Fyrsta bréf Jóhannesar, hið almenna

1

Það sem var frá upphafi, það sem vér höfum heyrt, það sem vér höfum séð með augum vorum, það sem vér horfðum á og hendur vorar þreifuðu á, um orð lífsins; — 2 og lífið var opinberað og vér höfum séð og vottum og boðum yður lífið hið eilífa, sem var hjá föðurnum og var opinberað oss; — 3 það sem vér höfum séð og heyrt, það boðum vér yður einnig, til þess að þér líka getið haft samfélag við oss; og samfélag vort er við föðurinn og við son hans Jesúm Krist. 4 Og þetta skrifum vér, til þess að fögnuður yðar geti orðið fullkominn.

5 Og þetta er boðskapurinn, sem vér höfum heyrt af honum og boðum yður, að Guð er ljós og alls ekkert myrkur er í honum. 6 Ef vér segjum að vér höfum samfélag við hann, og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum vér og iðkum ekki sannleikann. 7 En ef vér framgöngum í ljósinu, eins og hann er sjálfur í ljósinu, þá höfum vér samfélag hver við annan, og blóðið Jesú, sonar hans, hreinsar oss af allri synd. 8 Ef vér segjum að vér höfum ekki synd, þá svíkjum vér sjálfa oss og sannleikurinn er ekki í oss, 9 en ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti. 10 Ef vér segjum að vér höfum ekki syndgað, þá gjörum vér hann að lygara, og orð hans er ekki í oss.


2

Börnin mín! þetta skrifa eg yður, til þess að þér skulið ekki syndga; og enda þótt einhver syndgi, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesúm Krist hinn réttláta, 2 og hann er friðþæging fyrir syndir vorar, og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir allan heiminn. 3 Og á því vitum vér að vér þekkjum hann, ef vér höldum boðorð hans. 4 Sá sem segir: Eg þekki hann, og heldur ekki boðorð hans, er lygari, og sannleikurinn er ekki í honum; 5 en hver sem heldur boðorð hans, í honum er sannarlega kærleikur Guðs orðinn fullkominn. Af því þekkjum vér, að vér erum í honum. 6 Sá sem segist vera stöðugur í honum, honum ber sjálfum að framganga eins og hann framgekk.

7 Þér elskaðir, það er ekki nýtt boðorð sem eg rita yður, heldur gamalt boðorð, sem þér hafið haft frá upphafi; hið gamla boðorð er orðið, sem þér heyrðuð. 8 Í annan stað er það nýtt boðorð, er eg rita yður, sem er satt í honum og í yður; því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína. 9 Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. 10 Sá sem elskar bróður sinn, hann er stöðugur í ljósinu og í honum er ekki hneyksli. 11 En sá sem hatar bróður sinn, hann er í myrkrinu og framgengur í myrkinu, og veit ekki hvert hann fer, því að myrkrið hefir blindað augu hans.

12 Eg rita yður, börnin mín, af því að syndir yðar eru yður fyrirgefnar fyrir sakir nafns hans. 13 Eg rita yður, þér feður, af því að þér þekkið hann, sem er frá upphafi. Eg rita yður, þér ungu menn, af því að þér hafið sigrað hinn vonda. Eg hefi ritað yður, börn, af því að þér þekkið föðurinn. 14 Eg hefi ritað yður, feður, af því að þér þekkið hann, sem er frá upphafi. Eg hefi ritað yður, ungu menn, af því að þér eruð styrkir, og Guðs orð er stöðugt í yður og þér hafið sigrað hinn vonda. 15 Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti sem í heiminum eru. Ef einhver elskar heiminn, þá er kærleiki föðurins ekki í honum. 16 Því að alt það sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum. 17 Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.

