Bréfið til Hebrea

1

Eftir að Guð forðum hafði oftsinnis talað til feðranna og með mörgu móti fyrir munn spámannanna, hefir hann í lok þessara daga til vor talað fyrir soninn, 2 sem hann setti erfingja allra hluta, fyrir hvern hann og hefir gjört heimana. 3 Hann sem er ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans, og ber alt með orði máttar síns; hann settist, er hann hafði hreinsun gjört syndanna, til hægri handar hátigninni á hæðum, 4 og er orðinn englunum þeim mun meiri, sem hann hefir að erfðum tekið ágætara nafn en þeir. 5 Því við hvern af englunum hefir hann nokkuru sinni sagt: Þú ert sonur minn, í dag hefi eg getið þig! Og í annan stað: Eg vil vera honum faðir, og hann mun vera mér sonur! 6 Og er hann aftur leiðir hinn frumgetna inn í heimsbygðina, segir hann: Og allir englar Guðs skulu tilbiðja hann. 7 Og um englana segir hann: Hann sem gjörir engla sína vinda og þjóna sína eldsloga. 8 En um soninn: Hásæti þitt, ó Guð, er um aldir alda, og sproti réttvísinnar er sproti ríkis þíns. 9 Þú hefir elskað réttlæti og hatað ranglæti; fyrir því hefir Guð, þinn Guð, smurt þig gleðinnar olíu fram yfir þína jafningja. 10 Og: Þú, drottinn, hefir í upphafi grundvallað jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna. 11 Þeir munu farast, en þú stendur, og allir munu þeir fyrnast sem fat. 12 Og þú munt þá saman vefja eins og blæju, eins og fat, og þeir munu umbreytast, en þú ert hinn sami, og þín ár munu ekki þrotna. 13 En við hvern af englunum hefir hann nokkuru sinni sagt: Set þig mér til hægri handar, unz eg gjöri óvini þína að fótaskör þinni? 14 Eru þeir ekki allir þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir, sem hjálpræðið eiga að erfa?


2

Þess vegna ber oss að gefa því enn betur gaum, er vér höfum heyrt, svo að eigi berumst vér afleiðis. 2 Því að hafi orðið af englum talað reynst stöðugt, og hver yfirtroðsla og óhlýðni hlotið réttlátt endurgjald, 3 hvernig fáum vér þá undan komist, ef vér vanrækjum slíkt hjálpræði, sem flutt var að upphafi af drotni, og var staðfest fyrir oss af þeim, er heyrðu, 4 er Guð jafnframt bar vitni með þeim, bæði með táknum og undrum og margs konar kraftaverkum og útbýtingu heilags anda að vild sinni?

5 Því ekki lagði hann undir engla hinn komandi heim, sem vér tölum um. 6 En einhverstaðar vitnaði maður segjandi: Hvað er maðurinn, að þú minnist hans? Eða mannsins sonur, að þú vitjir hans? 7 Litlu einu hefir þú gjört hann englunum lægri. Þú hefir krýnt hann dýrð og heiðri. Og þú hefir skipað hann yfir verk handa þinna. 8 Alla hluti hefir þú lagt undir fætur hans. Því að með því að leggja alla hluti undir hann, þá hefir hann ekkert það eftir skilið, er ekki sé undir hann lagt. En nú sjáum vér ekki enn þá, að allir hlutir séu undir hann lagðir. 9 En hann, sem litlu einu var gjörður englunum lægri, það er að segja Jesús, hann sjáum vér vegna þjáningar dauðans krýndan dýrð og heiðri, til þess að hann af Guðs náð skyldi dauðann smakka fyrir alla. 10 Því að það hæfði honum, vegna hvers allir hlutir eru, og fyrir hvern allir hlutir eru, er hann leiddi marga syni til dýrðar, að fullkomna höfund hjálpræðis þeirra með þjáningum. 11 Því að bæði sá sem helgar og þeir, sem helgaðir verða, eru allir af einum; fyrir þá sök telur hann sér eigi vanvirðu að kalla þá bræður, 12 segjandi: Eg mun kunnugt gjöra nafn þitt bræðrum mínum, eg mun syngja þér lof mitt í söfnuðinum. 13 Og í annan stað: Eg mun halda áfram að treysta á hann. Og enn fremur: Sjá, eg og börnin, er Guð gaf mér. 14 Þar sem nú börnin eiga hlut í holdi og blóði, þá hefir hann og sjálfur fengið hlutdeild í því mjög svo á sama hátt, til þess að hann fyrir dauðann gæti að engu gjört þann, sem hefir mátt dauðans, það er að segja djöfulinn, 15 og frelsað alla þá, sem af ótta fyrir dauðanum voru undir þrælkun seldir alla sína æfi. 16 Því að víst er um það, að ekki tekur hann að sér englana, en hann tekur að sér sæði Abrahams. 17 Því var það, að hann í öllum greinum átti að verða líkur bræðrunum, til þess að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði, til þess að friðþægja fyrir syndir lýðsins. 18 Því að með því að hann hefir liðið, þar sem hans sjálfs var freistað, er hann fær um að fulltingja þeim, er verða fyrir freistingu.


3

Bræður heilagir! Þér skuluð þess vegna, sem hluttakar himneskrar köllunar, gefa gætur að postula og æðsta presti játningar vorrar, Jesú, 2 sem trúr var þeim, er hann skipaði, eins og Móse var það líka í öllu hans húsi. 3 Því að þessi er álitinn verður þeim mun meiri dýrðar en Móse, sem sá, er húsið gjörði, hefir meiri dýrð en húsið sjálft; 4 því að sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem alt hefir gjört. 5 Og Móse var að sönnu trúr í öllu hans húsi, eins og þjónn, til vitnisburðar um það, sem átti að verða talað; 6 en Kristur eins og sonur yfir húsi hans, og hans hús erum vér, ef vér höldum fastri djörfunginni og hrósun vonarinnar alt til enda.

