundraða. Snorri bað þá Órækju ekki fara suður þangað og bað hann snúa heim flokkinum ef hann á hvergi annars staðar erindi við menn.
Órækja sneri flokkinum út yfir Rauðamelsheiði og kom í Höfða. Þar bjó sá maður er Fjallgeir hét og synir hans. Þar höfðu þeir mat allir og rændu þó meir en til sex hundraða í öðru, fóru þaðan í Eyjarhrepp og þá í Miklaholtshrepp og fóru með hinni mestu óspekt.
Þórður Sturluson hafði sent Þórð son sinn vestur yfir Flóa með sveit sína og hafði hann vestan alla teinæringa þá er voru fyrir vestan Breiðafjörð og þeir höfðu tólfæring mikinn er átti biskup í Skálaholti. Þórður hafði og mörg skip og stór suður þar fyrir og gengu þeir þar á og reru inn yfir fjörð til Akureyjar. Vildi Þórður bíða þar þess er þeir spyrðu til flokksins en synir hans, Sturla og Þórður, fóru vestur til Meðalfellsstrandar eftir liði og fengu þar fjóra tigu manna. Var þar Guðmundur prestur undan Felli. Böðvar Þórðarson hafði tvö hundruð manna að Stað.
En er njósn kom til hans um ferðir Órækju reið hann suður með tuttugu menn á njósn. En Órækju menn fóru óðfluga um hreppinn og fundu þeir Böðvar eigi fyrr en sumt liðið Órækju var komið lengra út en þeir og höfðu riðið hið neðra. Fengu þeir þá njósn af ferð Böðvars og gerðu Órækju varan við. En er þeir Böðvar vissu þetta tóku þeir það ráð að ríða til borgar þeirrar er stendur suður frá Hörgsholti er bærinn er við kenndur að Borg. Fóru þeir þar á upp.
Órækja reið þannig til með allan flokk sinn en þar mátti ekki atsókn við koma. Fóru menn þá í milli þeirra og leituðu um sættir. Vildi Órækja ekki annað en sjálfdæmi, kallaðist vilja hafa sæmd af því en lést vera ekki fésjúkur. Áttu menn þá hlut að við Böðvar að hann skyldi að þessu ganga sem Órækja bauð. Hét og Órækja því að Böðvar skyldi miklu ráða um sættir með þeim Þórði. En Böðvar var góðgjarn og gekk hann til festu við þenna skildaga.
Og reið hann síðan norður yfir heiði og fann föður sinn í Akurey og fýsti hann mjög sætta og segir að Órækja mundi allgóður drengur af verða ef undir hann væri lagt. En Þórður segir að hann mundi enga drengskaparraun af því hafa að gera um mál hans því að hann lést honum aldrei mundu sjálfdæmi selja en bað sonu sína fara með sínu máli sem þeir vildu.
Órækja reið með flokkinn norður Kerlingarskarð og kom í Bjarnarhöfn í foraðsveðri og tóku bæinn og alla menn þá er heima voru og eltu lömb úr fjalli er bændur áttu og þeir höfðu þangað rekið og höfðu það til matar.
Ólafur sendi Orm Starkaðarson ráðamann sinn með teinæring á njósn til Bjarnarhafnar og vita hvað títt væri um fjölmenni Órækju eða aðra hluti. En er þeir Órækja sáu skipið fóru þeir til sjóvar og kölluðu á þá. Þá reru þeir Ormur til tals við þá Órækju. Þá segja þeir Órækju menn að Ormur væri giftusamlegur maður og slíkir væru líkastir til að koma sættum á með þeim frændum. En Ormi þótti gott lofið þótt hann væri manna ólíklegastur til, bað sína menn róa að landi og kvaðst eiga vilja tal við Órækju. En er þeir gengu á land voru þeir teknir allir og flettir en Órækju menn reru inn í eyjar og til rána og tóku skipið.
Böðvar bað Ólaf að hann skyldi finna Órækju og sagði hann hafa heitið sér vingan ef þeir sættust. Kom þá svo að þeir Ólafur fóru til Bjarnarhafnar og seldi Ólafur Órækju sjálfdæmi en hann gaf upp allt málið og hét vináttu á mót. Skildust þeir með hinum mestum vinmælum.
Sneri Órækja þá flokki sínum inn eftir Skógaströnd og svo heim vestur. Þá er hann var á Reykjahólum lét hann flytja hesta marga í Akureyjar er Þórður Sturluson átti og bað ekki lofs að. Hann hafði og gert bú á Hólum þá er hitt var upp tekið og ræntan Þorgrím að Miðhúsum fimm hundruðum sauða. En Oddur oremus mágur Þorgríms fór þá norður til Sighvats með börn sín Einar og Ingiríði. Síðan fór Órækja vestur heim. Var þá Snorri Magnússon með honum. Skyldi hann þá vera heimamaður í Vatnsfirði. En er þeir komu heim vestur lét Órækja afla til búsins og heldur harkasamlega.
Þá er Ólafur Þórðarson kom heim í Bjarnarhöfn þóttu honum kæld kynni. Var spillt öllum heyjum og borin út, eytt upp sumarbúinu og spillt öllum húsum. Tók hann það ráð að hann færði búið inn í Hvamm. Þar höfðu verið um sumarið sjö kýr en þar taða mikil. Þórður tiggi fór fyrst inn í Hvamm með Ólafi og reið síðan vestur í Vatnsfjörð og tók Órækja allvel við honum og vildi ekki annað en hann væri þar um veturinn og það var og var Órækja allvel til hans. En Þórður gerði sér við engan mann kærra en við Snorra Magnússon.
Maður hét Einar, góður bóndi. Hann bjó norður í Fljóti. Hann var knár og vasklegur maður. Hann hafði komið við hval um sumarið og hafði gnótt föstumatar, riklinga og rafi og fiska. Hann var lítill vin þeirra í Aðalvík Magnúss prests og Snorra sonar hans og vísaði Snorri Órækju þangað til föstumatar.
Órækja sendi norður þangað Maga-Björn og Einar koll með sveit manna. En er þeir fundu Einar föluðu þeir föstumat að honum en hann vildi engan selja og bauð þeim vætt hvals og aðra riklinga. Þeir vildu það ekki og hljópu inn sumir í húsin en Einar hljóp í dyr og hafði sviðu í hendi. Tjörvi húskarl hans fylgdi honum. Einar vann á einum þeirra félaga. Þá hljópu þeir er inni voru á bak honum og hrundu honum út. Tóku þeir hann og lögðu niður en Tannur son Þorkels nadds hjó hann banahögg. Eftir það hlóðu þeir þaðan teinæring með mat og fóru síðan heim í Vatnsfjörð.
Um veturinn var sveitardráttur mikill í Vatnsfirði og var Snorri fyrir sveit annarri og urðu margar greinir í með þeim Órækju áður Snorri stökk í brott með Grímu konu sína fyrir jól. Fór hann þá í Aðalvík til föður síns en margir voru vinir hans eftir í Vatnsfirði, Illugi Þorvaldsson frændi hans, og stökk hann brott eftir jól, Snorri Loftsson, Þorsteinn Gunnarsson, Þórður tiggi, Maga-Björn, Gunnlaugur Hrollaugsson og enn fleiri.
Snorri Magnússon fylltist upp hins mesta fjandskapar við Órækju og dró í það marga bændur þar í Ísafirði, Hjálmssonu, Atla og Þormóð, og sonu Halldórs Ragnheiðarsonar, Halldór og Aron og Rögnvald, sonu Valgerðar úr Ögri, Teit og Pál, og Þorgrím bratt úr Súðavík og gaf hann upp bæinn til þess í Súðavík að Órækja væri inni brenndur ef hann færi í fjörðu út um vorið. Margir aðrir voru í þessum ráðum með Snorra þótt eigi séu hér nefndir. Illugi Þorvaldsson var vitandi þessa máls og fleiri heimamenn Órækju þeir er mestir voru vinir Snorra.
Snorri fór út í Önundarfjörð að finna Guðmund Sigríðarson og vildi koma honum í þetta vandræði og segir honum upp alla þá er í höfðu gengið þetta mál.
Guðmundur var vitur maður og frændmargur. Hann bar málið fyrir Steindór prest í Holti og Steingrím tréfót. Tók Guðmundur það upp að margir vissu og þótti eigi örvænt að upp kæmi fyrir því að þá var löng stund til þess er þeir ætluðu að fram skyldi koma en þóttist vita að allir mundu fyrir stórsökum hafðir þeir er vissu með Snorra ef upp kæmi. Var það ráð þeirra að senda Órækju mann og vara hann og segja honum þessa ráðagerð það er þeir vissu af.
Enn var í Vatnsfirði sveitardráttur mikill. Var fyrir sveit annarri Filippus Kolbeinsson er átti Vilborgu systur Órækju og Játvarður Guðlaugsson, Þórður Tyrfingsson, Sveinn Hemingsson, Hallur Egilsson og margir aðrir. En í annarri var Maga-Björn og Þorkell Eyvindarson og Skofti Illugason, Þórður tiggi. Órækja var heldur með Filippusi.
Það var á föstu er þeir herklæddust hvorirtveggju. En það varð þá til að Skofta hvarf skyrta og fannst á Játvarði Guðlaugssyni. Var það þá af gert að konur hefðu gleymt í þvætti. Aðrir voru í skála en aðrir í stofu. Órækja átti hlut að og sætti þá í því sinni og varð þó engi alvara með þeim.
Í vikunni eftir páskaviku fór Órækja heiman úr Vatnsfirði og hafði mikið skip og margt manna á. En er þeir reru út með Mjóvafjarðarnesi kvað Órækja það upp að þar væru sex menn eða sjö þeir er sannir væru að svikræðum við hann um veturinn. En hver synjaði fyrir sig og buðu eiða fyrir og féll það þar niður.
Reru þeir þá út fyrir Jökulsfjörðu og voru þeir Hjálmssynir á sjó rónir og flestir þeir er hann þóttist sakir við eiga. Reru þeir þá til Sléttu og lýsti Órækja yfir því að hann ætlaði að Snorra Magnússyni. En þess voru margir ófúsir og báðu sér orlofs að fara eigi. Þeir voru eftir á Sléttu Snorri Loftsson og Þorsteinn Gunnarsson, Þórður tiggi og fleiri aðrir.
En Órækja fór til Aðalvíkur og stökk Snorri af bænum og vildi til sjóvar á gnúpinn milli Aðalvíkur og Miðvíkur. Þar mátti ekki ná honum. Hann hljóp á bak húsum í línklæðum einum. Hann var fóthvatur maður. Þeir hljópu eftir honum og buðu honum grið og fékk Hallur Egilsson tekið hann. Órækja kom þá að og bar sakir á hann. Snorri duldi þess ekki og bauð boð fyrir sig en Órækja vildi það ekki heyra, fóru þá með hann heimleiðis. Þá kallaði Órækja Rögnvald Runa-Bjarnarson til að vega að honum og svo gerði hann.
Síðan fór Órækja vestur yfir Djúp að þeim er hann bar fjörráð á og þó lét hann önga menn drepa fleiri en hafði sjálfdæmi af mörgum. Hann fór í Bolungarvík og tók Hólsland af Halldóri Ragnheiðarsyni og fór hann út í Otradal en synir hans Aron og Rögnvaldur stukku suður til Staðar til Böðvars. Hann tók og Súðavík af Þorgrími bratt. En Illuga Þorvaldsson lét hann fara suður til Snorra og fékk til föruneytis við hann Sigmund Gunnarsson.
Þeir riðu til matar í Hvamm og sögðu víg Snorra þeim bræðrum Ólafi og Sturlu. Sögðu þeir róstusamlegt úr fjörðum og létust eigi vita hve Þórður bróðir þeirra mundi undan setja.
Í þenna tíma fór vestan Þóroddur ruggi með sveit sína. Þeir tóku teinæring þann er bestur var í Breiðafirði er Brandagenja hét er Vikar Þorkelsson átti. Þeir fóru í Akureyjar og skyldu færa utan hesta Órækju. Þeir týndust þar allir og svo hestarnir en þessir létust þar: Þóroddur, Loðinn Grímsson, Brandur sléttur og Brandur bróðir Jóns klerks, Úlfur og Hallur.
Þeir bræður Ólafur og Sturla fóru um vorið vestur til Búðardals um stefnudaga og ætluðu að sjá eftir vígsmálinu Hafliða. Þeir Þórður höfðu þá gert um vígsmálið tuttugu hundrað. Þeir fóru upp Þverdal. En er þeir komu vestur að Búðardalsbotni kom þar að móti þeim Grímur Þorgilsson heimamaður Órækju og segir þau tíðindi úr Vatnsfirði að Maga-Björn og Þorkell Eyvindarson höfðu særðan til ólífis Filippus Kolbeinsson. En er Órækja varð var við það varð hann allstyggur. Rak hann þá á brott úr Vatnsfirði. Höfðu þeir gengið að Filippusi í baðstofu og særðan hann þar.
Eftir það stukku þeir brott úr Vatnsfirði sex saman og eru þessir nú hér í Búðardal, Þórður tiggi og Maga-Björn, Þorkell Eyvindarson, Ketill Guðmundarson, Eiríkur bróðurson Guðmundar biskups, Marteinn Miðfirðingur.
Ólafur spurði hvert þeir ætluðu. Grímur kvað þá ætla á fund Þórðar Sturlusonar, sagði að þeir ætluðu að hann skyldi fá Þórði bústað. Síðan ætlaði Maga-Björn að afla til búsins á vestfirsku.
En í ferð með Ólafi voru þeir menn er þegar kváðust skyldu drepa Björn er þeir fyndu hann. Var það Guðmundur hvíti Árnason og hafði Björn flett hann um haustið í Haukadal öllum sínum klæðum og öllu öðru því er hann hafði út haft. En annar var Hjálmur Ófeigsson. Hann hafði verið ræntur í Svefneyjum um haustið þá er Björn rændi á Meðalfellsströnd. En Ólafur vildi eigi að þeir leituðu þar á hann því að hann var þar með Þórði bróður hans. Og var þar lengi til talað áður Ólafur fékk heitorð af þeim að þeir létu kyrrt á þeim fundi.
Eftir það fóru þeir Ólafur í Búðardal og voru þeir Björn þar fyrir og höfðu boðið Þorbirni að vera fyrir öllum hans málum. En Þorbjörn fór út til Skarðs til Snorra og réðu þeir Snorri prestur að Þorbjörn gekk í vígsgjaldið en Eyjólfur fékk honum land sitt í Hvarfsdal og varð sú sætt með þeim Ólafi. Fór hann þá heim í Hvamm en Sturla fór til Saurbæjar og réð búlag við Sverting á Staðarhóli. Þeir Þórður tiggi fóru út í eyjar og ætluðu á fund Þórðar Sturlusonar.
Þetta sama vor um föstu hafði Sighvatur sent norðan Magnús hinn mikla og Odd oremus til Þórðar bróður síns og mælti allvingjarnlega til hans, sagði að hann ætlaði að fardögum í Dali og vildi að þeir fyndust þar og gerðu ráð um hernað þann er Órækja hafði á mönnum þeirra og vinum.
