Fyrra bréf Páls postula til Korintumanna

1

Páll, kallaður til postula Jesú Krists, fyrir vilja Guðs, og bróðirinn Sóstenes, 2 til safnaðar Guðs, sem er í Korintuborg, hinna helguðu í Kristi Jesú, heilögu samkvæmt köllun, ásamt öllum þeim, er á sérhverjum stað, hjá þeim og hjá oss, ákalla nafnið drottins vors Jesú Krists.

3 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og drotni Jesú Kristi.

4 Ávalt þakka eg Guði mínum yðar vegna fyrir þá náð Guðs, sem yður er gefin í Kristi Jesú, 5 að þér í honum eruð auðgaðir orðnir í öllu, í allri ræðu og allri þekkingu, 6 eins og líka vitnisburðurinn um Krist er staðfestur orðinn á meðal yðar, 7 svo að yður brestur ekki neina náðargjöf, þar sem þér væntið opinberunar drottins vors Jesú Krists, 8 hans, sem og mun gjöra yður staðfasta alt til enda, óásakanlega á degi drottins vors Jesú Krists. 9 Trúr er Guð, sem yður hefir kallað til samfélags sonar síns Jesú Krists, drottins vors.

10 En eg áminni yður, bræður, vegna nafns drottins vors Jesú Krists, að þér mælið allir hið sama og að ekki séu flokkadrættir á meðal yðar, heldur að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun. 11 Því að mér hefir verið tjáð um yður, bræður mínir, af heimilismönnum Klóe, að þrætur eigi sér stað meðal yðar. 12 Eg á við þetta, að sérhver yðar segir: Eg er Páls; — og eg er Apollóss; — og eg er Kefasar; — og eg er Krists. 13 Er þá Kristi skift í sundur? Mun Páll hafa verið krossfestur fyrir yður? Eða eruð þér skírðir til nafns Páls? 14 Eg þakka Guði fyrir, að eg hefi engan yðar skírt nema Krispus og Gajus, 15 til þess að enginn skuli segja, að þér séuð skírðir til míns nafns. 16 Jú, eg skírði líka heimamenn Stefanasar. Annars veit eg ekki til að eg hafi skírt neinn annan. 17 Því að ekki sendi Kristur mig til að skíra, heldur til að boða fagnaðarerindi, ekki með orðspeki, til þess að krossinn Krists misti ekki gildi sitt.

18 Því að orð krossins er heimska þeim er glatast, en oss, sem hólpnir verðum, er það kraftur Guðs; 19 því að ritað er: Eyða mun eg vizku vitringanna, og skynsemi hinna skynsömu mun eg að engu gjöra. 20 Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður? Hvar orðkappi þessarar aldar? Hefir Guð ekki gjört að heimsku speki heimsins. 21 Því að þar eð heimurinn með spekinni þekti ekki Guð í speki Guðs, þóknaðist Guði að gjöra hólpna þá, er trúa, með heimsku prédikunarinnar; 22 með því að bæði Gyðingar heimta tákn, og Grikkir leita að speki, 23 en vér prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli, en heiðingjum heimsku, 24 en sjálfum hinum kölluðu, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs. 25 Því að hið heimskulega Guðs er mönnum vitrara, og hið óstyrka Guðs mönnum sterkara.

26 Því að lítið, bræður, til köllunar yðar: þér eruð ekki margir vitrir eftir holdinu, ekki margir máttugir, ekki margir stórættaðir; 27 heldur hefir Guð útvalið hið heimskulega heimsins, til þess að gjöra hinum vitru kinnroða, og hið óstyrka heimsins hefir Guð útvalið, til þess að gjöra hinum voldugu kinnroða. 28 Og hið ógöfuga í heiminum og hið fyrirlitna hefir Guð útvalið, og það sem ekkert er, til þess að gjöra það að engu, sem er, 29 til þess að ekki skuli neitt hold hrósa sér fyrir Guði. 30 En fyrir hann eruð þér í Kristi Jesú, sem er orðinn oss vísdómur frá Guði, bæði réttlæti og helgun og endurlausn; 31 til þess að, eins og ritað er: sá sem hrósar sér, hrósi sér í drotni.


2

Og er eg kom til yðar, bræður, og boðaði yður leyndardóm Guðs, kom eg ekki heldur með frábærleik orðs eða speki; 2 því að eg ásetti mér að vita ekkert á meðal yðar, nema Jesúm Krist og hann krossfestan. 3 Og eg dvaldi á meðal yðar í veikleika, ótta og mikilli angist. 4 Og orðræða mín og prédikun mín studdist ekki við sannfærandi vísdómsorð, heldur við sönnun anda og kraftar; 5 til þess að trú yðar væri eigi bygð á vísdómi manna, heldur á krafti Guðs.

6 En speki tölum vér meðal hinna fullkomnu, þó ekki speki þessarar aldar eða höfðingja þessarar aldar, sem að engu verða, 7 heldur tölum vér speki Guðs í leyndardómi, hina huldu, sem Guð hefir frá eilífð fyrirhugað oss til dýrðar, 8 og enginn af höfðingjum þessarar aldar þekti, því að ef þeir hefðu þekt hana, hefðu þeir ekki krossfest drottin dýrðarinnar; 9 en það er eins og ritað er: Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki, og ekki kom upp í hjarta mannsins, alt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann. 10 En oss hefir Guð opinberað hana fyrir andann; því að andinn rannsakar alt, jafnvel djúp Guðs. 11 Því að hver meðal manna veit hvað mannsins er, nema andi mannsins, sem í honum er? Þannig hefir heldur enginn komist að raun um, hvað Guðs er, nema Guðs andi. 12 En vér höfum ekki meðtekið anda heimsins, heldur andann, sem er frá Guði, til þess að vér skulum vita, hvað oss er af Guði gefið; 13 og það tölum vér líka, ekki með orðum, sem mannlegur vísdómur kennir, heldur sem andinn kennir, er vér útlistum andleg efni fyrir andlegum mönnum. 14 En náttúrlegur maður veitir ekki viðtöku því sem Guðs anda er; því að honum er það heimska og hann getur ekki skilið það, af því að það dæmist andlega. 15 En hinn andlegi dæmir um alt, en um hann sjálfan verður ekki dæmt af neinum; 16 því að hver hefir þekt huga drottins, að hann geti frætt hann? En vér höfum hugarfar Krists.


3

Og eg gat ekki, bræður, talað við yður eins og við andlega menn, heldur eins og við holdlega, eins og við ómálga í Kristi. 2 Mjólk gaf eg yður að drekka, mat ekki, því að enn þolduð þér það ekki. Og þér þolið það jafnvel ekki enn, 3 því að enn þá eruð þér holdlegir menn. Því að þegar metningur og þráttan er á meðal yðar, eruð þér þá eigi holdlegir menn og hegðið yður á manna hátt? 4 Því að þegar einn segir: Eg er Páls, en annar: Eg er Apollóss, eruð þér þá ekki menn? 5 Hvað er þá Apollós? Já, hvað er þá Páll? Þjónar, sem hafa leitt yður til trúar, og það eins og drottinn hefir gefið hvorum fyrir sig. 6 Eg gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn. 7 Þannig er þá hvorki sá neitt, er gróðursetur, né sá er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur. 8 En sá sem gróðursetur og sá sem vökvar eru eitt. En sérhver mun fá sín eigin laun eftir sínu eigin erfiði. 9 Því að Guðs samverkamenn erum vér; Guðs akurlendi, Guðs hús eruð þér.

