Að búa til rafbók (gamalt)

Það er tiltölulega einfalt að búa til rafbók. Það eru nokkur skref en á Rafbókavefnum er að finna einfaldar leiðbeiningar.

Það eru til margar tegundir af rafbókum. Flestar skipta ekki máli. Þeir sem vilja búa til rafbækur sem ná til sem flestra ættu að búa til Epub skrá. Sú tegund af rafbók er hægt að lesa í flestum tegundum tækja. Samkvæmt niðurhalstölum hjá Rafbókavefnum (og ég hef heyrt svipaða sögu frá Lestu og Emmu) þá nota hins vegar flestir Kindle rafbókalesara sem ekki geta opnað Epub skrár. Það þarf því að breyta fullbúnum Epub skrám í skráargerð sem heitir Mobipocket sem Kindle getur opnað.

Áður en hafist er handa við að búa til rafbók er rétt að athuga nokkur atriði. Rafbækur (t.d. EPUB og MOBI) byggjast á flæðandi texta sem aðlagast þeim skjá sem bókin er sýnd á. Það þýðir að ekki er hægt að stjórna því nákvæmlega hvernig textinn lítur út á skjánum. Það er því oft betra að hafa uppsetninguna einfalda og leyfa sjálfgefnum möguleikum rafbókalesara að ráða frekar. Þannig ætti ekki að tiltaka stafagerð eða leturstærð nema að takmörkuðu leyti. Það þýðir líka að betra er að hafa myndir á milli efnisgreina heldur en í þeim miðjum.

Fyrsta skref er að hafa fullbúið handrit útbúið með réttum fyrirsögnum (headings) í til dæmis Microsoft Word eða LibreOffice Writer. Einnig er hægt að vinna slíkt beint í Sigil en flestum þykir betra að vinna grunnvinnuna í ritvinnsluforriti.

Næsta skref er að breyta HTML skjali úr Word í rafbók eða þá að snurfusa slíka bók til (ef þörf er á).

Þeir sem vilja geta líka búið til einfaldar kápur í forritinu Calibre.

Að lokum þarf að búa til rafbók sem hægt er að opna í Kindle en það er gert í Calibre.

Ef eitthvað í leiðbeiningunum er óljóst þá skulið þið ekki hika við að spyrja út í það í athugasemdakerfinu.