Þórður fór af Eyri heiman laugardag í séttu viku sumars sem hann var vanur að fara til vorþings í Þórsnes en hann vildi þá eigi fara til þingsins því að hann vildi fara til móts við Sighvat. Hann fór um kveldið í Fagurey. Hann hafði sveit manna. Kom þar til móts við hann Snorri prestur Narfason og Atli Bassason og enn fleiri bændur. En er þeir voru mettir gengu þeir til svefnhúss og ætluðu niður að leggjast.
Þá komu þeir Maga-Björn þar og gengu til stofu. Var þá borinn fyrir þá matur. Þórður lét kalla förunauta sína á tal og sagðist vilja láta drepa þá Björn og Þorkel og vildi að þeir næðu áður prestfundi. Hann sagði að Þórarinn staur son Eldjárns Grímssonar skyldi vega Björn en Þorkell broddur son Vermundar píkar skyldi vega að nafna sínum. Ætluðu þeir þá fyrst að bera að þeim borðið en þá var þeim sagt að þeir voru mettir og farnir til hvílu.
Gengu Þórðar menn þá í skála en þeir Björn voru farnir að sofa. Þeir lágu í innanverðum skála báðir í einni hvílu en Jóreiður Konálsdóttir frilla Bjarnar lá í milli þeirra. Þórður tiggi var þá kallaður til föður síns. En svo var til skipað að þeir Þorgils Árnason úr Tjaldanesi og Bárður Snorrason Skarðsprests skyldu taka Björn en Ólafur Sigurðarson, þar bóndi, og Ólafur Hauksson skyldu taka Þorkel. En aðrir förunautar Þórðar önnuðust menn þeirra. Síðan voru þeir leiddir út. Þeir skriftuðust við prest þann er Þorgeir hét og var kallaður Strandasvín.
En er þeir voru skriftaðir gekk Þorgeir prestur til Þórðar Sturlusonar og segir honum að Þorkell bar þá hluti á sig að mér þykir hann eigi dræpur.
Þórður svarar: Þá er honum eigi líft og skal dæma hann að því og hengja hann síðan.
Og svo var gert. Þórarinn staur son Eldjárns Grímssonar vó að Birni og varð hann vel við og mælti fátt. Síðan lét Þórður flytja þá vestur í Gíslasker.
Sturla Þórðarson og Hallur úr Tjaldanesi riðu innan úr Saurbæ um nóttina. En er þeir komu út um Krosssund varð Sturla að sofa og lagði höfuðið í kné Halli.
En er hann vaknaði mælti hann: Svo dreymdi mig sem faðir minn mun heldur harðlega hafa tekið þeim Birni er þeir komu í Fagurey.
En er þeir Sturla komu þannig voru þeir Björn drepnir. Þórður Sturluson fór úr Fagurey inn í Hvamm en Þórður tiggi fór suður til Staðar og Ketill Guðmundarson með honum. En Eiríkur var með Ólafi eftir en Marteinn fór norður til Miðfjarðar. En er Þórður kom í Hvamm var Sighvatur eigi norðan kominn og eigi kom hann á því vori.
Á Meðalfellsströnd að Kvennahvoli bjó Skíði Þorkelsson. Jón son Þorgeirs grunda hafði þar af landi og fylgjukona hans og var illa í búsifjum með þeim. Höfðu þeir Ingimundur bræður tekið af honum hest og enn hafði Skíði hrakt hann í fleira. Og kom svo að Jón stökk í brott og inn undir Fell til Guðmundar. Þeir Skarð-Snorri prestur frændur áttu lítt vini saman en Skíði var mikill vin Snorra prests Narfasonar og hafði það af hans eign er hann vildi til mæla.
Nú er Þórður var í Hvammi bað Guðmundur Jón fara inn þangað og sækja Þórð að sínu máli því að Guðmundur vissi að Þórður var lítill vin Skíða. Hann hafði verið í Hvammsför og gert margan ójöfnuð þingmönnum Þórðar.
Fór Jón inn í Hvamm og með honum Oddur Indriðason er skekkill var kallaður. En er þeir komu í Hvamm vildi Þórður ekki hlýða á orð Jóns. Sótti Jón þá Ólaf að sínu máli og gekk hann á leið með þeim. Sagðist Oddur heyra þau orð Ólafs að Jón skyldi svo næst koma í Hvamm að hann færði honum öxina Droplaugu er Skíði hafði jafnan í hendi en Sturla bróðir Ólafs hafði gefið Sigmundi Snorrasyni.
Jón kom heim föstudag fyrir hvítasunnu og svaf ekki þá nótt. Laugardaginn hvatti hann öxi sína forna og spengda er Jarlabani var kölluð, orkneysk. Guðríður Aradóttir frilla Skíða talaði um að Jón væri með illu bragði og bað Skíða gæta sín. Skíði kvað sér eigi Jón klækismanninn að skaða mundu verða eða hans jafningja.
Laugarnóttina lá Jón í stofu. Þá hljóp Skíði upp í æði og kvað Jón vilja sitja um líf sitt og kvað sig dreyma að hann vildi höggva höfuð af honum. Guðríður hélt honum og svæfði hann og var þá álitlega með þeim sunnudaginn.
En mánadaginn komu þeir neðan úr Arnarbæli Gunnlaugur Indriðason og Guðleifur son Steingríms kumbalda. Þeir mönguðu um hross við Skíða. Þá kvaddi Skíði Jón til að taka hrossin með þeim en þau voru inn frá garði. Hrossin hljópu inn yfir ána til Stakkabergs en þeir gengu eftir. Og er þeir komu á völlinn sest hann niður Skíði og hélt öxinni fyrir sér og studdi tönnunum á forskeftið. Þeir sátu hjá honum en Jón var á bak þeim hjá hrossum. Skíði spurði hvort vera mundi nón og söng pater noster. Guðleifur spurði hvað hann mælti um hrossin.
Mörk, segir hann.
Þá skall honum höggið og tók af höfuðið svo að féll á bringuna. Jón þreif upp öxina og hljóp á bak hrossi Skíða og reið inn á strönd.
Árni Auðunarson reið upp eftir strönd. Hann bjó undir Ytra-Fjalli. Þeir riðust hjá fyrir neðan Vígólfsstaði og segir Þorkell son Árna er reið á baki honum að Jón riði hrossi Skíða. Árni mætti þeim Gunnlaugi og sögðu þeir honum vígið. Sneri Árni þá aftur og elti Jón í fjall upp inn hjá Barkarstöðum en Árni tók hross Skíða og hvarf aftur.
Jón kom í Hvamm og var þar um hríð á laun. Síðan sendi Ólafur Jón á Eyri og fékk Ásgeir frænda Valgerðar til föruneytis við hann. Þeir mættu Halli af Jörfa og Kolbrandi syni Skíða hjá Barði og stökk Jón þar í skóg og lét hestinn en Hallur særði Ásgeir á hendi og hvarf hann aftur í Hvamm. En Jón fór út á Eyri og var þar um sumarið. Síðan var hann að Keldum með Hálfdani og víðara fyrir sunnan land.
Þetta vor fór Órækja um alla fjörðu og tók fé af mönnum. Hann tók Hagalönd af Hauki presti og svo búið en Haukur fór á Eyri til Þórðar og synir hans, Ólafur og Páll, Oddur og Halldóra dóttir hans. Þorgils fór í Tjaldanes og enn mær en Steinólfur í Búðardal. Marga menn rak hann aðra af staðfestum sínum.
Það vor gerði Þórður tiggi bú í Langadal og bjó þar þau misseri en annað vor fór hann í Miðgarða og bjó þar.
Um vorið var það títt fyrir norðan land að Kolbeinn ungi bjóst til utanferðar en ríki sitt og bú fékk hann Sighvati til varðveislu. Sighvatur setti niður á Flugumýri Þórð kakala son sinn og fékk honum allt mannaforráð Kolbeins til meðferðar. Þá var Mörður Eiríksson fylgdarmaður Þórðar og Snorri Þórálfsson er verið hafði með Guðmundi biskupi.
Með Kolbeini fóru þeir Þórálfur Bjarnason og Þórður þumli, Sigurður Eldjárnsson og réðu þeir allir til Rómferðar um veturinn og riðu allir suður og sunnan. Fann Kolbeinn Hákon konung í Björgvin og tók hann vel Kolbeini en ekki gerðist hann handgenginn.
Um sumarið eftir þing var fundur lagður með þeim bræðrum Þórði og Snorra við Sandbrekku. Þórður gisti á Kolbeinsstöðum er hann fór til fundarins og fóru þeir Þorlákur og Ketill feðgar með hreppsmenn sína til fundar með þeim Þórði, því að þá var heilagt.
Þeir Snorri voru sjö saman. Og er þeir komu sunnan að Hítará sáu þeir mannfjölda undir brekkunni. Köstuðu þeir þá um hestunum og hleyptu suður í hraun en Þorlákur og þeir nokkurir saman hleyptu eftir þeim og tóku þá að Svarfhóli. Var þá langt áður Snorri vildi aftur ríða en þó fundust þeir út frá Hrauni og fór alla vega sem best með þeim bræðrum.
Var Þórður undir Hrauni um nóttina en Snorri í Hítardal. Var þá veisla búin í móti honum. Mjöðurinn var borinn í berlum undir Hraun um morguninn eftir. Töluðu þeir þann dag allan. Mæltust þeir þá allvel við og sögðu svo að þeirra frændsemi og vinátta skyldi aldrei skilja meðan þeir lifðu báðir. Var það þá gert til sambands með þeim að Sturla son Þórðar skyldi fara með Snorra og vera með honum. Þá fór og með Snorra Páll son Lofts og voru þeir báðir með Snorra um sumarið.
Þetta sumar sendi Órækja norður til Sighvats Snorra prest Narfason og Guðmund undan Felli og Sverting Þorleifsson til sættaumleitunar og bauð Órækja af sinni hendi að breyta þann veg öllu sem Sighvatur vildi vera láta. En Sighvatur lagði það til að Órækja skyldi fara suður til Borgarfjarðar og setjast á kosti föður síns en síðan skyldi leitast um sætt með þeim frændum.
En er þeir koma aftur safnar Órækja mönnum og fer til Borgarfjarðar með átta tigi manna. Snorri var suður á Bessastöðum um sumarið að búi sínu. En er hann frétti af ferðum Órækju fór hann upp í Stafaholt á skipi og reið svo í Reykjaholt. Hann lét safna mönnum um allt hérað til Reykjaholts.
En Órækja var þá á Seljaeyri er þeir bjuggust utan Andrés son Hrafns lögmanns af Katanesi og Andrés son Gunna Andréssonar en hann var son Sveins Ásleifarsonar. Fyrir þeim hafði Órækja látið taka um veturinn sex tigi vætta mjöls. Fóru þeir til Filippus og Sigmundur Gunnarsson og gerðu þeir þá marga óspekt í þeirri ferð. Andrés Hrafnsson átti sverð gott er hann kallaði Sættarspilli. Þar höfðu þeir allir orð til sent um veturinn, Böðvar frá Stað og Þorleifur úr Görðum og Gissur. Andrés gaf þá Órækju sverðið en hann gaf þegar Markúsi á Melum.
Órækja reið af Seljaeyri upp í Reykjaholt með átta tigu manna. Var þar með honum Markús af Melum, Ásgrímur Bergþórsson, Guðmundur Sigríðarson og flestir hinir stærri bændur úr Vestfjörðum. Í Reykjaholti voru fyrir tvö hundruð manna. Þar var Loftur biskupsson, Ólafur Þórðarson. Þar kom og Þorleifur úr Görðum. Var þar skipað mönnum í virki um allan bæinn en Órækju menn gengu um virkið og varð ekki að sótt. Þeir Þorleifur og Loftur fóru á meðal þeirra feðga og leituðu um samningar. Kom því svo að þeir sem á virkinu voru fundu eigi fyrr en Órækju menn allir voru komnir í húsin og höfðu gengið upp eftir forskála frá laugu. Höfðu þeir Loftur þá samið með þeim feðgum.
Voru þeir þar allir um nóttina. En um morguninn var það samið með þeim að Órækja skyldi taka við Stafaholti. Reið hann þá þangað og tók þar við búi en búendur allir fóru vestur aftur heim. Órækja sat í Stafaholti um haustið og hafði þar mikla sveit manna.
Þeir menn er voru vinir Sighvats ræddu það fyrir Órækju að hann skyldi ríða norður á vald Sighvats og sögðu að þá mundu hans mál best til vegar ganga. Og þar kom að Órækja hlýddi á þetta og reið norður í Eyjafjörð um haustið og með honum Svertingur Þorleifsson og Markús Þórðarson, Játvarður og Þorsteinn Gellisson. Þeir voru níu saman.
En er þeir komu á Grund tók Sighvatur við þeim forkunnar vel og var þar hin fegursta veisla. Skorti eigi góðan mjöð. En er þeir töluðu um mál sín sagði Órækja svo að hann lést því þar kominn að hann vildi að Sighvatur skipaði einn málum þeirra um alla þá hluti er hann taldi á við hann. Hann lést vera ekki fésjúkur en sagði það að Sighvatur mundi ekki vilja minnka hann. Lést honum og það mestu þykja skipta. En við þessi orð Órækju varð Sighvatur ekki búinn til handsalanna og voru þeir þar tvær nætur.
En um daginn eftir bað Órækja reka heim hesta þeirra en þeir gengu í skála að tala. Innti Órækja þá til hvern enda hafa skyldu mál hans, bauð og allt hið sama.
Sighvatur kvað það eitt meðal þeirra er þeir máttu semja en það er þú hefir brotið við Sturlu, þar verður ráð fyrir að gera að hann hafi nefnur og handsöl þau er honum líka.
Þér vil eg bjóða og við þig sættast en fyrir málum okkar Sturlu geri eg ekki ráð fyrr en hann kemur til, segir Órækja.
Og nú er þeir töluðu þetta kom maður í skálann og mælti einmæli við Sighvat. Eftir það spyr Sighvatur Órækju hvern veg hann ætlaði að ríða. Hann lést ætla út til Gása að kaupa sér þarfindi.
Sighvatur tók þá til orða: Þú skalt ríða ekki til Gása. Vil eg að þú ríðir vestur Skjálgdalsheiði eða Villingadalsheiði og ríða nú þegar því að við munum nú ekki greiða héðan frá það er við höfum eigi hér til greitt.
Gekk Órækja þá til hesta sinna og reið brott. Voru þar kveðjur skipulegar. Þá voru og búnir hestar Sighvats og reið hann út eftir héraði.
En er hann kom út frá Eyrarlandi kom þar í mót honum Sturla son hans. Hafði hann riðið frá skipi þegar er hann varð landfastur. Sturla mælti að þá skyldu þeir þegar ríða eftir þeim Órækju en Sighvatur vildi það eigi og riðu þeir heim til Grundar.
Órækja reið vestur um heiði. En er hann reið á Víðimýri var Þórður kakali þar kominn til leiks. Þeir stóðu úti margir saman. Riðu þeir Órækja beint hjá þeim og mæltu hvorigir við aðra. Reið Órækja heim og sat þar um haustið en litlu fyrir vetur reið hann vestur til fjarða.