18 Börn mín, það er hin síðasta stund, og eins og þér hafið heyrt að andkristur kemur, þá eru nú einnig margir andkristar komnir fram, og af því þekkjum vér, að það er hin síðasta stund. 19 Frá oss eru þeir útgengnir, en þeir voru ekki af oss; því ef þeir hefðu verið af oss, þá mundu þeir stöðuglega hafa verið með oss; en það varð til þess að það yrði augljóst, að þeir allir væru ekki af oss. 20 Og þér hafið smurningu frá hinum heilaga og vitið alt. 21 Eg hefi ekki skrifað yður vegna þess, að þér þekkið ekki sannleikann, heldur af því að þér þekkið hann, og af því að engin lygi er af sannleikanum. 22 Hver er lygari ef ekki sá, sem neitar að Jesús sé Kristur? Sá hinn sami er andkristurinn, hann sem afneitar föðurnum og syninum. 23 Hver sem afneitar syninum, hefir ekki heldur föðurinn; sá sem viðurkennir soninn, hefir og föðurinn. 24 En þér, látið það vera stöðugt í yður, sem þér hafið heyrt frá upphafi. Ef það er stöðugt í yður, sem þér frá upphafi hafið heyrt, þá munuð þér einnig vera stöðugur í syninum og í föðurnum. 25 Og þetta er fyrirheitið sem hann gaf oss, hið eilífa lífið. 26 Þetta hefi eg skrifað yður um þá, sem vilja leiða yður afvega.27 Og þér, sú smurning, sem þér fenguð af honum, hún er stöðug í yður, og þér þurfið þess ekki, að neinn kenni yður; heldur eins og smurning hans fræðir yður um alt, og hún er sannleiki, en engin lygi, eins skuluð þér vera stöðugir í honum, svo sem hún kendi yður. 28 Og nú, börnin mín, verið stöðugir í honum, til þess að vér getum, þegar hann birtist, haft djörfung, og verðum oss ekki til skammar fyrir honum í tilkomu hans. 29 Ef þér vitið að hann er réttlátur, þá þekkið þér, að einnig hver, sem iðkar réttlæti, er fæddur af honum.


3

Sjáið, hvílíkan kærleika faðirinn hefir auðsýnt oss, að vér skulum kallast Guðs börn; og það erum vér. Vegna þess þekkir heimurinn ekki oss, af því að hann þekti ekki hann. 2 Þér elskaðir, nú erum vér Guðs börn, en það er enn þá ekki orðið bert, hvað vér munum verða. Vér vitum, að þegar hann birtist, þá munum vér verða honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er. 3 Og hver sem hefir þessa von til hans, hreinsar sjálfan sig, eins og hann er hreinn. 4 Hver sem drýgir syndina, drýgir og lagabrot, og syndin er lagabrot. 5 En þér vitið, að hann hefir birzt, til þess að burttaka syndir, og í honum er ekki synd. 6 Hver sem er stöðugur í honum, syndgar ekki; hver sem syndgar hefir ekki séð hann, og þekkir hann ekki heldur. 7 Börnin mín, látið engan villa yður; sá sem iðkar réttlætið, er réttlátur, eins og hann er réttlátur. 8 Hver sem syndina drýgir, er af djöflinum, því að djöfullinn syndgar frá upphafi. Til þess birtist Guðs sonur, að hann skyldi brjóta niður verk djöfulsins. 9 Hver sem af Guði er fæddur, drýgir ekki synd, því að sæði hans er varanlegt í honum, og hann getur ekki syndgað, af því að hann er fæddur af Guði. 10 Af þessu eru augljós börn Guðs og börn djöfulsins; hver sem ekki iðkar réttlæti, er ekki af Guði, né heldur sá, sem elskar ekki bróður sinn. 11 Því að þetta er sá boðskapur, sem þér hafið heyrt frá upphafi, að vér skulum elska hver annan; 12 ekki eins og Kain var af hinum vonda og myrti bróður sinn. Og fyrir hvað myrti hann hann? Af því að verk hans voru vond, en verk bróður hans réttlát.

