Ást er þjófnaður er safn stuttra ritgerða um höfundarétt og bókaþjófnað eftir Eirík Örn Norðdahl.
Í sjálfu sér er það ekki flóknara.
Ég byrjaði að skrifa þessa bók þann 11. apríl, 2011. Þegar ég skrifaði fyrstu þrjá kaflana taldi ég mig vera að blogga (og líklega var það alveg rétt hjá mér). Einhvers staðar í fjórða kafla áttaði ég mig á því að þetta væri bók (það var líka rétt). Þegar ég lauk við fimmta kafla hafði ég ákveðið að bókin skyldi koma út ekki síðar en 11. maí – mánuði eftir að ég skrifaði fyrsta kafla (þegar þessi orð eru rituð veit ég ekki hvort það hefst, en jú það skal nú hafast).
Þetta var ekki ætlunin. Að skrifa bók. En ég hafði nýlokið við lykilkafla í skáldsögu sem enginn veit hvenær mun klárast og þarfnaðist þess að hleypa inn lofti, snúa mér að einhverju öðru. Ég hætti að skrifa skömmu fyrir mánaðamót og sneri mér að umbroti og frágangi, bað Jón Örn Loðmfjörð að gera kápu fyrir mig og hvarf aftur ofan í skáldsöguna mína yfir daginn.
Þessi bók er hálft í hvoru tilraun í viðbragði – ekki bara heillast ég sjálfur af snöggum viðbrögðum, snaggaralegum hreyfingum í hugsun og gjörðum, heldur tel ég slíkt beinlínis samfélaginu nauðsynlegt (jafn nauðsynlegt og yfirveguð verk, íhuguð, kláruð – þessi bók er bara frágengin). Að hugdetta geti orðið að bók á einum mánuði – og að bókin sé í einhverjum skilningi alvöru (þótt margar bækur séu meira „alvöru“ er þessi samt „líka alvöru“). En hraðinn er ekki ókeypis – bókin er til dæmis óprófarkalesin (eða skrifar maður óprófarkarlesin?).
Hún er líka tilraun til sjálfsútgáfu á netinu. Athugun á því hvort hægt sé að fá greitt án þess að þvinga fólk til þess að greiða – einfaldlega með því að breyta heimasíðu í búðarborð.
Hér stend ég sem sagt á bakvið búðarborðið og kalla: Bók til sölu!
Þú veist að þú mátt ekki bara taka bókina. Í einhverjum skilningi geturðu skoðað hana í búðinni (þrír af hverjum fjórum köflum, ríflega, birtust upphaflega á blogginu). Og þú getur auðvitað hrifsað hana með þér og hlaupið út. Ég ætla ekki að elta þig. Gæti það ekki þótt ég vildi.
Þú getur líka sent mér tölvupóst og sagt: Hæ, ég er blankur/blönk má ég næla mér í eintak – ég skal bjóða þér upp á bjór næst þegar við sjáumst og ég á pening? (Ekki samt gera það nema það sé satt – ég segi alveg já, ef þú spyrð, en ég er líka blankur og vantar meira að geta keypt í matinn, einsog mér finnst annars bjór fínn).
Þú getur sagt: Má ég fá kynningareintak? Ég ætla að skrifa um hana. Og smellt á hlekkinn. Og skrifað um hana.
Þú getur stungið upp á vöruskiptum.
Og svo geturðu borgað (5 til 15 evrur, eftir hentugleikum) fyrir rafbókina eða farið inn á Lulu og pantað þér bókina í fallegu vasabroti. Það væri auðvitað langt best fyrir mig. Ef ég á að segja alveg einsog er.
Hér er hægt að greiða (fyrir rafbókina eingöngu):
Auk þess er hægt að panta „bókina“ – 156 síður í fallegu vasabroti, raunverulegum síðum úr raunverulegum pappír úr raunverulegum trjám – á lulu.com fyrir 17 evrur og sendingarkostnað.
Frekari upplýsingar um bókina fást hér.
Bylti lyftingin.
Ykkar, að sjálfsögðu:
Eiríkur