Þá er Órækja reið vestur gisti hann í Hvammi og voru þeir þar fyrir Sturla Þórðarson og Páll Loftsson. Órækja bað þá báða að þeir skyldu ríða vestur með honum og lagði þar mörg orð til en það varð af að þeir fóru. Þá fór og vestur Svarthöfði Dufgusson og Andrés Hrafnsson. Hann hafði orðið afturreka á Eyrum um haustið.
Þá var í Vatnsfirði allfjölmennt um veturinn og góð híbýli og engi voru þá rán berleg en þó var kveðið á fé bónda um alla fjörðu. Af Álftamýri var rekið sauðfé nokkuð inn á Eyri til brullaups er Sigmundur Gunnarsson fékk Herdísar Hrafnsdóttur.
Snorri Sturluson sendi um haustið orð Böðvari til Staðar og vildi að hann væri í Reykjaholti um veturinn. Fór hann þangað með tólfta mann. Var með honum Einar frændi hans og synir Halldórs Ragnheiðarsonar. Hafði Snorri þá og margt manna.
Um veturinn eftir jól fóru menn þeirra Sighvats og Sturlu vestur til Víðidals og var erindi að bændur skyldu járna hesta sína og vera búnir þann tíma er þeir væru upp kvaddir. En Snorri átti í Víðidal vini marga og þingmenn og gerðu þeir Snorra varan um þetta. En hann tekur það ráð að hann sendi menn vestur til Órækju og segir að þeir hefðu norður um sveitir feðgar mannsafnað og kallaði óráð að sér hver þeirra væri kvíaður.
Þá tók Órækja það ráð að hann sendi menn um alla fjörðu og lét kveðja upp hvern mann er hann fékk. Hann hafði sex hundruð manna er hann kom suður í Dali til Sauðafells. Reið Órækja þá frá liðinu með sveit sína suður til föður síns.
Var þá kominn í Reykjaholt Þórður Sturluson og Þorleifur úr Görðum. Var þar þá ráðagerð mikil. Vildi Órækja að snúið væri á norður með allan afla þann er fengist. Voru þess margir fýsendur þeir er framgjarnir voru en Snorri var eigi búinn til þess að fara að bróður sínum á þeim hátíðum er þá fóru í hönd. Var það þá ráð tekið að þeir sendu norður Sölmund mág sinn og Orm Klængsson að leita um sættir en Órækja fór í Dali að hnekkja vestur flokkinum.
Þá fannst vísa þessi að Sauðafelli ristin á kefli:
78.
Sex hundruð fékk sunda
sólkannaðr hermanna,
frami mun seggs að sögu
sagðr, á skömmu bragði.
Órækja bað auka
aldrdýrð viðu skjalda,
mjög var frægð sú er bil beygði
blekkt, en Snorri hnekkti.
Órækja fór suður í Stafaholt með heimamenn sína og sat þar um föstu. Böðvar fór þá heim út til Staðar en Þórður var í Reykjaholti. Órækja fór um föstuna suður til Kjalarness og fékk þar föng mikil, mjöl og skreið, smjör og hunang er Árni í Saurbæ gaf Órækju.
Í vikunni fyrir pálmasunnudag komu njósnarmenn norðan og sögðu að liðsdráttur væri um allar sveitir norður. Snorri vildi þá ekki liði safna og fór hann brott úr Reykjaholti og suður á Bessastaði með allt skuldalið sitt en Reykjaholt fékk hann í hendur Þórði bróður sínum og eignaði honum búið og það er eftir var. Órækja tók það ráð að hann reið vestur í fjörðu með tólfta mann en Sturla fór á Mýrar út og þeir fimmtán saman og báru mjöl og önnur föng á tólf hestum. Þeir fóru síð úr Stafaholti og út á Álftártungu.
Um nóttina leyndist frá þeim Hjálmur Ófeigsson á jarpskjóttum hesti er Sprógur hét. Hjálmur fór þar til er hann fann Sturlu upp við jökla. Þá var þetta kveðið:
79.
Sénn var síð á hesti
seggr hinn æðrumesti.
Fátt hyggjum þann fríða.
Fús var hann seint að ríða.
Hér má eg hvergi kenna,
hlotið hefir Sprógr að renna,
Hjálm hinn herðiþunna,
hisig suðr um runna.
Þá er Órækja kom í Ísafjörð færði hann föng sín öll út í Æðey og sat þar um vorið.
Þeir Sturla fóru þar til er þeir komu í Bjarnarhöfn. Síðan fór Sturla út á Eyri eftir skipinu Langhúf og komu í Fagurey pálmasunnudag og sátu þar til langafrjádags. Þá féll landnyrðingur. Þeir komu í Vatnsfjörð páskadaginn um messu og reru til matar í Æðey. Lét Órækja þá sækja Langhúf og fór hann hið vestra til Æðeyjar.
Órækja tók um vorið handarmein og lá lengi. Þar var hörð vist því að vor var illt en vetur allgóður. Fjórtán hestar dóu í Æðey uppstigningardag meðan menn voru að mat. Til landauðnar horfði í Ísafirði áður fiskur gekk upp á Kvíarmið. Órækja lét safna í Æðey öllum skipum þeim er vöxtur var að í Vestfjörðum, sum komu úr Hrútafirði.
Sighvatur og synir hans, Sturla og Kolbeinn, Þórður kakali, komu pálmsunnudag í Borgarfjörð með tíu hundruð manna. En er Þórður Sturluson spurði það reið hann í móti þeim og fann Sighvat bróður sinn í Hvítársíðu. Veitti hann Sighvati átölur miklar um það er hann fór að bróður sínum á hátíðum og segir að hann mundi stór gjöld fyrir slíkt taka af guði, gamall maður.
Sighvatur tók undir í gamni og með nokkurri svo græð: Hvorgi okkar þarf nú að bregða öðrum elli. Eða hvort gerist þú nú spámaður frændi?
Þórður svarar: Engi em eg spámaður en þó mun eg þér verða spámaður. Svo mikill sem þú þykist nú og trúir á þinn mátt og sona þinna þá munu fáir vetur líða áður það mun mælt að þar sé mest eftir sig orðið.
Reiður ertu nú frændi, segir Sighvatur, og skal eigi marka reiðs manns mál. Kann vera okkur talist betur í annað sinn þá er við erum báðir í góðu skapi og skal þess að bíða.
Reið Þórður þá í brott.
Sighvatur reið á Síðumúla en Sturla í Reykjaholt og lét sem hann ætti þar einn allt. Tók hann þar undir sig alla eign Snorra í Borgarfirði. Sturla sendi og menn í Stafaholt og tóku þeir þar mat úr kirkju og báru út föstudag um kropning, kölluðu að kirkja ætti ekki að halda bannsettra manna fé. Sturla lagði og undir sig allt hérað og fann Þorleif úr Görðum og játti hann öllu því er Sturla bauð. Eftir það dreifðu þeir flokkunum og fóru synir Sighvats hinir yngri norður en hann reið vestur í Dali og var í Tungu að Jóreiðar um páska og fór síðan norður.
Þá er Snorri spurði að Sturla hafði lagið undir sig hérað allt fór hann brott af Suðurnesjum og suður til búa sinna og þaðan austur í Skál til Orms Svínfellings og var þar um sumarið.
Órækja hafði í Æðey skipabúnað mikinn. En er leið að alþingi lét hann bera föng sín öll á skip og fór út eftir Ísafirði með alla sína sveit. Það var orð á að hann mundi halda öllum skipunum suður á Breiðafjörð eða allt á Borgarfjörð hvað sem síðan gerðist að. En er þeir komu vestur fyrir Dýrafjörð sneru þeir inn í Alviðru öllum skipunum nema ein ferja sigldi vestur fyrir er Stokkur var kölluð. Þeir lögðu að eigi fyrr en í Kópavík. Þar var fyrir Jón Halldórsson úr Eyrarhrepp er hálfprestur var kallaður og Auðun skyti úr Ísafirði. Þá lögðust að stormar miklir.
Það var einn dag er Órækja hafði róið yfir fjörð til Haukadals að skemmta sér að Jón Ófeigsson hafði farið í Arnarfjörð á Kúlu til Ísleifs frænda síns. Honum fylgdi etjuhundur hvítur er hann átti. En er hann var á Kúlu komu menn Sturlu á Eyri. Var þeim sagt að Jón var á Kúlu. Fóru þeir þá á Kúlu og segir Ísleifur að hann væri eigi þar. Þeir sjá hundinn liggja hjá bænahúsi og kenndu. Þóttust þeir þá vita að hann mundi þar inni. Heitast þeir þá að brjóta húsið. Jón gerði þá vart við sig og sömdu þeir það að þeir hétu Jóni griðum þar til er þeir fyndu Sturlu. Þá fór Jón með þeim út í Otradal á fund Sturlu og tók hann allhart á Jóni. Þó fékk hann grið af bæn manna.
Órækju kom njósn í Haukadal og fór hann þá aftur í Alviðru. Gerðist þá kurr mikill í bóndum og voru allmargmæltir og sáttgjarnir.
Sturla spurði er hann var í Otradal til manna Órækju í Kópavík og sendi út þangað Þórð Guðmundarson og Eyvind bratt austmann, Sigmund son Skarðs-Snorra, Guðlaug Gilsson, Eirík birkibein, Þóri jökul, Þórð víti, alls fimmtán menn. Þeir komu í víkina svo að hinir sváfu í tjöldum. Hjuggu þeir á þá tjaldið það er þeim var nær. Var þar í Jón hálfprestur og Auðun skyti. Var Jón veginn en Auðun var höggvinn á vangann og kinnina svo að af féll hárið en trautt dreyrði á kinnina. Var þar og höggvinn Styr Hallsson og Þorgils Saurbæingur og Flóka-Finnur. Þeir hjuggu ofan annað tjaldið. Var þar í Dagur hinn mikli bróðir Játvarðar og Þórarinn bolli og Rögnvaldur son Tanna Bjarnasonar og voru þeir allir út dregnir. Vó sá maður að þeim er Gamli hét, förunautur þeirra sjálfra. Eiríkur birkibeinn gaf grið Halli Egilssyni, Eyvindur brattur Árna bratt austmanni, Guðlaugur Ormi hvíta. Tóku þeir þar öll föng þeirra og fóru síðan til Sturlu.
Sturla flutti lið sitt yfir Arnarfjörð og hafði hann sunnan haft nær fjóra tigi manna en þá hafði hann meir en hundrað er hann kom í Dýrafjörð. Fóru þá menn milli þeirra Órækju og var fundur lagður á Söndum og grið til seld. Fór Órækja yfir Dýrafjörð með sjö tigi manna en Sturla sat í brekkunni ofan frá Söndum með allt sitt lið.
En þeir fundust jafnnær flokkunum með jafnmarga menn. Var þá talað um sættir og þarf þar ekki orð að tína en sættin gekk greiðlega saman. En þær voru málalyktir að Sighvatur skyldi gera og lúka upp að miðju sumri að Keldum. Órækja skyldi fara suður þá þegar með Sturlu og hafa brott úr Vestfjörðum allt sitt. Hann skyldi hafa bú í Stafaholti en Sturla skyldi hafa Reykjaholt og fé Snorra í friði fyrir Órækju. Það var mælt að þá skyldi vel vera með þeim frændum og bíða svo hverjar málalyktir yrðu með þeim Snorra þá er hann væri fundinn.
Þá fór Órækja til Alviðru af fundinum og gerði menn til Ísafjarðar eftir föngum sínum og hestum og lét færa suður. En þeir Órækja fóru þá eftir Sturlu til Arnarfjarðar og fundu hann á Eyri. Fóru suður allir saman til Saurbæjar og stillti Sturla svo til að jafnan mötuðust í sínu húsi hvorir.
Þeir Sturlu menn og þeir Órækja skildu í Tjaldanesi og reið Sturla til þings en þeir Órækja fóru til Stafaholts og dvöldust þar litla hríð áður þeir fóru suður. Fundu þeir þá Sturlu á Bláskógaheiði. Mæltust þeir það við að þeir skyldu finnast að miðju sumri og mundi Sighvatur þá koma að norðan og lúka gerðum upp.
Órækja reið austur í Skál að finna föður sinn og síðan aftur á Rangárvöllu og var í Klofa með Þorsteini presti bróður sínum og beið Sturlu og fundust þeir þar sem mælt var. En Sighvatur kom ekki að norðan og varð engi sætt með þeim að sinni.
Fóru þeir þá allir samt út í Skálaholt að Þorláksmessu og mataðist Órækja og þeir einir í húsi jafnan þá er Sturla var við. Þeir fóru úr Skálaholti allir samt upp í Laugardal og þaðan vestur á Bláskógaheiði þar til er þeir komu til Hallbjarnarvarðna.
Þá segir Órækja að hann vill ríða hinn syðra dal til Stafaholts en Sturla bað hann ríða til Reykjaholts og kallaði margt ótalað. Riðu þá hinn syðra dal sumir menn Órækju, Markús af Melum og þeir feðgar Grímur Þorgilsson og Eyjólfur, Jón Árnason úr Tjaldanesi, en Órækja reið í Reykjaholt og Sturla Þórðarson og Svarthöfði Dufgusson og Egill hagi, Svartur Einarsson, Ásbjörn Sveinbjarnarson, Þorgeir stafsendi og Svertingur Þorleifsson.
Þeir Órækja mötuðust í litlustofu um kveldið en um morguninn er þeir gengu frá messu fóru þeir í stofu. Þá var Órækja kallaður í litlustofu og Sturla Þórðarson. Litlu síðar kom Sturla Sighvatsson í stofudyr þær er eru frá litluhúsum og kallaði Sturlu Þórðarson til sín og gengu þeir í loft það er þar var.
Tók þá Sturla Sighvatsson til orða: Þér var kunnigt nafni um sætt vora í Dýrafirði. En nú kom faðir minn ekki til. En svo var mælt að Órækja skyldi hafa Stafaholt og búa þar en eg hér og þykir það eigi heillegt að hann sitji svo nær við lítið efni en eg svima í fé Snorra. Er þar nú hnefað um annað ráð að eg ætla að hann skuli fara norður í Skagafjörð og þar utan og mun nú skilja yðart föruneyti.
Tók hann þá til sverðsins Kettlings er lá hjá þeim er Sturla Þórðarson hafði í hendi haft. Gengu þeir þá til stofu og í durum komu í móti þeim menn Órækju og voru þá allir flettir vopnum og klæðum. Var þeim þá fylgt í loftið og þar settir menn til gæslu.
Þá kom Þorleifur með sveit sína. Hann var í Bæ um nóttina og hafði riðið ofan Flókadal því að hann var og suður þar með Sturlu. Þorleifur var nú settur til að gæta Órækju manna.
