Bréf Páls postula til Galatamanna

1

Páll, postuli — ekki af mönnum né að tilhlutun manns, heldur að tilhlutun Jesú Krists og Guðs föður, sem uppvakti hann frá dauðum — 2 og allir bræðurnir, sem með mér eru: til safnaðanna í Galatalandi. 3 Náð sé með yður og friður frá Guði föður og drotni vorum Jesú Kristi, 4 sem gaf sjálfan sig fyrir syndir vorar, til þess að frelsa oss frá hinni yfirstandandi vondu öld, samkvæmt vilja Guðs og föður vors. 5 Honum sé dýrð um aldir alda, amen.

6 Mig furðar, að þér svo fljótt látið snúast frá honum, sem kallaði yður í náð Krists til annars konar fagnaðarerindis, 7 sem er ekki annað, heldur eru nokkurir, sem eru að trufla yður, og vilja umhverfa fagnaðarerindinu um Krist. 8 En þótt jafnvel vér eða engill frá himni færi að boða yður annað fagnaðarerindi en það, sem vér höfum boðað yður, þá sé hann bölvaður. 9 Eins og vér höfum áður sagt, eins segi eg nú aftur: ef nokkur boðar yður annað fagnaðarerindi en það, sem þér hafið viðtöku veitt, þá sé hann bölvaður. 10 Því að mun eg nú vera að tala eftir manna vild eða Guðs? Eða er eg að leitast við að þóknast mönnum? Ef eg væri enn þá að þóknast mönnum, þá væri eg ekki þjónn Krists.

11 Því að eg læt yður vita, bræður, að það fagnaðarerindi, sem boðað var af mér, er ekki mannaverk, 12 því að ekki hefi eg heldur veitt því viðtöku af manni né verið uppfræddur í því, heldur fyrir opinberun Jesú Krists; 13 því að þér hafið heyrt um hegðun mína áður fyrri í gyðingdóminum, að eg ofsótti ákaflega söfnuð Guðs og eyddi hann, 14 og eg fór lengra í Gyðingdóminum en margir jafnaldrar mínir meðal þjóðar minnar, þar sem eg var miklu vandlætingasamari um setninga forfeðra minna. 15 En þegar Guði, sem hafði útvalið mig frá móðurlífi og af náð sinni kallað, 16 þóknaðist að opinbera son sinn í mér, til þess að eg skyldi boða fagnaðarerindið um hann meðal heiðinna þjóða, þá ráðfærði eg mig eigi jafnskjótt við hold og blóð; 17 ekki fór eg heldur upp til Jerúsalem til þeirra, sem voru postular á undan mér, heldur fór eg burt til Arabíu og sneri svo aftur til Damaskus.

18 Síðan fór eg eftir þrjú ár upp til Jerúsalem, til að kynnast Kefasi og dvaldi hjá honum fimtán daga, 19 en nokkurn annan af postulunum sá eg ekki, heldur aðeins Jakob, bróður drottins. 20 Það sem eg skrifa yður, sjá, Guð veit að eg lýg því ekki. 21 Síðan kom eg í héruð Sýrlands og Kilikíu. 22 En eg var þá enn persónulega ókunnur söfnuðunum í Júdeu, sem voru í Kristi. 23 En þeir höfðu einungis heyrt sagt: Sá sem áður ofsótti oss, boðar nú trúna, sem hann áður eyddi. 24 Og þeir vegsömuðu Guð fyrir mig.


