Bréf Páls postula til Efesusmanna

1

Páll, postuli Krists Jesú fyrir vilja Guðs, til hinna heilögu, sem eru í Efesus, og trúuðu í Kristi Jesú. 2 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og drotni Jesú Kristi.

3 Blessaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, er oss hefir blessað með allri andlegri blessun á himnum í Kristi, 4 eins og hann útvaldi oss í honum fyrir grundvöllun heimsins, til þess að vér skyldum vera heilagir og flekklausir frammi fyrir honum í kærleika, 5 og fyrirhugaði oss til sonarstöðu hjá sér fyrir Jesúm Krist, eftir velþóknun vilja síns, 6 til lofs dýrðar náðar sinnar, er hann veitti oss náðarsamlega í hinum elskaða, 7 en í honum höfum vér endurlausnina fyrir blóð hans, fyrirgefningu afbrotanna, eftir ríkdómi náðar hans, 8 sem hann lét yfirgnæfa oss til handa í allri speki og skilningi, 9 þá er hann kunngjörði oss leyndardóm vilja síns eftir velþóknun sinni, er hann hafði ásett sér í honum, 10 um ráðstöfun á fyllingu tímanna, að endursafna öllu í Kristi, því sem er á himnum, og því sem er á jörðunni, 11 í honum, sem vér og höfum öðlast arfleifð í, fyrirhugaðir eftir fyrirætlun hans, sem framkvæmir alt eftir ráði vilja síns, 12 til þess að vér skyldum vera til lofs dýrðar hans, vér sem áður höfum vonað á Krist, 13 í hverjum og þér, þá er þér heyrðuð orð sannleikans, fagnaðarerindið um sáluhjálp yðar — í hverjum og þér, er þér urðuð trúaðir, voruð innsiglaðir með hinum heilaga anda fyrirheitisins, 14 sem er pantur arfleifðar vorrar, til endurlausnar eignarinnar, til lofs dýrðar hans.

15 Fyrir því læt eg heldur eigi af, síðan eg heyrði um trúna hjá yður á drottin Jesúm og kærleikann til allra heilagra, 16 að þakka fyrir yður, um leið og eg minnist yðar í bænum mínum, 17 til þess að Guð drottins vors Jesú Krists, faðir dýrðarinnar, gefi yður anda speki og opinberunar í þekkingu á honum 18 og upplýsi augu hjarta yðar, til þess að þér vitið, hver von köllunar hans er, hver ríkdómur dýrðar arfleifðar hans meðal hinna heilögu, 19 og hver hinn yfirgnæfandi mikilleikur máttar hans gegn oss, sem trúum, eftir framkvæmd kraftar styrkleiks hans, 20 sem hann framkvæmdi á Kristi, þá er hann reisti hann frá dauðum og setti hann sér til hægri handar á himnum, 21 ofar hverri tign og valdi og mætti og herradómi og hverju því nafni, sem nefnt er, ekki einungis á þessari öld, heldur og á hinni komandi, 22 og alt lagði hann undir fætur hans, og gaf hann til að vera höfuð yfir öllum söfnuðinum, 23 sem er líkami hans, fylling hans, sem fyllir alt í öllum.


2

Einnig yður, sem dauðir voruð, vegna afbrota yðar og synda, 2 er þér áður genguð í, samkvæmt aldarhætti þessa heims, í samkvæmni við höfðingja valdsins í loftinu, andans, sem nú verkar í sonum óhlýðninnar, 3 sem einnig vér lifðum áður allir meðal, í girndum holds vors, gjörandi vilja holdsins og hugrenninganna og vorum að eðli til reiðibörn eins og hinir. 4 En Guð, sem ríkur er af miskunn, lífgaði með Kristi oss, vegna sinnar miklu elsku, sem hann elskaði oss með, 5 jafnvel oss, sem vorum dauðir, vegna misgjörðanna — af náð eruð þér hólpnir orðnir — 6 og uppvakti oss með honum og setti oss með honum á himnum, í Kristi Jesú, 7 til þess að sýna á hinum komandi öldum hinn yfirgnæfandi ríkdóm náðar sinnar, í gæzku við oss í Kristi Jesú; 8 því að af náðinni eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú, og það er ekki af yður; Guðs er gjöfin. 9 Ekki af verkum, til þess að enginn skuli hrósa sér. 10 Því að hans verk erum vér, skapaðir í Kristi Jesú til góðra verka, sem Guð hefir fyrirbúið til þess að vér skyldum framganga í þeim.