Sturla reið nú á brott með Órækju upp til jökla og Svertingur með honum einn hans manna. Þeir riðu upp á Arnarvatnsheiði þar til er þeir koma á Hellisfitjar. Þá fara þeir í hellinn Surt og upp á vígið. Lögðu þeir þá hendur á Órækju og kvaddi Sturla til Þorstein langabein að meiða hann. Þeir skoruðu af spjótskafti og gerðu af hæl. Bað Sturla hann þar með ljósta út augun en Þorsteinn lést ekki við það kunna. Var þá tekinn knífur og vafiður og ætlað af meir en þverfingur. Órækja kallaði á Þorlák biskup sér til hjálpar. Hann söng og í meiðslunum bænina Sancta María, mater domini nostri Jesu Christi. Þorsteinn stakk í augun knífinum upp að vafinu. En er því var lokið bað Sturla hann minnast Arnbjargar og gelda hann. Tók hann þá burt annað eistað. Eftir það skipaði Sturla menn til að geyma hans en Svertingur var þar hjá Órækju.
En þeir Sturla ríða þá í brott og ofan í Reykjaholt. Lét Sturla þá fara á brott menn Órækju og héldu þeir flestum föngum sínum en hestar Órækju og vopn voru tekin.
Þá er þeir Sturla og Svarthöfði komu til Hvítár kom þar á mót þeim Játvarður Guðlaugsson. En er þeir segja honum þessi tíðindi lést hann vilja upp í hellinn að finna Órækju en þeir löttu þess. Hann vildi fara eigi að síður og kallaði sig eigi saka mundu er þar var Þórir jökull móðurbróðir hans. Sturla bað hann skunda aftur af fjallinu og út til Staðar að segja þeim tíðindi slík er hann yrði vís.
Arnbjörg var í Stafaholti og sendi Sturla Þórðarson orð að hún skyldi og til Staðar í mót föngum sínum er þar voru komin á skipum þeim er vestan höfðu farið. Reið Svarthöfði þá vestur í Hjarðarholt en þeir Sturla út til Staðar, þaðan til Helgafells að láta skrifta sér og svo á Eyri til Þórðar. En Þórði þóttu skriftir Sturlu of miklar og kvað hann skyldu fara í Skálaholt á fund biskups. Fóru þeir þá til Staðar og var þar komin Arnbjörg og Játvarður og segir hann þau tíðindi í hljóði að Órækja hefði sýn sína og var heill. Hann bað þau ríða mót sér ef þá mættu þeir með nokkuru móti því að Sturla var þá riðinn norður um land.
Þau Sturla Þórðarson og Arnbjörg riðu þá suður, Játvarður og Ingjaldur Geirmundarson, Hrafn Einarsson, Ásbjörn Sveinbjarnarson. En er þeir komu í Borgarfjörð var Órækja brott úr hellinum. Hafði hann riðið suður um land við þriðja mann. Riðu þau þá til Skálaholts og kom Órækja þá til móts við þau austan úr Klofa og var hinn hressasti.
Allvel tók Magnús biskup við þeim og leysti þá miskunnsamlega. Fékk hann Órækju tíu hundruð vaðmála og lagði það til með honum að hann skyldi utan, sagði að hann mundi öngva uppreist hér fá sinna mála.
Riðu þeir Órækja þá ofan á Eyrar og tók hann sér far með Andrési Hrafnssyni. Þá fór utan á Eyrum Magnús sonur Guðmundar gríss. Hann var kosinn til biskups í Skálaholti og Kygri-Björn er Norðlendingar höfðu kjörið til biskups.
Maríumessudag er Órækja var á Eyrum sigldi þar af hafi knörr einn lítill og var þar á Kolbeinn ungi og þeir félagar og varð þar fagnafundur með þeim Órækju mágum. Tók Kolbeinn þá við Arnbjörgu systur sinni og fór hún norður með honum.
Þeir Sighvatur gáfu honum upp bú sitt og ríki og fór þeim það betur en getið var til þeirra.
Órækja fór utan á Eyrum og réð til suðurferðar um veturinn. Hann fann í Danmörku Valdimar konung hinn gamla og orti um hann vísu en konungur gaf honum hest þann er hann reið suður og sunnan. Fóru þeir Kygri-Björn báðir samt suður og sunnan þar til er Björn andaðist.
Menn Órækju fóru af Eyrum. Fór Sturla heim á Eyri og var þar um veturinn og þeir þrír saman, Ingjaldur og Hrafn Einarsson. Þenna vetur bjó Ólafur Þórðarson að Borg. Hann hafði þangað fært sig um vorið úr Hvammi að ráði Snorra. Þenna vetur voru þeir allir bræður jafnan að Stað með Böðvari.
Með þeim Sturlu Sighvatssyni og Þorleifi í Görðum tók að grennast mjög vinátta eftir meiðingar Órækju. Gekk Þorleifur illa undir flutningar Sturlu en hann þurfti mikils við er flutt var úr Engey, bæði mjöl og skreið en sumt keypt á Akranesi.
En er Snorri spurði austur í Skál að fátt var með þeim sendi Snorri menn ofan til Þorleifs en sumir fóru allt til Staðar og á Eyri. Um veturinn eftir jól fór Snorri úr Skál fyrst í Dal til bús síns en síðan vestur í Ölfus til Gissurar Þorvaldssonar og svo á Bessastaði.
En er þetta spyr Sturla Sighvatsson sendi hann vestur í sveitir eftir mönnum og kom vestan lið mikið til Borgarfjarðar. Síðan safnaði hann liði þar um öll héruð og fór út fyrir Hafnarfjall. Þorleifur safnaði liði um nes út og sunnan um fjörð það er hann fékk og ætlaði í mót. Þá fóru menn í millum þeirra og var komið á stefnulagi með þeim og fundust þeir á Melum. Fór þá enn skipulega með þeim við fortölur Böðvars og annarra vina hans.
En er þeir voru skildir sögðu sitt hvorir frá tali þeirra en þó dreifðu þeir flokkunum. En litlu var það síðar er miklu var verr en áður. Gerðu þeir þá spott mikið að Reykhyltingum fylgdarmenn Þorleifs, Þorkell faxi og Guðlaugur ausuglamur.
Snorri fór af nesjum suður til Reykja og var með Gissuri um föstuna. Var þá allvel með þeim mágum. Góð orð fóru þá í millum þeirra Gissurar og Sturlu.
Kolbeinn ungi bjó á Flugumýri. Hann hafði margt röskra manna með sér. Guðmundur Ásbjarnarson var með honum eftir víg þeirra feðga Kálfs og Guttorms. Þar var þá og Þórálfur Bjarnason. Með þeim Guðmundi og Þórálfi var jafnan fátt.
Guðmundur kvað vísu:
80.
Beiddist illra orða
umsnuðrandinn borða.
Fæddr var á beinum börðum
barkhrjóðr í Austfjörðum.
Eltr var austan glanni,
ógiftan skaut manni,
háð samir mystumeiði,
yfir Möðrudalsheiði.
Sá atburður varð á Flugumýri tveim vetrum eftir víg þeirra Kálfs feðga að þeir sátu að tafli Kolbeinn ungi og Guðmundur, tefldu kvotru þar á gólfinu í stofunni þrem nóttum eftir jól. En er hringdi til aftansöngs gekk Kolbeinn til kirkju og margt manna með honum. Guðmundur sat eftir og batt saman taflið. Þá kom Þórálfur í stofuna og Helga húsfreyja Sæmundardóttir. Þeir menn voru á Flugumýri er annar hét Skálp-Bjarni en annar Böðvar. Þeir voru bræður og var fjandskapur með þeim og Guðmundi. En er Kolbeinn var út genginn þá höggur Bjarni til Guðmundar og kemur á fyrir ofan kné. Var það mikið sár. Guðmundur vildi upp standa og hafði fyrir sér borðtaflið. Böðvar hjó þá í höfuðið og var það banasár. Báðir unnu þeir á honum.
Helga og Þórálfur skutu þeim á braut. Varð Kolbeinn eigi fyrr var við en þeir voru svo langt komnir að þeir urðu eigi áhendir. Þeir fóru austur í fjörðu. Þórarinn Jónsson kom þeim utan. En Kolbeinn var hinn reiðasti en þó varð engi hefnd eftir Guðmund og engar fébætur.
Þá er þeir höfðu sæst í Flatatungu Sighvatur og Kolbeinn og Órækja fór Guðmundur biskup með Kolbeini á Flugumýri en síðan fór hann út til Hóla og var þá ekki langvistum brott frá Hólum þaðan frá meðan hann lifði. Var hann þá jafnan í lítilli stofu og tveir klerkar hjá honum, Helgi bróðurson hans og Þorkell son Ketils Ingjaldssonar. Lifði hann þá líkara hljóðlátum og rólyndum einsetumanni heldur en harðlyndum og hlutsömum ljóðbiskupi sem óvinir hans höfðu orð á. Tvo vetur fulla var hann þar og það hins þriðja sem hann lifði. Löngum var hann lítt heill því að hann var eigi bókskyggn þá er hann fór úr Höfða en blindur með öllu hinn síðasta vetur er hann lifði. Andlitsmein hafði hann og lá verkur í hinni hægri kinn ofan frá auganu. Hann söng löngum eða lét lesa fyrir sér sögur heilagra manna á latínu þá er hann vakti.
Þann vetur er nú var frá sagt og Sturla fór á Mela kom norðan frá Hólum litlu fyrir föstu á Eyri til Þórðar Magnús tölusveinn. Hann var munkur og ekki merkur en miðlungi réttorður. Hann sagði Guðmund biskup hafa sendan sig til Þórðar. Þeir töluðu á þverpalli og kallaði Þórður til Sturlu son sinn að heyra tal þeirra. Þórður spyr að erindum hans.
En hann segir að biskup sendi honum ástarkveðju og bað mig það segja þér að þú skyldir ekki efast í að þið munduð finnast í vor.
Það þykir mér nú ólíklegt, segir Þórður, er hvorgi okkar er til langferða felldur.
Þetta sagði hann þó, kvað Magnús.
En hvað talaði hann um mótgangsmenn sína?
Um talaði hann nokkuð, segir Magnús. Hvað? segir Þórður.
Hann kvað fáa vetur mundu líða áður mótgangsmenn hans mundu hendur á leggjast og þeirra afkvæmi og drepast niður sem vargar, kvað þar mundu mest eftir verða er þá var mestur uppgangurinn.
Margt sagði hann annað þó að hér sé eigi ritað í þessari sögu.
Þenna vetur hinn sama tók Guðmundur biskup sótt litlu fyrir langaföstu þunga og hljóðlega. Í þeirri sótt lá hann fram um Gregoríusmessu en hana bar á milli imbrudaga. En föstudaginn lét hann Jón prest lærdjúp ólea sig við fullting djákna sinna og annarra lærðra manna þar heima. Eftir það vildi hann það eitt mæla er nauðsyn krafði. Til fás skipaði hann áður hann var óleaður nema skipti bókum með nokkurum klerkum sínum. En miklu áður hafði hann fyrir sagt um leg sitt í stúkunni suður af kirkju á millum presta tveggja er hann hafði þar jarða látið. Hann sagði hvern mann eiga í berri moldu að andast. Nú liðu stundir fram um drottinsdag og dró að um mátt hans stund frá stundu svo að annan myrgin vikunnar sáu þeir er við voru staddir að stundar bið var sem reyndist. En á fjórðu stundu þessa dags andaðist hann og hinum sétta vetri hins átta tigar aldurs síns.
Í andlátinu hófu þeir Helgi og Þorkell hann af klæðum á fjöl ösku dreifða og þar á höndum þeim skildist öndin við líkamann. Og þar á fjölinni minntust þeir við hann og báru mikinn harm af því stríði er þeir skildust svo langælega við sinn föður því að þeir höfðu frá barnsaldri af honum þegið föðurlega ást og blíðu.
Finnst og varla á voru landi eða víðara sá maður er þokkasælli hafi verið af sínum vinum en þessi hinn blessaði biskup svo sem votta bréf Þóris erkibiskups eða Guttorms erkibiskups eða hins ágæta konungs Hákonar og margra annarra dýrðlegra manna í Noregi að þeir unnu honum sem bróður sínum og báðu hann fulltingis í bænum sem föður sinn.
Lík Guðmundar biskups var náttsett þar í stofunni. Hinn þriðja dag var til kirkju borið og skrýtt. Kom þá til Eyjólfur prestur af Völlum og gaf til gull það er hann hafði í gröf. Allir dáðu er sáu þenna líkama og kváðust aldrei séð hafa dauðs manns hold jafn bjart eða þekkilegt sem þetta. Jón prestur söng líksöng en Kolbeinn kaldaljós þakkaði líkferðina og mælti fagurt erindi yfir greftrinum.
Þá er lík herra Guðmundar biskups var nú til kirkju borið til graftrar báðu formenn kirkjunnar hringja sem flestum klukkum. Var þá hringt tvennum og skalf mjög kirkjan er hún var gömul. Þá bað Jón prestur hringja öðrum tvennum og var svo gert. Þá fundu þeir mun á að kirkjan var þá fastari en áður. Þá bað hann hringja öllum klukkum og svo var gert. Og hafa svo þeir menn sagt er þar voru við að þá skalf kirkjan ekki og þótti það merkilegur minnilegur hlutur. Og margir merkilegir hlutir urðu á þann dag er biskup var grafinn þótt hér séu eigi ritaðir og hugguðust þeir er hryggir voru.
Þetta bænahald var vanur að hafa Guðmundur biskup þá er hann lifði. Hvern morgun er hann vaknaði signdi hann sig fyrst og söng þetta: Adesto Deus unus omnipotens, pater et filius et spiritus sanctus etc., þá Credo in Deum, þá Confiteor, þá bæn þessa Omnipotens sempiterne Deus qui es ternus et unus etc., þá Assidue nobis etc., þá Pater noster og nokkura Davíðssálma, þá Domine exaudi orationem meam og margt annað fleira þótt þess eigi sé hér getið. Vonum hann meðtekið hafa himnaríki og eilífa gleði með öllum heilögum guðs útvöldum mönnum. Amen.
Þórður Sturluson tók sótt á föstunni er á leið. Var þá sent eftir Böðvari syni hans og þar voru þá við allir synir hans og margir vinir. Ámundi Bergsson gekk næst honum og talaði flest við hann. En er sóttin herti að honum bað Ámundi hann þá skipa til um eignir sínar.
En Þórður bað þá Hauk prest Auðunarson vita við Böðvar hvern veg honum væri gefið um tilskipan hans því að hann er arfi minn.
En Böðvar bað hann skipa öllum sem honum líkaði. Síðan lét Þórður hafa hundrað hundraða hvern þeirra Ólaf og Sturlu en átta tigi hundraða hvern Þórð og Guttorm. Valgerður hafði og hundrað hundraða en hver hinna hans dætra fjóra tigi hundraða. En Böðvar hlaut þá enn fimm hundruð hundraða. Sturla hafði Eyri og skyldi þá þegar taka við búi. Eftir það var hann óleaður er hann hafði til skipað.
En hann andaðist föstudag fyrir pálmsunnudag að miðjum degi og söng í andlátinu Pater in manus tuas commendo spiritum meum eftir Hauki presti.
Lík Þórðar var þar jarðað á Eyri sem hann hafði fyrir sagt fyrir framan kirkjuna. Hann hafði tvo vetur hins átta tigar er hann andaðist.
Magnús biskup andaðist það sumar hið næsta eftir degi fyrir Maríumessu fyrri. Þorvaldur Gissurarson kanoki hafði andast tveim vetrum fyrr en þeir Magnús biskup bróðir hans og Þórður Sturluson og er ártíð hans Egedíusmessu. Á því ári er Þorvaldur andaðist dó Flosi munkur Bjarnason og Sigurður Ormsson og Digur-Helgi.
