Fyrra almenna bréf Péturs

1

Pétur postuli Jesú Krists, til útlendinganna í dreifingu í Pontus, Galatíu, Kappadókíu, Asíu og Bitýníu, sem útvaldir eru 2 eftir fyrirvitund Guðs föður með helgun andans, til hlýðni og ádreifingar blóðs Jesú Krists. Náð og friður margfaldist með yður.

3 Lofaður sé Guð og faðir drottins vors Jesú Krists, sem eftir mikilli miskunn sinni hefir endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum 4 til óforgengilegrar og flekklausrar og ófölnandi arfleifðar, sem yður er geymd á himnum, 5 yður sem með krafti Guðs eruð varðveittir fyrir trú til frelsunar, sem búin er til að opinberast á síðasta tíma. 6 Af þessu gleðjist þér, þótt þér nú um skamma stund, ef svo verður að vera, séuð hrygðir í margs konar freistingum, 7 til þess að reynsla trúar yðar, langtum dýrmætari en gull, er eyðist, þótt það sé reynt með eldi, geti orðið til lofs og dýrðar og heiðurs í opinberun Jesú Krists, 8 sem þér elskið, þótt þér ekki hafið séð hann, sem þér trúið á, þótt þér ekki hafið hann nú fyrir augunum, og gleðjist óumræðilegum og dýrlegum fögnuði, 9 því að þér náið takmarkinu fyrir trú yðar, frelsun sálna yðar. 10 Þessari frelsun grensluðust spámennirnir eftir og rannsökuðu vandlega, þeir er spáðu um náð þá, er yður mundi hlotnast, 11 er þeir rannsökuðu, til hvers eða hvílíks tíma Krists andi, sem í þeim bjó, benti, þá er hann vitnaði fyrirfram um píslir Krists og dýrðina þar á eftir. 12 En þeim var það opinberað, að það var eigi fyrir þá sjálfa, heldur fyrir yður, að þeir þjónuðu að þessu, sem yður er nú kunngjört af þeim, sem boðuðu yður fagnaðarerindið fyrir heilagan anda, sem er sendur frá himni, og inn í þetta fýsir englana að skygnast.

13 Hafið því lendar hugskots yðar umgyrtar, verið algáðir og setjið algjörlega von yðar til þeirrar náðar, sem yður mun veitast við opinberun Jesú Krists; 14 sem hlýðin börn megið þér eigi laga breytni yðar eftir þeim girndum, er þér áður þjónuðuð í vanvizku yðar, 15 heldur verðið sjálfir einnig heilagir í allri hegðun, eins og sá er heilagur, sem yður hefir kallað, 16 því að ritað er: Verið heilagir, því eg er heilagur. 17 Og svo framarlega sem þér ákallið þann sem föður, er dæmir án manngreinarálits eftir verkum hvers eins, þá framgangið í ótta yðar útlegðartíma, 18 því að þér vitið að þér eigi eruð leystir með forgengilegum hlutum, silfri eða gulli, frá yðar hégómlegu hegðun, er þér höfðuð af feðrum yðar, 19 heldur með dýrmætu blóði eins og lýtalauss og óflekkaðs lambs, það er blóði Krists, 20 hans sem að sönnu var fyrirfram þektur fyrir grundvöllun heimsins, en var opinberaður við lok tímanna vegna yðar, 21 sem fyrir hann trúið á Guð, er vakti hann upp frá dauðum og gaf honum dýrð, svo að trú yðar skyldi jafnframt vera von til Guðs. 22 Er þér hafið hreinsað sálir yðar með hlýðni við sannleikann til hræsnislausrar bróðurelsku, þá elskið hver annan innilega af hjarta, 23 þér sem endurfæddir eruð, ekki af forgengilegu sæði, heldur óforgengilegu með Guðs lifanda orði, því er varir. 24 Því að: alt hold er sem gras og öll vegsemd þess sem blóm á grasi; grasið skrælnaði og blómið féll af, 25 en orð drottins varir að eilífu. Og þetta er orð fagnaðarerindisins, er yður hefir verið boðað.


