Matteusar guðspjall

1

Ættarskrá Jesú Krists, sonar Davíðs, sonar Abrahams.

2 Abraham gat Ísak; og Ísak gat Jakob; og Jakob gat Júda og bræður hans; 3 og Júda gat Perez og Sera við Tamar; og Perez gat Esrom; og Esrom gat Ram; 4 og Ram gat Ammínadab; og Ammínadab gat Nahson; og Nahson gat Salmon; 5 og Salmon gat Bóas við Rahab; og Bóas gat Óbeð við Rut; og Óbeð gat Ísaí; 6 og Ísaí gat Davíð konung.

Og Davíð gat Salómon við konu Úría; 7 og Salómon gat Róbóam; og Róbóam gat Abía; og Abía gat Asa; 8 og Asa gat Jósafat; og Jósafat gat Jóram; og Jóram gat Ússía; 9 og Ússía gat Jótam; og Jótam gat Akas; og Akas gat Esekía; 10 og Esekía gat Manasse; og Manasse gat Amón; og Amón gat Jósía; 11 og Jósía gat Jekonja og bræður hans á tíma herleiðingarinnar til Babýlonar.

12 En eftir herleiðinguna til Babýlonar gat Jekonja Sealtíel; og Sealtíel gat Serúbabel; 13 og Serúbabel gat Abíúd; og Abíúd gat Eljakím; og Eljakím gat Azór; 14 og Azór gat Sadók; og Sadók gat Akím; og Akím gat Elíúd; 15 og Elíúd gat Eleasar; og Eleasar gat Mattan; og Mattan gat Jakob; 16 og Jakob gat Jósef, mann Maríu; af henni fæddist Jesús, sem kallast Kristur.

17 Eru þannig allir ættliðirnir frá Abraham til Davíðs fjórtán ættliðir, og frá Davíð til herleiðingarinnar til Babýlonar fjórtán ættliðir, og frá herleiðingunni til Babýlonar til Krists fjórtán ættliðir.

18 En fæðing Jesú Krists varð á þessa leið: Móðir hans María var föstnuð Jósef, en áður en þau kæmu saman, reyndist hún þunguð af heilögum anda. 19 En með því að Jósef maður hennar var réttlátur, og vildi þó ekki gjöra henni opinbera minkun, ásetti hann sér að skiljast við hana á laun. 20 En meðan hann var að hugsa um þetta, sjá, þá vitraðist honum engill drottins í draumi og sagði: Jósef, sonur Davíðs, óttast þú ekki að taka til þín Maríu, konu þína, því að fóstur hennar er af heilögum anda. 21 Og hún mun son ala og skalt þú kalla nafn hans Jesús, því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra. 22 En alt þetta varð, til þess að rætast skyldi það, sem mælt er af drotni fyrir spámanninn, er segir: 23 Sjá, meyjan mun þunguð verða og son ala, og nafn hans munu menn kalla Immanúel, sem er útlagt: Guð með oss. 24 En þegar Jósef vaknaði, gjörði hann eins og engill drottins hafði boðið honum, og tók konu sína til sín; 25 og hann kendi hennar ekki, unz hún hafði alið son, og hann kallaði nafn hans JESÚS.


2

En er Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu, á dögum Heródesar konungs, sjá, þá komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: 2 Hvar er hinn nýfæddi Gyðingakonungur? Því að vér höfum séð stjörnu hans í austrinu og erum komnir, til þess að veita honum lotningu. 3 En er Heródes konungur heyrði þetta, varð hann felmtsfullur og öll Jerúsalem með honum; 4 og er hann hafði safnað saman öllum æðstu prestunum og fræðimönnum lýðsins, spurði hann þá, hvar Kristur ætti að fæðast. 5 Og þeir svöruðu honum: Í Betlehem í Júdeu. Því að þannig er ritað af spámanninum: 6 Og þú Betlehem, land Júda, ert engan veginn hin minsta meðal höfðingja Júda; því að af þér mun koma höfðingi, sem vera skal hirðir lýðs míns, Ísraels. 7 Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og fékk hjá þeim glögga grein á því, hve nær stjarnan hefði birzt; 8 lét hann þá síðan fara til Betlehem og sagði: Farið og haldið vandlega spurnum fyrir um barnið, og er þér hafið fundið það, þá látið mig vita, til þess að eg geti einnig komið og auðsýnt því lotningu. 9 En er þeir höfðu hlýtt á konunginn, fóru þeir leiðar sinnar. Og sjá, stjarnan, sem þeir höfðu séð í austrinu, fór fyrir þeim, þar til hana bar þar yfir, sem barnið var. 10 En er þeir sáu stjörnuna, glöddust þeir harla mjög. 11 Og þeir gengu inn í húsið og sáu barnið ásamt Maríu móður þess, og féllu fram og veittu því lotningu. Og þeir opnuðu fjárhirzlur sínar og færðu því gjafir: gull, reykelsi og myrru. 12 Og er þeir höfðu fengið bendingu frá Guði í draumi um það, að hverfa ekki aftur til Heródesar, fóru þeir aðra leið heim til lands síns.

13 En er þeir voru burt farnir, sjá, þá vitrast engill drottins Jósef í draumi og segir: Rís upp og tak barnið og móður þess með þér og flý til Egiptalands, og ver þar þangað til eg segi þér; því að Heródes mun leita barnsins, til þess að fyrirfara því. 14 Og hann reis upp, tók barnið og móður þess með sér um nóttina og fór til Egiptalands, 15 og þar dvaldist hann alt til dauða Heródesar, svo að rætast skyldi það, sem talað er af drotni fyrir spámanninn, er segir: Frá Egiptalandi kallaði eg son minn. 16 En er Heródes sá, að hann var gabbaður af vitringunum, varð hann afarreiður, sendi út og lét myrða öll sveinbörn, sem voru í Betlehem og í öllum nálægum héruðum, tvævetur og þau, er yngri voru, sem svaraði þeirri tímalengd, sem hann hafði komist eftir hjá vitringunum. 17 Rættist það þá, sem mælt er fyrir Jeremía spámann, er hann segir: 18 Rödd heyrðist í Rama, grátur og kveinstafir miklir, — Rakel grœtur börnin sín; og hún vildi ekki huggast láta, því að þau eru ekki framar lífs.

19 En er Heródes var dáinn, sjá, þá vitrast engill drottins Jósef í draumi í Egiptalandi og segir: 20 Rís upp og tak barnið og móður þess með þér og far til Ísraelslands, því að þeir eru dánir, er sátu um líf barnsins. 21 Og hann reis upp, tók barnið og móður þess með sér og kom til Ísraelslands. 22 En er hann heyrði, að Arkelás réð ríki í Júdeu, í stað Heródesar föður síns, varð hann hræddur við að fara þangað, og hann fékk bendingu frá Guði í draumi og hélt til Galíleubygða. 23 Og er hann kom þangað, settist hann að í borg, sem heitir Nazaret, til þess að það skyldi rætast, sem mælt er fyrir spámennina: Nazarei skal hann kallast.


3

En á þeim dögum kemur Jóhannes skírari fram og prédikar í óbygðum Júdeu 2 og segir: Gjörið iðrun, því að ríki himnanna er nálægt. 3 Því að hann er sá, sem Jesaja spámaður talar um, er hann segir: Rödd manns, er hrópar í óbygðinni: Greiðið veg drottins, gjörið beinar brautir hans. 4 En Jóhannes, — hann bar klæðnað af úlfaldahárum og leðurbelti um lendar sér; en fæða hans var engisprettur og villihunang. 5 Þá kom Jerúsalem út til hans og gjörvöll Júdea og alt landið umhverfis Jórdan. 6 Og þeir létu skírast af honum í ánni Jórdan, játandi syndir sínar. 7 En er hann sá marga af Faríseum og Saddúkeum koma til skírnar sinnar, sagði hann við þá: Þér nöðruafkvæmi, hver kendi yður að flýja undan komandi reiði? 8 Berið þá ávöxt samboðinn iðruninni, 9 og ætlið ekki, að þér getið sagt með sjálfum yður: Vér eigum Abraham að föður; því að eg segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum. 10 En öxin er þegar lögð að rót trjánna; verður þá hvert það tré, sem ekki ber góðan ávöxt, upp höggvið og því í eld kastað. 11 Eg skíri yður með vatni til iðrunar, en sá er mér mátkari, sem eftir mig kemur, og er eg ekki verður að bera skó hans; hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi. 12 Varpskófla hans er í hendi honum og hann mun gjörhreinsa láfa sinn og safna hveiti sínu í hlöðuna, en hismið mun hann brenna í óslökkvandi eldi.

13 Þá kemur Jesús frá Galíleu til Jórdanar, til Jóhannesar, til þess að skírast af honum; 14 en Jóhannes varnaði honum þess og sagði: Mér er þörf að skírast af þér, og þú kemur til mín! 15 En Jesús svaraði og sagði við hann: Lát það nú eftir, því að þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti. Þá lætur hann það eftir honum. 16 Og er Jesús var skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu; og sjá, himnarnir opnuðust fyrir honum, og hann sá Guðs anda stíga ofan eins og dúfu og koma yfir hann; 17 og sjá, rödd af himnum sagði: Þessi er sonur minn, hinn elskaði, sem eg hefi velþóknun á.


4

Þá var Jesús leiddur af andanum út á eyðimörkina, til þess að verða freistaður af djöflinum; 2 og er hann hafði fastað fjörutíu daga og fjörutíu nætur, tók hann loks að hungra. 3 Og freistarinn kom og sagði við hann: Ef þú ert Guðs sonur, þá seg, að steinar þessir skuli verða að brauðum. 4 En hann svaraði og sagði: Ritað er: Maðurinn lifir ekki af brauði einu saman, heldur af sérhverju orði, sem fram gengur af Guðs munni. 5 Þá tekur djöfullinn hann með sér til borgarinnar helgu og setti hann á þakbrún musterisins, og segir við hann: 6 Ef þú ert Guðs sonur, þá kasta þér niður, því að ritað er: Hann mun bjóða englum sínum um þig og þeir munnu bera þig á höndum sér, til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini. 7 Jesús sagði við hann: Aftur stendur ritað: Ekki skaltu freista drottins, Guðs þíns. 8 Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall og sýnir honum öll ríki heimsins og dýrð þeirra og sagði við hann: 9 Alt þetta mun eg gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig. 10 Þá segir Jesús við hann: Vík burt, Satan; því að ritað er: Drottin, Guð þinn, átt þú að tilbiðja og þjóna honum einum. 11 Þá yfirgefur djöfullinn hann, og sjá, englar komu og þjónuðu honum.

12 En er hann heyrði, að Jóhannes hefði verið framseldur, fór hann til Galíleu. 13 Og hann fór burt frá Nazaret, kom og settist að í Kapernaum við vatnið í landshlutum Sebúlons og Naftalí, 14 til þess að rætast skyldi það, sem mælt er fyrir Jesaja spámann, er segir: 15 Sebúlonsland og Naftalíland fram með vatninu, landið hinumegin Jórdanar, Galílea heiðingjanna. 16 Sú þjóð, er í myrkri sat, hefir séð mikið ljós, og þeim, er sátu í landi og skugga dauðans, er ljós upp runnið.

17 Upp frá þessu tók Jesús að prédika og segja: Gjörið iðrun, því að ríki himnanna er nálægt.

18 En er hann gekk fram með Galíleuvatninu, sá hann bræður tvo, Símon, sem kallaður er Pétur, og Andrés, bróður hans, er voru að leggja net í vatnið, því að þeir voru fiskimenn; 19 og hann segir við þá: Fylgið mér, þá mun eg gjöra yður að mannaveiðurum. 20 Og þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum. 21 Og er hann gekk þaðan lengra fram, sá hann aðra tvo bræður, Jakob Zebedeusson og Jóhannes bróður hans, á skipi með Zebedeusi, föður þeirra, og voru þeir að bæta net sín; og hann kallaði þá. 22 Og þeir yfirgáfu jafnskjótt skipið og föður sinn, og fylgdu honum.

23 Og Jesús fór víðsvegar um alla Galíleu og kendi í samkunduhúsum þeirra og prédikaði fagnaðarboðskap ríkisins, og læknaði sérhvern sjúkdóm og sérhvern krankleika meðal lýðsins. 24 Og orðrómurinn um hann barst út um alt Sýrland. Og menn færðu til hans alla sjúka, menn, sem haldnir voru af ýmsum sjúkdómum og þjáningum, menn, sem þjáðust af illum öndum, tunglsjúka og lama, og hann læknaði þá. 25 Og mikill mannfjöldi fylgdi honum úr Galíleu og Dekapólis og Jerúsalem og Júdeu og úr landinu fyrir handan Jórdan.


5

En er hann sá mannfjöldann, gekk hann upp á fjallið, og er hann var seztur niður, komu lærisveinar hans til hans. 2 Og hann lauk upp munni sínum, kendi þeim og sagði:

3 Sælir eru þeir, sem fátækir eru í andanum, því að þeirra er ríki himnanna.

4 Sælir eru syrgjendur, því að þeir munu huggaðir verða.

5 Sælir eru hógværir, því að þeir munu landið erfa.

6 Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.

7 Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða.

8 Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá.

9 Sælir eru friðsemjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.

10 Sælir eru þeir, sem ofsóttir verða fyrir réttlætis sakir, því að þeirra er ríki himnanna. 11 Sælir eruð þér, þá er menn atyrða yður og ofsækja og tala ljúgandi gegn yður alt ilt fyrir mínar sakir. 12 Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum; því að þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður.

13 Þér eruð salt jarðarinnar; en ef saltið dofnar, með hverju á þá að selta það? Það er þá til einskis framar nýtt, heldur er því kastað út og það fótum troðið af mönnum. 14 Þér eruð ljós heimsins; borg, sem stendur uppi á fjalli, fær ekki dulist. 15 Ekki kveikja menn heldur ljós og setja það undir mæliker, heldur á ljósastikuna; og þá lýsir það öllum, sem eru í húsinu. 16 Þannig lýsi ljós yðvart fyrir mönnunum, til þess að þeir sjái góðverk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.

17 Ætlið ekki, að eg sé kominn til þess að niðurbrjóta lögmálið eða spámennina; eg er ekki kominn til þess að niðurbrjóta, heldur til þess að uppfylla; 18 því að sannlega segi eg yður: þangað til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn bókstafur eða eitt stafstrik lögmálsins undir lok líða, unz það alt er komið fram. 19 Hver sem því brýtur eitt hið minsta af boðorðum þessum, og kennir mönnunum þannig, hann mun verða kallaður minstur í ríki himnanna; en hver sem breytir eftir þeim og kennir þau, hann mun kallaður verða mikill í ríki himnanna. 20 Því eg segi yður, að ef réttlæti yðar tekur ekki fram réttlæti fræðimannanna og Faríseanna, komist þér alls ekki inn í ríki himnanna.

21 Þér hafið heyrt, að sagt var við forfeðurna: Þú skalt ekki morð fremja, en hver sem morð fremur, verður sekur fyrir dóminum; 22 en eg segi yður, að hver sem reiðist bróður sínum, er sekur fyrir dóminum; og hver sem segir við bróður sinn: Raka!* verður sekur fyrir ráðinu; en hver sem segir: Þú afglapi! verður sekur Gehenna-eldsins. 23 Ef þú því ert að bera gáfu þína fram á altarið, og þú minnist þess þar, að bróðir þinn hefir eitthvað á móti þér, 24 þá skil gáfu þína þar eftir fyrir framan altarið og far burt, sæztu fyrst við bróður þinn, og kom síðan og ber fram gáfu þína. 25 Vertu skjótur til sætta við mótstöðumann þinn, meðan þú ert enn á veginum með honum, svo að mótstöðumaðurinn selji þig eigi dómaranum í hendur, og dómarinn selji þig þjóninum í hendur, og þér verði varpað í fangelsi. 26 Sannlega segi eg þér, að þú munt alls ekki komast út þaðan, fyr en þú hefir borgað hinn síðasta eyri.

27 Þér hafið heyrt, að sagt var: Þú skalt ekki hórdóm drýgja; 28 en eg segi yður, að hver sem lítur á konu með girndarhug, hefir þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu. 29 Ef hægra auga þitt hneykslar þig, þá ríf það út og kasta því frá þér, því að gagnlegt er þér, að einn lima þinna tortímist, og ekki verði öllum líkama þínum kastað í Gehenna. 30 Og ef hægri hönd þín hneykslar þig, þá sníð hana af og kasta frá þér, því að gagnlegt er þér, að einn lima þinna tortímist, og ekki lendi allur líkami þinn í Gehenna. 31 Það er einnig sagt: Hver sem skilur við konu sína, skal gefa henni skilnaðarskrá. 32 En eg segi yður, að hver sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður þess valdandi, að hún drýgir hór; og hver sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór.

33 Enn hafið þér heyrt, að sagt var við forfeðurna: Þú skalt ekki vinna rangan eið, en þú skalt halda eiða þína við drottin. 34 En eg segi yður, að þér eigið alls ekki að sverja, hvorki við himininn, því að hann er hásæti Guðs, 35 né við jörðina, því að hún er skör fóta hans, ekki heldur við Jerúsalem, því að hún er borg hins mikla konungs; 36 ekki máttu heldur sverja við höfuð þitt, því að þú getur ekki gjört eitt hár hvítt eða svart. 37 En ræða yðar skal vera: já, já; nei, nei; en það sem er umfram þetta, er af hinu vonda.

38 Þér hafið heyrt, að sagt var: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. 39 En eg segi yður: Þér skuluð ekki rísa gegn meingjörðamanninum, en slái einhver þig á hægri kinn þína, þá snú þú einnig hinni að honum. 40 Og við þann, sem vill lögsækja þig og taka kyrtil þinn, slepp og við hann yfirhöfninni. 41 Og neyði einhver þig með sér eina mílu, þá far með honum tvær. 42 Gef þeim sem biður þig, og snú ekki bakinu við þeim, sem vill fá lán hjá þér.