Gissur Þorvaldsson bjó að Reykjum í Ölfusi þau misseri er þeir önduðust Magnús biskup og Guðmundur biskup. Hann gerðist höfðingi mikill, vitur maður og vinsæll. Þá hafði hann átta vetur og tuttugu. Þá var liðið frá hingaðburð vors herra Jesú Kristi tólf hundruð þrír tigir og sjö ár. Hafði Gissur gerst skutilsveinn Hákonar konungs frænda síns þá er hann skorti vetur á tvítugan.
Í þenna tíma var svo mikill ofsi Sturlu Sighvatssonar að nær öngvir menn hér á landi héldu sér réttum fyrir honum og svo hafa sumir menn hermt orð hans síðan að hann þóttist allt land hafa undir lagt ef hann gæti Gissur yfir komið.
Gissur var meðalmaður á vöxt og allra manna best á sig kominn, vel limaður, snareygður og lágu fast augun og skýrlegur í viðbragði, betur talaður en flestir menn hér á landi, blíðmæltur og mikill rómurinn, engi ákafamaður og þótti jafnan hinn drjúglegsti til ráðagerðar. En þó bar svo oft til þá er hann var við deilur höfðingja eða venslamanna sinna að hann var afskiptalítill og þótti þá eigi víst hverjum hann vildi veita. Hann var frændríkur og flestir hinir bestu bændur fyrir sunnan land og víðar voru vinir hans. Þá var og vel með þeim Snorra Sturlusyni.
Ólafur Þórðarson hafði ort drápu um Þorlák biskup um veturinn næsta fyrir andlát Magnúss biskups. Hann fór um föstuna suður í Skálaholt og gaf sér það til erindis að færa drápuna. En hann vildi þó hitta Snorra Sturluson sem hann gerði þá er hann fór sunnan. Var Snorri þá að Reykjum með Gissuri. Sagði hann Ólafi að hann ætlaði eftir páska til Borgarfjarðar og vildi þá að vinir hans kæmu til móts við hann þeir er honum vildu lið veita. Ólafur fór heim að páskum.
Á föstunni þá er Ólafur var sunnan kominn kom sá maður til Borgar er kallaðist sendimaður Snorra og leyndu þeir Áskell Ólafsson honum og Ólafur Þórðarson þar í hlöðu nokkurar nætur og töluðu þeir marga hluti um málaferli og ferðir Snorra. En þenna mann hafði sent Sturla Sighvatsson og gerði þessi maður honum kunnigt allt þeirra tal.
Maður hét Hafliði Höskuldsson bróðir Sighvats auðga. Hann dreymdi um veturinn eftir jól þá er Melaför var að hann var úti staddur á Kolbeinsstöðum. Þar átti hann heima í Haugatungu. Hann sá að leikur var sleginn þar skammt frá garði og voru karlar einir að. Það var knattleikur. Þá gekk gráklæddur maður mikill ofan frá Mýdal og biðu þeir þess að leiknum. Þeir fréttu hann að nafni.
Hann kvað:
81
Kár kalla mig,
em eg kominn héðra,
heim að skelfa
og hugi manna,
borgir brjóta
og boga sveigja,
elda að auka
og aga að kynda.
Eða hví leikið þér nú eigi?
Þeir sögðust öngan hafa knött.
Hér er, segir hann og brá steini undan kuflinum og laust einn til bana. Síðan tók hver að öðrum þann stein og börðust með en allir féllu þeir er fyrir urðu.
Hann dreymdi og annan draum litlu síðar að hann þóttist vera í Fagraskógi og þóttist sjá upp eftir Hítardal og sá ríða ofan eftir dalnum flokk manna. Kona fór fyrir liðinu mikil og illileg og hafði dúk í hendi og á rauftrefur niður og blæddi úr. Annar flokkur fór á mót þeim frá Svarfhóli og mættust út frá Hrauni og börðust þar. Kona þessi brá dúkinum yfir höfuð þeim og er raufin kom á hálsinn þá kippti hún höfðinu af hverjum þeirra.
Hún kvað:
82.
Veg eg með dreyrgum dúki,
drep eg menn í hyr þenna,
en hlægir mig eigi,
ill vist þar er þeir gista.
Þá er Sturla Sighvatsson hafði grun af um samdrátt þeirra Snorra og Þorleifs gerði hann menn vestur í fjörðu eftir liði og norður í Reykjardal eftir Kolbeini bróður sínum og Hrafnssonum og dreif að honum lið mikið. Í páskavikunni kom vestan Gísli af Sandi og Ásgrímur Bergþórsson og mikið fjölmenni úr öllum sveitum vestan. Hann dró og lið að sér um Borgarfjörð og hafði eigi færra en fimm hundruð manna.
Snorri kom sunnan í páskavikunni og drógu þeir Þorleifur þá lið saman af Rosmhvalanesi og um öll nes fyrir sunnan Borgarfjörð og höfðu þeir nær fjögur hundruð manna er þeir fóru utan á Skarðsheiði. Námu þeir staðar á Miðfitjum og gerðu ráð sín.
Vildi Snorri ríða upp þegar um nóttina og láta skipta um með þeim, sagði vera mega að þeir yrðu eigi við búnir eða komi sér eigi saman ef þá bæri skjótt að en Þorleifi þótti það ófæra að hætta á svo mikinn liðsmun sem hann hugði að vera mundi. Þá vildi Snorri að þeir hyrfu aftur en Þorleifur vildi það eigi og kvað þá mundu herja út þann veg og sagði þá mundu öngu eira. Þá spurði Snorri hvert ráð hann vildi hafa. Þorleifur bað þá ríða upp í hérað og fá sér vígi og sættast þaðan að því er auðið yrði, kallaði mega verða að skipti þeirra færu svo sem um veturinn á Melum. Snorri lést þess geyma mundu að hann kæmi aldrei á vald Sturlu eða annarra óvina sinna hvað sem annað legðist fyrir. Tala þeir þar um til þess er Snorri ríður frá við annan mann og fer suður á nes en Þorleifur fer upp í hérað með flokkinn og fór um kveldið á borgina hjá Vatnshömrum. Í Borgarfirði koma þeir til Þorleifs Oddur Sveinbjarnarson og Ólafur frá Borg með sveit manna. Lið Þorleifs var vel búið að vopnum og margt hafði hann röskra manna með sér.
Týsdaginn eftir páskaviku reið Sturla heiman úr Reykjaholti. En er hann kom í Kálfanes var Þorleifur þar fyrir með flokk sinn og hafði hann þar fylkt á melunum við himni að sjá. Sáu þeir Sturla að fylkingin var löng og þunnskipuð er þeir sjá himininn milli mannanna.
Þá var leitað um sættir og fór Böðvar í milli. Sturla vildi þá öngva sætt nema sjálfdæmi, kallaðist af sér skyldu reka slyttmæli að sinni. Böðvar bað Sturlu mjög sætta. Var þá svo komið að Sturla harðnaði í ummælum en Þorleifur neitti sjálfdæmi. En Sturla vildi þá öngvan kost annan en þeir Þorleifur legðu vopn sín öll á víðan völl og gengju frá en menn Sturlu skyldu taka öll fyrir sættir en Þorleifur kom sér ekki að því.
Gengu þeir þá til hesta sinna og riðu heim til Bæjar og skipaði Þorleifur þar liði sínu til varnar á húsum og um kirkjugarð. Var Þorleifur á húsum þeim er eru í útnorður frá kirkju. Hafði hann þar handboga og Jósteinn glenna austmaður hans. Fyrir austan kirkju var Klængur Bjarnarson úr Brautarholti og Kjalnesingar en fyrir framan Markús Þórðarson og Akurnesingar. Þar var og Ólafur Þórðarson. Nesjamenn voru flestir á húsum. Jörundur hinn mikli úr Hvammi var á forskála milli húsa og kirkju.
Sturla bað sína menn ríða eftir þeim. En er þeir sóttu heim að Bæ reið Böðvar hjá Sturlu og leitaði jafnan um sættir. En er Sturla sá viðbúnað á húsunum þá lét Sturla taka Böðvar þar hjá garðinum og fékk menn til að geyma hans, Einar son Jóns Loftssonar heimamann sinn og Þórarin prest Vandráðsson og enn fleiri menn. En Sturla reið heim á bæinn og skipaði sínum mönnum til atgöngu.
Gengu sveitungar hans framan að kirkju en Ásgrímur Bergþórsson og þeir Gísli austan. Kolbeinn Sighvatsson var fyrir Reyknesingum og Króksfirðingum og gekk fast að. Vestfirðingar sóttu að húsunum.
Þorleifur skaut af handboga og var allskeinuhættur en af Jósteins skotum varð ekki og lét Þorleifur illa að honum. Þórður djákn Símonarson hélt skildi fyrir Þorleifi. Var þar harður bardagi og gekk mest grjót öndverðan bardaga. Það var og snemma fundarins er Eiríkur birkibeinn lagði Mána Ívarsson í gegnum fyrir framan kirkju en svo segja menn að Aron son Halldórs Ragnheiðarsonar gengi fyrstur á húsin. Gengu menn þá eftir honum en þá brast flótti á Nesjamenn. En þó varð enn hörð hríð um stund áður þeir flýðu af húsunum og norður til kirkjugarðsins. Jörundur hinn mikli flýði eigi og var særður til ólífis á forskálanum og varðist alldrengilega. Þórður djákn er skildi hélt fyrir Þorleifi fékk steinshögg og kom á skjöldinn og bar hann að andlitinu og lamdist tanngarðurinn og varð síðan lítið af honum. Var þá flóttinn kominn í kirkjugarðinn. Sá Þorleifur það að eigi var auðvelt að komast í kirkjuna. Sá hann og að þá var um skipt sigrinum. Fór hann þá til kirkju og komst inn lítt sár. Þá flýðu og allir til kirkju þeir er því komu við en svo var þröngt að kirkjunni að eigi komst helmingur inn þeirra er vildu og lá þá valurinn fyrir durum kirkjunnar. En Sturlu menn gengu þá að og lögðu og hjuggu sem þeir komust við. Lést þar þá margt manna en fjöldi varð sár áður Sturla veitti atkvæði að hætta skyldi áverkum við menn.
Þessir menn létust þar af Þorleifi: Helgi Jónsson bróðir Bjarnar í Kvíguvogum, Sveinbjörn Styrkársson, Sigurður Tryggvason og Atli. Þessir voru af Rosmhvalanesi: Þórólfur úr Viðey, Guðmundur Bárðarson, Atli af Valdastöðum, Oddleifur úr Hækingsdal, Guðmundur djákn Indriðason.
Þessir voru úr Kjós: Þórir Egilsson, Þorbjörn Gunnarsson úr Svínadal. Þessir voru af Akranesi: Sörli Sveinsson, Sigurður Sölvason, Ólafur Böðvarsson, Þorkell Jónsson, Guðlaugur ausuglamur Halldórsson, Már og Oddur úr Leirárgörðum, Sigurður Illugason, Steinþór, Vigfús Þórðarson, Guðlaugur Jónsson af Melum, Skeggi Guðlaugsson af Ási, Þorsteinn Gilsson af Narfastöðum, Gunnar Bárðarson, Máni Ívarsson, Illugi Jóðhildarson, Sölvi háleggur, Eyjólfur Gunnarsson.
Þessir af Sturlu: Arnór Bergsson og Koðrán Sörlason. Ögmundur Guðmundarson var særður til ólífis og drukknaði í Hvítá er hann fór heim.
Hefir það mælt verið að tuttugu og þrír menn yrðu sárir af Sturlu. Fjöldi manna varð sár af Þorleifi og hinir bestu bændur; Hafurbjörn Styrkársson, Runólfur bróðir hans er síðan var ábóti í Viðey, Jörundur hinn mikli, Koðrán Svarthöfðason.
Um myrgininn eftir gengu þeir Þorleifur úr kirkju til griða og seldu allir Sturlu sjálfdæmi. Var þá ráðið að Þorleifur skyldi utan fara og Ólafur Þórðarson og enn fleiri þeir er þar voru.
Sturla fór eftir fundinn út á Garða og var þar rænt mörgu. Nær þrem tigum yxna voru þaðan rekin en hundrað geldinga lét hann reka um haustið til Sauðafells. Tekin var og úr Görðum skemma góð og færð út í Geirshólm. Víða var annarstaðar rænt, í Saurbæ og í Hvammi og þar um sveitir.
Sturla seldi Reykjaholt í hendur Þorláki Ketilssyni en fór um vorið til Sauðafells og gerði þar bú. Hrafnssonu lét hann fara vestur í fjörðu og tóku við búi sínu. Sturla fór um vorið norður til Eyjafjarðar að finna Sighvat föður sinn. Hann tók við honum allvel og var margtalaður um bardagann í Bæ og þó með eljaraglettu nokkurri.
Hann spyr þá Sturlu: Hefir þar enn bardagi hjá yður verið frændi?
Svo létum vér, kvað Sturla.
Skammt hefir það él verið, segir Sighvatur.
Eigi þótti oss allskammt, segir Sturla. Allmjög þykist þú nú upp hafa gengið, segir Sighvatur, og það er svo auðséð.
Hví mun eigi svo þó? kvað Sturla og svaraði við brosu, en ekki hefi eg þar orð á gert.
Þá mælti Sighvatur: Bú muntu nú ætla að efna frændi er mér er sagt að þú hafir af höndum látið Reykjaholt. Sérð þú nú og ofsjónum yfir flestum bústöðum. Eða hvar skal staðfestu fá þá er þér þykir sæmileg?
Þig læt eg nú allt að gera, segir Sturla.
Ekki er um fleiri að leita en tvo, segir Sighvatur, þegar frá eru teknir biskupsstólarnir. Er þar annar Oddastaður en annar Möðruvellir í Hörgárdal. Þeir eru bústaðir bestir og munu þér þykja engis til miklir.
Þessir líka mér báðir vel, segir Sturla, en eigi ætla eg þá lausa liggja fyrir.
Margs þarf búið við frændi, segir Sighvatur. Ráðamann þyrftir þú og ráðakonu. Þessir menn skyldu vel birgir og kunna góða fjárhagi. Þessa menn sé eg gjörla. Það er Hálfdan mágur þinn á Keldum og Steinvör systir þín. Þessi starfi er þeim fallinn í besta lagi.
Þá svarar Sturla: Þessa er víst vel til fengið.
Þá þarftu smalamann að ráða í fyrra lagi, segir Sighvatur. Hann skyldi vera lítill og léttur á baki, kvensamur og liggja löngum á kvíagarði. Þann mann sé eg gjörla. Það er Björn Sæmundarson. En fylgdarmenn skal eg fá þér þá er gangi út og inn eftir þér. Það skulu vera bræður þínir Þórður krókur og Markús.
Sturla kvað bræðrum sínum það vel mundu fara.
Margs þarf búið við frændi, segir Sighvatur. Þá menn þyrftir þú og sem hefðu veiðifarir og væru banghagir nokkuð, kynnu að gera að skipum og því öðru er búið þarf. Þessa menn sé eg gjörla. Þar eru þeir frændur þínir Staðar-Böðvar og Þorleifur í Görðum.