2

Afleggið því alls konar vonzku og alla pretti, hræsni og öfund og öll illmæli, 2 og sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk, til þess að þér við hana getið vaxið til hjálpræðis, 3 ef þér hafið smakkað, hvað drottinn er góður; 4 og er þér komið til hans, hins lifanda steins, sem að sönnu er af mönnum útskúfaður, en hjá Guði útvalinn og dýrmætur, 5 þá verðið þér og sjálfir sem lifandi steinar uppbygðir í andlegt hús, til að vera heilagt prestafélag, til að frambera andlegar fórnir, Guði velþóknanlegar fyrir Jesúm Krist. 6 Fyrir því stendur í ritningunni: Sjá, eg set hornstein í Síon, valinn og dýrmætan, og sá sem trúir á hann, mun alls eigi verða sér til skammar. 7 Fyrir yður, sem trúið, er því vegsemdin, en steinninn, sem smiðirnir höfnuðu, sá hinn sami er orðinn að hyrningarsteini fyrir þá, sem ekki trúa, og ásteytingarsteinn og hneykslunarhella, 8 því að þeir hrasa, af því að þeir hlýðnuðust ekki orðinu, og til þess voru þeir og ákveðnir. 9 En þér eruð útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, lýður Guði til eignar, til þess að þér skulið víðfrægja fullkomleika hans, sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss; 10 þér sem áður voruð ekki-lýður, en eruð nú orðnir lýður Guðs, þér sem ekki nutuð miskunnar, en hafið nú miskunn hlotið.

11 Þér elskuðu, eg áminni yður sem gesti og útlenda að halda yður frá holdlegum girndum, sem heyja stríð gegn sálunni; 12 og hegðið yður vel meðal heiðinna þjóða, til þess að þeir, vegna góðverkanna, sem þeir sjá, í því, er þeir illmæla yður fyrir sem illgjörðamönnum, megi vegsama Guð á tíma vitjunarinnar.

13 Verið undirgefnir sérhverju mannlegu skipulagi vegna drottins, hvort heldur það er konunginum, svo sem hinum æðsta, 14 eða landshöfðingjunum, svo sem þeim, er af honum eru sendir illgjörðamönnum til refsingar, en til lofs þeim, sem vel breyta. 15 Því að þannig er vilji Guðs, að þér skulið, með því að breyta vel, niðurþagga vanþekkingu heimskra manna, 16 sem frjálsir menn, en ekki sem þeir, er hafa frelsið fyrir hjúp yfir vonzkuna, heldur sem þjónar Guðs. 17 Virðið alla menn, elskið bræðrafélagið, óttist Guð, heiðrið konunginn.

18 Þér þjónar, verið undirgefnir húsbændum yðar með mesta ótta, ekki einungis hinum góðu og sanngjörnu, heldur einnig hinum ósanngjörnu; 19 því að það er náð, ef einhver, samvizkunnar vegna gagnvart Guði, þolir móðganir og líður saklaus. 20 Því að hvaða frægð er það, að þér sýnið þolgæði, er þér verðið fyrir höggum, þegar þér syndgið? En ef þér sýnið þolgæði, er þér líðið ilt, þegar þér breytið vel, það aflar náðar hjá Guði; 21 því til þessa eruð þér kallaðir, því að Kristur leið einnig fyrir yður, og eftirlét yður fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor, 22 hann sem ekki drýgði synd og ekki voru svik fundin í munni hans, 23 hann sem eigi illmælti aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir, 24 hann sem sjálfur bar syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum, dánir frá syndunum, lifa réttlætinu, og fyrir hans benjar eruð þér læknaðir. 25 Því að þér voruð villuráfandi sem sauðir, en nú hafið þér snúið yður til hirðis og biskups sálna yðar.


