Síðara bréf Páls postula til Korintumanna

1

Páll, postuli Krists Jesú fyrir vilja Guðs, og bróðirinn Tímóteus, til safnaðar Guðs, sem er í Korintuborg, ásamt öllum hinum heilögu, sem eru í gjörvallri Akkeu.

2 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og drotni Jesú Kristi.

3 Lofaður sé Guð og faðir drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar, 4 sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri, svo að vér getum huggað aðra í hvaða þrenging sem er, með þeirri huggun, sem vér sjálfir erum huggaðir með af Guði. 5 Því að eins og þjáningar Krists koma í ríkum mæli yfir oss, þannig kemur og huggun vor í ríkum mæli fyrir Krist. 6 En hvort sem vér sætum þrengingum, þá er það yður til huggunar og hjálpræðis, eða vér hljótum huggun, þá er það yður til þeirrar huggunar, er verkar þolinmæði í sömu þjáningunum, sem vér einnig verðum að líða. 7 Og von vor um yður er staðföst; með því að vér vitum, að eins og þér eruð hlutlakandi í þjáningunum, þannig og í hugguninni. 8 Því að ekki viljum vér, bræður, að yður skuli vera ókunnugt um þrenging þá, sem vér urðum fyrir í Asíu, að vér vorum aðþrengdir langt yfir megin fram, svo að vér jafnvel örvæntum um lífið. 9 Já, vér höfðum sjálfir uppkveðið með sjálfum oss dauðadóminn, til þess að vér ekki skyldum treysta sjálfum oss, heldur Guði, sem uppvekur hina dauðu; 10 hann hefir frelsað oss úr slíkri dauðans hættu og mun frelsa; til hans höfum vér sett von vora, að hann og hér eftir muni frelsa oss, 11 er þér einnig hjálpið til með bæninni fyrir oss; til þess að frá mörgum mönnum verði vor vegna framborið af mörgum þakklætið fyrir náðargjöfina, sem oss er veitt.

12 Því að þetta er hrósun vor, vitnisburður samvizku vorrar, að vér höfum framgengið í heiminum, en sérstaklega hjá yður, í heilagleika og hreinleika Guðs, ekki í holdlegri speki, heldur í náð Guðs. 13 Því að annað skrifum vér yður ekki en það, sem þér annaðhvort lesið eða og eruð komnir að raun um, en eg vona, að þér skulið alt til enda komast að raun um, 14 eins og þér þegar að nokkuru leyti hafið komist að raun um viðvíkjandi oss, að vér erum hrósunarefni yðar, eins og líka þér eruð vort, á degi drottins vors Jesú.

15 Og í þessu trausti var það ásetningur minn að koma fyrst til yðar, til þess að þér skylduð aftur verða náðar aðnjótandi; 16 og að fara um hjá yður alla leið til Makedóníu, og frá Makedóníu að koma aftur til yðar, og láta yður fylgja mér á veg til Júdeu. 17 Hvort hefi eg nú sýnt af mér hverflyndi, er eg tók þennan ásetning? Eða áset eg mér eftir holdinu það sem eg áset mér, — til þess að hjá mér eigi heima bæði já, já, og nei, nei? 18 Svo sannarlega sem Guð er trúr: orð vor til yðar eru ekki já og nei. 19 Því að sonur Guðs, Jesús Kristur, sem á meðal yðar er prédikaður af oss, af mér og Silvanusi og Tímóteusi, varð ekki já og nei, heldur er já orðið í honum. 20 Því að svo mörg sem fyrirheit Guðs eru, í honum er já þeirra; þess vegna er og amen þeirra fyrir hann Guði til dýrðar fyrir oss. 21 En sá, sem heldur oss ásamt yður fast við Krist og smurði oss, er Guð, 22 sem og hefir innsiglað oss og gefið oss pant andans í hjörtu vor.

23 En eg kalla Guð til vitnis fyrir sálu mína, að það er af hlífð við yður, að eg hefi enn þá ekki komið til Korintuborgar. 24 Ekki svo sem vér drotnum yfir trú yðar, heldur erum vér samverkamenn að gleði yðar. Því að í trúnni standið þér.


2

1 En það ásetti eg mér með sjálfum mér, að koma ekki aftur til yðar með hrygð. 2 Því að ef eg hryggi yður, hver er þá sá sem gleður mig, nema sá sem eg gjöri hryggan? 3 Og eg hefi skrifað þetta einmitt til þess að eg skyldi ekki hafa hrygð, er eg kæmi, af þeim sem áttu að gleðja mig, þar sem eg hefi það traust til yðar allra, að gleði mín sé gleði yðar allra. 4 Því að af mikilli þrengingu og hjartans trega skrifaði eg yður með mörgum tárum, ekki til þess að þér skylduð hryggjast, heldur til þess að þér skylduð komast að raun um þann kærleika, sem eg ber til yðar í svo ríkum mæli.