11 Minnist þess vegna þess, að þér, sem áður voruð heiðingjar í holdi, sem kallaðir eruð yfirhúð af umskurninni, sem kölluð er, og er á holdi með höndum gjörð, 12 að þér voruð á þeim tíma án Krists, útilokaðir frá þegnrétti Ísraels og fjarlægir sáttmálum fyrirheitisins, án vonar og án Guðs í heiminum. 13 En nú, í Kristi Jesú eruð þér, sem áður voruð í fjarlægð, nálægir orðnir í blóði Krists; 14 því að hann er vor friður, hann sem úr báðum gjörði eitt og reif niður millivegg girðingarinnar, 15 þá er hann afmáði með holdi sínu fjandskapinn, lögmál boðorðanna í tilskipunum, til þess að umskapa í sjálfum sér hina tvo til að vera einn nýr maður, semjandi frið, 16 og að friðþægja þá báða í einum líkama við Guð, fyrir krossinn, þá er hann hafði deytt fjandskapinn á honum; 17 og hann kom og boðaði frið yður, hinum fjarlægu, og frið hinum nálægu. 18 Því að fyrir hann höfum vér hvorirtveggja í einum anda aðgang til föðurins. 19 Þér eruð þess vegna ekki framar aðkomumenn og útlendingar, heldur eruð þér samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs, 20 uppbygðir á grundvelli postulanna og spámannanna, þar sem Kristur Jesús er sjálfur hyrningarsteinn, 21 sem hver bygging samtengist í og vex og verður heilagt musteri í drotni, 22 sem einnig þér eruð sambygðir í til bústaðar Guðs í andanum.


3

Þessa vegna er eg, Páll, bandingi Krists Jesú, vegna yðar heiðingjanna, 2 ef þér annars hafið heyrt um þá ráðstöfun Guðs náðar, sem mér er veitt yður til handa, 3 að fyrir opinberun var leyndardómurinn auglýstur mér, eins og eg áður hefi skrifað í stuttu máli, 4 svo að þér getið, þá er þér lesið það, af því skynjað skilning minn á leyndardómi Krists, 5 sem hjá öðrum kynslóðum var ekki auglýstur sonum mannanna, eins og hann hefir nú verið opinberaður hinum heilögu postulum hans og spámönnum í andanum, 6 að heiðingjarnir séu samarfar og limir á sama líkama og samhluttakendur fyrirheitisins í Kristi Jesú, fyrir fagnaðarerindið, 7 hvers þjónn eg er orðinn, eftir gjöf náðar Guðs, sem mér hefir verið veitt, eftir framkvæmd máttar hans; 8 mér, hinum minsta allra heilagra, var veitt þessi náð, að boða heiðingjunum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists, 9 og að upplýsa alla um það, hver sé ráðstöfun leyndardómsins, sem frá eilífð hefir verið hulinn í Guði, sem alt hefir skapað, 10 til þess að hin margbreytta speki Guðs skyldi nú fyrir söfnuðinn auglýst verða völdunum og yfirráðunum á himnum, 11 eftir eilífri fyrirætlun, sem hann framkvæmdi í Kristi Jesú, drotni vorum, 12 í hverjum vér höfum djörfungina og aðganginn í trausti fyrir trúna á hann. 13 Fyrir því bið eg að þér látið eigi hugfallast í þrengingum mínum fyrir yður, sem eru yðar heiður.

