1
Símon Pétur, þjónn og postuli Jesú Krists, til þeirra, sem hlotið hafa jafndýrmæta trú og vér fyrir réttlæti Guðs vors og frelsara Jesú Krists; 2 náð og friður margfaldist yður til handa með þekkingu á Guði og Jesú drotni vorum. 3 Þar eð hans guðdómlegi máttur hefir veitt oss alt, sem heyrir til lífs og guðrækni með þekkingunni á þeim, sem kallaði oss með sinni eigin dýrð og dáð, 4 og með því hefir hann veitt oss hin dýrmætu og stórmiklu fyrirheit, til þess að þér fyrir þau skylduð verða hluttakandi í guðlegu eðli, er þér hafið komist undan girndaspillingunni, sem er í heiminum, 5 þá leggið einmitt þessa vegna alla stund á þetta, og auðsýnið í trú yðar dygðina, en í dygðinni þekkinguna, 6 en í þekkingunni bindindið, en í bindindinu þolgæðið, en í þolgæðinu guðræknina, 7 en í guðrækninni bróðurelskuna, en í bróðurelskunni kærleikann. 8 Því að ef þessir hlutir eru hjá yður og fara vaxandi, munu þeir ekki láta yður vera iðjulausa né ávaxtarlausa í þekkingu drottins vors Jesú Krists; 9 því að sá, sem ekki hefir þessa hluti, er blindur í skammsýni sinni, er hann hefir gleymt hreinsun hinna fyrri synda sinna. 10 Kostið þess vegna því fremur kapps um, bræður, að gjöra köllun yðar og útvalningu vissa; því ef þér gjörið þetta, munuð þér ekki nokkuru sinni hrasa; 11 því að á þann hátt mun yður ríkulega veitast inngangur í hið eilífa ríki drottins vors og frelsara Jesú Krists. Halda áfram að lesa →