5 En ef nokkur hefir orðið til þess að hryggja, þá hefir hann hrygt ekki mig, heldur að nokkuru leyti, — að eg gjöri ekki enn meira úr því — yður alla. 6 Nægileg er þeim manni refsing sú, sem hann hefir hlotið af flestöllum, 7 svo að þér ættuð nú öllu heldur að fyrirgefa og hugga, til þess að hann sökkvi ekki niður í alt of mikla hrygð. 8 Fyrir því áminni eg yður að láta kærleikann koma fram við hann. 9 Því að í þeim tilgangi hefi eg líka skrifað, til þess að komast að raun um staðfestu yðar, hvort þér væruð hlýðnir í hverju sem vera skal. 10 En hverjum sem þér fyrirgefið nokkuð, honum fyrirgef eg líka, því að einnig það sem eg hefi fyrirgefið, hafi eg fyrirgefið nokkuð, þá hefir það verið vegna yðar fyrir augliti Krists, 11 til þess að vér yrðum ekki vélaðir af Satan, því að ekki er oss ókunnugt um vélráð hans.

12 En er eg kom til Tróas vegna fagnaðarerindis Krists, og mér voru þar opnaðar dyr í drotni, 13 þá hafði eg enga eirð í anda mínum, af því að eg hitti ekki Títus bróður minn, heldur kvaddi eg þá og fór til Makedóníu. 14 En Guði séu þakkir, sem ávalt lætur oss halda sigurför í Kristi og lætur fyrir oss ilm þekkingar sinnar verða augljósan á hverjum stað. 15 Því að vér erum góðilmur Krists fyrir Guði meðal þeirra, er hólpnir verða, og meðal þeirra, er glatast; 16 þeim síðarnefndu ilmur af dauða til dauða, en hinum ilmur af lífi til lífs. Og hver er til þessa hæfur? 17 Því að ekki erum vér eins og hinir mörgu, er okra með Guðs orð, heldur tölum vér eins og af hreinleik, eins og af Guði frammi fyrir augliti Guðs í Kristi.


3

Erum vér nú aftur teknir að mæla fram með sjálfum oss? Eða mundum vér þurfa, eins og sumir, meðmælingabréfa til yðar eða frá yður? 2 Þér eruð vort bréf, ritað í hjörtum vorum, þekt og lesið af öllum mönnum; 3 þér eruð augljósir orðnir sem bréf Krists, sem vér höfum unnið að, ekki skrifað með bleki, heldur með anda lifanda Guðs, ekki á steinspjöld, heldur á holdspjöld, sem hjartanu tilheyra. 4 En þetta traust höfum vér til Guðs fyrir Krist. 5 Ekki svo, að vér af sjálfum oss séum hæfir til að hugsa nokkuð upp eins og af sjálfum oss, heldur er hæfileiki vor frá Guði, 6 honum sem og hefir gjört oss hæfa til að vera þjóna nýs sáttmála, ekki bókstafs, heldur anda; því að bókstafurinn deyðir, en andinn lífgar. 7 En ef þjónusta dauðans, sem letruð var og höggvin á steina, kom fram í dýrð, svo að ekki gátu Ísraels synir horft á ásjónu Móse, vegna ljóma ásýndar hans, sem þó varð að engu, 8 hversu miklu fremur mun þá þjónusta andans koma fram í dýrð? 9 Því að ef þjónusta fyrirdæmingarinnar var dýrðleg, þá er þjónusta réttlætisins enn þá miklu auðugri að dýrð. 10 Því að í þessari grein verður jafnvel hið dýrðlega ekki dýrðlegt, vegna hinnar yfirgnæfandi dýrðar. 11 Því að ef það, sem að engu verður, kom fram með dýrð, þá hlýtur miklu fremur hið varanlega að koma fram í dýrð.

12 Með því að vér nú höfum slíka von, þá komum vér fram með mikilli djörfung, 13 og gjörum ekki eins og Móse, sem setti skýlu fyrir andlit sér, til þess að Ísraels synir skyldu ekki horfa á endalok þess, sem að engu átti að verða. 14 En hugsanir þeirra urðu forhertar, því að alt til þessa dags hvílir sama skýlan yfir upplestri hins gamla sáttmála, því að ekki er það afhjúpað fyrir þeim, að hann verður að engu í Kristi. 15 Já alt til þessa dags hvílir skýla yfir hjörtum þeirra, hvenær sem Móse er lesinn. 16 En hvenær sem þeir snúa sér til drottins, verður skýlan burtu tekin. 17 En drottinn er andi. En þar sem andi drottins er, þar er frelsi. 18 En allir vér, sem með óhjúpuðu andliti skoðum í skuggsjá dýrð drottins, ummyndumst til hinnar sömu myndar, frá dýrð til dýrðar, eins og frá drotni, sem er andi.


4

Með því að vér þess vegna höfum þessa þjónustu á hendi, eins og oss hefir veizt náð til, þá látum vér ekki hugfallast. 2 En vér höfum sagt oss frá leyndum hlutum, sem menn blygðast sín fyrir, framgöngum ekki með fláttskap, né fölsum Guðs orð, heldur mælum vér fram með oss við samvizku hvers manns fyrir Guðs augliti með sannleikans opinberun. 3 En þó svo sé, að fagnaðarerindi vort sé hjúpað skýlu, þá er það skýlu hjúpað hjá þeim sem glatast, 4 þar sem guð þessarar aldar hefir blindað hugsanir hinna vantrúuðu, til þess að ekki skuli skína birta af fagnaðarerindi Krists dýrðar, hans sem er ímynd Guðs. 5 Því að ekki prédikum vér sjálfa oss, heldur Krist Jesúm sem drottin, en sjálfa oss sem þjóna yðar vegna Jesú. 6 Því að Guð, sem sagði: Ljós skal skína fram úr myrkri! hann hefir látið það skína í hjörtum vorum til upplýsingar þekkingarinnar á dýrð Guðs í ásjónu Jesú Krists.