10 Eftir þeirri náð Guðs, sem mér er veitt, hefi eg eins og vitur húsameistari lagt grundvöll; en annar byggir ofan á. En sérhver athugi, hvernig hann byggir ofan á. 11 Því að annan grundvöll getur enginn lagt en þann sem lagður er, sem er Jesús Kristur. 12 En ef einhver byggir ofan á grundvöllinn gull, silfur, dýra steina, tré, hey, hálm, 13 þá mun verk sérhvers verða augljóst, því að dagurinn mun leiða það í ljós, af því að hann opinberast með eldi; og hvílíkt verk hvers eins er, það mun eldurinn prófa. 14 Ef nú verk einhvers fær staðist, það er hann bygði ofan á, mun hann taka laun. 15 Ef verk einhvers brennur upp, mun hann bíða tjón, en sjálfur mun hann frelsaður verða, en þó eins og úr eldi.

16 Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður? 17 Ef nokkur eyðir musteri Guðs, mun guð eyða honum, því að musteri Guðs er heilagt, og það eruð þér.

18 Enginn dragi sjálfan sig á tálar. Ef nokkur hygst vera vitur yðar á meðal í þessum heimi, hann verði heimskur, til þess að hann verði vitur. 19 Því að speki þessa heims er heimska hjá Guði. Því að ritað er: Hann er sá, sem grípur hina vitru í slægð þeirra. 20 Og aftur: Drottinn þekkir hugsanir vitringanna, að þær eru hégómlegar. 21 Fyrir því stæri enginn sig af mönnum. Því að alt er yðar, 22 hvort heldur er Páll, eða Apollós, eða Kefas, eða heimur, eða líf, eða dauði, eða hið yfirstandandi, eða hið komandi; alt er yðar, 23 en þér eruð Krists, en Kristur Guðs.


4

Þannig líti menn á oss svo sem þjóna Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs. 2 Hér er þess að öðru leyti krafist af ráðsmönnunum, mönnunum, að sérhver reynist trúr. 3 En mér er það fyrir minstu að verða dæmdur af yður eða af mannlegu dómþingi; eg dæmi mig ekki einu sinni sjálfur. 4 Því að eg er mér ekki neins meðvitandi, en með því er eg þó ekki réttlættur; en drottinn er sá sem dæmir mig. 5 Dæmið því ekki neitt fyrir tímann, áður en drottinn kemur, hann sem og mun leiða það í ljós, sem í myrkrinu er hulið, og opinbera ráð hjartnanna. Og þá mun sérhverjum hlotnast lofstír af Guði.

6 En þetta hefi eg, bræður, heimfært til sjálfs mín og Apollóss yðar vegna, til þess að þér mættuð læra af okkur það sem ekki fer fram úr »því sem ritað er«, til þess að enginn yðar hroki sér upp einum í vil, öðrum til niðrunar. 7 Því að hver gefur þér yfirburði? Og hvað hefir þú, sem þú hefir ekki þegið? En hafir þú nú þegið, hví stærir þú þig þá, eins og þú hefðir ekki þegið? 8 Þér eruð þegar orðnir mettir, þér eruð þegar orðnir auðugir, án vor eruð þér orðnir konungar. Og eg vildi óska, að þér væruð orðnir konungar, til þess að einnig vér mættum sitja að völdum með yður. 9 Því að mér virðist Guð hafa sett oss postulana sízta, eins og dauðadæmda; því að sjónleikur erum vér orðnir heiminum, bæði englum og mönnum. 10 Vér erum heimskir sökum Krists, en þér vitrir í Kristi; vér veikir, en þér sterkir; þér virtir, en vér óvirtir. 11 Alt til þessarar stundar þolum vér bæði hungur og þorsta og klæðleysi, og oss er misþyrmt, og vér höfum engan samastað, 12 og vér stöndum í erfiði, vinnandi með eigin höndum. Hrakyrtir blessum vér, ofsóttir umberum vér, 13 lastaðir áminnum vér. Eins og sorp heimsins erum vér orðnir, afhrak allra alt til þessa.

14 Ekki rita eg þetta til þess að gjöra yður kinnroða, heldur áminnandi yður eins og elskuleg börn mín. 15 Því að þótt þér hefðuð tíu þúsund fræðara í Kristi, þá hafið þér þó eigi marga feður; því að eg er sá sem hefi getið yður í Kristi Jesú fyrir fagnaðarerindið. 16 Eg áminni yður því: Verðið eftirbreytendur mínir. 17 Þess vegna sendi eg til yðar Tímóteus, sem er elskað og trútt barn mitt í drotni, og hann mun minna yður á vegu mína í Kristi, eins og eg kenni alstaðar í hverjum söfnuði. 18 En nokkurir hafa gjörst hreyknir, rétt eins og eg ætlaði ekki að koma til yðar; 19 en eg mun brátt koma til yðar, ef drottinn vill, og mun eg þá kynna mér, ekki orð hinna stærilátu, heldur kraftinn. 20 Því að guðsríki er ekki fólgið í orðum, heldur í krafti. 21 Hvað viljið þér? Á eg að koma til yðar með vendi, eða með kærleika og hógværðar anda?


5

Í hámælum er haft, að saurlifnaður eigi sér stað á meðal yðar, og það slíkur saurlifnaður, sem jafnvel ekki á sér stað meðal heiðingja, að maður heldur við konu föður síns. 2 Og svo eruð þér stærilátir, og hafið ekki miklu fremur hrygst, svo að maðurinn, sem þetta verk hefir drýgt, yrði rekinn burt úr félagi yðar! 3 Því að eg fyrir mitt leyti, fjarlægur að líkamanum til, en nálægur að andanum, hefi þegar, eins og eg væri nálægur, kveðið þann dóm upp yfir manni þeim, sem þetta hefir þannig drýgt, 4 að slíkan mann skyldi í nafni drottins vors Jesú, þegar þér og minn andi væruð samankomnir með krafti drottins vors Jesú, 5 selja Satan á vald til deyðingar holdinu, til þess að andinn mætti frelsast á degi drottins Jesú. 6 Ekki er það fallegt, sem þér hrósið yður af! Vitið þér ekki, að lítið súrdeig sýrir alt deigið? 7 Hreinsið burt gamla súrdeigið, til þess að þér séuð nýtt deig, eins og þér eruð ósýrðir. Því að páskalambi voru er og slátrað, sem er Kristur. 8 Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi nje með súrdeigi ilsku og vonzku, heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans.

9 Eg ritaði yður í bréfinu, að þér skylduð ekki eiga mök við saurlífismenn — 10 ekki við saurlífismenn þessa heims yfirleitt, eða við ásælna og ræningja, eða hjáguðadýrkendur, því að þá hefðuð þér orðið að fara út úr heiminum. 11 En nú rita eg yður, að þér skulið engin mök eiga við nokkurn þann, er nefnir sig bróður, en er saurlífismaður, eða ásælinn, eða skurðgoðadýrkari, eða lastmáll, eða ofdrykkjumaður, eða ræningi; slíkum manni skuluð þér jafnvel ekki samneyta. 12 Því að hvað skyldi eg vera að dæma þá, er fyrir utan eru? Dæmið þér ekki þá, sem fyrir innan eru? 13 Og mun ekki Guð dæma þá sem fyrir utan eru? Rekið hinn vonda burt frá sjálfum yður.