43 Þér hafið heyrt, að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. 44 En eg segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður, 45 til þess að þér verðið börn föður yðar, sem er á himnum; því að hann lætur sól sína renna upp yfir vonda og góða og rigna yfir réttláta og rangláta. 46 Því að ef þér elskið þá, sem yður elska, hvaða laun öðlist þér þá? Gjöra ekki jafnvel tollheimtumennirnir hið sama? 47 Og ef þér heilsið aðeins bræðrum yðar, hvað frábært gjörið þér þá? Gjöra ekki jafnvel heiðingjarnir hið sama? 48 Verið þér því fullkomnir, eins og yðar himneski faðir er fullkominn.


6

Gætið yðar, að fremja ekki réttlæti yðar fyrir mönnunum, til þess að verða séðir af þeim; annars hljótið þér ekki laun hjá föður yðar, sem er á himnum.

2 Þegar þú því gefur ölmusu, þá lát ekki blása í básúnu fyrir þér, eins og hræsnararnir gjöra í samkundunum og á götunum, til þess að þeim hlotnist heiður af mönnum. Sannlega segi eg yður, þeir hafa laun sín út tekið. 3 En þegar þú gefur ölmusu, þá viti vinstri hönd þín ekki hvað hægri hönd þín gjörir, 4 til þess að ölmusa þín sé í leyndum, og faðir þinn, sem sér í leyndum, mun endurgjalda þér.

5 Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir, því að þeim er ljúft að biðjast fyrir standandi í samkundunum og á gatnamótunum, til þess að verða séðir af mönnum. Sannlega segi eg yður, að þeir hafa laun sín út tekið. 6 En þegar þú biðst fyrir, þá gakk inn í herbergi þitt, og er þú hefir lokað dyrum þínum, þá bið föður þinn, sem er í leyndum, og faðir þinn, sem sér í leyndum, mun endurgjalda þér. 7 En er þér biðjist fyrir, þá viðhafið ekki ónytjumælgi, eins og heiðingjarnir, því að þeir hyggja, að þeir muni verða bænheyrðir fyrir mælgi sína. 8 Líkist því ekki þeim; því að faðir yðar veit hvers þér við þurfið, áður en þér biðjið hann. 9 Þér skuluð því biðja þannig:

Faðir vor, þú sem ert á himnum, helgist nafn þitt, 10 komi ríki þitt, verði vilji þinn, svo á jörðu sem á himni; 11 gef oss í dag vort daglegt brauð; 12 og fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og höfum fyrirgefið skuldunautum vorum; 13 og leið oss ekki í freistni, heldur frelsa oss frá illu.

14 Því að ef þér fyrirgefið mönnunum misgjörðir þeirra, þá mun yðar himneski faðir einnig fyrirgefa yður. 15 En ef þér fyrirgefið ekki mönnunum þeirra misgjörðir, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa yðar misgjörðir.

16 En er þér fastið, þá verið ekki svipþungir eins og hræsnararnir; því að þeir gjöra ásjónur sínar torkennilegar, til þess að mennirnir geti séð, að þeir fasta; sannlega segi eg yður, að þeir hafa laun sín út tekið. 17 En er þú fastar, þá smyr höfuð þitt og þvo andlit þitt, 18 til þess að mennirnir sjái ekki, að þú fastar, heldur faðir þinn, sem er í leyndum, og faðir þinn, sem sér í leyndum, mun endurgjalda þér.

19 Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir, og þar sem þjófar brjótast inn og stela; 20 heldur safnið yður fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð, og þar sem þjófar brjótast ekki inn og stela, 21 því að þar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera. 22 Augað er lampi líkamans; ef því auga þitt er heilt, þá mun allur líkami þinn vera í birtu; 23 en sé auga þitt sjúkt, þá mun allur líkami þinn vera í myrkri; ef því ljósið, sem í þér er, er myrkur, hve mikið verður þá myrkrið! 24 Enginn getur þjónað tveimur herrum, því að annaðhvort mun hann hata annan og elska hinn, eða aðhyllast annan og lítilsvirða hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammon. 25 Þess vegna segi eg yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér skuluð eta eða hvað þér skuluð drekka, ekki heldur um líkama yðar, hverju þér skuluð klæðast. Er ekki lífið meira en fæðan og líkaminn meira en klæðnaðurinn? 26 Lítið til fugla himinsins, þeir sá ekki né uppskera og þeir safna ekki heldur í hlöður, og yðar himneski faðir fæðir þá; eruð þér ekki miklu fremri en þeir? 27 En hver af yður getur með áhyggjum aukið einni alin við hæð sína? 28 Og hví eruð þér áhyggjufullir um klæðnað? Gefið gaum að liljum vallarins, hversu þær vaxa; þær vinna ekki og þær spinna ekki heldur, 29 en eg segi yður, að jafnvel Salómon í allri dýrð sinni var ekki svo skrýddur sem ein þeirra. 30 Þegar Guð nú skrýðir svo gras vallarinnar, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér lítiltrúaðir? 31 Segið því ekki áhyggjufullir: Hvað eigum vér að eta? eða: Hvað eigum vér að drekka? eða: Hverju eigum vér að klæðast? 32 því að eftir öllu þessu sækjast heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. 33 En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, og þá mun alt þetta veitast yður að auki. 34 Verið því ekki áhyggjufullir um morgundaginn, því að morgundagurinn mun bera áhyggju fyrir sér; hverjum degi nægir sín þjáning.


7

Dæmið ekki, til þess að þér verðið ekki dæmdir; 2 því að með þeim dómi, sem þér dæmið, verðið þér dæmdir, og með þeim mæli, sem þér mælið, verður yður mælt. 3 En hví sér þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? 4 Eða hvernig getur þú sagt við bróður þinn: Lát mig draga út flísina úr auga þér, og sjá, bjálki er í þínu auga? 5 Hræsnari, drag fyrst bjálkann út úr auga þínu, og muntu þá sjá vel til að draga út flísina úr auga bróður þíns.

6 Gefið eigi hundunum hið heilaga og kastið eigi perlum yðar fyrir svínin, til þess að þau troði þær ekki niður með fótunum og snúi sér við og rífi yður í sundur.

7 Biðjið, og yður mun gefast; leitið, og þér munuð finna; knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða; 8 því að sérhver sá er biður, öðlast, og sá er leitar, finnur, og fyrir þeim er á knýr, mun upp lokið verða. 9 Eða hver er sá maður meðal yðar, sem mundi gefa syni sínum stein, er hann bæði um brauð? 10 Og hvort mundi hann gefa honum höggorm, er hann bæði um fisk? 11 Ef nú þér, sem vondir eruð, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hversu miklu fremur mun þá faðir yðar, sem er á himnum, gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann? 12 Alt, sem þér því viljið að mennirnir gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra; því að þetta er lögmálið og spámennirnir.

13 Gangið inn um þrönga hliðið; því að vítt er hliðið og breiður vegurinn, er liggur til glötunarinnar, og margir eru þeir, sem fara þar inn; 14 því að þröngt er hliðið og mjór vegurinn, er liggur til lífsins, og fáir eru þeir, sem finna hann.

15 Gætið yðar fyrir falsspámönnum, er koma til yðar í sauðaklæðum, en eru hið innra glefsandi vargar; 16 af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort geta menn lesið vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? 17 Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en skemt tré ber vonda ávöxtu. 18 Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur skemt tré borið góða ávöxtu. 19 Hvert það tré, sem ekki ber góðan ávöxt, er upp höggvið og því í eld kastað; 20 þess vegna — af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. 21 Ekki mun hver sá, er við mig segir: Herra, herra, ganga inn í ríki himnanna, heldur sá er gjörir vilja föður míns á himnum. 22 Margir munu segja við mig á þeim degi: Herra, herra, höfum vér ekki spáð með þínu nafni, og höfum vér ekki rekið út illa anda með þínu nafni, og höfum vér ekki gjört mörg kraftaverk með þínu nafni? 23 Og þá mun eg segja þeim afdráttarlaust: Aldrei þekti eg yður; farið frá mér þér, sem fremjið ranglæti. 24 Hver sem því heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, honum má líkja við hygginn mann, er bygði hús sitt á bjargi; 25 og steypiregn kom ofan, og vatnsflóð komu og stormar blésu, og skullu á því húsi, en það féll ekki, því að það var grundvallað á bjargi. 26 Og hverjum, sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, honum má líkja við heimskan mann, er bygði hús sitt á sandi; 27 og steypiregn kom ofan, og vatnsflóð komu og stormar blésu, og skullu á því húsi, og það fjell, og fall þess var mikið.

28 Og það varð, er Jesús hafði lokið þessum orðum, að mannfjöldinn undraðist mjög kenningu hans; 29 því að hann kendi þeim eins og sá sem vald hafði, og ekki eins og fræðimenn þeirra.


8

En er hann steig niður af fjallinu, fylgdi honum mikill mannfjöldi. 2 Og sjá, líkþrár maður kom til hans, laut honum og mælti: Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig. 3 Og hann rétti út höndina, snart hann og sagði: Eg vil, verðir þú hreinn! Og jafnskjótt varð líkþrá hans hrein. 4 Og Jesús segir við hann: Sjá þú til, að þú segir það engum, heldur far burt, sýn þig prestinum, og ber fram gjöfina, sem Móse skipaði fyrir, þeim til vitnisburðar.

5 En er hann gekk inn í Kapernaum, kom til hans hundraðshöfðingi, bað hann og sagði: 6 Herra, þjónn minn liggur heima lami og er mjög þungt haldinn. 7 Og hann segir við hann: Eg skal koma og lækna hann. 8 Og hundraðshöfðinginn svaraði og sagði: Herra, eg er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt. En seg það aðeins með orði, og mun þjónn minn verða heill. 9 Því að einnig eg er maður, sem yfirvaldi á að lúta, og hefi hermenn undir mér; og eg segi við þennan: Far þú, og hann fer, og við annan: Kom þú, og hann kemur; og við þjón minn: Gjör þú þetta, og hann gjörir það. 10 En er Jesús heyrði það, undraðist hann og mælti við þá, sem fylgdu honum: Sannlega segi eg yður: ekki einu sinni í Ísrael hefi eg fundið svo mikla trú; 11 en eg segi yður, að margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham og Ísak og Jakob í ríki himnanna; 12 en börnum ríkisins mun verða varpað út í myrkrið fyrir utan; þar mun vera grátur og gnístran tanna. 13 Og Jesús sagði við hundraðshöfðingjann: Far þú burt, verði þér eins og þú trúðir; og þjónninn varð heilbrigður á þeirri stundu.

14 Og er Jesús kom í hús Péturs, sá hann tengdamóður hans, er lá sjúk af hitasótt; 15 og hann snart hönd hennar, og hitasóttin yfirgaf hana; og hún reis á fætur og þjónaði honum. 16 En er kveld var komið, færðu þeir til hans marga, er þjáðust af illum öndum, og rak hann andana út með orði, og alla þá, er sjúkir voru, læknaði hann; 17 svo að rættist það, sem talað er fyrir Jesaja spámann, er segir: Hann tók mein vor og bar sóttir vorar.

18 En er Jesús sá mikinn mannfjölda kring um sig, bauð hann að fara yfir um vatnið. 19 Og fræðimaður nokkur kom og sagði við hann: Meistari, eg vil fylgja þér hvert sem þú fer. 20 Og Jesús segir við hann: Refar eiga greni og fuglar himinsins hreiður, en mannsins sonur á hvergi höfði sínu að halla. 21 En annar af lærisveinunum sagði við hann: Herra, leyf mér fyrst að fara burt og jarða föður minn. 22 En Jesús segir við hann: Fylg þú mér, og lát hina dauðu jarða sína dauðu.

23 Og er hann steig á skip, fylgdu lærisveinar hans honum. 24 Og sjá, þá gjörði svo mikið óveður á vatninu, að skipið huldi af bylgjunum; en hann svaf. 25 Og þeir komu og vöktu hann, segjandi: Herra, bjarga þú; vér förumst. 26 Og hann segir við þá: Hví eruð þér hræddir, lítiltrúaðir? Því næst stóð hann upp og hastaði á vindana og vatnið, og varð blíðalogn. 27 En mennirnir undruðust þetta og sögðu: Hvaða maður er þetta, að bæði vindarnir og vatnið hlýða honum?

28 Þegar hann var kominn yfir um í bygð Gadarena, mættu honum tveir menn, þjáðir af illum öndum, er komu út úr gröfunum, skæðir mjög, svo að engum var fært að fara þann veg. 29 Og sjá, þeir æptu og sögðu: Hvað höfum við saman við þig að sælda, sonur Guðs? Ert þú kominn hingað fyrir tímann, til þess að kvelja oss? 30 En langt frá þeim var mikil svínahjörð á beit. 31 En illu andarnir báðu hann og sögðu: Ef þú rekur oss út, þá lát þú oss fara í svínahjörðina .32 Og hann sagði við þá: Farið þið! En þeir fóru út og fóru í svínin; og sjá, öll hjörðin steyptist niður fyrir þvergnípið í vatnið, og týndist í vatninu. 33 En hirðarnir flýðu, og er þeir komu til borgarinnar, sögðu þeir frá öllu, eins frá því um mennina, er þjáðir voru af illu öndunum. 34 Og sjá, öll borgin gekk út til móts við Jesúm, og er þeir sáu hann, báðu þeir hann að fara burt úr héruðum þeirra.


9

Og hann steig á skip og fór yfir um og kom í sína eigin borg. 2 Og sjá, menn færðu til hans lama mann, sem lá í rekkju; og er Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: Vertu hughraustur, sonur, syndir þínar eru fyrirgefnar, 3 Og sjá, nokkurir af fræðimönnunum sögðu með sjálfum sér: Þessi maður lastmælir! 4 Og Jesús, sem þekti hugsanir þeirra, sagði: Hví hugsið þér ilt í hjörtum yðar? 5 Því að hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða að segja: Statt upp og gakk? 6 En til þess að þér skulið vita, að mannsins sonur hefir vald til að fyrirgefa syndir á jörðunni, — þá segir hann við lama manninn: — statt upp, tak sæng þína og far heim til þín. 7 Og hann reis upp og fór heim til sín. 8 En er mannfjöldinn sá þetta, skelfdist hann og lofaði Guð, er gefið hefði mönnunum slíkt vald.

9 Og er Jesús hélt áfram þaðan, sá hann mann sitja hjá tollbúðinni, Matteus að nafni; og hann segir við hann: Fylg þú mér. Og hann stóð upp og fylgdi honum.

10 Og svo bar til, er hann sat að borði í húsinu, sjá, þá komu margir tollheimtumenn og bersyndugir og sátu til borðs með Jesú og lærisveinum hans; 11 og er Farísearnir sáu það, sögðu þeir við lærisveina hans: Hví etur meistari yðar með tollheimtumönnum og bersyndugum? 12 En er hann heyrði það, mælti hann: Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru; 13 en farið þér og lærið hvað þetta þýðir: Miskunnsemi þrái eg, en ekki fórnir; því að ekki er eg kominn, til þess að kalla réttláta, heldur synduga.

14 Þá koma til hans lærisveinar Jóhannesar og segja: Hví föstum vér og Farísearnir iðulega, en lærisveinar þínir fasta ekki? 15 Og Jesús sagði við þá: Hvort mundu brúðkaupssveinar vera hryggir, meðan brúðguminn er hjá þeim? En koma munu dagar, er brúðguminn verður tekinn burt frá þeim, og þá munu þeir fasta. 16 Enginn leggur bót af nýjum dúk á gamalt fat, því að bótin tekur af fatinu og rifan verður verri. 17 Ekki láta menn heldur nýtt vín á gamla belgi, því að þá springa belgirnir og vínið fer niður og belgirnir ónýtast; en menn láta nýtt vín á nýja belgi, og varðveitist þá hvorttveggja.

18 Þegar hann var að tala þetta við þá, sjá, þá kom forstöðumaður nokkur, laut honum og mælti: Dóttir mín er nýskilin við, en kom þú og legg hönd þína yfir hana, þá mun hún lifna. 19 Og Jesús stóð upp og fór með honum, svo og lærisveinar hans. 20 Og sjá, kona nokkur, sem hafði haft blóðfall í tólf ár, kom að baki honum og snart fald yfirhafnar hans; 21 því að hún sagði með sjálfri sér: Ef eg aðeins fæ snortið yfirhöfn hans, þá mun eg heil verða. 22 En Jesús sneri sér við, og er hann leit hana, sagði hann: Vertu hughraust, dóttir, trú þín hefir gjört þig heila; og konan varð heil í frá þeirri stundu. 23 Og er Jesús kom í hús forstöðumannsins og sá þar píparana og mannfjöldann, sem var með þys, sagði hann: 24 Farið burt, því að stúlkan er ekki dáin, heldur sefur hún. Og þeir hlógu að honum. 25 En er búið var að reka fólkið út, gekk hann inn, tók í hönd henni, og reis þá stúlkan upp. 26 Og fregnin um þetta barst út um alt það hérað.

27 Og er Jesús fór þaðan, fylgdu eftir honum tveir menn blindir, er kölluðu og sögðu: Miskunna þú okkur, sonur Davíðs! 28 En er hann var kominn inn í húsið, komu hinir blindu til hans. Og Jesús segir við þá: Trúið þið, að eg geti gjört þetta? Þeir segja við hann: Já, herra. 29 Þá snart hann augu þeirra og mælti: Verði ykkur að trú ykkar! 30 Og augu þeirra opnuðust. Og Jesús lagði ríkt á við þá og sagði: Sjáið til að enginn fái að vita þetta. 31 En þeir gengu út og víðfrægðu hann í öllu því héraði.

32 En er þeir voru burt farnir, sjá, þá færðu menn til hans mállausan mann, er þjáðist af illum anda. 33 Og er illi andinn var út rekinn, talaði hinn mállausi. Og mannfjöldinn undraðist þetta og mælti: Aldrei hefir þvílíkt sést í Ísrael. 34 En Farísearnir sögðu: Hann rekur út illu andana með fulltingi foringja illu andanna.

35 Og Jesús fór um allar borgirnar og þorpin, kendi í samkundum þeirra og prédikaði fagnaðarboðskap ríkisins og læknaði hvers konar sjúkdóma og hvers konar krankleika. 36 En er hann sá mannfjöldann, kendi hann í brjósti um þá, því að þeir voru hrjáðir og tvístraðir, eins og sauðir, er ekki hafa hirði. 37 Þá segir hann við lærisveina sína: Uppskeran er að sönnu mikil, en verkamennirnir fáir; 38 biðjið því herra uppskerunnar, að hann sendi verkamenn til uppskeru sinnar.