13 Undrist ekki, bræður, þótt heimurinn hati yður. 14 Vér vitum, að vér erum komnir yfir frá dauðanum til lífsins, af því að vér elskum bræðurna. Sá sem ekki elskar, er áfram í dauðanum. 15 Hver sem hatar bróður sinn, er manndrápari, og þér vitið, að enginn manndrápari hefir eilíft líf í sér varandi. 16 Af því þekkjum vér kærleikann, að hann lét lífið fyrir oss, og vér eigum að láta lífið fyrir bræðurna. 17 En sá sem hefir heimsins gæði, og horfir á bróður sinn vera þurfandi, og afturlykur hjarta sínu fyrir honum, hvernig getur kærleikur Guðs verið stöðugur í honum? 18 Börnin mín, elskum ekki með orði og ekki heldur með tungu, heldur í verki og sannleika. 19 Af þessu munum vér þekkja, að vér erum af sannleikanum, og munum geta friðað hjörtu vor frammi fyrir honum, 20 hvað sem hjarta vort kann að ásaka oss fyrir; því að Guð er meiri en hjarta vort og þekkir alla hluti. 21 Þér elskaðir, ef hjartað ásakar oss ekki, þá höfum vér djörfung til Guðs, 22 og hvað sem vér biðjum um, fáum vér hjá honum, af því að vér höldum boðorð hans og gjörum það, sem er þóknanlegt fyrir hans augliti. 23 Og þetta er hans boðorð: að vér skulum trúa á nafn sonar hans Jesú Krists og elska hver annan, samkvæmt því, sem hann hefir gefið oss boðorð um. 24 Og sá sem heldur boðorð hans, er stöðugur í honum og hann í honum; og af því þekkjum vér, að hann er stöðugur í oss, af andanum sem hann hefir gefið oss.


4

Þér elskaðir, trúið ekki sérhverjum anda, heldur reynið andana, hvort þeir séu af Guði; því að margir falsspámenn eru farnir út í heiminn. 2 Af þessu getið þér þekt anda Guðs: sérhver andi, sem viðurkennir að Jesús Kristur hafi komið í holdi, er af Guði; 3 og sérhver andi, sem ekki játar Jesúm, er ekki af Guði; og hann er andkristins andi, sem þér hafið heyrt um að komi, og nú þegar er hann í heiminum. 4 Þér, börnin mín, eruð af Guði og hafið sigrað þá, því að sá er meiri, sem í yður er, en sá sem er í heiminum. 5 Þeir eru af heiminum; þess vegna tala þeir af heiminum, og heimurinn hlýðir á þá. 6 Vér erum af Guði; hver sem þekkir Guð, hlýðir á oss; sá sem ekki er af Guði, hlýðir ekki á oss. Af þessu þekkjum vér anda sannleikans og anda villunnar.

7 Þér elskaðir, elskum hver annan, því að kærleikurinn er af Guði, og hver sem elskar, er af Guði fæddur og þekkir Guð. 8 Sá sem ekki elskar, þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur. 9 Í því birtist kærleikur Guðs í oss, að Guð hefir sent sinn eingetinn son í heiminn, til þess að vér skyldum lifa fyrir hann. 10 Í þessu er kærleikurinn: ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar. 11 Þér elskaðir, fyrst Guð hefir svo elskað oss, þá ber einnig oss að elska hver annan. 12 Enginn hefir nokkurn tíma séð Guð; ef vér elskum hver annan, þá er Guð stöðugur í oss, og kærleikur hans er fullkomnaður í oss; 13 af því þekkjum vér að vér erum stöðugir í honum og hann í oss, að hann hefir gefið oss af sínum anda. 14 Og vér höfum séð og vitnum, að faðirinn hefir sent soninn, til að vera frelsari heimsins. 15 Hver sem játar, að Jesús sé Guðs sonur, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. 16 Og vér höfum þekt og trúað kærleikanum, sem Guð hefir á oss. Guð er kærleikur, og sá, sem er stöðugur í kærleikanum, er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum. 17 Í því er kærleikurinn orðinn fullkominn hjá oss, að vér höfum djörfung á degi dómsins; því að eins og hann er, eins erum vér einnig í heimi þessum. 18 Ótti er ekki í elskunni, heldur útrekur fullkomin elska óttann; því að óttinn felur í sér hegningu, en sá sem óttast, er ekki fullkominn í elskunni. 19 Vér elskum, því að hann elskaði oss að fyrra bragði.20 Ef einhver segir: eg elska Guð, og hatar bróður sinn, sá er lygari; því að sá sem ekki elskar bróður sinn, sem hann hefir séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefir ekki séð. 21 Og þetta boðorð höfum vér frá honum, að sá sem elskar Guð, á einnig að elska bróður sinn.