14 Þess vegna beygi eg kné mín fyrir föðurnum, 15 sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu, 16 að hann gefi yður eftir ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast með krafti fyrir anda sinn í hinum innra manni, 17 til þess að Kristur megi búa fyrir trúna í yðar hjörtum, 18 til þess að þér, rótfestir og grundvallaðir í kærleika, megnið að skilja ásamt öllum heilögum, hver sé breiddin, lengdin, hæðin og dýptin 19 og að þekkja kærleik Krists, sem yfirgnæfir þekkinguna, til þess að þér fyllist til allrar fyllingar Guðs.

20 En honum, sem megnar að gjöra fram yfir alt, yfirgnæfanlega mikið fram yfir það, sem vér biðjum eða skynjum, eftir þeim krafti, sem í oss verkar, 21 honum sé dýrð í söfnuðinum og í Kristi Jesú um allar kynslóðir, um aldir alda. Amen.


4

Eg, bandinginn í drotni, áminni yður þess vegna um að framganga eins og samboðið er kölluninni, sem þér eruð kallaðir með, 2 með öllu lítillæti og hógværð, með langlyndi, svo að þér umberið hver annan í kærleika 3 og kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. 4 Einn líkami og einn andi, eins og þér einnig voruð kallaðir í einni von við köllun yðar; 5 einn drottinn, ein trú, ein skírn, 6 einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum og með öllum og í öllum. 7 En sérhverjum af oss var náðin veitt eftir mæli Krists gjafar.

8 Þess vegna segir hann: Stiginn upp til hæðar hertók hann fanga og gaf mönnunum gjafir; 9 en þetta, »hann steig upp«, hvað er það annað en að hann líka steig niður til neðri hluta jarðarinnar? 10 En sá, sem niður steig, er og hinn sami, sem upp sté, upp yfir alla himna, til þess að hann mætti uppfylla alt. 11 Og sá hinn sami hefir gefið suma sem postula, suma sem spámenn, suma sem trúboða, suma sem hirða og kennara, 12 til þess að fullkomna hina heilögu, til þjónustustarfs, til uppbyggingar líkama Krists, 13 þangað til vér allir náum til einingar trúarinnar og þekkingarinnar á Guðs syni, til fullorðins manns, til mælis vaxtar Krists fyllingar, 14 til þess að vér séum ekki framar börn, er hrekjumst og berumst fram og aftur af hverjum kenningarvindi, við brögð mannanna, í slægð eftir vélum villunnar, 15 heldur ástundum sannleikann í kærleika og fáum vaxið í öllu til hans, sem er höfuðið, Kristur, 16 út frá hverjum allur líkaminn, samanfeldur og samantengdur með hvers konar liðveitandi taug, eflir vöxt sinn til eigin uppbyggingar í kærleika, eftir þeim starfskrafti, sem hver einstakur hluti er gæddur.

17 Þetta segi eg því og vitna í drotni, að þér ekki framar skuluð framganga eins og heiðingjarnir framganga í hégómleik hugskots síns, 18 þeir sem eru blindaðir í hugsun sinni, fjarlægir lífi Guðs, vegna vanþekkingarinnar, sem í þeim er, vegna harðúðar hjarta þeirra, 19 þeir sem tilfinningarlausir hafa ofurselt sig saurlífi, til að drýgja alls konar óhreinleik samfara ágirnd. 20 En þér hafið ekki lært Krist þannig, 21 ef svo er að þér hafið heyrt hann og hafið verið uppfræddir í honum, á þann hátt, sem sannleikur er í Jesú: 22 að þér skulið afleggja, að því er snertir hina fyrri breytni, hinn gamla mann, sem spillist samkvæmt girndum tálsins, 23 en að þér skulið endurnýjast í anda hugskots yðar 24 og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.