10

Og hann kallaði til sín þá tólf lærisveina sína og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum, til þess að reka þá út, og til þess að lækna hvers konar sjúkdóma og hvers konar krankleika.

2 En nöfn þeirra tólf postula eru þessi: Fyrstur er Símon, sem Pétur kallast, og Andrés bróðir hans; Jakob Zebedeusson og Jóhannes bróðir hans; 3 Filippus og Bartólómeus; Tómas og Matteus, tollheimtumaðurinn; Jakob Alfeusson og Taddeus; 4 Símon Kananei og Júdas Ískaríot, sá hinn sami er sveik hann. 5 Þessa tólf sendi Jesús frá sér, bauð þeim og sagði:

Farið eigi á veg heiðingja og gangið eigi inn í nokkura borg Samverja; 6 en farið heldur til hinna týndu sauða af húsi Ísraels. 7 En á ferðum yðar skuluð þér prédika og segja: Ríki himnanna er í nánd. 8 Læknið sjúka, uppvekið dauða, hreinsið líkþráa, rekið út illa anda; ókeypis hafið þér meðtekið, ókeypis skuluð þér af hendi láta. 9 Fáið yður eigi gull né silfur né eirpeninga í belti yðar; 10 eigi mal til ferðar, né tvo kyrtla né skó né staf, því að verður er verkamaðurinn fæðis síns. 11 En í hverja þá borg eða þorp, sem þér komið, þá spyrjist fyrir, hver sé maklegur þar, og dveljist þar, þangað til þér farið burt. 12 En er þér gangið inn í húsið, þá heilsið því; 13 og sé húsið maklegt, þá komi friður yðar yfir það; en sé það ekki maklegt, þá hverfi friður yðar til yðar aftur. 14 Og sé sá nokkur, er ekki vill meðtaka yður, og ekki heldur hlýða á orð yðar, þá farið burt úr því húsi eða þeirri borg, og hristið dustið af fótum yðar. 15 Sannlega segi eg yður: Bærilegra mun landi Sódómu og Gómorru verða á degi dómsins en þeirri borg.

16 Sjá, eg sendi yður sem sauði á meðal úlfa; verið því hygnir sem höggormar og falslausir sem dúfur. 17 Gætið yðar fyrir mönnunum, því að þeir munu framselja yður ráðsamkomum, og í samkundum sínum munu þeir húðstrýkja yður; 18 og fyrir landshöfðingja og konunga munuð þér leiddir verða mín vegna, þeim og heiðingjunum til vitnisburðar. 19 En er þeir framselja yður, þá verið ekki áhyggjufullir um, hvernig eða hvað þér skuluð tala; því að það mun verða gefið yður á þeirri stundu, hvað þér eigið að tala; 20 því að ekki eruð það þér, sem talið, heldur andi föður yðar, er í yður talar. 21 En bróðir mun framselja bróður til lífláts og faðir barn sitt, og börnin munu rísa gegn foreldrunum og valda þeim dauða. 22 Og þér munuð verða hataðir af öllum vegna nafns míns; en sá er stendur stöðugur alt til enda, hann mun hólpinn verða. 23 En er þeir ofsækja yður í þessari borg, þá flýið í hina, því að sannlega segi eg yður, þér munuð alls eigi ljúka við borgir Ísraels, áður en mannsins sonur kemur.

24 Ekki er lærisveinninn yfir meistara sínum, ekki heldur þjónninn yfir húsbónda sínum; 25 nóg er lærisveininum að verða sem meistari hans og þjóninum að verða sem húsbóndi hans. Hafi þeir kallað húsföðurinn Beelsebúl, hve miklu fremur þá heimilismenn hans? 26 Óttist þá því eigi; því að ekkert er hulið, er eigi verði opinbert, né leynt, er ekki verði augljóst. 27 Það sem eg segi yður í myrkrinu, skuluð þér tala í birtunni, og það sem þér heyrið hvíslað í eyra, skuluð þér prédika á þökum uppi. 28 Og hræðist eigi þá sem líkamann deyða, en geta eigi deytt sálina; en hræðist heldur þann, er mátt hefir til að tortíma bæði sálu og líkama í Gehenna. 29 Eru eigi tveir spörvar seldir fyrir einn smápening? og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vilja föður yðar; 30 en jafnvel öll höfuðhár yðar eru talin. 31 Óttist því eigi; þér eruð meira verðir en margir spörvar. 32 Hver sem því kannast við mig fyrir mönnunum, við hann mun eg einnig kannast fyrir föður mínum á himnum. 33 En hver sem afneitar mér fyrir mönnunum, honum mun eg og afneita fyrir föður mínum á himnum.

34 Ætlið ekki að eg sé kominn frið að senda á jörðina; ekki kom eg frið að senda, heldur sverð. 35 Því að eg er kominn til að gjöra mann ósáttan við föður sinn og dóttur við móður sína og sonarkonu við tengdamóður sína, 36 og óvinir mannsins eru heimilismenn hans. 37 Hver sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og hver sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður. 38 Og hver sem ekki tekur sinn kross og fylgir mér eftir, er mín ekki verður. 39 Hver sem finnur líf sitt, mun týna því, en hver sem hefir týnt lífi sínu mín vegna, mun finna það.

40 Hver sem meðtekur yður, meðtekur mig, og hver sem meðtekur mig, meðtekur þann, er sendi mig. 41 Hver sem meðtekur spámann upp á spámanns nafn, mun fá spámanns laun, og hver sem meðtekur réttlátan mann upp á nafn réttláts manns, mun fá laun réttláts manns. 42 Og hver sem gefur einum þessara smælingja svaladrykk einungis upp á lærisveins nafn, sannlega segi eg yður: hann mun alls ekki missa af launum sínum.


11

Og það varð, er Jesús hafði lokið fyrirskipunum sínum til þeirra tólf lærisveina sinna, að hann fór þaðan, til þess að kenna og prédika í borgum þeirra.

2 En er Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists, gjörði hann honum orðsendingu með lærisveinum sínum og lét segja við hann: 3 Ert þú sá sem koma á, eða eigum vér að vænta annars? 4 Og Jesús svaraði og sagði við þá: Farið og kunngjörið Jóhannesi það sem þér heyrið og sjáið: 5 Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, og dauðir upp rísa og fátækum er boðað fagnaðarerindi. 6 Og sæll er sá, sem ekki hneykslast á mér. 7 En er þeir voru farnir, tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: Hvað fóruð þér út í óbygðina að sjá? Reyr af vindi skekinn? 8 Eða hvað fóruð þér út að sjá? Mann mjúkklæddan? Sjá, þeir sem bera mjúk klæði, eru í höllum konunganna. 9 Eða til hvers fóruð þér út? Til að sjá spámann? Já, eg segi yður, jafnvel meira en spámann; 10 því að hann er sá, sem um er ritað: Sjá, eg sendi sendiboða minn fyrir augliti þínu, er greiða mun veg þinn fyrir þér. 11 Sannlega segi eg yður: eigi hefir fram komið meðal þeirra, er af konum eru fæddir, meiri maður en Jóhannes skírari; en hinn minsti í ríki himnanna er honum meiri. 12 En frá dögum Jóhannesar skírara og alt til þessa verður ríki himnanna fyrir ofbeldi, og ofbeldismenn taka það með valdi; 13 því að allir spámennirnir og lögmálið spáðu alt fram að Jóhannesi. 14 Og ef þér viljið meðtaka það, þá er hann sá Elía, er koma skal. 15 Hver sem eyru hefir að heyra, hann heyri. 16 Við hvað skal eg samlíkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum, sem á torgum sitja og kalla til félaga sinna og segja: 17 Vér lékum fyrir yður á hljóðpípu, og þér dönsuðuð ekki; vér sungum sorgarljóð, og þér kveinuðuð ekki. 18 Því að Jóhannes kom, og át hvorki né drakk, og menn segja: Hann hefir illan anda. 19 Mannsins sonur kom, og át og drakk, og menn segja: Sjá, átvagl og vínsvelgur! vinur tollheimtumanna og syndara! En spekin réttlættist af gjörðum sínum.

20 Þá tók hann að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gjört flest kraftaverk, fyrir það, að þær hefðu eigi gjört iðrun: 21 Vei þér, Kórazín; vei þér, Betsaída; því að ef þau kraftaverk hefðu gjörð verið í Týrus og Sídon, sem gjörst hafa í ykkur, hefðu þær fyrir löngu gjört iðrun í sekk og ösku. 22 Þó segi eg ykkur, að Týrus og Sídon mun verða bærilegra á dómsdegi en ykkur. 23 Og þú, Kapernaum! skyldir þú verða hafin til himins? — Til Heljar skalt þú niður stíga; því að ef þau kraftaverk hefðu gjörð verið í Sódómu, sem gjörst hafa í þér, stæði hún alt til þessa dags. 24 Þó segi eg yður, að landi Sódómu mun verða bærilegra á dómsdegi en þér.

25 Á þeim tíma tók Jesús til máls og sagði: Eg vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefir hulið þessa hluti fyrir spekingum og vitrum mönnum, og opinberað þá smælingjum. 26 Já, faðir, því að þannig varð það, sem þóknanlegt er fyrir augliti þínu. 27 Alt er mér á vald gefið af föður mínum, og enginn gjörþekkir soninn nema faðirinn, og eigi heldur gjörþekkir nokkur föðurinn nema sonurinn, og sá er sonurinn vill opinbera hann. 28 Komið til mín, allir þér, sem erfiðið og þunga eruð hlaðnir, og eg mun veita yður hvíld. 29 Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að eg er hógvær og lítillátur í hjarta, og þá skuluð þér finna sálum yðar hvíld; 30 því að mitt ok er indælt og byrði mín létt.


12

Á þeim tíma fór Jesús á hvíldardegi um sáðlönd, en lærisveinar hans voru hungraðir, og tóku þeir til að tína kornöx og eta. 2 En er Farísearnir sáu það, sögðu þeir við hann: Sjá, lærisveinar þínir gjöra það, sem ekki er leyfilegt að gjöra á hvíldardegi. 3 En hann sagði við þá: Hafið þér eigi lesið, hvað Davíð gjörði, þegar hann var hungraður og menn hans? 4 hvernig hann gekk inn í Guðs hús og át skoðunarbrauðin, sem hvorki honum var leyfilegt að eta né mönnum hans, heldur prestunum einum? 5 Eða hafið þér ekki lesið í lögmálinu, að á hvíldardögunum vanhelga prestarnir hvíldardaginn í musterinu, og eru þó án saka? 6 En eg segi yður, að hér er meira en musterið. 7 Og ef þér hefðuð skilið hvað það er: Miskunnsemi þrái eg, en ekki fórnir, munduð þér eigi hafa sakfelt saklausa menn. 8 Því að mannsins sonur er herra hvíldardagsins.

9 Og hann fór þaðan og kom inn í samkundu þeirra; 10 og sjá, maður var þar, er hafði visna hönd; og þeir spurðu hann, segjandi: Hvort er leyfilegt að lækna á hvíldardegi? — til þess að þeir gætu ákært hann. 11 En hann sagði við þá: Hver mundi sá maður vera meðal yðar, er á eina sauðkind, og ekki tekur í hana og dregur hana upp, hafi hún á hvíldardegi fallið í gryfju? 12 Hve miklu er nú maðurinn meira verður en sauðkind! Fyrir því er leyfilegt að vinna góðverk á hvíldardegi. 13 Síðan segir hann við manninn: Réttu fram hönd þína. Hann rétti hana fram, og hún varð aftur heil sem hin. 14 En Farísearnir gengu út og báru saman ráð sín gegn honum, hvernig þeir fengju ráðið hann af dögum. 15 En er Jesús varð þess vís, veik hann þaðan brott; og margir fylgdu á eftir honum, og hann læknaði þá alla; 16 og hann lagði ríkt á við þá, að þeir gerðu hann ekki kunnan, 17 til þess að rættist það, sem mælt er fyrir Jesaja spámann, er hann segir: 18 Sjá, þjónn minn, sem eg hefi útvalið; minn elskaði, sem sál mín hefir þóknun á, yfir hann mun eg láta koma anda minn, og hann mun boða þjóðunum rétt. 19 Eigi mun hann þrátta né háreysti gjöra; ekki skal heldur neinn heyra rödd hans á strætunum. 20 Brákaðan reyr mun hann ekki brjóta sundur, og rjúkandi hörkveik mun hann ekki slökkva, unz hann hefir leitt réttinn út til sigurs, 21 og nafni hans munu þjóðirnar treysta.

22 Þá var færður til hans maður blindur og mállaus, er þjáðist af illum anda, og hann læknaði hann, svo að hinn mállausi talaði og sá. 23 Og allur mannfjöldinn undraðist og þeir sögðu: Mundi ekki þessi vera sonur Davíðs? 24 En er Farísearnir heyrðu það, sögðu þeir: Þessi maður rekur ekki út illu andana nema með fulltingi Beelsebúls, foringja illu andanna. 25 En hann vissi hugrenningar þeirra og sagði við þá: Sérhvert það ríki, sem sjálfu sér er sundurþykt, legst í auðn, og sérhver borg eða heimili, sem sjálfu sér er sundurþykt, fær eigi staðist. 26 Og ef Satan út rekur Satan, þá er hann sjálfum sér sundurþykkur; hvernig ætti þá ríki hans að standast? 27 Og ef eg rek út illu andana með fulltingi Beelsebúls, fyrir hvers fulltingi reka þá synir yðar þá út? Fyrir því skulu þeir vera dómarar yðar. 28 En ef eg út rek illu andana með fulltingi Guðs anda, þá er guðsríki komið yfir yður. 29 Eða hvernig fær nokkur komist inn í hús hins sterka og rænt föngum hans, nema hann áður bindi hinn sterka? Og þá mun hann ræna hús hans. 30 Hver sem ekki er með mér, er á móti mér, og hver sem ekki safnar með mér, hann dreifir. 31 Þess vegna segi eg yður, að sérhver synd og lastmæli mun verða fyrirgefið mönnunum, en lastmæli gegn andanum mun eigi verða fyrirgefið. 32 Og hver sem mælir orð gegn mannsins syni, honum mun verða fyrirgefið, en hver sem talar gegn heilögum anda, honum mun eigi verða fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né heldur hinum tilkomandi. 33 Látið annaðhvort tréð vera gott og ávöxt þess góðan, eða látið tréð vera skemt og ávöxt þess skemdan; því að af ávextinum þekkist tréð. 34 Þér nöðru-afkvæmi, hvernig getið þér talað það sem gott er, þar sem þér sjálfir eruð vondir? því að af gnægð hjartans mælir munnurinn. 35 Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði, og vondur maður ber ilt fram úr vondum sjóði. 36 En eg segi yður: sérhvert ónytjuorð, það er mennirnir mæla, fyrir það skulu þeir á dómsdegi reikning lúka; 37 því að af orðum þínum muntu verða réttlættur, og af orðum þínum muntu verða sakfeldur.

38 Þá svöruðu honum nokkurir af fræðimönnum og Faríseum og sögðu: Meistari, oss langar til að sjá teikn hjá þér.39 En hann svaraði og sagði við þá: Vond og hórsöm kynslóð krefst teikns, og eigi skal henni annað teikn gefið verða en teikn Jónasar spámanns; 40 því að eins og Jónas var í kviði stórfisksins þrjá daga og þrjár nætur, þannig mun mannsins sonur vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðarinnar. 41 Níníve-menn munu rísa upp í dóminum ásamt kynslóð þessari og dæma hana seka, því að þeir gjörðu iðrun við prédikun Jónasar; og sjá, hér er meira en Jónas. 42 Suðurlanda-drotningin mun koma fram í dóminum ásamt þessari kynslóð og dæma hana seka, því að hún kom frá endimörkum jarðarinnar, til þess að heyra speki Salómons; og sjá, hér er meira en Salómon. 43 En er hinn óhreini andi er farinn út af manninum, þá fer hann um vatnslausa staði, leitandi hvíldar, en finnur ekki. 44 Þá segir hann: Eg vil hverfa aftur til húss míns, þaðan sem eg fór út. Og er hann kemur, finnur hann það tómt, sópað og prýtt; 45 þá fer hann og tekur með sér sjö anda aðra sér verri, og er þeir eru komnir inn þangað, setjast þeir þar að; verður svo hið síðara þess manns verra en hið fyrra. Svo mun og fara fyrir þessari vondu kynslóð.

46 Meðan hann enn þá var að tala við mannfjöldann, sjá, þá stóðu móðir hans og bræður fyrir dyrum úti, og vilja ná tali hans. 47 Og einhver sagði við hann: Sjá, móðir þín og bræður þínir standa fyrir dyrum úti, og vilja ná tali þínu. 48 En hann svaraði þeim, er við hann talaði, og sagði: Hver er móðir mín? — og hverjir eru bræður mínir? 49 Og hann rétti hönd sína út yfir lærisveina sína og mælti: Sjá, hér er móðir mín og bræður mínir! 50 því að sérhver sem gjörir vilja föður míns á himnum, sá er bróðir minn og systir og móðir.


13

Á þeim degi gekk Jesús að heiman og settist við vatnið; 2 og mikill fjöldi manna safnaðist að honum, svo að hann steig á skip og settist þar; og allur mannfjöldinn stóð á ströndinni.3 Og hann talaði margt til þeirra í dæmisögum og sagði: Sjá, sáðmaður gekk út að sá. 4 Og er hann var að sá, féll sumt við götuna, og fuglarnir komu og átu það upp. 5 En sumt féll í grýtta jörð, þar sem það hafði ekki mikinn jarðveg, og jafnskjótt rann það upp, af því að það hafði eigi djúpan jarðveg; 6 en er sól kom upp, skrælnaði það, og sökum þess að það hafði engar rætur, visnaði það. 7 En sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu upp og kæfðu það. 8 En sumt féll í góða jörð og bar ávöxt, sumt hundraðfaldan, sumt sextugfaldan, en sumt þrítugfaldan. 9 Hver sem eyru hefir, hann heyri.