Sturla lét sér þá fátt um finnast og lést þó ætla að þeir væru báðir vel hagir.
Svo er og frændi, segir Sighvatur, þá menn þarftu er vel kunna hrossa að geyma og hafa ætlan á hvað í hverja ferð skal hafa. Þessa menn sé eg gjörla. Þar er Loftur biskupsson og Böðvar í Bæ.
Engi von er mér þess þá, segir Sturla, að allir menn þjóni til mín og er slíkt þarflausutal.
Nú er og fátt mannskipanar eftir það er þykir allmikil nauðsyn til bera, sagði Sighvatur, en þá menn þarftu er hafi aðdráttu og fari í kaupstefnur og til skipa, skilvísa og skjóta í viðbragði og kunni vel fyrir mönnum að sjá og til ferða að skipa. Þessa menn sé eg gjörla. Það er Gissur Þorvaldsson og Kolbeinn ungi.
Þá spratt Sturla upp og gekk út. En er hann kom inn brá Sighvatur á gaman við Sturlu og tóku þá annað tal. Sturla dvaldist þar þá ekki lengi og reið heim til Sauðafells.
En er Lofti biskupssyni var hermt tal þeirra Sighvats og Sturlu þá svaraði hann: Slíkt er allkeskilegt og allvel til komist og það er hverjum beint hent sem hann hefir til fundið.
En er það var hermt að þeir Böðvar skyldu hrossanna geyma þá mælti hann: Djöfullinn hafi þeirra hróp og þrífist þeir aldrei og mun þeim að öðru verða en allir menn muni til þeirra stunda.
Snorri Sturluson fór utan á Eyrum um sumarið og Þórður kakali, Þorleifur og Ólafur og komu þeir norður við Noreg og voru í Niðarósi um veturinn. Var Snorri með Pétri syni Skúla hertoga en hertoginn sat í Osló um veturinn og þeir Hákon konungur báðir. Var þá skipulega með þeim mágum báðum. Órækja var þá með hertoganum.
Um vorið eftir páska fór hertoginn norður til Niðaróss en konungurinn fór út til Túnsbergs og frú Ragnhildur með drottningunni dóttur sinni. Fæddi Margrét drottning þá um vorið tveggjapostulamessu Magnús er síðar varð konungur. Hann var skírður á krossmessudag.
Sturla sat að Sauðafelli um sumarið og var heldur fár til Staðar-Böðvars og annarra Þórðarsona. Þóttu honum þeir mjög hallir undir Snorra í skiptum þeirra frænda.
Þeir Böðvar fundust á Veggjum um haustið og fór þá álitlega með þeim en síðar um haustið var Böðvar að Sauðafelli er hann fór norður til Kolbeins mágs síns og fór þá allvel með þeim.
En á jólaföstu fóru þeir Sturla og Þórður til Sauðafells með Páli Hallssyni að ráði hans og tók Sturla allvel við þeim og hét að gera þá að sæmdarmönnum ef þeir kynnu til að gæta.
Og er þeir riðu út eftir Skógarströnd reið á mót þeim kona sú er Álfheiður hét. Hún var dóttir Eyjólfs Jónssonar bróður Keldna-Valgerðar. Hún var komin frá Helgafelli og hafði skírt sig og fært sig í föðurætt en hún var þó eiginkonudóttir og einkabarn Eyjólfs. En Solveig vildi eigi taka við frændsemi hennar áður hún skírði sig því að hún þótti ólík frændum sínum í skapi og atferði. En nú er hún var skír orðin sagði Sturla að hún væri orðin arfi að hálfum Oddastað er þeir höfðu tekið eftir Eyjólf prest Sæmundarson Loftur prestur og Loðmundur faðir Jóns, föður Eyjólfs, föður Álfheiðar. Tók Sturla þá heimildir af henni á staðnum.
Í þenna tíma hóf Ormur Svínfellingur ákall á fé Kols hins auðga. Kvað Ormur Kol hafa gefið sér hundrað hundraða að hann léti drepa Dagstygg Jónsson en Kolur vildi þá eigi laust láta féið. Sótti Ormur þá Sturlu að þessu máli og fóru þá margar orðsendingar millum þeirra Orms og Sturlu og var það orð á að þeir mundu fara til báðir og skipta fé Kols með sér. Kolur var fóstbróðir Andrés Sæmundarsonar og þótti honum hann skyldur til liðveislu við sig slíkt er hann mátti að gera.
Þetta sama haust kom Björn Sæmundarson sunnan til Sauðafells að heimboði. Var þar þá margt talað um fé Kols og þóttist Björn hafa nokkurar heimildir á hálfu fénu og talaði vel um að Sturla skyldi hafa þær sem honum líkaði en engi handsöl höfðu þeir að því. Sturla hafði þá orð um að hann mundi til koma um vorið að skipta fénu með þeim Kol og Ormi öllum saman. En er Björn fór frá Sauðafelli veitti Sturla honum sæmilegar gjafir og skildu þeir með kærleikum.
Segir Björn svo Ormi að Sturla ætlaði sér fé Kols hálft eða allt. En er Kolur spurði þetta fann hann Andrés fóstbróður sinn og sótti hann að ráðum og liði. En Andrés þóttist eigi mega deila um mál hans við Sturlu. Fór Kolur þá til fundar við Björn og sótti hann að sínu máli. Tók Björn þá málið á sig og hét fyrir að setjast.
Sendi hann þá menn vestur til Sturlu og sendi honum gullhring digran og þar með aðra gripi. Lét hann þá segja Sturlu hvar komið var málinu með þeim Kol og bað hann vægja málinu fyrir sínar sakir eða gefa upp. Sturla varð mjög styggur við og vildi víst eigi þiggja gripina en kvað mál Kols við það versna skyldu er fleiri áttu hlut í.
Sturla sendi um vorið um föstu Ketil Þorláksson og Svarthöfða Dufgusson suður í Ölfus til Gissurar Þorvaldssonar og lét segja honum að hann ætlaði um vorið suður um land að heimta fé Kols með Ormi. Tók Gissur vel á því. Var það þá ráðið að Gissur skyldi fara með honum ef hann vildi austur um ár og skyldu þeir finnast þá er Sturla kæmi suður um heiðar. Skyldi Gissur halda njósnum austur yfir ár og vita hvað ráðagerðum þeir hefðu um mál þessi.
Margar orðsendingar fóru á millum þeirra Sighvats og Sturlu er á leið.
Um vorið eftir páska fór Sturla vestur í fjörðu og kvaddi upp menn þá er hann vildi að færu með honum, fyrst Hrafnssonu og marga aðra röskva menn er þá voru um alla fjörðu.
Sighvatur kom norðan í Dali meðan Sturla var vestur og gisti á Jörfa og lét sér margt finnast um vesturför Sturlu og spyr að hví hann hefði farið en það kunni engi að segja. Þótti flestum sem hann mundi gerr vita en þeir er hann spurði að.
Þá er Sighvatur reið ofan eftir Haukadal reið þá Már kumbaldi til móts við hann fornvin Sturlunga og töluðu þeir margt. Spyr Sighvatur enn um ferðina Sturlu og lét sér margt um finnast en Már kvað hann gerst mundu vita.
Þá tók Sighvatur til orða: Hve lengi mun haldast ofsi sjá hinn mikli er Sturla hefir umfram alla frændur vora?
Már svarar: Það þykir líklegt að lengi haldist fyrir þínar sakir og annarra frænda yðvarra göfugra. En þó muntu slíku næst geta bóndi og vildi eg heyra hvers þú gætir til eða hversu þér segði hugur um þetta.
Sighvatur svarar: Ekki kann eg til slíks að sjá en fá eru óhóf alllangæ. En þó má vera að þetta sé langætt ef hann drepur eigi fæti fyrr en ef hann drepur þá mun hann drepa eigi sem minnst.
Slíkt var tal þeirra Más.
Sighvatur kom til Sauðafells um hádegisskeið og var lagið hægindi undir höfuð honum í þverpallshorni og talaði Solveig við hann. Sighvatur spurði hana að ferðum Sturlu og erindum í fjörðuna vestur en Solveig kvað honum það mundu eigi ókunnara en sér.
Þá var sagt inn að menn tveir riðu hvatlega neðan frá Leiðarhólmi. Þótti mönnum líkast að vera mundi Sturla og svo var. Og þegar er hann kom á bæinn gekk hann til föður síns og fagnaði honum og settist niður að fótum honum. Sighvatur spurði hann að ferðum hans og erindum í fjörðuna en Sturla lét sér fátt um finnast. Sighvatur var styggur í talinu og sagði það eitt erindi verið mundu hafa er vera mundi verra en ekki. Sturla kvað hann það eigi mundu vita. Spratt hann þá upp og gekk út, kom inn aftur og settist í sama stað.
Sighvatur tók þá til orða: Ætlar þú suður um land?
Sturla svarar: Mælt hefi eg það.
Þar hefir þú illt erindi er þú ætlar að deila um fé Kols, segir Sighvatur, því að þar er það fé er margur mun stórt illt af hljóta því að illa er fengið.
Þá svarar Sturla: Sé eg það fé er eg ætla að eigi muni betra af hljótast.
Hvert er það? segir Sighvatur.
Það er fé Snorra bróður þíns, segir Sturla.
Fyrr mun þér það bera en þetta, segir Sighvatur.
Eftir þetta ríða þeir feðgar út á Eyri til Páls prests og fundu þar Böðvar frá Stað. Vildi Sighvatur fá Hvammsland af honum til handa Svertingi Þorleifssyni en Sturla mælti heldur í móti og fékk Sighvatur það ekki af Böðvari. En Sturla bað hann þá til ferðar með sér suður um land og hétu þeir Sturla bræður honum báðir að fara með honum.
Sighvatur fór heim norður eftir það en Sturla dró lið saman. Þá er fjarðamenn komu vestan fór hann fyrst til Borgarfjarðar og dró þar lið saman. Kom þá Böðvar til móts við hann með mikla sveit manna. Riðu þeir suður á Bláskógaheiði og höfðu þrjú hundruð manna.
En er þeir komu suður undir Hrafnabjörg kom þar á mót þeim sendimaður Gissurar og segir að þeir voru sáttir, Kolur, Björn og Ormur, og segja að Sturla þyrfti ekki til að koma, báðu hann aftur hverfa ef honum líkaði það. Sturla kallaði til sín trúnaðarmenn sína og spyr hvað þá skal að hafa en flestir viku til hans ráða.
Sturla kvað Sunnlendinga ekki skyldu vísa sér sem hjörð í haga hverigri lausung sem þeir slá á sig.
Síðan segir Sturla mönnum sínum að þeir mundu nær gangast áður hann hyrfi aftur. Sendi hann þá menn til Gissurar að hann skyldi finna hann að Apavatni.
Sturla reið til Apavatns með allan flokkinn snemma dags. Létu menn hesta sína á gras því að eigi skorti áfanga og var það fyrir helguviku. Það vor var allra vora best.
Gissur kom er á leið daginn með fjóra tigi manna. Hann hafði valið menn með sér. Þar var Klængur Bjarnarson frændi hans með honum. Hann átti heima á Breiðabólstað með Ormi bróður sínum.
Þeir Sturla og Gissur ganga á tal og hver annarra talaði við sinn kumpán. Þeir voru fóstbræður Sturla Þórðarson og Klængur og gengu þeir á tal.
Spyr Klængur Sturlu: Munuð þér eigi svíkja oss? Þá væruð þér gersemar ef þér gerðuð það.
Hví spyrð þú slíks? segir Sturla, og mun það fjarri fara.
Vér gerðum orð á slíku með oss, segir Klængur.
En þess hafði nær hver spurt sinn félaga.
Þeir Sturla og Gissur tóku tal með sér. Spurði Sturla austan yfir ár en Gissur segir þar kyrrt allt og öngvan safnað. Sturla spurði hvort hann mundi nokkuð þurfa meira lið suður að hafa en þá var þar. Gissur segir hann eigi þurfa að hann færi er engi var safnaður fyrir. Sturla lést vilja að hann færi en Gissur taldist undan en lést fara mundu sem hann vildi. Síðan spyr Gissur að vopnum Klængs er tekin voru í Bæ, sverð og brynja, og lést vilja að þá heimtist um.
Sturla kvað Lauga-Snorra vita brynjuna en Þórð Guðmundarson sverðið: Mun eg nú, segir hann, kalla þá hingað með vopnin.
Síðan gekk Sturla til þeirra Þórðar og Snorra og bað þá ganga til Gissurar og geyma hans hvað sem í gerðist.
Eftir það fer hann til trúnaðarmanna sinna og segir að hann lést eigi vita með hverju Sunnlendingar fóru, kallaði Gissur undan teljast að fara með þeim, lést og eigi vita það nema safnaður væri á Rangárvöllum og væri sú ráðagerð að þeim sé ætlað að verða í klofanum en Gissur fari eftir oss ef vér förum suður. Vil eg það ekki undir þeim eiga. Skulum vér taka Gissur með valdi en taka af þeim vopnin öllum.
Böðvar gekk til Sturlu bróður síns og segir honum hljótt hvað títt var. Klængur spyr Sturlu hvað Böðvar talaði. Hann kvað það ómerkilegt en bað þá vera báða samt hvað sem í gerðist. Klængur lést það gjarna vilja.
Þá gekk Sturla Sighvatsson til manna Gissurar og kallaði hátt, bað þá leggja vopnin, kallaði eigi betur að þar létust menn nokkurir. Gissurar menn brugðu við hart og brotnuðu spjótsköft þeirra sum. Björn kægill og Teitur Álason komust úr þrönginni og var Björn tekinn af bræðrum sínum. Þá kallaði Gissur á þá að þeir skyldu leggja vopnin og hafa eigi líf sitt í hættu. Gáfu þeir þá upp vopnin.
Gissur spyr Sturlu þá hví hann léti leggja hendur á hann.
Sturla bað hann ekki efast í því að hann ætlaði sér meira hlut en öðrum mönnum á Íslandi en mér þykir sem þá séu allir yfirkomnir er þú ert því að eg uggi þig einn manna á Íslandi ef eigi fer vel með okkur.
Síðan var bók tekin og fengin Gissuri. Bað Sturla hann sverja utanferð sína og að halda trúnað við hann. Gissur spyr hvort hann skyldi vinna norrænan eið eða íslenskan. Sturla bað hann ráða.
Þá mun eg norrænan eið vinna, segir Gissur, er eg skal þangað fara en það mun eg segja fyrir eið minn að eg skal til þín aldrei öfugt orð mæla ódrukkinn.
Síðan vann Gissur eið og voru þeir allir um nóttina þar en um daginn eftir sneri Sturla flokkinum út í Grímsnes og svo til Ölfuss. Reið Gissur fyrir allan dag. Þeir riðu út um Álftavatn og höfðu heldur djúpt. Var Sturla heldur ófrýnn en Gissur var hinn kátasti og reið um kveldið út til Reykja. Voru þá sendir menn um Grímsnes og Ölfus eftir nautum og voru rekin til Reykja og etin þar um helgina.
