Kápugerð í Calibre

Þegar þú setur rafbók án forsíðumyndar inn í Calibre býr forritið til kápu á bókina. Þessi forsíða er yfirleitt bara skjáskot af fremstu síðunni og ekkert sérlega falleg.

Það er til viðbót fyrir Calibre sem býr til einfaldar kápur. Það heitir Generate Cover. Setið upp viðbótina með leiðbeiningunum sem er að finna á heimasíðu hennar.

Ef allt hefur gengið að óskum ætti að vera komin smámynd efst í hægra hornið eins og sést hér að ofan. Þegar þið smellið á hana koma upp valmöguleikar um hvernig þið viljið hafa kápuna.

Í glugganum dimensions mæli ég með því að þið breytið stærðinni á kápunni í 600×800 eins og sést hér að ofan.

Þær upplýsingar sem kom fram á kápunni eru unnar úr lýsigögnum bókarinnar. Þið getið valið hvaða upplýsingar eiga að koma þar fram. Þið getið líka sett inn mynd að eigin vali, sett inn bakgrunn og margt fleira.

Þegar kápan er tilbúin smellið þið á „Ok“. Ef þið stefnið að því að dreifa rafbókinni þá er rétt að opna bókina aftur í Sigil og setja nýju kápuna inn í rafbókarskránna sjálfa.

Til þess að finna rafbókina smellið þið á textann „Click to open“ sem er hægra megin á skjánum í Calibre.

Það er rétt að benda á að ef þið viljið að kápan sé innbyggð í Mobipocket skrána (fyrir Kindle) líka þá er best að gera ekki slíka skrá fyrren búið er að bæta kápunni inn í Epub skjalið með Sigil.