10 Og lærisveinarnir komu og sögðu við hann: Hvers vegna talar þú við þá í dæmisögum? 11 En hann svaraði og sagði við þá: Yður er gefið að þekkja leyndardóma himnaríkis, en hinum er það eigi gefið; 12 því að hverjum, sem hefir, honum mun verða gefið, og hann mun gnægð hafa, en hverjum, sem ekki hefir, frá honum mun jafnvel verða tekið það er hann hefir. 13 Þess vegna tala eg til þeirra í dæmisögum, að sjáandi sjá þeir ekki, og heyrandi heyra þeir ekki né skilja.14 Og á þeim rætist spádómur Jesaja, er segir: Með heyrninni munuð þér heyra, og alls eigi skilja, og sjáandi munuð þér sjá, og alls eigi skynja. 15 Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og á eyrunum eru þeir orðnir daufir, og augum sínum hafa þeir lokað, til þess að þeir sæju eigi með augunum og heyrðu með eyrunum og skynjuðu með hjartanu, og sneru sér, og eg læknaði þá. 16 En sæl eru augu yðar, af því að þau sjá, og eyru yðar, af því að þau heyra; 17 því að sannlega segi eg yður, að margir spámenn og réttlátir þráðu að sjá það, sem þér sjáið, og sáu það eigi, og heyra það, sem þér heyrið, og heyrðu það eigi.18 Heyrið þér nú dæmisöguna um sáðmanninn: 19 Hve nær sem einhver heyrir orð ríkisins og skilur það eigi, þá kemur hinn vondi, og rænir því er sáð var í hjarta hans. Þessi er sá, er sáð var við götuna.20 En það sem í grýtta jörð var sáð, það er sá, er heyrir orðið og meðtekur það með fögnuði þegar í stað. 21 En hann hefir ekki rót í sér, heldur er hann óstöðugur. En er þrenging verður eða ofsóknir vegna orðsins, hneykslast hann jafnskjótt. 22 En það er sáð var meðal þyrna, það er sá sem orðið heyrir, og áhyggja heimsins og tál auðæfanna kefja orðið, og hann ber engan ávöxt. 23 En það er sáð var í góðu jörðina, það er sá sem orðið heyrir og skilur það; hann ber því ávöxt, og gefur af sér, einn hundraðfalt, annar sextugfalt og annar þrítugfalt.

24 Aðra dæmisögu framsetti hann fyrir þá og sagði: Líkt er ríki himnanna manni, er sáði góðu sæði í akur sinn; 25 en meðan fólkið svaf, kom óvinur hans og sáði líka illgresi meðal hveitisins, og fór síðan á burt. 26 En er sæðið spratt upp og bar ávöxt, þá kom og illgresið í ljós. 27 Þá fóru þjónar húsbóndans og sögðu við hann: Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur honum þá illgresi? 28 En hann mælti við þá: Þetta hefir illviljaður maður gjört. En þjónarnir segja við hann: Viltu þá, að vér förum og reytum það upp? 29 En hann segir: Nei, svo að þér eigi, er þér reytið upp illgresið, reytið hveitið upp ásamt því. 30 Látið hvorttveggja vaxa saman til kornskurðarins; og er kornskurðartíminn kemur, mun eg segja við kornskurðarmennina: Safnið fyrst saman illgresinu og bindið það í bundin, til þess að brenna það, en safnið hveitinu í kornhlöðu mína.

31 Aðra líkingu framsetti hann fyrir þá og mælti: Líkt er ríki himnanna mustarðskorni, er maður nokkur tók og sáði í akur sinn. 32 Vissulega er það allra frækorna minst, en þegar það er sprottið, er það stærra en jurtirnar og verður að tré, svo að fuglar himinsins koma og hreiðra sig í greinum þess.

33 Aðra líkingu sagði hann þeim: Líkt er ríki himnanna súrdeigi, er kona tók og faldi í þrem mælum mjöls, unz alt mjölið sýrðist.

34 Þetta alt talaði Jesús í líkingum við mannfjöldann, og án líkinga talaði hann ekkert til þeirra, 35 til þess að rættist það sem talað er fyrir spámanninn er segir: Eg mun opna munn minn í líkingum, og mæla fram það sem hulið hefir verið frá grundvöllun veraldar.

36 Þá yfirgaf hann mannfjöldann og gekk inn í húsið; og lærisveinar hans komu til hans og sögðu: Útskýr þú fyrir oss dæmisöguna um illgresið á akrinum. 37 En hann svaraði og sagði: Sá er sáir góða sæðinu, er mannsins sonur; 38 en akurinn er heimurinn; en góða sæðið, það eru synir ríkisins, en illgresið, það eru synir hins vonda; 39 en óvinurinn, er sáði því, er djöfullinn; en kornskurðartíminn er endir veraldar; en kornskurðarmennirnir eru englar.40 Eins og því illgresinu er safnað og það brent í eldi, þannig mun fara við enda veraldar; 41 mannsins sonur mun senda engla sína, og þeir munu saman safna úr ríki hans öllum hneykslunum og þeim, er ranglæti fremja, 42 og munu kasta þeim í eldsofninn; þar mun vera grátur og gnístran tanna. 43 Þá munu hinir réttlátu skína sem sólin í ríki föður þeirra. Hver sem eyru hefir, hann heyri.

44 Líkt er ríki himnanna fjársjóði, er fólginn var í akri, en maður nokkur fann og faldi, og í gleði sinni fer hann burt og selur alt, sem hann á, og kaupir akur þennan.

45 Enn er ríki himnanna líkt kaupmanni einum, sem leitaði að fögrum perlum; 46 og er hann hafði fundið eina dýra perlu, fór hann og seldi alt, sem hann átti, og keypti hana.

47 En er ríki himnanna líkt neti, er lagt var í sjóinn og safnaði í sig af öllum tegundum; 48 og er það var orðið fult, drógu menn það að landi og settust niður, söfnuðu hinum góðu í ker, en köstuðu hinum óætu út aftur. 49 Þannig mun verða við enda heimsins; englarnir munu fara út og skilja hina vondu menn frá hinum réttlátu, 50 og þeir munu kasta þeim í eldsofninn; þar mun vera grátur og gnístran tanna.

51 Hafið þér skilið alt þetta? Þeir segja við hann: Já. 42 En hann sagði við þá: Þess vegna er sérhver fræðimaður, sem er orðinn lærisveinn himnaríkis, líkur húsráðanda, sem ber fram nýtt og gamalt af fjársjóði sínum.

53 Og það bar við, er Jesús hafði lokið þessum líkingum, að hann tók sig upp þaðan. 54 Og hann kom til ættborgar sinnar og kendi þeim í samkunduhúsi þeirra, svo að þeir urðu forviða og sögðu: Hvaðan kemur þessum manni speki þessi og kraftaverkin? 55 Er hann ekki sonur timbursmiðsins? Heitir ekki móðir hans María, og bræður hans Jakob og Jósef og Símon og Júdas? 56 Og eru ekki systur hans allar hjá oss? Hvaðan kemur þessum manni þá alt þetta? 57 Og þeir hneyksluðust á honum; en Jesús sagði við þá: Eigi er spámaður óvirtur nema í föðurlandi sínu og á heimili sínu. 58 Og hann gjörði þar ekki mörg kraftaverk vegna vantrúar þeirra.


14

Um þessar mundir heyrði Heródes fjórðungsstjóri orðróminn um Jesúm, 2 og sagði við sveina sína: Þessi maður er Jóhannes skírari; hann er risinn upp frá dauðum, þess vegna eru kraftarnir máttugir í honum. 3 Því að Heródes hafði tekið Jóhannes höndum og fjötrað og sett hann í fangelsi, vegna Heródíasar, konu Filippusar bróður síns; 4 því að Jóhannes sagði við hann: Þér leyfist ekki að eiga hana. 5 Og feginn vildi hann deyða hann, en hann óttaðist lýðinn, því að þeir héldu hann fyrir spámann. 6 En er afmælisdagur Heródesar kom, dansaði dóttir Heródíasar frammi fyrir þeim og gazt Heródesi vel að. 7 Þess vegna hét hann með eiði að gefa henni hvað sem hún bæði um. 8 Og eftir áeggjun móður sinnar segir hún: Gef mér hingað höfuð Jóhannesar skírara á fati. 9 Og konungurinn varð hryggur, en vegna eiða sinna og boðsgestanna bauð hann, að henni skyldi það gefið verða. 10 Og hann sendi og lét höggva Jóhannes í varðhaldinu, 11 og var komið með höfuð hans á fati og gefið meynni, en hún færði móður sinni. 12 Og lærisveinar hans komu og tóku líkið og greftruðu það; og þeir fóru og sögðu Jesú frá.

13 En er Jesús heyrði það, fór hann á skipi burt þaðan til eyðistaðar afsíðis; og er mannfjöldinn heyrði það, fylgdu þeir eftir honum fótgangandi úr borgunum. 14 Og er hann steig af skipi, sá hann mikinn mannfjölda, og hann kendi í brjósti um þá, og hann læknaði þá af þeim, er sjúkir voru. 15 En er kveld var komið, komu lærisveinar hans til hans og mæltu: Staðurinn er óbygður og tíminn þegar liðinn; láttu mannfjöldann fara frá þér, til þess að hann fari burt í þorpin og kaupi sér vistir. 16 En Jesús sagði við þá: Ekki þurfa þeir að fara burt; gefið þér þeim að eta. 17 En þeir segja við hann: Vér höfum hér ekki nema fimm brauð og tvo fiska. 18 En hann sagði: Færið mér það hingað. 19 Og hann bauð mannfjöldanum að setjast niður í grasið og tók brauðin fimm og fiskana tvo, leit til himins og blessaði, og er hann hafði brotið brauðin, fékk hann lærisveinum sínum þau, en lærisveinarnir mannfjöldanum. 20 Og allir neyttu og urðu mettir; og þeir tóku upp brotnu brauðin, er af gengu, tólf karfir fullar; 21 en þeir sem neytt höfðu, voru hér um bil fimm þúsund karlmenn auk kvenna og barna.

22 Og jafnskjótt þröngvaði hann lærisveinum sínum til að stíga á skipið og fara yfir um á undan sér, á meðan hann kæmi mannfjöldanum frá sér. 23 Og er hann hafði komið mannfjöldanum frá sér, fór hann einn saman upp á fjallið, til þess að biðjast fyrir; og er kveld var komið, var hann þar einn. 24 En skipið var þegar komið út á mitt vatnið og lá undir áföllum, því að vindurinn var á móti. 25 En um fjórðu næturvöku kom hann til þeirra gangandi á vatninu. 26 Og er lærisveinarnir sáu hann gangandi á vatninu, urðu þeir felmtsfullir og sögðu: Það er vofa; og þeir æptu af ótta. 27 En jafnskjótt talaði Jesús til þeirra og mælti: Verið hughraustir, það er eg, óttist eigi! 28 En Pétur svaraði honum og sagði: Herra, ef það ert þú, þá bjóð þú mér að koma til þín á vatninu. 29 En hann sagði: Kom þú! Og Pétur steig utanborðs og gekk á vatninu, til þess að komast til Jesú. 30 En er hann sá vindinn, hræddist hann, og er hann tók að sökkva, kallaði hann og mælti: Herra, bjarga þú mér! 31 En jafnskjótt rétti Jesús út hönd sína, tók í hann og segir við hann: Þú lítiltrúaði, hví efaðist þú? 32 Og er þeir voru stignir upp í skipið, lægði veðrið; 33 en þeir sem á skipinu voru, veittu honum lotningu, segjandi: Sannarlega ert þú sonur Guðs.

34 Og er þeir höfðu farið yfir um, komu þeir að landi í Genesaret. 35 Og með því að menn á þeim stað þektu hann, sendu þeir boð í alla bygðina umhverfis og færðu til hans alla þá er sjúkir voru; 36 og þeir báðu hann að mega aðeins snerta faldinn á yfirhöfn hans. Og allir þeir er snertu hann, urðu heilir.


15

Þá koma til Jesú frá Jerúsalem Farísear og fræðimenn og segja: 2 Hví brjóta lærisveinar þínir setningar fyrri tíðar manna? Því að þeir taka ekki handlaugar, er þeir neyta matar. 3 En hann svaraði og sagði við þá: Hví brjótið þér og boðorð Guðs vegna setninga yðar? 4 Því að Guð hefir sagt: Heiðra föður þinn og móður, og hver sem formælir föður eða móður, skal dauða deyja. 5 En þér segið: Hver sem segir við föður eða móður: Það sem þér hefði getað orðið til styrks frá mér, er heitfé, — hann þarf eigi að heiðra föður sinn. 6 Og þér hafið ónýtt orð Guðs vegna setninga yðar. 7 Hræsnarar, vel hefir Jesaja spáð um yður, er hann segir: 8 Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt í burtu frá mér; 9 þeir dýrka mig til einskis, með því að þeir kenna lærdóma, sem eru manna boðorð. 10 Og hann kallaði til sín mannfjöldann og sagði við þá; Heyrið og skiljið: 11 Eigi saurgar það manninn, sem inn fer í munninn, — heldur það sem út fer af munninum, það saurgar manninn. 12 Þá komu til hans lærisveinarnir og mæltu við hann: Veiztu, að Farísearnir hneyksluðust, er þeir heyrðu ræðuna? 13 En hann svaraði og sagði: Sérhver jurt, sem minn himneski faðir hefir eigi gróðursett, mun upprætt verða. 14 Látið þá eiga sig! Þeir eru blindir leiðtogar; en ef blindur leiðir blindan, falla þeir báðir í gryfju. 15 En Pétur svaraði og sagði við hann: Útskýr þú fyrir oss líkinguna. 16 En hann sagði: Eruð jafnvel þér enn þá svo skilningslausir? 17 Skiljið þér eigi, að alt það sem inn kemur í munninn, fer í magann, og er kastað í saurþróna? 18 En það er út fer af munninum, kemur frá hjartanu, og það er þetta, sem saurgar manninn. 19 Því að frá hjartanu koma vondar hugsanir, morð, hórdómur, frillulífi, þjófnaður, ljúgvitni, lastmæli; 20 þetta er það sem saurgar manninn; en að eta með óþvegnum höndum, saurgar eigi manninn.

21 Og Jesús gekk þaðan út og fór burt til bygða Týrusar og Sídonar. 22 Og sjá, kona nokkur kanversk úr þeim héruðum kom, kallaði og sagði: Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! dóttir mín er þungt haldin af illum anda. 23 En hann svaraði henni engu orði. Og lærisveinar hans komu til hans, beiddu hann og sögðu: Láttu hana fara, því að hún kallar á eftir oss. 24 En hann svaraði og sagði: Ekki er eg sendur nema til týndra sauða af húsi Ísraels. 25 En hún kom, laut honum og mælti: Herra, hjálpa þú mér. 26 En hann svaraði og sagði: Það er ekki fallegt að taka brauðið barnanna og kasta því fyrir hvolpana. 27 En hún sagði: Satt er það, herra, en hvolparnir eta þó af molum þeim, er falla af borðum húsbænda þeirra. 28 Þá svaraði Jesús og sagði við hana: Kona, mikil er trú þín; verði þér sem þú vilt. Og dóttir hennar varð heilbrigð í frá þeirri stundu.

29 Og Jesús fór þaðan og kom til Galíleuvatnsins, og hann gekk upp á fjallið og settist þar. 30 Og mikill fjöldi fólks kom til hans, er hafði með sér halta menn og blinda, mállausa, handarvana og marga aðra, og vörpuðu þeim fyrir fætur Jesú, og hann læknaði þá; 31 svo að mannfjöldinn undraðist, er þeir sáu mállausa tala, handarvana heila og halta ganga um, og blinda alsjáandi; og þeir vegsömuðu Guð Ísraels.

32 En Jesús kallaði á lærisveina sína og mælti: Eg kenni í brjósti um mannfjöldann, því að þrjá daga hafa þeir nú dvalist hjá mér, og hafa ekkert til matar; en fastandi vil eg ekki láta þá frá mér fara, svo að þeir verði eigi magnþrota á leiðinni. 33 Og lærisveinarnir mæltu við hann: Hvaðan skyldu oss koma svo mörg brauð hér í óbygð, að vér fáum mettað svo mikinn mannfjölda? 34 Og Jesús segir við þá: Hve mörg brauð hafið þér? En þeir sögðu: Sjö, og fáeina smáfiska. 35 Og hann bauð mannfjöldanum að setjast niður á jörðina, 36 tók brauðin sjö og fiskana, og gjörði þakkir, braut þau og rétti lærisveinunum, en lærisveinarnir mannfjöldanum. 37 Og allir neyttu og urðu mettir; og þeir tóku upp afganginn af brotnu brauðunum, sjö karfir fullar; 38 en þeir, er neytt höfðu, voru fjórar þúsundir karlmanna auk kvenna og barna. 39 Og er hann hafði látið mannfjöldann fara á burt, sté hann á skipið og kom til Magadan-héraða.


16

Og Farísearnir og Saddúkearnir komu til hans og freistuðu hans og báðu hann að sýna sér tákn af himni. 2 En hann svaraði og sagði við þá: Að kveldi segið þér: Góðviðri, því að himininn er rauður. 3 Og að morgni: Hreggviðri í dag, því að himininn er rauður og dimmur. Um himinsins útlit kunnið þér að dæma, en um tákn tímanna getið þér ekki dæmt. 4 Vond og hórsöm kynslóð beiðist tákns, og henni skal eigi tákn gefast nema tákn Jónasar. Og hann yfirgaf þá og fór burt.

5 Og er lærisveinarnir komu yfir um, höfðu þeir gleymt að taka brauð. 6 En Jesús sagði við þá: Sjáið til og varið yður á súrdeigi Faríseanna og Saddúkeanna. 7 En þeir hugsuðu með sjálfum sér og sögðu: Vér höfum ekki tekið brauð. 8 En er Jesús varð þess vís, mælti hann: Hví eruð þér að hugsa um það með sjálfum yður, þér trúarlitlir, að þér eruð brauðlausir? 9 Skiljið þér ekki enn þá? Munið þér þá eigi heldur eftir brauðunum fimm handa fimm þúsundum, og hve margar karfir þér tókuð? 10 Né eftir brauðunum sjö handa fjórum þúsundum, og hve margar karfir þér tókuð? 11 Hvernig má það vera, að þér skiljið ekki, að eg var ekki að tala um brauð við yður? En varið yður á súrdeigi Faríseanna og Saddúkeanna. 12 Þá skildu þeir, að hann talaði eigi um að varast súrdeigið í brauðunum, heldur kenningu Faríseanna og Saddúkeanna.