7 En þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss; 8 á allar hliðar erum vér aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki, 9 erum ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, erum feldir, en tortímumst þó ekki, 10 berum ávalt með oss á líkamanum deyðingu Jesú, til þess að einnig líf Jesú verði opinbert í líkama vorum. 11 Því að ávalt erum vér lifandi til dauða framseldir vegna Jesú, til þess að og líf Jesú verði opinbert í dauðlegu holdi voru. 12 Þannig er dauðinn verkandi í oss, en lífið í yður. 13 En með því að vér höfum sama anda trúarinnar, samkvæmt því sem skrifað er: Eg trúði, þess vegna talaði eg, þá trúum vér líka, og þess vegna tölum vér líka, 14 þar eð vér vitum, að hann, sem vakti upp drottin Jesúm, muni einnig uppvekja oss ásamt Jesú, og leiða oss fram ásamt yður. 15 Því að alt er þetta yðar vegna, til þess að náðin, aukin við að ná til sem flestra, láti þakkargjörðina yfirgnæfa, Guði til dýrðar.

16 Fyrir því látum vér ekki hugfallast, en jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, þá endurnýjast dag frá degi vor innri maður. 17 Því að þrenging vor, skammvinn og léttbær, aflar oss mjög yfirgnæfanlegs eilífs dýrðar-þunga, 18 þar sem vér ekki horfum á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega, því að hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft.


5

Því að vér vitum, að þótt vor jarðneska tjaldbúð verði rifin niður, þá höfum vér byggingu frá Guði, hús, sem eigi er með höndum gjört, eilíft á himnum. 2 Þess vegna andvörpum vér einnig, þar sem vér þráum að yfirklæðast húsi voru, því frá himnum, 3 svo sannarlega sem vér og, íklæddir því, munum ekki verða naktir. 4 Því að og verandi í tjaldbúðinni stynjum vér mæddir, af því að vér viljum ekki afklæðast, heldur yfirklæðast, til þess að hið dauðlega uppsvelgist af lífinu. 5 En sá, sem hefir gjört oss færa einmitt til þessa, er Guð, sem hefir gefið oss pant andans. 6 Vér erum því ávalt hughraustir og vitum, að meðan vér eigum heima í líkamanum, erum vér að heiman frá drotni, 7 því að vér framgöngum í trú, en ekki í skoðun; 8 já, vér erum hughraustir og langar öllu fremur til að hverfa burt úr líkamanum og vera heima hjá drotni. 9 Þess vegna kostum vér og kapps um, hvort sem vér erum heima eða að heiman, að vera honum þóknanlegir; 10 því að öllum oss byrjar að birtast fyrir dómstóli Krists, til þess að sérhver fái endurgoldið það sem hann hefir unnið með líkamanum, samkvæmt því sem hann hefir aðhafst, hvort sem það er gott eða ilt.

11 Með því að vér nú þekkjum ótta drottins, leitumst vér við að ávinna menn. En Guði erum vér opinberir orðnir, já, eg vona, að vér séum einnig opinberir orðnir samvizkum yðar. 12 Ekki erum vér enn að mæla fram með sjálfum oss við yður, en vér gefum yður tilefni til að hrósa yður af oss, til þess að þér hafið eitthvað gagnvart þeim, er hrósa sér af hinu ytra, en ekki af hjartanu. 13 Því að hvort sem vér höfum orðið frávita, þá var það vegna Guðs, eða vér erum með sjálfum oss, þá er það vegna yðar; 14 því að kærleiki Krists knýr oss; 15 með því að vér höfum ályktað svo: Einn er dáinn fyrir alla, þá eru þeir allir dánir; og hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn. 16 Þannig metum vér þá héðan í frá engan eftir holdinu; þótt vér og hefðum þekt Krist eftir holdinu, þekkjum vér hann nú ekki framar þannig. 17 Ef þannig einhver er í Kristi, er hann ný skepna; hið gamla varð að engu, sjá, það er orðið nýtt. 18 En alt er frá Guði, sem sætti oss við sig fyrir Krist, og gaf oss þjónustu sáttargjörðarinnar; 19 með því að Guð sætti í Kristi heiminn við sjálfan sig, er hann tilreiknaði þeim ekki yfirtroðslur þeirra, og fól oss á hendur orð sáttargjörðarinnar.

20 Vér erum því erindrekar í Krists stað, eins og það væri Guð, sem áminti fyrir oss. Vér biðjum í Krists stað: Látið sættast við Guð; 21 þann sem þekti ekki synd, gjörði hann að synd vor vegna, til þess að vér skyldum verða réttlæti Guðs í honum.