6

Dirfist nokkur yðar, er hann hefir sök móti öðrum, að láta það koma undir dóm fyrir hinum ranglátu, en ekki fyrir hinum heilögu? 2 Eða vitið þér ekki, að hinir heilögu eiga að dæma heiminn? Og ef heimurinn á að dæmast af yður, eruð þér þá óverðugir að dæma í hinum minstu málum? 3 Vitið þér eigi, að vér eigum að dæma engla? Hvað þá tímanleg efni! 4 Þegar þér því eigið að dæma um tímanleg efni, hvort setjið þér þá fyrir dómara hina fyrirlitnu í söfnuðinum? 5 Eg segi það yður til blygðunar. Er þá enginn vitur til á meðal yðar, sem skorið geti úr málum fyrir bróður sinn? 6 En bróðir á í máli við bróður, og það fyrir vantrúuðum! 7 Annars er það nú yfirleitt galli á yður, að þér eigið í málaferlum hver við annan. Hví líðið þér ekki heldur órétt? Hví látið þér ekki heldur hafa af yður? 8 En þér hafið rangsleitni í frammi og hafið af öðrum, og það af bræðrum! 9 Eða vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki guðsríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn, né skurðgoðadýrkendur, né hórkarlar, né mannbleyður, né mannhórar, 10 né þjófar, né ásælnir, né drykkjumenn, né lastmálir, né ræningjar guðsríki erfa. 11 Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð þvost, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn drottins Jesú Krists og fyrir anda vors Guðs.

12 Alt er mér leyfilegt, en ekki er alt gagnlegt. Alt er mér leyfilegt, en eg má ekki láta neitt fá vald yfir mér. 13 Maturinn er fyrir magann og maginn fyrir matinn, en Guð mun hvorttveggja að engu gjöra. En líkaminn er ekki fyrir saurlífi, heldur fyrir drottin, og drottinn fyrir líkamann. 14 En bæði hefir Guð uppvakið drottin og mun uppvekja oss fyrir kraft sinn. 15 Vitið þér ekki, að líkamir yðar eru limir Krists? Á eg þá að taka limi Krists og gjöra þá að skækju-limum? Fjarri fer því. 16 Eða vitið þér ekki, að sá er samlagar sig skækjunni, verður ásamt henni einn líkami? Því að þau tvö — segir hann — munu verða eitt hold. 17 En sá er samlagar sig drotni, er einn andi ásamt honum. 18 Flýið saurlifnaðinn! Sérhver önnur synd, sem maðurinn kann að drýgja, er fyrir utan líkama hans. En saurlífismaðurinn syndgar á móti eigin líkama sínum. 19 Eða vitið þér ekki, að líkami yðar er musteri heilags anda í yður, sem þér hafið frá Guði? Og ekki eruð þér yðar eigin, 20 því að þér eruð verði keyptir. Vegsamið því Guð í líkama yðar.


7

En viðvíkjandi því sem þér hafið ritað um, þá er það gott fyrir mann að snerta ekki konu. 2 En vegna saurlífisins hafi hver og einn sína eiginkonu, og hver og ein hafi sinn eiginmann. 3 Maðurinn láti konunni í té það sem skylt er, og sömuleiðis einnig konan manninum. 4 Ekki hefir konan vald yfir sínum eigin líkama, heldur maðurinn, en sömuleiðis hefir einnig maðurinn ekki vald yfir sínum eigin líkama, heldur konan. 5 Haldið yður eigi hvort frá öðru, nema þá eftir samkomulagi, um stundarsakir, til þess að þér getið haft næði til bænarinnar, og takið svo saman aftur, til þess að Satan freisti yðar ekki vegna bindindisleysis yðar. 6 En þetta segi eg í tilhliðrunar skyni, ekki sem skipun. 7 En þess óska eg, að allir menn væru eins og eg er sjálfur, en hver hefir sína eigin náðargjöf frá Guði, einn svo, og annar svo.

8 En hinum ókvæntu og ekkjunum segi eg, að þeim er gott að halda áfram að vera eins og eg er. 9 En vanti þau bindindissemi, þá gangi þau í hjónaband; því að betra er að ganga í hjónaband en að brenna. 10 En þeim sem gengið hafa í hjónaband, býð eg, þó ekki eg, heldur drottinn, að konan skuli ekki skilja við mann sinn, — 11 en hafi hún skilið við hann, þá sé hún áfram ógift eða sættist við manninn, — og að maðurinn skuli ekki reka frá sér konuna. 12 En við hina aðra segi eg, ekki drottinn: Ef bróðir nokkur á vantrúaða konu, og hún lætur sér það vel líka að búa saman við hann, þá reki hann hana ekki frá sér. 13 Og kona, sem á vantrúaðan mann, og hann lætur sér vel líka að búa saman við hana, yfirgefi ekki manninn. 14 Því að vantrúaði maðurinn er helgaður í konunni og vantrúaða konan er helguð í bróðurnum. Annars væru börn yðar óhrein, en nú eru þau heilög. 15 En ef hinn vantrúaði vill skilja, þá fái hann skilnað, því að hvorki bróðir né systir eru þrælbundin í slíkum efnum, en í friði hefir Guð kallað oss; 16 því að hvað veizt þú, kona, hvort þú munir frelsa manninn? Eða hvað veizt þú, maður, hvort þú munir frelsa konuna? 17 Þó framgangi hver og einn eins og drottinn hefir úthlutað honum, eins og Guð hefir kallað hann. Og þannig skipa eg fyrir í öllum söfnuðunum. 18 Sé einhver kallaður sem umskorinn, þá dragi hann ekki yfir; hafi einhver verið kallaður sem óumskorinn, þá láti hann ekki umskera sig. 19 Umskurnin er ekkert og yfirhúðin ekkert, heldur það að varðveita boðorð Guðs. 20 Hver og einn sé kyrr í þeirri köllun, sem hann var kallaður í. 21 Varst þú þræll, er þú varst kallaður? Set það ekki fyrir þig; en þótt þú enda getir orðið frjáls, þá nota það heldur. 22 Því að sá þræll, sem kallaður er í drotni, er frelsingi drottins; á sama hátt er sá, sem kallaður er sem frjáls, þræll Krists. 23 Þér eruð verði keyptir; verðið ekki mannaþrælar. 24 Bræður, sérhver verði hjá Guði kyrr í þeirri stétt, sem hann var kallaður í.

25 Um meyjarnar hefi eg enga skipun frá drotni. En álit mitt læt eg í ljósi eins og sá, er hlotið hefir þá náð af drotni að vera trúr. 26 Eg álít þá, að það sé gott vegna yfirstandandi neyðar, — að það sé gott fyrir mann að vera þannig. 27 Ertu við konu bundinn? Leitast þá ekki við að verða laus. Ertu laus orðinn við konu? 28 Leita þá ekki kvonfangs. En þótt þú kvongist, syndgar þú ekki; og ef mærin giftist, syndgar hún ekki; en þrenging munu slíkir hljóta fyrir hold sitt, en eg vildi hlífa yður. 29 En það segi eg, bræður, tíminn er takmarkaður; til þess að hér eftir jafnvel þeir, sem kvæntir eru, skuli vera eins og þeir væru það ekki, 30 og þeir sem gráta, eins og þeir grétu ekki, og þeir sem fagna, eins og þeir fögnuðu ekki, og þeir sem kaupa, eins og þeir héldu ekki í eignina, 31 og þeir sem nota heiminn, eins og þeir færðu sér hann ekki í nyt. Því að mynd þessa heims líður undir lok. 32 En eg vil, að þér séuð áhyggjulausir. Hinn ókvænti ber fyrir brjósti það sem drottins er, hversu hann megi drotni þóknast. 33 Hinn kvænti ber fyrir brjósti það sem heimsins er, hversu hann megi þóknast konunni. 34 Það er og munur á konunni og meynni; hin ógifta mær ber fyrir brjósti það sem drottins er, til þess að hún megi vera heilög, bæði að líkamanum og andanum. En hin gifta ber fyrir brjósti það sem heimsins er, hvernig hún megi þóknast manninum. 35 En þetta segi eg sjálfum yður til gagns, ekki til þess að varpa snöru yfir yður, heldur til þess að efla velsæmi og óbifanlega fastheldni við drottin. 36 En ef einhver álítur, að hann gjöri meynni vansa, ef hún er af blómaskeiði, og hjá því verður ekki komist, þá gjöri hann það sem honum sýnist; hann syndgar ekki; giftist þau. 37 Sá þar á móti, sem er staðfastur í hjarta sínu og ekki er tilneyddur, en hefir fult vald til að fara eftir eigin vilja sínum, og hefir afráðið það í hjarta sínu að varðveita meyna, sem hann á fyrir að sjá, gjörir vel. 38 Þannig gjörir þá bæði sá maður vel, sem giftir mey sína; og sá sem ekki giftir hana, hann gjörir þó betur. 39 Konan er bundin meðan maður hennar er á lífi. En ef maðurinn deyr, er henni frjálst að giftast hverjum sem hún vill, aðeins sé það í drotni. 40 Þó er hún sælli, ef hún heldur áfram að vera eins og hún er, eftir minni skoðun. En eg þykist og hafa anda Guðs.