13 En er Jesús kom til bygða Sesareu Filippí, spurði hann lærisveina sína og sagði: Hver segja menn að mannsins sonur sé? 14 Og þeir sögðu: Sumir segja: Jóhannes skírari, aðrir: Elía, og aðrir: Jeremía eða einn af spámönnunum. 15 Hann segir við þá: En hver segið þér að eg sé? 16 En Símon Pétur svaraði og sagði: Þú ert Kristur, sonur Guðs hins lifanda. 17 En Jesús svaraði og sagði við hann: Sæll ert þú, Símon Jónasson, því að hold og blóð hefir eigi opinberað þér það, heldur faðir minn á himnum. 18 En eg segi þér: Þú ert Petros2. og á þessum kletti mun eg byggja söfnuð minn, og hlið Heljar skulu eigi verða honum yfirsterkari. 19 Eg mun gefa þér lykla himnaríkis, og sérhvað sem þú bindur á jörðu, skal á himnum bundið vera, og, sérhvað sem þú leysir á jörðu, skal á himnum leyst vera. 20 Þá bauð hann lærisveinunum, að þeir segðu engum, að hann væri Kristur.

21 Eftir þetta tók Jesús að leiða lærisveinum sínum fyrir sjónir, að sér bæri að fara til Jerúsalem og líða margt af hendi öldunganna, æðstu prestanna og fræðimannanna, og verða deyddur og rísa upp á þriðja degi. 22 Og Pétur tók hann á einmæli, og fór að átelja hann, segjandi: Guð náði þig, herra; þetta skal aldrei fram við þig koma! 23 En hann sneri sér við og mælti við Pétur: Haf þig á burt frá mér, Satan, þú ert mér til ásteytingar; því að eigi skynjar þú það sem Guðs er, heldur það sem manna er. 24 Þá mælti Jesús við lærisveina sína: Vilji einhver fylgja mér, þá afneiti hann sjálfum sér og taki sinn kross og fylgi mér; 25 því að hver sá, sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, en hver sá sem týnir lífi sínu mín vegna, hann mun finna það. 26 Því að hvað mun það stoða manninn, þótt hann vinni allan heiminn, en fyrirgjöri sálu sinni? Eða hvaða endurgjald mundi maður gefa fyrir sálu sína? 27 Því að mannsins sonur mun koma í dýrð föður síns ásamt englum sínum, og þá mun hann gjalda sérhverjum eftir verki hans. 28 Sannlega segi eg yður, að þeir eru nokkurir af þeim, er hér standa, sem alls eigi munu smakka dauðann, fyr en þeir sjá mannsins son koma í ríki sínu.


17

Og að sex dögum liðnum tekur Jesús þá Pétur og Jakob og Jóhannes bróður hans, og fer með þá einslega upp á hátt fjall. 2 Og hann ummyndaðist að þeim ásjáandi, og ásjóna hans skein sem sólin, en klæði hans urðu björt eins og ljósið. 3 Og sjá, Móse og Elía birtust þeim og töluðu þeir við hann. 4 En Pétur tók til máls og sagði við Jesúm: Gott er að vér erum hér, herra; ef þú vilt, mun eg gjöra hér þrjár tjaldbúðir, þér eina og Móse eina og Elía eina. 5 Meðan hann var enn að tala, sjá, þá skygði bjart ský yfir þá, og sjá, rödd úr skýinu sagði: Þessi er sonur minn, hinn elskaði, sem eg hefi velþóknun á; hlýðið honum. 6 En er lærisveinarnir heyrðu röddina, féllu þeir fram á ásjónu sína og urðu mjög hræddir. 7 Þá gekk Jesús að og snart þá og mælti: Rísið upp og óttist ekki! 8 En er þeir hófu upp augu sín, sáu þeir engan nema Jesúm einan.

9 Og er þeir gengu niður af fjallinu, bauð Jesús þeim og sagði:

Segið engum frá sýninni, fyr en mannsins sonur er risinn upp frá dauðum. 10 Og lærisveinar hans spurðu hann og sögðu: Hví segja þá fræðimennirnir, að Elía eigi fyrst að koma? 11 En hann svaraði og sagði: Elía kemur að vísu og mun færa alt í lag. 12 En eg segi yður: Elía er nú þegar kominn, en þeir þektu hann eigi, heldur gjörðu við hann alt, er þá fýsti; þannig á og mannsins sonur að þola þjáningar af hendi þeirra. 13 Þá skildu lærisveinarnir, að hann talaði við þá um Jóhannes skírara.

14 Og er þeir komu til mannfjöldans, kom til hans maður nokkur, féll á kné fyrir honum og mælti: 15 Herra, miskunna þú syni mínum, því að hann er tunglsjúkur og næsta þungt haldinn; oft fellur hann í eld og oft í vatn; 16 og eg hefi fært hann til lærisveina þinna, og þeir gátu eigi læknað hann. 17 Og Jesús svaraði og sagði: Ó þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á eg að vera hjá yður? Hversu lengi á eg að umbera yður? Færið hann hingað til mín. 18 Og Jesús hastaði á hann, og illi andinn fór út af honum, og sveinninn varð heilbrigður frá þeirri stundu. 19 Þá komu lærisveinarnir einslega til Jesú og sögðu: Hvers vegna gátum vér ekki rekið hann út? 20 En hann segir við þá: Vegna lítillar trúar yðar. Því að sannlega segi eg yður: ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, þá munuð þér segja við þetta fjall: Flyttu þig þaðan og hingað! og það mun flytja sig, og ekkert mun vera yður um megn.

22 En er þeir dvöldust í Galíleu, sagði Jesús við þá: Mannsins sonur á framseldur að verða í manna hendur. 23 Og þeir munu taka hann af lífi, og á þriðja degi mun hann upp rísa. Og þeir urðu mjög hryggir.

24 En er þeir komu til Kapernaum, komu þeir menn, sem heimta inn dídrökmurnar, til Péturs og mæltu: Geldur meistari yðar eigi dídrökmurnar? 25 Hann segir: Jú. Og er hann kom inn í húsið, tók Jesús fyr til máls og mælti: Hvað lízt þér, Símon? Af hverjum taka konungar jarðarinnar toll eða skatt? Af sonum sínum eða útlendingunum? 26 En er hann sagði: Af útlendingunum, — mælti Jesús: Þá eru synirnir frjálsir. 27 En til þess að vér hneykslum þá ekki, þá far til vatnsins og renn út öngli, og tak fyrsta fiskinn, sem upp kemur; og er þú opnar munn hans, muntu finna stater; tak þú hann og greið þeim fyrir mig og fyrir þig.


18

Á sömu stundu komu lærisveinarnir til Jesú og sögðu: Hver er þá mestur í ríki himnanna? 2 Og hann kallaði til sín barn, setti það mitt á meðal þeirra 3 og sagði: Sannlega segi eg yður: nema þér snúið við og verðið eins og börnin, komist þér alls ekki inn í ríki himnanna. 4 Hver sem því lítillækkar sig eins og barn þetta, sá er mestur í ríki himnanna. 5 Og hver sem meðtekur eitt einasta þvílíkt barn í mínu nafni, hann meðtekur mig. 6 En hver sem hneykslar einn af þessum smælingjum, er á mig trúa, betra væri honum að stór kvarnarsteinn væri hengdur um háls honum og honum væri sökt í sjávardjúp. 7 Vei heiminum vegna hneykslananna; því að óumflýjanlegt er, að hneykslanirnar komi, en vei þeim manni, sem hneyksluninni veldur. 8 En ef hönd þín eða fótur þinn hneykslar þig, þá högg hann af og kasta frá þér; því að betra er þér handarvana og höltum að ganga inn til lífsins, en að hafa tvær hendur og tvo fætur, og verða kastað í hinn eilífa eld. 9 Og ef auga þitt hneykslar þig, þá ríf það út og kasta því frá þér; betra er þér eineygðum að ganga inn til lífsins, en að hafa bæði augu og verða kastað í Gehenna eldsins. 10 Sjáið til, að þér eigi fyrirlítið neinn af þessum smælingjum, því að eg segi yður, að englar þeirra á himnum sjá ávalt auglit föður míns, sem er á himnum. 12 Hvað virðist yður? Ef einhver maður ætti hundrað sauði og einn af þeim viltist frá, mundi hann eigi skilja þá níutíu og níu eftir og fara upp í fjöllin og leita hins frávilta? 13 Og ef svo fer, að hann finnur hann, sannlega segi yður, að hann gleðst meir yfir honum en yfir þeim níutíu og níu, sem eigi höfðu vilzt burt. 14 Þannig er það eigi vilji föður yðar, sem er á himnum, að einn einasti þessara smælingja glatist.

15 En ef bróðir þinn syndgar á móti þér, þá far og vanda um við hann að þér og honum einum saman; láti hann sér segjast, þá hefir þú unnið bróður þinn. 16 En láti hann sér ekki segjast, þá tak að auki með þér einn eða tvo, til þess að hvert mál verði staðfest fyrir munn tveggja eða þriggja votta. 17 En hlýðnist hann þeim eigi, þá seg það söfnuðinum; en ef hann einnig óhlýðnast söfnuðinum, þá sé hann þér eins og heiðingi og tollheimtumaður. 18 Sannlega segi eg yður, hvað sem þér bindið á jörðu, skal vera bundið á himni; og hvað sem þér leysið á jörðu, skal vera leyst á himni. 19 Enn segi eg yður, að ef tveir af yður verða sammála á jörðunni, mun þeim veitast af föður mínum, sem er á himnum, sérhver sá hlutur, sem þeir kunna að biðja um; 20 því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er eg mitt á meðal þeirra.

21 Þá gekk Pétur til hans og mælti við hann: Herra, hversu oft á bróðir minn að syndga á móti mér og eg að fyrirgefa honum? Alt að sjö sinnum? 22 Jesús segir við hann: Ekki segi eg þér: alt að sjö sinnum, heldur alt að sjötíu sinnum sjö. 23 Fyrir því er ríki himnanna líkt konungi einum, sem gjöra vildi upp reikning við þjóna sína. 24 En er hann tók að gjöra upp, var færður til hans einn, er skuldaði tíu þúsund talentur. 25 En er hann hafði ekkert til að borga, skipaði húsbóndi hans að selja skyldi hann, konu hans og börn og allar eigur hans, og að skuldin skyldi verða greidd. 26 Þá féll þjónninn fram, laut honum og sagði: Herra, haf biðlund við mig, og eg mun gjalda þér alt. 27 En herra þjóns þessa kendi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina. 28 En er hann fór út, hitti þessi þjónn einn af samþjónum sínum, sem skuldaði honum hundrað denara; og hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: Borga það sem þú skuldar! 29 Samþjónn hans féll þá fram, bað hann og sagði: Haf biðlund við mig, og eg mun borga þér. 30 En hann vildi eigi, heldur fór og varpaði honum í fangelsi, unz hann borgaði skuldina. 31 En er nú samþjónar hans sáu hvað orðið var, urðu þeir mjög hryggir. Og þeir komu og sögðu húsbónda sínum alt, sem orðið var. 32 Þá lét húsbóndi hans kalla hann til sín og segir við hann: Illi þjónn, eg gaf þér upp alla hina skuldina, með því að þú baðst mig; 33 bar þá eigi einnig þér að vera miskunnsamur við samþjón þinn, eins og eg var miskunnsamur við þig. 34 Og húsbóndi hans varð reiður og seldi hann í hendur böðlunum, þangað til hann hefði borgað alla skuldina. 35 Þannig mun einnig faðir minn himneskur breyta við yður, ef þér eigi hver og einn fyrirgefið af hjarta bróður yðar.


19

Og það bar við, er Jesús hafði lokið þessum orðum, að hann fór burt frá Galíleu og kom til Júdeu-héraða, hinumegin við Jórdan. 2 Og mannfjöldi mikill fylgdi honum og hann læknaði þá þar.

3 Og Farísear komu til hans, freistuðu hans og sögðu: Hvort er leyfilegt að skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er? 4 En hann svaraði og sagði: Hafið þér eigi lesið, að skaparinn frá upphafi skóp þau karl og konu, 5 og sagði: Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og búa við eiginkonu sína, og þau tvö skulu verða eitt hold? — 6 Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur eitt hold. Það sem Guð því hefir tengt saman, má eigi maður sundur skilja. 7 Þeir segja við hann: Hvers vegna bauð þá Móse að gefa skilnaðarskrá og skilja við hana? 8 Hann segir við þá: Vegna harðúðar hjartna yðar leyfði Móse yður að skilja við konur yðar. En frá upphafi hefir þetta eigi verið þannig. 9 En eg segi yður, að hver sem skilur við konu sína nema fyrir hórdóms sakir, og gengur að eiga aðra, hann drýgir hór; og hver sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór. 10 Lærisveinarnir segja við hann: Ef svo er farið málefni mannsins gagnvart konunni, þá er ekki gott að kvænast. 11 En hann sagði við þá: Eigi fá allir höndlað þetta, heldur þeir sem það er gefið. 12 Því að til eru þeir geldingar, sem svo eru fæddir frá móðurkviði; og til eru þeir geldingar, sem geltir hafa verið af mönnum, og til eru þeir geldingar, sem hafa gelt sjálfa sig vegna ríkis himnanna. Sá höndli þetta, er höndlað getur.

13 Þá voru færð til hans börn, til þess að hann skyldi leggja hendur yfir þau og biðja; en lærisveinarnir ávítuðu þá. 14 En Jesús sagði: Leyfið börnunum, og bannið þeim eigi, að koma til mín, því að slíkra er ríki himnanna. 15 Og hann lagði hendur yfir þau og fór burt þaðan.

16 Og sjá, maður nokkur kom til hans og sagði: Meistari, hvað gott á eg að gjöra, til þess að eg eignist eilíft líf? 17 En hann sagði við hann: Hví spyr þú mig um hið góða? Einn er sá, sem góður er. En ef þú vilt inn ganga til lífsins, þá hald boðorðin. 18 Hann segir við hann: Hver? En Jesús segir: Þetta: Þú skalt eigi morð fremja, þú skalt eigi drýgja hór, þú skalt eigi stela, þú skalt eigi bera ljúgvitni; 19 heiðra föður þinn og móður, og: Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig. 20 Hinn ungi maður segir við hann: Alls þessa hefi eg gætt; hvers er mér enn vant? 21 Jesús sagði við hann: Ef þú vilt vera algjör, þá far, sel eigur þínar og gef fátækum, og þú munt eiga fjársjóð á himni; og kom síðan og fylg mér. 22 En er hinn ungi maður heyrði þetta, fór hann burt hryggur; því að hann átti miklar eignir.

23 En Jesús sagði við lærisveina sína: Sannlega segi eg yður: torveldlega mun ríkur maður ganga inn í ríki himnanna. 24 Og aftur segi eg yður: auðveldara er fyrir úlfalda að ganga gegnum nálarauga en fyrir ríkan mann að ganga inn í guðsríkið. 25 En er lærisveinarnir heyrðu þetta, urðu þeir mjög forviða og sögðu: Hver getur þá orðið hólpinn? 26 En Jesús leit til þeirra og sagði við þá: Fyrir mönnum er þetta ómögulegt, en fyrir Guði eru allir hlutir mögulegir. 27 Þá svaraði Pétur og sagði við hann: Sjá, vér höfum yfirgefið alt og fylgt þér; hvað munum vér þá öðlast? 28 En Jesús sagði við þá: Sannlega segi eg yður, að þér, sem hafið fylgt mér, munuð í endurfæðingunni, þá er mannsins sonur situr í hásæti dýrðar sinnar, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels; 29 og hver, sem yfirgefið hefir hús eða bræður eða systur eða föður eða móður eða börn eða akra, sakir nafns míns, mun fá hundraðfalt og erfa eilíft líf. 30 En margir þeir, er fyrstir eru, skulu verða síðastir, og síðastir fyrstir.


20

Því að ríki himnanna er líkt húsráðanda einum, er gekk út árla dags, til þess að leigja verkamenn í víngarð sinn. 2 En er hann hafði samið við verkamennina um denar á dag, sendi hann þá í víngarð sinn. 3 Og hann gekk út um þriðju stundu, og sá aðra standa á torginu iðjulausa 4 og sagði við þá: Farið þér einnig í víngarðinn, og mun eg gefa yður það, sem réttlátt er. Og þeir fóru. 5 Enn gekk hann út um séttu og níundu stundu, og gjörði á sömu leið. 6 En er hann gekk út um elleftu stundu, fann hann aðra standandi og segir við þá: Hví standið þér hér allan daginn iðjulausir? 7 Þeir segja við hann: Af því að enginn hefir leigt oss. Hann segir við þá: Farið þér einnig í víngarðinn. 8 En er kveld var komið, segir herra víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og gjald þeim launin, og byrja á hinum síðustu og enda á hinum fyrstu. 9 Og þeir komu, sem leigðir voru um elleftu stundu, og fengu sinn denarinn hver. 10 Og er hinir fyrstu komu, hugðu þeir, að þeir mundu fá meira, og þeir fengu einnig sinn denarinn hver. 11 En er þeir höfðu tekið við honum, mögluðu þeir gegn húsbóndanum og sögðu: 12 Þessir hinir síðustu hafa unnið eina stund, og þú hefir gjört þá jafna oss, er borið höfum þunga dagsins og hita. 13 En hann svaraði og sagði við einn þeirra: Vinur, ekki gjöri eg þér rangt til. Varstu eigi ásáttur við mig um einn denar? 14 Tak þú þitt og haf þig á braut. En eg vil gefa þessum síðasta eins og þér. 15 Leyfist mér eigi að gjöra það sem eg vil með eigum mínum? Eða er auga þitt ilt, af því að eg er góður? 16 Þannig munu hinir síðustu verða fyrstir og hinir fyrstu síðastir.