6

En sem samverkamenn hans áminnum vér einnig, til þess að þér ekki til einskis skulið hafa meðtekið náð Guðs; — 2 því að hann segir: Á hagkvæmri tíð bænheyrði eg þig, og á hjálpræðis degi hjálpaði eg þér. Sjá, nú er mjög hagkvæm tíð, sjá, nú er hjálpræðis dagur. 3 Í engu gefum vér neitt ásteytingarefni, til þess að ekki verði þjónustan fyrir lasti; 4 en í öllu mælum vér fram með sjálfum oss, eins og þjónar Guðs, með miklu þolgæði í þrengingum, í nauðum, í angist, 5 undir höggum, í fangelsi, í upphlaupum, í erfiði, í vökum, í föstum, 6 með grandvarleik, með þekkingu, með langlyndi, með góðvild, með heilögum anda, með falslausum kærleika, 7 með sannleiksorði, með krafti Guðs, með vopnum réttlætisins til sóknar og varnar, 8 í heiðri og vanheiðri, í lasti og lofi, eins og afvegaleiðendur, og þó sannorðir, 9 eins og óþektir, en þó alþektir, eins og deyjandi, og sjá, þó lifum vér, eins og agaðir, og þó ekki deyddir, 10 eins og hryggir, en þó ávalt glaðir, eins og fátækir, en auðgum þó marga, eins og öreigar, en þó eigandi alt.

11 Munnur vor er opinn gagnvart yður, Korintumenn; hjarta vort er rúmgott. 12 Ekki er þröngt um yður hjá oss, en í hjörtum yðar er þröngt. 13 En svo að sama komi á móti, — eg tala eins og við börn mín, — þá látið þér líka verða rúmgott hjá yður.

14 Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum; því að hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? Eða hvaða samfélag hefir ljós við myrkur? 15 Og hver er samhljóðan Krists við Belíal? Eða hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum? 16 Og hvað á musteri Guðs við skurðgoð saman að sælda? Því að vér erum musteri lifanda Guðs, eins og Guð hefir sagt: Eg mun búa hjá þeim og ganga um meðal þeirra, og eg mun vera Guð þeirra og þeir munu vera lýður minn. 17 Þess vegna, farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim, segir drottinn, og snertið ekki neitt óhreint, og eg mun taka yður að mér, 18 og eg mun vera yður faðir, og þér munuð vera mér synir og dætur, segir drottinn alvaldur.


7

1 Þar eð vér því höfum þessi fyrirheit, elskaðir, þá hreinsum sjálfa oss af allri saurgun á holdi og anda, svo að vér fullkomnum heilagleik með guðsótta.

2 Gefið oss rúm; engum höfum vér gjört rangt til, engum spilt, engan ásælst. 3 Eg segi það ekki í áfellisskyni; því að eg hefi áður sagt, að þér eruð í hjörtum vorum, svo að vér deyjum saman og lifum saman. 4 Mikla djörfung hefi eg gagnvart yður, mikillega get eg hrósað mér af yður, eg er fullur af huggun, eg er stórríkur af gleði í allri þrenging vorri.

5 Því var og það, er vér komum til Makedóníu, að hold vort hafði enga ró, heldur vorum vér á alla vegu aðþrengdir, barátta hið ytra, ótti hið innra. 6 En Guð, sem huggar hina beygðu, hann huggaði oss með komu Títusar, 7 já, ekki aðeins með komu hans, heldur og með þeirri huggun, sem hann hafði verið huggaður með hjá yður, er hann skýrði oss frá eftirþrá yðar, gráti yðar, áhuga yðar mín vegna, svo að eg gladdist við það enn frekar. 8 Því að þótt eg hafi hrygt yður með bréfinu, þá iðrast eg þess ekki nú, enda þótt eg hafi iðrast þess; því að eg sé, að þetta bréf hefir hrygt yður, þótt ekki hafi verið nema um stund. 9 Nú er eg glaður, ekki yfir því, að þér urðuð hryggir, heldur yfir því, að þér urðuð hryggir til iðrunar; því að þér urðuð hryggir Guði að skapi, til þess að þér skylduð ekki í neinu bíða tjón af oss. 10 Því að hrygðin Guði að skapi verkar afturhvarf til hjálpræðis, sem engan iðrar, en hrygð heimsins veldur dauða. 11 Því að sjá, einmitt þetta, að þér hrygðust Guði að skapi, hvílíkum áhuga kom það til leiðar hjá yður, já, hvílíkri vörn, hvílíkri gremju, hvílíkum ótta, hvílíkri eftirþrá, hvílíkri vandlæting, hvílíkri refsing! Í öllu hafið þér nú sannað, að þér voruð hreinir í þessu tilliti. 12 Þótt eg því hafi skrifað yður, þá var það ekki vegna hans, sem óréttinn gjörði, ekki heldur vegna hans, sem fyrir óréttinum varð, heldur til þess að áhugi yðar vor vegna mætti koma í ljós hjá yður fyrir augliti Guðs. 13 Þess vegna höfum vér huggun hlotið. En auk huggunar vorrar höfum vér hlotið þá gleði, sem er enn þá miklu meiri, yfir fögnuði Títusar, því að anda hans hefir verið svalað af yður öllum. 14 Því að hafi eg í nokkuru hrósað mér af yður við hann, þá hefi eg ekki þurft að blygðast mín. Já, eins og alt var sannleika samkvæmt, sem vér höfum talað við yður, þannig hefir og hrós vort um yður við Títus reynst sannleikur. 15 Og hjartaþel hans er því innilegra til yðar sem hann minnist hlýðni yðar allra, hversu þér tókuð á móti honum með ugg og ótta. 16 Það gleður mig, að eg get í öllu borið traust til yðar.