25 Afleggið þess vegna lygina og talið sannleika hver við náunga sinn, því að vér erum limir hver annars. 26 Reiðist og syndgið ekki, sólin má ekki setjast yfir reiði yðar, 27 og gefið ekki heldur djöflinum rúm. 28 Sá sem stelur, steli ekki framar, heldur vinni og gjöri það, sem gott er, með höndum sínum, til þess að hann hafi eitthvað til þess að miðla þeim, sem þurfandi er. 29 Látið ekkert svívirðilegt orð fara út af munni yðar, heldur það, sem gott er til uppbyggingar, eftir því sem þörf er á, til þess að það veiti náð þeim sem heyra. 30 Og hryggið ekki hinn heilaga anda Guðs, sem þér eruð innsiglaðir í til endurlausnar-dagsins. 31 Látið hvers konar beiskleika, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlæg yður, ásamt allri mannvonzku; 32 en verðið góðir hver við annan, meðaumkunarsamir, fúsir að fyrirgefa hver öðrum, eins og einnig Guð hefir í Kristi fyrirgefið yður.


5

Verðið því eftirbreytendur Guðs sem elskuð börn, 2 og framgangið í kærleika, eins og einnig Kristur elskaði yður og gaf sig sjálfan út fyrir oss, sem fórnargjöf og sláturfórn, Guði til velþóknunarilms. 3 En frillulífi og hvers konar óhreinleiki eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn á meðal yðar, eins og heilögum hæfir, 4 og ekki heldur svívirðilegt athæfi eða fíflslegt hjal eða gárungaháttur, sem er ósæmilegt, heldur miklu fremur þakkargjörð; 5 því að það vitið þér og þekkið, að enginn frillulífismaður, eða saurugur eða ágjarn, sem er hjáguðadýrkari, hefir arftöku í ríki Krists og Guðs. 6 Látið engan tæla yður með marklausum orðum, því að fyrir þetta kemur reiði Guðs yfir syni óhlýðninnar. 7 Takið því ekki hlutdeild með þeim; 8 því að áður voruð þér myrkur, en nú eruð þér ljós í drotni; framgangið eins og börn ljóssins, — 9 því að ávöxtur ljóssins er alls konar góðvild, réttlæti og sannleiki — 10 og rannsakið, hvað drotni er þóknanlegt, 11 en takið ekki þátt með þeim í hinum ávaxtarlausu verkum myrkursins, heldur miklu fremur vandið um þau, 12 því að það, sem þeir drýgja í leyndum, er jafnvel skömm um að tala, 13 en alt þetta er opinberað af ljósinu, þegar vandað er um það, því að sérhvað það, sem opinberað er, er ljós. 14 Þess vegna segir svo: Vakna þú, sem sefur, og rís upp frá dauðum, og þá mun Kristur lýsa þér.

15 Gætið því nákvæmlega að, hvernig þér framgangið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir; 16 kaupið hinn hentuga tíma, því að dagarnir eru vondir. 17 Verið því ekki óskynsamir, heldur skynjið, hvað er vilji drottins, 18 og verðið ekki druknir af víni, því að í því er spilling, heldur fyllist andanum, 19 og hafið yfir hver fyrir öðrum sálma, lofsöngva og andleg ljóð, og syngið og leikið drotni lof í hjarta yðar, 20 og þakkið jafnan Guði og föður fyrir alla hluti í nafni drottins vors Jesú Krists, 21 og gjörið yður hver öðrum undirgefna í ótta Krists.