2

Síðan fór eg að fjórtán árum liðnum aftur upp til Jerúsalem ásamt Barnabasi og tók líka Títus með mér; 2 en eg fór þangað eftir opinberun, og eg lagði fram fyrir þá fagnaðarerindið, sem eg prédika meðal heiðingjanna, og sérstaklega fram fyrir þá, sem í áliti voru, til þess að eg eigi skyldi hlaupa til ónýtis eða hafa hlaupið. 3 En ekki var einu sinni Títus, sem með mér var og var grískur maður, neyddur til að láta umskerast. 4 En það var sökum falsbræðranna, er höfðu smeygt sér inn og laumast höfðu inn, til að njósna um frelsi vort, það er vér höfum í Kristi Jesú, til þess að þeir gætu hnept oss í þrældóm. 5 Undan þeim létum vér ekki einu sinni eitt augnablik, til þess að sannleiki fagnaðarerindisins skyldi viðhaldast hjá yður. 6 En af þeim, sem í nokkuru áliti voru — hvað sem þeir svo áður voru, það skiftir mig engu, Guð fer ekki í manngreinarálit, — þeir sem í áliti voru, bættu engu við hjá mér; 7 heldur miklu fremur, þegar þeir sáu, að mér var trúað fyrir fagnaðarerindinu til hinna óumskornu, eins og Pétri til hinna umskornu — 8 því að sá, sem efldi Pétur til postuladæmis meðal hinna umskornu, efldi einnig mig fyrir heiðingjana — 9 og er þeir lærðu að þekkja náðina, er mér var veitt, þá réttu þeir Jakob og Kefas og Jóhannes, sem álitnir eru að vera máttarstólpar, mér og Barnabasi hönd sína til samfélags, til þess að við skyldum fara til heiðingjanna, en þeir til hinna umskornu; 10 einungis að vér skyldum minnast hinna fátæku, og einmitt þetta kappkostaði eg líka að gjöra.

11 En þegar Kefas kom til Antíokkíu, stóð eg í gegn honum upp í opin augun, því að hann var sakfallinn. 12 Því að áður en nokkurir komu frá Jakob, samneytti hann heiðingjunum, en er þeir voru komnir, dró hann sig í hlé og skildi sig frá, því að hann óttaðist þá, sem voru af umskurninni; 13 og hinir Gyðingarnir fóru einnig að hræsna með honum, svo að jafnvel Barnabas lét dragast með af hræsni þeirra. 14 En þegar eg sá að þeir gengu ekki beint eftir sannleika fagnaðarerindisins, sagði eg við Kefas í allra áheyrn: Úr því að þú, sem ert Gyðingur, lifir að heiðingja siðum, en eigi Gyðinga, hvernig fer þú þá að neyða heiðingja til að lifa að Gyðinga siðum? 15 Vér erum að eðli til Gyðingar, en ekki syndarar af heiðingjum, 16 en þar eð vér vitum að maðurinn réttlætist ekki af lögmálsverkum og ekki nema fyrir trú á Jesúm Krist, þá höfum einnig vér tekið trú á Krist Jesúm, til þess að vér réttlættumst af trú á Krist, og ekki af lögmálsverkum, því að af lögmálsverkum mun ekkert hold réttlætast. 17 En ef vér, jafnframt því sem vér leituðumst við að réttlætast í Kristi, reyndumst líka sjálfir syndarar, er þá Kristur syndar þjónn? Fjarri fer því. 18 Því að fari eg aftur að byggja það upp, sem eg braut niður, þá kem eg sjálfur fram sem yfirtroðslumaður, 19 því að fyrir lögmál er eg dáinn lögmáli, til þess að eg lifi Guði. 20 Með Kristi er eg krossfestur. Eg lifi að vísu, þó ekki framar eg, heldur lifir Kristur í mér. En það sem eg nú lifi í holdinu, það lifi eg í trúnni á Guðs son, sem elskaði mig og gaf sig sjálfan út fyrir mig. 21 Ekki ónýti eg náð Guðs, því að ef til er réttlæting fyrir lögmál, þá hefir Kristur dáið til einkis.


