1
Páll þjónn Guðs, en postuli Jesú Krists, samkvæmt trú Guðs útvaldra og þekking sannleikans, sem er í samhljóðan við guðhræðslu; 2 í von um eilíft líf, sem Guð, sá er ekki lýgur, hefir heitið frá eilífum tíðum, 3 en opinberaði á sínum tímum orð sitt í prédikun, sem mér er trúað fyrir eftir skipun Guðs frelsara vors, 4 til Títusar, skilgetins sonar samkvæmt sameiginlegri trú.
Náð og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, frelsara vorum.
5 Þess vegna lét eg þig eftir í Krít, til þess að þú færðir í lag það sem ógjört var og skipaðir öldunga í hverri borg, svo sem eg lagði fyrir þig: 6 þann einn sem er óaðfinnanlegur, einnar konu eiginmaður, á trúuð börn, sem eigi eru sökuð um andarvaraleysi eða þrjózku. 7 Því að biskup á að vera óaðfinnanlegur, eins og ráðsmaður Guðs, ekki sjálfbirgingur, ekki reiðigjarn, ekki drykkjumaður, ekki áflogamaður, ekki sólginn í svívirðilegan gróða; 8 heldur gestrisinn, gott elskandi, hóglátur, réttlátur, heilagur, bindindissamur; 9 maður fastheldinn við hið sanna orð samkvæmt kenningunni, til þess að hann sé fær um bæði að áminna með hinni heilnæmu kenningu og að hrekja þá sem móti mæla.
10 Því að margir eru þverbrotnir og fara með hégómamál og leiða í villu, allra helzt eru það umskurnarmennirnir, 11 og verður að stinga upp í þá; það eru mennirnir, sem kollvarpa heilum heimilum, er þeir kenna það sem eigi á að kenna, fyrir svívirðilegs gróða sakir. 12 Einhver af þeim, eigin spámaður þeirra, hefir svo að orði komist: Krítarmenn eru síljúgandi, óarga dýr og letimagar. 13 Þessi vitnisburður er sannur. Fyrir þá sök skalt þú vanda harðlega um við þá, til þess að þeir verði heilbrigðir í trúnni, 14 og gefi sig ekki að Gyðinga-æfintýrum og boðum manna, sem fráhverfir eru sannleikanum. 15 Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samvizka. 16 Þeir segjast svo sem þekkja Guð, en afneita honum með verkunum; eru þeir viðbjóðslegir og óhlýðnir og óhæfir til hvers góðs verks.
2
En tala þú það, sem sæmir hinni heilnæmu kenningu, 2 að aldraðir menn séu bindindissamir, siðprúðir, hóglátir, heilbrigðir í trúnni, kærleikanum og þolgæðinu; 3 svo eiga og aldraðar konur að vera virðulegar í háttalagi sínu, ekki rógberar og ekki heldur í ánauð ofdrykkjunnar; heldur kenni gott frá sér, 4 til þess að þær laði hinar ungu til að elska menn sína, elska börn sín, 5 vera hóglátar, skírlífar, heimilisræknar, góðlátar, eiginmönnum sínum undirgefnar, til þess að orði Guðs verði ekki lastmælt. 6 Svo skalt þú og áminna hina yngri menn að vera hóglátir, 7 og sýn þig sjálfan í öllum greinum sem fyrirmynd góðra verka, sýn í kenningunni grandvarleik og virðuleik; 8 far þú með heilnæmt orð, óákæranlegt, til þess að andstæðingurinn fyrirverði sig, þegar hann hefir ekkert ilt um oss að segja. 9 Áminn þræla, að þeir séu undirgefnir húsbændum sínum og í öllu geðþekkir, ekki svörulir, 10 ekki hnuplsamir, heldur skulu þeir auðsýna hvers konar góða trúmensku, til þess að þeir prýði kenningu Guðs frelsara vors í öllum greinum. 11 Því að náð Guðs hefir opinberast sáluhjálpleg öllum mönnum, 12 og kennir hún oss að afneita óguðleik og veraldlegum girndum, og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum; 13 bíðandi hinnar sælu vonar og dýrðar-opinberunar hins mikla Guðs og frelsara vors Jesú Krists, 14 sem gaf sjálfan sig fyrir oss, til þess að hann leysti oss frá öllu ranglæti, og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.
15 Tala þú þetta og áminn, og vanda um með fullum myndugleika. Lát engan lítilsvirða þig.
3
Minn þá á að vera undirgefnir höfðingjum og yfirvöldum, vera hlýðnir, vera reiðubúnir til sérhvers góðs verks; 2 lastmæla engum, vera ódeilugjarnir, vera sanngjarnir, sýna hvers konar hógværð við alla menn; 3 því að vér vorum og fyrrum óskynsamir, óhlýðnir, villuráfandi, í ánauð margs konar fýsna og lostasemda, ólum aldur vorn í ilsku og öfund, andstyggilegir, hatandi hver annan; 4 en er gæzka Guðs frelsara vors og elska hans til mannanna birtist, 5 þá frelsaði hann oss, ekki vegna réttlætisverkanna, sem vér höfðum unnið, heldur samkvæmt miskunn sinni fyrir laug endurfæðingar og endurnýjungar heilags anda, 6 sem hann úthelli yfir oss ríkulega fyrir Jesúm Krist, frelsara vorn, 7 til þess að vér, réttlættir fyrir náð hans, yrðum í voninni erfingjar eilífs lífs. 8 Það orð er satt, og á þetta vil eg að þú leggir alla áherzlu, til þess að þeir, sem fest hafa trú á Guð, láti sér umhugað um að stunda góð verk. Þetta er gott og mönnunum nytsamlegt. 9 En forðast þú heimskulegar þrætur og ættartölur og deilur og lögmálsstælur, því að þær eru gagnslausar og hégómlegar. 10 Þrætumanni skalt þú sneiða hjá, er þú hefir einu sinni og tvisvar ámint hann; 11 með því að þú veizt að slíkur maður er rangsnúinn og syndgar; hann er sjálfdæmdur.
12 Þegar eg sendi Artemas til þín eða Týkíkus, þá gjör þér far um að koma til mín í Nikópólis, því þar hefi eg ásett mér að hafa vetrarvist. 13 Greið sem bezt för þeirra Senasar lögvitrings og Apollós, til þess að þá bresti ekkert. 14 En vorir menn eiga og að læra að stunda góð verk til nauðsynja-þarfa, til þess að þeir séu ekki ávaxtarlausir.
15 Allir, sem hjá mér eru, senda þér kveðju. Heilsa þeim, sem oss elska í trú.
Náð sé með yður öllum.