3

Sömuleiðis skuluð þér, konur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem ef til vill ekki vilja hlýða orðinu, gætu orðið unnir án orðsins við hegðun kvenna sinna, 2 þegar þeir sjá yðar skírlífu hegðun í ótta. 3 Skart yðar sé ekki ytra skart, með því að flétta hárið og hengja á sig gullskraut eða klæðast viðhafnarbúningi, 4 heldur sé það hinn huldi maður hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrláts anda, sem dýrmætur er fyrir augliti Guðs. 5 Því að þannig skreyttu sig einnig forðum hinar helgu konur, er settu von sína til Guðs og voru eiginmönnum sínum undirgefnar, 6 eins og Sara hlýddi Abraham og kallaði hann herra, og börn hennar eruð þér orðnar, er þér hegðið yður vel og óttist enga skelfingu.

7 Sömuleiðis þér, menn, búið með skynsemi saman við konur yðar svo sem veikari ker, og veitið þeim virðingu, eins og þær og eru samarfar yðar að náð lífsins, til þess að bænir yðar hindrist ekki.

8 Að lokum, verið allir samhuga, hluttekningarsamir, bróðurelskir, miskunnsamir, auðmjúkir; 9 gjaldið ekki ilt fyrir ilt eða illmæli fyrir illmæli, heldur þvert á móti blessið, því að þér eruð til þess kallaðir, að þér skulið erfa blessunina; 10 því að sá sem vill elska lífið og sjá góða daga, haldi tungu sinn frá vondu og vörum sínum frá að mæla svik, 11 og hann sneiði sig hjá illu og gjöri gott, ástundi frið og keppi eftir honum; 12 því að augu drottins eru yfir hinum réttlátu og eyru hans hneigjast að bænum þeirra, en auglit drottins er gegn þeim, sem ilt gjöra.

13 Og hver er sá, er mun gjöra yður ilt, ef þér kappkostið það sem gott er? 14 En þótt þér skylduð líða ilt fyrir réttlætis sakir, þá eruð þér sælir; og óttist ekki ótta þeirra og skelfist eigi; 15 en helgið Krist sem drottin í hjörtum yðar; verið ætíð búnir til varnar fyrir hverjum manni, er krefst af yður reikningskapar fyrir þá von, sem í yður er, en þó með hógværð og ótta, 16 og hafið góða samvizku, til þess að þeir, sem lasta yðar góðu hegðun í Kristi, verði sér til skammar í því, sem þeir mæla gegn yður. 17 Því að það er betra, ef Guð vill svo vera láta, að þér líðið fyrir að breyta vel, heldur en fyrir að breyta illa. 18 Því að Kristur leið líka einu sinni fyrir syndir, réttlátur fyrir rangláta, til þess að hann mætti leiða oss til Guðs, deyddur að vísu að holdinu, en lifandi gjörður að andanum, 19 en í honum fór hann einnig burt og prédikaði fyrir öndunum í varðhaldi, 20 sem voru óhlýðnir fyrrum, þegar Guðs langlyndi beið á dögum Nóa, þegar verið var að smíða örkina, en í henni frelsuðust fáar, það er átta sálir við vatn, 21 en nú frelsar einnig yður skírnin, sem þar var fyrirmynduð, hún sem ekki er burttekt óhreininda á holdi, heldur bæn um góða samvizku gagnvart Guði, fyrir upprisu Jesú Krists, 22 hans sem fór til himins og er við Guðs hægri hönd, eftir að englar, völd og kraftar eru lagðir undir hann.


4

Fyrst Kristur þess vegna hefir liðið á holdi, þá vopnið yður einnig með sömu hugsun, — því að sá, sem hefir liðið á holdinu, er hættur við synd — 2 til þess að þér ekki framar lifið tímann, sem eftir er, í holdinu fyrir fýsnir manna, heldur fyrir vilja Guðs. 3 Því að það er nóg að hafa tímann, sem liðinn er, gjört vilja heiðingjanna og lifað í saurlifnaði, girndum, ofdrykkju, óhófi, samdrykkjum og svívirðilegri skurðgoðadýrkun, 4 og þess vegna furðar þá, að þér hlaupið ekki með þeim út í hið sama spillingardíki; og þeir lastmæla; 5 en þeir munu verða að gjöra reikning þeim, sem reiðubúinn er að dæma lifendur og dauða; 6 því að til þess var og dauðum boðað fagnaðarerindið, að þeir að vísu verði dæmdir eftir mönnum í holdi, en lifi eftir Guði í anda.

