1
Páll postuli Krists Jesú, að boði Guðs frelsara vors og Krists Jesú, vonar vorrar, 2 til Tímóteusar, skilgetins sonar í trú.
Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, drotni vorum.
3 Svo sem eg hvatti þig að halda kyrru fyrir í Efesus, er eg var á förum til Makedóníu, til þess að þú skyldir bjóða sumum mönnum að fara ekki með annarlegar kenningar, 4 og gefa sig ekki við æfintýrum og endalausum ættartölum, er fremur efla þrætur en Guðs ráðstöfun, sem felst í trú. — 5 En markmið skipunarinnar er kærleikur af hreinu hjarta, góðri samvizku og hræsnislausri trú; 6 frá þessu eru sumir viknir og hafa snúið sér til hégómamáls; 7 vilja þeir vera lögmálskennendur, þó að hvorki skilji þeir, hvað þeir segja, né hvað það er, sem þeir eru að staðhæfa. 8 En vér vitum að lögmálið er gott, noti maðurinn það löglega 9 og viti það, að lögmálið er ekki ætlað réttlátum manni, heldur lögleysingjum og þverbrotnum, óguðlegum og syndurum, vanheilögum og óhreinum, föðurmorðingjum og móðurmorðingjum, manndrápurum, 10 frillulífismönnum, mannhórum, mannaþjófum, lygurum, meinsærismönnum, og hvað sem það er nú annað, sem gagnstætt er hinni heilnæmu kenningu, 11 samkvæmt fagnaðarerindinu um dýrð hins sæla Guðs, sem mér var trúað fyrir.
12 Eg þakka honum, sem mig styrkan gjörði, Kristi Jesú, drotni vorum, fyrir það að hann áleit mig trúan, er hann fól mér þjónustu, 13 mér, sem fyrrum var lastmælandi, ofsóknari og smánari; en mér var miskunnað, sökum þess að eg gjörði það óvitandi í vantrú. 14 Og náðin drottins vors varð stórmikil með trúnni og kærleikanum í Kristi Jesú. 15 Það orð er satt, og í alla staði þess vert, að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn, og er eg þeirra fremstur; 16 en fyrir þá sök var mér miskunnað, að Kristur Jesús skyldi sýna á mér, sem var fremstur, gjörvalt langlyndi sitt, þeim til dæmis, er á hann munu trúa til eilífs lífs. 17 En konungi aldanna, ókrenkilegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.
18 Þessa skipun legg eg fyrir þig, son minn Tímóteus, samkvæmt þeim spádómsorðum, sem áður voru yfir þér töluð, að þú berjist þeim samkvæmt hinni góðu baráttu, 19 hafandi trú og góða samvizku, sem nokkurir hafa frá sér varpað og liðið skipbrot á trú sinni; 20 í tölu þeirra manna eru þeir Hýmeneus og Alexander, sem eg hefi selt Satan á vald, til þess að hirtingin kenni þeim að láta af lastmælum.
2
Fyrst af öllu áminni eg þá um, að fram fari ákall, bænir, fyrirbænir og þakkargjörðir fyrir öllum mönnum, 2 fyrir konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir, til þess að vér lifum friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði. 3 Þetta er gott og þóknanlegt fyrir frelsara vorum Guði, 4 sem vill, að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum; 5 því að einn er Guð, einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús, 6 sem gaf sig sjálfan til lausnargjalds fyrir alla, til vitnisburðar á sínum tíma. 7 Til að boða hann er eg settur prédikari og postuli, — eg tala sannleika, lýg ekki — kennari heiðingja í trú og sannleika.
8 Eg vil þá að karlmenn biðjist hvervetna fyrir, upplyftandi heilögum höndum, án reiði og þrætu; 9 sömuleiðis að konur skrýði sig sæmilegum búningi, með blygð og hóglæti, ekki með hárfléttum og gulli, eða perlum eða dýrindisskarti, 10 heldur með góðum verkum, eins og konum sæmir, er játast undir guðhræðslu. 11 Konan á að læra í kyrþey, í allri undirgefni; 12 en ekki leyfi eg konu að kenna eða taka sér vald yfir manninum, heldur á hún að vera kyrlát, 13 því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva; 14 og Adam lét ekki tælast, en konan lét að fullu tælast og gjörðist brotleg; 15 en hún mun fyrir barngetnaðinn hólpin verða, ef þær standa stöðugar í trú og kærleika og helgun, samfara hóglæti.