17 Og er Jesús fór upp til Jerúsalem, tók hann þá tólf lærisveina afsíðis og sagði við þá á leiðinni: 18 Sjá, vér förum upp til Jerúsalem, og mannsins sonur mun framseldur verða æðstu prestunum og fræðimönnunum, og þeir munu dæma hann til dauða 19 og framselja hann heiðingjunum, til þess að hæða hann, húðstrýkja og krossfesta; og á þriðja degi mun hann upp rísa.

20 Þá kom til hans móðir þeirra Zebedeussona ásamt sonum sínum, laut honum og beiddist nokkurs af honum. 21 En hann sagði við hana: Hvað vilt þú? Hún segir við hann: Seg þú, að þessir tveir synir mínir skuli sitja annar til hægri handar þér og hinn til vinstri handar þér í ríki þínu. 22 En Jesús svaraði og sagði: Þið vitið eigi hvers þið biðjið. Getið þið drukkið bikarinn, sem eg á að drekka? Þeir segja við hann: Það getum við. 23 Hann segir við þá: Þið skuluð drekka bikar minn; en að sitja mér til hægri handar og vinstri handar, þetta er eigi mitt að veita, heldur veitist það þeim, sem það er fyrirbúið af föður mínum. 24 Og er hinir tíu heyrðu þetta, gramdist þeim við þá tvo bræður. 25 En Jesús kallaði þá til sín og sagði: Þér vitið, að þeir sem ríkja yfir þjóðunum, drotna yfir þeim, og höfðingjarnir láta þá kenna á valdi sínu; 26 en eigi sé því svo farið yðar á meðal, en sérhver sá, er vill verða mikill yðar á meðal, hann skal vera þjónn yðar; 27 og sérhver sá, er vill yðar á meðal vera fremstur, hann skal vera þræll yðar; 28 eins og mannsins sonur er eigi kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til þess að þjóna og til þess að gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.

29 Og er þeir fóru út frá Jeríkó, fylgdi honum mikill mannfjöldi. 30 Og sjá, tveir menn blindir sátu við veginn, og er þeir heyrðu, að Jesús færi þar um, hrópuðu þeir og sögðu: Herra, miskunna þú okkur, Davíðs sonur! 31 En fólkið hastaði á þá, til þess að þeir skyldu þegja, en þeir hrópuðu því meir og sögðu: Herra, miskunna þú okkur, Davíðs sonur! 32 Og Jesús nam staðar, kallaði á þá og sagði: Hvað viljið þið, að eg gjöri fyrir ykkur? 33 Þeir segja við hann: Herra, það, að augu okkar opnist. 34 En Jesús kendi í brjósti um þá og snart augu þeirra, og jafnskjótt fengu þeir aftur sjónina og fylgdu honum eftir.


21

Og er þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage, til Olíufjallsins, þá sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: 2 Gangið þið inn í þorpið, sem gegnt ykkur er, og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni; leysið hana og færið mér. 3 Og segi einhver nokkuð við ykkur, þá segið: Herrann þarf þeirra við; en hann mun þá jafnskjótt senda þau. 4 En þetta varð, til þess að rættist það, sem talað er fyrir spámanninn, er segir: 5 Segið dótturinni Síon: Sjá, konungur þinn kemur til þín hógvær og ríðandi á asna, og á fola, afkvæmi áburðargrips. 6 En lærisveinarnir fóru og gjörðu eins og Jesús hafði boðið þeim, 7 komu með ösnuna og folann, og lögðu klæði sín á þau, og hann settist á þau ofan. 8 En allur þorri mannfjöldans breiddi yfirhafnir sínar á veginn, en aðrir hjuggu lim af trjánum og stráðu á veginn. 9 En mannfjöldinn, þeir sem fóru á undan honum og þeir sem fylgdu á eftir, hrópuðu og sögðu: Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá, er kemur í nafni drottins! Hósanna í hæstum hæðum! 10 Og er hann kom inn í Jerúsalem, komst öll borgin í uppnám og sagði: Hver er þessi? 11 En mannfjöldinn sagði: Það er spámaðurinn Jesús frá Nazaret í Galíleu.

12 Og Jesús gekk inn í helgidóm Guðs og rak út alla, er seldu og keyptu í helgidóminum, og hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna 13 og segir við þá: Ritað er: Hús mitt á að nefnast bænahús, en þér gjörið það að ræningjabæli. 14 Og blindir og haltir gengu til hans í helgidóminum, og hann læknaði þá. 15 En er æðstu prestarnir og fræðimennirnir sáu dásemdarverkin, sem hann gjörði, og börnin, sem hrópuðu í helgidóminum og sögðu: Hósanna syni Davíðs! — þá gramdist þeim og þeir sögðu við hann: 16 Heyrir þú hvað þessir segja? En Jesús segir við þá: Já, hafið þér aldrei lesið þetta: Af munni ungbarna og brjóstmylkinga hefir þú tilbúið þér lof? 17 Og hann yfirgaf þá og fór út úr borginni, út til Betaníu og gisti þar.

18 En er hann árla dags gekk aftur til borgarinnar, kendi hann hungurs. 19 Og er hann sá fíkjutré eitt við veginn, gekk hann að því og fann ekkert á því nema tóm lauf, og hann segir við það: Aldrei komi framar ávöxtur af þér að eilífu! Og þegar í stað visnaði fíkjutréð. 20 Og er lærisveinarnir sáu það, undruðust þeir og sögðu: Hversu gat fíkjutréð visnað svo fljótt? 21 En Jesús svaraði og sagði við þá: Sannlega segi eg yður, ef þér hafið trú, og efist eigi, munuð þér eigi aðeins geta gjört það, er fram kom við fíkjutréð, heldur jafnvel þótt þér segðuð við fjall þetta: Lyftist þú upp og steypist þú í hafið, — þá mundi það verða. 22 Og sérhvað það, er þér beiðist í bæninni og eruð trúaðir, munuð þér öðlast.

23 Og er hann var kominn inn í helgidóminn, komu æðstu prestarnir og öldungar lýðsins til hans, er hann var að kenna, og sögðu: Með hvaða valdi gjörir þú þetta? Og hver hefir gefið þér þetta vald? 24 En Jesús svaraði og sagði við þá: Eg vil líka leggja fyrir yður eina spurningu, og ef þér segið mér það, mun eg einnig segja yður, með hvaða valdi eg gjöri þetta. 25 Hvaðan var skírn Jóhannesar? Frá himnum eða frá mönnum? En þeir hugsuðu og sögðu með sjálfum sér: Ef vér segjum: Frá himnum, mun hann segja við oss: Hví trúðuð þér honum þá eigi? 26 En ef vér segjum: Frá mönnum, megum vér óttast lýðinn, því að allir halda Jóhannes fyrir spámann. 27 Og þeir svöruðu Jesú og sögðu: Vér vitum það ekki. Þá sagði hann og við þá: Þá segi eg yður eigi heldur, með hvaða valdi eg gjöri þetta. 28 En hvað virðist yður? Maður nokkur átti tvo sonu; og hann gekk til hins fyrra og sagði: Sonur, far þú, vinn í dag í víngarðinum. 29 En hann svaraði og sagði: Nei, eg vil ekki; en eftir á sá hann sig um hönd og fór. 30 Og hann gekk til hins síðara og mælti á sömu leið. En hann svaraði og sagði: Já, herra, en fór hvergi. 31 Hvor þeirra tveggja gjörði vilja föðurins? Þeir segja: Hinn fyrri. Jesús segir við þá: Sannlega segi ég yður, að tollheimtumenn og skækjur munu ganga á undan yður inn í guðsríkið, 32 því að Jóhannes kom til yðar á vegi réttlætisins, og þér trúðuð honum eigi, en tollheimtumennirnir og skækjurnar trúðu honum; en þótt þér sæjuð það, sáuð þér yður eigi að heldur um hönd eflir á, svo að þér tryðuð honum.

33 Heyrið aðra dæmisögu: Húsráðandi nokkur plantaði víngarð og hlóð garð um hann, og gróf fyrir vínþröng í honum og bygði turn, og seldi hann á leigu víngarðsmönnum og fór úr landi. 34 En er ávaxtatíminn nálgaðist, sendi hann þjóna sína til víngarðsmannanna, að taka við ávöxtunum af honum. 35 Og víngarðsmennirnir tóku þjóna hans, einn börðu þeir, og einn drápu þeir, og einn grýttu þeir. 36 Enn sendi hann aðra þjóna, fleiri en hina fyrri; og þeir fóru með þá á sömu leið. 37 En síðast sendi hann til þeirra son sinn og sagði: Þeir munu bera virðingu fyrir syni mínum. 38 En er víngarðsmennirnir sáu soninn, sögðu þeir sín á milli: Þetta er erfinginn, förum nú til og drepum hann og höldum arfi hans. 39 Og þeir tóku hann, köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann. 40 Þegar nú herra víngarðsins kemur, hvað mun hann gjöra við þessa víngarðsmenn. 41 Þeir segja við hann: Illmennum þeim mun hann herfilega fyrirfara og víngarðinn mun hann selja öðrum víngarðsmönnum á leigu, þeim er gjalda honum ávöxtuna í réttan tíma. 42 Jesús segir við þá: Hafið þér aldrei lesið í ritningunum: Steinninn, sem smiðirnir höfnuðu, sá hinn sami er orðinn að hyrningarsteini. Þetta stafaði frá drotni og er undursamlegt fyrir augum vorum? 43 Fyrir því segi ég yður, að guðsríkið mun frá yður tekið verða og gefið þeirri þjóð, sem ber ávöxtu þess. 44 Og hver sem fellur á stein þennan, mun sundurmolast, en þann sem hann fellur yfir, mun hann sundur merja. 45 Og er æðstu prestarnir og Farísearnir heyrðu líkingar hans, skildu þeir, að hann talaði um þá. 46 Og þeir vildu taka hann höndum, en óttuðust fólkið, með því að þeir héldu hann fyrir spámann.


22

Og Jesús tók til máls og talaði aftur við þá í dæmisögum á þessa leið: 2 Líkt er ríki himnanna konungi nokkurum, er gjörði brúðkaup sonar síns, 3 og sendi út þjóna sína, að kalla boðsgestina til brúðkaupsins. Og þeir vildu ekki koma. 4 Aftur sendi hann út aðra þjóna og mælti: Segið boðsgestunum: Sjá, máltíð mína hefi eg tilbúið; uxum mínum og alifé er slátrað, og alt er reiðubúið; komið til brúðkaupsins. 5 En þeir skeyttu því eigi og fóru burt, einn á búgarð sinn, annar til kaupskapar síns, 6 en hinir tóku þjóna hans, smánuðu þá og drápu. 7 En konungurinn varð reiður, sendi herlið sitt út og fyrirfór morðingjum þessum og brendi upp borg þeirra. 8 Síðan segir hann við þjóna sína: Brúðkaupið er reiðubúið, en boðsgestirnir voru ekki verðugir; 9 farið því út á vegamót og bjóðið öllum þeim, er þér finnið, til brúðkaupsins. 10 Og þjónar þessir gengu út á vegina og söfnuðu saman öllum, er þeir fundu, bæði vondum og góðum; og brúðkaupssalurinn varð fullur af boðsgestum. 11 En er konungurinn kom inn, til að sjá gestina, leit hann þar mann, er eigi var klæddur brúðkaupsklæðum. 12 Og hann segir við hann: Vinur, hvernig ert þú kominn hingað inn og hefir eigi brúðkaupsklæði? En hann þagði. 13 Konungurinn sagði þá við þjónana: Bindið fætur hans og hendur, og kastið honum út í myrkrið fyrir utan; þar mun vera grátur og gnístran tanna. 14 Því að margir eru kallaðir, en fáir útvaldir.

15 Þá gengu Farísearnir burt og báru saman ráð sín um, hvernig þeir gætu flækt hann í orði. 16 Og þeir senda til hans lærisveina sína, ásamt Heródesar-sinnum, er segja: Meistari, vér vitum, að þú ert sannorður og kennir Guðs veg í sannleika, og eigi hirðir þú um neinn, því að ekki fer þú að mannvirðingum. 17 Seg oss því, hvað virðist þér? Leyfist að gjalda keisaranum skatt, eða ekki? 18 En Jesús þekti ilsku þeirra og sagði: Hví freistið þér mín, hræsnarar? 19 Sýnið mér skattpeninginn. En þeir færðu honum denar. 20 Og hann segir við þá: Hvers mynd og yfirskrift er þetta? 21 Þeir segja við hann: Keisarans. Þá segir hann við þá: Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er, og Guði það sem Guðs er. 22 Og er þeir heyrðu þetta, undruðust þeir, og þeir yfirgáfu hann og gengu burt.

23 Á þeim degi gengu til hans Saddúkear, þeir er segja, að eigi sé til upprisa, og þeir spurðu hann og sögðu: 24 Meistari, Móse sagði: Deyi maður barnlaus, þá skal bróðir hans ganga að eiga konu hans og gefa bróður sínum afkvæmi. 25 Nú voru hjá oss sjö bræður. Og hinn fyrsti kvæntist og dó, og með því að hann var barnlaus, eftirlét hann bróður sínum konu sína. 26 Eins hinn annar og hinn þriðji og loks allir sjö. 27 Síðust allra dó konan. 28 Kona hvers þeirra sjö verður hún nú í upprisunni? Því að allir áttu þeir hana. 29 En Jesús svaraði og sagði við þá: Þér villist, þar eð þér þekkið eigi ritningarnar né mátt Guðs, 30 því að í upprisunni munu menn hvorki kvænast né giftast, heldur eru þeir eins og englar á himni. 31 En að því er snertir upprisu framliðinna, — hafið þér eigi lesið það, sem talað er af Guði til yðar, er hann segir: 32 Eg er Guð Abrahams, og Guð Ísaks, og Guð Jakobs? Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda. 33 Og er mannfjöldinn heyrði þetta, undruðust þeir kenningu hans.

34 En er Farísearnir heyrðu, að hann hefði gjört Saddúkeana orðlausa, komu þeir saman; 35 og einn af þeim, lögvitringur, freistaði hans og spurði: 36 Meistari, hvert er hið mikla boðorð í lögmálinu? 37 En hann sagði við hann: Þú skalt elska drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, og af allri sálu þinni, og af öllum huga þínum. 38 Þetta er hið mikla og fyrsta boðorð. 39 En hið annað er líkt, þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. 40 Á þessum tveimur boðorðum byggist alt lögmálið og spámennirnir.

41 En er Farísearnir voru saman komnir, spurði Jesús þá og sagði: 42 Hvað virðist yður um Krist? Hvers son er hann? Þeir segja við hann: Davíðs. 43 Hann segir við þá: Hvernig kallar þá Davíð af andanum hann drottin, er hann segir: 44 Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, þangað til eg legg óvini þína undir fætur þér? 45 Ef nú Davíð kallar hann drottin, hvernig er hann þá sonur hans? 46 Og enginn gat svarað honum orði, og eigi dirfðist heldur neinn upp frá þeim degi framar að spyrja hann nokkurs.


23

Þá talaði Jesús til mannfjöldans og lærisveina sinna og sagði: 2 Á stóli Móse sitja fræðimennirnir og Farísearnir; 3 alt, sem þeir segja yður, skuluð þér því gjöra og halda, en eftir verkum þeirra skuluð þér eigi breyta; því að þeir segja það, en gjöra það eigi. 4 Og þeir binda þungar byrðar og lítt bærar, og leggja mönnum þær á herðar, en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær með fingri sínum. 5 En öll sín verk gjöra þeir, til þess að sýnast fyrir mönnum, því að þeir gjöra minnisborða sína breiða og stækka skúfana. 6 Og þeir hafa mætur á helzta sætinu í veizlunum og efstu sætunum í samkundunum 7 og að láta heilsa sér á torgum, og að vera nefndir »rabbí« af mönnum. 8 En þér skuluð eigi láta kalla yður »rabbí«, því að einn er yðar meistari; en þér allir eruð bræður. 9 Og þér skuluð eigi kalla neinn föður yðar á jörðunni; því að einn er faðir yðar, hann sem er á himnum. 10 Eigi skuluð þér heldur láta yður leiðtoga kalla; því að einn er leiðtogi yðar, Kristur. 11 Sá sem er yðar mestur, skal vera þjónn yðar. 12 En hver sá er upp hefur sjálfan sig, mun niðurlægjast, og hver sá er niðurlægir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.

13 En vei yður, fræðimenn og Farísear, þér hræsnarar, að þér lokið ríki himnanna fyrir mönnunum; því að þér gangið þar eigi inn, og leyfið eigi heldur þeim, er vilja ganga inn, inn að komast.

15 Vei yður, fræðimenn og Farísear, þér hræsnarar, því að þér farið um láð og lög, til þess að ávinna einn trúskifting, og þegar hann er orðinn það, gjörið þér hann að hálfu meira Gehenna-barni en þér sjálfir eruð.

16 Vei yður, blindir leiðtogar, er segið: Hver sem sver við musterið, það er markleysa; en hver sem sver við musteris-gullið, hann er skuldbundinn. 17 Þér heimskir og blindir, því að hvort er meira: gullið eða musterið, sem helgar gullið? 18 Og: Hver sem sver við altarið, það er markleysa, en hver sem sver við fórnargjöfina, sem á því er, hann er skuldbundinn. 19 Þér blindir, því að hvort er meira: fórnargjöfin eða altarið, sem helgar fórnargjöfina? 20 Hver sem því sver við altarið, hann sver við það og við alt, sem á því er. 21 Og hver sem sver við musterið, hann sver við það og við hann, sem í því býr. 22 Og hver sem sver við himininn, hann sver við hásæti Guðs og við hann, sem í því situr.

23 Vei yður, fræðimenn og Farísear, þér hræsnarar, sem gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, og skeytið eigi um það, sem mikilvægara er í lögmálinu: réttvísina og miskunnsemina og trúmenskuna. En þetta bar að gjöra og hitt eigi ógjört að láta. 24 Þér blindir leiðtogar, sem síið mýfluguna, en svelgið úlfaldann!