8

Viðvíkjandi fórnarkjöti skurðgoða, þá vitum vér, að þekkingu höfum vér allir. Þekkingin blæs menn upp, en kærleikurinn byggir upp. 2 Ef einhver þykist hafa öðlast þekkingu á einhverju, hann þekkir enn ekki eins og þekkja ber. 3 En ef einhver elskar Guð, þá er hann þektur af honum. 4 En viðvíkjandi neyzlu fórnarkjöts skurðgoða, þá vitum vér, að skurðgoð er ekkert í heiminum og að enginn er Guð nema einn. 5 Því að enda þótt til séu svonefndir guðir, hvort heldur er á himni eða á jörðu, eins og til eru margir guðir og margir herrar, 6 þá er þó ekki til fyrir oss nema einn Guð, faðirinn, sem allir hlutir eru frá, og vér til hans, og einn drottinn Jesús Kristur, sem allir hlutir eru til orðnir fyrir, og vér fyrir hann. 7 Þó er sú þekking ekki hjá öllum, en nokkurir eta það sem skurðgoðafórn, af því að þeir hafa vanist skurðgoðum alt til þessa, og þá saurgast samvizka þeirra, sem er óstyrk. 8 En matur mun ekki gjöra oss þóknanlega Guði. Hvorki missum vér neins, þótt vér etum ekki, né ávinnum vér neitt, þótt vér etum. 9 En gætið þess, að þetta frelsi yðar verði ekki hinum óstyrku ásteytingarefni. 10 Því sjái einhver þig, — þig sem hefir þekkinguna, — sitja til borðs í goðahofi, mundi það ekki stæla samvizku þess, sem óstyrkur er, til að neyta fórnarkjöts? 11 Því að hinn óstyrki glatast vegna þekkingar þinnar, bróðirinn, sem Kristur dó fyrir. 12 En þegar þér þannig syndgið gegn bræðrunum og særið samvizku þeirra, sem er óstyrk, þá syndgið þér á móti Kristi. 13 Þess vegna mun eg, ef matur hneykslar bróður minn, um aldur og æfi ekki kjöts neyta, til þess að eg hneyksli ekki bróður minn.


9

Er eg ekki frjáls? Er eg ekki postuli? Hefi eg ekki séð Jesúm, drottin vorn? Eruð þér ekki verk mitt í drotni? 2 Þótt ekki væri eg postuli fyrir aðra, þá er eg það fyrir yður. Því að þér eruð í drotni innsigli postuladóms míns; 3 þetta er vörn mín gagnvart þeim, sem dæma um mig. 4 Höfum vér ekki frelsi til að eta og drekka? 5 Höfum vér ekki frelsi til að ferðast um með kristna eiginkonu, alveg eins og hinir postularnir og bræður drottins og Kefas? 6 Eða erum við Barnabas þeir einu, sem ekki eru undanþegnir því að vinna? 7 Hver tekst nokkurn tíma herþjónustu á hendur á sjálfs síns mála? Hver gróðursetur víngarð og neytir ekki ávaxtar hans? eða hver gætir hjarðar og neytir ekki af mjólk hjarðarinnar? 8 Tala eg þetta á mannlegan hátt? Eða segir ekki einnig lögmálið það? 9 Því að ritað er í lögmáli Móse: Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir. Hvort lætur Guð sér ant um uxana? 10 Eða segir hann það ekki að öllu leyti vor vegna? Jú, því að vor vegna var það skrifað, því að plógarinn á að plægja með von og þreskjarinn með von um hlutdeild. 11 Ef vér nú höfum sáð því sem andlegt er hjá yður, er þá mikið að vér uppskerum hjá yður það sem líkamlegt er? 12 Ef aðrir hafa þennan rétt hjá yður, höfum vér hann þá ekki enn þá fremur? En vér höfum ekki hagnýtt oss þennan rétt, heldur sættum oss við alt, til þess að vér enga tálmun gjörum fagnaðarerindi Krists. 13 Vitið þér ekki, að þeir sem vinna að hinum helgu athöfnum, þeir alast við það sem kemur úr helgidóminum, að þeir, sem starfa við altarið, taka hlut með altarinu? 14 Þannig hefir drottinn einnig fyrirskipað, að þeir, sem prédika fagnaðarerindið, skuli lifa af fagnaðarerindinu. 15 En eg hefi ekki hagnýtt mér neitt af þessu, og eg skrifa þetta ekki heldur til þess að þannig skuli verða gjört við mig. Því að mér væri betra að deyja en að nokkur ónýti það sem eg hrósa mér af. 16 Því að þótt eg sé að boða fagnaðarerindi, þá er það mér ekki neitt hrósunarefni, því að nauðsyn hvílir á mér; já, vei mér, ef eg ekki boðaði fagnaðarerindi. 17 Því að gjöri eg þetta af frjálsum vilja, þá fæ eg laun, en gjöri eg það tilknúður, þá hefir mér verið trúað fyrir ráðsmensku. 18 Hver eru þá laun mín? Að eg læt fagnaðarerindið vera ókeypis, er eg boða það, svo að eg hagnýti mér ekki það sem eg á rétt á í fagnaðarerindinu. 19 Því að þótt eg sé öllum óháður, hefi eg gjört sjálfan mig að þjóni allra, til þess að eg áynni þess fleiri. 20 Og eg hefi verið Gyðingunum sem Gyðingur, til þess að eg áynni Gyðinga, þeim sem eru undir lögmálinu eins og sá, sem er undir lögmálinu, enda þótt eg sjálfur sé ekki undir lögmálinu, til þess að eg áynni þá sem eru undir lögmálinu; 21 hinum lögmálslausu sem lögmálslaus, þótt eg sé ekki lögmálslaus fyrir Guði, heldur lögbundinn Kristi, til þess að eg áynni hina lögmálslausu. 22 Hinum óstyrku hefi eg verið óstyrkur, til þess að eg áynni hina óstyrku. Eg er orðinn öllum alt, til þess að eg yfir höfuð geti frelsað nokkura. 23 En eg gjöri alt vegna fagnaðarerindisins, til þess að eg fái hlutdeild með því. 24 Vitið þér ekki, að þeir sem á skeiðvellinum hlaupa, hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig, að þér getið hlotið þau. 25 En sérhver, sem tekur þátt í kappleikjum, er bindindissamur í öllu, þeir til þess að hljóta forgengilegan sigursveig, en vér óforgengilegan. 26 Þess vegna hleyp eg þá ekki eins og upp á óvissu; eg berst eins og sá, er ekki slær í vindinn; 27 en eg lem líkama minn og leiði hann í ánauð, til þess að eg, sem hefi prédikað fyrir öðrum, skuli ekki sjálfur verða gjörður rækur.