8

En svo viljum vér, bræður, skýra yður frá þeirri náð Guðs, sem veitt hefir verið í söfnuðunum í Makedóníu, 2 hversu ríkdómur gleði þeirra og hin djúpa fátækt þeirra hefir í ljós leitt ríkdóm örlætis hjá þeim, þrátt fyrir mikla þrenging, sem þeir hafa orðið að reyna, 3 hversu þeir hafa gjört það eftir megni, — það get eg vottað, — já, fram yfir megn, af eigin hvötum, 4 þar sem þeir lögðu fast að oss og báðu um þá náð, að mega vera í félagi við oss um samskotin til hinna heilögu. 5 Og fram yfir von vora gáfu þeir jafnvel sjálfa sig, fyrst og fremst drotni, og síðan oss, að vilja Guðs, 6 svo að vér höfum beðið Títus um, að hann skuli, eins og hann hefir byrjað, þannig og leiða til lykta hjá yður þessa náð. 7 En eins og þér eruð auðugir í öllu, að trú, og að orði og að þekkingu og í hvers konar áhuga og í elsku yðar til vor, svo skuluð þér og vera auðugir í þessari kærleiksgjöf. 8 Eg segi þetta ekki sem skipun, heldur til þess að prófa einlægni kærleika yðar með áhuga annarra. 9 Því að þér þekkið náð drottins vors Jesú Krists, að hann, þótt ríkur væri, gjörðist yðar vegna fátækur, til þess að þér auðguðust af fátækt hans. 10 Og álit vil eg gefa í þessu máli; því að þetta er yður til gangs, yður sem frá því í fyrra voruð á undan öðrum, ekki að eins í verkinu, heldur og í viljanum. 11 En fullgjörið nú og verkið, til þess að eins og viljinn var fús, svo sé og framkvæmdin eftir efnum. 12 Því að ef viljinn er góður, þá er hver þóknanlegur, eftir því sem hann á til, en ekki eftir því sem hann á ekki til; 13 ekki svo að skilja, að öðrum sé hlíft, en þrengt sé að yður, heldur til þess að jöfnuður verði. Nú sem stendur bætir gnægð yðar úr skorti hinna, 14 til þess að einnig gnægð hinna geti bætt úr skorti yðar, til þess að jöfnuður komist á, 15 eins og skrifað er: Sá sem miklu safnaði, hafði ekki afgangs, og þann skorti ekki, sem litlu safnaði.

16 En þökk sé Guði, sem vakti í hjarta Títusar þennan sama áhuga huga vegna yðar; 17 því reyndar fékk hann áskorun frá mér, en áhugi hans var svo mikill, að hann fór til yðar af eigin hvötum. 18 En með honum sendum vér þann bróður, sem orð fer af í öllum söfnuðunum fyrir starf hans í þjónustu fagnaðarerindisins; 19 og ekki það eitt, heldur er hann og af söfnuðunum kjörinn samferðamaður vor með kærleiksgjöf þessa, sem vér höfum unnið að, til þess að efla dýrð drottins og fúsleika vorn, 20 og höfum vér gjört þessa ráðstöfun, til þess að enginn geti lastað meðferð vora á hinni miklu gjöf, sem vér höfum gengist fyrir. 21 Því að vér ástundum hvað gott er, ekki að eins fyrir drotni, heldur og fyrir mönnum. 22 En með þeim sendum vér annan bróður vorn, sem vér oftsinnis og í mörgu höfum reynt kostgæfinn, en nú miklu kostgæfnari vegna síns mikla trausts til yðar. 23 En hvort sem nú er um Títus að ræða, þá er hann félagi minn og starfsbróðir með tilliti til yðar, eða um bræður vora, þá eru þeir sendiboðar safnaðanna, dýrð Krists. 24 Sýnið því þessum mönnum í augsýn safnaðanna merki elsku yðar og þess, sem vér höfum hrósað yður fyrir.


9

Um hjálpina til hinna heilögu er sem sé óþarft fyrir mig að skrifa yður. 2 Því að eg þekki góðan vilja yðar, sem eg hrósa mér af yðar vegna meðal Makedóna, að Akkea hefir verið reiðubúin síðan í fyrra; og áhugi yðar hefir verið hvöt fyrir fjölda marga. 3 En bræðurna hefi eg sent, til þess að hrós vort um yður skyldi ekki reynast fánýtt í þessu efni, og til þess að þér, eins og eg sagði, mættuð vera viðbúnir, 4 svo að ekki fari svo, að vér, — að vér ekki segjum þér — þurfum að bera kinnroða fyrir þetta traust, ef Makedónar skyldu koma með mér og finna yður óviðbúna. 5 Vér töldum því nauðsynlegt að uppörva bræðurna, til að fara á undan til yðar og undirbúa fyrirfram hina áður lofuðu gjöf yðar, svo að hún mætti vera á reiðum höndum eins og blessun, en hefði ekki nízkublæ á sér.