25 Vei yður, fræðimenn og Farísear, þér hræsnarar, því að þér hreinsið bikarinn og diskinn að utan, en að innan eru þeir fullir ráns og ofneyzlu. 26 Þú blindi Farísei, hreinsaðu fyrst bikarinn og diskinn að innan, til þess að hann verði og hreinn að utan.

27 Vei yður, fræðimenn og Farísear, þér hræsnarar, því að þér líkist kölkuðum gröfum, sem að utan líta fagurlega út, en eru að innan fullar af dauðra manna beinum og hvers konar óhreinindum. 28 Þannig sýnist þér og hið ytra réttlátir fyrir mönnum, en hið innra eruð þér fullir hræsni og rangsleitni.

29 Vei yður, fræðimenn og Farísear, þér hræsnarar, því að þér byggið upp legstaði spámannanna og skreytið leiði hinna réttlátu og segið: 30 Ef vér hefðum lifað á dögum feðra vorra, hefðum vér eigi verið samlagsmenn þeirra um blóð spámannanna. 31 Þannig berið þér þá sjálfum yður vitni, að þér séuð synir þeirra, er drápu spámennina. 32 Fyllið þá og mæli feðra yðar. 33 Þér höggormar, þér nöðru-afkvæmi, hvernig ættuð þér að geta umflúið dóm Gehenna? 34 Þess vegna sjá, eg sendi til yðar spámenn og spekinga og fræðimenn; nokkura þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, og nokkura þeirra munuð þér húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja frá einni borg til annarrar; 35 til þess að yfir yður komi alt réttlátt blóð, sem úthelt hefir verið á jörðunni, frá blóði Abels hins réttláta alt til blóðs Sakaría Barakíasonar, sem þér drápuð á milli musterisins og altarisins. 36 Sannlega segi eg yður: alt mun þetta koma yfir þessa kynslóð.

37 Jerúsalem, Jerúsalem, þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín, hversu oft hefi eg viljað saman safna börnum þínum, eins og þegar hæna safnar ungum sínum undir vængi sér; og þér vilduð það ekki. 38 Sjá, hús yðar skal yður í eyði eftir skilið verða. 39 Því að eg segi yður: þér munuð alls eigi sjá mig héðan af, þangað til þér segið: Blessaður sé sá, er kemur í nafni drottins.


24

Og Jesús gekk út úr helgidóminum og fór burt; og lærisveinar hans gengu til hans, til þess að sýna honum byggingar helgidómsins. 2 En hann tók til máls og sagði við þá: Sjáið þér ekki alt þetta? Sannlega segi eg yður, eigi mun hér verða skilinn eftir steinn yfir steini, er ekki mun verða rifinn niður.

3 En er hann sat á Olíufjallinu, gengu lærisveinarnir til hans og sögðu einslega: Seg þú oss, hve nær mun þetta verða, og hvert er tákn tilkomu þinnar og enda veraldar? 4 Og Jesús svaraði og sagði við þá: Sjáið til, að enginn leiði yður í villu; 5 því að margir munu koma í mínu nafni og segja: Eg er Kristur, og marga munu þeir leiða í villu. 6 En þér munuð heyra hernað og hernaðartíðindi. Gefið gætur, að þér skelfist eigi; því að það hlýtur að koma fram, en eigi er enn kominn endirinn. 7 Því að þjóð mun rísa upp gegn þjóð og konungsríki gegn konungsríki. Bæði mun verða hungursneyð og landskjálftar á ýmsum stöðum. 8 En alt þetta er upphaf hörmunganna. 9 Þá munu menn framselja yður til þrengingar og menn munu lífláta yður, og þér munuð verða hataðir af öllum þjóðum vegna nafns míns. 10 Og þá munu margir hneykslast og framselja hverjir aðra og hata hverjir aðra. 11 Og margir falsspámenn munu rísa upp og leiða marga í villu; 12 og vegna þess að ranglætið magnast, mun kærleikur alls þorra manna kólna, 13 en sá, sem stöðugur stendur alt til enda, hann mun hólpinn verða. 14 Og þetta fagnaðarerindi ríkisins mun prédikað verða um alla heimsbygðina, til vitnisburðar öllum þjóðum; og þá mun endirinn koma.

15 Þegar þér því sjáið viðurstygð eyðingarinnar, sem talað er um fyrir Daníel spámann, standandi á helgum stað, — lesarinn athugi það — 16 þá flýi þeir, sem eru í Júdeu, upp á fjöllin. 17 Sá, sem er uppi á þakinu, fari ekki ofan, til þess að sækja það sem er í húsi hans; 18 og sá, sem er á akrinum, snúi eigi aftur, til þess að taka yfirhöfn sína. 19 En vei þeim sem þungaðar eru, og þeim, sem börn hafa á brjósti, á þeim dögum; 20 en biðjið að flótti yðar verði ekki um vetur né á hvíldardegi, 21 því að þá mun verða svo mikil þrenging, að engin hefir þvílík verið frá upphafi veraldar alt til þessa, né heldur mun verða. 22 Og ef dagar þessir yrðu ekki styttir, kæmist ekkert hold af; en sakir hinna útvöldu munu þessir dagar verða styttir. 23 Ef einhver þá segir við yður: Sjá, hér er Kristur, eða hér, þá trúið eigi. 24 Því að upp munu rísa falskristar og falsspámenn og þeir munu gjöra stór teikn og undur, til þess að leiða í villu, ef verða mætti, jafnvel útvalda. 25 Sjá, eg hefi sagt yður það fyrir. 26 Ef þeir því segja við yður: Sjá, hann er í óbygðinni, — þá farið eigi út þangað; sjá, hann er í herbergjunum, — þá trúið eigi. 27 Því að eins og eldingin gengur út frá austri og sést alt til vesturs, þannig mun verða tilkoma mannsins sonar. 28 Hvar sem hræið er, þar munu ernirnir safnast.

29 En þegar eftir þrengingu þessara daga mun sólin sortna og tunglið eigi gefa skin sitt, og stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna munu bifast. 30 Og þá mun tákn mannsins sonar sjást á himninum; og þá munu allar kynkvíslir jarðarinnar kveina, og þær munu sjá mannsins son komandi á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð. 31 Og hann mun senda út engla sína með hljómsterkum lúðri, og þeir munu safna saman hans útvöldum frá áttunum fjórum, himinsendanna á milli.

32 En nemið líkinguna af fíkjutrénu: Þegar greinin á því er orðin mjúk og fer að skjóta út laufum, þá vitið þér að sumarið er í nánd. 33 Þannig skuluð þér og vita, að þegar þér sjáið alt þetta, þá er hann í nánd, fyrir dyrum. 34 Sannlega segi eg yður, þessi kynslóð mun eigi líða undir lok, unz þetta alt kemur fram. 35 Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu alls eigi undir lok líða. 36 En um þennan dag og stund veit enginn, ekki einu sinni englarnir á himnum, né sonurinn, heldur aðeins faðirinn einn. 37 En eins og á dögum Nóa, þannig mun verða tilkoma mannsins sonar; 38 því að eins og menn á þeim dögum, dögunum á undan flóðinu, átu og drukku, kvæntust og giftu, alt til þess dags, er Nói gekk inn í örkina, 39 og vissu eigi af fyr en flóðið kom og tók þá alla, — þannig mun verða tilkoma mannsins sonar. 40 Þá munu tveir vera á akri; annar er tekinn og hinn skilinn eftir. 41 Tvær munu mala í kvörn; önnur er tekin og hin skilin eftir. 42 Vakið því, þar eð þér vitið eigi hvaða dag húsbóndi yðar kemur. 43 En það vitið þér, að ef húsráðandinn hefði vitað, á hvaða næturvöku þjófurinn kæmi, þá hefði hann vakað og eigi látið brjótast inn í hús sitt. 44 Fyrir því skuluð einnig þér vera viðbúnir, því að mannsins sonur kemur á þeirri stundu, sem þér eigi ætlið. 45 Hver er þá hinn trúi og hygni þjónn, sem húsbóndinn hefir sett yfir hjú sín, til þess að gefa þeim fæðuna á réttum tíma? 46 Sæll er sá þjónn, sem húsbóndi hans finnur breyta þannig, er hann kemur. 47 Sannlega segi eg yður, að hann mun setja hann yfir allar eigur sínar. 48 En ef hinn illi þjónn segir í hjarta sínu: Húsbónda mínum dvelst, — 49 og hann tekur að berja á samþjónum sínum, en etur og drekkur með svöllurum, 50 þá mun húsbóndi þessa þjóns koma á þeim degi, sem hann væntir hans ekki, og á stundu, sem hann eigi veit af, 51 og höggva hann sundur og láta hann fá hlutskifti með hræsnurum; þar mun vera grátur og gnístran tanna.


25

Þá má líkja ríki himnanna við tíu meyjar, er tóku lampa sína og fóru út til móts við brúðgumann. 2 En fimm þeirra voru fávísar og fimm hygnar; 3 því að hinar fávísu tóku lampa sína, en tóku ekki olíu með sér. 4 En hinar hygnu tóku ásamt lömpum sínum olíu í kerum sínum. 5 En er brúðgumanum dvaldist, syfjaði þær allar og þær sofnuðu. 6 En um miðnætti var kallað: Sjá, brúðguminn kemur, gangið út til móts við hann. 7 Þá vöknuðu þær meyjarnar allar og bjuggu lampa sína. 8 En hinar fávísu sögðu við hinar hygnu: Gefið oss af olíu yðar, því að það sloknar á lömpum vorum. 9 En hinar hygnu svöruðu og sögðu: Engan veginn; það verður ekki nóg bæði handa oss og yður; farið heldur til kaupmannanna og kaupið handa sjálfum yður. 10 En er þær voru farnar burt, til að kaupa, kom brúðguminn; og þær, sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrunum var lokað. 11 En síðar komu og hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. 12 En hann svaraði og sagði: Sannlega segi eg yður, eg þekki yður eigi. 13 Vakið því, þar eð þér vitið eigi daginn né stundina.

14 Því að hér er eins ástatt og fyrir manni nokkurum, er var að leggja á stað í utanför, og kallaði til sín þjóna sína og seldi þeim í hendur eigur sínar. 15 Og einum fékk hann fimm talentur, en öðrum tvær og hinum þriðja eina, hverjum fyrir sig eftir kröftum hans, og fór úr landi. 16 Þegar í stað fór sá, er fengið hafði fimm talenturnar, verz1aði með þær og græddi aðrar fimm talentur. 17 Sömuleiðis græddi og sá, er tvær fékk, aðrar tvær. 18 En sá, er eina hafði fengið, fór og gjörði gryfju í jörðina og faldi fé húsbónda síns. 19 En eftir langan tíma liðinn kemur húsbóndi þjóna þessara og gjörir reikning við þá. 20 Og sá, er tekið hafði við fimm talentum, kom til hans og færði honum aðrar fimm talentur og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, sjá, eg hefi grætt aðrar fimm talentur. 21 Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn; yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun eg setja þig. Gakk inn til fagnaðar herra þíns. 22 Þá kom og sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, sjá, aðrar tvær talentur hefi eg grætt. 23 Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn; yfir litlu varst þú trúr, yfir mikið mun eg setja þig. Gakk inn til fagnaðar herra þíns. 24 Þá kom og sá, er tekið hafði við einni talentu, og sagði: Herra, eg þekti þig, að þú ert maður harður, sem uppsker, þar sem þú sáðir ekki, og safnar saman, þar sem þú stráðir ekki; 25 og eg var hræddur, fór því burt og gróf talentu þína í jörðu; sjá, hér hefir þú þitt. 26 En húsbóndi hans svaraði og sagði við hann: Þú illi og lati þjónn, þú vissir, að eg uppsker, þar sem eg sáði ekki, og safna saman, þar sem eg stráði ekki; 27 þér bar því að selja fé mitt í hendur víxlurum; þá hefði eg fengið mitt aftur með vöxtum, er eg kom heim. 28 Takið því af honum talentuna og fáið þeim, er hefir tíu talenturnar; 29 því að sérhverjum, sem hefir, mun verða gefið, og mun hann hafa gnægð; en frá þeim, sem eigi hefir, mun jafnvel það, sem hann hefir, tekið verða. 30 Og kastið hinum ónýta þjóni út í myrkrið fyrir utan. Þar mun vera grátur og gnístran tanna.

31 En er mannsins sonur kemur í dýrð sinni og allir englarnir með honum, þá mun hann sitja í hásæti dýrðar sinnar, 32 og allar þjóðirnar munu safnast saman frammi fyrir honum, og hann mun skilja þá hverja frá öðrum, eins og hirðirinn skilur sauðina frá höfrunum, 33 og hann mun skipa sauðunum sér til hægri handar og höfrunum sér til vinstri handar. 34 Þá mun konungurinn segja við þá til hægri handar: Komið, þér hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var fyrirbúið frá grundvöllun veraldar; 35 því að hungraður var eg, og þér gáfuð mér að eta; þyrstur var eg, og þér gáfuð mér að drekka; gestur var eg, og þér hýstuð mig; 36 nakinn, og þér klædduð mig; sjúkur var eg, og þér vitjuðuð mín; í fangelsi var eg, og þér komuð til mín. 37 Þá munu hinir réttlátu svara honum og segja: Herra, hve nær sáum vér þig hungraðan, og fæddum þig, eða þyrstan, og gáfum þér að drekka? 38 Og hve nær sáum vér þig gest, og hýstum þig, eða nakinn, og klæddum þig? 39 Og hve nær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi, og komum til þín? 40 Og konungurinn mun svara og segja við þá: Sannlega segi eg yður, svo framarlega sem þér hafið gjört þetta einum þessara bræðra minna, sem minstir eru, þá hafið þér gjört mér það. 41 Þá mun hann og segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, þér bölvaðir, í eilífa eldinn, sem fyrirbúinn er djöflinum og englum hans. 42 Því að eg var hungraður, og þér gáfuð mér ekki að eta; eg var þyrstur, og þér gáfuð mér ekki að drekka; 43 eg var gestur, og þér hýstuð mig ekki; nakinn, og þér klædduð mig ekki; sjúkur og í fangelsi, og þér vitjuðuð mín ekki. 44 Þá munu og þeir svara og segja: Herra, hve nær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan eða gest eða nakinn eða sjúkan eða í fangelsi, og þjónuðum þér eigi? 45 Þá mun hann svara þeim og segja: Sannlega segi eg yður: svo framarlega sem þér hafið ekki gjört þetta einum þessara, sem minstir eru, þá hafið þér ekki heldur gjört mér það. 46 Og þessir skulu fara burt til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs.


26

Og það varð, er Jesús hafði lokið öllum þessum ræðum, að hann mælti við lærisveina sína: 2 Þér vitið, að eftir tvo daga koma páskarnir, og verður mannsins sonur þá framseldur, til þess að verða krossfestur. 3 Þá söfnuðust saman æðstu prestarnir og öldungar lýðsins í höll æðsta prestsins, er Kaífas hét, 4 og þeir tóku saman ráð sín, til þess að höndla Jesúm með svikum og ráða hann af dögum. 5 En þeir sögðu: Ekki á hátíðinni, til þess að eigi verði uppþot meðal lýðsins.

6 En er Jesús var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa, 7 kom til hans kona, er hafði alabasturs-buðk með dýrindis smyrslum, og helti yfir höfuð honum, er hann sat yfir borðum. 8 En er lærisveinarnir sáu það, urðu þeir gramir og sögðu: Til hvers er þessi eyðsla? 9 Því að þetta hefði mátt selja miklu verði og gefa fátækum. 10 En er Jesús varð þess var, sagði hann við þá: Hvað eruð þér að mæða konuna? Því að gott verk gjörði hún á mér; 11 því að ávalt hafið þér fátæka menn hjá yður, en mig hafið þér eigi ávalt. 12 Því að þegar hún helti smyrslum þessum yfir líkama minn, gjörði hún það til þess að búa mig til greftrunar. 13 Sannlega segi eg yður: hvar sem fagnaðarerindi þetta verður boðað í öllum heiminum, mun og þess, er hún gjörði, getið verða, til minningar um hana.

14 Þá fór einn af þeim tólf, Júdas Ískaríot að nafni, til æðstu prestanna 15 og sagði: Hvað viljið þér gefa mér til þess að eg framselji yður hann? En þeir greiddu honum þrjátíu silfurpeninga; 16 og upp frá því leitaði hann færis að svíkja hann.

17 En á fyrsta degi ósýrðu brauðanna komu lærisveinarnir til Jesú og sögðu: Hvar viltu að vér búum þér páskamáltíðina? 18 En hann sagði: Farið til borgarinnar til manns nokkurs, og segið við hann: Meistarinn segir: Minn tími er í nánd; hjá þér vil eg halda páska með lærisveinum mínum. 19 Og lærisveinarnir gjörðu eins og Jesús lagði fyrir þá og efndu til páskamáltíðarinnar. 20 En er kveld var komið, settist hann til borðs ásamt þeim tólf lærisveinum. 21 Og er þeir mötuðust, sagði hann: Sannlega segi eg yður, að einn af yður mun svíkja mig. 22 Og þeir urðu mjög hryggir og tóku að segja við hann hver um sig: Er það eg, herra? 23 En hann svaraði og sagði: Sá sem dýfði ásamt mér hendinni í fatið, sá mun svíkja mig. 24 Mannsins sonur fer að sönnu héðan, eins og ritað hefir verið um hann. En vei þeim manni, sem því veldur, að mannsins sonur verður framseldur; betra væri þeim manni, að hann hefði aldrei fæðst. 25 En Júdas, er sveik hann, svaraði og sagði: Er það eg, rabbí? Hann segir við hann: Þú sagðir það. 26 En er þeir mötuðust, tók Jesús brauð, blessaði og braut það, og gaf lærisveinunum það og sagði: Takið, etið; þetta er líkami minn. 27 Og hann tók bikar, gjörði þakkir og gaf þeim og sagði: Drekkið af honum allir; 28 því að þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, sem úthelt er fyrir marga, til synda fyrirgefningar.29 En eg segi yður, að héðan í frá mun eg alls ekki drekka af þessum ávexti vínviðarins, til þess dags, er eg drekk hann ásamt yður nýjan í ríki föður míns.