7 En endir allra hluta er í nánd; verið því gætnir og algáðir til bæna; 8 umfram alt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda; 9 verið gestrisnir hver við annan án möglunar. 10 Eins og hver hefir fengið náðargáfu, þá þjónið hver öðrum með henni, svo sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs; 11 tali einhver, þá sé það sem orð Guðs, hafi einhver þjónustu á hendi, þá þjóni hann eins og eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesúm Krist, og hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

12 Þér elskaðir, látið yður eigi undra eldraunina yðar á meðal, sem yfir yður er komin yður til reynslu, eins og yður hendi eitthvað kynlegt, 13 heldur gleðjið yður að sama skapi, sem þér eruð hluttakandi í píslum Krists, til þess að þér einnig megið gleðjast miklum fögnuði við opinberun dýrðar hans. 14 Ef þér eruð smánaðir fyrir nafn Krists, þá eruð þér sælir, því að andi dýrðarinnar og andi Guðs hvílir yfir yður. 15 Því að enginn yðar líði ilt sem manndrápari eða þjófur eða illvirki eða sem sá, er hlutast til um það, er öðrum kemur við; 16 en ef hann líður ilt svo sem kristinn maður, þá fyrirverði hann sig ekki, heldur vegsami Guð fyrir þetta nafn. 17 Því að nú er tíminn kominn til að dómurinn byrji á húsi Guðs, en ef hann byrjar á oss, hver munu þá verða afdrif þeirra, sem ekki hlýðnast fagnaðarboðskap Guðs? 18 Og ef hinn réttláti naumlega frelsast, hvar mun þá hinn óguðlegi og syndarinn lenda? 19 Fyrir því skulu og þeir, sem ilt líða eftir vilja Guðs, fela sálir sínar á hendur hinum trúa skapara, er þeir gjöra hið góða.


5

Öldungana yðar á meðal áminni eg þá, eg samöldungurinn og vottur písla Krists, sem einnig mun hlutdeild fá í þeirri dýrð, sem opinberuð mun verða. 2 Gætið þeirrar hjarðar Guðs, sem meðal yðar er; gegnið umsjónarstarfinu, ekki af nauðung, heldur af fúsu geði, að Guðs vilja; ekki heldur sakir svívirðilegs ávinnings, heldur fúslega; 3 eigi heldur þannig, að þér drotnið harðlega yfir hlutdeild yðar, heldur þannig, að þér verðið fyrirmynd hjarðarinnar, 4 og þá munuð þér, þegar hinn æðsti hirðir birtist, öðlast hina ófölnandi kórónu dýrðarinnar. 5 Sömuleiðis verið þér, hinir yngri, öldungunum undirgefnir, og skrýðist allir lítillætinu hver gegn öðrum, því að Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð. 6 Auðmýkið yður því undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður; 7 varpið allri áhyggju yðar upp á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður. 8 Verið algáðir, vakið; óvinur yðar djöfullinn gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt; 9 standið gegn honum, stöðugir í trúnni, vitandi að sömu þjáningar fullnast á bræðrum yðar, sem eru í heiminum. 10 En Guð allrar náðar, sem kallaði yður til sinnar eilífu dýrðar í Kristi, eftir að þér þjáðst hafið lítinn tíma, hann mun sjálfur fullkomna yður, styrkja og öfluga gjöra. 11 Hans er mátturinn um aldir alda. Amen.

12 Með Silvanusi, hinum trúa meðbróður, eftir því sem eg tel, hefi eg stuttlega ritað yður, og eg áminni og vitna hátíðlega, að þetta er hin sanna náð Guðs; standið stöðugir í henni. 13 Yður heilsar hin samútvalda í Babýlon og Markús sonur minn. 14 Heilsið hver öðrum með kærleikskossi.

Friður sé með yður öllum, sem eruð í Kristi.