Annað bréf Jóhannesar

1

Öldungurinn til hinnar útvöldu frúar og barna hennar, sem eg elska í sannleika, og ekki eg einn, heldur einnig allir, sem þekkja sannleikann, 2 sakir sannleikans, sem er stöðugur í oss og mun vera hjá oss til eilífðar; 3 náð, miskunn, friður frá Guði föður og frá Jesú Kristi, syni föðurins, mun vera með oss í sannleika og elsku.

4 Eg er orðinn næsta glaður, af því að eg fann nokkur af börnum þínum, er framganga í sannleika, samkvæmt því sem vér meðtókum boðorð um af föðurnum. 5 Og nú bið eg þig, frú, ekki svo sem eg skrifi þér nýtt boðorð, heldur það, er vér höfðum frá upphafi, að vér skulum elska hver annan. 6 Og þetta er kærleikurinn, að vér framgöngum eftir boðorðum hans. Þetta er boðorðið, eins og þér heyrðuð frá upphafi, til þess að þér skylduð framganga í því. 7 Því að margir afvegaleiðendur eru farnir út í heiminn, sem ekki viðurkenna að Jesús Kristur sé kominn í holdi. Slíkur maður er afvegaleiðandinn og andkristurinn. 8 Hafið gætur á sjálfum yður, til þess að þér missið ekki það, sem vér höfum áunnið, heldur megið meðtaka full laun. 9 Sérhver sem fer of langt, og er ekki stöðugur í kenningu Krists, hefir ekki Guð. Sá sem er stöðugur í kenningunni, hann hefir bæði föðurinn og soninn. 10 Ef einhver kemur til yðar, og kemur ekki með þessa kenningu, þá takið hann ekki á heimili yðar, og bjóðið hann ekki velkominn; 11 því að sá, sem býður hann velkominn, verður hluttakandi í hans vondu verkum.

12 Þótt eg hafi margt að rita yður, vildi eg ekki gjöra það með pappír og bleki; en eg vona að koma til yðar og tala munnlega við yður, til þess að gleði yðar verði fullkomin. 13 Þér heilsa börn systur þinnar, hinnar útvöldu.