Rafbókavefurinn og Android

Ég var að prufa Rafbókavefinn í Android síma og þegar ég smellti á niðurhalshlekkina þá fékk ég bara ruglkóða – vafrinn reyndi einfaldlega að opna skjalið sjálfur.

Ég hafði áður sett inn rafbókalesforrit (app) sem heitir Aldiko og vandinn var að öllum líkindum tengdur því forriti. Ég fann meðmæli með forriti sem heitir FBReader og viti menn – allt fór að virka þegar ég setti það inn. Þegar ég smelli núna á hlekkinn fyrir niðurhal kemur upp valgluggi um hvort ég vilji opna rafbókina í FBReader eða vafranum sjálfum. Þá er rétt að velja FBReader. Forritið getur opnað bæði Kindle og Epub skjöl. Það er líka ókeypis.

Ef þið lendið í vanda með eitthvað á vefnum þá skulið þið ekki hika við að setja inn athugasemd eða spurningu og ég reyni að svara sem allra fyrst. Stefnan er að vefurinn virki í öllum tækjum. Ef þið eruð til dæmis með nettengdan Kindle til dæmis þá á hann að geta hlaðið inn skjölunum beint af vefnum.

Leiðbeiningar um hvað? Spurt um hvað?

Nú þegar ritstjóri hefur lokið öðrum verkefnum þá fer hann vonandi að vinna meira við þennan vef. En ég þarf líka aðstoð.

Mig langar að láta inn leiðbeiningar fyrir fleiri tæki en þau sem ég hef sjálfur til umráða. Ef þið eigið rafbókalesara (aðra en Kindle Keyboard og Kindle (þessi sem er ekki með snertiskjá)) eða spjaldtölvur þá megið þið endilega senda mér leiðbeiningar fyrir þau tæki. Netfangið er ritstjori@rafbokavefur.is.

Ég vil líka svara öllum spurningum sem þið kunnið að hafa um vefinn og því hvet ég ykkur til að setja spurningar hér í athugasemdir. Þið megið líka senda þær á netfangið hér að ofan.

Brynjólfur biskup Sveinsson / Torfhildur Hólm

Skáldsaga þessi eftir Torfhildi Þ . Hólm er löngu áður útgefin, og sú útgáfa uppseld nú og ófáanleg. Var því vel gjört að gefa hana út að nýju. Fyrir sögu þessa hlaut frú Torfhildur maklegt hrós, og varð sagan einkar kær íslenzkum almenningi þótt ávalt geti verið deildar meiningar um það, hvort ýmsum persónum sögunnar sé með öllu rétt lýst, svo sem hinum lærða og mikilláta biskupi, Brynjólfi, Daða Halldórssyni, Ólafi Gíslasyni o.fl., þá er það engum vafabundið, að sagan á skilið þá vinsæld, sem hún hefir hlotið hjá íslendingum,og að hún geymir minningu höfundarins um langan aldur, eftir að sumt annað er gleymt, er nú er samið og dýrara er kveðið. (Heimskringla, 31. des. 1913, 4. bls, 14. tbl, 28.árg.)

Epub / Kindle

Halda áfram að lesa

Vopnfirðinga saga

Vopnfirðinga saga

„Vopnfirðinga saga (Vápnfirðinga saga í forníslensku) er Íslendingasaga. Þar segir frá miklum deilum mága og frænda í Vopnafirði á söguöld.

Kindle / Epub

Í upphafi sögunnar er Brodd-Helgi Þorgilsson kynntur til sögunnar og sagt frá því að Þorsteinn afi hans, sem frá segir í Þorsteins sögu hvíta, ól hann upp eftir að Þorgils faðir hans var veginn. Móðir Helga var Áslaug (Ólöf) Þórisdóttir Graut-Atlasonar. Þorsteinn keypti land í Vopnafirði af Steinbirni Refssyni landnámsmanni og bjó á Hofi. Samkvæmt sögunni hlaut Helgi viðurnefni sitt af því að þegar hann var ungur að árum kom hann þar að sem naut heimilisins stangaðist á við aðkomunaut og veitti verr. Tók Helgi þá mannbrodd og batt á enni heimanautsins, sem veitti betur eftir það, en af þessum broddi fékk hann nafnið.

Vinur Helga var Geitir Lýtingsson frá Krossavík ytri. Bróðir hans hét Blængur og systir þeirra var Halla, sem varð kona Helga. Greinir sagan svo frá deilum sem upp komu milli þeirra Helga og Geitis og stigmögnuðust uns báðir lágu í valnum, en í sögulok sættast synir þeirra, Þorkell Geitisson og Víga-Bjarni Brodd-Helgason. Annar sonur Helga, Sörli, kemur við Ljósvetninga sögu og varð tengdasonur Guðmundar ríka á Möðruvöllum í Eyjafirði.“#