30 Og er þeir höfðu sungið lofsönginn, fóru þeir út til Olíufjallsins.

31 Þá segir Jesús við þá: Allir munuð þér hneykslast á mér á þessari nóttu; því að ritað er: Eg mun slá hirðinn, og sauðir hjarðarinnar munu tvístrast. 32 En eftir að eg er vakinn frá dauðum, mun eg fara á undan yður til Galíleu. 33 En Pétur svaraði og sagði við hann: Þótt allir hneykslist á þér, skal eg þó aldrei hneykslast. 34 Jesús sagði við hann: Sannlega segi eg þér, á þessari nóttu, áður en haninn galar, muntu þrisvar afneita mér. 35 Pétur segir við hann: Og þótt eg ætti að deyja með þér, mun eg alls eigi afneita þér. Á líkan hátt mæltu og allir lærisveinarnir.

36 Þá kemur Jesús með þeim í garð, er heitir Getsemane, og hann segir við lærisveina sína: Setjist hér, meðan eg fer burt og biðst þar fyrir. 37 Og hann tók með sér Pétur og þá tvo sonu Zebedeusar, og tók að hryggjast og titra. 38 Þá segir hann við þá: Sál mín er sárhrygg alt til dauða; bíðið hér og vakið með mér. 39 Og hann gekk lítið lengra áfram, féll fram á ásjónu sína og baðst fyrir og sagði: Faðir minn, ef mögulegt er, þá fari þessi bikar fram hjá mér; þó ekki sem eg vil, heldur sem þú vilt. 40 Og hann kemur til lærisveinanna og finnur þá sofandi, og hann segir við Pétur: Gátuð þér þá eigi vakað með mér eina stund? 41 Vakið og biðjið, til þess að þér fallið eigi í freistni; andinn er að sönnu reiðubúinn, en holdið er veikt. 42 Enn vék hann burt annað sinn, baðst fyrir og sagði: Faðir minn, ef þessi bikar getur eigi farið fram hjá, án þess að eg drekki hann, þá verði þinn vilji. 43 Og hann kom og fann þá aftur sofandi; því að augu þeirra voru yfirkomin af svefnþunga. 44 Og hann yfirgaf þá og fór enn á burt, og baðst fyrir í þriðja sinni og mælti aftur hinum sömu orðum. 45 Þá kemur hann til lærisveinanna og segir við þá: Sofið seinna og hvílist! Sjá, stundin nálgast, og mannsins sonur er framseldur í hendur syndara. 46 Standið upp, förum; sjá, sá er í nánd, er mig svíkur.

47 Og meðan hann enn var að tala, sjá, þá kom Júdas, einn af þeim tólf, og með honum mannfjöldi mikill, með sverðum og bareflum, frá æðstu prestunum og öldungum lýðsins. 48 En sá, er sveik hann, gaf þeim merki, segjandi: Sá er eg kyssi, hann er það. Handtakið hann. 49 Og hann gekk þegar að Jesú og sagði: Heill, rabbí! og kysti hann. 50 En Jesús sagði við hann: Vinur, hví ert þú kominn hér? Þá gengu þeir að, lögðu hendur á Jesúm og tóku hann.51 Og sjá, einn þeirra, er voru með Jesú, rétti út höndina og brá sverði, og hann hjó þjón æðsta prestsins og sneið af honum eyrað. 52 Þá segir Jesús við hann: Slíðra þú sverð þitt; því að allir þeir, sem grípa til sverðs, munu farast fyrir sverði. 53 Eða hyggur þú, að eg geti ekki beðið föður minn, svo að hann nú sendi mér til liðs meira en tólf sveitir engla? 54 Hvernig ættu þá ritningarnar að rætast, að það á þannig að verða? 55 Á þeirri stundu mælti Jesús við mannfjöldann: Lögðuð þér á stað, eins og á móti ræningja, með sverðum og bareflum, til þess að handtaka mig? Daglega sat eg í helgidóminum og kendi, og þér handtókuð mig ekki. 56 En alt þetta er komið fram, til þess að ritningar spámannanna rættust. Þá yfirgáfu allir lærisveinarnir hann og flýðu.

57 En þeir, sem höfðu handtekið Jesúm, færðu hann til Kaífasar, æðsta prestsins, þar sem fræðimennirnir og öldungarnir voru saman komnir. 58 En Pétur fylgdi honum álengdar alt að hallargarði æðsta prestsins, og hann gekk þar inn og settist hjá þjónunum, til þess að sjá endalokin. 59 En æðstu prestarnir og alt ráðið leitaði ljúgvitnis gegn Jesú, til þess að geta líflátið hann; 60 en þeir fundu eigi, þótt margir ljúgvottar kæmu fram. En loks komu fram tveir og sögðu: 61 Þessi maður hefir sagt: Eg get brotið niður musteri Guðs og reist það á þremur dögum. 62 Og æðsti presturinn stóð upp og sagði við hann: Svarar þú engu? Hvað vitna þessir gegn þér? 63 En Jesús þagði. Og æðsti presturinn sagði við hann: Eg særi þig við Guð hinn lifanda, að þú segir oss, hvort þú ert Kristur, sonur Guðs. 64 Jesús segir við hann: Þú sagðir það. En eg segi yður, að upp frá þessu skuluð þér sjá mannsins son sitja til hægri handar máttarins og koma á skýjum himinsins. 65 Þá reif æðsti presturinn klæði sín og segir: Hann hefir lastmælt! Hvað þurfum vér framar votta við? Sjá, nú hafið þér heyrt lastmælið. 66 Hvað lízt yður? En þeir svöruðu og sögðu: Hann er dauða sekur. 67 Þá hræktu þeir í andlit honum og slógu hann hnefum. Sumir börðu hann með stöfum, 68 segjandi: Spáðu fyrir oss, Kristur; hver var það sem sló þig?

69 En Pétur sat fyrir utan í hallargarðinum. Og þerna ein kom til hans og mælti: Þú varst einnig með Jesú frá Galíleu. 70 En hann neitaði því í áheyrn allra og sagði: Eg veit ekki hvað þú átt við. 71 En er hann var kominn út í fordyrið, sá önnur hann og sagði við þá, er þar voru: Þessi maður var líka með Jesú frá Nazaret. 72 Og aftur neitaði hann því með eiði: Ekki þekki eg manninn. 73 En litlu síðar komu þeir að, er þar stóðu, og sögðu við Pétur: Sannlega ert þú líka einn af þeim; því að og málfæri þitt segir til þín. 74 Þá tók hann að formæla sér og sverja: Ekki þekki eg manninn. Og jafnskjótt gól haninn. 75 Og Pétur mintist orðsins, er Jesús hafði sagt: Áður en haninn galar, muntu þrisvar afneita mér. Og hann gekk út fyrir og grét beisklega.


27

En er kominn var morgunn, héldu allir æðstu prestarnir og öldungar lýðsins ráðstefnu gegn Jesú, til þess að lífláta hann; 2 og þeir bundu hann, fóru burt með hann og framseldu hann Pílatusi landshöfðingja.

3 Þá er Júdas, sem sveik hann, sá að hann var dæmdur sekur, þá iðraðist hann og skilaði æðstu prestunum og öldungunum aftur hinum þrjátíu silfurpeningum, segjandi: 4 Eg hefi drýgt synd, er eg sveik saklaust blóð. En þeir sögðu: Hvað varðar oss um það? Þú verður sjálfur að sjá fyrir því. 5 Og hann fleygði silfurpeningunum inn í musterið og hafði sig á braut; og hann fór burt og hengdi sig. 6 En æðstu prestarnir tóku silfurpeningana og sögðu: Það er eigi leyfilegt að leggja þá í guðskistuna, þar sem þeir eru blóðs verð. 7 En er þeir höfðu haldið ráðstefnu, keyptu þeir fyrir þá leirkerasmiðs-akurinn til grafreits fyrir útlendinga. 8 Fyrir því er akur þessi kallaður Blóðakur alt til þessa dags. 9 Rættist þá það, er talað er fyrir Jeremía spámann, er segir: Og þeir tóku silfurpeningana þrjátíu, verð hins metna, sem þeir mátu af hálfu Ísraels sona; 10 og þeir gáfu þá fyrir akur leirkerasmiðsins, samkvæmt skipun drottins til mín.

11 En Jesús stóð frammi fyrir landshöfðingjanum. Og landshöfðinginn spurði hann og sagði: Ert þú konungur Gyðinganna? En Jesús sagði við hann: Þú segir það. 12 Og er nú sakir voru á hann bornar af æðstu prestunum og öldungunum, svaraði hann engu. 13 Þá segir Pílatus við hann: Heyrir þú ekki, hve mjög þeir vitna á móti þér? 14 Og hann svaraði honum eigi, ekki einu orði hans, svo að landshöfðingjann furðaði mjög. 15 En á hátíðinni var landshöfðinginn vanur að gefa lýðnum lausan einn bandingja, þann er þeir óskuðu. 16 En þeir höfðu þá alræmdan bandingja, Barrabas að nafni. 17 Er þeir nú voru saman komnir, sagði Pílatus við þá: Hvorn æskið þér að eg gefi yður lausan, Barrabas eða Jesúm, sem kallast Kristur? 18 Því að hann vissi, að þeir höfðu fyrir öfundar sakir framselt hann. 19 En er hann sat á dómarastólnum, sendi kona hans til hans og lét segja: Eig þú ekkert við þennan réttláta mann; því að margt hefi eg þolað í dag hans vegna í draumi. 20 En æðstu prestarnir og öldungarnir fengu mannfjöldann til þess að biðja um Barrabas og um að lífláta Jesúm. 21 En landshöfðinginn svaraði og sagði við þá: Hvorn þessara tveggja viljið þér að eg gefi yður lausan? En þeir sögðu: Barrabas. 22 Pílatus segir við þá: Hvað á eg þá að gjöra við Jesúm, sem Kristur er kallaður? Þeir segja allir: Hann skal krossfestur! 23 En hann sagði: Hvað ilt hefir hann þá gjört? En þeir æptu þess ákafar og sögðu; Hann skal krossfestur! 24 Þegar nú Pílatus sér, að hann kemur engu til leiðar, en að uppnámið varð aðeins meira, tók hann vatn, þvoði hendur sínar í augsýn mannfjöldans og mælti: Sýkn er eg af blóði þessa réttláta manns; þér verðið að sjá fyrir því. 25 Og alt fólkið svaraði: Komi blóð hans yfir oss og yfir börn vor! 26 Gaf hann þeim þá Barrabas lausan; en lét húðstrýkja Jesúm og framseldi hann til krossfestingar.

27 Þá tóku hermenn landshöfðingjans Jesúm til sín inn í höllina, og söfnuðu utan um hann allri hersveitinni. 28 Og þeir afklæddu hann og lögðu yfir hann skarlatslita kápu; 29 og þeir fléttuðu kórónu af þyrnum og settu á höfuð honum, og reyrstaf í hægri hönd honum; og þeir féllu á kné frammi fyrir honum, hæddu hann og sögðu: Heill vertu, konungur Gyðinganna! 30 Og þeir hræktu á hann, tóku reyrstafinn og slógu hann í höfuðið. 31 Og er þeir höfðu spottað hann, færðu þeir hann úr kápunni, og færðu hann í hans eigin klæði; og þeir fóru burt með hann til krossfestingar.

32 En er þeir gengu út, hittu þeir mann frá Kýrene, er Símon hét. Þennan mann neyddu þeir til að bera kross hans. 33 Og er þeir komu til staðar, er Golgota nefnist, það er að segja: hauskúpustaður, 34 gáfu þeir honum að drekka vín beiskjuborið; og er hann hafði bragðað það, vildi hann eigi drekka. 35 En er þeir höfðu krossfest hann, skiftu þeir klæðum hans á milli sín og köstuðu hlutum um; 36 og þeir settust og gættu hans þar. 37 Og uppi yfir höfði hans settu þeir sakargift hans svo skráða: ÞESSI ER JESÚS, KONUNGUR GYÐINGANNA. 38 Síðan voru krossfestir með honum ræningjar tveir, annar til hægri og hinn til vinstri handar. 39 En þeir, sem fram hjá gengu, lastmæltu honum, skóku höfuðin og sögðu: 40 Þú sem brýtur niður musterið og reisir það á þrem dögum, bjargaðu sjálfum þér! Ef þú ert sonur Guðs, þá stíg niður af krossinum! 41 Sömuleiðis hæddu og æðstu prestarnir hann ásamt fræðimönnunum og öldungunum og sögðu: 42 Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann eigi bjargað! Hann er konungur Ísraels! Stígi hann nú niður af krossinum, og vér skulum trúa á hann. 43 Hann treysti Guði. Hann frelsi hann nú, ef hann hefir mætur á honum; því að hann sagði: Eg er sonur Guðs. 44 Jafnvel ræningjarnir, sem með honum voru krossfestir, smánuðu hann á sama hátt.

45 En frá séttu stundu varð myrkur um alt landið alt til níundu stundar. 46 En um níundu stundu kallaði Jesús hárri röddu: Elí, elí, lama sabaktaní! það er: Guð minn! Guð minn! hví hefir þú yfirgefið mig? 47 Og er nokkurir þeirra, er þar stóðu, heyrðu það, sögðu þeir: Hann kallar á Elía. 48 Og jafnskjótt hljóp einn þeirra til og tók njarðarvött, fylli hann ediki og stakk á reyrstaf, og gaf honum að drekka. 49 En hinir sögðu: Bíðum við, sjáum til, hvort Elía kemur til þess að bjarga honum. 50 En Jesús kallaði aftur hárri röddu og gaf upp andann. 51 Og sjá, fortjald musterisins rifnaði sundur í tvent frá ofanverðu og alt niður í gegn, og jörðin skalf og björgin klofnuðu, 52 og grafirnar opnuðust, og margir líkamir sofnaðra helgra manna risu upp, 53 og þeir fóru út úr gröfunum eftir upprisu hans og komu inn í hina helgu borg og birtust þar mörgum. 54 En er hundraðshöfðinginn og þeir, er með honum gættu Jesú, sáu landskjálftann og það sem við bar, urðu þeir felmtsfullir mjög og sögðu: Sannarlega hefir þessi maður verið sonur Guðs. 55 En þar voru margar konur, er horfðu á álengdar; höfðu þær fylgt Jesú frá Galíleu og þjónað honum. 56 Meðal þeirra var María Magdalena og María, móðir þeirra Jakobs og Jóse, og móðir þeirra Zebedeussona.

57 En er kveld var komið, kom maður nokkur auðugur frá Arímaþeu, Jósef að nafni, sem og sjálfur var orðinn lærisveinn Jesú. 58 Hann fór til Pílatusar og bað um líkama Jesú. Pílatus skipaði þá að fá honum hann. 59 Og Jósef tók líkið, sveipaði það hreinu línklæði 60 og lagði það í hina nýju gröf sína, sem hann hafði höggið út í kletti; og hann velti stórum steini fyrir dyr grafarinnar og fór burt. 61 En María Magdalena var þar og María hin, og sátu þær andspænis gröfinni.

62 En daginn eftir, sem er næstur á eftir aðfangadeginum, komu æðstu prestarnir og Farísearnir saman hjá Pílatusi 63 og sögðu: Herra, vér minnumst þess nú, að svikari þessi sagði í lifanda lífi: Eftir þrjá daga rís eg upp. 64 Bjóð þú því, að grafarinnar verði gætt alt til hins þriðja dags, til þess að eigi komi lærisveinar hans og steli honum, og segi við lýðinn: Hann er upprisinn frá dauðum; og mun þá síðari villan verða verri en hin fyrri. 65 Pílatus sagði við þá: Hér hafið þér varðmennina, farið, haldið vörð, svo sem þér bezt hafið vit á. 66 En þeir fóru burt, innsigluðu steininn og gættu grafarinnar ásamt varðmönnunum.


28

En eftir hvíldardaginn, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, kom María Magdalena og María hin, til að líta eftir gröfinni. 2 Og sjá, mikill landskjálfti varð, því að engill drottins steig niður af himni og kom og velti steininum frá og settist á hann ofan. 3 En útlit hans var sem leiftur og klæði hans hvít sem snjór. 4 En varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir. 5 En engillinn tók til máls og sagði við konurnar: Óttist eigi! Því að eg veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta. 6 Hann er eigi hér, því að hann er upprisinn, eins og hann sagði. Komið, sjáið staðinn, þar sem drottinn lá. 7 Og farið nú með skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upprisinn frá dauðum; og sjá, hann fer á undan yður til Galíleu; þar munuð þér sjá hann. Sjá, eg hefi sagt yður það. 8 Og þær skunduðu burt frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja tíðindin lærisveinum hans. 9 Og sjá, Jesús kom á móti þeim og sagði: Heilar þér! En þær komu til og gripu um fætur hans og veittu honum lotningu. 10 Þá segir Jesús við þær: Óttist eigi! farið burt og kunngjörið bræðrum mínum, að þeir skuli fara til Galíleu, og þar munu þeir sjá mig.

11 En er þær voru farnar burt, sjá, þá komu nokkurir af varðmönnunum til borgarinnar og kunngjörðu æðstu prestunum alt, sem gjörst hafði. 12 Og er þeir voru saman komnir ásamt öldungunum, héldu þeir ráðstefnu, gáfu hermönnunum mikið fé 13 og mæltu: Segið þér: Lærisveinar hans komu á næturþeli og stálu honum, meðan vér sváfum. 14 Og berist þetta landshöfðingjanum til eyrna, skulum vér friða hann, og yður munum vér gjöra áhyggjulausa. 15 En þeir tóku féð og gjörðu sem þeim hafði kent verið. Og þessi orðrómur hefir verið borinn út meðal Gyðinga alt til þessa dags.

16En þeir ellefu lærisveinar fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði boðið þeim. 17 Og er þeir sáu hann, veittu þeir honum lotningu; en nokkurir efuðust. 18 Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: Alt vald er mér gefið á himni og jörðu. 19 Farið því og gjörið allar þjóðirnar að lærisveinum, með því að skíra þá til nafns föðurins og sonarins og hins heilaga anda, 20 og með því að kenna þeim að halda alt það, sem eg hefi boðið yður. Og sjá, eg er með yður alla daga alt til enda veraldarinnar.

* Þ.e. varmenni.

* Þ. e. klettur.