10

Því að eg vil ekki, bræður, að yður skuli vera ókunnugt um það, að feður vorir voru allir undir skýinu, og fóru allir yfir um hafið, 2 og voru allir skírðir til Móse í skýinu og hafinu, 3 og neyttu allir hinnar sömu andlegu fæðu, 4 og drukku allir hinn sama andlega drykk; því að þeir drukku af hinum andlega kletti, sem fylgdi þeim, en kletturinn var Kristur. 5 En samt hafði Guð enga velþóknun á flestum þeirra, því að þeir féllu í eyðimörkinni. 6 En þessir hlutir hafa gjörst sem fyrirboðar fyrir oss, til þess að vér verðum ekki sólgnir í það sem ilt er, eins og þeir urðu sólgnir í það. 7 Og verðið ekki heldur skurðgoðadýrkendur, eins og nokkurir þeirra, alt eins og ritað er: Lýðurinn settist niður til að eta og drekka, og þeir stóðu upp til að leika. 8 Drýgjum ekki heldur hórdóm, eins og nokkurir þeirra drýgðu hórdóm, og tuttugu og þrjár þúsundir féllu á einum degi. 9 Freistum ekki heldur drottins, eins og nokkurir þeirra freistuðu hans, og biðu bana af höggormum. 10 Möglið ekki heldur, eins og nokkurir þeirra mögluðu, og fórust fyrir eyðandanum. 11 En alt þetta kom yfir þá sem fyrirboði og það er ritað til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn til, 12 Því gæti sá, er hygst standa, vel að sér, að hann ekki falli. 13 Yfir yður hefir ekki komið nema mannleg freisting, en Guð er trúr, sem ekki mun leyfa, að þér freistist yfir megn fram, heldur mun hann ásamt freistingunni einnig gjöra endirinn þannig, að þér fáið staðist.

14 Fyrir því, mínir elskuðu, flýið skurðgoðadýrkunina. 15 Eg tala til yðar sem skynsamra manna; dæmið þér um það, sem eg segi. 16 Sá bikar blessunarinnar, sem vér blessum, er hann ekki samfélag um blóð Krists? Og brauðið, sem vér brjótum, er það ekki samfélag um líkama Krists? 17 Af því að brauðið er eitt, erum vér hinir mörgu einn líkami, því að vér höfum allir hlutdeild í hinu eina brauði. 18 Lítið á Ísrael eftir holdinu; komast ekki þeir, sem fórnirnar eta, í samfélag um altarið? 19 Hvað segi eg þá? Að fórnarkjöt skurðgoða sé nokkuð? Eða að skurðgoð sé nokkuð? 20 Nei, heldur að það sem heiðingjarnir blóta, það blóta þeir illum öndum, en ekki Guði. En eg vil ekki að þér verðið samlagsmenn illu andanna. 21 Ekki getið þér drukkið bikar drottins og bikar illra anda. Ekki getið þér tekið þátt í borðhaldi drottins og borðhaldi illra anda, 22 Eða eigum vér að reita drottin til reiði? Munum vér vera máttugri en hann?

23 Alt er leyfilegt, en ekki er alt gagnlegt. Alt er leyfilegt, en ekki uppbyggir alt. 24 Enginn leiti síns eigin, heldur þess sem hins er. 25 Alt það, sem selt er í sláturbúðinni, getið þér etið án nokkurra eftirgrenslana vegna samvizkunnar. 26 Því að jörðin er drottins og fylling hennar. 27 Ef einhver hinna vantrúuðu býður yður, og ef þér viljið fara, þá etið af öllu því sem fram fyrir yður er sett, án eftirgrenslana vegna samvizkunnar. 28 En ef einhver segir við yður: Þetta er fórnarkjöt! — þá etið ekki, vegna þess, er aðvart gjörði, og vegna samvizkunnar. 29 Samvizkunnar, segi eg, ekki mannsins sjálfs, heldur hins, því að hvers vegna skyldi frelsi mitt eiga að dæmast af samvizku annars? 30 Ef eg tek þátt í því með þökkum, hvers vegna skyldi eg sæta lastmælum fyrir það, sem eg þakka fyrir? 31 Hvort sem þér því etið eða drekkið, eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það alt Guði til dýrðar. 32 Verið hvorki Gyðingum né Grikkjum né söfnuði Guðs til ásteytingar, 33 eins og eg fyrir mitt leyti reyni í öllu að þóknast öllum og leita ekki míns eigin gagns, heldur gagns hinna mörgu, til þess að þeir frelsist.


11

1 Verið eftirbreytendur mínir, eins og eg fyrir mitt leyti er Krists.

2 En eg hrósa yður fyrir það, að þér í öllu minnist mín og haldið fast við setningarnar, eins og eg lagði þær fyrir yður. 3 En eg vil, að þér skulið vita, að Kristur er höfuð sérhvers manns, en maðurinn höfuð konunnar, en Guð höfuð Krists. 4 Sérhver sá maður, sem biðst fyrir eða spáir og hefir á höfðinu, hann óvirðir höfuð sitt; 5 en sérhver kona, sem biðst fyrir eða spáir berhöfðuð, óvirðir höfuð sitt; því að það er eitt og hið sama sem hún hefði látið raka sig. 6 Ef konan því ekki vill hylja höfuð sitt, þá láti hún og klippa sig. En ef það er óvirðing fyrir konuna að láta klippa eða raka hár sitt, þá hafi hún á höfðinu. 7 Því að karlmaður má ekki hylja höfuð sitt, með því að hann er ímynd og vegsemd Guðs, en konan er vegsemd mannsins, 8 því að ekki er maðurinn af konunni, heldur konan af manninum; 9 því að ekki var heldur maðurinn skapaður vegna konunnar, heldur konan vegna mannsins. 10 Þess vegna á konan að bera tákn yfirráða á höfði sér vegna englanna. 11 Þó er hvorki kona án manns, né maður án konu í drotni; 12 því að eins og konan er af manninum, svo er og maðurinn fyrir konuna, en alt er það af Guði. 13 Dæmið af sjálfum yður: Sæmir það konu að biðja til Guðs berhöfðuð? 14 Kennir ekki sjálf náttúran yður, að ef karlmaður ber sítt hár, þá er það honum vansæmd? 15 En ef kona ber sítt hár, þá er það henni sæmd; því að síða hárið er gefið henni í höfuðblæju stað. 16 En ætli nú einhver sér að gjöra þetta að kappsmáli, þá er slíkt ekki venja vor né safnaða Guðs.

17 En um leið og eg mæli svo fyrir, hrósa eg yður ekki fyrir það, að þér komið saman, ekki til góðs, heldur til ills. 18 Því að í fyrsta lagi heyri eg að sundrung eigi sér stað á meðal yðar, er þér komið saman á safnaðarsamkomum, og því trúi eg að nokkuru leyti; 19 því að það verður að vera flokkaskifting á meðal yðar, til þess að hinir fullreyndu á meðal yðar verði augljósir. 20 Þegar þér því komið saman, getur það ekki verið til þess að neyta drottinlegrar máltíðar, 21 því að við borðhaldið hrifsar hver sína eigin máltíð á undan, og er svo einn hungraður, en annar ölvaður. 22 Hafið þér þá ekki hús til að eta og drekka í? Eða fyrirlítið þér söfnuð Guðs og gjörið þeim kinnroða, sem ekkert eiga? Hvað á eg að segja við yður? Á eg að hæla yður fyrir þetta? Nei, eg hæli yður ekki. 23 Því að eg hefi meðtekið frá drotni það sem eg hefi kent yður, að drottinn Jesús, nóttina sem hann var svikinn, tók brauð, 24 og þakkaði og braut það og sagði: Þetta er minn líkami, sem er fyrir yður; gjörið þetta í mína minningu; 25 sömuleiðis tók hann og bikarinn, eftir kveldmáltíðina, segjandi: Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði; gjörið þetta svo oft sem þér drekkið, í mína minningu. 26 Því að svo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum, boðið þér dauða drottins, þangað til hann kemur. 27 Hver sem þess vegna etur brauðið eður drekkur bikar drottins óverðuglega, hann verður sekur við líkama og blóð drottins. 28 Hver maður prófi því sjálfan sig, og síðan eti hann af brauðinu og drekki af bikarnum. 29 Því að sá sem etur og drekkur, hann etur og drekkur sjálfum sér til dóms, ef hann gjörir ekki greinarmun á líkamanum. 30 Fyrir því eru svo margir sjúkir og krankir á meðal yðar, og allmargir deyja. 31 En ef vér dæmdum um sjálfa oss, yrðum vér ekki dæmdir; 32 en þegar vér hreppum dóm, erum vér agaðir af drotni, til þess að vér verðum ekki fyrirdæmdir ásamt heiminum. 33 Fyrir því skuluð þér, bræður mínir, þegar þér komið saman til að matast, bíða hver eftir öðrum. 34 Ef nokkur er hungraður, þá eti hann heima, til þess að samkomur yðar verði yður ekki til dóms. En um hið annað mun eg skipa fyrir, þegar eg kem.