6 En þetta segi eg: Sá sem sparlega sáir, mun uppskera sparlega, og sá sem sáir með blessunum, mun og með blessunum uppskera. 7 Sérhver gefi eins og hann hefir ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að glaðan gjafara elskar Guð. 8 En Guð er þess megnugur að láta alla náð hlotnast yður ríkulega, til þess að þér í öllu og ávalt hafið alt, sem þér þarfnist, og hafið gnægð til sérhvers góðs verks, 9 eins og ritað er: Hann útbýtti, gaf hinum snauðu, réttlæti hans varir að eilífu. 10 En sá sem gefur sáðmanninum sæði og brauð til fæðu, hann mun og gefa yður sáð og margfalda það og auka ávexti réttlætis yðar, 11 svo að þér verðið í öllu auðugir til hvers konar örlætis, sem fyrir oss kemur til leiðar þakklæti við Guð. 12 Því að starfið að þessari þjónustu bætir ekki aðeins úr skorti hinna heilögu, heldur ber hún og ríkulega ávexti hjá Guði fyrir þakkir margra, 13 þar sem þeir, við það að reyna þessa hjálp, lofa Guð fyrir hlýðni yðar við játningu fagnaðarerindis Krists, og fyrir einlægni yðar í samfélaginu við þá og við alla, 14 um leið og þeir einnig með bæn fyrir yður þrá yður vegna yfirgnæfanlegrar náðar Guðs við yður. 15 Þökk sé Guði fyrir sína óumræðilegu gjöf!


10

En eg, Páll, sjálfur, áminni yður með hógværð og mildi Krists, eg, sem upp í augun er auðmjúkur meðal yðar, en fjarverandi djarfmáll við yður; 2 eg bið þess, að eg þurfi ekki, er eg kem, að vera djarfmáll með þeim myndugleika, sem eg ætla mér að beita gagnvart nokkurum, er álíta um oss, að vér framgöngum eins og eftir holdinu. 3 Því að þótt vér framgöngum í holdinu, þá berjumst vér ekki á holdlegan hátt, — 4 því að vopnin, sem vér berjumst með, eru ekki holdleg, heldur máttug fyrir Guði til að brjóta niður vígi, — 5 þar sem vér brjótum niður hugsmíðar og hæð hverja, er rís gegn þekkingunni á Guði, og hertökum hverja hugsun til hlýðninnar við Krist, 6 og erum þess albúnir að refsa sérhverri óhlýðni, þegar hlýðni yðar er fullkomin orðin. Þér horfið á hið ytra. 7 Ef einhver treystir því með sjálfum sér, að hann sé Krists, þá álykti sá hinn sami með sjálfum sér, að eins og hann er Krists, þannig séum vér það einnig. 8 Því að jafnvel þótt eg vildi hrósa mér í frekara lagi af valdi voru, — sem drottinn hefir gefið til að uppbyggja, en ekki til að niðurbrjóta yður, — þá yrði eg mér ekki til skammar. 9 Til þess að ekki skuli líta svo út sem eg vilji hræða yður með bréfunum, — 10 því að bréfin, segja menn, eru þung og sterk, en líkamleg návist hans veik og ræða hans auðvirðileg — 11 þá hugleiði slíkur maður þetta, að slíkir sem vér erum í orðinu, í bréfunum, fjarlægir, hinir sömu erum vér og í verkinu, nálægir. 12 Því að ekki dirfumst vér að telja oss til þeirra eða bera sjálfa oss saman við suma af þeim, er mæla fram með sjálfum sér; en þegar þeir hinir sömu mæla sig við sjálfa sig og bera sig saman við sjálfa sig, þá eru þeir óskynsamir. 13 En vér viljum ekki hrósa oss takmarkalaust, heldur innan takmarka þeirrar línu, sem Guð hefir úthlutað oss sem takmark: að ná alla leið jafnvel til yðar. 14 Því að vér teygjum oss ekki oflangt fram, rétt eins og ef vér hefðum ekki komist til yðar, — því að vér höfum náð alla leið til yðar með fagnaðarerindi Krists. 15 Ekki stærum vér oss takmarkalaust af erfiði annarra, heldur höfum vér þá von, að eftir því sem trú yðar vex, verðum vér miklir á meðal yðar, já, stórmiklir innan markalínu vorrar, 16 svo að vér getum boðað fagnaðarerindið hinumegin við yður, ekki innan markalínu annarra, til þess að hrósa oss af því, sem þegar er fullkomnað. 17 En sá sem hrósar sér, hann hrósi sér í drotni. 18 Því að fullgildur er ekki sá, er mælir fram með sjálfum sér, heldur sá, er drottinn mælir fram með.