5

Hver sem trúir, að Jesús er Kristur, er af Guði fæddur; og hver sem elskar föðurinn, elskar einnig þann, sem er fæddur af honum. 2 Af því þekkjum vér að vér elskum Guðs börn, þegar vér elskum Guð og breytum eftir boðorðum hans. 3 Því að þetta er kærleikur Guðs, að vér höldum hans boðorð, og hans boðorð eru ekki þung. 4 Því að alt, sem af Guði er fætt, sigrar heiminn, og trú vor, hún er sigurinn, sem hefir sigrað heiminn. 5 En hver er sá, sem sigrar heiminn, nema sá sem trúir, að Jesús er sonur Guðs? 6 Þessi er sá, sem kominn er með vatni og blóði, Jesús Kristur, ekki með vatninu einungis, heldur með vatninu og með blóðinu. Og andinn er sá sem vitnar, því að andinn er sannleikurinn. 7 Því að þrír eru þeir sem vitna; 8 andinn og vatnið og blóðið, og þeim þremur ber saman. 9 Ef vér tökum manna vitnisburð gildan, þá er Guðs vitnisburður meiri, því að þetta er vitnisburður Guðs, að hann hefir vitnað um sinn son. 10 Sá sem trúir á Guðs son, hefir vitnisburðinn í honum; sá sem ekki trúir Guði, hefir gjört hann að lygara, af því að hann hefir ekki trúað á þann vitnisburð, sem Guð hefir vitnað um sinn son. 11 Og þetta er vitnisburðurinn, að Guð hefir gefið oss eilíft líf, og þetta líf er í hans syni. 12 Sá sem hefir soninn, hefir lífið; sá sem ekki hefir Guðs son, hefir ekki lífið.

13 Þetta hefi eg skrifað yður, til þess að þér vitið að þér hafið eilíft líf, yður, sem trúið á nafn Guðs sonar. 14 Og þetta er sú djörfung, sem vér höfum til hans, að ef vér biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann oss. 15 Og ef vér vitum að hann heyrir oss, um hvað sem vér biðjum, þá vitum vér, að oss eru veittar þær bænir, sem vér höfum beðið hann um. 16 Ef einhver sér bróður sinn drýgja synd, sem ekki er til dauða, þá skal hann biðja, og Guð mun gefa honum líf, þeim sem ekki syndgar til dauða. Til er synd til dauða; fyrir henni segi eg ekki að hann skuli biðja. 17 Alt ranglæti er synd; en til er synd, sem ekki er til dauða.

18 Vér vitum, að hver sem af Guði er fæddur syndgar ekki, heldur gætir sá sín, sem af Guði er fæddur, og hinn vondi snertir hann ekki. 19 Vér vitum að vér erum af Guði, og allur heimurinn liggur í hinu vonda. 20 En vér vitum, að Guðs sonur er kominn, og hefir gefið oss skilning, til þess að vér þekkjum hinn sanna; og vér erum í hinum sanna, í hans syni Jesú Kristi. Þessi er hinn sanni Guð og eilíft líf. 21 Börnin mín, gætið yðar sjálfra fyrir skurðgoðunum.