12

En viðvíkjandi anda-gáfunnm, bræður, þá vil eg ekki að þér séuð fáfróðir. 2 Þér vitið, að þegar þér voruð heiðingjar, þá létuð þér leiða yður til mállausra skurðgoðanna, — hvernig sem þér nú voruð leiddir. 3 Fyrir því læt eg yður vita, að enginn, sem talar af Guðs anda, segir: Bölvaður sé Jesús! og enginn getur sagt: Jesús er drottinn! nema af heilögum anda.

4 Mismunur er á náðargáfum, en andinn hinn sami; 5 og mismunur er á embættum, og drottinn hinn sami; 6 og mismunur er á framkvæmdum, en Guð hinn sami, sem í öllum kemur öllu til leiðar. 7 En opinberun andans er gefin sérhverjum til þess sem gagnlegt er. 8 Því að einum veitist fyrir andann að mæla af speki, en öðrum að mæla af þekkingu, samkvæmt sama anda; 9 öðrum trú í hinum sama anda; öðrum lækningagáfur í hinum eina anda; 10 öðrum framkvæmdir kraftaverka; öðrum spámannleg gáfa; öðrum greining anda; öðrum tungutalsgáfa; en öðrum útlegging tungna. 11 En öllu þessu kemur til leiðar eini og sami andinn, sem útbýtir hverjum einum út af fyrir sig eftir vild sinni.

12 Því að eins og líkaminn er einn og hefir marga limi, en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur. 13 Því að með einum anda vorum vér allir skírðir til að vera einn líkami, hvort sem vér erum Gyðingar eða Grikkir, hvort sem vér erum þrælar eða frjálsir, og allir vorum vér drykkjaðir með einum anda. 14 Því að líkaminn er ekki einn limur, heldur margir. 15 Ef fóturinn segði: Fyrst eg er ekki hönd, heyri eg ekki líkamanum til, þá er hann ekki fyrir það líkamanum óviðkomandi. 16 Og ef eyrað segði: Fyrst eg er ekki auga, heyri eg ekki líkamanum til, þá er það ekki fyrir það líkamanum óviðkomandi. 17 Ef allur líkaminn væri auga, hvar væri þá heyrnin? Ef hann væri allur heyrn, hvar væri þá ilmanin? 18 En nú hefir Guð sett limina, hvern einstakan þeirra, á líkamann eins og honum þóknaðist. 19 En ef þeir væru allir einn limur, hvar væri þá líkaminn? 20 En nú eru limirnir margir, en líkaminn einn. 21 Og augað getur ekki sagt við höndina: Eg þarfnast þín ekki! né heldur höfuðið við fæturna: Eg þarfnast ykkar ekki! 22 Nei, miklu fremur eru þeir limir á líkamanum nauðsynlegir, sem virðast vera í veikbygðara lagi. 23 Og þeim sem oss virðast vera í óvirðulegra lagi á líkamanum, þeim veitum vér þess meiri sæmd, og gagnvart þeim, sem vér blygðumst vor fyrir, viðhöfum vér þess meiri blygðunarsemi; 24 en þess þarfnast hinir ásjálegu limir vorir ekki, heldur samsetti Guð líkamann svo, að hann gaf þeim, sem vantaði, því meiri sæmd, 25 til þess að ekki yrði ágreiningur í líkamanum, heldur skyldu limirnir bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum. 26 Og hvort heldur einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum, eða einn limur er í hávegum hafður, samgleðjast allir limirnir honum. 27 En þér eruð líkamir Krists og limir hver fyrir sig. 28 Og Guð hefir sett nokkura í söfnuðinum fyrst postula, í öðru lagi spámenn, í þriðja lagi fræðara, þar næst kraftaverk, enn fremur náðargáfu til lækninga, líknarstörf, stjórnarstörf og tungutal. 29 Hvort eru allir postular? Hvort eru allir spámenn? Hvort eru allir fræðarar? Hvort eru allir kraftaverkamenn? 30 Hvort hafa allir hlotið lækningagáfuna? Hvort tala allir tungum? Hvort útlista allir? — 31 En sækist eftir náðargáfunum, þeim hinum meiri; og nú bendi eg yður á enn þá miklu ágætari leið.


13

Þótt eg talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, yrði eg hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. 2 Og þótt eg hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardómana og alla þekkinguna, og þótt eg hefði alla trúna, svo að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri eg ekki neitt. 3 Og þótt eg deildi út öllum eigum mínum, og þótt eg framseldi líkama minn, til þess að eg yrði brendur, en hefði ekki kærleika, væri það mér gagnslaust. 4 Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki; kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp; 5 hann fremur ekkert ósæmilegt, leitar ekki síns eigin, reiðist ekki, tilreiknar ekki hið illa, 6 gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum; 7 hann breiðir yfir alt, trúir öllu, vonar alt, umber alt. 8 Kærleikurinn þrotnar aldrei, en hvort sem það nú eru spádómsgáfur, þá munu þær líða undir lok, eða tungur, þær munu þrjóta, eða þekking, þá mun hún líða undir lok. 9 Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum, 10 en þegar hið fullkomna kemur, þá þverrar það sem er í molum. 11 Þegar eg var barn, talaði eg eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn; þegar eg gjörðist fulltíða maður, lagði eg af bernskuna. 12 Því að nú sjáum vér í spegli, í ráðgátu, en þá augliti til auglitis. Nú er þekking mín í molum, en þá mun eg gjörþekkja, eins og eg er sjálfur gjörþektur orðinn. 13 En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrent, en þeirra er kærleikurinn mestur.