11

Ó að þér vilduð umbera dálitla fávizku hjá mér! Jú, vissulega umberið þér mig. 2 Því að eg er vandlátur, að því er yður snertir, með vandlæti Guðs, því að eg hefi fastnað yður einum manni, til þess að geta leitt fram fyrir Krist hreina mey. 3 En eg er hræddur um, að eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni, svo kunni og hugsanir yðar að spillast og leiðast burt frá einlægninni og hreinleikanum gagnvart Kristi. 4 Því að ef einhver kemur og prédikar annan Jesúm, sem vér ekki höfum prédikað, eða þér fáið annan anda, sem þér hafið ekki fengið, eða annað fagnaðarerindi, sem þér hafið ekki meðtekið, þá umberið þér það mætavel. 5 Eg álít mig þó ekki í neinu standa þessum göfugu postulum að baki. 6 Þótt eg sé ólærður í ræðu minni, er eg það ekki hvað þekkinguna snertir, heldur höfum vér á allan hátt birt yður hana í öllum greinum. 7 Eða drýgði eg synd, er eg lítillækkaði sjálfan mig, til þess að þér mættuð upphafnir verða? Því að ókeypis boðaði eg yður fagnaðarerindi Guðs. 8 Aðra söfnuði rúði eg og tók mála af þeim, til þess að geta þjónað yður; og er eg var hjá yður og leið þröng, varð eg þó ekki neinum til byrði; 9 því að úr skorti mínum bættu bræðurnir, er komu frá Makedóníu. Og í öllu varðveitti eg sjálfan mig frá að verða til þyngsla, og mun varðveita. 10 Svo sannarlega sem sannleiki Krists er í mér, skal þessi hrósun ekki verða rifin frá mér í héruðum Akkeu. 11 Hvers vegna? Er það af því að eg elska yður ekki? Nei, Guð veit það. 12 En það sem eg gjöri, mun eg og gjöra til þess að svifta þá tilefninu, sem leita tilefnis, til þess að þeir megi reynast eins og vér, í því sem þeir stæra sig af. 13 Því að slíkir menn eru falspostular, svikulir verkamenn, er taka á sig mynd postula Krists. 14 Og ekki er það undur, því að Satan sjálfur breytir sér í ljóss-engil. 15 Það er því ekki mikið, þótt og þjónar hans breyti sér í réttlætis-þjóna. Afdrif þeirra munu verða samkvæmt verkum þeirra.

16 Enn segi eg: Ekki álíti neinn mig fávísan. En þó svo væri, þá meðtakið mig samt sem fávísan, til þess að eg geti líka hrósað mér dálítið. 17 Það sem eg tala nú, tala eg ekki í drottins orða stað, heldur eins og í heimsku, í þessu trausti sjálfshólsins. 18 Með því að margir hrósa sér eftir holdinu, vil eg einnig hrósa mér svo, 19 því að fúslega umberið þér hina fávísu, svo vitrir sem þér eruð; 20 því að þér umberið það, þótt einhver hneppi yður í ánauð, þótt einhver uppeti yður, þótt einhver hremmi yður, þótt einhver upphefji sig, þótt einhver slái yður í andlitið. 21 Eg segi þetta mér til minkunar, með því að vér líka höfum verið veikir; en þar sem aðrir láta drýgindalega — eg tala fávíslega, — þar gjöri eg það líka. 22 Eru þeir Hebrear? Eg líka. Eru þeir Ísraelítar? Eg líka. Eru þeir Abrahams sæði? Eg líka. 23 Eru þeir þjónar Krists? — Vitfirringslega mæli eg! — Eg er meira. Vegna meiri erfiðleika, vegna tíðari fangelsa, vegna hagga fram úr hófi, vegna dauðahættu oftsinnis; 24 af Gyðingum hefi eg fimm sinnum fengið fjörutíu fátt í einu; 25 þrisvar verið húðstrýktur, einu sinni verið grýttur, þrisvar liðið skipbrot, verið sólarhring í sjó, — 26 vegna sífeldra ferðalaga, vegna háskasemda í vatnsföllum, vegna háskasemda af völdum ræningja, vegna háskasemda af völdum samlanda, vegna háskasemda af völdum heiðingja, vegna háskasemda í borgum, vegna háskasemda í óbygðum, vegna háskasemda á sjó, vegna háskasemda meðal falsbræðra, 27 vegna erfiðis og fyrirhafnar, vegna sífeldrar næturvöku, vegna hungurs og þorsta, vegna iðulegra föstuhalda, vegna kulda og klæðleysis. 28 Og ofan á alt annað, sem fyrir kemur, hið daglega ónæði, áhyggjan fyrir öllum söfnuðunum. 29 Hver er sjúkur, að eg sé ekki sjúkur? Hver hneykslast, að eg brenni ekki? 30 Ef eg á að hrósa mér, vil eg hrósa mér af veikleika mínum. 31 Guð og faðir drottins Jesú, hann, sem blessaður er að eilífu, veit að eg lýg ekki. 32 Í Damaskus setti landshöfðingi Areta konungs vörð um borg Damaskusmanna, til þess að handtaka mig; 33 en gegnum glugga var eg látinn síga út fyrir múrinn í körfu og slapp þannig úr höndum hans.


12

Hrósa mér verð eg, þótt gagnlegt sé það ekki; en eg mun nú snúa mér að vitrunum og opinberunum drottins. 2 Eg veit mann í Kristi, sem fyrir fjórtán árum, — hvort það var í líkamanum, það veit eg ekki, eða utan líkamans, það veit eg ekki, Guð veit það — að sá maður var uppnuminn alt til þriðja himins. 3 Og eg veit um þennan mann, — hvort það var í líkamanum eða án líkamans, það veit eg ekki, Guð veit það — 4 að hann var uppnuminn í Paradís og heyrði ósegjanleg orð, sem engum manni er leyft að mæla. 5 Af slíku vil eg hrósa mér; en af sjálfum mér vil eg ekki hrósa mér, nema þá af veikleika mínum. 6 Því að þótt eg vildi hrósa mér, væri eg ekki frávita, því að eg mundi segja sannleika. En eg hlífist við því, að ekki skuli neinn hugsa um mig fram yfir það, sem hann sér hjá mér eða heyrir til mín. 7 Og til þess að eg skuli ekki hrokast upp af hinum miklu opinberunum, er mér gefinn fleinn í holdið, Satans engill, til þess að slá mig, til þess að eg skuli ekki hrokast upp. 8 Viðvíkjandi honum hefi eg þrisvar beðið drottin, að hann færi frá mér. 9 Og hann hefir svarað mér: Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika. Því vil eg mjög gjarnan þess framar hrósa mér af veikleika mínum, til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað hjá mér. 10 Þess vegna uni eg mér vel í veikleika, í misþyrmingum, í nauðum, í ofsóknum, í þrengingum vegna Krists, því að þegar eg er veikur, þá er eg máttugur.