7 Því er það eins og heilagur andi segir: Í dag, ef þér heyrið raust hans, 8 þá forherðið ekki hjörtu yðar, eins og í beiskjunni á degi freistingarinnar á eyðimörkinni; 9 þar sem feður yðar freistuðu mín í fullri raun, og verkin mín fengu þeir að sjá í fjörutíu ár. 10 Fyrir því var eg gramur kynslóð þessari og sagði: Óaflátanlega villast þeir í hjörtum sínum. En þeir þektu ekki vegu mína. 11 Svo sem eg sór í bræði minni: Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar. 12 Gefið gætur, bræður, að eigi kunni að vera hjá einhverjum yðar vont vantrúar hjarta, að hann falli frá lifanda Guði. 13 Heldur áminnið sjálfa yður einn og sérhvern dag, á meðan enn heitir: í dag, til þess að enginn yðar forherðist af táli syndarinnar. 14 Því að vér erum orðnir hluttakar Krists, svo framarlega sem vér höldum föstu alt til enda trausti voru, eins og það var að upphafi. 15 Þar sem sagt er: Í dag, ef þér heyrið raust hans, þá forherðið ekki hjörtu yðar eins og í beiskjunni. 16 Því að hverjir voru þeir, sem heyrt höfðu, og ollu þó beiskju? Voru það ekki einmitt allir þeir, sem út höfðu farið af Egiptalandi fyrir tilstilli Móse? 17 Og hverjum var hann gramur í fjörutíu ár? Var það ekki þeim sem syndgað höfðu, hverra hræ hrundu niður á eyðimörkinni? 18 Og hverjum sór hann, að eigi skyldu þeir ganga inn til hvíldar hans, nema hinum vantrúuðu? Og vér sjáum, að sakir vantrúar fengu þeir eigi gengið inn.


4

Þar sem nú er eftir látið fyrirheit um það, að ganga inn til hvíldar hans, þá vörumst grandvarlega að svo kunni að fara, að nokkur yðar virðist dragast aftur úr; 2 því að fagnaðarerindið var oss boðað eigi síður en þeim; en orðið, sem þeir heyrðu, kom þeim eigi að haldi, vegna þess að það samblandaðist ekki trúnni hjá heyrendunum. 3 Því að vér, sem trú höfum tekið, göngum inn til hvíldarinnar, eins og hann hefir sagt: Svo sem eg sór í bræði minni: Eigi skulu þeir ganga inn til hvíldar minnar; enda þótt verkin væru fullgjör frá grundvöllun heims. 4 Því að einhverstaðar hefir hann svo að orði kveðið um hinn sjöunda dag: Og Guð hvíldist hinn sjöunda dag eftir öll verk sín. 5 Og enn á þessum stað: Eigi skulu þeir ganga inn til hvíldar minnar. 6 Þar sem nú enn stendur til boða, að nokkurir gangi inn til hennar, og þeir, er fagnaðarerindið var fyr boðað, gengu ekki inn sakir óhlýðni, 7 þá ákveður hann aftur dag einn, segjandi hjá Davíð, eftir svo langan tíma: Í dag, svo sem fyr hefir sagt verið; í dag, ef þér heyrið raust hans, þá forherðið ekki hjörtu yðar. 8 Því að hefði Jósúa leitt þá til hvíldar, þá mundi hann ekki síðar meir hafa talað um annan dag. 9 Enn stendur þá til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs. 10 Því að sá, sem gengið hefir inn til hvíldar hans, hefir og sjálfur tekið sér hvíld eftir verk sín, eins og Guð hvíldist eftir sín verk. 11 Kostum því kapps um að ganga inn til þessarar hvíldar, til þess að enginn falli á sama dæmi óhlýðninnar. 12 Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði, og smýgur inn í instu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, og er vel fallið til að dæma um hugsanir og hugrenningar hjartans. 13 Og engin skepna er honum hulin, en alt er bert og öndvert augum hans, sem hér er um að ræða.

14 Er vér þá höfum mikinn æðsta prest, sem farið hefir í gegnum himnana, Jesúm Guðs son, þá höldum fast við játninguna. 15 Því að ekki höfum vér þann æðsta prest, er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, án syndar. 16 Göngum því með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.


5

Því að svo er um hvern æðsta prest, að þar sem hann er úr flokki manna tekinn, þá er hann settur fyrir menn, til þjónustu fyrir Guði, til þess að bera fram bæði gáfur og fórnir fyrir syndir, 2 og getur hann verið mildur við fáfróða og villuráfandi, þar sem hann sjálfur er veikleika vafinn. 3 Og sökum þess á hann að bera fram syndafórn, eigi síður fyrir sjálfan sig en fyrir lýðinn. 4 Og ekki tekur nokkur sér sjálfum þennan heiður, heldur er hann kallaður af Guði, engu síður en Aron. 5 Svo var það og um Krist, að ekki tók hann sjálfum sér þá dýrð að gjörast æðsti prestur, heldur sá er við hann sagði: Sonur minn ert þú, í dag hefi eg getið þig. 6 Eins og hann líka segir á öðrum stað: Þú ert prestur að eilífu að hætti Melkísedeks. 7 Hann sem á dögum holds síns bar fram með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp fyrir þann, sem megnaði að frelsa hann frá dauða, og fékk þá bænheyrslu, að leysast úr angist sinni. 8 Og þótt hann sonur væri, lærði hann samt hlýðni af því, sem hann leið. 9 Og er hann var fullkomnaður, gjörðist hann öllum þeim, er honum hlýða, höfundur eilífs hjálpræðis, 10 af Guði nefndur æðsti prestur að hætti Melkísedeks.

11 Um þetta höfum vér langt mál að segja og torskilið, af því að þér hafið gjörst heyrnarsljóir. 12 Því þó að þér tímans vegna ættuð að vera kennarar, þá hafið þér þess enn þörf að einhver kenni yður byrjunar-stafróf boða Guðs; og svo er komið fyrir yður, að þér hafið þörf á mjólk, en ekki megnri fæðu. 13 En hver sem er við mjólkina, hann er óreyndur í réttlætis orði, því að hann er barn. 14 En megna fæðan er fyrir fullorðna, þar sem leiknin hefir tamið skilvitunum að greina gott frá illu.


6

Fyrir því skulum vér sleppa byrjunar-atriðunum í Kristi og sækja fram til fullkomnunarinnar, og förum ekki aftur að leggja grundvöll iðrunar frá dauðum verkum og trúar á Guð, — 2 kenningar-grundvöll um skírnir, handayfirlagningar, upprisu dauðra og eilífan dóm. 3 Og þetta munum vér gjöra, ef Guð lofar. 4 Því að það er ómögulegt, að þeir sem eitt sinn eru orðnir upplýstir og hafa smakkað hina himnesku gjöf, og hafa orðið hluttakar heilags anda, 5 og hafa smakkað Guðs góða orð og krafta komandi aldar, og hafa síðan fallið frá, — það er ómögulegt að endurnýja þá til iðrunar, 6 þar sem þeir með sjálfum sér krossfesta Guðs son af nýju og smána hann; 7 því að jörð sú, er drukkið hefir í sig regnið, sem á hana fellur hvað eftir annað, og ber gróður til gagns fyrir þá, sem hún og er yrkt fyrir, fær blessun frá Guði; 8 en beri hún þyrna og þistla, er hún ónýt, yfir henni vofir bölvun, og hennar bíður að lokum að verða brend.

9 En hvað yður snertir, þér elskaðir, þá erum vér sannfærðir um það sem vel fer og hjálpsamlegt er, þó að vér mælum svo, 10 því að ekki er Guð ranglátur, að hann gleymi verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans, er þér veittuð hinum heilögu þjónustu og veitið enn. 11 Og vér óskum að sérhver yðar sýni af sér sömu ástundan, til þess að vonin fullkomnist alt til enda; 12 til þess að þér verðið ekki sljóir, heldur eftirbreytendur þeirra, sem vegna trúar og stöðuglyndis erfa fyrirheitin.

13 Því var það, að þegar Guð gaf Abraham fyrirheitið, þá sór hann við sjálfan sig, þar sem hann hafði við engan æðri að sverja, og sagði: 14 Sannlega mun eg blessandi blessa þig og margfaldandi margfalda þig. 15 Og með þeim hætti öðlaðist hann fyrirheitið, er hann hafði beðið þess með stöðuglyndi. 16 Því að menn sverja eið við þann sem æðri er, og eiðurinn er fyrir þá endir alls andmælis til staðfestingar. 17 Með því nú að Guð vildi sýna erfingjum fyrirheitisins enn ríkulegar, hve ráð sitt væri óraskanlegt, þá lagði hann enda eið við, 18 til þess að tvent væri það til óraskanlegt — þar sem ómáttulegt var að Guð færi með lygi —, er léti oss, þá er undan hafa komist, fá örugt traust, til þess að höndla sæluvonina, sem oss er geymd, 19 sem vér höfum eins og akkeri sálarinnar, traust og örugt. Og það nær alla leið inn fyrir fortjaldið, 20 þangað sem Jesús gekk inn, hann sem er fyrirrennarinn, oss til heilla, orðinn æðsti prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks.


7

Því að Melkísedek þessi, Salem-konuugur, prestur Guðs hins hæsta, hann er sá er gekk á móti Abraham, er hann sneri heimleiðis frá vígi konunganna, og blessaði hann. 2 Og honum lét Abraham í té tíund af öllu. — Fyrst þýðir nafnið »réttlætis-konungur«, en heitir og enn fremur Salem-konungur, það er »friðar-konungur«, 3 föðurlaus, móðurlaus, ekki ættfærður, hafandi hvorki upphaf daga né enda lífs, en líkur gjör syni Guðs; — hann heldur áfram að vera prestur um aldur.

4 Virðið nú fyrir yður, hvílíkur maður það var, sem Abraham gaf valda tíund af herfanginu, hann sjálfur forfaðirinn. 5 Og víst er um það, að þeim Levísonum, er prestþjónustuna fá, er boðið að taka tíund af lýðnum, eftir lögmálinu, það er að segja af bræðrum sínum, enda þótt þeir útgengnir séu af lend Abrahams; 6 en sá, er eigi var ættfærður til þeirra, tók tíund af Abraham og blessaði þann, er fyrirheitin hafði. 7 En með öllu er það ómótmælanlegt, að það sem er minni háttar, er blessað af því sem meiri háttar er, 8 og hér taka dauðlegir menn tíund, en þar tók sá, er um var vitnað, að hann lifi. 9 Og svo má að orði kveða, að enda Leví, hann sem tíund tekur, hafi greitt tíund, þar sem Abraham gjörði það, 10 því að enn þá var hann í lend föður síns, þegar Melkísedek gekk á móti honum.

11 Hefði nú fullkomnun fengist fyrir levíska prestdóminn, — en hann var fóturinn undir löggjöfinni, sem lýðurinn hafði tekið á móti, — hver var þá framar þörf þess, að hefjast skyldi annar prestur að hætti Melkísedeks, sá er eigi væri talinn að hætti Arons? 12 Því að hjá því verður ekki komist, að þegar prestdómurinn breytist, þá verður og breyting á lögmálinu; 13 því að maður sá, sem þetta er um mælt, var af annari ætt, og af þeirri ætt hefir enginn int þjónustu af hendi við altarið. 14 Því að alkunnugt er það, að drottinn vor er af Júda upp runninn, en Móse hefir ekkert um presta talað, að því er kemur til þeirrar ættkvíslar. 15 Og þetta er enn miklu bersýnilegra, ef hafinn er annar prestur í líking við Melkísedek, 16 sá er eigi varð það eftir lögmáli holdlegs boðorðs, heldur eftir krafti órjúfanlegs lífs. 17 Því að um hann er vitnað: Þú ert prestur að eilífu að hætti Melkísedeks. 18 Því að undangengið boðorð er að vísu gjört ógilt, af því að það var vanmáttugt og gagnslaust, — 19 því að lögmálið gjörði ekkert fullkomið; — en jafnframt er innleidd betri von, og fyrir hana nálægjumst vér Guð. 20 Og að svo miklu leyti sem það er ekki orðið án eiðs, — 21 því að hinir hafa prestar orðið án eiðs, en hann með eiði frá þeim, er við hann sagði: Drottinn sór, og ekki mun hann iðra þess: þú ert prestur að eilífu;22 að því skapi er Jesús einnig orðinn borgunarmaður betri sáttmála. 23 Og hinir eru margir, sem prestar urðu, af því að dauðinn meinaði þeim að vera áfram, 24 en hann hefir prestdóm þar sem ekki verða mannaskifti, af því að hann er að eilífu; 25 fyrir því getur hann og til fulls frelsað þá, sem fyrir hann ganga fram fyrir Guð, þar sem hann ávalt lifir, til að biðja fyrir þeim.

26 Oss hæfði einmitt slíkur æðsti prestur, heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum, og orðinn himnunum hærri; 27 sá er ekki þarf daglega, eins og æðstu prestarnir, fyrst að bera fram fórnir fyrir sínar eigin syndir, síðan fyrir syndir lýðsins; því að þetta gjörði hann eitt skifti fyrir öll, er hann fórnfærði sjálfum sér. 28 Því að lögmálið skipar menn æðstu presta, sem hafa veikleika, en orð eiðsins, þess er kom á eftir lögmálinu, skipar son, fullkominn gjörðan að eilífu.


8

En höfuðinntak þess, sem sagt hefir verið, er þetta: Vér höfum þann æðsta prest, er settist til hægri handar hástóls hátignarinnar á himnum, 2 helgiþjón helgidómsins og tjaldbúðarinnar, hinnar sönnu, sem drottinn reisti, eigi maður. 3 Því að sérhver æðsti prestur er skipaður til þess að bera fram bæði gáfur og fórnir; fyrir því er það nauðsynlegt, að þessi æðsti prestur hafi líka eitthvað fram að bera. 4 Væri hann nú á jörðu, mundi hann alls ekki vera prestur, þar sem þeir eru fyrir, sem lögmálinu samkvæmt frambera gáfurnar, 5 og eru það þeir, sem veita þjónustu eftir mynd og skugga hins himneska, eins og Móse fékk bendingu um frá Guði, er hann var að koma upp tjaldbúðinni: Því að gæt þess, segir hann, að þú gjörir alt eftir þeirri fyrirmynd, sem þér var sýnd á fjallinu. 6 En nú hefir hann fengið þeim mun ágætari helgiþjónustu, sem hann og er meðalgangari betri sáttmála, sem lögtrygður er betri fyrirheitum. 7 Því að hefði sá hinn fyrri sáttmáli verið óaðfinnanlegur, þá hefði ekki verið reynt að koma öðrum að. 8 Því að hann er að finna að, þegar hann segir við þá: Sjá, dagar koma, segir drottinn, og eg mun gjöra nýjan sáttmála við hús Ísraels og við hús Júda, 9 ekki eins og sáttmálann, er eg gjörði við feður þeirra á þeim degi, er eg tók í hönd þeirra, til að leiða þá út af Egiptalandi, því að þeir héldu ekki minn sáttmála, og eg hirti eigi um þá, segir drottinn. 10 Því að þetta er sáttmálinn, sem eg mun gjöra við hús Ísraels eftir þá daga, segir drottinn: Eg mun gefa lög mín í hugskot þeirra og rita þau á hjörtu þeirra, og eg mun vera Guð þeirra, og þeir munu vera lýður minn. 11 Og alls enginn mun þá kenna samborgara sínum og enginn bróður sínum, svo mælandi: Þektu drottin, því að allir munu þeir þekkja mig, jafnt smáir sem stórir. 12 Því að eg mun vera vægur við misgjörðir þeirra, og eg mun alls ekki framar minnast synda þeirra. 13 Þar sem hann nú kallar þetta nýjan sáttmála, þá hefir hann lýst hinn fyrri úreltan, en það sem er að úreldast og fyrnast, er að því komið að verða að engu.


9

Að vísu hafði nú fyrri sáttmálinn líka fyrirskipanir um þjónustuna og hafði jarðneskan helgidóm. 2 Því að tjaldbúð var gjörð, hin fremri, og í henni voru bæði ljósastikan og borðið og skoðunarbrauðin, og heitir hún »hið heilaga«. 3 En bak við annað fortjaldið var tjaldbúð, sem hét »hið allrahelgasta«. 4 Þar var reykelsisaltarið úr gulli og sáttmálsörkin, sem alt í kring var gulli búin; í henni var gullkerið með manna í, og hinn blómgaði stafur Arons og sáttmálsspjöldin. 5 En yfir henni voru kerúbar dýrðarinnar, yfirskyggjandi náðarstólinn; en um þetta hvað fyrir sig er nú ekki að ræða. 6 Er þetta var nú gjört með þeim hætti, þá ganga prestarnir stöðugt inn í fremri tjaldbúðina og inna af hendi þjónustu-athafnirnar; 7 en inn í hina innri gengur æðsti presturinn einn einu sinni á ári, ekki án blóðs, sem hann ber fram fyrir sjálfan sig og fyrir yfirsjónir lýðsins, 8 og sýnir heilagur andi með því, að vegurinn til hins heilaga er enn eigi kunnur orðinn, á meðan fremri tjaldbúðin enn stendur; 9 hún sem einmitt er líking upp á tímann, sem yfir stendur, og henni samkvæmt eru fram bornar bæði gáfur og fórnir, sem eigi eru máttugar til fulls að friða samvizkuna hjá þeim, sem þjónustuna innir af hendi, 10 en eru aðeins — ásamt mat og drykk og ýmiss konar þvottum — holds fyrirskipanir, sem mönnum eru á herðar lagðar alt til tíma viðreisnarinnar.

11 En er Kristur var kominn sem æðsti prestur hinna komandi gæða, þá gekk hann inn í gegnum hina stærri og fullkomnari tjaldbúð, sem ekki er með höndum gjörð, það er að segja, er ekki af þessari sköpun; 12 og ekki gekk hann heldur með blóð hafra og kálfa, heldur með sitt eigið blóð, inn í hið heilaga í eitt skifti fyrir öll, eftir að hafa aflað eilífrar lausnar. 13 Því að ef blóð hafra og nauta og askan af kvígu, stráð á menn, er óhreinir hafa gjörst, helgar til hreinleika á holdinu, 14 hve miklu fremur mun þá blóðið Krists hreinsa samvizku yðar frá dauðum verkum, til að þjóna Guði lifanda, þar sem Kristur fyrir eilífan anda bar fram sjálfan sig lýtalausan fyrir Guði? 15 Og þess vegna er hann meðalgangari nýs sáttmála, til þess að hinir kölluðu mættu öðlast fyrirheit hinnar eilífu arfleifðar, er dauði hafði átt sér stað til endurlausnar frá yfirtroðslunum undir fyrri sáttmálanum, 16 því að þar sem arfleiðsluskrá er, þar verður dauði þess, er hana gjörði, að eiga sér stað; 17 því að arfleiðsluskrá er óhagganleg, þegar um látna er að ræða, þar sem hún er í engu gildi meðan arfleiðandi lifir; 18 þess vegna var ekki heldur hinn fyrri sáttmáli vígður án blóðs. 19 Því að þegar Móse hafði kunngjört gjörvöllum lýðnum öll boðorðin, lögmálinu samkvæmt, þá tók hann blóð kálfanna og blóð hafranna, ásamt vatni og skarlatsrauðri ull og ísópi, og stökti bæði á sjálfa bókina og allan lýðinn og mælti: 20 Þetta er blóð sáttmálans, sem Guð ráðstafaði til yðar. 21 Og sömuleiðis stökti hann blóðinu á tjaldbúðina og öll áhöldin við helgiþjónustuna. 22 Og samkvæmt lögmálinu er það nálega alt, sem hreinsast með blóði, og eigi fæst fyrirgefning án úthellingar blóðs.

23 Það var því óhjákvæmilegt að þessar eftirmyndir þeirra hluta, sem á himnum eru, yrðu hreinsaðar með slíku, en fyrir sjálft hið himneska þurftu til að koma betri fórnir en þessar, 24 því að Kristur gekk ekki inn í helgidóm höndum gjörðan, eftirmynd hins sanna helgidóms, heldur inn í sjálfan himininn, til þess nú að birtast fyrir augliti Guðs oss til heilla; 25 og ekki heldur til þess að hann skyldi frambera sjálfan sig margsinnis, eins og æðsti presturinn gengur inn í hið heilaga á ári hverju með annarlegt blóð; 26 þar sem hann hefði þá oft orðið að líða frá grundvöllun veraldar, heldur hefir hann nú birzt í eitt skifti við endi aldanna, til að afmá synd með fórn sinni. 27 Og eins og það liggur fyrir mönnunum eitt sinn að deyja, en eftir það er dómurinn, 28 þannig mun og Kristur, eitt sinn fórnfærður til að bera syndir margra, í annað sinn birtast án syndar, til hjálpræðis þeim, er hans bíða.


10

Þar sem lögmálið nú hefir einungis skugga hinna komandi gæða, en ekki sjálft líki hlutanna, getur það aldrei með sömu fórnunum ár hvert, er þeir stöðugt bera fram, fullkomnað þá, er ganga fram fyrir Guð. 2 Því að hefði ekki annars verið hætt við að frambera þær, vegna þess að samvizkan hjá dýrkendunum var sér alls ekki framar meðvitandi synda, er þeir voru eitt sinn hreinir orðnir? 3 En einmitt með þeim fórnum er mint á syndirnar ár hvert. 4 Því að það er ómögulegt, að blóð nauta og hafra geti burt numið syndir. 5 Því er það, að þegar hann kemur í heiminn, þá segir hann: Fórn og gáfu hefir þú eigi viljað, en líkama hefir þú búið mér; 6 brennifórnir og syndafórnir geðjuðust þér ekki. 7 Þá sagði eg: Sjá, eg er kominn — í bókrollunni er ritað um mig — til að gjöra þinn vilja, Guð minn! 8 Er hann hér fyrir ofan segir: Fórnir og gáfur og brennifórnir og syndafórnir hefir þú eigi viljað, og eigi geðjaðist þér að þeim; — en það eru einmitt þær, sem fram eru bornar samkvæmt lögmálinu; — 9 þá hefir hann síðan sagt: Sjá, eg er kominn til að gjöra vilja þinn; hann tekur burt hið fyrra, til þess að staðfesta hið síðara. 10 Og samkvæmt þessum vilja erum vér helgaðir með fórnargáfu líkama Jesú Krists eitt skifti fyrir öll. 11 Og svo er því varið um hvern prest, að hann er við helgiþjónustu sína bundinn dag hvern, og ber fram margsinnis hinar sömu fórnir, þær sem þó aldrei geta afmáð syndir; 12 en um hann er það að segja, að þegar hann hafði framborið eina fórn fyrir syndirnar, settist hann um aldur við hægri hönd Guðs, 13 og bíður þess síðan að óvinir hans verði gjörðir að fótskör hans. 14 Því að með einni fórn hefir hann um aldur fullkomnað þá, er helgaðir verða. 15 Og einnig heilagur andi vitnar fyrir oss. Því að eftir að hann hefir sagt: 16 Þetta er sáttmálinn, er eg mun gjöra við þá eftir þá daga, segir drottinn: Lög mín vil eg gefa í hjörtu þeirra, og í hugskot þeirra vil eg þau rita. 17 Og eg mun alls ekki minnast framar synda þeirra né lögmálsbrota. 18 En þar sem er fyrirgefning þeirra, þar þarf ekki framar fórn fyrir synd.

