Andlegt sjálfstæði er fyndin og fræðandi bók með greinum eftir tvo merka trúargagnrýnendur sögunnar.
Robert G. Ingersoll (1833-1899) var á sínum tíma einhver þekktasti mælskumaður Bandaríkjanna. Það hefði án efa getað fleygt honum langt í stjórnmálum ef hann hefði ekki notað hæfileika sína til að fjalla um viðhorf sitt til trúarbragða og þá sérstaklega kristni eins og hún birtist í samtíma hans. Orðspor Ingersoll náði fljótt til Íslands og þegar hann lést var hann titlaður „vantrúarpostuli“ á forsíðu tímaritsins Þjóðólfs.
Pjetur G. Guðmundsson (1879-1947) er kunnur fyrir að hafa markað djúp spor í íslenska verkalýðsbaráttu. Því miður hefur framlag hans til trúargagnrýni á íslenskri tungu verið minna þekkt. Árin 1927 og 1931 gaf hann út þýðingar sínar á fjórum erindum Ingersoll undir titlinum Andlegt sjálfstæði. Þær þýðingar hafa, eins og gefur að skilja, verið illfáanlegar í langan tíma. Nokkru seinna, árið 1936, flutti hann síðan útvarpserindið Trú og trúleysi sem síðar var gefið út. Þessum útgáfum Pjeturs hefur nú verið safnað saman í þessa bók ásamt tveimur styttri þýðingum af skrifum Ingersoll.
„Það gefur að skilja, að sumt í þessum ritum sé orðið úrelt. Skoðanir manna á þeim efnum hafa mikið breyst á þessum tíma. Margt af því, sem áður var tekið sem gildur og góður sannleikur almennt, og Ingersoll og Pjetur ráðast harðast á, er nú skoðað í öðru ljósi, bæði af almenningi og kennimönnum kirkjunnar mörgum. Ei að síður er margt í ritunum, sem enn á erindi til almennings og er sígildur sannleikur. Siðbótarstarfi kirkjunnar miðar hægt áfram. Og það er ástæða til að ætla, að því miðaði ekkert, ef ekki væru þar að verki siðbótarmenn, sem standa fyrir utan og ofan kirkjuna, eins og Pjetur G. Guðmundsson og Robert G. Ingersoll.“
Ritstjóri bókarinnar er Óli Gneisti Sóleyjarson, þjóðfræðingur, sem einnig ritar inngang.
Andlegt sjálfstæði er fyrsta bókin í ritröðinni Sígild trúargagnrýni frá Raun ber vitni.