Þá kom þar Ormur Svínfellingur með sveit manna. Þar komu frændur Gissurar, Teitur bróðir hans og Hjalti son Magnúss biskups og Magnús Hallsson. Var þá talað um hver taka vildi ríki Gissurar og halda af Sturlu og vera skyldur liðveislumaður hans hver sem í móti væri. En þar gekk engi maður jafnglatt undir sem Hjalti biskupsson að heita öllu því er Sturla mælti til.
Það er sögn Gissurar sjálfs að þá er þeir námu stað í hrauninu fyrir ofan Álftavatn og sátu á baki og þagði Sturla svo um hríð.
Og er svo hafði verið um stund mælti hann: Ríðum enn. Hefir Gissur þá helst grunað hvort Sturla efaðist þá eigi hvern veg hann skyldi af gera við hann og enn fleiri menn aðra.
Þeir Sturla fóru eftir helgina suður í Flóa. Var Gissur í sveit með Böðvari. Voru þeir í Villingaholti nokkurar nætur. Síðan átti Sturla fund við Þjórsá. Tók þá Hjalti við öllum goðorðum Gissurar og hét því að veita Sturlu við hvern mann sem hann ætti málum að skipta.
Fóru þeir síðan austur yfir ár. Reið Sturla í Odda með sveit sína en þeir Böðvar og Gissur fóru á Breiðabólstað í Fljótshlíð. Sturla bar sakir á Harald Sæmundarson um bjargir Arons Hjörleifssonar og galt hann þar fyrir lönd tvö í Skagafirði, Halldórsstaði á Langholti og Þorbrandsstaði í Norðurárdal. En eftir það kallaði hann staðinn í Odda hálfan í arf Álfheiðar. Lýsti hann því að hann vildi þar öngvar samningar um aðrar en hafa staðinn. Síðan var sent eftir Kol og kom hann á fund Sturlu. Kom þar ekki öðru við en hann skyldi gjalda Ormi hundrað hundraða en Sturla tók á fé Kols varðveisluhandsölum og skyldi þó af hafa þrjá tigi hundraða. Ormur tók við Gissuri og skyldi geyma hans þar til er hann færi utan. Björn reið á Kjöl norður og var ekki við það er Sturla var á Rangárvöllum.
Sturla sendi Svarthöfða Dufgusson ofan í Eyjar eftir yxnum Kols. En er þeir voru við yxnaréttina kom Björn þar og var með Kol í greiðslum. Þeir Svarthöfði vildu hafa arðuruxa er þar var í réttinni en Björn mælti hann undan og buðu fyrir annan uxa upp í Landeyjum. Þá hljóp Guðmundur bösull í réttina og elti út alla uxana. Stigu þeir Svarthöfði á bak og fóru leið sína og skildi þar með þeim.
Sturla fór með flokk sinn út í Skálaholt. Þar fann hann Einar Þorvaldsson í kirkjuskoti. Var Einar svo styggur að þeir máttu ekki tala. En Einar fór eftir það á Kjöl norður og þeir frændur og fundu þar Kolbein unga. Gerðu þeir ráð sitt. En Sturla fór vestur til héraða.
Þeir Kolbeinn frændur réðu það á Kilinum að þeir skyldu flokka uppi hafa og slíta eigi fyrr en aðrir hvorir væru í helju, Sturla eða þeir. Gekk Hjalti þá í þetta vandræði með þeim. Gerðu þeir þá ákveðið með sér nær þeir skyldu finnast á Beitivöllum með alla flokka sína.
Gissur var með Ormi sem fyrr var ritað. Hann fékk komið bréfi austan til trúnaðarmanna sinna að þeir skyldu koma á mót honum ef frændur hans fengju afla nokkurn.
Kolbeinn ungi dró lið saman um Skagafjörð og öll héruð vestur þaðan til Miðfjarðar. En er hann kom suður um Kjöl reið hann frá liðinu með hundrað manna suður til Keldna og bað Hálfdan veita sér lið með allan sinn afla. En er hann vildi það eigi gerði hann Hálfdan handtekinn og tók til öxar er hann hélt á og var eigi laus fyrri en fleiri tóku til. Hálfdan hélt frá sér hendinni og kváðu þeir örninn fast hremmt hafa. Voru þeir Vilhjálmur bræður reknir í stofu og allir heimamenn. Var Kolbeinn þar um nóttina með allan flokkinn og lét taka allan vopnaafla þeirra bræðra og hesta. Hann tók þar og sverðið Rostung er átti Vilhjálmur. Við það sverð hafði Sæmundur Jónsson jafnan riðið.
Eftir það sendir hann orð bræðrum Hálfdanar að þeir skyldu standa upp með honum ella kveðst hann mundu fara um allt héraðið og hrekja fyrir þeim. Stóðu þeir upp fjórir bræður, Björn, Andrés, Haraldur, Filippus, með allan afla þann er þeir fengu.
Í þenna tíma riðu austur menn Gissurar átján saman, Gissur glaði og aðrir vinir hans. Þeir komu austur í Skál, bundu þar hesta sína við garð og gengu heim til móts við Orm og Gissur og beiddu að Gissur mundi fara með þeim. Ormur var þess tregur en þó lagði hann eigi bann fyrir er hann sá að Gissur vildi ekki annað en fara með þeim.
Þeir fundust áður að Skarði í Meðallandi og Brandur prestur Jónsson og Ögmundur Helgason og var Gissur við þeirra ráð laus látinn.
Riðu þeir þá vestur og koma á Beitivöllu til flokkanna. Var það þá ráðs tekið að þeir sendu Hjalta biskupsson upp á þing og hleyptu þeir upp þinginu og flettu vestanmenn vopnum og klæðum og hrossum og gekk Guðmundur Þórðarson af þinginu er mest var fyrir vestanmönnum.
Í þenna tíma dreymdi konu að Munkaþverá að maður kæmi að henni.
Sá kvað vísu þessa:
83.
Saman dragast sveitir,
svellr órói.
Varir mig og varir mig
að viti Sturla.
Ætla lýðir,
þótt á laun fari,
kemr vél fyrir vél,
vélar að gjalda.
Margir voru þá stórdraumar á landinu víða bæði fyrir norðan land og sunnan.
Þá er Sturla Sighvatsson spurði liðdráttinn sunnan um land dró hann lið saman um öll héruð fyrir vestan Bláskógaheiði. Hann sendi orð Böðvari til Staðar og stefndi honum inn í Dali og þangað stefndi hann öllu liði úr Borgarfirði. Loftur biskupsson var fyrir Mýramönnum. Voru þeir sex tigir. Böðvar hafði á öðru hundraði manna, Sturla bróðir hans fimm tigu manna. Vestan var og stefnt Hrafnssonum og öllum Vestfirðingum.
Þeir Gissur og Kolbeinn héldu flokkunum vestur um Bláskógaheiði og höfðu þrettán hundrað manna. En er þeir komu í Borgarfjörð spurðu þeir að Sturla var í Dölum. Riðu þeir þá vestur Brattabrekku.
Sturla hafði hestvörð á brekkunni og sáu þeir er flokkurinn reið upp Bjarnardal. En er Sturla spurði það reið hann undan vestur til Sælingsdals og kom þar Böðvar eftir. Síðan riðu þeir til Saurbæjar og voru þar til þess er Sunnlendingar riðu Svínadal. Þá fóru þeir Sturla inn til Kleifa. Kom þar Gísli af Sandi og aðrir Vestfirðingar, sumir á skipum en flestir á hestum. Fé var rekið norður til Kollafjarðar úr allri sveitinni. Sturla ætlaði að verja Kleifarnar ef þeir hefðu riðið inn þangað.
Sunnlendingar riðu til Saurbæjar og var þorri liðsins undir Melrakkahóli og fóru þaðan á bæi sem þeim líkaði. Öngar urðu meðalferðir svo að það ætti stað. Voru þeir í Saurbæ nokkurar nætur og hurfu síðan suður aftur.
Synir Árna áttu heima í Bitru. Þeir höfðu riðið á njósn suður fjórir saman, Guðmundar tveir, Jón og Ólafur. En er þeir komu suður í Glerárdal fundu þeir þar þrjá menn og höfðu drepið naut. Voru þeir þá að og hjuggu rifin frá hrygginum.
Jón mælti: Þá skal stórt höggva og mun nú skammt höggva í milli.
Hjó hann þá um þverar herðar þeim manni er Þjóðólfur hét og var mikið sár. Síðan vógu þeir þann mann er Þorkell hét. Kriströður hét hinn þriðji son Einars Jónssonar Loftssonar. Hann var vígður og særðu þeir hann til ólífis. En hinir dóu þar báðir. Kriströður var færður til Sauðafells og dó hann þar. Árnasynir sáu að sveit manna reið neðan að þeim. Riðu þeir þá undan og upp á heiði og svo vestur til Kleifa og lét Sturla vel yfir þeirra ferð. En Sunnlendingar sáu fyrir sínum mönnum. Þessir voru úr sveit Sæmundarsona.
Eftir það fengu þeir tekið þann mann er Kári hét Gunnsteinsson úr Laxárdal. Hann fóthjuggu þeir. Það gerði Björn Árnason, Strandmaður utan. Eftir það fóru Sunnlendingar til Dala og vöruðust meir síðan afreiðir en áður.
Þá er Sturla vissi að flokkarnir höfðu hnekkst þá dreifði hann liði sínu en reið sjálfur suður skyndilega og vildi vita ef hann fengi nokkuð hent af þeim sem seinstir urðu en það varð ekki.
Þá skildu þeir flokkana í Dölum. Reið Kolbeinn norður en Gissur suður með alla Sunnlendinga. Grið höfðu farið í milli áður flokkarnir skildust fram um mitt sumar.
Sturla sat heima eftir þetta um hríð.
Í þenna tíma dreymdi mann í Borgarfirði að maður kæmi að honum mikill og illilegur og kvað þetta:
84.
Sumar munat þetta
svarflaust vera,
rýðr rekka sjöt
rauðu blóði.
Her mun finnast
fyrir hraun ofan.
Þar mun blóð vakið
betra en ekki.
Sighvatur sat heima á Grund um sumarið. Hann dreymdi að hann þóttist sitja í stofu í rúmi sínu og þótti honum stofan alskipuð og stóðu borð um alla stofu og vist á, trapisa á gólfi og skaftker. Þá þótti honum ganga inn hestur rauður er hann átti er Fölski hét. Hann gekk fyrir Sighvat og spurði hví hann byði honum eigi til öls og matar og kveðst vera svangur og þyrstur. Síðan tók hann til og át diskinn og matinn og tók hvað að öðru það er á var borðinu.
Sighvatur kvað hér um vísu þessa:
85.
Létat mér hinn mæti
móteflandi spjóta,
hræri eg Boðnar báru,
boðið til öls, kvað Fölski.
Eldskyndir lét unda
allsvangan mig ganga.
Verð eg um helsti harðan
Heljar disk að velja.
Sturla var heima að Sauðafelli lengstum framan til Jakobsmessu. Hún var þá á sunnudag. Þann tíma sendi hann suður Svarthöfða Dufgusson og nær flesta alla fylgdarmenn sína til Hvalfjarðar og fóru þeir út í Geirshólm og drógu þeir þar að föng og öfluðu heldur með harðindum til.
Var þá hleypt suður til Reykja og sagt Gissuri að menn Sturlu voru í Geirshólmi og mundu ræna um alla sveit niðri þar. Gissur brá þegar við og reið ofan um heiði en bændur eggjuðu að hann mundi draga skip að sér og leggja að þeim í hólminn.
Gissur sagði að óhægt mundi að vinna hólminn en þar eru þeir flestir er mér þykir eigi svo mikill slægur til að eg vilji þar í hættu hafa líf mitt eða vina minna. En ef Sturla væri í hólminum þá mundi eg freista að þeim að leggja. En nú skuluð þér gæta yðvar og fjár yðvars sem þér kunnið og haldið saman sem best hverjir sem mest þurfa.
Gissur lét um sumarið taka upp bú Dufguss Þorleifssonar í Selvogi á Strönd og ræna þar öllu fénu en lið allt var óbirgt eftir og sáu bændur fyrir því.
Þá er Sturla hafði senda þá Svarthöfða til Geirshólms reið hann sjálfur vestur á Reykjahóla til bús síns og gerði þaðan menn sína vestur í fjörðu til Hrafnssona og annarra vina sinna og stefndi vestan liði og lagði þann stefnudag að allir skyldu koma til Sauðafells laugardaginn fyrir Lárentíusmessu. Hún var á þriðja dag. Hann sendi og menn til Ásgríms Bergþórssonar að hann skyldi safna liði um Steingrímsfjörð og Strandir. Hann sendi og menn Böðvari að Stað að hann skyldi senda honum nokkura menn. Halldór Guðmundarson sendi hann á Eyri til Sturlu Þórðarsonar og bað hann koma til sín og voru þeir tuttugu saman. Einar ósiður var fyrir Böðvars mönnum. Sturla lagði öllum mönnum stefnu hina sömu. Borgfirðingar fóru Arnarvatnsheiði og komu þeir í Vatnsdal sunnudaginn síð.
Þá er liðsafnaður var um Strandir voru þar menn norðan um Flóa, Halldór son Hámundar Bergssonar og Snorri bláhattur Þórarinsson prests og Þórörnu dóttur Þorgils Gunnsteinssonar. En er þeir urðu varir við liðdráttinn fóru þeir norður yfir Flóa. Fengu þeir sér þá hesta og riðu norður til Skagafjarðar. Fundu þeir Kolbein á hestaþingi sunnudaginn og sögðu honum liðdráttinn vestan.
Kolbeinn hafði þá ráðagerð við sína menn og var það ráð tekið að Kolbeinn valdi með sér hið röskvasta fólk og lýsti því að hann mundi ríða af héraði fyrst að sinni nær sem honum yrði auðið aftur að koma.
Laugardaginn kom lið það til Sauðafells er Sturla hafði þangað stefnt. Þá var og kominn Markús bróðir hans norðan af Grund. Voru þeir Markús fjórir, Vigfús smiður og Kolli af Espihóli og Bagal-Már. Þá komu þeir Svarthöfði sunnan.
En sunnudaginn reið Sturla heiman norður til Miðfjarðar. Reið sumt liðið Laxárdalsheiði. Sturla gerði Kálf Gilsson og þá Miðfirðinga um nóttina á njósn norður fyrir og fóru þeir norður allt í Bólstaðarhlíð í hríðinni. Sturla reið og um nóttina og daginn eftir norður með flokk sinn og kom í Bólstaðarhlíð mánadaginn síð og átu menn þar náttverð. Var þá spurt af héraðinu að Kolbeinn var braut riðinn.
Miðfirðingar riðu norður Vatnsskarð sjö saman og komu um kveldið fyrir Lárentíusmessu í Valadal og slógust þar inn og tóku það er laust var. Þá komu þar Kolbeins menn þeir er seint höfðu orðið og flettu þá alla en særðu einn mjög. Sá hét Þorkell berklingur. En aðra létu þeir fara suður á fjall með sér og fundu þeir Kolbein í Vinverjadal og gaf hann þeim grið og fóru þeir aftur vopnlausir.