3
Það orð er satt, að sækist einhver eftir biskupsstarfi, þá girnist hann fagurt hlutverk. 2 Biskup á því að vera óaðfinnanlegur, einnar konu eiginmaður, bindindissamur, hóglátur, háttprúður, gestrisinn, góður fræðari; 3 ekki drykkjumaður, ekki áflogamaður, heldur gæfur; ekki deilugjarn, ekki fégjarn; 4 maður sem veitir góða forstöðu heimili sínu, og heldur börnum sínum í hlýðni með allri siðprýði; — 5 en sé einhver sá, sem ekki hefir vit á að veita heimili sínu forstöðu, hvernig má hann umsjón veita söfnuði Guðs? — 6 ekki nýr í trúnni, til þess að hann ofmetnist eigi og verði fyrir áfellisdómi rógberans. 7 En hann á líka að hafa góðan orðstír hjá þeim, sem standa fyrir utan, til þess að hann verði eigi fyrir álasi og lendi í tálsnöru rógberans. 8 Svo eiga og djáknar að vera siðprúðir, ekki tvítyngdir, ekki ofdrykkjumenn, ekki sólgnir í svívirðilegan gróða, 9 og skulu þeir varðveita leyndardóm trúarinnar í hreinni samvizku. 10 Einnig þessir menn séu fyrst reyndir, síðan inni þeir djáknastarf af hendi, ef þeir eru óaðfinnanlegir. 11 Svo eiga og konur að vera siðprúðar, ekki rógberar, bindindissamar, trúar í öllu. 12 Djáknar séu einnar konu eiginmenn, og hafi góða stjórn á börnum sínum og heimilum; 13 því að þeir, sem vel hafa staðið í djáknastöðu, koma sér vel í veg og afla sér mikillar djörfungar í trúnni á Krist Jesúm.
14 Þetta rita eg þér, þó að eg voni að koma bráðum til þín, 15 til þess að þú skulir vita, ef mér seinkar, hvernig á að haga sér í Guðs húsi, sem er söfnuður lifanda Guðs, stólpi og grundvöllur sannleikans. 16 Og svo sem vér játum, er leyndardómur guðhræðslunnar mikill: Hann sem opinberaðist í holdi, var réttlættur í anda; birtist englum, boðaður hjá heiðingjum; var trúað í heimi, var hafinn upp í dýrð.
4
En andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni, er gefa sig að villu-öndum og lærdómum illra anda, 2 fyrir yfirdrepskap lygimælenda, sem brennimerktir eru á sinni eigin samvizku; 3 þeir er meina hjúskap og bjóða mönnum að bindast þeirrar fæðu, er Guð hefir skapað til þess að við henni sé tekið með þakkargjörð af trúuðum mönnum, er þekkja sannleikann; 4 því að öll skepna Guðs er góð, og engu ber frá sér að kasta, sé það þegið með þakkargjörð; 5 því að það helgast af orði Guðs og bæn.
6 Með því að brýna þetta fyrir bræðrunum munt þú verða góður þjónn Krists Jesú, er þú elst við orð trúarinnar og góðu kenningarinnar, sem þú hefir fylgt. 7 En hafna þú vanheilögum kerlinga-æfintýrum, og æf sjálfan þig til guðhræðslu, 8 því að líkamleg æfing er til lítils nýt, en guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg og hefir fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda. 9 Það orð er satt og í alla staði þess vert, að við því sé tekið. 10 Því að til þess leggjum vér á oss erfiði og þreytum stríð; því að vér höfum fest von vora á lifanda Guði, sem er frelsari allra manna, einkum trúaðra. 11 Bjóð þú þetta og kenn það. 12 Lát engan líta smáum augum á æsku þína, en ver þú fyrirmynd trúaðra, í orði, í hegðun, í kærleika, í trú, í hreinleika. 13 Ver þú, þangað til eg kem, kostgæfur við upplesturinn, áminninguna og kenninguna. 14 Vanræktu ekki náðargjöfina þína, sem var gefin þér, samfara spádómsorðum með handayfirlagning öldunganna. 15 Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós. 16 Haf gát á sjálfum þér og kenningunni; ver þú stöðugur við þetta; því að er þú gjörir það, munt þú bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.
5
Ávíta þú ekki aldraðan mann harðlega, heldur áminn hann sem föður; yngri menn sem bræður; 2 aldraðar konur sem mæður; ungar konur sem systur, í öllum hreinleika. 3 Heiðra ekkjur, sem í raun og veru eru ekkjur; 4 en ef einhver ekkja á börn eða barnabörn, þá læri þau fyrst og fremst að sýna rækt sínu eigin heimili og endurgjalda foreldrum sínum, því að það er þóknanlegt fyrir augliti Guðs. 5 Sú, sem er í raun og veru ekkja og er orðin munaðarlaus, hefir fest von sína á Guði, og er stöðug í ákalli og bænum nótt og dag, 6 en hin bílífa er dauð, þó að hún lifi. 7 Bjóð þú einnig þetta, til þess að þær séu óaðfinnanlegar. 8 En ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefir hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður. 9 Ekkja sé tekin á skrá, sú sem orðin er fullra sextíu ára, hefir verið eins manns kona 10 og er lofsamlega kunn að góðum verkum; sú er hefir börn fóstrað, sú er hefir verið gestrisin, sú er hefir þvegið fætur heilagra, sú er hefir hjálpað bágstöddum, sú er hefir lagt stund á hvert gott verk. 11 En hafna þú ungum ekkjum, því að þegar þær í gjálífi afrækja Krist, vilja þær giftast; 12 þær eru sekar um það, að hafa brugðið trúnaði sínum hinum fyrri. 13 Og jafnframt temja þær sér iðjuleysi, rápandi hús úr húsi; og ekki einungis iðjulausar, heldur einnig málugar og hlutsamar, og tala það sem eigi ber að tala. 14 Eg vil því að ungar ekkjur giftist, ali börn, stjórni heimili og gefi mótstöðumanninum ekkert tilefni til illmælis; 15 því að nokkurar hafa þegar horfið frá til fylgis við Satan. 16 Ef nokkur trúuð kona á fyrir ekkjum að sjá, þá fulltingi hún þeim, og eigi hafi söfnuðurinn þyngsli af, til þess að hann geti veitt hjálpina þeim, sem ekkjur eru í raun og veru.