3

Ó, þér óskynsömu Galatar, hver hefir töfrað yður, þar sem þó Jesús Kristur var uppmálaður krossfestur fyrir augum yðar? 2 Um þetta eitt vil eg fræðast af yður: öðluðust þér andann fyrir lögmálsverk? eða fyrir boðun trúar? 3 Eruð þér svo óskynsamir? Þér, sem byrjuðuð í anda, ætlið þér nú að enda í holdi? 4 Hafið þér til einkis reynt svo mikið? Ef það þá annars er til einkis. 5 Sá sem því veitir yður andann og framkvæmir máttarverk meðal yðar, gjörir hann það fyrir lögmálsverk? eða fyrir boðun trúar? 6 Eins og Abraham trúði Guði og það var honum til réttlætis reiknað. 7 Þér skuluð því vita, að þeir sem eru af trú, einmitt þeir eru Abrahams synir. 8 En þar eð ritningin sá það fyrir, að Guð mundi réttlæta þjóðirnar fyrir trú, boðaði hún Abraham fyrirfram þann fagnaðarboðskap: Í þér skulu allar þjóðir verða blessaðar;9 þannig verða þeir, sem eru af trú, blessaðir með hinum trúaða Abraham. 10 Því að allir þeir, sem eru af lögmálsverkum, eru undir bölvun, því að ritað er: Bölvaður er hver sá, sem ekki heldur fast við alt það, sem í lögmálsbókinni er ritað, svo að hann breyti eftir því. 11 En það er augljóst, að fyrir Guði réttlætist enginn fyrir lögmál, því hinn réttláti mun lifa af trú. 12 En lögmálið er ekki af trú, heldur: sá sem breytir eftir þeim, mun lifa fyrir þau. 13 Kristur keypti oss undan bölvun lögmálsins, með því að hann varð bölvun fyrir oss, því að ritað er: Bölvaður er hver sá, sem á tré hangir, 14 til þess að þjóðunum skyldi hlotnast blessun Abrahams í Kristi Jesú, til þess að vér skyldum öðlast fyrirheit andans fyrir trúna.

15 Bræður, eg tala eftir mannlegri venju: enginn ónýtir þó eða bætir við sáttmála manns, sem hefir verið staðfestur; 16 en Abraham voru fyrirheitin gefin og afkvæmi hans; hann segir ekki: og afkvæmum, eins og um marga, heldur eins og um einn: og afkvæmi þínu, sem er Kristur. 17 Með þessu segi eg þá: sáttmála, sem fyrirfram var staðfestur af Guði, ónýtir eigi lögmálið, sem út var gefið fjögur hundruð og þrjátíu árum síðar, svo að það felli fyrirheitið úr gildi, 18 því að ef arfleifðin fæst af lögmáli, þá fæst hún ekki lengur af fyrirheiti, en Guð veitti Abraham hana með fyrirheiti. 19 Hvað er þá lögmálið? Vegna afbrotanna og þangað til afkvæmið kæmi, sem fyrirheitið hljóðaði um, var því bætt við fyrir umsýslun engla, fyrir hönd meðalgangara. 20 En meðalgangari er ekki fyrir einn, en Guð er einn. 21 Er þá lögmálið gegn fyrirheitum Guðs? Fjarri fer því. Því að ef það lögmál hefði verið gefið, sem hefði getað lífgað, þá væri réttlætið vissulega af lögmáli. 22 En ritningin hefir innilokað alt undir synd, til þess að fyrirheitið veitist fyrir trú á Jesúm Krist, þeim sem trúa.

23 En áður en trúin kom, vorum vér undir lögmálsgæzlu innilokaðir, þangað til sú trú, sem var í vændum, opinberaðist. 24 Þannig hefir lögmálið orðið tyftari vor til Krists, til þess að vér réttlættumst af trú. 25 En nú, þegar trúin er komin, erum vér ekki lengur undir tyftara, 26 því að þér eruð allir Guðs börn í Kristi Jesú fyrir trúna, 27 því að allir þér, sem eruð skírðir til Krists, þér hafið íklæðst Kristi. 28 Hér er ekki Gyðingur né grískur, hér er ekki þræll né frelsingi, hér er ekki karl né kona, því að þér eruð allir einn maður í Kristi Jesú. 29 En ef þér eruð Krists, þá eruð þér niðjar Abrahams, erfingjar eftir fyrirheiti.


4

En eg segi, að alla þá stund, sem erfinginn er barn, er enginn munur á honum og þræl, þótt hann sé herra yfir öllu, 2 heldur er hann undir fjárhaldsmönnum og ráðsmönnum til þess tíma, er faðirinn hefir ákveðið; 3 þannig vorum vér einnig, er vér vorum börn, þrælbundnir undir stafrófi heimsins. 4 En þegar fylling tímans kom, útsendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli, 5 til þess að hann keypti lausa þá, sem voru undir lögmáli, til þess að vér fengjum sonarréttinn. 6 En þar eð þér eruð synir, þá hefir Guð útsent anda sonar síns í hjörtu vor, sem hrópar: Abba, faðir! 7 Þú ert þá ekki framar þræll, heldur sonur; en ef þú ert sonur, þá ert þú líka erfingi fyrir Guð.