Sturla reið til Skagafjarðar Lárentíusmessu snemma með alla flokkana og átu þeir mat á Reykjarhóli. Var þangað borinn maturinn. Síðan reið Sturla á Flugumýri með sveit sína en flokkarnir dreifðust um héraðið. Var tekinn matur og höggvið fé til matar mönnum. Var það gert við ráð Sturlu en þó var stolið hjá fram nær hvívetna því er óráðvandir menn komu höndum á og eigi var í kirkjur fært.
Þá er flokkarnir voru í Skagafirði dreymdi mann þar í héraðinu að maður kæmi að honum mikill og ógurlegur.
Hann þóttist spyrja: Hvern veg mun verða um ófrið þenna hinn mikla er nú er hér í héraði?
Hinn mikli maður svarar: Illa mun verða og allilla. Sturla mun falla en Kolbeinn mun eigi á braut komast.
Hann varð hræddur mjög og hugði að Kolbeinn ungi mundi þetta eiga.
Steinvöru Sighvatsdóttur að Keldum dreymdi og í þenna tíma að hún þóttist úti standa og komin í eyðitröð eina. Hún þóttist sjá Þorgrím úr Gunnarsholti sitja á traðargarðinum og horfði á mannshöfuð er lá á garðinum.
Hann kvað:
86.
Sit eg og sé eg á
svarið Steinvarar:
Hví liggr hér á vegg
höfuð í örtröð?
Margir voru aðrir draumar sagðir í þenna tíma, þó að hér séu eigi ritaðir, þeir er tíðindavænir þóttu vera, svo og aðrir fyrirburðir.
Sturla var á Flugumýri nokkurar nætur. Síðan reið hann út til Hóla og var Staðar-Kolbeinn þar fyrir ráðum og lagðist lítt á með þeim Sturlu. Var Kolbeinn í forkirkju og mæltist þaðan fyrir. Reið Sturla þaðan út til Kolbeinsáróss. Voru þar tvö skip í búnaði. Gerði hann þaðan sveit manna út í Fljót eftir hrossum og fóru þeir allóspaklega. Sveinn Ásgeirsson vó mann einn er Eyjólfur hét. Hann Sveinn var vestan úr Króksfirði. Sturla reið þá í Hegranes og var í Ási frjádaginn og laugardaginn fyrir Maríumessu og vatnfastaði hann hvorntveggja daginn. En eftir messudaginn reið hann upp í Sæmundarhlíð með flokkana og á Langaholt. Spurði hann þá að Sighvatur faðir hans var kominn norðan í hérað með fjögur hundruð manna. Voru þar þá synir hans allir þeir er þá voru hér á landi. Fór Sturla þá austur yfir vötn og fundust þeir við Vallalaug. Var það þá ráðið að menn skyldu búa sig sem best og leita á suður ef þeir Kolbeinn kæmu eigi sunnan.
Sturla sendi jafnan bændur úr héraði upp úr byggð eða á Kjöl suður eða annan veg á njósn en öngir komu aftur. Leið svo fram á vikuna til frjádagsins. Þá var Sturla að Vallalaug. Var þá mart talað og mest um það hvort þeir Kolbeinn mundu sunnan koma.
Og er menn töluðu þetta tók Sturla til orða: Mikinn mun ætla eg þess vera með oss frændum hvern veg það er gefið. Ef þeir hafa vald yfir mér, frændur mínir, þá hygg eg að mér sé dauðinn einn ætlaður en það veit guð með mér þó að eg eigi vald á þeim að engis þeirra blóði skal eg út hella.
Öngar njósnir fengu þeir um kveldið af sínum mönnum en þó fór þá pati af því að menn hefðu grun á að flokkarnir mundu í nánd vera. Þá var það ráð gert að flokkarnir allir skyldu liggja úti um nóttina með vopnum sínum. Voru þeir þá skammt frá lauginni og sváfu menn heldur lítið flestir.
Um morguninn spurði Sturla nafna sinn Sturlu Þórðarson: Hvað ætlar þú nafni, sagði hann, hvort þeir komi sunnan?
Sturla svarar: Það ætla eg nú að þeir komi.
Hvað dreymdi þig? sagði Sturla Sighvatsson.
Mig dreymdi það, sagði Sturla, að eg var í Hvammi á föðurleifð minni og þar vorum vér allir fyrir handan ána upp frá Akri. Kross stóð hjá oss á holtsmúlanum hár og mikill. Þá þótti mér hlaupa skriða mikil úr fjallinu og var smágrjót í, allt nema einn steinn. Hann var svo mikill sem hamar hlypi að oss og þótti mér undir verða margt vorra manna og margt komst undan. En Vigfús Ívarsson varð undir svo að eg kenndi. En þá vaknaði eg, sagði hann.
Sturla svarar: Oft verður sveipur í svefni, sagði hann.
Frjádagsaftaninn reið Sturla með sína sveit á Miklabæ en Kolbeinn bróðir hans á Víðivöllu, Sighvatur í Sólheima. Markús var að Miðskytju og synir Skarð-Snorra og þeir af Meðalfellsströnd. Flokkunum var dreift eftir allri Blönduhlíð mjög en hestar fyrir neðan.
Kolbeinn ungi reið af héraði sem fyrr var ritað og hafði hálft annað hundrað manna. Hann reið suður af Kili þá er hann hafði lausa látið menn Sturlu þá er teknir voru í Valadal. En er hann kom af fjalli reið hann til móts við Gissur. Sat hann í Hróarsholti um sumarið og hafði þangað látið fara bú það er hann hafði upp tekið fyrir Dufgusi.
En er þeir frændur fundust réðu þeir það þá þegar að menn voru sendir ofan um heiði og um alla sveit Gissurar. Var svo gjörla eftir farið að allir menn fóru þeir er herfærir þóttu vera. Kom þar skjótt saman lið mikið. Þeir sendu menn á Rangárvöllu eftir liði og vildu þeir þá ekki upp standa bræður nema Björn. Hann fór við fimmta mann. Þeir sátu í Tungu Maríumessu og drógust þá að flokkarnir.
En eftir messudaginn fóru þeir til fjalls og gerði Kolbeinn menn undan norður til sveita til vina sinna og stefndi þeim til móts við sig á fjallið, öllum þeim er vildu honum lið veita. Þeir Gissur fóru þar til er þeir komu norður í Kiðjaskarð. Þar komu til þeirra Vatnsdælir og fleiri vestanmenn. Þorsteinn úr Hvammi og Þorsteinn Hjálmsson voru fyrir þeim. Háttuðu þeir svo reiðinni sunnan að Gissur reið síðast og skyldi geyma að öngvir hröktust aftur en Kolbeinn reið fyrstur og sætti njósnarmönnum sínum. Gengu og svo njósnirnar að þá komu aðrar jafnan til Kolbeins er aðrir voru hjá Gissuri, þeir er fyrr komu. Riðu þeir þá til Skíðastaðalaugar.
Þá reið Brandur Kolbeinsson frá með nokkura menn. Hann hafði verið suður með Kolbeini frænda sínum. Hann reið ofan í hérað og safnaði liði um Sæmundarhlíð og Langaholt og Hegranes og austur yfir vötn og mjög svo neðan að Flugumýri. Hann fékk þá mikið lið. Þeir höfðu níu hundrað sunnan en þá er þeir voru við Reykjalaug voru nær þrettán hundrað. Þeir komu þar frjádagskveldið og var Brandur þá til kominn laugarmorguninn snemma með hundrað manna.
Fyrir tíðindum þessum er hér fara eftir urðu margir fyrirburðir þó að hér séu fáir ritaðir.
Brynjólfur hét maður á Kjalarnesi er það dreymdi að hann sá mann mikinn og var höggvinn af hnakkinn og á hálsinn. Hann kvað vísu þessa:
87.
Þornar heimr og hrörnar.
Hríðeflir fer víða.
Þjóð er hörð á heiði
heldr en vér erum felldir.
Því var eg norðr með Njörðum,
náir féllu þar sárir,
spjót drifu grán á gauta,
geirhíðar, hel bíða,
geirhríðar, hel bíða.
Hafliði prestur Ljótsson heyrði kveðið í Halleyjarhóli:
88.
Ríðum allir
rógstefnu til,
son Sigrlaðar.
Þar snarir berjast,
sem þeir berjast.
Þórarin Gilsson dreymdi að kona kvæði þetta:
89.
Mun eg brátt fara
berja grjóti
þar er þeir berjast
Björn og Sighvatr.
Einar kláp dreymdi að þetta væri kveðið:
90.
Dauðr er hersir,
dauðr er dólg-Rögnir,
dauðir eru niðjar,
logheimr búinn,
logheimr búinn.
Maður hét Snæbjörn. Hann bjó í Sandvík út frá Höfðahverfi. Hann gekk út um nótt. Það var fyrir jól um veturinn fyrir Örlygsstaðafund. Þá gekk kona í túnið mikil og þrýstileg, dapurleg og rauðlituð. Hún var í dökkblám kyrtli, stokkabelti hafði hún um sig.
Hún kvað þetta og snerist við honum:
91.
Gríðr mun eg gumnum héðra.
Grand þróast margt í landi.
Sótt mun eg yðr því að ættag
efni margs að hefna.
Urðr mun eigi forðast,
að kemr fár er várar,
dauðr mun dólgum vorum,
dáins raddar þá kvaddir,
dáins raddar þá kvaddir.
Enn kvað hún þetta:
92.
Eisandi fer eg unda
undrsamlega funda.
Líð eg um hól og hæðir
hart sem fugl hinn svarti.
Kem eg í dal þar er dyljumst
dánarakrs til vánar.
Harmþrungin fór eg hingað
Heljar Ask að velja,
Heljar Ask fer eg velja.
Halldóra hét kona og var Þórðardóttir. Hún var í Fljótum. Hana dreymdi um sumarið fyrir Örlygsstaðafund að maður kæmi að henni og kvað þetta:
93.
Rökkr að éli,
rignir blóði.
Hrýtr harðsnúinn
hjálmstofn af bol.
Þessi vísa var kveðin fyrir Ormsteini presti enn fyrir Örlygsstaðafund í svefni:
94.
Dust er á jörðu.
Dimmt er í heimi.
Nú kveðum örvar
eitri skeftar.
Þrymr æ og æ þrymr,
þegnar berjast.
Þá kveða fyrða
fá blá ...
Þessi vísa var kveðin vestur í Svartárdal fyrir konu einni og kom að henni mikill maður og illilegur:
95.
Sumar munat þetta
svarflaust ...
Jón hét maður og var Grettisson. Hann dreymdi að maður kom að honum og kvað þetta:
96.
Varist þér og varist þér,
vindr er í lofti.
Blóði mun rigna
á berar þjóðir.
Þá mun oddr og egg
arfi skipta.
Nú er hin skarpa
skálmöld komin.
Þetta var kveðið fyrir Sturlu Sighvatssyni heima að Sauðafelli um sumarið áður hann fór til Örlygsstaðafundar. Kona kom að honum og kvað:
97.
Leyft erat yðr né öðrum
álmtýnöndum sýna
hvorir grams úr grimmri
grjóthríð héðan líða.
Og þótti Sturlu konan klökkvandi kveða.
Um sumarið enn fyrir Örlygsstaðafund dreymdi þá konu er Þuríður hét að Fellsenda í Dölum að henni þótti koma að sér Sturla Sighvatsson og kvað þetta:
98.
Hverjir vöktu mér
varman dreyra?
Segið mér og segið mér,
sárt var eg leikinn.
Ætlast virðar,
og veit Tumi,
gleðr mig og gleðr mig,
Gissur veiða.
Staka þessi var kveðin fyrir Sturlu Þórðarsyni enn fyrir fundinn:
99.
Vatnfalli mun vella
vopnröst nær föstu.
Valr slítr varma kilju.
Verð eg þangað til ganga.
Þessi vísa var kveðin fyrir þeim manni er Bergur hét:
100.
Nú munu nauðir
Norðmenn kveða
Sighvats sona
slíkt eða meiri.
Göngum blóðgir
með banasárum
sigrleiks snarir
sverð að rjóða,
sem það munum rjóða.
Þetta var kveðið fyrir konu einni skammt frá Þingeyrastað um ljósan dag en eigi sá hún manninn en hátt var kveðið:
101.
Leikr er í norðri,
lýðir berjast.
Þeir vilja Gissur
geirum sveipa.
Munat þeir Gissur
geirum sveipa.
Þorgeir hét prestur. Hann dreymdi fyrir fundinn að kona kom að honum og kvað þetta:
102.
Líð eg of heim úr heimi
heims myrkrum frá þeima.
Hörð munu gjalda
grimmleik stafir rimmu.
Fást munu sár af sárum.
Svo er heldr þar er menn felldust.
Koma mun hörð fyrir harða
hríð og skammt að bíða.
Sigurð Styrbjarnarson dreymdi það fyrir Örlygsstaðafund að hann þóttist sjá hrafna tvo og kváðu þetta sitt orð hvor:
103.
Hverjir munu birni beitast?
Hver býst mest við rómu?
Hver mun falla hinn frækni,
faðir Kolbeins eða Sturla?
Brátt kemr böðvar ótti.
Beit egg í tvö leggi.
Menn gera mest þeir er unnu
mannspell í styr falla.
Eyjólf forna dreymdi er hann svaf hjá Skytju á Skógarströnd að kona kvæði þetta:
104.
Sefr þú úti.
Sé eg eld yfir þér
...
Þá er Sturla kom á Miklabæ frjádaginn síð reið hann upp í Sólheima að finna föður sinn og töluðu þeir um hríð. En er hann reið ofan kom hann á Víðivöllu. Gekk Kolbeinn út bróðir hans og sveit hans. Var það frítt lið og vel búið.
Sturla talaði um: Þú hefir gott lið bróðir.
Svo þykir mér, sagði Kolbeinn. Svo er og, sagði Sturla, enda mun þess þurfa því að hér munu þeir fyrst að ríða er þeir koma handan úr tungunni. Og er það mitt ráð að þér farið upp á húsin því að hér er vígi á húsunum en vér skulum skjótt koma að hjálpa yður. Svo skal vera sem þér skipið til, sagði Kolbeinn. Vel væri þá, sagði Sturla og reið á braut og á Miklabæ. Hann gerði þá út vörðu sem vant var.
Sturla lá um nóttina í lokhvílu og Illugi prestur Þórarinsson hjá honum. En í annarri lokhvílunni lá Sturla Þórðarson og Einar ósiður hjá honum. Skálinn var allur skipaður mönnum.
Þessa nótt voru þeir Gissur við Reykjalaug og stóðu þeir Kolbeinn snemma upp um morguninn og vöktu lið sitt. Gissur sagði þeim Kolbeini og Brandi draum sinn því að Brandur kom áður þeir væru klæddir.
Það dreymdi mig, sagði Gissur, að mér þótti Magnús biskup föðurbróðir minn koma að mér og mælti hann svo: Standið þér upp frændi, sagði hann, eg skal fara með yður. Þá vaknaði eg.
Þetta er vel dreymt, sagði Kolbeinn, eða hversu líst þér?
Betra þykir mér dreymt en ódreymt, sagði Gissur.
Kolbeinn gekk til skrifta að Reykjum