17 Öldungar þeir, sem veita góða forstöðu, séu hafðir í tvöföldum metum, allra helzt þeir sem erfiða í orðinu og í kenslu; 18 því að ritningin segir: Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir, og verður er verkamaðurinn launa sinna. 19 Tak þú ekki við kæru gegn öldungi, nema tveir eða þrír vottar beri; 20 ávíta brotlega í viðurvist allra, til þess að hinir megi og hafa ótta. 21 Eg særi þig fyrir augliti Guðs og Krists Jesú og hinna útvöldu engla, að þú gætir þessa án nokkurs fordóms og gjörir ekkert af vilfylgi. 22 Eigi skalt þú fljótráðið leggja hendur yfir nokkurn mann; tak þú eigi heldur þátt í annarra syndum, varðveit sjálfan þig hreinan. — 23 Vert þú ekki lengur að drekka vatn, heldur skalt þú neyta lítils eins af víni vegna magans og veikinda þinna, sem eru svo tíð. — 24 Syndirnar hjá sumum mönnum eru í augum uppi, og eru komnar á undan, þegar dæma skal; en hjá sumum koma þær líka á eftir. 25 Á sama hátt eru og til góð verk, sem strax eru augljós, og þau, sem öðruvísi er ástatt með, geta ekki dulist.
6
Allir þeir, sem eru ánauðugir þrælar, skulu halda húsbændur sína alls heiðurs maklega, til þess að eigi verði lastmælt nafni Guðs og kenningunni. 2 En þeir, sem trúaða húsbændur eiga, skulu ekki lítilsvirða þá vegna þess að þeir eru bræður, heldur þjóni því betur sem þeir eru trúaðir og elskaðir, er góða starfsins verða aðnjótandi. Kenn þú þetta og áminn um það.
3 Ef einhver fer með annarlegar kenningar og fylgir ekki hinum heilnæmu orðum drottins vors Jesú Krists og kenningunni, sem samkvæm er guðhræðslu, þá hefir hann ofmetnast, þó að hann viti ekki neitt; 4 en hann er sótttekinn af þrætum og orðastælum, sem af fæðist öfund, deilur, lastmæli, vondar hugsanir, 5 þjark og þras hugspiltra manna, sem sneyddir eru sannleikanum, en skoða guðhræðsluna sem gróðaveg. 6 Já, guðhræðslan samfara nægjusemi er mikill gróðavegur, 7 því að ekkert höfum vér inn í heiminn flutt, ekki getum vér heldur flutt neitt út þaðan; — 8 en ef vér höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja. 9 En þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og margar óviturlegar fýsnir og skaðlegar, er sökkva mönnunum niður í tortíming og glötun, 10 því að fégirndin er rót alls þess, sem ilt er; við þá fíkn hafa nokkurir vilst frá trúnni og hafa stungið sjálfa sig mörgum harmkvælum.
11 En þú, Guðs maður, forðast þú þetta, en stunda réttlæti, guðhræðslu, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð. 12 Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið, sem þú varst kallaður til og játaðir góðu játningunni í viðurvist margra votta. 13 Eg býð þér fyrir augliti Guðs, sem veitir öllu líf, og Krists Jesú, er gjörði góðu játninguna frammi fyrir Pontíusi Pílatusi, 14 að þú gætir boðorðsins lýtalaust og óaðfinnanlega alt til opinberunar drottins vors Jesú Krists, 15 sem hinn sæli og eini alvaldur mun á sínum tíma birtast láta, konungur konunganna og drottinn drotnanna, 16 hann sem einn hefir ódauðleika, sem býr í ljósi, er enginn fær til komist, sem enginn maður leit né litið getur, honum sé heiður og eilífur máttur. Amen.
17 Bjóð ríkismönnum þessarar aldar að hugsa ekki hátt né treysta fallvaltleik auðsins, heldur Guði, sem lætur oss alt ríkulega í té til nautnar; 18 bjóð þeim að gjöra gott, að þeir séu ríkir af góðum verkum, séu örlátir, fúsir að miðla öðrum, 19 safni handa sjálfum sér í fjársjóðu góðri undirstöðu til hins ókomna, til þess að þeir höndli hið sanna líf.
20 Þú Tímóteus, varðveit það sem þér er trúað fyrir, og forðast hinar vanheilögu hégómaræður og mótsagnir hinnar rangnefndu þekkingar, 21 sem nokkurir hafa játast undir og orðið frávillingar í trúnni.
Náð sé með yður.