11 Eg hefi gjörst frávita. Þér hafið neytt mig til þess; því að eg átti heimtingu á að hljóta meðmæli af yður. Því að í engu stóð eg þessum göfugu postulum að baki, enda þótt eg sé ekki neitt. 12 Poslulajarteinir voru gjörðar á meðal yðar í allri þolinmæði, bæði með táknum og undrum og kraftaverkum. 13 Því að í hverju voruð þér settir lægra en hinir söfnuðurnir, nema ef vera skyldi í því, að eg sjálfur hefi ekki verið yður til byrði? Fyrirgefið mér þennan órétt!

14 Sjá, þetta er nú í þriðja sinn að eg er ferðbúinn að koma til yðar, og mun eg ekki verða yður til byrði. Því að eg leita ekki þess sem yðar er, heldur yðar sjálfra. Því að ekki eiga börnin að safna fé handa foreldrunum, heldur foreldrarnir handa börnunum. 15 En eg vil mjög gjarnan leggja í sölurnar, já, leggja sjálfan mig í sölurnar fyrir sálir yðar. Ef eg elska yður innilegar, verð eg þá elskaður minna? 16 En látum svo vera, að eg hafi ekki verið yður til byrði, en hafi verið slægur og veitt yður með brögðum! 17 Hefi eg notað nokkurn þeirra, sem eg hefi sent til yðar, til þess að hafa hag af yður? 18 Eg hvatti Títus og sendi bróðurinn með honum. Hefir þá Títus haft hag af yður? Framgengum við ekki í einum og sama anda? Fetuðum við ekki í sömu fótsporin?

19 Fyrir löngu eruð þér farnir að halda, að vér séum að verja oss gagnvart yður. Nei, fyrir augliti Guðs í Kristi tölum vér. En alt, mínir elskuðu, yður til uppbyggingar. 20 Því að eg er hræddur um, að mér muni, ef til vill, er eg kem, þykja þér öðruvísi en eg óska, og að yður muni þykja eg öðruvísi en þér óskið; að á meðal yðar kunni að vera deilur, öfund, reiði, flokkadrættir, bakmælgi, rógburður, hroki, óeirðir; 21 að Guð minn muni yðar vegna auðmýkja mig, er eg kem aftur, og að eg muni hryggjast yfir mörgum þeirra, er áður hafa syndgað og ekki hafa iðrast saurlífisins, frillulífisins og ólifnaðarins, sem þeir drýgðu.


13

Þetta er nú í þriðja sinn sem eg kem til yðar. Af munni tveggja eða þriggja votta skal sérhvert mál staðfest verða. 2 Eg hefi sagt það fyrir og segi það fyrir, eins og þá er eg var nærstaddur í annað sinn, þannig einnig nú fjarstaddur, til þeirra sem áður hafa syndgað, og til allra hinna annarra, að næsta sinn sem eg kem, mun eg ekki hlífa þeim, 3 með því að þér krefjist sönnunar af Kristi, sem talar í mér, honum, sem ekki er veikur gagnvart yður, heldur er máttugur á meðal yðar. 4 Því að reyndar var hann krossfestur í veikleika, en hann lifir fyrir Guðs kraft. Og einnig vér erum veikir í honum, en munum þó lifa með honum fyrir Guðs kraft, yður til heilla. 5 Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni, prófið yður sjálfa. Eða þekkið þér ekki sjálfa yður, að Jesús Kristur er í yður? Það skyldi vera, að þér stæðust ekki prófið. 6 En eg vona, að þér komist að raun um, að vér erum ekki þeir, sem ekki standast prófið. 7 En vér biðjum til Guðs, að þér gjörið ekki neitt ilt, ekki til þess að vér skulum koma fullreyndir í ljós, heldur til þess að þér gjörið hið góða, en vér séum eins og þeir, sem ekki standast prófið. 8 Því að ekki megnum vér neitt gegn sannleikanum, heldur fyrir sannleikann. 9 Því að vér gleðjumst þegar vér erum veikir, en þér eruð styrkir. Það sem vér biðjum um, er fullkomnun yðar. 10 Þess vegna rita eg þetta fjarverandi, til þess að eg nálægur þurfi ekki að beita hörku, samkvæmt því valdi, sem drottinn hefir gefið mér til uppbyggingar, en ekki til niðurbrots.

11 Að öðru leyti, bræður, verið glaðir. Verið fullkomnir, áminnið hver annan, verið samhuga, verið friðsamir. Þá mun Guð kærleikans og friðarins vera með yður. 12 Heilsið hver öðrum með heilögum kossi.

Allir hinir heilögu heilsa yður.

13 Náðin drottins Jesú Krists og kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum.