Allar bækur af Rafbókavefnum (19. apríl 2012)

Þann 30. janúar 2014 var búinn til nýr pakki með fleiri bókum.

Eftir hvatningu frá notendum Rafbókavefsins hef ég tekið allar rafbækurnar saman og látið í eina þjappaða ZIP skrá. Safnið í þessari skrá er ætlað fyrir Calibre rafbókaumsjónarforritið en það þarf þó ekki að hafa forritið uppsett (mæli þó sterklega með því). Allar bækurnar eru í bæði Epub og Mobipocket (Kindle) formi sem ætti að tryggja að allir geti lesið þær.

Þeir sem kjósa frekar torrent niðurhal (og vilja þannig létta álaginu af vefþjóninum) geta náð í þennan pakka á The Pirate Bay.

Rafbókavefurinn og Android

Ég var að prufa Rafbókavefinn í Android síma og þegar ég smellti á niðurhalshlekkina þá fékk ég bara ruglkóða – vafrinn reyndi einfaldlega að opna skjalið sjálfur.

Ég hafði áður sett inn rafbókalesforrit (app) sem heitir Aldiko og vandinn var að öllum líkindum tengdur því forriti. Ég fann meðmæli með forriti sem heitir FBReader og viti menn – allt fór að virka þegar ég setti það inn. Þegar ég smelli núna á hlekkinn fyrir niðurhal kemur upp valgluggi um hvort ég vilji opna rafbókina í FBReader eða vafranum sjálfum. Þá er rétt að velja FBReader. Forritið getur opnað bæði Kindle og Epub skjöl. Það er líka ókeypis.

Ef þið lendið í vanda með eitthvað á vefnum þá skulið þið ekki hika við að setja inn athugasemd eða spurningu og ég reyni að svara sem allra fyrst. Stefnan er að vefurinn virki í öllum tækjum. Ef þið eruð til dæmis með nettengdan Kindle til dæmis þá á hann að geta hlaðið inn skjölunum beint af vefnum.

Leiðbeiningar um hvað? Spurt um hvað?

Nú þegar ritstjóri hefur lokið öðrum verkefnum þá fer hann vonandi að vinna meira við þennan vef. En ég þarf líka aðstoð.

Mig langar að láta inn leiðbeiningar fyrir fleiri tæki en þau sem ég hef sjálfur til umráða. Ef þið eigið rafbókalesara (aðra en Kindle Keyboard og Kindle (þessi sem er ekki með snertiskjá)) eða spjaldtölvur þá megið þið endilega senda mér leiðbeiningar fyrir þau tæki. Netfangið er ritstjori@rafbokavefur.is.

Ég vil líka svara öllum spurningum sem þið kunnið að hafa um vefinn og því hvet ég ykkur til að setja spurningar hér í athugasemdir. Þið megið líka senda þær á netfangið hér að ofan.