14

Keppið eftir kærleikanum. Sækist eftir hinum andlegu gáfum, en einkum til þess að þér getið spáð. 2 Því að sá sem tungu talar, talar ekki fyrir menn, heldur fyrir Guð; því að enginn heyrir það, en hann talar í anda leyndardóma. 3 En sá, sem spáir, talar fyrir menn til uppbyggingar, áminningar og huggunar. 4 Sá sem tungu talar, uppbyggir sjálfan sig, en sá sem spáir, uppbyggir söfnuðinn. 5 Eg vildi að þér töluðuð allir tungum, en þó enn meir, að þér gætuð spáð. En sá sem spáir, er meiri en sá sem talar tungum, nema hann þá útleggi það, til þess að söfnuðurinn hljóti uppbyggingu. 6 En þótt eg nú, bræður, kæmi til yðar talandi tungum, hvað mundi eg gagna yður, ef eg þá ekki talaði til yðar annaðhvort með opinberun, eða með þekkingu, eða með spámannlegri gáfu, eða með kenningu? 7 Jafnvel hinir dauðu hlutir, sem gefa hljóð frá sér, hvort heldur er pípa eða harpa, ef þær gefa ekki mismunandi hljóð frá sér, hvernig ætti þá að skiljast, það sem leikið er á pípuna eða hörpuna? 8 Því að svo er um lúðurinn; gefi hann óskilmerkilegt hljóð, hver býr sig þá til bardaga? 9 Svo er og um yður; ef þér ekki með tungu yðar mælið fram skilmerkileg orð, hvernig verður það þá skilið, sem talað er? Því að þér talið þá eins og út í bláinn. 10 Hversu margar tegundir tungumála sem kunna að vera til í heiminum, alt er það þó mál. 11 Ef eg nú ekki þekki merkingu málsins, verð eg sem útlendingur fyrir þann sem talar, og hinn talandi útlendingur fyrir mig. 12 Þess vegna skuluð þér þá einnig, úr því þér sækist eftir andlegum gáfum, láta það vera söfnuðinum til uppbyggingar, að þér leitist við að verða auðugir að þeim. 13 Þess vegna biðji sá er tungu talar, að hann geti útlagt. 14 Því að ef eg biðst fyrir með tungu, þá biður andi minn, en skilningur minn er ávaxtarlaus. 15 Hvernig er því þá varið? Eg vil biðja með andanum, en eg vil einnig biðja með skilningnum; eg vil lofsyngja með andanum, en eg vil einnig lofsyngja með skilningnum. 16 Annars, ef þú vegsamar með anda, hvernig á þá sá, er skipar sess hins fáfróða, að segja amen við þakkargjörð þinni, þar sem hann veit ekki, hvað þú ert að segja? 17 Því að þú getur að vísu þakkað fagurlega, en hinn uppbyggist ekki. 18 Eg þakka Guði, að eg fremur yður öllum tala tungum; 19 en á safnaðarsamkomu vil eg heldur tala fimm orð með skilningi mínum, til þess að eg geti frætt aðra, en tíu þúsund orð með tungu.

20 Bræður, verið ekki börn í dómgreind, heldur verið sem ungbörn í ilskunni, en verið fullorðnir í dómgreindinni. 21 Í lögmálinu er ritað: Með annarlegu tungutaki og annarlegum vörum mun eg tala til lýðs þessa, og eigi að heldur munu þeir heyra mig, segir drottinn. 22 Þannig er þá tungutalið til tákns, ekki þeim sem trúa, heldur hinum vantrúuðu; en spámannlega gáfan er ekki fyrir hina vantrúuðu, heldur þá sem trúa. 23 Ef nú allur söfnuðurinn kæmi saman og allir töluðu tungum, og inn kæmu fáfróðir menn eða vantrúaðir, mundu þeir þá ekki segja: Þér eruð óðir? 24 En ef allir töluðu af spámannlegum anda, en inn kæmi einhver vantrúaður eða fáfróður, yrði hann sannfærður af öllum og dæmdur af öllum. 25 Leyndardómar hjarta hans verða opinberir; og þannig mun hann falla fram á ásjónu sína og tilbiðja Guð, lýsandi yfir því, að Guð er sannarlega í yður.

26 Hvernig er það þá, bræður? Þegar þér komið saman, þá hefir hver sitt: einn sálm, einn kenningu, einn opinberun, einn tungutal, einn útlistun. Alt skal miða til uppbyggingar. 27 Séu einhverjir, sem tala tungu, mega þeir vera tveir eða í mesta lagi þrír, hver á eftir öðrum, og einn útlisti. 28 En ef ekki er neinn til að útlista, þá þegi hinn á safnaðarsamkomunni, en tali við sjálfan sig og við Guð. 29 En spámenn tali tveir eða þrír, og hinir aðrir skulu dæma um; 30 en fái einhver annar, sem þar situr, opinberun, þá þegi hinn fyrri. 31 Því að þér getið allir, hver á eftir öðrum, spáð, til þess að allir hljóti fræðslu og allir verði ámintir, 32 og andar spámanna eru spámönnum undirgefnir; 33 því að Guð er ekki Guð truflunarinnar, heldur friðarins.

34 Eins og í öllum söfnuðum hinna heilögu, skulu konur þegja á safnaðarsamkomunum, því að ekki er þeim leyft að tala, heldur skulu þær vera undirgefnar, eins og líka lögmálið segir. 35 En ef þær vilja fræðast um eitthvað, þá skulu þær spyrja eiginmenn sína heima. Því að það er ósæmilegt fyrir konu að tala á safnaðarsamkomu. 36 Eða er Guðs orð útgengið frá yður? Eða er það komið til yðar einna?

37 Ef nokkur þykist spámaður vera eða andamaður, hann skynji, að það sem eg skrifa yður, er boðorð drottins. 38 Vilji einhver ekki við það kannast, þá kannist hann ekki við það!

39 Þess vegna, bræður mínir, leggið stund á að tala af spámannsanda, og aftrið því ekki, að talað sé tungum. 40 En alt fari fram sómasamlega og með reglu.


15

En eg birti yður, bræður, fagnaðarerindi það sem eg boðaði yður, sem þér og veittuð viðtöku, sem þér einnig standið stöðugir í, 2 sem þér og verðið hólpnir fyrir, ef þér haldið fast við orðið, sem eg boðaði yður fagnaðarerindið með, — nema svo skyldi vera, að þér hafið ófyrirsynju trúna tekið. 3 Því að það kendi eg yður fyrst og fremst, sem eg einnig hefi meðtekið, að Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum, 4 og að hann var grafinn, og að hann er upprisinn á þriðja degi samkvæmt ritningunum, 5 og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf; 6 síðan birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi alt til þessa, en nokkurir eru sofnaðir. 7 Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum. 8 En síðast allra birtist hann einnig mér eins og ótímaburði; 9 því að eg er síztur postulanna, eg, sem ekki er þess verður að kallast posluli, með því að eg hefi ofsótt söfnuð Guðs. 10 En af Guðs náð er eg það sem eg er, og náð hans við mig hefir ekki orðið til ónýtis, heldur hefi eg erfiðað meira en þeir allir, þó ekki eg, heldur náðin Guðs með mér. 11 Hvort sem það því er eg eða þeir, þá prédikum vér þannig, og þannig hafið þér trúað.

12 En ef nú Kristur er prédikaður, að hann sé upprisinn frá dauðum, hvernig segja þá nokkurir á meðal yðar, að upprisa dauðra sé ekki til? 13 En ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn; 14 en ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar. 15 En vér reynumst þá og ljúgvottar um Guð, því, að vér höfum vitnað á móti Guði, að hann hafi uppvakið Krist, sem hann hefir ekki uppvakið, svo framarlega sem dauðir ekki upprísa. 16 Því að ef dauðir ekki upprísa, er Kristur ekki heldur upprisinn; 17 en ef Kristur er ekki upprisinn, er trú yðar fánýt, þér eruð þá enn í syndum yðar, 18 og jafnframt einnig þeir glataðir, sem í Kristi eru sofnaðir. 19 Ef vér einungis í þessu lífi höfum sett von vora til Krists, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna.

20 En nú er Kristur upprisinn frá dauðum sem frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru. 21 Því að þar eð dauðinn kom fyrir mann, kemur og upprisa dauðra fyrir mann. 22 Því að eins og allir deyja í Adam, þannig munu allir lífgaðir verða í Kristi. 23 En sérhver í sinni röð: Kristur sem frumgróðinn. Því næst þeir sem Krists eru í tilkomu hans. 24 Síðan kemur endirinn, er hann setur ríkið Guði og föðurnum í hendur, er hann hefir að engu gjört alt veldi, öll yfirráð og kraft. 25 Því að honum ber að ríkja unz hann fær alla fjendurna lagða undir fætur sér. 26 Sem síðasti óvinur verður dauðinn að engu gjörður; 27 því að alt hefir hann lagt undir fætur honum. En þegar hann segir, að alt hafi verið lagt undir, er augljóst, að hann er undanskilinn, sem lagði alt undir hann. 28 En þegar alt er lagt undir hann, þá mun og sonurinn sjálfur leggja sig undir þann, er lagði alla hluti undir hann, til þess að Guð sé alt í öllum.

29 Til hvers væru menn annars að láta skírast fyrir hina dánu? Ef dauðir menn yfir höfuð rísa ekki upp, hvers vegna láta menn þá skíra sig fyrir þá? 30 Hvers vegna stofnum vér oss líka í hættu á hverri stundu? 31 Daglega dey eg, svo sannarlega sem eg, bræður, get hrósað mér af yður í Kristi Jesú, drotni vorum. 32 Hafi eg eingöngu að hætti manna barist við villidýr í Efesus, hvaða gagn hefi eg þá af því? Ef dauðir rísa ekki upp, etum þá og drekkum, því að á morgun deyjum vér! 33 Villist ekki; vondur félagskapur spillir góðum siðum. 34 Verið algáðir, eins og rétt er, og syndgið ekki; því að nokkurir hafa enga þekkingu á Guði. Yður til blygðunar segi eg það.

35 En nú kynni einhver að segja: Hvernig rísa dauðir upp? Og með hvaða líkama koma þeir? 36 Þú óvitri maður! það sem þú sáir, verður ekki lífgað nema það deyi. 37 Og er þú sáir, þá er það ekki líkaminn, sem verða á, sem þú sáir, heldur nakið frækorn, hvort sem það nú heldur er hveitikorns eða einhvers annars sæðis. 38 En Guð gefur því líkama eftir vild sinni, og hverri sæðistegund sinn líkama. 39 Ekki er alt hold sama hold; heldur er mannsins eitt, og hold kvikfjárins annað, eitt er hold fuglanna, og annað fiskanna. 40 Og til eru himneskir líkamir og jarðneskir líkamir. En reyndar er vegsemd hinna himnesku eitt, og hinna jarðnesku annað. 41 Eitt er ljómi sólarinnar, og annað ljómi tunglsins, og annað ljómi stjarnanna, því að stjarna ber af stjörnu í ljóma. 42 Þannig er og varið upprisu dauðra. Sáð er forgengilegu, en upprís óforgengilegt; 43 sáð er í vansæmd, en upprís í vegsemd; sáð er í veikleika, en upprís í styrkleika; 44 sáð er náttúrlegum líkama, en upprís andlegur líkami. Ef náttúrlegur líkami er til, þá er og til andlegur líkami. 45 Þannig er og ritað: Hinn fyrsti maður, Adam, varð að lifandi sál, hinn síðari Adam að lífgandi anda. 46 En hið andlega kemur ekki fyrst, heldur hið náttúrlega; því næst hið andlega. 47 Hinn fyrsti maður er frá jörðu, af moldu, hinn annar maður er frá himnum. 48 Eins og hinn jarðneski var, þannig eru og hinir jarðnesku; og eins og hinn himneski var, þannig eru og hinir himnesku. 49 Og eins og vér höfum borið mynd hins jarðneska, munum vér einnig bera mynd hins himneska.

50 En það segi eg, bræður, að hold og blóð getur eigi erft guðsríki, eigi erfir heldur hið forgengilega óforgengileikann. 51 Sjá, eg segi yður leyndardóm: Vér munum ekki allir sofna, en allir munum vér umbreytast 52 í einni svipan, á einu augabragði, við hinn síðasta lúður, því að lúðurinn mun gjalla, og hinir dauðu munu upprísa óforgengilegir, og vér munum umbreytast. 53 Því að þetta hið forgengilega á að íklæðast óforgengileikanum, og þetta hið dauðlega að íklæðast ódauðleikanum. 54 En þegar þetta hið forgengilega hefir íklæðst óforgengileikanum og þetta hið dauðlega hefir íklæðst ódauðleikanum, þá mun rætast orð það sem ritað er: Dauðinn er uppsvelgdur til sigurs. 55 Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn? 56 En syndin er broddur dauðans, en lögmálið afl syndarinnar. 57 Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir drottin vorn Jesúm Krist! 58 Þess vegna, mínir elskuðu bræður, verið fastir, óbifanlegir, síauðugir í verki drottins, vitandi, að erfiði yðar er ekki árangurslaust í drotni.


16

En hvað snertir samskotin til hinna heilögu, þá skuluð þér einnig fara með þau eins og eg hefi fyrirskipað söfnuðunum í Galatíu. 2 Hvern fyrsta dag vikunnar skal hver yðar taka frá heima hjá sér og safna í sjóð, eftir því sem efni leyfa, til þess að ekki verði fyrst farið að efna til samskota þegar eg kem. 3 En þegar eg svo kem, mun eg senda með bréfum, þá sem þér kunnið að velja, til þess að flytja gjöf yðar til Jerúsalem. 4 En ef vert er, að eg fari líka, þá geta þeir orðið mér samferða. 5 En eg mun koma til yðar, er eg hefi farið gegnum Makedóníu; því að um Makedóníu legg eg leið mína; 6 og hjá yður mun eg ef til vill staldra við eða jafnvel dvelja vetrarlangt, til þess að þér getið fylgt mér á leið, hvert sem eg þá kann að fara. Því að nú vil eg ekki sjá yður rétt í svip; 7 eg vona sem sé, ef drottinn lofar, að standa við hjá yður nokkura stund. 8 En eg stend við í Efesus alt til hvítasunnunnar, 9 því að mér hafa opnast þar víðar dyr og verkmiklar, og andstæðingarnir eru margir.

10 En ef Tímóteus kemur, þá sjáið til þess, að hann geti óttalaust hjá yður verið, því að hann starfar að verki drottins eins og eg. 11 Þess vegna lítilsvirði enginn hann, heldur fylgið honum á leið í friði, til þess að hann geti komist til mín. Því að eg vænti hans með bræðrunum. 12 En hvað snertir bróður Apollós, þá hefi eg mikillega hvatt hann til að verða bræðrunum samferða til yðar. En hann var alls ófáanlegur til að fara nú, en koma mun hann, er hentugleikar hans leyfa.

13 Vakið, standið stöðugir í trúnni, verið karlmannlegir, verið styrkir. 14 Alt hjá yður sé í kærleika gjört.

15 En eg áminni yður, bræður, — þér vitið um heimili Stefanasar, að það er frumgróði Akkeu og að þeir hafa gefið sig í þjónustu heilagra, — 16 að einnig þér sýnið undirgefni slíkum mönnum, og hverjum þeim er starfar með og leggur á sig erfiði. 17 Eg gleðst yfir návist þeirra Stefanasar, Fortúnatusar og Akkaíkusar, af því að þeir hafa bætt mér upp vöntun yðar, 18 því að þeir hafa hrest anda minn og yðar. Virðið það því við slíka menn.

19 Asíu-söfnuðirnir heilsa yður. Yður heilsa mikillega í drotni Akvílas og Priska ásamt söfnuðinum í húsi þeirra. 20 Yður heilsa allir bræðurnir. Heilsið hver öðrum með heilögum kossi.

21 Kveðjan er með eigin hendi minni, Páls. 22 Ef einhver elskar ekki drottin, hann sé bölvaður. Maranata! 23 Náðin drottins Jesú Krists sé með yður. 24 Kærleikur minn er með öllum yður í Kristi Jesú. Amen.