19 Er vér nú, bræður, megum fyrir Jesú blóð með djörfung ganga inn í hið heilaga, 20 þangað sem hann vígði oss veginn, nýjan veg og lifandi, inn í gegnum fortjaldið, það er að segja hans eigin líkama, 21 og er vér höfum mikinn prest yfir húsi Guðs, 22 þá látum oss ganga fram fyrir Guð með einlægum hjörtum, í öruggu trúartrausti, er vér höfum hreinsað hjörtu vor af vondri samvizku, og laugað líkama vorn hreinu vatni. 23 Höldum fast við játningu vonar vorrar óbifanlega, því að trúr er sá, sem fyrirheitið hefir gefið; 24 og gefum gætur hver að öðrum, til þess að hvetja oss til kærleika og góðra verka. 25 Og yfirgefum ekki vorn eigin söfnuð, sem sumra er siður, heldur uppörvum hver annan, og það því fremur, sem þér sjáið að dagurinn færist nær.

26 Því að ef vér syndgum af ásettu ráði, eftir að vér höfum öðlast þekkingu sannleikans, þá er úr því enga fórn að fá fyrir syndirnar, 27 heldur er það rétt sem óttaleg bið eftir dómi, og grimmilegur eldur, sem eyða mun andstæðingunum. 28 Maður sá, er að engu hefir lögmál Móse, verður vægðarlaust bana að bíða, ef tveir eða þrír vottar bera. 29 Hve miklu þyngri hegningu ætlið þér þá ekki að sá muni vera talinn verðskulda, er hefir fótum troðið son Guðs og hefir álitið vanheilagt blóðið sáttmálans, er hann var helgaður í, og hefir smánað anda náðarinnar? 30 Því að vér þekkjum þann, er sagt hefir: Mín er hefndin, eg mun endurgjalda. Og í annan stað: Drottinn mun dæma lýð sinn. 31 Óttalegt er að falla í hendur lifanda Guðs.

32 En endurminnist hinna fyrri daganna, er þér voruð orðnir upplýstir og þolduð mikla raun þjáninga. 33 Og var það ýmist, að þér sjálfir, smánaðir og aðþrengdir, voruð hafðir að augnagamni, eða þá hitt, að þér tókuð þátt í kjörum þeirra, er slíku áttu að sæta. 34 Því var það og, að þér sampíndust bandingjunum, og tókuð því með gleði, er þér voruð rændir fjármunum yðar, með því að þér vissuð, að þér áttuð sjálfir betri eign og varanlega. 35 Varpið því eigi frá yður djörfung yðar, er mikla umbun hefir, 36 því að þolgæðis hafið þér þörf, til þess að þér úr býtum berið fyrirheitið, er þér hafið gjört Guðs vilja. 37 Því að innan harðla skamms tíma mun sá koma, sem koma á, og ekki dvelst honum. 38 En minn hinn réttláti mun lifa fyrir trúna; og skjóti hann sér undan, þá hefir sála mín eigi geðþekni á honum. 39 En vér erum ekki undanskotsmenn til glötunar, heldur menn trúarinnar til sáluhjálpar.


11

En trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá. 2 Því að fyrir hana fengu mennirnir fyr á tíðum góðan vitnisburð. 3 Fyrir trú skiljum vér heimana gjörða vera með Guðs orði, á þann hátt að hið sýnilega hefir ekki orðið til af því, er séð varð. 4 Fyrir trú bar Abel fram fyrir Guð betri fórn en Kain; fyrir hana fékk hann þann vitnisburð, að hann væri réttlátur, er Guð bar það vitni yfir gáfum hans, og fyrir hana talar hann enn, þótt dauður sé. 5 Fyrir trú var Enok í burt numinn, að eigi skyldi hann dauðann líta, og ekki var hann framar að finna, af því að Guð hafði numið hann í burt, því að áður en hann var í burt numinn, hafði hann fengið þann vitnisburð, að hann hefði verið Guði þóknanlegur. 6 En án trúar er ómögulegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til, og að hann lætur þeim umbunað, er hans leita. 7 Fyrir trú fékk Nói guðlega bendingu um það, sem enn þá var ekki auðið að sjá, og óttaðist Guð og smíðaði örk til undankomu fyrir heimilisfólk sitt, og fyrir trúna fordæmdi hann heiminn og varð erfingi trúar-réttlætisins. 8 Fyrir trú hlýðnaðist Abraham því, er hann var kallaður, að fara burt til staðar, sem hann átti að fá til arfleifðar, og hann fór burt, vitandi eigi hvert leiðin lá. 9 Fyrir trú varð hann útlendingur í landi fyrirheitisins, eins og hann ætti ekki landið, og hafðist við í tjöldum, ásamt Ísak og Jakob, er voru samerfingjar með honum að hinu sama fyrirheiti. 10 Því að hann vænti borgar á traustum grundvelli, þeirrar sem Guð er smiður að og byggingarmeistari. 11 Fyrir trú varð enda Sara fær um að koma upp kynstofni, og það enda þótt hún væri komin yfir þann aldur, þar sem hún taldi þann áreiðanlegan, sem fyrirheitið hafði gefið. 12 Fyrir því kom og út af einum manni, og það mjög svo ellihrumum, slík niðja mergð, sem stjörnur eru á himni og sandkorn við sjávarströnd, er ekki verður tölu á komið.