22 Þér konur, gjörið yður undirgefnar eiginmönnum yðar, eins og drotni, 23 því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og einnig Kristur er höfuð safnaðarins, hann sem er frelsari líkama síns. 24 En eins og söfnuðurinn gjörir sig undirgefinn Kristi, þannig líka konurnar mönnum sínum í öllu. 25 Þér menn, elskið konur yðar, eins og Kristur elskaði söfnuðinn og gaf sig sjálfan út fyrir hann, 26 til þess að hann helgaði hann, er hann hafði hreinsað hann við vatnslaugina með orði, 27 til þess að láta söfnuðinn koma fram fyrir sjálfan sig sem dýrlegan söfnuð, sem hefði ekki blett né hrukku eða neitt þess háttar, heldur væri heilagur og lýtalaus. 28 Þannig eiga líka mennirnir að elska konur sínar eins og líkami sjálfra sín. Sá sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig, 29 því að enginn hefir nokkuru sinni hatað sitt eigið hold, heldur elur hann önn fyrir því og hjúkrar því, eins og einnig Kristur söfnuðinum. 30 Því að vér erum limir á líkama hans. 31 Þess vegna skal maður yfirgefa föður sinn og móður sína og búa við eiginkonu sína, og munu þau tvö verða eitt hold. 32 Þessi leyndardómur er mikill, en eg segi það í tilliti til Krists og safnaðarins. 33 En samt skuluð þér einnig hver um sig elska þannig eiginkonu sína eins og sjálfan sig; en konan, hún á að bera lotningu fyrir manni sínum.


6

Þér börn, hlýðið foreldrum yðar í drotni, því að það er rétt. 2 Heiðra föður þinn og móður, — það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti — 3 til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur í landinu. 4 Og þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur uppalið þau með aga og umvöndun drottins.

5 Þér þjónar, hlýðið þeim, sem eftir holdinu eru drotnar yðar, með lotningu og ótta, í einlægni hjarta yðar, eins og Kristi, 6 ekki með augnaþjónustu, eins og þeir er mönnum vilja þóknast, heldur eins og þjónar Krists, er gjöra vilja Guðs af alhuga, 7 og þjónið þeim með fúsu geði, eins og drotni og ekki mönnum, 8 með því að þér vitið, að hvað gott sem hver gjörir, það mun hann fá aftur af drotni, hvort sem hann er þræll eða frjáls maður. 9 Og þér drotnar, breytið eins við þá, og látið af hótunum, með því að þér vitið, að bæði þeirra og yðar drottinn er á himnum, og að hjá honum er ekkert manngreinarálit.

10 Að öðru leyti styrkist í drotni og í krafti máttar hans; 11 íklæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins, 12 því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við blóð og hold, heldur við völdin, við yfirráðin, við heimsdrotna þessa myrkurs, við vonzkunnar anda í himingeiminum. 13 Fyrir því skuluð þér taka alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi, og getið staðist, er þér hafið framkvæmt alt. 14 Standið því gyrtir sannleika um lendar yðar og íklæddir brynju réttlætisins 15 og skóaðir á fótunum með viðbúinleik fagnaðarboðskaps friðarins, 16 og takið jafnframt upp skjöld trúarinnar, sem þér munuð geta slökt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda, 17 og takið hjálm hjálpræðisins og sverð andans, sem er Guðs orð; 18 og með alls konar bæn og heiðni skuluð þér biðja á hverri tíð í andanum og vera árvakrir við það með allri kostgæfni og beiðni fyrir öllum heilögum, 19 og fyrir mér, til þess að mér verði gefin orð, þá er eg lýk upp munni mínum, til þess að boða með djörfung leyndardóm fagnaðarboðskaparins, 20 sem eg er sendiboði fyrir í fjötrum, til þess að eg megi flytja hann með djörfung, eins og mér ber að tala.

21 En til þess að þér einnig fáið að vita um mína hagi, hvernig mér líður, þá mun Týkíkus, hinn elskaði bróðir og trúi þjónn í drotni, skýra yður frá öllu. 22 Og hann sendi eg til yðar einmitt í þeim tilgangi, til þess að þér fáið að vita um vora hagi, og hann geti huggað hjörtu yðar.

23 Friður sé með bræðrunum og kærleiki með trú af Guði föður og drotni Jesú Kristi. 24 Náðin sé með öllum þeim, sem elska drottin vorn Jesúm Krist í óforgengileik!