8 En á þeim tíma, þá er þér þektuð ekki Guð, þá voruð þér að vísu þrælar þeirra, sem í eðli sínu eru ekki guðir; 9 en hvernig farið þér nú, eftir að þér hafið fengið þekkingu á Guði, eða öllu heldur: eruð af Guði þektir, að snúa aftur til hins veika og fátæklega stafrófs, sem þér af nýju viljið fara að þrælka undir? 10 Þér hafið gætur á dögum og mánuðum og tíðum og árum. 11 Eg er hræddur um yður, að eg kunni að hafa haft erfiði fyrir yður til ónýtis.

12 Eg bið yður, bræður: verðið eins og eg, því að eg er orðinn eins og þér. Í engu hafið þér gjört á hluta minn. 13 En þér vitið, að vegna veikleika holdsins boðaði eg yður fagnaðarerindið hið fyrra sinn; 14 og það, sem í holdi mínu gat freistað yðar, óvirtuð þér ekki né fyrirlituð, heldur tókuð þér á móti mér eins og engli Guðs, eins og Kristi Jesú sjálfum. 15 Hvar er nú sæluprísun yðar? Því að eg ber yður það vitni, að ef auðið hefði verið, hefðuð þér stungið augun úr yður og gefið mér. 16 Er eg þá orðinn óvinur yðar, vegna þess að eg segi yður sannleikann? 17 Þeir láta sér ant um yður, en það er eigi af góðu, heldur vilja þeir útiloka yður, til þess að þér látið yður ant um þá. 18 Að vísu er umönnun í því, sem gott er, ávalt góð, og ekki einungis meðan eg er hjá yður. 19 Börn mín, sem eg af nýju el með harmkvælum, þangað til Kristur er myndaður í yður! — 20 eg vildi eg væri nú hjá yður og gæti breytt rödd minni, því að eg er ráðalaus með yður.

21 Segið mér, þér sem viljið vera undir lögmáli, heyrið þér ekki lögmálið? 22 Því að ritað er, að Abraham átti tvo sonu, annan við ambáttinni, en hinn við frjálsu konunni. 23 En sonurinn við ambáttinni var fæddur á holdlegan hátt, en sonurinn við frjálsu konunni var fæddur eftir fyrirheiti. 24 Þetta hefir annarlega merkingu, því að þær eru tveir sáttmálar: annar frá Sínaífjalli, sem elur börn til ánauðar, og hann er Hagar; 25 en Hagar er Sínaífjall í Arabíu og samsvarar hinni núverandi Jerúsalem, því að hún er í ánauð ásamt börnum sínum; 26 en Jerúsalem, sem í hæðum er, er frjáls, og hún er móðir vor; 27 því að ritað er: Ver glöð, óbyrja, sem ekkert barn hefir átt! hrópa og kalla hátt, þú sem ekki hefir jóðsjúk orðið! því að börn hinnar yfirgefnu eru fleiri en hinnar, sem manninn á. 28 En vér, bræður, erum fyrirheitis börn eins og Ísak. 29 En eins og forðum sá, sem fæddur var eftir holdinu ofsótti þann, sem fæddur var eftir andanum, svo er það og nú. 30 En hvað segir ritningin? Rek burt ambáttina og son hennar; því að ekki skal ambáttarsonurinn taka arf með syni frjálsu konunnar. 31 Fyrir því erum vér, bræður, ekki ambáttar börn, heldur börn frjálsu konunnar.


5

Til frelsis frelsaði Kristur oss; standið því fastir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok. 2 Sjá, eg, Páll, segi yður, að ef þér látið umskerast, þá gagnar Kristur yður ekkert. 3 Og eg vitna af nýju fyrir hverjum manni, sem lætur umskerast, að hann er skyldur til að halda alt lögmálið. 4 Þér eruð orðnir viðskila við Krist, þér sem ætlið að réttlætast fyrir lögmál; þér eruð fallnir úr náðinni; 5 því að vér væntum í anda, af trú, réttlætingar vonar; 6 því að í Kristi Jesú gildir hvorki umskurn neitt né yfirhúð, heldur trú, starfandi fyrir kærleika. 7 Þér hlupuð vel; en hver hefir hindrað yður frá að hlýða sannleikanum? 8 Þær fortölur voru ekki frá honum, sem kallaði yður. 9 Lítið súrdeig sýrir alt deigið. 10 Eg hefi það traust til yðar í drotni, að þér verðið ekki neins annars hugar; en sá, sem truflar yður, mun bera sinn dóm, hver sem hann svo er. 11 En eg, bræður, ef eg enn þá er að prédika umskurn, hví er eg þá enn ofsóttur? Þá væri hneyksli krossins tekið burt. 12 Betur væri að þeir, sem koma yður í uppnám, létu og afsníðast.

13 Því að þér voruð, bræður, kallaðir til frelsis; notið aðeins ekki frelsið til færis fyrir holdið, heldur þjónið hver öðrum fyrir kærleikann. 14 Því að öllu lögmálinu er fullnægt með einu orði, með þessu: Elska skaltu náunga þinn eins og sjálfan þig. 15 En ef þér bítist og etið upp hver annan, sjáið þá við því, að þér tortímist ekki hver fyrir öðrum.

16 En eg segi: Framgangið í andanum, og þá fullnægið þér ekki girnd holdsins. 17 Því að holdið girnist gegn andanum, og andinn gegn holdinu, því að þetta stendur hvort gegn öðru, til þess að þér gjörið ekki það, sem þér viljið. 18 En ef þér leiðist af andanum, þá eruð þér ekki undir lögmáli. 19 En holdsins verk eru augljós, og eru þau: frillulífi, óhreinleikur, saurlífi, 20 skurðgoðadýrkun, fjölkyngi, fjandskapur, deilur, metningur, bræði, sérplægni, tvídrægni, flokkadráttur, 21 öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt; og um það segi eg yður fyrir, eins og eg hefi áður sagt, að þeir, sem slíkt gjöra, munu ekki erfa guðsríki. 22 En ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæzka, góðvild, trúmenska, hógværð, bindindi; 23 gegn slíku er ekkert lögmál. 24 En þeir sem eru Krists Jesú, hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum.

25 Ef vér lifum í andanum, þá framgöngum einnig í andanum. 26 Verum ekki hégómagjarnir, svo að vér áreitum hver annan og öfundum hver annan.


6

Bræður! ef einhver misgjörð kann að henda mann, þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværðar anda, og haf gát á sjálfum þér, að þú freistist ekki líka. 2 Berið hver annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists. 3 Því að þykist nokkur vera nokkuð, þar sem hann þó er ekkert, þá dregur hann sjálfan sig á tálar. 4 En sérhver rannsaki verk sjálfs sín, og þá mun hann hafa hrósunarefni einungis fyrir sjálfan sig, en ekki fyrir aðra; 5 því að sérhver mun verða að bera sína eigin byrði.

6 En sá, sem uppfræðist í orðinu, veiti þeim, sem uppfræðir, hlutdeild með sér í öllum gæðum. 7 Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða; því að það, sem maður sáir, það mun hann og uppskera. 8 Því að sá, sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun; en sá, sem sáir í andann, mun af andanum uppskera eilíft líf. 9 En þreytumst ekki að gjöra það, sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér ekki gefumst upp. 10 Þess vegna, eftir því sem vér höfum færi á, þá gjörum gott öllum og einkum trúbræðrum vorum.

11 Sjáið, með hversu stórum stöfum eg skrifa yður með minni eigin hendi. 12 Allir þeir, sem vilja líta vel út að holdinu til, þeir eru það, sem eru að þrengja yður til að láta umskerast, einungis til þess að þeir eigi verði ofsóttir vegna krossins Krists; 13 því að ekki halda einu sinni sjálfir þeir, sem umskornir eru, lögmálið, heldur vilja þeir að þér látið umskerast, til þess að þeir geti stært sig af holdi yðar.

14 En það sé fjarri mér að hrósa mér, nema af krossi drottins vors Jesú Krists, fyrir hvern heimurinn er mér krossfestur og eg heiminum. 15 Því að hvorki er umskurn neitt, né yfirhúð, heldur ný skepna. 16 Og yfir öllum þeim, sem þessari reglu fylgja, sé friður og miskunn, og yfir Ísrael Guðs.

17 Enginn mæði mig héðan í frá, því að eg ber merki Jesú á líkama mínum.

18 Náðin drottins vors Jesú Krists sé með yðar anda, bræður. Amen.