13 Allir þessir menn dóu í trú, án þess að hafa öðlast fyrirheitin, heldur sáu þeir þau álengdar og fögnuðu þeim, og játuðu að þeir væru gestir og útlendingar á jörðunni. 14 Því að þeir, sem slíkt mæla, láta það í ljósi, að þeir eru að leita eigin ættjarðar. 15 Og hefðu þeir nú átt við þá ættjörðina, sem þeir fóru frá, þá hefðu þeir haft tíma til að snúa þangað aftur. 16 En nú þrá þeir betri ættjörð, það er að segja himneska; fyrir því blygðast Guð sín ekki fyrir þá, að kallast Guð þeirra, því að borg bjó hann þeim.

17 Fyrir trú fórnfærði Abraham Ísak, er hann var reyndur, og sá fórnfærði einkasyni sínum, er fengið hafði fyrirheitin, 18 hann sem við hafði verið mælt: Þar sem Ísak er, þar skal sæði þitt kallast. 19 Því að hann hugði, að Guð væri og máttugur að vekja upp frá dauðum, og fyrir því má svo að orði kveða, að hann heimti hann aftur úr helju. 20 Fyrir trú, og það á hið ókomna, blessaði Ísak Jakob og Esaú. 21 Fyrir trú blessaði Jakob, er hann var að dauða kominn, báða sonu Jósefs, og laut fram á stafshúninn og baðst fyrir. 22 Fyrir trú mintist Jósef við æfilokin á brottför Ísraelssona, og gjörði ráðstöfun fyrir beinum sínum. 23 Fyrir trú var Móse, er hann var í heiminn borinn, í þrjá mánuði leynt af foreldrum sínum, af því að þau sáu að sveinninn var fríður, og þau létu eigi skelfast af skipun konungsins. 24 Fyrir trú hafnaði Móse, er hann var orðinn fulltíða maður, því að vera talinn dótturson Faraós, 25 og kaus fremur ilt að þola með lýð Guðs en njóta skammvinns synda-unaðar, 26 og áleit vanvirðu Krists meiri auð en fjársjóðu Egiptalands, því að hann leit á launin. 27 Fyrir trú yfirgaf hann Egiptaland og óttaðist ekki reiði konungsins og var öruggur, eins og hann sæi hinn ósýnilega. 28 Fyrir trú hélt hann páska og rauð blóðinu, til þess að eyðandi frumburðanna skyldi ekki snerta þá. 29 Fyrir trú gengu þeir gegnum Rauðahafið sem um þurt land, og er Egiptar freistuðu þess, þá druknuðu þeir. 30 Fyrir trú hrundu Jeríkómúrar, er þeir höfðu umkringdir verið í sjö daga. 31 Fyrir trú var það, að skækjan Rahab fórst ekki ásamt hinum óhlýðnu, þar sem hún hafði tekið vinsamlega á móti njósnarmönnunum. 32 Og hvað á eg að orðlengja framar um þetta? því að mig mundi skorta tíma, ef eg færi að segja frá Gídeon, Barak, Samson, Jefta og af Davíð og Samúel og spámönnunum, 33 sem fyrir trú unnu sigur á konungaríkjum, frömdu réttlæti, öðluðust fyrirheit, byrgðu munn ljóna, 34 slöktu eldsbál, umflýðu sverðseggjar, urðu styrkir, þótt áður væru þeir veikir, gjörðust öflgir í stríði, stöktu fylkingum óvina á flótta. 35 Konur heimtu aftur dauða, er þær höfðu mist, við það að þeir risu upp. Aðrir voru pyndaðir og þáðu ekki lausnina, til þess að þeir öðluðust betri upprisu. 36 Aðrir urðu að sæta háðyrðum og húðstrokum og þar á ofan fjötrum og fangelsi. 37 Þeir voru grýttir, þeir voru sagaðir í sundur, þeirra var freistað, þeir biðu bana fyrir sverði. Þeir ráfuðu í gærum og geitskinnum, alls vana, aðþrengdir og illa haldnir. — 38 Og ekki átti heimurinn slíka menn skilið. — Þeir reikuðu um óbygðir og fjöll og héldust við í hellum og jarðholum. 39 En þó að allir þessir menn fengju góðan vitnisburð fyrir trú sína, hlutu þeir þó eigi fyrirheitið; 40 þar sem Guð hafði oss fyrir séð það sem betra var, til þess að þeir því aðeins skyldu fullkomnir verða, að vér yrðum það ásamt þeim.


12

Látum oss því og, þar sem vér erum umkringdir af slíkum fjölda votta, létta á oss allri byrði og viðloðandi synd, og þreytum þolgóðir skeið það, sem oss er fyrir sett, 2 og beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar, til hans, sem í stað gleði þeirrar, er hann átti kost á, leið þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis, og hefir sezt til hægri handar hástóli Guðs. 3 Virðið því fyrir yður þann, sem þolað hefir slík andmæli gegn sér af syndurum, til þess að þér þreytist ekki, lémagna á sálum yðar. 4 Í baráttu yðar við syndina hafið þér ekki enn þá staðið í gegn, svo að blóð hafi runnið. 5 Og þér hafið gleymt áminningunni, sem ávarpar yður eins og syni: Son minn, lítilsvirð ekki hirtingu drottins, og lát ekki heldur hugfallast, er hann tyftar þig. 6 Því að drottinn agar þann, sem hann elskar, og hirtir harðlega hvern þann son, er hann að sér tekur. 7 Ef þér þolið aga, þá fer Guð með yður eins og syni; því að hver er sá sonur, sem faðirinn ekki agar? 8 En séuð þér án aga, sem allir hafa fyrir orðið, þá eruð þér þrælbornir, og eruð ekki synir. 9 Enn er það að segja, að vér höfðum líkamlega feður til að aga oss, og bárum virðingu fyrir þeim; skyldum vér þá ekki miklu fremur vera undirgefnir föður andanna, og lifa? 10 Því að þeir öguðu oss reyndar um fáa daga, eftir því sem þeim leizt, en oss til gagns agar hann oss, svo að vér getum fengið heilagleika hans. 11 Allur agi virðist að vísu í bili ekki vera gleðiefni, heldur sorgar, en eftir á gefur hann friðsælan ávöxt réttlætisins, þeim er við hann hafa tamist. 12 Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám, 13 og látið fætur yðar troða beinar brautir, til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði, en verði miklu fremur heilt.

14 Stundið frið við alla menn og helgun, því að án hennar fær enginn drottin litið. 15 Hafið gát á, að enginn sleppi af Guðs náð, að engin beiskju-rót renni upp, sem truflun valdi, og margir kunni af henni að saurgast; 16 að eigi sé neinn hórkarl eða vanheilagur, eins og Esaú, sem fyrir einn málsverð lét af hendi frumburðarrétt sinn. 17 Því að þér vitið, að það fór líka svo fyrir honum, að hann var rækur gjör, þegar hann síðar vildi öðlast blessunina, — því að eigi fékk hann færi á að iðrast — þó að hann sárbeiddist hennar með tárum.

18 Því að þér eruð ekki komnir til fjalls, sem á verður þreifað, og brennandi elds, og til sorta og myrkurs og ofviðris 19 og básúnuhljóms og til talandi raustar, þar sem þeir, er hana heyrðu, báðust undan því, að meira væri til sín talað; 20 því að þeir þoldu ekki það, sem fyrir var skipað: Þó að það sé ekki nema dýr, sem kemur við fjallið, skal það grýtt verða. 21 Og svo var það ógurlegt, sem fyrir augu bar, að Móse sagði: Eg er mjög svo hræddur og skelfdur;22 heldur eruð þér komnir til Síon-fjalls og borgar Guðs lifanda, hinnar himnesku Jerúsalem, og til tíþúsunda engla, 23 til hátíðarsamkomu og safnaðar frumgetinna, sem á himnum eru skráðir, og til dómarans, sem er Guð allra, og til anda réttlátra, sem algjörðir eru orðnir, 24 og til Jesú, meðalgangara nýs sáttmála, og til ádreifingar-blóðsins, sem betur talar en Abel. 25 Gætið þess að þér afbiðjið ekki þann, sem talar, því ef hinir hafa eigi undan komist, sem afbáðu þann, er gaf guðlega bendingu á jörðu, þá munum vér miklu síður undan komast, er gjörumst fráhverfir honum, er guðlega bendingu gefur frá himnum, 26 en raust hans lét jörðina bifast fyrrum. En nú hefir hann boðað og sagt: Enn einu sinni mun eg skjálfa láta ekki jörðina eina, heldur og himininn. 27 En þetta: enn einu sinni, birtir umskifti þeirra hluta, sem bifast, eins og við má búast, þar sem þeir eru skapaðir til þess að það standi stöðugt, sem eigi bifast. 28 Þar sem vér því höfum fengið óbifanlegt ríki, þá kunnum þakkir, að vér með því megum þjóna Guði velþóknanlega með guðhræðslu og ótta. 29 Því að vor Guð er eyðandi eldur.


13

Bróðurkærleikurinn haldist. 2 Gleymið ekki gestrisninni, því að vegna hennar hafa sumir sér óafvitandi hýst engla. 3 Minnist bandingjanna, sem væruð þér sambandingjar þeirra; minnist þeirra er ilt líða, þar sem þér sjálfir eruð einnig með líkama. 4 Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum, og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma. 5 Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það sem þér hafið, því að sjálfur hefir hann sagt: Eg mun alls ekki sleppa þér og eigi heldur yfirgefa þig; 6 svo að vér getum öruggir sagt: Drottinn er minn hjálpari; eigi mun eg óttast. Hvað geta mennirnir gjört mér?

7 Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað; virðið fyrir yður, hvaða afdrif æfi þeirra fékk, og líkið síðan eftir trú þeirra. 8 Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir. 9 Látið yður ekki afvega leiða af ýmislegum og annarlegum kenningum, því að það er gott að hjartað styrkist við náð, ekki við matveizlur, því að þeir sem gáfu sig að þeim, höfðu eigi happ af því. 10 Vér höfum altari, og hafa þeir, er tjaldbúðinni þjóna, ekki leyfi til að eta af því. 11 Því að brend eru fyrir utan herbúðirnar hræ þeirra dýra, sem æðsti presturinn ber blóðið úr inn í helgidóminn til syndafórnar. 12 Þess vegna leið og Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu. 13 Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans. 14 Því að vér höfum hér ekki borg er stendur, heldur leitum vér hinnar komandi. 15 Fyrir hann skulum vér því óaflátanlega frambera lofgjörðar fórn fyrir Guð, það er: ávöxt vara, er játa nafn hans. 16 En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar. 17 Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir, því að þeir vaka yfir sálum yðar, svo sem þeir er reikning eiga að lúka fyrir þær, til þess að þeir geti gjört það með gleði, en ekki andvarpandi, því að yður væri það til ógagns.

18 Biðjið fyrir oss, því að vér erum þess fullvissir, að vér höfum góða samvizku og viljum í öllum greinum breyta vel. 19 En eg áminni yður enn rækilegar um að gjöra þetta, til þess að þér fáið mig brátt aftur heimtan.

20 En Guð friðarins, er leiddi aftur fram frá dauðum hinn mikla hirði sauðanna, með blóði eilífs sáttmála, drottin vorn Jesúm, 21 hann fullkomni yður í öllu góðu, til að gjöra vilja hans, og komi því til leiðar í oss, sem þóknanlegt er í hans augum, fyrir Jesúm Krist. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.

22 En eg áminni yður, bræður, að þér þolið áminningar-orðið, því að fáort hefi eg yður ritað. 23 Vita skuluð þér, að bróðir vor Tímóteus hefir fengið lausn, og ásamt honum mun eg sjá yður, komi hann bráðum.

24 Heilsið öllum leiðtogum yðar og öllum heilögum. Mennirnir frá Ítalíu senda yður kveðju.

25 Náð sé með yður öllum. Amen.